Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1509, 132. löggjafarþing 793. mál: tekjuskattur (gengishagnaður).
Lög nr. 48 14. júní 2006.

Lög um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er orðast svo:
     Frá tekjuskattsstofni skv. 2. tölul. og b-lið 3. tölul. 61. gr. vegna rekstrarársins 2005 er heimilt að draga fjárhæð gengishagnaðar umfram gengistap af hvers konar eignum og skuldum í erlendum verðmæli, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 49. gr., sem nemur allt að þeirri fjárhæð sem tekjuskattur hefði reiknast af á árinu 2006 vegna rekstrarársins 2005 og dreifa þeirri fjárhæð jafnt til skattlagningar á rekstrarárin 2006, 2007 og 2008.
     Frestun tekjufærslu skv. 1. mgr. kemur því aðeins til greina að yfirfæranlegt tap hafi verið jafnað að fullu og að eigi hafi verið nýttar hlutfallslega lægri fyrningar skv. 37. gr. og niðurfærslur skv. 3. og 4. tölul. 31. gr. á rekstrarárinu 2005 en rekstrarárið 2004.
     Félag sem tekur þátt í samsköttun skv. 55. gr. getur því aðeins frestað tekjufærslu skv. 1. mgr. að samnýtanlegt rekstrartap samsköttunarfélaganna hafi verið jafnað.
     Heimild til frestunar tekjufærslu skv. 1. mgr. tekur ekki til fjármálafyrirtækja sem stunda starfsemi sem fellur undir 2. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við álagningu á árunum 2006, 2007, 2008 og 2009 á tekjur rekstraráranna 2005, 2006, 2007 og 2008.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.