Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1515, 132. löggjafarþing 668. mál: landmælingar og grunnkortagerð (heildarlög).
Lög nr. 103 14. júní 2006.

Lög um landmælingar og grunnkortagerð.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að tryggja að ávallt séu til staðfræðilegar og landfræðilegar grunnupplýsingar um Ísland.

2. gr.

Skilgreiningar.
     Í lögum þessum er merking eftirtalinna orða og orðasambanda sem hér segir:       Grunnkort: Staðfræðileg kortagögn sem notuð eru sem undirlag fyrir þau þemagögn sem unnið er með hverju sinni, svo sem upplýsingar um gróður, skipulag eða jarðfræði. Grunnkort eru í flestum tilfellum stafræn gögn sem hægt er að nota í landfræðilegum upplýsingakerfum. Grunnkort má einnig nota til að vinna afleidd kort til útgáfu, t.d. ferðakort og göngukort.
      Hæðarkerfi: Net eða kerfi fastra hæðarmælipunkta, t.d. málmbolta, á yfirborði jarðar.
      Landfræðileg gagnasöfn: Söfn landupplýsinga sem yfirleitt eru geymd flokkuð á tölvutæku formi og hægt er að setja fram með margs konar hætti á korti. Gögn eða upplýsingar í landfræðilegum gagnasöfnum eru flokkaðar eftir gerð í mismunandi þekjur.
      Landshnitakerfi: Hnitakerfi með viðmiðun sem nær til alls landsins og samanstendur af mælistöðvum á yfirborði jarðar, t.d. málmboltum.
      Landupplýsingar: Hvers kyns hnitsettar upplýsingar um fyrirbæri í umhverfinu, bæði náttúruleg og manngerð.
      Viðmiðun: Kennistærðir sem lýsa legu, stefnu og kvarða landshnitakerfisins á jörðinni.
      Þekja: Ákveðin gerð eða flokkur landupplýsinga sem mynda eina heild í landfræðilegu gagnasafni, t.d. vegaþekja eða vatnafarsþekja.
      Örnefni: Nafn, orð eða orðasamband, á landfræðilegum punkti, línu eða svæði sem hægt er að setja á landakort og vísar til eins ákveðins staðar innan ákveðins samfélags; lands, héraðs, sveitabæjar, þéttbýlisstaðar, húss, götu, torgs, vegar, fjalls, dals, stöðuvatns, fjarðar, hafsvæðis, skers, miðs o.s.frv.


3. gr.

Landmælingar Íslands.
     Landmælingar Íslands eru ríkisstofnun undir yfirstjórn umhverfisráðherra. Aðsetur Landmælinga Íslands er á Akranesi. Hlutverk stofnunarinnar er að vinna að verkefnum sem tilgreind eru í 4. gr.
     Ráðherra skipar forstjóra Landmælinga Íslands til fimm ára í senn. Forstjóri skal hafa háskólamenntun og reynslu af stjórnun.
     Forstjóri fer með stjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri hennar. Forstjóri ræður starfsmenn stofnunarinnar.

4. gr.

Verkefni Landmælinga Íslands.
     Verkefni Landmælinga Íslands samkvæmt lögum þessum eru:
  1. Að vera umhverfisráðuneytinu til ráðuneytis á fagsviðum sem stofnunin starfar á samkvæmt lögum þessum og varðandi stefnumótun á sviði landmælinga og opinberrar grunnkortagerðar.
  2. Uppbygging og viðhald viðmiðana og aðgengilegs landshnitakerfis og hæðarkerfis fyrir allt Ísland.
  3. Að hafa frumkvæði að gerð og notkun staðla á sviði landupplýsinga.
  4. Gerð, viðhald og miðlun á eftirtöldum stafrænum þekjum í mælikvarðanum 1:50.000 og miðlun þeirra í minni mælikvarða:
    1. Vatnafar.
    2. Yfirborð.
    3. Vegir og samgöngur.
    4. Örnefni, í samráði við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    5. Stjórnsýslumörk.
    6. Mannvirki.
    7. Hæðarlínur og hæðarpunktar.
  5. Að veita aðgang að gögnum sem stofnunin varðveitir í gagnasöfnum sínum, sbr. 6. gr.
  6. Skráning og miðlun upplýsinga um landfræðileg gagnasöfn af Íslandi.
  7. Að eiga faglegt samstarf við háskóla, stofnanir, fyrirtæki og alþjóðleg samtök í samræmi við verkefni stofnunarinnar.


5. gr.

Höfundaréttur.
     Ríkið er eigandi að öllum réttindum sem Landmælingar Íslands hafa öðlast.
     Stofnunin gætir hagsmuna ríkisins á sviði höfunda- og afnotaréttar á öllu því efni sem hún hefur eignast, unnið eða gefið út í sambandi við mælingar, kort eða myndir af Íslandi. Um höfundarétt gilda að öðru leyti höfundalög, nr. 73/1972, með síðari breytingum.

6. gr.

Miðlun upplýsinga og afnotaréttur.
     Landmælingar Íslands miðla upplýsingum og veita aðgang að gögnum sem eru í vörslu stofnunarinnar við gildistöku laga þessara auk þeirra gagna sem falla undir 2., 4. og 6. tölul. 4. gr., enda brjóti afhending þeirra ekki gegn lögvernduðum rétti þriðja aðila. Ef um er að ræða frumgögn sem eiga uppruna utan stofnunar skal samið um frekari dreifingu við upprunaaðila.
     Heimilt er að veita afnotarétt af öllum upplýsingum á sviði landmælinga og kortagerðar sem getið er í 1. mgr. og eru í vörslu Landmælinga Íslands að því tilskildu að uppruna sé getið og að áreiðanleiki upplýsinga sé tryggður.

7. gr.

Fjármögnun.
     Kostnaður við starfrækslu Landmælinga Íslands greiðist af fjárveitingum úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum. Landmælingar Íslands afla sér enn fremur tekna á eftirfarandi hátt:
  1. Með sölu á afnotum af efni í vörslu stofnunarinnar og framleiðslu sem nýtur höfundaréttar ríkisins, sbr. 5. og 6. gr.
  2. Með sölu á sérhæfðri þjónustu við vinnslu og afgreiðslu gagna sem eru í vörslu stofnunarinnar við gildistöku laga þessara auk þeirra gagna sem falla undir 4. tölul. 4. gr.
  3. Með þjónustugjöldum fyrir afgreiðslu gagna, svo sem ljósritun eða aðra afritun, fjölföldun og dreifingu.

     Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir og skal birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna þannig að mætt sé öllum þeim kostnaði sem af því hlýst.

8. gr.

     Skylt er að heimila þá för um landareign og uppsetningu mælingapunkta sem nauðsynleg getur talist við framkvæmd laga þessara. Ber að sýna landeiganda tillitssemi og valda ekki ónæði að þarflausu.

9. gr.

     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara.

10. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 95/1997, um landmælingar og kortagerð, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Fyrir 1. janúar 2007 skal bjóða út lager prentaðra korta og geisladiska Landmælinga Íslands og réttindi honum tengd. Þó skal ekki bjóða út réttindi til korta og tengds hugbúnaðar sem upprunnin eru hjá öðrum aðilum en Landmælingum Íslands nema með leyfi rétthafa.

Samþykkt á Alþingi 3. júní 2006.