Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 296. máls.

Þskj. 309  —  296. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996 .

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)
1. gr.

    1. mgr. 3. gr. laganna hljóðar svo:
    Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.

2. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna hljóðar svo:
    Sá sem fer fram á aðgang að gögnum skal tilgreina þau gögn máls sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða.

3. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og hljóðar svo:
    Þegar veittur er aðgangur að gögnum, sem þriðji maður á lögvarin réttindi yfir samkvæmt höfundalögum, skal veita upplýsingar um nafn rétthafa, liggi þær fyrir.

4. gr.

    12. gr. laganna hljóðar svo:

Ljósrit eða afrit af gögnum.

    Stjórnvöld taka ákvörðun um hvort gögn, sem heimilt er að veita aðgang að, skuli sýnd eða veitt af þeim ljósrit eða afrit.
    Eftir því sem við verður komið er stjórnvöldum þó skylt, sé þess óskað, að láta í té ljósrit eða afrit af gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum, sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi á rafrænu formi. Þegar skjöl eru eingöngu varðveitt á rafrænu formi getur aðili krafist þess að fá þau prentuð á pappír, nema 3. mgr. eigi við.
    Þegar fjöldi skjala er mikill getur stjórnvald ákveðið að fela öðrum að sjá um ljósritun þeirra. Hið sama á við hafi stjórnvald ekki aðstöðu til að ljósrita skjöl. Aðili skal þá greiða þann kostnað sem hlýst af ljósritun skjalanna. Hið sama gildir um afrit af öðrum gögnum en skjölum eftir því sem við á.
    Forsætisráðherra ákveður með gjaldskrá hvað greiða skuli fyrir ljósrit og afrit gagna sem veitt eru samkvæmt lögum þessum. Heimilt er að mæta öllum þeim kostnaði sem af því hlýst.

5. gr.

    Við lögin bætist nýr kafli er verður VIII. kafli, Um endurnot opinberra upplýsinga, með fimm nýjum greinum, 24.–28. gr., svohljóðandi:

    a. (24. gr.)

Markmið og gildissvið.

    Markmið þessa kafla er að auka endurnot opinberra upplýsinga til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Jafnframt eru lögleiddar samræmdar lágmarksreglur um endurnot opinberra upplýsinga, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005 um að fella inn í IX. viðauka við EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB frá 17. nóvember 2003 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera.
    Endurnot opinberra upplýsinga vísar til þess að einkaaðili noti slíkar upplýsingar í öðrum tilgangi en ætlunin var þegar þeirra var aflað af hálfu stjórnvalda. Miðlun upplýsinga á milli stjórnvalda í þágu starfa þeirra telst ekki til endurnota á upplýsingum í þessum skilningi.
    Ákvæði kaflans gilda einvörðungu um endurnot á fyrirliggjandi upplýsingum sem eru í vörslum stjórnvalda og almenningur á rétt til aðgangs að á grundvelli 3. gr. laga þessara eða annarra ákvæða laga sem veita almenningi slíkan rétt.
    Ákvæði þessa kafla gilda ekki um:
     1.      Upplýsingar sem teknar eru saman af stjórnvöldum í viðskiptalegum tilgangi.
     2.      Gögn, skrár og upplýsingar úr gagnagrunnum sem þriðji maður á lögvarinn réttindi yfir samkvæmt höfundalögum. Ákvæði kaflans gilda hins vegar eigi ríki, sveitarfélög eða stofnanir þeirra í skilningi 1. málsl. 1. mgr. 25. gr. ein slík réttindi yfir upplýsingum, enda falli það stjórnvald sem fer með fyrirsvar réttindanna ekki undir 3. mgr. 25. gr.

    b. (25. gr.)

Skilgreining á opinberum aðilum sem falla undir ákvæði þessa kafla.

    Ákvæði þessa kafla taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.
    Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:
     a.      Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af rekstrarkostnaði. Tekjur aðila á grundvelli gagnkvæms viðskiptasamnings við opinberan aðila teljast ekki opinber fjármögnun.
     b.      Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.
     c.      Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ákvæði þessa kafla þó ekki um:
     a.      Ríkisútvarpið.
     b.      Skóla, bóka- og skjalasöfn eða rannsóknastofnanir.
     c.      Menningarstofnanir.
    Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. getur hlutaðeigandi ráðherra mælt svo fyrir í reglugerð að starfsemi stjórnvalds, sem undir hann heyrir og ákvæðið tekur til, falli engu að síður undir ákvæði þessa kafla í heild eða að hluta.

    c. (26. gr.)

Almennir skilmálar fyrir endurnotum opinberra upplýsinga.

    Heimilt er að endurnota opinberar upplýsingar sem eru almenningi aðgengilegar lögum samkvæmt, enda séu eftirfarandi skilyrði ávallt uppfyllt:
     a.      Endurnot upplýsinganna mega ekki brjóta í bága við lög, þ.m.t. ákvæði almennra hegningarlaga, höfundalaga og laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, eða réttindi þriðja manns.
     b.      Geta skal uppruna upplýsinganna.
     c.      Skýrt skal koma fram hver ber ábyrgð á vinnslu upplýsinganna þegar þær eru gerðar öðrum aðgengilegar.

    d. (27. gr.)

Endurnot upplýsinga úr opinberum skrám.

    Þegar veittur er aðgangur að upplýsingum úr opinberum skrám skv. 3. mgr. 3. gr. eða ákvæðum sérlaga er stjórnvaldi heimilt að áskilja að endurnot upplýsinganna séu leyfisskyld og uppfylli sérstök skilyrði, svo sem um gæði upplýsinga, uppfærslu þeirra o.fl. Gæta skal samræmis og jafnréttis við útfærslu slíkra skilyrða og mega þau ekki takmarka möguleika á endurnotum upplýsinganna eða samkeppni óhóflega.
    Stjórnvöld skulu birta á heimasíðu sinni lista yfir þær skrár sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslum sem heimilt er að endurnota, svo og þau skilyrði sem slík endurnot eru bundin.
    Umsókn um leyfi fyrir endurnotum á upplýsingum úr opinberum skrám skal beint til þess stjórnvalds sem lögum samkvæmt ber ábyrgð á færslu og vinnslu upplýsinganna í hlutaðeigandi skrá.
    Stjórnvald skal afgreiða umsókn um leyfi til endurnota á upplýsingum úr opinberum skrám svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan 20 daga frá því umsókn barst skal skýra frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
    Synji stjórnvald að veita leyfi fyrir endurnotum á upplýsingum á grundvelli 2. tölul. 4. mgr. 24. gr. skal tilgreina nafn rétthafa eða umboðsmanns hans.
    Heimilt er að taka gjald fyrir að veita aðgang að upplýsingum úr opinberum skrám á grundvelli 3. og 4. mgr. 12. gr. Skal hlutaðeigandi stjórnvald setja sér gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Gjaldskrána skal birta í B-deild Stjórnartíðinda auk þess sem hún skal vera aðgengileg á heimasíðu stjórnvaldsins.
    Ekki þarf að greiða fyrir endurnot á upplýsingum, sem falla undir ákvæði þessa kafla og eru háðar höfundarétti ríkis og sveitarfélaga, umfram það sem segir í 6. mgr., nema lög mæli sérstaklega svo fyrir.
    Tilgreina skal nafn rétthafa þegar stjórnvöld gera upplýsingar almenningi aðgengilegar á netinu á grundvelli samnings við þriðja mann sem á lögvarin réttindi yfir þeim samkvæmt höfundalögum.

    e. (28. gr.)

Bann við samningum um sérleyfi.

    Stjórnvöld mega ekki gera samninga um sérleyfi um endurnot opinberra upplýsinga sem ákvæði þessa kafla taka til, sbr. þó 2. mgr.
    Ef ætla má að opinberar upplýsingar verði ekki endurnotaðar í þágu almannahagsmuna nema á grundvelli sérleyfis er heimilt að gera slíkan samning enda komi fram í honum rökstuðningur fyrir því. Endurmeta ber rök fyrir sérleyfissamningnum reglubundið og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.

6. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
    Sérleyfissamningar um endurnot opinberra upplýsinga sem ekki uppfylla skilyrði 2. mgr. 28. gr. skulu renna út eigi síðar en 31. desember 2008.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.

    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi, 132. löggjafarþingi (690. mál), en varð þá ekki útrætt. Frumvarp þetta er samið í því skyni að auka möguleika fyrirtækja og einkaaðila á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og gera þeim kleift að hagnýta möguleika þeirra og stuðla að hagvexti og atvinnusköpun. Einnig eru með frumvarpinu uppfylltar skyldur íslenska ríkisins samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 105/2005 frá 8. júlí 2005, um að fella tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/98/EB um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera inn í IX. viðauka við EES-samninginn. Frumvarpið gengur þó að hluta til lengra en tilskipun ESB með víðtækari stefnumótun um endurnot opinberra upplýsinga sem m.a. felur í sér þrengri gjaldtökuheimildir af upplýsingum úr opinberum skrám. Einnig er kveðið á um að ríkið taki ekki gjald af höfundarétti sínum af þessum upplýsingum. Er þetta til þess gert að reyna að auka enn frekar endurnot opinberra upplýsinga.
    Fjármálaráðherra skipaði nefnd hinn 6. febrúar 2001 til þess að móta almenna stefnu um verðlagningu fyrir notkun opinberra upplýsinga. Skyldi nefndin kanna núverandi stöðu í verðlagsmálum og gera tillögur um samræmingu. Starf nefndarinnar beindist að því að skoða stöðu mála í öðrum löndum ásamt því að skoða stöðuna hér á landi. Í ljós kom að ekki eru til samræmdar reglur hér á landi um verðlagningu á notkun opinberra upplýsinga. Nefndin ákvað í kjölfarið að skoða nánar 40 ríkisstofnanir. Afrakstur starfs nefndarinnar birtist í skýrslu er ber heitið „Verðlagning opinberra upplýsinga“ sem út kom í desember 2002 þar sem farið var yfir stöðuna, áhrif breytinga metin og gerðar tillögur. Niðurstaða nefndarinnar var að leggja til að sett yrðu lög um endurgjald fyrir notkun opinberra upplýsinga sem byggðust á þeirri meginreglu að verðlagning tæki mið af frjálsu aðgengi allra aðila gegn sanngjörnum þjónustugjöldum. Áhersla er lögð á að verðlagningu á opinberum upplýsingum verði stillt í hóf þannig að heildartekjur af sölu upplýsinga væru ekki hærri en nemur kostnaðinum við að framreiða, afrita eða dreifa þeim auk hóflegra afskrifta. Hverju stjórnvaldi væri þó heimilt að taka lægra gjald fyrir upplýsingar eða veita þær ókeypis. Voru rökin m.a. þau að allir, ríki, sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, nytu þess ávinnings sem opinberar upplýsingar hafa að geyma samfélaginu til heilla. Nefndin lagði áherslu á að opinberar upplýsingar verði skilgreindar sem eign almennings og ekki væri tekið sérstakt gjald á grunvelli laga um höfundarétt af upplýsingum sem háðar eru höfundarétti ríkis og sveitarfélaga. Þá lagði nefndin til að stefnt yrði að því að koma sem mestum opinberum upplýsingum í rafræna gagnabanka á netinu með fullkomnum lýsigögnum til þess að auðvelda aðgengi að þeim.
    Fjármálaráðherra kynnti skýrslu nefndarinnar í ríkisstjórn 13. desember 2002 og tók þá forsætisráðherra við meðferð málsins á grunni þeirrar stefnumörkunar sem þar kom fram.
    Forsætisráðherra skipaði 3. september 2003 starfshóp til þess að undirbúa lagasetningu um verðlagningu á notkun opinberra upplýsinga sem byggðist á niðurstöðum nefndar fjármálaráðherra. Halldór Árnason skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu var formaður starfshópsins. Aðrir í starfshópnum voru Arnar Þór Másson sérfræðingur, tilnefndur af fjármálaráðuneyti, dr. Vilhjálmur Lúðvíksson skrifstofustjóri, tilnefndur af menntamálaráðuneyti, Sigríður Auður Arnardóttir skrifstofustjóri, tilnefnd af umhverfisráðuneyti, Gunnar Eydal skrifstofustjóri, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Guðrún Johnsen hagfræðingur, tilnefnd af Samtökum atvinnulífsins. Guðrún Björk Bjarnadóttir lögmaður tók sæti Guðrúnar Johnsen á árinu 2005.
    Það lagafrumvarp sem hér er lagt fram er sameiginleg niðurstaða starfshópsins. Starfshópurinn fékk þá dr. Pál Hreinsson lagaprófessor og Kristján Andra Stefánsson, fv. skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, til liðs við sig við samningu lagafrumvarpsins. Enn fremur fékk starfshópurinn Jón Vilberg Guðjónsson, lögfræðing í menntamálaráðuneytinu, til að gera athugun á eignarhaldi ráðuneyta og stofnana á gögnum og upplýsingum og þeim takmörkunum sem endurnýting opinberra upplýsinga kann að vera háð vegna höfundaréttar þriðja aðila að gögnum eða hluta þeirra.

II.

    Stefnumörkun stjórnvalda sem fram kemur í þessu frumvarpi tekur einnig tillit til tilskipunar (EB) nr. 2003/98. Stefnumörkun stjórnvalda og tilskipunin eru byggð á þeirri forsendu að miklir möguleikar geti verið fólgnir í að skapa ný verðmæti úr upplýsingum sem eru í vörslum stjórnvalda, t.d. með því að tengja þær við aðrar upplýsingar og búa þannig til nýjar afurðir. Markmið er því að setja samræmdar lágmarksreglur um heimil endurnot þeirra opinberu upplýsinga sem almenningur á rétt til aðgangs að. Áherslu ber hins vegar að leggja á að tilskipunin skapar ekki sjálf neinn rétt til aðgangs að opinberum upplýsingum. Það er áfram komið undir hverju ríki um sig hvaða reglur það setur um rétt til aðgangs að upplýsingum. Þar sem aðgangur að opinberum upplýsingum er á annað borð heimill á hins vegar að vera hægt að endurnota þær í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar með þeim undantekningum sem þar er mælt fyrir um.
    Hornsteinn tilskipunarinnar er að jafnrétti eigi að ríkja við endurnot opinberra upplýsinga, sbr. 10. og 11. gr. tilskipunarinnar. Þannig á að afgreiða sambærilegar umsóknir um endurnot opinberra upplýsinga á sambærilegan hátt. Þessi skylda hvílir nú þegar á íslenskum stjórnvöldum vegna ákvæða jafnræðisreglna 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Samkvæmt 11. gr. tilskipunarinnar eru sérleyfissamningar um endurnot opinberra upplýsinga, sem öllum eru aðgengilegar, að meginstefnu til bannaðir.
    Að því leyti sem endurnot opinberra upplýsinga eru háð leyfi stjórnvalda ber þeim að afgreiða umsóknir um þau innan 20 virkra daga, sbr. 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Stjórnvöld skulu veita aðgang að upplýsingum þar sem því verður við komið á því formi eða með því sniði og á þeim tungumálum, sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Þegar upplýsingar eru varðveittar á rafrænu formi skal aðili geta valið á milli þess að fá aðgang að þeim á því formi eða prentaðar á pappír. Stjórnvöld skulu birta á heimasíðum sínum lista yfir þær skrár sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslum sem heimilt er að endurnota, svo og upplýsingar um þau skilyrði sem endurnotin eru bundin. Þá dregur tilskipunin því ákveðin mörk hversu há gjöld er heimilt að taka fyrir að veita aðgang að opinberum upplýsingum í þágu endurnotkunar þeirra, sbr. 6. gr. tilskipunarinnar.
    Endurnot opinberra upplýsinga eru þó ekki leyfileg með hvaða hætti sem er. Ekki má endurnota þær þannig að það fari í bága við önnur lög eða réttindi þriðja manns. Í 4. mgr. 1. gr. tilskipunar (EB) nr. 2003/98 er sérstaklega áréttað að slík endurnot megi ekki brjóta í bága við tilskipun nr. 95/46/EB, sbr. lög nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Öll vinnsla persónuupplýsinga við endurnot opinberra upplýsinga verður því í hvívetna að uppfylla ákvæði laga nr. 77/2000. Þá er í 5. mgr. 1. gr. tilskipunar (EB) nr. 2003/98 tekið af skarið um að endurnot opinberra upplýsinga megi ekki brjóta á bága við alþjóðlega samninga um vernd hugverkaréttar.
    Vakin er athygli á því að sérlög og reglugerðir um verkefni ákveðinna stofnana veita nú rýmri heimildir til gjaldtöku fyrir upplýsingar úr opinberum skrám en gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi. Má þar nefna Fasteignamat ríkisins, Landmælingar Íslands og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.

III.

    Með setningu upplýsingalaga, nr. 50/1996, var á Alþingi mörkuð sú löggjafarstefna að endurgjald fyrir aðgang að upplýsingum í vörslum hins opinbera skyldi almennt lúta réttarreglum um töku þjónustugjalda í þágu hins opinbera. Sama ár markaði ríkisstjórnin framsækna stefnu um málefni upplýsingasamfélagsins undir því metnaðarfulla formerki að „Íslendingar verði í fararbroddi þjóða heims við nýtingu upplýsingatækni í þágu bætts mannlífs og aukinnar hagsældar“. 1
    Þessu stefnumiði skyldi náð með því að vinna að framgangi fimm meginmarkmiða sem birt voru í ritinu Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið. Þau voru:
     1.      Landsmenn hafi greiðan aðgang að upplýsingasamfélaginu. Kostir þess verði nýttir til þess að efla lýðræði og auka lífsgæði til hagsbóta fyrir almenning og íslenskt atvinnulíf. Upplýsingatækni verði beitt á öllum sviðum, hvort sem er við nýsköpun, heilbrigðismál, vísindi, listir og menningu eða á öðrum sviðum daglegs lífs.
     2.      Tryggt verði fullt jafnræði milli opinbers reksturs og einkareksturs á sviði upplýsingatækni og upplýsingaiðnaðar. Stjórnvöld auðveldi, með hjálp upplýsingatækninnar, aðgang að opinberum upplýsingum og þjónustu, til að jafna stöðu einstaklinga og fyrirtækja óháð búsetu eða efnahag.
     3.      Upplýsinga- og fjarskiptatækni verði virkjuð til að bæta samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs, auka framleiðni, örva atvinnu og fjölga möguleikum til útflutnings á íslensku hugviti.
     4.      Menntakerfið lagi sig að breyttri þjóðfélagsmynd og miði almenna menntun og símenntun við kosti upplýsingasamfélagsins um leið og það stendur vörð um tungu okkar og menningu.
     5.      Löggjöf, reglur og vinnubrögð verði endurskoðuð með tilliti til upplýsingatækni til að örva tæknilegar framfarir og til að vernda réttindi einstaklinga og fyrirtækja.
    Í framhaldi af þessari markmiðssetningu voru reifaðar leiðir til þess að ná þessum markmiðum. Nokkrar þeirra tengjast miðlun opinberra upplýsinga og verðlagningu þeirra.
     *      Sérstaklega verði hugað að nýtingu upplýsingatækninnar við miðlun opinberra upplýsinga og að gera þurfi öll upplýsingakerfi ríkisstofnana þannig úr garði að hægt verði að sækja þangað upplýsingar um lög, reglur, réttindi, skyldur o.þ.h. um tölvunet og jafnframt verði hægt að reka erindi sín, fylgjast með framgangi mikilvægra mála og fá alla þá þjónustu sem mögulegt er að veita með þessum hætti.
     *      Bættur verði aðgangur landsmanna að upplýsingum um samfélagsþjónustu ríkis og sveitarfélaga og samskipti þeirra á milli.
     *      Lögð verði áhersla á friðhelgi einkalífs og verndun upplýsinga um einstaklinga.
     *      Eðlileg og sanngjörn samkeppni fái að ríkja á sviði upplýsingaþjónustu sem leiða mun til lægra verðs og betri þjónustu.
     *      Stjórnarráð, stofnanir og fyrirtæki ríkisins skulu ávallt nýta markaðslausnir þar sem þær bjóðast og þær eiga við.
    Framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar var afrakstur af víðtæku samráði um stefnumótun á þessu sviði sem fram fór í nokkrum starfshópum. Álitsgerðir þeirra voru einnig birtar samhliða áðurnefndri framtíðarsýn og til hennar vitnað í skipunarbréfi nefndarinnar: 2
     *      Móta þarf samræmda stefnu og ákvarða hvaða upplýsingar frá hinu opinbera skuli aðgengilegar almenningi, t.d. vegna nýrra upplýsingalaga, og hvort eða hvernig greitt verði fyrir aðgang að þeim.
     *      Við verðlagningu þarf að þræða þann gullna meðalveg sem hvetur til samnýtingar, markvissrar notkunar og hagkvæms reksturs. Stjórnvöld þurfa að marka almenna verðlagningarstefnu í takt við ofangreind markmið. Samræma skal gagna- og upplýsingaöflun og skipuleggja samnýtingu stofnana á tiltækum stafrænum gögnum. Einnig þarf að samræma skráningu gagna, koma í veg fyrir margskráningu og skilgreina umsýslu- og ábyrgðaraðila hvers gagnasafns.
    Áðurnefnd markmið tilskipunar (EB) nr. 2003/98 um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera eru í fullu samræmi við þessa stefnu.

IV.

    Meginregla höfundalaga er sú að höfundur verks er eigandi þess, sbr. 1. mgr. 1. gr. höfundalaga, nr. 73/1972. Þegar rætt er um verk sem verndað er samkvæmt höfundalögum er átt við verk sem uppfyllir verndarskilyrði höfundalaga hvað varðar frumleika, þ.e. að verkið beri með sér tiltekin höfundareinkenni og sé eigin sköpun höfundar. Áskilið er að höfundur sé lifandi persóna eða hópur einstaklinga (samhöfundar). Lögpersónur geta því ekki talist höfundar í skilningi 1. mgr. 1. gr. laganna, en geta þó öðlast réttindi þeirra með framsali. Af því er ljóst að verk sem verður til í vinnuréttarsambandi er í fyrstu eign þess starfsmanns eða hóps starfsmanna sem unnu verkið. Það ræðst af sambandi starfsmanns og atvinnurekanda hvort og með hvaða hætti höfundaréttur að verki, sem unnið er í þágu atvinnurekanda, yfirfærist frá starfsmanni til atvinnurekanda. Í höfundalögum eru engar reglur um réttarstöðu atvinnurekanda og starfsmanns vegna verka sem unnin eru í ráðningarsambandi, að undanskilinni sérreglu 42. gr. b í höfundalögum. Þar er kveðið á um það að þegar gerð tölvuforrits er liður í ráðningarskilmálum eignist atvinnurekandi höfundarétt að forritinu nema áskilnaður sé gerður á annan veg. Að öðru leyti er einkum við réttarvenju í vinnuréttarsambandi að styðjast.
    Miklu skiptir við túlkun réttarstöðu starfsmanns að þessu leyti hvort hann er ráðinn gagngert til þess að skapa hugverk í starfi sínu. Í sumum tilvikum má ætla að höfundaréttur að verki yfirfærist frá starfsmanni til atvinnurekanda með þegjandi samkomulagi beggja aðila, ef ekki er samið á annan veg. Í öðrum tilvikum má ætla að starfsmaður og atvinnurekandi verði samhöfundar að verki. 3 Í þriðja lagi má gera ráð fyrir því að starfsmaður haldi höfundarétti að verki en atvinnurekandi öðlist nauðsynlegan nýtingarrétt á verkinu ef ekki er samið á annan veg. Þegar starfsmenn eru ráðnir sem verktakar til að framleiða hugverk verður hins vegar ekki um framsal höfundaréttar að ræða nema gerður sé sérstakur skriflegur framsalssamningur.
    Af þessu er ljóst að engin einhlít regla gildir um höfundarétt að verkum sem kunna að falla undir endurnýtingarheimild frumvarpsins. Að lágmarki verður þó að ætla að stofnun öðlist óheftan nýtingarrétt á þeim verkum sem starfsmenn stofnunar hafa skilað af sér. Þannig má t.d. ætla að höfundaréttur að greinum, skýrslum, ljósmyndum og þess háttar efni sem starfsmaður hefur gagngert unnið að til birtingar á vegum stofnunar yfirfærist til hennar, að svo miklu leyti sem slíkt er stofnuninni nauðsynlegt til starfsemi sinnar. Hins vegar kann að reyna á höfundarétt starfsmanns að viðkomandi efni ef til kemur ný og áður ófyrirséð notkun efnisins sem ekki yrði talin rúmast innan vinnuréttarsambandsins. Dæmi um slíkt er tilkoma nýrrar tækni við birtingu upplýsinga og eftirvinnsla og endurbirting áður birtra upplýsinga. 4
    Þrátt fyrir hugsanlegt framsal höfundaréttar frá starfsmanni til atvinnurekanda verður aldrei um framsal á sæmdarrétti að ræða og því ber atvinnurekanda að taka tillit til þess, þar á meðal réttar starfsmanns til að vera nafngreindur sem höfundur verks, sbr. 4. gr. höfundalaga. Þegar talið er að um sameign atvinnurekanda og starfsmanns sé að ræða á verki sem unnið er í þágu atvinnurekanda kemur það þó ekki í veg fyrir hagnýtingu verks eftir að starfsmaður hættir störfum hjá viðkomandi stofnun. Hins vegar verður starfsemi atvinnurekanda og þar með höfundaréttur að verki sem þannig er til orðið ekki framseldur nema með samkomulagi við starfsmanninn, sbr. 2. mgr. 28. gr. höfundalaga. Verndartími höfundaverka er ævi höfundar að viðbættum 70 árum frá lokum andlátsárs höfundar.
    Að því er varðar hugverk, sem ekki uppfylla lágmarksfrumleikaskilyrði höfundalaga til þess að teljast vera afrakstur eigin sköpunar höfundar, kunna þau engu að síður að vera vernduð með sinnar tegundar rétti (sui generis), sbr. 50. gr. höfundalaga. Ákvæðið verndar í 15 ár þá fjárfestingu sem lögð er í að framleiða, viðhalda og birta upplýsingar í gagnagrunnum, skrám og töflum. Sinnar tegundar rétturinn er í öllum tilvikum í eigu atvinnurekanda þegar um framleiðslu gagnagrunna, skráa og taflna er að ræða í vinnuréttarsambandi. Ætla má að um rétt ríkisins að svonefndum grunnskrám þjóðfélagsins fari skv. 50. gr. höfundalaga. Hafa ber þó í huga að gagnagrunnur kann að innihalda sjálfstæð höfundaverk sem njóta áfram sjálfstæðrar verndar þótt þau séu orðin hluti af gagngrunni, t.d. ljósmyndir, kort og teikningar. Endurnýtingarheimild gagnagrunns kann því að vera háð þeim takmörkunum sem leiðir af rétti þriðja manns og jafnvel starfsmanns stofnunar til slíkra verka.

V.

    Eftirspurn eftir opinberum upplýsingum til endurnotkunar hefur alltaf verið nokkur og fer vaxandi. Eftir því sem hún eykst hefur þörf á samræmdum reglum um verðlagningu fyrir slíka notkun aukist. Í Bandaríkjunum var strax mörkuð sú stefna að hið opinbera skyldi eftirláta einkaaðilum á markaði allan þann virðisauka sem hægt væri að hafa af endurnotkun þeirra upplýsinga sem hið opinbera aflaði af öðrum ástæðum. Í Evrópu hefur á hinn bóginn ekki verið mörkuð um þetta almenn stefna fyrr en með tilskipun (EB) nr. 2003/98, jafnvel þótt sums staðar hafi aðgangur að opinberum upplýsingum almennt verið veittur á kostnaðargrundvelli án tillits til þess í hvaða skyni upplýsingarnar væru ætlaðar. Í 6. gr. tilskipunarinnar er því slegið föstu að gjöld fyrir endurnotkun opinberra upplýsinga megi að hámarki nema endurheimtu kostnaðar við söfnun, framleiðslu, afritun eða dreifingu auk hóflegra afskrifta.
    Sú stefnumörkun sem fram kemur í þessu frumvarpi leggur áherslu á hóflega verðlagningu á opinberum upplýsingum og gengur þannig að hluta til lengra en 6. gr. tilskipunarinnar. Telji stjórnvald gjaldtöku nauðsynlega megi gjaldið að hámarki nema kostnaðinum við að framreiða, afrita eða dreifa upplýsingunum auk hóflegra afskrifta. Almennt skuli því ekki taka gjald fyrir söfnun eða framleiðslu gagna sem safnað er í opinberum tilgangi af stjórnvöldum. Þá leiðir einnig af þessari stefnumörkun að hið opinbera taki almennt ekki sérstaka þóknun fyrir endurnot á upplýsingum sem hið opinbera kann að eiga ýmist höfundarétt að eða rétt skv. 50. gr. höfundarlaga. Þessi stefnumótum birtist í 3. og 4. gr. frumvarpsins, sbr. 3. og 4. mgr. 12. gr., og 6. og 7. mgr. 27. gr. upplýsingalaga, verði frumvarpið að lögum. Þetta á við um gögn sem einvörðungu eru háð réttindum ríkis eða sveitarfélaga samkvæmt höfundalögum. Eigi þriðji maður jafnframt réttindi yfir gögnunum samkvæmt höfundalögum falla gögnin utan við gildissvið VIII. kafla, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 24. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


Um 1. og 2. gr.

    Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, er að finna meginreglu laganna um upplýsingarétt almennings.
    Inntak meginreglunnar skýrist fyrsta kastið af orðalagi hennar sjálfrar en skv. 1. mgr. 3. gr. laganna er stjórnvöldum „skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr.“ Enda þótt orðinu mál beri að ljá rúma merkingu felst þó þegar í því hugtaki ákveðin afmörkun á efni upplýsingaréttarins. Þannig er gerð krafa til að beiðni um aðgang tiltaki það mál eða þau gögn í máli sem leitað er eftir en það kemur um leið í veg fyrir að unnt sé að óska aðgangs að ótilteknum fjölda mála eða gögnum í ótilteknum málum af ákveðinni tegund eða frá ákveðnu tímabili.
    Þessi afmörkun eða krafa um tilgreiningu máls er nánar útfærð í 1. mgr. 10. gr. laganna, en þar er um það fjallað hvernig beiðni um aðgang að gögnum skuli sett fram. Við skýringu á þeirri heimild 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga að aðili máls geti tilgreint þau gögn sem hann óskar að kynna sér, verður að taka tillit til framangreindrar afmörkunar upplýsingaréttarins í 1. mgr. 3. gr.
    Sama afmörkun er enn fremur áréttuð í 2. mgr. 3. gr. laganna þar sem fram kemur til hvaða gagna upplýsingarétturinn tekur. Í 1. tölul. 2. mgr. 3. gr. er tekið skýrt af skarið um að rétturinn taki til „allra skjala sem mál varða“. Í 2. tölul. 2. mgr. 3. gr. er mælt svo fyrir að rétturinn taki einnig til „allra annarra gagna sem mál varða“ og loks er í 3. tölul. 2. mgr. 3. gr. kveðið svo á að hann taki til „dagbókarfærslna sem lúta að gögnum málsins og lista yfir málsgögn.“ Upplýsingaréttur aðila er einnig afmarkaður við tiltekið mál í 1. mgr. 9. gr. laganna. Þar segir að stjórnvöldum sé skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða „ tiltekið mál“ ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.
    Af framansögðu leiðir að þegar beðið er um aðgang að tilteknum gögnum verður erindið að tengjast tilteknu máli. Þessi niðurstaða byggist einnig á fyrirmyndum upplýsingalaganna. Í athugasemdum við 10. gr. frumvarps þess er varð að upplýsingalögum er tekið fram að gengið sé út frá sömu tilhögun og fram kemur í norsku og dönsku upplýsingalögunum um þetta efni. Þannig sagði svo í 1. málsl. 2. mgr. 2. gr. þeirra norsku upplýsingalaga, sem voru í gildi, þegar frumvarp það var samið, er varð að upplýsingalögum, nr. 50/1996: „Enhver kan hos vedkomennde forvaltningsorgan kreve å få gjøre seg kjent med det offentlige innholdet av dokumenter i en bestemt sak.“
    Þá leiðir af sama áskilnaði að gögn sem 1. mgr. 3. gr. tekur til eru eingöngu þau sem til eru þegar beiðni um þau er afgreidd. Þessi regla leggur því ekki á stjórnvöld skyldu til að útbúa ný gögn til að geta orðið við beiðni, þ.e. ekki umfram það sem leiðir af skyldu skv. 7. gr. laganna til að veita aðgang að þeim hluta gagna sem undanþága eða takmörkun tekur ekki til, ef því er að skipta. Tilskipun (EB) nr. 2003/98 gerir heldur ekki kröfur umfram þetta.
    Þar sem misskilnings hefur gætt um framangreind atriði við framkvæmd upplýsingalaganna er í 1. og 2. gr. frumvarpsins lagt til að 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 10. gr. laganna verði orðaðar skýrar að þessu leyti.
    Að því er síðastnefnt atriði varðar er í 1. gr. frumvarpsins lagt til að á því verði hnykkt á tvo vegu í 1. mgr. 3. gr. Annars vegar með því að tiltaka að greinin taki einvörðungu til fyrirliggjandi gagna í vörslu stjórnvalda og hins vegar með því að taka upp sérstakt ákvæði um að á stjórnvöld verði ekki lögð skylda til að útbúa ný gögn sérstaklega til að verða við beiðni. Við setningu upplýsingalaga var mörkuð sú löggjafarstefna að haga málfari laganna á þann hátt að almenningur gæti gert þeim skil. Í samræmi við það er hér einnig lagt til að sama ályktun og yrði að öðru jöfnu dregin af fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. verði hér sérstaklega fest í lög. Af því leiðir að nauðsynlegt er að færa í orð það frávik frá þeirri reglu sem leiðir af 7. gr. laganna, en samkvæmt því ákvæði getur stjórnvöldum verið skylt að framleiða ný gögn þegar skylt er að veita aðgang að þeim hluta gagna sem undanþágur eða takmarkanir taka ekki til.
    Þá er í 2. gr. frumvarpsins lagt til að í 1. mgr. 10. gr. verði áréttað að beiðni um aðgang að gögnum verði annaðhvort að binda við tiltekin skjöl eða önnur gögn máls, sem aðili óskar eftir að fá að kynna sér, eða öll gögn tiltekins máls. Þegar óskað er eftir að fá aðgang að öllum gögnum tiltekins máls á hlutaðeigandi rétt á að fá aðgang að þeim gögnum sem talin eru upp í 2. mgr. 3. gr., enda standi ákvæði 4.–6. gr. því ekki í vegi.
    Í beiðni verður að tilgreina gögn máls eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á málinu og gögnum þess.
    Það leiðir af 1. mgr. 10 gr. að ekki er hægt að biðja um gögn í ótilgreindum málum, t.d. þegar beðið er um aðgang að öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili.

Um 3. gr.

    11. gr. upplýsingalaga kveður á um málshraða við meðferð beiðna um aðgang að upplýsingum. Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar er hér lagt til að bætt verði við þessa grein nýrri málsgrein þar sem innleidd verði skylda til þess að upplýsa um nafn rétthafa höfundaréttar að gögnum sem veittur er aðgangur að, ef upplýsingar um nafn hans liggja á annað borð fyrir, enda er almennt ekki heimilt að endurnota slíkar upplýsingar nema höfundaréttur sé virtur.

Um 4. gr.

    Þegar fyrir liggur að hvaða gögnum aðgangur er heimill er í 12. gr. fjallað um á hvern hátt hann megi veita. Í því skyni hafa almennt komið tvær leiðir til greina. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga hefur meginreglan verið sú að stjórnvald tekur fyrsta kastið sjálft ákvörðun um hvort umbeðin gögn verði sýnd eða hvort það veitir af þeim ljósrit eða afrit. Fari aðili hins vegar sjálfur fram á að fá ljósrit eða afrit skal orðið við þeirri beiðni skv. 2. mgr. sömu greinar, nema gögnin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé vandkvæðum bundið. Í því tilviki, eða ef stjórnvald hefur ekki til þess aðstöðu, er því heimilt að fela öðrum, svo sem fjölföldunarstofu, að annast ljósritun eða afritun gagnanna, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Ef aðili óskar sjálfur að fá ljósrit eða afrit af þeim gögnum, sem hann leitar eftir aðgangi að, er stjórnvaldi heimilt að endurheimta kostnað sem af því stafar, sbr. 4. mgr. 12. gr. upplýsingalaga.
    Í þessari grein er lagt til að 12. gr. laganna taki eftirtöldum breytingum í samræmi við 5. og 6. gr. tilskipunar (EB) nr. 2003/98, um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Í samræmi við 5. gr. tilskipunarinnar er í 2. mgr. lagt til að stjórnvöldum verði eftir því sem við verður komið skylt að afhenda upplýsingar á því formi eða með því sniði og á þeim tungumálum sem þær eru varðveittar á, nema þær séu þegar aðgengilegar almenningi. Ef skjal er þannig til á rafrænu formi er hægt að velja um að fá skjalið á því formi. Mikilvægi þessarar reglu felst í réttinum til þess að fá aðgang að rafrænu formi skjala, séu þau til á slíku formi, og endurnota upplýsingarnar með því að tengja þær við aðrar upplýsingar í nýjum tilgangi og skapa þannig með því nýja afurð. Ef upplýsingar eru aðeins til á rafrænu formi getur aðili valið á milli þess að fá aðgang að þeim á því formi eða prentaðar á pappír. Séu upplýsingarnar þegar aðgengilegar almenningi, t.d. á heimasíðu stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, er almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.
    Þeim fyrirvara er haldið með orðunum „eftir því sem við verður komið“ að ekki séu í vegi sérstakar hindranir við að veita afrit eða ljósrit af gögnum. Þannig geta skjöl t.d. verið þannig útlits að ógerlegt sé að ljósrita þau.
    Sá varnagli 2. mgr. 12. gr. gildandi laga, um að ekki skuli verða við erindi um að fá ljósrit af skjölum eða afrit sé fjöldi þeirra svo mikill að það sé vandkvæðum bundið, er felldur niður. Á því er byggt að stjórnvald geti í slíkum tilvikum notað heimild 3. mgr. og falið verktaka að sjá um fjölföldunina.
    Í 3. mgr. er stjórnvaldi heimilt að fela öðrum að sjá um ljósritun skjala þegar fjöldi þeirra er mikill. Stjórnvald getur einnig verið vanbúið til að veita umbeðin ljósrit eða önnur afrit, t.d. þegar um mikinn fjölda er að ræða eða tækjabúnaður til afritunar, t.d. af hljóðupptökum, er ekki fyrir hendi. Kostnað við aðkeypta þjónustu samkvæmt reikningi verktaka greiðir sá sem um ljósrit eða afrit hefur beðið.
    Í 4. mgr. er forsætisráðherra ætlað að setja gjaldskrá fyrir ljósrit eða afrit sem veitt verða samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga. Sú breyting er gerð á ákvæðinu að heimilt verður að taka gjald sem mætir öllum þeim kostnaði sem hlýst af því að veita ljósrit og afrit af gögnum. Með ákvæði þessu er innleidd 6. gr. tilskipunar (EB) nr. 2003/98. Þar sem um þjónustugjald er að ræða má ekki taka hærra gjald en nemur öllum föstum og breytilegum kostnaði af því að veita ljósrit eða afrit af gögnum. Hér má því t.d. taka gjald til að mæta öllum kostnaði af framreiðslu, fjölföldun og dreifingu auk sanngjarnrar hlutdeildar í afskriftum á fjárfestingu í vélum og tækjum sem þörf er á við ljósritun eða afritun gagna. Öll stjórnvöld sem undir lög þessi heyra og veita aðgang að upplýsingum á grundvelli þeirra geta tekið gjald samkvæmt gjaldskrá forsætisráðuneytisins. Í ýmsum sérlögum koma fram heimildir til gjaldtöku fyrir aðgang að gögnum og upplýsingum sem áfram halda gildi sínu.

Um 5. gr.

    Lagt er til að nýjum kafla verði bætt við upplýsingalögin í samræmi við stefnu stjórnvalda um að auðvelda skuli endurnotkun opinberra upplýsinga til hagsmuna fyrir samfélagið í heild, sem verði VIII. kafli þeirra, og með honum m.a. innleidd ákvæði tilskipunar (EB) nr. 2003/98, um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Kaflinn hefur að geyma fimm greinar sem verða að 24.–28. gr. upplýsingalaga.
    Í 24. gr. er fjallað um markmið og gildissvið VIII. kafla. Með 2. mgr. 24. gr. kemur fram skilgreining á endurnotum opinberra upplýsinga og er þar m.a. byggt á 4. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar. Í 3. mgr. 24. gr. er tekið af skarið um að ákvæði kaflans gildi um endurnot á fyrirliggjandi upplýsingum sem séu í vörslum stjórnvalda og almenningur á rétt til aðgangs að á grundvelli 3. gr. upplýsingalaga eða annarra ákvæða sem veita almenningi slíkan rétt. Í samræmi við 3. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar gilda því ákvæði kaflans ekki um upplýsingar sem eru einvörðungu aðgengilegar aðila máls, t.d. skv. 9. gr. upplýsingalaga eða 15. gr. stjórnsýslulaga en ekki almenningi. Þá gilda ákvæði kaflans einungis um endurnot upplýsinganna en mæla ekki á neinn hátt fyrir um rétt til aðgangs að opinberum upplýsingum. Ákvæði VIII. kafla skylda ekki stjórnvöld til þess að safna upplýsingum sem ekki eru þegar fyrirliggjandi í vörslum þeirra. Í 4. mgr. 24. gr. kemur fram undantekning frá gildissviði kaflans þar sem ákvæði hans gilda ekki um upplýsingar sem teknar eru saman af stjórnvöldum í viðskiptalegum tilgangi, sbr. c-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Þá gildir kaflinn heldur ekki um endurnot á gögnum og skrám sem þriðji maður á lögvarinn réttindi yfir samkvæmt höfundalögum, sbr. 5. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Á hinn bóginn gilda ákvæði kaflans um gögn og upplýsingar sem ríki, sveitarfélög eða stofnanir þeirra eiga ein réttindi yfir samkvæmt höfundalögum. Með afmörkun á því hvaða aðilar teljist til ríkis og sveitarfélaga í þessu ákvæði má vísa til þeirra stjórnvalda sem falla undir 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga. Utan við gildissvið hugtaksins stjórnvald í skilningi 1. mgr. 1. gr. upplýsingalaga falla t.d. öll fyrirtæki sem ríki og sveitarfélög eiga og sett hafa verið á fót á einkaréttarlegum grundvelli, svo sem hlutafélög, einkahlutafélög, sameignafélög o.s.frv. Hugtakið stjórnvald í þessari merkingu tekur heldur ekki til Alþingis og dómstóla svo og stofnana sem starfa á þeirra vegum. Til viðbótar er það skilyrði síðan sett að það stjórnvald, sem fer með fyrirsvar réttindanna af hálfu hins opinbera, falli ekki undir ákvæði 3. mgr. 25. gr.
    Í 25. gr. er fjallað um skilgreiningu á stjórnvöldum sem falla undir ákvæði kaflans. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 2. gr. tilskipunarinnar hefur hún annað og víðara gildissvið en 1. gr. upplýsingalaga gerir að öðru leyti ráð fyrir. Afmörkun tilskipunarinnar byggist á skilgreiningu sem fram kemur í tilskipunum Evrópusambandsins um opinber innkaup, sbr. 10. tölul. formálsorða tilskipunar (EB) nr. 2003/98, um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera. Afmörkun á gildissviði kaflans hefur því verið útfærð með sama hætti og gert er í 3. gr. laga nr. 94/2001, um opinber innkaup. Í 3. mgr. 25. gr. er lagt til að einnig verði teknar í lög undantekningar á gildissviði kaflans sem eiga sér stoð í 1. gr. tilskipunar (EB) nr. 2003/98. Þannig er svo fyrir mælt í a-lið 3. mgr. 25. gr. að Ríkisútvarpið falli ekki undir ákvæði kaflans og er það í samræmi við d-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Í b-lið 3. mgr. 25. gr. frumvarpsins er mælt svo fyrir að skólar og rannsóknastofnanir falli ekki undir ákvæði kaflans en það byggist á e-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Þannig falla t.d. Háskóli Íslands og stofnanir hans, svo og aðrir ríkisháskólar, ekki undir ákvæði kaflans. Framhaldsskólar, grunnskólar og Námsgagnastofnun falla heldur ekki undir ákvæði kaflans. Sem dæmi um rannsóknastofnanir sem ekki falla undir lögin má nefna rannsóknastofnanir á vegum háskóla, svo sem Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Undir gildissvið kaflans falla heldur ekki eftirtaldar rannsóknastofnanir atvinnuveganna: Veiðimálastofnun, Hafrannsóknastofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Iðntæknistofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir. Loks er svo mælt fyrir í c-lið 3. mgr. 25. gr. að menningarstofnanir falli ekki undir ákvæði kaflans. Það er í samræmi við f-lið 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar en samkvæmt því ákvæði falla þar t.d. undir opinber söfn, bókasöfn, skjalasöfn, hljómsveitir, óperur og leikhús. Sem dæmi um stofnanir sem ekki falla undir ákvæði kaflans má nefna: Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi, Íslenska málstöð, Örnefnastofnun Íslands, Þjóðminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, Listasafn Einars Jónssonar, Listasafn Íslands, Kvikmyndasafn Íslands, Blindrabókasafn Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið. Sem dæmi um stofnanir sem hins vegar verða taldar falla undir ákvæði kaflans þrátt fyrir að þær sinni ákveðnum rannsóknum eru Landmælingar Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Veðurstofa Íslands. Í 4. mgr. 25. gr. er loks kveðið svo á að hlutaðeigandi ráðherra geti mælt svo fyrir, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr., að ákveðnar stofnanir, sem undantekningarákvæðið tekur til, falli engu að síður undir ákvæði þessa kafla, hvort sem það er um ákveðin gagnasöfn eða að öllu leyti.
    Í 26. gr. eru settir fram almennir skilmálar fyrir endurnotum opinberra upplýsinga. Í ákvæðinu koma fram almennir skilmálar fyrir endurnotum að upplýsingum sem er að finna í einstökum málum sem almenningur á aðgang að skv. 3. gr. upplýsingalaga eða öðrum lagaákvæðum. Þannig er ekki gert ráð fyrir því að settir verði sérstakir skilmálar þar um. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því að hægt sé að setja sérstaka skilmála um endurnot upplýsinga sem fengnar eru úr opinberum skrám en ákvæði 27. gr. gilda um það. Í a-lið 26. gr. er í raun áréttaður gildandi réttur en þar er að finna þau ákvæði og réttindi annarra sem geta staðið í vegi fyrir endurnotum á opinberum upplýsingum. Í b-lið 26. gr. er lögð sú skylda á þann sem endurnotar opinberar upplýsingar að geta ávallt um uppruna upplýsinganna. Reynist upplýsingar rangar getur það skipt máli að geta rakið sig að uppruna upplýsinganna og fengið þær leiðréttar. Í c-lið 26. gr. er síðan mælt fyrir um að skýrt skuli koma fram hver beri ábyrgð á vinnslu þeirra opinberu upplýsinga sem endurnotaðar eru þegar þær eru gerðar öðrum aðgengilegar. Sá sem ábyrgð ber á vinnslu upplýsinganna ber að lögum bóta- og refsiábyrgð svo og aðra ábyrgð á vinnslu og miðlun upplýsinganna.
    Í 27. gr. er fjallað um endurnot upplýsinga úr opinberum skrám. Taka ber skýrt fram að hvorki ákvæði 27. gr. né önnur ákvæði VIII. kafla veita sjálfstæðan rétt til aðgangs að opinberum skrám. Sé á hinn bóginn veittur aðgangur að upplýsingum úr skrám á grundvelli 3. mgr. 3. gr. upplýsingalaga eða á grundvelli annarra lagaheimilda, sem veita almenningi aðgang að slíkum upplýsingum, taka ákvæði 27. gr. á því hvernig endurnota má þær upplýsingar og að hvaða skilyrðum uppfylltum. Með skrá er átt við skipulagsbundið safn upplýsinga. Afmörkun skilgreiningarinnar fellur að skilgreiningu á hugtakinu skrá í 3. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 að öðru leyti en því að ekki er áskilið að í skránni sé fjallað um persónuupplýsingar. Í 1. mgr. 27. gr. er stjórnvöldum gert heimilt að áskilja að endurnot upplýsinga séu leyfisskyld og uppfylli sérstök skilyrði, svo sem um gæði upplýsinga, uppfærslu þeirra o.fl., sbr. 8. gr. tilskipunarinnar. Í samræmi við 10. gr. tilskipunarinnar er síðan mælt svo fyrir að gæta skuli samræmis og jafnréttis við útfærslu slíkra skilyrða og mega þau ekki takmarka möguleika á endurnotum upplýsinganna eða samkeppni óhóflega. Í samræmi við 9. gr. tilskipunarinnar er mælt svo fyrir að stjórnvöld skuli birta á heimasíðu sinni lista yfir þær skrár sem hafa að geyma upplýsingar í þeirra vörslum sem heimilt er að endurnota, svo og skilyrði sem slík endurnot eru bundin. Í 3. mgr. 27. gr. er mælt svo fyrir að umsókn um leyfi fyrir endurnotum á upplýsingum úr opinberum skrám skuli beint til þess stjórnvalds sem lögum samkvæmt ber ábyrgð á færslu og vinnslu upplýsinganna í hlutaðeigandi skrá. Þannig ber ekki að beina slíku erindi að vinnsluaðila sem t.d. hýsir upplýsingar fyrir stjórnvöld í skilningi 13. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, heldur ábyrgðaraðila. Í 4. mgr. 27. gr. segir að stjórnvald skuli afgreiða umsókn um leyfi til endurnota á upplýsingum úr opinberum skrám svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan 20 daga frá því umsókn barst skal skýra frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta. Þar sem almennt getur tekið mun lengri tíma að ákveða skilmála fyrir endurnotum á opinberum upplýsingum en að veita aðgang að þeim er frestur þessi lengri en í 11. gr. upplýsingalaga og samræmist 2. mgr. 4. gr. tilskipunarinnar. Þegar upplýsingar sem óskað er eftir að endurnota eru háðar rétti þriðja aðila samkvæmt höfundalögum falla upplýsingarnar utan við gildissvið ákvæða þessa kafla. Þegar svo stendur á ber stjórnvöldum ekki aðeins að synja um að veita leyfi til að endurnota upplýsingarnar heldur ber að tilgreina nafn rétthafa eða umboðsmanns hans. Þegar stjórnvöld veita aðgang að upplýsingum úr opinberum skrám skv. 3. mgr. 3. gr. laganna eða ákvæðum sérlaga er þeim heimilt að taka gjald skv. 6. mgr. 27. gr. á grundvelli þeirra heimilda sem 12. gr. mælir fyrir um. Sá munur er þó á að stjórnvald verður fyrst að setja sér gjaldskrá á grundvelli þeirra sjónarmiða sem 12. gr. er byggð á og birta hana lögum samkvæmt auk þess sem skylt er að hafa hana aðgengilega á heimasíðu stjórnvaldsins. Ákvæði 6. mgr. 27. gr. haggar ekki við öðrum ákvæðum í lögum sem heimila víðtækari gjaldtöku fyrir að veita aðgang að upplýsingum eða gögnum hjá stjórnvöldum. Ekki þarf að greiða fyrir endurnot á upplýsingum, sem falla undir ákvæði þessa kafla og eru háðar höfundarétti hins opinbera, umfram það sem segir í 6. mgr., nema önnur lög mæli svo sérstaklega fyrir. Loks er í 27. gr. mælt svo fyrir að ef stjórnvöld gera upplýsingar almenningi aðgengilegar á netinu, sem þriðji maður á lögvarin réttindi yfir samkvæmt höfundalögum, skuli tilgreina nafn rétthafa svo ekki valdi vafa að upplýsingarnar falla ekki undir ákvæði VIII. kafla laganna og að semja þurfi því við rétthafa um endurnot upplýsinga.
    Í 28. gr. er mælt svo fyrir að stjórnvöld megi ekki gera samninga um sérleyfi um endurnot opinberra upplýsinga sem ákvæði þessa kafla taka til, sbr. þó 2. mgr. 28. gr. Ákvæði 1. mgr. 28. gr. er í samræmi við 10. gr. tilskipunarinnar. Í samræmi við 11. gr. tilskipunarinnar er mælt svo fyrir í 2. mgr. 28. gr. að ef ætla megi að opinberar upplýsingar verði ekki endurnotaðar í þágu almannahagsmuna nema á grundvelli sérleyfis sé heimilt að gera slíkan samning enda komi fram í honum rökstuðningur fyrir því. Endurmeta ber rök fyrir slíkum sérleyfissamningum reglubundið og eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Ef í ljós kemur að þremur árum liðnum að fleiri en einn aðili hafa nú áhuga á að endurnota upplýsingar á viðkomandi markaði eru ekki lengur skilyrði til þess að gera slíkan sérleyfissamning. Í ákvæði til bráðabirgða er mælt svo fyrir að sérleyfissamningar um endurnot opinberra upplýsinga sem ekki uppfylli skilyrði 2. mgr. 28. gr. skuli renna út eigi síðar en 31. desember 2008 og er það í samræmi við 3. mgr. 11. gr. tilskipunarinnar. Ekki er kunnugt um að í gildi séu sérleyfissamningar um endurnot opinberra upplýsinga sem öllum eru aðgengilegar og falla undir gildissvið þessa kafla.

Um 6. gr.

    Sjá athugasemdir við 5. gr. (28. gr.).

Um 7. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal I.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/98/EB
frá 17. nóvember 2003
um endurnotkun upplýsinga frá hinu opinbera

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Sáttmálinn kveður á um stofnun innri markaðar og kerfis sem tryggir að samkeppni á innri markaðinum raskist ekki. Samræming á reglum og venjum aðildarríkjanna um hagnýtingu upplýsinga frá hinu opinbera stuðlar að því að þessum markmiðum verði náð.
2)          Þróun í átt til upplýsinga- og þekkingarsamfélags hefur áhrif á líf allra borgara í Evrópusambandinu með því, m.a., að gera þeim kleift að leita nýrra leiða til aðgangs að þekkingu og þekkingaröflunar.
3)          Stafrænt efni gegnir mikilvægu hlutverki í þessari þróun. Framleiðsla á slíku efni hefur stuðlað að örri atvinnusköpun á undanförnum árum og heldur sú þróun áfram. Flest þessara starfa verða til í litlum, nýstofnuðum fyrirtækjum.
4)          Hið opinbera lætur safna, framleiða, fjölfalda og dreifa margvíslegum upplýsingum á ýmsum sviðum, s.s. á sviði félagsmála, efnahagsmála, landafræði, veðurs, ferðamála, viðskipta, einkaleyfa og menntamála.
5)          Eitt af meginmarkmiðunum með því að koma á fót innri markaði er að skapa skilyrði sem stuðla að þróun þjónustu sem nær til alls Bandalagsins. Upplýsingar frá hinu opinbera eru mikilvægur efniviður í stafrænar vörur og þjónustu og verða jafnvel enn mikilvægari uppspretta efnis eftir því sem þráðlaus efnisþjónusta þróast. Víðtæk landfræðileg útbreiðsla yfir landamæri mun einnig skipta sköpum í þessu samhengi. Auknir möguleikar á að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera ættu m.a. að gera evrópskum fyrirtækjum kleift að hagnýta möguleika þeirra og stuðla að hagvexti og atvinnusköpun.
6)          Verulegur munur er á reglum og venjum aðildarríkjanna um hagnýtingu upplýsinga frá hinu opinbera og kemur hann í veg fyrir að þessi mikilvæga uppspretta gagna sé nýtt til fulls. Mjög mismunandi hefðir hafa skapast hjá opinberum aðilum varðandi hagnýtingu upplýsinga frá hinu opinbera. Þetta ber að hafa í huga. Því skal fara fram lágmarkssamræming á innlendum reglum og venjum um endurnotkun gagna frá hinu opinbera þegar innlendar reglur og venjur eða skortur á skýrleika hindra snurðulausa starfsemi innri markaðarins og eðlilega þróun upplýsingasamfélagsins í Bandalaginu.
7)          Án lágmarkssamræmingar innan Bandalagsins gæti lagasetning á innlendum vettvangi, sem þegar er hafin í mörgum aðildarríkjanna til að koma til móts við þróun tækninnar, ennfremur leitt til þess að munurinn verði ennþá meiri. Áhrif þessa lagaósamræmis og réttaróvissu munu verða veigameiri eftir því sem upplýsingasamfélagið þróast, en það hefur þegar aukið verulega hagnýtingu upplýsinga yfir landamæri.
8)          Brýnt er að setja almennan ramma um skilyrði fyrir endurnotkun gagna frá hinu opinbera til að tryggja að skilyrðin fyrir endurnotkun slíkra upplýsinga séu sanngjörn, án mismununar og hlutfallsbundin. Opinberir aðilar safna, framleiða, fjölfalda og dreifa gögnum við opinber störf sín. Notkun slíkra gagna í öðrum tilgangi telst endurnotkun. Aðildarríkin geta gengið lengra í stefnum sínum en lágmarksstaðlarnir, sem settir eru í þessari tilskipun, og þannig heimilað víðtækari endurnotkun.
9)          Þessi tilskipun felur ekki í sér skyldu til að heimila endurnotkun gagna. Það er áfram ákvörðun aðildarríkisins eða hlutaðeigandi opinbers aðila hvort heimila skuli slíka endurnotkun eða ekki. Þessi tilskipun gildir um gögn sem gerð eru aðgengileg til endurnotkunar þegar opinberir aðilar gefa út leyfi fyrir upplýsingum, selja, dreifa, skiptast á eða gefa út upplýsingar. Til að komast hjá víxlniðurgreiðslum skal endurnotkun fela í sér frekari notkun gagna innan stofnunarinnar sjálfrar vegna starfsemi sem fellur utan opinbers starfssviðs hennar. Dæmigerð starfsemi sem er utan opinbers starfssvið nær til afhendingar gagna sem eru búin til og tekið er gjald fyrir eingöngu á viðskiptagrundvelli og í samkeppni við aðra á markaðinum. Skilgreiningunni „gögn“ er ekki ætlað að taka til tölvuforrita. Tilskipun þessi byggir á því fyrirkomulagi um aðgang sem fyrir er í aðildarríkjunum og hefur ekki áhrif á innlendar reglur um aðgang að gögnum. Hún gildir ekki í þeim tilvikum þar sem borgarar eða fyrirtæki geta, samkvæmt gildandi fyrirkomulagi um aðgang, einungis fengið gögn með því að sýna fram á að þeir hafi sérstakra hagsmuna að gæta. Á vettvangi Bandalagsins er viðurkenndur í 41. gr. (réttur til góðrar stjórnsýslu) og 42. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, réttur allra borgara í Evrópusambandinu og allra einstaklinga og lögaðila sem hafa fasta búsetu eða skráð aðsetur í aðildarríki til aðgangs að gögnum Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar. Opinberir aðilar skulu hvattir til að gera öll gögn í vörslu sinni aðgengileg til endurnotkunar. Opinberir aðilar skulu hvetja til og stuðla að endurnotkun gagna, þ.m.t. opinberra laga- og stjórnsýslutexta í þeim tilvikum sem opinber aðili hefur rétt til að heimila endurnotkun þeirra.
10)          Skilgreiningarnar á „opinber aðili“ og „stofnun sem heyrir undir opinberan rétt“ eru fengnar úr tilskipununum um opinber innkaup 92/50/EBE ( 5 ), 93/36/EBE ( 6 ) og 93/37/EBE ( 7 ) og 98/4/EB ( 8 )). Opinber fyrirtæki falla ekki undir þessar skilgreiningar.
11)          Í þessari tilskipun er mælt fyrir um almenna skilgreiningu á hugtakinu „gögn“ í samræmi við þróun innan upplýsingasamfélagsins. Hún tekur til allrar birtingar á aðgerðum, staðreyndum eða upplýsingum – og hvers kyns samantektar á slíkum aðgerðum, staðreyndum eða upplýsingum – á hvaða formi sem það er, (ritað á pappír eða vistað á rafrænu formi, sem hljóðritun, upptaka á myndum eða myndmiðlaefni), sem er í vörslu opinberra aðila. Gögn sem eru í vörslu opinbers aðila eru gögn sem opinber aðili hefur rétt til að heimila endurnotkun á.
12)          Fresturinn til að svara beiðnum um endurnotkun skal vera sanngjarn og í samræmi við samsvarandi frest vegna beiðna um aðgang að gögnum samkvæmt viðkomandi fyrirkomulagi um aðgang. Sanngjarn frestur í gjörvöllu Evrópusambandinu stuðlar að því að til verði nýjar samsettar upplýsingavörur og -þjónusta á samevrópskum vettvangi. Þegar beiðni um endurnotkun hefur verið samþykkt skulu opinberir aðilar gera gögnin aðgengileg innan þess tímaramma sem þarf svo að efnahagslegt gildi þeirra sé hagnýtt til fulls. Þetta er einkum mikilvægt að því er varðar efni sem tekur örum breytingum, (t.d. upplýsingar um umferð), en efnahagsgildi þess byggist á því að upplýsingarnar séu tiltækar þegar í stað og uppfærðar reglulega. Ef upplýsingarnar eru háðar leyfi getur hluti af skilmálum leyfisins verið þess efnis að gögnin séu aðgengileg innan tiltekinna tímamarka.
13)          Hægt er að bæta möguleikana til endurnotkunar með því að takmarka þörfina á að færa gögn sem eru á pappír yfir á stafrænt form eða með því að vinna stafrænar skrár til að þær séu innbyrðis samhæfðar. Því ættu opinberir aðilar að gera gögn aðgengileg á sniði eða tungumáli sem til er, með rafrænum hætti þar sem það er mögulegt og á við. Opinberir aðilar skulu bregðast með jákvæðum hætti við beiðnum um útdrætti úr gögnum sem fyrir eru þegar það felur í sér einungis einfalda aðgerð að verða við slíkri beiðni. Opinberum aðilum ber hins vegar ekki skylda til að gera útdrátt úr skjali þegar slíkt hefur óhóflega fyrirhöfn í för með sér. Til að auðvelda endurnotkun skulu opinberir aðilar gera eigin gögn aðgengileg á sniði sem, eftir því sem mögulegt er og eftir því sem við á, er ekki háð notkun tiltekins hugbúnaðar. Ef unnt er og eftir því sem við á skulu opinberir aðilar taka tillit til möguleika fatlaðra á því að endurnota gögnin og að það sé gert í þeirra þágu.
14)          Ef gjald er tekið fyrir skulu heildartekjurnar ekki vera meiri en sem nemur heildarkostnaðinum við að safna, framleiða, fjölfalda og dreifa gögnunum auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni að teknu tilhlýðilegu tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru til viðkomandi opinbers aðila, þar sem það á við, um að hann standi undir sér fjárhagslega. Framleiðsla felur í sér að búa til gögnin og setja þau saman, og dreifing getur einnig falið í sér stuðning við notendur. Þar eð koma ber í veg fyrir of háa verðlagningu skulu efri mörk gjalds miðast við endurheimt kostnaðar, auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni, í samræmi við gildandi reikningsskilareglur og viðeigandi aðferðir við kostnaðarútreikninga hlutaðeigandi opinberra aðila. Efri mörk gjalda, sem eru sett í þessari tilskipun, eru með fyrirvara um rétt aðildarríkjanna eða opinberra aðila til að innheimta lægri gjöld eða engin gjöld og aðildarríkin skulu hvetja opinbera aðila til að gera gögn aðgengileg gegn gjaldi sem er ekki hærra en lágmarkskostnaður við að fjölfalda gögnin og dreifa þeim.
15)          Ein af forsendunum fyrir þróun upplýsingamarkaðar innan alls Bandalagsins er að tryggja að skilyrði fyrir endurnotkun gagna frá hinu opinbera séu skýr og almenningi aðgengileg. Því skal hugsanlegum endurnotendum gerð skýr grein fyrir öllum gildandi skilyrðum fyrir endurnotkun gagnanna. Í því skyni að stuðla að og greiða fyrir beiðnum um endurnotkun skulu aðildarríkin hvetja til þess að gerðar verði atriðisorðaskrár, sem eru aðgengilegar á Netinu og taka til þeirra gagna sem eru aðgengileg. Umsækjendum um endurnotkun gagna skal gerð grein fyrir þeim leiðum sem þeir hafa til að leggja fram kvartanir varðandi ákvarðanir eða venjur sem hafa áhrif á þá. Þetta er einkum mikilvægt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem óvíst er að þekki til samskipta við opinbera aðila í öðrum aðildarríkjum og leiða þeirra til kvartana.
16)          Birting allra gagna í vörslu hins opinbera sem eru almenningi aðgengileg – sem varða ekki einungis pólítíska ferlið heldur einnig laga- og stjórnsýsluferlið – er grundvallartæki til að víkka út réttinn til þekkingar, sem er ein af grundvallarreglum lýðræðis. Þetta markmið gildir um stofnanir á öllum stjórnsýslustigum, hvort sem er á staðar-, lands- eða alþjóðavísu.
17)          Í sumum tilvikum eru gögn endurnotuð án þess að samið hafi verið um leyfi. Í öðrum tilvikum er leyfi veitt með skilyrðum um endurnotkun sem leyfishafa eru sett og taka til atriða eins og skaðabótaábyrgðar, réttrar notkunar gagnanna sem tryggir að þeim sé ekki breytt og að uppruna þeirra sé getið. Ef opinberir aðilar leyfa að gögn séu endurnotuð skulu skilyrðin fyrir leyfinu vera sanngjörn og gegnsæ. Stöðluð leyfi sem eru aðgengileg á Netinu geta einnig gegnt mikilvægu hlutverki í þessu tilliti. Því skulu aðildarríkin kveða á um að stöðluð leyfi séu tiltæk.
18)          Ef lögbæra yfirvaldið ákveður að tiltekin gögn séu ekki lengur aðgengileg til endurnotkunar eða ákveður að hætta að uppfæra þessi gögn skal það auglýsa þessar ákvarðanir opinberlega, við fyrsta tækifæri, með rafrænum hætti eftir því sem við verður komið.
19)          Skilyrðin fyrir endurnotkun skulu ekki fela í sér mismunun að því er varðar sambærilega flokka endurnotkunar. Þetta skal, t.d. ekki koma í veg fyrir að opinberir aðilar skiptist á upplýsingum án endurgjalds vegna opinberra verkefna, þó svo að gjald sé tekið af öðrum aðilum vegna endurnotkunar sömu gagna. Þetta skal ekki heldur koma í veg fyrir að samþykkt verði aðskilin gjaldtökustefna eftir því hvort endurnotkunin er í atvinnuskyni eða ekki.
20)          Opinberir aðilar skulu virða samkeppnisreglur við setningu meginreglna um endurnotkun gagna og forðast eins og mögulegt er gerð einkaréttarsamninga við einkaaðila. Hins vegar kann einkaréttur á endurnotkun sérstakra gagna frá hinu opinbera stundum að vera nauðsynlegur í því skyni að veita þjónustu sem hefur almenna efnahagslega þýðingu. Þetta getur gilt ef enginn atvinnuútgefandi myndi gefa upplýsingar út án slíks einkaréttar.
21)          Þessi tilskipun skal koma til framkvæmda og henni beitt í fullu samræmi við meginreglurnar um verndun persónuupplýsinga í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 9 ).
22)          Tilskipun þessi hefur ekki áhrif á hugverkarétt þriðju aðila. Til að taka af allan vafa vísar hugtakið „hugverkaréttur“ einungis til höfundaréttar og skyldra réttinda (þ.m.t. vernd sinnar tegundar (sui generis)). Þessi tilskipun gildir ekki um gögn sem falla undir hugverkarétt á sviði iðnaðar, svo sem einkaleyfi, skráða hönnun og vörumerki. Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á hugverkarétt opinberra aðila né eignarhald þeirra á slíkum rétti, né takmarkar hún beitingu þessa réttar á nokkurn hátt út fyrir þau mörk sem þessi tilskipun setur. Skyldurnar sem lagðar eru á með þessari tilskipun skulu einungis gilda að svo miklu leyti sem þær samræmast ákvæðum alþjóðasamninga um hugverkaréttarvernd, einkum Bernarsáttmálans til verndar bókmenntum og listaverkum (Bernarsáttmálans) og samningsins um hugverkarétt í viðskiptum (TRIPS-samningsins). Opinberir aðilar skulu þó beita höfundarrétti sínum þannig að það auðveldi endurnotkun.
23)          Hjálparúrræði fyrir hugsanlega endurnotendur til að finna gögn sem eru aðgengileg til endurnotkunar og skilyrðin fyrir endurnotkun geta auðveldað verulega notkun gagna frá hinu opinbera yfir landamæri. Aðildarríkin skulu því tryggja að hagnýtt fyrirkomulag sé fyrir hendi sem hjálpar endurnotendum í leit sinni að gögnum sem eru aðgengileg til endurnotkunar. Skrá, helst aðgengileg á Netinu, yfir helstu gögn, (gögn sem eru mikið endurnotuð eða hafa möguleika til að vera mikið endurnotuð), og vefgáttir sem eru tengdar við sjálfstæðar skrár yfir gögn eru dæmi um slíkt hagnýtt fyrirkomulag.
24)          Tilskipun þessi er með fyrirvara um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/29/EB frá 22. maí 2001 um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu ( 10 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/9/EB frá 11. mars 1996 um lögverndun gagnagrunna ( 11 ). Hún útskýrir skilyrðin sem gilda um beitingu opinberra aðila á hugverkarétti sínum á innri upplýsingamarkaðnum þegar endurnotkun gagna er leyfð.
25)          Þar eð aðildarríkin geta ekki náð fyrirhuguðu markmiði, þ.e. að greiða fyrir að búnar verði til upplýsingavörur og -þjónusta alls staðar í Bandalaginu sem byggjast á gögnum frá hinu opinbera, að auka skilvirka notkun einkafyrirtækja yfir landamæri á gögnum frá hinu opinbera í upplýsingavörur og þjónustu sem hafa aukið virði og að takmarka röskun á samkeppni á markaði Bandalagsins, og í ljósi þess að umfang og áhrif framangreindrar aðgerðar eru svo samofin Bandalaginu að auðveldara er að ná þessu markmiði á vettvangi Bandalagsins, er Bandalaginu því heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, sbr. 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki lengra en nauðsynlegt er til að þessum markmiðum verði náð. Með tilskipun þessari skal ná fram lágmarkssamræmingu og komast þannig hjá frekara misræmi í meðhöndlun aðildarríkjanna á endurnotuðum gögnum frá hinu opinbera.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
1. gr.
Efni og gildissvið

1.     Í þessari tilskipun eru settar lágmarksreglur um endurnotkun og hagnýtar leiðir til að auðvelda endurnotkun gagna sem til eru og eru í vörslu opinberra aðila í aðildarríkjunum.
2.     Tilskipun þessi gildir ekki um:
a)    gögn ef afhending þeirra er utan við starfssvið hlutaðeigandi opinberra aðila eins og það er skilgreint í lögum eða öðrum bindandi reglum í aðildarríkinu, eða, ef slíkar reglur eru ekki til staðar, eins og það er skilgreint í samræmi við almennar stjórnsýsluvenjur í aðildarríkinu sem um ræðir,
b)    gögn sem þriðju aðilar eiga hugverkarétt á,
c)    gögn sem ekki er aðgangur að samkvæmt fyrirkomulagi um aðgang í aðildarríkjunum, þ.m.t vegna:
    —    verndar þjóðaröryggis (þ.e. öryggis ríkisins), landvarna og almannaöryggis,
    —    trúnaðarkvaða í hagskýrslum eða viðskiptaleyndar,
d)    gögn sem eru í vörslu opinberra útvarpsrekanda og dótturfyrirtækja þeirra eða í vörslu annarra stofnana eða dótturfyrirtækja þeirra sem nota þau til að sinna verkefnum á sviði opinberra útvarpssendinga,
e)    gögn sem eru í vörslu mennta- og rannsóknastofnana, svo sem skóla, háskóla, safna, bókasafna, rannsóknaraðstöðu, þ.m.t., ef við á, stofnunum sem komið er á fót til að yfirfæra rannsóknarniðurstöður,
f)    gögn sem eru í vörslu menningarstofnana, svo sem safna, bókasafna, skjalasafna, hljómsveita, ópera, balletta og leikhúsa.
3.     Tilskipun þessi byggir á og er með fyrirvara um það fyrirkomulag um aðgang sem fyrir er í aðildarríkjunum. Tilskipun þessi gildir ekki í tilvikum þar sem borgarar eða fyrirtæki verða að sýna fram á að þeir hafi sérstakra hagsmuna að gæta samkvæmt fyrirkomulaginu um aðgang til að fá aðgang að gögnunum.
4.     Tilskipun þessi skerðir ekki og hefur á engan hátt áhrif á umfang verndunar einstaklinga með tilliti til vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt ákvæðum laga Bandalagsins og innlendra laga og einkum breytir hún ekki þeim skyldum og réttindum sem sett eru fram í tilskipun 95/46/EB.
5.     Skyldurnar sem lagðar eru á með þessari tilskipun skulu einungis gilda að svo miklu leyti sem þær samræmast ákvæðum alþjóðasamninga um hugverkaréttarvernd, einkum Bernarsáttmálans og TRIPS-samningsins.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.     „opinber aðili“: ríkið, svæðis- eða staðaryfirvöld, stofnanir sem heyra undir opinberan rétt og samtök sem mynduð eru af einu eða fleiri slíkum yfirvöldum eða einni eða fleiri slíkum stofnunum sem heyra undir opinberan rétt,
2.     „stofnun sem heyrir undir opinberan rétt“: allir aðilar sem:
    a)    gegna einungis því hlutverki að fullnægja þörfum almennings en starfa hvorki á sviði iðnaðar né viðskipta, og
    b)    eru lögaðilar, og
    c)    eru reknir að mestu leyti á kostnað ríkisins, svæðis- eða staðaryfirvalda eða annarra stofnana sem heyra undir opinberan rétt eða lúta yfirstjórn þessara aðila, eða ef þeir lúta stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn þar sem meirihluti stjórnarmanna er skipaður af ríkinu, svæðis- eða staðaryfirvöldum eða öðrum stofnunum sem heyra undir opinberan rétt,
3.     „gögn“ eru:
    a)    hvers konar efni, á hvaða miðli sem er (ritað á pappír eða vistað á rafrænu formi, eða sem hljóð eða mynd eða hljóð- og myndmiðlunarefni),
    b)    allir hlutar slíks efnis,
4.     „endurnotkun“: notkun einstaklinga eða lögaðila á gögnum í vörslu opinberra aðila í viðskiptaskyni eða tilgangi sem ekki er viðskiptalegs eðlis, sem er annar en upphaflegur tilgangur hins opinbera með því að búa gögnin til. Skipti á gögnum milli opinberra aðila sem einungis eru til að sinna opinberu starfssviði þeirra er ekki endurnotkun,
5.     „persónuupplýsingar“: gögn sem skilgreind eru í a-lið 2. gr í tilskipun 95/46/EB.

3. gr.
Meginregla

Aðildarríkin skulu tryggja að ef endurnotkun gagna í vörslu opinberra aðila er heimil skal vera hægt að endurnota þessi gögn í viðskiptaskyni eða tilgangi sem ekki er viðskiptalegs eðlis í samræmi við skilyrðin sem sett eru í III. og IV. kafla. Ef unnt er skal gera gögnin aðgengileg með rafrænum hætti.

II. KAFLI
BEIÐNIR UM ENDURNOTKUN
4. gr.
Kröfur sem gilda um afgreiðslu á beiðnum um endurnotkun

1.     Opinberir aðilar skulu afgreiða beiðnir um endurnotkun með rafrænum hætti, ef unnt er og við á, og veita umsækjandanum aðgang að gögnunum til endurnotkunar eða, ef leyfi er nauðsynlegt, ganga frá leyfisskilmálum til umsækjandans innan sanngjarns frests sem er innan þess tímaramma sem mælt er fyrir um til afgreiðslu beiðna um aðgang að gögnum.
2.     Ef ekki hafa verið sett nein tímamörk eða aðrar reglur um afhendingu gagna innan ákveðins tíma skulu opinberir aðilar afgreiða beiðnina og afhenda gögnin umsækjandanum til endurnotkunar eða, ef leyfi er nauðsynlegt, ganga frá leyfistilboði til umsækjandans innan frests sem er ekki lengri en 20 virkir dagar eftir að beiðnin hefur verið móttekin. Heimilt er að framlengja þennan frest um aðra 20 virka daga ef beiðnin er umfangsmikil eða flókin. Í slíkum tilvikum skal tilkynna umsækjandanum innan þriggja vikna eftir að upphaflega beiðnin var lögð fram, að lengri frest þurfi til að afgreiða hana.
3.     Ef beiðni er synjað skulu opinberir aðilar tilkynna umsækjandanum ástæður synjunarinnar á grundvelli viðeigandi ákvæða fyrirkomulagsins um aðgang í því aðildarríki eða innlendra ákvæða sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun, einkum a-, b- eða c-lið 2. mgr. 1. gr. eða 3. gr. Ef synjun er byggð á b-lið 2. mgr. 1. gr. skal opinber aðili láta fylgja tilvísun til einstaklingsins eða lögaðilans sem er rétthafi, ef hann er þekktur, eða að öðrum kosti leyfisveitandans sem opinberi aðilinn fékk viðeigandi efni frá.
4.     Allir neikvæðir úrskurðir skulu innihalda tilvísun í leiðir til kvartana ef umsækjandi skyldi óska eftir því að áfrýja úrskurðinum.
5.     Ekki er krafist að opinberir aðilar sem falla undir d-, e- og f-lið 2. mgr. 1. gr uppfylli kröfur þessarar greinar.

III. KAFLI
SKILYRÐI FYRIR ENDURNOTKUN
5. gr.
Tiltæk snið

1.     Opinberir aðilar skulu gera gögn sín aðgengileg á sniði eða tungumáli sem til er og með rafrænum hætti þar sem það er mögulegt og á við. Þetta skal ekki fela í sér skyldu fyrir opinbera aðila til að búa til eða breyta gögnum í því skyni að uppfylla beiðnina, né skal það fela í sér skyldu til að gera útdrátt úr gögnum þegar slíkt hefur óhóflega fyrirhöfn í för með sér og er meira en bara einföld aðgerð.
2.     Ekki er hægt að krefjast þess á grundvelli þessarar tilskipunar að opinberir aðilar haldi áfram að útbúa tiltekna tegund gagna til endurnotkunar af hálfu aðila í einkageiranum eða hins opinbera.

6. gr.
Meginreglur um gjaldtöku

Ef gjald er tekið skulu heildartekjurnar af því að láta í té og leyfa endurnotkun gagna ekki vera meiri en kostnaðurinn við söfnun, framleiðslu, fjölföldun og dreifingu auk sanngjarns hagnaðarhlutar af fjárfestingunni. Gjöld skulu vera kostnaðartengd á viðkomandi uppgjörstímabili og reiknuð út í samræmi við þær reikningsskilareglur sem gilda um þann opinbera aðila sem málið varðar.

7. gr.
Gagnsæi

Öll skilyrði sem gilda um endurnotkun á gögnum í vörslu opinberra aðila og stöðluð gjöld fyrir hana skulu ákveðin fyrir fram og birt með rafrænum hætti ef unnt er og við á. Ef þess er óskað skal opinber aðili tilgreina grundvöll útreikninga á gjaldinu sem birt er. Hlutaðeigandi opinberir aðilar skulu einnig tilgreina til hvaða þátta er tekið tillit við útreikninga á gjöldum í undantekningartilvikum. Opinberir aðilar skulu tryggja að umsækjendum um endurnotkun gagna sé gerð grein fyrir þeim leiðum sem tiltækar eru til að leggja fram kvartanir varðandi úrskurði eða venjur sem hafa áhrif á þá.

8. gr.
Leyfi

1.     Opinberir aðilar geta heimilað endurnotkun á gögnum án skilyrða eða sett skilyrði, með leyfi ef við á, sem tekur á viðeigandi málefnum. Þessi skilyrði skulu ekki takmarka að óþörfu möguleika á endurnotkun og skulu ekki notuð til að takmarka samkeppni.
2.     Í aðildarríkjum þar sem leyfi eru notuð skulu aðildarríkin tryggja að stöðluð leyfi fyrir endurnotkun gagna frá hinu opinbera, sem hægt er að breyta fyrir sérstakar umsóknir um leyfi, séu aðgengileg á stafrænu sniði og að þær sé hægt að afgreiða með rafrænum hætti. Aðildarríkin skulu hvetja alla opinbera aðila til að nota stöðluð leyfi.

9. gr.
Hagnýtt fyrirkomulag

Aðildarríkin skulu tryggja að hagnýtt fyrirkomulag sé fyrir hendi sem auðveldar leit að gögnum sem eru aðgengileg til endurnotkunar, svo sem skrár yfir helstu gögn, helst aðgengilegar á Netinu, og vefgáttir sem eru tengdar við sjálfstæðar skrár.

IV. KAFLI
BANN VIÐ MISMUNUN OG GÓÐIR VIÐSKIPTAHÆTTIR
10. gr.
Bann við mismunun

1.     Öll gildandi skilyrði fyrir endurnotkun skulu vera án mismununar að því er varðar sambærilega flokka endurnotkunar.
2.     Ef opinber aðili endurnotar gögn sem ílag til viðskiptastarfsemi sinnar, sem fellur utan við opinbert starfssvið hans, skulu sömu gjöld og önnur skilyrði gilda um afhendingu gagnanna til þeirrar starfsemi og gilda um aðra notendur.

11. gr.
Bann við einkanytjafyrirkomulagi

1.     Endurnotkun gagna skal vera opin öllum hugsanlegum aðilum á markaðnum jafnvel þó einn eða fleiri markaðsaðilar hagnýti nú þegar vörur, sem hafa aukið virði, sem byggja á þessum gögnum. Samningar eða annað fyrirkomulag milli opinbers aðila sem er með gögnin í vörslu sinni og þriðju aðila skal ekki veita einkarétt.
2.     Ef einkaréttur er hins vegar nauðsynlegur til að veita þjónustu í þágu almennings skal réttmæti ástæðunnar til að veita slíkan einkarétt vera háð reglulegri endurskoðun og skal a.m.k. endurskoðuð á þriggja ára fresti. Einkanytjafyrirkomulag sem komið er á fót eftir að tilskipun þessi tekur gildi skal vera gagnsætt og birt opinberlega.
3.     Einkanytjafyrirkomulagi, sem uppfyllir ekki skilyrðið um undantekningu skv. 2. mgr., skal slitið í lok samningsins eða eigi síðar en 31. desember 2008.

V. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
12. gr.
Framkvæmd

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. júlí 2005. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

13. gr.
Endurskoðun

1.     Framkvæmdastjórnin skal láta fara fram endurskoðun á beitingu þessarar tilskipunar fyrir 1. júlí 2008 og skal tilkynna Evrópuþinginu og ráðinu um niðurstöður þessarar endurskoðunar ásamt tillögum um breytingar á tilskipuninni.
2.     Endurskoðunin skal einkum taka til gildissviðs og áhrifa þessarar tilskipunar, þ.m.t. aukningar á endurnotkun gagna frá hinu opinbera, áhrifa meginreglnanna sem gilda um gjaldtöku og endurnotkunar opinberra laga- og stjórnsýslutexta, sem og frekari möguleika á að bæta eðlilega starfsemi innri markaðarins og þróunar evrópsks efnisiðnaðar.

14. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

15. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Brussel 17. nóvember 2003.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX G. ALEMANNO
forseti. forseti.

Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á upplýsingalögum, nr. 50/1996.

    Í frumvarpinu er lagt til að lögleidd verði ákvæði um endurnot opinberra upplýsinga. Frumvarpið er byggt á tilskipun Evrópusambandsins um endurnot opinberra upplýsinga þótt í því sé lagt til að gengið sé lengra í að þrengja gjaldtökuheimildir af upplýsingum úr opinberum skrám og af höfundarétti ríkisins á þessum upplýsingum en í tilskipuninni.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins verður stjórnvöldum skylt, með ýmsum takmörkunum þó, að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál. Stjórnvöld ákveða hvort gögn, sem heimilt er að veita aðgang að, skuli sýnd eða veitt af þeim ljósrit eða afrit. Í þeim tilvikum sem stjórnvald ljósritar eða afritar gögn og lætur einkaaðila í té ber að taka gjald samkvæmt gjaldskrá sem forsætisráðherra ákveður. Vakin er athygli á að í lögum um aukatekjur ríkissjóðs er einnig kveðið á um gjaldtöku fyrir ljósritun, endurritun eða eftirgerð upplýsinga á pappír ásamt hljóð- og myndupptökum. Fjármálaráðuneytið telur að traustar gjaldtökuheimildir séu þegar fyrir hendi þannig að 4. gr. hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði hún lögfest en að gæta þurfi að samræmi í gjaldtöku.
    Í 5. gr. frumvarpsins er kafli um endurnot opinberra upplýsinga þar sem lagt er til að einkaaðilar geti fengið upplýsingar sem stjórnvöld hafa aflað til að nota þær í öðrum tilgangi en hið opinbera gerir. Stjórnvöld meta hvort heimilt er að endurnota upplýsingar og geta sett ýmis skilyrði um meðferð og notkun þeirra. Í frumvarpinu er kveðið á um málsmeðferð vegna aðgangs að upplýsingum m.a. um afgreiðslufresti, rökstuðning, áskilnað um leyfisskyldu, gerð samninga og upplýsingagjöf á vefsíðum. Gera má ráð fyrir að opinberir aðilar þurfi að taka á sig minni háttar stjórnsýslukostnað vegna þessa en ekki eru forsendur til að áætla fjárhæðir í því sambandi.
    Sé heimilað að endurnota upplýsingar er samkvæmt athugasemdum með frumvarpinu val um að taka gjald fyrir ljósritun og afritun samkvæmt fyrrnefndri gjaldskrá forsætisráðherra eða ekki. Hins vegar verður óheimilt að taka gjald fyrir söfnun upplýsinga í opinberum tilgangi og fyrir höfundarétt opinberra aðila á upplýsingum, nema kveðið sé sérstaklega á um slíkt í sérlögum. Miðlun upplýsinga á milli stjórnvalda í þágu starfs þeirra telst ekki til endurnota í skilningi frumvarpsins. Hugtakið stjórnvald er skilgreint mun víðtækara í 5. gr. en í 4. gr. frumvarpsins og nær til velflestra aðila sem starfa á vegum hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga. Undanþága er veitt fyrir skóla, rannsóknastofnanir og menningarstofnanir þótt hlutaðeigandi ráðherra verði heimilað að fella starfsemi stofnana á þessu sviði undir kaflann í heild eða að hluta til. Frumvarpið veitir takmarkaðar leiðbeiningar um flokkun aðila sem njóta undanþágu frá ákvæðum kaflans. Í athugasemdum eru nefnd dæmi um flokkun stofnana sem stunda rannsóknir án þess að fram komi hvaða munur er á stofnunum í hvorum flokki og að Iðntæknistofnun Íslands, Veiðimálastofnun, Orkustofnun og Íslenskar orkurannsóknir falli ekki undir kaflann en það geri Landmælingar Íslands, Náttúrfræðistofnun Íslands og Veðurstofa Íslands. Óskýrar flokkunarreglur valda ákveðnum vanda við kostnaðarmat frumvarpsins.
    Í skýrslu nefndar fjármálaráðherra um mótun almennrar stefnu um verðlagningu fyrir notkun opinberra upplýsinga, sem kom út í desember 2002 og heitir Verðlagning opinberra upplýsinga, er gerð grein fyrir mati nefndarinnar á áhrifum þess að setja almenna verðlagningarstefnu. Haft var samband við 40 stofnanir í þessu sambandi og eftirfarandi fjórar skoðaðar sérstaklega: Hagstofa Íslands, sem hafði árið 2002 um 75 m.kr. tekjur af aðgangi að þjóðskrá og 16 m.kr. af aðgangi að fyrirtækjaskrá, Fasteignamat ríkisins sem hafði nálægt 20 m.kr. tekjur frá einkaaðilum af upplýsingum úr Landskrá fasteigna en liðlega 100 m.kr. frá stjórnvöldum í skilningi 5. gr. þessa frumvarps, Skráningarstofan hf. sem hafði 28 m.kr. tekjur af sölu upplýsinga og Landmælingar Íslands sem var með 11 m.kr. tekjur af sölu upplýsinga árið 2002. Samtals gerir þetta 150 m.kr. í tekjur af sölu upplýsinga til einkaaðila. Í skýrslunni er sérstakur kafli um mat á kostnaði við breytta verðlagningarstefnu og það sagt afar flókið. Fram kemur að flestir forstöðumenn stofnana sem haft hafði verið samband við hafi talið að breytt stefna hefði engin áhrif á stofnunina, nema þá helst að sumir töldu sig geta krafist hærra verðs fyrir upplýsingar sem voru til sölu. Eingöngu forstöðumenn Landmælinga og Fasteignamats töldu tekjur lækka.
    Fjármálaráðuneytið hefur við gerð þessarar kostnaðarumsagnar ekki betri upplýsingar að byggja á og gengur út frá því að tekjur sem ríkisstofnanir hafa aflað sér með sölu upplýsinga séu annaðhvort innheimtar í samræmi við lagaheimild í sérlögum og flokkast því sem ríkistekjur samkvæmt lögum nr. 88/1997, um fjárreiður ríkisins, eða sem sértekjur sem stofnanir afla á markaðslegum forsendum, sem færast til lækkunar á gjöldum hlutaðeigandi stofnana og hafa ekki áhrif á fjárveitingar þeirra eða útgjöld ríkissjóðs eins og þau eru skilgreind í fjárlögunum. Á þessari forsendu telur fjármálaráðuneytið að frumvarpið hafi óveruleg áhrif á útgjöld ríkisins.
Neðanmálsgrein: 1
    1 Ríkisstjórn Íslands. Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið. Október 1996.
Neðanmálsgrein: 2
    2 Ríkisstjórn Íslands. Íslenska upplýsingasamfélagið: Álitsgerð starfshópa. Október 1996 og skipunarbréf nefndarinnar dagsett 6. febrúar 2001.
Neðanmálsgrein: 3
    3 Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli ákæruvaldsins gegn tveimur vísindamönnum við Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá (sakamál nr. 239/1992, dags. 17. febrúar 1993) reyndi á hvort stofnunin eða starfsmennirnir ættu rannsóknargögn sem hinir síðarnefndu tóku með sér í mótmælaskyni við flutning stofnunarinnar austur á land. Í forsendum dómsins kom fram að sýkna byggðist á því að ekki yrði loku skotið fyrir það að stofnunin og starfsmennirnir væru sameigendur gagnanna. Varð því ekki sannað að um heimildarlaust brottnám gagna í eigu ríkisstofnunar væri að ræða.
Neðanmálsgrein: 4
    4 Samkvæmt dómafordæmum frá Danmörku og Bandaríkjum Norður-Ameríku gátu blaðamenn fengið lagt lögbann við endurbirtingu frétta á vefútgáfu dagblaðs sem voru upphaflega skrifaðar fyrir prentaða útgáfu blaðsins. Í dómunum var fallist á að þrátt fyrir ráðningarsamband milli útgefenda og blaðamanna yrði höfundaréttur þeirra virkur þegar um væri að ræða nýja tegund birtingar og því ættu þeir rétt til sérstakrar greiðslu fyrir þá notkun.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. EB C 227 E, 24.9.2002, bls. 382.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. EB C 85, 8.4.2003, bls. 25.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. EB C 73, 26.3.2003, bls. 38.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 12. febrúar 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB), sameiginleg afstaða ráðsins frá 26. maí 2003 (Stjtíð. B C 159 E, 8.7.2003, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 25. september 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Ákvörðun ráðsins frá 27. október 2003.
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. EB L 209, 24.7.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB (Stjtíð. EB L 285, 29.10.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB.
Neðanmálsgrein: 11
(7)    Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 54. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB.
Neðanmálsgrein: 12
(8)    Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(9)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 14
(10)    Stjtíð. EB L 167, 22.6.2001, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 15
(11)    Stjtíð. EB L 77, 27.3.1996, bls. 20.