Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 349. máls.

Þskj. 378  —  349. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2005, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2005 frá 29. apríl 2005, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB frá 21. apríl 2004 um yfirtökutilboð.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 70/2005 frá 29. apríl 2005, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB frá 21. apríl 2004 um yfirtökutilboð.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar gerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB frá 21. apríl 2004 um yfirtökutilboð.
    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB miðar að því að samræma og styrkja reglur um yfirtökutilboð í Evrópu og tryggja jafna meðferð og aukin réttindi hluthafa í yfirtökum. Í tilskipuninni, sem nær til félaga sem fengið hafa skráningu fyrir einn eða fleiri flokka hlutabréfa á skipulagðan verðbréfamarkað, eru sett lágmarksskilyrði sem ná bæði til skyldubundinna tilboða og almennra valfrjálsra tilboða, en aðildarríkjum er heimilt að setja fleiri skilyrði og strangari ákvæði en kveðið er á um í tilskipuninni.
    Í tilskipuninni er kveðið á um tilboðsskyldu aðila sem nær yfirráðum í félagi, en með tilboðsskyldu er átt við að aðila sem nær yfirráðum í félagi er skylt að gera öðrum hluthöfum félagsins tilboð um að kaupa hluti þeirra í félaginu. Sérstaklega er skilgreint að tilboðsskylda geti myndast vegna samstarfs milli aðila. Einnig er sett skilyrði um lágmarksverð í tilboði og greiðslumáta, sem og um upplýsingagjöf tilboðsgjafa um tilboð.
    Í tilskipuninni er einnig kveðið á um skyldur stjórnar í félagi sem tilboð tekur til. Stjórnin skal hafa hagsmuni félagsins sjálfs að leiðarljósi í öllum gerðum sínum og má ekki neita hluthöfum félagsins um tækifæri til að taka ákvörðun um tilboðið. Stjórninni er óheimilt að taka ákvarðanir sem haft geta áhrif á tilboðið nema að fengnu fyrirframsamþykki hluthafafundar. Stjórn félags sem tilboð tekur til skal einnig semja og gera opinbera sérstaka greinargerð þar sem fram kemur rökstutt álit stjórnarinnar á tilboðinu og skilmálum þess. Í greinargerðinni skal einnig fjallað um álit stjórnarinnar á framtíðaráformum tilboðsgjafa og hvaða áhrif hún telji að tilboðið geti haft á hagsmuni félagsins, störf stjórnenda og starfsmanna þess, sem og staðsetningu starfsstöðva félags.
    Loks er í tilskipuninni kveðið á um að setja skuli reglur um samkeppnistilboð, breytingar á tilboði og afturköllun tilboðs, sem og um upplýsingaskyldu tilboðsgjafa varðandi niðurstöður tilboðs.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 70/2005

frá 29. apríl 2005

um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        XXII. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 176/2004 frá 3. desember 2004 ( 1 ).

2)        Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB frá 21. apríl 2004 um yfirtökutilboð ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 10c (reglugerð ráðsins (EB) nr. 1435/2003) í XXII. viðauka við samninginn:

„10d.     32004 L 0025: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/25/EB frá 21. apríl 2004 um yfirtökutilboð (Stjtíð. ESB L 142, 30.4.2004, bls. 12).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2004/25/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 30. apríl 2005 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.


Gjört í Brussel 29. apríl 2005.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    R. Wright


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2004/25/EB
frá 21. apríl 2004
um yfirtökutilboð
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 44. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í samræmi við g-lið 2. mgr. 44. gr. sáttmálans er nauðsynlegt að samræma tilteknar verndarráðstafanir sem aðildarríkin krefjast af félögum, sem heyra undir lög aðildarríkis og hafa skráð verðbréf sín á skipulegum markaði í aðildarríki, með það í huga að gera slíkar verndarráðstafanir sambærilegar í öllu Bandalaginu til verndar hagsmunum hluthafa og þriðju aðila.
2)          Nauðsynlegt er að vernda hagsmuni eigenda verðbréfa í félögum, sem heyra undir lög aðildarríkis, þegar yfirtökutilboð er gert í þau félög eða breytingar verða á yfirráðum þeirra og a.m.k. hluti verðbréfa þeirra hefur verið skráður á skipulegum markaði í aðildarríki.
3)          Nauðsynlegt er að skýrleiki og gagnsæi ríki innan alls Bandalagsins að því er varðar lögfræðileg álitaefni sem leysa þarf úr vegna yfirtökutilboða og til að koma í veg fyrir að handahófskenndur mismunur á stjórnunarháttum og stjórnunarmenningu raski umgerð fyrir endurskipulagningu fyrirtækja innan Bandalagsins.
4)          Með tilliti til þess að seðlabankar aðildarríkjanna þjóna hagsmunum almennings virðist óhugsandi að gert verði yfirtökutilboð í þá. Þar eð verðbréf nokkurra þessara seðlabanka eru af sögulegum ástæðum skráð á skipulegum mörkuðum í aðildarríkjunum er nauðsynlegt að undanskilja þá sérstaklega gildissviði þessarar tilskipunar.
5)          Hvert aðildarríki skal tilnefna yfirvald eða yfirvöld sem skulu hafa eftirlit með þeim þáttum tilboðsgerðar, sem falla undir þessa tilskipun, og sjá til þess að aðilar að yfirtökutilboðum fylgi þeim reglum sem settar eru samkvæmt tilskipun þessari. Öll þessi yfirvöld skulu hafa samvinnu sín í milli.
6)          Til að reglur um yfirtöku skili árangri þurfa þær að vera sveigjanlegar og geta tekið til nýrra aðstæðna eftir því sem þær koma upp og skulu, í samræmi við það, kveða á um hugsanlegar undantekningar og undanþágur. Við beitingu reglna eða undantekninga, sem mælt er fyrir um, eða veitingu undanþágna skulu eftirlitsyfirvöld þó virða tilteknar meginreglur.
7)          Sjálfseftirlitsstofnanir skulu hafa getu til að annast eftirlit.
8)          Í samræmi við almennar meginreglur laga Bandalagsins, einkum réttinn á réttlátri dómsmeðferð, skal við tilteknar aðstæður vera unnt að skjóta ákvörðunum eftirlitsyfirvalds til sjálfstæðs dómstóls til endurskoðunar. Það skal þó vera á valdi aðildarríkja að ákvarða hvort réttindi skuli vera fyrir hendi sem unnt er að halda fram í stjórnsýslulegum málarekstri eða dómsmáli, annaðhvort í málsmeðferð gegn eftirlitsyfirvaldi eða í málsmeðferð milli aðila að tilboði.
9)          Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda eigendur verðbréfa, einkum þá sem eru í minnihluta, þegar yfirráð yfir félögum þeirra færast á annarra hendur. Aðildarríkin skulu tryggja slíka vernd með því að skylda aðilann, sem hefur náð yfirráðum yfir félagi, að gera öllum eigendum verðbréfa félagsins tilboð í allan eignarhlut þeirra á sanngjörnu verði í samræmi við sameiginlega skilgreiningu. Aðildarríkjum skal vera frjálst að stofna til nýrra lagagerninga til að vernda hagsmuni eigenda verðbréfa, s.s. koma á skyldu til að gera hlutatilboð þegar tilboðsgjafi öðlast ekki yfirráð yfir félaginu eða skyldu til að tilkynna um tilboð um leið og yfirráðum yfir félagi er náð.
10)          Skyldan, að gera öllum eigendum verðbréfa tilboð, skal ekki gilda um þá sem hafa þegar yfirráð yfir ráðandi hlut þegar innlend löggjöf, sem lögleiðir þessa tilskipun, tekur gildi.
11)          Skyldan, að setja fram tilboð, skal ekki gilda þegar um er að ræða yfirtöku á verðbréfum sem ekki fylgir atkvæðisréttur á venjulegum, almennum hluthafafundum. Aðildarríki skulu þó geta kveðið á um að sú skylda að gera öllum eigendum verðbréfa tilboð eigi ekki einungis við um verðbréf sem bera atkvæðisrétt heldur einnig verðbréf sem bera atkvæðisrétt einvörðungu við sérstakar aðstæður eða sem bera ekki atkvæðisrétt.
12)          Til að draga úr hættu á innherjaviðskiptum skal þess krafist að tilboðsgjafi tilkynni ákvörðun sína um að gera tilboð eins fljótt og unnt er og tilkynni eftirlitsyfirvaldinu um tilboðið.
13)          Eigendum verðbréfa skulu veittar upplýsingar um skilmála tilboðsins í tilboðsyfirliti. Einnig skal veita fulltrúum starfsmanna félagsins viðeigandi upplýsingar eða, ef það er ekki gert, starfsmönnunum beint.
14)          Setja skal reglur um frest til að samþykkja tilboð.
15)          Til að eftirlitsyfirvöld geti sinnt hlutverki sínu með fullnægjandi hætti skal þeim hvenær sem er vera heimilt að krefjast þess af aðilum að tilboði að þeir leggi fram upplýsingar um sig og skulu þeir sýna samstarfsvilja og veita öðrum eftirlitsyfirvöldum á fjármagnsmarkaði án tafar upplýsingar á skilvirkan og árangursríkan hátt.
16)          Til að hindra aðgerðir em gæti komið í veg fyrir tilboð skal takmarka vald stjórnar félags, sem tilboð er gert í, til að taka þátt í starfsemi sem er í eðli sínu óvenjuleg, án þess þó að félagið, sem tilboð er gert í, sé hindrað á ótilhlýðilegan hátt í að sinna eðlilegri viðskiptastarfsemi sinni.
17)          Stjórn félags, sem tilboð er gert í, skal gert að gera opinbert skjal þar sem fram kemur álit hennar á tilboðinu og þau rök sem það álit byggist á, m.a. skoðun hennar á áhrifum þessarar framkvæmdar á heildarhagsmuni félagsins, einkum á störf starfsmanna.
18)          Til að efla gagnleg áhrif af þeim ákvæðum, sem fyrir eru og varða frjálsa verslun með verðbréf félaga, sem falla undir þessa tilskipun, og frelsið til að nýta atkvæðisréttinn, er nauðsynlegt að sú varnaruppbygging og -ráðstafanir, sem eru fyrirhuguð hjá þessum félögum, séu gagnsæ og kynnt með reglubundnum hætti í skýrslum til almennra hluthafafunda.
19)          Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gefa tilboðsgjafa færi á að kaupa meirihluta í öðrum félögum og fara með full yfirráð yfir þeim. Til þess að svo megi verða skal afnema eða fresta takmörkunum á framsali verðbréfa, takmörkunum á atkvæðisrétti, sérstökum rétti til tilnefningar stjórnarmanna og auknum atkvæðisrétti meðan frestur til að samþykkja tilboð varir sem og ef almennur hluthafafundur tekur ákvörðun um varnaraðgerðir, breytingar á samþykktum félagsins eða brottvikningu eða tilnefningu stjórnarmanna á fyrsta almenna hluthafafundinum eftir að tilboðsfrestir rennur út. Ef eigendur verðbréfa verða fyrir tjóni vegna afnáms réttinda skal veita þeim sanngjarnar bætur í samræmi við það tæknilega fyrirkomulag sem aðildarríkin hafa mælt fyrir um.
20)          Sérstök réttindi, sem aðildarríki fara með í félögum, skal skoða innan rammans um frjálsa fjármagnsflutninga og viðeigandi ákvæða sáttmálans. Sérstök réttindi sem aðildarríki fara með í félögum, sem kveðið er á um í einkamálarétti eða opinberum landslögum, skulu vera undanþegin ógildingarreglunni („breakthrough“ rule) ef þau samrýmast sáttmálanum.
21)          Með hliðsjón af þeim mismun sem er fyrir hendi á tilhögun og uppbyggingu félagaréttar í aðildarríkjunum, skal aðildarríkjum heimilt að gera ekki kröfu um að félög, sem stofnuð eru á yfirráðasvæði þeirra, beiti ákvæðum þessarar tilskipunar til takmörkunar á valdi stjórnar félagsins, sem tilboðið tekur til, meðan frestur til að samþykkja tilboð varir og þeim ákvæðum sem gera óskilvirkar þær hindranir sem kveðið er á um í stofnsamþykktum eða í sérstöku samkomulagi. Í því tilviki skulu aðildarríkin í það minnsta gefa félögum, sem stofnuð eru á yfirráðasvæði þeirra, kost á að velja hvort þau beita ákvæðunum og skal valið vera afturkræft. Með fyrirvara um alþjóðlega samninga, sem Evrópubandalagið er aðili að, ber að heimila aðildarríkjunum að gera ekki kröfu um að félög, sem beita þessum ákvæðum í samræmi við valfrjálst fyrirkomulag, beiti þeim þegar fyrirtæki, sem beita ekki ákvæðunum, í samræmi við valfrjálsa fyrirkomulagið, gera tilboð í þau.
22)          Aðildarríki skulu mæla fyrir um reglur um möguleikann á að tilboð falli úr gildi, rétt tilboðsgjafa til að endurskoða tilboð sitt, möguleikann á samkeppnistilboðum í verðbréf félags, upplýsingagjöf um niðurstöður tilboðs, um að tilboð sé óafturkallanlegt og um þau skilyrði sem heimiluð eru.
23)          Upplýsingamiðlun til fulltrúa starfsmanna tilboðsgjafa og félagsins, sem tilboð er gert í, og samráð við þá skal ráðast af viðeigandi innlendum ákvæðum, einkum þeim sem samþykkt voru samkvæmt tilskipun ráðsins 94/45/EB frá 22. september 1994 um stofnun evrópsks samstarfsráðs eða samþykkt reglna í fyrirtækjum og fyrirtækjahópum er starfa á Bandalagsvísu varðandi upplýsingamiðlun og samráð við starfsmenn ( 4 ), tilskipun ráðsins 98/59/EB frá 20. júlí 1998 um samræmingu laga aðildarríkjanna um hópuppsagnir ( 5 ), tilskipun ráðsins 2001/86/EB frá 8. október 2001 um viðbætur við samþykktir fyrir Evrópufélög að því er varðar aðild starfsmanna ( 6 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/14/EB frá 11. mars 2002 um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins – sameiginleg yfirlýsing Evrópuþingsins, ráðsins og framkvæmdastjórnarinnar um fyrirsvar starfsmanna ( 7 ). Starfsmönnum viðkomandi félaga eða fulltrúum þeirra skal engu að síður gefið tækifæri til að koma á framfæri viðhorfum sín um fyrirsjáanleg áhrif tilboðsins á störf starfsmanna. Með fyrirvara um reglur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik) ( 8 ) geta aðildarríkin alltaf beitt innlendum ákvæðum eða sett innlend ákvæði um miðlun upplýsinga til fulltrúa starfsmanna tilboðsgjafans og samráð við þá áður en tilboð er gert.
24)          Aðildarríki skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera tilboðsgjafa, sem í kjölfar yfirtökutilboðs hefur eignast tiltekið hlutfall af hlutafé sem ber atkvæðisrétt í félagi, kleift að fara fram á að eigendur eftirstandandi verðbréfa selji honum verðbréf sín. Á sama hátt skulu eigendur eftirstandandi verðbréfa geta gert kröfu um að tilboðsgjafi kaupi verðbréf þeirra ef hann hefur, í kjölfar yfirtökutilboðs, eignast tiltekið hlutfall af hlutafé með atkvæðisrétti í félagi. Þessar aðferðir um innlausnarrétt (e. squeeze-out) og tilboðsskyldu (e. sell-out) skulu því aðeins eiga við að yfirtökutilboð séu háð sérstökum skilyrðum. Aðildarríki geta haldið áfram að beita innlendum reglum um aðferðir að því er varðar innlausnarrétt og tilboðsskyldu við aðrar aðstæður.
25)          Þar sem aðildarríkin geta ekki svo vel sé náð markmiðum fyrirhugaðrar aðgerðar, þ.e. að setja lágmarksreglur um framkvæmd yfirtökutilboða og tryggja eigendum verðbréfa í öllu Bandalaginu fullnægjandi vernd, vegna þess að þörf er á gagnsæi og réttaröryggi, þegar um er að ræða yfirtökur og yfirráð yfir landamæri og vegna umfangs og áhrifa aðgerðarinnar, verður þeim því betur náð á vettvangi Bandalagsins sem getur samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna, eins og kveðið er á um í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná markmiðunum.
26)          Samþykkt tilskipunar er viðeigandi málsmeðferð til að setja ramma með tilteknum, almennum meginreglum og takmörkuðum fjölda almennra krafna sem aðildarríki skulu koma í framkvæmd með ítarlegri reglum í samræmi við innlend kerfi sín og menningarlegar aðstæður.
27)          Aðildarríki skulu þó kveða á um viðurlög við brotum gegn innlendum ráðstöfunum sem leiða í lög þessa tilskipun.
28)          Öðru hverju kann að vera nauðsynlegt að semja tæknilegar leiðbeiningar og gera framkvæmdarráðstafanir vegna þeirra reglna sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun með hliðsjón af breyttum starfsháttum á fjármálamörkuðum. Til samræmis við það skal framkvæmdastjórnin hafa vald til að samþykkja framkvæmdarráðstafanir, að því tilskildu að þær breyti ekki tilskipun þessari í grundvallaratriðum og að framkvæmdastjórnin fari eftir þeim meginreglum sem settar eru fram í þessari tilskipun, að höfðu samráði við evrópsku verðbréfanefndina sem komið var á fót með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/528/EB ( 9 ). Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til að hrinda þessari tilskipun í framkvæmd í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 10 ) og taka skal tilhlýðilegt tillit til yfirlýsingar framkvæmdastjórnarinnar á Evrópuþinginu 5. febrúar 2002 um framkvæmd löggjafar um fjármálaþjónustu. Að því er varðar önnur ákvæði er mikilvægt að fela tengslanefnd það verkefni að aðstoða aðildarríki og eftirlitsyfirvöld við framkvæmd þessarar tilskipunar og vera framkvæmdastjórninni til ráðgjafar, ef þörf krefur, um viðbætur eða breytingar á þessari tilskipun. Við það verk getur tengslanefndin stuðst við upplýsingarnar sem aðildarríki eiga, samkvæmt þessari tilskipun, að veita um yfirtökutilboð sem hafa verið gerð á skipulegum mörkuðum þeirra.
29)          Framkvæmdastjórnin skal greiða fyrir þróun sanngjarnrar og samstilltrar samræmingar reglna um yfirtökutilboð í Evrópusambandinu. Í þessu skyni skal framkvæmdastjórninni vera kleift að leggja fram tillögur um tímabæra endurskoðun á þessari tilskipun.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Gildissvið.

1.     Í þessari tilskipun er mælt fyrir um ráðstafanir til að samræma lög, reglur, stjórnsýsluaðgerðir, starfsreglur og annað fyrirkomulag í aðildarríkjunum, þ.m.t. fyrirkomulag sem stofnanir með opinbert leyfi til að setja reglur um markaðina (hér á eftir nefndar „reglur“) hafa komið á í tengslum við yfirtökutilboð á verðbréfum félaga sem heyra undir lög aðildarríkja þar sem öll eða nokkur þessara verðbréfa hafa verið skráð á skipulegum markaði í skilningi reglugerðar 93/22/EBE ( 11 ) í einu eða fleiri aðildarríkjum (hér á eftir nefndur „skipulegur markaður“).
2.     Þessi tilskipun skal ekki gilda um yfirtökutilboð í verðbréf félaga sem hafa að markmiði sameiginlega fjárfestingu fjár, sem almenningur hefur lagt fram, starfa á grundvelli meginreglunnar um áhættudreifingu og hlutir í þeim eru beint eða óbeint endurkeyptir eða innleystir, að ósk eigenda, í eignum þessara félaga. Aðgerðir, sem slík félög grípa til í því skyni að tryggja að verð hluta þeirra í kauphöll sé ekki verulega frábrugðið bókfærðu verði þeirra, teljast jafngilda slíkum endurkaupum eða innlausnum.
3.     Þessi tilskipun gildir ekki um yfirtökutilboð á verðbréfum sem seðlabankar aðildarríkjanna gefa út.

2. gr.

Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „yfirtökutilboð“ eða „tilboð“: opinbert tilboð (annað en það sem félagið, sem tilboðið tekur til, gerir sjálft), sem gert er eigendum verðbréfa félags, um að kaupa öll eða nokkur þessara verðbréfa, hvort sem það er skylduboðið eða valfrjálst, og kemur í kjölfar eða hefur að markmiði að ná yfirráðum yfir félaginu, sem tilboðið tekur til, í samræmi við landslög,
b)    „félag sem tilboð tekur til“: félagið, sem verðbréfin, sem gert er tilboð í, teljast til,
c)    „tilboðsgjafi“: einstaklingur eða lögaðili, sem heyrir undir opinberan rétt eða einkarétt, sem gerir tilboð,
d)    „aðilar í samstarfi“: einstaklingar eða lögaðilar sem eru í samstarfi við tilboðsgjafa eða félagið, sem tilboðið tekur til, á grundvelli samkomulags, annaðhvort sérstaks eða þegjandi, munnlegs eða skriflegs, sem miðar annaðhvort að því að ná yfirráðum yfir félaginu, sem tilboðið tekur til, eða koma í veg fyrir að yfirtökutilboð beri tilætlaðan árangur,
e)    „verðbréf“: framseljanleg verðbréf sem bera atkvæðisrétt í félagi,
f)    „aðilar að tilboði“: tilboðsgjafi, aðilar í stjórn tilboðsgjafa ef tilboðsgjafi er félag, félagið, sem tilboðið tekur til, eigendur verðbréfa í félaginu, sem tilboðið tekur til, og aðilar í stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, eða aðilar í samstarfi við slíka aðila,
g)    „verðbréf með auknum atkvæðisrétti“: verðbréf sem eru í sérstökum og aðgreindum flokki og hafa meira en eitt atkvæði hvert.
2.     Að því er varðar d-lið 1. mgr. skulu aðilar, sem eru undir yfirráðum annars aðila í skilningi 87. gr. tilskipunar 2001/34/EB ( 12 ), teljast vera aðilar í samstarfi við hinn aðilann og hvor við annan.

3. gr.
Meginreglur

1.     Að því er varðar framkvæmd þessarar tilskipunar skulu aðildarríki sjá til þess að farið sé að eftirfarandi meginreglum:
a)    allir eigendur verðbréfa sama flokks í félaginu, sem tilboðið tekur til, verða að hljóta jafna meðferð; ef aðili öðlast yfirráð yfir félagi verður jafnframt að vernda aðra eigendur verðbréfa,
b)    eigendur verðbréfa í félaginu, sem tilboðið tekur til, verða að fá nægilegan tíma og upplýsingar til að þeir geti tekið upplýsta ákvörðun um tilboðið; þegar stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, veitir eigendum verðbréfa ráðgjöf verður hún að gefa álit sitt á áhrifum tilboðsins á störf starfsmanna, ráðningarkjör og staðsetningu starfsstöðva félagsins,
c)    stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, verður að starfa í þágu félagsins sem heildar og má ekki neita að gefa eigendum verðbréfa færi á að meta kosti tilboðsins,
d)    ekki er leyfilegt að mynda falska markaði fyrir verðbréf félagsins, sem tilboðið tekur til, félags tilboðsgjafa eða neins annars félags, sem á hlut að tilboðinu, þannig að hækkun eða lækkun á verði verðbréfanna verði óeðlileg og raski eðlilegri starfsemi markaðanna,
e)    tilboðsgjafi má því aðeins tilkynna um yfirtökutilboð að hann hafi áður tryggt að hann geti að fullu staðið við hvers konar endurgjald í reiðufé, ef það er boðið, og eftir að hann hefur gert allar sanngjarnar ráðstafanir til að tryggja greiðslu á hvers konar öðru endurgjaldi,
f)    tilboð í verðbréf félags má ekki hindra rekstur þess lengur en sanngjarnt er.
2.     Í því skyni að tryggja að farið sé að meginreglunum í 1. mgr.:
a)    skulu aðildarríkin sjá til þess að farið sé að lágmarkskröfum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun,
b)    geta aðildarríkin mælt fyrir um strangari viðbótarskilyrði og -ákvæði í reglum um yfirtökutilboð en eru í þessari tilskipun.

4. gr.
Eftirlitsyfirvald og gildandi lög

1.     Aðildarríki skulu tilnefna yfirvald eða yfirvöld sem eru til þess bær að hafa eftirlit með yfirtökutilboðum að því er varðar þær reglur sem þau setja eða taka upp samkvæmt þessari tilskipun. Yfirvöldin, sem þannig eru tilnefnd, skulu annaðhvort vera opinber yfirvöld, samtök eða einkaaðilar sem viðurkenndir eru samkvæmt landslögum eða af opinberum yfirvöldum sem til þess hafa sérstakar heimildir í landslögum. Aðildarríki skulu upplýsa framkvæmdastjórnina um þessar tilnefningar og tilgreina verkaskiptingu, ef henni er komið á. Þau skulu sjá til þess að þessi yfirvöld gegni hlutverki sínu af óhlutdrægni og óháð öllum aðilum að tilboði.
2. a)    Yfirvald, sem er til þess bært að hafa eftirlit með tilboði, skal vera í aðildarríkinu þar sem félagið, sem tilboðið tekur til, hefur skráða skrifstofu ef verðbréf félagsins eru skráð á skipulegum markaði í því aðildarríki.
b)    Ef verðbréf félagsins, sem tilboðið tekur til, eru ekki skráð á skipulegum markaði í aðildarríkinu þar sem félagið hefur skráða skrifstofu skal yfirvaldið, sem er til þess bært að hafa eftirlit með yfirtökutilboðinu, vera í því af aðildarríkjunum þar sem verðbréf félagsins eru skráð á skipulegum markaði.
    Ef verðbréf félagsins, sem tilboðið tekur til, eru skráð á skipulegum markaði í fleiri en einu aðildarríki skal yfirvaldið, sem er til þess bært að hafa eftirlit með tilboðinu, vera í því af aðildarríkjunum þar sem verðbréfin voru fyrst skráð á skipulegum markaði.
c)    Ef verðbréf félagsins, sem tilboðið tekur til, voru fyrst skráð á skipulegum markaði samtímis í fleiri en einu aðildarríki skal félagið, sem tilboðið tekur til, ákvarða hvert eftirlitsyfirvaldanna í viðkomandi aðildarríkjum skuli vera það yfirvald sem er til þess bært að hafa eftirlit með tilboðinu með því að tilkynna það þessum skipulegu mörkuðum og eftirlitsyfirvöldum þeirra á fyrsta viðskiptadegi.
    Ef verðbréf í félaginu, sem tilboðið tekur til, hafa þegar verið skráð á skipulegum mörkuðum í fleiri en einu aðildarríki, þann dag sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 21. gr., og skráning fór fram samtímis, skulu eftirlitsyfirvöld þeirra aðildarríkja koma sér saman um hvert þeirra skal vera það yfirvald, sem er til þess bært að hafa eftirlit með tilboðinu, innan fjögurra vikna frá þeim degi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 21. gr. Að öðrum kosti skal félagið, sem tilboðið tekur til, ákvarða hvert þessara yfirvalda skal vera lögbært yfirvald á fyrsta viðskiptadegi að liðnu þessu fjögurra vikna tímabili.
d)    Aðildarríki skulu sjá til þess að ákvarðanirnar, sem um getur í c-lið, séu gerðar opinberar.
e)    Í þeim tilvikum sem um getur í b- og c-lið, skal fara með mál sem tengjast boðnu endurgjaldi þegar um er að ræða yfirtökutilboð, einkum verði, og mál sem tengjast málsmeðferð tilboðsins, einkum upplýsingum um ákvörðun tilboðsgjafa um að gera yfirtökutilboð, efni tilboðsyfirlits og opinberri birtingu tilboðsins, í samræmi við reglur þess aðildarríkis þar sem lögbæra yfirvaldið er. Í málum sem tengjast upplýsingum sem veita skal starfsmönnum félagsins sem tilboðið tekur til og í málum sem tengjast félagarétti, einkum hlutfalli atkvæðisréttar sem veitir yfirráð og hvers kyns undanþágum frá skyldu til að gera yfirtökutilboð, sem og skilyrðum sem heimila stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, að grípa til hvers kyns aðgerða sem geta komið í veg fyrir yfirtökutilboð, skulu ráða gildandi reglur og lögbært yfirvald aðildarríkisins þar sem félagið, sem tilboðið tekur til, hefur skráða skrifstofu.
3.     Aðildarríki skulu sjá til þess að allir þeir, sem starfa eða starfað hafa í þágu eftirlitsyfirvalda þeirra, skuli bundnir þagnarskyldu. Ekki er heimilt að ljóstra upp upplýsingum, sem falla undir þagnarskyldu, við neinn aðila eða neitt yfirvald nema samkvæmt ákvæðum sem mælt er fyrir um í lögum.
4.     Eftirlitsyfirvöld aðildarríkjanna samkvæmt þessari tilskipun og önnur yfirvöld, sem annast eftirlit með fjármagnsmörkuðum, einkum í samræmi við tilskipun 93/22/EBE, tilskipun 2001/34/EB, tilskipun 2003/6/EB og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðslýsingu sem birta skal við almenn útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar, skulu hafa með sér samstarf og veita hvert öðru upplýsingar hvenær sem nauðsyn ber til vegna beitingar reglna sem settar eru í samræmi við þessa tilskipun, einkum í tilvikum sem heyra undir b-, c- og e-lið 2. mgr. Upplýsingar, sem þannig eru fengnar, falla undir þagnarskyldu þeirra sem starfa eða hafa starfað hjá þeim eftirlitsyfirvöldum sem taka við upplýsingunum. Samstarfið skal fela í sér möguleika á að birta viðkomandi aðilum þau lagaskjöl sem nauðsynleg eru til að framfylgja ráðstöfunum lögbærs yfirvalds í tengslum við tilboð, ásamt annarri þeirri aðstoð sem viðkomandi eftirlitsyfirvöld geta með sanngjörnum hætti farið fram á í því skyni að rannsaka raunveruleg eða meint brot á reglum sem eru settar eða innleiddar samkvæmt þessari tilskipun.
5.     Eftirlitsyfirvöld skulu hafa allar þær heimildir sem nauðsynlegar eru fyrir þau til að rækja skyldur sínar, þ.m.t.. að sjá til þess að aðilar að tilboði fari að þeim reglum sem settar hafa verið eða innleiddar samkvæmt þessari tilskipun.
Að því tilskildu að þær almennu meginreglur, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr., séu virtar geta aðildarríki kveðið á um, í þeim reglum sem þau setja eða innleiða samkvæmt þessari tilskipun, undantekningar frá þessum reglum:
i)    með því að fella slíkar undanþágur inn í innlendar reglur í því skyni að taka tillit til aðstæðna sem ákvarðast á landsvísu
    og/eða
ii)    með því að veita eftirlitsyfirvöldum sínum, þar sem þau eru lögbær, heimildir til að veita undanþágu frá slíkum innlendum reglum, í því skyni að taka tillit til aðstæðnanna, sem um getur í i-lið, eða annarra sérstakra aðstæðna, en þá verður að gera kröfu um að ákvörðunin sé rökstudd.
6.     Þessi tilskipun skal ekki hafa áhrif á vald aðildarríkjanna til að tilnefna dómsmálayfirvöld eða önnur yfirvöld sem skulu bera ábyrgð á að fjalla um deilumál og skera úr um hvort reglur hafi verið brotnar í tilboðsferlinu eða vald aðildarríkja til að setja reglur um það hvort og við hvaða aðstæður tilboðsaðilar eigi rétt á að hefja stjórnsýslumál eða dómsmál. Einkum skal tilskipun þessi ekki hafa áhrif á það vald sem dómstólar í aðildarríki kunna að hafa til að vísa málsmeðferð frá dómi og að skera úr um það hvort slík málsmeðferð hafi áhrif á niðurstöðu tilboðs. Tilskipun þessi skal ekki hafa áhrif á vald aðildarríkjanna til að ákvarða lagalega stöðu að því er varðar bótaábyrgð eftirlitsyfirvalda eða að því er varðar málaferli milli tilboðsaðila.

5. gr.

Vernd hluthafa í minnihluta, skyldubundið yfirtökutilboð og sanngjarnt verð

1.     Þegar einstaklingur eða lögaðili, í kjölfar eigin yfirtöku eða yfirtöku aðila í samstarfi við hann, á verðbréf í félagi, eins og um getur í 1. mgr. 1. gr. sem veita honum, þegar þau bætast við eign sem fyrir er í sams konar verðbréfum eða eign aðila sem eru í samstarfi við hann, beint eða óbeint tiltekið hlutfall atkvæðisréttar í því félagi og þar með yfirráð yfir félaginu, skulu aðildarríkin sjá til þess að gerð sé krafa um að slíkur aðili geri yfirtökutilboð í því skyni verja hagsmuni hlutafjáreigenda minnihluta þess félags. Þess háttar tilboð skal við fyrsta tækifæri sent öllum eigendum þessara verðbréfa í alla verðbréfaeign þeirra á sanngjörnu verði eins og það er skilgreint í 4. mgr.
2.     Þegar yfirráðum hefur verið náð eftir valfrjálst tilboð, sem gert er öllum eigendum verðbréfa í alla verðbréfaeign þeirra í samræmi við tilskipun þessa, á sú skylda að gera yfirtökutilboð, sem mælt er fyrir um í 1. mgr., ekki lengur við.
3.     Hlutfall atkvæðisréttar, sem veitir yfirráð að því er varðar ákvæði 1. mgr., og aðferðin við útreikning á því, skulu ákvarðast samkvæmt reglum aðildarríkisins þar sem félagið hefur skráða skrifstofu.
4.     Með sanngjörnu verði er átt við hæsta verð sem tilboðsgjafi eða aðilar í samstarfi við hann greiða fyrir sömu verðbréf á tímabili, sem aðildarríkjunum ber að ákvarða, og skal það ekki vera skemmra en sex mánuðir og ekki lengra en 12 mánuðir, fyrir yfirtökutilboðið sem um getur í 1. mgr. Ef tilboðsgjafi eða samstarfsaðili hans kaupir verðbréf á verði, sem er hærra en tilboðsverðið, eftir að yfirtökutilboðið hefur verið gert opinbert, en áður en gildistími tilboðsins rennur út, skal tilboðsgjafinn hækka tilboð sitt svo að það sé ekki lægra en hæsta verð sem greitt er fyrir verðbréfin sem keypt eru með þessum hætti.
Að því tilskildu að almennar meginreglur, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 3. gr., séu virtar geta aðildarríki heimilað eftirlitsyfirvöldum sínum að leiðrétta verðið, sem um getur í fyrstu undirgrein, við aðstæður og samkvæmt viðmiðunum sem eru skýrt ákvörðuð. Í því skyni geta þau útbúið skrá yfir þær aðstæður sem geta leitt til þess að hæsta verð sé leiðrétt til hækkunar eða lækkunar, t.d. þegar hæsta verð var ákveðið með samkomulagi milli kaupanda og seljanda þegar markaðsverði viðkomandi verðbréfa er stýrt, þegar markaðsverð almennt eða einkum tiltekið markaðsverð verður fyrir áhrifum af óvenjulegum atburðum eða til að bjarga fyrirtæki sem á í erfiðleikum. Þau geta einnig ákvarðað viðmiðanir, sem beita skal í slíkum tilvikum, t.d. meðalmarkaðsvirði á tilteknu tímabili, upplausnarvirði félagsins eða aðra hlutlæga virðismatsviðmiðun sem almennt er notuð í fjárhagsgreiningu.
Allar ákvarðanir eftirlitsyfirvalds til að leiðrétta sanngjarnt verð skulu vera rökstuddar og gerðar opinberar.
5.     Tilboðsgjafinn getur boðið verðbréf, reiðufé eða hvort tveggja sem endurgjald.
Ef endurgjaldið, sem tilboðsgjafinn býður, er ekki fólgið í auðseljanlegum verðbréfum, sem skráð hafa verið á skipulegum markaði, skal það þó fela í sér reiðufé sem valkost.
Tilboðsgjafinn skal í öllum tilvikum bjóða endurgjald í reiðufé, a.m.k. sem valkost, þegar hann eða aðilar í samstarfi við hann hafa keypt með reiðufé verðbréf, sem bera 5% eða meira af atkvæðisrétti í félaginu, sem tilboðið tekur til, á tímabili sem hefst á sama tíma og tímabilið sem aðildarríkið ákvarðar í samræmi við 4. mgr. og lýkur þegar gildistíma tilboðs lýkur.
Aðildarríki geta kveðið á um að í öllum tilvikum verði að bjóða endurgjald í reiðufé, a.m.k. sem valkost.
6.     Auk þeirrar verndar, sem kveðið er á um í 1. mgr., geta aðildarríkin kveðið á um frekari gerninga til að vernda hagsmuni eigenda verðbréfa að því tilskildu að viðkomandi samningar hindri ekki eðlilegan framgang tilboðs.

6. gr.
Upplýsingar um yfirtökutilboð

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að ákvörðun um að gera yfirtökutilboð sé gerð opinber án tafar og að eftirlitsyfirvaldi sé tilkynnt um tilboðið. Þau geta gert kröfu um að tilkynna verði eftirlitsyfirvaldi um slíka ákvörðun áður en hún er gerð opinber. Jafnskjótt og yfirtökutilboðið hefur verið gert opinbert skulu stjórnir félagsins, sem tilboðið tekur til, og félags tilboðsgjafa tilkynna fulltrúum starfsmanna sinna um það eða starfsmönnunum sjálfum, ef engir slíkir fulltrúar eru fyrir hendi.
2.     Aðildarríki skulu sjá til þess að tilboðsgjafa sé skylt að semja og gera opinbert og í tæka tíð tilboðsyfirlit með þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að eigendur verðbréfa félagsins, sem tilboðið tekur til, geti tekið upplýsta ákvörðun um yfirtökutilboðið. Áður en tilboðsyfirlitið er gert opinbert skal tilboðsgjafi senda það eftirlitsyfirvaldi. Þegar það hefur verið gert opinbert skulu stjórnir félagsins, sem tilboðið tekur til, og félags tilboðsgjafa senda það fulltrúum starfsmanna sinna eða starfsmönnunum sjálfum, ef engir slíkir fulltrúar eru fyrir hendi.
Ef tilboðsyfirlitið, sem um getur í fyrstu undirgrein, er háð fyrirframsamþykki eftirlitsyfirvaldsins og hefur hlotið samþykki skal það viðurkennt, með fyrirvara um þýðingu, sem kann að vera þörf á, í öðru aðildarríki á markaðnum, þar sem verðbréf félagsins, sem tilboðið tekur til, eru skráð, án þess að nauðsynlegt sé að afla samþykkis eftirlitsyfirvalda þess aðildarríkis. Þessi yfirvöld geta því aðeins krafist að viðbótarupplýsingar séu settar í tilboðsyfirlitið að þær eigi sérstaklega við um markað aðildarríkisins eða markaði aðildarríkjanna, þar sem verðbréf félagsins, sem tilboðið tekur til, eru skráð, og þær tengist þeim formsatriðum sem þarf að uppfylla við samþykkt yfirtökutilboðsins og við móttöku á endurgjaldinu, sem áskilið er þegar tilboðinu er lokað, ásamt skattafyrirkomulaginu sem endurgjaldið, sem eigendum verðbréfanna er boðið, fellur undir.
3.     Í tilboðsyfirlitinu, sem um getur í 2. mgr., skal a.m.k. koma fram eftirfarandi:
a)    skilmálar yfirtökutilboðsins,
b)    deili á tilboðsgjafa og, ef tilboðsgjafi er félag, gerð félagsins, heiti og skráð skrifstofa þess,
c)    verðbréfin eða, eftir því sem við á, flokkur eða flokkar verðbréfa, sem yfirtökutilboð er gert í,
d)    endurgjaldið sem boðið er fyrir hvert verðbréf eða flokk verðbréfa og, ef um er að ræða skyldubundið yfirtökutilboð, aðferðin sem notuð er við að ákvarða það, ásamt upplýsingum um tilhögun á greiðslu endurgjalds,
e)    bæturnar, sem boðnar eru fyrir réttindin sem kunna að verða afnumin í kjölfar ógildingarreglunnar, sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 11. gr., ásamt upplýsingum um tilhögun á greiðslu bótanna og hvaða aðferð er notuð við að ákvarða hana,
f)    hámarks- og lágmarkshlutfall eða -fjöldi verðbréfa sem tilboðsgjafi skuldbindur sig til að kaupa,
g)    ítarlegar upplýsingar um verðbréfaeign sem tilboðsgjafi og aðilar í samstarfi við hann eiga fyrir í félaginu sem tilboðið tekur til,
h)    öll skilyrði sem yfirtökutilboðið er háð,
i)    fyrirætlanir tilboðsgjafans með tilliti til framtíðarviðskipta félagsins, sem tilboðið tekur til, og félags tilboðsgjafa, að svo miklu leyti sem yfirtökutilboðið hefur áhrif á það, og með tilliti til þess að vernda störf starfsmanna þeirra og stjórnenda, þ.m.t. allar verulegar breytingar á starfsskilyrðum, einkum framkvæmdaáætlunum tilboðsgjafafélagsins fyrir bæði félögin, og líkleg áhrif á störf starfsmanna og staðsetningu starfsstöðva félagsins,
j)    frestur til að samþykkja yfirtökutilboðið,
k)    upplýsingar um verðbréf ef einhvers konar verðbréf eru innifalin í endurgjaldi tilboðsgjafans,
l)    upplýsingar um fjármögnun tilboðsins,
m)    deili á aðilum sem eru í samstarfi við tilboðsgjafann eða félagið, sem tilboðið tekur til, og, þegar um er að ræða félög, gerð þeirra, heiti, skráðar skrifstofur og tengsl við tilboðsgjafa og, ef unnt er, við félagið sem tilboðið tekur til,
n)    landslög, sem munu gilda um samninga milli tilboðsgjafa og eigenda verðbréfa félagsins, sem tilboðið tekur til, í kjölfar yfirtökutilboðsins, og lögbærir dómstólar.
4.     Framkvæmdastjórnin skal samþykkja reglur um beitingu 3. mgr. í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 18. gr.
5.     Aðildarríki skulu sjá til þess að tilboðsaðilum sé skylt, hvenær sem þess er óskað, að veita eftirlitsyfirvöldum aðildarríkja sinna allar upplýsingar sem þeir búa yfir varðandi yfirtökutilboðið og eru eftirlitsyfirvaldinu nauðsynlegar til að það geti gegnt störfum sínum.

7. gr.
Frestur til að samþykkja yfirtökutilboð

1.     Aðildarríki skulu kveða á um að fresturinn fyrir samþykki yfirtökutilboðs skuli ekki vera skemmri en tvær vikur né lengri en 10 vikur frá birtingardegi tilboðsyfirlits. Að því tilskildu að almennar meginreglur, sem mælt er fyrir um í f-lið 1. mgr. 3. gr., séu virtar geta aðildarríki kveðið á um að lengja megi 10 vikna frestinn með því skilyrði að tilboðsgjafi tilkynni um lok gildistíma með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.
2.     Aðildarríki geta í sérstökum tilvikum kveðið á um reglur um breytingu á tímabilinu sem vísað er til í 1. mgr. Aðildarríki getur heimilað eftirlitsyfirvaldi að veita undanþágu frá frestinum sem um getur í 1. mgr. til að gefa félaginu, sem tilboðið tekur til, færi á að boða til hluthafafundar til að taka afstöðu til yfirtökutilboðsins.

8. gr.
Birting

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að tilboð sé gert opinbert með þeim hætti að það tryggi gagnsæi á markaði og heilleika að því er varðar verðbréf félagsins, sem tilboðið tekur til, tilboðsgjafann eða hvert það félag annað sem yfirtökutilboðið hefur áhrif á, einkum í því skyni að koma í veg fyrir birtingu eða miðlun rangra eða villandi upplýsinga.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um birtingu allra upplýsinga og skjala, sem gerð er krafa um í 6. gr., með þeim hætti að það tryggi að þær séu bæði greiðlega og skjótt tiltækar eigendum verðbréfa, a.m.k. í þeim aðildarríkjum þar sem verðbréf félagsins, sem tilboðið tekur til, eru skráð á skipulegum mörkuðum, og fulltrúum starfsmanna félagsins, sem tilboðið tekur til, og tilboðsgjafans eða, starfsmönnunum sjálfum ef engir slíkir fulltrúar eru fyrir hendi.

9. gr.
Skyldur stjórnar félagsins sem tilboðið tekur til

1.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að fylgt sé þeim reglum sem mælt er fyrir um í 2. til 5. mgr.
2.     Á tímabilinu, sem um getur í annarri undirgrein, skal stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, afla sér fyrirframheimildar almenns hluthafafundar, sem veitt er í þessum tilgangi, áður en hún grípur til einhverra aðgerða annarra en að leita eftir öðrum tilboðum, sem gætu orðið til þess að koma í veg fyrir yfirtökutilboðið, einkum áður en hún gefur út verðbréf sem geta leitt til varanlegra hindrana á því að tilboðsgjafi nái yfirráðum yfir félaginu sem tilboðið tekur til.
Slík heimild skal vera lögboðin, a.m.k. frá því að stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, tekur við upplýsingunum, sem um getur í fyrsta málslið 1. mgr. 6. gr., um yfirtökutilboðið og þar til niðurstaða yfirtökutilboðsins er gerð opinber eða tilboðið fellur úr gildi. Aðildarríki geta gert kröfu um að slíkrar heimildar sé aflað fyrr, t.d. um leið og stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, fær vitneskju um að búast megi við yfirtökutilboði.
3.     Að því er varðar ákvarðanir sem teknar eru fyrir upphaf tímabilsins, sem um getur í annarri undirgrein 2. mgr. og eru ekki að hluta til eða að fullu komnar í framkvæmd, skal almennur hluthafafundur samþykkja eða staðfesta hverja þá ákvörðun sem ekki er hluti af venjulegum rekstri félagsins ef framkvæmd hennar gæti orðið til þess að koma í veg fyrir yfirtökutilboðið.
4.     Í því skyni að afla fyrirframheimildar, samþykkis eða staðfestingar eigenda verðbréfa, sem um getur í 2. og 3. mgr., geta aðildarríki samþykkt reglur sem heimila að boðað sé til almenns hluthafafundar með stuttum fyrirvara, að því tilskildu að fundurinn verði ekki haldinn innan tveggja vikna frá því að boðað er til hans.
5.     Stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, skal semja og gera opinbert skjal þar sem fram kemur álit hennar á yfirtökutilboðinu og rökin sem það er byggt á, þ.m.t. álit hennar á áhrifum yfirtökutilboðsins á heildarhagsmuni félagsins, einkum á störf starfsmanna, og á viðskiptaáætlun tilboðsgjafans fyrir félagið, sem tilboðið tekur til, og líkleg áhrif á störf starfsmanna og staðsetningu starfsstöðva félagsins, eins og fram kemur í tilboðsyfirliti í samræmi við i- lið 3. mgr. 6. gr. Stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, skal jafnframt tilkynna fulltrúum starfsmanna sinna um þetta álit eða starfsmönnunum sjálfum ef engir slíkir fulltrúar eru fyrir hendi. Ef stjórn félagsins, sem tilboðið tekur til, fær með góðum fyrirvara sérálit frá fulltrúum starfsmanna sinna á áhrifum yfirtökutilboðsins á störf starfsmanna skal bæta því áliti við skjalið.
6.     Í 2. mgr. skal, þar sem stjórn félags er tvískipt að gerð, „stjórn“ merkja bæði framkvæmdastjórn og yfirstjórn.

10. gr.

Upplýsingar um félög sem um getur í 1. mgr. 1. gr.

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að félög, sem um getur í 1. mgr. 1. gr., birti ítarlegar upplýsingar um eftirfarandi:
a)    samsetningu eigin fjár síns, þ.m.t. verðbréf sem eru ekki skráð á skipulegum markaði í aðildarríki, og, þar sem við á, upplýsingar um mismunandi flokka verðbréfa og, að því er varðar hvern verðbréfaflokk, hvernig réttindum og skyldum, sem tengjast honum, er háttað, og hvert hlutfall hans er af heildarfjármagni hlutafjár.
b)    allar takmarkanir á framsali verðbréfa, s.s. takmarkanir á verðbréfaeign eða þörfinni á að afla samþykkis félagsins eða annarra eigenda verðbréfa, með fyrirvara um 46. gr. tilskipunar 2001/34/EB,
c)    verulega beina eða óbeina hlutafjáreign (þ.m.t. óbein eignarhlutdeild með pýramídauppbyggingu og gagnkvæm hlutafjáreign í öðrum félögum) í skilningi 85. gr. tilskipunar 2001/34/EB,
d)    eigendur hvers konar verðbréfa með sérstökum yfirráðaréttindum og lýsingu á þessum réttindum,
e)    fyrirkomulag stýringar á hvers konar hlutabréfaáætlunum starfsmanna þar sem starfsmenn fara ekki beint með yfirráðaréttindi,
f)    hvers konar takmarkanir á atkvæðisrétti, s.s. takmarkanir á atkvæðisrétti eigenda tiltekins hlutfalls eða fjölda atkvæða, frestur á beitingu atkvæðisréttar eða kerfi þar sem fjárhagsleg réttindi, sem tengjast verðbréfum, eru aðgreind frá verðbréfaeigninni í samstarfi við félagið,
g)    alla samninga milli hluthafa, sem félaginu er kunnugt um, sem geta leitt til takmarkana á framsali verðbréfa og/eða atkvæðisrétti í skilningi tilskipunar 2001/34/EB,
h)    reglur um tilnefningu og útskiptingu á stjórnarmönnum og breytingar á samþykktum félagsins,
i)    heimildir stjórnarmanna, einkum heimild til að gefa út eða kaupa aftur hluti í félaginu,
j)    alla samninga, sem máli skipta og félagið er aðili að sem taka gildi, breytast eða er slitið við breytingar á yfirráðum yfir félaginu í kjölfar yfirtökutilboðs, og áhrif þeirra, nema þegar eðli þeirra er slíkt að upplýsingar um þá gætu verið afar skaðleg fyrir félagið; þessi undantekning á ekki við ef félaginu ber sérstök skylda til að veita slíkar upplýsingar á grundvelli annarra lagaskilyrða,
k)    alla samninga milli félagsins og stjórnarmanna þess eða starfsmanna um bætur ef þeir segja starfi sínu lausu eða er sagt upp án gildrar ástæðu eða ef þeir láta af starfi vegna yfirtökutilboðs.
2.     Upplýsingarnar, sem um getur í 1. mgr., skulu birtar í ársskýrslu félagsins eins og kveðið er á um í 46. gr. tilskipunar 78/660/EBE ( 13 ) og 36. gr. tilskipunar 83/349/EBE ( 14 ).
3.     Aðildarríki skulu sjá til þess, þegar um er að ræða félög sem hafa skráð verðbréf sín á skipulegum markaði í aðildarríki, að stjórnin leggi greinargerð fyrir árlegan aðalfund hluthafa um þau mál sem um getur í 1. mgr.

11. gr.
Ógildingarreglan

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að ákvæðum, sem mælt er fyrir um í 2.–7. mgr., sé beitt þegar tilboð hefur verið gert opinbert, með fyrirvara um önnur réttindi og skyldur, sem kveðið er á um í lögum Bandalagsins um félög sem um getur í 1. mgr. 1. gr.
2.     Engar takmarkanir á framsali verðbréfa, sem kveðið er á um í samþykktum félagsins sem tilboðið tekur til, skulu gilda gagnvart félagi tilboðsgjafa meðan frestur til að samþykkja yfirtökutilboðið, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 7. gr., varir.
Engar takmarkanir á framsali verðbréfa, sem kveðið er á um í samningum milli félagsins, sem tilboðið tekur til, og eigenda verðbréfa þess eða í samningum milli eigenda verðbréfa félagsins, sem tilboðið tekur til, sem gerðir eru eftir samþykkt tilskipunar þessarar, skulu gilda gagnvart tilboðsgjafanum meðan frestur til að samþykkja yfirtökutilboðið, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 7. gr., varir.
3.     Takmarkanir á atkvæðisrétti, sem kveðið er á um í samþykktum félagsins, sem tilboðið tekur til, skulu ekki hafa áhrif á almennum hluthafafundi sem tekur ákvörðun um varnarráðstafanir í samræmi við 9. gr.
Takmarkanir á atkvæðisrétti, sem kveðið er á um í samningum milli félagsins, sem tilboðið tekur til, og eigenda verðbréfa þess eða í samningum milli eigenda verðbréfa félagsins, sem tilboðið tekur til, sem gerðir eru eftir samþykkt tilskipunar þessarar, skulu ekki hafa áhrif á almennum hluthafafundi sem tekur ákvörðun um varnarráðstafanir í samræmi við 9. gr.
Verðbréf sem bera aukinn atkvæðisrétt skulu hafa aðeins eitt atkvæði hvert á almennum hluthafafundi sem tekur ákvörðun um varnarráðstafanir í samræmi við 9. gr.
4.     Þegar tilboðsgjafi á 75% eða meira af hlutum sem bera atkvæðisrétt í félagi í kjölfar yfirtökutilboðs, skulu ekki gilda neinar takmarkanir á framsali verðbréfa eða atkvæðisréttar, sem um getur í 2. og 3. mgr., né sérréttindi hluthafa að því er varðar tilnefningu eða útskiptingu stjórnarmanna, sem kveðið er á um í samþykktum félagsins sem tilboðið tekur til, verðbréf sem bera aukinn atkvæðisrétt, skulu aðeins hafa eitt atkvæði hvert á fyrsta almenna hluthafafundi sem tilboðsgjafinn boðar til eftir að tilboðsfresti lýkur hefur verið samþykkt, í því skyni að breyta samþykktum félagsins eða skipta út eða tilnefna stjórnarmenn.
Til þess að svo megi verða skal tilboðsgjafi eiga rétt á að boða til almenns hluthafafundar með stuttum fyrirvara, að því tilskildu að fundurinn fari ekki fram innan tveggja vikna frá því til hans var boðað.
5.     Þegar afnumin eru réttindi á grundvelli 2., 3. eða 4. mgr. og/eða 12. gr. skal veita sanngjarnar bætur vegna hvers kyns tjóns sem handhafar þessara réttinda verða fyrir. Aðildarríki skulu setja skilmála um ákvörðun slíkra bóta og um greiðslufyrirkomulag þeirra.
6.     Ákvæði 3. og 4. mgr. skulu ekki gilda um verðbréf ef sérstakar fébætur koma fyrir takmarkanir á atkvæðisrétti.
7.     Þessi grein gildir ekki þegar aðildarríki eiga verðbréf í félaginu, sem tilboðið tekur til, sem veita aðildarríkjunum sérstök réttindi sem eru samrýmanleg sáttmálanum eða þegar sérstök réttindi, sem kveðið er á um í landslögum, eru samrýmanleg sáttmálanum eða samvinnufélögum.

12. gr.
Valfrjálst fyrirkomulag

1.     Aðildarríki geta áskilið sér rétt, skv. 1. mgr. 1. gr., til að gera ekki þá kröfu á félög, sem hafa skráðar skrifstofur sínar á yfirráðasvæði þeirra, að þau beiti 2. og 3. mgr. 9. gr. og/eða 11. gr.
2.     Þegar aðildarríki nýta sér þann kost, sem kveðið er á um í 1. mgr., skulu þau engu að síður veita félögum, sem hafa skráðar skrifstofur á yfirráðasvæði þeirra, þann kost, sem skal vera afturkallanlegur, að beita 2. og 3. mgr. 9. gr. og/eða 11. gr., með fyrirvara um 7. mgr. 11. gr.
Ákvörðun félagsins skal taka á aðalfundi hluthafa í samræmi við lög þess aðildarríkis þar sem félagið hefur skráða skrifstofu sína samkvæmt reglum um breytingar á samþykktum félagsins. Tilkynna skal um ákvörðunina til eftirlitsyfirvalds í því aðildarríki þar sem félagið hefur skráða skrifstofu og allra eftirlitsyfirvalda aðildarríkja þar sem verðbréf þess eru skráð á skipulegum markaði eða sótt hefur verið um þess háttar skráningu.
3.     Aðildarríki geta, samkvæmt þeim skilyrðum sem ákvörðuð eru í landslögum, undanskilið félög, sem beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 9. gr. og/eða 11. gr., frá því að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 9. gr. og/eða 11. gr. ef félag, sem ekki beitir sömu ákvæðum og það, eða félag sem er, beint eða óbeint, undir yfirráðum slíks félags, í samræmi við 1. gr. tilskipunar 83/ 349/EBE, gerir tilboð í félagið.
4.     Aðildarríki skulu sjá til þess að ákvæðin sem gilda um viðkomandi félög séu birt án tafar.
5.     Allar ráðstafanir sem beitt er í samræmi við 3. mgr. skulu háðar heimild aðalfundar hluthafa félagsins, sem tilboðið tekur til, sem verður að veita eigi síðar en 18 mánuðum áður en yfirtökutilboðið var gert opinbert í samræmi við 1. mgr. 6. gr.

13. gr.
Aðrar starfsreglur um tilboðsferli

Aðildarríki skulu einnig setja starfsreglur um tilboðsferlið, a.m.k. að því er varðar eftirfarandi:
a)    hvenær tilboð fellur úr gildi,
b)    endurskoðun tilboða,
c)    samkeppnistilboð,
d)    birtingu á niðurstöðum tilboða,
e)    óafturkallanleika tilboða og leyfð skilyrði.

14. gr.
Upplýsingar fyrir fulltrúa starfsmanna og samráð við þá

Þessi tilskipun er með fyrirvara um reglur sem varða upplýsingar og samráð við fulltrúa og, ef aðildarríki kveða á um það, ákvörðun í samráði við starfsmenn tilboðsgjafa og félagsins, sem tilboðið tekur til, sem lúta viðeigandi ákvæðum landslaga, einkum þær sem samþykktar eru samkvæmt tilskipunum 94/45/EB, 98/59/EB, 2001/86/EB og 2002/14/EB.

15. gr.
Innlausnarréttur

1.     Aðildarríki skulu tryggja að ákvæði 2.–5. mgr. gildi í kjölfar yfirtökutilboðs til allra eigenda verðbréfa félagsins, sem tilboðið tekur til, í öll verðbréf þeirra.
2.     Aðildarríki skulu tryggja að tilboðsgjafi geti krafist þess að allir eigendur eftirstandandi verðbréfa selji honum þau verðbréf á sanngjörnu verði. Aðildarríki skulu taka upp þennan rétt við eftirfarandi aðstæður:
a)    ef tilboðsgjafi á verðbréf sem eru ekki undir 90% af hlutafé sem ber atkvæðisrétt og 90% af atkvæðisrétti í félaginu sem tilboðið tekur til,
    eða
b)    þegar hann hefur, í kjölfar samþykkis á yfirtökutilboðinu, keypt eða gert bindandi samninga um kaup á verðbréfum sem eru ekki undir 90% af hlutafé sem ber atkvæðisrétt í félaginu, sem tilboðið tekur til, og 90% af atkvæðisréttinum sem eru innifalin í yfirtökutilboðinu,
Í tilvikinu, sem um getur í a-lið, geta aðildarríkin sett hærri viðmiðunarmörk sem mega þó ekki vera hærri en 95% af hlutafé sem ber atkvæðisrétt og 95% af atkvæðisrétti.
3.     Aðildarríki skulu tryggja að í gildi séu reglur sem gera kleift að reikna hvenær viðmiðunarmarkinu er náð.
Þegar félagið, sem tilboðið tekur til, hefur gefið út fleiri en einn flokk verðbréfa geta aðildarríki kveðið á um að aðeins sé hægt að nýta réttinn til uppkaupa í flokknum þar sem viðmiðunarmarkinu, sem mælt er fyrir um í 2. mgr., hefur verið náð.
4.     Ef tilboðsgjafinn óskar eftir að nýta réttinn til uppkaupa skal hann gera það innan þriggja mánaða frá lokum frestsins til að samþykkja yfirtökutilboðið sem um getur í 7. gr.
5.     Aðildarríki skulu sjá til þess að sanngjarnt verð sé tryggt. Það verð skal vera í sama formi og endurgjaldið sem boðið er í yfirtökutilboðinu eða vera í reiðufé. Aðildarríki geta kveðið á um að í öllum tilvikum verði að bjóða reiðufé, a.m.k. sem valkost.
Í kjölfarið á valfrjálsu yfirtökutilboði, í báðum tilvikunum sem um getur í a- og b-lið 2. mgr., skal endurgjaldið, sem boðið er í yfirtökutilboðinu, teljast vera sanngjarnt þegar tilboðsgjafinn hefur, við samþykki á tilboðinu, eignast verðbréf sem eru ekki undir 90% af hlutafé með atkvæðisrétti sem felst í yfirtökutilboðinu.
Í kjölfar skyldubundins yfirtökutilboðs skal endurgjald, sem felst í tilboðinu, teljast sanngjarnt.

16. gr.
Tilboðsskylda

1.     Aðildarríki skulu sjá til þess að í kjölfar yfirtökutilboðs í öll verðbréf allra eigenda verðbréfa félagsins, sem tilboðið tekur til, gildi 2. og 3. mgr.
2.     Aðildarríki skulu sjá til þess að eigandi eftirstandandi verðbréfa geti krafist þess að tilboðsgjafi kaupi verðbréf sín af honum á sanngjörnu verði við sömu aðstæður og kveðið er á um í 2. mgr. 15. gr.
3.     Ákvæði 3.–5. mgr. 15. gr. gilda að breyttu breytanda.

17. gr.
Viðurlög

Aðildarríkin skulu ákvarða viðurlög sem setja skal við brotum gegn innlendum ráðstöfunum sem eru samþykktar samkvæmt þessari tilskipun og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að sjá til þess að þeim sé komið í framkvæmd. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessar ráðstafanir eigi síðar en þann dag, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 21. gr., og um síðari breytingar á þeim við fyrsta tækifæri.

18. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar evrópsku verðbréfanefndarinnar sem komið var á fót með ákvörðun 2001/528/EB (hér á eftir nefnd „nefndin“).
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar, að því tilskildu að framkvæmdarráðstafanirnar, sem samþykktar eru samkvæmt þessari málsmeðferð, breyti ekki grundvallarákvæðum þessarar tilskipunar.
Fresturinn, sem um getur í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Með fyrirvara um framkvæmdarráðstafanir, sem þegar hafa verið samþykktar, skal beiting þeirra ákvæða þessarar tilskipunar, sem krefjast samþykktar tæknireglna og ákvarðana í samræmi við 2. mgr., falla úr gildi fjórum árum eftir gildistöku hennar. Evrópuþinginu og ráðinu er heimilt, að tillögu framkvæmdastjórnarinnar, að endurnýja viðkomandi ákvæði í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans og skulu þau endurskoða þau áður en tímabilinu, sem um getur hér að framan, lýkur.

19. gr.
Tengslanefnd

1.     Setja skal upp tengslanefnd og skal starfssvið nefndarinnar vera:
a)    að auðvelda samræmda beitingu þessarar tilskipunar með reglulegum fundum þar sem fjallað er um framkvæmdarvanda sem upp kann að koma við beitingu hennar, sbr. þó 226. og 227. gr. sáttmálans.
b)    að veita framkvæmdastjórninni ráðgjöf um viðbætur eða breytingar á þessari tilskipun ef nauðsyn ber til.
2.     Það skal ekki vera í verkahring tengslanefndarinnar að leggja mat á ákvarðanir sem eftirlitsyfirvöld taka í einstökum tilvikum.

20. gr.
Endurskoðun

Fimm árum eftir dagsetninguna, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 21. gr., skal framkvæmdastjórnin skoða þessa tilskipun í ljósi þeirrar reynslu sem hefur verið aflað við beitingu hennar og leggja til endurskoðun hennar, ef þörf er á. Í þeirri skoðun skal felast könnun á skipulagi yfirráða og hindrunum gegn yfirtökutilboðum sem ekki falla undir þessa tilskipun.
Í því skyni skulu aðildarríkin veita framkvæmdastjórninni árlegar upplýsingar um yfirtökutilboð sem hafa verið gerð í félög sem hafa verðbréf skráð á skipulegum mörkuðum. Í upplýsingunum skal tilgreina heimaríki viðkomandi félaga, niðurstöðu tilboðanna og allar aðrar upplýsingar sem skipta máli fyrir skilning á framkvæmd yfirtökutilboða.

21. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 20. maí 2006. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

22. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

23. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Strassborg 21. apríl 2004.

Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX DE ROCHE
forseti. forseti.

Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 133, 26.5.2005, bls. 31 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 26, 26.5.2005, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 142, 30.4.2004, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 45 E, 25.2.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 208, 3.9.2003, bls. 55.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 16. desember 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB) og ákvörðun ráðsins frá 30. mars 2004
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 254, 30.9.1994, bls. 64. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 97/74/EB (Stjtíð. EB L 10, 16.1. 1998, bls. 22).
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 225, 12.8.1998, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 294, 10.11.2001, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. EB L 80, 23.3.2002, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. EB L 96, 12.4.2003, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 12
(9)    Stjtíð. EB L 191, 13.7.2001, bls. 45. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2004/8/EB (Stjtíð. EB L 3, 7.1. 2004, bls. 33).
Neðanmálsgrein: 13
(10)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 14
(11)    Tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta (Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB (Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 15
(12)    Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB frá 28. maí 2001 um opinbera skráningu verðbréfa á verðbréfaþingi og upplýsingar sem birtar skulu um slík verðbréf (Stjtíð. EB L 184, 6.7.2001, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2003/71/EB (Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 64).
Neðanmálsgrein: 16
(13)    Fjórða tilskipun ráðsins 78/660/EBE frá 25. júlí 1978 um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð (Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).
Neðanmálsgrein: 17
(14)    Sjöunda tilskipun ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga (Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2003/51/EB.