Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 552. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 823  —  552. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2006.


1. Inngangur.
    Á tímum hraðrar hnattvæðingar og aukins viðskiptafrelsis verða utanríkisviðskipti sífellt mikilvægari fyrir íslenska hagkerfið. Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna þar mikilvægu hlutverki sem grundvallarstoðir íslenskrar utanríkisverslunar og eykst mikilvægi þeirra með ári hverju. Tvö mikilvæg mál voru sérstaklega í brennidepli í starfsemi þingmannanefndar EFTA árið 2006 og beindust bæði að því að tryggja markaðsaðgang og viðskiptafrelsi fyrir aðildarríkin. Annars vegar fjallaði þingmannanefndin um fyrirhugaða stækkun Evrópusambandsins (ESB) sem tók gildi 1. janúar 2007 og hins vegar um gerð fríverslunarsamninga á milli EFTA og ríkja utan ESB.
    Á starfsárinu var gengið frá áframhaldandi stækkun ESB til austurs þegar framkvæmdastjórn ESB samþykkti í nóvember inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu 1. janúar sl. Samningaviðræður EFTA og ESB um samhliða stækkun EES voru því eðlilega veigamikið mál á dagskrá þingmannanefnda EFTA og EES. Nefndirnar fengu reglulega upplýsingar um gang mála í viðræðum sínum við ráðherra, embættismenn og sérfræðinga. Helsta bitbeinið í samningaviðræðunum voru kröfur framkvæmdastjórnar ESB um þróunarstyrki EFTA til handa nýju aðildarríkjunum tveimur. Fór svo að ekki náðist samkomulag á árinu og því varð ekki af samhliða stækkun ESB og EES.
    Líkt og undanfarin ár voru samskipti við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB, ofarlega á baugi í starfi þingmannanefndar EFTA en EFTA hefur lagt mikla áherslu á að gera fríverslunarsamninga við þriðju ríki. Með aukinni svartsýni á að niðurstaða náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa fleiri alþjóðastofnanir og ríki beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga og ljóst er að samkeppni fer harðnandi á því sviði. Mikið var lagt upp úr umræðum um fríverslun á fundum með ráðherrum á árinu og áhersla lögð á að EFTA verði leiðandi afl í gerð fríverslunarsamninga á heimsvísu. Á árinu tók fríverslunarsamningur EFTA og Suður-Kóreu gildi, gengið var frá samkomulagi um fríverslun við Egyptaland sem búist er við að undirritað verði á vormánuðum 2007 og áfram var unnið að fríverslunarsamningum við Kanada og fleiri ríki. Þingmannanefndin lagði m.a. áherslu á gerð fríverslunarsamninga við Bandaríkin og Kanada.
    Af öðrum stórum málum sem komu til umræðu hjá þingmannanefnd EFTA og EES árið 2006 má nefna Lissabon-áætlunina um vöxt, framtíð og samkeppnishæfni hagkerfis Evrópusambandsins, þjónustutilskipun ESB, innflytjendastefnu ESB, bann ESB við notkun fiskimjöls til dýrafóðurs og framtíðarstefnu sambandsins í siglingamálum en unnið er að sjálfbærri heildarstefnu hvað varðar siglingar, hafnamál, strandlengjur og ýmis önnur hagsmunamál tengd hafinu.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku samningsins varð nefndin að formi til tvískipt þar eð Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES-samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar hittist fyrir hvern fund og á milli funda ef þörf er á. Hún undirbýr starf nefndarinnar, hefur umsjón með verkefnum og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki, en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.
    Í EES-samningnum er gert ráð fyrir sameiginlegri þingmannanefnd EES (95. gr. samningsins). Í hinni sameiginlegu þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá hinum þremur EES-aðildarríkjum EFTA (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur fyrir ákveðin málefni hverju sinni, stendur fyrir skýrslugerð og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um hvert mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA- þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingsmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin sendir venjulega frá sér ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Í upphafi árs 2006 skipuðu Íslandsdeildina eftirfarandi þingmenn: Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Kristinn H. Gunnarsson, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Lúðvík Bergvinsson, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru þau Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Jón Gunnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Sigurður Kári Kristjánsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Hinn 9. mars 2006 tilkynnti forseti Alþingis að Birkir J. Jónsson, þingflokki Framsóknarflokks, tæki sæti í Íslandsdeildinni í stað Kristins H. Gunnarssonar og að Dagný Jónsdóttir yrði nýr varamaður í stað Birkis. Á fundi Íslandsdeildarinnar 15. mars var Birkir J. Jónsson kjörinn varaformaður nefndarinnar.
    Ný Íslandsdeild var kjörin 2. október í upphafi 133. þings með óbreyttri skipan aðalmanna. Þær breytingar urðu á varamönnum að Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, varð varamaður í stað Þórunnar Sveinbjarnardóttur og Sæunn Stefánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, varð varamaður í stað Dagnýjar Jónsdóttur. Hinn 5. október voru Guðlaugur Þór Þórðarson og Birkir J. Jónsson endurkjörnir sem formaður og varaformaður Íslandsdeildar. Arna Gerður Bang var ritari Íslandsdeildar í upphafi árs en Stígur Stefánsson tók við 1. febrúar.

4. Starfsemi Íslandsdeildar.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Guðlaugur Þór Þórðarson var skýrsluhöfundur einnar af fjórum skýrslum þingmannanefndar EES ásamt breska Evrópuþingmanninum Diana Wallis. Skýrslan fjallaði um innleiðingu EES- löggjafar en í henni var skoðað hvort munur væri á EFTA-ríkjunum annars vegar og ESB- ríkjunum hins vegar hvað varðar að virða tímamörk við innleiðingu EES-gerða í innlenda löggjöf.
    Þá tók Íslandsdeildin bann ESB við fiskimjöli til dýrafóðurs ítrekað upp á fundum þingmannanefndar EES en banninu var komið á árið 2001 þegar óttinn við kúariðu var hvað mestur. Bjarni Benediktsson lagði fram greinargerð um málið á fundi þingmannanefndar EES þar sem fram kom að engin vísindaleg rök væru gegn fiskimjölsfóðri. Bannið kom á sínum tíma til af ótta við að það yrði drýgt með ólöglegu kjöt- og beinamjöli en þegar árið 2003 var búið að finna örugga aðferð til að greina slíka blöndun. Þá lagði framkvæmdastjórn ESB til að banninu yrði aflétt en Evrópuþingið hefur sett sig á móti því. Þingmannanefndin hefur átt í viðræðum og bréfaskriftum við Evrópuþingið vegna málsins og mun halda áfram að vinna að lausn þess.
    Guðlaugur Þór tók sjóræningjaveiðar á Norður-Atlantshafi og aðgerðir til að sporna við þeim upp innan þingmannanefndar EES. Dæmi eru um að skip, sem stunda veiðarnar og sigla undir hentifána, hafi fengið þjónustu í evrópskum höfnum. Auk þess að reifa málið á fundi þingmannanefndarinnar sendi Guðlaugur Þór nefndarmönnum bréf þar sem þau Evrópulönd voru talin upp sem veitt hafa skipum sem stunda sjóræningjaveiðar þjónustu í höfnum sínum. Þá var í bréfinu greint frá nýjum reglum, sem settar hafa verið að frumkvæði Íslendinga í Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndinni (NEAFC) þar sem bann er lagt við að hleypa skipum sem stunda ólöglegar veiðar til hafnar. Fór Guðlaugur Þór þess á leit við þingmenn nefndarinnar að þeir fylgdust með því að hinum nýju reglum yrði framfylgt í þeirra löndum.
    Venja er að Íslandsdeildin haldi fund með Evrópunefnd þjóðþings þess ríkis sem stendur næst í röðinni til þess að taka við formennsku í ESB, en nýtt formennskuríki tekur við á sex mánaða fresti. Finnar tóku við formennsku á miðju ári og Þjóðverjar í ársbyrjun 2007.
    Fundur Íslandsdeildar með fulltrúum Stórunefndar finnska þingsins, sem hefur Evrópumál á sínu starfssviði, fór fram í Helsinki 28. mars. Af hálfu deildarinnar sóttu fundinn þau Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Bjarni Benediktsson auk Stígs Stefánssonar ritara. Jari Vilén, formaður Stórunefndar, gerði grein fyrir helstu áherslumálum Finna á síðari árshelmingi 2006 svo sem styrkingu hinnar norðlægu víddar ESB, vinnu að stækkun sambandsins og stjórnarskrármálinu. Guðlaugur Þór gerði grein fyrir aðkomu Íslands að Evrópusamstarfi með EES-samningnum, greiðslum í þróunarsjóði fyrir fátækari aðildarríki ESB og þátttöku í Schengen. Guðlaugur Þór sagði aðild að EES-samningnum að mestu óumdeilda á Íslandi og fór stuttlega yfir stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum. Nokkuð var rætt um innleiðingu EES-gerða í íslenska löggjöf og að stundum ættu slíkar gerðir ekki við íslenskar aðstæður. Ingibjörg Sólrún nefndi samkeppnisreglur um raforku sem dæmi sem ættu illa við enda Ísland ekki tengt rafmagnsneti og þar með rafmagnsmarkaði meginlands Evrópu. Að lokum spurðu finnsku þingmennirnir út í stöðu varnarmála á Íslandi.
    Fundur Íslandsdeildar með fulltrúum Evrópunefndar þýska þingsins fór fram í Berlín 30. nóvember. Af hálfu deildarinnar sóttu fundinn þeir Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Jón Gunnarsson og Birgir Ármannsson auk Stígs Stefánssonar ritara. Kurt Bodewig, varaformaður nefndarinnar, setti fundinn og gerði grein fyrir helstu áherslumálum Þjóðverja á fyrri árshelmingi 2007, svo sem áframhaldandi vinnu í stjórnarskrármálum ESB þar sem leitað verður leiða til að bjarga stjórnarskrárdrögum sem hafnað var í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi árið 2005. Áhersla verður lögð á að vinna áfram að markmiðum Lissabon-áætlunarinnar um að auka samkeppnishæfni ESB en gæta um leið að félagslegum réttindum borgara sambandsins. Einnig verður lögð sérstök áhersla á að móta sameiginlega stefnu ESB í orkumálum. Þá verður sérstakur leiðtogafundur haldinn í Berlín 25. mars nk. í tilefni af 50 ára afmæli Rómarsáttmálans. Á fundinum munu leiðtogarnir samþykkja yfirlýsingu um sameiginleg gildi og framtíðarsýn ESB. Enn fremur verður unnið að því að ná samkomulagi í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar þó að svartsýni gæti um að það takist. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði það sem fyrir lægi um formennskuáætlun Þjóðverja valda áhyggjum hvað varðar efnahagslega styrkingu Evrópu og aukna samkeppnishæfni. Þörf væri kröftugra umbóta í efnahagsmálum álfunnar, aflétta þyrfti íþyngjandi reglugerðum af atvinnulífinu og tryggja því sveigjanlegri skilyrði til þess að standast hnattræna samkeppni. Illa hefði gengið að ná markmiðum Lissabon-áætlunarinnar og það yrði aðeins gert með því að auka viðskiptafrelsi og samkeppni á innri markaði ESB og EES. Guðlaugur Þór gerði því næst grein fyrir aðkomu Íslands að Evrópusamstarfi með EES-samningnum, greiðslum í þróunarsjóði ESB og þátttöku í Schengen. Hann sagði aðild að EES-samningnum að mestu óumdeilda á Íslandi en að margt stæði í vegi ESB-aðildar. Nefndi Guðlaugur Þór afdrif íslensks sjávarútvegs innan sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB, galla evrunnar fyrir íslenska hagkerfið og þungt regluverk ESB sem helstu hindranir fyrir aðild Íslands, auk þess sem pólitískur ávinningur aðildar væri óljós. Birgir Ármannsson nefndi að þó að Íslendingar ættu mikil viðskipti við ESB þá stæðu helstu viðskiptalönd eins og Bretland utan evrunnar og að hagsveiflur á Íslandi hefðu ekki fylgt sveiflum á meginlandi Evrópu. Þó væru margir aðilar innan atvinnulífsins þess sinnis að upptaka evru hefði fleiri kosti en galla. Jón Gunnarsson gerði grein fyrir stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum. Kvaðst hann vonast til að Evrópumálin kæmust á dagskrá fyrir alþingiskosningarnar 12. maí nk. og nefndi að aðstæður og afstaða Íslands mundu gerbreytast ef Norðmenn sýndu aðild áhuga á nýjan leik.

5. Yfirlit yfir fundi þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu og frásagnir af þeim.
    Starfsemi nefndanna var með reglulegum hætti á árinu 2006 þar sem haldnir voru nokkrir fundir bæði þingmannanefndar EES og þingmannanefndar EFTA, auk funda með ráðherraráði EFTA og ráðgjafanefndar EFTA, en í henni sitja fulltrúar aðila vinnumarkaðarins. Auk hefðbundinna funda átti sendinefnd þingmannanefndar EFTA fundi með króatískum þingnefndum í samræmi við stefnu sína um að mynda tengsl við þjóðþing verðandi ESB/EES- ríkja. Fjórar skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra. Hér á eftir verður gerð grein fyrir fundum þingmannanefndar EFTA og EES á árinu.

Fundir sendinefndar þingmannanefndar EFTA með króatískum þingnefndum í Zagreb 23. febrúar 2006.
    Á síðustu þremur árum hafa fulltrúar framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA heimsótt þing í verðandi ESB/EES-ríkjum eins og Póllandi, Eystrasaltsríkjunum, Tékklandi, Slóvakíu, Rúmeníu og Tyrklandi. Tilgangur þessara ferða hefur verið að kynna EES-samninginn sem hefur eða mun leysa af hólmi aðra eldri viðskiptasamninga EFTA við þessi lönd við inngöngu í ESB. Auk þess hafa þingmenn EFTA-ríkjanna kynnt sér aðstæður og úrlausnarefni í aðildarviðræðum umsóknarlandanna. Sendinefnd þingmannanefndar EFTA fór til Zagreb 23. febrúar og átti fundi með króatískum þingnefndum og fulltrúum króatíska utanríkisráðuneytisins. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina þau Guðlaugur Þór Þórðarson formaður og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Í króatíska þinginu voru haldnir fundir með þremur nefndum, efnahagsnefnd undir forustu Dragutin Pukles, utanríkismálanefnd undir forustu Miomir Zuzul og Evrópunefnd sem Neven Mimica var í fyrirsvari fyrir. Auk þess átti sendinefndin fund með Zeljko Kupresak, aðstoðarutanríkisráðherra Króatíu. Vel var tekið á móti EFTA-sendinefndinni og króatísku þingmennirnir þekktu vel til EFTA og EES. Allir stjórnmálaflokkar Króatíu styðja aðild landsins að ESB. Ráðherraráð ESB ákvað í nóvember 2005 að hefja aðildarviðræður við landið eftir að stríðsglæpadómstóllinn í Haag lýsti því yfir að Króatía sýndi dómstólnum fulla samvinnu. Viðmælendur sendinefndarinnar voru á þeirri skoðun að aðild að ESB mundi festa í sessi þær umbætur og framfarir sem náðst hefðu í efnahagslífi landsins. Þeir gerðu jafnframt grein fyrir veikleikum hagkerfisins svo sem fjárlagahalla, erlendum skuldum, miklu atvinnuleysi og lítilli erlendri fjárfestingu. Fyrirsjáanlegt væri að erfiðustu svið aðildarviðræðnanna yrðu landbúnaðarmál, kvótar á nautgriparækt, vínyrkja, matvælaöryggi og gæðaeftirlit. Búast mætti við að umhverfismálin yrðu einnig erfið því dýrt væri að uppfylla ESB-staðla í þeim málum. Þá lýstu króatísku þingmennirnir áhyggjum af fasteignamarkaði, einkum því að ríkir ESB-borgarar mundu kaupa upp orlofshús og landareignir á strandlengju Króatíu. Vonuðust þingmennirnir til að Króatía gæti gengið í ESB árið 2008 eða 2009 en að markmið væri að geta tekið þátt í kosningunum til Evrópuþingsins í júní 2009. Guðlaugur Þór Þórðarson spurði hverju það sætti að svo mikill munur mældist í skoðanakönnunum á stuðningi við ESB-aðild annars vegar og NATO-aðild hins vegar. Í slíkum könnunum styður um helmingur aðspurðra ESB-aðild en einungis um 30% aðild að NATO. Svarið var á þá leið að enn væru blendnar tilfinningar í garð NATO eftir átökin á Balkanskaga og að enn hefðu margir Króatar samúð með Ante Gotovina hershöfðingja sem bíður dóms stríðsglæpadómstólsins í Haag. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði hvernig skýra mætti minnkandi stuðning við ESB-aðild í skoðanakönnunum. Því var svarað svo til að stuðningur almennings við ESB-aðild færi mjög eftir því hvort hann teldi sambandið beita landið óþægilegum þrýstingi í viðræðunum en þá dala vinsældir aðildar. Þegar ESB þykir sýna hörku í viðræðunum minnkar þannig stuðningur við aðild.

56. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og 81./49. fundur þingmannanefndar EFTA sem haldnir voru í Brussel 29. mars 2006.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina þau Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Bjarni Benediktsson auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar.
    Á fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var farið yfir dagskrár og umræðuefni funda og ráðstefna sem þingmannanefndin gengst fyrir eða tekur þátt í á árinu. Rætt var um að eiga fund með þeirri þingnefnd kanadíska þingsins sem fer með málefni utanríkisviðskipta og þrýsta á um niðurstöðu í viðræðum EFTA og Kanada um fríverslunarsamning. Í umræðu um undirbúning fyrir árlegan fund þingmannanefndar EFTA með EFTA-ráðherrunum á Höfn 26. júní var rætt um áherslur nefndarinnar varðandi framtíð EFTA. Guðlaugur Þór lagði mikla áherslu á að EFTA ætti mörg sóknarfæri, skoða þyrfti möguleika á að fjölga aðildarríkjum og leggja allt kapp á að fjölga fríverslunarsamningum samtakanna við þriðju ríki. Þá var farið yfir drög að dagskrá ráðstefnu sem þingmannanefndin hugðist gangast fyrir í samvinnu við ráðgjafanefnd EFTA í Genf 16. 17. nóvember 2006. Yfirskrift ráðstefnunnar var Evrópsk fríverslun í hnattvæddum heimi.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA voru helstu dagskrárliðir áherslur yfirstandandi formennsku Austurríkismanna í ESB, þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki, væntanlegar EES- gerðir á sviði þjónustu og fjármála auk þróunar EES-gerða um vöruskipti á innri markaðnum.
    Áherslurnar í formennskutíð Austurríkis í ESB voru kynntar af Othmar Horvath, sérstökum sendifulltrúa efnahags- og atvinnumálaráðuneytis Austurríkis. Horvath sagði áherslu lagða á að klára þjónustutilskipun ESB á formennskutíma Austurríkis og að ný tillaga framkvæmdastjórnar ESB yrði lögð fyrir ráðherraráð samkeppnismála í maí. Þá greindi Horvath frá því að óljóst væri hvort vinnutímatilskipun sem setti þak á hámarksvinnutíma næði fram að ganga því ólíkar hefðir væru innan landa ESB um hvort þetta væri málefni stjórnvalda eða samningsatriði verkalýðsfélaga og atvinnurekenda á hverjum stað. Þá var greint frá því að EFTA-ríkin yrðu að ákveða fyrir lok apríl hvort þau framlengdu aðlögunartíma sinn gagnvart frjálsri för vinnuafls frá nýjum aðildarríkjum ESB. Þá leggja Austurríkismenn áherslu á þörf á nýrri orkustefnu sem tryggir að EES-svæðið sé ekki of háð einum orkuseljanda minnugir þess þegar Rússar skrúfuðu fyrir gassölu sína til Úkraínu. Guðlaugur Þór benti á að aukinnar verndarstefnu hefði gætt hjá sumum aðildarríkja ESB sem væri ekki í anda Lissabon-áætlunarinnar. Spurði hann hvort Austurríkismenn hefðu beitt sér gegn þessu í formennskutíð sinni. Horvath svaraði því til að menn hefðu óttast aukna efnahagslega þjóðernishyggju á fundum ráðherraráðsins en sú hefði þó ekki orðið raunin og ekkert verið rætt um þetta efni í ráðinu.
    Þá var rætt um samstarf EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga. William Rossier, framkvæmdastjóri EFTA, gaf greinargott yfirlit yfir stöðu mála og ræddi framtíðarmöguleika á þessu sviði. Á síðustu árum hefur EFTA lagt aukna áherslu á samvinnu við ríki Asíu og Suður-Ameríku og það hefur þegar skilað árangri. Nefndi Rossier Argentínu, Brasilíu og Rússland sem möguleg ný samstarfslönd auk þeirra sem þegar er unnið að gerð fríverslunarsamninga við. Guðlaugur Þór sagði að góð vinna færi fram hjá EFTA á þessu sviði og spurðist fyrir um hvernig stæði með umleitanir á milli Sviss og Bandaríkjanna um gerð fríverslunarsamnings og hvort möguleiki væri á fríverslun við einhver af ríkjum Balkanskaga. Ingibjörg Sólrún spurðist fyrir um stöðu fríverslunar við heimastjórnarsvæði Palestínumanna. Rossier svaraði því til að Sviss hefði upphaflega viljað standa að fríverslunarviðræðum við Bandaríkin með EFTA en ekki hafi verið samstaða um það á meðal EFTA- ríkjanna. Sviss hefði því lagt í tvíhliða könnunarviðræður við Bandaríkin um fríverslun sem var hætt áður en kom að formlegum viðræðum. Rossier sagði sérstakt samkomulag hafa verið gert við palestínsku heimastjórnina en því væri ekki hægt að hrinda í framkvæmd nema með þátttöku Ísraels af tæknilegum orsökum.
    EES-gerðir á sviði vöruskipta voru þá á dagskrá en þær eru ESB-gerðir um sameiginlega markaðinn sem EFTA-ríkjum EES er skylt að taka upp í eigin landslög eða reglugerðir. Geir Brekkevold frá skrifstofu EFTA flutti framsögu og taldist til að samkvæmt óopinberum tölum væri heildarfjöldi EES-gerða um 4.000 og af þeim væru um 2.700 á sviði vöruskipta. Gerði Brekkevold grein fyrir á hvaða sviðum vöruskipta EFTA hefði skilað umsögnum við undirbúning gerða á undanförnum árum. Því næst fór hann yfir gerðir á sviði matvælaöryggis og loks var rætt um þróun orkumála á EES-svæðinu. Annars vegar var farið yfir aðgerðir til að auka enn frjálsræði á gas- og raforkumörkuðum og hins vegar nýja aðgerðaáætlun ESB fyrir sjálfbæra, samkeppnishæfa og örugga orku þar sem áhersla er lögð á sameiginlegan innri orkumarkað Evrópu.
    Að lokum var þróunin hvað varðar þjónustu á EES-svæðinu til umræðu. Þórunn J. Hafstein frá skrifstofu EFTA gerði grein fyrir hinni umdeildu þjónustutilskipun ESB og aðkomu EFTA að mótun hennar. Tilgangur tilskipunarinnar er að auka flæði þjónustu yfir landamæri innan ESB til að skapa aukin tækifæri fyrir evrópsk fyrirtæki, auka framleiðni og skapa störf og skila ávinningi til neytenda með aukinni samkeppni á þessu sviði. Þórunn nefndi að umfang þjónustu væri að aukast á EES-svæðinu og næmi nú um 70% af vergri landsframleiðslu svæðisins auk þess sem um 60% vinnuaflans starfa við þjónustu.

37. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES og 26. fundur þingmannanefndar EES sem haldnir voru í Tromsø 22.–23. maí 2006.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina þeir Guðlaugur Þór Þórðarson formaður og Jón Gunnarsson auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Að venju var haldinn fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES þar sem starf nefndarinnar var skipulagt. Farið var stuttlega yfir ályktanadrög og breytingartillögur við þau fyrir Tromsø-fundinn. Þá var farið yfir hvaða mál nefndin hyggst taka fyrir á næstunni. Þar á meðal voru þjónustutilskipun ESB, áframhaldandi vinna að úttekt á innleiðingu EES-gerða, og aðgerðaáætlun vegna hinnar norðlægu víddar ESB. Guðlaugur Þór Þórðarson lagði áherslu á að áfram yrði unnið að því að fá banni ESB á fiskimjöli til fóðrunar dýra hnekkt.
    Á fundi þingmannanefndarinnar var að venju rætt um þróun og stöðu EES-samningsins og viðbrögð framkvæmdarvaldsins við ályktunum síðasta fundar nefndarinnar. Á fundinn mættu eftirfarandi embættismenn frá EFTA og ESB til viðræðna um þau mál: Anton Kozusnk, sendiherra og fulltrúi austurrísku formennskunnar í EES-ráðinu, Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra og fulltrúi formennsku hinnar sameiginlegu EES-nefndar, Matthias Brinkmann frá framkvæmdastjórn ESB og Bjørn T. Grydeland, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA. Í umræðunum var samhljómur um það að framkvæmd EES-samningsins gengi vel. EFTA-ríkin innleiddu EES-gerðir hratt í löggjöf sína sem stuðlaði að reglusamræmingu á EES-svæðinu. Þá hefði stækkun EES-svæðisins í kjölfar stækkunar ESB 1. maí 2004 tekist vel. Sá háttur var hafður á að ný aðildarríki ESB urðu sjálfkrafa aðilar að EES til bráðabirgða þar til samningur um stækkun EES tók gildi eftir fullgildingu allra samningsaðila. Því ferli lauk 6. desember 2005. Nokkuð var rætt um fyrirhugaða stækkun ESB en áætlað var að Búlgaría og Rúmenía fengju aðild að sambandinu árið 2007 eða 2008. Rætt var um möguleika á að hafa sama háttinn við stækkun EES og 2004 þannig að hún tæki gildi samtímis stækkun ESB. Guðlaugur Þór varpaði fram þeirri spurningu hvort framkvæmdastjórn ESB óttaðist ekki að vandamál varðandi skipulagða glæpastarfsemi í Rúmeníu settu strik í reikninginn. Þá spurði hann hvernig framkvæmdastjórnin sæi fyrir sér framlög EFTA í þróunarsjóði fyrir fátæk ESB-ríki í framtíðinni. Loks spurði Guðlaugur Þór hvort einhver hreyfing væri á fiskimjölsmálinu og sagði að bann við notkun fiskimjöls til fóðrunar jórturdýra væri ótækt þar sem engin vísindaleg rök væru fyrir því að þar færi heilsufarsleg ógn. Matthias Brinkmann svaraði því til að skipulögð glæpastarfsemi væri vissulega vandamál og að framkvæmdastjórn ESB gæti ákveðið að fresta stækkun í október en það væri þó ólíklegt. Hvað varðar framlög EFTA til þróunar fátækari ríkja ESB þá gilti núverandi þróunarsjóður EES sem samþykktur var vegna síðustu stækkunar, til 5 ára eða til ársins 2009. Búast mætti við að ESB færi fram á þriðjungs hækkun vegna Búlgaríu og Rúmeníu á núverandi gildistíma. Stefán Haukur Jóhannesson lagði áherslu á að EFTA-ríkin hefðu samkvæmt EES-samningnum enga lögformlega skyldu til að greiða í þróunarsjóði fyrir ný aðildarríki ESB svo hugmynd að einfaldri þriðjungs hækkun núverandi útgjalda væri óásættanleg. Þetta yrði leyst í samningaviðræðum EFTA og ESB. Stefán Haukur sagði smá skref hafa verið tekin í fiskimjölsmálinu í Evrópuþinginu í byrjun maí. Bannið væri þó enn við lýði og áfram yrði unnið að því að afnema það.
    Þá voru skýrslur og ályktunardrög tekin til umfjöllunar. Svein Roald Hansen og Paul Rübig lögðu fram skýrslu um orku- og umhverfismál á norðurslóðum þar sem sjónum var einkum beint að því hversu háð Evrópa er orkuinnflutningi og hvernig aukin gas- og olíuvinnsla í Barentshafi gæti orðið liður í því að sporna við þeirri þróun. Auk þess fjallaði skýrslan um hinar hröðu loftslagsbreytingar á norðurslóðum og afleiðingar þeirra, t.d. hvernig hiti mun hækka, ísinn bráðna og yfirborð sjávar hækka á næstu áratugum. Vísindamenn búast við hækkun meðalhita allt frá 1,5° 6° og að sjávaryfirborð hækki um 0,5 1 m fyrir lok þessarar aldar. Dr. Jan-Gunnar Winther, forstöðumaður norsku Norðurskautsstofnunarinnar, flutti fyrirlestur um þessi mál. Að loknum fyrirlestrinum spurðist Guðlaugur Þór fyrir um óútkljáðar landamæradeilur Norðmanna og Rússa í Barentshafi og hvort loftslagsbreytingar hefðu þegar haft áhrif á ferðir og viðverustaði fiskstofna. Þá spurði Guðlaugur Þór hvort aukin notkun endurnýjanlegra orkugjafa, svo sem vatnsorku og jarðhita, væri ekki mikilvæg til þess að sporna gegn loftslagsbreytingum. Fram kom að ekki stendur til að leita olíu eða gass á þeim svæðum í Barentshafi sem Norðmenn og Rússar hafa ekki samið um skiptingu á. Deilan kemur ekki í veg fyrir orkunýtingu í Barentshafi þar sem deilurnar ná ekki til þeirra svæða sem ríkust eru talin að auðlindum. Loftslagsbreytingarnar eru þegar farnar að hafa áhrif á ferðir fiskstofna og talið er að þau muni aukast í framtíðinni. Þá sagði Winther vægi endurnýjanlegra orkugjafa aðeins geta aukist til lengri tíma litið og það væri mikilvægt fyrir alla umhverfisvernd og þar með sem liður í að hamla gegn loftslagsbreytingum. Í umræðum um ályktun skýrslunnar komu fram skiptar skoðanir um 13. gr. sem kvað á um að hvetja ætti framkvæmdastjórn ESB til að kanna hvort tengja mætti framlög EFTA-ríkjanna í þróunarsjóði EES við fjármögnun hinnar norðlægu víddar sambandsins þegar kæmi að því að endurskoða þróunarsjóði EES og Norðmanna. Brinkmann, fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar, taldi að slíkt yrði hrein viðbót við þau framlög sem farið verður fram á vegna Búlgaríu og Rúmeníu. Guðlaugur Þór taldi að málsgreinin væri ótímabær þar sem viðræður EFTA og ESB um framlög í þróunarsjóði eftir árið 2009 væru ekki hafnar og taldi réttara að þingmannanefndin biði með slíkar ályktanir þar til forsendur og grundvöllur viðræðnanna væru ljósar. Greidd voru atkvæði um málsgreinina sem var samþykkt en Guðlaugur Þór og Jón Gunnarsson sátu hjá.
    Þegar kom að ályktun um ársskýrslu um virkni EES-samningsins spannst nokkur umræða um 18. gr. sem kvað á um að fagna framlögum EFTA-ríkjanna til þess að minnka félagslegt og efnahagslegt misræmi í Evrópu og óska þess að framlög þeirra héldu áfram. Í tengslum við greinina lét Guðlaugur Þór bóka sérstaklega að EFTA hefði engar lagalegar skyldur til að auka framlög í þróunarsjóði til handa nýjum aðildarríkjum ESB.
    Þá voru tekin fyrir skýrsludrög Diana Wallis og Guðlaugs Þórs um innleiðingu EES-gerða á EES-svæðinu. Skoðað var hvort munur væri á innleiðingarferli annars vegar í EFTA-ríkjunum og hins vegar ESB-ríkjunum. Fullunnin skýrsla yrði lögð fyrir næsta fund þingmannanefndar EES. Auk þeirrar skýrslu var ákveðið að vinna að skýrslu um stækkun ESB og fjármagnskerfi EES fyrir næsta fund. Þá yrði fiskimjölsmálið einnig tekið fyrir.

57. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 82./49. fundur þingmannanefndar EFTA, 7. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðgjafanefnd EFTA og 34. fundur þingmannanefndar EFTA með ráðherraráði EFTA sem haldnir voru á Höfn í Hornafirði 26. júní 2006.
    Fundina sátu Bjarni Benediktsson, Lúðvík Bergvinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Sigurður Kári Kristjánsson auk Tómasar Brynjólfssonar, starfandi ritara Íslandsdeildarinnar.
    Fund framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA sátu Bjarni Benediktsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir auk ritara. Þar var farið yfir helstu mál og starfið skipulagt. Meðal þess sem var efst á baugi í umræðu þingmannanefndar EFTA var fyrirhuguð ráðstefna hennar í Genf í nóvember um evrópska fríverslun í hnattrænum heimi og framtíð fríverslunarsamninga við þriðju ríki.
    Sebastian Remöy frá skrifstofu EFTA í Brussel kom á fund þingmannanefndarinnar og kynnti þróun helstu stefnumála sem tengjast innri markaðnum. Meðal þess sem Remöy ræddi um voru innri markaðsstefnan, áætlunin um vöxt og störf, nágrannastefna Evrópu, samskipti ESB við innri markaðinn og öryggismál tengd innri markaðnum. Remöy lagði mesta áherslu á síðasta þáttinn og hvernig ýmsar tilskipanir varðandi innri markaðinn hefðu einnig tengsl við öryggishagsmuni. Hann ræddi um möguleg áhrif hryðjuverkaárása á starfshæfni innri markaðarins og ákvæði sem heimila stöðvun hans. Remöy fjallaði einnig um áhrif erfiðleika Doha-samningalotunnar á framtíð EFTA. Hann taldi að ef niðurstaða fengist ekki í Doha- lotunni mætti búast við miklu kapphlaupi ríkja heims eftir fríverslunarsamningum. Rætt var stuttlega um tengsl fríverslunarsamninga og mannréttindaákvæða. Bjarni Benediktsson lagði áherslu á hlutverk EFTA sem fríverslunarstofnunar og að sá þáttur yrði að ganga fyrir og að hægt væri að þrýsta á um bætt mannréttindi eftir öðrum og betri leiðum. Einnig var ákveðið að skrifstofa EFTA gerði skýrslu um tengsl fríverslunarsamninga og tryggingu hugverkaréttar, sérstaklega á heilbrigðissviði. Rætt var um hugsanlega ferð þingmannanefndarinnar til Kanada til þess að þrýsta á þarlend stjórnvöld að ljúka fríverslunarsamningi við EFTA. Ráðgert er að ferðin verði farin vorið 2007.
    Haldinn var sameiginlegur fundur þingmannanefndar EFTA og ráðgjafanefndar EFTA, en í henni sitja aðilar vinnumarkaðarins. Á fundinum var rætt um frjálst flæði vinnuafls, sérstaklega frá Austur-Evrópu. Nefndarmenn voru almennt sammála um að vandamál tengd fólksflutningum hefðu orðið minni hingað til en búist var við. Á fundinum var sérstaklega rætt um frekari stækkun ESB með inngöngu Búlgaríu og Rúmeníu. Halldór Grönvold frá ASÍ benti á að hlutfall erlends vinnuafls væri hæst á Íslandi af öllum aðildarríkjum ESB. Hann sagði frá þróun mála á Íslandi og sagði að borið hefði á félagslegum undirboðum á íslenskum vinnumarkaði, sérstaklega í hótel- og veitingarekstri og í byggingariðnaðinum.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA með ráðherrum voru á dagskrá samskipti við þriðju ríki, þ.e. gerð fríverslunarsamninga, og málefni EES. Rætt var um nýundirskrifaðan fríverslunarsamning við Tollabandalag suðurhluta Afríku (SACU). Einnig var fjallað um nýundirritaðan samning við Suður-Kóreu. Ráðherrarnir voru sammála um að viðræður innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar væru mikilvægar en ef niðurstöður fengjust ekki þar væri nauðsynlegt að EFTA yrði leiðandi afl í gerð fríverslunarsamninga. Ekki þyrfti lengur að elta Evrópusambandið, sem hefði einbeitt sér að samningum við Miðjarðarhafsríki, heldur gæti EFTA orðið leiðandi afl á þessu sviði sem tíunda stærsta hagkerfi heimsins.
    Nokkur umræða varð um mikilvægi þess að aðildarríki EFTA nýttu sér stofnunina við samningagerð. Í þessu sambandi gerði norski þingmaðurinn Börge Brende tvíhliða viðræður Íslendinga við Kínverja um hugsanlegan fríverslunarsamning að umræðuefni. Hann taldi mikilvægt að slíkar viðræður yrðu færðar undir EFTA. Ráðherrarnir svöruðu því til að í sumum tilfellum, eins og varðandi Kína, þá hefði viðkomandi ríki aðeins áhuga á að gera fríverslunarsamning við eitt EFTA-ríkjanna frekar en að semja við aðildarríki stofnunarinnar í samfloti. Bjarni Benediktsson spurði um hugsanlega aðild Færeyja að EFTA. Svissneski ráðherrann var fyrir svörum. Hann sagði aðild Færeyja mjög ólíklega. Hann taldi að aðildin hefði í för með sér mikinn kostnað sem erfitt væri að réttlæta fyrir svo lítið land. Hann benti einnig á að nauðsynlegt væri að opna fríverslunarsamninga EFTA til þess að bæta Færeyjum við. Í sumum tilfellum gætu þriðju ríki þá tekið upp önnur mál og reynt að fá breytingar á viðkvæmum þáttum samninganna. Bjarni spurði einnig hvort hugsanleg ákvörðun ESB um að taka útblástur flugvéla inn í mengunarkvóta sambandsins hefði áhrif á áhuga EFTA- ríkjanna að ganga inn í kvótakerfið. Ráðherrarnir höfðu ekki svör á reiðum höndum. Bjarni spurði að lokum hvort breytinga væri von á þeirri stefnu Norðmanna að halda fjárfestingum fyrir utan fríverslunarsamninga. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir spurði að hvaða leyti EFTA- ríkin þyrftu að vera á varðbergi í tengslum við Lissabon-áætlunina um samkeppnishæfni. Framkvæmdastjóri EFTA svaraði því til að þrátt fyrir að EFTA-ríkin stæðu sig vel miðað við Evrópusambandið samkvæmt mælistikum Lissabon-áætlunarinnar þá stæðu ríkin frammi fyrir alþjóðlegri samkeppni þar sem nauðsynlegt væri að vera í fararbroddi. Ingibjörg spurði einnig um tengsl EFTA og mengunarkvóta ESB.

58. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 83./50. fundur þingmannanefndar EFTA, 38. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EES og 27. fundur þingmannanefndar EES í Brussel 9.–10. október 2006.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina þau Bjarni Benediktsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var farið yfir dagskrár og umræðuefni funda og ráðstefna sem þingmannanefndin gekkst fyrir eða tók þátt í á árinu. Farið var yfir drög að dagskrá ráðstefnu um evrópska fríverslun í hnattvæddum heimi sem þingmannanefndin gekkst fyrir í samvinnu við ráðgjafanefnd EFTA í Genf 16. 17. nóvember. Undirbúningur fundar í kanadíska þinginu til að þrýsta á um að niðurstöðu verði náð í viðræðum EFTA og Kanada um fríverslunarsamning var ræddur en stefnt er að því að halda fundinn í febrúar 2007.
    Helstu dagskráratriði á fundi þingmannanefndar EFTA voru framtíðarstefna ESB í siglingamálum, innflytjendastefna ESB og félagsleg vídd í viðskiptastefnu ESB. Siv Christin Gaalas frá skrifstofu EFTA flutti framsögu um siglingamálastefnu ESB. Framkvæmdastjórn sambandsins lagði fram grænbók um nýja siglingamálastefnu í júní sl. og mun samráðsferli um hana standa til júní á næsta ári. Fram kom að Norðmenn hefðu skipað vinnuhóp til að hafa áhrif á ferlið. EFTA mun innan skamms gangast fyrir málstofu um grænbókina og hugsanleg áhrif siglingamálastefnu ESB á EES. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði mikla hagsmuni í húfi fyrir strandríki eins og Noreg og Ísland. Ríkin tvö yrðu að nýta sér aðgang að samráðsferlinu, enda allt sem varðar málefni hafsins nátengt afkomu þeirra.
    Peter Bosch frá framkvæmdastjórn ESB gerði grein fyrir innflytjendastefnu sambandsins. Bosch sagði að árið 2010 mundi náttúruleg stækkun ESB-þjóðanna stöðvast og þær byrja að minnka. Innflutningur fólks mundi vega upp á móti, en um 700.000 manns með uppruna utan sambandsins flytjast til ESB-ríkjanna á hverju ári. Þetta væri hins vegar ekki nauðsynlega það fólk sem hagkerfi ESB-ríkjanna þyrftu mest á að halda. Innflytjendur til Bandaríkjanna og Ástralíu eru betur menntaðir en þeir sem flytjast til ESB en ríkin tvö hafa komið á kerfum til að velja úr innflytjendur með það að markmiði að svara eftirspurn eftir faglærðu vinnuafli á vinnumörkuðum sínum. Það eru því þarfir vinnumarkaðarins sem ráða því að miklu leyti hverjir fá dvalar- og atvinnuleyfi. Í umræðum sem fylgdu erindinu nefndi Ingibjörg Sólrún Ísland sem dæmi þar sem mun fleiri störf hefðu skapast en framboð á innlendum vinnumarkaði réði við og æ meira vinnuafl væri flutt inn til lengri eða skemmri tíma. Hún nefndi einnig að önnur aðferð til þess að auka framboð á vinnuafli í ESB samhliða innflutningi fólks væri að nýta betur krafta kvenna og auka atvinnuþátttöku þeirra. Ingibjörg Sólrún benti í því sambandi á Norðurlönd þar sem velferðarþjónusta og stuðningur við fjölskylduna hefði leitt til meiri atvinnuþátttöku kvenna en víðast annars staðar.
    Renete Nikolay frá skrifstofu Peter Mandelsons, sem fer með utanríkisviðskipti í framkvæmdastjórn ESB, hélt erindi um félagslega vídd í viðskiptastefnu sambandsins. Hún sagði vandrataðan þann meðalveg sem lægi á milli þess að gera félagslegar kröfur í tengslum við viðskiptasamninga ESB við þriðju ríki og hreinnar verndarstefnu. Þetta væri þó reynt að gera. Opinber afstaða ESB til Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar væri sú að enn væru helmingslíkur á að henni mætti bjarga og ná samningum. Margir sérfræðingar og stofnanir væru þó svartsýnni á árangur. Ef Doha-samningalotan siglir í strand munu ríki heims leggja aukna áherslu á tvíhliða fríverslunarsamninga. ESB mun leggja áherslu á að gera slíka samninga við Samtök Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN) og Suður-Kóreu.
    Eftir stuttan fund í framkvæmdastjórn þingmannanefndar EES um skipulag starfsins fram undan var haldinn fundur í sjálfri þingmannanefndinni. Á fundinum var að venju rætt um þróun og stöðu EES-samningsins og voru sérstakir gestir boðnir til að halda framsöguerindi. Umræður um stækkun EES samhliða inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í ESB og kröfur Evrópusambandsins um aukin framlög EFTA-ríkjanna í þróunarsjóði fyrir sambandið voru fyrirferðarmiklar. Í máli Pekka Huhtaniemi, fulltrúa finnsku formennskunnar í ESB, og Matthias Brinkmann, fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, kom fram að krafa sambandsins væri að Rúmenía og Búlgaría fengju sömu meðhöndlun og ríkin sem gengu í ESB við stækkunina árið 2004. Því væri eðlilegt að uppfæra fjárframlög til ESB úr þróunarsjóðum EES og Noregs miðað við fyrirhugaða stækkun. Brinkmann sagði afar mikilvægt að stækkun EES tæki gildi samtímis stækkun ESB og að í því ljósi væri áhyggjuefni að ekki hefði náðst samkomulag um uppfærslu á fjárframlögum EFTA-ríkjanna. Helge Skaara, fulltrúi norsku formennsku hins sameiginlega EES-ráðs, lagði áherslu á að möguleg framlög EFTA-ríkjanna til nýju ESB- ríkjanna tveggja væru spurning um pólitískt samkomulag en ekki einfalda tæknilega uppfærslu. Bent var á að aðstæður nú og viðskiptatengsl EFTA-ríkjanna við Búlgaríu og Rúmeníu væru allt annars eðlis en við ríkin sem gengu í sambandið við síðustu stækkun.
    Þá voru skýrslur og ályktunardrög tekin til umfjöllunar. Diana Wallis og Bjarni Benediktsson, í fjarveru Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, lögðu fram skýrslu um innleiðingu EES-löggjafar. Skoðað var hvort munur væri á EFTA-ríkjunum annars vegar og ESB-ríkjunum hins vegar hvað varðar að virða tímamörk við innleiðingu EES-gerða í innlenda löggjöf. Bjarni Benediktsson lagði áherslu á mikilvægi þess að nýjar gerðir væru innleiddar samkvæmt tímaáætlun til að tryggja samræmt lagaumhverfi og virkni innri markaðarins. Tölur sýndu að EFTA-ríkin stæðu sig vel hvað þetta varðar og það gerðu hin nýju aðildarríki ESB líka en nokkra svarta sauði væri að finna á meðal eldri aðildarríkja. Samþykkt var ályktun þar sem m.a. er hvatt til að öll EES-ríki innleiði reglur á réttum tíma, að EES-ríkin efni til átaks í að mennta opinbera starfsmenn um innleiðingu gerða og að íhugað verði hvernig hægt er að veita íbúum EFTA- ríkjanna aðkomu að eftirliti með EES-reglum eins og borgarar ESB hafa.
    Því næst var skýrsla Mieczyslaw Janowski og Laila Dåvøy um stækkun EES tekin fyrir. Aftur spannst umræðan að mestu um fjárframlög EFTA-ríkjanna til Rúmeníu og Búlgaríu. Dåvøy sagði vel hafa tekist til með styrkjakerfi EFTA og Noregs sem komið var á við stækkunina 2004 en lagði jafnframt áherslu á að möguleg framlög EFTA-ríkjanna nú væru ekki spurning um sjálfkrafa uppfærslu. Í ályktun sem samþykkt var voru samningsaðilar m.a. hvattir til að komast fljótt að niðurstöðu um álitamál varðandi stækkun EES þannig að tryggt yrði að EES stækkaði samhliða ESB 1. janúar 2007. Það væri nauðsynlegt til að tryggja samræmi og virkni innri markaðarins.
    Bann við fiskimjöli sem dýrafóðri í ESB kom loks til umræðu. Evrópuþingmaðurinn Struan Stevenson sagði frá tilraunum innan þingsins til þess að fá banninu hnekkt. Fiskimjöl hefði verið notað til að fóðra jórturdýr um aldir en var bannað af ótta við að kjötmjöli væri blandað saman við það þegar hræðslan við kúariðu var hvað mest. Fyrir liggur skýrsla sjávarútvegsnefndar Evrópuþingsins þar sem banninu er mótmælt en ekki hefur tekist að fá hana á dagskrá þingsins. Bjarni Benediktsson lagði fram greinargerð um þróun málsins og sagði með ólíkindum að bannið, sem sett var árið 2001, væri enn við lýði. Aldrei hefði því verið haldið fram að fiskimjöl væri óheilsusamlegt, þvert á móti væri næringargildi þess ótvírætt til eldis á nauta- og kúabúum. Engin vísindaleg rök væru gegn fiskimjölsfóðri en málið hefði drukknað í skriffinnsku. Bannið kom til af ótta við að það yrði drýgt með ólöglegu kjöt- og beinamjöli en þegar árið 2003 var búið að finna örugga aðferð til að greina slíka blöndun og þá lagði framkvæmdastjórn ESB til að banninu yrði aflétt. Evrópuþingið streittist á móti. Nýjar og óljósar siðferðislegar mótbárur gegn fiskimjöli komu fram og síðan hefur hvorki gengið né rekið. Ákveðið var að formaður þingmannanefndar EES skrifaði forseta Evrópuþingsins bréf og grennslaðist fyrir um afdrif skýrslu sjávarútvegsnefndarinnar. Þá mun þingmannanefnd EES áfram fylgjast með málinu.
    Í lok fundar var ákveðið að taka mál sem varða siglingamálastefnu ESB og svokallaða „mjúka“ lagasetningu í formi tilmæla framkvæmdastjórnarinnar til sérstakrar umfjöllunar á næsta fundi þingmannanefndarinnar.

     Ráðstefna þingmannanefndar EFTA um evrópska fríverslun í hnattvæddum heimi í samstarfi við ráðgjafanefnd EFTA í Genf, 16.–17. nóvember 2006.
    Ráðstefnuna sátu af hálfu Íslandsdeildar þeir Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Bjarni Benediktsson, Lúðvík Bergvinsson og Jón Gunnarsson, auk Tómasar Brynjólfsonar, starfandi ritara.
    Efnt var til ráðstefnunnar í ljósi sífellt hraðari hnattvæðingar, vandræða í viðræðum innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fjölgunar fríverslunarsamninga EFTA við þriðju ríki. Aukin áhrif hnattvæðingar, aukin hlutdeild Kína í alþjóðahagkerfinu og gríðarlegir fólksflutningar voru meginþemu ráðstefnunnar. Ræðumenn voru almennt sammála um að EFTA-ríkin stæðu vel að vígi í alþjóðlegri samkeppni og að fríverslun hefði þar mikil og jákvæð áhrif. Hins vegar þyrfti að vera á varðbergi gagnvart hugsanlegum neikvæðum áhrifum aukinnar hnattvæðingar.
    Ráðstefnan var sett af Kåre Bryn, framkvæmdastjóra EFTA. Hann sagði reynslu sögunnar og kenningar hagfræðinnar sýna skýrt fram á jákvæð áhrif fríverslunar. Bryn sagði þó vert að velta upp spurningum um framkvæmd og skipulagningu hnattvæðingar sem gæti haft mismunandi áhrif á ólíka þjóðfélagshópa. Hann varaði að lokum við að aukin efnahagsleg þjóðerniskennd væri að nokkru leyti að taka við af hefðbundinni verndarstefnu.
    Jon Vea, formaður ráðgjafanefndarinnar, lagði því næst grunninn að umræðum ráðstefnunnar. Hann lagði áherslu á að efnahagslegur árangur EFTA-ríkjanna byggði á sameiginlegum grunngildum við stjórn efnahagsmála, þ.e. opnum hagkerfum með áhuga á viðskiptum, menntun, getu til þess að laga sig að aðstæðum, skilvirkri opinberri þjónustu, sterkum tengslum við evrópska markaði og litlu atvinnuleysi.
    Því næst tóku við pallborðsumræður um úrlausnarefni á sviði alþjóðaviðskipta. Þar var m.a. rætt um framtíð Doha-viðræðnanna innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Fulltrúi Bandaríkjanna var ekki bjartsýnn á framtíð ferilsins og þátttakendur höfðu almennt áhyggjur af þróun viðræðnanna. Að mati fulltrúa Evrópusambandsins verður ekki mögulegt að ná samningum í Doha-ferlinu ef árangur næst ekki fyrir lok maí 2007. Bæði Bandaríkin og Evrópusambandið stefna að fleiri svæðisbundnum fríverslunarsamningum til þess að styrkja stöðu sína ef viðræður innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar fara út um þúfur. Slíkir samningar eru þó ekki jafnskilvirkir og alþjóðlegir samningar sem gerðir eru innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
    Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður Íslandsdeildarinnar, spurði hverjar líkurnar væru á árangri í Doha-viðræðunum og hvort einhverjir aðrir möguleikar væru í stöðunni fyrir utan tvíhliða samninga. Fulltrúar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins sögðu samningsaðila hafa náð nokkuð langt en síðasta skrefið væri ávallt það erfiðasta. Hins vegar mætti ekki útiloka að árangur næðist enda væri það öllum helstu hagkerfum heims í hag.
    Annar hluti ráðstefnunnar fjallaði um félagslegar áskoranir í alþjóðaviðskiptum. Duncan Campbell, fulltrúi Alþjóðasamtaka verkalýðsfélaga, og Nigel Harris, prófessor við University College of London, fluttu erindi undir þeim dagskrárlið. Campbell sagði hraðari hnattvæðingu hafa leitt til aukinnar misskiptingar auðs í heiminum. Hann taldi einnig að áhrif hnattvæðingar á vinnumarkaði á Vesturlöndum ættu eftir að verða enn meiri en hingað til. Harris fjallið í erindi sínu um fólksflutninga, áhrif þeirra og mögulega framtíðarþróun. Hann sagði stjórnvöld á Vesturlöndum skorta framtíðarsýn, skilvirka stefnu og stjórn á fólksflutningum. Í því sambandi benti hann á að spár Evrópusambandsins um fólksflutninga við stækkun þess árið 2004 hefðu gert ráð fyrir að um 50.000 manns mundu flytja frá Austur-Evrópu til Bretlands. Tveimur árum síðar hafa hins vegar um 600.000 manns flust frá ríkjunum átta til Bretlands. Harris lagði einnig áherslu á að fólksflutningar væru skilvirkasta leiðin til tekjudreifingar í heiminum auk þess sem þeir ýttu undir vöxt mannauðs.
    Þriðji hluti ráðstefnunnar fjallaði um viðbrögð við alþjóðlegum áskorunum. Berglind Ásgeirsdóttir, skrifstofustjóri í utanríkisráðuneytinu, flutti erindi um samkeppnishæfni Evrópu. Berglind lagði áherslu á mikilvægi mannauðs. Hún sagði mannauð grundvöll þess að aðildarríki EFTA gætu staðist alþjóðlega samkeppni, sérstaklega í ljósi hækkandi meðalaldurs Evrópubúa. Spár OECD geri t.d. ráð fyrir því að árið 2050 verði aðeins þrír á vinnumarkaði fyrir hverja tvo eftirlaunaþega.
    Næsti ræðumaður var Herbert Oberhänsli. Hann er yfirmaður efnahagsmála og alþjóðasamskipta hjá Nestlé. Hann sagði samkeppni skipta höfuðmáli fyrir árangur hagkerfa í alþjóðaviðskiptum. Helsta vandamál Evrópu að hans mati er of lítil atvinnusköpun miðað við aðra heimshluta. Fulltrúi evrópskra stéttarfélaga, Maria Helena André, fjallaði því næst um þær áskoranir sem aukin alþjóðavæðing hefði í för með sér fyrir evrópsk verkalýðsfélög. Jonas Moberg, fulltrúi Sameinuðu þjóðanna, kynnti því næst hvernig alþjóðleg fyrirtæki gætu tekið þátt í því að takmarka neikvæð áhrif alþjóðavæðingar með þátttöku í verkefni Sameinuðu þjóðanna sem nefnist UN Global Compact. Með þátttöku í verkefninu gæfist fyrirtækjum tækifæri á að sýna viðskiptavinum sínum fram á jákvæð félagsleg áhrif starfsemi fyrirtækisins. Síðasti ræðumaður var Jörg Wuttke, varaformaður evrópska viðskiptaráðsins í Kína. Hann fjallaði um hraða þróun efnahagsmála í Kína og sérstaklega þau fjölmörgu félagslegu og umhverfislegu vandamál sem stjórnvöld þar í landi standa frammi fyrir. Hann lagði einnig áherslu á að Kína væri ekki aðeins góður staður til framleiðslu vöru til útflutnings heldur einnig sífellt stærri markaður. Að því búnu dró John Palmer frá European Policy Centre, sem stjórnað hafði umræðunum, efni ráðstefnunnar saman. Ráðstefnunni var slitið af Eugen David, formanni þingmannanefndarinnar.

59. fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, 84./51. fundur þingmannanefndar EFTA og sameiginlegur fundi þingmannanefndar og ráðherra EFTA sem haldnir voru í Genf 1. desember 2006.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina þeir Guðlaugur Þór Þórðarson formaður, Jón Gunnarsson og Birgir Ármannsson auk Stígs Stefánssonar, ritara Íslandsdeildar.
    Á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var farið yfir starfsáætlun þingmannanefndarinnar fyrir árið 2007 og dagskrár funda sem þingmannanefndin tekur þátt í á næstunni. Fundur sendinefndar þingmannanefndar EFTA í Kanada í febrúar var undirbúinn en honum er ætlað að þrýsta á um og fylgja eftir niðurstöðu í viðræðum EFTA og Kanada um fríverslunarsamning. Guðlaugur Þór varpaði fram þeirri hugmynd að sendinefndin notaði tækifærið og kynnti sér framkvæmd NAFTA-samningsins í Kanada. Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA sem fram fór síðar um daginn var einnig undirbúinn. Þá samþykkti framkvæmdastjórnin nefndarálit um fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA voru helstu dagskrárliðir annars vegar stækkun EES og hins vegar þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki. Dider Chambovey, aðstoðarframkvæmdastjóri EFTA, gaf munnlega skýrslu um stækkun EES samhliða inngöngu Rúmeníu og Búlgaríu í ESB 1. janúar 2007. Hann gerði grein fyrir yfirstandandi samningaviðræðum EFTA-ríkjanna og framkvæmdastjórnar ESB um stækkunina og kröfum framkvæmdastjórnarinnar um aukin framlög EFTA-ríkjanna í þróunarsjóði fyrir sambandið. Chambovey sagði framkvæmdastjórnina krefjast svipaðra framlaga til Rúmeníu og Búlgaríu og ákveðin voru við stækkunina árið 2004 þegar þróunarsjóðum EES og Noregs var komið á til þess að styðja við þróun í nýju ríkjunum tíu auk Grikklands, Portúgals og Spánar. EFTA-ríkin hafa lagt áherslu á að þau hafi engar lögbundnar skyldur til að hækka framlög sín en framkvæmdastjórn ESB hefur á móti sagt það óviðunandi að Búlgaría og Rúmenía gangi í EES á verri skilmálum en giltu við stækkunina árið 2004. Fjárhagslega ber nokkuð í milli en samningsaðilar hafa engu síður það markmið að ljúka samningum fyrir áramót svo stækkun ESB og EES fari fram samhliða.
    Dieder Chambovey gaf fundarmönnum einnig yfirlit um samstarf EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga. Þó enn væri reynt að bjarga Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sagði Chambovey ljóst að stefnubreyting hefði orðið hjá ESB og sambandið legði nú áherslu á fríverslunarsamninga við stærri ríki og ríkjasamtök, eins og Indland, ASEAN-ríkin, MERCOSURE-ríkin o.s.frv. EFTA væri í samkeppni við ESB að þessu leyti og væri komið lengra gagnvart ýmsum ríkjum, t.d. Kanada, en vonast er til að hægt verði að ná niðurstöðu í samningaviðræðum við Kanada á fyrri hluta árs 2007. Samningsdrög um fríverslun EFTA-ríkjanna og Egyptalands liggja fyrir og búist er við undirskrift með vorinu. EFTA stefnir að því að hefja fríverslunarviðræður við Rússland og Úkraínu um leið og ríkin tvö verða tekin inn í Alþjóðaviðskiptastofnunina en bæði ríkin hafa lýst áhuga á fríverslun við EFTA. Guðlaugur Þór tók til máls og sagði athyglisvert að ESB væri farið að leita eftir fríverslunarsamningum og það sýndi að í Brussel væri í raun búið að afskrifa Doha-samningalotuna. Hann lagði áherslu á að EFTA héldi áfram að vinna að gerð fríverslunarsamninga af fullum krafti og velti fyrir sér möguleikum á samningum við Bandaríkin. Þá benti Guðlaugur Þór á að í harðnandi samkeppni við ESB um fríverslunarsamninga yrði að tryggja skrifstofu EFTA nauðsynlegan styrk og starfsfólk til að ná árangri. Þá ætti þingmannanefndin að beita sér pólitískt til að greiða fyrir samböndum og viðræðum við Rússland og Úkraínu.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndarinnar og ráðherra EFTA var einnig rætt um samstarf EFTA við þriðju ríki. Doris Leuthard, efnahagsmálaráðherra Sviss, flutti framsögu og sagði samkomulag hafa náðst við Indland um gerð áreiðanleikakönnunar sem vonandi leiddi til fríverslunarviðræðna. Þá væri góður skriður á viðræðum við Kanada og Flóaráðið, en það er samtök sex ríkja við Persaflóa. Guðlaugur Þór spurðist fyrir um þróun mála gagnvart Færeyjum sem hafa lýst áhuga á því að ganga í EFTA. Leuthard sagði að af sögulegum og stofnanalegum ástæðum væri erfitt að taka ný ríki inn í EFTA og það væri skoðun sín að EFTA ætti að leggja áherslu á fleiri fríverslunarsamninga frekar en að taka inn nýja meðlimi. Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra lýsti því yfir að formlegar tvíhliða fríverslunarviðræður Íslands og Kína hæfust 4. desember.
    Einnig ræddu þingmenn og ráðherrar um þróun EES og viðræður um stækkun. Í ljósi umræðu í fjölmiðlum beindi Guðlaugur Þór spurningu til Dag Terje Andersen, viðskiptaráðherra Noregs, um möguleika á því að Noregur beitti neitunarvaldi gegn þjónustutilskipun ESB og hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir EES. Andersen sagði unnið í málinu og að hann væri þess fullviss að neitunarvaldi yrði ekki beitt. Þá gerðu ráðherrar grein fyrir fjárhagslegum hindrunum í samningaviðræðum um stækkun EES en vonuðust til að niðurstaða næðist fyrir áramót svo að tryggja mætti samhliða stækkun ESB og EES.

6. Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2006.
    –      Ályktun um orku- og umhverfismál á norðurslóðum.
    –      Ályktun um ársskýrslu um virkni EES-samningsins fyrir árið 2005.
    –      Ályktun um innleiðingu EES-gerða.
    –      Ályktun um stækkun EES, reynslu og möguleika.

Alþingi, 1. febrúar 2007.



Guðlaugur Þór Þórðarson,


form.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Birkir J. Jónsson,


varaform..



Bjarni Benediktsson.


Lúðvík Bergvinsson.