Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 627. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 935  —  627. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2006.

1. Inngangur.
    Fulltrúar Íslandsdeildar þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE-þingsins) sóttu alla helstu fundi þingmannasamkundunnar á árinu. Fullskipuð Íslandsdeild sótti vetrarfundina í Vínarborg í febrúarmánuði og ársfundinn sem haldinn var í Brussel að þessu sinni. Þá sótti formaður Íslandsdeildar aukastjórnarnefndarfund þingsins á Möltu. Ritari nefndarinnar fylgdi henni á alla fundi.
    Íslandsdeildin var að venju afar virk í störfum sínum á árinu. Ber þar að nefna að meðlimir Íslandsdeildar tóku virkan þátt í nefndastörfum og almennum þingumræðum á ársfundi þingsins í Brussel. Umræða um eftirlit nefndar á vegum ÖSE-þingsins með fjármálum ÖSE hélt áfram og hélt Pétur H. Blöndal, formaður Íslandsdeildarinnar, merki hennar á lofti. Í kjölfar þess var formaðurinn skipaður sérstakur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins varðandi fjármál ÖSE.
    Aðildarríkjum ÖSE og ÖSE-þingsins fjölgaði um eitt árið 2006. Svartfjallaland varð sjálfstætt ríki þegar það sleit ríkjasambandi við Serbíu. Þrátt fyrir fjölgun aðildarríkja á ÖSE enn í nokkrum erfiðleikum með að finna sér skýrt skilgreindan stað í stofnanaskógi evrópsks milliríkjasamstarfs. Enn er verið að vinna úr niðurstöðum nefndar vísra manna um framtíðarhlutverk ÖSE sem skilaði niðurstöðum sínum árið 2005. Ekki er útlit fyrir að tillögur nefndarinnar nái allar fram að ganga og að grundvallarbreytingar verði á skipulagi og starfi ÖSE á næstu missirum.

2. ÖSE og ÖSE-þingið.
    Skýran greinarmun verður að gera á ÖSE annars vegar og ÖSE-þinginu hins vegar þótt stofnanirnar séu að sjálfsögðu tengdar. Starfsemi ÖSE fer fram í umboði stjórnvalda aðildarríkjanna 56 líkt og gildir um aðrar alþjóða- og milliríkjastofnanir. Stofnunin er því samráðsvettvangur ríkisstjórna aðildarríkjanna. Fulltrúar þeirra sitja því fundi ÖSE og taka ákvarðanir fyrir hönd þeirra. ÖSE-þingið starfar hins vegar í umboði þjóðþinga aðildarríkjanna en þing allra aðildarríkja ÖSE eiga fulltrúa á þinginu. Fulltrúar þjóðþinga sitja því fundi ÖSE- þingsins og greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu en ekki afstöðu eigin ríkisstjórnar.

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, er stærsta svæðisbundna alþjóðastofnun heims sem starfar eingöngu að öryggismálum. Hún starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans frá árinu 1975. Höfuðstöðvar hennar eru í Vínarborg. Stofnuninni er ætlað að stuðla að friði, öryggi og samvinnu á starfsvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum íbúa álfunnar. Í störfum sínum á sviði öryggismála beitir stofnunin mjög víðri nálgun sem tekur til flestra þátta samfélagsgerða þeirra ríkja eða svæða sem sjónum er beint að.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu er umfram allt samstarfsvettvangur ríkja þar sem þau hafa öll sömu réttindi og skyldur, a.m.k. að nafninu til. ÖSE er ólík öðrum alþjóða- og milliríkjastofnunum að því leyti að hún er í raun ekki skýrt afmörkuð heldur yfirheiti yfir allar þær ákvarðanir og starfsemi sem aðildarríkin hafa komið sér saman um að framfylgja.
    Ákvarðanir ÖSE eru að stærstum hluta teknar innan fastaráðsins sem fundar vikulega. Þar sitja fastafulltrúar aðildarríkja ÖSE. Öryggissamstarfsvettvangur ÖSE (e. Forum for Security Co-operation) fundar einnig vikulega og ræðir sérstaklega um þau ríki eða svæði þar sem ófriðlega horfir. Leiðtogafundir eru æðsta ákvörðunarvald ÖSE. Milli þeirra fundar ráðherraráðið sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna.
    Einn mikilvægasti og sýnilegasti hluti starfsemi ÖSE á sér stað hjá vettvangsskrifstofum stofnunarinnar. Hann hefur skilað afar miklum árangri, ekki síst frá aldamótum. Fulltrúar ÖSE sem starfa á vettvangsskrifstofum stofnunarinnar starfa náið með valdhöfum í þeim ríkjum eða héruðum þar sem starfið fer fram og veita m.a. liðsinni við að efla mannréttindi og innviði lýðræðis. Vettvangsstarfið er einkar viðamikið og alls eru um 3000 manns alla jafna að slíkum störfum á hverjum tíma. Undanfarin ár hefur ÖSE einsett sér að styrkja vettvangsstörf stofnunarinnar og er það í takt við þær áherslur sem ítrekað hafa komið fram hjá þingmannasamkundu ÖSE.
    Átökin á Balkanskaga á tíunda áratug síðustu aldar urðu til þess að ÖSE hlaut viðamikið hlutverk við uppbyggingarstarf. Vegur og virðing stofnunarinnar jókst í kjölfarið og umsvifin jukust í hlutfalli við það. Kákasuslýðveldin og Mið-Asíuríkin hafa notið samstarfsins við ÖSE í ríkum mæli á síðustu árum og missirum og ljóst er að mun meiri pólitísk vigt hefur verið lögð í að aðstoða ríkin í þessum heimshlutum. Af öðrum verkefnum má nefna kosningaeftirlit og baráttuna gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi, t.d. með alþjóðlegri samvinnu á sviði löggæslumála. Þá hefur ÖSE reynst afar mikilvægur samráðsvettvangur fyrir mörg önnur knýjandi málefni líkt og baráttuna gegn mansali, eiturlyfjasmygli og vopnasmygli.
    Helsti styrkur ÖSE felst í fjölda aðildarríkjanna og tengingunni yfir Atlantshafið og austur til Mið-Asíu. Er stofnunin því breiður samráðs- og samvinnuvettvangur ólíkra ríkja sem hafa sett sér sömu markmið. ÖSE hefur mikilvægu hlutverki að gegna í því að efla samfélagslegt öryggi borgaranna á grunni forsendna um lýðræði, mannréttindi og réttarríkið og nýtist það starf einkar vel í baráttunni gegn hryðjuverkum, mansali og þjóðernisofstæki.

ÖSE-þingið.
    ÖSE-þingið er samkunda 320 þingmanna frá öllum 56 aðildarríkjum ÖSE. Þingið hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 1992. Það rekur skrifstofur í Kaupmannahöfn og Vínarborg. ÖSE-þingið endurspeglar að mörgu leyti nefndastarf ÖSE sem byggist á hinum þremur víddum ÖSE, þ.e. stjórnmálum og öryggismálum, efnahags- og umhverfismálum og lýðræðis- og mannréttindamálum. Auk þess er þingið mikill aflvaki fyrir áherslubreytingar í starfi ÖSE og veitir stofnuninni óformlegan pólitískan stuðning. Fulltrúar ÖSE-þingsins hafa verið ötulir talsmenn ÖSE og málefnasviða í eigin löndum og þjóðþingum. Sá stuðningur hefur reynst stofnuninni mjög mikilvægur í mörgum tilfellum.
    Á undanförnum árum hefur gætt aukins skilnings á störfum þingsins og er nú svo komið að þingmannasamkundan á nokkuð farsælt samstarf við ÖSE, en þónokkuð skorti á það fyrir nokkrum árum. Ályktanir ÖSE-þingsins rata inn á borð ráðherraráðsins og fastaráðsins og hljóta þar umfjöllun. Ljóst þykir að þátttaka ÖSE-þingsins í yfirgripsmikilli starfsemi ÖSE er mikill akkur fyrir stofnunina. Þá tekur ÖSE-þingið afar virkan þátt í grasrótarstarfi stofnunarinnar, ekki síst með kosningaeftirlitsstörfum þingmanna sem sæti eiga á þinginu. Hlutverk ÖSE-þingsins við kosningaeftirlit hefur þó valdið nokkrum ágreiningi á undanförnum missirum milli þess og ODHIR, sem er sú stofnun framkvæmdarvaldsins sem kemur að kosningaeftirliti. ODHIR hefur viljað takmarka þátt þingsins og gagnrýnt aðferðir þess við eftirlit. Á undanförnum mánuðum hefur stofnunin ítrekað brotið gegn samstarfssamningi sínum og ÖSE-þingsins um samstarf þeirra við kosningaeftirlit. Til að reyna að draga úr þessum ágreiningi var árið 2006 skipaður sérstakur eftirlitsmaður til þess að fylgjast með kosningaeftirliti beggja stofnana. Þingmenn gegna sérstaklega mikilvægu hlutverki við kosningaeftirlit á starfsvæði ÖSE þar sem þeir eru lýðræðislega kjörnir fulltrúar þjóða sinna og hafa sjálfir gengið í gegnum kosningar.
    Auk hefðbundinna nefndarstarfa ÖSE-þingsins eru starfræktar ýmsar sérnefndir sem ræða tiltekin mál og eru ráðgefandi svo sem um stöðu mála í Moldóvu, stjórnmálaástandið í Úkraínu og jafnréttismál ÖSE, svo fá dæmi séu nefnd. Auk þess getur forseti þingsins skipað þingmenn sérstaka fulltrúa sína í ákveðnum málefnum. Oftar en ekki hefur starf sérnefndanna og sérstöku fulltrúanna skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna þau fyrir almenningi.

Samskipti ÖSE-þingsins og ÖSE.
    Samskipti ÖSE-þingsins og ÖSE eru nokkuð viðamikil þótt formleg tengsl séu lítil. Þau fara þó vaxandi. Helstu forsvarsmenn ÖSE ávarpa þingfundi og nefndarfundi og svara spurningum þingmanna. Ályktanir ársfundar ÖSE-þingsins eru einnig lagðar fyrir stofnunina og þeim svarað af hálfu framkvæmdarvaldsins. Því ber þó engin skylda til þess að fara að tilmælum þingsins. Á undanförnum árum hefur þingið sóst eftir auknu hlutverki við eftirlit með ÖSE, m.a. með stofnun sérnefndar um fjármál ÖSE og skipun sérstaks fulltrúa forseta ÖSE- þingsins varðandi fjármál ÖSE.
    ÖSE-þingið er eðli málsins samkvæmt mun minna í sniðum en stofnunin sjálf. Rekstrarkostnaður þingsins er greiddur með fastaframlögum þjóðþinga aðildarríkjanna, eða af utanríkisráðuneytum þar sem því er að skipta. Alþingi greiðir um 0,19% heildarframlaga þingsins.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru í upphafi ársins 2006 Pétur H. Blöndal, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Dagný Jónsdóttir, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Jóhanna Sigurðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Við upphaf 133. þings tók Sæunn Stefánsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, sæti í nefndinni í stað Dagnýjar. Hún var auk þess kjörin varaformaður nefndarinnar. Varamenn voru Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Hjálmar Árnason, þingflokki Framsóknarflokks, og Ásta R. Jóhannesdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Kristinn H. Gunnarsson tók varamannssæti Hjálmars við upphaf 133. þings. Tómas Brynjólfsson var ritari nefndarinnar árið 2006.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins. Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2006 var þannig:

1.    Nefnd um stjórnmál og öryggismál: Pétur H. Blöndal.
        Til vara: Guðlaugur Þór Þórðarson.
2.    Nefnd um efnahagsmál, vísindamál, tæknimál og umhverfismál: Dagný Jónsdóttir,
Sæunn Stefánsdóttir frá upphafi 133. þings.
        Til vara: Hjálmar Árnason,
Kristinn H. Gunnarsson frá upphafi 133. þings.
3.    Nefnd um lýðræði og mannréttindamál: Jóhanna Sigurðardóttir.
        Til vara: Ásta R. Jóhannesdóttir.


4. Lýðræðislegt eftirlit með fjármálum ÖSE.
    Lýðræðislegt eftirlit með alþjóða- og milliríkjastofnunum er eitt mikilvægasta verkefni alþjóðlegra þingmannasamtaka. ÖSE-þingið hefur um árabil stefnt að auknu eftirliti með ÖSE og sérstaklega fjármálum stofnunarinnar. Nýr forseti ÖSE-þingsins, sænski þingmaðurinn Göran Lennmarker, hefur lýst því yfir að hann telji þetta eitt mikilvægasta verkefni þingsins. Í viðleitni til þess að styrkja eftirlitshlutverk þingsins skipaði hann Pétur H. Blöndal, formann Íslandsdeildar, sérstakan fulltrúa sinn varðandi fjármál ÖSE í október 2006.
    Skipun Péturs sem sérstaks fulltrúa þingforsetans kom í kjölfar þess að á vegum ÖSE- þingsins var stofnuð sérnefnd um fjármál ÖSE árið 2004. Formaður Íslandsdeildar átti frumkvæði að stofnun nefndarinnar. Hann og gjaldkeri ÖSE-þingsins, Jerry Grafsteins, áttu sæti í nefndinni ásamt einum varaforseta ÖSE-þingsins, hollenska þingmanninum Nebahat Albayrak, sem var skipuð formaður nefndarinnar. Nefndinni var umfram allt ætlað að auka gagnsæi í starfsemi ÖSE og eftirlit með þeim fjármunum sem aðildarríkin veita til stofnunarinnar. Líkt og hjá flestum öðrum alþjóðastofnunum er lýðræðislegt eftirlit með fjárveitingum til ÖSE ekkert eftir að framlög aðildarríkjanna hafa verið greidd. Þingið er að eigin mati eini vettvangurinn fyrir slíkt lýðræðislegt eftirlit og hefur formaður Íslandsdeildarinnar um árabil hvatt þingið til þess að styrkja starfsemi sína á þessu sviði. Framkvæmdarvaldið telur hins vegar að ÖSE-þingið hafi hvorki stofnanalega né lagalega stöðu til þess að sinna þessu eftirliti. Það telur þvert á móti að hvert þjóðþing sé ábyrgt fyrir eftirliti með eigin fjárframlögum til stofnunarinnar.
    Áhugi þingmanna á fjármálum ÖSE og þrýstingur þingsins um úrbætur hefur vafalítið átt þátt í því að á undanförnum þremur árum hefur fjárveitingaferli stofnunarinnar verið einfaldað, framsetning fjárlaga þess batnað og upplýsingagjöf til ÖSE-þingsins aukist. Sérnefnd um fjármál stofnunarinnar kom hins vegar sjaldan saman, m.a. vegna fjarlægðar nefndarmanna hvers frá öðrum og anna þeirra í eigin þjóðþingum. Nefndin varð því aldrei það eftirlitstæki sem vonast hafði verið eftir. Framkvæmdarvaldið hafnaði því auk þess að þingið hefði hlutverki að gegna við eftirlit með fjármunum stofnunarinnar. Þrátt fyrir það hafa ríkisstjórnir aðildarríkjanna og flest formennskuríkin lagt áherslu á vilja til aukins samstarfs við þingið.
    Í tengslum við fundi þingsins og nefnda þess í Vín í febrúar 2006 hvatti Pétur H. Blöndal nefndina til þess að koma saman og leggja grunn að atkvæðameira starfi en áður. Formaður nefndarinnar gat hins vegar ekki sótt þingið vegna anna heima fyrir. Nefndin hélt því aðeins óformlegan vinnufund í Vín með starfsmönnum ÖSE-þingsins. Fyrir ársfund ÖSE-þingsins í Brussel í júlí 2006 hvatti Pétur nefndina á ný til þess að koma saman, en án árangurs. Í bæði skiptin fundaði Pétur með starfsmönnum þingsins um hvernig mögulegt væri að styrkja starfsemi nefndarinnar.
    Á ársfundi ÖSE-þingsins í Brussel vakti Pétur enn á ný athygli þingsins á skorti á lýðræðislegu eftirliti þess með starfsemi ÖSE og takmörkuðu starfi sérnefndarinnar fram að því. Hann lagði einnig fram spurningu til framkvæmdastjóra ÖSE um upplýsingagjöf stofnunarinnar til þingsins um fjármál hennar. Í kjölfar ársfundarins skrifaði Pétur nýjum forseta ÖSE- þingsins bréf þar sem hann ítrekaði afstöðu sína um mikilvægi lýðræðislegs eftirlits með fjármunum ÖSE og hvatti til þess að starfsemi sérnefndarinnar yrði efld. Í svari forseta ÖSE- þingsins við bréfinu kvaðst hann sammála formanni Íslandsdeildarinnar og að sér væri umhugað um eftirlitshlutverk þingsins. Forsetinn sagði einnig að hann hygðist í samstarfi við formann sérnefndarinnar koma fram með tillögu um hvernig hægt væri að styrkja starfsemi hennar. Í kjölfar þess ákvað forseti ÖSE-þingsins að besta leiðin til þess að styrkja lýðræðislegt eftirlit með ÖSE og fjármunum stofnunarinnar væri að leysa sérnefndina upp og skipa í hennar stað Pétur H. Blöndal sem sérstakan fulltrúa sinn varðandi fjármál ÖSE.
    Framkvæmdastjóri ÖSE kynnti drög að fjárhagsáætlun stofnunarinnar fyrir árið 2007 á aukastjórnarnefndarfundi ÖSE-þingsins á Möltu í nóvember 2006. Í umræðum um fjármál stofnunarinnar sem fylgdu í kjölfarið tók Pétur H. Blöndal til máls sem sérstakur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins. Þar kynnti hann drög að starfsáætlun sinni fyrir þingmönnum og framkvæmdastjóranum. Í starfi sínu hyggst hann í fyrstu fara yfir tillögur ÖSE-þingsins frá síðastliðnum þremur árum sem hafa áhrif á fjárhag ÖSE. Í öðru lagi hyggst hann setja fram á skipulegan hátt hvernig ákvarðanir um fjármál stofnunarinnar eru teknar til þess að bæta aðkomu þingsins að ákvarðanatökuferlinu. Í þriðja lagi stefnir hann að því að reyna að auðvelda þinginu að fá heildarmynd yfir fjárhag ÖSE. Í fjórða lagi hyggst hann reyna að meta hvort fjármunum sem veitt er til ÖSE sé varið á viðunandi hátt. Pétur hyggst skila reglulegum skýrslum um starf sitt til forseta ÖSE-þingsins.

5. Yfirlit yfir fundi á árinu og frásagnir af þeim.
Fundur stjórnarnefndar og málefnanefnda í Vínarborg.
    Dagana 23.–24. febrúar komu málefnanefndir ÖSE-þingsins og stjórnarnefnd þess saman til funda í Vínarborg. Var þetta í fimmta sinn sem efnt var til svonefndra vetrarfunda ÖSE- þingsins, eftir ákvörðun stjórnarnefndar þar að lútandi í febrúar árið 2001. Fundunum er aðallega ætlað að gefa fulltrúum ÖSE-þingsins sem sæti eiga í málefnanefndum þingsins færi á að auka samskiptin við embættismenn ÖSE og styrkja þannig samstarf þingsins og framkvæmdarvaldsins. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal, formaður, Dagný Jónsdóttir, varaformaður, og Jóhanna Sigurðardóttir, auk Tómasar Brynjólfssonar, ritara Íslandsdeildarinnar.
    Átök milli tjáningarfrelsis og virðingar fyrir trúarbrögðum í kjölfar birtingar mynda af Múhameð spámanni settu mark sitt á nær allar umræður vetrarfundarins, bæði almennar umræður í nefndum og sérstakar umræður um málið sem samstarfsríkjunum við Miðjarðarhafið var einnig boðið að taka þátt í.
    Fund stjórnarnefndarinnar ávörpuðu Andreas Khol, forseti austurríska sambandsþingsins, og Alcee L. Hastings, þáverandi forseti ÖSE-þingsins. Hastings fór í upphafsorðum sínum yfir embættisverk sín frá síðasta fundi stjórnarnefndarinnar. Hann fjallaði sérstaklega um starf ÖSE-þingsins í Kákasusríkjunum og Mið-Asíu og lagði áherslu á að kosningaeftirlit væri einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi stofnunarinnar. Hastings sagði einnig að undirbúningur fyrir ársfund ÖSE-þingsins, sem haldinn var í Brussel í júlí hefði gengið mjög vel. Í kjölfar tölu forsetans kynnti gjaldkeri þingsins skýrslu sína. Þar kom fram að ÖSE-þingið starfaði innan fjárhagsáætlunar árið 2005 líkt og undanfarin ár. Gjaldkerinn sagði að þingið ætti fjármuni í sjóðum sem næmu 77% af árlegum starfskostnaði þess. Stefna gjaldkerans er að ÖSE-þingið eigi fjármuni í sjóðum sem nemi árlegum starfskostnaði þess.
    Bruce George, fyrrverandi forseti ÖSE-þingsins, gagnrýndi Samband sjálfstæðra ríkja í ræðu sinni um kosningaeftirlit fyrir að grafa undan sanngjörnu og virku kosningaeftirliti ÖSE-þingsins. George sagðist telja sérstaklega mikilvægt að ÖSE-þingið stæði hart á grundvallarskoðunum sínum varðandi lýðræði og frjálsar kosningar í kosningaeftirliti, sérstaklega nú þegar ýmis fyrrverandi Sovétlýðveldi gagnrýndu starfsemi þess og ýttu undir efasemdir um starfsemi stofnunarinnar. Nokkrar umræður urðu einnig um skýrslu um mansal, sérstaklega um hlutverk íþróttaviðburða sem aðdráttarafls fyrir slíka starfsemi. Í þessu sambandi var sérstaklega rætt um heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem var fram undan í Þýskalandi, en búist var við því að milli 40.000 og 100.000 stúlkur yrðu fluttar frá Austur-Evrópu til keppnisstaðanna í þeim eina tilgangi að bjóða kynslífsþjónustu. Bandarískir þingmenn sögðu sams konar þróun hafa átt sér stað í tengslum við meiri háttar íþróttaviðburði þar í landi.
    Síðasti liður á dagskrá stjórnarnefndarfundarins voru umræður um breytingar á reglum ÖSE-þingsins. Fulltrúi ítalska þingsins lagðist gegn umræðum um breytingarnar þar sem hugmyndir ítölsku landsdeildarinnar höfðu ekki hlotið náð fyrir augum sérstakrar nefndar um breytingar á reglunum og voru því ekki lagðar fram á fundi stjórnarnefndarinnar. Mestur styr stóð um hvort setja skyldi inn nýja reglu númer 14 sem hefði gefið haustfundum þingsins lagalega stoð. Ekki var samstaða um hvort halda mætti fundinn í aukaaðildarríkjunum við Miðjarðarhafið, en í tengslum við haustfundinn eru að jafnaði haldnar ráðstefnur um málefni þess heimshluta. Skopmyndamálið litaði umræður um breytingar á reglum ÖSE-þingsins og átti stóran þátt í því að umræðunum lauk án árangurs. Ákveðið var að fresta kosningu um breytingartillögurnar, a.m.k. fram að ársfundinum í júlí.
    Á sameiginlegum fundi allra málefnanefnda voru tvö megindagskrárefni, annars vegar ræða forseta Austurríkis og hins vegar viðræður við formann ráðherraráðs ÖSE. Utanríkisráðherra Belgíu, þáverandi formennskuríkis ÖSE, hélt framsöguerindi og svaraði spurningum fundarmanna. Hann lagði áherslu á að stutt væri síðan Belgar hefðu tekið við formennskunni og því væri enn ekki hægt að meta árangur af formennskutíð þeirra. Hann lagði þó áherslu á að stefna Belgíu sem formennskuríkis tæki mið af þeirri umræðu sem verið hefur um breytingar á starfsemi stofnunarinnar og að Belgar einsettu sér að ljúka þeirri vinnu fyrir sumarið.
    Allar þrjár málefnanefndir ÖSE-þingsins héldu fundi í tengslum við vetrarfundinn. Á fundum nefndanna þriggja var rætt um þau málefni sem stefnt var að því að ræða á ársfundi þingsins í júlí. Á fundi 1. nefndar um stjórnmál og öryggismál ræddi Rolf Ekeus, sérlegur erindreki ÖSE í réttindum minnihlutahópa (HCNM), um tengsl öryggismála og stefnu ríkja á athafnasvæði ÖSE gagnvart minnihlutahópum. Ekeus lagði áherslu á að ÖSE liti bæði á málefni eldri og nýrri minnihlutahópa í umfjöllun sinni, enda sýndu atburðir í Frakklandi árið 2005 að nauðsynlegt væri að líta vandlega á stefnu aðildarríkjanna varðandi aðlögun nýrra íbúa að þjóðfélaginu. Werner Wnendt, sendiherra og yfirmaður starfsemi ÖSE í Kosovo, hélt að því loknu erindi um starfsemi stofnunarinnar þar. Wnendt lagði á það áherslu að ÖSE ætti ekki beinan þátt í þeim viðræðum sem nú fara fram um framtíð Kosovo en að stofnunin yrði síðasta alþjóðastofnunin með mikla starfsemi í héraðinu og að starfsemi ÖSE og ÖSE-þingsins í Kosovo væri mikilvæg fyrir langvarandi lausn deilunnar. Umræður í lok fundarins snerust aðallega um átök Georgíu og Rússlands þar sem fulltrúar þjóðþinga beggja ríkja tókust á um mismunandi sýn á lausn deilunnar. Fulltrúi georgíska þingsins fór fram á að alþjóðlegt friðargæslulið tæki við af rússnesku friðargæsluliði sem nú er í landinu.
    Í 2. nefnd um efnahags-, vísinda- og tækni- og umhverfismál var aðallega fjallað um spillingu, m.a. nýjan sáttmála Sameinuðu þjóðanna á því sviði. Auk þess var rætt um viðbrögð og endurbyggingu í kjölfar náttúruhamfara, sérstaklega í ljósi nýlegra atburða í Suður-Asíu og Bandaríkjunum. Sérfræðingar frá Sameinuðu þjóðunum og Alþjóða Rauða krossinum ávörpuðu fundinn.
    Fund 3. nefndar um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál ávörpuðu þeir Christian Stohal, sendiherra og forstöðumaður Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE (ODIHR), Alcee L. Hastings, þáverandi forseti ÖSE-þingsins, og Miklos Haraszti, fulltrúi ÖSE á sviði eftirlits með frelsi fjölmiðla (RFOM). Auk þess ræddi Anne-Marie Lizin um hugmyndir að skýrslu sinni sem birt var á ársfundinum í Brussel.
    Auk framangreindra funda var haldinn sérstakur fundur um baráttuna milli tjáningarfrelsis og virðingar fyrir trúarbrögðum að frumkvæði Hastings. Rúmlega 40 þingmenn tóku til máls, bæði frá aðildarríkjum ÖSE-þingsins og samstarfsríkjunum við Miðjarðarhaf. Mest bar á ræðum dönsku þingmannanna sem lögðu áherslu á að danskt þjóðfélag væri umburðarlynt og að tjáningarfrelsi væri einn af grundvallarþáttum dansks þjóðfélags. Því gætu dönsk stjórnvöld ekki skipt sér af ritstjórnarstefnu einstakra blaða. Pétur H. Blöndal, formaður Íslandsdeildar, tók til máls og ræddi m.a. um mikilvægi upplýsingaraldarinnar fyrir vestrænan skilning á hlutverki trúarbragða og vandamál varðandi skilgreiningar á guðlasti í ljósi aukinnar alþjóðavæðingar.
    Í tengslum við vetrarfundinn var haldinn óformlegur vinnufundur sérnefndar um fjárlög ÖSE sem Pétur H. Blöndal átti sæti í.
    Á lokafundi málefnanefndanna þriggja var sérstaklega rætt um starfsemi ÖSE-þingsins á sviði jafnréttismála og spunnust á ný umræður um mansal í tengslum við íþróttaviðburði.

15. ársfundur ÖSE þingsins.
    Ársfundur ÖSE-þingsins var haldinn 3.–7. júlí í húsnæði Evrópuþingsins í Brussel. Fundinn sóttu meira en 200 fulltrúar yfir fimmtíu ríkja. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Pétur H. Blöndal, formaður, Dagný Jónsdóttir, varaformaður, og Jóhanna Sigurðardóttir, auk Tómasar Brynjólfssonar, ritara Íslandsdeildarinnar. Yfirskrift fundarins var styrking mannöryggis á ÖSE-svæðinu. Auk formlegra ályktunardraga hverrar málefnanefndar fyrir sig voru fimmtán aukaályktanir lagðar fram á ársfundinum.
    Aðild Svartfjallalands að ÖSE-þinginu bar hæst á fundi stjórnarnefndar þingsins. Nokkur umræða varð um starf nefndar sem endurskoða á reglur ÖSE-þingsins og vakti Kessler, þingmaður frá Ítalíu, sérstaka athygli á hversu hægt starf nefndarinnar hefði gengið. Ákveðið var að reyna að leggja fram tillögur að breytingum fyrir haustfund stjórnarnefndarinnar á Möltu.
    Á setningarfundi ársfundarins flutti fráfarandi forseti ÖSE-þingsins, Alcee L. Hastings, stutta tölu um liðið ár í starfi þingsins. Ræða hans tók mið af því að kjörtímabili forsetans lauk á ársfundinum. Forsetar deilda þjóðþings Belga héldu einnig ræður auk Karel De Gucht, utanríkisráðherra Belgíu sem þá var einnig starfandi formaður ÖSE.
    Framkvæmdastjóri ÖSE hélt einnig erindi og gafst tími fyrir spurningar að því loknu. Pétur H. Blöndal spurði framkvæmdastjórann hvort hann sæi einhverjar leiðir til þess að bæta upplýsingagjöf stofnunarinnar til þingsins, sérstaklega í tengslum við svör ÖSE við áliti þingsins á fjármálum stofnunarinnar. Framkvæmdastjórinn gaf ekki skýr svör við spurningunni en benti á að ÖSE-þingið gæti nú nálgast nákvæmar upplýsingar um fjármál einstakra verkefna ÖSE í gegnum innra net stofnunarinnar. Hann sagði að ÖSE væri reiðubúið að starfa nánar með starfsmönnum ÖSE-þingsins á þessu sviði. Tine Tingsgård, sérstakur fulltrúi ÖSE-þingsins í kynjamálum, flutti að því loknu erindi um stöðu jafnréttismála innan ÖSE. Hún lagði áherslu á að þrátt fyrir að hlutur kvenna hefði aukist lítið eitt innan stofnunarinnar á undanförnum árum hefði hlutur þeirra í efri stjórnstigum ekki aukist að sama skapi.
    Á fundi 1. nefndar (nefndar um stjórnmál og öryggismál) var tekin fyrir skýrsla austurríska þingmannsins Wolfgangs Grossruck sem bar yfirskrift meginþema fundarins, þ.e. styrkingu mannöryggis á ÖSE-svæðinu. Umræðurnar í nefndinni beindust að fjölmörgum málefnum sem tæpt var á í skýrslunni, en þó sérstaklega að málefnum Suðaustur-Evrópu. Ályktun nefndarinnar beindist að þessum sama heimshluta, sérstaklega samstarfi ríkja á svæðinu við að snúa flóttamönnum til síns heima og baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi, þar á meðal mansali. Á fundinum voru tekin fyrir viðbótarályktanadrög, þau samþykkt og þeim vísað til þingfundar. Ályktunardrög um málefni Moldóvu og Afganistans fengu mesta umfjöllun. Ýmsum nefndarmönnum þóttu ályktunardrögin um Afganistan of bjartsýn og var ástandið í landinu rætt í þaula.
    Auk þess var rætt sérstaklega um skýrslu sérstaks sendifulltrúa ÖSE í málefnum minnihlutahópa, Rolfs Ekeus, um samanburð á stefnum nokkurra aðildarríkja í málefnum svokallaðra nýrra minnihlutahópa.
    Í lok fundarins var kosið í embætti nefndarinnar. Kosningarnar fóru þannig að Mónakóbúinn Jean-Charles Gardetto var kjörinn formaður, Hans Raidel frá Þýskalandi varaformaður og danski þingmaðurinn Kristian Pihl Lorentzen var kjörinn skýrsluhöfundur.
    Í 2. nefnd (nefnd um efnahags-, vísinda- og umhverfismál) var tekin fyrir skýrsla franska þingmannsins Rolands Blums sem einnig fjallaði um meginþema fundarins. Efnistökin voru þó önnur en í fyrstu nefnd og var megináherslan lögð á svæðisbundna efnahagssamvinnu, orkuöryggi og umbreytingu á hlutverki ÖSE á málefnasviði nefndarinnar.
    Dagný Jónsdóttir, varaformaður Íslandsdeildarinnar, tók til máls í umræðum um orkuöryggi. Í ræðu sinni benti Dagný á að norðurslóðir mundu í framtíðinni skipta sífellt meira máli á sviði olíu- og gasvinnslu, enda sé áætlað að um fjórðung ókortlagðra olíulinda heimsins megi finna á þeim slóðum. Dagný benti á að með aukinni nýtingu þessara auðlinda mætti búast við sífellt meiri skipaumferð við Ísland. Einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um brotthvarf varnarliðsins frá Íslandi veikti öryggi þessarar umferðar og skammur fyrirvari Bandaríkjamanna gerði Íslendingum erfitt fyrir að fylla í þau skörð sem myndast við brotthvarf þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins. Dagný sagðist einnig telja að sú leið sem Bandaríkjamenn fóru við að tilkynna brotthvarfið gæti ekki talist til góðra samskiptahátta vinaþjóða. Augljóst væri því að brotthvarf varnarliðsins varðaði ekki aðeins íslenska hagsmuni heldur einnig framtíðarorkuöryggi ÖSE-svæðisins, en efnahagsöryggi er eitt starfsviða stofnunarinnar og málefnasviða þingsins. Dagný þakkaði einnig Evrópuríkjum, sérstaklega Norðurlöndunum, fyrir aðstoð sem þau hafa veitt íslenskum stjórnvöldum í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjanna.
    Nefndin tók einnig til umræðu drög að aukaályktunum. Þar bar hæst umræðu um spillingu og baráttu þingmanna gegn henni. Í lok fundarins var kosið í trúnaðarstörf nefndarinnar. Kosningin fór þannig að Rússinn Leoníd Ivantsjenkó var kjörinn formaður, Grikkinn Petros Efthymiou varaformaður og Frakkinn Roland Blum endurkjörinn skýrsluhöfundur.
    Í 3. nefnd (nefnd um lýðræði, mannréttindi og mannúðarmál) var tekin fyrir skýrsla belgíska þingmannsins Anne-Marie Lizin sem bar titil meginþema fundarins eins og hinar meginskýrslur fastanefndanna. Kosningaeftirlit, heiðursglæpir, þinglegt eftirlit með lögreglu og öryggissveitum, styrking öryggis minnihlutahópa, trúfrelsi og siðareglur sendinefnda á vegum ÖSE voru meginviðfangsefni skýrslu nefndarinnar og ályktunar hennar. Líkt og á undanförnum missirum var tekist á um aðferðir við kosningaeftirlit. Rússar og Hvít-Rússar telja kosningaeftirlit ÖSE halla á stuðningsmenn þeirra í ríkjum Austur-Evrópu og Mið-Asíu. Þeir vilja að byggt verði á starfi kosningaeftirlits ríkja Samveldis sjálfstæðra ríkja, en flestir eftirlitsmenn frá Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku telja því verulega ábótavant.
    Jóhanna Sigurðardóttir tók til máls í umræðum um þinglegt eftirlit með lögreglu og öryggissveitum. Jóhanna vakti athygli á hugmyndum um stofnun sérstakrar öryggisdeildar ríkislögreglustjóra á Íslandi. Hún lagði áherslu á mikilvægi þinglegs eftirlits með slíkri stofnun og fagnaði ályktunardrögum ÖSE-þingsins í þá veru. Drögin voru síðar samþykkt og eru hluti Brussel-yfirlýsingar þingsins.
    Nefndin tók einnig til umræðu drög að aukaályktunum. Í lok fundarins var kosið í trúnaðarstörf nefndarinnar. Kosningin fór þannig að Belginn Anne-Marie Lizin var kjörin formaður, sænski þingmaðurinn Cecilia Wigström endurkjörin varaformaður og Jesús López- Medel frá Spáni var kjörinn skýrsluhöfundur.
    Eftir hádegi fimmtudaginn 6. júlí var efnt til almennrar þingumræðu. Pétur H. Blöndal tók til máls um mikilvægi þess að ÖSE-þingið sinnti starfi sínu á skilvirkan hátt. Pétur taldi að fundum og fundadögum þingsins hefði fjölgað stöðugt án þess að árangur af starfi þess ykist í samræmi við það. Pétur vakti einnig athygli á því að vinnuhópur um fjárlög ÖSE, sem hann á sæti í, hefði ekki starfað sem skyldi. Þinglegt eftirlit með fjárhag stofnunarinnar ætti þó að vera eitt helsta verkefni þingsins að mati Péturs. Á því sviði gæti þingið náð raunverulegum árangri sem oft væri erfitt að greina í starfi ÖSE-þingsins sem samþykkti fjöldann allan af ályktunum sem lítið væri farið eftir.
    Dagný Jónsdóttir tók einnig til máls á þingfundinum og benti þingheimi á að áhrif hnattrænnar hlýnunar væru meiri í kringum Norðurskautið en nokkurs staðar annars staðar. Dagný sagði að þessi þróun leiddi bæði til vandræða og tækifæra fyrir ríkin á svæðinu. Aukin efnahagsleg tækifæri í kringum Norðurskautið, t.d. í tengslum við olíu- og gasvinnslu, myndu leiða til aukinna siglinga um hafið við Ísland. Hún benti á að einhliða brotthvarf varnarliðsins hefði slæm áhrif á öryggi þessara siglinga, sérstaklega þar sem Íslendingar gætu ekki fyllt það skarð sem þyrlubjörgunarsveitin skilur eftir sig að öllu leyti á aðeins hálfu ári.
    Jóhanna Sigurðardóttir tók einnig til máls á þingfundinum. Jóhanna vakti athygli á ályktun sósíaldemókrata í Norðurlandaráði þess efnis að ríkisstjórnir landanna skuli vinni að sameiginlegri aðgerðaáætlun gegn mansali. Ásamt því að kynna tillögurnar hvatti Jóhanna þingmenn á ÖSE-þinginu til þess að beita sér fyrir því að kaup á vændi verði gerð ólögleg í aðildarríkjum stofnunarinnar. Jóhanna sagði að slík lagasetning væri mikilvægur þáttur í baráttunni gegn vændi og mansali, sem væru nátengd þjóðfélagsmein.
    Síðasti dagskrárliður ársfundarins var þingfundur föstudaginn 7. júlí. Meðal dagskrárliða var skýrsla gjaldkera þingsins, kanadíska þingmannsins Jerrys Grafsteins, og skýrsla framkvæmdastjóra ÖSE-þingsins, Spencers Olivers. Þá var efnt til almennra umræðna um skýrslur og ályktunardrög málefnanefndanna. Á fundinum var ályktun Brussel-fundarins samþykkt en hún fjallar um öryggis-, efnahags-, umhverfis-, og mannréttindamál. Í ályktuninni er sérstaklega kallað eftir auknum stuðningi við starfsemi ÖSE utan höfuðstöðvanna, sérstaklega á Balkanskaganum. Einnig var kallað eftir auknu samstarfi við aðrar alþjóðastofnanir á þessu sviði. Í ályktuninni var einnig lögð sérstök áhersla á aukið orkuöryggi, leiðandi hlutverk stjórnmálamanna í kosningaeftirliti, réttindi barna og þinglegt eftirlit með lögreglu- og öryggissveitum. Þingmennirnir fóru þess einnig sérstaklega á leit við stjórnvöld aðildarríkja ÖSE að landsvæði þeirra væru ekki nýtt til þess að aðstoða við leynilegt fangaflug eða til þess að halda föngum í leynilegum fangelsum. Að lokum var sænski þingmaðurinn Göran Lindmarker kjörinn nýr forseti ÖSE-þingsins til eins árs. Auk þess voru kjörnir fjórir varaforsetar, þau Benjamin Cardin frá Bandaríkjunum, João Soares frá Portúgal og Tone Tingsgård frá Svíþjóð til þriggja ára og Wolfgang Grossruck frá Austurríki til eins árs.
    Auk funda í málefnanefndum og þingfundar var efnt til sérlegra funda til hliðar við þinghaldið um málefni Miðjarðarhafsins, Hvíta-Rússlands og Nagorno-Karabak. Að venju var einnig efnt til sérlegs kvennafundar ÖSE-þingsins í boði bandarísku sendinefndarinnar.

Aukastjórnarnefndarfundur.
    Stjórnarnefnd ÖSE-þingsins fundaði á Möltu 18. nóvember. Í tengslum við fundinn fóru fram ráðstefnur þingsins um innflytjendamál og málefni Miðjarðarhafsins. Fundi stjórnarnefndarinnar sótti Pétur H. Blöndal, formaður Íslandsdeildarinnar, auk Tómasar Brynjólfssonar, ritara nefndarinnar.
    Yfir 250 fulltrúar 51 þjóðþings tóku þátt í fundunum. Við upphaf ráðstefnunnar um málefni innflytjenda hvatti forseti ÖSE-þingsins, Göran Lennmarker, þátttakendur til þess að minnast jákvæðra áhrifa fólksflutninga og fjölmenningarsamfélaga og einblína ekki á hið neikvæða. Á ráðstefnu um málefni Miðjarðarhafsins voru átökin fyrir botni Miðjarðarhafs helsta umræðuefnið, sérstaklega átökin milli Ísraels- og Palestínumanna og atburðir sumarsins í Líbanon.
    Á fundi stjórnarnefndar ÖSE-þingsins var farið yfir árangur af ráðstefnunni um innflytjendamál. Formaður bresku landsdeildarinnar lagði til að gerðar yrðu breytingar á Dyflinnar- samkomulaginu um meðferð á flóttamönnum. Þingmenn voru almennt sammála um að auka þyrfti samstarf allra þeirra ríkja sem hlut eiga að máli vegna fólksflutninga, þ.e. ríkja sem innflytjendur koma frá, ferðast um og leita til. Að því loknu kynnti gjaldkeri ÖSE-þingsins fjármálastöðu þess. Fjárhagur þingsins stendur vel og er með því besta sem gerist hjá alþjóðastofnunum og allir reikningar hafa verið vottaðir af alþjóðlegum endurskoðunarfyrirtækjum. Spencer Oliver, framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins, fór því næst yfir starf skrifstofu þingsins frá ársfundinum í júlí. Hann sagði að forsetaskipti þingsins um sumarið hefðu leitt til aukinnar vinnu fyrir embættismenn þingsins, enda hefði Lennmarker verið mjög virkur í starfi. Oliver og fulltrúi ÖSE-þingsins gagnvart ÖSE, Andreas Nothelle, sögðu einnig frá vandamálum í samskiptum ÖSE-þingsins við ODHIR, sem er sú stofnun ÖSE sem fer með kosningaeftirlit af hálfu framkvæmdarvaldsins. Fram kom að á undanförnum missirum hefði verið reynt að draga úr áhrifum ÖSE-þingsins við kosningaeftirlit. Ágreiningur ÖSE-þingsins og ODHIR hefði leitt til þess að forseti ÖSE hefði skipað sérstakan fulltrúa til þess að fara yfir ágreiningsmálin og lægja öldurnar. Þingið hefði miklar áhyggjur af minnkandi áhrifum sínum og hverfandi áhuga framkvæmdarvaldsins á virkri þátttöku þingmannasamkundunnar í kosningaeftirlitinu.
    Tillögur nefndar um breytingar á starfsreglum þingsins voru því næst kynntar og kosið um þær. Hæst bar að hver landsnefnd getur nú lagt fram eina skriflega spurningu til framkvæmdarvaldsins á ári hverju.
    Framkvæmdastjóri ÖSE kynnti að því loknu tillögu að fjármálum stofnunarinnar fyrir árið 2007. Hann sagði mikinn þrýsting á stofnunina að auka ekki við kostnað, en á sama tíma væru henni falin sífellt fleiri verkefni. Hann sagði 67% fjármuna ÖSE vera varið í verkefni utan stofnana ÖSE, 21% færi til aðalskrifstofunnar í Vín og 12% til annarra stofnana samtakanna, m.a. ODHIR í Póllandi. Yfir tveir þriðju hluta verkefna ÖSE eru í Austur-Evrópu. Framkvæmdastjórinn sagði fimm til sex stærstu ríkin ráða ferðinni við þróun fjármála ÖSE og ekki væru miklir möguleikar á að auka hlutverk þingsins eða annarra aðila í ferlinu.
    Í kjölfar ræðu framkvæmdastjóra ÖSE gafst þingmönnum tækifæri til þess að tjá skoðanir sínar á fjárhagstillögunni og leggja spurningar fyrir hann. Pétur H. Blöndal, formaður Íslandsdeildarinnar, tilkynnti framkvæmdastjóranum og stjórnarnefndinni að hann hefði verið skipaður sérstakur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins varðandi fjármál ÖSE.
    Hann þakkaði framkvæmdastjóranum fyrir að kynna fjármálin fyrir þingmannasamkundunni og fyrir þann árangur sem náðst hefði varðandi einföldun fjármála stofnunarinnar og skýrari framsetningu þeirra. Pétur lýsti fyrir nefndinni og framkvæmdastjóranum verkáætlun fyrir starf sitt sem sérstakur fulltrúi forsetans varðandi fjármál ÖSE. Í fyrsta lagi hyggst Pétur skoða tillögur ÖSE-þingsins frá síðastliðnum þremur árum sem hafa áhrif á fjárhag ÖSE. Hann hyggst bera þær saman við aðgerðir stofnunarinnar og vekja athygli framkvæmdarvaldsins á eldri ályktunum sem ekki hefur verið farið eftir. Í öðru lagi hyggst hann setja fram á skipulegan hátt hvernig ákvarðanir um fjármál stofnunarinnar eru teknar. Í ljósi þess verður mögulegt að bæta aðkomu þingsins að ákvarðanatökuferlinu. Í þriðja lagi vill Pétur reyna að auðvelda þinginu að fá heildarmynd yfir fjárhag ÖSE. Í fjórða lagi hyggst Pétur reyna að meta hvort fjármunum sem veitt er til ÖSE sé varið á viðunandi hátt. Pétur hyggst skila reglulegum skýrslum um starf sitt til forseta ÖSE-þingsins. Afrakstri af starfinu verður svo komið á framfæri við þingið fyrst á vetrarfundinum í Vín 22. og 23. febrúar og svo á ársþinginu sem haldið verður í Kænugarði í Úkraínu í byrjun júlí.

Alþingi, 7. febr. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form.


Sæunn Stefánsdóttir,


varaform.


Jóhanna Sigurðardóttir.