Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 648. máls.

Þskj. 967  —  648. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005 frá 2. desember 2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri, tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/ EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 96/92/EB, og 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 98/30/EB, ásamt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB frá 11. nóvember 2003 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005 frá 2. desember 2005, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri, tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/ EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 96/92/EB, og 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 98/30/EB, ásamt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB frá 11. nóvember 2003 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirra gerða sem hér um ræðir. Gerðir þessar fela ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt viðkomandi gerðum.

2. Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003, tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB og 2003/55/EB og ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB.
    Í mars 2001 samþykkti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins svokallaðan orkupakka. Hann samanstóð af orðsendingu framkvæmdastjórnarinnar varðandi mótun innri orkumarkaðar Evrópusambandsins (Completing the Internal Energy Market), tillögu að reglugerð um skilyrði fyrir aðgangi að flutningskerfum vegna gegnumflutnings rafmagns og tillögum að breytingum á tilskipunum 96/92/EB (rafmagn) og 98/30/EB (gas). Pakkinn, sem samþykktur var í júní 2003, inniheldur fjórar gerðir: reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003, tilskipanir Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB og 2003/55/EB ásamt ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi (European Regulators Group for Electricity and Gas).

Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003.
    Reglugerðinni er ætlað að skapa sanngjarnar leikreglur varðandi gegnumflutning á raforku yfir landamæri og auka þannig samkeppni. Reglugerðin kveður á um gjaldtöku vegna slíks gegnumflutnings, stjórnun, nýjar tengingar, upplýsingagjöf o.fl. Í 12. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að ríkin skuli kveða á um refsingar vegna brota á reglugerðinni en í greininni er framkvæmdastjórninni jafnframt veitt heimild til að beita refsingum í formi sekta, að hámarki 1% af veltu síðasta árs vegna brota á upplýsingaskyldu.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB.
    Tilskipuninni er ætlað að skapa sameiginlegar reglur fyrir framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu raforku. Með henni eru lagðar reglur varðandi skipulag raforkugeirans, aðgang að mörkuðum, skilyrði og ferlar vegna útboða, leyfisveitingar og rekstur raforkukerfa.
    Tilskipun 2003/54/EB felur í sér einstaka breytingar frá tilskipun 96/92/EB, einkum varðandi opnun markaða og aðskilnað samkeppnis- og einokunarþátta í rekstri raforkufyrirtækja. Tilskipunin mun kalla á smávægilegar breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, enda lagðar til breytingar er falla innan þeirrar meginstefnu sem mörkuð var með tilskipun 96/92/EB en horfa til bóta í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af framkvæmd hennar. Einna helst má nefna að tilskipunin felur í sér skýrari ákvæði um aðskilnað rekstrarþátta dreifiveitna. Einnig má nefna að tilskipunin skyldar ríki til að tryggja að öll fyrirtæki eigi rétt á að velja sér framleiðanda frá og með 1. júlí 2004 en slíkur réttur nái til allra notenda raforku frá 1. júlí 2007.
    Rétt er að benda á að skv. 1. og 2. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar er kveðið á um að bæði flutningur og dreifing skuli rekin af sjálfstæðum lögaðilum sem ekki mega hafa með höndum aðra starfsemi. Hins vegar skal tekið fram að í lokamálslið 15. gr. tilskipunarinnar er að finna undanþáguheimild hvað varðar kröfur um aðskilnað þar sem segir að aðildarríkjum sé heimilt að undanþiggja orkufyrirtæki, sem hafa færri en 100 þúsund tengda viðskiptavini eða þjónusta lítil einangruð kerfi, frá kröfum 1. og 2. mgr. 15. gr. Allar dreifiveitur á Íslandi eru undir þessum mörkum.

Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/55/EB.
    Tilskipuninni er ætlað að skapa sameiginlegar reglur fyrir flutning, dreifingu, sölu og geymslu á jarðgasi. Með henni eru lagðar reglur varðandi skipulag, aðgang að mörkuðum, leyfisveitingar og rekstur. Tilskipunin felur í sér nokkrar breytingar frá fyrri tilskipun um sama efni, nr. 98/30/EB.

Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB.
    Með ákvörðuninni er sett á fót sérstök ráðgjafarnefnd. Nefndinni er ætlað að vera framkvæmdastjórninni til ráðgjafar í málum er varða raforku og jarðgas. Í 4. mgr. 3. gr. kemur m.a. fram að sérfræðingar frá EES-ríkjum megi sitja fundi sem áheyrnaraðilar.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 146/2005

frá 2. desember 2005

um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         IV. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2005 frá 8. júlí 2005 ( 1 ).

2)         Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri ( 2 ) skal felld inn í samninginn.

3)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 96/92/EB ( 3 ) skal felld inn í samninginn.

4)         Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 98/30/EB ( 4 ) skal felld inn í samninginn með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 16, 23.1.2004, bls. 74.

5)         Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB frá 11. nóvember 2003 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi ( 5 ) skal felld inn í samninginn.

6)         Með tilskipun 2003/54/EB er felld úr gildi tilskipun 90/547/EBE ( 6 ) og með tilskipun 2003/55/EB er felld úr gildi tilskipun 91/296/EBE ( 7 ), en þær gerðir hafa verið felldar inn í samninginn og ber því að fella þær brott.

7)         Með ákvörðun 2003/796/EB er felld úr gildi ákvörðun 92/167/EBE ( 8 ), en sú gerð myndar lagagrundvöll núverandi 4. viðbætis við IV. viðauka og ber því að fella hana brott.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.


IV. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Eftirfarandi bætist við í lið 11h (tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2002/31/EB):

        „ , eins og henni var breytt með:

        –              1 03 T: Lög um aðildarskilmála Lýðveldisins Tékklands, Lýðveldisins Eistlands, Lýðveldisins Kýpur, Lýðveldisins Lettlands, Lýðveldisins Litháens, Lýðveldisins Ungverjalands, Lýðveldisins Möltu, Lýðveldisins Póllands, Lýðveldisins Slóveníu og Lýðveldisins Slóvakíu og aðlögun sáttmálanna sem mynda grundvöll Evrópusambandsins, samþykkt 16. apríl 2003 (Stjtíð. ESB L 236, 23.9.2003, bls. 33).“

2.         Eftirfarandi liðir bætist við á eftir 19. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB):

        „20.     32003 R 1228: Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri (Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 1).

                    Ákvæði reglugerðarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                    a)    Að því er EFTA-ríkin varðar skal fela stjórnsýsluverkefnin, sem um getur í 2. mgr. 12. gr., eftirlitsyfirvöldum í EFTA-ríkjunum.

                    b)    Hlutaðeigandi EFTA-ríkjum skal heimilt að senda áheyrnarfulltrúa á fundi nefndarinnar sem komið er á fót með 13. gr. Fulltrúar EFTA-ríkjanna skulu taka fullan þátt í störfum nefndarinnar, en hafa þó ekki atkvæðarétt.

        21.         32003 D 0796: Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB frá 11. nóvember 2003 um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi (Stjtíð. ESB L 296, 14.11.2003, bls. 34).

        22.          32003 L 0054: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 96/92/EB (Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 37).

                    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                    a)    Í stað orðanna „sáttmálans, einkum 86. gr.“ í 2. mgr. 3. gr. komi orðin „EES- samningsins, einkum 59. gr.“.

                    b)    Í stað orðanna „hagsmuni Bandalagsins“ í 8. mgr. 3. gr. komi orðin „hagsmuni samningsaðilanna“.

                    c)    Í stað orðanna „86. gr. sáttmálans“ í 8. mgr. 3. gr. komi orðin „59. gr. EES- samningsins“.

                    d)    Eftirfarandi bætist við í lok 10. gr.: „Þetta ákvæði gildir ekki að því er varðar Liechtenstein.“.

                    e)    Í stað orðanna „sáttmálans, einkum 82. gr.“ í 8. mgr. 23. gr. komi orðin „EES-samningsins, einkum 54. gr.“.

                    f)    Eftirfarandi bætist við í lok síðasta málsliðar 1. mgr. 26. gr.: „og Ísland“.

                    g)    Texti 2. mgr. 26. gr. hljóði svo: „Ef EFTA-ríki reynist af tæknilegum ástæðum mjög torvelt að opna markað landsins fyrir tilteknum takmörkuðum hópum kaupenda annarra en heimila, sem um getur í b-lið 1. mgr. 21. gr., eftir að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005 frá 2. desember 2005 öðlast gildi skal því heimilt að sækja um undanþágu frá þessu ákvæði og getur Eftirlitsstofnun EFTA látið undanþágu af því tagi gilda í 18 mánuði hið lengsta eftir að ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 146/2005 frá 2. desember 2005 öðlast gildi.“

                    h)    Ísland telst lítið einangrað kerfi í skilningi 26. mgr. 2. gr. Af þeim sökum gildir undanþágan sem mælt er fyrir um í 15. gr.

        23.          32003 L 0055: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 98/30/EB (Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 57), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 16, 23.1.2004, bls. 74.

                    Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                    a)    Í stað orðanna „sáttmálans, einkum 86. gr.“ í 2. mgr. 3. gr. komi orðin „EES- samningsins, einkum 59. gr.“.

                    b)    Í stað orðanna „hagsmuni Bandalagsins“ í 5. mgr. 3. gr. komi orðin „hagsmuni samningsaðilanna“.

                    c)    Í stað orðanna „86. gr. sáttmálans“ í 5. mgr. 3. gr. komi orðin „59. gr. EES- samningsins“.

                    d)    Eftirfarandi bætist við í lok 9. gr.: „Þetta ákvæði gildir ekki að því er varðar Liechtenstein.“.

                    e)    Eftirfarandi bætist við í lok fyrsta málsliðar 2. mgr. 17. gr.: „ , eins og hún stendur í EES-samningnum og með áorðnum breytingum samkvæmt ákvæðum til aðlögunar að þeim samningi“.

                    f)    Í stað orðanna „sáttmálans, einkum 82. gr.“ í 8. mgr. 25. gr. komi orðin „EES-samningsins, einkum 54. gr.“.

                    g)    Noregur telst nýmarkaður í skilningi 31. mgr. 2. gr. frá 10. apríl 2004 að telja. Af þeim sökum gildir undanþágan sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 28. gr.

                    h)    Hlutaðeigandi EFTA-ríkjum skal heimilt að senda áheyrnarfulltrúa á fundi nefndarinnar sem komið er á fót með 30. gr. Fulltrúar EFTA-ríkjanna skulu taka fullan þátt í störfum nefndarinnar, en hafa þó ekki atkvæðarétt.“

3.         Texti 8. liðar (tilskipun ráðsins 90/547/EBE), 9. liðar (tilskipun ráðsins 91/296/EBE), 14. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB), og 16. liðar (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/30/EB), falli brott.

4.         Texti 2., 3. og 4. viðbætis falli brott.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti reglugerðar (EB) nr. 1228/2003, tilskipunar 2003/54/EB, tilskipunar 2003/55/EB, með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 16, 23.1.2004, bls. 74, og ákvörðunar 2003/796/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 3. desember 2005 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 2. desember 2005.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    Nikulás prins af Liechtenstein


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann

Fylgiskjal II.


REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (EB) nr. 1228/2003
frá 26. júní 2003
um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB frá 19. desember 1996 um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku ( 4 ) var mikilvægt skref í þá átt að koma endanlega á hinum innri markaði á sviði raforku.
2)          Á fundi sínum í Lissabon 23. og 24. mars 2000 hvatti Evrópuráðið til þess að unnið yrði að því í flýti að koma endanlega á innri markaði bæði á sviði raforku og gass og að frelsi yrði aukið hið fyrsta á þessum sviðum með það fyrir augum að innri markaður verði starfræktur að fullu á þessum sviðum.
3)          Stuðla skal að sköpun raunverulegs innri markaðar á sviði raforku með því að auka viðskipti með raforku, sem eru sem stendur vanþróuð í samanburði við önnur svið efnahagslífsins.

4)          Innleiða skal sanngjarnar, kostnaðartengdar og gagnsæjar reglur um gjaldskrár vegna flutnings yfir landamæri og úthlutunar á tiltækri flutningsgetu samtengilína sem gilda án frekari lögfestingar, hafa hliðsjón af samanburði milli skilvirkra kerfisstjóra neta á svæðum, sem eru sambærileg að uppbyggingu og koma til viðbótar ákvæðum tilskipunar 96/92/EB, í því skyni að tryggja skilvirkan aðgang að flutningskerfum vegna viðskipta yfir landamæri.
5)          Í ályktun sinni frá 30. maí 2000 hvatti orkuráðið framkvæmdastjórnina, aðildarríkin og innlend eftirlitsyfirvöld og stjórnvöld til að tryggja að ráðstafanir til að bregðast við kerfisöng komist tímanlega til framkvæmda og í samvinnu við Evrópska flutningskerfisstjóra (ETSO), til skjótvirkrar innleiðingar trausts gjaldskrárkerfis til lengri tíma þar sem kveðið er á um viðeigandi merki til markaðsaðila vegna kostnaðarskiptingar.
6)          Í ályktun sinni frá 6. júlí 2000 um aðra skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um stöðu þeirrar viðleitni að auka frelsi á orkumörkuðunum kallaði Evrópuþingið eftir skilyrðum vegna notkunar neta í aðildarríkjum, sem hindra ekki raforkuviðskipti yfir landamæri, og fór þess á leit við framkvæmdastjórnina að hún legði fram sértækar tillögur sem miða að því að vinna bug á öllum núverandi hindrunum á viðskiptum innan Bandalagsins.
7)          Mikilvægt er að þriðju lönd, sem mynda hluta af evrópska raforkukerfinu, fari að þeim reglum, sem er að finna í þessari reglugerð og viðmiðunarreglunum sem samþykktar eru samkvæmt þessari reglugerð, í því skyni að auka skilvirka starfsemi innri markaðarins.
8)          Í þessari reglugerð skal mælt fyrir um grundvallarreglur gjaldskrársetningar og úthlutunar flutningsgetu og um leið skal greiða fyrir samþykkt viðmiðunarreglna þar sem er að finna nákvæmari lýsingu á viðeigandi meginreglum og aðferðafræði í því skyni að gera kleift að aðlagast breyttum aðstæðum með skjótum hætti.
9)          Á opnum markaði þar sem samkeppni ríkir skulu flutningskerfisstjórar, þaðan sem flæði yfir landamæri er upprunnið og kerfa þar sem flæðið endar, bæta flutningskerfisstjórum þann kostnað, sem stofnað er til, vegna hýsingar á rafmagnsflæði yfir landamæri á netum þeirra.
10)          Taka skal tillit til útgjalda og tekna vegna jöfnunargreiðslna milli flutningskerfisstjóra þegar gjaldskrár fyrir innlend net eru ákveðnar.
11)          Mikill munur getur verið á þeim upphæðum, sem í raun ber að greiða fyrir aðgang að kerfinu yfir landamæri, eftir því hvaða flutningskerfisstjórar eiga hlut að máli og vegna mismunandi uppbyggingar gjaldskrárkerfa sem beitt er í aðildarríkjunum. Því er nokkurrar samræmingar þörf til að komast hjá röskun á viðskiptum.
12)          Gott kerfi langtíma staðsetningarmerkja er nauðsynlegt, sem byggist á meginreglunni um að gjöld vegna aðgangs að netum skuli endurspegla jafnvægið milli framleiðslu og notkunar á svæðinu, sem um er að ræða, á grundvelli aðgreiningar á gjöldum vegna aðgangs að netum eftir framleiðendum og/eða neytendum.
13)          Ekki er rétt að beita fjarlægðartengdum gjöldum, eða, að því tilskildu að viðeigandi staðsetningarmerki séu til staðar, sérstöku gjaldi sem einungis útflytjendum eða innflytjendum ber að greiða, til viðbótar við almenna gjaldið fyrir aðgang að innlenda netinu.
14)          Forsenda skilvirkrar samkeppni á innri markaðinum eru gjöld vegna notkunar neta, sem eru gagnsæ og án mismununar, þ.m.t. samtengilínur í flutningskerfinu. Flutningsgetan, sem er tiltæk á þessum línum, skal vera hámarksgildið sem er í samræmi við öryggisstaðla um öruggan rekstur neta.
15)          Mikilvægt er að komast hjá röskun á samkeppni vegna þess að flutningskerfisstjórar í aðildarríkjunum nota mismunandi öryggis-, rekstrar- og skipulagsstaðla. Enn fremur skal ríkja gagnsæi fyrir markaðsaðila, að því er varðar tiltæka flutningsgetu og öryggis-, skipulags- og rekstrarstaðla, sem hafa áhrif á tiltæka flutningsgetu.
16)          Reglur skulu vera til staðar um ráðstöfun tekna vegna aðgerða til að bregðast við kerfisöng nema sérstakt eðli samtengils, sem hlut á að máli, réttlæti undanþágu frá þessum reglum.
17)          Mögulegt skal vera að leysa vandamál í tengslum við kerfisöng á ýmsan hátt svo lengi sem aðferðirnar, sem notaðar eru, gefi flutningskerfisstjórum og markaðsaðilum rétt efnahagsleg merki og byggist á markaðsaðferðum.
18)          Til að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins skal kveða á um málsmeðferð, sem gerir framkvæmdastjórninni kleift að samþykkja ákvarðanir og viðmiðunarreglur, m.a. um gjaldskrár og úthlutun flutningsgetu en tryggir um leið þátttöku eftirlitsyfirvalda aðildarríkjanna í þessu ferli, eftir því sem við á, í gegnum evrópusamtök þeirra. Eftirlitsyfirvöld, ásamt öðrum viðeigandi yfirvöldum í aðildarríkjunum, gegna mikilvægu hlutverki við að stuðla að snurðulausri starfsemi innri markaðarins.
19)          Þess skal krafist að aðildarríkin og lögbær, innlend yfirvöld veiti framkvæmdastjórninni viðeigandi upplýsingar. Framkvæmdastjórnin skal fara með slíkar upplýsingar sem trúnaðarmál. Ef nauðsynlegt er, skal framkvæmdastjórnin hafa tækifæri til að krefjast viðeigandi upplýsinga beint frá hlutaðeigandi fyrirtækjum að því tilskildu að lögbær innlend yfirvöld séu upplýst um það.
20)          Innlend eftirlitsyfirvöld skulu tryggja að farið sé að reglunum, sem er að finna í þessari reglugerð og viðmiðunarreglunum, sem samþykktar eru á grundvelli þessarar reglugerðar.
21)          Aðildarríkin skulu mæla fyrir um reglur um viðurlög við brotum á ákvæðum þessarar reglugerðar og tryggja að þeim sé framfylgt. Þessi viðurlög skulu vera árangursrík, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
22)          Þar sem aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði fyrirhugaðra aðgerða, þ.e. að kveða á um samræmdan ramma fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri, og þar eð því markmiði verður, af þeim sökum, betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa mikil áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar reglugerðar ekki lengra en nauðsynlegt er til að ná megi því markmiði.
23)          Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari reglugerð skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 5 ).
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:

1. gr.
Efni og gildissvið

Markmiðið með þessari reglugerð er að setja sanngjarnar reglur um raforkuviðskipti yfir landamæri og auka þannig samkeppni á innri markaðinum með raforku að teknu tilliti til sérkenna innlendra markaða og svæðismarkaða. Þetta felur í sér að komið verði á fyrirkomulagi vegna jöfnunargreiðslna fyrir raforkuflæði yfir landamæri og að settar verði samræmdar meginreglur um gjöld vegna flutnings yfir landamæri og úthlutun tiltækrar flutningsgetu samtengilína milli innlendra flutningskerfa.

2. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessari reglugerð skulu skilgreiningarnar, sem er að finna í 2. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 96/92/EB ( 6 ), gilda að undanskilinni skilgreiningunni á „samtengli“ en í hennar stað komi eftirfarandi:
„samtengill“: flutningslína sem fer yfir eða liggur á landamærum aðildarríkja og sem tengir saman innlend flutningskerfi aðildarríkjanna.
2.    Eftirfarandi skilgreiningar skulu jafnframt gilda:
a)    ,,eftirlitsyfirvöld“: eftirlitsyfirvöldin sem um getur í 1. mgr. 23. gr. tilskipunar 2003/54/EB,
b)    „flæði yfir landamæri“: raunverulegt raforkuflæði á flutningsneti aðildarríkis sem er til komið vegna áhrifa af aðgerðum framleiðenda og/eða neytenda utan þess aðildarríkis á flutningsneti þess. Ef flutningsnet tveggja eða fleiri aðildarríkja eru hluti, í heild sinni eða að hluta, af einni stýrieiningu, einungis að því er varðar fyrirkomulag jöfnunargreiðslna milli flutningskerfisstjóra, sem um getur í 3. gr., skal stýrieiningin í heild teljast hluti flutningsnets eins af hlutaðeigandi aðildarríkjum til að komast hjá því að flæði innan stýrieininga teljist flæði yfir landamæri og gefi þannig tilefni til jöfnunargreiðslna skv. 3. gr. Eftirlitsyfirvöldum í hlutaðeigandi aðildarríkjum er heimilt að ákveða hvert af hlutaðeigandi aðildarríkjum skuli teljast vera aðildarríkið, sem stýrieiningin í heild telst vera hluti af,
c)    „kerfisöng“: aðstæður þar sem samtengilína, sem tengir saman innlend flutningsnet, getur ekki ráðið við allt raunverulegt flæði vegna innlendra viðskipta, sem markaðsaðilar hafa óskað eftir, vegna skorts á flutningsgetu samtenglanna og/ eða hlutaðeigandi innlendra flutningskerfa,
d)    „uppgefinn útflutningur“: raforku, er sending raforku í einu aðildarríki á grundvelli fyrirliggjandi samningsákvæða þannig að samsvarandi viðtaka („uppgefinn innflutningur“) raforku eigi sér stað samtímis í öðru aðildarríki eða þriðja landi,
e)    „uppgefinn umflutningur“: raforku eru aðstæður þar sem „uppgefinn útflutningur“ raforku á sér stað og þar sem tilgreind leið viðskiptanna liggur um land þar sem hvorki sending né samsvarandi viðtaka raforkunnar á sér stað,
f)    „uppgefinn innflutningur“: raforku er viðtaka raforku í aðildarríki eða þriðja landi um leið og raforkan er send („uppgefinn útflutningur“) í öðru aðildarríki,
g)    „nýr samtengill“: samtengill sem ekki er tilbúinn á gildistökudegi þessarar reglugerðar.

3. gr.
Fyrirkomulag jöfnunargreiðsla milli flutningskerfisstjóra

1.     Flutningskerfisstjórar skulu fá jöfnunargreiðslur vegna kostnaðar sem til fellur sökum hýsingar á raforkuflæði yfir landamæri á netum þeirra.
2.     Kerfisstjórar innlendra flutningskerfa, þar sem flæði yfir landamæri á upptök sín og kerfa þar sem flæðið endar, skulu greiða jöfnunargreiðslurnar sem um getur í 1. mgr.
3.     Jöfnunargreiðslur skulu greiddar reglulega fyrir tiltekið tímabil sem liðið er. Ef nauðsynlegt er skal gera leiðréttingar á jöfnunargreiðslunum eftir á til að endurspegla þann kostnað sem raunverulega er stofnað til. Ákveða skal fyrsta tímabilið, sem greiða skal jöfnunargreiðslur fyrir, í viðmiðunarreglunum sem um getur í 8. gr.
4.     Framkvæmdastjórnin skal, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 13. gr., ákveða fjárhæðir jöfnunargreiðslna sem ber að greiða.
5.     Umfang flæðis yfir landamæri, sem hýst er, og umfang flæðis yfir landamæri, sem er tilgreint að eigi upptök og/eða endi í innlendum flutningskerfum, skal ákvarðað á grundvelli raunverulegs flæðis raforku sem mælt er á tilteknu tímabili.
6.     Kostnaður, sem stofnað er til vegna hýsingar á flæði yfir landamæri, skal ákvarðaður á grundvelli langtímaspár um meðalkostnaðarauka, að teknu tilliti til taps, fjárfestingar í nýjum grunnvirkjum og viðeigandi hlutfalls kostnaðar við grunnvirki, sem fyrir eru, svo fremi sem grunnvirki sé notað til flutnings á raforku yfir landamæri, einkum að teknu tilliti til nauðsynjar þess að tryggja afhendingaröryggi. Við ákvörðun á kostnaði, sem stofnað er til, skal nota viðurkenndar, staðlaðar aðferðir við kostnaðarútreikninga. Taka skal tillit til ávinnings, sem neti hlýst af því að hýsa flæði yfir landamæri, til að draga úr jöfnunargreiðslunum.

4. gr.
Gjaldtaka vegna aðgangs að netum

1.     Gjöld, sem kerfisstjórar neta leggja á vegna aðgangs að netum, skulu vera gagnsæ, taka tillit til nauðsynjar á netöryggi og endurspegla raunverulegan kostnað, sem stofnað er til, svo fremi að þau samsvari gjöldum skilvirks og sambærilegs kerfisstjóra nets hvað varðar uppbyggingu og þeim sé beitt án mismununar. Þessi gjöld skulu ekki vera fjarlægðartengd.
2.     Heimilt er að leggja gjöld á framleiðendur og neytendur („álag“) fyrir aðgang að netum. Hluti heildarupphæðar netgjalda, sem framleiðendur greiða, skal, með fyrirvara um þörfina að gefa viðeigandi og skilvirk staðsetningarmerki, vera minni en hlutinn sem neytendur greiða. Eftir því sem við á, skal gjaldskráin, sem beitt er á framleiðendur og/eða neytendur, gefa staðsetningarmerki um alla Evrópu og taka tillit til taps og kerfisangar sem og kostnaðar við fjárfestingar í grunnvirki. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að aðildarríkin gefi staðsetningarmerki á eigin yfirráðasvæði eða beiti aðferðum til að tryggja að gjöld, sem neytendur („álag“) greiða fyrir aðgang að neti þeirra, séu eins á öllu yfirráðasvæði þeirra.
3.     Þegar gjöld fyrir netaðgang eru ákveðin skal taka tillit til eftirfarandi:
—    greiðslna og tekna vegna fyrirkomulags jöfnunargreiðslna milli flutningskerfisstjóra,
—    raunverulegra greiðslna, sem inntar eru af hendi og tekið er við, sem og greiðslna sem búist er við á ókomnum tímabilum, sem áætlaðar eru á grundvelli liðinna tímabila.
4.     Að því tilskildu að viðeigandi og skilvirk staðsetningarmerki séu til staðar, í samræmi við 2. mgr., skulu gjöld fyrir aðgang að netum lögð á framleiðendur og neytendur, óháð því hvert ákvörðunar- eða upprunalandið er fyrir raforkuna, eins og tilgreint er í viðskiptalega fyrirkomulaginu sem liggur því til grundvallar. Þetta skal ekki hafa áhrif á gjöld á uppgefinn útflutning og uppgefinn innflutning, sem eru tilkomin vegna viðbragða við að minnka líkur á kerfisöng, sem um getur í 6. gr.
5.     Ekki skal vera sérstakt netgjald fyrir einstök viðskipti vegna uppgefins gegnumflutnings raforku.

5. gr.
Tilhögun upplýsingamiðlunar um flutningsgetu samtengilína

1.     Flutningskerfisstjórar skulu koma upp samræmingar- og upplýsingaskiptikerfum til að tryggja öryggi neta með tilliti til viðbragða við kerfisöng.
2.     Öryggis-, rekstrar- og skipulagsstaðlar, sem flutningskerfisstjórar í aðildarríkjunum nota, skulu birtir opinberlega. Í upplýsingunum, sem birtar eru, skal vera almennt kerfi til útreikninga á heildarflutningsgetunni og áreiðanleikavikmörkum flutnings sem byggjast á rafmagnseiginleikum og eðlisfræðilegum eiginleikum netsins. Slík kerfi skulu vera háð samþykki eftirlitsyfirvalda.
3.     Flutningskerfisstjórar skulu birta áætlanir um tiltæka flutningsgetu fyrir hvern dag, þar sem tilgreind er tiltæk flutningsgeta sem þegar hefur verið tekin frá. Þetta skal birt með tilteknu millibili fyrir flutningsdaginn og þar skulu, í öllum tilvikum, vera áætlanir viku og mánuð fram í tímann ásamt magnbundnum upplýsingum um áætlaðan áreiðanleika tiltækrar flutningsgetu.

6. gr.
Almennar meginreglur varðandi viðbrögð við kerfisöng

1.     Leysa skal vandamál í tengslum við kerfisöng með markaðstengdum lausnum án mismununar sem gefa markaðsaðilum og flutningskerfisstjórum, sem hlut eiga að máli, skilvirk efnahagsleg merki. Helst skal leysa vandamál í tengslum við kerfisöng með aðferðum, sem ekki eru viðskiptatengdar, þ.e. aðferðum sem fela ekki í sér val á milli samninga einstakra markaðsaðila.
2.     Einungis skal nota aðferðir, sem fela í sér skerðingu á viðskiptum þegar um neyðartilvik er að ræða, þar sem flutningskerfisstjóri verður að bregðast við með skjótum hætti og endursending eða mótkaup (countertrading) eru ekki möguleg. Allri slíkri málsmeðferð skal beitt án mismununar.
Markaðsaðilum, sem hefur verið úthlutað flutningsgetu, skal bætt hvers kyns skerðing nema ef um óviðráðanlegar aðstæður er að ræða.
3.     Hámarksflutningsgeta samtengilína og/eða flutningsneta, sem hafa áhrif á flæði yfir landamæri, skal standa markaðsaðilum, sem uppfylla öryggisstaðla um öruggan rekstur neta, til boða.
4.     Markaðsaðilar skulu tilkynna flutningskerfisstjórum, sem hlut eiga að máli, með hæfilegum fyrirvara fyrir viðkomandi rekstrartímabil, hvort þeir hafi í huga að nota flutningsgetuna sem þeim var úthlutað. Öll flutningsgeta, sem hefur verið úthlutað og verður ekki notuð, skal sett aftur á markað með opnum og gagnsæjum hætti án mismununar.
5.     Flutningskerfisstjórar skulu, eftir því sem það er tæknilega mögulegt, jafna út kröfum um flutningsgetu á orkuflæði í gagnstæða átt á samtengilínunni, þar sem kerfisöng er til staðar, í því skyni að nota hámarksflutningsgetu þessarar línu. Með fullu tilliti til netöryggis skal aldrei synja um viðskipti sem leysa úr kerfisönginni.
6.     Allar tekjur vegna úthlutunar á samtengingu skulu notaðar í eitt eða fleira af eftirfarandi:
a)    sem trygging fyrir því að úthlutuð flutningsgeta sé raunverulega tiltæk,
b)    fjárfestingar í netum til að viðhalda eða auka flutningsgetu samtengilína,
c)    sem tekjur, sem eftirlitsyfirvöld skulu taka tillit til, þegar þau samþykkja aðferðafræði við að reikna út gjaldskrár neta og/eða við að meta hvort breyta eigi gjaldskrám.

7. gr.
Nýir samtenglar

1.     Heimilt er að undanþiggja nýja jafnstraumssamtengla frá ákvæðum 6. mgr. 6. gr. í þessari reglugerð og 20. gr. og 2., 3., og 4. mgr. 23. gr. í tilskipun 2003/54/EB með eftirfarandi skilyrðum:
a)    fjárfestingin verður að auka samkeppni á sviði afhendingar raforku,
b)    áhættan í tengslum við fjárfestinguna er slík að fjárfestingin mundi ekki eiga sér stað nema undanþága væri veitt,
c)    samtengillinn skal vera í eigu einstaklings eða lögaðila sem er, a.m.k. hvað varðar rekstrarform að lögum, aðskilinn kerfisstjórum sem byggja á samtengilinn inn í,
d)    gjöld eru innheimt af notendum þessa samtengils,
e)    frá því að markaðurinn var opnaður að hluta, eins og um getur í 19. gr. í tilskipun 96/92/EB, má enginn hluti fjármagns- eða rekstrarkostnaðar samtengilsins hafa verið endurheimtur með neinum þáttum gjalda sem innheimt eru vegna notkunar á flutnings- eða dreifikerfum sem samtengillinn tengir saman,
f)    undanþágan er ekki skaðleg fyrir samkeppni eða skilvirka starfsemi innri markaðarins með raforku eða skilvirka starfsemi kerfisins sem samtengillinn er tengdur við.
2.     Í undantekningartilvikum skal 1. mgr. einnig gilda um riðstraumssamtengla að því tilskildu að kostnaðurinn og áhættan vegna viðkomandi fjárfestingar sé sérstaklega mikil í samanburði við kostnaðinn og áhættuna, sem að jafnaði er stofnað til, þegar tvö samliggjandi innlend flutningskerfi eru tengd saman með riðstraumssamtengli.
3.     Ákvæði 1. mgr. skulu einnig gilda um verulega aukningu á flutningsgetu samtengla sem fyrir eru.
4. a)    Eftirlitsyfirvaldinu er heimilt, í hverju tilviki fyrir sig, að taka ákvörðun varðandi undanþáguna sem um getur í 1. og 2. mgr. Aðildarríkjunum er hins vegar heimilt að kveða á um að eftirlitsyfirvöldin skuli leggja álit sitt á beiðninni um undanþágu fyrir viðeigandi aðila í aðildarríkinu, til formlegrar ákvarðanatöku. Þetta álit skal birt ásamt ákvörðuninni.
    b)    i)    Undanþágan getur tekið til allrar flutningsgetu eða hluta flutningsgetu nýja samtengilsins eða samtengilsins, sem fyrir er, með verulega aukna flutningsgetu.
        ii)    Þegar ákveðið er að veita undanþágu skal taka tillit til þess, í hverju tilviki fyrir sig, hvort nauðsynlegt sé að setja skilyrði varðandi tímalengd undanþágunnar og aðgang, án mismununar, að samtenglinum.
        iii)    Þegar skilyrðin í i- og ii-lið eru ákveðin skal einkum taka tillit til viðbótarflutningsgetunnar, sem á eftir að búa til, væntanlegs tímaramma verkefnisins og innlendra aðstæðna.
    c)    Þegar undanþága er veitt getur viðkomandi yfirvald samþykkt eða ákveðið reglur og/eða aðferðir varðandi stjórnun og úthlutun flutningsgetu.
    d)    Ákvörðun um undanþágu, þ.m.t. öll skilyrði sem um getur í b-lið, skal rökstudd og birt á viðeigandi hátt.
    e)    Allar ákvarðanir um undanþágu skulu teknar að höfðu samráði við önnur aðildarríki eða hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld.
5.     Lögbært yfirvald skal tilkynna framkvæmdastjórninni, án tafar, um ákvörðun um undanþágu ásamt öllum upplýsingum sem varða ákvörðunina. Heimilt er að senda framkvæmdastjórninni fyrrnefndar upplýsingar í samanteknu formi til þess að gera henni kleift að komast að vel rökstuddri niðurstöðu. Upplýsingarnar skulu einkum innihalda:
—    nákvæmar ástæður, sem eftirlitsyfirvald eða aðildarríki hafði til að veita undanþágu, þ.m.t. fjárhagslegar upplýsingar sem réttlæta nauðsyn undanþágunnar,
—    greininguna sem fer fram á áhrifum undanþágunnar á samkeppni og skilvirka starfsemi innri markaðarins með raforku,
—    ástæður fyrir því tímabili og þeim hluta af heildarflutningsgetu samtengilsins, sem um ræðir, og undanþágan er veitt fyrir,
—    niðurstöður samráðs við hlutaðeigandi aðildarríki eða eftirlitsyfirvöld.
Framkvæmdastjórnin getur, innan tveggja mánaða frá því að henni berst tilkynning, óskað eftir því að hlutaðeigandi eftirlitsyfirvald eða aðildarríki breyti eða dragi til baka þá ákvörðun að veita undanþágu. Heimilt er að framlengja tveggja mánaða tímabilið um einn mánuð til viðbótar ef framkvæmdastjórnin óskar eftir viðbótarupplýsingum.
Ef eftirlitsyfirvaldið eða hlutaðeigandi aðildarríki fer ekki að fyrrnefndum tilmælum innan fjögurra vikna skal tekin lokaákvörðun í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 3. mgr. 13. gr.
Framkvæmdastjórnin skal fara með viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem trúnaðarmál.

8. gr.
Viðmiðunarreglur

1.     Ef við á, skal framkvæmdastjórnin í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 13. gr., samþykkja og breyta viðmiðunarreglum um þau atriði, sem tilgreind eru í 2. og 3. mgr., og sem varða fyrirkomulag jöfnunargreiðslna milli flutningskerfisstjóra, í samræmi við meginreglurnar sem eru settar fram í 3. og 4. gr.
Þegar þessar viðmiðunarreglur eru samþykktar í fyrsta sinn skal framkvæmdastjórnin trygga að þær taki í einum drögum að ráðstöfunum, a.m.k. til þeirra atriða sem um getur í a- og d-lið 2. mgr. og 3. mgr.
2.     Í viðmiðunarreglunum skal tilgreina:
a)    upplýsingar um málsmeðferðina til að ákvarða hvaða flutningskerfisstjórar eru skyldugir til að borga jöfnunargreiðslur vegna flæðis yfir landamæri, þ.m.t. að því er varðar skiptingu milli kerfisstjóra innlendra flutningskerfa, sem flæði yfir landamæri á upptök sín í, og kerfin, þar sem flæðið endar, í samræmi við 2. mgr. 3. gr.,
b)    upplýsingar um málsmeðferðina sem fylgja skal við greiðslu, þ.m.t. ákvörðun á fyrsta tímabilinu sem greiða skal jöfnunargreiðslur fyrir, í samræmi við aðra undirgrein 3. mgr. 3. gr.,
c)    upplýsingar um aðferðafræðina við að ákvarða flæði yfir landamæri, sem hýst er og greiða skal jöfnunargreiðslur fyrir skv. 3. gr., að því er varðar bæði magn og tegund flæðis og tilgreining á umfangi slíks flæðis, hvort það á upptök og/eða endar í flutningskerfum einstakra aðildarríkja, í samræmi við 5. mgr. 3. gr.,
d)    upplýsingar um aðferðafræðina við að ákvarða kostnaðinn og ávinninginn, sem hlýst af því að hýsa flæði yfir landamæri, í samræmi við 6. mgr. 3. gr.,
e)    upplýsingar um meðhöndlun, í tengslum við fyrirkomulag jöfnunargreiðslna milli flutningskerfisstjóra, á raforkuflæði sem á upptök eða endar í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins,
f)    þátttöku innlendra kerfa, sem eru samtengd með jafnstraumslínum, í samræmi við 3. gr.
3.     Í viðmiðunarreglunum skal einnig ákvarða viðeigandi reglur, sem leiða til samræmingar í áföngum á undirliggjandi meginreglum, til að ákveða gjöld, sem lögð eru á framleiðendur og neytendur (álag) samkvæmt innlendum gjaldskrárkerfum, þ.m.t. hvernig fyrirkomulag jöfnunargreiðslna milli flutningskerfisstjóra endurspeglast í gjöldum innlendra neta og að gefin séu viðeigandi og skilvirk staðsetningarmerki, í samræmi við meginreglurnar sem eru settar fram í 4. gr.
Í viðmiðunarreglunum skal kveðið á um viðeigandi, skilvirk og samræmd staðsetningarmerki um alla Evrópu.
Engin samræming í þessu tilliti, skal koma í veg fyrir að aðildarríkin beiti aðferðum til að tryggja að gjöld, sem neytendur (álag) greiða fyrir aðgang að neti þeirra, séu sambærileg á öllu yfirráðasvæði þeirra.
4.     Í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 13. gr., skal framkvæmdastjórnin, eftir því sem við á, breyta viðmiðunarreglunum um stjórnun og úthlutun á tiltækri flutningsgetu samtengilína milli innlendra kerfa, sem sett er fram í viðaukanum í samræmi við meginreglurnar sem settar eru fram í 5. og 6. gr., einkum til að fella inn nákvæmar viðmiðunarreglur um alla aðferðafræði við úthlutun flutningsgetu, sem beitt er í raun, og að tryggja að aðferðir við að bregðast við kerfisöng þróist á þann hátt sem samrýmist markmiðum innri markaðarins. Þegar þessar breytingar eru gerðar skal, eftir því sem við á, setja sameiginlegar reglur um lágmarksstaðla varðandi öryggi og rekstur vegna notkunar og reksturs netsins, eins og um getur í 2. mgr. 5. gr.
Við samþykkt eða breytingu á viðmiðunarreglum skal framkvæmdastjórnin tryggja að í þeim sé að finna þá lágmarkssamræmingu, sem nauðsynleg er, til að ná fram markmiðum þessarar reglugerðar og gangi ekki lengra en nauðsynlegt er í því skyni.
Við samþykkt eða breytingu á viðmiðunarreglum skal framkvæmdastjórnin tilgreina til hvaða aðgerða hún hefur gripið, með tilliti til samræmis reglna í þriðju löndum sem mynda hluta Evrópska raforkukerfisins, við viðmiðunarreglurnar sem um ræðir.

9. gr.
Eftirlitsyfirvöld

Þegar eftirlitsyfirvöld rækja skyldur sínar skulu þau tryggja samræmi við þessa reglugerð og viðmiðunarreglur, sem samþykktar eru skv. 8. gr. Þau skulu vinna saman og með framkvæmdastjórninni til að uppfylla markmið þessarar reglugerðar, eftir því sem við á.

10. gr.
Tilhögun upplýsingamiðlunar og trúnaðarskylda

1.     Aðildarríkin og eftirlitsyfirvöldin skulu, ef þess er óskað, veita framkvæmdastjórninni allar nauðsynlegar upplýsingar að því er varðar 4. mgr. 3. gr. og 8. gr.
Einkum, að því er varðar 4. og 6. mgr. 3. gr., skulu eftirlitsyfirvöld miðla reglulega upplýsingum um kostnað, sem innlendir flutningskerfisstjórar stofna í raun til, sem og gögnum og öllum viðeigandi upplýsingum um raunverulegt flæði í netum flutningskerfisstjóra og kostnaðinn við netin.
Framkvæmdastjórnin skal fastsetja eðlileg tímamörk til að veita upplýsingarnar, að teknu tilliti til þess hversu flóknar upplýsingarnar eru, sem krafist er, og hversu brýn þörfin fyrir upplýsingarnar er.
2.     Ef hlutaðeigandi aðildarríki eða eftirlitsyfirvald veitir ekki þessar upplýsingar, innan tímamarkanna skv. 1. mgr., er framkvæmdastjórninni heimilt að krefjast allra upplýsinga, sem nauðsynlegar eru að því er varðar 4. mgr. 3. gr. og 8. gr., beint frá hlutaðeigandi fyrirtækjum.
Þegar framkvæmdastjórnin sendir beiðni um upplýsingar til fyrirtækis ber henni samtímis að senda afrit af beiðninni til eftirlitsyfirvalda aðildarríkisins þar sem fyrirtækið hefur aðsetur.
3.     Í beiðni sinni um upplýsingar skal framkvæmdastjórnin tilgreina lagagrundvöll beiðninnar, tímamörkin til að veita upplýsingarnar, tilgang beiðninnar og einnig viðurlögin, sem kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr., við að veita rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar. Framkvæmdastjórnin skal fastsetja eðlileg tímamörk, að teknu tilliti til þess hversu flóknar upplýsingarnar eru, sem krafist er, og hversu brýn þörfin fyrir upplýsingarnar er.
4.     Eigendur fyrirtækjanna eða fulltrúar þeirra og, ef um lögaðila er að ræða, einstaklingar, sem hafa heimild að lögum eða í stofnsamningi þeirra til að vera fulltrúar þeirra, skulu veita umbeðnar upplýsingar. Lögfræðingar, sem hafa fullt umboð, geta veitt upplýsingarnar fyrir hönd skjólstæðinga sinna en í því tilviki skal skjólstæðingurinn vera að fullu ábyrgur fyrir því ef upplýsingarnar, sem veittar eru, eru ófullnægjandi, rangar eða villandi.
5.     Ef fyrirtæki veitir ekki umbeðnar upplýsingar, innan tímamarkanna sem framkvæmdastjórnin fastsetur eða veitir ófullnægjandi upplýsingar, er framkvæmdastjórninni heimilt með ákvörðun að krefjast þess að upplýsingarnar séu veittar. Í ákvörðuninni skal tilgreina hvaða upplýsinga er krafist og fastsetja viðeigandi tímamörk til að veita upplýsingarnar. Í henni skal tilgreina viðurlögin, sem kveðið er á um í 2. mgr. 12. gr. Í henni skal einnig tilgreindur rétturinn til að láta Dómstól Evrópubandalaganna endurskoða ákvörðunina.
Framkvæmdastjórnin skal á sama tíma senda afrit af ákvörðun sinni til eftirlitsyfirvalda aðildarríkisins þar sem einstaklingurinn hefur búsetu eða fyrirtækið aðsetur.
6.     Upplýsingarnar, sem safnað er samkvæmt þessari reglugerð, skulu einungis notaðar að því er varðar 4. mgr. 3. gr. og 8. gr.
Framkvæmdastjórnin skal ekki afhenda upplýsingar, sem hún fær í hendur samkvæmt þessari reglugerð, ef þær eru af því tagi að þagnarskylda ríkir um þær.

11. gr.
Réttur aðildarríkja til að kveða á um ítarlegri ráðstafanir

Þessi reglugerð skal vera með fyrirvara um rétt aðildarríkjanna til að viðhalda eða innleiða ráðstafanir, sem fela í sér ítarlegri ákvæði en þau sem sett eru fram í þessari reglugerð og viðmiðunarreglunum sem um getur í 8 gr.

12. gr.
Viðurlög

1.     Með fyrirvara um 2. mgr. skulu aðildarríkin setja reglur um viðurlög við brotum gegn ákvæðum þessarar reglugerðar og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að þeim sé beitt. Viðurlögin skulu vera skilvirk, í réttu hlutfalli við brotið og hafa letjandi áhrif. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um þessi ákvæði, eigi síðar en 1. júlí 2004, og skulu tilkynna án tafar um síðari breytingar sem hafa áhrif á þau.
2.     Framkvæmdastjórninni er heimilt með ákvörðun að beita fyrirtæki sektum, sem eru ekki hærri en 1% af heildarveltu næstliðins viðskiptaárs, ef þau veita af ráðnum hug eða sökum vanrækslu rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í kjölfar beiðni, sem gerð er skv. 3. mgr. 10. gr., eða veita ekki upplýsingar innan tímamarkanna, sem ákveðin eru með ákvörðun sem samþykkt er samkvæmt fyrstu undirgrein 5. mgr. 10. gr.
Þegar upphæð sektarinnar er ákveðin skal taka tillit til alvarleika þess að kröfurnar í fyrstu undirgrein voru ekki uppfylltar.
3.     Viðurlög, sem kveðið er á um skv. 1. mgr. og ákvarðanir sem eru teknar skv. 2. mgr., skulu ekki varða hegningarlög.

13. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
Fresturinn, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 3. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
4.     Nefndin setur sér starfsreglur.

14. gr.
Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar

Framkvæmdastjórnin skal fylgjast með framkvæmd þessarar reglugerðar. Eigi síðar en þremur árum eftir að reglugerð þessi tekur gildi skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu um fengna reynslu af beitingu hennar fyrir Evrópuþingið og ráðið. Í skýrslunni skal einkum kanna að hvaða marki reglugerðin hafi borið árangur við að tryggja að skilyrði aðgangs að netum fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri séu án mismununar og endurspegli kostnað og stuðli þannig að því að neytendur hafi valkosti á starfhæfum markaði og að afhendingaröryggi sé tryggt til langs tíma en jafnframt skal kanna að hvaða marki skilvirk staðsetningarmerki séu fyrir hendi. Ef þörf krefur skulu skýrslunni fylgja viðeigandi tillögur og/eða tilmæli.

15. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
Hún gildir frá 1. júlí 2004.
Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
Gjört í Brussel 26. júní 2003.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX A. TSOCHATZOPOULOS
forseti. forseti.

VIÐAUKI
Viðmiðunarreglur um stjórnun og úthlutun á tiltækri flutningsgetu samtengilína milli innlendra kerfa

Almennt
1.    Aðferðir við að bregðast við kerfisöng, sem aðildarríkin beita, skulu taka til skammtímakerfisangar á markaðstengdan og efnahagslega skilvirkan hátt en um leið gefa merki eða hvatningu um skilvirka fjárfestingu í netum og framleiðslu, á réttum stöðum.
2.    Flutningskerfisstjórar, eða eftir því sem við á, aðildarríkin skulu leggja fram gagnsæja staðla án mismununar, sem lýsa þeim viðbraðgsaðferðum við kerfisöng sem þeir beita við mismunandi aðstæður. Þessum stöðlum, ásamt öryggisstöðlum, skal lýst í skjölum sem eru öllum aðgengileg.
3.    Þegar hugað er að sértækum aðferðum við að bregðast við kerfisöng skal leitast við að halda í lágmarki öllum mismun á meðhöndlun mismunandi tegunda viðskipta yfir landamæri, hvort heldur er um að ræða raunverulega, tvíhliða samninga eða tilboð á erlendum, skipulögðum mörkuðum. Aðferðin við að úthluta takmarkaðri flutningsgetu skal vera gagnsæ. Sýna verður fram á að sérhver munur á meðhöndlun viðskipta raski hvorki né hindri þróun á samkeppni.
4.    Merkin um verð, sem kerfið til að bregðast við kerfisöng gefur frá sér, skulu vera stefnuvirk.
5.    Flutningskerfisstjórar skulu bjóða flutningsgetu sem er eins „áreiðanleg“ og mögulegt er. Heimilt er að bjóða á markaðnum hæfilegan hluta flutningsgetunnar með skilyrðum um minni áreiðanleika, en nákvæm skilyrði vegna flutnings á línum yfir landamæri skulu ávallt kynnt markaðsaðilum.
6.    Að teknu tilliti til þess að netið á meginlandi Evrópu er mjög þéttofið og að notkun samtengilína hefur áhrif á orkuflæði, a.m.k. beggja vegna landamæra ríkja, skulu innlendir eftirlitsaðilar tryggja að engar aðferðir við að bregðast við kerfisöng, sem hafa veruleg áhrif á orkuflæði í öðrum netum, séu ákveðnar einhliða.

Staða langtímasamninga
1.    Forgangsrétti að aðgangi að flutningsgetu samtengilínu skal ekki úthlutað til þeirra samninga sem brjóta í bága við 81. og 82. gr. EB-sáttmálans.
2.    Langtímasamningar, sem fyrir eru, skulu ekki hafa fyrirfram gefinn rétt þegar þeir koma til endurnýjunar.

Tilhögun upplýsingamiðlunar
1.    Flutningskerfisstjórar skulu hrinda í framkvæmd viðeigandi aðferðum til samræmingar og upplýsingaskipta til að tryggja öryggi netsins.
2.    Flutningskerfisstjórar skulu birta öll viðeigandi gögn varðandi heildarflutningsgetu yfir landamæri. Auk gilda fyrir tiltæka flutningsgetu á veturna og á sumrin skulu flutningskerfisstjórar birta áætlanir um flutningsgetu fyrir hvern dag á nokkrum mismunandi tímum áður en flutningsdagurinn hefst. Nákvæmar áætlanir, a.m.k. viku fram í tímann skulu vera tiltækar fyrir markaðinn og flutningskerfisstjórar skulu leitast við að veita upplýsingar mánuð fram í tímann. Lýsing á áreiðanleika gagnanna skal fylgja með.
3.    Flutningskerfisstjórar skulu birta almennt kerfi til útreikninga á heildarflutningsgetunni og áreiðanleikavikmörkum flutnings sem byggist á rafmagnseiginleikum og eðlisfræðilegum eiginleikum netsins. Slíkt kerfi skal vera háð samþykki eftirlitsaðila í hlutaðeigandi aðildarríkjum. Öryggisstaðlarnir og rekstrar- og skipulagsstaðlarnir skulu vera óaðskiljanlegur hluti upplýsinganna sem flutningskerfisstjórar skulu birta í skjölum sem eru öllum aðgengileg.

Meginreglur um aðferðir við að bregðast við kerfisöng
1.    Helst skal leysa vandamál í tengslum við kerfisöng með aðferðum sem ekki eru viðskiptatengdar, þ.e. aðferðum sem fela ekki í sér val á milli samninga einstakra markaðsaðila.
2.    Hlutaðeigandi flutningskerfisstjórar mega notast sameiginlega við samræmdar endursendingar eða mótkaup yfir landamæri. Kostnaðurinn, sem flutningskerfisstjórar stofna til við mótkaup eða endursendingar, verður hins vegar að vera í þeim mæli að hann sé skilvirkur.
3.    Hugsanlegir kostir þess að sameina annars vegar að uppskiptingu markaðarins eða aðrar markaðstengdar aðferðir til leysa úr „varanlegri“ kerfisöng og hins vegar mótkaupa til að leysa úr tímabundinni kerfisöng skulu kannaðir tafarlaust sem varanlegri leið til að bregðast við kerfisöng.

Viðmiðunarreglur um opið uppboð
1.    Uppboðskerfið skal hannað með þeim hætti að öll tiltæk flutningsgeta sé í boði á markaðnum. Þetta er hægt að gera með því að skipuleggja samsett uppboð, þar sem flutningsgetan er boðin upp fyrir mismunandi tímalengd og með mismunandi eiginleikum, (t.d. með tilliti til væntanlegs áreiðanleika tiltækrar flutningsgetu, sem um ræðir).
2.    Bjóða skal heildarsamtengigetuna í röð uppboða, sem t.d. er hægt að halda, árlega, mánaðarlega, vikulega, daglega eða oft á dag, í samræmi við þarfir markaðanna, sem um ræðir. Í öllum þessum útboðum skal úthluta föstum hluta tiltækrar flutningsgetu auk allrar flutningsgetu, sem eftir er, og var ekki úthlutað í fyrri uppboðum.
3.    Málsmeðferðin vegna opins uppboðs skal undirbúin í náinni samvinnu milli innlendra eftirlitsyfirvalda og hlutaðeigandi flutningskerfisstjóra og hönnuð með þeim hætti að bjóðendur geti einnig tekið þátt í daglegum viðskiptum allra skipulagðra markaða (t.d. orkukauphöll) í hlutaðeigandi löndum.
4.    Orkuflæðið í báðar áttir yfir tengilínur, þar sem kerfisöng er til staðar, skal að meginreglu til vera jafnað út til að hámarka flutningsgetuna í þá átt þar sem kerfisöngin er til staðar. Aðferðin við að jafna flæði skal hins vegar vera í samræmi við öruggan rekstur orkukerfisins.
5.    Til að bjóða markaðnum eins mikla flutningsgetu og mögulegt er skal ábyrgðin á fjárhagsáhættunni, sem tengist jöfnun flæðisins, borin af þeim aðilum sem valda því að áhætta verður að veruleika.
6.    Allar uppboðsaðferðir skulu vera þannig að mögulegt sé að senda stefnuvirk merki um verð til markaðsaðila. Flutningur í gagnstæða átt við ríkjandi orkuflæði léttir á álaginu og leiðir því til viðbótarflutningsgetu á línunni þar sem kerfisöngin er til staðar.
7.    Til að hætta ekki á að skapa eða auka vandamál, sem tengjast yfirburðastöðu markaðsaðila, skulu lögbæru eftirlitsyfirvöldin, þegar þau hanna uppboðskerfi, íhuga alvarlega að setja efri mörk að því er varðar það magn flutningsgetu sem markaðsaðili má kaupa/eiga/nota í uppboði.
8.    Til að stuðla að því raforkumarkaður, þar sem seljanleiki er til staðar, verði til skal frjálst að versla með flutningsgetu, sem keypt er á uppboði, þar til flutningskerfisstjóra er tilkynnt um að flutningsgetan verði notuð.
Fylgiskjal III.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/54/EB
frá 26. júní 2003
um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu á tilskipun 96/92/EB


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr., 55. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögum framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/92/EB frá 19. desember 1996 um sameiginlegar reglur um innri markað á sviði raforku ( 4 ) var mikilvægt framlag til þess að skapa innri markað fyrir raforku.
2)          Reynslan, sem fengist hefur við beitingu framangreindrar tilskipunar, sýnir ávinninginn sem getur hlotist af innri markaði á sviði raforku, með tilliti til aukinnar skilvirkni, verðlækkana, betri þjónustu og aukinnar samkeppni. Hins vegar eru enn verulegir annmarkar og möguleikar á að bæta starfsemi markaðarins, nánar tiltekið er þörf á markvissum ákvæðum til að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði að því er varðar framleiðslu, að draga úr hættunni á markaðsyfirráðum og undirverðlagningu, tryggja gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu, sem eru án mismununar með aðgangi að netum á grundvelli gjaldskráa sem eru birtar áður en þær taka gildi, og standa vörð um rétt lítilla og vanmegna viðskiptavina og að upplýsingar um orkugjafa vegna raforkuframleiðslu séu birtar, sem og tilvísun í heimildir, ef þær eru fyrir hendi, þar sem er að finna upplýsingar um umhverfisáhrif þeirra.
3)          Á fundi sínum í Lissabon 23. og 24. mars 2000 hvatti Evrópuráðið til þess að unnið yrði að því í flýti að koma endanlega á innri markaði bæði á sviði raforku og gass og að frelsi yrði aukið hið fyrsta á þessum sviðum með það fyrir augum að innri markaður verði starfræktur að fullu. Í ályktun sinni frá 6. júlí 2000 um aðra skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um stöðu þeirrar viðleitni að auka frelsi á orkumörkuðum krafðist Evrópuþingið þess að framkvæmdastjórnin samþykkti ítarlega tímaáætlun um að ná fram nákvæmlega skilgreindum markmiðum með það fyrir augum að gefa orkumarkaðinn alveg frjálsan í áföngum.
4)          Þau réttindi sem sáttmálinn tryggir evrópskum borgurum – frjálsir vöruflutningar, frelsi til að veita þjónustu og staðfesturéttur – eru einungis möguleg á markaði sem er að fullu opinn þar sem neytendur geta sjálfir valið sér birgi og birgjum er gert kleift að dreifa frjálst til allra viðskiptavina sinna.
5)          Helstu hindranir við að koma á markaði, sem er að fullu starfhæfur og þar sem samkeppni ríkir, tengjast m.a. málefnum er varða aðgang að netinu, gjaldskrármálum og því að opnun markaðarins er mislangt komin í aðildarríkjunum.
6)          Til að samkeppni sé virk verður aðgangur að netum að vera án mismununar, gagnsær og verðlagður með sanngjörnum hætti.
7)          Aðgangur án mismununar að neti flutnings- eða dreifikerfisstjóra hefur grundvallarþýðingu til að koma að fullu á innri markaði á sviði raforku. Flutnings- eða dreifikerfisstjórar geta verið eitt eða fleiri fyrirtæki.
8)          Til að tryggja skilvirkan netaðgang án mismununar er rétt að dreifi- og flutningskerfi séu starfrækt af aðilum, sem eru aðskildir að lögum, ef lóðrétt samþætt fyrirtæki eru til staðar. Framkvæmdastjórnin skal meta ráðstafanir með sambærileg áhrif sem aðildarríkin þróa til að ná fram markmiði þessarar kröfu, og, eftir því sem við á, leggja fram tillögur um að breyta þessari tilskipun. Einnig er rétt að flutnings- og dreifikerfisstjórar hafi virkan ákvörðunarrétt með tilliti til eigna sem nauðsynlegar eru til að viðhalda netum, reka þau og þróa þegar eignirnar, sem um ræðir, er í eigu eða er reknar af lóðrétt samþættum fyrirtækjum. Nauðsynlegt er að sjálfstæði dreifikerfisstjóra og flutningskerfisstjóra sé tryggt einkum með tilliti til hagsmuna er varða framleiðslu og afhendingu. Sjálfstætt stjórnunarfyrirkomulag verður því að vera til staðar milli dreifikerfisstjóra og flutningskerfisstjóra annars vegar og allra framleiðslufélaga og birgja hins vegar.
        Hins vegar er mikilvægt að greina á milli slíks lagalegs aðskilnaðar og sundurgreiningar á eignarhaldi. Lagalegur aðskilnaður felur ekki í sér breytingu á eignarhaldi eigna og ekkert kemur í veg fyrir að svipuð eða eins starfsskilyrði gildi í öllu lóðrétt samþætta fyrirtækinu. Hins vegar skal tryggja ákvörðunartökuferli án mismununar með skipulagsráðstöfunum er varða sjálfstæði þeirra sem bera ábyrgð á ákvörðunartöku.
9)          Ef um er að ræða lítil kerfi kann að vera nauðsynlegt að flutningskerfisstjórar, sem eru samtengdir litlum kerfum, tryggi að stoðþjónusta sé veitt.
10)          Þó að þessi tilskipun taki ekki til málefna er varða eignarhald er minnt á að þegar um er að ræða fyrirtæki, sem annast flutning eða dreifingu og er aðskilið að því er varðar rekstrarform að lögum frá þeim fyrirtækjum sem stunda framleiðslu og/eða afhendingu, getur tilnefndur kerfisstjóri verið sama fyrirtækið og á grunnvirkið.
11)          Til að komast hjá því að leggja of mikla fjárhagslega og stjórnsýslulega byrði á lítil dreifingarfyrirtæki skulu aðildarríkin geta, ef nauðsynlegt er, veitt slíkum fyrirtækjum undanþágu frá lagalegum kröfum um sundurgreinda dreifingu.
12)          Málsmeðferð við leyfisveitingu skal ekki leiða til stjórnsýslubyrði sem er óhófleg miðað við stærð og hugsanleg áhrif raforkuframleiðenda.
13)          Grípa skal til frekari ráðstafana til að tryggja að gjaldskrár séu gagnsæjar og án mismununar að því er varðar aðgang að netum. Þessar gjaldskrár skulu gilda um alla kerfisnotendur án mismununar.
14)          Til að auðvelda raforkufyrirtæki, sem hefur staðfestu í aðildarríki, gerð samninga vegna afhendingar raforku til óbundinna viðskiptavina í öðru aðildarríki skulu aðildarríki og, eftir því sem við á, innlend eftirlitsyfirvöld vinna að einsleitari skilyrðum og að viðskiptavinir teljist vera óbundnir með sama hætti fyrir allan innri markaðinn.
15)          Það að skilvirkt eftirlit sé til staðar, sem eitt innlent eftirlitsyfirvald eða fleiri framkvæma, er mikilvægur þáttur í að tryggja aðgang að netinu án mismununar. Aðildarríkin skulu tilgreina hlutverk, valdsvið og stjórnsýsluheimildir eftirlitsyfirvaldanna. Mikilvægt er að eftirlitsyfirvöld í öllum aðildarríkjum hafi sama lágmarksvaldsviðið. Þessi yfirvöld skulu vera bær til að ákveða eða samþykkja gjaldskrár, eða a.m.k. aðferðafræðina sem býr að baki útreikningum á gjaldskrám fyrir flutning og dreifingu. Til að forðast óvissu og kostnaðarsöm og tímafrek deilumál skulu þessar gjaldskrár birtar áður en þær taka gildi.
16)          Framkvæmdastjórnin hefur gefið til kynna fyrirætlan sína um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi sem myndi skapa hentugt ráðgjafarfyrirkomulag til að hvetja til samvinnu og samræmingar innlendra eftirlitsyfirvalda í því skyni að stuðla að þróun innri markaðarins á sviði raforku og gass og til að stuðla að samræmdri beitingu í öllum aðildarríkjum á ákvæðunum, sem sett eru í þessari tilskipun og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas ( 5 ) og í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri ( 6 ).
17)          Til að tryggja öllum markaðsaðilum greiðan markaðsaðgang, að meðtöldum nýjum orkusölum, er þörf á jöfnunarfyrirkomulagi sem er kostnaðartengt og án mismununar. Um leið og seljanleiki á raforkumarkaðinum er nægilegur ætti þetta að nást með því að koma á gagnsæju, markaðstengdu fyrirkomulagi við afhendingu og kaup á raforku sem nauðsynlegt er innan rammans um jöfnunarkröfur. Ef markaður, þar sem seljanleiki ríkir, er ekki fyrir hendi ættu innlend eftirlitsyfirvöld að gegna virku hlutverki til að tryggja að gjaldskrár til jöfnunar séu kostnaðartengdar og án mismununar. Á sama tíma skal veita viðeigandi hvatningu til að jafna innmötun (in-put) og úttekt (off-take) raforku og til að stofna kerfinu ekki í hættu.
18)          Innlend eftirlitsyfirvöld skulu geta ákveðið eða samþykkt gjaldskrár eða aðferðafræðina, sem býr að baki útreikningum á gjaldskrám, á grundvelli tillögu flutnings- eða dreifikerfisstjóra eða á grundvelli tillögu sem þessir stjórar og notendur kerfisins urðu ásáttir um. Þegar þau sinna þessum verkefnum skulu innlend eftirlitsyfirvöld tryggja að gjaldskrár vegna flutnings og dreifingar séu án mismununar og kostnaðartengdar og skulu taka tillit til langtíma frávikskostnaðar við net sem komist er hjá með dreifðri raforkuframleiðslu og stjórnun eftirspurnar.
19)          Allur iðnaður og verslun, þ.m.t. lítil og meðalstór fyrirtæki, og allir ríkisborgarar í Bandalaginu, sem njóta efnahagslegs ávinnings af innri markaðinum, skulu einnig geta notið öflugrar neytendaverndar og einkum skulu heimili, og ef aðildarríkin telja það viðeigandi, lítil fyrirtæki njóta tryggingar á opinberri þjónustu einkum með tilliti til afhendingaröryggis og sanngjarnrar gjaldskrár af ástæðum er varða sanngirni, samkeppnishæfni og óbeint vegna atvinnusköpunar.
20)          Viðskiptavinir skulu hafa frjálst val um birgi sem afhendir þeim raforku. Engu að síður skal notast við áfangaskipta aðferð við að koma að fullu á innri markaði á sviði raforku, til að gera iðnaðinum kleift að aðlagast og tryggja að viðeigandi ráðstafanir og kerfi séu til staðar til að verja hagsmuni viðskiptavina og tryggja að þeir hafi raunverulegt og skilvirkt val um birgi.
21)          Opnun markaðarins smám saman, þar til hann er að fullu opinn, ætti, eins fljótt og auðið er, að fjarlægja mun á milli aðildarríkjanna. Tryggja skal gagnsæi og áreiðanleika í framkvæmd þessarar tilskipunar.
22)          Nánast öll aðildarríki hafa kosið að tryggja samkeppni á markaði á sviði raforkuframleiðslu með gagnsærri málsmeðferð við leyfisveitingu. Aðildarríkin skulu hins vegar tryggja möguleikann á að stuðla að afhendingaröryggi með því að taka í notkun útboðsaðferð eða sambærilega aðferð ef nægileg raforkuframleiðslugeta er ekki tryggð með leyfisveitingarmálsmeðferðinni. Aðildarríkin skulu í þágu umhverfisverndar og kynningar á nýrri, óþróaðri tækni hafa möguleika á að bjóða út nýja flutningsgetu á grundvelli birtra viðmiðana. Ný flutningsgeta tekur m.a. til endurnýjanlegrar orku og samþættrar varma- og raforkuvinnslu (CHP).
23)          Til að tryggja afhendingaröryggi skal fylgjast með jafnvæginu milli framboðs og eftirspurnar í einstökum aðildarríkjum og eftirlitinu skal fylgt eftir með skýrslu um stöðuna innan Bandalagsins að teknu tilliti til flutningsgetu samtengilína milli svæða. Slíkt eftirlit skal fara fram nægilega snemma til að gera kleift að gripið sé til viðeigandi ráðstafana ef afhendingaröryggi er stefnt í hættu. Smíði og viðhald á nauðsynlegu netgrunnvirki, þ.m.t. flutningsgeta samtengilína, skal stuðla að því að tryggja stöðugt framboð raforku. Smíði og viðhald á nauðsynlegu netgrunnvirki, þ.m.t. flutningsgeta samtengilína og dreifð raforkuframleiðsla, eru mikilvægir þættir til að stuðla að því að tryggja stöðugt framboð raforku.
24)          Aðildarríkin skulu tryggja að viðskiptavinir sem kaupa til heimilisnota og eftir því sem aðildarríkin telja rétt, lítil fyrirtæki, eigi rétt á að fá afhenta raforku af tilteknum gæðum á verði sem er greinilega samanburðarhæft, gagnsætt og sanngjarnt. Til að tryggja að háu stigi opinberrar þjónustu sé viðhaldið í Bandalaginu skal tilkynna framkvæmdastjórninni reglulega um allar ráðstafanir, sem aðildarríkin grípa til, til að ná settum markmiðum þessarar tilskipunar. Framkvæmdastjórnin skal birta reglulega skýrslu þar sem greindar eru ráðstafanir, sem gripið er til á innlendum vettvangi, til að ná settum markmiðum um opinbera þjónustu og bera saman skilvirkni þeirra með það í huga að koma með tilmæli, að því er varðar ráðstafanir sem grípa skal til á innlendum vettvangi, til að koma á opinberri þjónustu á háu stigi. Aðildarríkin skulu grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að vernda vanmegna viðskiptavini á innri raforkumarkaðinum. Slíkar ráðstafanir geta verið breytilegar í samræmi við tilteknar kringumstæður í hlutaðeigandi aðildarríkjum og geta falið í sér sérstakar ráðstafanir varðandi greiðslu raforkureikninga eða almennari ráðstafanir sem gripið er til innan almannatryggingakerfisins. Ef alþjónusta er einnig veitt litlum fyrirtækjum geta ráðstafanir til að tryggja að þessi alþjónusta sé veitt verið mismunandi eftir því hvort um heimili eða lítil fyrirtæki er að ræða.
25)          Framkvæmdastjórnin hefur gefið til kynna fyrirætlan sína að hafa frumkvæði, einkum að því er varðar gildissvið ákvæða um merkingar og nánar tiltekið með hvaða hætti er hægt að koma upplýsingunum um umhverfisáhrif, a.m.k. með tilliti til losunar koltvísýrings og geislavirks úrgangs sem fellur til við raforkuframleiðslu frá mismunandi orkugjöfum, á framfæri með gagnsæjum hætti sem auðvelt er að nálgast og bera saman í öllu Evrópusambandinu og með hvaða hætti er hægt að einfalda ráðstafanirnar, sem gripið er til í aðildarríkjunum, til að hafa eftirlit með því hversu nákvæmar upplýsingarnar eru sem birgjarnir veita.
26)          Grundvallarkrafa þessarar tilskipunar er að uppfylla kröfur um opinbera þjónustu og mikilvægt er að sameiginlegir lágmarksstaðlar, sem öll aðildarríkin uppfylla, séu tilgreindir í þessari tilskipun sem taka tillit til markmiðanna um sameiginlega vernd, afhendingaröryggi, umhverfisvernd og sambærilegt samkeppnisstig í öllum aðildarríkjunum. Mikilvægt er að hægt sé að túlka kröfurnar um opinbera þjónustu á innlendum grundvelli að teknu tilliti til innlendra kringumstæðna og með því skilyrði að lög Bandalagsins virt.
27)          Aðildarríkjunum er heimilt að tilnefna skyldubirgi. Þessi birgir getur verið söludeild í lóðrétt samþættu fyrirtækis sem einnig sér um dreifingu að því tilskildu að það uppfylli kröfur þessarar tilskipunar um sundurgreiningu.
28)          Ráðstafanir, sem aðildarríkin hrinda í framkvæmd til að ná settum markmiðum um félagslega og efnahagslega samheldni, geta einkum falið í sér efnahagshvata þar sem notuð eru, eftir því sem við á, öll tæki sem fyrir hendi eru, innlend og í Bandalaginu. Þessi tæki geta m.a. verið kerfi um skaðabótaábyrgð til að tryggja nauðsynlega fjárfestingu.
29)          Að því marki sem ráðstafanirnar, sem aðildarríki gera til að uppfylla skyldur um opinbera þjónustu, fela í sér ríkisaðstoð, skv. 1. mgr. 87. gr. sáttmálans, ber að tilkynna framkvæmdastjórninni um þær skv. 3. mgr. 88. gr. sáttmálans.
30)          Krafan um að tilkynna framkvæmdastjórninni um allar synjanir um að veita heimild til að auka framleiðslugetu hefur reynst vera óþarfa stjórnsýsluálag og skal hún því lögð niður.
31)          Þar sem aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði fyrirhugaðra aðgerða, þ.e. að skapa innri markað á sviði raforku sem starfræktur er að fullu og þar sem samkeppni ríkir, og þar eð því markmiði verður, af þeim sökum, betur náð á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa mikil áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, sem sett er fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi því markmiði.
32)          Í ljósi fenginnar reynslu af beitingu tilskipunar ráðsins 90/547/EBE frá 29. október 1990 varðandi gegnumflutning á rafmagni um flutningskerfi ( 7 ), skal grípa til ráðstafana til að tryggja einsleit aðgangskerfi án mismununar vegna flutnings, þ.m.t. raforkuflæði milli aðildarríkja yfir landamæri. Til að tryggja einsleita meðferð á aðgangi að raforkunetum, einnig að því er varðar gegnumflutning, skal fella þá tilskipun úr gildi.
33)          Sökum þess hversu umfangsmiklar breytingarnar, sem gerðar eru á tilskipun 96/92/EB, eru er æskilegt, til glöggvunar og hagræðingar, að lagfæra viðkomandi ákvæði.
34)          Í þessari tilskipun eru grundvallarréttindi virt og meginreglum fylgt, einkum þeim sem eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR
1. gr.
Gildissvið

Í þessari tilskipun eru settar sameiginlegar reglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns. Settar eru reglur um skipulagningu og starfsemi á sviði raforku, markaðsaðgang, viðmiðanir og málsmeðferð við útboð og leyfisveitingu og rekstur kerfa.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    ,,framleiðsla“: framleiðsla rafmagns,
2.    ,,framleiðandi“: einstaklingur eða lögaðili sem framleiðir rafmagn,
3.    ,,flutningur“: flutningur rafmagns um samtengt hæst- eða háspennukerfi í þeim tilgangi að afgreiða það til kaupenda eða dreifiaðila, en það tekur ekki til afhendingar,
4.    „flutningskerfisstjóri“: einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á rekstri, viðhaldi og, ef með þarf, þróun flutningskerfis á tilteknu svæði og, eftir því sem við á, samtengilínum þess við önnur kerfi svo og ábyrgð á að tryggja getu kerfisins til lengri tíma til að uppfylla eðlilegar kröfur um flutning á rafmagni,
5.    ,,dreifing“: flutningur rafmagns um háspennu-, millispennu- eða lágspennudreifikerfi í þeim tilgangi að afgreiða það til viðskiptavina, en hún tekur ekki til afhendingar,
6.    „dreifikerfisstjóri“: einstaklingur eða lögaðili sem ber ábyrgð á rekstri, viðhaldi og, ef með þarf, þróun dreifikerfis á tilteknu svæði og, eftir því sem við á, samtengilínum þess við önnur kerfi svo og ábyrgð á að tryggja getu kerfisins til lengri tíma til að uppfylla eðlilegar kröfur um dreifingu á rafmagni,
7.    ,,viðskiptavinir“: heildsalar og kaupendur rafmagns,
8.    ,,heildsalar“: einstaklingar eða lögaðilar sem kaupa rafmagn til endursölu innan eða utan kerfisins sem þeir hafa staðfestu í,
9.    „kaupendur“: viðskiptavinir sem kaupa rafmagn til eigin nota,
10.    „viðskiptavinir sem kaupa til heimilisnota“: viðskiptavinir sem kaupa rafmagn til eigin nota á heimili, að undanskilinni viðskipta- eða atvinnustarfsemi,
11.    „viðskiptavinir sem kaupa ekki til heimilisnota“: allir einstaklingar eða lögaðilar sem kaupa rafmagn sem ekki er ætlað til eigin notkunar á heimili og til þeirra skulu teljast framleiðendur og heildsalar,
12.    „óbundnir viðskiptavinir“: viðskiptavinir sem mega kaupa rafmagn af birgi að eigin vali í skilningi 21. gr. þessarar tilskipunar,
13.    ,,samtenglar“: búnaður sem notaður er til að tengja saman raforkukerfi,
14.    ,,samtengt kerfi“: fjöldi flutnings- og dreifikerfa sem tengd eru innbyrðis með einum eða fleiri samtenglum,
15.    „bein lína“: annaðhvort rafmagnslína sem tengir einangraðan framleiðslustað við einangraðan viðskiptavin eða rafmagnslína sem tengir rafmagnsframleiðanda og fyrirtæki, sem afhendir rafmagn, til eigin athafnasvæðis, dótturfyrirtækja og óbundinna viðskiptavina,
16.    ,,efnahagsleg forgangsröðun“: röðun orkugjafa fyrir afhendingu rafmagns út frá efnahagslegum forsendum,
17.    ,,stoðþjónusta“: öll þjónusta sem er nauðsynleg fyrir rekstur flutnings- eða dreifikerfa,
18.    ,,kerfisnotendur“: einstaklingar eða lögaðilar sem afhenda rafmagn eða fá rafmagn afhent gegnum flutnings- eða dreifikerfi,
19.    „afhending“: sala, þ.m.t. endursala rafmagns til viðskiptavina,
20.    ,,samþætt raforkufyrirtæki“: lóðrétt eða lárétt samþætt fyrirtæki,
21.    „lóðrétt samþætt fyrirtæki“: fyrirtæki eða hópur fyrirtækja með gagnkvæm tengsl sem skilgreind eru í 3. mgr. 3. gr. í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4064/89 frá 21. desember 1989 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja ( 8 ) og ef hlutaðeigandi fyrirtæki/fyrirtækjahópur starfar a.m.k. á einu eftirfarandi sviða flutnings eða dreifingar og annaðhvort framleiðslu eða afhendingar rafmagns,
22.    „tengt fyrirtæki“: eignatengd fyrirtæki í skilningi 41. gr. sjöundu tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983, sem byggð er á g-lið 2. gr. 44. gr. ( 9 ) sáttmálans um samstæðureikninga ( 10 ), og/eða hlutdeildarfyrirtæki, í skilningi 1. mgr. 33. gr. og/eða fyrirtæki í eigu sömu hluthafa,
23.    ,,lárétt samþætt fyrirtæki“: fyrirtæki sem sér um a.m.k. eitt af eftirfarandi: framleiðslu til sölu eða flutning eða dreifingu eða afhendingu rafmagns og aðra starfsemi sem ekki tengist rafmagni,
24.    ,,útboðsaðferð“: sú aðferð að sinna áætluðum viðbótarþörfum og endurnýjunargetu með því að nýta nýja framleiðslugetu eða framleiðslugetu sem þegar er fyrir hendi,
25.    ,,gerð langtímaáætlana“: áætlanir um fjárfestingarþörf í framleiðslu- og flutningsgetu til lengri tíma, með það fyrir augum að mæta eftirspurn kerfisins eftir rafmagni og að tryggja framboð til viðskiptavina,
26.    ,,lítið, einangrað kerfi“: kerfi þar sem notkun er innan við 3000 GWh á árinu 1996, og þar sem innan við 5% ársnotkunar eru fengin með samtengingu við önnur kerfi,
27.    ,,einangrað örkerfi“: kerfi þar sem notkun er innan við 500 GWh á árinu 1996, og sem er ekki samtengt við önnur kerfi,
28.    „öryggi“: bæði öryggi með tilliti til afhendingar og framboðs á raforku og tæknilegt öryggi,
29.    „stjórnun með tilliti til orkunýtni/eftirspurnar“: víðtæk eða samþætt stefna sem miðar að því að hafa áhrif á magn og tímasetningu raforkunotkunar til að draga úr frumorkunotkun og álagstoppum með því að veita fjárfestingum í orkunýtniráðstöfunum eða öðrum ráðstöfunum, svo sem riftanlegum afhendingarsamningum, forgang fram yfir fjárfestingu til að auka framleiðslugetu, ef fyrri kostirnir eru skilvirkari og hagkvæmari, að teknu tilliti til jákvæðra umhverfisáhrifa af völdum minni orkunotkunar og í tengslum við þætti er varða afhendingaröryggi og lægri dreifingarkostnað,
30.    „endurnýjanlegir orkugjafar“: endurnýjanlegir orkugjafar sem eru ekki jarðefnaeldsneyti (vindorka, sólarorka, jarðvarmaorka, öldu- og sjávarfallaorka, vatnsorka og orka úr lífmassa, hauggasi, gasi frá skólphreinsunarstöðvum og lífgasi),
31.    „dreifð raforkuframleiðsla“: orkuver sem eru tengd við dreifikerfið.

II. KAFLI
ALMENNAR REGLUR UM SKIPULAGNINGU ATVINNUGREINARINNAR
3. gr.
Skyldur um opinbera þjónustu og neytendavernd

1.     Aðildarríkjunum ber að tryggja, á grunni skipulags stofnana sinna og með viðeigandi tilliti til dreifræðisreglunnar, að raforkufyrirtæki séu rekin í samræmi við meginreglur þessarar tilskipunar, með fyrirvara um 2. mgr., til að koma á samkeppnismarkaði á sviði raforku, og að fyrrnefndum fyrirtækjum sé ekki mismunað að því er varðar réttindi eða skyldur.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt, að teknu fullu tilliti til viðeigandi ákvæða sáttmálans, einkum 86. gr., að skylda fyrirtæki sem starfa á sviði raforku að sinna opinberri þjónustu, í þágu almennra efnahagslegra hagsmuna, sem getur varðað öryggi, þ.m.t. afhendingaröryggi, reglufesta, gæði og verð afhendingar og umhverfisvernd, þ.m.t. orkunýtni og loftslagsvernd. Slíkar skyldur skulu vera vel skilgreindar, gagnsæjar, án mismununar, sannprófanlegar og tryggja jafnan aðgang raforkufyrirtækja í Evrópusambandinu að innlendum neytendum. Í tengslum við afhendingaröryggi, stjórnun með tilliti til orkunýtni/eftirspurnar og að uppfylla umhverfismarkmið, eins og um getur í þessari málsgrein er aðildarríkjunum heimilt að koma á langtímaáætlunum um leið og gert er ráð fyrir að þriðju aðilar kunni að leita eftir aðgangi að kerfinu.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að á yfirráðasvæði þeirra eigi allir viðskiptavinir sem kaupa til heimilisnota og, eftir því sem aðildarríkin telja rétt, lítil fyrirtæki (nánar tiltekið fyrirtæki með færri en 50 starfandi einstaklinga og ársveltu eða efnahagsreikning sem er ekki meiri en 10 milljónir evra), rétt á alþjónustu, þ.e. að fá afhenta raforku af tilteknum gæðum á sanngjörnu verði sem er auðveldlega og greinilega samanburðarhæft og gagnsætt. Til að tryggja að alþjónusta sé veitt er aðildarríkjunum heimilt að tilnefna skyldubirgi. Aðildarríkin skulu leggja þá skyldu á dreifingarfyrirtæki að tengja viðskiptavini við dreifikerfi þeirra með skilmálum, skilyrðum og samkvæmt gjaldskrá sem ákveðin er í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 23. gr. Ekkert í þessari tilskipun skal koma í veg fyrir að aðildarríkin styrki markaðsstöðu neytenda, sem kaupa til einkanota, og lítilla og meðalstórra neytenda með því að stuðla að möguleikanum á valfrjálsri sameiningu um fyrirsvar fyrir þennan flokk neytenda.
Fyrsta undirgreinin skal koma til framkvæmda á gagnsæjan hátt og án mismununar og skal ekki hindra að markaðurinn sem kveðið er á um í 21. gr verði opnaður.
4.     Ef fébætur eða annarskonar bætur og einkaréttur, sem aðildarríki veitir til uppfyllingar á skyldunum sem settar eru fram í 2. og 3. mgr., eru veittar, skal það gert án mismununar og á gagnsæjan hátt.
5.     Aðildarríkin skulu grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda kaupendur og skulu einkum tryggja að fyrir hendi séu fullnægjandi verndarráðstafanir til að vernda vanmegna viðskiptavini, þ.m.t. ráðstafanir til að hjálpa þeim til að komast hjá aftengingu. Í þessu tilliti er aðildarríkjunum heimilt að grípa til ráðstafana til að vernda kaupendur á afskekktum svæðum. Þau skulu tryggja öfluga neytendavernd, einkum með tilliti til gagnsæis, að því er varðar samningsskilmála og skilyrði, almennar upplýsingar og tilhögun á lausn deilumála. Aðildarríkin skulu tryggja að óbundnir viðskiptavinir geti í raun skipt um birgi. Þessar ráðstafanir skulu, a.m.k. að því er varðar viðskiptavini sem kaupa til heimilisnota, einnig fela í sér þær sem settar eru fram í viðauka A.
6.     Aðildarríkin skulu tryggja að raforkubirgjar tilgreini í reikningum eða láti fylgja með þeim og í kynningarefni sem kaupendum er gert tiltækt:
a)    framlag hvers orkugjafa til heildareldsneytissamsetningar birgisins ársins á undan,
b)    a.m.k. tilvísun í þær heimildir sem til staðar eru, s.s. vefsíður, þar sem upplýsingar um umhverfisáhrif, a.m.k. með tilliti til losunar koltvísýrings og geislavirks úrgangs sem fellur til vegna raforkunnar sem er framleidd með heildareldsneytissamsetningu birgisins á árinu á undan, eru gerðar aðgengilegar öllum.
Með tilliti til rafmagns, sem aflað er í raforkukauphöll eða sem er flutt inn frá fyrirtæki sem er staðsett utan Bandalagsins, er heimilt að nota samtölur fyrir árið á undan sem kauphöllin eða hlutaðeigandi fyrirtæki veita.
Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að upplýsingar, sem birgjar veita viðskiptavinum sínum samkvæmt þessari grein, séu áreiðanlegar.
7.     Aðildarríkin skulu hrinda viðeigandi ráðstöfunum í framkvæmd til að ná settum markmiðum um félagslega og efnahagslega samheldni, umhverfisvernd, sem getur falið í sér ráðstafanir að því er varðar stjórnun, með tilliti til orkunýtni/eftirspurnar, og úrræði til berjast gegn loftlagsbreytingum og afhendingaröryggi. Slíkar ráðstafanir geta einkum falið í sér efnahagshvata, þar sem notuð eru, eftir því sem við á, öll innlend tæki og tæki í Bandalaginu, til viðhalds og smíði á nauðsynlegu netgrunnvirki, þ.m.t. flutningsgeta samtengilína.
8.     Aðildarríkjunum er heimilt að ákveða að beita ekki ákvæðum 6., 7., 20. og 22. gr. að því leyti sem beiting þeirra hindrar, að lögum eða í reynd, að raforkufyrirtækin gætu sinnt þeim skyldum sem á þau eru lagðar í þágu almennra, efnahagslegra hagsmuna og svo framarlega sem það kæmi ekki niður á þróun viðskipta þannig að það gengi þvert á hagsmuni Bandalagsins. Samkvæmt þessari tilskipun og 86. gr. sáttmálans liggja hagsmunir Bandalagsins m.a. í samkeppni með tilliti til óbundinna viðskiptavina.
9.     Þegar aðildarríkin hrinda þessari tilskipun í framkvæmd skulu þau tilkynna framkvæmdastjórninni um allar ráðstafanir, sem samþykktar eru til að uppfylla skyldur um alþjónustu og opinbera þjónustu, þ.m.t. neytenda- og umhverfisvernd og hugsanleg áhrif þeirra á innlenda og alþjóðlega samkeppni, hvort sem slíkar ráðstafanir krefjast undanþágu frá þessari tilskipun eða ekki. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni á tveggja ára fresti eftir það um allar breytingar á slíkum ráðstöfunum, hvort sem þær krefjast undanþágu frá þessari tilskipun eða ekki.

4. gr.
Eftirlit með afhendingaröryggi

Aðildarríkin skulu tryggja eftirlit með málefnum er varða afhendingaröryggi. Ef aðildarríki telja það rétt geta þau falið eftirlitsyfirvöldunum, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., þetta verkefni. Þetta eftirlit skal einkum taka til jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar á innlenda markaðnum, þess hversu mikil væntanleg framtíðareftirspurn verður og fyrirhugaðrar viðbótarframleiðslugetu, sem er verið að skipuleggja eða byggja upp, og gæða og viðhaldsstigs neta, sem og ráðstafana til að anna eftirspurn á álagstoppum og bregðast við skorti hjá einum eða fleiri birgjum. Lögbær yfirvöld skulu á tveggja ára fresti, eigi síðar en 31. júlí, birta skýrslu þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum eftirlits með þessum atriðum, sem og öllum ráðstöfunum, sem gripið er til eða fyrirhugaðar eru, til að fjalla um þau og þau skulu senda framkvæmdastjórninni þessa skýrslu þegar í stað.

5. gr.
Tæknilegar reglur

Aðildarríkin skulu tryggja að tæknilegar öryggisviðmiðanir séu skilgreindar og að þróaðar séu og birtar opinberlega tæknireglur um lágmarkskröfur um tæknihönnun og rekstur vegna tengingar framleiðslubúnaðar, dreifikerfa, beintengds notendabúnaðar, samtenglarása og beinna lína við kerfið. Þessar tæknireglur skulu tryggja rekstrarsamhæfi kerfa og vera hlutlægar og án mismununar. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni um þær í samræmi við 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta á sviði tæknistaðla og reglugerða sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu ( 11 ).

III. KAFLI
FRAMLEIÐSLA
6. gr.
Málsmeðferð við leyfisveitingu fyrir aukinni framleiðslugetu

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja málsmeðferð við leyfisveitingu til aukinnar framleiðslugetu, sem skal fara fram í samræmi við viðmiðanir sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar.
2.     Aðildarríkin skulu mæla fyrir um viðmiðanir um veitingu leyfa til að auka framleiðslugetu á yfirráðasvæðum þeirra. Fyrrnefndar viðmiðanir kunna að varða:
a)    öryggi og áreiðanleika raforkukerfisins, stöðva og tengds búnaðar,
b)    vernd lýðheilsu og almannaöryggis,
c)    umhverfisvernd,
d)    landnýtingu og staðsetningu,
e)    nýtingu lands í almannaeign,
f)    orkunýtni,
g)    eðli frumorkugjafans,
h)    sérstök einkenni umsækjanda, svo sem tæknilega, efnahagslega og fjárhagslega getu,
i)    samræmi við ráðstafanir sem samþykktar eru skv. 3. gr.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að málsmeðferð við leyfisveitingu fyrir litla og/eða dreifða framleiðslu taki tillit til takmarkaðrar stærðar þeirra og hugsanlegra áhrifa.
4.     Birta skal opinberlega málsmeðferð við leyfisveitingu og viðmiðanirnar. Umsækjendum skal tilkynnt um allar ástæður þess að þeim var synjað um leyfi. Ástæðurnar þurfa að vera hlutlægar, án mismununar, gildar og rökstuddar á tilhlýðilegan hátt. Umsækjandinn skal hafa möguleika á að áfrýja synjuninni.

7. gr.
Útboð vegna nýrrar framleiðslugetu

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að sá möguleiki sé fyrir hendi, vegna afhendingaröryggis, að kveða á um nýja framleiðslugetu eða nýjar stjórnunarráðstafanir að því er varðar orkunýti/eftirspurn með útboðsaðferð eða annarri sambærilegri aðferð án mismununar og sem er gagnsæ, á grundvelli viðmiðana sem birtar hafa verið. Þessa málsmeðferð er hinsvegar einungis hægt að hefja ef framleiðslugetan, sem verið er að auka, eða stjórnunarráðstafanir, að því er varðar orkunýtni/eftirspurn sem gripið er til á grundvelli málsmeðferðar vegna leyfisveitingar, eru ekki fullnægjandi til að tryggja afhendingaröryggi.
2.     Aðildarríkin geta í þágu umhverfisverndar og kynningar á nýrri, óþróaðri tækni tryggt að sá möguleiki sé fyrir hendi að bjóða út nýja flutningsgetu á grundvelli birtra viðmiðana. Þetta útboð getur tekið til aukinnar framleiðslugetu eða stjórnunarráðstafana að því er varðar orkunýtni/eftirspurn. Málsmeðferð vegna útboðs er hinsvegar einungis hægt að hefja ef framleiðsluaðstaðan, sem verið er að byggja upp, eða ráðstafanir, sem gripið er til, eru, á grundvelli málsmeðferðarinnar vegna leyfisveitingar, ekki fullnægjandi til að ná fram þessum markmiðum.
3.     Birta skal einstök atriði útboðsaðferðarinnar vegna aukinnar framleiðslugetu og stjórnunarráðstafanir, að því er varðar orkunýtni/eftirspurn, í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins í síðasta lagi sex mánuðum áður en tilboðsfrestur rennur út.
Gera skal útboðsgögn aðgengileg öllum fyrirtækjum, sem áhuga hafa og sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði aðildarríkisins, svo að þau hafi nægan tíma til að skila inn tilboði.
Með það í huga að tryggja gagnsæi og jafnræði skal í útboðsgögnum vera nákvæm lýsing á samningsatriðum og þeirri aðferð sem allir bjóðendur verða að nota og tæmandi listi yfir skilyrði sem ráða vali bjóðanda og úthlutun verks. Þessi atriði geta einnig tengst þeim sviðum sem um getur í 2. mgr. 6. gr.
4.     Við útboð nauðsynlegrar framleiðslugetu þarf einnig að taka til greina tilboð um afhendingu rafmagns með langtímaábyrgð frá framleiðslueiningum, sem fyrir eru, ef fullnægja má viðbótarkröfunum á þann hátt.
5.     Aðildarríkin skulu tilnefna yfirvald eða opinberan aðila eða einkaaðila, sem er óháður starfsemi á sviði framleiðslu, flutnings og dreifingar rafmagns og getur verið eftirlitsyfirvaldið sem um getur í 1. mgr. 23. gr., til að bera ábyrgð á skipulagningu, eftirliti og stjórnun útboðsaðferðarinnar sem um getur í 1. til 4. mgr. Ef flutningskerfisstjóri er að fullu óháður annarri starfsemi, sem tengist ekki flutningskerfinu með tilliti til eignarhalds, er heimilt að tilnefna flutningskerfisstjóra til að bera ábyrgð á að skipuleggja, hafa eftirlit með og stjórna útboðsaðferðinni. Þessi aðili gerir allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að farið sé með þær upplýsingar, sem fram koma í tilboðum, sem trúnaðarmál.

IV. KAFLI
REKSTUR FLUTNINGSKERFA
8. gr.
Tilnefning flutningskerfisstjóra

Aðildarríkin skulu tilnefna eða krefjast þess að fyrirtæki, sem eiga flutningskerfi, tilnefni, í tiltekinn tíma sem aðildarríkin ákveða, með tilliti til skilvirkni og efnahagslegs jafnvægis, einn eða fleiri flutningskerfisstjóra. Aðildarríkin skulu tryggja að flutningskerfisstjórar fari að ákvæðum 9. til 12. gr.

9. gr.
Verkefni flutningskerfisstjóra

Allir flutningskerfisstjórar skulu bera ábyrgð á:
a)    að tryggja langtímagetu kerfisins til að uppfylla sanngjarnar kröfur um raforkuflutninga,
b)    að stuðla að afhendingaröryggi með fullnægjandi flutningsgetu og áreiðanleika kerfisins,
c)    að stjórna orkuflæði um kerfið með tilliti til skipta við önnur samtengd kerfi. Í þeim tilgangi skal flutningskerfisstjóri tryggja öruggt, áreiðanlegt og skilvirkt raforkukerfi og í því sambandi sjá til þess að öll nauðsynleg stoðþjónusta sé til reiðu, að því marki að hún sé tiltæk óháð öðrum flutningskerfum sem kerfið er samtengt.
d)    að veita kerfisstjórum allra annarra kerfa, sem kerfi hans er tengt við, nægar upplýsingar til að tryggja öruggan og skilvirkan rekstur samtengda kerfisins, svo og samræmda þróun þess og rekstrarsamhæfi,
e)    að tryggja að kerfisnotendum eða flokkum kerfisnotenda, sé ekki mismunað, einkum í því skyni að draga taum fyrirtækja sem eru í eignatengslum við þá ,
f)    að veita kerfisnotendum upplýsingarnar, sem þeir þurfa, til að fá fullnægjandi aðgang að kerfinu.

10. gr.
Sundurgreining flutningskerfisstjóra

1.     Ef flutningskerfisstjóri er hluti af lóðrétt samþættu fyrirtæki skal hann vera óháður annarri starfsemi sem tengist ekki flutningskerfinu, a.m.k. að því er varðar lögákveðið rekstrarform, skipulag og ákvarðanatöku. Þessar reglur skulu ekki skapa skyldu um að aðskilja eignarhald á eignum flutningskerfisins frá lóðrétt samþætta fyrirtækinu.
2.     Til að tryggja sjálfstæði flutningskerfisstjóra, sem um getur í 1. mgr., skulu eftirfarandi lágmarksviðmiðanir gilda:
a)    þeim einstaklingum sem bera ábyrgð á stjórnun flutningskerfisstjóra er ekki heimilt að tilheyra fyrirtækjaskipulagi samþætta raforkufyrirtækisins sem ber, beint eða óbeint, ábyrgð á daglegum rekstri vegna framleiðslu, dreifingar og afhendingar rafmagns,
b)    grípa skal til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að tekið sé tillit til faglegra hagsmuna þeirra einstaklinga, sem bera ábyrgð á stjórnun flutningskerfisstjóra, með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti starfað sjálfstætt,
c)    flutningskerfisstjóri skal hafa virkan ákvörðunarrétt, óháðan samþætta raforkufyrirtækinu, með tilliti til eigna sem eru nauðsynlegar til að reka, viðhalda eða þróa netið. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að til staðar séu viðeigandi samræmingaraðferðir til að tryggja að staðinn sé vörður um rétt móðurfélagsins til að hafa efnahagslega og stjórnunarlega yfirumsjón, með tilliti til tekna af eignum, í dótturfyrirtækjum, sem óbeint er haft eftirlit með í samræmi við 2. mgr. 23. gr. Þetta skal einkum gera móðurfélaginu kleift að samþykkja árlega fjárhagsáætlun, eða annan sambærilegan gerning, flutningskerfisstjóra, og að setja heildartakmarkanir á því hversu skuldsett dótturfyrirtæki þess sé. Það skal hvorki veita móðurfélaginu heimild til að gefa fyrirmæli um daglegan rekstur né að taka einstakar ákvarðanir varðandi lagningu eða endurnýjun flutningslína, sem fara ekki fram úr árlegu fjárhagsáætluninni, eða öðrum sambærilegum gerningi,
d)    flutningskerfisstjóri skal koma á eftirlitsáætlun, þar sem settar eru fram ráðstafanir sem gripið er til, til að tryggja að mismunun sé útilokuð og að fylgst sé með viðunandi hætti með því að henni sé fylgt. Í áætluninni skulu settar fram sérstakar skyldur starfsmanna til að uppfylla þetta markmið. Einstaklingurinn eða aðilinn, sem ber ábyrgð á að fylgjast með eftirlitsáætluninni, skal senda eftirlitsyfirvaldinu, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., ársskýrslu, þar sem settar eru fram ráðstafanirnar sem gripið er til, og birta hana.

11. gr.
Álagsdreifing og -jöfnun

1.     Án þess að það hafi áhrif á afhendingu rafmagns á grundvelli samningsskuldbindinga, þ.m.t. þær sem felast í útboðsgögnum, skal flutningskerfisstjóri, ef hann hefur það hlutverk, bera ábyrgð á að dreifa álagi á framleiðslubúnað á svæði sínu og ákvarða notkun samtengla við önnur kerfi.
2.     Ákvarða skal dreifingu álags á framleiðslubúnað og notkun samtengla á grundvelli viðmiðana, sem aðildarríkið getur samþykkt og sem verða að vera hlutlægar, birtar opinberlega og beitt án mismununar, til að tryggja að innri markaðurinn á sviði raforku starfi eðlilega. Viðmiðanirnar skulu taka tillit til efnahagslegs forgangs rafmagns frá framleiðslubúnaði, sem fyrir hendi er eða sem er flutt um samtengla, og taka tillit til tæknilegra takmarkana kerfisins.
3.     Aðildarríki er heimilt að krefjast þess að kerfisstjóri láti framleiðslubúnað, sem notar endurnýjanlegar orkulindir eða úrgang eða sem framleiðir bæði varma og raforku, hafa forgang þegar álagi er dreift.
4.     Af ástæðum er varða afhendingaröryggi er aðildarríki heimilt að ákveða að við dreifingu álags skuli framleiðslubúnaður, sem notar innlenda frumorkugjafa, hafa forgang, þó ekki meira en sem nemur 15% á hverju almanaksári af allri frumorku sem þarf til að framleiða það rafmagn sem notað er í viðkomandi aðildarríki.
5.     Aðildarríkjunum er heimilt að krefjast þess að flutningskerfisstjórar uppfylli lágmarksstaðla, að því er varðar viðhald og þróun flutningskerfisins, þ.m.t. flutningsgeta samtengilína.
6.     Flutningskerfisstjórar skulu, ef þeir gegna því hlutverki, útvega orkuna, sem þeir nota til að mæta orkutapi og þörfinni fyrir varaflutningsgetu í kerfum sínum, í samræmi við aðferðir sem eru gagnsæjar, án mismununar og markaðstengdar.
7.     Reglurnar, sem flutningskerfisstjórar samþykkja til að skapa jafnvægi á raforkukerfinu, skulu vera hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar, þ.m.t. reglur um gjaldtöku af kerfisnotendum á netum þeirra, vegna ójafnvægis í orkuflutningum. Ákvarða skal og birta skilmála og skilyrði, sem gilda um veitingu flutningskerfisstjóra á slíkri þjónustu, þ.m.t. reglur og gjaldskrár, samkvæmt aðferðafræði, sem samrýmist 2. mgr. 23. gr., og er án mismununar og kostnaðartengd.

12. gr.
Þagnarskylda flutningskerfisstjóra

Flutningskerfisstjóri skal, með fyrirvara um ákvæði 18. gr. eða aðra lagaskyldu þess efnis að afhenda upplýsingar, gæta trúnaðar um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem hann aflar sér með starfsemi sinni. Upplýsingar, sem hann birtir varðandi eigin starfsemi og sem geta falið í sér viðskiptalegan ávinning, skulu gerðar tiltækar án mismununar.

V. KAFLI
REKSTUR DREIFIKERFA
13. gr.
Tilnefning dreifikerfisstjóra

Aðildarríkin skulu tilnefna eða skulu krefjast þess að fyrirtæki, sem eiga eða bera ábyrgð á dreifikerfum, tilnefni, til tiltekins tíma sem aðildarríkin ákveða með tilliti til skilvirkni og efnahagslegs jafnvægis, einn eða fleiri dreifikerfisstjóra. Aðildarríkin skulu tryggja að dreifikerfisstjórar fari að ákvæðum 14. til 16. gr.

14. gr.
Verkefni dreifikerfisstjóra

1.     Dreifikerfisstjóri skal halda starfandi öruggu, áreiðanlegu og skilvirku raforkudreifikerfi á sínu svæði, með tilhlýðilegu tilliti til umhverfisins.
2.     Hann má ekki undir neinum kringumstæðum mismuna kerfisnotendum eða hópum kerfisnotenda, einkum í þágu fyrirtækja sem eru í eignartengslum við hann.
3.     Dreifikerfisstjóri skal veita kerfisnotendum upplýsingarnar sem þeir þurfa til að fá fullnægjandi aðgang að kerfinu.
4.     Aðildarríki er heimilt að krefjast þess að dreifikerfisstjóri láti framleiðslubúnað, sem notar endurnýjanlegar orkulindir eða úrgang eða sem framleiðir bæði hita og rafmagn, hafa forgang þegar álagi er dreift.
5.     Dreifikerfisstjórar skulu, ef þeir gegna því hlutverki, útvega orkuna sem þeir nota til að mæta orkutapi og þörfinni fyrir varaflutningsgetu í kerfum sínum í samræmi við aðferðir sem eru gagnsæjar, án mismununar og markaðstengdar. Þessi krafa skal ekki hafa áhrif á notkun raforku sem aflað er með samningum sem gerðir eru fyrir 1. janúar 2002.
6.     Ef dreifikerfisstjórar bera ábyrgð á að skapa jafnvægi á raforkudreifikerfinu skulu reglur, sem þeir samþykkja, vera hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar, þ.m.t. reglur um gjaldtöku af kerfisnotendum á netum þeirra vegna ójafnvægis í orkuflutningum. Ákvarða skal og birta skilmála og skilyrði, þ.m.t. reglur og gjaldskrár sem gilda um veitingu dreifikerfisstjóra á slíkri þjónustu, í samræmi við 2. mgr. 23. gr. án mismununar og á kostnaðartengdan hátt.
7.     Við skipulagningu þróunar dreifikerfisins skal dreifikerfisstjórinn taka tillit til stjórnunarráðstafana, að því er varðar orkunýtni/eftirspurn og/eða dreifða framleiðslu, sem gætu komið í stað þess að þurfa að endurnýja kerfið eða auka flutningsgetuna.

15. gr.
Sundurgreining dreifikerfisstjóra

1.     Ef dreifikerfisstjóri er hluti af lóðrétt samþættu fyrirtæki skal hann vera óháður annarri starfsemi, sem tengist ekki dreifikerfinu, a.m.k. að því er varðar lögákveðið rekstrarform, skipulag og ákvarðanatöku. Þessar reglur skulu ekki skapa skyldu um að aðskilja eignarhald á eignum dreifikerfisstjóra frá lóðrétt samþætta fyrirtækinu.
2.     Auk krafnanna í 1. mgr. skal dreifikerfisstjóri ef hann er hluti af lóðrétt samþættu fyrirtæki vera óháður annarri starfsemi, sem tengist ekki dreifikerfinu, að því er varðar skipulag og ákvarðanatöku. Til að ná þessu fram skulu eftirfarandi lágmarksviðmiðanir gilda:
a)    einstaklingum, sem bera ábyrgð á stjórnun dreifikerfisstjóra, er ekki heimilt að tilheyra fyrirtækjaskipulagi samþætta raforkufyrirtækisins sem ber, beint eða óbeint, ábyrgð á daglegum rekstri vegna framleiðslu, flutnings og afhendingar rafmagns,
b)    grípa skal til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að tekið sé tillit til faglegra hagsmuna þeirra einstaklinga, sem bera ábyrgð á stjórnun dreifikerfisstjóra, með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti starfað sjálfstætt,
c)    dreifikerfisstjóri skal hafa virkan ákvörðunarrétt, óháðan samþætta raforkufyrirtækinu, með tilliti til eigna, sem nauðsynlegar eru, til að reka, viðhalda eða þróa netið. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að til staðar séu viðeigandi samræmingaraðferðir til að tryggja að staðinn sé vörður um rétt móðurfélagsins til að hafa efnahagslega og stjórnunarlega yfirumsjón, með tilliti til tekna af eignum, í dótturfyrirtækjum, sem er stýrt óbeint í samræmi við 2. mgr. 23. gr. Þetta skal einkum gera móðurfélaginu kleift að samþykkja árlega fjárhagsáætlun, eða annan sambærilegan gerning, dreifikerfisstjóra og að setja heildartakmarkanir varðandi það hversu skuldsett dótturfyrirtæki þess sé. Það skal hvorki veita móðurfélaginu heimild til að gefa fyrirmæli um daglegan rekstur né að taka einstakar ákvarðanir varðandi lagningu eða endurnýjun dreifilína, sem fara ekki fram úr árlegu fjárhagsáætluninni eða öðrum sambærilegum gerningi,
d)    dreifikerfisstjóri skal koma á eftirlitsáætlun, þar sem settar eru fram ráðstafanir sem gripið er til, til að tryggja að mismunun sé útilokuð og að fylgst sé með viðunandi hætti með því að henni sé fylgt. Í áætluninni skulu settar fram sérstakar skyldur starfsmanna til að uppfylla þetta markmið. Einstaklingurinn eða aðilinn, sem ber ábyrgð á að fylgjast með eftirlitsáætluninni, skal senda eftirlitsyfirvaldinu, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., ársskýrslu, þar sem settar eru fram ráðstafanirnar sem gripið er til, og birta hana.
Aðildarríkjunum er heimilt að ákveða að beita ekki 1. og 2. mgr. gagnvart samþættum raforkufyrirtækjum, sem þjóna færri en 100 000 tengdum viðskiptavinum, eða þjóna litlum, einangruðum kerfum.

16. gr.
Þagnarskylda dreifikerfisstjóra

Dreifikerfisstjóri skal, með fyrirvara um ákvæði 18. gr. eða aðra lagaskyldu þess efnis að afhenda upplýsingar, gæta trúnaðar um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, sem hann aflar sér með starfsemi sinni, og skal koma í veg fyrir að upplýsingar varðandi eigin starfsemi, sem geta falið í sér viðskiptalegan ávinning, séu birtar á þann hátt að það feli í sér mismunun.

17. gr.
Kerfisstjóri samsettra kerfa

Reglurnar í 1. mgr. 10. gr. og 1. mgr. 15. gr. koma ekki í veg fyrir að einn kerfisstjóri reki samsett flutnings- og dreifikerfi, sem eru óháð annarri starfsemi sem ekki tengist rekstri flutnings- og dreifikerfis, að því er varðar lögákveðið rekstrarform, skipulag og ákvarðanatöku og sem uppfyllir kröfurnar sem eru settar fram í a til d-lið. Þessar reglur skulu ekki skapa skyldu um að aðskilja eignarhald á eignum samsetta kerfisins frá lóðrétt samþætta fyrirtækinu:
a)    einstaklingum, sem bera ábyrgð á stjórnun kerfisstjóra samsetta kerfisins, er ekki heimilt að tilheyra fyrirtækjaskipulagi samþætta raforkufyrirtækisins sem ber, beint eða óbeint, ábyrgð á daglegum rekstri vegna framleiðslu eða afhendingar rafmagns,
b)    grípa skal til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að tekið sé tillit til faglegra hagsmuna þeirra einstaklinga, sem bera ábyrgð á stjórnun kerfisstjóra samsetta kerfisins, með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti starfað sjálfstætt,
c)    kerfisstjóri samsetts kerfis skal hafa virkan ákvörðunarrétt, óháðan samþætta raforkufyrirtækinu, með tilliti til eigna sem nauðsynlegar eru til að reka, viðhalda og þróa netið. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að til staðar séu viðeigandi samræmingaraðferðir til að tryggja að staðinn sé vörður um rétt móðurfélagsins til að hafa efnahagslega og stjórnunarlega yfirumsjón með tilliti til tekna af eignum, í dótturfyrirtækjum, sem óbeint er haft eftirlit með í samræmi við 2. mgr. 23. gr. Þetta skal einkum gera móðurfélaginu kleift að samþykkja árlega fjárhagsáætlun, eða annan sambærilegan gerning, kerfisstjóra samsetts kerfis og að setja heildartakmarkanir á því hversu skuldsett dótturfyrirtæki þess sé. Það skal hvorki veita móðurfélaginu heimild til að gefa fyrirmæli um daglegan rekstur né að taka einstakar ákvarðanir varðandi lagningu eða endurnýjun flutnings- og dreifilína, sem fara ekki fram úr árlegu fjárhagsáætluninni eða öðrum sambærilegum gerningi.
d)    kerfisstjóri samsetts kerfis skal koma á eftirlitsáætlun þar sem settar eru fram ráðstafanir, sem gripið er til, til að tryggja að mismunun sé útilokuð og að fylgst sé með viðunandi hætti með því að henni sé fylgt. Í áætluninni skulu settar fram sérstakar skyldur starfsmanna til að uppfylla þetta markmið. Einstaklingurinn eða aðilinn, sem ber ábyrgð á að fylgjast með eftirlitsáætluninni, skal senda eftirlitsyfirvaldinu, sem um getur í 1. mgr. 23. gr., ársskýrslu, þar sem settar eru fram ráðstafanirnar sem gripið er til, og birta hana.

VI. KAFLI
SUNDURGREINING OG GAGNSÆI REIKNINGA
18. gr.
Réttur til aðgangs að reikningum

1.     Aðildarríkin eða hvert það lögbæra yfirvald, sem þau tilnefna, að meðtöldum eftirlitsyfirvöldunum, sem um getur í 23. gr., skulu, að því marki sem nauðsynlegt er til að starfrækja hlutverk þeirra, hafa aðgang að reikningum raforkufyrirtækja, eins og segir í 19. gr.
2.     Aðildarríkin og öll lögbær yfirvöld, sem þau tilnefna auk eftirlitsyfirvaldanna, skulu gæta trúnaðar um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar. Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um birtingu slíkra upplýsinga ef slíkt er nauðsynlegt til þess að gera lögbærum yfirvöldum kleift að sinna störfum sínum.

19. gr.
Sundurgreining reikninga

1.     Aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að reikningar raforkufyrirtækja séu haldnir í samræmi við 2. til 3. mgr.
2.     Raforkufyrirtæki, hvernig sem eignarhaldi þeirra eða rekstrarformi að lögum er háttað, skulu ganga frá ársreikningum sínum og leggja þá fram til endurskoðunar og birta í samræmi við ákvæði landslaga um ársreikninga félaga með takmarkaða ábyrgð sem samþykkt eru á grundvelli tilskipunar ráðsins 78/ 660/EB frá 25. júlí 1978 sem byggist á g-lið 2. mgr. 44. gr. ( * ) sáttmálans um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 12 ).
Fyrirtæki, sem ekki er skylt samkvæmt lögum að birta ársreikninga sína, skulu hafa afrit þeirra aðgengileg almenningi á aðalskrifstofu sinni.
3.     Raforkufyrirtæki skulu halda í innra bókhaldi sínu aðskilda reikninga fyrir flutnings- og dreifingarstarfsemi sína eins og krafist væri af þeim ef aðskilin fyrirtæki sæju um fyrrnefnda starfsemi, í þeim tilgangi að forðast mismunun, víxlniðurgreiðslur og röskun á samkeppni. Þau skulu einnig halda reikninga sem hægt er að steypa saman fyrir aðra raforkustarfsemi sem tengist ekki flutningi eða dreifingu. Til 1. júlí 2007 skulu þau halda aðskilda reikninga vegna afhendingarstarfsemi að því er varðar óbundna viðskiptavini og afhendingarstarfsemi að því er varðar bundna viðskiptavini. Tekjur vegna eignarhalds á flutnings-/dreifikerfi skulu tilgreindar í reikningunum. Þau skulu halda samsteypta reikninga, eftir því sem við á, fyrir aðra starfsemi sem ekki tengist rafmagni. Innra bókhaldinu skal fylgja efnahagsreikningur og rekstrarreikningur fyrir hverja tegund starfsemi.
4.     Með úttektinni, sem um getur í 2. mgr., skal einkum ganga úr skugga um að skyldan um að forðast mismunun og víxlniðurgreiðslur, sem um getur í 3. mgr., sé virt.

VII. KAFLI
SKIPULAG AÐGANGS AÐ KERFINU
20. gr.
Aðgangur þriðju aðila

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að kerfi sem komið er á fyrir aðgang þriðju aðila að flutnings- og dreifikerfum, sem byggist á birtum gjaldskrám, gildi um alla óbundna viðskiptavini og því sé beitt hlutlægt og án þess að kerfisnotendum sé mismunað. Aðildarríkin skulu tryggja að þessar gjaldskrár eða aðferðafræðin, sem liggur að baki útreikningi þeirra, séu samþykktar áður en þær taka gildi í samræmi við 23. gr. og að þessar gjaldskrár og aðferðafræði – ef einungis aðferðafræðin er samþykkt – séu birtar áður en þær taka gildi.
2.     Kerfisstjóri flutnings- eða dreifikerfis má synja um aðgang ef nauðsynleg flutningsgeta er ekki fyrir hendi. Gefa þarf rökstuddar ástæður fyrir slíkri synjun, einkum með tilliti til 3. gr. Aðildarríkin skulu tryggja, eftir því sem við á og þegar synjað er um aðgang, að kerfisstjóri flutnings- eða dreifikerfis veiti viðeigandi upplýsingar um ráðstafanir sem væru nauðsynlegar til að styrkja netið. Heimilt er að krefja aðila, sem óskar eftir slíkum upplýsingum, um sanngjarnt gjald sem endurspeglar kostnaðinn við að veita slíkar upplýsingar.

21. gr.
Markaðsopnun og gagnkvæmni

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að óbundnir viðskiptavinir séu:
a)    til 1. júlí 2004, óbundnir viðskiptavinir eins og tilgreint er í 1. til 3. mgr. 19. gr. í tilskipun 96/ 92/EB. Aðildarríki skulu, eigi síðar en 31. janúar ár hvert, birta viðmiðanirnar fyrir skilgreiningu á þessum óbundnu viðskiptavinum,
b)    frá 1. júlí 2004 í síðasta lagi, allir viðskiptavinir sem kaupa ekki til heimilisnota,
c)    frá 1. júlí 2007, allir viðskiptavinir.
2.     Til að forðast ójafnvægi við opnun raforkumarkaða:
a)    má ekki banna samninga um afhendingu raforku við óbundna viðskiptavini í kerfi annars aðildarríkis ef viðskiptavinurinn telst óbundinn viðskiptavinur í báðum kerfunum,
b)    er framkvæmdastjórninni heimilt, í tilvikum þar sem viðskiptunum, sem lýst er í a-lið, er synjað af því að viðskiptavinurinn er aðeins óbundinn viðskiptavinur í öðru kerfinu, og að teknu tilliti til ástandsins á markaðinum og sameiginlegra hagsmuna, að skylda þann aðila sem synjar um viðskiptin til að sjá um afhendingu sem farið var fram á að beiðni aðildarríkisins þar sem óbundni viðskiptavinurinn hefur aðsetur.

22. gr.
Beinar línur

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja:
a)    að allir raforkuframleiðendur og fyrirtæki, sem afhenda rafmagn og hafa staðfestu á yfirráðasvæði þeirra, geti þjónað eigin athafnasvæði, dótturfyrirtækjum og óbundnum viðskiptavinum um beina línu,
b)    að unnt sé að þjóna öllum óbundnum viðskiptavinum innan yfirráðasvæðis þeirra um beina línu frá framleiðanda og fyrirtækjum sem afhenda rafmagn.
2.     Aðildarríkin skulu mæla fyrir um viðmiðanir um veitingu leyfa til að leggja beinar línur á yfirráðasvæði þeirra. Þessar viðmiðanir skulu vera hlutlægar og án mismununar.
3.     Það að heimilt er að afhenda rafmagn um beina línu, eins og um getur í 1. mgr., hefur ekki áhrif á það að unnt sé að semja um afhendingu í samræmi við ákvæði 20. gr.
4.     Aðildarríkjunum er heimilt að binda leyfi til að leggja beina línu því skilyrði að annaðhvort hafi verið synjað um aðgang að kerfi á grundvelli 20. gr. eða að hafin sé málsmeðferð til lausnar deilumáli í samræmi við 23. gr.
5.     Aðildarríkjunum er heimilt að synja um leyfi fyrir beinni línu ef slík leyfisveiting bryti í bága við ákvæði 3. gr. Gefa þarf rökstuddar ástæður fyrir slíkri synjun.

23. gr.
Eftirlitsyfirvöld

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna einn eða fleiri þar til bæra aðila sem gegna hlutverki eftirlitsyfirvalda. Þessi yfirvöld skulu vera fullkomlega óháð hagsmunum raforkuiðnaðarins. Með beitingu þessarar greinar skulu þau a.m.k. bera ábyrgð á að tryggja jafnræði, virka samkeppni og skilvirka starfsemi markaðarins og einkum fylgjast með:
a)    reglum um stjórnun og úthlutun flutningsgetu samtengilína, í samvinnu við eftirlitsyfirvald eða -völd þeirra aðildarríkja þar sem samtenging er fyrir hendi,
b)    öllum aðferðum til að bregðast við skertri flutningsgetu vegna kerfisangar í innlenda rafkerfinu,
c)    tímanum sem það tekur flutnings- og dreifingarfyrirtæki að koma á tengingum og gera við,
d)    birtingu kerfisstjóra flutnings- og dreifikerfa á viðeigandi upplýsingum varðandi samtengla, notkun dreifikerfis og úthlutun flutningsgetu til hagsmunaaðila að teknu tilliti til nauðsynjar þess að fara þannig með upplýsingar, sem ekki er safnað saman, eins og viðskiptaleynd gilti um þær,
e)    skilvirkri sundurgreiningu reikninga, eins og um getur í 19. gr., til að tryggja að engar víxlniðurgreiðslur séu milli framleiðslu-, flutnings- og dreifingarstarfsemi,
f)    skilmálum, skilyrðum og gjaldskrám vegna tengingar nýrra framleiðenda rafmagns til að tryggja að þau séu hlutlæg, gagnsæ og án mismununar, einkum að teknu fullu tilliti til kostnaðar og ávinnings af ýmis konar tækni að því er varðar endurnýjanlega orkugjafa, dreifða framleiðslu og samþætta varma- og raforkuvinnslu,
g)    að hvaða marki kerfisstjórar flutnings- og dreifikerfa uppfylla hlutverk sín í samræmi við 9. og 14. gr.,
h)    að hve miklu leyti gagnsæi og samkeppni ríkir.
Yfirvöldin, sem komið var á fót samkvæmt þessari grein, skulu birta ársskýrslu um niðurstöður eftirlitsaðgerða þeirra sem um getur í a til h-lið.
2.     Eftirlitsyfirvöldin skulu bera ábyrgð á að ákveða eða samþykkja a.m.k. aðferðafræðina, sem notuð er til að reikna út eða setja skilmála og skilyrði fyrir eftirfarandi, áður en þau taka gildi:
a)    tengingu og aðgangi að innlendum netum, þ.m.t. gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu. Þessar gjaldskrár eða aðferðafræði skulu gera kleift að nauðsynleg fjárfesting í netum geti átt sér stað með þeim hætti að þessar fjárfestingar tryggi virkni netsins,
b)    veitingu þjónustu í tengslum við jöfnun.
3.     Þrátt fyrir 2. mgr. er aðildarríkjunum heimilt að kveða á um að eftirlitsyfirvöldin skuli leggja fyrir viðkomandi aðila í aðildarríkinu, gjaldskrárnar eða a.m.k. aðferðafræðina, sem um getur í þeirri grein, sem og breytingarnar, sem um getur í 4. mgr, til formlegrar ákvarðanatöku. Viðkomandi aðili skal, í slíku tilviki, annaðhvort hafa vald til að samþykkja eða hafna drögum að ákvörðun sem eftirlitsyfirvaldið leggur fyrir. Þessar gjaldskrár eða aðferðafræðin eða breytingarnar á þeim skulu birtar ásamt ákvörðuninni um formlega samþykkt. Einnig skal birta allar formlegar synjanir á drögum að ákvörðunum ásamt rökstuðningi þar að lútandi.
4.     Eftirlitsyfirvöld skulu hafa heimild til að krefjast þess að kerfisstjórar flutnings- og dreifikerfa, ef nauðsyn ber til, breyti þeim skilmálum og skilyrðum, gjaldskrám, reglum, aðferðum og aðferðafræði, sem um getur í 1., 2., og 3. mgr., til að tryggja að þær séu hlutfallslegar og þeim beitt án mismununar.
5.     Allir aðilar, sem vilja leggja fram kæru á hendur kerfisstjóra flutnings- eða dreifikerfis með tilliti til málefnanna sem um getur í 1., 2. og 4. mgr., geta kært til eftirlitsyfirvaldsins, sem skal gegna hlutverki yfirvalds, sem sér um lausn deilumála, og gefa út ákvörðun innan tveggja mánaða frá því kæran berst. Heimilt er að framlengja þetta tímabil um tvo mánuði ef eftirlitsyfirvaldið óskar eftir viðbótarupplýsingum. Heimilt er framlengja þetta tímabil enn frekar með samþykki kærandans. Slík ákvörðun skal vera bindandi nema og þangað til henni er hnekkt með áfrýjun.
Ef kæran varðar gjaldskrár vegna tengingar á stórum, nýjum framleiðslubúnaði er eftirlitsyfirvaldinu heimilt að framlengja tveggja mánaða tímabilið.
6.     Öllum aðilum, sem verða fyrir áhrifum og hafa rétt á að kæra vegna ákvörðunar um aðferðafræði sem tekin er skv. 2., 3. eða 4. mgr., eða, ef eftirlitsyfirvaldinu ber skylda til að hafa samráð að því er varðar fyrirhugaða aðferðafræði, er heimilt í síðasta lagi innan tveggja mánaða, eða skemmra tímabils eins og aðildarríkin kveða á um, í kjölfar birtingar ákvörðunar eða tillögu að ákvörðun, að leggja inn kæru til umfjöllunar. Slík kæra skal ekki hafa áhrif til frestunar.
7.     Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að tryggja að eftirlitsyfirvöld geti sinnt skyldum sínum, sem um getur í 1. til 5. mgr., á skilvirkan og skjótan hátt.
8.     Aðildarríkin skulu koma á viðeigandi og skilvirku fyrirkomulagi stýringar, stjórnunar og gagnsæis til að forðast misnotkun á yfirburðastöðu einkum þegar hún kemur niður á neytendum og undirverðlagningu. Í þessu fyrirkomulagi skal tekið tillit til ákvæða sáttmálans, einkum 82. gr.
Til ársins 2010 skulu viðkomandi yfirvöld aðildarríkjanna, eigi síðar en 31. júlí ár hvert, í samræmi við samkeppnislög, gefa framkvæmdastjórninni skýrslu um markaðsyfirráð, undirboð og samkeppnishamlandi starfshætti. Í þessari skýrslu skal auk þess vera að finna úttekt á breytilegu eignarhaldsmynstri og öllum raunverulegum ráðstöfunum, sem gripið er til á innlendum vettvangi, til að tryggja nægilega fjölbreytni aðila á markaðinum eða raunverulegar ráðstafanir, sem gripið er til, til að bæta samtengingar og auka samkeppni. Frá og með árinu 2010 skulu viðkomandi yfirvöld gefa slíka skýrslu á tveggja ára fresti.
9.     Aðildarríkin skulu tryggja að gripið sé til viðeigandi ráðstafana, þ.m.t. stjórnsýsluaðgerðir, eða að höfðað sé sakamál í samræmi við innlend lög, gegn einstaklingum eða lögaðilum, sem bera ábyrgð, ef reglur um þagnarskyldu, sem settar eru með þessari tilskipun, hafa ekki verið virtar.
10.     Nái deilumál yfir landamæri skal eftirlitsyfirvaldið, sem tekur ákvörðun, vera eftirlitsyfirvaldið, sem hefur lögsögu að því er varðar kerfisstjórann, sem synjar um notkun á kerfinu eða aðgang að því.
11.     Kærurnar, sem um getur í 5. og 6. mgr., koma ekki í veg fyrir að málskotsréttur sé nýttur samkvæmt lögum Bandalagsins og innlendum lögum.
12.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu stuðla að þróun innri markaðarins og jöfnum samkeppnisskilyrðum með því að vinna saman og með framkvæmdastjórninni á gagnsæjan hátt.

VIII. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
24. gr.
Verndarráðstafanir

Komi skyndilega til kreppu á orkumarkaðinum og sé öryggi fólks, tækja eða búnaðar eða heildstæði kerfisins stefnt í hættu, er aðildarríki heimilt að grípa tímabundið til nauðsynlegra verndarráðstafana.
Slíkar ráðstafanir þurfa að vera með því móti að þær valdi sem minnstum truflunum á starfsemi innri markaðarins og mega ekki vera víðtækari en nauðsynlegt er til að bregðast við vandanum sem komið hefur upp.
Viðkomandi aðildarríki skal tafarlaust tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um þessar ráðstafanir og þeim er heimilt að ákveða að aðildarríkinu beri að breyta ráðstöfununum eða afnema þær, að því marki sem þær raska samkeppni og hafa neikvæð áhrif á viðskipti á einhvern þann hátt sem stríðir gegn sameiginlegum hagsmunum.

25. gr.
Eftirlit með innflutningi á raforku

Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni á þriggja mánaða fresti um innflutning á raforku með tilliti til raunverulegs flæðis síðustu þrjá mánuði á undan frá þriðju löndum.

26. gr.
Undanþágur

1.     Aðildarríki, sem geta sýnt fram á, eftir að þessi tilskipun hefur öðlast gildi, að umtalsverð vandkvæði séu á rekstri lítilla, einangraðra kerfa þeirra, geta sótt um undanþágur frá þeim ákvæðum IV., V., VI. og VII. kafla sem máli skipta, auk III. kafla þegar um er ræða einangruð örkerfi, að því er varðar endurnýjun, uppfærslu og aukningu flutningsgetu, sem fyrir hendi er, og er framkvæmdastjórninni heimilt að veita þeim þessar undanþágur. Framkvæmdastjórnin tilkynnir aðildarríkjunum um þessar umsóknir áður en hún tekur ákvörðun, að teknu tilliti til trúnaðarkröfunnar. Ákvörðunin skal birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins. Þessi grein gildir einnig um Lúxemborg.
2.     Aðildarríki, sem, eftir að þessi tilskipun hefur tekið gildi, af ástæðum sem eru tæknilegs eðlis, á í umtalsverðum vandræðum með að opna markað sinn fyrir tilteknum afmörkuðum hópi viðskiptavina, sem ekki kaupa til heimilisnota og um getur í b-lið 1. mgr. 21. gr., má sækja um undanþágu frá þessu ákvæði, sem framkvæmdastjórnin getur veitt því í tímabil sem varir ekki lengur en í 18 mánuði eftir dagsetninguna sem um getur í 1. mgr. 30. gr. Í öllum tilvikum skal slík undanþága fellur úr gildi á þeim degi sem um getur í c-lið 1. mgr. 21. gr.

27. gr.
Endurskoðun

Ef framkvæmdastjórnin kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslunni, sem um getur í 3. mgr. 28. gr., í ljósi þess á hversu skilvirkan hátt netaðgangur hefur verið framkvæmdur í aðildarríki sem hefur í för með sér netaðgang sem er að fullu virkur, án mismununar og án hindrana að tilteknar skyldur, sem þessi tilskipun leggur á fyrirtæki (þ.m.t. þær sem fjalla um lagalega sundurgreiningu kerfisstjóra dreifikerfa) séu ekki í réttu hlutfalli við markmiðið, sem stefnt er að, er aðildarríkinu heimilt að leggja fram beiðni til framkvæmdastjórnarinnar um undanþágu frá kröfunni sem um ræðir.
Aðildarríkið skal tilkynna framkvæmdastjórninni án tafar um beiðnina ásamt öllum viðkomandi upplýsingum, sem nauðsynlegar eru, til að sýna fram á að niðurstaðan, sem komist var að í skýrslunni um að skilvirkur aðgangur að netinu verði tryggður, muni gilda áfram.
Innan þriggja mánaða frá því að framkvæmdastjórninni berst tilkynning skal hún samþykkja álit með tilliti til beiðni hlutaðeigandi aðildarríkis og, eftir því sem við á, leggja tillögur fyrir Evrópuþingið og ráðið um að breyta viðkomandi ákvæðum tilskipunarinnar. Framkvæmdastjórninni er heimilt að leggja til í tillögunum að tilskipuninni, verði breytt að hlutaðeigandi aðildarríki verði undanþegið tilteknum kröfum, háð því að aðildarríkið grípi til jafn áhrifaríkra ráðstafana, eftir því sem við á.

28. gr.
Skýrslugjöf

1.     Framkvæmdastjórnin skal fylgjast með og endurskoða beitingu þessarar tilskipunar og leggja heildarskýrslu um árangur fyrir Evrópuþingið og ráðið í lok fyrsta ársins eftir gildistöku þessarar tilskipunar og árlega eftir það. Þessi skýrsla skal a.m.k. taka til:
a)    fenginnar reynslu og árangurs, sem næst við að koma endanlega á innri markað á sviði raforku sem verður starfræktur að fullu, og hindrana, sem eftir eru í þessu tilliti, þ.m.t. þættir varðandi markaðsyfirráð, samþjöppun á markaði, undirboð eða samkeppnishamlandi starfshættir og áhrif þessa með tilliti til markaðsröskunar,
b)    þess að hvaða marki kröfur um sundurgreiningu og setningu gjaldskrár, sem er að finna í þessari tilskipun, hafa verið árangursríkar við að tryggja sanngjarnan aðgang án mismununar að raforkukerfi Bandalagsins og sambærilegt samkeppnisstig, sem og efnahagslegra, umhverfislegra og félagslegra afleiðinga af opnun raforkumarkaðar fyrir viðskiptavini,
c)    rannsóknar á málefnum er tengjast flutningsgetu kerfis og afhendingaröryggi raforku í Bandalaginu og einkum núverandi og áætluðu jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar að teknu tilliti til raunverulegrar flutningsgetu fyrir skipti milli svæða,
d)    þess að sérstakur gaumur verður gefinn ráðstöfunum, sem gripið er til í aðildarríkjunum, til að anna eftirspurn á álagstoppum og bregðast við skorti hjá einum eða fleiri birgjum,
e)    framkvæmdar á undanþágunni, sem kveðið er á um skv. 2. mgr. 15. gr., með tilliti til hugsanlegrar endurskoðunar viðmiðunarmarkanna,
f)    almenns mats á árangrinum, sem næst með tilliti til tvíhliða samskipta við þriðju lönd sem framleiða og flytja út eða flytja raforku, þ.m.t. árangur í markaðssamþættingu, félagslegar afleiðingar og afleiðingar fyrir umhverfið, sem viðskiptin með rafmagn og aðgangur að netum í slíkum þriðju löndum, hefur,
g)    þarfarinnar á hugsanlegum samræmingarkröfum sem ekki tengjast ákvæðum þessarar tilskipunar,
h)    þess með hvaða hætti aðildarríkin hafa í raun hrint kröfunum varðandi orkumerkingar, sem er að finna í 6. mgr. 3. gr., í framkvæmd og með hvaða hætti tekið hefur verið tillit til sérhverra tilmæla framkvæmdastjórnarinnar um þetta málefni.
Eftir því sem við á, geta í skýrslunni verið tilmæli, sérstaklega að því er varðar gildissvið og fyrirkomulag ákvæða um merkingar, t.d. með hvaða hætti er vísað til þeirra heimilda sem fyrir hendi eru og efni þessara heimilda og nánar tiltekið með hvaða hætti hægt sé að gera upplýsingarnar um umhverfisáhrif, a.m.k. með tilliti til koltvísýringslosunar og geislavirks úrgangs sem til fellur við raforkuframleiðslu með mismunandi orkugjöfum, tiltækar á gagnsæjan og sambærilegan hátt þar sem auðvelt er að nálgast þær í öllu Evrópubandalaginu og um það með hvaða hætti sé hægt að einfalda ráðstafanirnar, sem aðildarríkin grípa til, til að hafa eftirlit með áreiðanleika upplýsinganna, sem birgjar veita, og ráðstafanir til að vega upp á móti neikvæðum áhrifum markaðsyfirráða og samþjöppunar á markaði.
2.     Á tveggja ára fresti skal í skýrslunni, sem um getur í 1. mgr., einnig fjallað um greiningu á mismunandi ráðstöfunum, sem aðildarríkin gera til að uppfylla skyldur um opinbera þjónustu, ásamt könnun á skilvirkni þessara ráðstafana, einkum áhrifa þeirra á samkeppni á raforkumarkaðinum. Eftir því sem við á, geta í þessari skýrslu verið tilmæli, að því er varðar ráðstafanir sem gera skal á innlendum vettvangi til að koma á opinberri þjónustu á háu stigi, eða ráðstafanir, sem ætlað er að koma í veg fyrir hindranir á markaðsaðgangi.
3.     Framkvæmdastjórnin, skal eigi síðar en 1. janúar 2006, senda Evrópuþinginu og ráðinu nákvæma skýrslu þar sem rakinn er árangur af því að skapa innri markað á sviði raforku. Skýrslan skal fyrst og fremst fjalla um:
—    hvort netaðgangur án mismununar sé til staðar,
—    skilvirka reglusetningu,
—    þróun á grunnvirki til samtengingar og öryggi afhendingar í Bandalaginu,
—    að hvaða marki fullur ávinningur af opnun markaða kemur litlum fyrirtækjum og heimilum til góðs, nánar tiltekið með tilliti til gæða opinberrar þjónustu og alþjónustu,
—    að hvaða marki markaðir eru í raun opnir fyrir virkri samkeppni, þ.m.t. þættir varðandi markaðsyfirráð, samþjöppun á markaði, undirboð eða samkeppnishamlandi starfshættir,
—    að hvaða marki viðskiptavinir eru í raun að skipta um birgi og semja um gjaldskrár,
—    verðþróun, þ.m.t. afhendingarverð, með tilliti til þess hversu opnir markaðir eru,
—    reynsluna, sem fengist hefur við beitingu tilskipunarinnar að því er varðar raunverulegt sjálfstæði kerfisstjóra í lóðrétt samþættum fyrirtækjum, og hvort aðrar ráðstafanir til viðbótar við sjálfstæði, að því er varðar starfsemi og aðskilið bókhald, hafa verið þróaðar sem hafa sambærileg áhrif og lagaleg sundurgreining.
Eftir því sem við á, skal framkvæmdastjórnin senda tillögur til Evrópuþingsins og ráðsins, einkum til að tryggja opinbera þjónustu á háu stigi.
Eftir því sem við á, skal framkvæmdastjórnin senda tillögur til Evrópuþingsins og ráðsins, einkum til að tryggja fullt og skilvirkt sjálfstæði kerfisstjóra dreifikerfa eigi síðar en 1. júlí 2007. Ef nauðsynlegt er skulu þessar tillögur, í samræmi við samkeppnislög, einnig varða ráðstafanir um málefni er varða markaðsyfirráð, samþjöppun á markaði, undirboð eða samkeppnishamlandi starfshætti.

29. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 90/547/EBE skal felld úr gildi frá og með 1. júlí 2004. Tilskipun 96/92/EB falli hér með úr gildi frá og með 1. júlí 2004, með fyrirvara um skyldur aðildarríkja varðandi frest til lögleiðingar og beitingar fyrrnefndrar tilskipunar. Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í viðauka B.

30. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. júlí 2004. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að fresta framkvæmd 1. mgr. 15. gr. til 1. júlí 2007. Þetta skal vera með fyrirvara um kröfurnar sem er að finna í 2. mgr. 15. gr.
3.     Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

31. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

32. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 26. júní 2003.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX A. TSOCHATZOPOULOS
forseti. forseti.

VIÐAUKI A
Ráðstafanir er varða neytendavernd

Með fyrirvara um reglur Bandalagsins um neytendavernd, einkum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB ( 13 ) og tilskipun ráðsins 93/13/EB ( 14 ), eiga ráðstafanirnar, sem um getur í 3. gr., að tryggja að viðskiptavinir:
a)    eigi rétt á samningi við þann sem veitir þeim raforkuþjónustu, sem tilgreinir:
    —    heiti og heimilisfang birgisins,
    —    þjónustuna, sem veitt er, gæði þeirrar þjónustu sem boðin er svo og hvenær upphafleg tenging mun eiga sér stað,
    —    tegundir viðhaldsþjónustu ef hún er í boði,
    —    með hvaða hætti hægt er að nálgast uppfærðar upplýsingar um allar viðeigandi gjaldskrár og viðhaldsgjöld,
    —    gildistíma samningsins, skilyrði fyrir endurnýjun og uppsögn þjónustunnar og samningsins, hvort réttur til afturköllunar sé fyrir hendi,
    —    hvers kyns bóta- og endurgreiðslufyrirkomulag sem gildir ef þjónustugæðin, sem samið var um, eru ekki uppfyllt og
    —    hvernig hefja skal málsmeðferð til að leysa deilumál í samræmi við f-lið.
    Skilyrðin skulu vera sanngjörn og vel þekkt fyrirfram. Í öllum tilvikum skulu þessar upplýsingar veittar áður en samningur er gerður eða staðfestur. Ef samningar eru gerðir í gegnum milliliði skulu framangreindar upplýsingar einnig veittar áður en samningurinn er gerður.
b)    fái tilkynningu með nægilegum fyrirvara um allar fyrirætlanir um að breyta samningsskilyrðum og fái upplýsingar um uppsagnarrétt sinn þegar þeir fá þessa tilkynningu. Þjónustuveitendur skulu tilkynna áskrifendum sínum beint um allar hækkanir á gjöldum á viðeigandi tíma, eigi síðar en einu reikningstímabili eftir að hækkunin tekur gildi. Aðildarríkin skulu tryggja að viðskiptavinum sé frjálst að segja upp samningum ef þeir samþykkja ekki nýju skilyrðin sem sá sem veitir þeim raforkuþjónustu tilkynnir þeim um.
c)    fái upplýsingar um viðeigandi verð og gjaldskrár, og um staðlaða skilmála og skilyrði með tilliti til aðgangs að og notkunar á raforkuþjónustu,
d)    hafi víðtækt val um greiðsluaðferðir. Allur munur á skilmálum og skilyrðum skal endurspegla kostnað birgisins við mismunandi greiðslukerfi. Almennir skilmálar og skilyrði skulu vera sanngjörn og gagnsæ. Þau skulu sett fram á skýru og auðskiljanlegu máli. Viðskiptavinir skulu verndaðir gagnvart ósanngjörnum og villandi söluaðferðum.
e)    þurfi ekki að borga fyrir að skipta um birgi,
f)    njóti góðs af gagnsærri, einfaldri og ódýrri málsmeðferð við að fjalla um kvartanir þeirra. Slík málsmeðferð skal gera kleift að leysa deilumál á sanngjarnan og skjótvirkan hátt þannig að gert sé ráð fyrir endurgreiðslu- og/eða bótakerfi þar sem réttmæt ástæða er til slíks. Hún skal, eftir því sem kostur er, fylgja meginreglunum sem settar eru fram í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 98/257/EB ( 15 ).
g)    sem hafa aðgang að alþjónustu samkvæmt ákvæðunum sem aðildarríkin samþykkja skv. 3. mgr. 3. gr., fái upplýsingar varðandi rétt sinn til alþjónustu.

VIÐAUKI B
Samsvörunartafla

Tilskipun 96/92/EB Þessi tilskipun
1. gr. 1. gr. Gildissvið
2. gr. 2. gr. Skilgreiningar
3. gr. og 1. mgr. 10. gr. 3. gr. Skyldur um opinbera þjónustu og neytendavernd
4. gr. Eftirlit með afhendingaröryggi
2. mgr. 7. gr. 5. gr. Tæknilegar reglur
4. og 5. gr. 6. gr. Málsmeðferð við leyfisveitingu fyrir aukinni framleiðslugetu
4. og 6. gr. 7. gr. Útboð vegna nýrrar framleiðslugetu
1. mgr. 7. gr. 8. gr. Tilnefning flutningskerfisstjóra
3.–5. mgr. 7. gr. 9. gr. Verkefni flutningskerfisstjóra
6. mgr. 7. gr. 10. gr. Sundurgreining flutningskerfisstjóra
8. gr. 11. gr. Álagsdreifing og -jöfnun
9. gr. 12. gr. Þagnarskylda flutningskerfisstjóra
2. og 3. mgr. 10. gr. 13. gr. Tilnefning dreifikerfisstjóra
11. gr. 14. gr. Verkefni dreifikerfistjóra
15. gr. Sundurgreining dreifikerfisstjóra
12. gr. 16. gr. Þagnarskylda dreifikerfisstjóra
17. gr. Kerfisstjóri samsettra kerfa
13. gr. 18. gr. Réttur til aðgangs að reikningum
14. gr. 19. gr. Sundurgreining reikninga
15. – 18. gr. 20. gr. Aðgangur þriðju aðila
19. gr. 21. gr. Markaðsopnun og gagnkvæmni
21. gr. 22. gr. Beinar línur
3.–4. mgr. 20. og 22. gr. 23. gr. Eftirlitsyfirvöld
23. gr. 24. gr. Verndarráðstafanir
25. gr. Eftirlit með innflutningi raforku
24. gr. 26. gr. Undanþágur
27. gr. Endurskoðun
25. og 26. gr. 28. gr. Skýrslugjöf
29. gr. Niðurfelling
27. gr. 30. gr. Framkvæmd
28. gr. 31. gr. Gildistaka
29. gr. 32. gr. Viðtakendur
Viðauki A Ráðstafanir er varða neytendavernd
Fylgiskjal IV.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2003/55/EB
frá 26. júní 2003
um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 98/30/EB

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr., 55. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögum framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/30/EB frá 22. júní 1998 um sameiginlegar reglur um innri markað fyrir jarðgas ( 4 ) var mikilvægt framlag til þess að skapa innri markað fyrir jarðgas.
2)          Reynslan, sem fengist hefur við beitingu framangreindrar tilskipunar, sýnir ávinninginn sem getur hlotist af innri markaði fyrir gas, með tilliti til aukinnar skilvirkni, verðlækkana, betri þjónustu og aukinnar samkeppni. Hins vegar eru enn verulegir annmarkar og möguleikar á að bæta starfsemi markaðarins, nánar tiltekið er þörf á markvissum ákvæðum til að tryggja jöfn samkeppnisskilyrði, að draga úr hættunni á markaðsyfirráðum og undirverðlagningu, tryggja gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu, sem eru án mismununar með aðgangi að netum á grundvelli gjaldskráa sem eru birtar áður en þær taka gildi, og standa vörð um rétt lítilla og vanmegna viðskiptavina.
3)          Á fundi sínum í Lissabon 23. og 24. mars 2000 hvatti Evrópuráðið til þess að unnið yrði að því í flýti að koma endanlega á innri markaði bæði á sviði raforku og gass og að frelsi yrði aukið hið fyrsta á þessum sviðum með það fyrir augum að innri markaður verði starfræktur að fullu. Í ályktun sinni frá 6. júlí 2000 um aðra skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um stöðu þeirrar viðleitni að auka frelsi á orkumörkuðum krafðist Evrópuþingið þess að framkvæmdastjórnin samþykkti ítarlega tímaáætlun um að ná fram nákvæmlega skilgreindum markmiðum með það fyrir augum að gefa orkumarkaðinn alveg frjálsan í áföngum.
4)          Þau réttindi sem sáttmálinn tryggir evrópskum borgurum – frjálsir vöruflutningar, frelsi til að veita þjónustu og staðfesturéttur – eru einungis möguleg á markaði sem er að fullu opinn þar sem neytendur geta sjálfir valið sér birgi og birgjum er gert kleift að dreifa frjálst til allra viðskiptavina sinna.
5)          Með hliðsjón af því að búist er við að neytendur verði sífellt háðari jarðgasi skal taka tillit til framtaksverkefna og ráðstafana til að stuðla að gagnkvæmu fyrirkomulagi vegna aðgangs að netum þriðju landa og markaðssamþættingu.
6)          Helstu hindranir við að koma á markaði, sem er að fullu starfhæfur og þar sem samkeppni ríkir, tengjast m.a. málefnum er varða aðgang að netinu, aðgang að geymslu, gjaldskrármálum, rekstrarsamhæfi milli kerfa og því að opnun markaðarins er mislangt komin í aðildarríkjunum.
7)          Til að samkeppni sé virk verður aðgangur að netum að vera án mismununar, gagnsær og verðlagður með sanngjörnum hætti.
8)          Aðgangur án mismununar að neti flutnings- og dreifikerfisstjóra hefur grundvallarþýðingu til að koma að fullu á innri markaði fyrir gas. Flutnings- eða dreifikerfisstjórar geta verið eitt eða fleiri fyrirtæki.
9)          Þegar um er að ræða fyrirtæki, sem annast flutning, dreifingu, geymslu eða starfsemi á sviði fljótandi jarðgass og er aðskilið að lögum frá þeim fyrirtækjum sem stunda framleiðslu og/eða afhendingu, getur tilnefndur kerfisstjóri verið sama fyrirtækið og á grunnvirkið.
10)          Til að tryggja skilvirkan netaðgang án mismununar er rétt að flutnings- og dreifikerfi séu starfrækt af aðilum, sem eru aðskildir að lögum, ef lóðrétt samþætt fyrirtæki eru til staðar. Framkvæmdastjórnin skal meta ráðstafanir með sambærileg áhrif sem aðildarríkin þróa til að ná fram markmiði þessarar kröfu og, eftir því sem við á, leggja fram tillögur um að breyta þessari tilskipun.Einnig er rétt að flutnings- og dreifikerfisstjórar hafi virkan ákvörðunarrétt með tilliti til eigna sem nauðsynlegar eru til að viðhalda netum og reka þau og þróa þegar eignirnar, sem um ræðir, eru í eigu eða eru reknar af lóðrétt samþættum fyrirtækjum.Hins vegar er mikilvægt að greina á milli slíks lagalegs aðskilnaðar og sundurgreiningar á eignarhaldi. Lagalegur aðskilnaður felur ekki heldur í sér breytingu á eignarhaldi eigna og ekkert kemur í veg fyrir að svipuð eða eins starfsskilyrði gildi í öllu lóðrétt samþætta fyrirtækinu. Hins vegar skal tryggja ákvörðunartökuferli án mismununar með skipulagsráðstöfunum er varða sjálfstæði þeirra sem bera ábyrgð á ákvörðunartöku.
11)          Til að komast hjá því að leggja of mikla fjárhagslega og stjórnsýslulega byrði á lítil dreifingarfyrirtæki skulu aðildarríkin geta, ef nauðsynlegt er, veitt slíkum fyrirtækjum undanþágu frá lagalegum kröfum um sundurgreinda dreifingu.
12)          Til að auðvelda gasfyrirtæki, sem hefur staðfestu í aðildarríki, gerð samninga vegna afhendingar á gasi til óbundinna viðskiptavina í öðru aðildarríki skulu aðildarríki og, eftir því sem við, á innlend eftirlitsyfirvöld vinna að einsleitari skilyrðum og að viðskiptavinir teljist vera óbundnir með sama hætti fyrir allan innri markaðinn.
13)          Það að skilvirkt eftirlit sé til staðar, sem eitt innlent eftirlitsyfirvald eða fleiri framkvæma, er mikilvægur þáttur í að tryggja aðgang að netinu án mismununar. Aðildarríkin skulu tilgreina hlutverk, valdsvið og stjórnsýsluheimildir eftirlitsyfirvaldanna. Mikilvægt er að eftirlitsyfirvöld í öllum aðildarríkjum hafi sama lágmarksvaldsviðið. Þessi yfirvöld skulu vera bær til að ákveða eða samþykkja gjaldskrár, eða a.m.k. aðferðafræðina sem býr að baki útreikningum á gjaldskrám fyrir flutning og dreifingu og gjaldskrám fyrir aðgang að aðstöðu fyrir fljótandi jarðgas. Til að forðast óvissu og kostnaðarsöm og tímafrek deilumál skulu þessar gjaldskrár birtar áður en þær taka gildi.
14)          Framkvæmdastjórnin hefur gefið til kynna fyrirætlan sína um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi sem myndi skapa hentugt ráðgjafarfyrirkomulag til að hvetja til samvinnu og samræmingar innlendra eftirlitsyfirvalda í því skyni að stuðla að þróun innri markaðarins á sviði raforku og gass og til að stuðla að samræmdri beitingu í öllum aðildarríkjum á ákvæðunum, sem sett eru í þessari tilskipun og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku ( 5 ) og í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri ( 6 ).
15)          Til að tryggja öllum markaðsaðilum greiðan markaðsaðgang, að meðtöldum nýjum orkusölum, er þörf á jöfnunarfyrirkomulagi sem er kostnaðartengt og án mismununar. Um leið og seljanleiki á gasmarkaðinum er nægilegur ætti þetta að nást með því að koma á gagnsæju, markaðstengdu fyrirkomulagi við afhendingu og kaup á gasi sem nauðsynlegt er innan rammans um jöfnunarkröfur. Ef markaður, þar sem seljanleiki ríkir, er ekki fyrir hendi ættu innlend eftirlitsyfirvöld að gegna virku hlutverki til að tryggja að gjaldskrár til jöfnunar séu kostnaðartengdar og án mismununar. Á sama tíma skal veita viðeigandi hvatningu til að jafna innmötun (in-put) og úttekt (off-take) gass og til að stofna kerfinu ekki í hættu.
16)          Innlend eftirlitsyfirvöld skulu geta ákveðið eða samþykkt gjaldskrár eða aðferðafræðina, sem býr að baki útreikningum á gjaldskrám, á grundvelli tillögu kerfisstjóra flutningskerfis, dreifikerfis eða kerfis fyrir fljótandi jarðgas eða á grundvelli tillögu sem þessir kerfisstjórar og notendur kerfisins urðu ásáttir um. Þegar þau sinna þessum verkefnum skulu innlend eftirlitsyfirvöld tryggja að gjaldskrár vegna flutnings og dreifingar séu án mismununar og kostnaðartengdar og skulu taka tillit til langtíma frávikskostnaðar við net sem komist er hjá með stjórnun eftirspurnar.
17)          Allur iðnaður og verslun, þ.m.t. lítil og meðalstór fyrirtæki, og allir ríkisborgarar í Bandalaginu skulu njóta ávinnings, sem innri markaðurinn leiðir af sér, eins fljótt og auðið er af ástæðum er varða sanngirni, samkeppni og óbeint til að skapa atvinnu sem leiðir af aukinni skilvirkni sem fyrirtækin njóta.
18)          Viðskiptavinir skulu hafa frjálst val um birgi sem afhendir þeim gas. Engu að síður skal notast við áfangaskipta aðferð við að koma að fullu á innri markaði fyrir gas, sem er tengd tilteknum tímamörkum, til að gera iðnaðinum kleift að aðlagast og tryggja að viðeigandi ráðstafanir og kerfi séu til staðar til að verja hagsmuni viðskiptavina og tryggja að þeir hafi raunverulegt og skilvirkt val um birgi.
19)          Opnun markaðarins smám saman, þar til hann er að fullu opinn, ætti, eins fljótt og auðið er, að fjarlægja mun á milli aðildarríkjanna. Tryggja skal gagnsæi og áreiðanleika í framkvæmd þessarar tilskipunar.
20)          Í tilskipun 98/30/EB er kveðið á um að aðgangur að geymslu verði hluti gaskerfisins. Í ljósi fenginnar reynslu af því að koma á innri markaðinum skal grípa til viðbótarráðstafana til að skýra ákvæðin um aðgang að geymslu og stoðþjónustu.
21)          Geymsluaðstaða er grundvallarúrræði, m.a. til að uppfylla skyldur um opinbera þjónustu, s.s. að tryggja afhendingaröryggi. Þetta skal ekki leiða til röskunar á samkeppni eða mismununar á aðgangi að geymslum.
22)          Grípa skal til frekari ráðstafana til að tryggja að gjaldskrár séu gagnsæjar og án mismununar að því er varðar aðgang að flutningiÞessar gjaldskrár skulu gilda um alla notendur án mismununar. Ef geymsluaðstaða, leiðslurými eða stoðþjónusta er starfrækt á markaði, þar sem nægileg samkeppni ríkir, er hægt að leyfa aðgang á grundvelli markaðsaðferða sem eru gagnsæjar og án mismununar.
23)          Til að tryggja afhendingaröryggi skal fylgjast með jafnvæginu milli framboðs og eftirspurnar í einstökum aðildarríkjum og eftirlitinu skal fylgt eftir með skýrslu um stöðuna innan Bandalagsins að teknu tilliti til flutningsgetu samtengileiðslna milli svæða. Slíkt eftirlit skal fara fram nægilega snemma til að gera kleift að gripið sé til viðeigandi ráðstafana ef afhendingaröryggi er stefnt í hættu. Smíði og viðhald á nauðsynlegu netgrunnvirki, þ.m.t. flutningsgeta samtengileiðslna, skal stuðla að því að trygga stöðugt framboð gass.
24)          Aðildarríkjunum ber að tryggja, að teknu tilliti til gæðakrafna, að lífgasi og gasi úr lífmassa eða öðrum tegundum af gasi sé veittur aðgangur án mismununar að gaskerfinu, að því tilskildu að slíkur aðgangur sé til frambúðar í samræmi við viðkomandi tæknilegar reglur og öryggisstaðla. Þessar reglur og staðlar skulu tryggja að tæknilega mögulegt og öruggt sé að dæla þessum gastegundum inn í jarðgaskerfið og flytja þær um það og þær skulu einnig fjalla um efnafræðilega eiginleika slíkra gastegunda.
25)          Langtímasamningar halda áfram að vera mikilvægur hluti af afhendingu gass til aðildarríkjanna og þeim skal viðhaldið sem möguleika fyrir gasafhendingarfyrirtæki, svo fremi sem þeir grafi ekki undan markmiðum þessarar tilskipunar og séu í samræmi við sáttmálann, þ.m.t. samkeppnisreglur. Því er mikilvægt að taka tillit til þeirra þegar verið er að skipuleggja afhendingar- og flutningsgetu gasfyrirtækja.
26)          Til að tryggja að háu stigi opinberrar þjónustu sé viðhaldið í Bandalaginu skal tilkynna framkvæmdastjórninni reglulega um allar ráðstafanir, sem aðildarríkin grípa til, til að ná settum markmiðum þessarar tilskipunar. Framkvæmdastjórnin skal birta reglulega skýrslu þar sem greindar eru ráðstafanir, sem gripið er til, á innlendum vettvangi til að ná settum markmiðum um opinbera þjónustu og bera saman skilvirkni þeirra með það í huga að koma með tilmæli, að því er varðar ráðstafanirnar sem grípa skal til á innlendum vettvangi, til að koma á opinberri þjónustu á háu stigi.
        Aðildarríkin skulu tryggja að þegar viðskiptavinir eru tengdir við gaskerfið séu þeir upplýstir um rétt sinn til að fá afhent jarðgas af tilteknum gæðum á sanngjörnu verði. Ráðstafanir, sem aðildarríkin gera til að vernda kaupendur, geta verið mismunandi eftir því hvort um heimili eða lítil og meðalstór fyrirtæki er að ræða.
27)          Grundvallarkrafa þessarar tilskipunar er að uppfylla kröfur um opinbera þjónustu og mikilvægt er að sameiginlegir lágmarksstaðlar, sem öll aðildarríkin uppfylla, séu tilgreindir í þessari tilskipun sem taka tillit til markmiðanna um neytendavernd, afhendingaröryggi, umhverfisvernd og sambærilegt samkeppnisstig í öllum aðildarríkjunum. Mikilvægt er að hægt sé að túlka kröfurnar um opinbera þjónustu á innlendum grundvelli að teknu tilliti til innlendra kringumstæðna og með því skilyrði að lög Bandalagsins séu virt.
28)          Ráðstafanir, sem aðildarríkin hrinda í framkvæmd til að ná settum markmiðum um félagslega og efnahagslega samheldni, geta einkum falið í sér efnahagshvata, þar sem notuð eru, eftir því sem við á, öll innlend tæki og tæki í Bandalaginu. Þessi tæki geta m.a. verið kerfi um skaðabótaábyrgð til að tryggja nauðsynlega fjárfestingu.
29)          Að því marki sem ráðstafanirnar, sem aðildarríki grípa til til að uppfylla skyldur um opinbera þjónustu, fela í sér ríkisaðstoð, skv. 1. mgr. 87. gr. sáttmálans, ber skylda til að tilkynna framkvæmdastjórninni um hana skv. 3. mgr. 88. gr. sáttmálans.
30)          Þar sem aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði fyrirhugaðra aðgerða, þ.e. að skapa innri markað fyrir gas sem starfræktur er að fullu og þar sem samkeppni ríkir, og þar eð því markmiði verður, af þeim sökum, betur náð á vettvangi Bandalagsins, vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa mikil áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, sem sett er fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi því markmiði.
31)          Í ljósi fenginnar reynslu af beitingu tilskipunar ráðsins 91/296/EBE frá 31. maí 1991 varðandi gegnumflutning á jarðgasi um flutningskerfi ( 7 ), skal grípa til ráðstafana til að tryggja einsleit aðgangskerfi án mismununar vegna flutnings, þ.m.t. gasflæði milli aðildarríkja yfir landamæri. Til að tryggja einsleita meðferð á aðgangi að gasnetum, einnig að því er varðar gegnumflutning, skal fella þá tilskipun úr gildi, án þess að það hafi áhrif á samninga sem voru gerðir samkvæmt fyrrnefndri tilskipun. Niðurfelling tilskipunar 91/296/EBE skal ekki koma í veg fyrir að langtímasamningar séu gerðir í framtíðinni.
32)          Sökum þess hversu umfangsmiklar breytingarnar, sem gerðar eru á tilskipun 98/30/EB, eru er æskilegt, til glöggvunar og hagræðingar, að lagfæra viðkomandi ákvæði.
33)          Í þessari tilskipun eru grundvallarréttindi virt og meginreglum fylgt, einkum þeim sem eru viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi.
34)          Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 8 ).
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. KAFLI
GILDISSVIÐ OG SKILGREININGAR
1. gr.
Gildissvið

1.     Í þessari tilskipun eru settar sameiginlegar reglur um flutning, dreifingu, afhendingu og geymslu jarðgass. Settar eru reglur um skipulagningu og starfsemi á sviði jarðgass, markaðsaðgang, viðmiðanir og málsmeðferð við veitingu leyfa fyrir flutningi, dreifingu, afhendingu og geymslu jarðgass og rekstur kerfa.
2.     Reglurnar, sem eru settar með þessari tilskipun að því er varðar jarðgas, þ.m.t. fljótandi jarðgas, skulu einnig gilda um lífgas og gas úr lífmassa eða aðrar tegundir gass, svo fremi að það sé tæknilega mögulegt og öruggt að dæla þessum gösum inn í jarðgaskerfið og flytja þau í gegnum það.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.    „jarðgasfyrirtæki“: einstaklingur eða lögpersóna sem starfar á a.m.k einu eftirtalinna sviða: framleiðslu, flutningi, dreifingu, afhendingu, kaupum á eða geymslu jarðgass, m.a. fljótandi jarðgass, og er ábyrgur fyrir verkefnum sem lúta að viðskiptum, tækni og/eða viðhaldi, sem aftur tengjast fyrrnefndum störfum, en er ekki kaupandi,
2.    „leiðslukerfi fyrir óunnið jarðgas“: leiðslur eða leiðslukerfi sem eru starfrækt og/eða lögð sem hluti af olíu- eða gasframleiðsluframkvæmd eða eru notuð til þess að miðla jarðgasi frá einni eða fleiri slíkum starfstöðvum til vinnslustöðvar eða birgðastöðvar eða endastöðvar við strönd,
3.    „flutningur“: flutningur jarðgass um annars konar háþrýstileiðslukerfi en leiðslukerfi fyrir óunnið jarðgas í þeim tilgangi að afgreiða það til viðskiptavina, að undanskilinni afhendingu,
4.    „flutningskerfisstjóri“: einstaklingur eða lögaðili sem starfar á sviði flutnings og ber ábyrgð á rekstri, viðhaldi og, ef með þarf, þróun flutningskerfis á tilteknu svæði og, eftir því sem við á, samtenglum þess við önnur kerfi svo og ábyrgð á að tryggja getu kerfisins til lengri tíma til að uppfylla eðlilegar kröfur um flutning á gasi,
5.    „dreifing“: flutningur jarðgass um leiðslukerfi innan sveitarfélaga eða héraða í þeim tilgangi að afgreiða það til viðskiptavina, en hún tekur ekki til afhendingar,
6.    „dreifikerfisstjóri“: einstaklingur eða lögaðili sem starfar á sviði dreifingar og ber ábyrgð á rekstri, viðhaldi og, ef með þarf, þróun dreifikerfis á tilteknu svæði og, eftir því sem við á, samtenglum þess við önnur kerfi svo og ábyrgð á að tryggja getu kerfisins til lengri tíma til að uppfylla eðlilegar kröfur um dreifingu á gasi,
7.    „afhending“: sala, þ.m.t. endursala á jarðgasi, þ.m.t. fljótandi jarðgas, til viðskiptavina,
8.    „afhendingarfyrirtæki“: einstaklingur eða lögaðili sem annast afhendingu,
9.    „geymsluaðstaða“: aðstaða til þess að geyma jarðgas, sem er í eigu jarðgasfyrirtækis eða er starfrækt af slíku fyrirtæki, að meðtaldri aðstöðu fyrir fljótandi jarðgas, sem er notuð til geymslu, en að þeim hluta undanskildum, sem er notaður til framleiðslu, og að undanskilinni aðstöðu sem eingöngu er ætluð flutningskerfisstjórum til að sinna starfsemi sinni,
10.    „geymslukerfisstjóri“: einstaklingur eða lögaðili sem annast geymslu og ber ábyrgð á því að reka geymsluaðstöðu,
11.    „aðstaða fyrir fljótandi jarðgas“: birgðastöð þar sem jarðgasi er breytt í vökva eða þar sem innflutningur, afferming, geymsla og endurgösun fljótandi jarðgass fer fram og skal hún einnig ná til stoðþjónustu og bráðabirgðageymslu fyrir endurgösunarferlið og síðari afhendingu í flutningskerfið, en ekki til hluta birgðastöðva fyrir fljótandi jarðgas sem eru notaðar til geymslu,
12.    „kerfisstjóri fyrir fljótandi jarðgas“: einstaklingur eða lögaðili sem sér um að breyta jarðgasi í vökva eða innflutning, affermingu og endurgösun fljótandi jarðgass og ber ábyrgð á rekstri aðstöðu fyrir fljótandi jarðgas,
13.    „kerfi“: öll flutningskerfi, dreifikerfi, aðstaða fyrir fljótandi jarðgas og/eða geymsluaðstaða, sem jarðgasfyrirtæki á og/eða starfrækir, þ.m.t. leiðslurými og aðstaða þess og tengdra fyrirtækja, þar sem veitt er nauðsynleg viðbótarþjónusta til þess að veita aðgang að flutningi, dreifingu og fljótandi jarðgasi,
14.    „stoðþjónusta“: öll þjónusta sem er nauðsynleg vegna aðgangs að og reksturs flutnings- og/eða dreifineta og/eða aðstöðu fyrir fljótandi jarðgas og/eða geymsluaðstöðu, þ.m.t. álagsjöfnun og blöndun, en að undanskilinni aðstöðu sem eingöngu er ætluð flutningskerfisstjórum fyrir starfsemi þeirra,
15.    „leiðslurými“: geymsla á gasi með þjöppun í gasflutnings- og dreifikerfum, að undanskilinni aðstöðu sem eingöngu er ætluð flutningskerfisstjórum fyrir starfsemi þeirra,
16.    „samtengt kerfi“: fjöldi kerfa sem eru tengd innbyrðis,
17.    „samtengill“: flutningsleiðsla sem fer yfir eða liggur á landamærum aðildarríkja í þeim eina tilgangi að tengja saman innlend flutningskerfi þessara aðildarríkja,
18.    ,,bein leiðsla“: jarðgasleiðsla sem er til viðbótar samtengda kerfinu,
19.    ,,samþætt jarðgasfyrirtæki“: lóðrétt eða lárétt samþætt fyrirtæki,
20.    „lóðrétt samþætt fyrirtæki“: jarðgasfyrirtæki eða hópur fyrirtækja með gagnkvæm tengsl sem skilgreind eru í 3. mgr. 3. gr. í reglugerð ráðsins (EBE) nr. 4064/89 frá 21. desember 1989 um eftirlit með samfylkingum fyrirtækja ( * ) og ef hlutaðeigandi fyrirtæki/fyrirtækjahópur starfar a.m.k. á einu eftirfarandi sviða flutnings eða dreifingar, fljótandi jarðgass eða geymslu og a.m.k. annaðhvort á einu sviði framleiðslu eða afhendingar jarðgass,
21.    „lárétt samþætt fyrirtæki“: fyrirtæki sem starfar á a.m.k. einu eftirtalinna sviða: framleiðslu, flutningi, dreifingu, afhendingu eða geymslu jarðgass og stundar aðra starfsemi sem ekki tengist gasi,
22.    „tengd fyrirtæki“: eignatengd fyrirtæki í skilningi 41. gr. sjöundu tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 sem byggð er á g-lið 2. gr. 44. gr. ( 9 ) sáttmálans um samstæðureikninga ( 10 ), og/eða hlutdeildarfyrirtæki, í skilningi 1. mgr. 33. gr. og/eða fyrirtæki í eigu sömu hluthafa,
23.    „kerfisnotendur“: einstaklingur eða lögaðili sem afhendir jarðgas eða fær jarðgas afhent gegnum kerfið,
24.    „viðskiptavinir“: heildsalar og kaupendur jarðgass og jarðgasfyrirtæki sem kaupa jarðgas,
25.    „viðskiptavinir sem kaupa til heimilisnota“: viðskiptavinir sem kaupa jarðgas til eigin heimilisnota,
26.    „viðskiptavinir sem kaupa ekki til heimilisnota“: viðskiptavinir sem kaupa jarðgas sem er ekki til þeirra eigin heimilisnota,
27.    „kaupendur“: viðskiptavinir sem kaupa jarðgas til eigin nota,
28.    „óbundnir viðskiptavinir“: viðskiptavinir sem mega kaupa gas af birgi að eigin valin í skilningi 23. gr. þessarar tilskipunar,
29.    „heildsalar“: einstaklingar eða lögaðilar, aðrir en kerfisstjórar flutningskerfa og dreifikerfa sem kaupa jarðgas til endursölu innan eða utan kerfisins sem þeir starfa í,
30.    „gerð langtímaáætlana“: áætlanir jarðgasfyrirtækja um afhendingu og flutningsgetu til langs tíma með það fyrir augum að mæta þörfum kerfisins fyrir jarðgas, auka fjölbreytni linda og tryggja framboð til viðskiptavina,
31.    „nývaxtarmarkaður“: aðildarríki þar sem fyrsta vöruafhending samkvæmt fyrsta jarðgaskaupasamningi til langs tíma fór fram fyrir tíu árum eða síðar,
32.    „öryggi“: bæði öryggi með tilliti til afhendingar jarðgass og tæknilegt öryggi,
33.    „nýtt grunnvirki“: grunnvirki sem ekki er tilbúið á gildistökudegi þessarar reglugerðar.

II. KAFLI
ALMENNAR REGLUR UM SKIPULAGNINGU ATVINNUGREINARINNAR
3. gr.
Skyldur um opinbera þjónustu og neytendavernd

1.     Aðildarríkjunum ber að tryggja, á grunni skipulags stofnana sinna og með viðeigandi tilliti til dreifræðisreglunnar, að jarðgasfyrirtæki séu rekin í samræmi við meginreglur þessarar tilskipunar, með fyrirvara um 2. mgr., til að koma á samkeppnismarkaði fyrir jarðgas, og að fyrrnefndum fyrirtækjum sé ekki mismunað að því er varðar réttindi eða skyldur.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt, að teknu fullu tilliti til viðeigandi ákvæða sáttmálans, einkum 86. gr., að skylda fyrirtæki sem starfa á sviði jarðgass að sinna opinberri þjónustu, í þágu almennra efnahagslegra hagsmuna, sem getur varðað öryggi, þ.m.t. afhendingaröryggi, reglufesta, gæði og verð afhendingar og umhverfisvernd, þ.m.t. orkunýtni og loftslagsvernd. Slíkar skyldur skulu vera vel skilgreindar, gagnsæjar, án mismununar, sannprófanlegar og tryggja jafnan aðgang gasfyrirtækja í Evrópusambandinu að innlendum neytendum. Í tengslum við afhendingaröryggi, stjórnun með tilliti til orkunýtni/eftirspurnar og að uppfylla umhverfismarkmið, eins og um getur í þessari málsgrein, er aðildarríkjunum heimilt að gera langtímaáætlanir um leið og gert er ráð fyrir að þriðju aðilar kunni að leita eftir aðgangi að kerfinu.
3.     Aðildarríkin skulu grípa til viðeigandi ráðstafana til að vernda kaupendur og til að tryggja öfluga neytendavernd og skulu einkum tryggja að fyrir hendi séu fullnægjandi verndarráðstafanir til að vernda vanmegna viðskiptavini, þ.m.t. viðeigandi ráðstafanir til að hjálpa þeim til að komast hjá aftengingu. Í þessu tilliti er þeim heimilt að grípa til ráðstafana til að vernda viðskiptavini á afskekktum svæðum sem tengdir eru við gaskerfið. Aðildarríkjunum er heimilt að tilnefna skyldubirgi fyrir viðskiptavini sem eru tengdir við gasnetið. Þau skulu tryggja öfluga neytendavernd, einkum með tilliti til gagnsæis, að því er varðar almenna samningsskilmála og skilyrði, almennar upplýsingar og tilhögun á lausn deilumála. Aðildarríkin skulu tryggja að óbundnir viðskiptavinir geti í raun skipt um birgi. A.m.k. að því er varðar viðskiptavini sem kaupa til heimilisnota, skulu þessar ráðstafanir einnig fela í sér þær sem settar eru fram í viðauka A.
4.     Aðildarríkin skulu hrinda viðeigandi ráðstöfunum í framkvæmd til að ná settum markmiðum um félagslega og efnahagslega samheldni, umhverfisvernd, sem geta falið í sér úrræði til að berjast gegn loftlagsbreytingum og um afhendingaröryggi. Slíkar ráðstafanir geta einkum falið í sér efnahagshvata þar sem notuð eru, eftir því sem við á, öll tæki, sem fyrir hendi eru, innlend og í Bandalaginu til viðhalds og smíði á nauðsynlegu netgrunnvirki, þ.m.t. flutningsgeta samtengileiðslna.
5.     Aðildarríkjunum er heimilt að ákveða að beita ekki ákvæðum 4. gr. með tilliti til dreifingar að svo miklu leyti sem beiting þessara ákvæða myndi hindra, að lögum eða í reynd, að jarðgasfyrirtækin gætu sinnt þeim skyldum sem þeim ber í þágu almennra efnahagslegra hagsmuna og svo framarlega sem það kæmi ekki niður á þróun viðskipta þannig að það gengi þvert á hagsmuni Bandalagsins Samkvæmt þessari tilskipun og 86. gr. sáttmálans liggja hagsmunir Bandalagsins m.a. í samkeppni með tilliti til óbundinna viðskiptavina.
6.     Þegar aðildarríkin hrinda þessari tilskipun í framkvæmd skulu þau tilkynna framkvæmdastjórninni um allar ráðstafanir, sem samþykktar eru til að uppfylla skyldur um opinbera þjónustu, þ.m.t. neytenda- og umhverfisvernd og hugsanleg áhrif þeirra á innlenda og alþjóðlega samkeppni hvort sem slíkar ráðstafanir krefjast undanþágu frá þessari tilskipun eða ekki. Þau skulu tilkynna framkvæmdastjórninni á tveggja ára fresti eftir það um allar breytingar á slíkum ráðstöfunum, hvort sem þær krefjast undanþágu frá þessari tilskipun eða ekki.

4. gr.
Málsmeðferð við leyfisveitingu

1.     Ef um það er að ræða að leyfi (t.d. nytjaleyfi, heimild, sérleyfi, samþykki eða viðurkenningu) þurfi til þess að reisa eða starfrækja virki fyrir jarðgas skulu aðildarríkin eða lögbær yfirvöld, sem þau tilnefna, veita leyfi til þess að reisa og/eða starfrækja slík virki, leiðslur og tilheyrandi tækjabúnað á yfirráðasvæði sínu í samræmi við 2. til 4. mgr. Aðildarríkin eða lögbær yfirvöld, sem þau tilnefna, geta einnig veitt heimild, á sama grundvelli, til afhendingar jarðgass og til heildsala.
2.     Styðjist aðildarríkin við fyrirkomulag leyfisveitinga skulu þau mæla fyrir um markmið og viðmiðanir án mismununar sem fyrirtæki, sem sækir um leyfi til þess að reisa og/eða starfrækja jarðgasvirki eða sækir um leyfi til þess að afhenda jarðgas, skal uppfylla. Birta skal opinberlega viðmiðanir án mismununar og aðferðir við leyfisveitingar.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að ástæður fyrir synjun um leyfi séu hlutlægar og án mismununar og að umsækjanda sé tilkynnt um þær. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni um ástæður slíkrar synjunar til upplýsingar. Aðildarríkin skulu samþykkja málsmeðferð sem gerir hlutaðeigandi umsækjanda kleift að áfrýja slíkri synjun.
4.     Aðildarríkjunum er heimilt, með tilliti til þróunar svæða, þangað sem gasi hefur nýlega verið veitt, og skilvirks rekstrar almennt og með fyrirvara um ákvæði 24. gr., að synja um frekari leyfi til þess að reisa og starfrækja dreifikerfi á tilteknu svæði hafi slík dreifikerfi þegar verið reist eða fyrir liggja áætlanir um slíkt á því svæði og að því gefnu að sú aðstaða, sem fyrir er eða er fyrirhuguð, sé ekki fullnýtt.

5. gr.
Eftirlit með afhendingaröryggi

Aðildarríkin skulu tryggja eftirlit með málefnum er varða afhendingaröryggi. Ef aðildarríki telja það rétt geta þau falið eftirlitsyfirvöldunum, sem um getur í 1. mgr. 25. gr., þetta verkefni. Þetta eftirlit skal einkum taka til jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar á innlenda markaðnum, þess hversu mikil væntanleg framtíðareftirspurnin og fyrirliggjandi birgðir eru, fyrirhugaðrar viðbótarframleiðslugetu, sem er verið að skipuleggja eða er í smíðum, og gæða og viðhaldsstigs neta, sem og ráðstafana til að anna eftirspurn á álagstoppum og bregðast við skorti hjá einum eða fleiri birgjum. Lögbær yfirvöld skulu, eigi síðar en 31. júlí á hverju ári, birta skýrslu þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum eftirlits með þessum atriðum, sem og öllum ráðstöfunum sem gripið er til eða fyrirhugaðar eru, til að fjalla um þau og þau skulu senda framkvæmdastjórninni þessa skýrslu þegar í stað.

6. gr.
Tæknilegar reglur

Aðildarríkin skulu tryggja að tæknilegar öryggisviðmiðanir séu skilgreindar og að þróaðar séu og birtar tæknireglur um lágmarkskröfur um tæknihönnun og rekstur vegna tengingar virkja fyrir fljótandi jarðgas, geymsluaðstöðu, annarra flutningsneta eða dreifikerfa og beinna lína við kerfið. Þessar tæknireglur skulu tryggja rekstrarsamhæfi kerfa og vera hlutlægar og án mismununar. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni um þær í samræmi við 8. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 98/34/EB frá 22. júní 1998 sem setur reglur um tilhögun upplýsingaskipta á sviði tæknistaðla og reglugerða sem og reglna um þjónustu í upplýsingasamfélaginu ( 11 ).

III. KAFLI
FLUTNINGUR, GEYMSLA OG FLJÓTANDI JARÐGAS
7. gr.
Tilnefning kerfisstjóra

Aðildarríkin skulu tilnefna eða krefjast þess að jarðgasfyrirtæki, sem eiga flutnings- eða geymsluaðstöðu eða aðstöðu fyrir fljótandi jarðgas, tilnefni, í tiltekinn tíma sem aðildarríkin ákveða, með tilliti til skilvirkni og efnahagslegs jafnvægis, einn eða fleiri kerfisstjóra. Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að kerfisstjórar flutnings- og geymslukerfa og kerfa fyrir fljótandi jarðgas fari að ákvæðum 8. til 10. gr.

8. gr.
Verkefni kerfisstjóra

1.     Allir kerfisstjórar flutningskerfa, geymslukerfa og/eða kerfa fyrir fljótandi jarðgas skulu:
a)    reka, viðhalda og þróa, við skilyrði sem eru hagkvæm í efnahagslegu tilliti, traust, áreiðanleg og skilvirk flutningskerfi, geymsluaðstöðu og/eða aðstöðu fyrir fljótandi jarðgas, þar sem tilhlýðilegt tillit er tekið til umhverfisins,
b)    ekki mismuna kerfisnotendum eða flokkum kerfisnotenda, einkum í því skyni að draga taum fyrirtækja sem eru í eignatengslum við þá,
c)    veita öðrum flutningskerfisstjórum, öðrum kerfisstjórum geymslukerfa, öðrum kerfisstjórum kerfa fyrir fljótandi jarðgas og/eða öðrum dreifikerfisstjórum fullnægjandi upplýsingar til þess að tryggt sé að flutningur geti farið fram og geymsla verið með þeim hætti sem er í samræmi við öruggan og skilvirkan rekstur samtengda kerfisins,
d)    veita kerfisnotendum upplýsingarnar, sem þeir þurfa, til að fá fullnægjandi aðgang að kerfinu.
2.     Reglurnar, sem flutningskerfisstjórar samþykkja til að skapa jafnvægi á gasflutningskerfinu, skulu vera hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar, þ.m.t. reglur um gjaldtöku af kerfisnotendum á netum þeirra vegna ójafnvægis í orkuflutningum. Ákvarða skal og birta skilmála og skilyrði, þ.m.t. reglur og gjaldskrár sem gilda um veitingu flutningskerfisstjóra á slíkri þjónustu, samkvæmt aðferðafræði sem samrýmist 2. mgr. 25. gr. og er án mismununar og kostnaðartengd.
3.     Aðildarríkjunum er heimilt að krefjast þess að flutningskerfisstjórar uppfylli lágmarkskröfur, að því er varðar viðhald og þróun flutningskerfisins, þ.m.t. flutningsgeta samtengileiðslna.
4.     Flutningskerfisstjórar skulu útvega orkuna, sem þeir nota til að gegna hlutverki sínu, í samræmi við aðferðir sem eru gagnsæjar, án mismununar og markaðstengdar.

9. gr.
Sundurgreining flutningskerfisstjóra

1.     Ef flutningskerfisstjóri er hluti af lóðrétt samþættu fyrirtæki skal hann vera óháður annarri starfsemi, sem tengist ekki flutningskerfinu, a.m.k. að því er varðar lögákveðið rekstrarform, skipulag og ákvarðanatöku. Þessar reglur skulu ekki skapa skyldu um að aðskilja eignarhald eigna flutningskerfisins frá lóðrétt samþætta fyrirtækinu.
2.     Til að tryggja sjálfstæði flutningskerfisstjórans, sem um getur í 1. mgr., skulu eftirfarandi lágmarksviðmiðanir gilda:
a)    einstaklingum, sem bera ábyrgð á stjórnun flutningskerfisstjóra, er ekki heimilt að tilheyra fyrirtækjaskipulagi samþætta jarðgasfyrirtækisins sem ber, beint eða óbeint, ábyrgð á daglegum rekstri vegna framleiðslu, dreifingar og afhendingar jarðgass.
b)    grípa skal til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að tekið sé tillit til faglegra hagsmuna þeirra einstaklinga, sem bera ábyrgð á stjórnun flutningskerfisstjórans, með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti starfað sjálfstætt,
c)    flutningskerfisstjórinn skal hafa virkan ákvörðunarrétt, óháðan samþætta gasfyrirtækinu, með tilliti til eigna sem nauðsynlegar eru, til að reka, viðhalda eða þróa netið. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að til staðar séu viðeigandi samræmingaraðferðir til að tryggja að staðinn sé vörður um rétt móðurfélagsins til að hafa efnahagslega og stjórnunarlega yfirumsjón, með tilliti til tekna af eignum, í dótturfyrirtækjum, sem óbeint er haft eftirlit með í samræmi við 2. mgr. 25. gr. Þetta skal einkum gera móðurfélaginu kleift að samþykkja árlega fjárhagsáætlun, eða annan sambærilegan gerning, flutningskerfisstjóra, og að setja heildartakmarkanir á því hversu skuldsett dótturfyrirtæki þess sé. Það skal hvorki veita móðurfélaginu heimild til að gefa fyrirmæli um daglegan rekstur né að taka einstakar ákvarðanir varðandi lagningu eða endurnýjun flutningsleiðslna, sem fara ekki fram úr árlegu fjárhagsáætluninni, eða öðrum sambærilegum gerningi.
d)    flutningskerfisstjóri skal koma á eftirlitsáætlun, þar sem settar eru fram ráðstafanir sem gripið er til, til að tryggja að mismunun sé útilokuð og að fylgst sé með viðunandi hætti með því að henni sé fylgt. Í áætluninni skulu settar fram sérstakar skyldur starfsmanna til að uppfylla þetta markmið. Einstaklingurinn eða aðilinn, sem ber ábyrgð á að fylgjast með eftirlitsáætluninni, skal senda eftirlitsyfirvaldinu, sem um getur í 1. mgr. 25. gr., ársskýrslu, þar sem settar eru fram ráðstafanirnar sem gripið er til, og birta hana.

10. gr.
Þagnarskylda flutningskerfisstjóra

1.     Kerfisstjóri flutningskerfis, geymslukerfis og/eða kerfis fyrir fljótandi jarðgas skal, með fyrirvara um ákvæði 16. gr. eða aðra lagaskyldu þess efnis að afhenda upplýsingar, gæta trúnaðar um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem hann aflar sér með starfsemi sinni og skal koma í veg fyrir að upplýsingar varðandi eigin starfsemi, sem geta falið í sér viðskiptalegan ávinning, séu birtar á þann hátt að það feli í sér mismunun.
2.     Flutningskerfisstjórar, skulu ekki, í tengslum við sölu eða kaup tengdra fyrirtækja á jarðgasi, misnota viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem þau fá frá þriðju aðilum í tengslum við það að veita eða semja um aðgang að kerfinu.

IV. KAFLI
DREIFING OG AFHENDING
11. gr.
Tilnefning dreifikerfisstjóra

Aðildarríkin skulu tilnefna eða skulu krefjast þess að fyrirtæki, sem eiga eða bera ábyrgð á dreifikerfum, tilnefni, í tiltekinn tíma sem aðildarríkin ákveða með tilliti til skilvirkni og efnahagslegs jafnvægis, einn eða fleiri dreifikerfisstjóra og skulu tryggja að þeir kerfisstjórar starfi í samræmi við 12. til 14. gr.

12. gr.
Verkefni dreifikerfisstjóra

1.     Allir dreifikerfisstjórar skulu starfrækja, viðhalda og þróa, við skilyrði sem eru hagkvæm í efnahagslegu tilliti, traust, áreiðanlegt og skilvirkt kerfi þar sem tilhlýðilegt tillit er tekið til umhverfisins.
2.     Dreifikerfisstjóri skal þó aldrei mismuna kerfisnotendum eða flokkum kerfisnotenda, einkum í því skyni að draga taum fyrirtækja sem eru í eignatengslum við hann.
3.     Dreifikerfisstjórar skulu veita öðrum kerfisstjórum dreifikerfa og/eða flutningskerfa og/eða kerfisstjórum kerfa fyrir fljótandi jarðgas og/eða kerfisstjórum geymslukerfa fullnægjandi upplýsingar til þess að tryggt sé að flutningur og geymsla jarðgass geti farið fram með þeim hætti sem er í samræmi við öruggan og skilvirkan rekstur samtengda kerfisins.
4.     Dreifikerfisstjórar skulu veita kerfisnotendum upplýsingarnar sem þeir þurfa til að fá fullnægjandi aðgang að kerfinu.
5.     Ef dreifikerfisstjórar bera ábyrgð á að skapa jafnvægi á gasdreifikerfinu skulu reglur, sem þeir samþykkja, vera hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar, þ.m.t. reglur um gjaldtöku af kerfisnotendum vegna ójafnvægis í orkuflutningum. Ákvarða skal og birta skilmála og skilyrði, þ.m.t. reglur og gjaldskrár, sem gilda um veitingu kerfisstjóra á slíkri þjónustu, samkvæmt aðferðafræði sem samrýmist 2. mgr. 25. gr. og er án mismununar og kostnaðartengd .

13. gr.
Sundurgreining dreifikerfisstjóra

1.     Ef dreifikerfisstjóri er hluti af lóðrétt samþættu fyrirtæki skal hann vera óháður annarri starfsemi, sem tengist ekki dreifikerfinu, a.m.k. að því er varðar lögákveðið rekstrarform, skipulag og ákvarðanatöku. Þessar reglur skulu ekki skapa skyldu um að aðskilja eignarhald á eignum dreifikerfisins frá lóðrétt samþætta fyrirtækinu.
2.     Auk krafnanna í 1. mgr. skal dreifikerfisstjóri ef hann er hluti af lóðrétt samþættu fyrirtæki vera óháður annarri starfsemi, sem tengist ekki dreifikerfinu, að því er varðar skipulag og ákvarðanatöku. Til að ná þessu fram skulu eftirfarandi lágmarksviðmiðanir gilda:
a)    einstaklingum, sem bera ábyrgð á stjórnun dreifikerfisstjóra, er ekki heimilt að tilheyra fyrirtækjaskipulagi samþætta jarðgasfyrirtækisins sem ber, beint eða óbeint, ábyrgð á daglegum rekstri vegna framleiðslu, flutnings og afhendingar jarðgass,
b)    grípa skal til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að tekið sé tillit til faglegra hagsmuna þeirra einstaklinga, sem bera ábyrgð á stjórnun dreifikerfisstjóra, með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti starfað sjálfstætt,
c)    dreifikerfisstjóri skal hafa virkan ákvörðunarrétt, óháðan samþætta gasfyrirtækinu, með tilliti til eigna sem nauðsynlegar eru til að reka, viðhalda eða þróa netið. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að til staðar séu viðeigandi samræmingaraðferðir til að tryggja að staðinn sé vörður um rétt móðurfélagsins til að hafa efnahagslega og stjórnunarlega yfirumsjón, með tilliti til tekna af eigna, í dótturfyrirtækjum, sem óbeint er haft eftirlit með í samræmi við 2. mgr. 25. gr. Þetta skal einkum gera móðurfélaginu kleift að samþykkja árlega fjárhagsáætlun, eða annan sambærilegan gerning, dreifikerfisstjóra og að setja heildartakmarkanir varðandi það hversu skuldsett dótturfyrirtæki þess sé. Það skal hvorki veita móðurfélaginu heimild til að gefa fyrirmæli um daglegan rekstur, né að taka einstakar ákvarðanir varðandi lagningu eða endurnýjun dreifileiðslna, sem fara ekki fram úr árlegu fjárhagsáætluninni, eða öðrum sambærilegum gerningi,
d)    dreifikerfisstjóri skal koma á eftirlitsáætlun, þar sem settar eru fram ráðstafanir sem gripið er til, til að tryggja mismunun sé útilokuð og að fylgst sé með viðunandi hætti með því að henni sé fylgt. Í áætluninni skulu settar fram sérstakar skyldur starfsmanna til að uppfylla þetta markmið. Einstaklingurinn eða aðilinn, sem ber ábyrgð á að fylgjast með eftirlitsáætluninni, skal senda eftirlitsyfirvaldinu, sem um getur í 1. mgr. 25. gr., ársskýrslu, þar sem settar eru fram ráðstafanirnar sem gripið er til, og birta hana.
Aðildarríkjunum er heimilt að ákveða að beita ekki 1. og 2. mgr. gagnvart samþættu jarðgasfyrirtækjum sem þjóna færri en 100 000 tengdum viðskiptavinum.

14. gr.
Þagnarskylda dreifikerfisstjóra

1.     Sérhver dreifikerfisstjóri skal, með fyrirvara um ákvæði 16. gr. eða aðra lagaskyldu þess efnis að afhenda upplýsingar, gæta trúnaðar um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem hann aflar sér með starfsemi sinni.
2.     Dreifikerfisstjórar skulu ekki, í tengslum við sölu eða kaup tengdra fyrirtækja á jarðgasi, misnota viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, sem þeir fá frá þriðju aðilum, í tengslum við það að veita eða semja um aðgang að kerfinu.

15. gr.
Kerfisstjóri samsetts kerfis

Reglurnar í 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 13. gr. skulu ekki koma í veg fyrir að einn kerfisstjóri reki samsett kerfi fyrir flutning, fljótandi jarðgas, geymslu- og dreifingu, sem eru óháð annarri starfsemi sem ekki tengist rekstri flutningskerfis, kerfis fyrir fljótandi jarðgas, geymslukerfis og dreifikerfis, að því er varðar lögákveðið rekstrarform, skipulag og ákvarðanatöku og sem uppfyllir kröfurnar sem eru settar fram í a- til d-lið. Þessar reglur skulu ekki skapa skyldu um að aðskilja eignarhald á eignum samsetta kerfisins frá lóðrétt samþætta fyrirtækinu.
a)    einstaklingum sem bera ábyrgð á stjórnun kerfisstjóra samsetta kerfisins er ekki heimilt að tilheyra fyrirtækjaskipulagi samþætta jarðgasfyrirtækisins sem ber, beint eða óbeint, ábyrgð á daglegum rekstri vegna framleiðslu og afhendingar jarðgass,
b)    grípa skal til viðeigandi ráðstafana til að tryggja að tekið sé tillit til faglegra hagsmuna einstaklinga, sem bera ábyrgð á stjórnun kerfisstjóra samsetta kerfisins, með þeim hætti að tryggt sé að þeir geti starfað sjálfstætt,
c)    kerfisstjóri samsetta kerfisins skal hafa virkan ákvörðunarrétt, óháðan samþætta gasfyrirtækinu, með tilliti til eigna sem nauðsynlegar eru til að reka, viðhalda eða þróa netið. Þetta skal ekki koma í veg fyrir að til staðar séu viðeigandi samræmingaraðferðir til að tryggja að staðinn sé vörður um rétt móðurfélagsins til að hafa efnahagslega og stjórnunarlega yfirumsjón með tilliti til tekna af eignum, í dótturfyrirtækjum, sem óbeint er haft eftirlit með í samræmi við 2. mgr. 25. gr. Þetta skal einkum gera móðurfélaginu kleift að samþykkja árlega fjárhagsáætlun, eða annan sambærilegan gerning, kerfisstjóra samsetts kerfis og að setja heildartakmarkanir á því hversu skuldsett dótturfyrirtæki þess sé. Það skal hvorki veita móðurfélaginu heimild til að gefa fyrirmæli um daglegan rekstur né að taka einstakar ákvarðanir varðandi lagningu eða endurnýjun flutnings- og dreifileiðslna, sem fara ekki fram úr árlegu fjárhagsáætluninni, eða öðrum sambærilegum gerningi,
d)    kerfisstjóri samsetts kerfis skal koma á eftirlitsáætlun, þar sem settar eru fram ráðstafanir sem gripið er til, til að tryggja að mismunun sé útilokuð og að fylgst sé með viðunandi hætti með því að henni sé fylgt. Í áætluninni skulu settar fram sérstakar skyldur starfsmanna til að uppfylla þetta markmið. Einstaklingurinn eða aðilinn, sem ber ábyrgð á að fylgjast með eftirlitsáætluninni, skal senda eftirlitsyfirvaldinu, sem um getur í 1. mgr. 25. gr., ársskýrslu, þar sem settar eru fram ráðstafanirnar sem gripið er til, og birta hana.

V. KAFLI
SUNDURGREINING OG GAGNSÆI REIKNINGA
16. gr.
Réttur til aðgangs að reikningum

1.     Aðildarríkin eða hvert það lögbæra yfirvald, sem þau tilnefna, auk eftirlitsyfirvaldanna, sem um getur í 1. mgr. 25. gr. og yfirvaldanna, sem sjá um lausn deilumála og um getur í 3. mgr. 20. gr., skulu, að því marki sem nauðsynlegt er til að starfrækja hlutverk þeirra, hafa aðgang að reikningum gasfyrirtækja, eins og segir í 17. gr.
2.     Aðildarríkin og öll lögbær yfirvöld, sem þau tilnefna, auk eftirlitsyfirvaldanna, sem um getur í 1. mgr. 25. gr., og yfirvaldanna, sem sjá um lausn deilumála, skulu gæta trúnaðar um viðkvæmar viðskiptaupplýsingar. Aðildarríkjunum er heimilt að kveða á um birtingu slíkra upplýsinga ef slíkt er nauðsynlegt til þess að gera lögbærum yfirvöldum kleift að sinna störfum sínum.

17. gr.
Sundurgreining reikninga

1.     Aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að reikningar jarðgasfyrirtækja séu haldnir í samræmi við 2. til 5. mgr.
Ef fyrirtæki nýta sér undanþágu frá þessum ákvæðum á grundvelli 2. og 4. mgr. 28. gr. skulu þau halda innra bókhald sitt í samræmi við þessa grein.
2.     Jarðgasfyrirtæki, hvernig sem eignarhaldi þeirra og rekstrarformi að lögum er háttað, skulu ganga frá ársreikningum sínum og leggja þá fram til endurskoðunar og birta í samræmi við ákvæði landslaga um ársreikninga félaga með takmarkaða ábyrgð sem samþykkt eru á grundvelli tilskipunar ráðsins 78/ 660/EB frá 25. júlí 1978 sem byggist á g-lið 2. mgr. 44. gr. ( * ) sáttmálans um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 12 ). Fyrirtæki, sem er ekki skylt samkvæmt lögum að birta ársreikninga sína, skulu hafa afrit þeirra aðgengileg almenningi á aðalskrifstofu sinni.
3.     Jarðgasfyrirtæki skulu halda í innra bókhaldi sínu aðskilda reikninga fyrir starfsemi sína, sem tengist flutningi, dreifingu, fljótandi jarðgasi og geymslu, eins og krafist væri af þeim ef aðskilin fyrirtæki sæju um fyrrnefnda starfsemi, í þeim tilgangi að forðast mismunun, víxlniðurgreiðslur og röskun á samkeppni. Þau skulu einnig halda reikninga sem hægt er að steypa saman fyrir aðra gasstarfsemi sem tengist ekki flutningi, dreifingu, fljótandi jarðgasi og geymslu. Til 1. júlí 2007 skulu þau halda aðskilda reikninga vegna afhendingarstarfsemi að því er varðar óbundna viðskiptavini og afhendingarstarfsemi að því er varðar viðskiptavini sem eru bundnir Tekjur vegna eignarhalds á flutnings-/dreifineti skulu tilgreindar í reikningunum. Þau skulu halda samsteypta reikninga, eftir því sem við á, fyrir aðra starfsemi sem ekki tengist gasi. Innra bókhaldinu skal fylgja efnahagsreikningur og rekstrarreikningur fyrir hverja tegund starfsemi.
4.     Með úttektinni, sem um getur í 2. mgr., skal einkum ganga úr skugga um að skyldan um að forðast mismunun og víxlniðurgreiðslur, sem um getur í 3. mgr., sé virt.
5.     Fyrirtæki skulu tilgreina, í innra bókhaldi sínu, þær reglur um skiptingu eigna og skulda, útgjalda og tekna og um afskriftir, með fyrirvara um innlendar bókhaldsreglur, sem farið er eftir við gerð aðskildu reikninganna sem um getur í 3. mgr. Þessum reglum má aðeins breyta í undantekningartilvikum. Geta skal um slíkar breytingar og rökstyðja á tilhlýðilegan hátt.
6.     Í athugasemdum við ársreikningana skal getið um öll umfangsmikil viðskipti við tengd fyrirtæki.

VI. KAFLI
SKIPULAG AÐGANGS AÐ KERFINU
18. gr.
Aðgangur þriðju aðila

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að kerfi sem komið er á fyrir aðgang þriðju aðila að flutnings- og dreifikerfum og virkjum fyrir fljótandi jarðgas, sem byggist á birtum gjaldskrám, gildi um alla óbundna viðskiptavini og því sé beitt hlutlægt og án þess að kerfisnotendum sé mismunað.
Aðildarríkin skulu tryggja að eftirlitsyfirvaldið, sem um getur í 1. mgr. 25. gr., samþykki þessar gjaldskrár eða aðferðafræðina, sem liggur að baki útreikningum þeirra, áður en þær taka gildi og að þessar gjaldskrár – og aðferðafræðin ef einungis aðferðafræðin er samþykkt – séu birtar áður en þær taka gildi.
2.     Kerfisstjórar flutningskerfa skulu, ef það er nauðsynlegt til að þeir geti sinnt hlutverki sínu, þ.m.t. í tengslum við flutning yfir landamæri, hafa aðgang að neti annarra flutningskerfisstjóra.
3.     Ákvæði þessarar tilskipunar skulu ekki koma í veg fyrir að gerðir séu langtímasamningar svo fremi sem þeir uppfylli samkeppnisreglur Bandalagsins.

19. gr.
Aðgangur að geymslum

1.     Þegar skipuleggja á aðgang að geymsluaðstöðu og leiðslurými (linepack), ef það er tæknilega og/eða efnahagslega nauðsynlegt, til að veita fullnægjandi aðgang að kerfinu til að afhenda til viðskiptavina, sem og vegna skipulagningar á aðgangi að stoðþjónustu, geta aðildarríkin valið milli málsmeðferðanna, sem um getur í 3. og 4. mgr., eða valið þær báðar. Þessar málsmeðferðir skulu vera í samræmi við viðmiðanir sem eru hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu ekki gilda um stoðþjónustu og bráðabirgðageymslu í tengslum við aðstöðu fyrir fljótandi jarðgas sem er nauðsynleg fyrir endurgösunarferli og síðari afhendingu í flutningskerfið.
3.     Þegar samið er um aðgang skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að jarðgasfyrirtæki og óbundnir viðskiptavinir, hvort sem er innan eða utan svæðisins sem samtengda kerfið þjónar, geti samið um aðgang að geymsluaðstöðu og leiðslurými, þegar það er tæknilega og/eða efnahagslega nauðsynlegt, til að veita fullnægjandi aðgang að kerfinu sem og að skipuleggja aðgang að annarri stoðþjónustu. Aðilum ber að semja um aðgang að geymsluaðstöðu, leiðslurými og annarri stoðþjónustu í góðri trú.
Gera skal samninga um aðgang að geymsluaðstöðu, leiðslurými og annarri stoðþjónustu við hlutaðeigandi kerfisstjóra geymslukerfis eða jarðgasfyrirtæki. Aðildarríkin skulu skylda kerfisstjóra geymslukerfa og jarðgasfyrirtæki til þess að birta helstu viðskiptakjör, sem þau bjóða vegna notkunar á geymsluaðstöðu, leiðslurými og annarri stoðþjónustu, fyrstu sex mánuðina eftir að þessi tilskipun kemur til framkvæmda og einu sinni á ári eftir það.
4.     Þegar um stýrðan aðgang er að ræða skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að veita jarðgasfyrirtækjum og óbundnum viðskiptavinum, hvort sem er innan eða utan svæðisins sem samtengda kerfið þjónar, aðgangsrétt að geymsluaðstöðu, leiðslurými og annarri stoðþjónustu á grundvelli útgefinna gjaldskráa og/eða annarra skilmála og skuldbindinga, sem tengjast notkun þessarar geymsluaðstöðu og leiðslurými, þegar það er tæknilega og/eða efnahagslega nauðsynlegt til að veita fullnægjandi aðgang að kerfinu sem og að skipuleggja aðgang að annarri stoðþjónustu. Unnt er að veita óbundnum viðskiptavinum fyrrnefndan aðgangsrétt með því að gera þeim kleift að gera vörukaupasamninga við önnur jarðgasfyrirtæki, sem eru í samkeppni, önnur en eiganda og/eða kerfisstjóra kerfisins eða tengt fyrirtæki.

20. gr.
Aðgangur að leiðslukerfum fyrir óunnið jarðgas

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að jarðgasfyrirtæki og óbundnir viðskiptavinir geti, óháð staðsetningu, fengið aðgang að leiðslukerfum fyrir óunnið jarðgas, m.a. að virkjum, sem veita tækniþjónustu sem fylgt getur slíkum aðgangi í samræmi við þessa grein, að undanskildum þeim hlutum slíkra kerfa og virkja sem eru notaðir við staðbundna framleiðslu á því svæði þar sem gasið er framleitt. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni um þessar ráðstafanir í samræmi við ákvæði 33. gr.
2.     Veita ber aðganginn, sem um getur í 1. mgr., með þeim hætti sem aðildarríkin ákveða í samræmi við viðeigandi löggerninga. Aðildarríkin skulu hafa það að markmiði að aðgangur sé með sanngjörnum hætti og frjáls, að til verði samkeppnismarkaður fyrir jarðgas og sneitt sé hjá misnotkun yfirburðastöðu, að teknu tilliti til þess að afhending sé örugg og fari reglulega fram, til flutningsgetu, sem er fyrir hendi eða telja má raunhæft að ná, svo og til umhverfisverndar. Taka má tillit til eftirfarandi:
a)    að nauðsynlegt er að synja um aðgang ef tækniforskriftir eru ósamrýmanlegar og erfitt um vik að bæta úr því,
b)    að nauðsynlegt er að sneiða hjá erfiðleikum, sem ekki er unnt að yfirstíga með eðlilegum hætti og sem kynnu að skaða skilvirka, yfirstandandi framleiðslu og fyrirhugaða framleiðslu vetniskolefna í framtíðinni, m.a. frá vinnslusvæðum sem eru á mörkum þess að vera lífvænleg.
c)    að nauðsynlegt er að taka tillit til rökstuddra og eðlilegra þarfa eiganda eða kerfisstjóra viðkomandi leiðslukerfis fyrir óunnið jarðgas fyrir flutning og vinnslu gass og hagsmuna allra annarra notenda leiðslukerfisins fyrir óunnið jarðgas eða viðkomandi virkja, þar sem vinnsla og meðhöndlun fer fram og sem kunna að verða fyrir áhrifum og
d)    að nauðsynlegt er að þau beiti lögum sínum og viðhafi stjórnsýslumeðferð í samræmi við lög Bandalagsins þegar veita á leyfi til framleiðslu eða þróunar í tengslum við óunnið jarðgas.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að til sé fyrirkomulag til lausnar deilumálum, m.a. yfirvald, sem er óháð málsaðilum og hefur aðgang að öllum viðkomandi upplýsingum, til þess að unnt sé að leysa deilumál, sem tengjast aðgangi að leiðslukerfum fyrir óunnið jarðgas, með fljótvirkum hætti, að teknu tilliti til þeirra viðmiðana, sem um getur í 2. mgr., og fjölda þeirra aðila sem kunna að vera þátttakendur í samningum um aðgang að slíkum leiðslukerfum.
4.     Nái deilumál yfir landamæri skal styðjast við það fyrirkomulag til lausnar deilumálum sem gildir í því aðildarríki sem hefur lögsögu yfir leiðslukerfinu fyrir óunnið jarðgas sem synjað er um aðgang að. Ef viðkomandi leiðslukerfi fellur undir fleiri en eitt aðildarríki í deilumáli, sem nær yfir landamæri, skulu hlutaðeigandi aðildarríki eiga samráð sín á milli til þess að samræmi sé tryggt þegar ákvæðum þessarar tilskipunar er beitt.

21. gr.
Synjað um aðgang

1.     Jarðgasfyrirtækjunum er heimilt að synja um aðgang að kerfinu sé nauðsynleg flutningsgeta ekki fyrir hendi eða ef aðgangur að kerfinu myndi koma í veg fyrir að þau geti sinnt þeirri opinberu þjónustu, sem um getur í 2. mgr. 3. gr. og þeim er ætlað, eða sakir mikilla efnahagslegra og fjárhagslegra erfiðleika vegna samninga, þar sem kaupandi skuldbindur sig til að greiða tiltekna fjárhæð jafnvel þótt varan sé ekki afhent, með hliðsjón af þeim viðmiðunum og því verklagi, sem eru sett fram í 27. gr., og þeim kosti sem aðildarríkið velur í samræmi við 1. mgr. þeirrar greinar. Gefa þarf rökstuddar ástæður fyrir slíkri synjun.
2.     Aðildarríkin geta gert nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að jarðgasfyrirtæki, sem synjar um aðgang að kerfinu sakir þess að nauðsynleg flutningsgeta eða tenging er ekki fyrir hendi, skuli gera nauðsynlegar úrbætur að því marki sem það er arðsamt eða þegar hugsanlegur viðskiptavinur er reiðubúinn til þess að greiða fyrir þær. Beiti aðildarríkin ákvæðum 4. mgr. 4. gr. skulu þau gera fyrrnefndar ráðstafanir.

22. gr.
Ný grunnvirki

1.     Heimilt er að undanþiggja stór, ný gasvirki, t.d. samtengla milli aðildarríkja, aðstöðu fyrir fljótandi jarðgas og geymsluaðstöðu, frá ákvæðum 18., 19. og 20. gr. og 2., 3. og 4. mgr. 25. gr. með eftirfarandi skilyrðum:
a)    fjárfestingin verður að auka samkeppni á sviði gasframboðs og auka öryggi gasframboðs,
b)    áhættan í tengslum við fjárfestinguna sé slík að fjárfestingin ætti sér ekki stað nema undanþága hafi verið veitt,
c)    grunnvirkið skal vera í eigu einstaklings eða lögaðila sem er, a.m.k. hvað varðar rekstrarform að lögum, aðskilinn frá kerfisstjórum kerfisins sem byggja á grunnvirkið inn í,
d)    gjöld séu innheimt af notendum þessa grunnvirkis,
e)    undanþágan sé ekki skaðleg fyrir samkeppni eða skilvirka starfsemi innri markaðarins með gas eða skilvirka starfsemi stýrða kerfisins sem grunnvirkið er tengt við.
2.     Ákvæði 1. mgr. skulu einnig gilda um verulega aukningu á flutningsgetu grunnvirkja, sem fyrir eru, og um breytingar á slíkum grunnvirkjum sem gera kleift að þróa nýjar leiðir til að afhenda gas.
3.    a)    Eftirlitsyfirvaldinu, sem um getur í 25. gr., er heimilt, í hverju tilviki fyrir sig, að taka ákvörðun varðandi undanþáguna sem um getur í 1. og 2. mgr. Aðildarríkjunum er hins vegar heimilt að kveða á um að eftirlitsyfirvöldin skuli leggja álit sitt á beiðninni um undanþágu fyrir viðkomandi aðila í aðildarríkinu til formlegrar ákvarðanatöku. Þetta álit skal birt ásamt ákvörðuninni.
    b)    i)    Undanþágan getur tekið til alls eða hluta nýja grunnvirkisins, grunnvirkisins, sem fyrir er, með verulega aukna flutningsgetu eða breytinganna á grunnvirkinu sem fyrir er.
        ii)    Þegar ákveðið er að veita undanþágu skal taka tillit til, í hverju tilviki fyrir sig, nauðsynjar þess að setja skilyrði varðandi tímalengd undanþágunnar og aðgangs án mismununar að samtenglinum.
        iii)    Þegar skilyrðin í þessari undirgrein eru ákveðin skal einkum taka tillit til gildistíma samninga, viðbótarflutningsgetunnar, sem á eftir að búa til, eða breytinga á flutningsgetunni, sem fyrir er, tímaramma verkefnisins og innlendra aðstæðna.
    c)    Þegar undanþága er veitt er viðkomandi yfirvaldi heimilt að ákveða reglur og aðferðir við stjórnun og úthlutun flutningsgetu svo fremi að það komi ekki í veg fyrir framkvæmd langtímasamninga.
    d)    Ákvörðunin um undanþágu, þ.m.t. öll skilyrði sem um getur í b-lið, skal rökstudd og birt á viðeigandi hátt.
    e)    Ef um er að ræða samtengil skulu allar ákvarðanir um undanþágu teknar að höfðu samráði við önnur aðildarríki eða hlutaðeigandi eftirlitsyfirvöld.
4.     Lögbært yfirvald skal tilkynna framkvæmdastjórninni án tafar um ákvörðun um undanþágu, ásamt öllum viðeigandi upplýsingum með tilliti til ákvörðunarinnar. Heimilt er að senda framkvæmdastjórninni fyrrnefndar upplýsingar í samanteknu formi til þess að gera henni kleift að komast að vel rökstuddri niðurstöðu.
Upplýsingarnar skulu einkum innihalda:
a)    nákvæmar ástæður sem eftirlitsyfirvald eða aðildarríki hafði til grundvallar til að veita undanþágu, þ.m.t. fjárhagslegar upplýsingar sem réttlæta nauðsyn undanþágunnar,
b)    greininguna sem fer fram á áhrifunum sem veiting undanþágunnar hefur á samkeppni og skilvirka starfsemi innri markaðarins með gas,
c)    ástæður fyrir því tímabili og þeim hluta af heildarflutningsgetu gasgrunnvirkisins, sem um ræðir, sem undanþágan er veitt fyrir,
d)    niðurstöður samráðs við hlutaðeigandi aðildarríki eða eftirlitsyfirvöld, ef undanþágan tengist samtengli,
e)    framlag grunnvirkisins til fjölbreytileika á gasframboði.
Framkvæmdastjórnin getur, innan tveggja mánaða frá því að henni berst tilkynning, óskað eftir því að hlutaðeigandi eftirlitsyfirvald eða aðildarríki breyti eða dragi til baka þá ákvörðun að veita undanþágu. Heimilt er að framlengja tveggja mánaða tímabilið um einn mánuð til viðbótar ef framkvæmdastjórnin óskar eftir viðbótarupplýsingum.
Ef eftirlitsyfirvaldið eða hlutaðeigandi aðildarríki fer ekki að fyrrnefndum tilmælum innan fjögurra vikna skal tekin lokaákvörðun í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 30. gr.
Framkvæmdastjórnin skal fara með viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem trúnaðarmál.

23. gr.
Markaðsopnun og gagnkvæmni

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að óbundnir viðskiptavinir séu:
a)    til 1. júlí 2004, óbundnir viðskiptavinir eins og tilgreint er í 18. gr. í tilskipun 98/30/EB. Aðildarríki skulu, eigi síðar en 31. janúar ár hvert, birta viðmiðanirnar fyrir skilgreiningu á þessum óbundnu viðskiptavinum,
b)    frá 1. júlí 2004 í síðasta lagi, allir viðskiptavinir sem kaupa ekki til heimilisnota,
c)    frá 1. júlí 2007, allir viðskiptavinir.
2.     Til að forðast ójafnvægi við opnun gasmarkaða:
a)    má ekki banna afhendingarsamninga við óbundna viðskiptavini í kerfi annars aðildarríkis ef viðskiptavinurinn telst óbundinn viðskiptavinur í báðum kerfunum,
b)    er framkvæmdastjórninni heimilt, í tilvikum þar sem viðskiptunum, sem lýst er í a-lið, er synjað af því að viðskiptavinurinn er aðeins óbundinn viðskiptavinur í öðru kerfinu, og, að teknu tilliti til ástandsins á markaðinum og sameiginlegra hagsmuna, að skylda þann aðila, sem synjar um viðskiptin, til að sjá um afhendinguna, sem farið var fram á, að beiðni annars aðildarríkisins þar sem kerfið er staðsett.

24. gr.
Beinar leiðslur

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja:
a)    að jarðgasfyrirtæki, sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði þeirra, geti veitt óbundnum viðskiptavinum þjónustu um beina leiðslu,
b)    að allir óbundnir viðskiptavinir á yfirráðasvæði þeirra fái þjónustu frá jarðgasfyrirtækjum um beina leiðslu.
2.     Ef um það er að ræða að leyfi (t.d. nytjaleyfi, heimild, sérleyfi, samþykki eða viðurkenningu) þurfi til þess að leggja eða starfrækja beinar leiðslur skulu aðildarríkin, eða lögbær yfirvöld, sem þau tilnefna, ákvarða viðmiðanir, sem gilda um veitingu leyfa, til þess að leggja eða starfrækja slíkar leiðslur á yfirráðasvæði þeirra. Þessar viðmiðanir skulu vera hlutlægar, gagnsæjar og án mismununar.
3.     Aðildarríkjunum er heimilt að binda leyfi til að leggja beina leiðslu því skilyrði að annaðhvort hafi verið synjað um aðgang að kerfi á grundvelli 21. gr. eða að hafin sé málsmeðferð til lausnar deilumáli í samræmi við 25. gr.

25. gr.
Eftirlitsyfirvöld

1.     Aðildarríkin skulu tilnefna einn eða fleiri þar til bæra aðila sem gegna hlutverki eftirlitsyfirvalda. Þessi yfirvöld skulu vera fullkomlega óháð hagsmunum gasiðnaðarins. Með beitingu þessarar greinar skulu þau a.m.k. bera ábyrgð á að tryggja jafnræði, virka samkeppni og skilvirka starfsemi markaðarins og einkum fylgjast með:
a)    reglum um stjórnun og úthlutun flutningsgetu samtengileiðslna, í samvinnu við eftirlitsyfirvald eða -völd þeirra aðildarríkja þar sem samtenging er fyrir hendi,
b)    öllum aðferðum til að bregðast við skertri flutningsgetu vegna kerfisangar í innlenda gaskerfinu,
c)    tímanum sem það tekur flutnings- og dreifikerfisstjóra að koma á tengingum og gera við,
d)    birtingu flutnings- og dreifikerfisstjóra á viðeigandi upplýsingum varðandi samtengla, notkun dreifikerfis og úthlutun flutningsgetu til hagsmunaaðila að teknu tilliti til nauðsynjar þess að fara þannig með upplýsingar, sem ekki er safnað saman, eins og viðskiptaleynd gilti um þær,
e)    skilvirkri sundurgreiningu reikninga, eins og um getur í 17. gr., til að tryggja að engar víxlniðurgreiðslur séu milli flutnings-, dreifingar- og geymslustarfsemi, starfsemi í tengslum við fljótandi jarðgas og afhendingarstarfsemi,
f)    aðgangsskilyrðunum fyrir geymslu, leiðslurými og annarri stoðþjónustu, eins og kveðið er á um í 19. gr.,
g)    að hvaða marki flutnings- og dreifikerfisstjórar uppfylla hlutverk sín í samræmi við 8. og 12. gr.,
h)    að hve miklu leyti gagnsæi og samkeppni ríkir.
Yfirvöldin, sem komið var á fót samkvæmt þessari grein, skulu birta ársskýrslu um niðurstöður eftirlitsaðgerða þeirra sem um getur í a- til h-lið.
2.     Eftirlitsyfirvöldin skulu bera ábyrgð á að ákveða eða samþykkja, a.m.k. aðferðafræðina, sem notuð er til að reikna út eða setja skilmála og skilyrði fyrir eftirfarandi, áður en þau taka gildi:
a)    tengingu og aðgangi að innlendum netum, þ.m.t. gjaldskrár fyrir flutning og dreifingu. Þessar gjaldskrár eða aðferðafræði skulu gera kleift að nauðsynleg fjárfesting í netum geti átt sér stað með þeim hætti að þessar fjárfestingar tryggi virkni netsins,
b)    veitingu þjónustu í tengslum við jöfnun.
3.     Þrátt fyrir 2. mgr. er aðildarríkjunum heimilt að kveða á um að eftirlitsyfirvöldin skuli leggja fyrir viðkomandi aðila í aðildarríkinu gjaldskrárnar eða a.m.k. aðferðafræðina, sem um getur í þeirri grein, sem og breytingarnar, sem um getur í 4. mgr., til formlegrar ákvarðanatöku. Viðkomandi aðili skal, í slíku tilviki annaðhvort hafa vald til að samþykkja eða hafna drögum að ákvörðun sem eftirlitsyfirvaldið leggur fyrir.
Þessar gjaldskrár eða aðferðafræðin eða breytingarnar á þeim skulu birtar ásamt ákvörðuninni um formlega samþykkt. Einnig skal birta allar formlegar synjanir á drögum að ákvörðunum ásamt rökstuðningi þar að lútandi.
4.     Eftirlitsyfirvöld skulu hafa heimild til að krefjast þess að kerfisstjórar flutningskerfa, kerfa fyrir fljótandi jarðgas og dreifikerfa, ef nauðsyn ber til, breyti þeim skilmálum og skilyrðum, gjaldskrám og aðferðafræði, sem um getur í 1., 2., og 3. mgr., til að tryggja að þær séu hlutfallslegar og þeim beitt án mismununar.
5.     Allir aðilar, sem vilja leggja fram kæru á hendur kerfisstjóra flutningskerfis, kerfis fyrir fljótandi jarðgas eða dreifikerfis, með tilliti til málefnanna sem um getur í 1., 2. og 4. mgr. og 19. gr., geta kært til eftirlitsyfirvaldsins, sem skal gegna hlutverki yfirvalds, sem sér um lausn deilumála, og gefa út ákvörðun innan tveggja mánaða frá því berst kæran. Heimilt er að framlengja þetta tímabil um tvo mánuði ef eftirlitsyfirvöld óska eftir viðbótarupplýsingum. Heimilt er framlengja þetta tímabil með samþykki kærandans. Slík ákvörðun skal vera bindandi nema og þangað til henni er hnekkt með áfrýjun.
6.     Allir aðilar, sem vilja leggja fram kæru á hendur kerfisstjóra flutningskerfis, kerfis fyrir fljótandi jarðgas- eða dreifikerfis, með tilliti til málefnanna sem um getur í 1., 2. og 4. mgr. og 19. gr., geta kært til eftirlitsyfirvaldsins, sem skal gegna hlutverki yfirvalds, sem sér um lausn deilumála, og gefa út ákvörðun innan tveggja mánaða frá því kæran berst. Heimilt er að framlengja þetta tímabil um tvo mánuði ef eftirlitsyfirvöld óska eftir viðbótarupplýsingum. Heimilt er framlengja þennan tíma með samþykki kærandans. Slík ákvörðun skal vera bindandi nema og þangað til henni er hnekkt með áfrýjun.
7.     Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að tryggja að eftirlitsyfirvöld geti sinnt skyldum sínum, sem um getur í 1. til 5. mgr., á skilvirkan og skjótan hátt.
8.     Aðildarríkin skulu koma á viðeigandi og skilvirku fyrirkomulagi stýringar, stjórnunar og gagnsæis til að forðast misnotkun á yfirburðastöðu einkum þegar hún kemur niður á neytendum og undirverðlagningu. Í þessu fyrirkomulag skal tekið tillit til ákvæða sáttmálans, einkum 82. gr.
9.     Aðildarríkin skulu tryggja að gripið sé til viðeigandi ráðstafana, þ.m.t. stjórnsýsluaðgerðir, eða að höfðað sé sakamál í samræmi við innlend lög gegn einstaklingum eða lögaðilum, sem bera ábyrgð, ef reglur um þagnarskyldu, sem settar eru með þessari tilskipun, hafa ekki verið virtar.
10.     Nái deilumál yfir landamæri skal eftirlitsyfirvaldið, sem tekur ákvörðun, vera eftirlitsyfirvaldið, sem hefur lögsögu að því er varðar kerfisstjórann, sem synjar um notkun á kerfinu eða aðgang að því.
11.     Kærurnar, sem um getur í 5. og 6. mgr., koma ekki í veg fyrir að málskotsréttur sé nýttur samkvæmt lögum Bandalagsins og innlendum lögum.
12.     Innlend eftirlitsyfirvöld skulu stuðla að þróun innri markaðarins og jöfnum samkeppnisskilyrðum með því að vinna saman og með framkvæmdastjórninni á gagnsæjan hátt.

VII. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI
26. gr.
Verndarráðstafanir

1.     Komi skyndilega til kreppu á orkumarkaðinum og sé öryggi fólks, tækja eða búnaðar eða heildstæði kerfisins stofnað í hættu, er aðildarríki heimilt að grípa tímabundið til nauðsynlegra verndarráðstafana.
2.     Slíkar ráðstafanir þurfa að vera með því móti að þær valdi sem minnstum truflunum á starfsemi innri markaðarins og mega ekki vera víðtækari en nauðsynlegt er til að bregðast við vandanum sem komið hefur upp.
3.     Viðkomandi aðildarríki skal tafarlaust tilkynna hinum aðildarríkjunum og framkvæmdastjórninni um þessar ráðstafanir og þeim er heimilt að ákveða að aðildarríkinu beri að breyta ráðstöfununum eða afnema þær, að því marki sem þær raska samkeppni og hafa neikvæð áhrif á viðskipti á einhvern þann hátt sem stríðir gegn sameiginlegum hagsmunum.

27. gr.
Undanþágur frá skuldbindingum, þess efnis að greiða tiltekna fjárhæð þótt varan sé ekki afhent

1.     Standi jarðgasfyrirtæki frammi fyrir alvarlegum efnahags- og fjárhagsvanda eða telur að svo muni verða vegna skuldbindinga, sem það gengst undir með einum eða fleiri gaskaupasamningum þess efnis að greiða tiltekna fjárhæð þótt varan sé ekki afhent, getur það sent hlutaðeigandi aðildarríki eða tilnefndu lögbæru yfirvaldi umsókn um bráðabirgðaundanþágu frá ákvæðum 18. gr. Aðildarríkin geta valið, í hverju tilviki um sig, hvort umsóknum skuli skilað áður en eða eftir að synjað er um aðgang að kerfinu. Aðildarríkin geta einnig gefið hlutaðeigandi jarðgasfyrirtæki kost á því að velja hvort það skilar umsókn áður en eða eftir að synjað er um aðgang að kerfinu. Hafi jarðgasfyrirtæki synjað um aðgang skal skila umsókninni án tafar. Með umsókninni skulu fylgja allar viðkomandi upplýsingar um eðli og umfang þess vanda, sem við er að etja, og viðleitni jarðgasfyrirtækisins til þess að leysa hann.
Séu aðrar lausnir ekki tiltækar þannig að eðlilegt megi teljast, og að teknu tilliti til ákvæða 3. mgr., getur hlutaðeigandi aðildarríki eða tilnefnt lögbært yfirvald ákveðið að veita undanþágu.
2.     Aðildarríkið eða tilnefnda lögbæra yfirvaldið skal tilkynna framkvæmdastjórninni án tafar um ákvörðun sína þess efnis að veita undanþágu og leggja fram allar viðkomandi upplýsingar sem varða undanþáguna. Heimilt er að senda framkvæmdastjórninni samsafn fyrrnefndra upplýsinga til þess að gera henni kleift að komast að vel rökstuddri niðurstöðu. Framkvæmdastjórnin getur, innan átta vikna frá því að henni berst fyrrnefnd tilkynning, óskað eftir því að hlutaðeigandi aðildarríki eða tilnefnt lögbært yfirvald breyti eða dragi til baka þá ákvörðun að veita undanþágu.
Ef aðildarríkið eða hlutaðeigandi lögbært yfirvald, sem hefur verið tilnefnt, fer ekki að fyrrnefndum tilmælum innan fjögurra vikna skal tekin lokaákvörðun með skjótum hætti í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 30. gr.
Framkvæmdastjórnin skal fara með viðkvæmar viðskiptaupplýsingar sem trúnaðarmál.
3.     Þegar teknar eru ákvarðanir um undanþágurnar, sem um getur í 1. mgr., skal hlutaðeigandi aðildarríki eða tilnefnt lögbært yfirvald og framkvæmdastjórnin einkum taka mið af eftirtöldum viðmiðunum:
a)    því markmiði að koma á samkeppnismarkaði fyrir gas,
b)    nauðsyn þess að rækja skyldur um opinbera þjónustu og tryggja afhendingaröryggi,
c)    stöðu jarðgasfyrirtækisins á gasmarkaðinum og raunverulegri samkeppnisstöðu á þessum markaði,
d)    því hversu alvarlegum efnahags- og fjárhagslegum erfiðleikum jarðgasfyrirtæki og fyrirtæki, sem annast flutning,eða óbundnir viðskiptavinir standa frammi fyrir,
e)    dagsetningum undirskriftar og skilmálum viðkomandi samning eða samninga, m.a. að hve miklu leyti þeir gera ráð fyrir markaðsbreytingum,
f)    viðleitni til þess að finna lausn á þeim vanda sem við er að etja,
g)    að hve miklu leyti hlutaðeigandi fyrirtæki hefði átt að sjá fyrir, að teknu tilliti til ákvæða þessarar tilskipunar, líkur á að alvarlegir erfiðleikar myndu fylgja því að gangast undir skuldbindingar þess efnis að greiða tiltekna fjárhæð þótt vara sé ekki afhent,
h)    í hve ríkum mæli kerfið er tengt öðrum kerfum og að hve miklu leyti er um rekstrarsamhæfi kerfanna að ræða og
i)    þeim áhrifum, sem veiting undanþágu myndi hafa á rétta beitingu þessarar tilskipunar, með tilliti til snurðulausrar starfsemi innri jarðgasmarkaðarins.
Ákvörðun viðvíkjandi beiðni um undanþágu vegna samninga, þar sem kaupandi skuldbindur sig til að greiða tiltekna fjárhæð þótt varan sé ekki afhent, sem gerðir eru áður en tilskipun þessi öðlast gildi, ætti ekki að leiða til aðstæðna sem gera að verkum að ókleift er að finna aðra og fjárhagslega hagkvæmari afgreiðslukosti. A.m.k. skal líta svo á að ekki sé um alvarlega erfiðleika að ræða þegar sala jarðgass er ekki undir því lágmarki fyrir afgreiddan skammt, sem er tryggt í gaskaupasamningum, þar sem kaupandi skuldbindur sig til að greiða tiltekna fjárhæð þótt varan sé ekki afhent, eða svo fremi að unnt sé að gera breytingar á viðkomandi gaskaupasamningi, þar sem kaupandi skuldbindur sig til að greiða tiltekna fjárhæð þótt varan sé ekki afhent, eða að hlutaðeigandi jarðgasfyrirtæki geti fundið annars konar afgreiðslukosti.
4.     Jarðgasfyrirtæki, sem hefur ekki verið veitt undanþága, eins og um getur í 1. mgr., skulu ekki eða skulu ekki framar synja um aðgang að kerfinu, af ástæðum sem varða skuldbindingar, þess efnis að greiða tiltekna fjárhæð þótt varan sé ekki afhent, sem gengist hefur verið undir í gaskaupasamningi. Aðildarríkin skulu tryggja að viðeigandi ákvæðum VI. kafla, nánar tiltekið ákvæðum 18. til 25. gr., sé hlítt.
5.     Færa ber gild rök fyrir öllum undanþágum sem eru veittar samkvæmt ákvæðunum hér að framan. Framkvæmdastjórnin skal birta ákvörðunina í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
6.     Framkvæmdastjórnin skal, áður en fimm ár eru liðin frá því að tilskipun þessi öðlast gildi, leggja fram endurmatsskýrslu um þá reynslu sem fengist hefur af því að beita ákvæðum þessarar greinar til að gera Evrópuþinginu og ráðinu kleift, þegar þar að kemur, að fjalla um þörfina á að breyta henni.

28. gr.
Nývaxtarmarkaðir og einangraðir markaðir

1.     Aðildarríkjum, sem eru ekki beintengd samtengdu kerfi annars aðildarríkis og hafa einungis einn erlendan birgi, er heimilt að víkja frá ákvæðum 4., 9., 23. og/eða 24. gr. þessarar tilskipunar. Birgir, sem hefur yfir 75% markaðshlutdeild, telst vera aðalbirgir. Undanþága þessi fellur sjálfkrafa úr gildi um leið og a.m.k. eitt þessara skilyrða á ekki lengur við. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni um allar slíkar undanþágur.
2.     Aðildarríki, sem uppfyllir skilyrði fyrir því að geta talist nývaxtarmarkaður og sem vegna beitingar ákvæða þessarar tilskipunar myndi lenda í verulegum vandræðum, er heimilt að víkja frá ákvæðum 4. og 7. gr.,, 1. og 2. mgr. 8. gr., 9. og 11. gr., 5. mgr. 12. gr., 13., 17. og 18. gr. og 1. mgr. 23. og/eða 24. gr. þessarar tilskipunar. Þessi undanþága fellur sjálfkrafa úr gildi um leið og aðildarríkið uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir því að geta talist nývaxtarmarkaður. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni um allar slíkar undanþágur.
3.     Á þeim degi sem undanþágan, sem um getur í 2. mgr., fellur úr gildi skal skilgreiningin á óbundnum viðskiptavinum leiða til markaðsopnunar sem jafngildir a.m.k. 33% af heildarársnotkun á gasi á innlendum gasmarkaði. Ákvæði b-liðar 1. mgr. 23. gr. skulu gilda í tvö ár eftir það og ákvæði c-liðar 1. mgr. 23. gr. í þrjú ár eftir það. Þar til ákvæði b-liðar 1. mgr. 23. gr. taka gildi er aðildarríkinu, sem um getur í 2. mgr., heimilt að ákveða að beita ekki 18. gr., að því er varðar stoðþjónustu og bráðabirgðageymslu fyrir endurgösunarferlið og síðari afhendingu í flutningskerfið.
4.     Þegar um það er að ræða að framkvæmd þessarar tilskipunar myndi valda verulegum vandræðum á landfræðilega takmörkuðu svæði í aðildarríki, einkum með tilliti til þróunar flutningsgrunnvirkja og stórra dreifigrunnvirkja og í því augnamiði að örva fjárfestingar, getur viðkomandi aðildarríki sótt um bráðabirgðaundanþágu til framkvæmdastjórnarinnar frá ákvæðum 4. og 7. gr., 1. og 2. mgr. 8. gr., 9. og 11. gr., 5. mgr. 12. gr., 13., 17. og 18. gr. og 1. mgr. 23. og/eða 24. gr. vegna þróunar innan fyrrnefnds svæðis.
5.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að veita undanþáguna, sem um getur í 4. mgr., að teknu tilliti til eftirfarandi skilyrða sérstaklega:
—    þarfarinnar fyrir fjárfestingar í grunnvirkjum sem ekki yrðu hagkvæmar á samkeppnismarkaði,
—    hve mikilla fjárfestinga er þörf og ábatahorfa af þeim,
—    stærðar gaskerfisins og þróunarstigs á viðkomandi svæði,
—    framtíðarhorfa á viðkomandi gasmarkaði,
—    landfræðilegrar stærðar og einkenna viðkomandi svæðis eða landshluta, og félagshagsfræðilegra og lýðfræðilegra þátta,
a)    Einungis er heimilt að veita undanþágu fyrir gasgrunnvirki önnur en dreifigrunnvirki ef engin gasgrunnvirki hafa verið reist á fyrrnefndu svæði eða slík grunnvirki hafa verið þar skemur en 10 ár. Óheimilt er að veita bráðabirgðaundanþágu lengur en í 10 ár frá því að gas er fyrst afhent á svæðinu,
b)    Ekki er heimilt að veita undanþágu fyrir grunnvirki til dreifingar lengur en í 20 ár fyrir dreifigrunnvirkið frá því að gas er fyrst afhent með fyrrnefndu kerfi á svæðinu.
6.     Lúxemborg getur nýtt sér undanþágu frá 3. mgr. 8. gr. og 9. gr. í fimm ár frá 1. júlí 2004. Slík undanþága skal endurskoðuð fyrir lok fimm ára tímabilsins og allar ákvarðanir um að endurnýja undanþáguna í önnur fimm ár skulu teknar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 30. gr. Tilkynna ber framkvæmdastjórninni um allar slíkar undanþágur.
7.     Framkvæmdastjórnin skal tilkynna aðildarríkjunum um umsóknir, sem eru lagðar fram skv. 4. mgr., áður en hún tekur ákvörðun í samræmi við ákvæði 5. mgr., að teknu tilliti til trúnaðarkröfunnar. Birta skal þessa ákvörðun sem og undanþágurnar, sem um getur í 1. og 2. mgr., í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
8.     Grikklandi er heimilt að víkja frá 4., 11., 12., 13., 18., 23. og/eða 24. gr. þessarar tilskipunar, að því er varðar landsvæðin og tímabilin sem tilgreind eru í leyfunum sem það gaf út fyrir 15. mars 2002, og í samræmi við tilskipun 98/30/EB, að því er varðar þróun og einkanýtingu á dreifikerfum á tilteknum landsvæðum.

29. gr.
Endurskoðun

Ef framkvæmdastjórnin kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslunni, sem um getur í 3. mgr. 31. gr., í ljósi þess á hversu skilvirkan hátt netaðgangur hefur verið framkvæmdur í aðildarríki, – sem hefur í för með sér netaðgang sem er að fullu virkur, án mismununar og án hindrana – að tilteknar skyldur, sem þessi tilskipun leggur á fyrirtæki (þ.m.t. þær sem fjalla um lagalega sundurgreiningu dreifikerfisstjóra) séu ekki í réttu hlutfalli við markmiðið, sem stefnt er að, er aðildarríkinu heimilt að leggja fram beiðni til framkvæmdastjórnarinnar um undanþágu frá kröfunni sem um ræðir.
Aðildarríkið skal tilkynna framkvæmdastjórninni án tafar um beiðnina ásamt öllum viðkomandi upplýsingum, sem nauðsynlegar eru, til að sýna fram á að niðurstaðan, sem komist var að í skýrslunni um að skilvirkur aðgangur að netinu verði tryggður, muni gilda áfram.
Innan þriggja mánaða frá því að framkvæmdastjórninni berst tilkynning skal hún samþykkja álit með tilliti til beiðni hlutaðeigandi aðildarríkis og, eftir því sem við á, leggja tillögur fyrir Evrópuþingið og ráðið um að breyta viðkomandi ákvæðum tilskipunarinnar. Framkvæmdastjórninni er heimilt að leggja til í tillögunum að tilskipuninni verði breytt, að hlutaðeigandi aðildarríki verði undanþegið tilteknum kröfum, háð því að aðildarríkið grípi til jafn áhrifaríkra ráðstafana, eftir því sem við á.

30. gr.
Nefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 3. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

31. gr.
Skýrslugjöf

1.     Framkvæmdastjórnin skal fylgjast með og endurskoða beitingu þessarar tilskipunar og leggja heildarskýrslu um árangur fyrir Evrópuþingið og ráðið í lok fyrsta ársins eftir gildistöku þessarar tilskipunar og árlega eftir það. Þessi skýrsla skal a.m.k. taka til:
a)    fenginnar reynslu og árangurs, sem næst við að koma endanlega á innri markaði á sviði jarðgass sem verður starfræktur að fullu, og þeirra hindrana sem eftir eru í þessu tilliti, þ.m.t. þættir varðandi markaðsyfirráð, samþjöppun á markaði, undirboð eða samkeppnishamlandi starfshættir,
b)    undanþágna sem eru veittar samkvæmt þessari tilskipun, þ.m.t. framkvæmd á undanþágunni, sem kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr., með tilliti til hugsanlegrar endurskoðunar viðmiðunarmarkanna,
c)    að hvaða marki kröfur um sundurgreiningu og setningu gjaldskrár, sem er að finna í þessari tilskipun, hafa verið árangursríkar við að tryggja sanngjarnan aðgang án mismununar að gaskerfi Bandalagsins og sambærilegt samkeppnisstig, sem og efnahagslegar, umhverfislegar og félagslegar afleiðingar af opnun gasmarkaðar fyrir viðskiptavini,
d)    rannsóknar á málefnum er tengjast flutningsgetu kerfis og afhendingaröryggi gass í Bandalaginu og einkum núverandi og áætluðu jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar að teknu tilliti til raunverulegrar flutningsgetu fyrir skipti milli svæða og þróunar á geymslu (þ.m.t. hvort markaðsstýringin á þessu sviði sé í réttu hlutfalli),
e)    þess að sérstakur gaumur verður gefinn ráðstöfunum, sem gripið er til í aðildarríkjunum, til að anna eftirspurn á álagstoppum og bregðast við skorti hjá einum eða fleiri birgjum,
f)    almenns mats á árangrinum, sem næst með tilliti til tvíhliða samskipta við þriðju lönd sem framleiða og flytja út jarðgas, þ.m.t. árangur í markaðssamþættingu, viðskiptum og netaðgangi í slíkum þriðju löndum,
g)    þarfarinnar á hugsanlegum samræmingarkröfum sem ekki tengjast ákvæðum þessarar tilskipunar.
Eftir því sem við á, geta í skýrslunni verið tilmæli og ráðstafanir til að vega upp á móti neikvæðum áhrifum markaðsyfirráða og samþjöppunar á markaði.
2.     Á tveggja ára fresti skal í skýrslunni, sem um getur í 1. mgr., einnig fjallað um greiningu á mismunandi ráðstöfunum, sem aðildarríkin gera til að uppfylla skyldur um opinbera þjónustu, ásamt könnun á skilvirkni þessara ráðstafana, einkum áhrifa þeirra á samkeppni á gasmarkaðinum. Eftir því sem við á, geta í þessari skýrslu verið tilmæli, að því er varðar ráðstafanir sem gera skal á innlendum vettvangi til að koma á opinberri þjónustu á háu stigi, eða ráðstafanir sem ætlað er að koma í veg fyrir hindranir á markaðsaðgangi.
3.     Framkvæmdastjórnin skal, eigi síðar en 1. janúar 2006, senda Evrópuþinginu og ráðinu nákvæma skýrslu þar sem rakinn er árangur af því að skapa innri markað á sviði gass. Skýrslan skal fyrst og fremst fjalla um:
—    hvort netaðgangur án mismununar sé til staðar,
—    skilvirka reglusetningu,
—    þróun á grunnvirki til samtengingar, skilyrði vegna umflutnings og öryggi afhendingar í Bandalaginu,
—    að hvaða marki fullur ávinningur af opnun markaðarins kemur litlum fyrirtækjum og heimilum til góða, nánar tiltekið með tilliti til gæða opinberrar þjónustu,
—    að hvaða marki markaðir eru í raun opnir fyrir virkri samkeppni, þ.m.t. þættir varðandi markaðsyfirráð, samþjöppun á markaði, undirboð eða samkeppnishamlandi starfshættir,
—    að hvaða marki viðskiptavinir eru í raun að skipta um birgi og semja um gjaldskrár,
—    verðþróun, þ.m.t. afhendingarverð, með tilliti til þess hversu opnir markaðir eru,
—    hvort skilvirkur aðgangur án mismununar er fyrir hendi fyrir þriðju aðila þegar það er tæknilega og/eða efnahagslega nauðsynlegt til að veita fullnægjandi aðgang að kerfinu,
—    reynsluna, sem fengist hefur við beitingu tilskipunarinnar að því er varðar raunverulegt sjálfstæði kerfisstjóra í lóðrétt samþættum fyrirtækjum, og hvort aðrar ráðstafanir til viðbótar við sjálfstæði, að því er varðar starfsemi og aðskilið bókhald, hafa verið þróaðar sem hafa sambærileg áhrif og lagaleg sundurgreining.
Eftir því sem við á, skal framkvæmdastjórnin senda tillögur til Evrópuþingsins og ráðsins, einkum til að tryggja opinbera þjónustu á háu stigi.
Eftir því sem við á, skal framkvæmdastjórnin senda tillögur til Evrópuþingsins og ráðsins, einkum til að tryggja fullt og skilvirkt sjálfstæði dreifikerfisstjóra eigi síðar en 1. júlí 2007. Ef nauðsynlegt er, skulu þessar tillögur, í samræmi við samkeppnislög, einnig varða ráðstafanir um málefni er varða markaðsyfirráð, samþjöppun á markaði, undirboð eða samkeppnishamlandi starfshætti.

32. gr.
Niðurfelling

1.     Tilskipun 91/296/EBE skal felld úr gildi frá og með 1. júlí 2004, með fyrirvara um samninga sem eru gerðir skv. 1. mgr. 3. gr. í tilskipun 91/296/EBE, sem skulu gilda áfram og skulu koma til framkvæmdar samkvæmt skilmálum fyrrnefndrar tilskipunar.
2.     Tilskipun 98/30/EB skal felld úr gildi frá og með 1. júlí 2004, með fyrirvara um skyldur aðildarríkja varðandi frest til lögleiðingar og beitingar fyrrnefndrar tilskipunar. Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipunina sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í viðauka B.

33. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 1. júlí 2004. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
2.     Aðildarríkjunum er heimilt að fresta framkvæmd 1. mgr. 13. gr. til 1. júlí 2007. Þetta skal vera með fyrirvara um kröfurnar sem er að finna í 2. mgr. 13. gr.
3.     Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

34. gr.
Gildistaka

Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

35. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 26. júní 2003.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX A. TSOCHATZOPOULOS
forseti. forseti.

VIÐAUKI A
Ráðstafanir er varða neytendavernd

Með fyrirvara um reglur Bandalagsins um neytendavernd, einkum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/ EB ( 13 ) og tilskipun ráðsins 93/13/EB ( 14 ), eiga ráðstafanirnar, sem um getur í 3. gr., að tryggja að viðskiptavinir:
a)    eigi rétt á samningi við þann sem veitir þeim gasþjónustu, sem tilgreinir:
    —    heiti og heimilisfang birgisins,
    —    þjónustuna, sem veitt er, gæði þeirrar þjónustu sem boðin er svo og hvenær upphafleg tenging mun eiga sér stað,
    —    tegundir viðhaldsþjónustu ef hún er í boði,
    —    með hvaða hætti hægt er að nálgast uppfærðar upplýsingar um allar viðeigandi gjaldskrár og viðhaldsgjöld,
    —    gildistíma samningsins, skilyrði fyrir endurnýjun og uppsögn þjónustunnar og samningsins, hvort réttur til afturköllunar sé fyrir hendi,
    —    hvers kyns bóta- og endurgreiðslufyrirkomulag sem gildir ef þjónustugæðin, sem samið var um, eru ekki uppfyllt og
    —    hvernig hefja skal málsmeðferð til að leysa deilumál í samræmi við f-lið.
    Skilyrðin skulu vera sanngjörn og vel þekkt fyrirfram. Í öllum tilvikum skulu þessar upplýsingar veittar áður en samningur er gerður eða staðfestur. Ef samningar eru gerðir í gegnum milliliði skulu framangreindar upplýsingar einnig veittar áður en samningurinn er gerður.
b)    fái tilkynningu með nægilegum fyrirvara um allar fyrirætlanir um að breyta samningsskilyrðum og fái upplýsingar um uppsagnarrétt sinn þegar þeir fá þessa tilkynningu. Þjónustuveitendur skulu tilkynna áskrifendum sínum beint um allar hækkanir á gjöldum á viðeigandi tíma, eigi síðar en einu reikningstímabili eftir að hækkunin tekur gildi. Aðildarríkin skulu tryggja að viðskiptavinum sé frjálst að segja upp samningum ef þeir samþykkja ekki nýju skilyrðin sem sá sem veitir þeim gasþjónustu tilkynnir þeim um.
c)    fái upplýsingar um viðeigandi verð og gjaldskrár og um staðlaða skilmála og skilyrði með tilliti til aðgangs að og notkunar á gasþjónustu,
d)    hafi víðtækt val um greiðsluaðferðir. Allur munur á skilmálum og skilyrðum skal endurspegla kostnað birgisins við mismunandi greiðslukerfi. Almennir skilmálar og skilyrði skulu vera sanngjörn og gagnsæ. Þau skulu sett fram á skýru og auðskiljanlegu máli. Viðskiptavinir skulu verndaðir gagnvart ósanngjörnum og villandi söluaðferðum.
e)    þurfi ekki að borga fyrir að skipta um birgi,
f)    njóti góðs af gagnsærri, einfaldri og ódýrri málsmeðferð við að fjalla um kvartanir þeirra. Slík málsmeðferð skal gera kleift að leysa deilumál á sanngjarnan og skjótvirkan hátt þannig að gert sé ráð fyrir endurgreiðslu- og/eða bótakerfi þar sem réttmæt ástæða er til slíks. Hún skal, eftir því sem kostur er, fylgja meginreglunum sem settar eru fram í tilmælum framkvæmdastjórnarinnar 98/257/EB ( 15 ).
g)    sem eru tengdir við gaskerfið, séu upplýstir um rétt sinn til að fá afhent, samkvæmt viðeigandi innlendri löggjöf, jarðgas af tilteknum gæðum á sanngjörnu verði.

VIÐAUKI B
Samsvörunartafla

Tilskipun 98/30/EB Þessi tilskipun
1. gr. 1. gr. Gildissvið
2. gr. 2. gr. Skilgreiningar
3. gr. 3. gr. Skyldur um opinbera þjónustu og neytendavernd
4. gr. 4. gr. Málsmeðferð við leyfisveitingu
5. gr. Eftirlit með afhendingaröryggi
5. gr. 6. gr. Tæknilegar reglur
6. gr. 7. gr. Tilnefning kerfisstjóra
7. gr. 8. gr. Verkefni kerfisstjóra
9. gr. Sundurgreining flutningskerfisstjóra
8. gr. 10. gr. Þagnarskylda flutningskerfisstjóra
1. mgr. 9. gr. 11. gr. Tilnefning dreifikerfisstjóra
10. gr. 12. gr. Verkefni dreifikerfisstjóra
13. gr. Sundurgreining dreifikerfisstjóra
11. gr. 14. gr. Þagnarskylda dreifikerfisstjóra
15. gr. Kerfisstjóri samsettra kerfa
12. gr. 16. gr. Réttur til aðgangs að reikningum
13. gr. 17. gr. Sundurgreining reikninga
14.–16. gr. 18. gr. Aðgangur þriðju aðila
19. gr. Aðgangur að geymslum
23. gr. 20. gr. Aðgangur að leiðslukerfum fyrir óunnið jarðgas
17. gr. 21. gr. Synjað um aðgang
22. gr. Ný grunnvirki
18. og 19. gr. 23. gr. Markaðsopnun og gagnkvæmni
20. gr. 24. gr. Beinar leiðslur
2. og 3. mgr. 21. gr. og 22. gr. 25. gr. Eftirlitsyfirvöld
24. gr. 26. gr. Verndarráðstafanir
25. gr. 27. gr. Undanþágur frá skuldbindingum þess efnis að greiða tiltekna fjárhæð þótt varan sé ekki afhent
26. gr. 28. gr. Nývaxtarmarkaðir og einangraðir markaðir
29. gr. Endurskoðun
30. gr. Nefnd
27. og 28. gr. 31. gr. Skýrslugjöf
32. gr. Niðurfelling
29. gr. 33. gr. Framkvæmd
30. gr. 34. gr. Gildistaka
31. gr. 35. gr. Viðtakendur
30. gr. 34. gr. Gildistaka
Viðauki A Ráðstafanir er varða neytendavernd
Fylgiskjal V.


ÁKVÖRÐUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR
frá 11. nóvember 2003
um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi
(Texti sem varðar EES)
(2003/796/EB)

FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af tillögu stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/ 54/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku og um niðurfellingu tilskipunar 96/92/EB ( 1 ), tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/55/EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir jarðgas og um niðurfellingu á tilskipun 98/30/EB ( 2 ) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri ( 3 ) er settur nýr reglurammi um innri markaðinn fyrir rafmagn og gas.
2)          Í tilskipunum 2003/54/EB og 2003/55/EB er þess krafist að aðildarríkin tilnefni einn eða fleiri þar til bæra aðila sem gegna hlutverki eftirlitsyfirvalda til að framkvæma eftirlitsverkefnin sem tilgreind eru í þessum tilskipunum. Þessi eftirlitsyfirvöld þurfa að vera fullkomlega óháð hagsmunum rafmagns- og gasiðnaðarins.
3)          Líklegt er að sundurliðun á skyldum og verkefnum innlendra stjórnvalda sé mismunandi eftir aðildarríkjum, en öll aðildarríkin verða að tilnefna a.m.k. eina eftirlitsstofnun til að beita reglum nýja reglurammans, þegar þær hafa verið teknar upp í landslög, einkum reglurnar sem varða daglegt eftirlit með markaðnum.
4)          Í tilskipunum 2003/54/EB og 2003/55/EB eru sett markmið og þar er veittur rammi fyrir aðgerðir á innlendum vettvangi, en þar er jafnframt veittur sveigjanleiki á tilteknum sviðum til að beita reglunum í ljósi innlendra aðstæðna. Samræmd beiting viðkomandi reglna í öllum aðildarríkjunum skiptir sköpum um árangursríka þróun samevrópsks orkumarkaðar.
5)          Framlag hóps evrópska eftirlitsaðila fyrir rafmagn og hóps evrópskra eftirlitsaðila fyrir gas hefur verið þýðingarmikið að því er varðar sameiginlegar aðferðir í málefnum sem varða viðskipti yfir landamæri. Þar sem báðir hópar verða áfram mikilvægir sem almennur umræðuvettvangur með þátttöku allra aðila, ríkisstjórna, eftirlitsaðila og iðnaðarins, er nú nauðsynlegt að búa eftirlitssamvinnu og samhæfi formlegri stöðu, til að greiða fyrir tilkomu innri orkumarkaðarins og í ljósi væntanlegrar inngöngu nýrra aðildarríkja.
6)          Við þessar kringumstæður er rétt setja á fót „evrópskan hóp eftirlitsaðila með rafmagni og gasi“ til að auðvelda samráð, samræmingu og samstarf milli eftirlitsstofnana í aðildarríkjunum og milli þessara aðila og framkvæmdastjórnarinnar í þeim tilgangi að styrkja innri markaðinn og tryggja samræmda beitingu í öllum aðildarríkjunum á tilskipunum 2003/54/EB og 2003/55/EB og reglugerð (EB) nr.1228/ 2003.
7)          Aðilar að evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi skulu vera forstöðumenn innlendra stjórnvalda, sem eru lögbær á sviði eftirlits með rafmagni og gasi í aðildarríkjunum. Háttsettir embættismenn skulu vera fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar.
8)          Evrópski hópur eftirlitsaðila með rafmagni og gasi skal viðhalda náinni samvinnu við nefndirnar sem var komið á fót í krafti 30 gr. tilskipunar 2003/55/EB og 13. gr. reglugerðar (EB) nr. 1228/2003. Starf hans skal ekki hafa áhrif á störf fyrrgreindra nefnda.
9)          Rétt er að fella úr gildi ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar 95/539/EB ( 4 ) og 92/167/ EBE ( 5 ) þar sem þessar ákvarðanir komu á fót nefndum í tengslum við ákvarðanir 91/296/ EBE ( 6 ) og 90/547/EBE ( 7 ) um gegnumflutning á jarðgasi annars vegar og rafmagni hins vegar, sem felldar voru úr gildi með tilskipunum 2003/54/EB og 2003/55/EB,
ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.
Efni og starfsemi

1.     Óháðum ráðgjafahópi um rafmagn og gas, sem er nefndur „evrópskur hópur eftirlitsaðila með rafmagni og gasi“ (hér á eftir nefndur „hópurinn“), er hér með komið á fót af framkvæmdastjórninni.
2.     Hópurinn skal veita framkvæmdastjórninni aðstoð og ráðgjöf, að eigin frumkvæði eða að beiðni framkvæmdastjórnarinnar, við að styrkja innri orkumarkaðinn, sérstaklega hvað varðar undirbúning á drögum að framkvæmdarráðstöfunum á sviði rafmagns og gass, og um öll málefni sem tengjast innri markaðinum fyrir gas og rafmagn. Hópurinn skal auðvelda samráð, samræmingu og samstarf innlendra stjórnvalda, sem stuðla að samræmdri beitingu, í öllum aðildarríkjunum, á ákvæðunum sem sett eru fram í tilskipun 2003/54/EB, tilskipun 2003/55/EB og reglugerð (EB) nr. 1228/2003 sem og hugsanlegri framtíðarlöggjöf Bandalagsins á sviði rafmagns og gass.

2. gr.
Aðild að hópnum

1.     Í hópnum skulu sitja forstöðumenn innlendra stjórnvalda eða fulltrúar þeirra.
2.     Í þessari ákvörðun er merking hugtaksins „innlent stjórnvald“ opinbert yfirvald sem komið er á fót í aðildarríki skv. tilskipunum 2003/54/EB og 2003/ 55/EB, en í samræmi við þær skulu aðildarríkin tilnefna einn eða fleiri þar til bæran aðila sem gegna hlutverki eftirlitsyfirvalda til að tryggja jafnræði, virka samkeppni og skilvirka starfsemi á gas- og rafmagnsmarkaðnum og einkum daglega beitingu á ákvæðum tilskipana 2003/54/EB og 2003/55/EB og reglugerðar (EB) nr. 1228/2003, hvað það varðar.
3.      Fram að 1. júlí 2004, hafi aðildarríkin ekki tilnefnt einn eða fleiri þar til bæra aðila sem gegna hlutverki eftirlitsaðila, skal annað þar til bært opinbert yfirvald vera fulltrúi þess aðildarríkis í hópnum.
4.     Nefndaraðilar skulu vera viðstaddir fundi hópsins og skulu tilnefna háttsettan fulltrúa til að taka þátt í öllum umræðum sem þar fara fram.

3. gr.
Skipulagning hópsins

1.     Hópurinn kýs formann úr sínum röðum.
2.     Hópurinn getur skipað starfshópa sérfræðinga til að rannsaka sérstök málefni fái hann til þess umboð og eftir því sem henta þykir.
3.     Framkvæmdastjórninni er heimilt að sitja alla fundi slíkra starfshópa sérfræðinga.
4.     Sérfræðingum frá EES-löndum og þeim löndum sem sótt hafa um aðild að Evrópubandalaginu er heimilt að sitja fund hópsins sem áheyrnarfulltrúar. Hópnum er heimilt að bjóða öðrum sérfræðingum og áheyrnarfulltrúum að sitja fundi hópsins.
5.     Hópurinn setur sér starfsreglur með samhljóða samþykki eða, ef samhljóða samþykki fæst ekki, með tveimur þriðju hluta atkvæða meirihluta, þar sem hvert aðildarríki hefur eitt atkvæði, með fyrirvara um samþykki framkvæmdastjórnarinnar.
6.     Framkvæmdastjórnin skal leggja hópnum til skrifstofu.
7.     Ferða- og dvalarkostnað vegna útgjalda meðlima hópsins, áheyrnarfulltrúa og sérfræðinga í tengslum við starfsemi hópsins, skal framkvæmdastjórnin endurgreiða í samræmi við gildandi ákvæði framkvæmdastjórnarinnar.
8.     Hópurinn skal leggja ársskýrslu um starfsemi sína fyrir framkvæmdastjórnina. Framkvæmdastjórnin skal senda skýrsluna til Evrópuþingsins og ráðsins með athugasemdum, eftir því sem við á.

4. gr.
Samráð

Hópurinn skal frá upphafi hafa víðtækt samráð við markaðsaðila, neytendur og endanlega notendur á opinn og gagnsæjan hátt.

5. gr.
Trúnaðarkvöð

Ef framkvæmdastjórnin tilkynnir meðlimum hópsins að leynd hvíli yfir ráðgjöf sem óskað er eftir eða spurningu sem borin er upp skal þeim, sem og áheyrnarfulltrúum og öllum öðrum, vera skylt að láta ekki í té neinar upplýsingar sem þeir hafa fengið í gegnum starf hópsins eða starfshópa hans með fyrirvara um ákvæði 287. gr. sáttmálans. Í slíkum tilvikum er framkvæmdastjórninni heimilt að ákveða að einungis meðlimir hópsins megi sitja fundi.

6. gr.
Niðurfelling

Ákvarðanir 95/539/EB og 92/167/EBE eru felldar úr gildi.

7. gr.
Gildistaka

1.     Ákvörðun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.
2.     Hópurinn skal hefja skyldustörf sín á gildistökudegi þessarar ákvörðunar.
Gjört í Brussel 11. nóvember 2003.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar, Loyola DE PALACIO varaforseti.


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 306, 24.11.2005, bls. 34 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 60, 24.11.2005, bls. 21.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 57.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. ESB L 296, 14.11.2003, bls. 34.
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB L 313, 13.11.1990, bls. 30.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. EB L 147, 12.6.1991, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. EB L 74, 20.3.1992, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 9
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 10
(1)     Stjtíð. EB C 240 E, 28.8.2001, bls. 72, og (Stjtíð. EB C 227 E, 24.9.2002, bls. 440.
Neðanmálsgrein: 11
(2)     Stjtíð. EB C 36, 8.2.2002, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 12
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 13. mars 2002 (Stjtíð. ESB C 47 E, 27.2.2003, bls. 379), sameiginleg afstaða ráðsins frá 3. febrúar 2003 (Stjtíð. ESB C 50 E, 4.3.2003, bls. 1) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 4. júní 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 13
(4)    Stjtíð. EB L 27, 30.1.1997, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 14
(5)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 15
(6)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 16
(1)    Stjtíð. EB C 240 E, 28.8.2001, bls. 60 og Stjtíð. EB C 227 E, 24.9.2002, bls. 393.
Neðanmálsgrein: 17
(2)    Stjtíð. EB C 36, 8.2.2002, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 18
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 13. mars 2002 (Stjtíð. ESB C 47 E, 27.2.2003, bls. 350), Sameiginleg afstaða ráðsins frá 3. febrúar 2003 (Stjtíð. ESB C 50 E, 4.3.2003, bls. 15) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 4. júní 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 19
(4)    Stjtíð. EB L 27, 30.1.1997, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 20
(5)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 57.
Neðanmálsgrein: 21
(6)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 22
(7)    Stjtíð. EB L 313, 13.11.1990, bls. 30. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 98/75/EB (Stjtíð. EB L 276, 13.10.1998, bls. 9).
Neðanmálsgrein: 23
(8)    Stjtíð. EB L 395, 30.12.1989, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1310/97 (Stjtíð. EB L 180, 9.7.1997, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 24
(9)    Titli tilskipunar 83/349/EBE hefur verið breytt til að taka tillit til númerabreytinga á greinum í stofnsáttmála Evrópubandalagsins í samræmi við 12. gr. Amsterdam- sáttmálans, en upphaflega tilvísunin var í g-lið 3. mgr. 54. gr.
Neðanmálsgrein: 25
(10)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 26
(11)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 98/48/EB (Stjtíð. EB L 217, 5.8.1998, bls. 18).
Neðanmálsgrein: 27
(*)    Titli tilskipunar 78/660/EBE hefur verið breytt til að taka tillit til númerabreytinga á greinum í stofnsáttmála Evrópubandalagsins í samræmi við 12. gr. Amsterdam- sáttmálans, en upphaflega tilvísunin var í g-lið 3. mgr. 54. gr.
Neðanmálsgrein: 28
(12)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 29
(13)    Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 30
(14)    Stjtíð. EB L 95, 21.4.1993, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 31
(15)    Stjtíð. EB L 115, 17.4.1998, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 32
(1)    Stjtíð. EB C 240 E, 28.8.2001, bls. 60 og (Stjtíð. EB C 227 E, 24.9.2002, bls. 393.
Neðanmálsgrein: 33
(2)    Stjtíð. EB C 36, 8.2.2002, bls. 10.
Neðanmálsgrein: 34
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 13. mars 2002 (Stjtíð. ESB C 47 E, 27.2.2003, bls. 367), sameiginleg afstaða ráðsins frá 3. febrúar 2003 (Stjtíð. ESB C 50 E, 4.3.2003, bls. 36) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 4. júní 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB).
Neðanmálsgrein: 35
(4)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 36
(5)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 37
(6)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 38
(7)    Stjtíð. EB L 147, 12.6.1991, bls. 37. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 95/49/EB (Stjtíð. EB L 233, 30.9.1995, bls. 86).
Neðanmálsgrein: 39
(8)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 40
(*)    Titli tilskipunar 83/349/EBE hefur verið breytt til að taka tillit til númerabreytinga á greinum í stofnsáttmála Evrópubandalagsins í samræmi við 12. gr. Amsterdam- sáttmálans, en upphaflega tilvísunin var í g-lið 3. mgr. 54. gr.
Neðanmálsgrein: 41
(9)    Stjtíð. EB L 395, 30.12.1989, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 1310/97 (Stjtíð. EB L 180, 9.7.1997, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 42
(10)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 43
(11)    Stjtíð. EB L 204, 21.7.1998, bls. 37. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 98/48/EB (Stjtíð. EB L 217, 5.8.1998, bls. 18).
Neðanmálsgrein: 44
(*)    Titli tilskipunar 78/660/EBE hefur verið breytt til að taka tillit til númerabreytinga á greinum í stofnsáttmála Evrópubandalagsins í samræmi við 12. gr. Amsterdam- sáttmálans, en upphaflega tilvísunin var í g-lið 3. mgr. 54. gr.
Neðanmálsgrein: 45
(12)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/65/EB (Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 28).
Neðanmálsgrein: 46
(13)    Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 47
(14)    Stjtíð. EB L 95, 21.4.1993, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 48
(15)    Stjtíð. EB L 115, 17.4.1998, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 49
(1)    Stjtíð.ESB L 176, 15.7.2003, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 50
(2)    Stjtíð.ESB L 176, 15.7.2003, bls. 57.
Neðanmálsgrein: 51
(3)    Stjtíð.ESB L 176, 15.7.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 52
(4)    Stjtíð. EB L 304, 16.12.1995, bls. 57.
Neðanmálsgrein: 53
(5)    Stjtíð. EB L 74, 20.3.1992, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 54
(6)    Stjtíð. EB L 147, 12.6.1991, bls. 37.
Neðanmálsgrein: 55
(7)    Stjtíð. EB L 313, 13.11.1990, bls. 30.