Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 670. máls.
Þskj. 1021  —  670. mál.




Tillaga til þingsályktunar

um endurskoðaða áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Alþingi ályktar skv. 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, að samþykkja eftirfarandi endurskoðun á áætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum fyrir árin 2004–2008.

I. Verkefni ríkisstjórnarinnar.

    Stefnumarkandi áherslusvið í jafnréttismálum fyrir næstu ár verði eftirfarandi:
     1.      Fræðsla um jafnréttismál.
     2.      Jafnrétti á vinnumarkaði.
     3.      Jafnréttisáætlanir ráðuneyta.
     4.      Eftirfylgni með framkvæmdaáætlun.

II. Verkefni ráðuneytanna.

     A. Verkefni allra ráðuneytanna.
     1.      Jöfnun á kynjahlutfalli í nefndum, ráðum og stjórnum.
     2.      Fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneyta.
     3.      Jafnréttisáætlanir og jafnréttisnefndir ráðuneyta og stofnana.
     4.      Skipun tengiliða jafnréttismála í öllum stofnunum ráðuneyta.
     5.      Jafnréttissjónarmið tryggð við stöðuveitingar.
     6.      Staða kvenna í yfirstjórnum ráðuneytanna og stofnana þeirra.
     B. Forsætisráðuneyti.
     7.      Birting á rannsóknum og niðurstöðum verkefna sem hlotið hafa styrk úr Jafnréttissjóði.
     C. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
     8.      Mansal.
     9.      Vernd vitna og þolenda afbrota.
     10.      Aðbúnaður kvenna innan lögreglunnar.
     D. Félagsmálaráðuneyti.
     11.      Yfirstjórn samþættingar jafnréttissjónarmiða.
     12.      Nefndir og ráð í sveitarfélögum.
     13.      Framkvæmd laganna um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.
     14.      Jafnrétti í vinnumiðlun.
     15.      Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti.
     16.      Karlar til ábyrgðar.
     17.      Samþætting kynjasjónarmiða á sviði málefna fatlaðra.
     18.      Samþætting á sviði barnaverndar.
    Samstarfsaðili í eftirtöldum verkefnum:
     7.      Birting á rannsóknum og niðurstöðum verkefna er hlotið hafa styrk úr Jafnréttissjóði.
     8.      Mansal.
     9.      Vernd vitna og þolenda afbrota.
     32.      Konur í atvinnurekstri.
     46.      Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
     E. Fjármálaráðuneyti.
     19.      Úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun karla og kvenna.
     F. Hagstofa Íslands.
     20.      Konur og karlar í atvinnurekstri.
     21.      Laun kvenna og karla eftir starfsgreinum.
     G. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
     22.      Áhrif klámvæðingar á ungt fólk.
     23.      Heilsufarskönnun.
     24.      Notkun kvenna og karla á heilsugæslunni.
     25.      Mat á árangri og gæðum heilbrigðisþjónustunnar.
     26.      Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
     27.      Áhættuhegðun karla.
     28.      Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
     29.      Jafnrétti og lýðheilsa.
    Samstarfsaðili í eftirtöldum verkefnum:
     16.      Karlar til ábyrgðar.
     H. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
     30.      Konur og stjórnun fyrirtækja.
     31.      Stuðningur við konur í atvinnurekstri.
     32.      Konur í atvinnurekstri.
     33.      Úttekt á styrkjum, lánum og fjárfestingum ráðuneytisins.
     34.      Aukin tækifæri í forustu atvinnulífsins.
     I. Landbúnaðarráðuneyti.
     35.      Lifandi landbúnaður – Gullið heima.
     36.      Jafnrétti í skráningu eignarréttinda í landbúnaði.
     J. Menntamálaráðuneyti.
     37.      Konur í vísindum.
     38.      Jafnrétti og listir.
     39.      Jafnréttiskennsla í skólum.
     40.      Starfs-, sí- og endurmenntun.
     K. Samgönguráðuneyti.
     41.      Störf kvenna á skipum.
     42.      Staða kvenna í íslenskri ferðaþjónustu.
     L. Sjávarútvegsráðuneyti.
     43.      Úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi.
     44.      Úttekt á störfum kvenna í minni sjávarútvegsfyrirtækjum (fjölskyldufyrirtækjum) á Íslandi.
     M. Umhverfisráðuneyti.
     45.      Konur og Staðardagskrá 21.
     N. Utanríkisráðuneyti.
     46.      Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
     47.      Jafnréttisstarf fulltrúa á vegum UNIFEM í löndum þar sem alþjóðlegt uppbyggingarstarf á sér stað.
     48.      Samþætting kynjasjónarmiða í starfi íslensku friðargæslunnar. Gerð aðgerðaáætlunar vegna ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá árinu 2000.
    Samstarfsaðili í eftirtöldum verkefnum:
     8.      Mansal.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Ríkisstjórnin hefur samþykkt endurskoðaða áætlun í jafnréttismálum 2004 – 2008. Hún fylgir hér á eftir:

„I. Inngangur.

    Í 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er kveðið á um að félagsmálaráðherra leggi fram, eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar, tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Sú áætlun var lögð fram árið 2004 og gildir til loka maí árið 2008. Hér er lögð fram endurskoðun á þeirri áætlun. Áætlunin sem hér fer á eftir er byggð á gildandi áætlun og eru áherslur endurskoðunarinnar þær sömu og í fyrri áætlun. Felst endurskoðunin að mestu í að fylgja eftir og meta stöðu verkefna sem hafa verið unnin. Verkefni sem er lokið hafa verið tekin út og nýjum verkefnum bætt inn þar sem við á. Einnig hefur tímaáætlunum einstakra verkefna verið breytt. Nánari upplýsingar um stöðu verkefna koma fram í skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála sem lögð er fram samhliða þessari þingsályktunartillögu.
    Í fyrri framkvæmdaáætlunum var stefnt að því að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í daglegt starf allra ráðuneyta. Nauðsynlegt er að hafa þetta markmið að leiðarljósi áfram. Rétt er þó að benda á að samþætting er ekki markmið í sjálfu sér heldur er það jafnrétti kynjanna sem er markmiðið. Það næst með því að gera samþættingu að viðteknum vinnubrögðum í stjórnsýslunni. Samþætting er aðferð sem tryggja á að jafnréttis- og kynjasjónarmið séu viðhöfð í allri stefnumótun, þ.e. við undirbúning tillagna, ákvarðanatöku, framkvæmdir og mat. Þetta er mikilvægt til að þarfir beggja kynja séu gerðar sýnilegar á öllum stigum málsins.
    Í fyrri framkvæmdaáætlun var lögð áhersla á að jafna hlutföll kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum ráðuneyta. En þrátt fyrir það hefur hlutfall kvenna staðið í stað í nefndum, ráðum og stjórnum sem störfuðu á árunum 2004 og 2005 en þá var hlutfallið 32%. Ef skoðaðar eru nýjar skipanir í nefndir, ráð og stjórnir á árinu 2004 þá er hlutur kvenna hærri eða 38% og á árinu 2005 varð þetta hlutfall 37%. Félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið hafa náð því að auka hlut kvenna í 40% eins og stefnt var að. Ríkisstjórnin þarf að huga betur að þessu á næstu árum og að því verður áfram unnið á grundvelli þessarar áætlunar.
    Kynbundinn launamunur er enn eitt af helstu áhersluatriðum framkvæmdaáætlunarinnar. Lengi vel minnkaði þessi munur, en upplýsingar frá Hagstofu Íslands og könnun Capacent Gallup tengd verkefninu „Launamyndun og kynbundinn launamunur“ úr fyrri framkvæmdaáætlun benda til þess að dregið hafi úr þessari jákvæðu þróun síðustu ár og að stöðnun ríki. Því er afar mikilvægt að halda vinnunni áfram. Kynbundinn launamunur og verkefni tengd vinnumarkaði hafa því fengið talsvert rými í þessari endurskoðuðu framkvæmdaáætlun.

II. Helstu breytingar.

    Gert var ráð fyrir að tilteknum verkefnum í áætluninni yrði lokið um mitt gildistímabil áætlunarinnar. Verkefni ríkisstjórnarinnar og ráðuneytanna um „skilgreiningu á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna“ er lokið. Á vegum forsætisráðuneytisins er verkefni um „útgáfu jafnréttisgátlista til notkunar við stefnumótunarvinnu“ lokið. Fimm verkefnum félagsmálaráðuneytisins er lokið en það eru verkefnin: „kynbundinn launamunur“, „launamunur og kynbundinn launamunur“, „jafnréttisumsagnir stjórnarfrumvarpa“, „áhrif laga um fæðingar- og foreldraorlof á jafnrétti kynjanna“ og „fæðingarorlof og atvinnulíf“. Fjármálaráðuneytið lauk verkefninu „úttekt á almannatryggingakerfinu“ á tímabilinu. Á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er einu verkefni lokið en það er verkefnið „verkefnisstjórn um heilsufar kvenna“. Menntamálaráðuneytið hefur lokið fjórum verkefnum það sem af er gildistíma áætlunarinnar. Verkefnin eru: „fræðsla um jafnréttismál í kennaranámi“, „styrkir til jafnréttisfræðslu úr þróunarsjóðum leik-, grunn- og framhaldsskóla“, „jafnrétti kynjanna innan íþróttahreyfingarinnar“ og „konur og fjölmiðlar“
    Nokkur ný verkefni er að finna í endurskoðaðri áætlun í jafnréttismálum. Nýtt verkefni forsætisráðuneytisins ber heitið: „birting á rannsóknum og niðurstöðum verkefna sem hlotið hafa styrk úr Jafnréttissjóði“. Þrjú ný verkefni verða framkvæmd á vegum félagsmálaráðuneytisins en það eru verkefnin: „framkvæmd laganna um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000“, „samþætting sjónarmiða á sviði málefna fatlaðra“ og „samþætting á sviði barnaverndar“. Hagstofa Íslands er með eitt nýtt verkefni og ber það heitið: „laun kvenna og karla eftir starfsgreinum“. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið mun vinna tvö ný verkefni það sem eftir lifir gildistíma áætlunarinnar og eru það verkefnin: „úttekt á styrkjum, lánum og fjárfestingum ríkisins“ og „aukin tækifæri í forustu atvinnulífsins“. Menntamálaráðuneytið mun taka að sér framkvæmd verkefnisins „starfs-, sí og endurmenntun“ en það var meðal verkefna félagsmálaráðuneytisins í upphaflegri áætlun í jafnréttismálum. Samgönguráðuneytið mun vinna eitt nýtt verkefni og ber það heitið „staða kvenna í íslenskri ferðaþjónustu“. Að síðustu verður unnið nýtt verkefni á vegum utanríkisráðuneytisins sem fjallar um „samþættingu kynjasjónarmiða í starfi íslensku friðargæslunnar. Gerð aðgerðaáætlunar vegna ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá árinu 2000.“
    Eins og áður hefur komið fram hefur tímaáætlunum einstakra verkefna verið breytt en nánari upplýsingar um stöðu verkefnanna koma fram í skýrslu félagsmálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála.

III. Verkefni ríkisstjórnarinnar.

    Í framkvæmdaáætlun þessari er lagt til að stefnumarkandi áherslusvið í jafnréttismálum fyrir næstu ár verði eftirfarandi:
     1.      Fræðsla um jafnréttismál.
     2.      Jafnrétti á vinnumarkaði.
     3.      Jafnréttisáætlanir ráðuneyta.
     4.      Eftirfylgni með framkvæmdaáætlun.
    Nokkur verkefni ríkisstjórnarinnar taka sérstaklega til innra starfs ráðuneytanna, en önnur verkefni sem gerð er grein fyrir hér á eftir munu að einhverju leyti fela í sér vinnu að samþættingu, fræðslu eða vinnumarkaðsmálum.

1. Fræðsla um jafnréttismál.
    Sérþekking og fjármagn verður að vera tiltækt til að sinna samþættingu jafnréttissjónarmiða eins og í öllum verkefnum einstakra ráðuneyta. Nauðsynlegt er að allir þeir sem vinna að stefnumótun og ákvarðanatöku hafi þekkingu á jafnréttismálum. Þess vegna er fræðsla um jafnréttismál eitt af frumskilyrðum þess að samþætting geti átt sér stað. Allt starfsfólk ríkis og sveitarfélaga, sem ber ábyrgð á og sér um að framfylgja stefnumótunarvinnu, þarf fræðslu um þennan málaflokk til að geta sinnt verkefnum sínum fyllilega. Því verður haldið áfram með markvissa fræðslu fyrir stjórnendur og aðra starfsmenn innan ráðuneyta. Áhersla verður lögð á það á næsta ári í samstarfi við fagaðila. Verkefni sem tengjast þessu áhersluatriði er til dæmis fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneyta (verkefni 2).

2. Jafnrétti á vinnumarkaði.
    Könnun sem Capacent Gallup vann fyrir félagsmálaráðuneytið árið 2006 um launamyndun og kynbundinn launamun sýnir að enn er kynbundinn launamunur hér á landi og bendir til þess að stöðnun ríki í þeim efnum eins og annars staðar á Norðurlöndum. Samkvæmt könnun sem nefnd um efnahagsleg völd kvenna stóð fyrir árið 2004 höfðu konur um 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma. Samkvæmt skýrslunni má skýra 21–24% launamunarins með ólíkum starfsvettvangi, starfi, menntun og ráðningarfyrirkomulagi. Eftir stendur 7,5–11% launamunur sem er óútskýrður, en leiða má líkur að því að til dæmis hjónaband og barneignir hafi önnur áhrif á laun kvenna en karla.
    Reglulegar kannanir Hagstofu Íslands á launum landsmanna hafa leitt í ljós að regluleg mánaðarlaun karla voru 267.000 kr. árið 2005 en kvenna 198.000 kr. Samanburður við árið 2004 sýndi að laun karla hækkuðu um 10,2% en kvenna um 10,0% milli ára. Einnig sýnir könnunin „Launamyndun og kynbundinn launamunur“, sem unnin var fyrir félagsmálaráðuneytið, litlar sem engar breytingar á launum kynjanna milli áranna 1994 og 2006, eða 16% í 15,7%. Þessa þróun verður að skoða sem viðvörun um að verkefni sem unnin hafa verið í þeim tilgangi að draga úr launamun kynjanna skili ekki tilætluðum árangri. Er því nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða til að koma í veg fyrir stöðnun þeirrar jákvæðu þróunar sem orðið hefur á síðustu árum og leggja áherslu á að verkefnum sem kveðið var á um í þingsályktun um áætlun í jafnréttismálum verði lokið á gildistíma áætlunarinnar.
    Nýlegar kannanir hafa sýnt að yfirborganir og hlunnindi á almenna vinnumarkaðnum og hjá hinu opinbera gangi frekar til karla en kvenna. Einnig hefur komið fram við samanburð milli hefðbundinna starfsgreina kvenna og hefðbundinna starfsgreina karla sem krefjast sambærilegs námstíma að þar sé verulegur launamunur. Ljóst er að leita verður leiða til að uppræta launafyrirkomulag þar sem stöðuheiti, föst yfirvinna og bílahlunnindi eru notuð til að bæta þau laun sem samið er um í kjarasamningum. Markmið ríkisstjórnarinnar er að uppræta óútskýrðan launamun kynjanna þannig að jafnrétti náist á þessu sviði.
    Nú eru komnar fram niðurstöður tveggja verkefna sem unnin voru á fyrstu tveimur árum þessarar framkvæmdaáætlunar. Annars vegar er komin út skýrslan „Mælistikur á launajafnrétti á Norðurlöndum“ og hins vegar hefur könnunin „Launamyndun og kynbundinn launamunur“ frá árinu 1995, á launum og starfsframa kvenna og karla, verið endurtekin árið 2006 og vöktu niðurstöður hennar mikla athygli. Á niðurstöðum þessara verkefna á að byggja framkvæmdaáætlun um launajafnrétti (verkefni 17) sem miðar að því að finna raunhæfar leiðir til að ná fram fullu launajafnrétti.
    Auk þess þarf að leggja áherslu á verkefni sem stuðla að aukinni þátttöku kvenna í atvinnurekstri og iðnaði. Þá er full ástæða til að fylgja eftir 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, þar sem segir að „[f]yrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skulu setja sér jafnréttisáætlun eða kveða sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni“. Sérstaklega er tekið fram í lögunum að í jafnréttisáætlun skuli kveðið á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsmönnum launajafnrétti, jafnan aðgang að lausum störfum, starfsþjálfun og endurmenntun, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynferðislega áreitni. Nauðsynlegt er að marka aðkomu og ábyrgð stéttarfélaga launafólks og atvinnurekenda að jafnréttismálum. Verkefni tengd þessum lið eru til dæmis „úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á laun karla og kvenna“ (verkefni 19) og „aukin tækifæri til forustu í atvinnulífinu“ (verkefni 34).

3. Jafnréttisáætlanir ráðuneyta og jafnréttisnefndir.
    Nauðsynlegt er að ríkisstjórnin sýni gott fordæmi fyrir atvinnulífið og því var lögð áhersla á að öll ráðuneyti settu sér jafnréttisáætlun fyrir mitt kjörtímabil. Þessum jafnréttisáætlunum þarf að fylgja eftir með viðeigandi aðgerðum, rétt eins og kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 96/2000. Við upphaf tímabilsins höfðu fjögur ráðuneyti ekki sett sér jafnréttisáætlun. Nú þegar gildistími áætlunarinnar er hálfnaður hafa öll ráðuneytin nema forsætisráðuneytið sett sér jafnréttisáætlun. Forsætisráðuneytið starfar hins vegar samkvæmt jafnréttisáætlun stjórnarráðsins. Hér ber að taka fram að þrjú ráðuneyti hafa ekki skipað jafnréttisnefnd, þ.e. landbúnaðarráðuneyti, samgönguráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti.
    Verkefnið jafnréttisáætlanir og nefndir ráðuneyta (verkefni 3) fjallar sérstaklega um þetta mál en það verður áfram á dagskrá í öllum ráðuneytum ásamt aukinni áherslu á jafnréttismál stofnana. Þrjú verkefni tengjast þeirri vinnu, þ.e. skipun tengiliða jafnréttismála í öllum stofnunum ráðuneyta (verkefni 4), jafnréttissjónarmið verði tryggð við stöðuveitingar (verkefni 5) og staða kvenna í yfirstjórnum ráðuneyta og stofnunum þeirra (verkefni 6). Farið verður árlega yfir árangur þessara verkefna í greinargerð jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna til Jafnréttisstofu og er það í samræmi við starfsreglur þeirra.

4. Eftirfylgni með framkvæmdaáætlun.
    Samhliða þessari endurskoðun á miðju gildistímabili framkvæmdaáætlunarinnar er gerð úttekt á stöðu verkefna hennar. Til að tryggja að raunverulegur árangur náist við framkvæmd þeirra verkefna sem hér eru talin er mikilvægt að gerð sé úttekt á árangri ríkisstjórnarinnar í lok gildistímans. Þar skal meta hvert verkefni, hvort sem því er lokið eða ekki, og leggja mat á þau áhrif sem það hefur haft.

IV. Verkefni ráðuneytanna.

    Eftirfarandi verkefni eru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og taka öll ráðuneytin þátt í þeim:
     A. Verkefni allra ráðuneytanna.
     1.      Jöfnun á kynjahlutfalli í nefndum, ráðum og stjórnum.
     2.      Fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneyta.
     3.      Jafnréttisáætlanir og jafnréttisnefndir ráðuneyta og stofnana.
     4.      Skipun tengiliða jafnréttismála í öllum stofnunum ráðuneyta.
     5.      Jafnréttissjónarmið tryggð við stöðuveitingar.
     6.      Staða kvenna í yfirstjórnum ráðuneytanna og stofnana þeirra.
     B. Forsætisráðuneyti.
     7.      Birting á rannsóknum og niðurstöðum verkefna sem hlotið hafa styrk úr Jafnréttissjóði.
     C. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
     8.      Mansal.
     9.      Vernd vitna og þolenda afbrota.
     10.      Aðbúnaður kvenna innan lögreglunnar.
     D. Félagsmálaráðuneyti.
     11.      Yfirstjórn samþættingar jafnréttissjónarmiða.
     12.      Nefndir og ráð í sveitarfélögum.
     13.      Framkvæmd laganna um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.
     14.      Jafnrétti í vinnumiðlun.
     15.      Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti.
     16.      Karlar til ábyrgðar.
     17.      Samþætting kynjasjónarmiða á sviði málefna fatlaðra.
     18.      Samþætting á sviði barnaverndar.
    Samstarfsaðili í eftirtöldum verkefnum:
     7.      Birting á rannsóknum og niðurstöðum verkefna er hlotið hafa styrk úr Jafnréttissjóði.
     8.      Mansal.
     9.      Vernd vitna og þolenda afbrota.
     32.      Konur í atvinnurekstri.
     46.      Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
     E. Fjármálaráðuneyti.
     19.      Úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun karla og kvenna.
     F. Hagstofa Íslands.
     20.      Konur og karlar í atvinnurekstri.
     21.      Laun kvenna og karla eftir starfsgreinum.
     G. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
     22.      Áhrif klámvæðingar á ungt fólk.
     23.      Heilsufarskönnun.
     24.      Notkun kvenna og karla á heilsugæslunni.
     25.      Mat á árangri og gæðum heilbrigðisþjónustunnar.
     26.      Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
     27.      Áhættuhegðun karla.
     28.      Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
     29.      Jafnrétti og lýðheilsa.
    Samstarfsaðili í eftirtöldum verkefnum:
     16.      Karlar til ábyrgðar.
     H. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
     30.      Konur og stjórnun fyrirtækja.
     31.      Stuðningur við konur í atvinnurekstri.
     32.      Konur í atvinnurekstri.
     33.      Úttekt á styrkjum, lánum og fjárfestingum ráðuneytisins.
     34.      Aukin tækifæri í forustu atvinnulífsins.
     I. Landbúnaðarráðuneyti.
     35.      Lifandi landbúnaður – Gullið heima.
     36.      Jafnrétti í skráningu eignarréttinda í landbúnaði.
     J. Menntamálaráðuneyti.
     37.      Konur í vísindum.
     38.      Jafnrétti og listir.
     39.      Jafnréttiskennsla í skólum.
     40.      Starfs-, sí- og endurmenntun.
     K. Samgönguráðuneyti.
     41.      Störf kvenna á skipum.
     42.      Staða kvenna í íslenskri ferðaþjónustu.
     L. Sjávarútvegsráðuneyti.
     43.      Úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi.
     44.      Úttekt á störfum kvenna í minni sjávarútvegsfyrirtækjum (fjölskyldufyrirtækjum) á Íslandi.
     M. Umhverfisráðuneyti.
     45.      Konur og Staðardagskrá 21.
     N. Utanríkisráðuneyti.
     46.      Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
     47.      Jafnréttisstarf fulltrúa á vegum UNIFEM í löndum þar sem alþjóðlegt uppbyggingarstarf á sér stað.
     48.      Samþætting kynjasjónarmiða í starfi íslensku friðargæslunnar. Gerð aðgerðaáætlunar vegna ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá árinu 2000.
    Samstarfsaðili í eftirtöldum verkefnum:
     8.      Mansal.

    Nánar er fjallað um hvert verkefni fyrir sig hér á eftir.

A. Verkefni allra ráðuneytanna.
1.    Jöfnun á kynjahlutfalli í nefndum, ráðum og stjórnum.
Meginhugmynd:    Að ná fram sem jöfnustu hlutfalli karla og kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Því jafnari sem hlutföll karla og kvenna eru þar sem verið er að móta nýja stefnu því meiri líkur eru á því að ákvarðanir sem teknar eru endurspegli bæði hagsmuni kvenna og karla. Þess vegna er mikilvægt að ganga úr skugga um hvort nýttir séu hæfileikar og menntun beggja kynjanna þegar verið er að móta stefnu og taka ákvarðanir. Þetta á einnig við þar sem verið er að setja pólitísk markmið. Þar sem kynjahlutföll eru mjög mismunandi í ráðuneytunum skal fylgjast með bæði heildartölum og skipan í nefndir, ráð og stjórnir. Þannig sést best hvort breytingar séu í framkvæmd.
    Hægt væri að ná fram jöfnuði með því að hvert ráðuneyti tæki upp eftirfarandi verklag:
          Þegar óskað er eftir tilnefningu frá aðilum utan ráðuneytanna verði farið fram á að fyrir hvern einn fulltrúa verði tveir einstaklingar tilnefndir, hvor af sínu kyni.
          Þegar skipað er í nefndir, ráð og stjórnir án tilnefninga verði þegar í stað tekin upp sú regla að kynjahlutfall sé sem jafnast innan hvers hóps.
          Til að ná fram jöfnuði innan hvers ráðuneytis verði haft í huga við skipun í einstaka nefndir, ráð og stjórnir að þar sé annað kynið í meiri hluta til að rétta af ójafnvægi innan annarra nefnda.
Markmið:    Að jafna hlut kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera þannig að kynjahlutföll séu aldrei meira en 60%–40% öðru kyninu í hag. Þau ráðuneyti sem þegar hafa náð þessu hlutfalli skulu gæta þess að vera áfram sem næst jafnri skiptingu kynjanna.
Ábyrgð á framkvæmd:     Ríkisstjórnin.
Aðrir þátttakendur:     Öll ráðuneyti.
Tímaáætlun:    Frá gildistöku þingsályktunarinnar skipi öll ráðuneyti jafnan hlut kvenna og karla í nefndir, ráð og stjórnir. Hlutföll við lok gildistíma eiga að vera innan marka 60–40%.
Staða:     Í vinnslu. Gagnaöflun árleg.

2.     Fræðsla um jafnréttismál fyrir stjórnendur og starfsmenn ráðuneyta.
Meginhugmynd:    Að halda fræðslu- og umræðufundi um jafnréttismál fyrir starfsmenn ráðuneyta og stofnana þeirra, ásamt pólitískt kjörnum fulltrúum framkvæmdarvaldsins.
    Að halda reglulega námskeið um jafnréttismál fyrir starfsmenn í ráðuneytum, stjórnendur og tengiliði stofnana.
    Að hvetja jafnréttisfulltrúa, jafnréttisnefndir og stjórnendur til að sækja námskeið og ráðstefnur um jafnréttismál.
Markmið:    Að gera fræðslu um jafnréttismál hluta af starfi ráðuneytanna og stofnana þeirra þannig að starfsmenn verði meðvitaðir um mikilvægi málaflokksins.
Ábyrgð á framkvæmd:     Ríkisstjórnin, Jafnréttisstofa og félagsmálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Öll önnur ráðuneyti og Reykjavíkurborg.
Tímaáætlun:     Námskeið skulu haldin út gildistíma áætlunarinnar.
Áætlaður kostnaður:     1 millj. kr. fyrir hvert ráðuneyti á gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar.
Staða:     Verður unnið að áfram.

3.     Jafnréttisáætlanir og jafnréttisnefndir ráðuneyta og stofnana.
Meginhugmynd:    Jafnréttisáætlanir eru nauðsynlegt tæki fyrir ráðuneytin til að tryggja framgang jafnréttismála. Með setningu áætlunar er það skjalfest að ráðuneytið ætli sér að sinna þessum málaflokki. Starfsmönnum og stjórnendum er þá kleift að kynna sér innihald hennar. Einnig setur það fordæmi fyrir atvinnulífið að í öllum ráðuneytum sé til slík áætlun því að samkvæmt lögum nr. 96/2000 er öllum fyrirtækjum og stofnunum með fleiri en 25 starfsmenn skylt að setja sér jafnréttisáætlun.
    Þá er nauðsynlegt að jafnréttisnefnd sé í hverju ráðuneyti til að tryggja órofið samhengi jafnréttismála innan ráðuneytis. Jafnréttisnefnd er bakhjarl fyrir jafnréttisfulltrúann og er hlutverk hennar meðal annars að veita honum aðhald og aðstoð við þróun og endurskoðun áætlunar.
    Hvert ráðuneyti ber einnig ábyrgð á því að stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn setji sér jafnréttisáætlanir. Til að tryggja áhrif nefndarinnar er mikilvægt að í henni sitji fulltrúar yfirstjórnar, t.d. starfsmanna- eða rekstrarstjóri eða aðstoðarmaður ráðherra, auk jafnréttisfulltrúa og fulltrúa almennra starfsmanna.
    Hlutverk nefndarinnar verði meðal annars að fylgjast með stöðu jafnréttismála á hverjum tíma og gera viðvart ef eitthvað má betur fara á því sviði. Einnig að funda reglulega, hið minnsta árlega, með yfirstjórn ráðuneytisins og gera tillögur um úrbætur og framfarir eftir því sem tilefni gefast. Þá skal nefndin einnig endurskoða árlega jafnréttisáætlun ráðuneytisins.
Markmið:    Að gera jafnréttisstarf sýnilegra og markvissara í ráðuneytinu.
    Að öll ráðuneyti setji sér jafnréttisáætlanir fyrir endurskoðun áætlunarinnar og skipi jafnréttisnefnd sem er jafnréttisfulltrúa til halds og trausts. Þau ráðuneyti sem þegar hafa sett sér jafnréttisáætlun tryggja að markmiðum hennar sé framfylgt.
Ábyrgð á framkvæmd:     Ríkisstjórnin.
Aðrir þátttakendur:     Öll ráðuneyti. Stofnanir með fleiri en 25 starfsmenn.
Tímaáætlun:     Öll ráðuneyti skipi jafnréttisnefnd fyrir lok gildistíma áætlunarinnar.
Staða:    Í vinnslu. Gagnaöflun árleg. Öll ráðuneyti hafa sett sér jafnréttisáætlun nema forsætisráðuneyti sem starfar eftir jafnréttisáætlun stjórnarráðsins.

4.     Skipun tengiliða jafnréttismála í öllum stofnunum ráðuneyta.
Meginhugmynd:    Jafnréttismál skipta ekki einungis máli í ráðuneytunum, heldur einnig í stofnunum þeirra. Því er nauðsynlegt að jafnréttisfulltrúar myndi tengsl við stofnanir og að settur sé tengiliður í hverri stofnun sem er ábyrgur fyrir að miðla upplýsingum um jafnréttismál til starfsmanna og stjórnenda stofnunarinnar. Þar sem tengiliðir hafa verið tilnefndir þarf að fylgjast með því að sá starfsmaður sinni skyldum sínum varðandi þennan málaflokk. Því er nauðsynlegt að bjóða upp á fræðslu og gera upplýsingar aðgengilegar fyrir þessa aðila. Fyrir minni stofnanir er nóg að tilnefna tengiliði, en stærri stofnanir þurfa að tilnefna jafnréttisfulltrúa og setja sér sérstaka jafnréttisáætlun. Þá skulu jafnréttisfulltrúar hafa eftirlit með framkvæmdinni.
Markmið:    Að tilnefna tengiliði sem sinna jafnréttismálum í öllum stofnunum ráðuneyta fyrir lok tímabilsins.
Ábyrgð á framkvæmd:     Ríkisstjórnin.
Aðrir þátttakendur:     Öll ráðuneyti.
Staða:     Í vinnslu. Gagnaöflun árleg.

5.     Jafnréttissjónarmið tryggð við stöðuveitingar.
Meginhugmynd:    Það er nauðsynlegt að jafnréttissjónarmið séu í viðhöfð við stöðuveitingar á vegum hins opinbera. Þetta sjónarmið verður einnig að vera sýnilegt þeim sem sækja um viðkomandi störf. Í atvinnuauglýsingum þarf að koma fram að jafnréttissjónarmið séu höfð í huga við ráðningar. Þegar um er að ræða starfsstétt eða -vettvang þar sem annað kynið er í miklum meiri hluta er sjálfsagt að taka fram að „karlar jafnt sem konur“ séu hvattir til að sækja um með það kynið framar sem er í minni hluta. Annars er mælt með orðalaginu „að við stöðuveitingar séu jafnréttissjónarmið höfð í huga“.
Markmið:    Að jafna hlut kynjanna í starfsstéttum og á vinnustöðum og gera jafnréttissjónarmið ráðuneytanna opinbert og gegnsætt einstaklingum sem eru í starfsleit.
Ábyrgð á framkvæmd:     Ríkisstjórnin.
Aðrir þátttakendur:     Öll ráðuneyti.
Staða:     Í vinnslu. Gagnaöflun árleg.

6.     Staða kvenna í yfirstjórnum ráðuneytanna og stofnana þeirra.
Meginhugmynd:    Að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast í yfirmannastöðum innan hvers ráðuneytis og stofnana þeirra.
    Til að markmiðinu sé náð skal fara fram könnun á því hvert hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum í hverju ráðuneyti sé og í stofnunum. Í kjölfar þeirrar könnunar mun verða sett raunhæft markmið í samræmi við niðurstöðu hennar.
Markmið:    Að hlutfall karla og kvenna sé sem jafnast í yfirmannastöðum innan hvers ráðuneytis og stofnana þeirra.
Ábyrgð á framkvæmd:     Ríkisstjórnin.
Aðrir þátttakendur:     Öll ráðuneyti.
Staða:     Í vinnslu. Gagnaöflun árleg.

B. Forsætisráðuneyti.
7.    Birting á rannsóknum og niðurstöðum verkefna sem hlotið hafa styrk úr Jafnréttissjóði.
Meginhugmynd:    Í reglum um úthlutun styrkja Jafnréttissjóðs er kveðið á um að rannsóknir og niðurstöður verkefna sem hlotið hafa styrk úr sjóðnum skuli birtar almenningi. Til þess að þetta nái fram að ganga er nauðsynlegt að skipuleggja fyrir fram ákveðið verklag, t.d. hvar og með hvaða hætti rannsóknir og niðurstöður þeirra verða birtar. Við nánari útfærslu er enn fremur nauðsynlegt að huga sérstaklega að reglum um höfundarrétt og um upplýsingarétt almennings.
Markmið:    Að vandaðar kynjarannsóknir sem styrktar eru af opinberu fé séu aðgengilegar jafnt fræðimönnum sem almenningi.
Ábyrgð á framkvæmd:     Forsætisráðuneytið og stjórn Jafnréttissjóðs.
Aðrir þátttakendur:     Félagsmálaráðuneyti og Jafnréttisstofa.
Tímaáætlun:    Fyrir lok gildistíma framkvæmdaáætlunarinnar verði gefnar út sérstakar leiðbeiningar um verklag við birtingu og kynningu rannsókna sem styrktar hafa verið af Jafnréttissjóði.

C. Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
8.     Mansal.
Meginhugmynd:    Ráðuneytið mun áfram leggja áherslu á aðgerðir til að koma í veg fyrir verslun með fólk, sem beinist einkum að konum og börnum.
    Ráðuneytið mun í þessu skyni framkvæma, stuðla að og taka þátt í eftirfarandi:
          Ráðstefnu um mansal og aðgerðir gegn því.
          Alþjóðlegu samstarfi um aðgerðir gegn mansali.
          Fullgildingu Palermó-samningsins, samnings Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn verslun með fólk, einkum konur og börn.
          Aðgerðaáætlun til að koma í veg fyrir mansal.
Markmið:     Að koma í veg fyrir verslun með fólk, einkum konur og börn.
Ábyrgð á framkvæmd:     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Áætlaður kostnaður:     250.000 kr.
Annað:    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið tók þátt í ráðstefnu sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir 19. mars 2004. Kostnaður var áætlaður 100.000 kr.
    Fyrirhugað er að stofna starfshóp til undirbúnings áætlunar um aðgerðir gegn verslun með fólk. Kostnaður er áætlaður 150.000 kr.
Staða:     Í vinnslu. Alþjóðlegu samstarfi hefur verið komið á.

9.     Vernd vitna og þolenda afbrota.
Meginhugmynd:    Ráðuneytið mun áfram vinna að vitnavernd og bættri réttarstöðu þolenda afbrota. Hluti af því starfi snýr að vernd kvenna sem verða fyrir ofbeldi eða hótunum frá maka eða fyrrverandi maka.
    Ráðuneytið mun í þessu skyni framkvæma, stuðla að og taka þátt í eftirfarandi:
          Norrænu samstarfi um vitnavernd.
          Nefnd um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum.
Markmið:     Að styrkja vitnavernd og bæta réttarstöðu þolenda afbrota, einkum kvenna og barna.
Ábyrgð á framkvæmd:     Dóms og kirkjumálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Félagsmálaráðuneytið.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Staða:     Í vinnslu. Fulltrúi hefur sótt fundi sérfræðinefndar Evrópuráðsins um málefnið.

10.     Aðbúnaður kvenna innan lögreglunnar.
Meginhugmynd:    Frá árinu 1996 hefur markvisst verið unnið að því að fjölga konum innan lögreglunnar. Þá hefur einnig verið unnið að því að hvetja konur jafnt sem karla til að sækja um lausar yfirmannastöður innan lögreglunnar. Huga þarf betur að stöðu kvenna innan lögreglunnar, þ.e. hvort nægilega vel sé að þeim búið, svo sem varðandi aðstöðu og ytri umbúnað.
    Til að ná þessu markmiði verður efnt til fundar með fulltrúum lögreglukvenna og yfirstjórn lögreglunnar.
Markmið:    Markmiðið er að huga sérstaklega að aðbúnaði kvenna innan lögreglunnar og gera úrbætur ef þurfa þykir.
Ábyrgð á framkvæmd:     Dóms- og kirkjumálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Ríkislögreglustjóri.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Staða:     Í vinnslu.

D. Félagsmálaráðuneyti.
11.     Yfirstjórn samþættingar jafnréttissjónarmiða.
Meginhugmynd:    Að eitt ráðuneyti taki forustu og ábyrgð á að fylgjast með framgangi samþættingar verkefna ráðuneytanna.
Markmið:    Markmiðið er að eitt ráðuneyti hafi umsjón með framgangi verkefna og taki forustu um að samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða verði hluti af stefnumótunarvinnu ráðuneytanna. Jafnréttisfulltrúar eru tengiliðir milli ráðuneytanna í þessu verkefni.
Ábyrgð á framkvæmd:     Félagsmálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Öll ráðuneyti.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Staða:     Í vinnslu og verður unnið áfram.


12.     Nefndir og ráð í sveitarfélögum.
Meginhugmynd:    Skoðað verður hlutfall kynjanna í sveitarstjórnum og byggðaráðum og öðrum nefndum og ráðum sveitarfélaga. Þá verði einnig kannað hvernig hlutfall kynjanna skiptist í nefndum miðað við eðli nefndanna.
Markmið:    Komast að því hvernig skipting kynjanna liggur í nefndum sveitarfélaga. Ef skiptingin er meiri en 60%–40% þá verði leitað leiða til að jafna hlut kynjanna í nefndum sveitarfélaganna.
Ábyrgð á framkvæmd:     Félagsmálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Jafnréttisstofa.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Staða:     Í vinnslu. Evrópuverkefni Jafnréttisstofu, Jafnréttisvogin.

13.     Framkvæmd laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000.
Meginhugmynd:    Settur verði á fót vinnuhópur sem yfirfari framkvæmd laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum, og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna. Vinnuhópurinn fari yfir og kynni sér ábendingar sem borist hafa, svo sem álit umboðsmanns Alþingis, úrskurði úrskurðarnefndar um fæðingar- og foreldraorlofsmála og rannsóknir og úttektir sem liggja fyrir um framkvæmd gildandi laga og reglugerða.
Markmið:    Að finna hugsanlega hnökra á löggjöfinni og koma með ábendingar um það sem betur mætti fara.
Ábyrgð á framkvæmd:     Félagsmálaráðuneytið.
Tímaáætlun:     Vinnuhópurinn skili niðurstöðum árið 2007.


14.     Jafnrétti í vinnumiðlun.
Meginhugmynd:    Kannað verði hvort úrræði svæðisvinnumiðlana nýtist körlum og konum jafn vel. Jafnframt verði kannað hvort um kynbundna vinnumiðlun og ráðgjöf sé að ræða og ef svo er verði leitað leiða til að brjóta niður það kynbundna val.
Markmið:    Að koma í veg fyrir kynbundnar hindranir í vinnumiðlun og stuðla að því að konum og körlum bjóðist í jöfnum mæli störf á svæðisvinnumiðlunum.
Ábyrgð á framkvæmd:     Félagsmálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Vinnumálastofnun.
Tímaáætlun:     Áætlað er að verkefninu ljúki á árinu 2007.
Annað:    Gerð verður úttekt og kannaðir möguleikar á að setja á fót reynsluverkefni innan einstakra vinnumiðlana.
Staða:     Verkefnið er komið af stað.

15.     Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti.
Meginhugmynd:    Að samstarfshópur félagsmálaráðuneytis, heildarsamtök starfsmanna ríkis og sveitarfélaga ásamt sérfræðingum vinni að undirbúningi framkvæmdaáætlunar til að ná fram fullu launajafnrétti. Við gerð áætlunarinnar verði tekið tillit til 14. og 22. gr. laga nr. 96/2000 og niðurstaðna rannsókna sem unnar hafa verið. Í fyrri framkvæmdaáætlun sneru verkefnin „kynbundinn launamunur“ og „launamyndun og kynbundinn launamunur“ að launajafnrétti og nýta á niðurstöður þeirra til að móta aðgerðaáætlunina.
Markmið:     Að takast á við launamun kynjanna á markvissan hátt.
Ábyrgð á framkvæmd:     Félagsmálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Jafnréttisráð.
Tímaáætlun:     2006–2008.
Staða:     Óskað hefur verið eftir tillögum frá Jafnréttisráði og hafist verður formlega handa við gerð framkvæmdaáætlunar á fyrri hluta árs 2007.

16.     Karlar til ábyrgðar.
Meginhugmynd:    Framhald verkefnis frá eldri framkvæmdaáætlun. Mikilvægt er að þróaðar verði aðferðir til að aðstoða karla sem vilja hætta að beita konur ofbeldi.
Markmið:     Að boðið verði upp á meðferð fyrir karla sem beita konur ofbeldi.
Ábyrgð á framkvæmd:     Félagsmálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Jafnréttisstofa, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, sem og frjáls félagasamtök.
Tímaáætlun:     Verkefni til þriggja ára, þ.e. til loka ársins 2007.
Staða:     Verkefni hafið og fjárveiting tryggð út gildistíma áætlunarinnar.

17.     Samþætting kynjasjónarmiða á sviði málefna fatlaðra.
Meginhugmynd:    Sú þjónusta sem veitt er fólki með fötlun á grundvelli laga um málefni fatlaðra verður kyngreind. Sem dæmi verður greint eftir kyni hverjir njóti þjónustu til búsetu og stuðningsfjölskyldna sem og lengd biðtíma eftir þjónustu. Verði niðurstaðan sú að þjónusta svæðisskrifstofanna nýtist öðru kyninu betur en hinu er mikilvægt að kanna ástæður þess.
Markmið:    Að kanna hvort þjónusta stofnana er starfa á sviði málefna fatlaðra nýtist konum og körlum jafn vel þannig að ekki sé um kynbundna þjónustu að ræða.
Ábyrgð á framkvæmd:     Félagsmálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Svæðisskrifstofa málefna fatlaðra á Reykjanesi.
Tímaáætlun:     2007–2008.

18.     Samþætting á sviði barnaverndar.
Meginhugmynd:    Farið verður yfir þá þjónustu sem veitt er börnum vegna alvarlegra hegðunarerfiðleika, vímuefnaneyslu og ætlaðra afbrota. Greint verður eftir kyni hversu mörg börn leita eftir aðstoð, lengd biðtíma, fjölda þeirra sem fær aðstoð sem og lengd eða umfang aðstoðar. Komi í ljós að annað kynið njóti frekari þjónustu en hitt kynið þarf að skoða ástæður þess, þ.e. hvort kyn hafi þar áhrif.
Markmið:    Að kanna hvort þjónusta stofnana er starfa á sviði barnaverndar nýtist strákum og stelpum jafn vel þannig að ekki sé um kynbundna þjónustu að ræða.
Ábyrgð á framkvæmd:     Félagsmálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Barnaverndarstofa.
Tímaáætlun:     2007–2008.

E. Fjármálaráðuneyti.
19.     Úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun karla og kvenna.
Meginhugmynd:    Af hálfu fjármálaráðuneytis hefur að undanförnu verið unnið markvisst að því að launagögn í nýjum fjárhags- og mannauðskerfum sem ríkið innleiðir standist þær kröfur sem gera verður til þess að unnt sé að meta kynbundinn launamun. Hefur sú vinna legið niðri um nokkurt skeið þar sem undirbúningur og innleiðing kerfanna hefur tekið lengri tíma en upphaflega var gert ráð fyrir. Áætlað er að ljúka frágangi launagagna á ofangreindum forsendum á árinu 2004 svo hægt sé að framkvæma úttekt á árinu 2005. Í kjölfarið er lagt til að fylgst verði reglulega með þróun kynbundins launamunar.
Markmið:    Að hægt sé að meta kynbundinn launamun með launagögnum úr upplýsingakerfum ríkisins og að gerð verði úttekt á áhrifum launakerfis ríkisins á launamun karla og kvenna. Þar á einnig að skoða frekari þóknanir í samræmi við 2. mgr. 14. gr. jafnréttislaga.
Ábyrgð á framkvæmd:     Fjármálaráðuneytið.
Tímaáætlun:     2007.
Staða:     Stefnt er að því að hefjast handa við verkefnið árið 2007.

F. Hagstofa Íslands.
20.     Konur og karlar í atvinnurekstri.
Meginhugmynd:    Unnið verður að þróun aðferða við að meta þátttöku kvenna og karla í atvinnurekstri á grundvelli fyrirtækjaskrár til hagskýrslugerðar sem er í undirbúningi hjá Hagstofu Íslands, auk annarra gagnasafna sem Hagstofan hefur aðgang að.
Markmið:    Í framtíðinni verði hægt að gera reglubundnar mælingar sem veita margþættar upplýsingar um hlut kvenna og karla í atvinnurekstri.
Ábyrgð á framkvæmd:     Hagstofa Íslands.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Staða:     Í vinnslu.
Annað:    Hluti af verkefninu er útgáfa Hagtíðinda 2005:2 Konur í forystu fyrirtækja 1999– 2004. Áætlað er að uppfæra þær upplýsingar reglulega.

21.     Laun kvenna og karla eftir starfsgreinum.
Meginhugmynd:    Í útgáfum launa- og kjaramáladeildar Hagstofunnar er hægt að skoða laun kvenna og karla eftir starfsstéttum, atvinnugreinum og aldri á almennum vinnumarkaði. Enn er ekki hægt að skoða laun kvenna og karla eftir starfsgreinum sem er mun nákvæmari aðgreining. Markmiðið er að birta laun kvenna og karla eftir ákveðnum starfsgreinum á almennum vinnumarkaði þegar því verður við komið.
Markmið:    Að upplýsingar um laun kvenna og karla eftir ákveðnum starfsgreinum á almennum vinnumarkaði verði aðgengilegar þegar því verður við komið.
Ábyrgð á framkvæmd:     Hagstofa Íslands.
Tímaáætlun:     2006–2008.

G. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
22.    Áhrif klámvæðingar á ungt fólk.
Meginhugmynd:    Að sporna við áhrifum klámvæðingar á ungt fólk með rannsókn á áhrifum klámvæðingar á ungt fólk og endurskilgreiningu á kynfræðslu í skólum.
Markmið:     Að stuðla að kynheilbrigði ungs fólks.
Ábyrgð á framkvæmd:     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Menntamálaráðuneytið og Lýðheilsustöð.
Tímaáætlun:     2004–2008
Staða:     Í vinnslu. Stefnt að því að halda málþing þessu tengt.

23.     Heilsufarskönnun.
Meginhugmynd:    Ráðist verði í gerð heilsufarskannana til að afla á staðlaðan og reglubundinn hátt upplýsinga um lífshætti, líðan og heilsufar og greina ólíkar þarfir kynjanna fyrir heilbrigðisþjónustu. Kannanirnar verði hluti af Eurohis-könnun (evrópsku heilsufarskönnuninni) sem gerir mögulegan samanburð við aðrar Evrópuþjóðir.
Markmið:    Að ná fram þeim langtímamarkmiðum í heilbrigðismálum sem fram koma í heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Auk þess er markmiðið að framfylgja stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um heilbrigði fyrir alla.
Ábyrgð á framkvæmd:     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð.
Tímaáætlun:     2004 og 2007.
Áætlaður kostnaður:     15–20 millj. kr.
Annað:     Verkefninu er haldið áfram frá fyrri framkvæmdaáætlun.
Staða:     Áætlun um könnunina liggur fyrir.

24.     Notkun kvenna og karla á heilsugæslunni.
Meginhugmynd:    Safnað verði upplýsingum um notkun kvenna og karla á heilsugæslunni og hvaða úrlausnir þau fá þar.
Markmið:    Að kanna hvort konur og karlar sækist eftir og fái ólíka þjónustu í heilsugæslunni og hvort úrlausnir séu háðar því hvort kynið á í hlut.
Ábyrgð á framkvæmd:     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Landlæknisembættið.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Áætlaður kostnaður:     15 millj. kr. á ári.
Staða:     Í vinnslu.

25.     Mat á árangri og gæðum heilbrigðisþjónustunnar.
Meginhugmynd:    Lagt verði mat á gæði og árangur heilbrigðisþjónustunnar á reglubundinn hátt og þörf fyrir breytingar á áherslum metin.
Markmið:    Að meta þörf fyrir breytingar á áherslum í heilbrigðisþjónustu. Þrjú svið eru einkum nefnd vegna heilsu kvenna, forvarnir og meðferðarúrræði: reykingar, áfengis- og vímuefnameðferð kvenna og skimun vegna brjóstakrabbameins.
Ábyrgð á framkvæmd:     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Áætlaður kostnaður:     35 millj. kr.
Staða:     Í vinnslu.

26.     Feðrafræðsla fyrir verðandi feður.
Meginhugmynd:    Áfram verði unnið að því að koma á sérstakri feðrafræðslu sem hluta af þeim undirbúningi sem verðandi foreldrum er boðið upp á. Jafnframt verði áframhaldandi átak til að tryggja að starfsfólk heilbrigðisstofnana sé meðvitað um mikilvægi þess að feður séu virkir þátttakendur við meðgöngu, fæðingu og umönnun barna.
Markmið:     Aukinn þáttur feðra í meðgöngu, fæðingu og umönnun barna.
Ábyrgð á framkvæmd:     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Heilsugæslustöðvar og sjúkrahús.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Áætlaður kostnaður:     Af rekstrarkostnaði stofnana hverju sinni.
Annað:     Verkefnið var í síðustu framkvæmdaáætlun, en kom ekki til framkvæmda.
Staða:    Unnið hefur verið að þessu verkefni jafnt og þétt á gildistíma áætlunarinnar og verður gert áfram.

27.     Áhættuhegðun karla.
Meginhugmynd:    Karlar og drengir eru mun fleiri en konur meðal þeirra sem slasast, svipta sig lífi og misnota fíkniefni. Hér er um að ræða mikið heilbrigðisvandamál og mikilvægt að leita orsaka þess. Ráðuneytið mun í samstarfi við landlæknisembættið halda áfram að kanna þátt karlmennskuímyndar í þeirri hegðun karla sem veldur slysum, sjálfsvígum og fíkniefnamisnotkun.
Markmið:    Að draga úr sjálfsvígum, slysum og misnotkun fíkniefna. Koma í veg fyrir vangreint þunglyndis- og sjálfsvígsatferli.
Ábyrgð á framkvæmd:     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð.
Staða:     Í vinnslu.

28.     Sérstök herferð í forvörnum gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu.
Meginhugmynd:    Í herferðum sem varða varnir gegn fíkniefna- og tóbaksneyslu verði unnið eftir þeim sjónarmiðum að forsendur neyslu hjá konum og stúlkum annars vegar og körlum og piltum hins vegar kunni að vera mismunandi. Gerðar verði tilraunir í þá veru að beina áróðri og fræðslu sérstaklega til ungra stúlkna.
Markmið:     Koma í veg fyrir aukna áfengis- og tóbaksneyslu stúlkna.
Ábyrgð á framkvæmd:     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Lýðheilsustöð.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Áætlaður kostnaður:     Af tekjum Forvarnasjóðs og tóbaksvarnaráðs.
Staða:     Í vinnslu.

29.     Jafnrétti og lýðheilsa.
Meginhugmynd:    Að Lýðheilsustöð verði efld á sviði jafnréttismála sem snerta lýðheilsu. Lýðheilsustöð geti þannig sinnt forvörnum á sviði jafnréttismála með það að markmiði að koma í veg fyrir kynbundinn heilsufarsvanda meðal þjóðarinnar, t.d. með kynjamiðuðu áróðurs- og fræðslustarfi. Þá gæti Lýðheilsustöð framkvæmt rannsóknir á sviði jafnréttis og heilsufars til að ná fram skýrari mynd af því í hverju kynbundinn heilsufarsmunur liggur.
Markmið:    Að vinna gegn kynbundinni mismunun sem aftur veldur kynbundnum heilsufarsvanda meðal þjóðarinnar.
Ábyrgð á framkvæmd:     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
Aðrir þátttakendur:     Lýðheilsustöð.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Áætlaður kostnaður:     1,3 millj. kr. á ári.
Staða:     Í vinnslu.

H. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti.
30.     Konur og stjórnun fyrirtækja.
Meginhugmynd:    Konur hasla sér völl í atvinnulífinu í síauknum mæli. Meiri hluti nýrra háskólamenntaðra sérfræðinga eru konur. Konur eru hins vegar, enn sem komið er, í miklum minni hluta í yfirstjórnum íslenskra fyrirtækja. Þrátt fyrir að margt bendi til að það muni breytast með aukinni þátttöku vel menntaðra kvenna í atvinnulífinu eru samt sem áður hindranir í vegi því að konur veljist til forustu í stórum fyrirtækjum. Í dag er engin kona forstjóri í skráðu fyrirtæki í Kauphöll Íslands og konur eru einungis 5% stjórnarmanna.
    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti hyggst stuðla að umræðu um þessi mál og hvetja til breytinga. Nefnd verður sett af stað sem skila á af sér fyrir árslok 2004. Verkefni nefndarinnar er að móta tillögur um það hvernig fjölga megi konum í forustu íslenskra fyrirtækja og hvort ástæða sé til að beita stjórnvaldsaðgerðum í því skyni. Nefndin skal meðal annars kanna hvort önnur lönd hafi gripið til ráðstafana í þessu skyni og bera saman stöðu kvenna í atvinnulífinu hér á landi og í nágrannaríkjunum.
    Framhald þessa verkefnis ræðst af þeim tillögum sem koma frá ofangreindri nefnd í árslok 2004.
Markmið:    Að stuðla að fjölgun kvenna í forustu íslenskra fyrirtækja. Hvatt verður til breytinga með jákvæðum og uppbyggilegum hætti. Skoðuð verður upphafsstaða og árangur mældur.
Ábyrgð á framkvæmd:     Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:    Stefnt að þátttöku ýmissa aðila, svo sem Samtaka atvinnulífsins, Hagstofunnar, Félags kvenna í atvinnurekstri o.fl.
Tímaáætlun:     Fyrri áfangi 2004. Seinni áfangi 2005–2008.
Áætlaður kostnaður:    Gert er ráð fyrir að í fyrsta áfanga komi til kostnaður við nefndarstarf, aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga o.fl., samtals 1,5 millj. kr.
Staða:    Fjármögnun verkefnisins hefur verið tryggð til 2008. Nefndin hefur lokið störfum. Í framhaldinu gerðu ráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Félag kvenna í atvinnurekstri samstarfssamning til þriggja ára við Rannsóknasetur vinnuréttar við Háskólann á Bifröst um gerð og birtingu jafnréttiskennitölu. Kennitalan hefur verið birt fyrir árið 2005 og mun birtast tvisvar enn, þ.e. fyrir árin 2006 og 2007.

31.     Stuðningur við konur í atvinnurekstri.
Meginhugmynd:    Að vinna úttekt á því hvaða árangur hefur orðið af verkefnum undanfarinna ára sem hafa haft það að markmiði að örva frumkvæði kvenna í atvinnurekstri. Sérstaklega skal skoða stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi atvinnulífsins hvað varðar styrki, lánsfé og hlutabréf.
Markmið:    Að afla upplýsinga sem geta orðið grundvöllur að frekari aðferðum til að efla þátt kvenna í atvinnurekstri.
Ábyrgð á framkvæmd:     Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Samtök kvenna í atvinnurekstri.
Tímaáætlun:     Áætluð verklok 2008.
Staða:     Í vinnslu.

32.     Konur í atvinnurekstri.
Meginhugmynd:    Verkefnið lýtur að hvatningu til kvenna til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og stuðningi við konur í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Verkefnin eru nokkur, sum þeirra eru viðvarandi og byggð á góðri reynslu.
          Þjónusta við konur í atvinnurekstri hjá Impru. Lögð er sérstök áhersla á að veita konum ráðgjöf sem eru að vinna að ákveðinni viðskiptahugmynd og hyggjast fara út í eigin rekstur.
          Brautargengi. Brautargengi eru námskeið á vegum Iðntæknistofnunar og eru þau ætluð konum sem vilja hrinda viðskiptahugmynd í framkvæmd. Þar eru kennd grundvallaratriði við stofnun og rekstur fyrirtækja.
          Félag kvenna í atvinnurekstri. Félagið var stofnað árið 1999 og er meginmarkmið félagsins að gera konur í atvinnurekstri sýnilegri og um leið að mynda tengslanet fyrir þær.
          Lánatryggingarsjóður kvenna. Sjóðurinn er samstarfsverkefni félagsmálaráðuneytisins, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Sjóðurinn er í samstarfi við Landsbanka Íslands og saman veita þeir tryggingar fyrir lánum.
          Atvinnurekstur kvenna á landsbyggðinni. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið mun fela Byggðastofnun að skoða stöðu kvenna í atvinnurekstri á landsbyggðinni.
Markmið:    Hvetja konur til að hrinda viðskiptahugmyndum sínum í framkvæmd og styðja konur í rekstri lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
Ábyrgð á framkvæmd:     Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið, Iðntæknistofnun og Byggðastofnun.
Aðrir þátttakendur:     Félagsmálaráðuneytið og Félag kvenna í atvinnurekstri.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Áætlaður kostnaður:     Hluti af rekstrarkostnaði Iðntæknistofnunar og Byggðastofnunar.
Staða:     Öll verkefnin eru í farvegi.

33.     Úttekt á styrkjum, lánum og fjárfestingum ráðuneytisins.
Meginhugmynd:    Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið mun láta gera úttekt á því hvort samþættingarsjónarmið hafi verið lögð til grundvallar við töku ákvarðana um styrki, lán og fjárfestingar á vegum ráðuneytisins og tiltekinna stofnana þess.
Markmið:    Að tryggja að konur og karlar hafi jafnan aðgang að styrkjum og lánum sem ráðuneytið og stofnanir þess veita. Niðurstöðunum skulu fylgja hugmyndir til úrbóta ef þurfa þykir.
Ábyrgð á framkvæmd:     Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum við Háskóla Íslands.
Tímaáætlun:     2006–2008.

34.     Aukin tækifæri í forustu atvinnulífsins.
Meginhugmynd:    Námstefna fyrir konur í stjórnunarstöðum og stjórnum fyrirtækja. Kynning í formi fyrirlestra á réttindum og skyldum stjórnarmanna í fyrirtækjum. Áætlað að námstefnan taki hálfan dag og verði haldin í upphafi árs 2007.
Markmið:     Að stuðla að fjölgun kvenna í forustu íslenskra fyrirtækja.
Ábyrgð á framkvæmd:     Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Samtök atvinnulífsins og Félag kvenna í atvinnurekstri.
Tímaáætlun:     Áætluð verklok 2007.
Áætlaður kostnaður:     1–1,5 millj. kr.
Staða:     Haldin var ráðstefna í janúar árið 2007.

I. Landbúnaðarráðuneyti.
35.     Lifandi landbúnaður – Gullið heima.
Meginhugmynd:    Að byggja upp grasrótarhreyfingu sem hafi það að markmiði að fræða og styðja konur í bændastétt og hvetja þær til að koma á framfæri hugmyndum sínum til eflingar atvinnu í sveitum.
Markmið:     Styrkja konur í dreifbýli til sjálfstæðrar atvinnuþátttöku.
Ábyrgð á framkvæmd:     Landbúnaðarráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Félagsmálaráðuneytið og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið.
Tímaáætlun:     2005–2007.
Staða:    Heimasíðan „Lifandi landbúnaður“. Haldin verður ráðstefna í júní árið 2007 og lokafundur um verkefnið í nóvember 2007.

36.     Jafnrétti í skráningu eignarréttinda í landbúnaði.
Meginhugmynd:     Að athuga eignarréttarlega stöðu kvenna í landbúnaði.
Markmið:    Athuga skal hvort þörf sé einhverra aðgerða til að jafna hlut karla og kvenna í þessu tilliti.
Ábyrgð á framkvæmd:     Landbúnaðarráðuneytið.
Samstarfsaðilar:     Jafnréttisnefnd Bændasamtaka Íslands og Háskólinn á Akureyri.
Tímaáætlun:     2006–2008.
Staða:     Vinna hafin. Spurningalisti hefur verið sendur út til allra bænda á landinu.

J. Menntamálaráðuneyti.
37.     Konur í vísindum.
Meginhugmynd:    Menntamálaráðuneytið mun leita eftir samstarfi við aðra aðila um skipan starfshóps (tölfræði- og greiningarhóps) til að afla tölfræðilegra upplýsinga um þátt kvenna í rannsóknum.
    Ráðuneytið gaf út skýrslu í mars 2002 þar sem teknar voru saman tölfræðilegar upplýsingar um stöðu kvenna í vísindum á Íslandi með áherslu á konur starfandi hjá hinu opinbera. Áformað er að fylgja þeirri skýrslu eftir en bæta við og bera saman upplýsingar um stöðu kvenna í rannsóknum hjá fyrirtækjum. Í kjölfarið yrði rætt með hvaða hætti æskilegt væri að auka umræðu og tryggja virka þátttöku kvenna í vísindastarfi í samræmi við vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs frá desember 2003.
Markmið:     Að tryggja virka þátttöku kvenna í vísindum.
Ábyrgð á framkvæmd:     Menntamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Til dæmis iðnaðarráðuneytið, Rannís, Hagstofa Íslands og Impra.
Tímaáætlun:     Unnið verði að verkefninu á tímabilinu.
Áætlaður kostnaður:     Nefndarlaun nefndarmanna.
Staða:     Í vinnslu. Nefnd skipuð og á að skila niðurstöðum 2008.

38.     Jafnrétti og listir.
Meginhugmynd:    Úttekt gerð á stöðu jafnréttis á lista- og menningarsviði. Sérstaklega skal skoða stöðu kvenna gagnvart stuðningskerfi lista- og menningarlífs hvað varðar meðal annars styrki og listamannalaun.
Markmið:    Athuga skal hvort þörf sé einhverra aðgerða til að jafna hlut karla og kvenna á þessu sviði.
Ábyrgð á framkvæmd:     Menntamálaráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Listaháskóli Íslands.
Tímaáætlun:     2004–2008.
Staða:     Undirbúningur við skipan starfshóps er hafinn.

39.     Jafnréttiskennsla í skólum.
Meginhugmynd:    Menntamálaráðuneytið mun áfram leggja áherslu á að skólar vinni ötullega að því að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna. Í aðalnámskrá framhaldsskóla frá janúar 2004 er lögð rík áhersla á jafnréttismál. Þar segir á bls. 5: „Skólum ber að gæta jafnréttis nemenda til náms og bjóða þeim nám og kennslu við hæfi. Mikilvægt er að bæði piltum og stúlkum séu kynnt störf sem hingað til hefur verið litið á sem hefðbundin karla- eða kvennastörf. Skólum ber einnig að gefa nemendum tækifæri til að spreyta sig á viðfangsefnum að eigin vali. Þeir þurfa að höfða jafnt til pilta og stúlkna án tillits til uppruna, í dreifbýli eða þéttbýli, fatlaðra sem ófatlaðra.“
Markmið:    Að tryggja jafnan rétt drengja og stúlkna við námsval og vinna gegn því að nemendur festist í farvegi hefðbundinnar verkaskiptingar kynjanna eins og kveðið er á um í 19. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.
Ábyrgð á framkvæmd:     Menntamálaráðuneytið.
Staða:     Í vinnslu. Endurskoðun aðalnámskráa í grunn- og framhaldsskóla.

40.     Starfs-, sí- og endurmenntun.
Meginhugmynd:    Að efla starfs-, sí- og endurmenntun á vinnumarkaði, ekki síst ófaglærðra kvenna, svo þær verði hæfari til að takast á við verkefni í ört vaxandi tækniþróun á vinnumarkaði. Jafnframt að skoða aðgengi kynjanna að starfs-, sí- og endurmenntun. Hér er bæði átt við námskeið á vegum stéttarfélaganna og háskólanna. Athuga þarf hvaða fólk nýtir sér þessi tækifæri og hverjir gera það ekki, og þá hvers vegna.
Markmið:    Að tryggja að kynin geti bæði nýtt sér þá möguleika sem starfs-, sí- og endurmenntun hefur í för með sér.
Ábyrgð á framkvæmd:     Menntamálaráðuneytið.
Tímaáætlun:     2006–2008.
Annað:     Verkefni var flutt úr félagsmálaráðuneytinu.

K. Samgönguráðuneyti.
41.     Störf kvenna á skipum.
Meginhugmynd:    Gera skal úttekt á störfum kvenna á skipum íslenskra útgerða. Þar verði meðal annars kannað hlutfall kvenna á skipum og lagt mat á vinnuaðstæður þeirra um borð. Í framhaldinu leggur ráðuneytið fram tillögur um úrbætur.
Markmið:    Að auka hlut kvenna á skipum íslenskra útgerða ásamt því að tryggja vinnuaðstæður þeirra.
Ábyrgð á framkvæmd:     Samgönguráðuneytið.
Tímaáætlun:     Gert er ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir í lok árs 2007.
Staða:     Í vinnslu.

42.     Staða kvenna í íslenskri ferðaþjónustu.
Meginhugmynd:    Gera skal rannsókn á stöðu kynjanna innan íslenskrar ferðaþjónustu. Kanna á kynjaímyndir innan ferðaþjónustunnar ásamt því að draga fram áhrif kyns á hlutverk og viðhorf innan starfsgreinarinnar.
Markmið:    Að rannsóknin geti orðið grunnur að tillögum til að jafna stöðu kynjanna innan ferðaþjónustunnar.
Ábyrgð á framkvæmd:     Samgönguráðuneytið.
Tímaáætlun:     2007–2008.
Kostnaður:     500.000 kr.

L. Sjávarútvegsráðuneyti.
43.     Úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi.
Meginhugmynd:    Skipuð verði nefnd í byrjun ársins 2005 til að gera úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi. Tilgangurinn er að kanna við hvers konar störf konur eru í stórum sjávarútvegsfyrirtækjum, en ekki hefur borið mikið á þeim í forustu í greininni.
Markmið:    Að komast að því hvað veldur lítilli þátttöku kvenna í forustu í sjávarútvegi og skoða hvernig hægt er að laða þær til þátttöku.
Ábyrgð á framkvæmd:     Sjávarútvegsráðuneytið.
Tímaáætlun:     2005–2007.
Áætlaður kostnaður:     300.000–400.000 kr.
Staða:    Í vinnslu. Nefnd skipuð árið 2005 og skýrsla hennar verður birt á fyrri hluta árs 2007.

44.    Úttekt á störfum kvenna í minni sjávarútvegsfyrirtækjum (fjölskyldufyrirtækjum) á Íslandi.
Meginhugmynd:    Að kanna við hvers konar störf konur eru í minni sjávarútvegsfyrirtækjum og fjölskyldufyrirtækjum í sjávarútvegi á Íslandi, og hvort munur sé á eðli starfa þeirra þar og í hinum stærri fyrirtækjum. Þannig mundu niðurstöður könnunarinnar gagnast greininni vel til að laða konur til frekari þátttöku.
Markmið:    Að afla gagna til að bera saman eðli starfa kvenna í minni og stærri fyrirtækjum á sviði sjávarútvegs á Íslandi.
Ábyrgð á framkvæmd:     Sjávarútvegsráðuneytið.
Tímaáætlun:     Nefnd verði skipuð árið 2007 og skili tillögum til ráðherra á fyrri hluta árs 2008.
Áætlaður kostnaður:     Áætlaður 600.000–900.000 kr.
Staða:    Nefnd á að skipa árið 2007 þegar niðurstöður nefndar um úttekt á störfum kvenna í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi liggja fyrir.

M. Umhverfisráðuneyti.
45.     Konur og Staðardagskrá 21.
Meginhugmynd:    Gera úttekt á þátttöku og stjórnun kvenna í verkefnum Staðardagskrár 21 á Íslandi. Verkefnið er framhald verkefnis sem unnið var á árunum 2004–2006 um að auka hlut og áhrif kvenna í ákvarðanatöku við eflingu sjálfbærrar þróunar í héraði á Íslandi á grundvelli Staðardagskrár 21 þar sem sveitarfélög og ríki vinna saman.
Markmið:     Að samþætta jafnréttissjónarmið inn í vinnu Staðardagskrár 21 á Íslandi.
Ábyrgð á framkvæmd:     Umhverfisráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Staðardagskrá 21 á Íslandi.
Tímaáætlun:     2007–2008.
Áætlaður kostnaður:     1.500.000 kr.

N. Utanríkisráðuneyti.
46.    Gerð tillagna til ráðherra um sérstaka vinnu- og aðgerðaáætlun um samþættingu kynjasjónarmiða í alþjóðastarfi.
Meginhugmynd:    Að leggja fram tillögur um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í alþjóðlegu samstarfi.
Markmið:    Að fram komi hvernig utanríkisráðherra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda geti, betur en nú er, unnið að framgangi réttindamála kvenna og barna samkvæmt alþjóðasamþykktum sem Ísland er aðili að.
Ábyrgð á framkvæmd:     Utanríkisráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     Félagsmálaráðuneytið.
Tímaáætlun:     Áætluð verklok 2008.
Annað:    Ráðuneytið hefur nú þegar skipað samráðsnefnd utanríkisráðuneytisins og félagsmálaráðuneytisins um gerð slíkra tillagna.
Staða:     Í vinnslu. Samráðshópur hefur verið skipaður.

47.    Jafnréttisstarf fulltrúa á vegum UNIFEM í löndum þar sem alþjóðlegt uppbyggingarstarf á sér stað.
Meginhugmynd:    Utanríkisráðuneytið greiðir kostnað við starf þriggja fulltrúa í löndum þar sem stríð hefur geisað og uppbyggingarstarf á sér stað. Um skeið hefur ráðuneytið kostað einn friðargæsluliða til UNIFEM til að sinna jafnréttisstarfi í Kosovo og hefur mikil ánægja verið með það verkefni. Miðað er við að verkefni íslensku starfsmannanna verði af svipuðum toga og það starf sem unnið var í Kosovo. Starfið þar fólst í því að veita lagalega aðstoð við kynjavæðingu löggjafar. Einnig að veita aðstoð við myndun félagasamtaka sem hafa það markmið að vinna að faglegum álitsgerðum á löggjöf og framkvæmd löggjafar. Þá var og lögð rík áhersla á þjálfun og fræðslu í jafnréttismálum, t.d. fyrir sveitarstjórnir.
Markmið:     Að koma jafnréttissjónarmiðum inn í stjórnkerfi viðkomandi ríkja.
Ábyrgð á framkvæmd:     Utanríkisráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     UNIFEM.
Tímaáætlun:    Utanríkisráðuneytið standi straum af kostnaði þriggja friðargæsluliða til starfa á vegum UNIFEM, í stað eins áður, a.m.k. út þann tíma sem endurskoðuð framkvæmdaáætlun tekur til, þ.e. árin 2007–2008.
Staða:     Í vinnslu.

48.    Samþætting kynjasjónarmiða í starfi íslensku friðargæslunnar. Gerð aðgerðaáætlunar vegna ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 frá árinu 2000.
Meginhugmynd:    Áfram verði lögð áhersla á samþættingu kynjasjónarmiða í starfi Íslensku friðargæslunnar sem hófst árið 2006 þegar utanríkisráðherra boðaði endurskoðun á starfsemi og verkefnavali friðargæslunnar. Sem liður í þessu verkefni verði gerð aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda um framkvæmd ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, stríð og frið. Ályktunin kveður annars vegar á um vernd kvenna í vopnuðum átökum og hins vegar um þátttöku þeirra á öllum stigum ákvarðanatöku, hvort sem um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir, friðarsamningaviðræður, friðargæslu eða enduruppbyggingu.
Markmið:    Tryggja að jafnréttissjónarmið verði höfð í huga í starfi Íslensku friðargæslunnar og að starf hennar sé í samræmi við ályktun nr. 1325.
Ábyrgð á framkvæmd:     Utanríkisráðuneytið.
Aðrir þátttakendur:     UNIFEM.
Tímaáætlun:     2007–2008.