Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 707. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1282  —  707. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, og lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



I. KAFLI
Breyting á lögum um lögheimili, nr. 21/1990.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við síðari málslið 3. mgr. bætist: og á skipulögðu iðnaðar-, athafna- og hafnarsvæði og öðru svæði innan þéttbýlis sem skipulagt er fyrir atvinnustarfsemi nema búseta sé þar heimil samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum.
     b.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein er orðast svo:
             Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. má heimila tímabundna skráningu lögheimilis í starfsmannabústað.
    

2. gr.

    2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð frekari fyrirmæli um skráningu lögheimilis.

II. KAFLI
Breyting á lögum um brunavarnir, nr. 75/2000.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      B-liður orðast svo: gera úttekt á mannvirkjum í notkun og starfsemi í þeim, með tilliti til brunavarna, og á lóðum og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar úrgangs eða geymslu eldfimra efna, og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur á brunavörnum til að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir.
     b.      Á eftir b-lið kemur nýr stafliður, svohljóðandi: hafa, í samvinnu við byggingarfulltrúa, eftirlit með því hvort fólk tekur sér búsetu í atvinnuhúsnæði án þess að leyfi sveitarfélagsins samkvæmt skipulags- og byggingarlögum hafi verið veitt fyrir breyttri notkun þess og grípa til viðeigandi þvingunarúrræða skv. VIII. kafla laga þessara og VI. kafla skipulags- og byggingarlaga ef þörf krefur. Ef ljóst þykir að hætta skapist af slíkri búsetu skal enn fremur kæra málið til lögreglu.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem fram eru settar í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fer fram í mannvirkinu eða á lóð þess á hverjum tíma.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ef breytingar eru gerðar á atvinnuhúsnæði með það að markmiði að nýta það til búsetu ber eiganda að afla sér tilskilinna leyfa áður en fólk tekur sér þar búsetu.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
             Ef ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim eru brotin skal slökkviliðsstjóri þegar í stað gera ráðstafanir til að úr verði bætt. Byggingarfulltrúi eða eftir atvikum heilbrigðisfulltrúi viðkomandi sveitarfélags aðstoðar slökkviliðsstjóra til að knýja eiganda og eftir atvikum forráðamann mannvirkis til úrbóta.
     b.      Á eftir orðinu „notkun“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: starfsemi í því eða á lóðum og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta getur skapast, t.d. vegna starfsemi á svæðinu, söfnunar sorps og annars úrgangs eða geymslu eldfimra efna.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Sé ákvæðum 2. mgr. beitt skal eigandi eða umráðamaður mannvirkis eða lóðar bera kostnað af eftirliti með því að farið hafi verið að kröfum um úrbætur. Sveitarfélag skal setja sér gjaldskrá um fjárhæð gjalda fyrir eftirlit samkvæmt þessari grein og um innheimtu þeirra. Gjöld skulu ekki vera hærri en nemur kostnaði við framkvæmd eftirlitsins. Gjöldum samkvæmt þessari málsgrein fylgir lögveð í viðkomandi fasteign eða lóð og má innheimta gjaldfallin gjöld með fjárnámi.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      Orðin „að fengnu samþykki sveitarstjórnar“ í 1. málsl. falla brott.
     b.      Á eftir 1. málsl. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Slökkviliðsstjóri tekur ákvörðun um að leggja á dagsektir samkvæmt þessari grein.

7. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða er hljóðar svo:
    Ef í ljós kemur að atvinnuhúsnæði er í óleyfi nýtt til búsetu er slökkviliðsstjóra heimilt að krefjast þess, í samvinnu við byggingarfulltrúa, að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur á brunavörnum í húsnæðinu til að tryggja öryggi fólks þrátt fyrir að búseta sé þar óheimil samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Eigi síðar en 1. janúar 2009 skulu eigendur slíks húsnæðis hafa aflað sér leyfis samkvæmt skipulags- og byggingarlögum fyrir breyttri notkun húsnæðisins þannig að búseta verði þar heimil. Fáist ekki slíkt leyfi skal eigandi eigi síðar en 1. mars 2009 rýma húsnæðið og láta af hinni ólögmætu notkun, enda hafi slökkviliðsstjóri ekki fyrir þann tíma fyrirskipað lokun þess skv. 31. gr. Þótt ekki fáist leyfi fyrir búsetu í húsnæðinu á eigandi mannvirkis ekki rétt á skaðabótum vegna kostnaðar hans af úrbótum skv. 1. málsl.

8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


I.

    Á yfirstandandi löggjafarþingi var samþykkt frumvarp félagsmálaráðherra um breytingu á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum, og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, með síðari breytingum. Með lagabreytingunni er lagt bann við því að skrá lögheimili í húsnæði í skipulagðri frístundabyggð. Við meðferð frumvarpsins á Alþingi kom fram að félagsmálanefnd teldi brýnt að fjallað yrði sérstaklega um vandamál sem tengjast búsetu í atvinnuhúsnæði og lagði nefndin áherslu á að tillögur um nauðsynlegar og varanlegar lagabreytingar kæmu fram nægilega fljótt til að hægt yrði að afgreiða þær fyrir lok vorþings.
    Starfshópur sem félagsmálaráðherra skipaði í desember 2006 hefur leitast við að haga störfum sínum í samræmi við framangreindar óskir félagsmálanefndar Alþingis. Í hópnum áttu sæti Björn Karlsson brunamálastjóri, Ellý K. Guðmundsdóttir, sviðsstýra umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sem var formaður nefndarinnar. Stefanía Traustadóttir, sérfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, var starfsmaður starfshópsins.
    Tillögum starfshópsins um lagabreytingar er annars vegar ætlað að skýra reglur um lögheimilisskráningu í atvinnuhúsnæði og hins vegar ábyrgð yfirvalda og eigenda atvinnuhúsnæðis þar sem er ólögmæt búseta.

II. Breytingar á lögum um lögheimili.

    Í frumvarpinu er lagt til, í samræmi við tillögur starfshópsins, að skráning lögheimilis í húsnæði á svæði sem er skipulagt fyrir atvinnustarfsemi verði almennt óheimil, en að mati starfshópsins lýtur búseta í slíku húsnæði svipuðum rökum og nýlegt bann við búsetu í húsnæði í skipulagðri frístundabyggð. Í 4. kafla skipulagsreglugerðar er þéttbýli skipt í landnotkunarflokka. Innan skipulagðs þéttbýlis getur byggð m.a. verið flokkuð í íbúðarsvæði, svæði fyrir þjónustustofnanir, miðsvæði, verslunar- og þjónustusvæði, athafnasvæði, iðnaðarsvæði og hafnarsvæði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skráning lögheimilis verði óheimil í húsnæði á svæðum fyrir atvinnustarfsemi nema með þeim undantekningum sem fram koma í skipulagsreglugerð. Þannig eru íbúðir t.d. ekki heimilar á iðnaðarsvæðum en í undantekningartilvikum er unnt að gera ráð fyrir íbúðum tengdum starfsemi fyrirtækja á hafnarsvæðum og athafnasvæðum, svo sem fyrir húsverði, í skipulagsáætlun. Þar sem aðstæður leyfa er hins vegar heimilt í skipulagsáætlun að gera ráð fyrir íbúðum á verslunar- og þjónustusvæðum og á miðsvæðum. Munu ákvæði frumvarpsins, verði það að lögum, ekki standa í vegi fyrir lögheimilisskráningu í slíku húsnæði.
    Bann við lögheimilisskráningu mun ekki koma í veg fyrir ólögmæta búsetu í atvinnuhúsnæði, hvort sem það er á skipulögðu iðnaðar- og atvinnusvæði eða annars staðar. Með því má hins vegar að einhverju leyti hafa áhrif á þróun slíkrar búsetu og tryggja að sveitarfélög geti haldið óskertu forræði í skipulagsmálum. Önnur úrræði þurfa þó einnig að koma til og hefur starfshópurinn einkum litið til ákvæða laga um brunavarnir og byggingarreglugerðar í því sambandi.
    Að mati starfshópsins er þróunin í þá átt að atvinnurekendur og aðrir aðilar breyti húsnæði, oftast atvinnuhúsnæði, í starfsmannabústaði, sem í 3. gr. reglugerðar um hollustuhætti, nr. 941/2002, er skilgreint sem varanlegt íbúðarhúsnæði sem ætlað er til svefns, matar og daglegrar dvalar starfsfólks í tengslum við atvinnu. Í mörgum tilvikum er tilskilins starfsleyfis fyrir slíkri breytingu aflað. Öryggis- og aðbúnaðarkröfur slíks húsnæðis eru í meginatriðum hinar sömu og gilda um t.d. gististaði. Margt mælir með því að í lögum verði veitt heimild til tímabundinnar lögheimilisskráningar í starfsmannabústöðum. Til dæmis felst í því hvati til þess að húsnæði uppfylli skilyrði lagaákvæða og reglugerða hvað varðar leyfi, brunavarnir, öryggi fyrir íbúa, hollustuhætti og eftirlitsskyldu. Gert er ráð fyrir að nánar verði kveðið á um skilyrði fyrir slíkri skráningu í reglugerð. Einstaklingar sem þessi lagabreyting á við um munu njóta réttinda sem fylgja lögheimilisskráningu, t.d. um almannatryggingar. Breytingin mun hins vegar ekki hafa áhrif á rétt sveitarfélaga til að skipuleggja landnotkun og stýra uppbyggingu þjónustu.
    Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að orðalagi reglugerðarheimildar í 2. mgr. 3. gr. laga um lögheimili verði breytt og orðalag hennar gert almennara en nú er.

III. Lög um brunavarnir.

    Þær breytingar á lögum um brunavarnir sem starfshópurinn leggur til miða að því að koma í veg fyrir að fólk taki sér búsetu í atvinnuhúsnæði án þess að tilskilinna leyfa hafi áður verið aflað. Jafnframt er leitast við að skýra ábyrgð og hlutverk stjórnvalda sem koma að slíkum málum. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins birti nýlega skýrslu um umfang búsetu í atvinnuhúsnæði. Í henni er áætlað að um 1.250 manns búi að staðaldri í slíku húsnæði. Hluti af þessu húsnæði uppfyllir að áliti slökkviliðsins allar kröfur sem gerðar eru til starfsmannabústaða, aðeins er eftir að sækja um starfsleyfi. Þó er algengt að þörf sé úrbóta til að uppfylla eldvarnakröfur sem gerðar eru til íbúðarhúsnæðis. Jafnframt liggur fyrir að í sumu af því húsnæði sem búið er í mun aldrei verða leyfð búseta.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eigendur húsnæðis þar sem nú er ólögmæt búseta geti fengið frest til 1. janúar 2009 til að koma sínum málum í löglegt horf með nauðsynlegum úrbótum á húsnæðinu og leyfisumsókn. Er gert ráð fyrir að slökkvilið um land allt kanni umfang slíkrar búsetu og geri kröfur um nauðsynlegar úrbætur. Þess má vænta að hluta umsókna um byggingar- og starfsleyfi verði synjað, bæði vegna þess að íbúðarbyggð sé andstæð skipulagi og vegna ófullnægjandi ástands húsnæðis. Er tekið fram í 7. gr. frumvarpsins að eigandi húsnæðis sem framkvæmir úrbætur á húsnæðinu í samráði við slökkvilið og byggingaryfirvöld geti ekki átt bótarétt komi til slíkrar synjunar. Fáist ekki leyfi til búsetu í húsnæðinu er skylt að rýma það eigi síðar en 1. mars 2009. Slökkviliðsstjóri metur út frá aðstæðum á hverjum stað hvort hann nýtir heimild bráðabirgðaákvæðisins og hvaða þvingunarúrræðum hann kýs að beita. Ákvæðið kemur ekki í veg fyrir að slökkviliðsstjóri banni notkun mannvirkis og fyrirskipi lokun þess í stað þess að krefjast úrbóta, t.d. ef hann metur fólk í bráðri hættu og ljóst er að búseta á viðkomandi stað fæst aldrei samþykkt, t.d. vegna þeirrar starfsemi sem fram fer í húsinu.
    Í nóvember 2004 varð stórbruni á athafnasvæði fyrirtækisins Hringrásar í Reykjavík þegar eldur kom upp í miklu magni af hjólbörðum sem geymdir voru á lóð fyrirtækisins. Mikinn og þykkan reyk lagði frá svæðinu yfir íbúðarbyggð og þurfti að rýma hús á stóru svæði í nágrenni eldsvoðans. Í kjölfar brunans óskaði umhverfisráðherra eftir úttekt Brunamálastofnunar á atburðinum og skilaði stofnunin skýrslu til ráðherra í janúar 2005. Gerði Brunamálastofnun ýmsar tillögur til úrbóta, m.a. á lögum um brunavarnir, í því skyni að draga úr líkum á því að slík atvik endurtaki sig. Taldi stofnunin að skýra þyrfti heimildir eldvarnaeftirlits til að hafa eftirlit með og afskipti af brunavörnum á lóð og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta gæti skapast. Enn fremur taldi stofnunin að auka þyrfti upplýsingaflæði milli heilbrigðiseftirlits annars vegar og eldvarnaeftirlits hins vegar og er lögð til lítils háttar breyting á lögunum til að ráða bót á því.