Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1357, 133. löggjafarþing 616. mál: neytendavernd (EES-reglur).
Lög nr. 56 27. mars 2007.

Lög um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd.


1. gr.

     Ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2006/2004 frá 27. október 2004 um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd (reglugerð um samvinnu um neytendavernd) skulu hafa lagagildi hér á landi í samræmi við bókun 1 um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem bókunin er lögfest. Reglugerðin er prentuð sem fylgiskjal með lögum þessum.

2. gr.

     Lög þessi gilda um innbyrðis aðstoð stjórnvalda aðildarríkja EES-samningsins vegna brota á þeim ákvæðum um neytendavernd sem falla undir lögin og eiga uppruna sinn í öðru ríki en afleiðingar þess koma fram í.

3. gr.

     Viðskiptaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um samvinnu yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.


Fylgiskjal.


REGLUGERÐ EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS (EB) nr. 2006/2004
     
frá 27. október 2004
     
um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd (reglugerð um samvinnu um neytendavernd)
     
(Texti sem varðar EES)

EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( Stjtíð. ESB C 108, 30.4.2004, bls. 86.),
að höfðu samráði við svæðanefndina,
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( Álit Evrópuþingsins frá 20. apríl 2004 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 7. október 2004.),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:

    1)    Í ályktun ráðsins frá 8. júlí 1996 um samvinnu milli stjórnsýslustofnana um framkvæmd löggjafarinnar um innri markaðinn ( Stjtíð. EB C 224, 1.8.1996, bls. 3.) er viðurkennt að stöðugt þurfi að leitast við að bæta samvinnu milli stjórnsýslustofnana og eru aðildarríkin og framkvæmdastjórnin hvött til að hafa það sem forgangsverkefni að kanna möguleikann á því að styrkja samstarf stjórnvalda við framkvæmd löggjafar.

    2)    Núverandi innlent fyrirkomulag, við framkvæmd laga til verndar hagsmunum neytenda, er ekki lagað að erfiðleikum við framkvæmd þeirra á innri markaðnum og árangursríkt og skilvirkt samstarf í slíkum tilvikum er ekki mögulegt sem stendur. Þessi vandkvæði koma í veg fyrir að opinber yfirvöld, sem framfylgja lögum, geti átt samstarf um að uppgötva, rannsaka og sjá til þess að brot á lögum til verndar hagsmunum neytenda innan Bandalagsins verði stöðvuð eða þau bönnuð. Skortur á árangursríkri lagaframkvæmd á landamærasvæðum gerir því seljendum og birgjum kleift að víkjast undan viðleitni til að framfylgja lögum með því að flytja sig um set innan Bandalagsins. Þetta veldur röskun á samkeppni löghlýðinna seljenda og birgja sem starfa annaðhvort í sínu eigin landi eða handan landamæranna. Erfiðleikar við að framfylgja lögum yfir landamæri grafa einnig undan tiltrú neytenda á tilboðum yfir landamæri og þar með tiltrú þeirra á innri markaðnum.

    3)    Því þarf að auðvelda samstarf milli opinberra yfirvalda, sem bera ábyrgð á framkvæmd laga til verndar hagsmunum neytenda, þegar þau taka á brotum innan Bandalagsins og stuðla að snurðulausri starfsemi innri markaðarins, gæðum og samræmi í framkvæmd laga til verndar hagsmunum neytenda og fylgjast með því að efnahagslegra hagsmuna neytenda sé gætt.

    4)    Í löggjöf Bandalagsins eru ákvæði um samstarfsnet til framkvæmdar lögum um að vernda neytendur umfram efnahagslega hagsmuni þeirra, ekki síst að því er varðar heilsufar. Miðla skal bestu starfsháttum á milli þeirra neta sem komið er á fót með þessari reglugerð og annarra neta.

    5)    Gildissvið ákvæða um gagnkvæma aðstoð í þessari reglugerð skal takmarkast við brot innan Bandalagsins á lögum Bandalagsins til verndar hagsmunum neytenda. Árangursrík meðhöndlun brota í einstökum löndum skal tryggja að engin mismunun eigi sér stað hvort sem um er að ræða innlenda starfsemi eða starfsemi annars staðar í Bandalaginu. Þessi reglugerð hefur ekki áhrif á ábyrgð framkvæmdastjórnarinnar að því er varðar brot einstakra aðildarríkja á lögum Bandalagsins og veitir framkvæmdastjórninni heldur ekki heimild til að stöðva brot sem framin eru innan Bandalagsins og skilgreind í þessari reglugerð.

    6)    Til að vernda neytendur gegn brotum innan Bandalagsins er nauðsynlegt að koma upp neti opinberra yfirvalda sem framfylgja lögum í öllu Bandalaginu og þessi yfirvöld þurfa að lágmarki að hafa almenna rannsóknar- og framkvæmdaheimild til að geta beitt þessari reglugerð á árangursríkan hátt og komið í veg fyrir að seljendur og birgjar geri sig seka um brot innan Bandalagsins.

    7)    Mikilvægt er að lögbær yfirvöld hafi möguleika á því að starfa óhindrað saman á gagnkvæmum grunni, að því er varðar upplýsingaskipti, uppgötvun og rannsókn brota innan Bandalagsins og ráðstafanir til að stöðva eða banna brot, til að geta tryggt snurðulausa starfsemi innri markaðarins og vernd neytenda.

    8)    Lögbær yfirvöld skulu einnig nýta sér aðrar heimildir eða ráðstafanir, sem eru leyfðar á innlendum vettvangi, þ.m.t. heimildir til að hefja mál eða vísa málum til ákæruvaldsins með það fyrir augum að stöðva eða banna þegar í stað brot innan Bandalagsins, að fenginni beiðni um gagnkvæma aðstoð ef um slíkt er að ræða.

    9)    Upplýsingar, sem lögbær yfirvöld skiptast á, skulu vera háðar ítrustu trúnaðarkvöðum og þagnarskyldu til að tryggja að hvorki sé um að ræða málamiðlanir í rannsóknum né að orðspori seljenda eða birgja sé spillt að ósekju. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).) og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 45/2001 frá 18. desember 2000 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga, sem stofnanir og aðilar Bandalagsins hafa unnið og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( Stjtíð. EB L 8, 12.1.2001, bls. 1.) skulu gilda í tengslum við þessa reglugerð.

    10)    Viðfangsefni sem tengjast framkvæmd laga ná yfir landamæri Evrópusambandsins og gæta þarf hagsmuna neytenda í Bandalaginu gagnvart viðskiptaaðilum með staðfestu í þriðju löndum sem starfa ekki innan ramma laganna. Því er nauðsynlegt að gera alþjóðasamninga við þriðju lönd varðandi gagnkvæma aðstoð við framkvæmd laga til verndar hagsmunum neytenda. Þessir alþjóðasamningar skulu gerðir á vettvangi Bandalagsins á svæðum þar sem þessi reglugerð gildir til að tryggja hámarksvernd neytenda í Bandalaginu og snurðulausa samvinnu við þriðju lönd um framkvæmd laga.

    11)    Rétt er að starf aðildarríkjanna í tengslum við lagaframkvæmd vegna brota innan Bandalagsins verði samræmt á vettvangi Bandalagsins með það fyrir augum að gera umbætur á beitingu þessarar reglugerðar og stuðla að auknum gæðum og samræmi í lagaframkvæmd.

    12)    Rétt er að samræma samstarf stjórnsýslustofnana aðildarríkjanna á vettvangi Bandalagsins með hliðsjón af starfsemi þeirra yfir landamæri með það fyrir augum að gera umbætur á beitingu laga til verndar hagsmunum neytenda. Þetta samstarf hefur þegar sýnt sig við stofnun evrópska netsins fyrir mál sem rekin eru utan dómstóla.

    13)    Ef samræmingin á starfsemi aðildarríkjanna samkvæmt þessari reglugerð felur í sér fjárhagsaðstoð Bandalagsins skal ákvörðun um að veita slíka aðstoð tekin í samræmi við málsmeðferðina sem er sett fram í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 20/2004/EB frá 8. desember 2003 um almennan ramma fyrir fjármögnun aðgerða Bandalagsins til stuðnings neytendastefnu á tímabilinu 2004 til 2007 ( Stjtíð. ESB L 5, 9.1.2004, bls. 1. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun nr. 786/2004/EB (Stjtíð. ESB L 138, 30.4.2004, bls. 7).), einkum 5. og 10. aðgerð sem settar eru fram í viðaukanum við þá ákvörðun og í síðari ákvörðunum.

    14)    Neytendasamtök gegna afar mikilvægu hlutverki að því er varðar neytendaupplýsingar og fræðslu og við að vernda hagsmuni neytenda, þ.m.t. við lausn deilumála, og skulu þau hvött til að starfa með lögbærum yfirvöldum að því að gera beitingu þessarar reglugerðar áhrifaríkari.

    15)    Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar vegna framkvæmdar þessarar reglugerðar, skulu samþykktar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdarvalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.).

    16)    Árangursríkt eftirlit með beitingu þessarar reglugerðar og skilvirkni neytendaverndar útheimtir reglulega skýrslugjöf frá aðildarríkjunum.

    17)    Í þessari reglugerð er tekið tillit til grundvallarréttinda og þeim meginreglum fylgt sem eru m.a. viðurkenndar í sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi ( Stjtíð. EB C 364, 18.12.2000, bls. 1.). Þar af leiðandi er rétt að túlka og beita þessari reglugerð með hliðsjón af þeim réttindum og meginreglum.

    18)    Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiðum þessarar tilskipunar, þ.e. samstarfi milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd, vegna þess að þau geta ekki ein tryggt samstarf og samræmi og markmiðunum verður því betur náð á vettvangi Bandalagsins, getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, sem sett er fram í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari reglugerð til að ná því markmiði.
SAMÞYKKT REGLUGERÐ ÞESSA:
I. KAFLI
INNGANGSÁKVÆÐI
1. gr.
Markmið
Í þessari reglugerð er mælt fyrir um við hvaða aðstæður lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum, sem eru tilnefnd ábyrg fyrir framkvæmd laga til verndar hagsmunum neytenda, skuli hafa samstarf sín á milli og við framkvæmdastjórnina til að tryggja að farið sé að þessum lögum og til að tryggja snurðulausa starfsemi innri markaðarins og auka fjárhagslega vernd neytenda.
2. gr.
Gildissvið
1. Ákvæðin um gagnkvæma aðstoð, sem eru sett fram í II. og III. kafla, gilda um brot innan Bandalagsins.
2. Þessi reglugerð er með fyrirvara um reglur Bandalagsins um alþjóðlegan einkamálarétt, einkum reglur í tengslum við lögsögu dómstóls og þá réttarreglu sem beitt er.
3. Þessi reglugerð er með fyrirvara um beitingu ráðstafana er varða dómsmálasamstarf í sakamálum og einkamálum í aðildarríkjunum, einkum starfsemi Evrópunets dómstóla.
4. Þessi reglugerð er með fyrirvara um að aðildarríkin standi við allar viðbótarskuldbindingar í tengslum við gagnkvæma aðstoð við vernd sameiginlegra, fjárhagslegra hagsmuna neytenda, þ.m.t. varðandi sakamál, sem leiðir af öðrum löggerningum, þ.m.t. tvíhliða eða marghliða samningar.
5. Þessi reglugerð er með fyrirvara um tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/27/EB frá 19. maí 1998 um að setja lögbann til verndar hagsmunum neytenda ( Stjtíð. EB L 166, 11.6.1998, bls. 51. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2002/65/EB (Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16).).
6. Þessi reglugerð er með fyrirvara um lög Bandalagsins um innri markaðinn, einkum þau ákvæði sem varða frjálsan flutning á vörum og þjónustu.
7. Þessi reglugerð er með fyrirvara um lög Bandalagsins um sjónvarpsútsendingar.
3. gr.
Skilgreiningar
Í þessari reglugerð er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

    a)    „lög til verndar hagsmunum neytenda“: tilskipanir eins og þær eru leiddar í landslög aðildarríkjanna og reglugerðir sem eru tilgreindar í viðaukanum,

    b)    „brot innan Bandalagsins“: aðgerðir eða aðgerðaleysi andstætt lögum til verndar hagsmunum neytenda, eins og skilgreint er í a-lið, sem skaða, eða eru líkleg til að skaða, sameiginlega hagsmuni neytenda sem hafa búsetu í aðildarríki eða -ríkjum, þó ekki í því aðildarríki þar sem aðgerðirnar eða aðgerðaleysið var upprunnið eða átti sér stað eða þar sem seljandi eða birgir, sem ber ábyrgðina, hefur búsetu eða þar sem finnast sönnunargögn eða eignir sem tengjast aðgerðinni eða aðgerðaleysinu,

    c)    „lögbært yfirvald“: hvaða opinbert yfirvald sem vera skal sem hefur staðfestu annaðhvort á innanlands-, svæðis- eða staðargrundvelli sem hefur sérstökum skyldum að gegna við framkvæmd laga til verndar hagsmunum neytenda,

    d)    „miðlæg tengiskrifstofa“: opinbera yfirvaldið í hverju aðildarríki sem er tilnefnt sem ábyrgðaraðili fyrir samræmingu á beitingu þessarar reglugerðar í því aðildarríki,

    e)    „þar til bær embættismaður“: embættismaður sem er lögbært yfirvald og ber ábyrgð á því að beita þessari reglugerð,

    f)    „yfirvald sem leggur fram beiðni“: lögbært yfirvald sem leggur fram beiðni um gagnkvæma aðstoð,

    g)    „yfirvald sem beiðni er beint til“: lögbært yfirvald sem tekur við beiðni um gagnkvæma aðstoð,

    h)    „seljandi eða birgir“: einstaklingur eða lögaðili sem, að því er varðar lög til verndar hagsmunum neytenda, starfar að sinni atvinnugrein, viðskiptum, iðju eða sérgrein,

    i)    „markaðseftirlitsstarfsemi“: aðgerðir lögbærs yfirvalds sem er tilnefnt til að komast að því hvort brot innan Bandalagsins hafi átt sér stað á umráðasvæði yfirvaldsins,

    j)    „kvartanir neytanda“: yfirlýsing, studd eðlilegum sönnunargögnum, um að seljandi eða birgir hafi brotið, eða sé líklegur til að brjóta, lög sem eru til verndar hagsmunum neytenda,

    k)    „sameiginlegir hagsmunir neytenda“: hagsmunir tiltekins fjölda neytenda sem hafa skaðast eða líklegt er að skaðist vegna brots.
4. gr.
Lögbær yfirvöld
1. Hvert aðildarríki skal tilnefna lögbær yfirvöld og miðlæga tengiskrifstofu sem bera ábyrgð á beitingu þessarar reglugerðar.
2. Hvert aðildarríki getur tilnefnt önnur opinber yfirvöld, ef þörf krefur, til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð. Þau geta einnig tilnefnt stofnanir sem hafa lögmætra hagsmuna að gæta í tengslum við að stöðva eða banna brot innan Bandalagsins í samræmi við 3. mgr. 8. gr.
3. Hvert lögbært yfirvald skal, með fyrirvara um 4. mgr., hafa nauðsynlegar rannsóknar- og framkvæmdaheimildir fyrir beitingu þessarar reglugerðar og skal fara með þær í samræmi við innlend lög.
4. Lögbær yfirvöld geta, í samræmi við innlend lög, beitt heimildunum sem um getur í 3. mgr.:

    a)    annaðhvort beint samkvæmt sínum eigin heimildum eða undir eftirliti dómsmálayfirvalda,

    b)    eða með því að vísa máli til dómstóla sem eru þar til bærir að taka nauðsynlega ákvörðun, þ.m.t. með málskoti ef þörf krefur, ef ekki er orðið við beiðni um að taka þessa nauðsynlegu ákvörðun.
5. Ef lögbær yfirvöld beita heimildum sínum með því að vísa máli til dómstóla, í samræmi við b-lið 4. mgr., skulu þeir dómstólar vera þar til bærir að taka nauðsynlegar ákvarðanir.
6. Þeim heimildum, sem um getur í 3. mgr., skal aðeins beitt ef rökstuddur grunur leikur á um brot innan Bandalagsins og þær skulu a.m.k. fela í sér rétt til þess:

    a)    að fá aðgang að hvers konar viðeigandi skjölum í hvaða formi sem er sem tengjast viðkomandi broti innan Bandalagsins,

    b)    að krefjast þess af hvaða einstaklingi sem er að hann leggi fram viðeigandi upplýsingar í tengslum við viðkomandi brot innan Bandalagsins,

    c)    að framkvæma nauðsynlega vettvangsskoðun,

    d)    að krefjast þess skriflega að viðkomandi seljandi eða birgir láti af viðkomandi broti innan Bandalagsins,

    e)    að fá hjá seljanda eða birgi, sem hefur gerst sekur um brot innan Bandalagsins, loforð um að hann láti af því broti og, eftir því sem við á, birta það loforð,

    f)    að krefjast stöðvunar eða banns við öllum brotum innan Bandalagsins og, eftir því sem við á, að birta þær ákvarðanir sem eru teknar,

    g)    að krefjast þess að stefndi, sem tapar máli, greiði sekt til hins opinbera eða til rétthafa sem er tilnefndur í eða samkvæmt innlendum lögum ef hann fer ekki að ákvörðuninni sem er tekin.
7. Aðildarríkin skulu tryggja að þar til bær yfirvöld fái þá fjármuni sem nauðsynlegir eru til að beita þessari reglugerð. Þar til bærir embættismenn skulu virða faglegar reglur og vera bundnir af viðeigandi innlendri málsmeðferð eða siðareglum sem tryggja einkum vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga, sanngjarna málsmeðferð og að ákvæðin um trúnaðarkvaðir og þagnarskyldu, sem sett eru með 13. gr., séu virt til fulls.
8. Sérhvert lögbært yfirvald skal láta almenning vita af réttindum og skyldum samkvæmt þessari reglugerð og skal tilnefna þar til bæra embættismenn.
5. gr.
Skrár
1. Hvert aðildarríki skal láta framkvæmdastjórnina og hin aðildarríkin vita af því hver lögbær yfirvöld eru, um önnur opinber yfirvöld og stofnanir sem eiga löglegra hagsmuna að gæta varðandi stöðvun og bann við brotum innan Bandalagsins og um miðlægu tengiskrifstofuna.
2. Framkvæmdastjórnin skal birta og uppfæra skrá yfir miðlægar tengiskrifstofur og lögbær yfirvöld í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
II. KAFLI
GAGNKVÆM AÐSTOÐ
6. gr.
Skipti á upplýsingum að fenginni beiðni
1. Yfirvald, sem beiðni er beint til, skal, samkvæmt beiðni þar til bærs yfirvalds, í samræmi við 4. gr., þegar í stað veita allar viðeigandi upplýsingar sem þarf til að ákvarða hvort brot innan Bandalagsins hafi átt sér stað eða til að ákvarða hvort rökstuddur grunur leiki á um að slíkt brot geti átt sér stað.
2. Yfirvald, sem beiðni er beint til, skal gera viðeigandi rannsóknir, með aðstoð annarra opinberra yfirvalda ef þörf krefur, eða hvers konar aðrar, nauðsynlegar eða viðeigandi ráðstafanir í samræmi við 4. gr. til að afla þeirra upplýsinga sem þörf krefur.
3. Yfirvald, sem beiðni er beint til, getur, ef yfirvald sem leggur fram beiðni óskar eftir því, leyft þar til bærum embættismanni yfirvaldsins, sem leggur fram beiðni, að fylgjast með rannsóknum embættismanna yfirvaldsins sem beiðni er beint til.
4. Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
7. gr.
Skipti á upplýsingum án beiðni
1. Ef lögbæru yfirvaldi verður kunnugt um brot innan Bandalagsins, eða hefur rökstuddan grun um að slík brot geti átt sér stað, skal það tilkynna lögbærum yfirvöldum í öðrum aðildarríkjum og framkvæmdastjórninni um það og veita þegar í stað allar nauðsynlegar upplýsingar.
2. Ef lögbært yfirvald gerir frekari ráðstafanir til að framfylgja lögum eða fær beiðni um gagnkvæma aðstoð í tengslum við brot innan Bandalagsins skal það tilkynna lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja og framkvæmdastjórninni um það.
3. Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
8. gr.
Beiðni um ráðstafanir til að framfylgja lögum
1. Yfirvald, sem beiðni er beint til, skal, að fenginni beiðni frá yfirvaldi sem leggur fram beiðni, tafarlaust gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að knýja fram stöðvun eða bann við viðkomandi broti innan Bandalagsins.
2. Til að uppfylla skyldur sínar skv. 1. mgr. skal yfirvald, sem beiðni er beint til, beita þeim heimildum sem eru tilgreindar í 6. mgr. 4. gr. og öllum viðbótarheimildum sem það fær samkvæmt landslögum. Yfirvald, sem beiðni er beint til, skal ákvarða, með aðstoð annarra opinberra yfirvalda ef þörf krefur, hvaða ráðstafanir þurfi að gera til að stöðva eða banna brot innan Bandalagsins á skilvirkan og árangursríkan hátt sem er í réttu hlutfalli við brotið.
3. Yfirvald, sem beiðni er beint til, getur einnig uppfyllt skyldur sínar skv. 1. og 2. mgr. með því að gefa stofnun, sem er tilnefnd í samræmi við annan málslið 2. mgr. 4. gr. og, sem hefur lögmætra hagsmuna að gæta varðandi stöðvun eða bann við brotum innan Bandalagsins, fyrirmæli um að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, sem hún hefur heimild til samkvæmt landslögum, til að stöðva eða banna brot innan Bandalagsins fyrir hönd yfirvaldsins sem beiðni er beint til. Ef sú stofnun vanrækir að sjá til þess að viðkomandi brot innan Bandalagsins sé stöðvað eða bannað þegar í stað hvílir skyldan skv. 1. og 2. mgr. áfram á yfirvaldinu sem beiðni er beint til.
4. Yfirvaldið, sem beiðni er beint til, getur aðeins gert ráðstafanirnar sem eru settar fram í 3. mgr. að höfðu samráði við þar til bært yfirvald um beitingu þessara ráðstafana og að því tilskildu að bæði yfirvaldið sem leggur fram beiðni og yfirvaldið sem beiðni er beint til samþykki:

    –    að líklegt sé að beiting ráðstafananna í 3. mgr. leiði til stöðvunar eða banns við viðkomandi broti innan Bandalagsins á a.m.k. jafn skilvirkan og áhrifaríkan hátt og aðgerð af hálfu yfirvaldsins sem beiðni er beint til
  • og

  •     –    að fyrirmæli til stofnunarinnar, sem er tilnefnd samkvæmt landslögum, leiði ekki til þess að þeirri stofnun séu afhentar neinar upplýsingar sem eru trúnaðarmál skv. 13. gr.
    5. Ef yfirvaldið, sem leggur fram beiðni, er þeirrar skoðunar að skilyrðin, sem sett eru fram í 4. mgr., séu ekki uppfyllt skal það senda yfirvaldinu, sem beiðni er beint til, skriflega tilkynningu um það og tilgreina ástæðurnar fyrir áliti sínu. Ef yfirvaldið, sem leggur fram beiðni, og yfirvaldið, sem beiðni er beint til, eru ekki sömu skoðunar getur síðarnefnda yfirvaldið vísað málinu til framkvæmdastjórnarinnar sem skal skila áliti í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    6. Yfirvald, sem beiðni er beint til, getur haft samráð við yfirvaldið, sem leggur fram beiðni, við gerð ráðstafana til að framfylgja lögum sem um getur í 1. og 2. mgr. Yfirvaldið, sem beiðni er beint til, skal þegar í stað tilkynna yfirvaldinu, sem leggur fram beiðni, lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja og framkvæmdastjórninni um þær ráðstafanir sem eru gerðar og hvaða áhrif þær hafa á brot innan Bandalagsins, þ.m.t. hvort þeim hefur fækkað.
    7. Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    9. gr.
    Samræming starfs við markaðseftirlit og lagaframkvæmd
    1. Lögbær yfirvöld skulu samræma starf sitt við markaðseftirlit og lagaframkvæmd. Þau skulu skiptast á öllum nauðsynlegum upplýsingum til að ná því markmiði.
    2. Ef lögbær yfirvöld fá vitneskju um að brot innan Bandalagsins skaði hagsmuni neytenda í fleiri en tveimur aðildarríkjum skulu viðkomandi lögbær yfirvöld, með milligöngu miðlægu tengiskrifstofunnar, samræma aðgerðir sínar við lagaframkvæmdina og beiðnir um gagnkvæma aðstoð. Þau skulu einkum leitast við að gera rannsóknir og ráðstafanir til að framfylgja lögum samtímis.
    3. Lögbær yfirvöld skulu upplýsa framkvæmdastjórnina fyrir fram um slíka samræmingu og þau geta boðið embættismönnum og fylgdarmönnum þeirra, sem hafa heimild framkvæmdastjórnarinnar, að taka þátt í henni.
    4. Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    10. gr.
    Gagnagrunnur
    1. Framkvæmdastjórnin skal viðhalda rafrænum gagnagrunni þar sem hún skal geyma og vinna upplýsingarnar sem hún fær skv. 7., 8. og 9. gr. Þessi gagnagrunnur skal einungis vera aðgengilegur lögbærum yfirvöldum til skoðunar. Varðandi þá skyldu lögbærra yfirvalda að tilkynna um þær upplýsingar sem á að geyma í gagnagrunninum og vinnslu persónuupplýsinga sem tengjast þeim skulu lögbær yfirvöld teljast vera ábyrgðaraðilar í samræmi við d-lið 2. mgr. tilskipunar 95/46/EB. Varðandi skyldur framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt þessari grein og um vinnslu persónuupplýsinga í því sambandi skulu lögbær yfirvöld teljast vera ábyrgðaraðilar í samræmi við d- lið 2. mgr. reglugerðar (EB) nr. 45/2001.
    2. Ef lögbært yfirvald kemst að raun um að tilkynning skv. 7. gr. um brot innan Bandalagsins reynist ekki á rökum reist skal það draga tilkynninguna til baka og framkvæmdastjórnin skal þegar í stað fjarlægja þær upplýsingar úr gagnagrunninum. Ef þar til bært yfirvald tilkynnir framkvæmdastjórninni skv. 6. mgr. 8. gr. um að látið hafi verið af broti innan Bandalagsins skal eyða skráðum gögnum sem tengjast viðkomandi broti fimm árum eftir að tilkynningin berst.
    3. Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    III. KAFLI
    SKILYRÐI VARÐANDI GAGNKVÆMA AÐSTOÐ
    11. gr.
    Almenn ábyrgð
    1. Lögbær yfirvöld skulu uppfylla skyldur sínar samkvæmt þessari reglugerð eins og væru þau að vinna fyrir hönd neytenda í sínu eigin landi og að eigin frumkvæði eða að beiðni annars lögbærs yfirvalds í heimalandi sínu.
    2. Aðildarríki skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að beiting þessarar reglugerðar af hálfu lögbærra yfirvalda, annarra opinberra yfirvalda, stofnana sem þau hafa tilnefnt og eiga löglegra hagsmuna að gæta varðandi stöðvun eða bann við brotum innan Bandalagsins og þar til bærra dómstóla sé samræmd á skilvirkan hátt, með milligöngu miðlægu tengiskrifstofunnar.
    3. Aðildarríkin skulu hvetja til samstarfs lögbærra yfirvalda og annarra aðila sem, samkvæmt landslögum, hafa löglega hagsmuni af því að stöðva eða banna brot innan Bandalagsins, til að tryggja að hugsanleg brot innan Bandalagsins séu tilkynnt lögbærum yfirvöldum þegar í stað.
    12. gr.
    Málsmeðferð við beiðni um gagnkvæma aðstoð og upplýsingaskipti
    1. Yfirvaldið, sem leggur fram beiðni, skal sjá til þess að öllum beiðnum um gagnkvæma aðstoð fylgi nægar upplýsingar til að unnt sé að verða við beiðninni, þ.m.t. nauðsynleg sönnunargögn sem aðeins er unnt að fá á yfirráðasvæði yfirvaldsins sem leggur fram beiðni.
    2. Yfirvaldið, sem leggur fram beiðni, skal senda beiðnina til miðlægrar tengiskrifstofu yfirvaldsins sem beiðni er beint til með milligöngu miðlægrar tengiskrifstofu yfirvaldsins sem leggur fram beiðni. Miðlæg tengiskrifstofa yfirvaldsins, sem beiðni er beint til, skal þegar í stað senda beiðnir til viðeigandi lögbærs yfirvalds.
    3. Beiðni um aðstoð og öll miðlun upplýsinga skal vera skrifleg á stöðluðu eyðublaði og send rafrænt um gagnagrunninn sem komið er á fót skv. 10. gr.
    4. Viðkomandi lögbær yfirvöld skulu, áður en beiðni er lögð fram, samþykkja tungumálin sem eru notuð í beiðnum og við upplýsingaskipti. Ef samþykki fæst ekki skulu beiðnir sendar á opinberu tungumáli eða tungumálum aðildarríkis yfirvaldsins sem leggur fram beiðni og svörin skulu vera á opinberu tungumáli eða tungumálum aðildarríkis yfirvaldsins sem beiðni er beint til.
    5. Upplýsingar, sem eru sendar í kjölfar beiðni, skulu sendar beint til yfirvaldsins sem leggur fram beiðni og jafnframt til miðlægra tengiskrifstofa yfirvaldsins sem leggur fram beiðni og yfirvaldsins sem beiðni er beint til.
    6. Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    13. gr.
    Notkun upplýsinga og vernd persónuupplýsinga og þagnarskylda og viðskiptaleynd
    1. Upplýsingar, sem eru látnar í té, má einungis nota í þeim tilgangi að tryggja samræmi við lög og verja hagsmuni neytenda.
    2. Lögbær yfirvöld geta borið fyrir sig, sem sönnunargögn, hvers konar upplýsingar, skjöl, niðurstöður, yfirlýsingar, staðfest rétt endurrit eða vitneskju sem er miðlað á sama hátt og svipuðum skjölum sem þau geta fengið í sínu eigin landi.
    3. Upplýsingar, sem eru sendar í einhverju formi til einstaklinga sem vinna fyrir lögbær yfirvöld, dómstóla, önnur opinber yfirvöld og framkvæmdastjórnina, þ.m.t. upplýsingar sem eru tilkynntar til framkvæmdastjórnarinnar og geymdar í gagnasafninu sem um getur í 10. gr. og sem, væru þær látnar af hendi, myndu grafa undan:

        –    friðhelgi einkalífsins og ráðvendni einstaklingsins, einkum í tengslum við lög Bandalagsins um vernd persónuupplýsinga,

        –    viðskiptahagsmunum einstaklings eða lögaðila, þ.m.t. hugverkaréttur,

        –    málarekstri fyrir dómstóli og lögfræðiráðgjöf
  • eða

  •     –    tilganginum með eftirliti eða rannsóknum,
    skulu vera trúnaðarmál og háðar kvöð um þagnarskyldu, nema nauðsynlegt sé að afhenda þær til að stöðva eða banna brot innan Bandalagsins og yfirvaldið, sem sendir upplýsingarnar, samþykki að þær séu látnar af hendi.
    4. Að því er varðar beitingu þessarar reglugerðar skulu aðildarríkin samþykkja þau lagaákvæði sem eru nauðsynleg til að takmarka réttindi og skyldur skv. 10., 11. og 12. gr. tilskipunar 95/46/EB eftir því sem nauðsynlegt er til að standa vörð um þá hagsmuni sem um getur í d- og f-lið 1. mgr. 13. gr. þeirrar tilskipunar. Framkvæmdastjórnin getur takmarkað réttindi og skyldur skv. 4. gr. (1. mgr.), 11. gr., 12. gr. (1. mgr.), 13.–17. gr. og 37. gr. (1. mgr.) í reglugerð (EB) nr. 45/2001 ef slík takmörkun er nauðsynleg ráðstöfun til að verja þá hagsmuni sem um getur í a- og e-lið 1. mgr. 20. gr. þeirrar reglugerðar.
    5. Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    14. gr.
    Upplýsingaskipti við þriðju lönd
    1. Lögbært yfirvald, sem fær upplýsingar frá yfirvaldi í þriðja landi, skal senda upplýsingarnar til viðeigandi lögbærra yfirvalda í öðrum aðildarríkjum svo fremi að það sé leyft í tvíhliða samningi um aðstoð sem gerður er við þetta þriðja land og í samræmi við lög Bandalagsins um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga.
    2. Upplýsingar, sem eru sendar samkvæmt þessari reglugerð, getur lögbært yfirvald einnig sent yfirvaldi þriðja lands samkvæmt tvíhliða samningi um aðstoð sem gerður er við það að því tilskildu að samþykki lögbæra yfirvaldsins, sem sendi upplýsingarnar upphaflega, liggi fyrir og í samræmi við lög Bandalagsins um vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu persónuupplýsinga.
    15. gr.
    Skilyrði
    1. Aðildarríkin skulu falla frá öllum kröfum um endurgreiðslu á kostnaði við beitingu þessarar reglugerðar. Aðildarríki yfirvaldsins, sem leggur fram beiðni, skal þó áfram taka á sig ábyrgð gagnvart aðildarríki yfirvaldsins, sem beiðni er beint til, á kostnaði eða tapi sem myndast í kjölfar ráðstafana sem dómstóll úrskurðar að séu tilefnislausar að því er varðar sakarefni brots innan Bandalagsins.
    2. Yfirvald, sem beiðni er beint til, getur neitað að verða við beiðni um ráðstafanir til að framfylgja lögum skv. 8. gr. eftir að hafa átt viðræður við yfirvaldið sem leggur fram beiðni:

        a)    ef dómsmeðferð hefur þegar farið fram eða dómsyfirvöld í aðildarríki yfirvaldsins, sem beiðni er beint til, eða yfirvaldsins, sem leggur fram beiðni, hafa þegar fellt endanlegan dóm varðandi sama brot innan Bandalagsins og gegn sömu seljendum eða birgjum,

        b)    ef yfirvaldið, sem beiðni er beint til, telur, að lokinni viðeigandi rannsókn, að ekkert brot hafi átt sér stað innan Bandalagsins
  • eða

  •     c)    ef það telur að yfirvaldið, sem leggur fram beiðni, hafi ekki veitt nægar upplýsingar í samræmi við 1. mgr. 12. gr. nema yfirvaldið, sem beiðni er beint til, hafi þegar neitað að verða við beiðninni skv. c-lið 3. mgr. í tengslum við sama brot innan Bandalagsins.
    3. Yfirvald, sem beiðni er beint til, getur neitað að verða við beiðni um upplýsingar skv. 6. gr.:

        a)    ef það telur, eftir viðræður við yfirvaldið sem leggur fram beiðni, að upplýsinganna sé ekki óskað í því skyni að ákvarða hvort brot hafi átt sér stað innan Bandalagsins eða til að ákvarða hvort rökstuddur grunur leiki á um að það geti átt sér stað,

        b)    ef yfirvaldið, sem leggur fram beiðni, fellst ekki á að upplýsingarnar séu háðar ákvæðum um trúnaðarkvaðir og þagnarskyldu sem eru sett fram í 3. mgr. 13. gr.
  • eða

  •     c)    ef rannsókn sakamáls eða dómsmeðferð hefur þegar farið fram eða dómsyfirvöld í aðildarríki yfirvaldsins, sem beiðni er beint til, eða yfirvaldsins, sem leggur fram beiðni, hafa þegar fellt endanlegan dóm varðandi sama brot innan Bandalagsins og gegn sömu seljendum eða birgjum.
    4. Yfirvald, sem beiðni er beint til, getur ákveðið að efna ekki skuldbindingarnar sem um getur í 7. gr. ef rannsókn sakamáls eða dómsmeðferð hefur þegar farið fram eða dómsyfirvöld í aðildarríki yfirvaldsins, sem beiðni er beint til, eða yfirvaldsins, sem leggur fram beiðni, hafa þegar fellt endanlegan dóm varðandi sama brot innan Bandalagsins og gegn sömu seljendum eða birgjum.
    5. Yfirvaldið, sem beiðni er beint til, skal tilkynna yfirvaldinu, sem leggur fram beiðni, og framkvæmdastjórninni um ástæðurnar fyrir því að það neitar að verða við beiðni um aðstoð. Yfirvaldið, sem leggur fram beiðni, getur vísað málinu til framkvæmdastjórnarinnar sem skal skila áliti í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    6. Ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    IV. KAFLI
    AÐGERÐIR BANDALAGSINS
    16. gr.
    Samræming lagaframkvæmdar
    1. Aðildarríkin skulu, í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að ná markmiðum þessarar reglugerðar, tilkynna hvert öðru og framkvæmdastjórninni um starfsemi sína í þágu Bandalagsins á sviðum eins og:

        a)    menntun embættismanna sinna sem annast lagaframkvæmd á sviði neytendaverndar, þ.m.t. tungumálakennsla og námskeiðshald,

        b)    söfnun og flokkun kvartana frá neytendum,

        c)    að koma á fót netum þar til bærra embættismanna í sérstökum atvinnugreinum,

        d)    þróun upplýsinga- og fjarskiptabúnaðar,

        e)    þróun staðla, aðferðafræði og leiðbeininga fyrir embættismenn sem annast lagaframkvæmd á sviði neytendaverndar,

        f)     embættismannaskipti.
    Aðildarríkin geta, í samráði við framkvæmdastjórnina, unnið að sameiginlegri starfsemi á sviðum sem um getur í a- til f-lið. Aðildarríkin skulu, í samvinnu við framkvæmdastjórnina, þróa sameiginlegan ramma um flokkun kvartana frá neytendum.
    2. Lögbær yfirvöld geta skipst á þar til bærum embættismönnum til að bæta samvinnuna. Lögbæru yfirvöldin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera þar til bærum embættismönnum, sem skipst er á, kleift að taka virkan þátt í starfsemi lögbæra yfirvaldsins. Þess vegna skulu slíkir embættismenn fá heimild til að vinna þau skyldustörf sem lögbær yfirvöld í gistiríkinu fela þeim í samræmi við lög viðkomandi aðildarríkis.
    3. Á meðan skiptin standa yfir skal farið með einkaréttarábyrgð og refsiábyrgð þar til bærs embættismanns á sama hátt og embættismanna lögbæra yfirvaldsins í gistiríkinu. Þar til bærir embættismenn, sem skipst er á, skulu virða faglegar reglur og vera bundnir af viðeigandi innlendum siðareglum lögbæra yfirvaldsins í gistiríkinu sem tryggja einkum vernd einstaklinga að því er varðar vinnslu persónulegra gagna, sanngjarna málsmeðferð og að ákvæðin um trúnaðarkvaðir og þagnarskyldu, sem sett eru með 13. gr., séu virt til fulls.
    4. Ráðstafanir Bandalagsins, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, þ.m.t. tilhögun á framkvæmd sameiginlegrar starfsemi, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    17. gr.
    Samvinna á sviði stjórnsýslu
    1. Aðildarríkin skulu, í þeim mæli sem nauðsynlegt er til að ná markmiðum þessarar reglugerðar, tilkynna hvert öðru og framkvæmdastjórninni um starfsemi sína í þágu Bandalagsins á sviðum sem geta verið t.d.:

        a)    upplýsingar og ráðgjöf til neytenda,

        b)    stuðningur við starfsemi fulltrúa neytenda,

        c)    stuðningur við starfsemi stofnana sem bera ábyrgð á lausn deilumála neytenda utan dómstóla,

        d)    stuðningur við aðgang neytenda að réttarkerfinu,

        e)    söfnun tölulegra upplýsinga, niðurstöður rannsókna eða aðrar upplýsingar í tengslum við hegðun neytenda, viðhorf og niðurstöður.
    Aðildarríkin geta, í samráði við framkvæmdastjórnina, unnið að sameiginlegri starfsemi á sviðum sem um getur í a- til e-lið. Aðildarríkin skulu, í samvinnu við framkvæmdastjórnina, þróa sameiginlegan ramma um starfsemina sem um getur í e-lið.
    2. Ráðstafanir Bandalagsins, sem eru nauðsynlegar til framkvæmdar þessari grein, þ.m.t. tilhögun á framkvæmd sameiginlegrar starfsemi, skulu samþykktar í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 19. gr.
    18. gr.
    Alþjóðasamningar
    Bandalagið skal eiga samstarf við þriðju lönd og við þar til bær alþjóðleg samtök á þeim sviðum sem falla undir þessa reglugerð með það fyrir augum að auka vernd fjárhagslegra hagsmuna neytenda. Tilhögun samvinnu, þ.m.t. að koma á fót tilhögun fyrir gagnkvæma aðstoð, getur verið hluti af samningum milli Bandalagsins og viðkomandi þriðju landa.
    V. KAFLI
    LOKAÁKVÆÐI
    19. gr.
    Nefndarmeðferð
    1. Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
    2. Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.
    Fresturinn, sem um getur í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
    3. Nefndin setur sér starfsreglur.
    20. gr.
    Nefndarmeðferð
    1. Nefndin getur skoðað öll mál er varða beitingu þessarar reglugerðar sem formaður hennar leggur fram, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að beiðni fulltrúa aðildarríkis.
    2. Hún getur einkum athugað og metið hvernig sú tilhögun samstarfs, sem kveðið er á um í þessari reglugerð, reynist.
    21. gr.
    Skýrslur
    1. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja eða úr samningum sem þau gera um málefni sem reglugerð þessi nær til, að undanskildum samningum sem fjalla um einstök mál.
    2. Annað hvert ár eftir gildistökudag þessarar reglugerðar skulu aðildarríkin gefa framkvæmdastjórninni skýrslu um beitingu hennar. Framkvæmdastjórnin skal veita almenningi aðgang að þessum upplýsingum.
    3. Í skýrslunum skal fjallað um:

        a)    allar nýjar upplýsingar um stofnunina, heimildir, úrræði og skyldustörf lögbærra yfirvalda,

        b)    allar upplýsingar varðandi þróun, leiðir og aðferðir við að fremja brot innan Bandalagsins, einkum þær sem hafa leitt í ljós galla eða veilur í þessari reglugerð eða í lögunum til verndar hagsmunum neytenda,

        c)    allar upplýsingar um aðferðir við lagaframkvæmd sem hafa reynst árangursríkar,

        d)    samantekt tölulegra upplýsinga varðandi starfsemi lögbærra yfirvalda, s.s. aðgerðir samkvæmt þessari reglugerð, kvartanir sem hafa borist, aðgerðir við lagaframkvæmd og dóma,

        e)    samantekt mikilvægra innlendra dóma sem varða túlkun laga til verndar hagsmunum neytenda,

        f)    aðrar upplýsingar sem varða beitingu þessarar reglugerðar.
    4. Framkvæmdastjórnin skal leggja skýrslu um beitingu þessarar reglugerðar fyrir Evrópuþingið og ráðið á grundvelli skýrslna aðildarríkjanna.
    22. gr.
    Gildistaka
    Reglugerð þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
    Hún gildir frá 29. desember 2005.
    Ákvæðin um gagnkvæma aðstoð, sem eru sett fram í II. og III. kafla, gilda frá 29. desember 2006.
    Reglugerð þessi er bindandi í heild sinni og gildir í öllum aðildarríkjunum án frekari lögfestingar.
    Gjört í Strassborg 27. október 2004.
    Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
    J. P. BORRELL FONTELLES A. NICOLAÏ
    forseti. forseti.


    VIÐAUKI
    Tilskipanir og reglugerðir sem falla undir a-lið 3. gr. (Í tilskipunum nr. 1, 6, 8 og 13 er að finna sértæk ákvæði.)
  • Tilskipun ráðsins 84/450/EBE frá 10. september 1984 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna um villandi auglýsingar (Stjtíð. EB L 250, 19.9.1984, bls. 17). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/55/EB (Stjtíð. EB L 290, 23.10.1997, bls. 18).
  • Tilskipun ráðsins 85/577/EBE frá 20. desember 1985 um að vernda neytendur þegar samningar eru gerðir utan fastra starfsstöðva (Stjtíð. EB L 372, 31.12.1985, bls. 31).
  • Tilskipun ráðsins 87/102/EBE frá 22. desember 1986 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi neytendalán (Stjtíð. EB L 42, 12.2.1987, bls. 48). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/7/EB (Stjtíð. EB L 101, 1.4.1998, bls. 17).
  • Tilskipun ráðsins 89/552/EBE frá 3. október 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum í aðildarríkjunum um sjónvarpsrekstur, 10.–21. gr. (Stjtíð. EB L 298, 17.10.1989, bls. 23). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/36/EB (Stjtíð. EB L 202, 30.7.1997, bls. 60).
  • Tilskipun ráðsins 90/314/EBE frá 13. júní 1990 um ferðapakka, orlofspakka og skoðunarferðapakka (Stjtíð. EB L 158, 23.6.1990, bls. 59).
  • Tilskipun ráðsins 93/13/EBE frá 5. apríl 1993 um óréttmæta skilmála í neytendasamningum (Stjtíð. EB L 95, 21.4.1993, bls. 29). Tilskipuninni var breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2002/995/EB (Stjtíð. EB L 353, 30.12.2002, bls. 1).
  • Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/47/EB frá 26. október 1994 um verndun kaupenda vegna tiltekinna þátta í samningum um kaup á réttindum til að nýta fasteignir á skiptileigugrunni (Stjtíð. EB L 280, 29.10.1994, bls. 83).
  • Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/7/EB frá 20. maí 1997 um neytendavernd að því er varðar fjarsölusamninga (Stjtíð. EB L 144, 4.6.1997, bls. 19). Tilskipuninni var breytt með tilskipun 2002/65/EB (Stjtíð. EB L 271, 9.10.2002, bls. 16).
  • Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/55/EB frá 6. október 1997 um breytingu á tilskipun 84/450/EBE varðandi villandi auglýsingar þannig að hún taki einnig til samanburðarauglýsinga.
  • Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/6/EB frá 16. febrúar 1998 um neytendavernd að því er varðar upplýsingar um verð á vöru sem er boðin neytendum (Stjtíð. EB L 80, 18.3.1998, bls. 27).
  • Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/44/EB frá 25. maí 1999 um tiltekna þætti í sölu neysluvara og ábyrgð þar að lútandi (Stjtíð. EB L 171, 7.7.1999, bls. 12).
  • Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum (tilskipun um rafræn viðskipti) (Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1).
  • Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/83/EB frá 6. nóvember 2001 um Bandalagsreglur um lyf sem ætluð eru mönnum: 86.–100. gr. (Stjtíð. EB L 311, 28.11.2001, bls. 67). Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2004/27/EB (Stjtíð. ESB L 136, 30.4.2004, bls. 34).
  • Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/65/EB frá 23. september 2002 varðandi fjarsölu á fjármálaþjónustu fyrir neytendur.
  • Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 261/2004 frá 11. febrúar 2004 um sameiginlegar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem er neitað um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður (Stjtíð. ESB L 46, 17.2.2004, bls. 1).
  • Samþykkt á Alþingi 17. mars 2007.