Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 306  —  273. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um heimkvaðningu friðargæsluliða frá Afganistan og endurskipulagningu íslensku friðargæslunnar.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að kalla heim íslenska friðargæsluliða í Afganistan, sem þar starfa sem hluti liðsafla NATO. Jafnframt verði þátttaka Íslands í friðargæslu og verkefnaval endurskipulagt í samræmi við markmið nýrra laga um íslensku friðargæsluna. Skal utanríkisráðherra vinna að þeirri endurskipulagningu í nánu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis.

Greinargerð.


    5. apríl 2007 tóku gildi lög um „íslensku friðargæsluna og þátttöku hennar í alþjóðlegri friðargæslu“. Samkomulag tókst meðal allra þingflokka um afgreiðslu málsins eftir að tekið hafði verið tillit til athugasemda minni hluta utanríkismálanefndar við upphaflegt frumvarp. Þótti einkum þörf á að taka af öll tvímæli um að störf friðargæslunnar skyldu alfarið vera borgaralegs eðlis. Orðalag í upphaflegri markmiðsgrein frumvarpsins, 1. gr., sem vísað gat til þess að alvopnaðar sveitir tækju sér stöðu milli stríðandi aðila á átakasvæðum, var fellt út en tilvísun til fyrirbyggjandi aðgerða og friðaruppbyggingarstarfs kom í staðinn. Í 1. gr. upphaflegs frumvarps var aðeins rætt um borgaralega sérfræðinga í því tiltekna samhengi að þeir skyldu hafa með höndum „verkefni … sem stuðla að uppbyggingu stjórnmála- og efnahagslífs í þeim tilgangi að koma á varanlegum friði“; að öðru leyti var rætt um „fólk“ sem utanríkisráðuneytinu væri heimilt að senda „til starfa við friðargæsluverkefni í því skyni … að taka þátt í alþjóðlegri friðargæslu“. Í lögunum, eins og þau voru samþykkt, er enginn slíkur greinarmunur lengur gerður á borgaralegum sérfræðingum og öðrum friðargæsluliðum enda hefjast þau á svohljóðandi málsgrein: „Utanríkisráðuneytinu er heimilt að taka þátt í alþjóðlegri friðargæslu og senda borgaralega sérfræðinga til starfa við friðargæsluverkefni í því skyni.“ Ekki er rætt um annars konar sérfræðinga í þessu sambandi og því ljóst að verkefni friðargæslunnar skulu alfarið vera borgaralegs eðlis en ekki hernaðarleg.
    Á meðal annarra athugasemda minni hluta utanríkismálanefndar við frumvarpið má nefna að honum þótti rík ástæða til þess að bæta ákvæði við 1. gr. frumvarpsins um að „verkefni íslensku friðargæslunnar meg[i] aldrei brjóta í bága við ákvæði mannúðar- og mannréttindasamninga“. Á þessa viðbót féllst meiri hluti nefndarmanna og er í framhaldsnefndaráliti gerð grein fyrir því hver þessi ákvæði eru: „Helstu samningar sem hér um ræðir eru Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna frá 1948, samningar Evrópuráðsins um mannréttindi og má þar helst nefna samning um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 1950 (mannréttindasáttmála Evrópu), með breytingum og viðaukum, Evrópusamning um varnir gegn pyndingum og annarri ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, ásamt bókunum, Genfarsamningana frá 1949 auk ýmissa samninga Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi.“
    Með tillögunni er ekki ætlunin að fella neina dóma um þau störf sem íslenskir friðargæsluliðar hafa innt af hendi í Afganistan undanfarin ár en nú starfa þar um 15 manns. Tillagan er hins vegar byggð á þeirri skoðun að forsendur fyrir dvöl íslensku friðargæslunnar í Afganistan verði að teljast lagalega afar hæpnar með tilliti til anda og markmiða nýrra laga um íslensku friðargæsluna. Íslensku friðargæsluliðarnir starfa þar að verkefnum sem stjórnað er af Atlanshafsbandalaginu og bera a.m.k. sumir hverjir starfstitla í samræmi við hernaðarskipulag NATO, svo sem Deputy Commander, Assistant Commander eða J1 Officer. Átök fara nú harðnandi í Afganistan milli hersveita NATO og skæruliða talíbana sem hafa sótt í sig veðrið jafnt og þétt. Fjöldi óbreyttra borgara sem fallið hafa í þeim átökum, einkum í loftárásum NATO, skiptir þúsundum og eykst eftir því sem líður á stríðið. Loftárásirnar virðast hins vegar, þrátt fyrir hinar gífurlegu mannfórnir, koma að litlu gagni og ekki ná að binda endi á ófriðinn í landinu. Hefur þjóðþing Afganistan ályktað að þeim skuli hætt vegna þess mannfalls sem þær valda meðal óbreyttra borgara. Í ræðu sinni á þingi þingmannasambands NATO í Reykjavík 9. sl. kvaðst framkvæmdastjóri NATO, Jan de Hoop Scheffer, ekki sjá fram á skjótfenginn árangur í Afganistan og lagði þunga áherslu á að þingmenn þyrftu að taka á sig það óvinsæla verk að hvetja þjóðþing sín til þess að leggja meira af mörkum þar um ókomin ár. Hvað sem brýningum NATO-stjórans líður sæta aðgerðirnar í Afganistan vaxandi gagnrýni víða og í sumum nálægum löndum, t.d. Noregi og Danmörku, gerist æ háværari umræðan um að þarlendar liðssveitir skuli kallaðar heim.
    Atlantshafsbandalagið er komið út í mikla ófæru í Afganistan, í verkefninu sem Bandaríkjamönnum hentaði að henda í NATO, sem eins konar upphreinsunardeild, tveimur árum eftir að þeir létu sprengjum rigna yfir landið með hjálp Breta, haustið 2001. Betra en ekki væri að draga íslensku friðargæsluliðana strax út úr samstarfinu við NATO og færa liðsaflann t.d. undir stjórn Sameinuðu þjóðanna í landinu. Langheppilegast er þó að kalla einfaldlega liðsaflann heim, eins og tillagan gerir ráð fyrir, og endurskipuleggja í framhaldinu alla okkar framgöngu og verkefnaval á þessu sviði. Skuldbinding friðargæslunnar til þess að virða „mannúðar- og mannréttindasamninga“ er þó ein og sér næg ástæða til þess að binda enda á samstarfið við NATO þar eð Genfarsamningurinn um vernd almennra borgara á stríðstímum frá 12. ágúst 1949 bannar afdráttarlaust aðgerðir af því tagi sem óbreyttir afganskir borgarar verða nú fyrir barðinu á í stríði NATO gegn hryðjuverkum. Með þátttöku íslensku friðargæslunnar í aðgerðum NATO í Afganistan gerist Ísland því samábyrgt með öðrum NATO-ríkjum fyrir aðgerðum þar sem lífi óbreyttra borgara er ekki þyrmt og því sekt um að brjóta téðan samning.
    Síðast en ekki síst er augljóst að Íslendingar geta komið að miklu meira gagni annars staðar þar sem vandi steðjar að og við annars konar verkefni sem henta okkur betur en þau sem NATO fæst nú við í Afganistan, að því er virðist í óþökk a.m.k. drjúgs hluta heimamanna. Um víða veröld eru samskipti milli hópa, þjóðarbrota og þjóða hlaðin spennu. Skortur á vatni og brýnustu lífsnauðsynjum, misskipting og kúgun, barátta um völd, náttúruauðlindir eða önnur auðævi, allt getur þetta átt sinn þátt í að átök brjótist út. Þar væri mikilvægt að þróa friðargæslu í átt til fyrirbyggjandi aðgerða og friðaruppbyggingar í stað þess eins að reyna að slökkva eldana þegar búið er að kveikja þá, rétt eins og kveðið er á um í d-lið 1. gr. laganna um friðargæsluna. Það dugar skammt að ógna með vopnum heldur þarf hin borgaralega friðargæsla að fást í meira mæli við að byggja upp efnahagslíf og bæta samgöngur í þeim löndum sem hún starfar, sem og auka þekkingu heimamanna á mannréttindum eða æskilegum leikreglum stjórnmála. Í raun og veru hlýtur fyrirbyggjandi friðargæsla einnig að felast í mannúðar- og neyðaraðstoð, uppbyggingu heilsugæslu og stóraukinni áherslu á menntun og fræðslu. Þar verða mörk hefðbundinnar þróunarsamvinnu og friðargæslu í skilningi fyrirbyggjandi aðgerða og friðaruppbyggingar óljós og verkefnin renna saman. Íslensku friðargæsluna má því ekki byggja upp á kostnað slíkrar aðstoðar heldur ætti rík þjóð eins og Ísland að efla hina síðarnefndu enn frekar. Af þeim sökum er í þessari ályktun einnig lagt til að utanríkisráðherra, í samvinnu við utanríkismálanefnd, endurskipuleggi verkefnaval íslensku friðargæslunnar með því fyrir augum að það val samræmist betur nýjum lögum um hana.



Fylgiskjal.

Steingrímur J. Sigfússon:

Nató-fenið í Afganistan.
(Fréttablaðið, 7. ágúst 2007.)


    Nató-leiðangurinn í Afganistan, undir forystu Bandaríkjanna og á þeirra forsendum, er þegar orðinn að u.þ.b. eins fullkominni martröð og hugsast getur. Frá fyrstu tíð höfðu margir efasemdir um að Bandaríkin og Vesturlönd myndu ríða feitari hesti frá leiðangri sínum þangað en Rússar gerðu á sinni tíð. Burtséð frá afar hæpnu réttmæti þess að hefja loftárásirnar á Afganistan á sínum tíma í kjölfar atburðanna 11. september 2001 spurðu margir hvort yfirhöfuð væri raunsætt að ætla að aðferðafræði haukanna í Bandaríkjunum myndi skila árangri og hverjar fórnirnar yrðu. En það var hafist handa og sprengjum var látið rigna úr háloftunum yfir þetta vanþróaða land, Afganistan, vikum saman. Mótspyrna brotin á bak aftur í helstu borgum og samvinnuþýðri ríkisstjórn komið á laggirnar. Það reyndist auðveldara að heyja stríðið en eiga við eftirleikinn.
    Samkvæmt hinum nýju formúlum Bandaríkjamanna höfðu þeir forgöngu um stríðið, sáu að mestu um sprengingarnar og ræstu síðan Nató út til að að hreinsa upp eftir sig. Nú brjótast Nató-ríkin um á hæl og hnakka, fórna lífi hermanna sinna í meira og minna tilgangslausri baráttu, ungt fólk fellur nær daglega sem óvelkomnir gestir í framandi landi Og það sem verra er og verst af öllu: Mannfall óbreyttra borgara sökum aðgerða Nató-herjanna er stórfellt. Deilt er um hversu mörg þúsund eða jafnvel tugir þúsunda óbreyttra borgara hafi fallið frá því átökin hófust en hafið er yfir vafa að í ýmsum aðgerðanna hafa allt eins margir eða fleiri óbreyttir borgarar fallið en raunverulegir liðsmenn talíbana eða annarra andófsafla gegn hinni erlendu hersetu. Undangengið ár er talið að 6500 manns a.m.k. hafi fallið og ekki er fjarri lagi að álykta að fullur helmingur hafi verið óbreyttir borgarar.
    Þetta stríð eru Vesturlönd að heyja meira og minna í óþökk og í andstöðu við íbúa viðkomandi svæða og ráðandi öfl þar. Yfirleitt hefur sýnt sig að slík barátta er vonlaus. Sjálfum erkifjendunum, talíbönum, vex fiskur um hrygg og ópíumframleiðsla í skjóli uppreisnar- og stríðsherra og héraðshöfðingja hefur náð fyrri hæðum og rúmlega það.
    Þó svo eigi að heita að ríkisstjórn Karzai ráði Kabúl, nærliggjandi svæðum og að einhverju leyti ferðinni í stærstu borgum er þó enginn afgangur af því. Þegar út í héröðin kemur og einkum landamærasvæðin milli Afganistan og Pakistan er hið gagnstæða uppi á teningunum. Flótti virðist vera við það að bresta á í Nató-liðinu og þverrandi stuðningur heima fyrir við áframhaldandi þátttöku í aðgerðunum verður æ meira áberandi í umræðum um málið, t.d. í nágrannalöndunum Noregi og Danmörku.
    Ófarirnar í Afganistan eru stærsta og alvarlegasta dæmið um afleiðingar hinnar breyttu stefnu þegar Nató var breytt úr svæðisbundnu varnarbandalagi í alheimshernaðarbandalag og aðila sem skyldi láta til sín taka í fjarlægum heimsálfum, samkvæmt forskrift Bandaríkjamanna, hinnar árásargjörnu aðferðafræði, hugmyndanna um fyrirbyggjandi styrjaldir og hvað það nú heitir allt saman. Er þetta nýja Nató virkilega sá félagsskapur sem við eigum heima í í ljósi atburðanna í Írak, Afganistan og víðar? Væri ekki hyggilegast fyrir okkur að staldra við og byrja á því, þó ekki væri annað, að kalla alla Íslendinga heim frá Afganistan, a.m.k. alla þá sem eru þar á forsendum eða í tengslum við Nató? Af nógu er að taka á vettvangi borgaralegrar, friðsamlegrar þróunarsamvinnu og hjálparstarfs, bæði þar og annars staðar, þó svo við látum öðrum eftir að standa í slíku á hernaðarforsendum. Minna má á, í þessu sambandi, þær breytingar sem Alþingi sameinaðist um að gera á frumvarpi til laga um íslensku friðargæsluna. Þar var tekinn af allur vafi um að sú starfsemi skuli skilgreind sem borgaraleg og vera á slíkum forsendum.