Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 325. máls.

Þskj. 508  —  325. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987,
um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald,
lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.
1. gr.

    5. mgr. 18. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna:
     a.      1. og 3. mgr. 5. tölul. falla brott.
     b.      Á eftir 9. tölul. kemur nýr töluliður er verður 9. tölul. A, svohljóðandi: Þá fjárhæð sem nemur hagnaði af sölu hlutabréfa skv. 18. gr. hjá félögum sem falla undir 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. af hlutabréfum í félögum er greinir í 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. Sama gildir um þá fjárhæð sem félög í sömu félagaformum sem eru skattskyld skv. 7. tölul. 3. gr. og eru heimilisföst í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa fengið af sölu hlutabréfa. Ákvæði þessa töluliðar tekur einnig til hagnaðar af sölu hlutabréfa í félögum sem skráð eru erlendis ef seljandi sýnir fram á að hagnaður af starfsemi hins erlenda félags hafi verið skattlagður með sambærilegum hætti og gert er hér á landi. Frádráttur skv. 3. málsl. er bundinn því skilyrði að það skatthlutfall sem lagt er á hagnað hins erlenda félags sé eigi lægra en almennt skatthlutfall í einhverju aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París (OECD) eða aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.
                  Rekstrarkostnað sem gengur til öflunar, viðhalds eða tryggingar á tekjum sem eru frádráttarbærar samkvæmt þessum tölulið er ekki heimilt að draga frá öðrum tekjum. Varði kostnaðurinn tekjur sem ýmist eru skattskyldar eða frádráttarbærar samkvæmt framangreindu skal skipta kostnaðinum í réttu hlutfalli við tekjurnar.
                  Fjármálaráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd þessara ákvæða.

3. gr.

    Á eftir 4. mgr. 89. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2.–4. mgr. skal álagning, eftirlit og önnur skattaumsýsla lögaðila skv. 2. og 3. gr. heyra undir Reykjavíkurumdæmi sé annað eða bæði eftirfarandi skilyrða uppfyllt:
     a.      rekstrartekjur lögaðila samkvæmt síðasta ársreikningi, að viðbættum fjármagnstekjum, eru 10 milljarðar króna eða hærri. Móður- og dótturfélög þess lögaðila skulu einnig heyra undir Reykjavíkurumdæmi, séu þau skattskyld hér á landi,
     b.      heildareignir lögaðila samkvæmt síðasta ársreikningi eru 5 milljarðar króna eða hærri. Móður- og dótturfélög þess lögaðila skulu einnig heyra undir Reykjavíkurumdæmi séu þau skattskyld hér á landi.
    Skattaumsýsla þeirra lögaðila sem kveðið er á um í 5. mgr. skal að jafnaði eigi vara skemur en tvö ár frá því að framangreind skilyrði eru uppfyllt.
    Fyrir lok hvers árs skal ríkisskattstjóri tilkynna þeim lögaðilum sem falla undir skilyrði a- eða b-liðar 5. mgr. að skattaumsýsla þeirra heyri undir Reykjavíkurumdæmi. Ríkisskattstjóra er jafnframt heimilt að beiðni skattstjóra eða ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi að fella lögaðila undir 5. mgr. eða fella lögaðila undan henni enda tilkynni hann viðkomandi lögaðilum þá ákvörðun sína. Í reglugerð sem ráðherra setur skal nánar kveðið á um fyrirkomulag skattaumsýslu þeirra lögaðila sem falla undir 5. mgr.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.

4. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna kemur ný grein, 21. gr. A, svohljóðandi:
    Eftirlit samkvæmt ákvæðum 21. gr. og önnur skattaumsýsla þeirra lögaðila sem falla undir 5. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal heyra undir Reykjavíkurumdæmi.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum.
5. gr.

    Á eftir 6. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Álagning, eftirlit og önnur skattaumsýsla þeirra lögaðila sem falla undir 5. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal heyra undir Reykjavíkurumdæmi.

IV. KAFLI

Breyting á lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur,
með síðari breytingum.

6. gr.

    Á eftir 4. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Álagning, eftirlit og önnur skattaumsýsla þeirra lögaðila sem falla undir 5. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal heyra undir Reykjavíkurumdæmi.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.
7. gr.

    45. gr. laganna orðast svo:
    Skráning, álagning, eftirlit og önnur virðisaukaskattsumsýsla þeirra lögaðila sem falla undir 5. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal heyra undir Reykjavíkurumdæmi.

8. gr.

    Við a-lið viðauka við lögin bætist: 0401.1009, 0401.2009 og 0401.3009.

VI. KAFLI
Gildistaka.
9. gr.

    Ákvæði 1. og 2. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008 og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009 vegna söluhagnaðar sem myndast á árinu 2008.
    Ákvæði 3.–7. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda 1. janúar 2009.
    Ákvæði 8. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008.
    Ákvæði 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu halda gildi sínu um hagnað af sölu hlutabréfa sem féll til fyrir gildistöku laga þessara.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Umsýsla stórfyrirtækja skv. 5.–7. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal hefjast 1. janúar 2009. Ríkisskattstjóri skal fyrir árslok 2008 tilkynna formlega þeim fyrirtækjum sem falla undir tilgreind ákvæði að þau heyri undir Reykjavíkurumdæmi. Samkvæmt framansögðu heyra ákvarðanir er varða skatta og gjöld, sem tilgreind eru í II. kafla laga nr. 90/2003, undir sama umdæmi frá og með 1. janúar 2009. Jafnframt verður forræði í öllum málum aðila sem falla undir 5.–7. mgr. 89. gr. laga nr. 90/2003 í Reykjavíkurumdæmi, óháð því hvort ákvörðun varðar endurskoðun, eftirlit eða kæruúrskurði tekjuskatts samkvæmt lögum nr. 90/2003 og þeirra skatta og gjalda sem tilgreind eru í II. kafla. Þetta ákvæði tekur einnig til ólokinna mála að teknu tilliti til ákvæða 97. gr. laga nr. 90/2003, um endurupptöku skattlagningar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er að finna tvíþætta tillögu að mikilvægum breytingum á skattlagningu aðila í atvinnurekstri. Annars vegar er um að ræða breytingar á reglum um skattskyldu söluhagnaðar en hins vegar á skattaumsýslu þeirra lögaðila sem mest umsvif hafa í íslenskum þjóðarbúskap. Þá er lögð til sú breyting á lögum um virðisaukaskatt að tekin verði af öll tvímæli um það að ógerilsneydd mjólk (hrámjólk) eigi að vera í efra þrepi virðisaukaskatts þar sem ekki er litið svo á að hún sé matvara til manneldis í skilningi laganna.

Skattur á arðgreiðslur og söluhagnað milli félaga.


    Vorið 1998 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 95/1998 sem fólu í sér verulegar breytingar á reglum um skattskyldu arðgreiðslna og söluhagnaðar varðandi aðila í atvinnurekstri. Megintilgangur þeirra breytinga, einkum með tilliti til arðs, var að koma á betra og markvissara fyrirkomulagi á skattlagningu þessara tekna, með það fyrir augum að koma í veg fyrir að hagnaður í atvinnurekstri yrði skattlagður þegar eingöngu væri um að ræða viðskipti milli tveggja aðila sem báðir eru í atvinnurekstri. Með öðrum orðum, hagnað af atvinnurekstri skuli einungis skattleggja í hendi þess fyrirtækis þar sem hagnaðurinn myndast og síðan hjá endanlegum eiganda hlutafjárins, einstaklingnum, sem nýtur hans í formi arðs og/eða söluhagnaðar. Jafnframt var þessum breytingum m.a. ætlað að greiða því leið að unnt væri að flytja arð af starfsemi hlutafélaga í eigu íslenskra aðila inn í landið án þess að til tvísköttunar kæmi enda væri sú breyting í takt við þá þróun sem átt hefði sér stað í okkar helstu samkeppnislöndum.
    Með samþykkt frumvarpsins var tekin upp sú regla varðandi arðinn að hann myndaði ekki skattstofn væri hann greiddur milli hlutafélaga eða sambærilegra félagaforma heldur væri móttakanda arðsins heimilt að draga hann frá rekstrartekjum sínum áður en til skattlagningar kæmi, sbr. 9. tölul. 31. gr. í gildandi lögum um tekjuskatt. Grundvallarreglan varð því sú að hagnaður hlutafélags er skattlagður í því hlutafélagi sem hann myndast upphaflega og síðan með fjármagnstekjuskatti þegar hann er greiddur út sem arður til hluthafa, sem er einstaklingur, sameignarfélag eða starfar í öðru félagaformi þar sem úttekt úr félaginu er skattfrjáls.
    Sem fyrr segir var í umræddu frumvarpi einnig að finna tillögur um breyttar skattlagningarreglur söluhagnaðar sem voru í nokkuð öðru formi en þær sem vörðuðu arðinn. Í greinargerð frumvarpsins segir m.a. varðandi þann mismun: „Hagnaður af sölu hlutabréfa er annars eðlis. Að hluta til kann að vera um að ræða hagnað, sem ekki hefur verið greiddur út og safnast hefur upp, en oft er að stórum hluta um að ræða verðaukningu á hlutum umfram beina hækkun á eigin fé félagsins. Hækkunin stafar þá af öðru, svo sem mati á væntanlegum tekjum, réttindum, aðstöðu eða völdum. Til grundvallar söluhagnaðinum liggur þannig ekki rekstrarhagnaður sem þegar hefur verið skattlagður eins og um er að ræða þegar arður á í hlut. M.a. af þessum ástæðum hafa þau lönd sem heimila að móttekinn arður sé dreginn frá skattskyldum tekjum, ekki látið þá reglu ná til söluhagnaðar. Þannig er söluhagnaður hlutabréfa í OECD-löndunum yfirleitt skattlagður með skatthlutfalli hlutafélagsins …“ Í greinargerðinni er einnig að finna eftirfarandi athugasemdir: „Í sumum löndum OECD er þó að finna einhverjar ráðstafanir til að lækka skattlagningu á söluhagnað frá því sem að framan greinir.“ Þess er sérstaklega getið í greinargerðinni að Noregur sé eitt þeirra landa, en reglur Norðmanna séu hins vegar taldar flóknar og erfiðar í framkvæmd. Vegna þess sé hafin endurskoðun á þeim reglum í þeim tilgangi að gera þær auðveldari í notkun. Í niðurlagi greinargerðarinnar segir síðan: „Af framangreindum ástæðum er í frumvarpi þessu [þess sem varð að lögum nr. 95/1998] lagt til að hlutafélögum verði heimilað að fresta skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum ef þeir kaupa önnur slík innan tveggja ára frá sölunni. Með því er í senn komið í veg fyrir að fjármagn sé bundið í tilteknum hlutabréfum af skattalegum ástæðum, þ.e. til að forðast skattlagningu, og jafnframt hvatt til áframhaldandi hlutabréfaeignar. Að þessu sinni er ekki lagt til að gerðar verði aðrar breytingar á skattlagningu söluhagnaðar hjá lögaðilum en fylgst verður með þróun í þeim málum með tilliti til breytinga síðar.“ Þessar reglur sem samþykktar voru með lögum nr. 95/1998, og taka til söluhagnaðar af hlutabréfum annarra en veltuhlutabréfa, þ.e. hlutabréfa sem alla jafna ganga kaupum og sölum innan ársins, eru að meginstefnu til enn í gildi, sbr. 5. mgr. 18. gr. tekjuskattslaga.
    Frá því að framangreindar breytingar á skattlagningu arðs og söluhagnaðar voru samþykktar fyrir tæpum áratug hefur mikið vatn runnið til sjávar í íslensku efnahagslífi, ekki síst í alþjóðlegu tilliti. Fjármagn flæðir frjálst milli landa og íslensk fyrirtæki hafa verið í mikilli útrás. Á sama tíma hefur alþjóðlegt skattaumhverfi tekið miklum stakkaskiptum, ekki síst í okkar helstu samkeppnislöndum innan Evrópu. Skatthlutföll hafa verið að lækka samhliða því að afnumdar hafa verið ýmsar sértækar frádráttarreglur eða undanþágur í því skyni að gera skattkerfið einfaldara og skilvirkara. Ísland hefur ekki verið neinn eftirbátur annarra ríkja að þessu leyti og má raunar halda því fram að þessi þróun hafi jafnvel hafist fyrr hér á landi en annars staðar með lækkun tekjuskatts lögaðila úr 30% niður í 18% árið 2003. Hins vegar verður ekki fram hjá því horft að verulega hefur dregið saman með Íslandi og öðrum ríkjum á skattasviðinu á undanförnum árum þegar horft er til skattlagningar á atvinnurekstur og á það ekki hvað síst við um skattlagningu fjármagnstekna, svo sem söluhagnaðar af hlutabréfum. Skýring þessarar þróunar er án efa sú að þessi skattstofn, þ.e. fjármagn í hvers kyns formi, er mjög kvikur sem þýðir að fyrirtæki sem byggja starfsemi sína á viðskiptum með slíkar eignir eiga tiltölulega auðvelt með að flytja sig um set. Þar geta hagstæðar skattareglur skipt sköpum varðandi staðsetningu. Þannig hafa íslensk félög í einhverjum mæli flutt eignarhald sitt á hlutabréfum yfir í dótturfélög sem staðsett eru í ríkjum þar sem skattlagning á söluhagnaði er talin mun hagstæðari en hér á landi. Má þar nefna sem dæmi Holland og Noreg. Norðmenn hafa gengið einna lengst í þessum efnum, en þar í landi er söluhagnaður hvers kyns hlutabréfa skattfrjáls án nokkurra skilyrða ef um er að ræða viðskipti milli aðila í atvinnurekstri svo fremi að seljandinn og fyrirtækið, sem selt er, hafi skattalegt heimilisfesti í EES-ríki. Sambærilegar reglur er að finna í Noregi um skattlagningu á arði. Samhliða þessu aukna skattfrelsi söluhagnaðar af hlutabréfum setja Norðmenn hins vegar ákveðnar takmarkanir á frádráttarbærni þess kostnaðar sem til fellur við öflun þeirra.
    Í þessu frumvarpi er að finna tillögur um breytingar á skattskyldu hagnaðar af sölu hlutabréfa óháð eðli og eignarhaldstíma hlutabréfanna í hendi seljanda, sem í mörgu svipar til norsku reglnanna. Þó ganga þær nokkuð lengra en þær norsku að því leyti að þær eru ekki bundnar við hlutabréfaviðskipti innan EES heldur ná þær einnig til hlutabréfa í fyrirtækjum sem staðsett eru utan EES, en þó ekki á lágskattasvæðum. Ástæða þess er m.a. sú að eðlilegt er talið að sambærilegar reglur gildi um skattlagningu arðs og söluhagnaðar af hlutabréfum, en í gildandi lögum eru sambærileg ákvæði varðandi skattfrelsi arðgreiðslna milli fyrirtækja. Samhliða er lagt til að heimild til frestunar á skattlagningu söluhagnaðar af hlutabréfum verði felld brott. Jafnframt er lagt til að frádráttur vegna þess kostnaðar sem fellur til við öflun, viðhald eða tryggingu á viðkomandi tekjum, þ.e. hagnaður af sölu hlutabréfa, verði takmarkaður þannig að hvorki sé unnt að draga hann frá öðrum tekjum né heldur getur hann myndað yfirfæranlegt tap hjá félögum. Þá verður tap sem kann að myndast vegna sölu hvers kyns hlutabréfa ekki frádráttarbært. Að lokum er skattfrelsi hagnaðar af sölu hlutabréfa bundið við þau félagaform þar sem skattlagning er endanlega í hendi eigenda, eins og í tilviki hluthafa í hlutafélagi og einkahlutafélagi við úthlutun arðs. Þannig munu sameignarfélög, samlagsfélög og einstaklingar í atvinnurekstri ekki njóta þessa skattfrelsis, en í gildandi lögum hafa þessir lögaðilar heimild til frestunar á söluhagnaði af hlutabréfum.
    Álagður tekjuskattur lögaðila nam 42,7 milljörðum króna á þessu ári vegna reksturs ársins 2006. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hver sé hluti hagnaðar af sölu hlutabréfa í þeirri fjárhæð. Lausleg athugun sýnir að sá hluti sé hverfandi þar sem fyrirtæki nýti sér í afar ríkum mæli þá frestunarheimild sem til staðar er í gildandi lögum. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um árlega fjárhæð frestaðs hagnaðar lögaðila vegna sölu af hlutabréfum á undanförnum árum, en sú fjárhæð hefur farið stigvaxandi, sbr. eftirfarandi tölur, sem unnar eru upp úr skattframtölum lögaðila:


Tekjuár
Milljarðar kr.
á verðlagi hvers árs
2001 7,2
2002 18,2
2003 30,8
2004 61,9
2005 165,7
2006 336,0

    Sem fyrr segir felur frumvarpið í sér þá tillögu að fyrirtæki sem hafa tekjur í formi söluhagnaðar af hlutabréfum geti hvorki myndað yfirfæranlegt tap vegna þess kostnaðar sem til verður vegna viðskipta með þau né heldur nýtt sér þann kostnað sem frádrátt frá skattskyldum tekjum. Sama gildir þegar um tap af sölu hlutabréfa er að ræða. Þetta er breyting frá þeim reglum sem nú gilda. Þegar á heildina er litið er þó talið að áhrif þessara breytinga sem að framan greinir á tekjuhlið ríkissjóðs verði hverfandi.

Skattaumsýsla stórfyrirtækja.


    Hin meginbreytingin sem lögð er til í þessu frumvarpi varðar skattaumsýslu stórra og umsvifamikilla fyrirtækja, en þeim hefur fjölgað mjög hratt hérlendis á örfáum árum. Þar á vaxandi útrás íslenskra fyrirtækja stóran hlut að máli, þar sem saman fer vöxtur vegna stækkandi markaðssvæða óháð landamærum og sameining íslenskra fyrirtækja við erlend, oftast í hagræðingarskyni. Við slíkar aðstæður verða viðskipti oft afar flókin enda lagalegt umhverfi, jafnt frá sjónarmiði skattareglna sem annarra, oftar en ekki ólíkt að uppbyggingu og eðli. Slíkar kringumstæður kalla á aukna sérfræðiþekkingu á öllum sviðum og meiri sérhæfni í allri umsýslu gagnvart þessum aðilum.
    Þessi þróun er ekki séríslensk heldur er hún alþjóðlegt fyrirbæri sem löndin í kringum okkur hafa brugðist við með ýmsu móti. Flest þeirra fara þá leið að setja á fót sérstakar stjórnsýslueiningar í skattkerfinu sem annast alla skattalega umsýslu með þessum aðilum. Það á til dæmis við um hin Norðurlöndin og virðist þetta fyrirkomulag hafa gefið góða raun. Meðal annars með hliðsjón af því er í þessu frumvarpi lagt til að skattaumsýsla fyrirtækja sem falla undir þá skilgreiningu að teljast stórfyrirtæki fari einungis fram í einu umdæmi í stað níu, nánar tiltekið í Reykjavíkurumdæmi, í sérhæfðri stjórnsýslueiningu. Með því fyrirkomulagi skapast möguleikar á að tryggja að skattlagning sambærilegra eða tengdra fyrirtækja sem hafa mikil umsvif verði samhæfðari og skilvirkari en verið hefur, enda kallar hún á sérhæft starfsfólk.
    Þau fyrirtæki sem tillaga frumvarpsins gerir ráð fyrir að verði skipað undir einn hatt á grundvelli viðmiðana um tekjur og eignir af tiltekinni stærðargráðu dreifast í dag á nær öll skattumdæmi landsins, sem sum hver hafa ekki yfir að ráða því sérhæfða starfsfólki sem til þarf til að fást við slíka aðila. Þannig er gjarnan um að ræða fyrirtæki sem starfa innan félagasamstæðu með flókin eignatengsl, hafa veruleg viðskipti erlendis eða starfa í flóknu viðskiptaumhverfi. Þetta hefur í einhverjum tilvikum leitt til þess að álitamál þeim tengd hafa ekki fengið úrlausn sem skyldi né heldur hafa viðkomandi fyrirtæki fengið þá þjónustu sem eðlilegt er að skattkerfið veiti. Verði frumvarpið að lögum verður forræðið varðandi skattaleg úrlausnarefni þeirra fyrirtækja á hendi eins skattstjóra, sem hefur hefðbundið framkvæmdar- og úrskurðarvald í málum sem þeim tengjast óháð því hvar á landinu þau hafa skráð heimili.
    Þær viðmiðanir sem lagt er til að verði beitt við skilgreiningu á því hvað teljist stórfyrirtæki eru annars vegar rekstrartekjur að meðtöldum fjármagnstekjum samkvæmt ársreikningi, að lágmarki 10 milljarðar króna, eða hins vegar heildareignir samkvæmt ársreikningi, að lágmarki 5 milljarðar króna. Aðeins annað þessara skilyrða þarf að vera uppfyllt til að lögaðili teljist stórfyrirtæki.
    Samkvæmt upplýsingum úr skattframtölum lögaðila fyrir árið 2007 vegna rekstrar ársins 2006 falla 249 lögaðilar undir ofangreindar viðmiðanir. Þar af eru 211 fyrirtæki í Reykjavík og Reykjanesi, eða 85% af heild. Af heildarfjölda stórfyrirtækja eru 174, eða 70% af heild, með skattalegt heimilisfesti í Reykjavík þó að innan við helmingur af heildarfjölda lögaðila sé skráður þar. Jafnframt sýna upplýsingar úr skattframtölum að stórfyrirtækin í Reykjavík eru margfalt umfangsmeiri en flest þeirra sem eru annars staðar, bæði er varðar tekjur og eignir. Í ljósi þessara upplýsinga er talið rökrétt, eins og tillaga frumvarpsins ber með sér, að skattaumsýsla stórfyrirtækja falli undir Reykjavíkurumdæmi. Gert er ráð fyrir að fjármálaráðherra geti í reglugerð kveðið nánar á um skipulag á skattaumsýslu þessara fyrirtækja ásamt því að afmarka nánar hvaða fyrirtæki eigi að falla hér undir.
    Nú er í sérstakri athugun í fjármálaráðuneytinu hvernig styrkja megi starfsemi einstakra skattstofa úti á landsbyggðinni, til að mynda með tilflutningi annarra verkefna til þeirra, m.a. í tengslum við ofangreinda breytingu. Í þessu samhengi er vert að benda á að í tekjuskattsfrumvarpi fjármálaráðherra sem nýverið var lagt fyrir Alþingi er að finna tillögu þess efnis að ráðherra verði heimilt að flytja einstök verkefni á milli skattumdæma með það að markmiði að auka svigrúm fjármálaráðherra til verkefnaflutninga innan skattkerfisins þannig að unnt sé að nýta mannafla þess sem best á hverjum tíma.
    Í frumvarpinu er einnig að finna nauðsynlegar breytingar á öðrum skattalögum er varða skattaumsýslu stórfyrirtækja.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt núgildandi ákvæði 5. mgr. 18. gr. laganna geta lögaðilar, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna, og einstaklingar í atvinnurekstri farið fram á að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa, þar á meðal skiptum á hlutabréfum, um tvenn áramót frá söludegi. Tekið er fram að kaupi slíkur aðili önnur hlutabréf í stað hinna seldu innan þess tíma færist söluhagnaðurinn til lækkunar á kaupverði þeirra bréfa. Nemi kaupverð hinna keyptu hlutabréfa lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Ef hlutabréf eru ekki keypt innan tilskilins tíma telst söluhagnaðurinn til skattskyldra tekna á öðru ári frá því að hann myndaðist. Þannig er unnt að fresta skattlagningunni um tvö ár. Á frestunartímabili getur félag endurfjárfest í nýjum hlutabréfum og lækkað stofnverð þeirra um fjárhæð söluhagnaðarins. Frestaða fjárhæðin kemur þannig hugsanlega fram í auknum söluhagnaði þegar nýju hlutabréfin verða seld. Þannig getur frestun og lækkun stofnverðs gengið koll af kolli. Alla jafna kemur því ekki til þess að lögaðilar greiði skatt af söluhagnaði hlutabréfa.
    Hér er lagt til að þessi heimild verði felld brott, enda eru með þeirri breytingu sem lögð er til í 2. gr. ekki lengur forsendur fyrir þessu ákvæði.

Um 2. gr.


    Í 5. tölul. 31. gr. er að finna ákvæði um skattalega meðferð á sannanlega töpuðu hlutafé. Með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpi þessu og breytingum sem átt hafa sér stað í viðskiptalífinu á umliðnum árum er lagt til að ákvæði 1. og 3. mgr. 5. tölul. 31. gr. verði felld niður.
    Í b-lið er lagt til að hagnaður félaga af sölu hlutabréfa verði frádráttarbær frá tekjum af atvinnurekstri óháð eignarhaldstíma þeirra í hendi seljanda. Heimildin nær til félaga í tilteknum félagaformum, þ.e. hlutafélaga, einkahlutafélaga, samlagshlutafélaga, gagnkvæmra vátryggingar- og ábyrgðarfélaga og samvinnufélaga, hvort heldur félög þessi bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi eða takmarkaða skattskyldu og eru með heimilisfesti á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Skattfrelsi söluhagnaðar tekur til hagnaðar af sölu hlutabréfa í félögum óháð heimilisfesti þeirra. Ef um er að ræða sölu hlutabréfa í félagi sem heimilisfast er utan Íslands er gert að skilyrði að félagið hafi sætt sambærilegri skattlagningu af starfsemi sinni og gildir hér á landi. Jafnframt er gert að skilyrði að skatthlutfall hafi ekki verið lægra en almennt gildir í einhverju aðildarríkja OECD eða EES.
    Hagnaður af afleiðuviðskiptum sem byggjast á hlutabréfum fellur ekki undir þetta ákvæði.
    Í 2. mgr. b-liðar 2. gr. er lagt til að hlutfallslegur rekstrarkostnaður, sem rekja má til öflunar á skattfrjálsum söluhagnaði hlutabréfa, heimilist ekki til frádráttar öðrum tekjum. Beinan kostnað vegna sölu eigna skal þó ávallt draga frá söluverði áður en söluhagnaður er reiknaður út skv. 20. gr. laganna.

Um 3. gr.


    Hér er lagt til að álagning, eftirlit og önnur skattaumsýsla lögaðila með tekjur og eignir umfram tiltekin stærðarmörk heyri undir Reykjavíkurumdæmi en til þessa hefur skattlagningarstaður verið bundinn við skráð heimilisfesti félags. Nauðsynlegt þykir að dótturfélög slíkra lögaðila sæti skattlagningu í sama skattumdæmi séu þau skattskyld hér á landi. Eins getur það gerst að dótturfélag fari fram úr þeim stærðarmörkum sem miðað er við og er þá gert ráð fyrir að móðurfélag eða móðurfélög þess, sé um margþrepa eignarhald að ræða á dótturfélaginu, sæti einnig skattlagningu í sama umdæmi.
    Forræði allra skattalegra úrlausnarefna sem tengjast viðkomandi lögaðilum verður þannig á hendi eins skattstjóra, þar á meðal hefðbundið framkvæmdar- og úrskurðarvald, óháð því í hvaða skattumdæmum þeir eiga skráð heimili. Með þessu fyrirkomulagi er stefnt að því að öll skattaleg úrlausnarefni er upp koma hjá þeim lögaðilum sem hér um ræðir, hvort heldur um er að ræða tekjuskatt, skil á staðgreiðslu og tryggingagjaldi, virðisaukaskatt o.fl. ásamt tengdri þjónustu, verði falin sérhæfðum hópi starfsmanna sem starfi í sérstakri stjórnsýslueiningu á ábyrgðarsviði skattstjórans í Reykjavík. Eins og fram kemur í 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hefur tollstjórinn í Reykjavík á hendi innheimtu þeirra skatta sem lagðir eru á með þeim lögum í stjórnsýsluumdæmi Reykjavíkur. Um innheimtu annarra skatta, svo sem virðisaukaskatts, tryggingagjalds, staðgreiðslu o.fl., fer einnig eftir þeim lögum. Af því leiðir að innheimta opinberra gjalda hjá þeim lögaðilum sem hér um ræðir verður á hendi tollstjórans í Reykjavík.
    Við samningu þessa ákvæðis hefur verið horft til skattframkvæmdar í Danmörku, Finnlandi og Noregi þar sem þessi háttur hefur verið viðhafður um alllangt skeið með hagsmuni jafnt skattþegnanna og hins opinbera að leiðarljósi.
    Ýmis tilvik geta orðið þess valdandi að það þurfi að fella lögaðila undir 5. mgr. eða fella þá undan henni. Sem dæmi má nefna kaup eða sölu á dótturfélagi, skiptingu eða samruna lögaðila. Gert er ráð fyrir setningu reglugerðar er kveður nánar á um mat og greiningu á því hvaða lögaðilar falli hér undir.

Um 4.–7. gr.


    Greinunum er ætlað að tryggja að önnur skattaleg umsýsla sem tekur til virðisaukaskatts, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjalds og staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur geti farið fram gagnvart þeim aðilum, sem falla undir skilgreiningu 3. gr. frumvarpsins, í Reykjavíkurumdæmi.

Um 8. gr.


    Í greininni er lagt til að tekin verði af öll tvímæli um það að ógerilsneydd mjólk (hrámjólk) eigi að vera í efra þrepi virðisaukaskatts þar sem ekki er litið svo á að hún sé matvara til manneldis í skilningi laganna. Með breytingu á lögum um virðisaukaskatt sl. haust, sbr. lög nr. 175/2006, um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, var neðra þrep virðisaukaskatts lækkað úr 14% í 7% og samhliða þeirri breytingu var settur nýr viðauki við lögin þar sem tilgreindar eru, eftir tollskrárnúmerum, þær vörur til manneldis sem greiða skal 7% virðisaukaskatt af. Í kjölfar þessarar lagabreytingar hefur verið bent á að ekki sé skýrt hvort ógerilsneydd mjólk eigi að vera í efra eða neðra þrepi virðisaukaskatts þar sem hún fellur innan tollskrárnúmera 0401.1000 til 0401.3000 ásamt annarri mjólk. Ógerilsneydd mjólk hefur ætíð verið í efra þrepi virðisaukaskatts og ekki var ætlunin að breyta því með lögum nr. 175/2006. Er því með grein þessari lagt til að tekin verði af öll tvímæli um það að ógerilsneydd mjólk falli utan áðurnefnds viðauka við lög um virðisaukaskatt. Er það gert með því að búa til ný tollskrárnúmer um ógerilsneydda mjólk og tilgreina í viðaukanum að vörur í þeim tollskrárnúmerum (0401.1009, 0401.2009 og 0401.3009) falli utan viðaukans, þ.e. séu ekki til manneldis og beri þar af leiðandi 24,5% virðisaukaskatt. Samhliða breytingar á tollskrá taka gildi 1. janúar 2008.

Um 9. gr.


    Greinin fjallar um gildistöku einstakra greina í frumvarpinu.
    Miðað er við að ákvæði 1. og 2. gr. um söluhagnað hlutabréfa taki gildi í byrjun árs 2008 og komi til framkvæmda við álagningu 2009.
    Ákvæði 3.–7. gr. sem varða skattaumsýslu stórfyrirtækja taka þegar gildi og koma til framkvæmda í ársbyrjun 2009, að teknu tilliti til ákvæðis til bráðabirgða. Það þýðir að álagning á lögaðila skv. 3. gr. frumvarpsins fari fram í Reykjavíkurumdæmi á árinu 2009 vegna rekstrar ársins 2008.
    Þá er lagt til að ákvæði 8. gr. um virðisaukaskatt af ógerilsneyddri mjólk taki gildi 1. janúar 2008.
    Að öðru óbreyttu er gert ráð fyrir að þeir sem hafa selt hlutabréf með hagnaði fyrir gildistöku laga þessara hafi annaðhvort tekjufært söluhagnaðinn á grundvelli gildandi laga eða nýti sér rétt til að fresta og færa niður kaupverð nýrra hlutabréfa innan tímamarka gildandi ákvæðis 5. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum nokkurra laga og eru markmiðin með því einkum tvenns konar. Í fyrsta lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum sem varða skattlagningu á söluhagnaði lögaðila af hlutabréfum á þá leið að annars vegar verði heimild til frestunar á skattlagningunni felld niður og hins vegar að söluhagnaðurinn verði skattfrjáls að því tilskildu að frádráttur vegna þess kostnaðar sem fellur til við hlutabréfaviðskiptin verði takmarkaður þannig að hvorki verði unnt að draga hann frá öðrum tekjum né heldur geti hann myndað yfirfæranlegt tap hjá félögum. Í skattskilum lögaðila kemur ekki fram hversu stór hluti tekna er vegna söluhagnaðar og liggur því ekki fyrir hversu mikill skattur er greiddur af honum. Eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið eru líkur á að skatturinn skili fremur litlum tekjum bæði vegna þess að í reynd er hægt að fresta skattlagningunni óendanlega og vegna þess að mörg íslensk félög hafa flutt eignarhald á hlutabréfum til landa sem ekki skattleggja söluhagnað.
    Í öðru lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að komið verði á fót sérstakri starfseiningu innan Reykjavíkurumdæmis sem hafi með höndum umsýslu með skattamálum stórfyrirtækja fremur en að þau dreifist á skattumdæmi landsins eftir því hvar heimilisfesti þeirra er. Markmiðið með því er að auka skilvirkni og samkvæmni í skattframkvæmdinni gagnvart fyrirtækjum sem hafa meira en 10 mia. kr. veltu eða ef heildareignir þeirra eru umfram 5 mia. kr. Í mörgum tilvikum yrði um að ræða fyrirtæki sem starfa sem samstæða, eiga í verulegum viðskiptum erlendis eða starfa í flóknu viðskiptaumhverfi. Skattaleg úrlausnarefni slíkra fyrirtækja krefjast vaxandi sérhæfingar og sérþekkingar af hálfu skattyfirvalda og er ætlunin að bregðast við því með því að einn skattstjóri hafi forræði yfir úrlausnarefnum á sviði tekjuskatts, staðgreiðslu, virðisaukaskatts, tryggingagjalds o.fl. og að þau verði leyst af hendi af sérhæfðum hópi starfsmanna sem geti þá einnig veitt samhæfðari og vandaðri þjónustu við fyrirtækin. Svipað fyrirkomulag hefur verið á skattframkvæmdinni að þessu leyti í Noregi og Danmörku.
    Á þessu stigi liggja einungis fyrir lauslegar áætlanir um umfang þessarar nýju starfseiningar og kostnað við að koma henni á fót. Gert er ráð fyrir að starfsmenn hennar verði í fyrstu í kringum tíu talsins og að flestir þeirra verði sérfræðingar með mikla reynslu auk aðstoðarfólks. Miðað er við að um helmingur starfsliðsins færist til hinnar nýju starfseiningar frá öðrum stofnunum skattkerfisins. Ekki er talið að þessi starfsemi rúmist í núverandi húsakynnum skattembættanna heldur verði leigt annað húsnæði undir hana. Má því gera ráð fyrir auknum árlegum rekstrarkostnaði vegna u.þ.b. fimm nýrra starfa, um 35 m.kr., húsaleigu, um 5 m.kr., aðkeyptrar sérfræðiþjónustu og annarra rekstrargjalda, um 10 m.kr., eða alls um 50 m.kr. Auk þess mun falla til kostnaður í upphafi við flutninga og kaup á húsbúnaði og tækjum, eða um 2 m.kr. Frumvarpið gerir þó ekki ráð fyrir að starfseiningin taki til starfa fyrr en 1. janúar 2009 og fellur því enginn kostnaður til á næsta ári. Fjármálaráðuneytið fyrirhugar að mæta þessum auknu útgjöldum að nokkru marki með hagræðingu og tilfærslu fjárheimilda innan skattkerfisins en að mestu með því að nýta það svigrúm sem það hefur innan síns útgjaldaramma. Ekki er því gert ráð fyrir að auka þurfi fjárveitingar til ráðuneytisins verði frumvarpið að lögum.