Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 445. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 708  —  445. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að auðvelda og auka notkun á opnum hugbúnaði og hugbúnaðarstöðlum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Kolbrún Halldórsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa þverfaglega nefnd um opinn hugbúnað og hugbúnaðarstaðla. Verkefni nefndarinnar verði að leita leiða til að auka hlut opins hugbúnaðar og hugbúnaðarstaðla í stjórnsýslu og útboðum hins opinbera. Nefndin hafi það að markmiði í störfum sínum að finna leiðir til að draga úr einokun eða fákeppni á hugbúnaðarmarkaði og auka valfrelsi notenda.
    Nefndin kanni hvort ríkið og sveitarfélög geti tekið upp samvinnu á þessu sviði, t.d. samnýtt opinn hugbúnað. Einnig hvernig ríkisvaldið getur beitt sér fyrir því að aðrir aðilar, svo sem stofnanir sem ekki eru reknar í ábataskyni en geta haft sameiginlegan hag af því að nýta og þróa opinn hugbúnað, auki samvinnu sína í þessum efnum.
    Nefndin skoði möguleika á því að sett verði á fót sérstök miðstöð sem:
     a.      aðstoði við notkun á opnum hugbúnaði,
     b.      safni upplýsingum um hvernig opinn hugbúnaður hefur gagnast í stjórnsýslu og rekstri,
     c.      veiti ráðgjöf við kaup á hugbúnaði, lausnum, rekstri og þjónustu á þessu sviði.
    Ríkisstjórnin geri Alþingi grein fyrir framvindu málsins með skýrslu að tveimur árum liðnum.

Greinargerð.


    Opinn eða frjáls hugbúnaður, sem hér er einu nafni nefndur opinn hugbúnaður, skilur sig frá hefðbundnum séreignarhugbúnaði fyrst og fremst að því leyti að leyfilegt er að fjölfalda, dreifa og breyta kóðanum í viðkomandi hugbúnaði að vissum skilyrðum uppfylltum. Undanfarin ár hefur farið fram nokkur vinna við stefnumótun hins opinbera hvað varðar opinn hugbúnað. Ber þar hæst nefndartillögu efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs um opinn hugbúnað og skýrslu sem unnin var af ParX fyrir forsætisráðuneytið „til undirbúnings stefnumótunar stjórnvalda um notkun opins hugbúnaðar“. Brot úr hvoru tveggja fylgir tillögunni. Hér er lagt til að sú vinna verði lögð til grundvallar verkefni um að auðvelda og auka notkun á opnum hugbúnaði og hugbúnaðarstöðlum.
    Eins og fram kemur í skýrslunum tveimur einkennist núverandi staða mála af því að einn framleiðandi hefur yfirburðastöðu þegar kemur að stýrikerfum og notendahugbúnaði og aðrir framleiðendur eiga af ýmsum ástæðum erfitt með að komast inn á markaðinn. Má þar nefna að eldri skjöl og skjöl frá öðrum stofnunum eða fyrirtækjum eru á óaðgengilegu sniði, erfitt getur verið að venjast nýjum hugbúnaði, sem og að tölvukennsla fer að öllu jöfnu fram með þeim hugbúnaði sem mestri útbreiðslu hefur náð.
    Skýrsluhöfundar ParX telja brýnt að ríkið gerist óháðara gagnvart einstökum birgjum á sviði hugbúnaðarsölu og ryðji í þeim tilgangi úr vegi „hindrunum sem innbyggðar kunna að vera í innkaupaferli og innkaupavenjur sem komið geta í veg fyrir að opinn hugbúnaður sé nægilega vel skoðaður við val á hugbúnaði.“ Í því skyni eru ríkisaðilar hvattir til þess að afla sér og nýta opinn hugbúnað ekki síður en séreignarhugbúnað, allt eftir því hvað henti best hverju sinni. Sams konar áherslur er að finna í tillögu efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðs, þar sem lagt er til „at den offentlige indkøbs- og udbudspolitik vedrørende software tilrettelægges således at der skabes fri konkurrence, uafhængighed og valgfrihed i relation til produkter og leverandører. Barrierer og indkøbsrutiner der hindrer eller unødigt begrænser den fri konkurrence, skal elimineres“. Sjá: www.norden.org/nr/2-6-4- betaenk/betaenk2004/sk/PDF_A-saker/Bet_A1341.pdf.)
    Aukin notkun opins hugbúnaðar getur haft ýmsa kosti í för með sér, ekki síst fyrir opinberar stofnanir. Er ekki aðeins um að ræða að nota opinn hugbúnað í sparnaðarskyni heldur getur opinn hugbúnaður í sumum tilvikum verið æskilegri ef uppfæra þarf hugbúnaðinn eða þróa hann áfram til að mæta sérstökum þörfum notenda. Eins og skýrt kemur fram í skýrslu ParX eru þarfir fyrirtækja og stofnana mismunandi og engin ástæða til að ætla að annaðhvort opinn hugbúnaður eða séreignahugbúnaður sé lausnin í öllum tilfellum. Hér er aðeins lagt til að dregið verði úr einokun og fákeppni svo að valfrelsi notenda aukist.
    Í skýrslunni er ríkið einnig hvatt til þess að marka sér framtíðarstefnu „um opna staðla og aðgengi að rafrænum upplýsingum og þjónustu“ og leggja þar sérstaka áherslu á „samvirkni og samskiptahæfni við val á hugbúnaði“ í samræmi við hana. Þetta rímar vel við tillögu efnahags- og viðskiptanefndar Norðurlandaráðsins til norrænna ríkisstjórna í febrúar 2004, þar sem mælt er með því „at der udarbejdes nationale IT-strategier, som understøtter brug af åbne standarder i al offentlig elektronisk kommunikation“. Rökin fyrir slíkum stöðlum eru ekki aðeins þau að það stuðli að heilbrigðri samkeppni meðal hugbúnaðarframleiðenda heldur er einnig mikilvægt fyrir opinbera aðila að rafræn samskipti við fyrirtæki, stofnanir og ekki síst almenna borgara hafi ekki óeðlilegan og ónauðsynlegan kostnað í för með sér.


Fylgiskjal.


ParX, viðskiptaráðgjöf IBM,
Opinn hugbúnaður, apríl 2005:


http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Onnur_Gogn_Innri/ParX_OS_Notkun_opins_hug bunadar_v0.20.pdf


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.