Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1194, 135. löggjafarþing 232. mál: meðferð einkamála (fullgilding þriggja alþjóðasamninga).
Lög nr. 53 5. júní 2008.

Lög um breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991 (Haagsamningar á sviði réttarfars).


1. gr.

     Við 2. mgr. 74. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um þá gagnaöflun fer eftir lögum viðkomandi ríkis og þjóðréttarsamningi, ef slíkur samningur er í gildi við hlutaðeigandi ríki.

2. gr.

     Við 2. mgr. 76. gr. laganna, sbr. 27. gr. laga nr. 133/1993, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ef beiðni kemur frá öðru ríki skal haga gagnaöflun í samræmi við þjóðréttarsamning, ef slíkur samningur er í gildi við hlutaðeigandi ríki, enda fari það ekki í bága við ákvæði laga þessara.

3. gr.

     90. gr. laganna orðast svo:
     1. Nú á stefndi þekkt heimili eða aðsetur erlendis eða það liggur annars fyrir að hann eigi heimili í tilteknu öðru ríki og birting stefnu getur ekki farið fram hér á landi eftir öðrum ákvæðum þessa kafla og fer þá um birtingu eftir lögum þess ríkis og þjóðréttarsamningi, ef slíkur samningur hefur verið gerður við hlutaðeigandi ríki.
     2. Stefna eða önnur tilkynning frá öðru ríki verður birt hér á landi eftir reglum þessa kafla og í samræmi við þjóðréttarsamning, ef slíkur samningur er í gildi við hlutaðeigandi ríki, enda fari það ekki í bága við ákvæði laga þessara.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 133. gr. laganna:
  1. Í stað orðanna „eða aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu“ í a-lið 1. mgr., sbr. 3. gr. laga nr. 72/2003, kemur: aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða aðildarríkis Haagsamnings um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954.
  2. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  3.      Nú hefur maður búsettur hér verið undanþeginn því að leggja fram málskostnaðartryggingu í ríki sem á aðild að Haagsamningnum um einkamálaréttarfar frá 1. mars 1954 og skal þá úrlausn erlends dómstóls um skyldu hans til að greiða málskostnað eða réttargjöld vera aðfararhæf hér á landi.


5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2008.