Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 30. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 30  —  30. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir,
Katrín Júlíusdóttir, Guðjón A. Kristjánsson,
Valgerður Sverrisdóttir, Magnús Stefánsson.


    Alþingi ályktar að félagsmálaráðherra feli Jafnréttisstofu það verkefni að hrinda af stað aðgerðum í því skyni að efla hlut kvenna í sveitarstjórnum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 135. löggjafarþingi (34. mál).
    Mikilvægt er að í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga verði beitt markvissum aðgerðum til að bæta hlut kvenna í sveitarstjórnum. Ein leið að því marki væri að fela Jafnréttisstofu, sem býr yfir mikilli þekkingu á stöðu kvenna í samfélaginu, að annast slíkar aðgerðir eins og gert er ráð fyrir í tillögu þessari. Fjárveitingar til Jafnréttisstofu þyrftu að aukast samhliða slíkum aðgerðum.
    Sveitarstjórnarkosningar verða næst haldnar vorið 2010. Umræða um aukinn hlut kvenna í stjórnmálum hefur eflst á undanförnum árum og missirum. Þrátt fyrir mikla umræðu og átaksverkefni er ljóst að enn vantar töluvert upp á að hlutur kvenna í sveitarstjórnum geti talist eðlilegur.
    Hlutur kvenna í sveitarstjórnum eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar árið 2006 var 35,9%. Svipaðar prósentutölur má sjá þegar skoðaðar eru stjórnir, nefndir og ráð sveitarfélaganna.
    Hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur aukist mjög hægt eins og sjá má af tölulegum upplýsingum hér á eftir.
    Síðustu alþingiskosningar skiluðu ekki til baka því hlutfalli sem konur höfðu á kjörtímabilinu 1999–2003, þegar þær áttu 34,9% fulltrúa á Alþingi en við kosningarnar 2003 fóru þær niður í 30,2% og upp úr því í 31,7% við kosningarnar 2007.
    Brýnt er að tryggja að ekki eigi sér stað hliðstætt bakslag varðandi hlut kvenna í næstu sveitarstjórnarkosningum, heldur náist sá árangur að hlutur kvenna aukist verulega.
    Konur eru í meiri hluta sveitarstjórnarmanna í tíu sveitarfélögum á landinu en í sjö sveitarfélögum er engin kona meðal sveitarstjórnarmanna. Oddvitar í sveitarstjórnum eru 98 talsins, þ.e. 25 konur, eða 25,5%.
    Áður hefur verið farið í verkefni með svipað markmið og í þingsályktunartillögu þessari, en Alþingi samþykkti þingsályktun á 122. löggjafarþingi 1997–1998 (592. mál) um aðgerðir til að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Flutningsmenn tillögunnar voru Siv Friðleifsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Arnbjörg Sveinsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Valgerður Sverrisdóttir, Árni M. Mathiesen, Guðmundur Árni Stefánsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Hjálmar Árnason og Ólafur Örn Haraldsson.
    Í kjölfar samþykktar þingsályktunarinnar var komið á fót þverpólitískri opinberri nefnd á vegum félagsmálaráðuneytisins sem stóð fyrir aðgerðum í um fimm ár.
    Árangurinn var góður. Hlutur kvenna á þingi jókst um 10% í alþingiskosningum árið 1999 m.a. vegna aðgerða nefndarinnar og þeirrar umræðu sem þær sköpuðu innan flokkanna og í samfélaginu á þeim tíma.
    Finna má skýrslu nefndarinnar á slóð félagsmálaráðuneytisins: www.felagsmalaraduneyti.is, en í henni er greint frá aðgerðum og verkefnum nefndarinnar sem og árangri af starfi hennar.
    Í lokaorðum skýrslunnar kemur m.a. fram eftirfarandi: „Konur eru helmingur þjóðarinnar og það hlýtur því að vera mikið réttlætismál að fleiri konur gefi kost á sér til stjórnmálastarfa. Tilgangurinn er að bæði konur og karlar taki sameiginlega ákvarðanir í stjórnmálum og þar með aukast líkur á að ákvarðanir séu teknar með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. En hvað þarf þá að koma til svo hlutur kvenna í stjórnmálum verði aukinn?
    Svörin eru í grófum dráttum þessi:
     1.      Fleiri konur þurfa að gefa kost á sér til stjórnmálastarfa. Til þess að svo megi verða þarf að auka fræðslu meðal almennings, í fjölmiðlum og í skólum um mikilvægi aukins jafnréttis í stjórnmálum sem annars staðar.
     2.      Konur þurfa meiri hvatningu en karlar, ef til vill vegna þess að þær hafa færri kvenfyrirmyndir í stjórnmálum en karlar.
     3.      Það þarf að vera vilji til þess innan stjórnmálaflokkanna að fjölga konum á framboðslistum og þar skipta fyrstu sætin mestu máli.“
    Þar sem reynslan af markvissum opinberum aðgerðum til að auka hlut kvenna í stjórnmálum er góð eins og rakið er hér að framan er rétt að félagsmálaráðuneytið feli Jafnréttisstofu að beita slíkum aðgerðum í aðdraganda komandi sveitarstjórnarkosninga og útvegi stofunni fjármagn til aðgerðanna.
    Tölulegar upplýsingar:


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.