Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 132. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 216  —  132. mál.




Svar



félags- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Atla Gíslasonar um launakjör á vinnustöðum fatlaðra.

    Leitað var upplýsinga um þetta mál hjá Hlutverki – samtökum um vinnu og verkþjálfun.

     1.      Hvað hafa margir vinnustaðir fatlaðra gert kjarasamninga í samræmi við samkomulag Alþýðusambands Íslands og Hlutverks – samtaka um vinnu og verkþjálfun frá maí 2006 um laun og réttindi fatlaðra starfsmanna?
    Alls hafa tólf vinnustaðir fatlaðra gert kjarasamninga á grundvelli samkomulagsins og unnið er að samningum við tvo vinnustaði til viðbótar.

     2.      Hvaða vinnustaðir hafa gert slíka kjarasamninga og greiða starfsmönnum laun í samræmi við ákvæði þeirra?
    Eftirfarandi vinnustaðir hafa gert kjarasamninga á grundvelli samkomulags Alþýðusambands Íslands og Hlutverks – samtaka um vinnu og verkþjálfun:
    Ás – vinnustofa, Brautarholti 6, Reykjavík. Kjarasamningur við Eflingu.
    Ásgarður – handverkstæði, Álafossvegi 22–24, Mosfellsbæ. Kjarasamningur undirritaður við Eflingu.
    Blindravinnustofan, Hamrahlíð 17, Reykjavík. Kjarasamningur við Eflingu.
    Bjarkarás, Stjörnugróf 9, Reykjavík. Kjarasamningur við Eflingu.
    Fjöliðjan – vinnu- og hæfingarstaður, Dalbraut 10–12, Akranesi. Kjarasamningur við Verkalýðsfélag Vesturlands.
    Múlalundur, Hátúni 10 C, Reykjavík. Kjarasamningur við Eflingu.
    Plastiðjan Bjarg/Iðjulundur, Furuvöllum 1, Akureyri. Kjarasamningur við Einingu–Iðju.
    Stólpi, Lyngási 12, Egilsstöðum. Fatlaðir starfsmenn í verndaðri vinnu í Stólpa fá greitt samkvæmt almennum kjarasamningi AFLS starfsgreinafélags og njóta allra réttinda samkvæmt þeim samningi.
    Vinnustaðir ÖBÍ, Hátúni 10, Reykjavík. Kjarasamningur við Eflingu.
    Vinnustofur Skálatúns, Skálatúni, Mosfellsbæ. Kjarasamningur undirritaður við Eflingu.
    Vinnustofan Hólaberg, Gerðubergi 1, Reykjavík. Kjarasamningur við Eflingu.
    Örvi, Kársnesbraut 110, Kópavogi. Kjarasamningur við Eflingu.

     3.      Hvaða vinnustaðir hafa ekki enn lokið slíkum samningum?
    Eftirfarandi vinnustaðir eru að vinna að samningsgerð:
    Kertaverksmiðjan Heimaey, Faxastíg 46, Vestmannaeyjum.
    Sólheimar, Grímsnesi.
    VISS, Gagnheiði 39, Selfossi.

     4.      Hvernig er launum og réttindum fatlaðra starfsmanna fyrirkomið á þeim stöðum sem ekki hafa gert kjarasamninga?
    Á flestum þeim stöðum sem hafa gert kjarasamninga eru laun og réttindi samkvæmt kjarasamningum með þeim undantekningum sem hér greinir:
    Ásgarður – handverkstæði: Ekki er vitað hvort greitt er samkvæmt kjarasamningum.
    Vinnustaðir Skálatúns: Ekki eru greidd laun samkvæmt samningnum þar sem enginn nær 30% vinnugetu samkvæmt matsgögnum Hlutverks – samtaka um vinnu og verkþjálfun.
    Á þeim stöðum þar sem ekki hafa enn verið gerðir samningar fær það fatlaða fólk sem þangað sækir þjónustu greiðslu eða umbun fyrir unnin verkefni. Sem dæmi má nefna verkefni á VISS, en þar er unnið að endurnýtingu frauðplastbakka fyrir Mjólkurbú Flóamanna og flokkunarverkefni fyrir sparisjóðinn. Greidd er ákveðin upphæð fyrir verkin og þeim fjármunum deilt á starfsmenn sem vinna við það þegar búið er að draga frá kostnað.