Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 193. máls.

Þskj. 240  —  193. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á tollalögum, nr. 88/2005, og fleiri lögum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI
Breyting á tollalögum, nr. 88/2005, með síðari breytingum.
1.      gr.

    Við 1. gr. laganna bætast eftirfarandi orðskýringar í réttri stafrófsröð:
     1.      Embætti tollstjóra: Sú stofnun sem fer með stjórn tollamála samkvæmt lögum þessum, m.a. tollheimtu og tolleftirlit, og er falið að framfylgja öðrum lögum og stjórnvaldsreglum sem varða innflutning, umflutning og útflutning á vörum.
     2.      Tollstjóri: Sá embættismaður sem ber faglega, fjárhagslega og stjórnunarlega ábyrgð á rekstri embættis tollstjóra.
     3.      Tollyfirvöld: Þau stjórnvöld sem fara með tollamál á hverjum tíma.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 19. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „tollstjóranum“ í 1. mgr. og hvarvetna annars staðar í lögunum þar sem sama orð er ritað með greini kemur (í viðeigandi beygingarfalli og án greinis): tollstjóra.
     b.      Orðin „í Reykjavík“ í 1. mgr. og sömu orð hvarvetna annars staðar í lögunum falla brott.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna:
     a.      Orðið „viðkomandi“ í 1. og 3. mgr. fellur brott.
     b.      Í stað orðsins „tollstjórum“ í 2. mgr. kemur: honum.

4. gr.

    1. mgr. 24. gr. laganna orðast svo:
    SMT- og VEF-tollafgreiðsla er háð leyfi tollstjóra.

5. gr.

    Orðið „viðkomandi“ í 1. mgr. 25. gr. laganna fellur brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „Tollstjórar fara“ í 1. mgr. kemur: Tollstjóri fer.
     b.      Í stað orðsins „tollstjórar“ í 2. mgr. kemur: tollstjóri.

7. gr.


    39. gr. laganna orðast svo:
    Landið er eitt tollumdæmi.

8. gr.

    40. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Tollstjóri.


    Hlutverk tollstjóra er:
     1.      Að annast tollframkvæmd á landsvísu.
     2.      Álagning og innheimta tolla og annarra skatta og gjalda sem greiða ber við tollafgreiðslu vöru samkvæmt lögum þessum eða öðrum lögum.
     3.      Eftirlit með innflutningi, umflutningi og útflutningi á vörum til og frá landinu og ferðum og flutningi fara og fólks til og frá landinu.
     4.      Aðstoð við fjármálaráðherra varðandi tollamálefni.
     5.      Að vinna að framþróun, hagræðingu og einföldun tollframkvæmdar, skilvirkri og árangursríkri tollstarfsemi og sem bestri þjónustu tollgæslunnar. Hann skal stuðla að því að tollframkvæmdin verði sem hagfelldust fyrir atvinnulífið, almenning og samfélagið og hafa samstarf við atvinnulífið um málefni sem varða hagsmuni þess og greiða fyrir löglegum viðskiptum og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja, eftir því sem við getur átt og að teknu tilliti til fjárhagslegra og lagalegra forsendna og öryggissjónarmiða.
     6.      Samstarf við önnur stjórnvöld og stofnanir sem hafa með höndum verkefni sem tengjast starfssviði hans, sbr. 45. gr.
     7.      Rekstur tölvukerfis og þróun rafrænna samskipta vegna tollafgreiðslu.
     8.      Greiningarstarf vegna áhættustjórnunar við tolleftirlit.
     9.      Starfræksla Tollskóla ríkisins sem sér um menntun tollstarfsmanna og annarra eftir því sem nánar er kveðið á um í lögum eða reglugerðum.
     10.      Öflun upplýsinga til hagskýrslugerðar um milliríkjaviðskipti.
     11.      Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi tollyfirvalda.
     12.      Gerð verklagsreglna varðandi tollframkvæmd.
     13.      Gerð leiðbeininga um tollamálefni fyrir almenning og fyrirtæki.
     14.      Ákvörðun um form og efni tollskjala og eyðublaða til nota við tollframkvæmd.
     15.      Önnur verkefni sem honum eru falin með lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.

9. gr.

    41. gr. laganna verður 43. gr. og á greininni verða eftirfarandi breytingar:
     a.      Orðin „í viðkomandi tollumdæmi“ í 2. mgr. falla brott.
     b.      Orðið „viðkomandi“ í 5. mgr. fellur brott.

10. gr.

    Ný 41. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Staðsetning starfsstöðva tollgæslunnar.


    Ráðherra ákveður, að fengnum tillögum tollstjóra, staðsetningu starfsstöðva tollyfirvalda með tilliti til þess að unnt sé að halda uppi nauðsynlegri tollþjónustu, tollheimtu og tolleftirliti á landsvísu.

11. gr.

    42. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Samningar tollstjóra við sýslumenn og lögreglustjóra um tollframkvæmd.


    Tollstjóra er heimilt, með samþykki fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra, að gera samninga við sýslumenn og lögreglustjóra um að þeir annist í umboði hans tiltekna þætti tollframkvæmdar í stjórnsýsluumdæmum sínum. Hann getur enn fremur samið við þá um nauðsynlega starfsaðstöðu fyrir tollgæslu í viðkomandi stjórnsýsluumdæmum og aðstoð við tollstarfsmenn við framkvæmd starfans.

12. gr.

    Við 45. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði 188. gr. skulu ekki vera því til fyrirstöðu að tollstjóri veiti lögreglu aðgang að upplýsingum sem sú grein tekur til, enda sé það nauðsynlegt í þágu greiningarstarfs lögreglu eða rannsóknar lögreglu á ætluðum brotum á lögum þessum, lögum um ávana- og fíkniefni eða öðrum lögum sem tollstjóra ber að framfylgja.

13. gr.

    Orðin „í því tollumdæmi þar sem geymslusvæðið er“ í 1. málsl. 1. mgr. 79. gr. laganna falla brott.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna:
     a.      Orðin „sbr. 82. og 83. gr.“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um flutning ótollafgreiddrar vöru á milli geymslusvæða. Hann getur m.a. kveðið á um með hvaða hætti skuli færa sönnur á yfirfærslu vörsluábyrgðar skv. 1. mgr.

15. gr.

    82. og 83. gr. laganna falla brott.

16. gr.

    Í stað orðsins „Tollstjórar“ í 1. mgr. 109. gr. laganna kemur: Tollstjóri.

17. gr.

    4. málsl. 3. mgr. 117. gr. laganna fellur brott.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 118. gr. laganna:
     a.      2. mgr. fellur brott.
     b.      4. og 5. mgr. orðast svo:
                  Tollstjóri skal koma fram gagnvart ríkistollanefnd fyrir hönd ríkisins og annarra gjaldkrefjenda.
                  Ríkistollanefnd skal tafarlaust senda tollstjóra kæru ásamt endurriti af þeim gögnum sem kunna að fylgja kæru. Skal nefndin gefa tollstjóra hæfilegan frest til að leggja fyrir nefndina kröfugerð sína í málinu og nauðsynleg gögn. Ríkistollanefnd skal gefa kæranda kost á andsvörum vegna kröfugerðar tollstjóra innan hæfilegs frests.

19. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 119. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Tollstjóri hefur á hendi tollendurskoðun.
     b.      Í stað orðsins „tollstjórum“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: tollstjóra.
     c.      4. mgr. fellur brott.

20. gr.

    126. gr. laganna orðast svo:
    Aðflutningsgjöld skal greiða tollstjóra.
    Tollstjóri getur falið sýslumönnum að veita viðtöku greiðslu aðflutningsgjalda, sbr. 42. gr., sem og bönkum og sparisjóðum og póstrekendum.
    Tollstjóra er heimilt að setja reglur um rafræn greiðsluskil vegna aðflutningsgjalda.

21. gr.

    Orðið „viðkomandi“ í 140. gr. laganna fellur brott.

22. gr.

    142. gr. laganna fellur brott.

23. gr.

    2. málsl. 143. gr. laganna fellur brott.

24. gr.

    Í stað orðanna „tollstjórar bera“ í 146. gr. laganna kemur: tollstjóri ber.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 147. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Tollstjóri, löglærðir fulltrúar hans og tollverðir fara með tollgæsluvald samkvæmt lögum þessum.
     b.      3. mgr. orðast svo:
                  Lögreglustjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og lögreglumenn fara með tollgæsluvald þegar þeir annast eða aðstoða við tollgæslu.

26. gr.

    1. mgr. 152. gr. laganna orðast svo:
    Með samningi skv. 42. gr. getur tollstjóri falið lögreglustjórum að annast tollgæslu jafnframt annarri löggæslu í stjórnsýsluumdæmum sínum.

27. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 183. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „Tollstjórar“ í 1. málsl. kemur: Tollstjóri.
     b.      Í stað orðanna „Skulu þeir“ í 2. málsl. kemur: Skal hann.
     c.      3. málsl. fellur brott.

28. gr.

    2. mgr. 184. gr. laganna orðast svo:
    Berist tollstjóra beiðni erlends tollyfirvalds um aðstoð við rannsókn máls og hann telur að íslenskum stjórnvöldum beri samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum að veita umbeðna aðstoð skal hann annast rannsókn málsins nema rannsókn þess heyri undir lögreglu samkvæmt þessari grein.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 43/1987, um lögskráningu sjómanna,
með síðari breytingum.

29. gr.

    3. gr. laganna orðast svo:
    Tollstjóri er lögskráningarstjóri í Reykjavík og sýslumenn eru lögskráningarstjórar hver í sínu umdæmi.
    Utan aðsetursstaða sinna er sýslumönnum heimilt að fela hreppstjórum að annast lögskráningar. Einnig er þeim heimilt að skipa fulltrúa til að annast lögskráningar á aðsetursstöðum sínum ef þess gerist þörf. Hreppstjórar og lögskráningarfulltrúar skulu hafa eftirlit með skráningu og skila yfirliti til sýslumanna um lögskráningar í umdæmum sínum eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Verði þeir varir við að ekki er farið eftir fyrirmælum laga þessara um lögskráningu skulu þeir tafarlaust tilkynna meint brot til hlutaðeigandi sýslumanns og skipstjóra. Sýslumenn hafa eftirlit með lögskráningarfulltrúum í umdæmum sínum.

III. KAFLI

Breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald,
með síðari breytingum.

30. gr.

    Í stað orðanna „tollalaga, nr. 55/1987“ í 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: tollalaga, nr. 88/2005.

31. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjórar skulu“ í 1. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: Tollstjóri skal.

32. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „þess tollstjóra“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: tollstjóra.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Gjaldskyldur aðili getur skotið úrskurði tollstjóra skv. 1. mgr. til ríkistollanefndar sem kveður upp fullnaðarúrskurð. Um kærufrest og málsmeðferð fer eftir ákvæðum 118. gr. tollalaga.

33. gr.

    2. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði 4. gr., 6. gr. og 2. tölul., 4.–8. tölul. og 12.–15. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga nr. 88/2005, með síðari breytingum, skulu ná til vörugjalds samkvæmt lögum þessum eftir því sem við getur átt.

IV. KAFLI

Breyting á lögum nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði,
með síðari breytingum.

34. gr.

    Orðið „tollstjórn“ í 1. gr. laganna fellur brott.

35. gr.

    Í stað orðanna „tollstjórinn í Reykjavík“ í 1. málsl. 1. mgr. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: tollstjóri.

V. KAFLI

Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum,
eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

36. gr.

    Í stað orðanna „nr. 55/1987“ í 1. gr. og 2. mgr. 2. gr. laganna kemur: nr. 88/2005.

37. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „viðkomandi tollyfirvaldi“ í 1. mgr. kemur: tollstjóra.
     b.      Í stað orðanna ,,tollyfirvöld meta“ í 2. mgr. kemur: tollstjóri metur.

38. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Ákvæði 4. gr., 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. og 2. tölul., 4.–8. tölul. og 13. tölul. 1. mgr. 7. gr. tollalaga, nr. 88/2005, skulu ná til vörugjalds af ökutækjum samkvæmt lögum þessum eftir því sem við getur átt.

39. gr.

    Orðið „viðkomandi“ í 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.

40. gr.

    Í stað orðanna „8.–12. gr. tollalaga, nr. 55/1987“ í 19. gr. laganna kemur: V. kafla tollalaga, nr. 88/2005.

41. gr.

    Í stað orðanna „sbr. 8. gr. tollalaga“ í 1. málsl. 20. gr. laganna kemur: sbr. 14. gr. tollalaga.

42. gr.

    2. mgr. 25. gr. laganna orðast svo:
    Tollstjóri annast álagningu og innheimtu vörugjalds samkvæmt lögum þessum og hefur með höndum eftirlit.

43. gr.

    Í stað orðanna „nr. 55/1987“ í 1. mgr. 27. gr. laganna kemur: nr. 88/2005.

VI. KAFLI

Breyting á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum.

44. gr.

    Í stað orðanna „Tollstjórar, löglærðir fulltrúar þeirra“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: Tollstjóri, löglærðir fulltrúar hans.

45. gr.

    Við 22. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði 1. mgr. skal ekki vera því til fyrirstöðu að lögreglan veiti tollstjóra aðgang að málaskrám sínum og öðrum upplýsingum sem lögregla býr yfir og varða ætluð brot á tollalögum, lögum um ávana- og fíkniefni eða öðrum lögum sem tollstjóra ber að framfylgja, enda séu upplýsingarnar nauðsynlegar í þágu greiningarstarfs tollstjóra.

46. gr.

    Í stað orðsins „tollgæslustjóra“ í 26. gr. laganna kemur: tollstjóra.

VII. KAFLI

Breyting á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum.

47. gr.

    Í stað orðanna „tollstjórinn í Reykjavík“ í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur: tollstjóri.

48. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara verður embætti tollstjórans í Reykjavík embætti tollstjóra. Tekur embættið frá sama tíma við réttindum og skyldum gagnvart tollvörðum sem starfa hjá tollstjórunum í Vestfjarðaumdæmi, Norðurlandsumdæmi, Austurlandsumdæmi nyrðra, Austurlandsumdæmi syðra, Suðurlandsumdæmi, Vestmannaeyjaumdæmi og Reykjanesumdæmi.
    Enn fremur mun embættið á sama tíma taka við umráðum og eignarhaldi á tækjum og búnaði, þ.m.t. ökutækjum, röntgentækjum og áhöldum hvers konar, sem viðkomandi tollstjórar hafa fengið tollvörðum til nota vegna starfa sinna, auk þess sem það ber frá sama tíma ábyrgð á meðferð og afgreiðslu þeirra mála á sviði tollheimtu og tolleftirlits sem þá kunna að vera óafgreidd og til meðferðar hjá viðkomandi tollstjórum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að landið verði gert að einu tollumdæmi. Samhliða verður einu embætti, embætti tollstjórans í Reykjavík, falið að annast tollframkvæmd í landinu öllu, þó þannig að tollstjórinn geti falið sýslumönnum og lögreglustjórum að annast tiltekna þætti tollframkvæmdar í umdæmum þeirra. Til samræmis við það er lagt til að heiti embættis tollstjórans í Reykjavík breytist í embætti tollstjóra.
    Markmið þeirra breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu er að einfalda skipulag tollgæslunnar, jafnt faglega, fjárhagslega sem stjórnunarlega, í því skyni að stuðla að aukinni skilvirkni, jafnræði og árangursríkari tollframkvæmd. Þessum breytingum er því ætlað að gera stjórnsýslu tollamála hagfelldari fyrir atvinnulífið, skattborgarana og þar með samfélagið í heild.
    Fyrir breytingar sem samþykktar voru á tollastjórnsýslunni árið 2007 voru tollstjórar 26 talsins í jafnmörgum tollumdæmum. Tollembættin 26 heyrðu þá undir þrjú ráðuneyti: fjármálaráðuneytið (tollstjórinn í Reykjavík), utanríkisráðuneytið (sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli) og dómsmálaráðuneytið (aðrir tollstjórar). Við skipulagsbreytingarnar 2007 var bæði horft til þróunar í skipulagsmálum lögreglu í landinu og þeirrar staðreyndar að umfang tollamála í mörgum tollumdæmum var afar takmarkað og sums staðar nánast ekki neitt.
    Frá árinu 2007 hafa tollstjórar í landinu verið átta í jafnmörgum tollumdæmum, þ.e. tollstjórinn í Reykjavík í Suðvesturlandsumdæmi, lögreglustjórinn á Ísafirði í Vestfjarðaumdæmi, lögreglustjórinn á Akureyri í Norðurlandsumdæmi, lögreglustjórinn á Seyðisfirði í Austurlandsumdæmi nyrðra, lögreglustjórinn á Eskifirði í Austurlandsumdæmi syðra, lögreglustjórinn á Selfossi í Suðurlandsumdæmi, lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum í Vestmannaeyjaumdæmi og lögreglustjórinn á Suðurnesjum í Reykjanesumdæmi. Í dag heyra tollstjórarnir undir tvö ráðuneyti, þ.e. tollstjórinn í Reykjavík heyrir undir fjármálaráðuneyti en aðrir tollstjórar, sem jafnframt eru lögreglustjórar, undir dómsmálaráðuneyti.

     Tölulegar upplýsingar um umfang tollamála í hverju tollumdæmi á árinu 2007.
Umdæmi


Suðvesturlandsumdæmi


Reykjanesumdæmi


Vestfjarðaumdæmi


Norðurlandsumdæmi


Austurlandsumdæmi nyrðra


Austurlandsumdæmi syðra


Suðurlandsumdæmi


Vestmannaeyjaumdæmi


Samtals
Aðflutningsgjöld
í millj. kr.
106.118 9.851 96 1.584 1.255 4.834 1.281 114 125.136
85,84% 6,65% 0,06% 1,06% 0,77% 4,56% 0,81% 0,25%
Tollverðir 55 53 1 2 1 2 1 2 118
Skipakomur 823 83 24 69 89 282 39 89 1.498
Flugkomur 2.772 13.446 3 221 158 35 0 1 16.636
Aðflutnings- skýrslur

Almennar sendingar
SMT/VEF 289.244 137.447 95 5.603 1.085 1.303 1.635 169 436.581
Pappír 14.365 1.641 21 305 518 90 244 41 17.225
Alls 303.609 139.088 116 5.908 1.603 1.393 1.879 210 453.806
% 66,9% 30,6% 0,0% 1,3% 0,4% 0,3% 0,4% 0,0%
Aðflutningsskýrslur

Þar af póstsend.
SMT/VEF 35.985 0 0 2.798 0 0 0 0 38.783
Pappír 4.173 0 0 253 0 0 0 0 4.426
Alls 40.158 0 0 3.051 0 0 0 0 43.209
% 92,9% 0,0% 0,0% 7,1% 0,0% 0,0% 0,0% 0,0%
Útflutningsskýrslur SMT/VEF 22.812 41.107 21 133 800 1.903 20 903 67.699
Pappír 2.292 904 13 5 76 71 1 797 4.159
Alls 25.104 42.011 34 138 876 1.974 21 1.700 71.858
34,94% 58,46% 0,05% 0,19% 1,22% 2,75 0,03% 2,37%

    Umfang tollstarfseminnar er afar mismunandi í einstökum tollumdæmum. Þrátt fyrir þá einföldun stjórnskipulags tollstjórnar í landinu, sem gerð var árið 2007 þegar tollstjórum var fækkað úr 26 í 8, er umfangið enn afar takmarkað í sumum tollumdæmanna. Til að varpa ljósi á umfangið á landsvísu eru í meðfylgjandi töflu birtar tölulegar upplýsingar um fjölda tollvarða, komu skipa og flugvéla og fjölda tollafgreiddra sendinga í hverju tollumdæmi á árinu 2007.
    Eins og fram kemur í töflunni annast embætti tollstjórans í Reykjavík og tollstjórans í Reykjanesumdæmi nánast alla tollframkvæmd í landinu. Þannig eru 92,5% aðflutningsgjalda innheimt við þessi tvö embætti, og nær 98% alls vöruinnflutnings og 93% vöruútflutnings tollafgreidd þar, 97% flugvéla sem koma til landsins og tvær af hverjum þremur skipakomum. Umfang í öðrum tollumdæmum er óverulegt í þessu samhengi. Við þessi tvö embætti starfa enn fremur flestallir tollverðir eða 108 af 118.
    Annars staðar á Norðurlöndum hefur tollembættum og tollumdæmum verið fækkað á undanförnum árum. Svíþjóð hefur verið eitt tollumdæmi frá 2004. Sama ár var tollumdæmum í Noregi fækkað úr 10 í 6. Í Finnlandi eru tollumdæmin 5 og í Danmörku eru þau 8 talsins og er fyrirhugað að fækka þeim í 6 árið 2009. Tollembættin í þessum löndum heyra undir fjármálaráðuneyti, nema í Danmörku þar sem málefni tolla og skatta (Told og Skat) heyra undir skattamálaráðuneytið.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að skrefið verði stigið til fulls í því að fækka tollembættum og tollumdæmum. Með öðrum orðum, landið verði gert að einu umdæmi sem stjórnað sé af einu embætti, embætti tollstjóra. Það fyrirkomulag mun stuðla að aukinni hagræðingu og einföldun í rekstri viðkomandi embætta, jafnframt því að auðvelda stefnumótun í tollamálum, skipulagningu tollframkvæmdar og alla áætlanagerð varðandi tollstarfsemina sjálfa.
    Embætti tollstjórans í Reykjavík hefur þegar ákveðna sérstöðu meðal tollembættanna samkvæmt gildandi lögum. Það er stærsta tollembættið, bæði með tilliti til umfangs tollstarfseminnar og starfsmannafjölda. Það heyrir eitt tollembætta undir fagráðuneyti tollamála, þ.e. fjármálaráðuneytið, sem fer með æðstu stjórn tollamála í landinu. Þá hefur það embætti þegar á hendi tiltekið miðlægt hlutverk í tollamálum, m.a. samræmingu tollframkvæmdar og rekstur rafræns tollafgreiðslukerfis. Liggur því beinast við að fela embætti tollstjórans í Reykjavík umsjá tollamála á landinu öllu eins og lagt er til í þessu frumvarpi.
    Verði frumvarp þetta að lögum er jafnframt lagt til að heiti embættis tollstjórans í Reykjavík verði breytt í embætti tollstjóra.
    Verði heiti embættis tollstjórans í Reykjavík breytt í embætti tollstjóra er jafnframt óhjákvæmilegt að breyta ýmsum öðrum lögum þar sem embættið er nefnt. Er gerð tillaga um það í þessu frumvarpi, sbr. II.–VII. kafla.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1.–6. gr.


    Í þessum greinum er lagt til að heiti embættis tollstjórans í Reykjavík verði breytt í embætti tollstjóra. Jafnframt eru lagðar til skilgreiningar á hugtökunum „embætti tollstjóra“ „tollstjóri“ og „tollyfirvöld“ þar sem þau hugtök verða notuð áfram í lögunum en þó í breyttri merkingu.

Um 7. gr.


    Í greininni er lagt til að landið verði gert að einu tollumdæmi til samræmis við þá megintillögu frumvarpsins að fela einu tollembætti að fara með tollstjórn á landinu öllu. Samhliða verða önnur tollstjóraembætti lögð niður en embætti tollstjórans í Reykjavík breytt í embætti tollstjóra.

Um 8. gr.


    Í greininni er lýst verkefnum tollstjóra sem annast rekstur á embætti tollstjóra. Þar er byggt á efni 42. og 43. gr. gildandi tollalaga sem fjalla annars vegar um almennt hlutverk einstakra tollstjóra og hins vegar um sérstakt hlutverk tollstjórans í Reykjavík. Jafnframt er tekið mið af þeirri þróun sem gætt hefur á alþjóðavettvangi, m.a. hjá Alþjóðatollastofnuninni, þar sem auknar áherslur hafa verið lagðar á að það sé hlutverk tollembætta að greiða fyrir löglegum viðskiptum og að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Um þetta er fjallað í 5. tölul. greinarinnar, auk þess sem þar er lögð áhersla á það eigi að vera hlutverk tollstjóra að vinna að framþróun, hagræðingu og einföldun tollframkvæmdar, skilvirkri og árangursríkri tollstarfsemi og sem bestri þjónustu tollstjóra. Vegna síaukins mikilvægis þess að tolleftirlit sé byggt á áhættustjórnun er lagt til að í greininni komi fram að tollstjóra sé ætlað að sinna slíku greiningarstarfi, sbr. 8. tölul. Þess má geta að hjá embætti tollstjórans í Reykjavík hefur þegar verið unnið talsvert að uppbyggingu slíkrar greiningarstarfsemi.
    Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Greinin miðast við að tollstjóra verði ætlað að halda uppi tollþjónustu á landsvísu. Gert er ráð fyrir að tollstjóri hafi starfsstöðvar á stöðum þar sem það telst eðlilegt miðað við umfang tollstarfseminnar og þarfir atvinnulífs og einstaklinga. Annars staðar, þar sem þarf að vera einhver viðbúnaður vegna tollheimtu eða tolleftirlits þó að umfang starfans kalli ekki á sérstakar starfsstöðvar af hálfu tollstjóra, yrði við það miðað að hann gerði samstarfssamninga við viðkomandi sýslumann eða lögreglustjóra, sbr. 11. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.


    Í greininni er kveðið á um að tollstjóri geri samninga við einstaka sýslumenn eða lögreglustjóra í því skyni að fela þeim að annast tiltekna þætti tollframkvæmdar á sviði tollheimtu eða tolleftirlits. Sýslumenn eru innheimtumenn ríkissjóðs og sem slíkir eðlilegt að þeir geti annast tiltekna þætti varðandi tollheimtu, jafnframt því sem eðlilegt er, og í samræmi við það sem verið hefur um áratugaskeið, að lögreglustjórar geti sinnt tollgæslu, enda geta þeir verið handhafar tollgæsluvalds, sbr. 147. gr. tollalaga.
    Gert er ráð fyrir að framsal opinbers valds, sem fælist í slíkum samningum sem um ræðir í greininni, yrði einungis ákveðið með samþykki fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra.
Enn fremur er gengið út frá því að í þessum samningum yrði kveðið á um greiðslur til viðkomandi embætta til að standa undir kostnaði við þá þjónustu sem þeim yrði ætlað að láta í té við tollframkvæmd.

Um 12. gr.


    Með greininni er lagt til að bætt verði nýrri málsgrein við 45. gr. tollalaga, þar sem m.a. er fjallað um samvinnu tolls og lögreglu. Lagt er til að með skýrum hætti verði kveðið á um að þagnarskylda tollvarða og annarra tollstarfsmanna sé því ekki til fyrirstöðu að tollstjóri veiti lögreglu aðgang að tilteknum upplýsingum sem varða tollgæslu og löggæslu, enda sé það nauðsynlegt í þágu greiningarstarfs eða rannsókna lögreglu. Talið er æskilegt að treysta lagaumgjörð um eðlilega upplýsingamiðlun á milli tolls og lögreglu, einkum vegna baráttunnar gegn fíkniefnabrotum, tollsvikum og öðrum brotum á tollalöggjöf.

Um 13.–17. gr.


    Hér er lagt til að viðkomandi greinar tollalaga verði lagaðar að þeim breytingum sem felast í frumvarpinu.

Um 18. gr.


    Í greininni er lagt til að 118. gr. laganna, þar sem fjallað er um kærur til ríkistollanefndar, verði löguð að þeirri efnisbreytingu sem í frumvarpinu felst.
    Enn fremur leiðir þessi breyting til þess að ekki þarf að gera ráð fyrir því í lögunum að tollstjóri geti kært til ríkistollanefndar. Því er lagt til að 2. mgr. 118. gr. falli brott.
    Með tillögu í c-lið um breytingu á 5. mgr. 118. gr. er kveðið á um það, sem tíðkast hefur í framkvæmd, að ríkistollanefnd skuli gefa kæranda kost á andmælarétti vegna kröfugerðar tollstjóra í máli.

Um 19.–24. gr.


    Í greinunum er gerð tillaga um aðlögun viðkomandi greina laganna að þeim efnisbreytingum sem af frumvarpinu leiðir.
    Í 20. gr. er kveðið á um að greiða skuli tollstjóra aðflutningsgjöld. Að meginstefnu til eru greiðslurnar rafrænar og þarf þá ekki milligöngu sýslumanns.

Um 25. gr.


    Í greininni er gerð tillaga um aðlögun 147. gr. laganna að þeim breytingum á tollembættum og hugtakanotkun sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Auk þess er lagt til í b-lið að 3. mgr. verði breytt þannig að þar verði tekið fram að lögreglustjórar, löglærðir fulltrúar þeirra og lögreglumenn fari með tollgæsluvald þegar þeir annist eða aðstoði við tollgæslu. Í gildandi ákvæði laganna eru í þessu sambandi einungis nefndir lögreglumenn. Enda þótt þeir sinni alla jafna umræddum störfum þykir eðlilegt að litið sé til þess að þeir starfa í umboði viðkomandi lögreglustjóra sem þarf því einnig að nefna í lagatextanum sem handhafa tollgæsluvalds. Sama gildir um löglærða fulltrúa lögreglustjóra.

Um 26. gr.


    Með greininni er gerð tillaga um aðlögun 152. gr. laganna að því nýmæli sem fólgið er í 11. gr. frumvarpsins og varðar heimild tollstjóra til að fela sýslumönnum og lögreglustjórum að fara með tiltekna þætti tollframkvæmdar með sérstökum samningum.

Um 27. gr.


    Í greininni er gerð tillaga um aðlögun 183. gr. laganna að þeim breytingum á tollembættum og hugtakanotkun sem frumvarpið gerir ráð fyrir og þarfnast þær ekki sérstakra skýringa.

Um 28. gr.


    Í greininni er lagt til að orðalagi 2. mgr. 184. gr. laganna verði breytt til samræmis við þá tillögu frumvarpsins að það verði einungis eitt tollembætti í landinu. Núgildandi ákvæði byggist á að embættin séu fleiri og að eitt þeirra, embætti tollstjórans í Reykjavík, hafi tiltekið miðlægt hlutverk varðandi afgreiðslur aðstoðarbeiðna frá erlendum tollyfirvöldum. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 29.–47. gr.


    Í greinunum er gerð tillaga um aðlögun eftirtalinna laga að þeim breytingum á tollembættum sem frumvarpið gerir ráð fyrir:
     1.      laga um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, með síðari breytingum,
     2.      laga um vörugjald, nr. 97/1987, með síðari breytingum,
     3.      laga um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, með síðari breytingum,
     4.      laga um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., nr. 29/1993, með síðari breytingum,
     5.      lögreglulaga, nr. 90/1996, með síðari breytingum,
     6.      laga um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, með síðari breytingum,
    Auk þess að laga framangreind lög að þeim breytingum sem lagðar eru til að gerðar verði samkvæmt frumvarpinu eru tilvísanir í eldri tollalög leiðréttar til samræmis við breytingar á tollalögum undanfarin ár. Um einstakar tillögur frumvarpsins skal eftirfarandi tekið fram:
    Í 45. gr. er lagt til að í lögreglulög, nr. 90/1996, verði sett ákvæði þar sem tekið yrði fram að þagnarskylduákvæði lögreglulaga sé því ekki til fyrirstöðu að lögreglan veiti tollstjóra aðgang að málaskrám sínum og öðrum upplýsingum sem lögreglan búi yfir og varði ætluð brot á tollalögum, lögum um ávana- og fíkniefni eða öðrum lögum sem tollstjóra beri að framfylgja, enda sé það nauðsynlegt í þágu greiningarstarfs eða tolleftirlits. Slík upplýsingamiðlun er afar mikilvæg vegna tolleftirlits og nauðsynlegt að taka af tvímæli um heimild til hennar í lögreglulögum. Nefna má í þessu sambandi að tollstjórar, aðrir en tollstjórinn í Reykjavík, hafa í krafti embætta sinna sem lögreglustjórar haft heimildir til aðgangs að upplýsingum í málaskrám lögreglu. Því er nauðsynlegt að tryggja að aðstaða tollstjóra til að afla sér upplýsinga verði ekki verri eftir breytingu, samkvæmt ákvæðum frumvarpsins, en hún var fyrir hana. Um sambærileg ákvæði varðandi upplýsingamiðlun frá tollstjóra til lögreglu er fjallað í 12. gr. frumvarpsins varðandi breytingu á 45. gr. tollalaga.
    Að öðru leyti þarfnast greinarnar ekki skýringa.

Um 48. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í bráðabirgðaákvæðinu er kveðið á um að störf þeirra tollvarða sem starfa hjá öðrum tollstjórum en tollstjóranum í Reykjavík flytjist til þess embættis og tollverðirnir haldi áunnum réttindum og embætti tollstjórans í Reykjavík taki við réttindum og skyldum gagnvart þeim. Hann taki og við umráðum og eignarhaldi á tækjum og búnaði hvers konar sem viðkomandi tollverðir hafa til nota vegna starfa sinna. Jafnframt er kveðið á um að frá og með gildistöku laganna breytist heiti embættis tollstjórans í Reykjavík í embætti tollstjóra, sbr. almennar athugasemdir við lagafrumvarpið. Enn fremur er kveðið á um að embættið skuli við gildistöku lagabreytinganna taka við og bera ábyrgð á meðferð og afgreiðslu þeirra mála á sviði tollheimtu og tolleftirlits sem kunna að vera til meðferðar hjá viðkomandi tollstjórum. Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005,
með síðari breytingum, og öðrum lagaákvæðum er varða tollframkvæmdina.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að landið verði gert að einu tollumdæmi og að einu tollembætti, hjá embætti tollstjórans í Reykjavík, verði falin öll tollframkvæmd í landinu. Þó er gert ráð fyrir því að embættið geti falið sýslumönnum og lögreglustjórum tiltekna þætti tollframkvæmdarinnar í umdæmi þeirra teljist það faglega og fjárhagslega hagkvæmt. Eftir breytingar sem gerðar voru á tollalögum árið 2007 eru átta tollstjórar í landinu. Tollstjórinn í Reykjavík hefur haft með höndum tiltekin miðlæg tollstjórnarverkefni fyrir allt landið sem lúta m.a. að samræmingu tollframkvæmdar og rekstri rafræns tollafgreiðslukerfis. Aðrir tollstjórar eru jafnframt sýslumenn og lögreglustjórar, nema lögreglustjórinn á Suðurnesjum sem ekki er sýslumaður. Tollstjórinn í Reykjavík er eini tollstjórinn sem heyrir undir fjármálaráðherra sem fer með faglega yfirstjórn tollamála í landinu. Aðrir tollstjórar heyra undir dómsmálaráðherra þó þeir lúti faglegri yfirstjórn fjármálaráðherra í tollamálum.
    Frumvarpið miðar að því að auka hagræði og einfalda rekstrarfyrirkomulag, jafnframt því að gera tollstjóra betur í stakk búinn til að sinna hlutverki sínu t.d. með því að auðvelda stefnumótun í tollamálum, skipulagningu tollframkvæmdar og áætlanagerð varðandi tollstarfsemina. Tollstjórinn í Reykjavík er langstærsta tollembættið og sér ásamt tollstjóranum í Reykjanesumdæmi um nánast alla tollframkvæmd í landinu. Af 118 tollvörðum í landinu starfa 108 hjá þessum tveimur embættum. Þannig er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að allt er lýtur að tollamálum verði á forræði fjármálaráðherra. Hér er um að ræða skipulagsbreytingar sem fela fyrst og fremst í sér tilfærslu á verkefnum og fjárheimildum milli ráðuneyta og er ekki tilefni til þess að ætla að þær hafi umtalsverð áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að breytingar sem af því kann að leiða, t.d. tímabundinn kostnaður við undirbúning og skipulagningu, muni rúmast innan útgjaldaramma dóms- og kirkjumálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis í fjárlögum.