Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.

Þskj. 248  —  198. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um íslenska málstefnu.

(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




    Alþingi ályktar að tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu verði samþykktar sem opinber stefna í málum er varða íslenska tungu.
    Alþingi lýsir yfir stuðningi við það meginmarkmið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Lagt er til að Alþingi álykti um að tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu verði samþykktar sem opinber málstefna fyrir íslenska tungu. Í 9. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006, er mælt fyrir um að Íslensk málnefnd skuli vera stjórnvöldum til ráðgjafar „um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu“. Þær tillögur að íslenskri málstefnu sem hér eru kynntar eru hinar fyrstu sem lagðar eru fram eftir samþykkt laganna. Er við hæfi að fjallað sé um tillögurnar á Alþingi og að þingið álykti um þær, enda þótt ekki sé sérstaklega mælt fyrir um það í lögum. Þar með gefst Alþingi færi á að ræða efni tillagnanna og þær áherslur sem í þeim koma fram. Ekki er vafi á að það gefur íslenskri málstefnu styrkari stoð að um hana sé fjallað á Alþingi og að þingið taki afstöðu til hennar með þessum hætti.
    Sú málstefna sem hér er kynnt er afrakstur af starfi vinnuhópa Íslenskrar málnefndar til að undirbúa stefnumótun á einstökum sviðum sem málstefnan nær til. Haldin voru 11 málþing á vegum nefndarinnar þar sem rætt var um stöðu og horfur íslenskrar tungu og kallað eftir sjónarmiðum og ábendingum um stefnumið og áherslur. Í stefnuskrá Íslenskrar málnefndar segir: „Á tímum hraðvaxandi alþjóðasamskipta þar sem notkun erlendra tungumála, einkum ensku, verður æ ríkari þáttur í íslensku samfélagi er brýnt að tryggja stöðu íslenskrar tungu. Eitt af mikilvægustu verkefnum Íslenskrar málnefndar er að vinna markvisst að því að íslenska haldi gildi sínu í þessu breytta umhverfi og verði áfram nothæf og notuð á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“ Í ljósi þessa og á grundvelli afraksturs málþinganna ákvað Íslensk málnefnd að meginmarkmið málstefnunnar skyldi vera að íslenskan yrði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.
    Samþykki Alþingi þingsályktunartillöguna mun menntamálaráðherra hafa forgöngu um að kynna málstefnuna og stuðla að umræðu um málefni íslenskrar tungu. Mikilvægt er að almenn samstaða skapist um málstefnuna, markmið hennar og leiðir að þeim. Víðtækur stuðningur við málstefnuna er forsenda þess að unnt sé að hrinda henni í framkvæmd á farsælan hátt og að markmiðum hennar verði náð.
    Tillögur íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu eru birtar sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.


Fylgiskjal.


Íslenska til alls.

Tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu.


(Menntamálaráðuneyti 3. nóv. 2008.)



FORMÁLI

Í skjalinu Íslenska til alls eru birtar tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu en eitt af viðfangsefnum málnefndarinnar er samkvæmt lögum að vinna að slíkum tillögum fyrir menntamálaráðherra. Tillögurnar eru settar fram í ellefu köflum og snerta mikilvægustu svið þjóðlífsins að mati nefndarinnar.
    Íslensk málnefnd varð sammála um að stjórnin skrifaði drög að köflum í málstefnuna sem málnefndin í heild færi síðan yfir og var hafist handa í ársbyrjun 2007. Í inngangi er starfinu lýst nánar og vísast til þess.
    Þeir sem skrifuðu drög að einstökum köflum voru Guðrún Kvaran, prófessor og formaður Íslenskar málnefndar (formáli, inngangur, íslenska í háskólum, íslenska í vísindum og fræðum, lokaorð), Þórarinn Eldjárn, rithöfundur og varaformaður Íslenskrar málnefndar (íslenska í listum), Haraldur Bernharðsson, málfræðingur og sérfræðingur í rannsóknarstöðu Árna Magnússonar á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (lagaleg staða íslenskrar tungu, íslenska í atvinnulífinu, þýðingar og túlkun, íslenska sem annað mál), Sigríður Sigurjónsdóttir, dósent á hugvísindasviði Háskóla Íslands og varamaður Sigurðar Konráðssonar í stjórn (leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar), og Steinunn Stefánsdóttir, blaðamaður og aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins (íslenska í fjölmiðlum). Sigurður Konráðsson, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands, sem er aðalmaður í stjórn, var í rannsóknarleyfi á árunum 2007–2008 en kom að málstefnunni á lokastigum. Öll stjórnin kom að því að samræma kafla og lesa þá yfir.
    Stjórnin leitaði til tveggja manna utan málnefndarinnar um skrif tveggja kafla vegna sérþekkingar þeirra. Annar þeirra, Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor á hugvísindasviði Háskóla Íslands, skrifaði drög að kaflanum Íslenska í tölvuheiminum, og Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, skrifaði drög að kaflanum Íslenska erlendis.
    Þegar tillögurnar voru að mestu mótaðar voru þær annars vegar sendar í menntamálaráðuneytið í yfirlestur en hins vegar til fulltrúa Íslenskrar málnefndar. Á vegum ráðuneytisins lásu yfir: Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri, Kristín Jónsdóttir skrifstofustjóri, Guðni Olgeirsson sérfræðingur, Stefán Stefánsson deildarstjóri, Sigurjón Mýrdal deildarstjóri, Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir sérfræðingur, Guðný Helgadóttir deildarstjóri, Elfa Ýr Gylfadóttir deildarstjóri, Njörður P. Njarðvík, fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands, og Ólöf Nordal þingmaður.
    Athugasemdir og ábendingar bárust frá eftirfarandi nefndarmönnum og varamönnum Íslenskrar málnefndar: Brynhildi Þórarinsdóttur, fulltrúa Háskólans á Akureyri, Gunnari Stefánssyni, fulltrúa Ríkisútvarpsins, Jóhanni G. Jóhannssyni, fulltrúa Þjóðleikhússins, Sigrúnu Helgadóttur, fulltrúa orðanefnda, og Sigurði Jónssyni, varamanni hennar, Sigurjóni B. Sigurðssyni, varafulltrúa Listaháskóla Íslands, Sæmundi Helgasyni, fulltrúa Samtaka móðurmálskennara, og Þorláki Karlssyni, fulltrúa Háskólans í Reykjavík.
    Auk þessara tóku að sér að lesa ýmist allt skjalið eða einstaka kafla þess: Ari Páll Kristinsson, rannsóknardósent og stofustjóri málræktarsviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, las allt skjalið. Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, las kaflann Lagaleg staða íslenskrar tungu, Þóra Björk Hjartardóttir, dósent á hugvísindasviði Háskóla Íslands, og Knútur Hafsteinsson, kennari við Menntaskólann í Reykjavík, lásu kaflann Leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar, Þóra Björk Hjartardóttir og Birna Arnbjörnsdóttir, dósent á hugvísindasviði Háskóla Íslands, lásu kaflann Íslenska sem annað mál, Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands, og Björn Gíslason, fréttastjóri á Vísi, lásu kaflann Íslenska í fjölmiðlum, Pétur Gunnarsson, rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands, Ragnheiður Tryggvadóttir, framkvæmdastjóri rithöfundasambandsins, og Ágúst Guðmundsson, forseti Bandalags íslenskra listamanna, lásu kaflann Íslenska í listum, Ágústa Þorbergsdóttir, deildarstjóri á málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Gauti Kristmansson, dósent á hugvísindasviði Háskóla Íslands, og Gunnhildur Stefánsdóttir, forstöðumaður Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins, lásu kaflann Þýðingar og túlkun.
    Málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum tók að sér að lesa skjalið yfir með tilliti til málfars og frágangs og fékk til þess Kára Kaaber, deildarstjóra stjórnsýslusviðs, og Jóhannes Bjarna Sigtryggsson, verkefnisstjóra á málræktarsviði.
    Öllu þessu fólki eru þakkaðar góðar ábendingar, athugasemdir og tillögur að viðbótum sem tekið var tillit til eins og mögulega var unnt. Yfirlesarar bera þó enga ábyrgð á þeim göllum sem enn kunna að finnast á þessu riti.


INNGANGUR


Íslensk málnefnd á samkvæmt 9. grein laga nr. 40/2006 að vinna að tillögum að íslenskri málstefnu fyrir menntamálaráðherra. Að því verki hefur verið unnið undanfarin tvö ár og liggja tillögurnar nú fyrir. Aðalmarkmið þeirra er:

          að tryggja að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.

Þá er átt við vandaða íslensku sem nýtist sem tjáningarmiðill við hvers kyns kringumstæður. Framtíðarhorfur tungumáls ráðast fyrst og fremst af stöðu þess innan málsamfélagsins en ekki af stærð málsamfélagsins. Ef tungumál er notað á öllum sviðum er staða þess sterk. Á hinn bóginn er staða hvaða tungumáls sem er veik ef það er ekki notað eða jafnvel ekki talið nothæft nema á sumum sviðum samfélagsins og það látið víkja fyrir öðrum málum. Staða íslenskrar tungu verður best treyst með því að nota íslensku sem víðast í íslensku samfélagi og á sem fjölbreyttastan hátt þannig að engin svið verði út undan. Þar er mikilvægt að þjóðin sjálf taki einarða afstöðu með íslenskri tungu.
    Í tillögunum hér á eftir er því fyrst lýst hvert ástand tungumálsins sé á mikilvægum sviðum þjóðlífsins, horfurnar eru metnar, markmið sett og að lokum leggur Íslensk málnefnd til aðgerðir sem nota má til að ná settum markmiðum. Áður en að þeim köflum kemur verður stuttlega gerð grein fyrir því hvað átt er við með málstefnu og nokkur hugtök skýrð. Þá verður rætt um hlutverk Íslenskrar málnefndar en síðan um yfirlýsingu um norræna málstefnu og stöðu málstefnu á Norðurlöndum. Þá verður skýrt frá undirbúningsvinnu málnefndarinnar, sex vinnuhópum og vinnubrögðum þeirra og málræktarþingi málnefndarinnar 2007 þar sem vinnuhóparnir gerðu grein fyrir skýrslum sínum. Að lokum verður greint frá ellefu málþingum um viðfangsefni málstefnunnar og viðbrögðum við þeim.

Íslensk málstefna
Umræðan um íslenska málstefnu nú um stundir er órjúfanlega tengd því að varðveita og efla tunguna. Þegar hugtakið íslensk málstefna er nefnt gera margir ráð fyrir að átt sé við sérstakan texta sem skilgreindur hefur verið og settur á blað af opinberum aðilum, menntamálaráðuneyti eða Alþingi og vísa megi til í ræðu og riti. Slíkur texti er þó enn ekki til þótt til séu bæði lög og samþykktir sem á einhvern hátt snerta meðferð tungumálsins. En hvað er átt við með hugtakinu íslensk málstefna? Til eru skilgreiningar á því, misjafnlega víðar.
    Í grein eftir Ara Pál Kristinsson málfræðing (2007:99) segir að málstefna tiltekins málsamfélags miði ávallt að einhverjum samfélagslegum markmiðum enda þótt það sé misjafnlega sýnilegt. Síðar í sömu grein skilgreinir hann málstefnu á þennan hátt (2007:103):

     Málstefna: ráðandi málfélagsleg vitund og dulin og sýnileg ferli í tilteknu málsamfélagi; varðar bæði stöðu og form máls.

Með sýnilegri málstefnu á Ari við til dæmis námskrár, orðabækur, aðgerðaáætlanir og ýmiss konar fyrirmæli, svo sem opinberar stafsetningarreglur. Með dulinni málstefnu er átt við áhrif á stöðu og form máls sem oft er erfitt að benda á hvaðan koma.
    Í ritinu Handbók um málfræði eftir Höskuld Þráinsson prófessor er málstefna skilgreind á þennan hátt (1995:93):

    Með MÁLSTEFNU er átt við þá stefnu sem fylgt er í skólum og opinberum stofnunum varðandi málnotkun.

Sams konar skýring er á málstefnu í Íslenskri orðabók (2002:976). Eins og sjá má er síðari skýringin þrengri en hin fyrri. Hún nær aðeins til skóla og opinberra stofnana en í hverju samfélagi ríkir einhvers konar málstefna. Ari Páll Kristinsson fjallar um þetta í riti sínu Handbók um málfar í talmiðlum. Hann skrifar (1998:10):

    Það er í sjálfu sér liður í málstefnu þegar málnotendur á tilteknu landsvæði koma sér saman um að nota eitt tungumál en ekki annað. Einhvers konar samræmdar reglur og skráðar og óskráðar venjur um meðferð máls (t.d. á opinberum vettvangi, við trúarathafnir eða í skólum) virðast fylgja öllum málsamfélögum. Ríkjandi málstefna er þá sú að slíkum reglum og venjum skuli fylgt.

Skýring Höskulds og Íslenskrar orðabókar vísar aðeins til opinberra samþykkta sem gerðar hafa verið um meðferð tungumálsins, til dæmis í námskrám fyrir skólastigin og í lögum um Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, mannanöfn, örnefni, fyrirtækjanöfn og stjórnvaldsfyrirmæli um stafsetningu og greinarmerkjasetningu, svo að einhver séu nefnd, þar sem áhersla er lögð á vandaða meðferð íslensks máls og varðveislu þess. Um þetta efni vísast í grein Þórs Vilhjálmssonar, Réttarreglur um íslenska tungu (2001). Íslensk málnefnd notar hugtakið málstefna í víðari merkingu eins og Ari Páll.
    Mikilvæg í umræðunni um málstefnu í víðari merkingu er ályktun frá Alþingi frá 22. maí 1984:

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að í ríkisfjölmiðlum og í grunnskólanámi verði aukin rækt lögð við málvöndun og kennslu í framburði íslenskrar tungu.

Í framhaldi af þessari ályktun Alþingis skipaði þáverandi menntamálaráðherra, Ragnhildur Helgadóttir, nefnd til að gera tillögur um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum. Nefndin var að störfum 1985–1986 og skilaði af sér álitsgerð sem gefin var út 1986. Að henni stóðu Guðmundur B. Kristmundsson, Baldur Jónsson, Höskuldur Þráinsson og Indriði Gíslason. Sömu höfundar gáfu síðan út bókina Mál og samfélag tveimur árum síðar (1988). Í síðari hluta hennar er álitsgerðin endurprentuð.
    Höfundar álitsgerðarinnar telja eftirfarandi meginatriði vera í íslenskri málstefnu (Guðmundur B. Kristmundsson o.fl. 1986:26):

    Íslendingar hafa sett sér það mark að varðveita tungu sína og efla hana.
         Með varðveislu íslenskrar tungu er átt við að halda órofnu samhengi í máli frá kynslóð til kynslóðar, einkum að gæta þess að ekki fari forgörðum þau tengsl sem verið hafa og eru enn milli lifandi máls og bókmennta allt frá upphafi ritaldar.
         Með eflingu tungunnar er einkum átt við að auðga orðaforðann svo að ávallt verði unnt að tala og skrifa á íslensku um hvað sem er, enn fremur að treysta kunnáttu í meðferð tungunnar og styrkja trú á gildi hennar.
         Varðveisla og efling eru ekki andstæður. Eðli málsins, formgerð þess og einkenni eiga að haldast. En málið á að vaxa líkt og tré sem heldur áfram að vera sama tré þótt það þroskist og dafni.

Undir þessi orð tekur Íslensk málnefnd tveimur áratugum síðar en þjóðfélagsbreytingar og vaxandi hnattvæðing krefst þess að litið sé til fleiri þátta samfélagsins en áður til þess að hvergi verði hætta á að umdæmi hverfi yfir til ensku.
    Líta má á álitsgerðina sem kveikjuna að þeirri umræðu sem fór fram á málþingi Samtaka móðurmálskennara 12.–13. apríl 1985 undir heitinu Íslensk málstefna og þeim greinum sem birtust í tímaritinu Skímu, málgagni móðurmálskennara, árið 1985. Áhersla var lögð á að kennarar sæktu ráðstefnuna og hafði menntamálaráðherra gefið þeim kennurum leyfi frá störfum fyrri daginn (föstudag) sem sækja vildu málþingið. Í Skímu höfðu allir höfundarnir fjórir skrifað greinar en auk þeirra sjö aðrir málfræðingar og áhugamenn um íslenskt mál.
    Í tengslum við þessa umræðu alla kannaði Halldór Halldórsson prófessor árið 1986 viðhorf stjórnvalda og allra þáverandi stjórnmálaflokka til íslenskrar málstefnu og kom þá í ljós að allir stjórnmálaflokkarnir aðhylltust málvernd og málrækt í hefðbundnum skilningi. Íslensk málnefnd skrifaði öllum starfandi stjórnmálaflokkum bréf, dagsett 25. júlí 2008, og spurðist fyrir um hvernig málum væri háttað nú. Svar barst einungis frá Vinstrihreyfingunni grænu framboði 5. ágúst og kom þar fram að ekkert hefði formlega verið samþykkt á landsfundum eða flokksráðsfundum um málstefnu. Aðrir stjórnmálaflokkar hafa ekki sent svar við fyrirspurninni.
    Umræða um íslenska málstefnu er ekki ný. Íslensk málnefnd hefur til dæmis oftar en einu sinni haft hana til umræðu í einhverri mynd á málræktarþingum sínum (sjá til dæmis Kristján Árnason 2001). Mikið hefur verið rætt og ritað um hana og margir komið þar við sögu. Rækilega samantekt um helstu greinar um efnið er að finna á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undir heitinu Málstefna – ýmsar heimildir (www.arnastofnun.is).

Málvernd, málrækt og málvöndun
Orðin málvernd og málrækt hafa bæði þegar verið nefnd og þau koma fyrir í tillögum Íslenskrar málnefndar og er því rétt að gera grein fyrir því hvað átt er við. Þessi hugtök hafa lengi verið notuð þegar rætt er um að varðveita íslenska tungu og efla hana. Menn hafa löngum haft skiptar skoðanir á því hversu langt skuli ganga í verndun íslenskrar tungu, deilt og rökrætt um einstök atriði en umræðan um efnið hefur haft jákvæð áhrif og beint sjónum manna að tungumálinu og notkun þess. Tungumál er þá fyrst í verulegri hættu þegar menn hafa ekki lengur áhuga á að ræða það.
    Umræðan um íslenska málvernd er ekki ný af nálinni. Hún hófst í raun þegar á 16. öld með skrifum Arngríms Jónssonar lærða en hann var brautryðjandi í málhreinsunarstarfi og málhreinsunarkenningu (Jakob Benediktsson 1987:68) og umræðan hefur haldist óslitið í einhverri mynd fram á þennan dag og haft veruleg áhrif á þróun tungunnar. Sú stefna, sem hún tók þegar í upphafi 17. aldar, er talsvert ólík þeirri sem tíðkast hefur hjá nágrannaþjóðunum. Áherslan á að mynda fremur ný íslensk orð en taka við aðkomuorðum á rætur í skrifum Arngríms en með aðkomuorði er bæði átt við tökuorð sem fyllilega hafa aðlagast málinu og orð sem bera uppruna sínum merki í rithætti og framburði. Málverndin efldist á 18. öld, var í miklum blóma á dögum Fjölnismanna á 19. öld og lifir enn góðu lífi bæði í lærðri og virkri orðmyndun. Ekki eru tök á að rekja þessa sögu hér en bent er á rækilega umfjöllun Kjartans G. Ottóssonar prófessors frá 1990.
    Hugtökin málvernd og málrækt snúa að formi málsins en málvöndun snýr fremur að beygingar- og setningafræði, framburði, merkingu og orðaforða. Á þann hátt eru þau notuð í tillögum málnefndarinnar. Baldur Jónsson prófessor vildi leggja enn víðari merkingu í orðið málrækt og notar það sem yfirhugtak yfir málhreinsun, málvernd og málvöndun, þ.e. að málrækt nái bæði yfir „ræktun málsins og ræktarsemi við það“ (2002:414).
    Hugtökin málstefna, málpólitík, málstýring, formstýring og stöðustýring eru yngri en hin sem þegar hafa verið nefnd. Þótt þau komi ekki öll fyrir í tillögunum þykir rétt að hafa þau með hér til frekari skilnings á viðfangsefninu. Málpólitík er málstefna sem snýr að stöðu málsins. Hún lýtur að útbreiðslu og notkunarsviði máls, þ.e. þeirri stöðu sem það skipar í stjórnsýslu, atvinnu- og menningarlífi. Málstýring er sá hluti málstefnu sem felst í sýnilegri viðleitni til að hafa áhrif bæði á form málsins og stöðu þess. Með stöðustýringu er átt við þá málstýringu sem reynir að hafa áhrif á stöðu málsins gagnvart öðrum málum en með formstýringu er að sama skapi reynt að hafa áhrif á formið. Um þessi hugtök má lesa nánar í grein Ara Páls Kristinssonar málfræðings (2007:106–107) og hjá Kristjáni Árnasyni prófessor (2001:3–4).
    Tvö hugtök enn hafa á síðari árum verið ofarlega í umræðunni í nágrannalöndunum en það eru umdæmisvandi og umdæmismissir. Bæði eru notuð í tillögunum hér á eftir. Málráð Norðurlanda stóð fyrir málþingi í Ósló 2004 þar sem stjórnmálamenn jafnt sem háskólamenn lýstu áhyggjum sínum yfir stöðu tungumálanna og hvöttu til þess að gripið yrði til aðgerða. Sú umræða, sem fram fór á þinginu, hafði mikil áhrif á það starf sem í hönd fór á öllum Norðurlöndum og beindist að réttarstöðu tungunnar og hugsanlegum lögum um tungumálið (sjá kaflann S taða málstefnu á Norðurlöndum hér á eftir). Með umdæmisvanda er átt við þá stöðu sem ákveðið svið þjóðlífsins getur lent í ef tungumálið er ekki talið nýtast til tjáskipta á því en með umdæmismissi er átt við það að heilt svið tekur upp erlent tungumál í öllum sínum samskiptum innanlands sem utan.

Íslensk málstefna og Íslensk málnefnd
Þótt engar opinberar samþykktir séu til um heildarmálstefnu kom hún þó þegar óbeint fram í Reglum um starfsemi Íslenzkrar málnefndar í bréfi frá menntamálaráðherra, dagsettu 30. júlí 1964. Þar var lögð áhersla á að nefndin annaðist söfnun nýyrða og útgáfu þeirra. Hún átti að aðstoða við val nýyrða og við nýyrðasmíði, hafa samvinnu við nýyrðanefndir, svara fyrirspurnum og vera í samstarfi við norrænu málnefndirnar.
    Lög voru sett um Íslenska málnefnd (nr. 80/1984) og öðluðust þau gildi 1. janúar 1985. Þær reglur, sem gilt höfðu um hlutverk nefndarinnar og verkefni hennar, urðu áfram kjarni laganna. Mikilvægasta breytingin var ákvæði um stofnun Íslenskrar málstöðvar.
    Halldór Halldórsson prófessor og Baldur Jónsson, prófessor og fyrrum forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar, skrifuðu ítarlega um sögu málnefndarinnar 1964–1989 og vísast til þess rits um fyrstu starfsár nefndarinnar (Halldór Halldórsson og Baldur Jónsson 1993).
    Ný lög voru samþykkt um Íslenska málnefnd 1990 (nr. 2/1990) og giltu þau þar til málnefndin tengdist Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum með því að 9. gr. fyrrnefndra laga um stofnunina fjallar um Íslenska málnefnd. Við sömu lagabreytingu hætti Íslensk málstöð að vera sjálfstæð stofnun. Þegar í 1. grein laganna frá 1990 kom fram kjarninn í starfssviði nefndarinnar: „Íslensk málnefnd hefur það meginhlutverk að vinna að eflingu íslenskrar tungu og varðveislu hennar í ræðu og riti.“ Í næstu greinum var kveðið nánar á um verkefni nefndarinnar, meðal annars átti hún að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um íslenskt mál og til hennar skyldi leitað áður en settar væru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenska tungu. Málnefndin átti að vera í samvinnu við þá sem hefðu með mannanöfn og örnefni að gera og sömuleiðis þá sem hefðu mikil áhrif á málfar almennings en þar var átt við fjölmiðla og skóla. Mikilvægt atriði í starfi málnefndarinnar var að annast söfnun nýyrða, vera til aðstoðar við val nýrra orða og við myndun nýyrða, meðal annars með því að vinna að skipulegri nýyrðastarfsemi í landinu og vera í samvinnu við starfandi orðanefndir.
    Árið 2006 voru fimm stofnanir, er unnu að íslenskum fræðum á einn eða annan hátt, sameinaðar og um hina nýju stofnun, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, gilda lög nr. 40/2006. Í 9. grein þeirra laga er fjallað um Íslenska málnefnd og kveðið á um hlutverk nefndarinnar. Málnefndin á að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu og gera tillögur til menntamálaráðherra um málstefnu, auk þess sem hún á að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu. Málnefndin getur átt frumkvæði að ábendingum um það sem vel er gert og það sem betur má fara við meðferð íslenskrar tungu á opinberum vettvangi. Íslensk málnefnd semur íslenskar ritreglur sem gilda meðal annars um stafsetningarkennslu í skólum og menntamálaráðherra gefur út. Grundvallarbreytingar á ritreglum eru háðar samþykki menntamálaráðherra.
    Af framansögðu má sjá að ýmislegt breyttist með nýjum lögum og sum af verkefnum málnefndarinnar, meðal annars nýyrðastarfsemin, falla nú undir verksvið málræktarsviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
    Ný Íslensk málnefnd var skipuð 1. nóvember 2006 og hefur meginverkefni hennar verið að vinna að þeim tillögum um íslenska málstefnu sem birtar verða hér á eftir. Vísað er til stefnuskrár Íslenskrar málnefndar fyrir árin 2006–2010 á vefsíðu málnefndarinnar (www.íslenskan.is):

    Á tímum hraðvaxandi alþjóðasamskipta þar sem notkun erlendra tungumála, einkum ensku, verður æ ríkari þáttur í íslensku samfélagi er brýnt að tryggja stöðu íslenskrar tungu. Eitt af mikilvægustu verkefnum Íslenskrar málnefndar er að vinna markvisst að því að íslenska haldi gildi sínu í þessu breytta umhverfi og verði áfram nothæf og notuð á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.

Þessi áhersla á að íslenska haldi gildi sínu hvar sem er í þjóðfélaginu er kjarninn í þeim tillögum sem birtast hér á eftir og komu fram í ályktun málnefndarinnar um stöðu íslenskrar tungu 2007. Hún er birt á vefsíðu málnefndarinnar (www.íslenskan.is).

Yfirlýsing norrænu ráðherranefndarinnar um norræna málstefnu
Norræna ráðherranefndin kom sér saman um norræna málstefnu sem birt var í ritlingnum Deklaration om nordisk språkpolitik 2007. Yfirlýsinguna má nálgast á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (www.arnastofnun.is). Norræn málstefna á meðal annars að miða að því:

          allir Norðurlandabúar geti lesið og skrifað það eða þau tungumál sem nýtt eru í samfélaginu þar sem þeir búa
          allir Norðurlandabúar geti átt samskipti hver við annan, fyrst og fremst á skandinavísku máli
          allir Norðurlandabúar hafi undirstöðuþekkingu á tungumálaréttindum og stöðu tungumála á Norðurlöndum
          allir Norðurlandabúar kunni eitt alþjóðatungumál mjög vel og annað erlent tungumál vel
          allir Norðurlandabúar hafi almenna þekkingu á því hvað tungumálið er og hvað það felur í sér

Allnokkur umræða var um norrænu málstefnuna í Málráði Norðurlanda og einnig í norrænu málnefndunum og var það sameiginlegt mat manna að stórt skref hefði verið stigið í rétta átt. Ef þessi markmið eiga aftur á móti að nást, einkum hið fyrsta og hið síðasta, er brýnt að huga að tungumálinu (tungumálunum) í hverju landi og stöðu þess (þeirra) á öllum sviðum þjóðlífsins til þess að hvergi komi til þess að umdæmi hverfi yfir til ensku eða hugsanlega annarra erlendra mála. Þá verða Íslendingar, rétt eins og aðrar Norðurlandaþjóðir, að halda vöku sinni og er það kjarninn í tillögum Íslenskrar málnefndar.

Staða málstefnu á Norðurlöndum
Á undanförnum áratug hefur málstefna verið ofarlega á dagskrá norrænu málnefndanna. Þær hafa hver af annarri safnað efni og gert tillögur að opinberri málstefnu landsins og hafa þar í huga meðal annars vaxandi áhrif ensku á mörgum sviðum þjóðfélagsins, norrænar tungur sem annað mál íbúa á Norðurlöndum og kennslu á háskólastigi. Tillögur sínar hafa þær nær allar sent stjórnvöldum og eru þær flestar á umræðustigi en misjafnlega langt komnar:

          Finnar voru fyrstir til að samþykkja lög um tungumálið en það gerðu þeir þegar 2004. Þegar um 1920 var samþykkt stjórnarskrárákvæði um að opinber mál skuli vera tvö, finnska og sænska.
          Svíar sendu frá sér samantektina Mål i mun 2002 og síðan Bästa språket 2005. Í báðum ritlingunum eru settar fram tillögur að málstefnu. Málin standa þannig að menntamálaráðuneytið (kulturdepartementet) sendi frá sér fyrr á þessu ári Värna språken – förslag till språklag og stefnt mun vera að því að ljúka málinu með lagasetningu 2009.
          Danska menntamálaráðuneytið sendi frá sér bæklinginn Sprog på spil árið 2003 og frekari útfærslu á stefnu sinni í ritlingnum Sprog til tiden. Rapport fra sprogudvalget frá 2008 þar sem settar eru fram tillögur um danska málstefnu og framkvæmd hennar.
          Sænska málnefndin í Finnlandi tók saman rækilegt rit um stöðu sænskunnar í Finnlandi 2003, Tänk om … Svenska språknämndens förslag till handlingsprogram för svenskan i Finland (Tandefeldt 2003).
          Norska málnefndin gaf 2005 út ritið Norsk i hundre! Norsk som nasjonalspråk i globaliseringens tidsalder. Et forslag til strategi. Málið hefur talsvert verið rætt opinberlega og lagði ríkisstjórnin fram skjalið Mål og meining. Ein heilskapleg norsk språkpolitikk (St. meld. nr. 35) sem upphaflega kom frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu (Det kongelige Kultur- og kyrkjedepartement). Það var síðan sent ríkisstjórninni 27. júní 2008 sem samþykkti það sama dag. Gert er ráð fyrir að frumvarp til laga um norska tungu verði lagt fram 2009.
          Færeyingar settu á laggirnar málstefnunefnd sem sendi ásamt menntamálaráði Færeyja frá sér skýrsluna Málmørk. Álit um almennan málpolitikk árið 2007 með tillögum um aðgerðir í málfarslegum efnum og er þar mælt með því að færeyska verði „almenna málið í Føroyum og tjóðarmál føroyinga“ (2007:9). Tillögurnar eru nú til umræðu.
          Grænlendingar hafa unnið talsvert í sinni málstefnu en 2001 birtu þeir ritlinginn … men ordet. Rekommendationer fra Arbejdsgruppen for sprogpolitisk redegørelse. Grænlenska málnefndin gerir ráð fyrir því að lög verði sett á næsta ári.

Undirbúningsvinna Íslenskrar málnefndar að tillögum um málstefnu
Íslensk málnefnd taldi mikilvægt að hefja undirbúning málstefnutillagnanna á því að velja þau svið þjóðlífsins sem mest ástæða væri til að kanna. Hafði hún sem fyrirmynd að vali sviða danska ritið Sprog på spil (2003). Stjórn málnefndarinnar skipti sviðunum á milli sín til frumundirbúnings og tók saman hvað mikilvægast væri að athuga á hverju þeirra. Að því loknu voru settir á laggirnar fimm vinnuhópar sem höfðu eftirfarandi svið til skoðunar:

          Fyrsti vinnuhópur: leikskóli, grunnskóli, framhaldsskóli. Formaður: Sæmundur Helgason, kennari við Langholtsskóla.
          Annar vinnuhópur: háskólar, vísindi og fræði, tungutækni, handbækur um íslensku. Formaður: Brynhildur Þórarinsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri.
          Þriðji vinnuhópur: íslenska sem annað mál, norrænt málsamfélag, íslenska erlendis. Formaður: Veturliði Óskarsson, prófessor við Kennaraháskóla Íslands.
          Fjórði vinnuhópur: fjölmiðlar, listir. Formaður: Björn Gíslason, fréttastjóri á Vísi.
          Fimmti vinnuhópur: stjórnsýsla, viðskiptalíf. Formaður: Þorlákur Karlsson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík.

Fljótlega kom í ljós að betra yrði að mynda sérstakan hóp um máltækni (tungutækni) og tók Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Háskóla Íslands, að sér að stýra þeim hópi. Formenn vinnuhópanna völdu sjálfir samstarfsmenn sem hefðu gott yfirlit yfir þau svið sem skoða átti.

Starf vinnuhópanna
Vinnuhóparnir hófu störf síðsumars 2007 og skiluðu lokaskýrslum um áramót eða í upphafi nýs árs. Verkefnið kynntu þeir á málræktarþingi Íslenskrar málnefndar sem haldið er árlega í tengslum við dag íslenskrar tungu, 16. nóvember. Málnefndin áleit mikilvægt að gefa almenningi kost á að fylgjast eins vel með og kostur væri og kynnast því verki sem unnið væri að. Þingið var haldið 10. nóvember 2007 og voru flutt fimm erindi:

          Halldóra Björt Ewen, kennari við Menntaskólann við Hamrahlíð: Leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar.
          Brynhildur Þórarinsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri: Háskólar, vísindi og fræði.
          Veturliði Óskarsson, prófessor við Kennaraháskóla Íslands: Tungan og tengslin – Um íslensku sem annað mál, íslenskukennslu erlendis og tengslin við norrænt málsamfélag.
          Björn Gíslason, fréttastjóri á Vísi: Fjölmiðlar og listir.
          Dagný Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður: Tungumál og málfar í viðskiptum og stjórnsýslu.

Máltæknihópurinn hafði ekki tekið til starfa þegar þingið var haldið. Vinnuhóparnir fengu gott veganesti frá umræðum á þinginu til að ganga frá skýrslum sínum og stuðningsgögnum sem safnað hafði verið. Rækilegum útdráttum úr erindunum var dreift á þinginu til þess að umræður yrðu sem markvissastar. Þá má nálgast á heimasíðu Íslenskrar málnefndar (www.íslenskan.is) undir liðnum Málræktarþing Íslenskrar málnefndar og MS.

Málþing Íslenskrar málnefndar og samstarfsaðila
Þótt málræktarþingið þætti takast afar vel var Íslensk málnefnd sammála um að efna til málþingaraðar þar sem hvert svið fengi verðuga umfjöllun. Nefndinni þótti mikilvægt að koma af stað umræðu í samfélaginu. Menntamálaráðuneytið styrkti málþingin og menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, setti málþingaröðina á fyrsta þinginu 25. janúar 2008. Málnefndin leitaði að samstarfsaðilum í því skyni að ná til sem flestra áhugasamra á hverju sviði og til þess að taka þátt í kostnaði. Haldin voru ellefu þing:

     1.      Lagaleg staða íslenskunnar (25. janúar).
                Fyrirlesarar: Guðrún Kvaran, formaður Íslenskrar málnefndar, Mörður Árnason, fv. alþingismaður, Sigurður Líndal prófessor, Þór Vilhjálmsson, fv. hæstaréttardómari. Fundarstjóri Haraldur Bernharðsson, Íslenskri málnefnd.
     2.      Móðurmálskennsla. Í samvinnu við Samtök móðurmálskennara (1. febrúar).
                Fyrirlesarar: Sigríður Sigurjónsdóttir, Íslenskri málnefnd, Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Kennaraháskóla Íslands, Guðríður Óskarsdóttir, kennari í Setbergsskóla, Hrönn Bergþórsdóttir, kennari í Setbergsskóla, Guðlaug Guðmundsdóttir, formaður Samtaka móðurmálskennara, Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi. Fundarstjóri Ingibjörg Einarsdóttir, skrifstofustjóri Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar.
     3.      Málnotkun í vísindum og fræðum. Í samvinnu við Vísindafélag Íslendinga (15. febrúar).
                Fyrirlesarar: Haraldur Bernharðsson, Íslenskri málnefnd, Ástráður Eysteinsson prófessor, Sigurður Júlíus Grétarsson prófessor, Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor, Örnólfur Thorlacius, fv. rektor Menntaskólans við Hamrahlíð. Fundarstjóri Einar Sigurbjörnsson, prófessor og forseti Vísindafélags Íslendinga.
     4.      Tungutækni. Í samvinnu við Tungutæknisetur (7. mars).
                Fyrirlesarar: Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor og stjórnarformaður Tungutækniseturs, Trond Trosterud, Háskólanum í Tromsø, Hjálmar Gíslason Símanum, Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, Bogi Örn Emilsson, Skjali þýðingastofu. Fundarstjóri Hrafn Loftsson, stjórnarmaður í Tungutæknisetri.
     5.      Íslenska í listum. Í samvinnu við Rithöfundasamband Íslands og Bandalag íslenskra listamanna (14. mars).
                Fyrirlesarar: Þórarinn Eldjárn, Íslenskri málnefnd, Þórunn Erlu Valdemarsdóttir rithöfundur, Hilmar Oddsson kvikmyndaleikstjóri, Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson rithöfundur, Sigurður Pálsson rithöfundur. Fundarstjóri Pétur Gunnarsson, formaður Rithöfundasambands Íslands.
     6.      Íslenska sem annað mál. Í samvinnu við Alþjóðahúsið (28. mars).
                Fyrirlesarar: Haraldur Bernharðsson, Íslenskri málnefnd, Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands, Paul Nikolov varaþingmaður, Tatjana Latinovic, formaður Samtaka kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, Þorbjörg Halldórsdóttir, verkefnastjóri og íslenskukennari hjá Mími símenntun. Fundarstjóri Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.
     7.      Íslenska í fjölmiðlum. Í samvinnu við Blaðamannafélag Íslands (4. apríl).
                Fyrirlesarar: Steinunn Stefánsdóttir, Íslenskri málnefnd, Svanhildur Hólm Valsdóttir, ritstjóri Íslands í dag, Aðalsteinn Davíðsson, málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins, Þröstur Helgason, ritstjórnarfulltrúi á Lesbók Morgunblaðsins, Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri Tímarits Máls og menningar. Fundarstjóri Arna Schram, formaður Blaðamannafélags Íslands.
     8.      Íslenska í háskólum. Í samvinnu við Háskólann á Akureyri (11. apríl á Akureyri).
                Fyrirlesarar: Haraldur Bernharðsson, Íslenskri málnefnd, Magnús Diðrik Baldursson, fulltrúi rektors Háskóla Íslands, Skúli Skúlason, rektor Háskólans á Hólum, Þorlákur Karlsson, fulltrúi rektors Háskólans í Reykjavík, Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri. Fundarstjóri Elín Una Jónsdóttir íslenskufræðingur og laganemi.
     9.      Íslenska erlendis. Í samvinnu við Bókmenntasjóð (18. apríl).
                Fyrirlesarar: Úlfar Bragason fyrir hönd Íslenskrar málnefndar, Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, verkefnisstjóri í Laugalækjarskóla, Jón Gíslason, stundakennari í íslensku við Háskóla Íslands, Annette Lassen, dósent í dönsku við Háskóla Íslands, Philip Roughton þýðandi, Sigurjón Birgir Sigurðsson (Sjón) rithöfundur. Fundarstjóri Njörður Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Bókmenntasjóðs.
     10.      Íslenska í þýðingum. Í samvinnu við Bandalag þýðenda og túlka (9. maí).
                Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra ávarpaði þingið. Fyrirlesarar: Gauti Kristmannsson, dósent í þýðingafræði við Háskóla Íslands og formaður Bandalags þýðenda og túlka, Sabine Leskopf, verkefnisstjóri túlka- og þýðingaþjónustu Alþjóðahúss, Kristján Árnason prófessor, Rúnar Helgi Vignisson, rithöfundur og þýðandi, Halldór Guðmundsson, rithöfundur og verkefnisstjóri. Fundarstjóri Haraldur Bernharðsson, Íslenskri málnefnd.
     11.      Íslenska í viðskiptalífinu. Í samvinnu við Viðskiptaráð Íslands, Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga og viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík (23. september).
                Fyrirlesarar: Haraldur Bernharðsson, Íslenskri málnefnd, Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri Promens, Þorlákur Karlsson, forseti viðskiptadeildar Háskólans í Reykjavík, Agnar Hansson, bankastjóri Icebank. Fundarstjóri Þröstur Olaf Sigurjónsson, lektor við Háskólann í Reykjavík.

Viðbrögð við þingunum voru afar góð. Þau voru öll mjög vel sótt, fjölmiðlar sýndu þeim áhuga, birtu dagskrá þinganna og viðtöl við aðstandendur eða fyrirlesara og Ríkisútvarpið tók upp erindi og umræður á allnokkrum þingum og sendi út í kvölddagskrá sinni. Segja má því að vinnan við málstefnudrögin hafi verið allvel kynnt og áhugasömum hafi gefist kostur á að koma skoðunum sínum á framfæri.


LAGALEG STAÐA ÍSLENSKRAR TUNGU


Ástand
Íslenskt samfélag hefur tekið örum breytingum á undanförnum árum. Íslendingar taka upp erlenda löggjöf í ríkara mæli en áður. Íslenskt atvinnulíf er orðið alþjóðlegra en áður og hafa bæði íslensk fyrirtæki haslað sér völl erlendis og erlend fyrirtæki hafið starfsemi á Íslandi. Samfara þessu hefur íslenskur vinnumarkaður orðið fjölþjóðlegur. Samfélagsbreytingar á borð við þessar skapa margvísleg álitamál og ný lögfræðileg úrlausnarefni. Þeirra á meðal eru spurningar er varða íslenska tungu. Er lagaleg staða hennar í íslensku samfélagi nægilega trygg?
    Í gildandi íslenskum lögum er að finna ákvæði er varða notkun íslenskrar tungu á einstökum sviðum samfélagsins. Til að mynda er mælt fyrir um það í lögum um meðferð sakamála (12. gr. laga nr. 88/2008) að íslenska sé þingmálið og áþekkt ákvæði er í lögum um meðferð opinberra mála (13. gr. laga nr. 19/1991). Í lögum um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins (nr. 57/2005) segir að auglýsingar sem höfða eigi til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku (8. gr.), svo og almennir skilmálar þjónustuaðila (9. gr.) og skriflegar ábyrgðaryfirlýsingar (11. gr.). Þá er í læknalögum (nr. 53/1988, með breytingum í lögum nr. 116/1993 og 76/2002) ákvæði um að læknar utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss þurfi að sanna kunnáttu í mæltu og rituðu íslensku máli til að öðlast starfsleyfi hér á landi (3. gr.). Skilyrði um íslenskukunnáttu útlendinga er einnig að finna í lögum um félagsráðgjöf (2. gr. laga nr. 95/1990), hjúkrunarlögum (2. gr. laga nr. 8/1974, með breytingum í lögum nr. 116/1993) og ljósmæðralögum (2. gr. laga nr. 67/1984, með breytingum í lögum nr. 116/1993). Nýlega voru stigin fyrstu skrefin til að treysta stöðu íslenskrar tungu í skólakerfinu en í nýjum lögum um grunnskóla (nr. 91/2008, 16. gr.) og framhaldsskóla (nr. 92/2008, 35. gr.) segir að kennsla í þessum skólum skuli fara fram á íslensku.
    Þá má finna í lögum ákvæði um eflingu og rækt íslenskrar tungu, önnur en þau er varða Íslenska málnefnd (9. gr. laga nr. 40/2006). Til að mynda segir í útvarpslögum (7. gr. laga nr. 53/2000) að útvarpsstöðvar skuli efla íslenska tungu en þó er heimilt ef sérstaklega stendur á að veita leyfi til útvarps á öðrum tungumálum en íslensku. Í nýlegum lögum um Ríkisútvarpið ohf. (3. gr. laga nr. 6/2007) kemur einnig fram að meðal hlutverka þeirrar stofnunar sé að leggja rækt við íslenska tungu. Þá er í leiklistarlögum (4. gr. laga nr. 138/1998) kveðið á um það að Þjóðleikhúsið, sem er eign íslensku þjóðarinnar, skuli vera til fyrirmyndar um meðferð íslenskrar tungu.
    Þessi lagaákvæði, sem hér hafa verið nefnd sem dæmi, mæla fyrir um notkun eða rækt íslenskrar tungu á afmörkuðum sviðum (sjá einnig Þór Vilhjálmsson 2001). Þau eru hluti af lögum er varða önnur efni enda eru ekki til sérstök lög er fjalla skipulega um stöðu íslenskrar tungu í íslensku samfélagi. Lagaleg staða íslenskrar tungu er því í heild ekki eins traust og hún gæti verið. Taka má fáein dæmi:

          Hvergi er í stjórnarskrá eða lögum kveðið á um það að íslenska sé hið opinbera tungumál lýðveldisins Íslands.
          Hvergi er í lögum kveðið á um það að íslenska skuli notuð í störfum Alþingis Íslendinga.
          Hvergi er kveðið á um það að lög, reglugerðir og lögskýringargögn á Íslandi skuli vera á íslensku.
          Hvergi er kveðið á um það í lögum að íslenska skuli notuð í störfum Stjórnarráðs Íslands eða sveitarstjórna á Íslandi.
          Hvergi er kveðið á um það í lögum að íslenska skuli notuð í almannaþjónustu sem kostuð er af opinberu fé, svo sem í heilbrigðiskerfi.
          Aðgangur íslenskra ríkisborgara, sem lengi hafa búið erlendis, að kennslu í íslensku er ekki tryggður í lögum.
          Réttur íslenskra ríkisborgara af erlendum uppruna til íslenskukennslu er ekki tryggður í lögum.

Í gildandi lögum er meira að segja að finna ákvæði sem beinlínis veikja stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu. Í lögum nr. 60/1998, um loftferðir, er kveðið á um það í 140. grein að Flugmálastjórn skuli í flugmálahandbók birta ákvarðanir þær sem teknar eru á grundvelli umræddra laga og reglna settra samkvæmt þeim. Þessar ákvarðanir skulu vera „á íslensku eða ensku eftir því sem við á“. Í reglugerð nr. 326/2000, um flugmálahandbók, er nánar kveðið á um þetta og þar segir í 4. gr. að heimilt skuli að „birta tæknilega staðla á ensku eingöngu“.
    Sagan segir okkur að það hafa ekki alltaf þótt sjálfsögð réttindi Íslendinga að geta átt samskipti við yfirvöld og stjórnkerfi í eigin landi á íslensku. Ekki er ýkja langt síðan Íslendingar háðu harða baráttu fyrir lagalegri stöðu íslenskrar tungu í íslensku samfélagi undir danskri stjórn (sjá Kjartan G. Ottósson 1990, einkum bls. 80–93). Sú spurning hlýtur því að vakna hvort ekki sé rétt að taka af allan vafa um stöðu íslenskrar tungu í íslensku samfélagi og reyndar hefur réttarstaða hennar verið rædd á Alþingi. Fyrir nokkrum misserum var þar lögð fram þingsályktunartillaga um að setja á fót nefnd er kannaði réttarstöðu tungunnar og leiðir til úrbóta ef þörf krefði (130. löggjafarþing 2003–2004; þskj. 517, 387. mál). Ekki hefur enn orðið af stofnun þeirrar nefndar.
    Jafnframt er nauðsynlegt að taka tillit til þeirra er hafa íslenska táknmálið að móðurmáli. Brýnt er að tryggja lagalega stöðu íslenska táknmálsins og þar með rétt þeirra er hafa það að fyrsta máli. Oftar en einu sinni hefur verið lagt fyrir Alþingi frumvarp um íslenska táknmálið (nú síðast á 135. löggjafarþingi 2007–2008; þskj. 12, 12. mál) en það hefur enn ekki orðið að lögum.

Horfur
Um leið og íslenskt samfélag hefur orðið alþjóðlegra en áður var hefur þeim tungumálum, sem notuð eru á Íslandi, fjölgað ört. Sú þróun þarf ekki að vera skaðleg íslenskri tungu ef íslenska verður áfram aðalsamskiptamálið í fjölmenningarsamfélagi á Íslandi. Lagaleg staða íslenskrar tungu í samfélaginu er þó ekki eins traust og hún gæti verið eins og hér hefur verið rakið. Á fjölmörgum sviðum samfélagsins getur skapast lagaleg óvissa um málnotkun. Brýnt er þess vegna að treysta lagagrundvöll íslenskunnar til að tryggja að hún geti áfram verið aðalsamskiptamálið á Íslandi og koma í veg fyrir að hún hörfi fyrir öðrum tungumálum á mikilvægum sviðum þjóðlífsins; þau svið getur reynst erfitt að endurheimta.
    Íslendingar taka þátt í margvíslegu alþjóðlegu samstarfi og eiga aðild að ýmsum alþjóðastofnunum. Hætt er við að Íslendingum muni ganga illa að standa vörð um notkun íslensku á þeim vettvangi – til að mynda er varðar þýðingar og túlkun – ef ekki er hægt að vísa í trausta lagalega stöðu íslenskrar tungu heima við.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Að tryggð verði lagaleg staða íslenskrar tungu sem þjóðtunga Íslendinga til þess að hún megi áfram vera það tungumál sem sameinar íbúa þessa lands, óháð uppruna.
          Að tryggður verði réttur íslenskra ríkisborgara af erlendum uppruna og erlendra ríkisborgara, er hér fá dvalar- eða atvinnuleyfi, til kennslu í íslensku svo að þeir geti tekið fullan þátt í íslensku samfélagi á íslensku. Jafnframt verði þeim gefinn kostur á að rækta eigið tungumál og menningu.
          Að jafnframt verði lagaleg staða íslensks táknmáls tryggð.

Um leið og Íslendingar hafa lögvarinn rétt til að vernda menningarleg verðmæti sín er skylt að virða rétt þeirra er ekki tala íslensku og tryggja þeim tækifæri til að læra íslensku. Þetta á einkum við um íslenska ríkisborgara sem ekki hafa íslensku að móðurmáli en einnig erlenda ríkisborgara er fengið hafa dvalar- eða atvinnuleyfi á Íslandi. Jafnframt verður að gefa þeim kost á að rækta eigið tungumál og menningu. Þá er eðlilegt að tryggja stöðu íslenska táknmálsins við hlið íslensku.

Aðgerðir
Til að ofangreind markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Að þegar í stað verði skipuð nefnd sérfróðra manna til að finna skynsamlegustu leiðina til að tryggja lagalega stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls í íslensku samfélagi.

Verkefni nefndarinnar verði meðal annars að leggja á það mat hvort skynsamlegt sé að bæta í stjórnarskrá sérstöku ákvæði um að íslenska sé þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál íslenska ríkisins. Annar kostur gæti verið að setja sérstök lög um stöðu íslenskrar tungu og gera þar skýra grein fyrir lögvernduðum umdæmum hennar í íslensku samfélagi. Á sama hátt þarf að finna skynsamlega leið til að tryggja stöðu íslensks táknmáls.


LEIKSKÓLAR, GRUNNSKÓLAR OG FRAMHALDSSKÓLAR


Ástand
Á síðustu öld breyttist íslenskt samfélag meira en nokkru sinni áður. Hægt er að færa fyrir því rök að hið svokallaða kynslóðabil hafi enn aukist á síðustu árum og áratugum þar sem báðir foreldrar vinna nú yfirleitt úti og börn eyða meginþorra dagsins með jafnöldrum í skólum og í frístundastarfi. Hraðinn í nútímasamfélagi er mikill og minni samskipti barna við foreldra og eldri kynslóðir en áður hafa margs konar áhrif, meðal annars á tungutak barna. Íslenskt samfélag er einnig orðið alþjóðlegra en áður með tilkomu Netsins og erlends vinnuafls á Íslandi. Enska er ráðandi tungumál jafnt í tölvubúnaði, afþreyingu og á Netinu og hún ryður sér til rúms í atvinnulífinu og á efri skólastigum. Þessar samfélagsbreytingar móta það málumhverfi sem börn alast upp við og vegna þeirra gegna leik-, grunn- og framhaldsskólar enn veigameira hlutverki en áður í að skila tungunni og menningararfinum til nýrra kynslóða. Því skýtur skökku við að á undanförnum árum hefur dregið úr móðurmálskennslu í skólum (sjá hér á eftir). Mikilvægt er að átta sig á því að skólakerfið getur haft mikil áhrif á vöxt og viðgang íslenskunnar og er það svið þjóðlífsins sem, auk foreldra og forráðamanna, hefur hvað mesta möguleika á að efla færni í móðurmálinu. Mjög mikilvægt er því að tryggja stöðu íslenskrar tungu í skólakerfinu.

Máltaka barna
Á leik- og grunnskólaaldri tileinka börn sér móðurmál sitt. Aðalmáltökuskeið barna er frá fæðingu og fram að kynþroska en til þess að ná fullu valdi á móðurmálinu þarf máltakan að fara fram fyrir fimm til sex ára aldur. Á þeim aldri eru flest börn orðin altalandi, þ.e. þau hafa náð valdi á málkerfinu í meginatriðum þótt þau eigi enn eftir að tileinka sér ýmis óregluleg atriði í beygingum og setningagerð og afla sér meiri orðaforða. Aldrei á lífsleiðinni eru börn jafnmóttækileg fyrir máli og á fyrstu sex árum ævinnar. Börn á leikskólaaldri eru að byggja upp málkerfi sitt og málkennd þeirra að mótast. Á þessum aldri og á fyrstu árum grunnskólans er því afar mikilvægt að börn hafi góðar málfyrirmyndir og fái nauðsynlega málörvun. Framtíð íslenskrar tungu veltur meðal annars á því hversu vel tekst til á þessu mikla mótunarskeiði í ævi hvers einstaklings. Mikilvægt er að foreldrar, yfirmenn menntamála og þeir sem starfa á leikskólum og í grunnskólum átti sig á því tækifæri sem gefst til málörvunar á heimilum og í skólum landsins. Rannsóknir sýna að börn, sem mikið er talað við og lesið fyrir, hafa meiri orðaforða en börn sem ekki hljóta slíkt máluppeldi og þau ná einnig fyrr valdi á ýmsum atriðum í málkerfi móðurmálsins. Hversu góðir málnotendur börn verða fer því að miklu leyti eftir því hve gott máluppeldi þau hljóta.

Leikskólar
Leikskólakennarar gegna veigamiklu hlutverki í máluppeldi barna. Flestir þeirra eru meðvitaðir um málræktarskyldu sína enda er kveðið á um hana í lögum um leikskóla, nr. 90/2008. Þar kemur fram að eitt af meginmarkmiðum uppeldis og kennslu í leikskóla skuli vera „að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku“ (2. gr. b). Í Aðalnámskrá leikskóla (1999) eru áhersluþættir í leikskólauppeldi greindir í námssvið. Eitt þessara námssviða er málrækt og undir það svið fellur að „auka orðaforða, ræða við barn í leik og starfi, hvetja barn til að tjá sig: segja frá, ræða við aðra, lesa fyrir barn, segja því sögur og ævintýri og fara með þulur og kvæði“. Allt eru þetta mikilvæg atriði sem stuðla að auknum málþroska barna. Þegar skólanámskrár leikskóla eru skoðaðar kemur í ljós að í mörgum leikskólum er lögð áhersla á markvissa málörvun og að starfsfólk leikskólanna sé góðar málfyrirmyndir. Sífellt fleiri leikskólar gera grein fyrir málræktarstarfi sínu í skólanámskrá þótt umfjöllunin sé misjafnlega ítarleg. Þá er víða gerð sérstök námskrá fyrir elstu börn leikskólans, sem eru í svokölluðum skólahópi, og þar má sjá aukna áherslu á undirbúning lestrarnáms. Góð samvinna heimila og skóla um máluppeldi er lykilatriði. Foreldrar og aðrir forráðamenn gegna veigamiklu hlutverki í málörvun barna og að kynna þeim bókmenntir sem hæfa þroska þeirra og áhugasviði.
    En til þess að leikskólakennarar geti gegnt því hlutverki að efla málkennd og málþroska ungra barna á máltökuskeiði verða þeir að fá haldgóða kennslu í íslensku máli, málnotkun og barnabókmenntum í námi sínu. Því er athyglisvert að verðandi leikskólakennarar fá nú litla íslenskukennslu. Samkvæmt námskrá Kennaraháskóla Íslands, nú menntavísindasviðs Háskóla Íslands, sem tók gildi haustið 2007, fá nemendur á leikskólabraut kennslu í fræðilegri ritun og framsögn eins og allir nemendur skólans. Þeir sitja einnig eitt námskeið um máltöku barna, málþroska, málörvun og byrjendalæsi. Samkvæmt námskrá hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri sitja allir nemendur á leikskólabraut eitt námskeið í íslensku á fyrsta ári og taka námskeið um bernskulæsi og barnabókmenntir á þriðja ári. Nemar á leikskólabraut við þá tvo háskóla sem sinna menntun leikskólakennara á landinu fá því nær enga kennslu um íslenskt mál, hvorki fræðilega umfjöllun um tungumálið, sem þó er forsenda skilnings á ýmsum einkennum íslensks máls og fræðilegu lesefni um málþroska barna, né kennslu í málnotkun sem er forsenda þess að þeir styrki sig sem góða málfyrirmynd. Þessa menntun er brýnt að allir leikskólakennarar fái í grunnnámi sínu. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og hefur verið það samkvæmt lögum frá 1994. Það er viðurkenning á því að leikskólakennarar eru fyrstu kennarar íslenskra barna og þar með fyrstu móðurmálskennararnir. Í lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 87/2008, er starfsheitið leikskólakennari lögverndað og kveðið á um að leyfi til þess að nota starfsheitið leikskólakennari megi framvegis aðeins veita þeim sem lokið hafi meistaraprófi, eða öðru námi sem jafngildir meistaraprófi, á fræðasviði sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leikskólastigi. Með þessum lögum gefst tækifæri til að efla íslenskukennslu í námi leikskólakennara og auka þannig færni þeirra til að takast á við það mikilvæga hlutverk að efla málþroska margbreytilegs nemendahóps. Í þessu sambandi er vert að benda á að börnum af erlendum uppruna, börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku og börnum íslenskumælandi foreldra, sem dvalist hafa lengi erlendis, hefur fjölgað gríðarlega í íslensku skólakerfi á síðustu árum. Þetta veldur því að oft þarf að fara fram bein íslenskukennsla á leikskólum.
    Á undanförnum árum hefur starfsmönnum af erlendum uppruna fjölgað mjög á leikskólum landsins. Algengt er að erlendir starfsmenn séu einn af hverjum þremur eða fjórum starfsmönnum á deild og þeir starfa einnig í eldhúsi. Þessir starfsmenn kynna börnunum aðra menningu og tungumál og efla víðsýni þeirra. Þetta er jákvætt og mikilvægt er að leikskólar landsins nýti þann auð sem felst í starfsfólki af erlendum uppruna. En til þess að börn á leikskólaaldri nái góðum tökum á íslensku er þó nauðsynlegt að þau njóti umönnunar og kennslu fólks sem hefur íslensku að móðurmáli. Málræktarskylda leikskólastigsins gerir það að verkum að meginþorri starfsmanna á leikskólum verður að hafa íslensku að móðurmáli. Full ástæða er að setja viðmið um hlutfall erlendra starfsmanna á hverri deild í leikskólum, kunnáttu þeirra í íslensku og tilgreina verksvið þeirra. Það sama á við um grunnskólastigið þótt þar hafi starfsmönnum af erlendum uppruna ekki fjölgað jafnmikið og í leikskólunum. Í lögum um leikskóla er ekki kveðið á um þetta atriði en í nýjum grunn- og framhaldsskólalögum (nr. 91/2008 og 92/2008) er tekið fram að kennsla á þessum skólastigum skuli fara fram á íslensku þótt heimilt sé að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar það leiðir af eðli máls eða aðalnámskrá. Ekki er þó síður ástæða til að tryggja stöðu íslenskunnar í reglugerð um leikskóla þar sem börn á aðalmáltökuskeiði dvelja mörg hver í allt að 45 stundir á viku á leikskóla.

Grunnskólar
Í grunnskóla á að halda því málræktarstarfi áfram sem hafið var í leikskóla. Í lögum um grunnskóla, nr. 91/2008, er kveðið á um að grunnskóli skuli „efla færni nemenda í íslensku máli“ (2. gr.). Í Aðalnámskrá grunnskóla – íslenska (2007) segir: „Íslenskunám er stór þáttur í námi allra grunnskólanemenda, óháð því hvert móðurmál þeirra er, og námsgreinin íslenska varðar þá alla.“ Íslenska er viðamesta námsgrein grunnskólans með 960 mínútur að lágmarki á viku í 1.–4. bekk og 600 mínútur að lágmarki á viku í 5.–10. bekk (Aðalnámskrá grunnskóla – almennur hluti 2006:14). Samanburður á lengd kennslu í móðurmáli á Norðurlöndum sýnir þó að Íslendingar verja minni tíma til móðurmálskennslu í grunnskólum sínum en aðrar Norðurlandaþjóðir. Danskir nemendur fá til dæmis 78% meiri móðurmálskennslu en íslenskir nemendur; sjá mynd 1 (sbr. Viðmiðunarstundaskrár í íslenskum, norskum og dönskum grunnskólum). Nýleg Pisarannsókn (2006) leiddi í ljós að íslenskir unglingar, sérstaklega drengir, hafa mun lakari lesskilning en jafnaldrar þeirra í þeim löndum Evrópu sem við berum okkur saman við (Norðurlöndin og lönd Vestur-Evrópu) og þeir hafa dregist hratt aftur úr miðað við eldri kannanir (sjá Almar Miðvík Halldórsson o.fl. 2007). Efla þarf kennslu í íslensku í grunnskólum og gera hlutdeild móðurmáls í náminu líkari því sem er í nágrannalöndum okkar. Með því búum við nemendur betur undir þau fjölbreytilegu störf sem bíða þeirra í nútímasamfélagi eða eins og segir í íslenskuhluta Aðalnámskrár grunnskóla (2007:4): „Traust kunnátta í móðurmáli er meginundirstaða haldgóðrar menntunar, lestur öflugasta tæki nemenda til að afla sér þekkingar og tjáning í ræðu og riti forsenda þátttöku í samfélaginu.“

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Mynd 1: Hlutfall (af hundraði) móðurmálskennslu af heildarkennslustundafjölda í grunnskólum á Íslandi, í Noregi og Danmörku.


Íslenskukennsla þarf að standa undir nafni og því þurfa grunnskólakennarar sjálfir að hafa trausta kunnáttu í íslensku. Allir kennarar grunnskólans eru málfarsfyrirmyndir barna á máltökuskeiði. Námskrár menntavísindasviðs Háskóla Íslands (2007) og hug- og félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri virðast þó ekki taka nógu mikið mið af þessu veigamikla hlutverki íslenskra grunnskólakennara. Eins og kom fram í umfjöllun um menntun nemenda á leikskólabraut fá allir nemendur í kennaranámi eitt námskeið í íslensku á fyrsta ári. Þetta er eina íslenskukennsla nemenda sem ekki hafa valið íslensku eða bekkjarkennslu eldri barna grunnskólans sem kjörsvið. Kennari, sem lokið hefur kennaraprófi af öðru sviði, hefur ekki fengið þann undirbúning sem hann þarf til þess að vera málfyrirmynd barna á máltökuskeiði. Á undanförnum árum hefur stórlega verið dregið úr íslenskukennslu í kjarna í þriggja ára kennaranámi en B.Ed.-próf veitir kennurum réttindi til að kenna hvaða námsgrein sem er á hvaða stigi grunnskólans sem er. Nýta þarf það tækifæri sem gefst með fyrirhugaðri lengingu kennaranáms (úr þremur árum í fimm) til þess að auka þátt íslenskunnar og efla þannig íslenskukunnáttu kennaranema. Hlut íslenskukennslu í öllu kennaranámi þarf að auka til að skólakerfið axli þá ábyrgð sína að efla vöxt og viðgang íslenskunnar.
    Þótt allir kennarar grunnskólans þurfi að vera góðar málfyrirmyndir og hafi hlutverki að gegna í því að þroska málkennd nemenda getur þó ekki hver sem er kennt íslensku eða íslensku sem annað mál. Íslenska er margþætt námsgrein sem felur í sér sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum, til dæmis framsögn, lestri, bókmenntum, ritun og málfræði. Íslenskukennarar í grunnskóla þurfa að hafa víðtæka þekkingu á íslensku máli og bókmenntum, auk þess sem þeir þurfa að kunna skil á fjölbreyttum leiðum til að þjálfa málbeitingu, framsögn, lestur og ritun nemenda sinna. Þeir þurfa að geta virkjað sköpunarmátt nemenda við beitingu tungumálsins til að kveikja áhuga þeirra og miðlað bókmenntaarfi okkar þannig að þekking og áhugi á honum lifi áfram með komandi kynslóðum. Á undanförnum árum hefur hlutverk íslenskukennslu í skólakerfinu breyst. Íslenskukennarar þurfa nú bæði að vera færir um að kenna íslensku sem móðurmál og sem annað mál, auk þess sem þeir þurfa að kunna að koma til móts við nemendur sem eru börn íslenskra foreldra en hafa alist upp að mestum hluta erlendis. Þessar breyttu aðstæður kalla á aukna menntun íslenskukennara sem þurfa nú ekki aðeins að vera sérfróðir um íslensku og undirgreinar hennar heldur einnig um það hvernig á að nýta sérfræðiþekkingu á íslensku máli til að kenna íslensku sem annað mál.
    Námsefni í íslensku í grunnskóla þarf að taka tillit til mismunandi getu, þarfa og áhuga allra nemenda. Það þarf að vera vandað og vel valið og mikilvægt er að allir nemendur grunnskólans hafi fengið þá tilsögn í bókmenntum og málfræði sem kveðið er á um í íslenskuhluta aðalnámskrár. Þeir þurfa að fá tilsögn í upplestri og ritgerðasmíð og hafa kynnst margbreytilegum menningararfi okkar, til dæmis fornbókmenntum, nútímabókmenntum og ljóðum. Eins og í leikskóla er góð samvinna heimila og skóla um máluppeldi og lestrarþjálfun lykilatriði. Foreldrar og forráðamenn móta málkennd barna og hafa meiri áhrif en aðrir á bóklestur nemenda. Hvetja þarf foreldra til að styðja við lestrarþjálfun grunnskólanema og efla áhuga þeirra á íslensku máli og bókmenntum.
    Í þessum efnum er margt gott gert núna. Grunnskólar, Námsgagnastofnun, Íslensk málnefnd, Samtök móðurmálskennara, bæjarfélög, Heimili og skóli – landssamtök foreldra, Mjólkursamsalan og fleiri stofnanir vinna gott þróunarstarf sem allt miðar að því að efla vald nemenda á móðurmálinu og þekkingu þeirra á íslenskum menningararfi. Þessar stofnanir og fleiri standa fyrir ýmsum viðburðum og samkeppni, til dæmis stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk grunnskóla, ritgerðasamkeppni, samkeppni um nýyrðasmíð, ljóðasamkeppni og mörgu fleira.

Framhaldsskólar
Í íslenskum framhaldsskólum er móðurmálskennsla minni en í framhaldsskólum annars staðar á Norðurlöndum (sbr. Samanburðarkönnun á skólakerfum á Íslandi, í Danmörku og í Svíþjóð 2002). Kjarni í íslensku er núna 15 einingar (af 140 einingum til stúdentsprófs). Þó er hægt að færa sömu rök fyrir gildi þróttmikillar móðurmálskennslu í framhaldsskóla og í grunnskóla. Það er reynsla margra kennara að sumir nemendur, sem lokið hafa stúdentsprófi, eiga erfitt með að tjá sig á skýran og skipulegan hátt, hvort sem er í ræðu eða riti. Þá vantar undirstöðukunnáttu í málfræði, þekkja ekki málfræðihugtök og hafa ekki náð nægilegri leikni í að beita þeim á íslenskt mál. Málfræðiþekking er þó ekki aðeins nauðsynleg til að fjalla um og greina íslenskt mál heldur er hún besti undirbúningurinn fyrir nám í öðrum tungumálum. Alþekkt er að færni í móðurmálinu og greiningu þess nýtist vel í frekara málanámi. Lestrarfærni nemenda er heldur ekki eins og hún ætti að vera og er það umhugsunarefni þar sem drjúgur hluti náms í framhaldsskóla er bóklegt nám sem byggist meðal annars á lestrarfærni og lesskilningi. Eins og í grunnskóla þarf að efla móðurmálskennslu í framhaldsskólum og þjálfa nemendur betur í ritun, framsögn og málfræði.
    Framhaldsskólakennarar hafa að jafnaði meiri formlega menntun í íslensku en grunn- og leikskólakennarar. Mikill skortur virðist þó vera á kennurum í framhaldsskóla sem hafa nauðsynlegan undirbúning til þess að kenna ýmis námskeið sem finna má í áfangalýsingum skólanna. Þar er einkum um að ræða áfanga um íslenskt mál, málfræði, málsögu og almenn málvísindi því að menntun margra íslenskukennara byggist að miklum hluta á bókmenntanámi.

Fjölbreyttur nemendahópur
Leik-, grunn- og framhaldsskólakennarar sinna fjölbreyttum nemendahópi í starfi sínu, meðal annars ört vaxandi fjölda barna og unglinga af erlendum uppruna. Rannsóknir sýna að þessir nemendur eiga undir högg að sækja í skólakerfinu og afar fáir nemendur af erlendum uppruna ljúka til dæmis stúdentsprófi (sbr. Solveigu Brynju Grétarsdóttur 2007). Þessir nemendur þurfa oft meiri og annars konar kennslu og málörvun en börn sem hafa íslensku að móðurmáli. Þessi nýi nemendahópur kallar á aukna og breytta menntun íslenskukennara sem þurfa nú bæði að hafa sérþekkingu á íslensku máli og bókmenntum og vera færir um að kenna íslensku sem annað mál. Til að geta sinnt þörfum þessa nemendahóps þarf kennari meðal annars að hafa sérfræðiþekkingu á íslenskri málfræði, kennslufræði íslensku sem annars máls og á málvísindum eða almennri tungumálakennslu.

Horfur
Íslenskt samfélag er orðið mun alþjóðlegra en áður var, enskan sækir á og erlent vinnuafl er orðið hluti af íslensku atvinnulífi. Hraðinn í nútímasamfélagi er mikill og lítil samskipti barna við eldri kynslóðir hafa margs konar áhrif, meðal annars á tungutak ungs fólks. Teikn eru á lofti um að íslenskt málkerfi sé nú að breytast meira en áður eru dæmi um. Rannsóknir sýna að málkennd ungs fólks nú um stundir er töluvert önnur en eldra fólks og málbreytingar á ýmsum sviðum málkerfisins virðast nú vera fleiri og ganga hraðar fyrir sig en áður (sbr. niðurstöður verkefnisins „Tilbrigði í setningagerð“). Mjög mikilvægt er að foreldrar og skólakerfið bregðist við þessum breytingum og standi vörð um stöðu íslenskunnar. Foreldrar og aðrir aðstandendur barna geta haft mikil áhrif á máltilfinningu þeirra, bókmenntaáhuga og lestrarþjálfun. Einnig þarf að auka íslenskukennslu í skólakerfinu, velja vandað námsefni sem vekur áhuga nemenda og mennta kennara á öllum skólastigum betur til að auka færni þeirra og kunnáttu í að efla málkennd og málþroska margbreytilegs nemendahóps.
    Mikilvægt er að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum samfélagsins og að hún verði jafnframt nothæfur tjáningarmiðill. Eitt svið, þar sem enska er mjög ráðandi í skólakerfinu, er upplýsingamennt og tölvunotkun. Til þess að íslenska missi ekki alveg þetta umdæmi sitt er mikilvægt að stýrikerfi tölva og allur helsti hugbúnaður í íslenskum leik-, grunn- og framhaldsskólum sé á íslensku. Tölvur eru mikilvægur þáttur í lífi barna og unglinga og miklu skiptir að nemendur hafi aðgang að tölvum með hugbúnaði á íslensku. Þetta mun auka tölvulæsi nemenda og koma í veg fyrir að íslenskan hörfi fyrir ensku á þessu ört vaxandi sviði þjóðlífsins.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Að íslenskir grunn- og framhaldsskólanemendur standi jafnfætis jafnöldrum sínum annars staðar í Evrópu í móðurmálsfærni (þ.m.t. lesskilningi).

Íslendingar verja nú minni tíma til móðurmálskennslu í grunn- og framhaldsskólum en aðrar Norðurlandaþjóðir. Þessu þarf að breyta og gera hlut móðurmáls á öllum skólastigum líkari því sem er í nágrannalöndum okkar. Skólakerfið í heild, allt frá leikskóla upp í háskóla, gegnir afar mikilvægu hlutverki í að þroska færni í móðurmálinu. Smæð málsamfélagsins og sú alþjóðavæðing sem við búum við gerir það að verkum að íslensk tunga verður að njóta forgangs í menntakerfinu. Skólakerfið verður að axla þá ábyrgð að efla vöxt og viðgang íslensku.

          Að íslenskir kennarar á öllum skólastigum séu þjálfaðir í málbeitingu og hæfir til þess að efla málkennd og málþroska barna og unglinga.

Auka þarf íslenskukennslu í námi leikskólakennara og kennara í yngri bekkjum grunnskólans sem eru málfyrirmyndir ungra barna á máltökuskeiði. Efla þarf færni þessara kennara í málnotkun, auka við nám þeirra í íslensku máli til að byggja upp fræðilega þekkingu þeirra á móðurmálinu og styrkja þá almennt sem málfyrirmyndir barna á máltökuskeiði.

          Að íslenskukennarar í grunnskólum séu sérmenntaðir í námsgreininni íslensku.

Íslenska er margþætt námsgrein sem felur í sér sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum. Íslenskukennarar í grunnskólum þurfa að hafa þekkingu á íslensku máli og bókmenntum, auk þess sem þeir þurfa að kunna skil á fjölbreyttum leiðum til að þjálfa málbeitingu, framsögn, lestur og ritun nemenda sinna. Að öllu jöfnu má búast við því að kennari sem hefur sérmenntun í íslensku sé færari um að sinna sínu starfi en sá sem ekki hefur slíka sérmenntun.

          Að menntun móðurmálskennara á öllum skólastigum til að kenna íslensku sem annað mál verði efld.

Nemendum, sem hafa annað móðurmál en íslensku, hefur fjölgað mjög í íslensku skólakerfi undanfarin ár. Þessir nemendur þurfa oft meiri og annars konar kennslu og málörvun en börn sem hafa íslensku að móðurmáli. Íslenskukennarar þurfa nú bæði að vera færir um að kenna íslensku sem móðurmál og sem annað mál, auk þess sem þeir þurfa að kunna að bregðast við nemendum sem eru börn íslenskra foreldra en hafa alist upp að mestum hluta erlendis (sjá einnig kaflann Íslenska sem annað mál).

          Tryggja þarf með reglugerð að kennsla og umönnun barna á leikskólum fari að mestu fram á íslensku.

Í lögum um leikskóla (nr. 90/2008) er ekki kveðið á um þetta atriði en í grunn- og framhaldsskólalögum (nr. 91/2008 og nr. 92/2008) er tekið fram að kennsla á þessum skólastigum skuli fara fram á íslensku þótt heimilt sé að nám fari fram á öðrum tungumálum en íslensku þegar það leiðir af eðli máls eða aðalnámskrá.
    Vegna þess hve miklu hlutverki leikskólar og grunnskólar gegna í máltöku og málörvun barna verði sett viðmið um fjölda erlendra starfsmanna á hverri deild leikskóla, kunnáttu þeirra í íslensku og verksvið. Það sama á við um grunnskólastigið þótt þar hafi starfsmönnum af erlendum uppruna ekki fjölgað jafnmikið og í leikskólum. Kveða þarf á um rétt þessara erlendu starfsmanna til íslenskunáms í vinnutíma og skyldu þeirra til að sækja sér það nám.

          Að allt notendaviðmót í tölvum í íslenskum leik-, grunn- og framhaldsskólum sé á íslensku.

Tölvur eru mikilvægur þáttur í lífi barna og unglinga og miklu skiptir að nemendur hafi aðgang að tölvum með hugbúnaði á íslensku. Þetta yki tölvulæsi nemenda og kæmi í veg fyrir að íslenskan hörfaði fyrir ensku á þessu ört vaxandi sviði þjóðlífsins (sjá einnig Íslenska í tölvuheiminum).

Aðgerðir
Til að ofangreind markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Að yfirvöld menntamála sjái til þess að hlutur móðurmálskennslu verði aukinn í öllu skólakerfinu, frá leikskóla upp í háskóla. Í leikskóla þurfa börn að fá nauðsynlega málörvun og í grunn- og framhaldsskólum þarf að verja meiri tíma til móðurmálskennslu en nú er gert.
          Að menntun kennara í íslensku verði aukin. Lágmarkskrafan verði sú að grunnskólakennarar hafi að minnsta kosti 60 eininga nám (eins árs nám) að baki í íslensku máli, bókmenntum og kennslu íslensku sem annars máls af 300 einingum í fimm ára námi til kennaraprófs. Inni í þeim einingafjölda eiga ekki að vera námskeið sem snúa að tæknilegum atriðum eins og ritgerðasmíð. Sérhver kennari, frá leikskóla upp í framhaldsskóla, þarf að vera góð málfyrirmynd og hæfur til þess að efla málkennd og málþroska barna og unglinga.
          Að ekki kenni aðrir móðurmál í grunnskóla en þeir sem lokið hafa háskólaprófi í íslensku, þ.m.t. af íslenskukjörsviði í kennaranámi, og ekki kenni aðrir íslensku í framhaldsskóla en þeir sem lokið hafa meistaraprófi í íslenskri málfræði, íslenskum bókmenntum eða íslenskum fræðum. Þetta er í samræmi við lög til dæmis í Finnlandi, Svíþjóð og Danmörku (sbr. Samanburðarkönnun á skólakerfum á Íslandi, í Danmörku og í Svíþjóð 2002).
          Að íslenskar barna- og unglingabókmenntir eigi greiða leið inn í skólakerfið og hvatt verði til lestrarátaks á öllum skólastigum. Menntun leik- og grunnskólakennaranema í barnabókmenntum verði efld með það að markmiði að auka áhuga barna og unglinga á lestri.
          Að þáttur sköpunar og tjáningar á íslensku verði efldur á öllum skólastigum.
          Að samstarf verði aukið á milli framhaldsskóla og viðeigandi sviða innan Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri við gerð námskrár í íslensku í framhaldsskólum og þegar ákvarðanir eru teknar um kjarnanámskeið á menntavísindasviði Háskóla Íslands og í hug og félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Þannig verður menntun framhaldsskólakennara á öllum sviðum íslensku betur tryggð.
          Að menntun leik-, grunn- og framhaldsskólakennara taki mið af breyttu hlutverki íslenskukennara í skólakerfinu. Kennarar sinna nú fjölbreyttari nemendahópi í starfi sínu en áður, meðal annars ört vaxandi fjölda barna og unglinga af erlendum uppruna.
          Að í reglugerð um leikskóla verði kveðið á um að kennsla og umönnun barna í leikskólum skuli að mestu fara fram á íslensku.
          Að sett verði viðmið um fjölda erlendra starfsmanna í leik- og grunnskólum, kunnáttu þeirra í íslensku og verksvið.
          Að fræðsluyfirvöld setji sér það markmið að innan þriggja ára verði allt notendaviðmót í tölvum í íslenskum leik-, grunn- og framhaldsskólum á íslensku.


ÍSLENSKA Í HÁSKÓLUM


Ástand
Árið 2006 voru samþykkt frá Alþingi lög nr. 63, um háskóla á Íslandi. Í fyrsta kafla þeirra laga er fjallað um gildissvið og hlutverk háskóla. Í annarri grein kaflans stendur:

    Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem sinnir kennslu, rannsóknum, varðveislu þekkingar, þekkingarleit og sköpun á sviðum vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Hlutverk háskóla er að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls. Starf háskóla miðar að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi. Háskólar mennta nemendur með kennslu og þátttöku í vísindarannsóknum og búa þá undir að gegna störfum sem krefjast vísindalegra vinnubragða, þekkingar og færni. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð. Háskólar hafa sjálfdæmi um starfsemi sína að öðru leyti en því sem kveðið er á um í lögum, reglum eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum sem veitt eru á grundvelli þeirra. Viðurkenning felur ekki í sér að stjórnvöld séu skuldbundin til að veita fé til viðkomandi háskóla. Menntamálaráðherra skal setja reglur um erlendar þýðingar á heitum þeirra háskóla sem hann veitir viðurkenningu.

Þótt hvergi sé í lögunum minnst á íslenskt mál sem megintungumál íslenskra háskóla beinum orðum hlýtur það þó að vera frumskilyrði þess að háskólar geti styrkt innviði íslensks samfélags. Án traustrar stöðu tungumálsins stendur samfélagið völtum fótum sem íslenskt samfélag og innviðirnir fúna. Hlutverk háskóla samkvæmt þessum lögum er meðal annars að stuðla að miðlun þekkingar og færni til samfélagsins alls. Þar öðlast nemendur menntun á flestum sviðum vísinda og tækni og dreifast að námi loknu um þjóðfélagið allt til þess að vinna að sérgreinum sínum og miðla vitneskju sinni til samfélagsins. En þekkingu og færni verður ekki miðlað til íslensks samfélags á öðru máli en íslensku ef sem flestir eiga að geta nýtt sér það sem í boði er. Íslenska þarf þess vegna að vera nothæf í vísindum og fræðum og búa yfir öllum þeim orðaforða sem nauðsynlegur er til þess að eðlileg samskipti geti orðið á milli þess sem þekkinguna hefur numið og þess sem tekur við henni.
    Á Íslandi eru nú sjö háskólar: Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskóli Íslands og Listaháskóli Íslands. Kennaraháskóli Íslands hefur verið sameinaður Háskóla Íslands. Mestur hluti starfsmanna allra háskólanna er af íslenskum uppruna en erlendum starfsmönnum hefur fjölgað á liðnum árum. Þorri nemenda er íslenskur en skólarnir sækjast í vaxandi mæli eftir erlendum nemendum.


Úr málstefnu Háskóla Íslands
Háskóli Íslands er íslensk vísinda- og menntastofnun og hluti af hinu alþjóðlega fræðasamfélagi. Málstefna Háskólans tekur mið af þessu tvíþætta hlutverki hans. Málstefnan hefur að leiðarljósi að talmál og ritmál Háskólans er íslenska, jafnt í kennslu, rannsóknum sem stjórnsýslu. Þetta felur m.a. í sér að kennsla og próf til fyrstu háskólagráðu fara að mestu fram á íslensku. Víkja má frá þessari meginreglu ef sérstök ástæða er til, svo sem við kennslu í erlendum málum, ef kennari er erlendur eða kennsla er einnig ætluð útlendingum. Rannsóknum og framhaldsnámi fylgja erlend samskipti og fleiri mál en íslenska eru notuð í því starfi, einkum enska. Meginkennslumál í framhaldsnámi er þó íslenska, eftir því sem við verður komið. Háskólinn vill stuðla að því að gera kennurum, sérfræðingum og nemendum kleift að tala og skrifa um öll vísindi á íslensku og gera þau jafnframt aðgengileg almenningi eins og kostur er. Málnotkun í Háskóla Íslands skal vera til fyrirmyndar.     Aðeins tveir háskólanna, Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri, hafa markað sér málstefnu. Málstefna Háskóla Íslands var samþykkt í háskólaráði 21. maí 2004 og ber rektor ábyrgð á að henni sé framfylgt en deildir hafa umsjón með framkvæmd hennar. Helstu framkvæmdaratriði málstefnunnar eru að hvetja skal erlenda starfsmenn til að sækja námskeið í íslensku og sömuleiðis eru allir starfsmenn skólans hvattir til þess að sinna málrækt, til dæmis með því að rita um fræði sín á íslensku og taka saman orðasöfn. Vinna starfsmanna við gerð orðasafna er reyndar mismikil eftir greinum og eftir tímabilum. Nýlega kom þó út nýtt lagaorðasafn og unnið er að að orðasafni í tannlækningum. Margir kennarar eru snjallir orðasmiðir og láta nemendum sínum í té orðalista í námskeiðum og margir. Vænta mætti að áhugi á íðorðastarfi yrði meira hjá kennurum ef þeir fengju þetta starf á einhvern hátt metið (sjá einnig Íslenska í vísindum og fræðum).
    Háskóli Íslands hyggst einnig leitast við að tryggja erlendum skiptinemum, sem til hans leita í skamman tíma í samræmi við alþjóðlega samninga, nægilegt framboð af sérhæfðum námskeiðum á ensku. Deildir Háskóla Íslands geta boðið upp á heilar námsleiðir í framhaldsnámi eða einstök námskeið á erlendum málum eftir því sem ástæður leyfa. Málstefnu Háskóla Íslands má nálgast á heimasíðu skólans (www.hi.is).
    Málstefna Háskólans á Akureyri var samþykkt 22. febrúar 2008 og er hún metnaðarfull hvað íslenskt mál varðar. Þar er skýrt tekið fram að háskólanum beri að rækja skyldur sínar við íslenskt samfélag um uppfræðslu, sköpun og miðlun þekkingar og að skólinn geri þær kröfur til sín og starfsmanna sinna að vera til fyrirmyndar um notkun, kennslu og þróun íslenskrar tungu og efla eftir föngum framlag sitt til íslenskrar menningar. Skólinn hyggst leita leiða til að veita starfsfólki sínu leiðsögn um málfar og er markmiðið að kennarar skólans verði til fyrirmyndar um málnotkun, hvort sem um er að ræða íslensku, ensku eða önnur mál. Hvatt er til aukinna kennara- og nemendaskipta og erlendum starfsmönnum og skiptinemum eru boðin námskeið í íslenskri tungu og menningu. Starfsmenn eru hvattir til að birta rannsóknir á íslensku jafnt sem ensku eða öðrum erlendum málum. Með því telur skólinn að hann komi til móts við tvíþætt hlutverk háskólans gagnvart íslensku og erlendu samfélagi. Deildir háskólans eiga að sjá til þess að íslenskir nemendur fái fræðilegan orðaforða á íslensku, hvort sem námið fer fram á íslensku eða ensku, og þær verða einnig að gera nemendum grein fyrir því að lokaritgerðir verði að vera á vönduðu og hnökralausu máli. Hægt er að nálgast málstefnuna á heimasíðu skólans (www.unak.is).


Málstefna Háskólans á Akureyri
1. gr. Tvíþætt hlutverk háskóla
    a)     Háskólanum ber að rækja skyldur sínar við íslenskt samfélag um uppfræðslu, sköpun og miðlun þekkingar. Háskólinn gerir þær kröfur til sín og starfsmanna sinna að vera til fyrirmyndar um notkun, kennslu og þróun íslenskrar tungu, og efla eftir föngum framlag sitt til íslenskrar menningar.
    b)     Í annan stað skiptir meginmáli að styrkja hlutverk háskólans í alþjóðlegu samhengi, ástunda kennara- og nemendaskipti og samstarf við erlenda háskóla og fræðslustofnanir, og tryggja framlag skólans til fræðimennsku og þekkingarsköpunar á erlendum vettvangi. Til að Háskólinn á Akureyri geti sem best sinnt starfi sínu við rannsóknir og kennslu ber að leggja á það áherslu að notkun tungumála innan skólans styðji og endurspegli þetta tvíþætta hlutverk skólans.

2. gr. Skyldur við íslenskt samfélag
    Til að uppfylla skyldur sínar við eigið samfélag skal Háskólinn á Akureyri leitast við að efla notkun íslenskrar tungu á sem flestum sviðum innan skólans. Í þessu samhengi þurfa nemendur að kunna skil á íslenskum fræðiheitum og leggja sérstaka áherslu á að tileinka sér þau þar sem námskeið eru kennd á ensku eða öðru erlendu tungumáli, enda þurfa þeir að geta talað og skrifað um fræðigreinar sínar á móðurmálinu og stutt þannig fræðsluhlutverk háskólans innan eigin samfélags. Leggja ber sérstaka áherslu á að málfar í lokaverkefnum nemenda sé vandað og hnökralaust.

3. gr. Íslenska opinbert tungumál
    Háskólinn á Akureyri starfar innan íslensks samfélags, á íslensku málsvæði, og íslenska er opinbert tungumál skólans. Öll skjöl sem skólinn lætur frá sér fara teljast í frumriti á íslensku, en útgáfur á öðrum tungumálum teljast þýðingar og skal íslenska útgáfan gilda ef málfarslegur ágreiningur kemur upp. Fundir innan stjórnsýslunnar skulu að jafnaði fara fram á íslensku, en fari þeir fram á ensku eða öðru erlendu tungumáli skal þess getið sérstaklega í fundarboði. Ætlast er til að fastráðnir, erlendir kennarar leggi sig fram um að læra íslensku enda veitir Háskólinn þeim aðstoð í þeim efnum. Fastráðnir kennarar sem ekki hafa íslensku að móðurmáli skulu innan fimm ára hafa öðlast nægilega færni í tungumálinu til að eiga almenn samskipti, geta setið fundi og geta hagnýtt sér upplýsingar frá stjórnsýslu háskólans.

4. gr. Þróttmikil alþjóðleg starfsemi
    Stuðningur við þátttöku í alþjóðlegri starfsemi felst fyrst og fremst í öflugu hlutverki enskunnar svo og annarra erlendra tungumála (t.d. Norðurlandamála) innan háskólans. Tryggja verður nægt framboð námsleiða (og jafnvel heilla námsbrauta, sér í lagi í framhaldsnámi) á ensku til að sinna þörfum skiptinema. Jafnframt skal starfsmönnum gefinn kostur á að kenna námskeið á ensku, m.a. til að efla eigin færni og sjálfstraust, svo og nemenda, í notkun þess tungumáls. Gerðar eru ríkar kröfur um vandað málfar í kennslu á ensku, rétt eins og á íslensku. Háskólinn á Akureyri leggur áherslu á að háskólakennarar séu færir um að fjalla um fræðasvið sín á fleiri en einu tungumáli. Slík umfjöllun veitir betri innsýn í fræðin og skerpir skilning á þeim hugtökum sem koma þarf á framfæri. Sú meginregla gildir um samspil íslensku og ensku innan háskólans að starfsmenn noti ensku ásamt með íslensku, en ekki í stað hennar. Háskólinn hefur hag af fjölbreyttri tungumálakunnáttu starfsfólks, t.d. þeirra sem hlotið hafa menntun erlendis, utan hins enskumælandi heims, svo og erlendra starfsmanna er færa skólanum mismunandi móðurmál sín. Slík kunnátta er Háskólanum á Akureyri afar dýrmæt og hvetur til fjölbreyttari starfsemi á alþjóðavettvangi en enskan ein getur leitt af sér.

5. gr. Málfarslegur stuðningur háskólans
    Mikilvægt framlag háskólans til eflingar málnotkunar, fyrst og fremst á íslensku og ensku, felst í víðtækum málfarslegum stuðningi við kennara í nánast öllum störfum þeirra. Háskólinn býður upp á námskeið í íslensku og íslenskri menningu fyrir fastráðna kennara erlendis frá.

6. gr. Ábyrgð, umsjón og framkvæmd
    Rektor ber ábyrgð á málstefnu Háskólans á Akureyri, en deildir hafa umsjón með framkvæmd hennar.     Aðrir háskólar hafa ekki markað sér málstefnu eftir því sem næst verður komist og gera mismiklar kröfur til nemenda um tungumálakunnáttu. Öllum nemendum Listaháskóla Íslands og Háskólans á Hólum er kennt á íslensku í grunnnámi, hvaðan sem þeir koma. Í vaxandi mæli er boðið upp á kennslu á ensku í framhaldsnámi allra skólanna og jafnvel er svo komið að heilar námsbrautir eru kenndar á ensku. Sífellt fleiri doktorsritgerðir eru skrifaðar á ensku og sumar deildir gera þá kröfu að ritgerðirnar séu skrifaðar á ensku.
    Háskólarnir hafa birt stefnuskrár sínar. Í stefnuskrá Háskóla Íslands fyrir árin 2006–2011 stendur:

    Háskóli Íslands gegnir lykilhlutverki í íslensku samfélagi. Það er skylda hans að ávaxta íslenskan menningararf og stunda öflugar rannsóknir á íslenskri tungu, menningu og samfélagi. Háskólanum ber því að leggja rækt við fræðigreinar og rannsóknir sem varða Ísland og Íslendinga sérstaklega.

Hvergi kemur hins vegar fram í stefnunni að sjá eigi til þess að talmál og ritmál Háskóla Íslands sé íslenska „jafnt í kennslu, rannsóknum sem stjórnsýslu“ eins og stendur þó í málstefnunni. Stefnuskrána er að finna á heimasíðu skólans (www.hi.is).
    Í Stefnu Háskólans á Akureyri 2007–2011 í kaflanum um Framtíðarsýn er vikið að tungumálinu: „Opinbert tungumál háskólans er íslenska en tryggt verði námsframboð á ensku sem svarar þörfum alþjóðlegs umhverfis í háskólanum“ (bls. 8). Stefnuskráin er birt á heimasíðu skólans (www.unak.is).
    Í stefnuskrá Háskólans í Reykjavík er ekki vikið að íslensku sem opinberu máli skólans. Hins vegar er tekið fram að háskólinn muni verða „að fullu tvítyngdur skóli árið 2010“ og er þá átt við að allt starf við skólann verði tvímála. Stefnuskrána má finna á heimasíðu skólans (www.ru.is).
    Í stefnuskrám Háskólans á Hólum og Bifröst, Listaháskóla Íslands og Landbúnaðarháskóla Íslands er hvergi minnst á íslensku sem kennslugrein eða í samskiptum innan skólanna.
    Í lögum frá Alþingi um opinbera háskóla (nr. 85/2008) er ekki minnst á að íslenska skuli að jafnaði vera það mál sem kennt er á eða notað er í samskiptum kennara og nemenda.
    Hvergi er gerð sú krafa að háskólarnir sjái til þess að tungumáli fræðasviðsins sé haldið við með vandaðri nýyrðasmíð þannig að bæði kennarar og nemendur getið talað á íslensku um fræðasvið sitt án aðkomuorða. Háskóli Íslands sýndi metnað á þessu sviði fyrir fáeinum áratugum þegar ráðgert var að setja á laggirnar sérstaka orðanefnd í hverri deild en minna varð úr framkvæmd en að var stefnt (Guðrún Kvaran 2003). Háskólinn á Akureyri tekur fram í málstefnu sinni að nemendur þurfi „að kunna skil á íslenskum fræðiheitum og leggja sérstaka áherslu á að tileinka sér þau þar sem námskeið eru kennd á ensku eða öðru erlendu tungumáli“ en ekki er tekið fram hvort háskólinn hyggist styðja og efla nýyrðasmíð í þeim greinum sem þar eru kenndar. Meginforsenda þess að íslensk tunga geti þjónað öllum sviðum íslensks samfélags er að hún sé notuð til samskipta og í miðlun sérþekkingar. Þetta krefst þess að til séu á íslensku orð og orðasambönd, viðurkennd íðorð tiltekinna greina, sem eru grundvöllur undir faglega orðræðu á íslensku.

Horfur
Ef svo fer sem horfir að sífellt fleiri námskeið verði boðin á ensku í íslenskum háskólum, jafnvel þótt kennarinn og langstærstur hluti nemenda séu Íslendingar, hljótum við að standa frammi fyrir umdæmismissi og að íslenska verði ónothæf á sumum sviðum vísindasamfélagsins bæði í kennslu og skrifum. Tækið til boðskipta, tungumálið sjálft, verður úrelt, orðaforðann, sem nauðsynlegur er til að ræða eða skrifa um fræðasviðið á eðlilegu, vönduðu máli, vantar ef íðorðasmíð er ekki sinnt og sömuleiðis vantar færnina til að ræða fræðilegt efni við aðra fræðimenn og til að kynna það fyrir almenningi. Ef kennari í námsgrein verður að kenna á ensku í stað íslensku en er ekki menntaður í enskumælandi landi kennir hann á máli sem honum er ekki eðlilegt að tjá sig á og kennslan hlýtur að verða lakari en ella. Hér gildir það sem oft hefur verið bent á að á móðurmálinu getur málnotandinn sagt það sem hann vill en á erlendu máli segir hann aðeins það sem hann getur sagt. Notkun framandi máls sem mælandinn hefur ekki eru full tök á dregur úr tjáningarfærni en hún er eitt meginatriði góðrar kennslu.
    Íslenskir háskólar vilja laða til sín erlenda kennara og nemendur í alþjóðlegri samkeppni. Kennsla fer þá vanalega fram á ensku þótt íslenskir nemendur sitji námskeiðin, umræður eru á ensku, ritgerðaskrif á ensku. Ef fram vindur sem horfir verða íslensku nemarnir ófærir um að tjá sig um sviðið, sem kennt er, nema á ensku og erlendu nemendurnir tileinka sér ekki nema að litlu leyti íslenskt mál.
    Á útmánuðum 2008 var auglýst Raunvísindaþing við raunvísindadeild Háskóla Íslands þar sem haldnir voru fleiri tugir erinda fyrst og fremst af Íslendingum fyrir Íslendinga. Aðeins fimm þeirra voru á íslensku og sérmerktir í dagskrá. Hin voru á ensku. Í Fréttablaðinu 5. júní 2008 birtist auglýsing frá Háskólanum á Bifröst um málþing í vændum. Auglýsingin var eingöngu á ensku. Ef ekki er unnt að halda málþing á Íslandi á íslensku eða auglýsa þau á íslensku og þróunin verður sú að þau færist alfarið yfir á ensku verður fljótt úti um íslensku sem kennslu- og fræðamál innan háskóla sem utan.

Markmið í íslenskri málstefnu
    Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Íslenska sé opinbert mál allra háskóla á Íslandi og kennsla fari þar að jafnaði fram á íslensku.

Kennsla í grunnnámi ætti öll að fara fram á íslensku, nema um sé að ræða nám í erlendum tungumálum, og lokaritgerðir í grunnnámi ættu einnig að vera skrifaðar á íslensku.

          Háskólar á Íslandi hvetji til umhugsunar um íslenska tungu með markvissri og raunhæfri málstefnu.

Íslenska ríkið ver þegar miklum fjármunum til háskóla, jafnt ríkisrekinna sem einkaskóla. Það er eðlileg krafa að því fé sé varið til að byggja upp háskólastarf þar sem íslenskt mál hefur forgang.

          Framhaldsnám í háskólum á Íslandi verði að jafnaði á íslensku.

Ef ástæða þykir til að kenna á erlendu máli verður að vanda til slíkra námskeiða og velja kennara sem fullt vald hafa á hinu erlenda máli. Íslenskir stúdentar, sem þurfa að sækja námskeið á erlendu máli, ættu að fá leiðsögn í orðaforða námskeiðsins á íslensku og einnig ættu þeir að fá faglega aðstoð við frágang námsritgerða á erlendu máli.

          Allir erlendir kennarar og nemendur eigi kost á námskeiði í íslensku. Erlendir kennarar, sem hljóta fasta stöðu við íslenskan háskóla, kenni á íslensku eins fljótt og auðið er.

Þeir erlendu nemendur, sem kjósa að stunda fullt nám við íslenskan háskóla, ættu að þurfa að hafa einhverja færni í íslensku. Gera ætti það að skyldu að þeir sæktu undirbúningsnám í íslensku ef þeir hafa litla kunnáttu í málinu, rétt eins og erlendir stúdentar verða að standast inntökupróf í mörgum öðrum Evrópulöndum áður en þeir hefja nám og sækja námskeið í máli landsins standist þeir ekki prófið.

          Viðmót í tölvum háskólanna sé á íslensku fyrir íslenska nemendur og þá erlenda nemendur sem tileinka vilja sér málið.

Mikilvægt er að Íslendingar hafi þann metnað að nota aðeins íslenskt viðmót á tölvum sínum.
    Þau markmið sem hér eru sett fram eru ekki kostnaðarsöm en sé stefnt að þeim af festu og fullum heilindum geta þau eflt og styrkt íslenska tungu og fest hana í sessi sem innlent tungumál vísinda og fræða.

Aðgerðir
Til að þessi markmið náist leggur Íslensk málnefnd til eftirfarandi aðgerðir:

          Stefna ætti að því að allir háskólar á Íslandi setji sér skýra málstefnu þar sem staða íslenskrar tungu sé tryggð. Menntamálaráðuneytið hafi eftirlit með því að málstefnu háskólanna sé fylgt.
          Hvetja ætti til þess að samskiptamál innan háskóla á Íslandi sé að öllum jafnaði íslenska og að kennsla fari almennt fram á íslensku. Kennsla á öðru tungumáli á að heyra til undantekninga og gera á þá kröfu að fylgst verði með málfarslegum gæðum þeirrar kennslu. Sömuleiðis þarf að fylgjast með því að íslenskum stúdentum sé kynntur fræðiorðaforðinn á íslensku.
          Stefna ætti að því að allir háskólar á Íslandi bjóði hagnýta kennslu í íslensku fyrir erlenda kennara sína og nemendur.
          Efla verður íðorðasmíð innan allra háskólanna og koma þarf á samvinnu um íðorðanotkun milli þeirra skóla sem bjóða kennslu í sömu greinum. Best verður að íðorðasmíð staðið ef þeir sem taka hana að sér fá kennslu í fræðilegum vinnubrögðum.
          Gerð verði sú krafa til háskóla á Íslandi að þeir noti tölvur með íslensku viðmóti í tölvuverum sínum.
          Gerð verði sú krafa til háskólasamfélagsins að það kynni fræði sín fyrir almenningi á lýtalausri íslensku bæði í skrifum og töluðu máli.


ÍSLENSKA Í VÍSINDUM OG FRÆÐUM


Ástand
Það hefur ekki farið fram hjá neinum að vísindasamfélagið á Íslandi verður sífellt alþjóðlegra á dögum vaxandi hnattvæðingar. Það er í sjálfu sér fagnaðarefni en þó er hætt við að sú þróun geti orðið á kostnað íslenskrar tungu. Reynsla nágrannaþjóðanna er að þessi þróun, einkum í læknisfræði, náttúruvísindum og tæknigreinum, hafi orðið á kostnað þjóðtungunnar. Tímabært er að spyrja hvort rúm sé fyrir íslensku í alþjóðlegu vísindasamfélagi á Íslandi eða hvort hún verði brátt ónothæf, meðal annars sökum skorts á fræðilegum heitum og reynslu í að koma fræðunum til skila á vönduðu íslensku máli.
    Vísindi og fræði þróast fyrst og fremst innan háskólanna. Þar fer kennsla fram og nemendur mótast af þeim anda sem þar ríkir. Sumir þeirra vinna síðar fræðastörf tengd rannsóknum og kennslu, aðrir starfa á almennum markaði en öllum er það sameiginlegt að þeir eiga að geta tjáð sig á vönduðu rituðu máli og rætt um starfsviðið á góðri íslensku.
    Mál hafa þróast á þann veg á síðustu áratugum að kennurum og sérfræðingum ríkisháskólanna er umbunað árlega fyrir birtar greinar og hefur þetta afkastahvetjandi kerfi vissulega eflt íslenskar rannsóknir. Samkvæmt matsreglum Félags háskólakennara og Háskóla Íslands frá 2003, sem nálgast má á heimasíðu félagsins (www.fh.hi.is), eru greinar birtar í tímariti á lista Institute for Scientific Information ( ISI) eða öðru sambærilegu tímariti metnar til 15 stiga en ritrýndar greinar birtar í öðru fræðiriti til 10 stiga. Aðeins eitt íslenskt tímarit er á þeim lista eftir því sem næst verður komist ( Jökull, tímarit Jöklarannsóknafélags Íslands og Jarðfræðafélags Íslands; flestar greinar sem birtast í því riti eru skrifaðar á ensku). Kerfið skapar þrýsting á íslenska fræðimenn til að skrifa á erlendum málum fremur en á íslensku.
    Vísindaleg gæði tímaritsgreina ráðast ekki fyrst og fremst af útbreiðslu tímaritsins eða tungumáli tímaritsgreinarinnar heldur af ritstjórn tímaritsins og þeim ritrýnum sem fengnir eru til þess að meta fræðileg gæði þeirra greina sem höfundar senda inn. Það er afar misjafnt eftir fræðigreinum hvar líkur eru á að finna bestu ritstjórnirnar og ritrýnina en í þeim fræðigreinum, sem varða Ísland sérstaklega, má búast við að ákjósanlegast sé að leita til íslenskra fræðimanna. Vel má hugsa sér að hægt sé að birta lítt vísindalega grein um fræði er varða íslenskt mál, bókmenntir, sögu, jarðvísindi og sjávarlíffræði, svo að dæmi séu tekin, í alþjóðlegu ritrýndu fræðitímariti ef ritstjórn þess og ritrýni er ófullnægjandi (þ.e. ef þeir sem eiga að meta gæði greina hafa ónóga þekkingu á fræðasviðinu og ekki er leitað til íslenskra fræðimanna). Ef hliðsjón er höfð af því ættu að minnsta kosti sum íslensk ritrýnd fræðitímarit í fræðum er varða Ísland sérstaklega að vera jafnhátt metin eða jafnvel meira en alþjóðleg ritrýnd tímarit. Mikið skortir þó á að svo sé. Þá má nefna að ýmis ritrýnd tímarit, til dæmis í íslenskum fræðum ( Íslenskt mál og almenn málfræði, Gripla, Orð og tunga, Saga og fleiri), eru í raun alþjóðleg því að fræðimenn af ýmsu þjóðerni víða um heim fylgjast með þeim og eru áskrifendur að þeim.
    Alþjóðleg viðurkenning er vissulega mikilvæg en íslenskt fræðasamfélag er ekki síður mikilvægt og góð tengsl íslenskra fræðimanna við íslenskt vísindasamfélag og almenning er undirstaðan undir vel menntað og öflugt þjóðfélag. Það er réttur almennings að geta kynnt sér fræðileg skrif um öll þau svið sem snerta Ísland og íslenska menningu sérstaklega.
    Sums staðar í háskólasamfélaginu þykir ekki boðlegt að skrifa doktorsritgerð á íslensku. Í sumum deildum Háskóla Íslands var beinlínis ætlast til þess að doktorsritgerð væri skrifuð á ensku (ekki til dæmis öðru Norðurlandamáli, þýsku eða frönsku). Deildaskipan innan skólans hefur nú breyst mikið en nýjar reglur hafa ekki verið samdar fyrir hin nýju svið. Enn sem komið er er því aðeins hægt að vísa í eldri reglur deilda sem nálgast má á vef Háskóla Íslands (www.hi.is):

          Félagsvísindadeild Háskóla Íslands (nú innan félagsvísindasviðs): „Doktorsritgerð skal vera skrifuð á ensku nema sérstök rök séu fyrir því að hafa hana á íslensku.“ (Reglur nr. 797/2006, um doktorsnám við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, 11. grein).
          Læknadeild Háskóla Íslands (nú innan heilbrigðisvísindasviðs): „Doktorsritgerð skal skrifa á ensku.“ Þar er líka kveðið á um að útdráttur skuli fylgja bæði á íslensku og ensku. (Reglur um doktorsnám og doktorspróf við læknadeild Háskóla Íslands, 17. grein.)
          Lyfjafræðideild Háskóla Íslands (nú innan heilbrigðisvísindasviðs): „Doktorsritgerðina skal skrifa á ensku.“ (Reglur nr. 140 frá 5. febrúar 2004, um doktorsnám við lyfjafræðideild Háskóla Íslands, 10. grein)
          Hjúkrunarfræðideild (nú innan heilbrigðisvísindasviðs): „Gert er ráð fyrir að doktorsritgerð sé rituð á ensku og henni skal fylgja útdráttur á íslensku og ensku.“ (Reglur nr. 256 frá 25. febrúar 2004, um doktorsnám við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, 12. grein).

Sums staðar virðist íslenska þó að minnsta kosti jafnrétthá og enska:

          Hugvísindadeild Háskóla Íslands (nú innan hugvísindasviðs): „Doktorsritgerð skal að jafnaði vera skrifuð á íslensku eða ensku. Í hverri ritgerð skal vera útdráttur á íslensku og ensku.“ (Reglur um doktorsnám við hugvísindadeild Háskóla Íslands frá 26. mars 2007, 12. grein).

Dæmi eru þó um að íslenska sé hið sjálfgefna mál:

          Lagadeild Háskóla Íslands: „Óski umsækjandi eftir því að skrifa ritgerð sína á öðru tungumáli en íslensku getur rannsóknanámsnefnd gert það að skilyrði að umsækjandi sanni færni sína í viðkomandi tungumáli með því að láta hann gangast undir próf eða leggja fram sérstakt vottorð þar að lútandi.“ (Reglur um doktorsnám og rannsóknanámsnefnd við lagadeild Háskóla Íslands, nr. 134/2005, með áorðnum breytingum, í 5. grein.)

Doktorsnám við Kennaraháskóla Íslands (nú menntavísindasvið Háskóla Íslands) var nýtt af nálinni þegar hann sameinaðist Háskóla Íslands og reglur um doktorsnám tóku ekki skýrt á notkun tungumála.
    Dæmi af sama toga er að finna í öðrum íslenskum háskólum. Í reglum Landbúnaðarháskóla Íslands um doktorsnám frá 3. mars 2006 segir í 14. grein um skil og frágang doktorsritgerða (sjá www.lbhi.is): „Ritgerð skal að jafnaði vera á ensku en útdráttur á íslensku og ensku skal fylgja hverri doktorsritgerð.“
    Eftir því sem næst verður komist voru varðar 74 doktorsritgerðir við Háskóla Íslands á árunum 2000–2007 (sjá www.hi.is/page/doktorsvarnir). Af þeim var 21 á íslensku (28%) en 53 voru á ensku (72%). Við Háskóla Íslands er sem sagt innan við þriðjungur doktorsritgerða á íslensku.


Doktorsritgerðir á ensku
Það er vissulega ekki séríslensk þróun að æ fleiri doktorsritgerðir séu skrifaðar á ensku. Aðeins sjö af hundraði doktorsritgerða, sem varðar voru við sænska háskóla, voru skrifaðar á sænsku 2006. Árið 2006 undirrituðu 223 norskir prófessorar skjal sem birt var opinberlega, meðal annars í dagblöðum, undir yfirskriftinni „Til forsvar for norsk som forskningsspråk“. Þar benda þeir á að í ákafanum eftir að umbuna þeim sem birta greinar í tímaritum á ensku hafi gleymst að því fylgi að norskan líði fyrir sem mál í vísindum og fræðum. Norskir fræðimenn séu í raun hvattir til að skrifa ekki á norsku heldur ensku til að hljóta umbun fyrir skrif sín.
Vandkvæði tengd því að skrifa doktorsritgerð á íslensku eru vissulega auðséð: Það getur verið erfiðleikum bundið að skipa doktorsnefnd og fá andmælendur sem lesa íslensku. Ritgerðin sjálf fær takmarkaðri útbreiðslu utan Íslands. En íslenskum nemanda getur einnig reynst erfitt að skrifa ritgerðina á ensku eða öðru erlendu máli hjálparlaust og svara athugasemdum. Tjáningargeta hans er skert, hann stendur þar verr að vígi en sá sem hefur kost á því að skrifa á íslensku. Á móðurmálinu getur hver og einn sagt það sem hann vill segja en á erlendu máli aðeins það sem hann kann að segja.
    Tæknilegur orðaforði er undirstaðan undir samskipti á öllum fræðasviðum en staða nýyrðastarfsemi er ekki eins og best væri á kosið. Háskólaráð Háskóla Íslands samþykkti á fundi sínum 25. október 1990 tvær ályktanir um nýyrðastarfsemi innan háskólans. Þeim eindregnu tilmælum var beint til allra háskóladeilda.

    … að þær vinni skipulega að því að til verði íslenskt íðorðasafn á kennslusviði deildarinnar. Líta skal á vinnu við íðorðagerð sem sjálfsagðan þátt í fræðastarfi kennara og sérfræðinga í Háskóla Íslands.

Hver háskóladeild átti síðan að skipa starfshóp um skipulagningu íðorðastarfsins. Árið 2003 gerði formaður Íslenskrar málnefndar könnun í öllum deildum skólans og varð niðurstaðan sú að nánast ekkert hefði gerst á vegum deildanna sérstaklega á þeim þrettán árum sem liðin voru (Guðrún Kvaran 2003). Skýringar voru á einn veg: Kennarar deilda voru almennt ekki reiðubúnir til að fórna tíma sínum til þess að sinna íðorðastarfi á vegum deildar án þess að umbun kæmi fyrir í vinnumati Félags háskólakennara, Félags prófessora við ríkisháskóla eða í lýsingu á vinnuskyldu kennara þannig að íðorðastarfið færi fram í vinnutíma.
    Enginn vafi er á mikilvægi þess að fagmál sérfræðinga í hverri fræðigrein sé vandað og markvisst og orðaforðinn íslenskur. Fagmál greinarinnar litar alla umræðu bæði meðal sérfræðinga og í samskiptum þeirra við samfélagið. Þótt flestir sérfræðingar komi úr háskólaumhverfi er rétt að benda á að iðngreinar hafa einnig sinn orðaforða og þar með sitt eigið fagmál sem einnig þarf að gefa gaum og hlúa að.
    Vegna reglna vinnumatskerfis eru margir fræðimenn tregir til að leggja á sig að kynna fræði sín fyrir almenningi þar sem lítil sem engin umbun og viðurkenning er fyrir slík skrif. Opinberir fyrirlestrar fræðasamfélagsins eða greinar í vísindaritum ná sjaldnast til almennings þar sem matreiða þarf slíkt efni þannig að þeir skilji sem ekki eru vel heima á fræðasviðinu. Tímarit um vísindi ætluð almenningi sýna hins vegar að hann skortir ekki áhuga á að fylgjast með því sem fræðimenn fást við og sama á við um fyrirlestra.
    Ýmsir fræðimenn taka vissulega þátt í starfi íðorðanefnda og munu á annan tug slíkra nefnda vera starfandi um þessar mundir. Ómetanlegt gagn er einnig að Orðabanka málræktarsviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (sjá www.arnastofnun.is) en bæði nefndirnar og Orðabankinn þurfa öflugan stuðning fræðasamfélagsins.

Horfur
Margt bendir til að greinaskrif á ensku aukist á kostnað íslensku. Fleiri munu sækja í erlend vísindarit í þeirri von að þeim takist að afla sér viðurkenningar í alþjóðlegu fræðasamfélagi, og er það af hinu góða, en fái fræðimenn og stúdentar enga hvatningu frá íslenskum háskólum til þess að tjá sig og rita á íslensku verður áhugi á því að efla orðaforða fræðigreinarinnar og tileinka sér íslensk fræðiheiti lítill sem enginn.
    Ef mönnum, sem stunda vilja íðorðasmíð, verður ekki umbunað á einhvern hátt verður ekki um markvissa vinnu að ræða á því sviði og án vel myndaðra fræðiheita verða íslenskar fræðigreinar ekki á vönduðu máli. Íslenska hættir að vera nothæf í umræðu um fræðileg efni. Í vísindum og fræðum á enginn neitt (hvorki kenningar né hugmyndir) fyrr en það hefur verið birt opinberlega. Sú hætta getur skapast að birting á íslensku teljist ekki fullgild birting. Þá hefur íslenska glatað mikilvægu umdæmi. Nú nýlega hefur íslenska glatað gildi sínu hjá Rannsóknamiðstöð Íslands ( RANNÍS; sjá www.rannis.is) þar sem meginreglan er núna sú að umsóknir séu skrifaðar á ensku.
    Sjálfsagt verður erfitt að breyta stefnu þeirra deilda og háskóla sem krefjast doktorsritgerða á ensku en telja verður þá kvöð skilaboð til vísindasamfélagsins um að íslenska sé nánast ónothæf til birtingar rannsóknarniðurstaðna.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Eitt af markmiðum fræðasamfélagsins á Íslandi sé að efla íslenska tungu sem best á öllum þeim sviðum sem unnið er á.
    
Slík markmið eiga að vera sameiginleg öllum háskólum landsins, rannsóknastofnunum og fræðafélögum. Íslendingar ættu að læra af nágrannaþjóðunum sem misst hafa heilu fræðasviðin yfir til ensku.

          Gera þarf þær kröfur til fræðimanna og stúdenta að þeir séu færir um að skrifa um fræði sín á vönduðu íslensku máli þannig að íslenska verði nothæf hvar sem er í vísindasamfélaginu á Íslandi og hvarvetna í íslensku þjóðfélagi.

Ákvæði 2. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, verða vart túlkuð á aðra lund en að það sé eitt af hlutverkum háskóla á Íslandi að styrkja íslenska tungu og stuðla að miðlun þekkingar og færni á íslensku. Þetta þarf að vera leiðarljós í öllu háskólastarfi á Íslandi. Háskólarnir þurfa að ganga fram með góðu fordæmi.

          Hvetja þarf háskóla- og fræðasamfélagið til þess að efla íslensk fræðitímarit eins og unnt er og gera þeim að standast sams konar kröfur og gerðar eru til tímarita á lista ISI.

Vissulega hentar ekki öllum fræðigreinum jafn vel að birta greinar á íslensku og erfitt gæti orðið að halda úti ritrýndum fræðitímaritum í öllum greinum. Rafræn birting á grein bæði á íslensku og ensku eða öðru erlendu tungumáli gæti bætt úr þessu. Leggja ætti áherslu á að gefin verði út ritrýnd tímarit á íslensku á fræðasviðum sem snúa að íslensku samfélagi, tungu og menningu.

          Gefa verður jafnt kennurum sem nemendum íslenskra háskóla kost á námskeiðum í meðferð ritaðs máls þannig að þeir verði sem hæfastir til að kynna fræði sín, hvort heldur er í vísindasamfélaginu eða fyrir almenningi.

Ef þeir sem kenna stúdentum fræði sín og þeir sem útskrifast frá háskólunum og stunda fræðigreinar sínar úti í þjóðfélaginu hafa tamið sér vandað mál, skrifa og tala um fræðin á góðri íslensku, er minni hætta á að umdæmi glatist.

          Skylda ætti að vera að kynna nemendum íslenskan fræðiorðaforða ef kenna þarf námskeið á ensku eða öðru erlendu máli.

Að þessu er stefnt í málstefnu Háskólans á Akureyri (2. gr.) sem áður var vitnað til: „… þurfa nemendur að kunna skil á íslenskum fræðiheitum og leggja sérstaka áherslu á að tileinka sér þau þar sem námskeið eru kennd á ensku eða öðru erlendu tungumáli …“ Ef þetta er gert ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að nemendur geti rætt um efni námskeiðsins og skrifað námsritgerð og hugsanlega lokaritgerð á íslensku með íslenskum orðaforða. Þeim verður þá tamt að ræða um fræði sín á óbjagaðri íslensku og taka þá færni með sér út í rannsóknar- eða atvinnulífið.

          Allir háskólar á Íslandi ættu markvisst að sinna íðorðastarfsemi.

Æskilegt væri að fræðasamfélagið hefði samvinnu um notkun fræðiorða á sviðum sem kennd eru í fleiri en einum skóla og notuð eru við rannsóknir og birtingu rannsóknarniðurstaðna. Á þann hátt verður best unnið að því að festa í sessi íslenskan fræðiorðaforða.

Aðgerðir
Til þess að þessi markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Háskólar, rannsóknastofnanir og fræðafélög á Íslandi verði hvött til að hafa forystu um vandað íslenskt mál á fræðasviðum sínum.
          Háskólar á Íslandi hvetji kennara og nemendur til að birta fræðilegt efni á íslensku og sjái til þess að það verði ekki lægra metið en skrif á erlendum málum.
          Hvetja þarf útgefendur fræðilegra tímarita á íslensku til að koma ritum sínum inn á lista ISI.
          Taka þarf upp markvissa kennslu í íðorðasmíð og málfarsráðgjöf fyrir orðanefndir deilda eða faghópa. Háskólakennarar og aðrir sem þekkingu hafa á ákveðnum sviðum verði hvattir til að vinna við íðorðasmíð og efla þarf viðurkenningu á íðorðastarfi í háskólum og fræðasamfélaginu almennt. (Sjá einnig Þýðingar og túlkun.)
          Nemendur verði hvattir til að skrifa lokaritgerðir (meistara- og doktorsritgerðir) á íslensku. Þeir fái hjálp til að koma rannsóknarniðurstöðum á framfæri í alþjóðlegum tímaritum og þeim bjóðist fagleg aðstoð við að þýða efnið á erlent mál.
          Ef doktorsritgerð er birt á erlendu máli ætti að gera þá kröfu til doktorsefnis að það birti vandaðan útdrátt, lengri en nú tíðkast, úr ritgerðinni á íslensku og birti greinar í ritrýndu íslensku tímariti um efni ritgerðarinnar og rannsóknarniðurstöður.
          Hvetja á fræðimenn hvarvetna í þjóðfélaginu til að kynna fræði sín fyrir almenningi í fyrirlestrum og greinum með því að meta slíkar kynningar til eininga í matskerfi skólanna.
          Brýna verður útgefendur fræðirita og fræðibóka til að halda áfram að gefa út á íslensku og leita þarf leiða til að tryggja að fræðibækur geti komið út bæði á íslensku og erlendu máli.


ÍSLENSKA Í TÖLVUHEIMINUM


Ástand
Á undanförnum árum hefur tölvu- og upplýsingatæknin haldið innreið sína á æ fleiri svið og er nú orðin mikilvægur þáttur í daglegu lífi alls almennings í landinu. Því skiptir sífellt meira máli að þessi tækni sé á íslensku og geti unnið með íslenskt mál, bæði talað og ritað. Mikið skortir á að svo sé og Íslendingar standa þar langt að baki flestum grannþjóðum sínum. Enska er það mál sem blasir við flestum Íslendingum sem setjast við tölvu og hugbúnaður, sem vinnur með íslensku og aðstoðar íslenska málnotendur, er mjög fábreyttur.
    Stýrikerfi Macintosh-tölva var lengi vel þýtt á íslensku en flestallur annar algengur notendahugbúnaður var til skamms tíma eingöngu fáanlegur á ensku. Undanfarin ár hefur langútbreiddasta stýrikerfið ( Windows) og notendahugbúnaðurinn ( Office) þó verið til á íslensku en þrátt fyrir að íslensku þýðingarnar séu ókeypis fyrir eigendur kerfanna hafa þær ekki fengið þá útbreiðslu sem vænta mætti. Nær allt skólakerfið, frá grunnskólum til háskóla, notar Windows á ensku (Hulda Hreiðarsdóttir 2008) og sama máli virðist gegna um meginhluta almennra notenda. Þetta er gerólíkt því sem gerist í flestum grannlöndum okkar þar sem almennir tölvunotendur nota undantekningarlítið flestan hugbúnað á móðurmáli sínu. Þá eru langflestir tölvuleikir á ensku, svo og viðmót ýmissa tækja á borð við tónlistarspilara (til dæmis iPod) og símakerfi fyrirtækja og stofnana. Allflestar tegundir farsíma er þó nú orðið unnt að fá með íslensku viðmóti.
    Á árunum 2000–2004 stóð menntamálaráðuneytið fyrir átaki til að efla íslenska máltækni (tungutækni). Alls var varið 133 milljónum króna til átaksins sem skilaði margvíslegum árangri. Kennsla í máltækni og samstarf við erlenda háskóla á þessu sviði er hafið, mikilvæg gagnasöfn hafa verið byggð upp og ýmsum rannsóknar- og þróunarverkefnum hefur verið ýtt af stað. Mörg brýn verkefni bíða þó enn. Það er til dæmis ekki til neinn hugbúnaður til að leiðbeina um og lagfæra málfar og sáralítið hefur verið gert á sviði vélrænna þýðinga. Einn helsti vaxtarbroddurinn í máltækni erlendis er þróun ýmiss konar samskiptakerfa þar sem menn nota tungumálið til að sækja sér hvers kyns upplýsingar úr gagnasöfnum og þjónustuverum og hafa þar samskipti við tölvur á svipaðan hátt og við annað fólk. Ef íslenska á að verða nothæf í slíkum búnaði þarf mikil rannsóknar- og þróunarvinna að koma til.

Horfur
Það er ljóst að hlutverk tungumálsins innan tölvu- og upplýsingatækninnar fer sívaxandi. Stöðug þróun er til dæmis í vélrænum þýðingum, í margmála leit á Netinu og í gagnabönkum, í samskiptakerfum og þjónustuverum þar sem menn hafa samskipti við tölvur og í því að nota tungumálið (ritað eða talað) við stjórn ýmiss konar tölvustýrðs búnaðar. Engin ástæða er til annars en ætla að Íslendingar taki alla þessa tækni í þjónustu sína jafnóðum og hún kemur á markað. En tungumál tækninnar er enska og svo verður áfram nema eitthvað sé að gert – einnig á Íslandi.
    Eftir að áðurnefndu átaki menntamálaráðuneytisins lauk fyrir fjórum árum hefur hins vegar dregið mjög úr uppbyggingu, þróun og nýsköpun á þessu sviði hér á landi. Það kostar jafnmikið að byggja upp málleg gagnasöfn og máltæknibúnað fyrir tungumál sem 300 þúsund manns tala og fyrir tungumál milljónaþjóða og því er ekki von að fyrirtæki sjái sér hag í því að leggja í mikinn kostnað við að þróa og aðlaga slíkan búnað fyrir íslensku. Að óbreyttu munum við því dragast hægt en örugglega aftur úr á þessu sviði og þar sem tölvutæknin sækir ört á í umhverfi okkar má búast við að enskan yfirtaki fleiri og fleiri þætti daglegs lífs. Þá getur verið skammt í að íslenskan verði eingöngu heimilismál sem unga kynslóðin sér ekki tilgang í að læra almennilega vegna þess að hún er ekki nothæf í nýrri tækni og öðru sem er nýtt og spennandi, á sviðum þar sem nýsköpun af ýmsu tagi á sér stað eða þar sem ný atvinnutækifæri bjóðast.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Að íslensk tunga verði nothæf – og notuð – á öllum þeim sviðum innan tölvu- og upplýsingatækninnar sem varða daglegt líf alls almennings.

Þetta merkir í fyrsta lagi að viðmót algengs hugbúnaðar (valmyndir, hjálpartextar o.s.frv.) þarf að vera íslenskt; í öðru lagi að til þarf að vera ýmiss konar hugbúnaður sem liðsinnir og leiðbeinir notendum við notkun íslensks máls (leiðréttingarforrit, þýðingarforrit, hjálparforrit fyrir fatlaða); og í þriðja lagi að unnt á að vera að nota íslensku sem samskiptamál við ýmiss konar tölvu- og tæknibúnað (upplýsingakerfi, þjónustuver, tölvustýrð tæki af ýmsu tagi).
    Það skiptir miklu máli að notendur venjist því frá byrjun að nota íslensku innan tölvu- og upplýsingatækni. Með því er annars vegar átt við að börn alist upp við að það sé eðlilegt að nota íslensku á þessu sviði og þess vegna er höfuðatriði að hugbúnaður í skólakerfinu sé á íslensku. Hins vegar er mikilvægt að þegar tækninýjungar koma fram líði sem stystur tími þangað til hægt er að nota íslensku innan þeirra. Að öðrum kosti er hætt við að málnotendur venjist á að nota ensku á fleiri og fleiri sviðum og umdæmi íslenskunnar minnki þannig smátt og smátt.

Aðgerðir
Til að framangreint markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Að allur almennur notendhugbúnaður í íslensku skólakerfi, frá leikskólum til háskóla, verði á íslensku innan þriggja ára.
          Að notendahugbúnaður í Stjórnarráði Íslands og öllum opinberum stofnunum verði á íslensku innan þriggja ára og hið opinbera gangi þar á undan með góðu fordæmi.
          Að gerð verði áætlun um stuðning við uppbyggingu og þróun íslenskrar máltækni næsta áratug.
          Að stöðugt verði unnið að uppbyggingu og eflingu mállegra gagnasafna sem eru forsenda fyrir þróun og smíði margs kyns máltæknibúnaðar.
          Að málleg gagnasöfn og hugbúnaður til að vinna með íslenskt mál verði gerð opin og frjáls eftir því sem kostur er (sbr. stefnu stjórnvalda um frjálsan og opinn hugbúnað; sjá vef forsætisráðuneytisins: www.forsaetisraduneyti.is).
          Að hugbúnaður til að lagfæra og leiðrétta íslenskt málfar verði gerður og kominn í notkun innan þriggja ára.
          Að nothæf þýðingarforrit milli íslensku og valinna erlendra mála, a.m.k. ensku, verði gerð innan fimm ára.
          Að íslenskur talgervill og talgreinir sem gerðir voru á vegum tungutækniátaks menntamálaráðuneytisins verði endurbættir og lagaðir að nýjustu tækni.
          Að unnið verði markvisst að þróun mállegra samskiptakerfa milli manns og tölvu fyrir íslensku.


ÍSLENSKA Í ATVINNULÍFINU


Ástand
Íslenskt atvinnulíf hefur á fáum árum orðið mun alþjóðlegra en áður var og þótt það gangi nú í gegnum tímabundnar þrengingar má telja víst að það verði áfram alþjóðlegt að einhverju marki. Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa starfsstöðvar utan Íslands með erlendu starfsfólki og jafnframt hefur erlendum starfsmönnum fyrirtækja hér á landi, bæði ófaglærðum og sérfræðingum, fjölgað mikið. Þá eiga erlendir fjárfestar hlut í íslenskum fyrirtækjum og sitja í stjórnum þeirra. Þess vegna hefur það færst í vöxt að önnur mál en íslenska, einkum enska, séu notuð sem samskiptamál í íslensku atvinnulífi á Íslandi.
    Á sumum sviðum, til að mynda í byggingariðnaði, notar hluti starfsmanna ekki íslensku við störf sín heldur önnur tungumál, stundum eitt tungumál sín á milli (til dæmis pólsku) en annað (oftast ensku) í samskiptum við íslenska yfirmenn sína. Í verslun og þjónustu hefur erlendum starfsmönnum fjölgað mjög á undanförnum árum og æði oft þurfa þeir að sinna störfum sínum og samskiptum við íslenska viðskiptavini á ensku þar sem íslenskukunnátta þeirra er ónóg. Þar sem erlendir sérfræðingar hafa verið ráðnir til starfa er vinnumálið sums staðar enska, til dæmis á fundum og í bréfa- eða tölvupóstsamskiptum, enda þótt meirihluti starfsmanna sé Íslendingar. Könnun á samskiptamáli í fimmtíu stærstu fyrirtækjunum á Íslandi sýndi að þótt íslenska væri enn aðalsamskiptamálið í flestum þeirra, í tölvupósti, á fundum og í fundargerðum, er oft gripið til ensku ef einn útlendingur er í hópnum og málnotkun getur því verið misjöfn eftir deildum í fyrirtækjunum (Þorlákur Karlsson og Dagný Jónsdóttir 2008). Æ fleiri íslensk fyrirtæki halda aðalfundi sína á ensku enda þótt fundirnir séu oftast haldnir á Íslandi og allur þorri fundarmanna sé íslenskur. Ársskýrslur margra íslenskra fyrirtækja og ýmis gögn um rekstur þeirra, þar á meðal vefir sumra fyrirtækjanna, eru einnig einvörðungu á ensku enda þótt fyrirtækin séu í meirihlutaeigu Íslendinga.
    Því var meira að segja spáð fyrir fáum misserum að nauðsynlegt gæti reynst fyrir íslensk fjármálafyrirtæki að taka upp ensku sem vinnumál til þess að auðvelda ráðningu erlendra sérfræðinga þar sem að því gæti komið að íslenskur vinnumarkaður annaði ekki eftirspurn íslensku fjármálafyrirtækjanna eftir vinnuafli. Þá hefur þeirri hugmynd verið hreyft að Íslendingar ættu að huga að því að taka upp tvímála stjórnsýslu, á íslensku og ensku, til þess að laða að erlenda fjárfesta og auðvelda samskipti við umheiminn. Tímabundnar þrengingar í efnahagslífi undanfarið hafa vitanlega dregið úr þörf fyrir erlent vinnuafl hér á landi en líklegt er að sú þörf aukist aftur um leið og úr rætist í efnahagslífinu.
    Nöfn margra íslenskra fyrirtækja hafa á sér erlendan blæ. Sum nöfnin eru alfarið á erlendu máli (til dæmis Actavis, Alfesca, Exista, Icelandair eða Milestone) en önnur eru blendingur úr íslenskum og erlendum orðum (til dæmis Atorka Group, Bakkavör Group, Baugur Group, Eyrir Invest, Stoðir Invest eða Styrkur Invest). Þessi erlendu nöfn falla illa að íslensku málkerfi og tilhneigingar gætir til að beygja ekki íslensku orðin í blendingsnöfnunum; er þá til dæmis talað um aðalfund Bakkavör Group í stað aðalfund Bakkavarar Group eða forstjóra Baugur Group í stað forstjóra Baugs Group. Hinn íslenski hluti nafnsins tekur því að haga sér eins og erlent orð.

Horfur
Enda þótt nú séu alvarlegir erfiðleikar í íslensku og alþjóðlegu efnahagslífi verður að teljast líklegt að íslenskur vinnumarkaður verði áfram fjölþjóðlegur að einhverju marki og alþjóðleg starfsemi verði í framtíðinni mikilvægur hluti af íslensku atvinnulífi. Jafnframt má búast við að notkun ensku (eða annarra mála) muni heldur aukast en hitt. Við slíkar aðstæður er brýnt að hyggja að stöðu íslenskrar tungu í atvinnulífinu á Íslandi. Með aukinni notkun ensku (eða annarra mála) vofir yfir sú hætta að íslenska hörfi og hverfi jafnvel alveg af ákveðnum sviðum viðskiptalífsins. Slíkur umdæmismissir yrði óbætanlegur. Staða íslenskrar tungu myndi veikjast þar sem hún yrði ekki lengur gjaldgeng á öllum sviðum íslensks samfélags og Íslendingar gætu ekki lengur treyst því að geta starfað og átt viðskipti á móðurmáli sínu í eigin landi; lífsgæði Íslendinga myndu því skerðast. Enn fremur myndi vöxtur íslensks sérfræðiorðaforða á glötuðum sviðum stöðvast og íslensk málvenja og sá sérfræðiorðaforði sem nú er til gæti glatast. Þess vegna gæti reynst afar erfitt að endurvinna glötuð svið.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Að íslenska verði áfram aðalsamskiptamálið í atvinnulífi á Íslandi.

Þetta markmið felur það í sér að tryggt skuli að hér á landi geti fólk áfram unnið sín störf á íslensku og viðskiptavinir geti áfram átt samskipti við fyrirtæki á Íslandi á íslensku. Enn fremur að ársskýrslur og önnur gögn um íslensk fyrirtæki verði áfram á íslensku (þótt nauðsynlegt kunni að reynast að hafa þau einnig aðgengileg á ensku eða einhverju öðru máli) og meginreglan verði áfram sú að fyrirtæki á Íslandi heiti íslenskum heitum sem samræmast íslenskri málvenju. Markmiðið er ekki að útrýma ensku eða öðrum tungumálum úr atvinnulífi á Íslandi, enda er notkun ensku eða annarra tungumála óhjákvæmileg í alþjóðlegum samskiptum, heldur er markmiðið að tryggja farsæla sambúð íslensku og ensku í umhverfi þar sem íslenska er aðalsamskiptamálið.

Aðgerðir
Til þess að þetta markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Að reglulega fari fram jákvæð umræða í samfélaginu og fyrirtækjunum um ávinninginn af því að íslenska sé aðalsamskiptamálið í atvinnulífi á Íslandi og þau lífsgæði fyrir Íslendinga sem í því felast.

Í þessu efni hvílir ábyrgðin hjá þjóðinni sjálfri. Vilja Íslendingar geta keypt vörur og þjónustu á íslensku hér á landi? Vilja Íslendingar geta unnið störf sín á íslensku á Íslandi? Í þessu efni munu lög og reglur koma að litlu gagni ef þjóðin sjálf tekur ekki einarða afstöðu með íslenskri tungu.

          Að íslensk fyrirtæki verði hvött og eftir föngum studd til að móta sér skýra málstefnu sem hafi það að markmiði að tryggja stöðu íslenskrar tungu í atvinnulífinu.

Háskólarnir, sem mennta stjórnendur framtíðarinnar, gegna hér veigamiklu hlutverki. Mótun stefnu um málnotkun ætti að vera sjálfsagður hluti af allri stefnumótun hjá íslenskum fyrirtækjum. Eins og áður sagði getur það ekki verið markmið að útrýma notkun erlendra tungumála í alþjóðlegu atvinnuumhverfi; þar er óhjákvæmilegt að nota þurfi erlend tungumál að einhverju marki. En erlend tungumál mega þó ekki koma í stað íslensku heldur verður íslensk tunga að halda sínum sess við hlið annarra tungumála. Stuðning við mótun slíkrar málstefnu geta fyrirtækin sótt til sérfræðinga í máli og málnotkun, til að mynda málræktarsviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

          Að íslensk fyrirtæki verði hvött og eftir föngum studd til þess að bjóða erlendum starfsmönnum sínum starfsmiðaða íslenskukennslu í vinnutíma.

Hvatning og tækifæri til að læra íslensku eru lykilatriði hér. Erlendir starfsmenn íslenskra fyrirtækja þurfa að fá hvatningu til að læra íslensku. Stundum heyrist það viðhorf að á Íslandi sé hægur vandi að búa og starfa án þess að læra íslensku, enda séu Íslendingar upp til hópa mjög góðir í ensku (og ef til vill öðrum erlendum tungumálum). Ekkert verður hér fullyrt um enskukunnáttu Íslendinga en á það bent að Íslendingar eru allajafna bestir í íslensku. Íslenska er því óumdeilanlega afar mikilvægur þáttur í því að geta lifað sem bestu lífi í íslensku samfélagi og rækt störf sín þar af alúð. Afar mikilvægt er að hvatning til að læra íslensku komi frá vinnuveitendum og samstarfsmönnum. Hvatningu þurfa að fylgja tækifæri. Vinnuveitendur þurfa að gefa erlendum starfsmönnum sínum kost á starfsmiðaðri kennslu í íslensku í vinnutíma. Sú kennsla ætti að vera sjálfsagður hluti af allri starfsþjálfun. Eðlilegt er að menntamálayfirvöld hafi gæðaeftirlit með kennslu í íslensku fyrir útlendinga og sjái til þess að völ sé á vandaðri kennslu (sjá Íslenska sem annað mál).

          Að skipulega verði unnið að íðorðasmíð og orðasöfn gerð aðgengileg á bók eða með rafrænum hætti.

Íslenskur orðaforði er forsenda þess að hægt sé að tala og rita um sérhæfð efni á íslensku. Mikilvægt íðorðastarf hefur nú þegar verið unnið og brýnt er að því verði haldið áfram af krafti þannig að sérfræðimál haldi áfram að þróast á íslensku. Hvetja þarf fagfélög til að vinna skipulega að íðorðasmíð og koma orðasmíð sinni á framfæri með þeim hætti að orðaforðinn hljóti sem mesta útbreiðslu. Góður kostur gæti verið að nota Orðabanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum en hann er öllum opinn án endurgjalds á www.arnastofnun.is (sjá einnig Þýðingar og túlkun).

          Að íslensk fyrirtæki verði hvött til að styrkja ímynd sína með vandaðri íslenskunotkun.

Íslensk stórfyrirtæki ættu að hafa á sínum snærum sérfræðinga í íslensku máli og málnotkun sem haldið gætu námskeið innan fyrirtækjanna, veitt ráðgjöf og lesið yfir. Vönduð málnotkun ætti að vera sjálfsagður hluti af skynsamlegri ímyndarsköpun fyrirtækjanna.


ÍSLENSKA Í FJÖLMIÐLUM


Ástand
Notkun fjölmiðla hefur aukist jafnt og þétt undanfarna áratugi. Framboðið er mikið og margvíslegt: nokkur dagblöð, margar sjónvarpsrásir og enn fleiri útvarpsrásir. Fjölmiðlun á íslensku er því í sókn meðan íslenskan á undir högg að sækja á ýmsum öðrum sviðum. Umræða um stöðu íslenskrar tungu í fjölmiðlum, öðrum en sjónvarpi, snýst því aðallega um form hennar. Í sjónvarpi er hlutfall efnis á íslensku einnig viðfangsefni.
    Segja má að fjölmiðlar endurspegli stöðu tungunnar frá degi til dags um leið og þeir gegna talsverðu hlutverki í þróun tungumálsins. Þess vegna er mikilvægt að hlúa vel að íslensku máli í fjölmiðlum. Íslenskur fjölmiðlaheimur hefur breyst mikið undanfarna áratugi og óstöðugleiki hefur verið nokkur, nýir miðlar eru stofnaðir og aðrir lagðir niður. Þetta ástand er ekki til þess fallið að skapa festu, ekki heldur á því sviði sem snýr að meðferð íslensks máls.
    Þegar þetta er skrifað eru gefin út tvö dagblöð á Íslandi í stóru upplagi og tvö minni. Sjónvarpsstöðvar munu vera átta talsins og útvarpsstöðvar á þriðja tug. Fimm netmiðlar flytja fréttir daglega. Þá eru ótalin tímarit, héraðsfréttablöð og netmiðlar (Björn Gíslason o.fl. 2008). Tilkoma netmiðla hefur einnig gerbreytt fjölmiðlun. Í stað þess að fjölmiðlanotkun sé bundin við blaðalestur og fréttir útvarps og sjónvarps á ákveðnum tímum fer notkun þeirra fram jafnt og þétt allan daginn, í það minnsta hjá stórum hópi fólks. Í samræmi við aukna fjölmiðlun hefur því fólki fjölgað sem við fjölmiðlana starfar. Hópurinn er því afar margbreytilegur með tilliti til menntunar og fyrri starfsreynslu.
    Margir telja að með auknum hraða og samkeppni um að vera fyrstur með fréttirnar hafi málfari hrakað í fjölmiðlum. Þessi skoðun getur þó einnig helgast af því að nú birtast fleiri málsnið í fjölmiðlum en áður. Rödd almennings heyrist mun meira en áður bæði í útvarpi og sjónvarpi og með auknu umfangi dagblaðaútgáfu er þar einnig að finna mun fjölbreytilegri texta en áður. Hitt er ljóst að dregið hefur úr málfarsráðgjöf ljósvakamiðla frá því að bæði Stöð 2 og Ríkisútvarpið höfðu málfarsráðunaut í fullu starfi á sínum snærum. Nú er enginn málfarsráðgjafi á Stöð 2 en ráðgjafi í hálfu starfi á Ríkisútvarpinu. Prófarkalesarar starfa við öll dagblöðin en þeim hefur fækkað. Skjátextar eru prófarkalesnir í Ríkissjónvarpinu og á Stöð 2 en ekki á öðrum sjónvarpsstöðvum.
    Meirihluti prófarkalesara á fjölmiðlum hefur einhverja háskólamenntun í íslensku (Björn Gíslason o.fl. 2008). Menntun blaða- og fréttamanna er margvísleg en í fæstum tilvikum hafa þeir menntun í íslensku umfram framhaldsskólanám. Á flestum miðlum gangast umsækjendur um störf blaða- og fréttamanna undir próf þar sem meðal annars er könnuð færni í íslensku. Formleg fræðsla um íslensku fer ekki fram á fjölmiðlunum. Hins vegar halda prófarkalesarar víða fundi með fréttamönnum, ýmist reglulega eða óreglulega, og/eða senda út málfarspistla eða ábendingar í tölvupósti um það sem betur má fara.
    Metnaður fyrir íslensku máli virðist ríkja hjá blaðamannastéttinni. Þannig var aðsókn afar góð að málþingi um stöðu íslenskunnar í fjölmiðlum sem Íslensk málnefnd efndi til í samstarfi við Blaðamannafélag Íslands. Öll erindi málþingsins voru birt í Blaðamanninum, félagstíðindum Blaðamannafélags Íslands. Í Blaðamanninum birtist einnig reglulega málfarshorn með ábendingum um málfar.
    Þrátt fyrir að útlendingum hafi fjölgað verulega á Íslandi undanfarin ár fer fjölmiðlun hér á landi nær eingöngu fram á íslensku og sárafáir fjölmiðlamenn eiga sér annað móðurmál en íslensku. Einn vefmiðill birtir sumar fréttir sínar á pólsku og fáein tímarit eru gefin út á ensku.

Málstefna
Ríkisútvarpið er eini fjölmiðillinn sem markað hefur sér skriflega málstefnu (samþykkt á fundi Útvarpsráðs 13. september 1985; sjá Ársskýrslu Ríkisútvarpsins 1985:100–101). Þó að málstefnan hafi verið samþykkt tæpum tveimur árum eftir að farið var að útvarpa á Rás 2 ber hún þess glöggt vitni að miðast fyrst og fremst við útvarp þar sem lesinn er upp undirbúinn texti. Engu að síður hefur málstefna Ríkisútvarpsins staðist vel tímans tönn og henni er fylgt, í það minnsta þegar um er að ræða flutning á undirbúnum texta, bæði í útvarpi og sjónvarpi. Sérstaklega er litið eftir málfari á fréttum og kappkostað að það sé skýrt og vandað.


Málstefna Ríkisútvarpsins
Ríkisútvarpið skal samkvæmt lögum efla íslenska tungu og menningu. Útvarpsráð telur að stofnunin hafi mikilvægu fræðslu- og uppeldishlutverki að gegna á þessu sviði.
    Allt málfar í Ríkisútvarpinu á að vera til fyrirmyndar, og allt sem frá stofnuninni kemur, á vandaðri íslensku, flutt með góðum framburði.
    Erlend orð sem ekki verður komist hjá að nota, ber að samræma lögum íslenskrar tungu, eftir því sem fært þykir og góð venja býður.

Um einstök atriði
     1.     Vandað mál er markvisst og felst í góðu orðavali, réttum beygingum, eðlilegri orðskipan, skýrri hljóðmótun, réttum áherslum og eðlilegu hljómfalli samfellds máls. Starfsmenn Ríkisútvarpsins eiga að leggjast á eitt til að málfar í útvarpi og sjónvarpi sé til fyrirmyndar.
     2.     Þeir sem vinna að dagskrárgerð, skulu jafnan gæta þess að málfar sé vandað og svo auðugt sem skynsamlegt er eftir aðstæðum. Þeir bera ábyrgð á að texti sá sem flytjandi fær í hendur, sé réttur og fullnægi þessum skilyrðum.
     3.     Flytjendum dagskrárefnis ber að vanda framburð sinn og flutning á alla lund. Þeir eiga að gæta þess eftir mætti að málfar textans fullnægi ofangreindum skilyrðum. Málvillur eiga þeir að leiðrétta en mega ekki breyta málfari að öðru leyti án samráðs við ábyrgðarmann textans. Verkstjóra ber að sjá um að hlutaðeigandi starfsmaður dagskrár fái hið fyrsta upplýsingar um vangá sem hann hefur gert sig sekan um í þessu efni.
     4.     Aðsent efni á að fullnægja eðlilegum kröfum um málfar.
     5.     Auglýsingar skulu vera á gallalausri íslensku og fluttar með góðum framburði. Ef sérstök ástæða er til, getur útvarpsstjóri þó leyft að sungið sé eða talað á erlendu máli í auglýsingu.
     6.     Ríkisútvarpinu ber stöðugt að gefa starfsmönnum sínum kost á að auðga íslenskukunnáttu sína og bæta málfar sitt og framsögn, bæði á námskeiðum og með einstaklingsfræðslu. Starfsmönnum er skylt að nýta sér slíka fræðslu ef málfarsráðunautur telur það nauðsynlegt. Málfarsráðunautur hefur umsjá með þessari starfsemi stofnunarinnar.
     7.     Málfarsráðunautur eða annar sérfróður maður á að vera starfsmönnum á fréttastofum, auglýsingastofum og öðrum slíkum vinnustöðum Ríkisútvarpsins til halds og trausts, meðal annars með það að lesa yfir handrit fyrir útsendingu eftir því sem unnt er.
     8.     Forðast skal útlent mál í efni sem samið er til flutnings í Ríkisútvarpinu, en þegar ekki verður hjá því komist, svo sem í fréttum, viðtölum við útlendinga og svo framvegis, ber jafnan að flytja eða sýna íslenska þýðingu samtímis nema bein ástæða sé til annars.
     9.     Sjónvarpsefni sem ætlað er börnum og unglingum sérstaklega, skal flutt á íslensku eftir því sem kostur er.
     10.     Sérnöfn úr erlendum málum ber að fara með í samræmi við góða íslenska málhefð. Ríki, lönd, borgir, héruð, höf, fljót, fjöll og annað slíkt ber að nefna hefðbundnum íslenskum heitum, ef þau eru til, svo sem Hjaltland (ekki Shetland), Kaupmannahöfn eða Höfn (ekki Köbenhavn Köben), Björgvin (ekki Bergen), Saxelfur (ekki Elbe Elba). Sé þessa ekki kostur ber að nota eftir því sem unnt er þau heiti sem íbúar viðkomandi landa tíðka sjálfir, svo sem Nuuk (ekki Godthåb), München (ekki Munich), Nice (ekki Nizza), Westfalen (ekki Westphalia).


     9.     Sjónvarpsefni sem ætlað er börnum og unglingum sérstaklega, skal flutt á íslensku eftir því sem kostur er.
     10.     Sérnöfn úr erlendum málum ber að fara með í samræmi við góða íslenska málhefð. Ríki, lönd, borgir, héruð, höf, fljót, fjöll og annað slíkt ber að nefna hefðbundnum íslenskum heitum, ef þau eru til, svo sem Hjaltland (ekki Shetland), Kaupmannahöfn eða Höfn (ekki Köbenhavn Köben), Björgvin (ekki Bergen), Saxelfur (ekki Elbe Elba). Sé þessa ekki kostur ber að nota eftir því sem unnt er þau heiti sem íbúar viðkomandi landa tíðka sjálfir, svo sem Nuuk (ekki Godthåb), München (ekki Munich), Nice (ekki Nizza), Westfalen (ekki Westphalia).
     11.     Heiti á útlendum mönnum skal fara með að hætti viðkomandi þjóðar eftir því sem unnt er, nema íslensk hefð sé fyrir öðru, eins og er um mörg heiti erlendra þjóðhöfðingja sem erfa ríki, og heiti páfa. Heiti stofnana, hljómsveita, listaverka og þess háttar er rétt að íslenska þegar fært þykir, og gæta þá samræmis eftir því sem unnt er.
Dagblöð
Efni dagblaða er nú mun fjölbreyttara en áður tíðkaðist. Auk hefðbundinna frétta og fréttaskýringa er í dagblöðum að finna mismikið af svokölluðum dægurmálafréttum og annars konar umfjöllun. Einnig eru í flestum dagblöðum svokallaðir smáletursdálkar þar sem greint er frá orðrómi eða slúðri. Loks er að geta aðsendra greina og persónulegra pistla blaðamanna og annarra höfunda. Málsnið þessara efnisþátta er allólíkt, hefðbundnast er það í daglegum fréttum og mestu frávikin er að finna í persónulegum pistlum.
    Þorri blaðamanna á íslenskum dagblöðum hefur ágætt vald á tungunni og leggur sig fram um að skrifa vandaðan og góðan texta. Hitt er þó einnig til að blaðamenn hafi íslensku ekki sem best á valdi sínu. Því skiptir sköpum að prófarkalestur sé nákvæmur.
    Prófarkalesurum dagblaða hefur fækkað þannig að fullvíst má telja að prófarkalestur dagblaða sé ekki jafnmikill og áður tíðkaðist. Þó starfa prófarkalesarar við öll dagblöðin. Ekki er vitað um umfang prófarkalestrar á héraðsfréttablöðum.

Sjónvarp
Samkvæmt samkomulagi milli menntamálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins um útvarpsþjónustu í almannaþágu, sem gert var árið 2007, á hlutfall íslensks sjónvarpsefnis milli klukkan sjö og ellefu á kvöldin að vera 65% árið 2012. Þetta hlutfall var 44% árið 2005 (http://www. menntamalaraduneyti.is/frettir/Frettatilkynningar/nr./4004). Samkomulagið sýnir að yfirvöld menntamála í landinu hafa metnað til þess að auka verulega hlut íslensks sjónvarpsefnis í Ríkissjónvarpinu. Ljóst er að það yrði íslensku máli til framdráttar ef þetta samkomulag verður haldið.
    Vinnuhópur um stöðu tungunnar í fjölmiðlum og listum kannaði hlutfall íslensks dagskrárefnis í dagskrá þriggja stærstu sjónvarpsstöðvanna eina viku í október 2007 frá klukkan fimm síðdegis fram til miðnættis. Í ljós kom að 46% efnis voru íslensk í Ríkissjónvarpinu, þar af 41% frumsýnt. Rúmur fjórðungur efnis á Stöð 2 reyndist íslenskur, 22% sé einungis frumsýnt efni talið. Á Skjá einum var um fimmtungur efnis íslenskur en 6% ef eingöngu frumsýnt efni er talið (Björn Gíslason o.fl. 2008).
    Íslenskt dagskrárefni mun vera dýrara í innkaupum en erlent og hefur þetta verið helsta röksemd forráðamanna sjónvarpsstöðva fyrir háu hlutfalli erlends sjónvarpsefnis á dagskránni. Hins vegar ríkir nú ákveðin gróska í íslenskri sjónvarpsþáttagerð því að veturinn 2007–2008 var slegið met í frumsýningum íslenskra sjónvarpsþáttaraða og margt bendir til að veturinn 2008–2009 verði síst minna sýnt af íslensku sjónvarpsefni.
    Þessi gróska hefur þó ekki náð til barnaefnis og stærstur hluti barnaefnis sem sýnt er á íslensku sjónvarpsstöðvunum er erlendur. Þannig er barnaþátturinn Stundin okkar eina barnaefnið í sjónvarpi sem er alíslenskt. Talsverður hluti erlends barnaefnis er þó talsettur og er það mikil framför miðað við það sem áður tíðkaðist. Á Stöð 2 voru 60–70% barnaefnis talsett haustið 2007 og hefur hlutfallið farið hækkandi. Auk þess sýnir Stöð 2 nokkuð af talsettum bíómyndum. Hjá Ríkissjónvarpinu er efni ætlað ungum börnum talsett og barnaefni einvörðungu sýnt textað sé það ætlað stálpuðum börnum og unglingum (Björn Gíslason o.fl. 2008).
    Sjónvarpsþýðendur gegna miklu hlutverki þar sem hlutfall erlends dagskrárefnis er svo hátt sem raun ber vitni. Þýðendur sjónvarpsefnis eru þó ekki í föstu starfi hjá stöðvunum heldur eru þeir verktakar.
    Undanfarin átta ár hefur textun sjónvarpsefnis fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta verið aukin í Ríkissjónvarpinu. Þeir sem það vilja geta þá sótt sér texta á sérstakri síðu í textavarpi. Því fer þó fjarri að allt efni á íslensku sé textað með þessum hætti. Þjónusta við heyrnarlausa og heyrnarskerta er enn lakari þegar kemur að beinum útsendingum á íslensku. Þó ber stöku sinnum við að slíkt efni sé túlkað jafnharðan á táknmál.


„Eigum við að ræða þetta eitthvað?“
Þáttaraðirnar Næturvaktin og Dagvaktin hafa notið mikilla vinsælda meðal þjóðarinnar. Orðatiltæki persóna í þáttunum hafa verið á allra vörum og sýna glögglega áhrif sjónvarpsefnis á málnotkun áhorfenda. Íslenskt sjónvarpsefni styrkir íslenska tungu.
Útvarp
Mikið vatn er runnið til sjávar á þeim tæpu 30 árum sem liðin eru frá því að einungis var ein útvarpsstöð á Íslandi þar sem drýgstur hluti talaðs máls var lesinn af blaði. Nú eru útvarpsstöðvar margar og flytja að mestu frjálslega spjallþætti ásamt tónlist.
    Skipta má útvarpsrásum í tvennt með tilliti til meðferðar íslenskunnar. Annars vegar Rás 1 Ríkisútvarpsins og hins vegar aðrar útvarpsrásir. Dagskrá Rásar 1 byggist á unnum þáttum sem langflestir eru teknir upp fyrir fram. Í þeim þáttum eru samtöl að vísu fyrirferðarmikil. Einnig eru á dagskránni samdir textar, sögur, leikrit og jafnvel ljóð. Á Rás 1 er málfar í þáttum fremur formlegt og reynt að forðast erlendar slettur. Á öðrum útvarpsrásum, þar sem talmál er notað á annað borð, byggist dagskrá á beinum útsendingum. Þar af leiðandi er málfar þar óformlegra og líkara daglegu tali fólks.

Netmiðlar
Hvergi er hraðinn í fréttavinnslu meiri en á netmiðlunum enda samkeppnin um að verða fyrstur með fréttirnar enn meiri þar en á öðrum fjölmiðlum. Þetta leiðir til þess að framsetning frétta á netmiðlum er stundum óvönduð þótt vissulega tíðkist að leiðrétta þar villur eftir á.
    Netmiðlar birta ekki bara ritaðan texta. Þar er einnig að finna sjónvarpsefni. Netið hefur þannig lengt líf ýmissa sjónvarpsþátta sem áður voru aðeins sýndir einu sinni og voru ekki aðgengilegir eftir það. Ólíklegt verður að teljast að netmiðlar eigi eftir að útrýma öðrum fjölmiðlum. Hins vegar er ljóst að á Netinu verður, ef að líkum lætur, að finna mesta vöxtinn á fjölmiðlasviðinu næstu árin.
    Bloggsíður einstaklinga á Netinu eru einnig mikið lesnar. Þó að bloggsvæði tengist netmiðlum og að í prentmiðlum birtist reglulega glefsur úr bloggi er ekki hægt að skilgreina blogg sem fjölmiðla. Því er ekki fjallað sérstaklega um blogg hér.

Auglýsingar
Auglýsingar skipa mikinn sess í fjölmiðlum. Ábyrgð auglýsenda er því talsverð þegar kemur að tungumálinu. Notkun málsins í auglýsingum er afar misjöfn. Vinnuhópur um stöðu íslenskunnar í fjölmiðlum og listum sendi spurningalista til nokkurra stærstu auglýsingastofa landsins þar sem meðal annars var spurt um málstefnu. Ekki bárust svör nema frá einni þeirra og bera þau dræmu viðbrögð væntanlega áhugaleysi þessa geira vitni. Í eina svarinu, sem barst, kom þó fram að þar á bæ væri unnið að gerð vinnureglna um meðferð íslensks máls og erlendra mála (Björn Gíslason o.fl. 2008).
    Allmargar auglýsingar verða til hjá auglýsendum sjálfum og fara þaðan beint til fjölmiðlanna. Stærri auglýsendur skipta þó flestir við auglýsingastofur og greinilegt er að meðferð íslenskunnar er að jafnaði talsvert betri þegar fagmenn á sviði auglýsingagerðar hafa verið að verki en í fyrrnefndu tilvikunum.
    Fjölmiðlarnir gera þær kröfur að í auglýsingum sé farið að lögum. Sumir þeirra setja einnig skilyrði um að þær misbjóði ekki siðferðiskennd almennings. Einnig eru gerðar við það athugasemdir ef villur finnast í auglýsingum eða óvandaður frágangur, meðal annars með tilliti til málfars. Tímaþröng kemur þó oft í veg fyrir að hægt sé að bregðast við. Ekki er gerð krafa um að auglýsingar séu á íslensku máli og verða auglýsingar, sem eingöngu eru birtar á erlendum tungumálum, æ algengari. Þetta á þó fyrst og fremst við um auglýsingar um aðalfundi í fyrirtækjum sem starfa að hluta erlendis og sumar atvinnuauglýsingar.
    Fyrir fáeinum misserum óskaði Íslensk málnefnd eftir að fá að taka þátt í að veita árleg verðlaun fyrir auglýsingar. Málnefndin hugðist veita verðlaun fyrir gott málfar í auglýsingum. Umleitaninni var hins vegar hafnað af samtökum auglýsenda.

Umræðuvettvangur fyrir íslenskt mál
Fjölmiðlar hafa gegnt því hlutverki að vera umræðuvettvangur um íslenskt mál. Í Morgunblaðinu hafa málfarspistlar birst reglulega í áratugi og í Fréttablaðinu var um skeið vikulegur pistill um íslenskt mál.
    Þá er ótalinn hlutur Ríkisútvarpsins. Orðfræðisvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Orðabók Háskólans) átti í samstarfi við Ríkisútvarpið á árum áður um þáttinn Íslenskt mál en nú hin síðari ár í þættinum Vítt og breitt á Rás 1. Þar halda starfsmenn orðfræðisviðs uppi samræðum við hlustendur um íslenskt mál. Á árum áður var einnig reglulega á dagskrá Ríkisútvarpsins þátturinn Daglegt mál, stuttur útvarpsþáttur þar sem fjallað var um málfar. Þessi þáttur er ekki lengur á dagskrá og enginn þáttur hefur leyst hann af hólmi.
    Rétt er að lokum að nefna krossgátur sem birtast reglulega í dagblöðum og tímaritum. Þær eru til þess fallnar að auka leikni þeirra sem þær ráða í meðferð málsins. Einnig má nefna vísnaþætti sem haldið er úti bæði í dagblöðum og útvarpi.


Orð skulu standa
Útvarpsþátturinn Orð skulu standa er gott dæmi um fjölmiðlaefni sem hvetur til skapandi hugsunar um íslenskt mál. Þar keppa tvö lið um að finna rétta merkingu sjaldgæfra orða og orðatiltækja auk þess sem þátttakendur spreyta sig á að botna vísur. Orð skulu standa og sunnudagskrossgáta Morgunblaðsins hlutu viðurkenningu Íslenskrar málnefndar á degi íslenskrar tungu 2007.
Horfur
Ábyrgð fjölmiðla gagnvart íslensku máli og þróun þess er augljós. Annars vegar snýr ábyrgðin að því að halda áfram að nota íslensku í fjölmiðlum og hins vegar að því að notuð sé góð íslenska í fjölmiðlunum. Hafa ber í huga að margs konar málsnið er notað í fjölmiðlum, formlegt og óformlegt, og um leið minna á að hægt er að vanda til framsetningar bæði á formlegu og óformlegu máli.
    Ljóst er einnig að þrátt fyrir að fjölmiðlar liggi undir talsverðu ámæli vegna meðferðar málsins þá virðast forráðamenn þeirra hafa viljann til að vanda málfar (Björn Gíslason o.fl. 2008). Horft er í kostnað á þessu sviði sem öðrum. Þess vegna hefur dregið úr prófarkalestri og öðrum yfirlestri á fjölmiðlum. Þarna vantar því nokkuð á að viljinn birtist í verki. Rétt er að geta hér sérstöðu Ríkisútvarpsins og -sjónvarps sem enn eru einu fjölmiðlarnir sem samþykkt hafa skráða málstefnu. Sérstaða þeirra felst einnig í því að vegna þess að íslenska ríkið á Ríkisútvarpið og rekur getur menntamálaráðuneytið með beinum hætti knúið á um aukið hlutfall íslensku og bætta málnotkun í miðlum þess.
    Best væri að ekki réðist fólk til starfa á fjölmiðlum nema það hefði íslensku sérlega vel á valdi sínu. Þar sem tungumálið er eitt aðalatvinnutæki fjölmiðlamannsins ætti þetta ekki að vera fjarri lagi. Við þær aðstæður væri hlutverk prófarka- og yfirlesara allnokkuð annað en það er nú. Þangað til þessu takmarki er náð skiptir miklu máli að frekar verði aukið við en dregið úr prófarka- og yfirlestri á fjölmiðlum.
    Æskilegt væri að fjölmiðlamenn legðu meiri rækt við tunguna en verið hefur, til dæmis með því að sækja endurmenntunarnámskeið á þessu sviði. Enska á sífellt sterkari ítök í málvitund fólks. Þess sér stað í fjölmiðlum eins og annars staðar. Hér er ekki fyrst og fremst átt við hinar augljósu slettur og tökuorð heldur fremur ensk áhrif á setningaskipan og orðaröð og önnur áhrif á kerfi málsins sem blasa ekki endilega alveg við en eru þó fyrir hendi. Það er ekki síst vegna þessara áhrifa sem svo miklu skiptir að fjölmiðlamenn hafi ekki bara tungumálið sjálft vel á valdi sínu heldur þekki einnig uppbyggingu þess og hafi helstu málfræðihugtök á takteinum. Þannig verða þeir færir um að skilja og taka þátt í umræðu um íslenskt mál. Benda má á að í námi í fjölmiðlafræði við íslenska háskóla eru engin skyldunámskeið í íslensku.
    Ef ekkert verður að gert gæti þróunin orðið sú að hlutfall fjölmiðlamanna, sem ekki hafa íslensku vel á valdi sínu, hækki á sama tíma og dregur úr yfirlestri. Þeir verði einnig stöðugt færri í fjölmiðlastétt sem eru færir um að skilja og taka þátt í umræðu um íslenskt mál. Með þverrandi vitund fjölmiðlafólks um málið og minnkandi málfarslegri ábyrgð fjölmiðla gæti málfari hrakað ört í fjölmiðlum og þeir þar með stuðlað að hnignun íslenskunnar en ekki uppbyggingu. Fjölmiðlar eru mikilvæg málfyrirmynd, ekki bara börnum og ungu fólki heldur einnig innflytjendum sem eru að ná tökum á málinu.
    Eftir nokkra lægð í gerð íslensks sjónvarpsefnis er nú talsverð gróska á því sviði. Vinsælar íslenskar sjónvarpsþáttaraðir eru íslensku máli til mikils framdráttar. Gerð slíkra þátta verður þannig fjárfesting til framtíðar. Mikilvægt er að íslenskum sjónvarpsáhorfendum standi til boða fjölbreytt sjónvarpsefni sem endurspeglar íslenskan veruleika og er á íslensku, bæði fræðsluefni og afþreying.
    Textun íslensks sjónvarpsefnis fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta ætti að vera sjálfsagður liður í útsendingu slíks efnis. Ríkissjónvarpið hefur undanfarin átta ár aukið við textun á sjónvarpsefni í gegnum textavarpið. Því fer þó fjarri að allt íslenskt efni sé textað. Benda má á að textun nýtist ekki bara heyrnarlausum og heyrnarskertum heldur einnig eldri borgurum og útlendingum sem eru að tileinka sér íslensku. Stöku sinnum er efni, sem sent er út í beinni útsendingu, túlkað á táknmál. Þarna mætti einnig gera betur.
    Umfjöllun um íslensku hefur dregist saman í íslenskum fjölmiðlum. Í því sambandi má benda á að í mörgum erlendum stórblöðum er daglegt málfarshorn þar sem haldið er uppi samræðum við lesendur um tungumálið. Enginn slíkur þáttur er fyrir hendi í íslensku dagblaði. Þátturinn Daglegt mál er ekki lengur á dagskrá Ríkisútvarpsins og enginn þáttur hefur leyst hann af hólmi. Jákvæð og fræðandi umræða um íslenskt mál er líkleg til að vera vinsælt fjölmiðlaefni. Þar er því sóknarfæri fyrir fjölmiðla og áhugamenn um viðgang tungunnar að koma á framfæri slíku efni sem væri í senn uppbyggilegt og áhugavert. Benda má á að Netið gæti verið skemmtilegur og frjór vettvangur til fræðslu og gagnvirkrar umræðu um íslenskt mál.
    Ástæða er til að fagna þeirri miklu grósku sem er á Netinu hér á landi. Fréttamiðlar og blogg er til þess fallið að stuðla að viðgangi tungunnar. Sömuleiðis er fagnaðarefni að dagblöð eru nú lesin meira en nokkru sinni fyrr.
    Þrátt fyrir að allt ritstjórnarefni íslenskra dagblaða sé á íslensku verður æ algengara að auglýsingar birtist á erlendum málum. Velta má fyrir sér hvort íslensk dagblöð ættu að setja sem skilyrði fyrir birtingu auglýsinga á erlendu máli að þær birtist samhliða á íslensku.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Fjölmiðlar og auglýsingastofur setji sér málstefnu.

Metnaður virðist standa til þess á fjölmiðlum að vanda til málfars. Skrifleg málstefna myndi gera þennan metnað sýnilegan auk þess sem gagnleg umræða myndi fara fram í tengslum við gerð málstefnunnar.

          Fjölmiðlar standi vörð um íslenskt mál og auki metnað varðandi meðferð hennar, meðal annars með því að gera kröfur um íslenskukunnáttu þeirra sem ráðnir eru til starfa sem blaða og fréttamenn.

Þótt þorri fjölmiðlamanna hafi íslenskt mál vel á valdi sínu og sumir séu framúrskarandi þá eru þeir of margir sem eiga langt í land með að vera færir um að koma frá sér texta, töluðum eða rituðum, á nægilega vandaðan hátt.

          Íslenskir fjölmiðlar haldi áfram að stuðla að umræðu og fræðslu um íslenskt mál og efli þennan þátt í starfsemi sinni. Íslensk tunga er sameign þjóðarinnar og því ekki óeðlilegt að umræða um þessa sameign fari fram í útbreiddum fjölmiðlum.

Ríkisútvarpið og Morgunblaðið eru með fasta þætti um íslenskt mál. Aðrir fjölmiðlar eru ekki vettvangur umræðu um íslenskt mál. Benda má á að Netið gæti verið skemmtilegur vettvangur fyrir gagnvirka umræðu og fræðslu um íslenskt mál.

          Fjölmiðlamenn sýni meiri ábyrgð gagnvart íslensku máli en nú er og fagfélög þeirra ýti undir þann metnað með því að sýna frumkvæði að gerð málstefnu fyrir fjölmiðlamenn.

Fagleg umræða fjölmiðlamanna er talsverð. Umræða um tungumálið, sem er eitt aðalatvinnutæki fjölmiðlafólks, hefur ekki verið mikil. Góð þátttaka á málþingi Blaðamannafélagsins og Íslenskrar málnefndar í apríl 2008 bendir þó til að í stéttinni sé talsverður áhugi á þessu málefni.

          Vandað sé til verka við þýðingar og yfirlestur skjátexta.

Skjátextar eru mikið lesnir. Mikilvægt er að til þeirra sé vandað og að virðing sé borin fyrir starfi sjónvarpsþýðenda.

          Hvatt verði til metnaðarfullrar og fjölbreytilegrar íslenskrar dagskrárgerðar, einnig fyrir börn.

Sjónvarpsefni á íslensku, sem endurspeglar íslenskan veruleika, er afar mikilvægt mótvægi við allt það erlenda sjónvarpsefni sem stendur áhorfendum til boða.

          Talsetning á sjónvarpsefni fyrir börn sé á vönduðu og góðu máli og framburður sé skýr og eðlilegur.

Mikið ríður á að vandað sé til framsetningar íslensks máls í sjónvarpsefni sem ætlað er börnum.

          Íslenska sé meðal kennslugreina í fjölmiðlafræðinámi á háskólastigi og blaðamönnum standi til boða endurmenntunarnámskeið í íslensku.

Ekki má gleyma því að íslenskan er eitt helsta atvinnutæki fjölmiðlamanna. Því er mikilvægt að þeir hafi málið vel á valdi sínu og séu einnig færir um að taka þátt í umræðum um það.

Aðgerðir
Til þess að ofangreind markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Menntamálaráðuneyti, Blaðamannafélag Íslands, Íslensk málnefnd og málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum myndi samstarfshóp er komi af stað málstefnuvinnu á fjölmiðlum. Stefnt er að því að allir fjölmiðlar verði komnir með málstefnu fyrir árslok 2009.
          Málnefndir verði settar á fót innan fagfélaga fjölmiðlamanna sem beiti sér meðal annars fyrir gerð málstefnu.
          Haldin verði reglulega námskeið í meðferð tungumálsins fyrir nemendur í fjölmiðlafræði, starfandi fjölmiðlafólk og aðra sem hafa textagerð með höndum í starfi sínu. Fagfélög og háskólar gætu átt samvinnu um að koma slíkum námskeiðum á laggirnar.
          Sjónvarpsstöðvar verði hvattar til að halda áfram að sýna fjölbreytt innlent dagskrárefni.


ÍSLENSKA Í LISTUM


Ástand
Listir og listiðkun eru órofa hluti af menningu hverrar þjóðar og þýðingarmikill vaxtarbroddur menningarlífs. Óhætt mun að fullyrða að íslensk menning sé í óvenjuríkum mæli tengd tungumálinu eða eigi sér rætur í því. Koma þar til sögulegar ástæður. Flestum mun þykja erfitt að gera sér í hugarlund íslenska menningu án íslenskrar tungu. Íslensk tunga hlýtur því að vera veigamikill þáttur í mörgum listgreinum, iðkun þeirra og umfjöllun um þær þótt í mismiklum mæli sé eftir listgreinum.

Bókmenntir
Af sjálfu sér leiðir að bókmenntir hljóta að vera sú listgrein sem tengdust er tungunni. Þótt umfjöllunarefni og efnistök bókmennta og skáldskapar séu af ýmsu tagi eru orðin og tungumálið í senn efniviður þeirra og verkfæri. Því hefur verið haldið fram að bókmenntir séu almennt forsenda þess að fámennar þjóðtungur geti lifað af. Oft hafa þannig verið færð rök fyrir því að bókmenntahefð Íslendinga og þau sígildu verk, sem urðu til í öndverðu, hafi auk landfræðilegrar einangrunar átt einna ríkastan þátt í að varðveita tunguna á tímum erlendra yfirráða. Í sjálfstæðisbaráttunni varð íslenska sem sérstök þjóðtunga síðan ein helsta röksemdin fyrir því að Íslendingar væru sérstök þjóð og sjálfstæðiskröfur þeirra réttmætar.
    Íslenskar bókmenntir hafa því alltaf verið og hljóta áfram að verða einn af hyrningarsteinum íslenskrar tungu. Af þessu leiðir að öll iðkun bókmennta og skáldskapar, umhugsun um hann og umfjöllun eru í eðli sínu málræktarstarf. Sköpunarkraftur og fjölbreytni tungunnar birtist þar með skýrum hætti. Hvergi sést betur hvað hún er skemmtileg. Fá svið eru því betur til þess fallin að efla ást á tungunni. Trúverðug málstefna hlýtur að hvetja til þess að vegur íslenskra bókmennta að fornu og nýju skuli gerður sem mestur með öllum tiltækum ráðum.
    Ekki verður annað sagt en að staða íslensku sem bókmenntamáls á Íslandi sé sterk að því leyti að íslenskum skáldum og rithöfundum virðist þykja sjálfsagt að semja verk sín á íslensku þótt markaðurinn sé dvergvaxinn í samanburði við stóru heimstungurnar. En það er hollt að minnast þess að þetta hefur ekki ætíð verið svo. Ekki er liðin nema um það bil ein öld frá því að allt annað var uppi á teningnum. Þá sáu margir af framsæknustu og metnaðarfyllstu höfundum þjóðarinnar sér þann kost vænstan að hasla sér völl á dönsku. Má þar nefna höfunda eins og Jóhann Sigurjónsson, Guðmund Kamban og Gunnar Gunnarsson. Íslenskir voru þeir þó áfram í þeim skilningi að flest verk þeirra voru á einhvern hátt sprottin úr íslenskum veruleika. Allir náðu þeir miklum árangri og hið sama má til dæmis segja um fjölmarga írska höfunda á nítjándu og tuttugustu öld sem ritað hafa á ensku eftir að írsk tunga fór halloka. Út frá þessu má ef til vill halda því fram að skáldskapurinn sé tungunni nauðsynlegri en hún honum.
     Launasjóður rithöfunda hefur miklu hlutverki að gegna, ekki síst ef litið er til þess að ýmsar tegundir fagurbókmennta geta aldrei staðið undir sér fjárhagslega á markaði. Sú er raunin um allan heim, hversu stór sem málsvæðin eru, og gildir því enn frekar um okkar litla markað. Sjóðurinn hefur þó ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að sinna nema litlum hluta þeirra umsókna sem berast. Við úthlutun 2008 deildust 444 mánaðarlaun á 74 umsóknir. Umsækjendur voru hins vegar 144 og sóttu um 3.019 mánaðarlaun alls. Sjóðurinn starfar samkvæmt lögum um listamannalaun, nr. 35/1991, ásamt síðari breytingum, nr. 144/1996, nr. 138/1998, og reglugerð um listamannalaun, nr. 679/1997.
     Bókasöfn eru afar þýðingarmikil fyrir framgang bókmennta og skáldskapar. Ekki síst sem uppeldisstöðvar fyrir lesendur framtíðarinnar. Af árlegu framlagi úr ríkissjóði er úthlutað samkvæmt lögum nr. 91/2007 til rithöfunda, þýðenda, myndhöfunda og annarra rétthafa sem eiga bækur á Landsbókasafni Háskólabókasafni, almenningsbókasöfnum, skólabókasöfnum og bókasöfnum stofnana sem kostuð eru af ríkissjóði eða sveitarfélögum. Lög um bókmenntasjóð og fleira tóku gildi 17. mars 2007 og þá féllu úr gildi lögin um Bókasafnssjóð höfunda frá 1. janúar 1998. Bókasafnssjóðurinn varð upphaflega til eftir áralanga baráttu rithöfunda og annarra rétthafa fyrir greiðslum vegna útlána á bókum. Greiðslur eru þó enn sem komið er langt undir því sem tíðkast í ýmsum nágrannalöndum okkar, svo sem Danmörku, þar sem bókasafnsgreiðslur eru meðal helstu tekjulinda höfunda.
     Bókmenntasjóður, sem til varð samkvæmt ofangreindum lögum nr. 91/2007 sem gildi tóku 17. mars 2007, tók við hlutverki þriggja eldri sjóða, Bókmenntakynningarsjóðs, Menningarsjóðs og Þýðingarsjóðs. Sjóðurinn rækir hlutverk sitt með því:

          Að styrkja útgáfu frumsaminna íslenskra skáldverka og vandaðra rita sem eru til þess fallin að efla íslenska menningu.
          Að styrkja útgáfu vandaðra erlendra bókmennta á íslensku.
          Að stuðla að kynningu á íslenskum bókmenntum hér á landi og erlendis og sinna öðrum verkefnum er falla undir verksvið stjórnar Bókmenntasjóðs.

Lítil reynsla er enn fengin af störfum þessa nýja sameinaða sjóðs en vilyrði um aukið fjármagn fylgdi breytingunni auk þess sem vænta má aukinnar hagkvæmni og skilvirkni í starfi hans vegna samlegðaráhrifa. Ekki eru síst bundnar vonir við aukið kynningarstarf erlendis nú í aðdraganda þess að Ísland og íslenskar bókmenntir verða í öndvegi á bókastefnunni í Frankfurt 2011. Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á vefsíðu hans: www.bok.is.
    Hræringar hafa verið nokkrar á útgáfumarkaði á undanförnum árum, bókaforlög hafa komið og farið, sameinast og sundrast. Samt má segja að bókaútgáfa sé blómleg og hlutur frumsaminna íslenskra skáldverka og vandaðra þýðinga erlendra bókmennta vel viðunandi. Áhyggjuefni er þó að svo virðist sem frumsömdum íslenskum barnabókum fari fækkandi á bókamarkaði. Fáir rithöfundar helga sig skrifum fyrir börn enda er erfitt að lifa af tekjum af sölu barnabóka og barnabókahöfundar hafa ekki verið fjölmennir í hópi starfslaunaþega. Mikilvægt er að allar kynslóðir íslenskra barna eigi sínar barnabækur; án bókmenntauppeldis verða engir lesendur í framtíðinni.

Leiklist
Leiklist á sviði er mikilvægur vettvangur íslenskrar tungu. Gildir það jafnt um atvinnu- og stofnanaleikhús sem smærri hópa. Minnt skal á það að Þjóðleikhúsinu var í öndverðu ætlað að vera „musteri íslenskrar tungu“. Áhugamannaleikfélög víða um land og í skólum gegna einnig þýðingarmiklu hlutverki. Leikrit eru bókmenntaverk, þau túlka fjölbreytt tungutak jafnt líðandi stundar sem liðinna tíma og eru þar af leiðandi mikilvæg tungumálinu. Íslensk leikverk eru einnig til þess fallin að endurspegla veruleika okkar og efla sjálfsskilning. Þau eru afar mikilvæg í holskeflu erlends afþreyingarefnis. Leiklistarþjálfun og leiklistariðkun efla tilfinningu fyrir framsögn og framburði.
    Uppeldisgildi leiklistar er ótvírætt og því er mikilvægt að leggja rækt við ritun og þýðingar leikverka fyrir börn og unglinga. Enn fremur er brýnt að börn séu hvött og örvuð til að taka þátt í leiklistarstarfi og þeim veitt góð tilsögn í upplestri og framsögn strax í upphafi skólagöngu. Ýmislegt jákvætt hefur þó gerst á því sviði og má þar helst nefna Stóru upplestrarkeppnina sem orðin er árlegur viðburður í 7. bekk grunnskóla um land allt á vegum Radda, samtaka um vandaðan upplestur og framsögn.
    Leikhúsáhugi er mjög almennur á Íslandi og íslensk verk hafa jafnan notið vinsælda þegar vel tekst til. Ljóst er að fyrir þeim er mikill hljómgrunnur meðal almennings. Á undanförnum árum hafa orðið nokkrar umræður um hvernig efla megi íslenska leikritun. Leikritunarsjóður Leikfélags Reykjavíkur var stofnaður í október 2007, meðal annars til að „efla nýsköpun og fjölbreytni í íslenskri leikritun, auka vægi leikritunar í samfélaginu og stuðla að því að hún njóti virðingar í samfélagi lista. Meðal leiða að markmiðum þessum er að tryggja að alltaf verði að minnsta kosti eitt leikskáld starfandi við Borgarleikhúsið“. Þjóðleikhúsið hefur löngum leitast við að ráða höfunda til ákveðinna verkefna og vorið 2008 var stofnaður sjóður, Prologus, til þess ætlaður sérstaklega að efla hlut innlendrar leikritunar á verkefnaskránni.

Kvikmyndir og leikið sjónvarpsefni
Kvikmyndir og leikið sjónvarpsefni byggist einnig að stórum hluta á hinu talaða orði. Útbreiðsla og áhrifamáttur þessara miðla er mikill. Yfirgnæfandi meirihluti slíks efnis sem völ er á hérlendis hefur um langt árabil fyrst og fremst verið á ensku. Má segja að í því felist í raun gríðarlegur umdæmismissir á mjög mikilvægu sviði.
    Það er því brýnt fyrir íslenska tungu að kvikmyndagerð og íslensk dagskrárgerð eflist. Einkum og sér í lagi þarf að efla gerð sjónvarps- og útvarpsleikrita, leikinna framhaldsþátta og hvers kyns afþreyingar annarrar auk vandaðs efnis til gagns og gamans fyrir börn. Þegar rekstrarformi Ríkisútvarpsins var breytt voru gefin fyrirheit um að breytingin mundi meðal annars veita stóraukið svigrúm til öflugrar framleiðslu á leiknu innlendu efni, jafnt kvikmyndum sem framhaldsþáttum. Síðan þá hafa verið gerðir samningar við að minnsta kosti einn aðila um þátttöku í slíkum verkefnum. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort þessi fyrirheit ganga eftir. Miklu hlýtur einnig að varða samkomulag menntamálaráðherra, fjármálaráðherra og samtaka í íslenskri kvikmyndagerð frá 14. nóvember 2006 um stefnumörkun til að efla íslenska kvikmyndagerð (http://www. menntamalaraduneyti.is/frettir/rettarheimildir/nr/3788; sjá rammagrein).


Menntamálaráðherra og fjármálaráðherra og samtök í íslenskri kvikmyndagerð gera með sér eftirfarandi

SAMKOMULAG
um stefnumörkun til að efla íslenska kvikmyndagerð


1. gr.

Aðilar eru sammála um að stefnt skuli að því að árlega séu gerðar eigi færri en 4 leiknar íslenskar kvikmyndir í fullri lengd og að stefnt skuli að því að hlutfall framleiðslustyrks úr Kvikmyndasjóði af kostnaðaráætlun sé 50%.
Með íslenskri kvikmynd er átt við kvikmyndir eins og þær hafa verið skilgreindar til þess að geta hlotið framleiðslustyrk úr Kvikmyndasjóði skv. lögum nr. 137/2001 og reglugerð nr. 229/2003 um sjóðinn.
Stefnt er að því að leggja áherslu á barna- og fjölskyldumyndir í fullri lengd með væntingar um að myndir í þeim flokki verði framleiddar annað hvert ár að minnsta kosti.

2. gr.

Aðilar eru sammála um að miða við að meðalframleiðslukostnaður kvikmynda verði í lok samningstímans 210 milljónir króna. Heildarframlag til framleiðslustyrkja kvikmynda verði því 420 milljónir króna árið 2010.

3. gr.

Aðilar eru sammála um að veita stuðning við samframleiðslu kvikmynda í fullri lengd.
Stefnt skal að því að Kvikmyndasjóður geti varið 30 milljónum króna árlega til þátttöku í erlendum samframleiðslusjóðum.

4. gr.

Aðilar eru sammála um að efla aðrar greinar kvikmyndagerðar en framleiðslu leikinna kvikmynda í fullri lengd, s.s. gerð heimildamynda, stuttmynda og hreyfimynda. Aðilar eru sammála um að stefnt skuli að því að Kvikmyndasjóður geti í lok samningstímans varið 125 milljónum króna árlega til framleiðslustyrkja vegna slíkra verkefna. Hlutfall framleiðslustyrks vegna heimilda- og stuttmynda verði allt að 50%.

5. gr.

Aðilar eru sammála um að efla framleiðslu á íslenskum þáttaröðum fyrir sjónvarp og að í lok samningstímans verði 125 milljónum króna varið til slíkra verkefna.
Við úthlutun úr Sjónvarpssjóði skal stefnt að því að leggja áherslu á barna- og fjölskylduefni.

6. gr.

Aðilar eru sammála um að með þessum framleiðslustyrkjum geti íslensk kvikmyndagerð betur gegnt hlutverki sínu í íslensku menningarlífi.

7. gr.

Aðilar eru sammála um að umfang annarrar starfsemi Kvikmyndamiðstöðvar verði í svipuðu horfi og nú, að teknu tilliti til aukinnar kynningarstarfsemi vegna fleiri verkefna. Kostnaður vegna reksturs og kynningarverkefna skal áfram vera aðskilinn frá kvikmyndasjóðum.


8. gr.


Við framkvæmd 2., 3., 4. og 5. gr. samningsins er miðað við að áfangaskipting verði með þessum hætti:

     2007     2008     2009     2010
Sjónvarpssjóður     50     80     95     125
Heimildamyndasjóður     100     110     115     125
Kvikmyndasjóður     310     340     380     420
Samframleiðsla     30     30     30     30
Samtals      490     560     620     700

9. gr.

Menntamálaráðherra og fjármálaráðherra munu, með fyrirvara um samþykki Alþingis, beita sér fyrir því að markmið samkomulagsins náist í þeim áföngum sem lýst er í 8. gr.
Textagerð við dægurtónlist

Segja má með nokkrum rétti að einn helsti vettvangur ljóðlistar í nútímasamfélagi sé á sviði dægurtónlistar. Það er því mikil óheillaþróun fyrir íslenska tungu ef svo fer fram sem horfir að enska þyki eðlileg og sjálfsögð sem helsta söngmál íslenskra dægurtónlistarmanna. Erfitt er við slíkt að ráða með fyrirmælum eða valdboði en full ástæða er þó til að hvetja þessa listamenn til að sýna meiri metnað fyrir hönd þjóðtungunnar. Mörgum þeirra ætti að vera í lófa lagið að gera bæði íslenska og enska útgáfu af lögum sínum. Fordæmi þeirra söngskálda sem mestra vinsælda njóta og syngja einvörðungu á íslensku ætti að geta verið yngra fólki til eftirbreytni.

Annað
Það hefur orðið æ algengara á undanförnum árum að íslenskir listviðburðir og sýningar, einkum á sviði tónlistar, danslistar og myndlistar nefnist enskum nöfnum, til dæmis Iceland Airwaves og Act Alone eða Akureyri International Music Festival, Sequences (myndlistarhátíð) og Local (leiklistarhátíð), svo að fátt eitt sé nefnt. Virðist þar gilda einu hvort viðburðirnir eru sérstaklega ætlaðir erlendum áheyrendum eða ekki. Æ sjaldnar er haft fyrir því að slíkir viðburðir séu einnig látnir bera íslenskt heiti til jafns við hið enska. Sama gildir um ensk nöfn kvikmynda í auglýsingum kvikmyndahúsa og dagskrárkynningum sjónvarpsstöðva sem ekki þykir lengur ástæða til að þýða ef þau eru á ensku. Þeirrar tilhneigingar gætir nú einnig í vaxandi mæli í nöfnum leiksýninga. Nýleg dæmi: Killer Joe og A Fool for Love. Allt ýtir þetta undir þá hugmynd eða tilfinningu að Ísland sé eða eigi að verða málsvæði þar sem enska sé fullkomlega jafngjaldgeng og íslenska.

Horfur
Menningarlíf er öflugt á Íslandi og flestar greinar lista í blóma. Fátt bendir til annars en að þar geti íslensk tunga átt sér fjölbreytilegan og vaxandi vettvang ef rétt er á haldið. Allar horfur eru á að svo geti orðið ef vitundin um þýðingu tungunnar á þessum sviðum helst vakandi. Bókmenntirnar varða þar mestu og fátt bendir til annars en að íslenska sé þar í fyrirrúmi ef dægurlagatextar eru undanskildir. Margir eru þó uggandi um framtíðina þar sem bóklestur almennt fari þverrandi, láti æ meir í minni pokann fyrir annars konar afþreyingu. Ekki er slíkt þó einhlítt og alveg eins má halda því fram að hið stóraukna upplýsingaflæði sem fylgir Netinu og tölvutækninni hafi líka eflt eða geti orðið til að efla lestraráhuga almennt.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Sú vitund þarf að verða almenn að íslenskar bókmenntir og allt starf, sem tengist þeim, sé meðal lykilatriða í varðveislu og þróun íslenskrar tungu. Mikilvægt er að tungan haldi áfram að nýtast, dafna og þróast á þessu sviði þar sem ótal vaxtarbrodda er að finna og skapandi hugsun skiptir meginmáli.
          Bókasöfn og skólar eru meðal helstu uppeldisstöðva nýrra lesenda og mikilvægur liður í útbreiðslu bókmenntanna. Á það ekki síst við um barnabækur. Það er í þágu íslenskrar tungu að almenningsbókasöfn og skólasöfn eflist að bókakosti og umsvifum öllum.
          Það er afar mikilvægt að styrkja stöðu íslenskrar tungu í kvikmyndum og hvers kyns leiknu sjónvarpsefni.
          Stórefla þarf kynningu íslenskra bókmennta erlendis og hvetja til þýðinga á erlendar tungur til að breikka lesendahóp og auka áhuga á frumtexta víða um heim. Þýðendum íslenskra bókmennta þarf að veita aukna athygli, hlúa að þeim á alla lund og fjölga þeim með námsframboði og styrkjum. Jafnframt þarf að ýta undir þýðingar erlendra skáldverka á íslensku, jafnt sígildra verka sem nýjustu metsölubóka. Á íslensku á allt að vera til og allt hægt. Með tilkomu hins nýja Bókmenntasjóðs er yfirumsjón þessara mála öll á einni hendi. Þannig hafa myndast sóknarfæri sem ber að nýta.
          Innlenda leikritun þarf að efla mjög til dáða. Of fá verk verða til sem sprottin eru úr íslensku umhverfi.

Aðgerðir
Til að ofangreind markmið náist leggur Íslensk málnefnd til eftirfarandi aðgerðir:

          Launasjóður rithöfunda gegni áfram lykilhlutverki sínu.
          Bókmenntasjóði verði gert kleift að ná þeim árangri sem að var stefnt með sameiningu sjóðanna þriggja sem í hann runnu.
          Áhersla verði áfram lögð á hvers kyns stuðning við innlenda leikritun og framleiðslu innlendra kvikmynda og leikins sjónvarpsefnis.
          Hvetja þarf fyrirtæki og einstaklinga til að styrkja listsköpun á íslensku.
          Sértækar aðgerðir þarf til að efla útgáfu frumsaminna barnabóka.
          Virðisaukaskattur á bækur haldist áfram sem lægstur.
          Stofna þarf til markvissrar kennslu í að yrkja á íslensku í skólum.
          Ríkisfjölmiðlar sýni gott fordæmi og sjái til þess að keppt verði eingöngu á íslensku hér heima um framlag Íslands til söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.

ÞÝÐINGAR OG TÚLKUN


Ástand
Íslendingar eru virkir í alþjóðlegu samstarfi á ýmsum sviðum, í viðskiptum, stjórnmálum og menningu, svo að eitthvað sé nefnt. Slíkt samstarf krefst skjótrar og áreiðanlegrar miðlunar margvíslegra upplýsinga á milli ólíkra menningarheima. Þýðingar eru afar mikilvægur þáttur í þeirri miðlun, bæði á íslensku og einnig af íslensku á önnur mál. Túlkun er ekki síður mikilvæg, bæði á ráðstefnum, fundum og fyrir dómstólum. Skjótvirk og áreiðanleg miðlun á milli ólíkra menningarheima krefst sérfræðiþekkingar og langrar reynslu; meta þarf upplýsingar, staðfæra og flytja á milli kerfa. Efniviðurinn er ærið fjölbreyttur, allt frá flóknu tæknimáli þar sem reynir á nákvæma hugtakanotkun til fagurbókmennta þar sem listrænir hæfileikar eru í öndvegi. Hraði og nákvæmni skipta miklu máli í þýðingum og túlkun, ekki síst á tímum mikillar fjölmiðlunar þar sem brýnt er að tryggja Íslendingum íslenskar þýðingar og túlkun erlendra frétta og ýmiss konar menningar- og afþreyingarefnis.
    Á Íslandi er fyrir hendi allnokkur sérþekking í þessum efnum, einkum þýðingum á íslensku. Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins var stofnuð árið 1990 til að þýða samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og tilskipanir, reglugerðir, ákvarðanir og tilmæli sem heyra undir EES-samninginn. Þessir textar, sem eru oft æðiflóknir og á köflum mjög tæknilegir, varða réttindi og hagsmuni íslenskra borgara á fjölmörgum sviðum, til dæmis í félagsmálum, jafnréttismálum, neytendamálum, umhverfismálum og menntamálum. Íslenskar þýðingar þessara texta verða síðan hluti af íslenskum lögum og reglugerðum eða mynda grunn að þeim. Þýðingamiðstöð utanríkisráðuneytisins hefur á að skipa sérþjálfuðu starfsliði sem leitast við að koma þessum flóknu textum til skila á skýru og skiljanlegu máli. Jafnframt hefur Þýðingamiðstöðin víðtækt samstarf við sérfræðinga í orðanefndum, á háskólastiginu, í opinberum stofnunum og atvinnulífinu. Auk Þýðingamiðstöðvarinnar sinna ýmis sjálfstæð fyrirtæki þýðingarþjónustu.
    Þróttmikið íðorðastarf er forsenda þess að unnt sé að tala um ýmis sérfræðileg efni á íslensku. Á Íslandi er löng hefð fyrir nýyrðasmíð og fjöldi fagfélaga hefur á sínum snærum orðanefndir. Í þessum efnum er ástandið þó misjafnt eftir greinum og sums staðar er sérfræðimál mjög litað af erlendum orðum, einkum enskum, jafnvel svo að einhverjum kunni að þykja auðveldara að nota eingöngu ensku sem samskiptamál á sínu sérsviði. Skortur á íslenskum íðorðum getur því átt þátt í umdæmismissi íslenskrar tungu á ákveðnum sérsviðum.
    Málræktarsvið Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (áður Íslensk málstöð) hefur stutt starf orðanefnda eftir föngum og meðal annars starfrækt rafrænan orðabanka frá árinu 1997. Orðabankinn geymir fjölda sérhæfðra íðorðasafna sem einstaklingar og orðanefndir hafa unnið. Þar má fá yfirsýn yfir íslenskan íðorðaforða og ýmis nýyrði úr almennu máli og um leið veitir hann aðgang að þýðingum á erlendum íðorðum og hugtakaskilgreiningum. Orðabankinn er öllum aðgengilegur á Netinu á www.arnastofnun.is.
    Í starfi Þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins hefur orðið til gríðarmikið safn hugtaka á sviði laga og stjórnsýslu og einnig fjöldi tæknilegra hugtaka sem notuð eru á hinum fjölmörgu sérsviðum EES-samningsins. Þetta hugtakasafn hefur verið öllum aðgengilegt frá 1995 á Netinu á slóðinni www.hugtakasafn.utn.stjr.is. Grunntungumálin eru íslenska og enska en einnig er að finna þar færslur á öðrum tungumálum.
    Þýðingafræði er ung háskólagrein á Íslandi. Árið 2001 kom Háskóli Íslands á fót sérstakri námsbraut í þýðingafræðum. Þýðingafræði þjálfar nemendur í miðlun upplýsinga á milli menningarheima með ýmsum aðferðum.
    Sá sem ekki er mæltur á íslensku á lögum samkvæmt rétt á túlkunarþjónustu fyrir dómstólum og þegar hann þarf að leita læknisaðstoðar. Íslendingar eiga sama rétt víða erlendis. Túlkun hér á landi er mikilvægur liður í aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi og því um leið grundvöllur að íslenskunámi. Alþjóðahús og Alþjóðastofa á Akureyri reka túlkaþjónustu og dóms- og kirkjumálaráðuneytið heldur úti lista yfir þá sem réttindi hafa til að túlka fyrir dómi. Ekki er þó enn boðið upp á þjálfun í túlkun á Íslandi, hvorki ráðstefnutúlkun né samfélagstúlkun.

Horfur
Íslendingar verða áfram virkir í ýmiss konar alþjóðasamstarfi og þörfin fyrir þýðingar, túlkun og menningarmiðlun af ýmsum toga mun því ugglaust aukast á komandi árum. Það er sjálfsögð krafa Íslendinga að hafa aðgang að margvíslegu efni af erlendum uppruna á íslensku. Lög, reglugerðir, viðskiptasamninga, tæknilega staðla, notkunarleiðbeiningar, fræðileg skrif, fagurbókmenntir og kvikmyndir, svo að fátt eitt sé nefnt, þarf að þýða á íslensku svo að Íslendingar geti nýtt og notið á móðurmálinu. Íslendingar þurfa enn fremur að geta miðlað efni af íslensku til annarra þjóða. Þá þarf íslenska að vera gjaldgeng hjá alþjóðastofnunum og á alþjóðaráðstefnum þar sem fram fer túlkun á milli ýmissa þjóðtungna. Fjöldi ferðamanna sækir Ísland heim ár hvert og hingað kemur líka fólk hvaðanæva sem býr hér skamma hríð vegna atvinnu sinnar. Þetta fólk þarf að eiga kost á vandaðri samfélagstúlkun.
    Brýnt er þess vegna að Íslendingar hafi á að skipa öflugri sveit manna með sérþekkingu á þýðingum, túlkun og menningarmiðlun. Að öðrum kosti verða Íslendingar út undan í samfélagi þjóðanna og íslensk tunga verður hornreka.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur því til eftirfarandi markmið:

          Að íslenska standi jafnfætis tungumálum grannþjóðanna í þýðingum og túlkun.

Í því felst að Íslendingar hafi á að skipa stétt vel menntaðra og þjálfaðra sérfræðinga í þýðingum og túlkun er tryggt geti að Íslendingar eigi ætíð kost á vönduðum íslenskum þýðingum á hvers kyns textum, lögum og reglugerðum, fræðilegum textum, fréttatextum og fagurbókmenntum, og jafnframt túlkun yfir á íslensku í fjölmiðlum, á alþjóðlegum ráðstefnum, fundum og fyrir dómstólum. Enn fremur að Íslendingar verði færir um að veita sams konar þýðingar og túlkun af íslensku á önnur tungumál.

Aðgerðir
Til þess að ofangreint markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Að kennsla í þýðingafræðum við íslenska háskóla verði efld.
          Að komið verði á fót hagnýtu námi í þýðingum og textavinnu í samvinnu við atvinnulífið þar sem lögð verði áhersla á þýðingar laga- og tæknitexta og meðferð nytjatexta.
          Að komið verði á fót skipulegri þjálfun túlka á Íslandi.
          Að stutt verði við þróun hugbúnaðar er gagnast megi við vélrænar þýðingar á íslensku og af íslensku (sjá Íslenska í tölvuheiminum).
          Að stutt verði við íðorðastarfsemi, bæði með kennslu í íðorðasmíð, skipulegum stuðningi við orðanefndir og viðurkenningu á íðorðastarfi í háskólum og fræðasamfélaginu almennt.
          Að orðabankar á Netinu verði efldir og kynntir.
          Að í engu verið hvikað frá þeirri stefnu að þýða á íslensku allar erlendar tilskipanir, reglugerðir, ákvarðanir eða tilmæli sem gildi hafa fyrir Íslendinga, þar með talið allt það efni sem heyrir undir EES-samninginn.
          Að allir íslenskir fjölmiðlar (prentmiðlar, vefmiðlar og ljósvakamiðlar) verði hvattir til þess að birta ekki efni á erlendu máli nema því fylgi vönduð íslensk þýðing. Auglýsingar verði þar ekki undanþegnar.
          Að hugbúnaðarþýðingar verði stórefldar svo að Íslendingar eigi kost á notendaviðmóti á móðurmáli sínu (sjá Íslenska í tölvuheiminum).
          Að íslenska ríkið noti aðeins hugbúnað með íslensku viðmóti þar sem því verður við komið. Þetta er einkum brýnt í skólakerfinu (sjá Íslenska í tölvuheiminum og Leikskólar, grunnskólar og framhaldsskólar).


ÍSLENSKA SEM ANNAÐ MÁL


Ástand

Á undanförnum árum hefur fjöldi fólks af erlendum uppruna flust til Íslands. Í töflu 1 eru tölur frá Hagstofu Íslands um hlutfall erlendra ríkisborgara af mannfjölda.

1. desember 1988 4.829 1,9%
1. janúar 1998 5.635 2,1%
1. janúar 2008 21.434 6,8%

Tafla 1: Hlutfall erlendra ríkisborgara af mannfjölda.
Heimild: Hagstofa Íslands (www.hagstofa.is).


Þessar tölur sýna glögglega hve erlendum ríkisborgurum hér á landi hefur fjölgað mikið undanfarin tíu ár (1998–2008), miklu meira en næstu tíu ár þar á undan (1988–1998). Erlendum ríkisborgurum hér á landi mun líklega fækka verulega á næstu misserum vegna efnahagsörðugleika og minnkandi atvinnu en jafnlíklegt má teljast að þeim fjölgi á nýjaleik þegar úr rætist.
    Við blasir að jafnframt fjölgun erlendra ríkisborgara hefur tungumálum í íslensku samfélagi fjölgað mikið. Hætt er við að stór hluti þeirra erlendu ríkisborgara, sem hingað hafa flust á allra síðustu árum, noti annað mál en íslensku við dagleg störf sín hér á landi. Þetta á ekki síst við um atvinnugreinar þar sem fjöldi erlendra starfsmanna af ólíkum uppruna vinnur saman. Við þær aðstæður er samskiptamálið oft enska enda þótt fæstir starfsmannanna hafi ensku að móðurmáli. Nokkur umræða hefur orðið í fjölmiðlum um málnotkun í ýmsum þjónustugreinum þar sem rakin hafa verið dæmi um að afgreiðslufólk í verslunum geti ekki notað íslensku í störfum sínum og það hafi valdið neikvæðum viðbrögðum hjá íslenskum neytendum.
    Fjölgun erlendra ríkisborgara hefur verið hröð og átt sér stað á tímum mikillar þenslu á íslenskum vinnumarkaði. Líklegt má teljast að margir þeirra sem hingað hefur flust hafi í hyggju að dveljast hér aðeins skamma hríð. Greiðan aðgang þarf að góðri og ódýrri íslenskukennslu og mikla hvatningu til að fólk ráðist í það verkefni að læra íslensku. Hindranir í veginum eru þó því miður of margar. Alltof algengt er að útlendingar, sem hér setjast að, þurfi að stunda íslenskunám sitt að loknum löngum vinnudegi. Þreyta kemur þá í veg fyrir að námið skili tilætluðum árangri og kennsla nýtist sem skyldi. Kostnaður við íslenskunámið, bæði er varðar námskeiðsgjöld og bókakaup, er enn fremur hindrun í mörgum tilvikum. Við það bætist að ekki er víst að allir finni kennslu og kennslugögn við sitt hæfi. Þeir sem þurfa að læra íslensku hafa afar ólíkan bakgrunn, ólík móðurmál, breytilega tungumálakunnáttu og misjafna lestrarfærni. Afar fjölbreytt kennslugögn þarf til að þjóna þörfum allra.
    Hætt er við að útlendingar hér á landi fái ekki næga hvatningu til að læra íslensku. Það viðhorf er því miður útbreitt meðal Íslendinga að íslenska sé „lítið tungumál“ vegna þess hve fáir tala það og því borgi sig ef til vill ekki fyrir útlendinga að læra það; einnig að íslenska sé fornlegt tungumál og flókið og því sé afskaplega erfitt fyrir útlendinga að læra það. Ofan á það bætist sú algenga skoðun Íslendinga að þeir séu sjálfir svo færir í ensku að hægur vandi sé að búa og starfa á Íslandi án þess að læra íslensku, enska sé gjaldgeng hvarvetna á Íslandi. Því verður vitanlega ekki á móti mælt að fjöldi þeirra er talar íslensku er ekki mikill í alþjóðlegum samanburði. Hitt er þó mikilvægara að íslenska er tungumál heils samfélags; á Íslandi er íslenska aðalmálið á öllum sviðum samfélagsins. Íslenska er því langmikilvægasta tungumálið á Íslandi. Til þess að geta tekið fullan þátt í íslensku samfélagi og notið til hlítar allra þeirra lífsgæða, sem þar eru í boði, er nauðsynlegt að hafa vald á tungumálinu – íslenska er lykillinn að íslensku samfélagi.
    Loks er vert að vekja athygli á því að Íslendingar hafa margir hverjir litla þolinmæði til að hlusta á íslensku með erlendum hreim og minnstu frávikum frá venjulegri íslenskri orðanotkun, beygingum eða setningagerð. Útlendingar, sem ráðast í það að læra íslensku, kvarta alltof oft yfir því að þeim gangi illa að nota íslenskukunnáttu sína hér á landi vegna þess að oft vilji það brenna við að um leið og erlend einkenni í máli heyrist skipti Íslendingar yfir í ensku. Ástæða virðist til að óttast að viðhorf Íslendinga sjálfra til íslensku, íslenskukennslu fyrir útlendinga og íslensku með erlendum einkennum efli ekki útlendinga í þeirri viðleitni sinni að læra íslensku og geti beinlínis dregið úr þeim.

Horfur
Fjölgun þeirra tungumála sem notuð eru á Íslandi þarf ekki að vera skaðleg íslenskri tungu ef íslenska verður áfram aðalsamskiptamálið í fjölmenningarsamfélagi hér á landi. Á hinn bóginn steðjar að sú hætta að íslenska taki að hörfa fyrir öðrum tungumálum á þeim sviðum atvinnulífsins þar sem fjölgun erlends vinnuafls hefur verið hvað mest. Við þeirri hættu þarf að bregðast.
    Margt gott hefur vissulega áunnist í þessum efnum á undanförnum misserum. Má þar nefna stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda sem samþykkt var í ársbyrjun 2007 en þar er einmitt lögð áhersla á íslenskukennslu (sjá vef félagsmálaráðuneytisins: www.felagsmalaraduneyti.is). Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er einnig að finna kafla um málefni innflytjenda þar sem lýst er yfir vilja til að gera átak í íslenskukennslu fyrir útlendinga. Í kjölfarið hefur ríkisstjórnin veitt sérstaka styrki til kennslu í íslensku fyrir útlendinga og skipaði menntamálaráðherra sérstaka verkefnisstjórn til að hafa yfirumsjón með ráðstöfun fjárins. Verkefnisstjórnin hefur nú skilað greinargerð um stöðu verkefnisins ( Íslenska með hreim er líka íslenska 2008) og í september 2008 gaf menntamálaráðuneytið út námskrá í íslensku fyrir útlendinga ( Íslenska fyrir útlendinga – grunnnám 2008). Þá hefur menntamálaráðuneytið gert samning við Fræðslumiðstöð atvinnulífsins um undirbúning og framkvæmd verkefna á sviði íslenskukennslu fyrir útlendinga. En verkefnið er stórt og því er hvergi nærri lokið.

Markmið í íslenskri málstefnu
Íslensk málnefnd leggur til eftirfarandi markmið:

          Að íslenska verði áfram aðalsamskiptamálið í fjölþjóðlegu samfélagi á Íslandi.

Brýnt er að útlendingum, sem hér setjast að, séu búnar þær aðstæður að þeir geti náð tökum á íslensku og orðið virkir þátttakendur í íslensku samfélagi á íslensku. Forsendurnar fyrir því að þetta markmið geti náðst eru að minnsta kosti þessar:

          Fyrir hendi þarf að vera traust fræðileg þekking á tileinkun og kennslu íslensku sem annars máls.
          Fyrir hendi þarf að vera traust fræðileg þekking á einkennum íslensku sem annars máls og tilbrigðum eftir uppruna þeirra sem hana tala.
          Völ þarf að vera á reyndum kennurum sem eru sérmenntaðir til að kenna íslensku sem annað mál.
          Kennsla í íslensku þarf að vera vönduð og fjölbreytt og miðast við þarfir ólíkra hópa. Taka þarf tillit til þess að þeir sem þurfa á íslenskukennslu að halda hafa afar ólíkan bakgrunn, mismikla menntun og móðurmál þeirra eru ólík.
          Kennsluefni í íslensku þarf að vera vandað og fjölbreytt og miðast við þarfir ólíkra hópa. Tryggja þarf að allir fái efni við sitt hæfi. Meðal annars þarf að taka tillit til þess að lestrarfærni þeirra sem þurfa á íslenskukennslu að halda er afar misjöfn.
          Kennsla í íslensku þarf að vera ódýr og helst endurgjaldslaus.
          Kennsla í íslensku þarf að vera aðgengileg. Vænlegra er að bjóða upp á starfsmiðaða íslenskukennslu í vinnutíma en að ætlast til þess að íslenskunámi sé bætt ofan á fullt starf.
          Hvatning til að læra íslensku þarf að vera fyrir hendi.
          Viðhorf Íslendinga til íslensku með erlendum einkennum þarf að vera jákvætt.


Starfsmiðuð íslenskukennsla í vinnutíma
Hjá sjávarútvegsfyrirtækinu HB Granda hf. voru árið 2003 um 60 af hundraði starfsmanna af erlendum uppruna og ef áhafnir fiskiskipa eru undanskildar og aðeins litið til fiskvinnslu í landi á vegum fyrirtækisins var hlutfall erlendra starfsmanna þar yfir 80%. Árið 2003 skipulagði Fjölmenning námskeið í íslensku fyrir erlenda starfsmenn HB Granda hf. með stuðningi Landsmenntar og Starfsafls sem eru fræðslusjóðir innan vébanda Samtaka atvinnulífsins. Námskeiðin voru starfsmiðuð og fór kennslan fram á vinnustaðnum í vinnutíma. Þátttakendur í námskeiðunum báru engan kostnað af þeim.
    Próf voru haldin og árangurinn af þessum námskeiðum skilaði miklum framförum í íslensku. Aukin færni í íslensku hafði svo aftur jákvæð áhrif á ýmsum öðrum sviðum (Birna Arnbjörnsdóttir 2006):
                  –     Það dró úr fjarvistum starfsfólks.
                  –     Starfsmannavelta minnkaði.
                  –     Þátttaka erlendra starfsmanna í félagslífi innan fyrirtækisins jókst.
                  –     Andinn í fyrirtækinu batnaði.
Aðgerðir
Til að ofangreint markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Að stefnt verði að stofnun rannsóknastofnunar á háskólastigi er hafi það hlutverk að vinna að rannsóknum á tileinkun og kennslu íslensku sem annars máls og miðla þekkingu á þeim fræðum, meðal annars með því að byggja upp sérstaka námsbraut á háskólastigi í kennslufræði íslensku sem annars máls og vera fræðilegur bakhjarl fyrir þróun kennsluefnis.
          Að áfram verði veitt fé til íslenskukennslu fyrir útlendinga (fullorðinsfræðslu).
          Að áfram verði veitt fé til þróunar og útgáfu kennsluefnis í íslensku.
          Að vinnuveitendur fái sérstaka hvatningu og stuðning til að veita starfsmönnum sínum starfsmiðaða kennslu í íslensku í vinnutíma.
          Að hlúð verði sérstaklega að börnum innflytjenda í íslensku skólakerfi og leitast verði við að tryggja að þau fái fullnægjandi málörvun, bæði í móðurmáli sínu og íslensku.
          Að efnt verði til jákvæðrar umræðu og fræðslu um íslensku sem annað mál og markvisst unnið að því að bæði útrýma fordómum gagnvart íslensku með erlendum einkennum og hvetja innflytjendur til að læra íslensku.
          Að innflytjendur verði hvattir til að segja sögu sína og tjá sig á íslensku þannig að íslenska sem annað mál fái sess í íslenskri bókmenntasköpun. Efna mætti til námskeiða í skapandi skrifum fyrir þá sem tala íslensku sem annað mál.


ÍSLENSKA ERLENDIS


Ástand
Áhugi á að læra íslensku sem annað eða erlent mál er ekki nýr af nálinni en hefur aukist jafnt og þétt síðan um miðja síðustu öld. Hann má bæði rekja til aukinnar þekkingar erlendis á sérkennum íslensks máls og bókmennta og aukinna samskipta Íslendinga við aðrar þjóðir. Hvatinn til náms er því bæði af fræðilegum og hagnýtum rótum. Þessum aukna áhuga á málinu meðal útlendinga hefur að nokkru leyti verið svarað með auknu kennsluframboði.
    Þeim útlendingum fjölgar stöðugt sem koma hingað til lands í þeim tilgangi helstum að læra íslensku sem annað mál á háskólastigi. Við Háskóla Íslands er hægt að ljúka BA-prófi í íslensku fyrir erlenda stúdenta. Þá er líka boðið upp á fjarnám á byrjendanámskeiðum og nokkur mismunandi sumarnámskeið. Frá og með haustinu 2008 var boðið upp á nýja námsleið við Háskóla Íslands: hagnýtt nám í íslensku fyrir útlendinga sem aðeins vilja læra málið en ekki stunda akademískt nám í íslensku. Þess má geta að inn í námsgreinina íslenska fyrir erlenda stúdenta voru teknir 150 nýnemar skólaárið 2007–2008 eða nærri helmingi fleiri en 2005. Undanfarin ár hafa 50–60 manns verið á öðru og þriðja ári og milli 12–15 manns útskrifast með BA-próf ár hvert. Nemarnir koma víða að eins og sjá má á töflu 2 með yfirliti yfir fyrsta árs nema haustið 2005.
    Einnig fjölgar stöðugt útlendingum sem vilja læra íslensku í heimalandi sínu, á námskeiðum eða í háskólanámi. Nú er nútímaíslenska kennd við um 40 háskóla erlendis og styðja íslensk stjórnvöld þessa kennslu fjárhagslega á 18 stöðum, mismikið þó. Forníslenska er kennd enn víðar. Á annað þúsund nemar sækja kennslu í nútímaíslensku við erlenda háskóla árlega.
    Einnig er rétt er að muna eftir því að á nokkrum stöðum erlendis er börnum og fullorðnum boðið upp á námskeið í íslensku utan háskóla, meðal annars í fornum byggðum Íslendinga í Kanada.

9 frá Asíu
1 frá Afríku
7 frá Rómönsku-Ameríku
8 frá Norður-Ameríku
14 frá Norðurlöndum
23 frá Austur-Evrópu
16 frá Mið- og Suður-Evrópu
Samtals 78 manns frá 32 löndum sem töluðu 26 mismunandi tungumál.

Tafla 2: Fyrsta árs nemar í íslensku fyrir erlenda stúdenta
í Háskóla Íslands haustið 2005

Þá er móðurmálskennsla íslenskra barna, sem búa erlendis, stunduð nokkuð víða þar sem Íslendingar eru fjölmennir, ekki síst þar sem stjórnvöld í landinu styðja móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna (það sem á sænsku er kallað hemspråk og mætti kalla heimamál á íslensku). Íslensk stjórnvöld hafa einnig komið til móts við móðurmálskennslu íslenskra barna erlendis með smástyrkveitingum. Þá var Íslenskuskólanum komið á fót á Netinu fyrir atbeina þeirra árið 2004. Í apríl 2004 voru yfir 400 nemendur skráðir í skólann og voru þeir búsettir í 28 löndum og 5 heimsálfum. Árið 2005 tóku foreldrar og kennarar við rekstrinum. Vegna fjárskorts hefur skólastarf legið niðri síðan haustið 2007 (sjá www.netskoli.is). Samkvæmt tölum frá árinu 2000 bjuggu 8,3% Íslendinga erlendis og var tæpur þriðjungur þeirra á aldrinum 0–16 ára (Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir 2004:5). Stærsti hluti þessara barna, eða um 85%, var búsettur í Evrópulöndum og flest voru þau á Norðurlöndum.
    Einkum þrennt hefur staðið kennslu í íslensku erlendis fyrir þrifum, þ.e.a.s. skortur á fjármagni til að greiða fyrir kennsluna, skortur á kennurum sem hafa lagt stund á nám í kennslu íslensku sem erlends máls eða í móðurmálskennslu íslenskra barna og skortur á kennsluefni og orðabókum sem ætlaðar eru mismunandi hópum með ólíkar þarfir.
    Samfara auknum áhuga á íslenskunámi erlendis hefur áhugi á íslenskum bókmenntum vaxið, bæði á frummálinu og í þýðingum. Ekki síst hefur áhugi á íslenskum sakamálasögum og barnabókum aukist. Miklu fleiri verk eru nú gefin út í þýðingum en fyrir svo sem 15–20 árum enda hafa íslensk bókaforlög aukið mjög kynningu á íslenskum samtímabókmenntum erlendis og Bókmenntakynningarsjóður, nú Bókmenntasjóður, hefur meira fjármagn en áður til að styðja þýðingar á íslenskum bókmenntum á önnur mál. Þýtt er á fleiri mál en áður þótt enn sé mest þýtt á Norðurlandamál og þýsku.
    Rannsóknir á íslensku sem öðru og erlendu máli hafa legið í láginni og stutt er síðan farið var að bjóða upp á misserisnám í kennslufræði íslensku sem annars og erlends máls. Mikill áhugi er nú á að efla rannsóknir á þessu sviði og bæta kennsluhætti.

Horfur

Vegna stöðugt aukinna samskipta Íslendinga við aðrar þjóðir og fjölda Íslendinga, sem búa erlendis um lengri eða skemmri tíma, er ekkert sem bendir til annars en þeim útlendingum fjölgi sem vilja læra íslensku og hópur þeirra íslenskra barna, sem ættu að njóta stuðnings í íslenskunámi erlendis, muni stækka. Þótt kennslu í íslensku sem öðru eða erlendu máli hafi þokað mjög áfram á undanförnum tveimur áratugum er nauðsynlegt að efla hana enn frekar. Nú getur Háskóli Íslands tekið við flestum stúdentum sem sækja um nám í íslensku fyrir útlendinga en þó tæpast sinnt þeim svo vel sem æskilegt væri. Meira en helmingi fleiri sækja um sumarnámskeið í íslensku en unnt er að taka á móti. Margir vilja læra íslensku við erlenda háskóla en eiga ekki kost á því í heimalöndum sínum. Vefnámskeiðið Icelandic Online er mikið framfaraskref en nú nota það á degi hverjum 300–400 manns með mjög góðum árangri. En sjálfstýrt nám eða fjarkennsla á Netinu kemur þó ekki að öllu leyti í stað hefðbundinnar kennslu á staðnum og þess vegna er brýnt að áfram verði boðið upp á íslenskukennslu við erlenda háskóla og kennslan studd af íslenskum stjórnvöldum þar sem nægur fjöldi stúdenta er. Þá er einnig æskilegt að unnt verði að bjóða fleiri styrki útlendingum sem vilja læra íslensku við Háskóla Íslands, hvort sem það er í vetrarnámi eða á sumarnámskeiðum.
    Brýnt er að auka bæði fræðilegar og hagnýtar rannsóknir á íslensku sem öðru og erlendu máli, máltileinkun íslensku, tvítyngi, menningarlæsi og kennslufræði tungumálanáms. Jafnframt er nauðsynlegt að efla kennaranám. Þá er æskilegt að menn komi sér saman um merkingu fagorða sem notuð eru um íslensku sem annað og erlent mál og menningarlæsi svo að umræða um greinina verði markviss.
    Jafnframt þarf að efla kennsluefnis- og orðabókagerð en skortur á hvoru tveggja hefur gjarnan staðið íslenskukennslu nokkuð fyrir þrifum og gert ýmsum íslenskunemum námið erfitt. Fagna ber þeirri áherslu sem nú er lögð á að gera íslenskskandinavískar orðabækur innan ISLEX-verkefnisins. Væri æskilegt að verkefnið tæki til fleiri tungumála, svo sem þýsku og frönsku.

Markmið í íslenskri málstefnu
Það eitt að fjölmargir útlendingar hafa einlægan áhuga á að læra íslensku er ómetanlegur stuðningur fyrir framtíð tungumálsins. Og það er í samræmi við aukna áherslu á alþjóðasamstarf og gæslu hagsmuna okkar erlendis að styrkja hvers kyns menningarsamskipti. Íslenska ætti að vera hluti af íslenskri útrás. Íslensk málnefnd leggur því til eftirfarandi markmið:

          Að efla kennslu í íslensku erlendis þannig að sem flestir eigi kost á henni.

Það er í samræmi við íslenska málstefnu að veita sem flestum sem besta kennslu í íslensku, hvort sem þeir eru fæddir Íslendingar, útlendingar sem hafa flust til landsins eða erlendir ríkisborgarar sem vilja læra íslensku sér til gagns eða gamans. Enda styrkir kennsla í íslensku sem öðru og erlendu máli útbreiðslu tungunnar og gerir hana sterkari á alþjóðavettvangi.

          Að styðja eftir föngum rannsóknir á íslensku og íslenskum bókmenntum erlendis.

Rannsóknir, sem stundaðar eru á íslensku og íslenskum bókmenntum erlendis, efla fræðasamfélagið og útbreiðsla íslenskra bókmennta í þýðingum erlendis væri ekki hugsanleg án stuðnings þess fjölda útlendinga sem lagt hefur stund á íslenskunám og gjörva hönd að því að þýða úr íslensku á sínar tungur.

          Að íslensk börn erlendis eigi kost á vandaðri íslenskukennslu.

Það á að vera keppikefli stjórnvalda að auðvelda íslenskum börnum, sem búa erlendis um lengri eða skemmri tíma, að tileinka sér íslensku og koma til móts við foreldra þeirra með því að styrkja skólastarf á þeirra vegum, ekki síst með stuðningi við áframhaldandi starf Íslenskuskólans á Netinu. Góð þekking barnanna á íslensku máli auðveldar þeim aðlögun að íslensku samfélagi og eflir útbreiðslu íslenskrar tungu.

Aðgerðir
Til að ofangreind markmið náist leggur Íslensk málnefnd til:

          Að stefnt verði að stofnun rannsóknarstofu á háskólastigi sem hafi það hlutverk að vinna að fræðilegum og hagnýtum rannsóknum íslensku sem annars og erlends máls, máltileinkun, tvítyngi, menningarlæsi og kennslufræði og miðla þekkingu á þeim, meðal annars með því að byggja upp sérstaka námsbraut á háskólastigi í fræðum íslensku sem annars eða erlends máls og vera fræðilegur bakhjarl fyrir þróun kennsluefnis. Þessi stofa byggðist á reynslu annarra þjóða og þróaði jafnframt íslenska stefnu á sviði kennslu íslensku sem annars eða erlends máls og menningarlæsi (íslenskt líkan).
          Að myndarlega verið staðið að íslenskukennslu fyrir erlenda stúdenta og íslensk börn erlendis og stefnt verði að því að fjölga möguleikum til íslenskunáms í skólum, á kvöldnámskeiðum og í fjarnámi.
          Að leitað verði leiða til að þróa enn frekar og gefa út námsefni sem hæfir ólíkum nemendahópum, bæði í prentformi og á Netinu.
          Að leitað verði leiða til að fjölga orðabókum á Netinu.
          Að stuðlað verði að útrás íslenskunnar henni til hagsbóta með því að efla íslensk fræði við erlenda háskóla og kynningu á íslenskri bókmenningu erlendis.


LOKAORÐ


Í köflunum ellefu hér á undan liggja fyrir tillögur Íslenskar málnefndar um markmið og aðgerðir til þess að hlúa að íslenskri tungu, efla hana og styrkja þannig að íslenska verði nothæf á öllum sviðum íslensks samfélags. Staða tungunnar nú um stundir er sterk en mikilvægt er að sofna ekki á verðinum þannig að einstök umdæmi glatist og erlent mál verði þar ríkjandi. Þar eru sum svið í meiri hættu en önnur og reynsla annarra þjóða sýnir að erfitt er að vinna svið aftur sem þegar hefur tapast.
    Tungan er sameign allrar þjóðarinnar. Enginn ber jafnmikla ábyrgð á íslenskri tungu og þjóðin sjálf. Þetta vita allir innst inni. Foreldrar eru fyrirmyndir barna að góðu og vönduðu máli. Flestir foreldrar leggja sig fram við að leiðbeina börnum sínum með því að tala við þau strax frá fæðingu og lesa fyrir þau á meðan þau eru ekki fær um að lesa sjálf. En ábyrgð foreldra lýkur ekki við upphaf skólagöngu. Mikilvægi góðra málfyrirmynda tekur aldrei enda.
    Í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum eignast börnin nýjar fyrirmyndir sem eru kennarar í öllum námsgreinum og er mikilvægi þeirra óumdeilt. Ef kennarinn er góð málfyrirmynd, leiðbeinir og skýrir á vönduðu, lifandi máli, fara börn og unglingar með gott veganesti út í lífið.
    Hlutverk háskólanna í því að styðja og efla tunguna er ekki síður mikilvægt bæði í ræðu og í riti. Ef slegið er af kröfum og fræðamálið er blanda af íslensku og ensku fara stúdentar út í þjóðfélagið ófærir um að tala við samstarfsmenn, almenna borgara eða skrifa um sviðið á vandaðri íslensku. Allt skólakerfið, frá upphafi leikskóla til loka háskólanáms, þarf að vera markviss, jákvæð þjálfun í notkun íslensku. Að henni býr allt þjóðfélagið.
    Ábyrgð hvers kyns fjölmiðla er augljós. Vönduð blaða- og fréttamennska og góður yfirlestur málfarsráðunautar og prófarkalesara á að vera í fyrirrúmi á hverjum fjölmiðli. Áhrif þeirra á málnotkun eru meiri en þeir gera sér ef til vill alltaf grein fyrir.
    Tillögurnar ná til fleiri mikilvægra sviða eins og íslensku í tölvuheiminum, viðskiptum, listum, þýðingum, íslensku sem annars máls og íslensku erlendis. Hvert af þessum sviðum ber ásamt öllum hinum ábyrgð á íslenskri tungu og því að hún verði gjaldgeng hvar og hvenær sem er í íslensku þjóðfélagi. Hætturnar eru mismiklar en með samstilltu átaki má koma miklu til leiðar.
    Einn kaflinn í málstefnunni er ónefndur en hann er um stöðu íslensku í lögum. Norðurlandaþjóðirnar hafa séð nauðsyn þess í vaxandi alþjóðavæðingu að tryggja stöðu þjóðtungna sinna og því leggur málnefndin til að hugað verði að hinu sama hérlendis. Þjóðtungan er aldrei nógu vel tryggð.
    Ýmislegt af því sem lagt er til í málstefnunni kostar ekki mikið fé, sumt aðeins hvatningu, annað kallar á viðhorfsbreytingar. Sumt kostar litla vinnu, annað meiri, sum markmiðin er unnt að takast á við nú þegar, önnur eru langtímamarkmið sem þarfnast aukinna fjárveitinga. Öll markmiðin, stór og smá, eru mikilvæg til þess að þjóðin muni um ókomin ár geta haldið fast í það sem er sameign allra Íslendinga – íslenskt mál.


RITASKRÁ


Aðalnámskrá framhaldsskóla. Íslenska. 1999. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.
Aðalnámskrá grunnskóla. Íslenska. 1999. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.
Aðalnámskrá grunnskóla. Íslenska. 2007. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.
Aðalnámskrá leikskóla. 1999. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.
Almar Miðvík Halldórsson, Ragnar F. Ólafsson og Júlíus K. Björnsson. 2007. Færni og þekking nemenda við lok grunnskóla. Helstu niðurstöður PISA 2006 í náttúrufræði, stærðfræði og lesskilningi. Námsmatsstofnun, Reykjavík.
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir, Halldóra Björt Ewen, Ingibjörg Einarsdóttir og Sæmundur Helgason. 2008. Skýrsla vinnuhóps Íslenskrar málnefndar um stöðu og framtíð málstefnu í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Íslensk málnefnd, Reykjavík.
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir. 2008. Málstefna í leikskólum. Skíma 31(1):6–10. [Erindi flutt á málþingi um málstefnu og móðurmálskennslu 1. febrúar 2008. Íslensk málnefnd og Samtök móðurmálskennara, Reykjavík.]
Ari Páll Kristinsson. 1998. Handbók um málfar í talmiðlum. Málvísindastofnun Háskóla Íslands, Reykjavík.
Ari Páll Kristinsson. 2007. Málræktarfræði. Íslenskt mál og almenn málfræði 29:99–124.
Arngrímur Jónsson. 1985. Crymogæa. Þættir úr sögu Íslands. Jakob Benediktsson þýddi og samdi inngang og skýringar. Safn Sögufélags 2. Sögufélag, Reykjavík.
Ályktun um stöðu íslenskrar tungu. 2007. Á vef Íslenskrar málnefndar: www.íslenskan.is.
Ársskýrsla Ríkisútvarpsins 1985. Ríkisútvarpið, Reykjavík.
Baldur Jónsson. 2002. Málræktarspjall. Málsgreinar. Afmælisrit Baldurs Jónssonar með úrvali greina eftir hann, bls. 413–421. Íslensk málnefnd, Reykjavík.
Birna Arnbjörnsdóttir. 2006. The HB Grandi experiment. A Workplace Language Program. Karen-Margrete Frederiksen o.fl. (ritstj.): Second Language at Work, bls. 37–64. IRIS publications, Roskilde University.
Birna Arnbjörnsdóttir, Úlfar Bragason og Veturliði G. Óskarsson. 2008. Um íslensku sem annað mál, íslenskukennslu erlendis og tengslin við norrænt málsamfélag. Tekið saman að beiðni Íslenskrar málnefndar. Íslensk málnefnd, Reykjavík.
Bästa språket. En samlad svensk språkpolitik. Regeringens proposition 2005/06:2. Kulturdepartementet, Stockholm. Sjá www.regeringen.se.
Björn Gíslason, Ingimar Karl Helgason og Kristín Helga Gunnarsdóttir. 2008. Skýrsla vinnuhóps á vegum Íslenskrar málnefndar um fjölmiðla og listir. Íslensk málnefnd, Reykjavík.
Brynhildur Þórarinsdóttir, Finnur Friðriksson og Rafn Kjartansson. 2008. Skýrsla vinnuhóps II. Háskólar, vísindi og fræði og handbækur um íslensku. Íslensk málnefnd, Reykjavík.
Deklaration om nordisk språkpolitik. 2007. Nordisk Ministerråd, København. Sjá www.norden.org.
Guðlaug Guðmundsdóttir. 2008. Leiðarljós að málstefnu í skólum. Skíma 31(1):4–5. [Erindi flutt á málþingi um málstefnu og móðurmálskennslu 1. febrúar 2008. Íslensk málnefnd og Samtök móðurmálskennara, Reykjavík.]
Guðmundur B. Kristmundsson, Baldur Jónsson, Höskuldur Þráinsson og Indriði Gíslason. 1986. Álitsgerð um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum. Samin af nefnd á vegum menntamálaráðherra 1985–1986. Rit Kennaraháskóla Íslands. B-flokkur: Fræðirit og greinar I. Kennaraháskóli Íslands, Reykjavík.
Guðmundur B. Kristmundsson. 1987. Er móðurmálskennsla á krossgötum? Í Móðurmálið: Fjórtán erindi um vanda íslenskrar tungu á vorum dögum, bls. 45–49. Ólafur Halldórsson sá um útgáfuna. Vísindafélag Íslendinga, Reykjavík.
Guðrún Kvaran. 2003. Eilítið um íðorðastarf Háskóla Íslands. Málfregnir 22:21–24.
Halldór Halldórsson. 1986. Afstaða íslenzkra stjórnmálaflokka og stjórnvalda til íslenzkrar málstefnu. Ævisögur orða, bls. 219–236. Almenna bókafélagið, Reykjavík.
Halldór Halldórsson og Baldur Jónsson. 1993. Íslensk málnefnd 1964–1989. Afmælisrit. Rit Íslenskrar málnefndar 8. Íslensk málnefnd, Reykjavík.
Hulda Hreiðarsdóttir. 2008. Getur tungan leyst hugvit úr læðingi? Umfjöllun um áhrif notkunar á stýrikerfi í íslenskri þýðingu á tölvulæsi og notkun tölvunýyrða. BA-ritgerð í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands.
Höskuldur Þráinsson. 1995. Handbók um málfræði. Námsgagnastofnun, Reykjavík.
Indriði Gíslason. 1987. Hvaða kröfur þarf að gera til móðurmálskennara? Móðurmálið: Fjórtán erindi um vanda íslenskrar tungu á vorum dögum, bls. 57–61. Ólafur Halldórsson sá um útgáfuna. Vísindafélag Íslendinga, Reykjavík.
Indriði Gíslason, Baldur Jónsson, Guðmundur B. Kristmundsson, Höskuldur Þráinsson. 1988. Mál og samfélag. Iðunn, Reykjavík.
Íslensk orðabók 1–2. 2002. Þriðja útgáfa, aukin og endurbætt. Ritstjóri Mörður Árnason. Edda, Reykjavík.
Íslenska fyrir útlendinga – grunnnám. 2008. Rit 42. Menntamálaráðuneyti, Reykjavík.
Íslenska með hreim er líka íslenska. 2008. Rit 43. Menntamálaráðuneyti, Reykjavík.
Jakob Benediktsson. 1987. Arngrímur lærði og íslensk málhreinsun. Lærdómslistir. Afmælisrit 20. júlí 1987, bls. 47–68. Mál og menning – Stofnun Árna Magnússonar, Reykjavík. (Ritgerðin var áður birt í Afmæliskveðju til Alexanders Jóhannessonar 1953.)
Kjartan G. Ottósson. 1990. Íslensk málhreinsun. Sögulegt yfirlit. Rit Íslenskrar málnefndar 6. Íslensk málnefnd, Reykjavík.
Kristján Árnason. 2001. Málstefna 21. aldar. Málfregnir 20:3–9.
Málmørk. Álit um almennan málpolitikk. 2007. Málstevnunevndin og Mentamálaráðið, Tórshavn. Sjá www.tjodveldi.fo.
Málstefna – ýmsar heimildir. Á vef Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: www.arnastofnun.is.
Málstefna Háskóla Íslands. Á vef Háskóla Íslands: www.hi.is.
Málstefna Háskólans á Akureyri. Á vef Háskólans á Akureyri: www.unak.is.
Mål i mun. Förslag till handlingsprogram för svenska språket. 2002. Kulturdepartementet, Stockholm. Sjá www.sweden.gov.se.
Mål og meining. Ein heilskapleg norsk språkpolitikk. 2008. Kultur- og kyrkjedepartementet, Oslo. Sjá www.regjeringen.no.
… men ordet. Rekommendationer fra Arbejdsgruppen for sprogpolitisk redegørelse. 2001. Oqaasileriffik, Nuuk.
Norsk i hundre! Norsk som nasjonalspråk i globaliseringens tidsalder. Et forslag til strategi. 2005. Språkrådet, Oslo. Sjá www.sprakrad.no.
Samanburðarkönnun á skólakerfum á Íslandi, í Danmörku og í Svíþjóð. 2002. Unnið fyrir menntamálaráðuneytið af Allyson Mcdonald, Andreu G. Dofradóttur, Jóni Torfa Jónassyni, Michael Dal, Rögnu B. Garðarsdóttur og Þuríði Jóhannsdóttur. Félagsvísindastofnun HÍ og Rannsóknarstofnun KHÍ, Reykjavík.
Skíma. Málgagn móðurmálskennara. 8. árg., 1. tbl. 1985.
Solveig Brynja Grétarsdóttir. 2007. Málskipti – hvað skiptir máli? Rannsókn á námsframvindu 119 unglinga með annað móðurmál en íslensku í framhaldsskólum. M.Paed.- ritgerð, Háskóla Íslands, Reykjavík.
Sólveig Jakobsdóttir. 2005. Tölvumenning íslenskra skóla 1998, 2002 og 2004. Erindi flutt á vegum Rannsóknarstofnunar KHÍ, Reykjavík, 19. janúar 2005. Sjá soljak.khi.is/ erindi/tolvumenning98_02_04ust.ppt. (Sótt í janúar 2008.)
Sprog på spil. Et udspil til en dansk sprogpolitik. 2003. Kulturministeriet, København. Sjá www.kum.dk.
Sprog til tiden. Rapport fra sprogudvalget. 2008. Kulturministeriet, København. Sjá www.kum.dk.
Stefna Háskóla Íslands 2006–2011. Á vef Háskóla Íslands: www.hi.is.
Stefna Háskólans á Akureyri 2007–2011. Á vef Háskólans á Akureyri: www.unak.is.
Stefna Háskólans í Reykjavík. Á vef Háskólans í Reykjavík: www.ru.is.
Stefnuskrá Íslenskrar málnefndar 2006–2010. Íslensk málnefnd, Reykjavík. Á vef Íslenskrar málnefndar: www.íslenskan.is.
Tandefeldt, Marika. 2003. Tänk om … Svenska språknämndens förslag till handlingsprogram för svenskan i Finland. Forskningscentralen för de inhemska språken, Helsingfors. Sjá scripta.kotus.fi/www/verkkojulkaisut/tank_om/.
Tilbrigði í setningagerð. Öndvegisverkefni styrkt af RANNÍS 2005–2007. Umsjónarmaður Höskuldur Þráinsson. Háskóla Íslands, Reykjavík.
Viðmiðunarstundaskrá fyrir danska grunnskóla. us.uvm.dk/folkeskolen/fagogunder visning/undervisnings.htm?menuid=100825. (Sótt 4. október 2008.)
Viðmiðunarstundaskrá fyrir íslenska grunnskóla. bella.mrn.stjr.is/utgafur/agalmennur hluti_2006.pdf. (Sótt 6. október 2008.)
Viðmiðunarstundaskrá fyrir norska grunnskóla. www.regjeringen.no/upload/KD/ Vedlegg/Brev/brev%20til%20kommuner%20om%20fag%20og%20timefordeling%20i%20 Kunnskapsløftet.pdf. (Sótt 4. október 2008.)
Värna språken – förslag till språklag. 2008. Kulturdepartementet, Stockholm. Sjá www.sweden.gov.se.
Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir. 2004. Íslenskuskólar erlendis. Staðbundin íslenskukennsla grunnskólabarna. Óprentuð ritgerð. Sjá www.islenskuskolinn.is/ymislegt/tobba/ ritgerd_2004.pdf.
Þorlákur Karlsson og Dagný Jónsdóttir. 2008. Tungumál og málfar í viðskiptalífi og stjórnsýslu. Óútgefin skýrsla unnin fyrir Íslenska málnefnd. Reykjavík.
Þór Vilhjálmsson. 2001. Réttarreglur um íslenska tungu. Líndæla. Sigurður Líndal sjötugur 2. júlí 2001. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.