Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 187. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 558  —  187. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurbjörgu Sæmundsdóttur, Sigrúnu Ágústsdóttur og Kristínu Rannveigu Snorradóttur frá umhverfisráðuneyti, Trausta Baldursson frá Náttúrufræðistofnun, Elínu Smáradóttur og Sigurð Inga Skarphéðinsson frá Orkuveitu Reykjavíkur, Eirík Blöndal frá Bændasamtökum Íslands, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins og Helga Jensson frá Umhverfisstofnun. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Eyþingi – Sambandi sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, SASS – Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum fiskvinnslustöðva, Orkuveitu Reykjavíkur, Skipulagsstofnun, Bændasamtökunum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Norðurorku, Umhverfisstofnun, Samorku og Landssambandi sumarhúsaeigenda.
    Frumvarpinu er ætlað að afmarka réttindi og skyldur í fráveitumálum og fráveituframkvæmdum. Kveðið er á um ábyrgð og skyldur sveitarfélaga í sambandi við uppbyggingu og rekstur fráveitna en einnig um skyldur landeigenda til að sjá til þess að skólp sé hreinsað þar sem skyldum og heimildum sveitarstjórna til starfrækslu fráveitna sleppir. Meginregla frumvarpsins er að sveitarfélög beri ábyrgð á uppbyggingu, rekstri og eignarhaldi fráveitna. Þó er lagt til að lögfest sé heimild til að fela sjálfstæðum félögum í meirihlutaeigu sveitarfélaga rekstur fráveitna með svipuðum hætti og gildir um vatnsveitur, enda var við gerð frumvarpsins tekið mið af lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Frumvarpinu er einnig ætlað að tryggja að uppbygging og starfræksla fráveitna sé með þeim hætti að frárennsli valdi sem minnstum áhrifum á umhverfið.
    Þau atriði sem fengu hvað mesta umfjöllun hjá nefndinni voru gjaldtökuheimildir frumvarpsins og skilyrði fyrir skyldu sveitarfélags til skólpsöfnunar utan þéttbýlis. Þá var talsvert rætt um ákvæði er varða eignarhald fráveitna, reglur um bótaábyrgð vegna tjóns á fráveitukerfi og yfirtökuskyldu sveitarfélaga á einkaæðum.
    Í 3. gr. frumvarpsins er að finna skilgreiningar á hugtökum. Skilgreining þéttbýlis er þar hin sama og finna má í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sbr. lið 4.1.1. Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að auka ætti við skilgreininguna með hliðsjón af lið 4.1.2 um þéttbýli í skipulagsáætlun í reglugerðinni. Nefndin telur ekki þörf á að bæta við skilgreiningu með þeim hætti þar sem sveitarstjórn setur ákvæði um safnkerfi og hreinsivirki í deiliskipulag. Þar með eru fráveitumál samþætt skipulagsgerð.
    Nefndin ræddi þá afmörkun sem gerð er í 3. mgr. 4. gr., en þar er kveðið á um skyldu sveitarfélags til að sjá til þess að skólpi sé safnað á kerfisbundinn hátt utan þéttbýlis þar sem fjöldi húsa er u.þ.b. 20 á hverja 10 ha og/eða losun nemur u.þ.b. 50 persónueiningum á hverja 10 ha. Fram kom ábending um að ef tilgreina ætti viðmið í lagatexta skyldi það vera fast til að útrýma óvissu og því eðlilegt að tiltaka ákveðinn fjölda húsa og/eða persónueiningar á hverja 10 ha. Á fundum nefndarinnar kom aftur á móti fram að það þyrfti að vera svigrúm til að meta hvert tilvik fyrir sig. Landsvæði sem nýtt eru undir byggð í dreifbýli eru mismunandi og mengunarhætta mismikil og því þyrfti stundum að miða við færri hús eða persónueiningar en vísað er til í ákvæðinu. Með því að kveða ekki á um fastan húsafjölda eða einingar telur nefndin tryggt að byggð utan þéttbýlis sé ekki skipulögð með þeim hætti að hún falli rétt utan við viðmiðið og þannig sé unnt að komast undan skyldu til að ganga frá fráveitumálum í samræmi við ákvæði laganna.
    Talsverð umræða fór fram í nefndinni um heimild sveitarstjórnar til að fela stofnun eða félagi sem er í meirihlutaeigu sveitarfélags réttindi og skyldur hvað varðar uppbyggingu, rekstur og eignarhald fráveitna. Nefndin leggur þó ekki til breytingar á þessu, enda nú þegar komin reynsla á þessa skipun mála hjá vatnsveitum, og er ákvæði 6. gr. byggt á sambærilegu ákvæði laga um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004, um heimild til ráðstöfunar á einkarétti sveitarfélaga, sbr. 4. gr. laganna. Þá opnar heimildin fyrir það að félag reki fráveitur í fleiri en einu sveitarfélagi sem gerir kleift að ná fram frekari hagræðingu í rekstri.
    Samkvæmt 9. gr. frumvarpsins ber landeiganda að koma á fót fráveitu. Lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, kveða á um skyldu til að stofna félag í frístundabyggð að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Slíkt félag skal skv. 3. tölul. 19. gr. laganna m.a. taka ákvarðanir um gerð og rekstur á sameiginlegum aðveitum og fráveitum. Til að samræmi sé með lögunum leggur nefndin til að bætt verði inn í ákvæði 9. gr. frumvarpsins að skyldan til að koma á fót fráveitu hvíli einnig á félagi í frístundabyggð, sé slíkt félag til.
    Á fundum sínum ræddi nefndin gjaldtökuákvæði V. kafla frumvarpsins talsvert enda varð hún vör við þónokkra gagnrýni á gjaldtökuheimildir. Nefndin áréttar þann skilning sinn að fyrst og fremst sé um að ræða lögfestingu sem er ætlað að skýra og skerpa á þeim reglum og heimildum til gjaldtöku sem þegar eru til staðar. Ákvæðunum er ætlað að tryggja að gjaldheimta sé í samræmi við þá þjónustu sem veitt er og meginreglan því sú að gjaldtökuákvæðin hafi ekki í för með sér verulegan nýjan kostnað fyrir notendur.
    Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að íbúum væri mismunað með því að gera ráð fyrir því að tengigjald gæti verið mismunandi eftir gerð, stærð og lengd tenginga, sbr. 1. mgr. 13. gr. frumvarpsins. Nefndin telur að þau sjónarmið sem talin eru upp í greininni við ákvörðun þjónustugjalda séu málefnaleg. Eðli málsins samkvæmt geta þessi gjöld verið mishá og eðlilegt að innheimta þann kostnað sem tenging felur í sér.
    Þá kom fram sú ábending að orðalag 1. mgr. 14. gr. væri of víðtækt með því að heimila innheimtu fráveitugjalds af fasteignum sem geta tengst fráveitu. Nefndin tekur undir þetta og leggur til þá orðalagsbreytingu að heimildin nái til þeirra sem munu tengjast fráveitu.
    Einnig komu þau sjónarmið fram að ekki ætti að lögfesta heimild til að miða gjald við innrennsli vatns samkvæmt mæli og þá eftir atvikum draga frá innmældu magni vatn sem notað er til framleiðslu, sbr. 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins. Gagnrýni á gjaldtökuheimildina beindist m.a. að því að framkvæmd mælinga sem slíkt gjald byggist á sé erfið og geti reynst kostnaðarsöm ásamt því að valda óhagræði fyrir aðila. Þá geti þetta haft í för með sér aukinn kostnað fyrir atvinnustarfsemi þar sem vatn er notað í miklum mæli, m.a. til þrifa, s.s. matvælavinnslu og fiskvinnslu. Nefndin tekur undir að innheimta gjalds eftir ákvæðinu geti falið í sér hækkun fyrir einhverja en leggur jafnframt áherslu á að þá sé gjaldtakan í samræmi við magn og þar með notkun á fráveitukerfinu. Þá var bent á það á fundi nefndarinnar að rekstrarkostnaður við fráveitu er að miklu leyti háður því magni sem um hana fer en ekki hvort vatnið sé mengað eða hreint. Nefndin telur því að þessi innheimtuaðferð geti verið til bóta þar sem greitt verði fyrir þá þjónustu sem veitt er. Frumvarpið gerir að auki ráð fyrir nánari afmörkun gjaldtökunnar í gjaldskrá hvers sveitarfélags eða fráveitu og því verður ekki séð að óskýrleiki verði til staðar hvað þetta varðar.
    Því var einnig hreyft fyrir nefndinni að ákvæði 3. mgr. 14. gr. um aukagjald væri ekki nægilega skilgreint. Nefndin telur eðlilegt að gera smávægilegar breytingar á ákvæðinu þar sem bætt verði við skilgreiningu á því í hverju sérstakar aðgerðir geti einkum falist, þ.e. að tiltekið sé að þar undir sé einkum átt við sértæka hreinsun eða breytingu. Slíkt gjald geti þannig orðið hvati fyrir gjaldskyldan aðila að bæta mengunarvarnir sínar.
    Hvað 15. gr. frumvarpsins varðar telur nefndin eðlilegt að bæta viðtakarannsóknum og vöktun við upptalningu á því sem m.a. felst í rekstri fráveitu. Þar með eru tekin af öll tvímæli um að kostnaður við náttúrufarsrannsóknir og vöktun náttúru eru hluti af nauðsynlegum rekstrarkostnaði og er það í samræmi við það markmið frumvarpsins að tryggja uppbyggingu og rekstur fráveitna þannig að frárennsli valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið.
    Í 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins er kveðið á um lögveðsrétt í fasteign sem fylgir fráveitugjaldi, tengigjaldi og leigugjaldi fyrir magnmæli. Leigugjald fyrir magnmæli er þó hvergi skilgreint í lögunum eða veitt heimild fyrir því. Leggur nefndin því til að það gjald sé fellt brott úr ákvæðinu.
    Ákvæði um aðgang að fráveitu er að finna í 17. gr. frumvarpsins. Landeigandi getur skv. 3. mgr. krafist þess að fráveita sé þannig gerð að hún taki við skólpi frá eign hans, enda greiði hann allan aukakostnað sem því fylgir. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að eðlilegt væri að bæta inn slíkri heimild fyrir lóðarhafa þannig að starfsemi sem er á landi í eigu annars en rekstraraðila hafi einnig þennan rétt. Leggur nefndin til breytingu þessu til samræmis. Þá kom fram fyrir nefndinni það sjónarmið að 5. mgr. væri ekki nægilega skýr en þar er kveðið á um að ákvæði greinarinnar gildi ekki um hreinsivirki fyrir stök hús. Nefndin leggur til þá breytingu að hún gildi ekki um aðgang að hreinsivirki fyrir stök hús. Með þessu er skýrleiki ákvæðisins aukinn og tekinn af allur vafi um að landeigandi geti ekki krafist þess að tengjast m.a. hreinsivirki nágranna síns.
    Nefndinni voru kynnt þau sjónarmið að ákvæði um bótaábyrgð þess sem veldur tjóni á fráveitukerfi, sbr. 20. gr. frumvarpsins, væri of íþyngjandi. Til að mynda fríaði ákvæðið veituhafa ábyrgð í of miklum mæli og um bótaábyrgð gildi jafnframt almenn bótaskylda samkvæmt sakarreglu þegar háttsemi veldur skaða á eignum og verðmætum. Þá leyfði 14. gr. frumvarpsins innheimtu aukagjalds á frárennsli sem leiði til sérstakra aðgerða vegna mengunar. Að auki væri heimilt að setja kröfur um frárennsli í starfsleyfi til að fyrirbyggja tjón og jafnframt hefði sá sem losar í frárennsli þegar greitt frárennslisgjald vegna slits, en mörk slits og tjóns geta verið óljós. Nefndin telur eðlilegt að sá sem veldur tjóni á fráveitukerfi beri bótaábyrgð, slíkt tjón getur verið verulegt og kostnaðarsamt. Með því að leggja bótaábyrgð á þann sem veldur tjóninu má einnig leiða að því líkur að notendur fráveitukerfis gæti frekar að losun sinni og dragi úr tjónahættu sem stafi af losuninni. Þá er hlutlæg ábyrgð algeng í umhverfisrétti og hefur þegar verið innleidd í umhverfisrétt á Íslandi, t.a.m. með alþjóðlegum samningi um einkaréttarlega ábyrgð vegna tjóns af völdum olíumengunar, samningi um álbræðslu í Straumsvík, lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996, lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis, nr. 13/2001, og lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004.
    Nefndin telur að afmarka mætti til hvaða þátta reglugerðarheimild frumvarpsins nái. Það er þó vandkvæðum bundið að tiltaka efni reglugerðarinnar þannig að tæmandi sé. Því leggur nefndin til breytingu á 21. gr. frumvarpsins þar sem bætt er við ákvæðið að reglugerðin skuli kveða á um framkvæmd fráveitumála, m.a. um stjórn og fjármál fráveitu, gjaldtöku og fráveituæðar. Með þessu er ekki ætlunin að hafa tæmandi upptalningu á efni reglugerðarinnar en tiltaka þó meginefni hennar og skapa þannig ramma um reglugerðarheimildina.
    Nefndin leggur jafnframt til breytingu á gildistökuákvæði frumvarpsins. Um lagatæknilega leiðréttingu er að ræða þar sem kveðið er á um það í frumvarpinu að fella skuli niður 8. gr. a laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Sú grein hefur að geyma heimildarákvæði fyrir sveitarfélög til að reka fráveitur og kom ný inn í lögin með a-lið 1. tölul. 43. gr. vatnalaga, nr. 20/2006. Þau vatnalög hafa þó ekki enn tekið gildi og því rétt að fella niður viðeigandi ákvæði þeirra laga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 18. febr. 2009.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Kjartan Ólafsson.



Katrín Júlíusdóttir.


Sigurður Pétursson.


Jón Gunnarsson.



Árni M. Mathiesen.


Eygló Harðardóttir.


Kristinn H. Gunnarsson.