Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 198. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
2. uppprentun.

Þskj. 594  —  198. mál.
Leiðréttur texti.
Nefndarálitum till. til þál. um íslenska málstefnu.

Frá menntamálanefnd.
Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Baldur Hafstað, Ingibjörgu B. Frímannsdóttur og Sigurð Konráðsson frá Rannsóknarstofu í íslenskum fræðum og íslenskukennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, Úlfar Bragason frá alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þórarin Eldjárn frá Íslenskri málnefnd, Guðrúnu Kvaran frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Guðjón Bragason og Svandísi Ingimundardóttur frá Sambandi íslenskra sveitafélaga, Önnu Kristínu Sigurðardóttur og Önnu S. Þráinsdóttur frá menntavísindasviði Háskóla Íslands.
    Umsagnir bárust nefndinni frá stjórn Rannsóknarstofu í íslenskum fræðum og íslenskukennslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, stjórn Íslenskrar málnefndar, Háskólanum á Akureyri, alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Orðanefnd Skýrslutæknifélags Íslands, Bandalagi sjálfstæðra leikhúsa, Bandalagi atvinnuleikhópa, Orðanefnd rafmagnsverkfræðinga, málræktarsviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Ríkisútvarpinu, menntavísindasviði Háskóla Íslands, fagráði í íslensku, og Blaðamannafélagi Íslands, auk minnisblaða frá Önnu Kristínu Sigurðardóttur og Önnu S. Þráinsdóttur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu verði samþykktar sem opinber stefna í málefnum íslenskrar tungu. Þá er lagt til að Alþingi lýsi yfir stuðningi við það meginmarkið tillagna Íslenskrar málnefndar að íslenska verði notuð á öllum sviðum íslensks samfélags.
    Það er álit nefndarinnar að nauðsynlegt sé að setja markmið og móta aðgerðir til þess að hlúa að íslenskri tungu, styrkja hana og efla þannig að íslenska verði nothæf á öllum sviðum íslensks samfélags. Mikilvægt er að styrkja stöðu tungunnar og tryggja að hún glatist ekki á þeim sviðum þar sem erlent mál er ríkjandi.
    Nefndin vekur athygli á því að íslensk málstefna hlýtur að vera í stöðugri þróun og mótun og áréttar að hér er um að ræða heildarstefnu en ekki ígildi laga með bindandi áhrif. Fram undan er því vinnuferli, sem eðlilegt er að menntamálaráðherra hafi forgöngu um, við verkáætlanir og samræmingu viðhorfa á einstökum sviðum. Þar þarf m.a. að taka tillit til athugasemda sem nefndinni bárust um atriði er varða íslenskukunnáttu starfsmanna á öllum stigum skólakerfisins, um íslenskumenntun kennara og um sjálfstæði háskóla við skipulag náms.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni var mikið rætt um leiðir til að styrkja lagalega stöðu íslenskrar tungu. Nefndin telur að það þurfi að koma skýrt fram í lögum að íslenska sé hið opinbera tungumál lýðveldisins Íslands og að nauðsynlegt sé að stjórnarskrárbinda stöðu og rétt íslenskrar tungu við næstu endurskoðun á stjórnarskránni.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Fyrri málsgrein tillögugreinarinnar orðist svo:
    Alþingi ályktar að samþykkja tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu.

     Einar K. Guðfinnsson og Jón Magnússon voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 4. mars 2009.Einar Már Sigurðarson,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Mörður Árnason.Katrín Júlíusdóttir.


Höskuldur Þórhallsson.


Björk Guðjónsdóttir.Ragnheiður Ríkharðsdóttir.