Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 359. máls.

Þskj. 610  —  359. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á ýmsum lögum er varða fjármálamarkaðinn.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Á eftir 111. gr. laganna kemur ný grein, 111. gr. a, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 110. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að lækka stjórnvaldssektir á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 110. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 112. gr. d laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kæra brot ekki til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi skv. 112. gr. b telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

II. KAFLI
Breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007,
með síðari breytingum.

3. gr.

    Á eftir 142. gr. laganna kemur ný grein, 142. gr. a, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 141. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að lækka stjórnvaldssektir á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 141. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

4. gr.

    Á eftir 2. mgr. 148. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kæra brot ekki til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi skv. 145. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

III. KAFLI
Breyting á lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, nr. 30/2003,
með síðari breytingum.

5. gr.

    Á eftir 69. gr. laganna kemur ný grein, 69. gr. a, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 68. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að lækka stjórnvaldssektir á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 68. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

6. gr.

    Á eftir 2. mgr. 70. gr. d laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kæra brot ekki til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi skv. 70. gr. b telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

IV. KAFLI

Breyting á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 60/1994,
með síðari breytingum.

7. gr.

    Á eftir 99. gr. a laganna kemur ný grein, 99. gr. b, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 99. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að lækka stjórnvaldssektir á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 99. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

8. gr.

    Á eftir 2. mgr. 99. gr. f laganna, sem verður 99. gr. g, kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kæra brot ekki til lögreglu hafi einstaklingur eða fyrirtæki haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi skv. 99. gr. e telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

V. KAFLI
Breyting á lögum um miðlun vátrygginga, nr. 32/2005,
með síðari breytingum.

9. gr.

    Á eftir 62. gr. a laganna kemur ný grein, 62. gr. b, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 62. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að lækka stjórnvaldssektir á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 62. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

10. gr.

    Á eftir 2. mgr. 62. gr. f laganna, sem verður 62. gr. g, kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kæra brot ekki til lögreglu hafi einstaklingur eða fyrirtæki haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi skv. 62. gr. e telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

VI. KAFLI
Breyting á lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa, nr. 131/1997,
með síðari breytingum.

11. gr.

    Á eftir 34. gr. a laganna kemur ný grein, 34. gr. b, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 34. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að lækka stjórnvaldssektir á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 34. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

12. gr.

    Á eftir 2. mgr. 34. gr. f laganna, sem verður 34. gr. g, kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kæra brot ekki til lögreglu hafi einstaklingur eða lögaðili haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi skv. 34. gr. e telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

VII. KAFLI
Breyting á lögum um kauphallir, nr. 110/2007, með síðari breytingum.
13. gr.

    Á eftir 34. gr. laganna kemur ný grein, 34. gr. a, svohljóðandi:
    Fjármálaeftirlitinu er heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi aðili er fyrstur til að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 33. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Fjármálaeftirlitinu er einnig heimilt að lækka stjórnvaldssektir á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 33. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

14. gr.

    Á eftir 2. mgr. 39. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kæra brot ekki til lögreglu hafi einstaklingur eða lögaðili haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi skv. 37. gr. telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.

VIII. KAFLI
Breyting á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 87/1998,
með síðari breytingum.

15. gr.

    Á eftir 1. mgr. 12. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Á grundvelli heimilda í sérlögum er Fjármálaeftirlitinu heimilt að kæra brot ekki til lögreglu þegar eftirlitið veitir einstaklingi eða lögaðila niðurfellingu í samræmi við ákvæði viðkomandi laga.

16. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur að breytingum á nokkrum lögum er varða fjármálamarkaðinn og lagt til að bætt verði við ákvæðum um niðurfellingu. Með niðurfellingu er átt við að viðurlög eru milduð eða felld niður að fullu þegar lögaðili eða einstaklingur kemur sjálfviljugur fram, játar brot gegn lögum og vinnur með eftirlitsaðila við rannsókn málsins. Reglum sem þessum hefur hingað til verið beitt með góðum árangri á sviði samkeppnisréttar og þær verið taldar mjög mikilvægar í því skyni að upplýsa um ólögmætt samráð. Niðurfellingarreglur í samkeppnisrétti voru fyrst settar í Bandaríkjunum árið 1978, Evrópusambandið tók upp slíkar reglur árið 1993 og í kjölfarið hafa fjölmörg ríki tekið upp slíkar reglur í samkeppnislöggjöf sína, m.a. Ísland. Þá er í lögum nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara, að finna ákvæði um niðurfellingu við tilteknar aðstæður en niðurfellingarákvæði samkeppnislaga og laga um sérstakan saksóknara eru reifuð hér að aftan.
    Hvað varðar niðurfellingarreglur á fjármálamarkaði hafa ekki fundist nein fordæmi fyrir slíkum reglum erlendis. Það er hins vegar afar mikilvægt að lögaðilar á fjármálamarkaði fari að settum reglum og að upp komist um brot á ákvæðum laga sem allra fyrst enda oft um mikla hagsmuni að ræða. Þrátt fyrir að aðstæður séu með nokkuð öðrum hætti en í samkeppnisrétti verður að telja líklegt að tilvist niðurfellingarreglna í löggjöf á fjármálamarkaði virki hvetjandi fyrir lögaðila og einstaklinga þannig að þeir gefi sig frekar fram til að upplýsa um brot. Það er því tilefni til að láta á það reyna hvort niðurfellingarreglur geti orðið til þess að brot á ákvæðum laga um fjármálamarkaðinn upplýsist fyrr og betur.

Niðurfellingarreglur samkeppnislaga.
    Kveðið er á um niðurfellingu bæði til handa fyrirtækjum og einstaklingum í samkeppnislögum, nr. 44/2005 (skl.). Brot fyrirtækja á ákvæðum samkeppnislaga um ólögmætt samráð varða stjórnvaldssektum en brot einstaklinga varða refsisektum eða fangelsi. Skv. 37. gr. skl. leggur Samkeppniseftirlitið stjórnvaldssektir á fyrirtæki eða samtök fyrirtækja er brotið hafa gegn 10. eða 12. gr. skl. um ólögmætt samráð. Í 3. mgr. sömu greinar er kveðið á um heimildir Samkeppniseftirlitsins til að lækka sektir ef fyrirtæki hefur frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota gegn 10. eða 12. gr. sem að mati eftirlitsins eru mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum. Skv. 4. mgr. 37. gr. getur Samkeppniseftirlitið fallið frá sektarákvörðun hafi fyrirtæki verið fyrst til að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota gegn 10. og 12. gr. sem að mati eftirlitsins geta leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið mælir fyrir um í reglum.
    Samkvæmt 41. gr. a skl. skal hver starfsmaður eða stjórnarmaður fyrirtækis eða samtaka fyrirtækja sem framkvæmir, hvetur til eða lætur framkvæma samráð sem brýtur gegn 10. og 12. gr. sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum. Í 1. mgr. 42. gr. er síðan tekið fram að brot gegn lögunum sæti eingöngu rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Samkeppniseftirlitsins. Skv. 3. mgr. sömu greinar getur Samkeppniseftirlitið ákveðið að kæra ekki einstakling hafi hann, eða fyrirtæki sem hann starfar hjá eða er í stjórn hjá, haft frumkvæði að því að láta Samkeppniseftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota gegn 10. eða 12. gr. sem leitt geta til rannsóknar eða sönnunar á broti eða eru mikilvæg viðbót að mati eftirlitsins við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, enda séu nánari skilyrði uppfyllt sem Samkeppniseftirlitið mælir fyrir um í reglum.
    Hvað varðar fyrirtæki er því bæði um að ræða lækkun sekta og algjöra niðurfellingu en hjá einstaklingum er í raun eingöngu um algjöra niðurfellingu að ræða. Annað væri óeðlilegt miðað við það hvernig lögin eru upp sett enda getur stjórnvald, í þessu tilfelli Samkeppniseftirlitið, ekki bundið hendur ákæruvalds eða dómstóla við ákvörðun um málshöfðun eða ákvörðun um viðurlög. Eins og sjá má í umfjöllun hér að aftan er ekki gerður sami greinarmunur á einstaklingum og fyrirtækjum í lögum um fjármálamarkaðinn og því tilefni til að kveða bæði á um algjöra niðurfellingu fyrir einstaklinga sem og niðurfellingu að hluta.

Niðurfellingarreglur í lögum um sérstakan saksóknara.
    Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara, er ríkissaksóknara heimilt að ákveða að sá sem hefur frumkvæði að því að bjóða eða láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar eða gögn sæti ekki ákæru þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að broti hans sjálfs. Ákvæði 2. mgr. sömu greinar kveður svo á um að skilyrði niðurfellingar sé að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Þá er það einnig skilyrði að rökstuddur grunur sé um að upplýsingarnar eða gögnin tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til þess að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti. Skilyrði niðurfellingar í lögum um sérstakan saksóknara eru því mun strangari en í samkeppnislögum og strangari en þau skilyrði niðurfellingarreglna sem lögð eru til að gildi á fjármálamarkaði samkvæmt frumvarpi þessu.

Viðurlagaákvæði laga um fjármálafyrirtæki, laga um verðbréfaviðskipti, laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, laga um vátryggingastarfsemi, laga um miðlun vátrygginga, laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa og laga um kauphallir.
    Við brotum á lögum um fjármálafyrirtæki, lögum um verðbréfaviðskipti, lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lögum um vátryggingastarfsemi, lögum um miðlun vátrygginga, lögum um rafræna eignarskráningu verðbréfa og lögum um kauphallir liggja annars vegar stjórnvaldssektir og hins vegar refsisektir eða fangelsi. Lögin skilgreina hvaða brot geta varðað stjórnvaldssektum og hvaða brot geta varðað refsisektum eða fangelsi. Hins vegar er ekki gerður greinarmunur á lögaðilum og einstaklingum þegar kemur að tegund viðurlaga líkt og gert er í samkeppnislögum. Viðurlagaákvæði laganna eru sett upp með sama hætti og því er hér fjallað um þau saman.
    Samkvæmt 1. mgr. 112. gr. d laga um fjármálafyrirtæki sæta brot gegn lögunum aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins og skv. 2. mgr. sömu greinar ber Fjármálaeftirlitinu að kæra meiri háttar brot til lögreglu. Sams konar ákvæði er að finna í 148. gr. laga um verðbréfaviðskipti, 70. gr. d laga um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, 99. gr. f laga um vátryggingastarfsemi, 62. gr. f laga um miðlun vátrygginga, 34. gr. f laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa og 39. gr. laga um kauphallir. Brot telst meiri háttar ef það lýtur verulegum fjárhæðum, ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins og er skilgreiningin sú sama í öllum lögunum. Stjórnvald getur ekki bundið hendur ákæruvalds eða dómstóla við ákvörðun um málshöfðun eða ákvörðun um viðurlög og því er nauðsynlegt að kveða á um að Fjármálaeftirlitið þurfi ekki að kæra mál viðkomandi til lögreglu, hafi það ákveðið að veita aðila niðurfellingu.

Viðurlagaákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Samkvæmt 11. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi getur Fjármálaeftirlitið lagt févíti eða dagsektir á aðila sem brjóta gegn ákvæðum laganna. Í 12. gr. er svo kveðið á um að ef eftirlitsskyldur aðili, einstaklingur eða lögaðilar hafa að mati Fjármálaeftirlitsins með refsiverðum hætti gerst brotlegir við lög eða reglur sem Fjármálaeftirlitinu er falið að framfylgja og brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að kæra þau til lögreglu. Skv. 20. gr. skal fyrir brot á lögunum refsa með sektum eða fangelsi. Telja verður óþarft að setja sérstakar niðurfellingarreglur í lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Rétt er þó að kveða á um að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir í sérlögum til að falla frá því að kæra mál til lögreglu hafi það ákveðið að veita aðila niðurfellingu og er kveðið á um það í 15. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 1. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er lagt til að Fjármálaeftirlitinu verði heimilt að falla frá stjórnvaldssektarákvörðun á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi er fyrstur til að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 110. gr. ef upplýsingarnar eða gögnin geta að mati eftirlitsins leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Samkvæmt 2. efnismgr. 1. gr. frumvarpsins er Fjármálaeftirlitinu heimilt að lækka stjórnvaldssektir á hendur lögaðila eða einstaklingi ef viðkomandi hefur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta stjórnvaldssektum skv. 112. gr. b telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum er Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Einstaklingar og lögaðilar eiga því möguleika á að fá niðurfellingu hvort sem rannsókn á broti þeirra er hafin eða ekki ef þeir sjálfviljugir og að fyrra bragði ákveða að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn. Almenn samvinna einstaklings eða lögaðila vegna rannsóknar eftirlitsins dugar ekki til þess að fá niðurfellingu. Algjöra niðurfellingu geta einstaklingar eða fyrirtæki þó eingöngu fengið séu þeir fyrstir til að veita eftirlitinu upplýsingar eða gögn sem uppfylla framangreind skilyrði. Er hér farin sama leið og í samkeppnisrétti þar sem það hefur reynst vel að fyrirtæki og einstaklingar geti eingöngu fengið algjöra niðurfellingu séu þeir fyrstir til að koma fram með upplýsingar eða gögn. Eitt af meginatriðum fyrir virkni niðurfellingarreglna er að þær séu fyrirsjáanlegar og að samræmi sé í beitingu þeirra og því er kveðið á um að Fjármálaeftirlitið setji reglur um nánari skilyrði niðurfellingar.

Um 2. gr.


    Með 2. gr. frumvarpsins er lagt til að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að kæra mál ekki til lögreglu hafi fyrirtæki eða einstaklingur haft frumkvæði að því að láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn vegna brota er varðað geta sektum eða fangelsi skv. 112. gr. b telji Fjármálaeftirlitið að upplýsingarnar eða gögnin geti leitt til rannsóknar eða sönnunar á broti eða séu mikilvæg viðbót við þau sönnunargögn sem það hefur þegar í fórum sínum, að uppfylltum nánari skilyrðum sem Fjármálaeftirlitið kveður á um í reglum.
    Hvað varðar brot er varðað geta sektum eða fangelsi er því eingöngu um algjöra niðurfellingu að ræða. Annað væri óeðlilegt miðað við það hvernig lögin eru upp sett enda getur stjórnvald, í þessu tilfelli Fjármálaeftirlitið, ekki bundið hendur ákæruvalds eða dómstóla við ákvörðun um málshöfðun eða ákvörðun um viðurlög.

Um 3. gr.


    Með 3. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um verðbréfaviðskipti og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, sbr. 1. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um verðbréfaviðskipti og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.


    Með 5. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki og lög um verðbréfaviðskipti, sbr. 1. og 3. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.


    Með 6. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki og lög um verðbréfaviðskipti, sbr. 2. og 4. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.


    Með 7. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um vátryggingastarfsemi og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfaviðskipti og lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sbr. 1., 3. og 5. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.


    Með 8. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um vátryggingastarfsemi og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfaviðskipti og lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, sbr. 2., 4. og 6. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.


    Með 9. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um miðlun vátrygginga og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfaviðskipti, lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og lög um vátryggingastarfsemi, sbr. 1., 3., 5. og 7. gr. frumvarpsins.

Um 10. gr.


    Með 10. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um miðlun vátrygginga og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfaviðskipti, lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði og lög um vátryggingastarfsemi, sbr. 2., 4., 6. og 8. gr. frumvarpsins.

Um 11. gr.


    Með 11. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfaviðskipti, lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lög um vátryggingastarfsemi og lög um miðlun vátrygginga, sbr. 1., 3., 5., 7. og 9. gr. frumvarpsins.

Um 12. gr.


    Með 12. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfaviðskipti, lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lög um vátryggingastarfsemi og lög um miðlun vátrygginga, sbr. 2., 4. og 6., 8. og 10. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.


    Með 13. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um kauphallir og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfaviðskipti, lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lög um vátryggingastarfsemi, lög um miðlun vátrygginga og lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, sbr. 1., 3., 5., 7., 9. og 11. gr. frumvarpsins.

Um 14. gr.


    Með 14. gr. frumvarpsins er lagt til að sams konar ákvæði verði sett í lög um kauphallir og lagt er til að sett verði í lög um fjármálafyrirtæki, lög um verðbréfaviðskipti, lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, lög um vátryggingastarfsemi, lög um miðlun vátrygginga og lög um rafræna eignarskráningu verðbréfa, sbr. 2., 4. og 6., 8., 10. og 12. gr. frumvarpsins.

Um 15. gr.


    Lagt er til að vísað verði til þess í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi að Fjármálaeftirlitið hafi heimildir í sérlögum til þess að kæra mál ekki til lögreglu hafi eftirlitið ákveðið að veita aðila niðurfellingu í samræmi við ákvæði viðkomandi laga.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki frekari skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum
er varða fjármálamarkaðinn.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum er varða fjármálamarkaðinn og lagt til að bætt verði við ákvæðum um niðurfellingu. Með niðurfellingu er átt við að viðurlög eru milduð eða felld niður að fullu þegar fyrirtæki eða einstaklingur kemur sjálfviljugur fram, játar brot gegn lögum og vinnur með eftirlitsaðila við rannsókn málsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitinu verði gert kleift að lækka, fella niður sektir eða falla frá kæru til lögreglu ef fyrirtæki eða einstaklingar láta eftirlitinu í té upplýsingar eða gögn er varða brot á lögum á fjármálamarkaði. Markmiðið með þessum breytingum er að auka skilvirkni í því að upplýsa mál er varða brot af þessu tagi.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.