Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 361. máls.

Þskj. 612  —  361. mál.Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2007, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2007, frá 28. september 2007, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/ EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2007 frá 28. september 2007, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum.
    Um verðbréfaviðskipti annars vegar og verðbréfasjóði hins vegar gilda ólíkar Evrópugerðir; hinar svokölluðu MiFID- og UCITS-tilskipanir. Í UCITS-tilskipuninni er m.a. skilgreint í hvaða eignum verðbréfasjóðum er heimilt að fjárfesta. Frá setningu tilskipunarinnar hafa allnokkrar breytingar átt sér stað á fjármálamörkuðum. Þannig hefur tegundum fjármálagerninga t.d. fjölgað umtalsvert. Af þessum sökum þótti tilefni til setningar tilskipunar framkvæmdastjórnarinnar nr. 2007/16/EB, en í henni eru tiltekin hugtök sem fram koma í UCITS- tilskipuninni skilgreind nánar.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Vegna þess hve langt er um liðið síðan ákvörðunin var tekin og fyrirséð er að efnisleg innleiðing gerðarinnar mun dragast vegna yfirstandandi heildarendurskoðunar á lagaumhverfi fjármálamarkaðarins þykir rétt að leggja málið fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu til staðfestingar ákvörðuninni.

3. Efni gerðarinnar.
    Svokölluð UCITS-tilskipun 85/611/EBE tekur eingöngu til verðbréfasjóða ( undertakings for collective investment in transferable securities eða UCITS) sem hafa að markmiði að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í framseljanlegum verðbréfum og öðrum seljanlegum fjármálagerningum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu. Tilskipunin gerir m.a. áskilnað um að verðbréfasjóði sé einungis heimilt að binda fé sitt í seljanlegum gerningum, svo sem verðbréfum, peningamarkaðsgerningum og fjármálaafleiðum.
    Í UCITS-tilskipuninni er m.a. skilgreint í hvaða eignum verðbréfasjóðum er heimilt að fjárfesta, en skorta þótti á nánari skilgreiningu hugtaka sem þar kom fram. Með tilskipun 2007/16/EB er ekki verið að innleiða breytingar á stjórnsýslu eða rekstrarlegum skuldbindingum yfirvalda og markaðsaðila heldur að varpa ljósi á grunnviðmiðanir sem unnt er að nota við mat á því hvort tiltekinn flokkur fjármálagerninga fellur undir skilgreiningarnar eða ekki. Markmið tilskipunarinnar er þannig að tryggja einsleita beitingu ákvæða UCITS-tilskipunarinnar er kveða á um fjárfestingarheimildir verðbréfasjóða innan bandalagsins.

4. Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Með lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, voru tekin upp í íslenskan rétt ákvæði UCITS-tilskipunarinnar (85/611/EBE). Kveðið er á um fjárfestingarheimildir sjóða af umræddu tagi í 30.–42. gr. og 54. gr. laganna. Tilgangur tilskipunar 2007/16/EB er fyrst og fremst að setja niður sameiginlegan skilning á því hvort tiltekinn eignaflokkur sé hæfur sem fjárfestingarheimild verðbréfasjóðs.
    Það lagafrumvarp sem gert er ráð fyrir að leggja fram á næsta þingi mun ásamt öðrum breytingum ljúka innleiðingu á þremur UCITS-tilskipunum, 2001/107/EB, sem varðar stjórnsýslu UCITS-sjóða, 2001/108/EB, sem varðar fjárfestingarheimildir UCITS-sjóða og 2007/16/EB um breytingu á tilskipun 85/611/EBE. Þessar tilskipanir eiga það m.a. allar sameiginlegt að samræma lög og stjórnvaldsfyrirmæli um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum. Breytingar á lögum nr. 30/2003 felast fyrst og fremst í því að taka hugtakaskilgreiningar sem fram koma í UCITS-tilskipuninni upp í íslenskan rétt, þar sem lögin byggjast á UCITS- en ekki á MiFID-tilskipuninni eins og verið hefur. Verði innleiðingarfrumvarpið að lögum verður tæmandi talning á því hvaða verðbréf falla undir flokkinn „framseljanleg verðbréf“ í 2. gr. laganna.
    Með tilskipun 2007/16/EB eru sett fram sjónarmið sem eiga að auðvelda aðildarríkjunum að þróa sameiginlegan skilning á því hvort tiltekinn eignaflokkur sé hæfur fyrir verðbréfasjóð. Í gildandi lögum er vísað til laga um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, varðandi skilgreiningu á hugtakinu „framseljanleg verðbréf“. Með innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt verður framvegis stuðst við skilgreiningu á framseljanlegum verðbréfum eins og hún er sett fram í UCITS-tilskipuninni. Jafnframt er gert ráð fyrir að í 30. gr. laganna sé um að ræða tæmandi talningu á þeim fjármálagerningum sem verðbréfasjóði eða fjárfestingarsjóði er heimilt að fjárfesta í.
    Áhrifa innleiðingar tilskipunarinnar mun fyrst og fremst gæta hjá þeim sem lög um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði taka til. Er þar um að ræða starfsemi og rekstur þeirra sjóða sem hafa einkarétt til þess að veita viðtöku fé frá almenningi til sameiginlegrar fjárfestingar í fjármálagerningum, þ.e. framseljanlegum verðbréfum og öðrum lausafjáreignum á grundvelli áhættudreifingar samkvæmt fyrir fram kunngerðri fjárfestingarstefnu.
    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur verið tilkynnt um að seinkun verði á innleiðingu á efni gerðarinnar, sem þótti eðlilegt í ljósi þess að ákveðið hefur verið að fram fari heildarendurskoðun á lagaumhverfi fjármálamarkaðarins. Gert er ráð fyrir að tilskipun 2007/16/EB verði innleidd með breytingu á lögum nr. 30/2003, um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði, og með setningu reglugerðar.Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 114/2007

frá 28. september 2007

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2007 frá 6. júlí 2007 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB frá 19. mars 2007 um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


IX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.         Liðir, sem eru tölusettir sem liðir 30a, 30b, 30c, 30ca, 30caa, 30cab, 30cac, 30cb, 30d og 30e, skulu endurtölusettir sem 31. liður og liðir 31a, 31b, 31ba, 31baa, 31bab, 31bac, 31bb, 31c og 31d.

2.         Liðir undir fyrirsögninni „GERÐIR SEM SAMNINGSAÐILAR SKULU TAKA MIÐ AF“, sem eru tölusettir sem 31. til 41. liður, skulu endurtölusettir sem 32. til 42. liður.

3.         Eftirfarandi liður bætist við á eftir 30. lið (tilskipun ráðsins 85/611/EBE):

        „30a.     32007 L 0016: Tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2007/16/EB frá 19. mars 2007 um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum (Stjtíð. ESB L 79, 20.3.2007, bls. 11).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2007/16/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 29. september 2007 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.Fylgiskjal II.


TILSKIPUN FRAMKVÆMDASTJÓRNARINNAR 2007/16/EB
frá 19. mars 2007
um framkvæmd tilskipunar ráðsins 85/611/EBE um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum      verðbréfum (UCITS) að því er varðar útskýringu á tilteknum skilgreiningum
(Texti sem varðar EES)


FRAMKVÆMDASTJÓRN EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins,
með hliðsjón af tilskipun ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS) ( 1 ), einkum a-lið 53. gr. a.,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í tilskipun 85/611/EBE er að finna ýmsar skilgreiningar, stundum samtengdar, sem eru í tengslum við eignirnar sem eru hæfar sem fjárfesting fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS), hér á eftir nefnd „verðbréfasjóðir“, s.s. skilgreining á „framseljanlegum verðbréfum“ og skilgreining á „peningamarkaðsgerningum“.
2)          Frá samþykkt tilskipunar 85/611/EBE hefur fjölbreytni fjármálagerninga, sem verslað er með á fjármálamörkuðum, aukist talsvert sem leiðir til óvissu við ákvörðun um það hvort þessar skilgreiningar nái yfir tiltekna flokka fjármálagerninga. Óvissa við beitingu skilgreininga veldur ágreiningi um túlkun tilskipunarinnar.
3)          Í því skyni að tryggja samræmda beitingu tilskipunar 85/611/EBE er nauðsynlegt, til að aðstoða aðildarríkin við að þróa sameiginlegan skilning á því hvort tiltekinn eignaflokkur sé hæfur fyrir verðbréfasjóð og til að tryggja að skilningur á skilgreiningum sé í samræmi við þær meginreglur sem liggja til grundvallar tilskipun 85/611/EBE, s.s. meginreglur um áhættudreifingu og takmörkun áhættu, getu verðbréfasjóðsins til að innleysa hlutdeildarskírteini sín að ósk eigenda þessara skírteina og til að reikna hreint virði eigna hvenær sem hlutdeildarskírteini eru gefin út eða innleyst, að veita lögbærum yfirvöldum og markaðsaðilum meiri vissu í þessu tilliti. Meiri vissa auðveldar einnig tilkynningarferli varðandi flutning verðbréfasjóða yfir landamæri.
4)          Skýringarnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, hafa ekki í för með sér nýjar atferlis- eða rekstrarlegar skuldbindingar fyrir lögbær yfirvöld eða markaðsaðila. Markmiðið með þeim er ekki að setja upp tæmandi skrár yfir fjármálagerninga og viðskipti heldur varpa ljósi á grunnviðmiðanir sem unnt er að nota við mat á því hvort tiltekinn flokkur fjármálagerninga fellur undir skilgreiningarnar eða ekki.
5)          Ekki skal einungis meta hvort eign sé hæf fyrir verðbréfasjóð, með tilliti til þess hvort hún falli undir skilgreininguna, eins og hún er útskýrð í þessum texta, heldur einnig með tilliti til annarra krafna í tilskipun 85/611/EBE. Lögbær innlend yfirvöld gætu unnið saman innan samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði (CESR) að því að þróa sameiginlegar aðferðir við hagnýta, daglega beitingu þessara skýringa með tilliti til eftirlitsskyldu þeirra, nánar tiltekið í tengslum við aðrar kröfur í tilskipun 85/611/EBE, s.s. stjórnun eða áhættustjórnunaraðferðir og til að tryggja snurðulausa framkvæmd vöruvegabréfsins.
6)          Í tilskipun 85/611/EBE eru framseljanleg verðbréf eingöngu skilgreind út frá formlegum/ lagalegum sjónarhóli. Í samræmi við það gildir skilgreiningin á framseljanlegum verðbréfum um breitt svið fjármálaafurða sem hafa ólík einkenni og seljanleiki þeirra er mismunandi. Tryggja skal samræmi milli skilgreiningarinnar á framseljanlegum verðbréfum og annarra ákvæða í tilskipuninni fyrir hverja fjármálaafurð.
7)          Lokaðir sjóðir (closed end funds) mynda eignaflokk sem er ekki skýrt tilgreindur sem hæf eign fyrir verðbréfasjóð í tilskipun 85/611/ EBE. Oft er þó farið með hlutdeildarskírteini í lokuðum verðbréfasjóðum sem framseljanleg verðbréf og skráning þeirra á skipulegan markað gefur oft tilefni til slíkrar meðferðar. Því er nauðsynlegt að veita markaðsaðilum og lögbærum yfirvöldum vissu fyrir því hvort hlutdeildarskírteini í lokuðum verðbréfasjóðum falli undir skilgreininguna á framseljanlegum verðbréfum. Lögbær innlend yfirvöld gætu unnið saman innan samstarfsnefndar evrópskra verðbréfaeftirlitsyfirvalda að því að þróa sameiginlegar aðferðir við hagnýta, daglega beitingu viðmiðana um lokaða verðbréfasjóði, nánar tiltekið að því er varðar lágmarksgrunnstaðla í tengslum við aðferðir í stjórnarháttum fyrirtækja.
8)          Aukið réttaröryggi er einnig nauðsynlegt með tilliti til flokkunar á fjármálagerningum sem framseljanlegum verðbréfum þegar fjármálagerningarnir eru tengdir frammistöðu annarra eigna, þ.m.t. eignir sem ekki er getið um í tilskipun 85/611/EBE sjálfri eða þegar fjármálagerningarnir eru tryggðir með slíkum eignum. Taka skal skýrt fram að ef tengslin við þáttinn, sem liggur til grundvallar, eða við annan þátt gerningsins jafngilda þætti, sem verður að teljast innbyggð afleiða, telst fjármálagerningurinn til undirflokks framseljanlegra verðbréfa með innbyggðum afleiðuþætti. Af því leiðir að nota ber viðmiðanir um afleiður samkvæmt tilskipun 85/611/EBE að því er varðar þann þátt.
9)          Til þess að fjármálagerningur falli að skilgreiningunni á peningamarkaðsgerningum í tilskipun 85/611/EBE skal hann falla að tilteknum viðmiðunum, nánar tiltekið verður hann að fá eðlilega meðferð á peningamarkaði, hann verður að vera seljanlegur og unnt að ákvarða nákvæmlega verðmæti hans hvenær sem er. Nauðsynlegt er að tryggja að notkun þessara viðmiðana sé samræmd að teknu tilliti til ákveðinna markaðsvenja. Einnig er nauðsynlegt að skýra að viðmiðanir verða að vera í samræmi við aðrar meginreglur í tilskipun 85/611/EBE. Skilgreiningin á peningamarkaðsgerningum skal ná til fjármálagerninga sem hvorki eru skráðir né verslað með á skipulegum markaði og settar eru fram viðmiðanir um í tilskipun 85/611/EBE til viðbótar almennum viðmiðunum fyrir peningamarkaðsgerninga. Því var jafnnauðsynlegt að skýra þessar viðmiðanir í ljósi krafna um vernd fjárfesta, að teknu tilliti til meginreglna í tilskipuninni, s.s. seljanleika eignasafns eins og leiðir af 37. gr. hennar.
10)          Afleiddir fjármálagerningar skulu teljast lausafjáreignir samkvæmt tilskipun 85/611/EBE ef þeir uppfylla viðmiðanir sem settar eru fram í þeirri tilskipun. Nauðsynlegt er að tryggja að farið sé eftir þessum viðmiðunum á samræmdan hátt og einnig er nauðsynlegt að gera það ljóst að skilningur á viðmiðunum verður að samrýmast öðrum ákvæðum tilskipunarinnar. Einnig ætti að gera það ljóst að fylgi útlánaáhættuafleiður þessum viðmiðunum teljast þær afleiddir fjármálagerningar í skilningi tilskipunar 85/611/EBE og þess vegna eru þær hæfar til sömu meðferðar og farið er með lausafjáreignir.
11)          Mikilvægi skýringa er sérstaklega áríðandi að því er varðar afleiður sem byggjast á fjármálavísitölum. Um þessar mundir eru margs konar fjármálavísitölur sem hafa það hlutverk að vera grundvöllur fyrir afleiðugerninga. Þessar vísitölur geta verið breytilegar að því er varðar samsetningu eða vægi þátta í þeim. Í öllum tilvikum þarf að tryggja að verðbréfasjóðurinn geti uppfyllt skuldbindingar sínar að því er varðar seljanleika eignasafnsins, skv. 37. gr. í tilskipun 85/611/EBE, og útreikning á bókfærðu verðgildi eignar og að eiginleikar þáttanna sem liggja til grundvallar afleiðunum hafi ekki neikvæð áhrif á þær skuldbindingar. Liggja skal ljóst fyrir að í afleiðum, sem byggjast á fjármálavísitölum, sem eru þannig samsettar að þær séu með fullnægjandi dreifingu, endurspeglist viðkomandi markaður, sem þær miðast við, með fullnægjandi hætti og að við þær eigi einnig þær upplýsingar sem máli skipta um samsetningu og útreikning vísitölunnar og falla undir flokk afleiðna sem lausafjáreignir. Lögbær innlend yfirvöld gætu unnið sameiginlega innan samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði að því að þróa sameiginlegar aðferðir við hagnýta, daglega notkun þessara viðmiðana, að því er varðar vísitölur sem byggjast á eignum sem eru ekki skilgreindar í tilskipuninni sem hæfar eignir.
12)          Í tilskipun 85/611/EBE eru þau framseljanlegu verðbréf og peningamarkaðsgerningar sem fela í sér afleiðu talin sem undirflokkur framseljanlegra verðbréfa og peningamarkaðsgerninga. Með því að setja afleiðuþátt inn í framseljanlegt verðbréf eða peningamarkaðsgerning breytist fjármálagerningurinn í heild ekki í afleiddan fjármálagerning sem félli utan skilgreiningarinnar á framseljanlegu verðbréfi eða peningamarkaðsgerningi. Því er nauðsynlegt að skýrt komi fram hvort afleiddur fjármálagerningur geti talist innbyggður í öðrum gerningi. Auk þess felur það þá hættu í sér, að setja afleiðu inn í framseljanlegt verðbréf eða peningamarkaðsgerning, að sneitt sé hjá reglum um afleiður sem settar voru með tilskipun 85/611/EBE. Af þeirri ástæðu er þess krafist í tilskipuninni að innbyggður afleiðuþáttur sé skilgreindur og að farið sé að þessum reglum. Þegar höfð er hliðsjón af umfangi nýjunga á fjármálasviðinu er skilgreiningin á innbyggðum afleiðuþætti ekki alltaf augljós. Í því skyni að auka áreiðanleika í þessu tilliti skal mæla fyrir um viðmiðanir til greiningar á slíkum þáttum.
13)          Samkvæmt tilskipun 85/611/EBE falla aðferðir og gerningar, sem varða framseljanleg verðbréf eða peningamarkaðsgerninga, og hafa þann tilgang að auka skilvirkni í stýringu eignasafns, ekki undir skilgreininguna á framseljanlegum verðbréfum og peningamarkaðsgerningum. Til þess að skýra mörk þessara skilgreininga er nauðsynlegt að setja fram viðmiðanir til að skilgreina viðskiptin sem myndu falla undir þessar aðferðir og gerninga. Einnig er nauðsynlegt að minna á að skilja verður þessar aðferðir og gerninga með hliðsjón af öðrum skyldum verðbréfasjóðs, einkum að því er varðar áhættulýsingu hans. Þær verða að vera í samræmi við reglurnar sem mælt er fyrir um í tilskipun 85/611/EBE um áhættustjórnun og um áhættudreifingu, ásamt takmörkunum, sem settar eru í tilskipuninni, á skortsölu og lánum.
14)          Í tilskipun 85/611/EBE eru settar fram viðmiðanir til að skilgreina verðbréfasjóði sem endurskapa vísitölur skuldabréfa eða hlutabréfa. Verðbréfasjóðir, sem fara eftir þessum viðmiðunum, fá sveigjanlegri meðferð að því er varðar hámark fjárfestinga útgefenda. Því er nauðsynlegt að þróa skýran skilning á þessum viðmiðunum og tryggja að þeim sé beitt á samræmdan hátt í öllum aðildarríkjunum. Það felur í sér að frekari skýring sé veitt á því hvort hægt sé að telja verðbréfasjóð sem verðbréfasjóð endurskapaðrar vísitölu og skapa þar með meiri vissu um skilyrði sem réttlæta fríðindameðferð verðbréfasjóða endurskapaðrar vísitölu.
15)          Leitað hefur verið til samstarfsnefndar evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði um ráðgjöf.
16)          Ráðstafanirnar, sem kveðið er á um í þessari tilskipun, eru í samræmi við álit evrópsku verðbréfanefndarinnar.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Inntak

Í þessari tilskipun eru settar reglur til skýringar á eftirfarandi hugtökum, að því er varðar samræmda beitingu þeirra:
1.    framseljanleg verðbréf samkvæmt skilgreiningu í 8. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE,
2.    peningamarkaðsgerningar samkvæmt skilgreiningu 9. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE,
3.    lausafjáreignir, sem um getur í skilgreiningum á verðbréfasjóðnum, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE, með tilliti til afleiðufjármálagerninga,
4.    framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerningar innbyggðra afleiðna, sem um getur í 4. undirgrein 3. mgr. 21. gr. í tilskipun 85/611/EBE,
5.    aðferðir og gerningar til að auka skilvirkni í stjórnun eignasafns sem um getur í 2. mgr. 21. gr. í tilskipun 85/611/EBE,
6.    verðbréfasjóður, sem endurskapar vísitölu, sem um getur í 1. mgr. 22. gr. a í tilskipun 85/611/ EBE.

2. gr.
Ákvæði 8. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Framseljanleg verðbréf

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er til framseljanlegra verðbréfa í 8. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/ EBE sé átt við fjármálagerninga sem uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
a)    hugsanlegt tap, sem verðbréfasjóður kann að verða fyrir að því er varðar eign á þessum gerningum, takmarkast við þá fjárhæð sem hann hefur greitt fyrir þá,
b)    seljanleiki þeirra stofnar ekki getu verðbréfasjóðsins til að fara að 37. gr. í tilskipun 85/611/ EBE í hættu,
c)    áreiðanlegt mat á þeim liggur fyrir sem hér segir:
    i)    þegar um er ræða verðbréf sem hafa verið skráð eða verslað er með á skipulegum markaði, eins og um getur í a–d-lið 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, í formi nákvæms, áreiðanlegs og reglubundins verðs sem er annaðhvort markaðsverð eða verð sem er aðgengilegt með matskerfum sem eru óháð útgefendum,
    ii)    þegar um er að ræða önnur verðbréf, sem um getur í 2. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, í formi reglubundins mats sem byggt er á upplýsingum frá útgefanda verðbréfanna eða samkeppnishæfum fjárfestingarannsóknum,
d)    til eru viðeigandi upplýsingar um þau sem hér segir:
    i.    þegar um er að ræða verðbréf sem hafa verið skráð eða verslað er með á skipulegum markaði, sem um getur í a–d-lið 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, í formi reglubundinna, nákvæmra og alhliða upplýsinga til markaðarins um verðbréfin eða, þar sem við á, um verðbréfasafnið,
    ii.    þegar um er að ræða önnur verðbréf, sem um getur í 2. mgr. 19. gr. tilskipunar 85/611/ EBE, í formi reglubundinna og nákvæmra upplýsinga til verðbréfasjóðsins um verðbréf eða, þar sem við á, um verðbréfasafnið,
e)    þau eru framseljanleg,
f)    kaup þeirra samrýmast fjárfestingarmarkmiðum eða -stefnu verðbréfasjóðsins, eða hvoru tveggja, samkvæmt tilskipun 85/611/EBE,
g)    gerðar eru viðeigandi ráðstafanir með áhættustjórnunarferli verðbréfasjóðsins vegna áhættu af þeim.
Að því er varðar b- og e-lið fyrstu undirgreinar skal litið svo á að fjármálagerningar, sem eru skráðir eða verslað er með á skipulegum markaði í samræmi við a-, b- eða c-lið 1. mgr. 19. gr. tilskipunar 85/611/ EBE, nema verðbréfasjóðurinn hafi tiltækar upplýsingar sem myndu leiða til annarrar ákvörðunar, að getu verðbréfasjóðsins á að fara að 37. gr. tilskipunar 85/611/EBE sé ekki stefnt í hættu og einnig skal litið svo á að þeir séu framseljanlegir.
2.     Litið skal svo á að framseljanleg verðbréf, sem um getur í 8. mgr. 1. gr. tilskipunar 85/611/EBE, taki til eftirfarandi:
a)    hlutdeildarskírteina í lokuðum verðbréfasjóðum sem stofnaðir eru sem fjárfestingarfélög eða fjárhaldssjóðir og uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
    i.    þeir uppfylla viðmiðanirnar sem eru settar fram í 1. mgr.,
    ii.    þeir eru háðir reglum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gilda um félög,
    iii.    ef önnur eining sér um eignastýringu fyrir hönd lokaðs sjóðs heyrir sú eining undir innlendar reglur í þeim tilgangi að vernda fjárfesta,
b)    hlutdeildarskírteina í lokuðum sjóðum, sem stofnaðir eru samkvæmt samningalögum og uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
    i.    þeir uppfylla viðmiðanirnar sem eru settar fram í 1. mgr.,
    ii.    þeir eru háðir reglum um stjórnarhætti fyrirtækja sem jafngilda þeim er gilda um félög, sem um getur í ii-lið a-liðar,
    iii.    þeim stjórnar eining sem heyrir undir innlendar reglur sem miða að því að vernda fjárfesta,
c)    fjármálagerninga sem uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
    i.    þeir uppfylla viðmiðanirnar sem eru settar fram í 1. mgr.,
    ii.    þeir eru tryggðir eða tengjast hagnaði af öðrum eignum sem kunna að vera aðrar en um getur í 1. mgr. 19. gr. tilskipunar 85/611/ EBE.
3.     Ef fjármálagerningur, sem fellur undir c-lið 2. mgr., sem um getur í 10. gr. þessarar tilskipunar, inniheldur innbyggðan afleiðuþátt, skulu kröfurnar í 21. gr. tilskipunar 85/611/EBE eiga við um þann þátt.

3. gr.
Ákvæði 9. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Gerningar sem venjulega er verslað með á peningamarkaði

1.     Litið skal svo á að með peningamarkaðsgerningum í 9. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE sé átt við eftirfarandi gerninga:
a)    fjármálagerninga sem eru skráðir eða verslað er með á skipulegum markaði í samræmi við a-, b- og c-lið 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE,
b)    fjármálagerninga sem ekki eru skráðir á skipulegum markaði.
2.     Litið skal svo á að þegar vísað er í peningamarkaðsgerninga í 9. mgr. 1. gr. tilskipunar 85/611/ EBE sem gerninga, sem venjulega er verslað með á peningamarkaði, sé átt við fjármálagerninga sem uppfylla eitt eftirtalinna viðmiðana:
a)    binditími þeirra við útgáfu er 397 dagar eða skemmri,
b)    binditími þeirra sem eftir er er 397 dagar eða skemmri,
c)    þeir gangast undir reglubundna arðsemisaðlögun í samræmi við aðstæður á peningamarkaði á a.m.k. 397 daga fresti,
d)    áhættulýsing þeirra, þ.m.t. láns- og vaxtaáhætta, samsvarar þeim fjármálagerningum sem hafa binditíma, sem um getur í a- og b-lið eða eru háð arðsemisaðlögun sem um getur í c-lið.

4. gr.
Ákvæði 9. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Lausafjárgerningar sem unnt er að verðmeta nákvæmlega hvenær sem er

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er í peningamarkaðsgerninga í 9. mgr. 1. gr. tilskipunar 85/611/EBE sem lausafjárgerninga sé átt við fjármálagerninga sem unnt er að selja með litlum tilkostnaði á tiltölulega skömmum tíma, með tilliti til skyldu verðbréfasjóðsins að endurkaupa eða innleysa hlutdeildarskírteini sín að ósk eigenda þessara skírteina.
2.     Litið skal svo á að þegar vísað er í peningamarkaðsgerninga í 9. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE sem gerninga sem unnt er að verðmeta nákvæmlega hvenær sem er, sé átt við fjármálagerninga sem unnt er að meta með tiltækum, nákvæmum og áreiðanlegum verðmatskerfum sem uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
a)    þeir gera verðbréfasjóðnum kleift að reikna hreint virði eigna í samræmi við það verð, sem fengist fyrir fjármálagerning, sem er í eignasafninu, í viðskiptum milli ótengdra aðila sem eru upplýstir og fúsir til viðskiptanna,
b)    þeir byggjast annaðhvort á markaðsgögnum eða á virðislíkönum, þ.m.t. kerfi sem byggjast á afskrifuðu kostnaðarverði.
3.     Litið skal svo á að viðmiðanirnar, sem vísað er til í 1. og 2. mgr., séu uppfylltar þegar um er að ræða fjármálagerninga sem venjulega er verslað með á peningamarkaði, í skilningi 9. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE, og skráðir eru eða verslað er með á skipulegum markaði í samræmi við a-, b- og c-lið 1. mgr. 19. gr., nema verðbréfasjóðurinn hafi tiltækar upplýsingar sem myndu leiða til annarrar ákvörðunar.

5. gr.
Ákvæði h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Gerningar þar sem útgáfa eða útgefandi sætir lögbundnu eftirliti í því skyni að vernda fjárfesta og sparifé

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er í h-lið 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE til annarra peningamarkaðsgerninga en þeirra sem er verslað með á skipulegum markaði, þar sem útgáfa eða útgefandi sætir sjálfur lögbundnu eftirliti sem hefur þann tilgang að vernda fjárfesta og sparifé, sé átt við fjármálagerninga sem uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
a)    þeir uppfylla eitt af viðmiðunum sem fram koma í 2. mgr. 3. gr. og allar viðmiðanirnar sem fram koma í 1. og 2. mgr. 4. gr.,
b)    tiltækar eru viðeigandi upplýsingar um þá, þ.m.t. upplýsingar sem gera kleift að meta á viðeigandi hátt lánsáhættu í tengslum við fjárfestinguna í slíkum gerningum, með tilliti til 2., 3. og 4. mgr. þessarar greinar,
c)    þeir eru framseljanlegir án takmarkana.
2.     Þegar um er að ræða peningamarkaðsgerninga, sem annar og fjórði undirliður h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE taka til, eða peningamarkaðsgerninga, sem gefnir eru út af staðar- eða svæðisyfirvöldum aðildarríkis eða opinberri, alþjóðlegri stofnun en eru ekki með ábyrgð aðildarríkis, eða, ef um sambandsríki sem er aðildarríki er að ræða, aðildarríki sambandsríkisins, skulu viðeigandi upplýsingar, sem um getur í b-lið 1. mgr. þessarar greinar, vera eftirfarandi:
a)    upplýsingar um bæði útgefanda eða útgáfuáætlun og um lagalega og fjárhagslega stöðu útgefanda fyrir útgáfu peningamarkaðsgerningsins,
b)    regluleg uppfærsla á upplýsingum sem um getur í a-lið og ætíð þegar mikilvægir atburðir eiga sér stað,
c)    upplýsingarnar, sem vísað er til í a-lið, sannprófaðar af viðurkenndum þriðja aðila sem tekur ekki við fyrirmælum frá útgefanda,
d)    fyrirliggjandi og áreiðanlegar tölulegar upplýsingar um útgáfuna eða útgáfuáætlunina.
3.     Þegar um er að ræða peningamarkaðsgerninga, sem falla undir þriðju undirgrein h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, skulu viðeigandi upplýsingar, sem um getur í b-lið 1. mgr. þessarar greinar, vera eftirfarandi:
a)    upplýsingar um útgáfu eða útgáfukerfi eða um lagalega- og fjárhagslega stöðu útgefanda fyrir útgáfu peningamarkaðsgerningsins,
b)    regluleg uppfærsla á upplýsingum sem um getur í a-lið og ætíð þegar mikilvægir atburðir eiga sér stað,
c)    fyrirliggjandi og áreiðanlegar tölulegar upplýsingar um útgáfuna eða útgáfuáætlunina eða önnur gögn er gera viðeigandi mat á lánsáhættu í tengslum við fjárfestinguna í slíkum gerningum kleift.
4.     Þegar um er að ræða viðeigandi upplýsingar, sem um getur í b-lið 1. mgr. þessarar greinar, skulu þær taka til upplýsinga um útgáfuna eða útgáfuáætlun eða um lagalega og fjárhagslega stöðu útgefanda fyrir útgáfu peningamarkaðsgerningsins, um alla peningamarkaðsgerninga sem fyrsti undirliður h- liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE tekur til, nema þá sem um getur í 2. mgr. þessarar greinar og þeirra sem gefnir eru út af Seðlabanka Evrópu eða seðlabanka í aðildarríki.

6. gr.
Ákvæði h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Stofnun sem heyrir undir og fylgir varfærnisreglum sem lögbær yfirvöld telja a.m.k. jafnstrangar og þær sem mælt er fyrir um í lögum Bandalagsins

Litið skal svo á að þegar vísað er í stofnun sem heyrir undir og fylgir varfærnisreglum í þriðju undirgrein h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, sem lögbær yfirvöld telja a.m.k. jafnstrangar og þær sem mælt er fyrir um í lögum Bandalagsins, sé átt við útgefanda sem heyrir undir og fylgir varfærnisreglum og uppfyllir eitthvert eftirtalinna viðmiðana:
1.    hann er staðsettur á Evrópska efnahagssvæðinu,
2.    hann er staðsettur í OECD-löndum sem tilheyra iðnríkjunum tíu,
3.    hann hefur a.m.k. lánshæfismat,
4.    unnt er að sýna fram á með ítarlegri greiningu á útgefanda, að varfærnisreglur, sem eiga við þann útgefanda, séu a.m.k. jafnstrangar og þær sem mælt er fyrir um í lögum Bandalagsins.

7. gr.
Ákvæði h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Verðbréfun með stoð í lánasamningi við fjármálastofnun

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er til verðbréfunar í fjórðu undirgrein h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE sé átt við stofnanir, hvort sem um er að ræða fyrirtæki, sjóði eða saminga, sem komið er á fót í þeim tilgangi að reka starfsemi um verðbréfun.
2.     Litið skal svo á að þegar vísað er til lánasamninga við fjármálastofnun í fjórðu undirgrein h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE sé átt við bankastarfsstöð sem starfar á ábyrgð fjármálastofnunar sem sjálf er rekin í samræmi við þriðju undirgrein h-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE.

8. gr.
Ákvæði 2. mgr. 1. gr. og g-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Lausafjáreignir með tilliti til afleiðufjármálagerninga

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er til lausafjáreigna, sem um getur í 2. mgr. 1. gr. í tilskipun 85/611/EBE, að því er varðar afleiðufjármálagerninga, sé átt við afleiðufjármálagerninga sem uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
a)    skjöl þeirra sem liggja til grundvallar eru sett saman úr einu eða fleiri eftirtalinna atriða:
    i.    eignum, eins og fram kemur í 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, þ.m.t. fjármálagerningar sem hafa eitt eða fleiri einkenni þessara eigna,
    ii.    vöxtum,
    iii.    gengi erlendra gjaldmiðla eða gjaldmiðlum,
    iv.    fjármálavísitölum,
b)    þegar um er að ræða afleiður utan skipulegs verðbréfamarkaðar, að þær uppfylli skilyrðin sem eru sett fram í annarri og þriðju undirgrein g-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE.
2.     Afleiðufjármálagerningar, sem um getur í g-lið 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, skulu taka til gerninga sem uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
a)    með þeim er heimiluð yfirfærsla lánsfjáráhættu eignar, sem um getur í a-lið 1. mgr. þessarar greinar, óháð annarri áhættu sem fylgir þeirri eign,
b)    þeir hafa ekki í för með sér afhendingu eða tilfærslu eigna, þ.m.t. í reiðufé, að öðru leyti en því sem um getur í 1. og 2. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE,
c)    þeir eru í samræmi við viðmiðanirnar fyrir afleiður utan skipulegra verðbréfamarkaða sem mælt er fyrir um í annarri og þriðju undirgrein g- liðar, 1 mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE og í 3. og 4. mgr. þessarar greinar,
d)    varið er gegn áhættu vegna þeirra á viðeigandi hátt með áhættustjórnunarferli verðbréfasjóðsins og með innri eftirlitskerfum, ef um er að ræða áhættu vegna ósamhverfra upplýsinga frá verðbréfasjóðnum og mótaðila lánsfjárafleiðu sem stafar af hugsanlegum aðgangi mótaðilans að óopinberum upplýsingum um fyrirtæki þar sem eignir þess eru notaðar til grundvallar lánaafleiðum.
3.     Að því er varðar þriðju undirgrein g-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE skal litið á tilvísunina í gangvirði sem vísun í þá fjárhæð sem unnt er að selja eign fyrir eða gera upp skuld með í viðskiptum ótengdra aðila sem eru upplýstir og fúsir til viðskiptanna.
4.     Að því er varðar þriðju undirgrein g-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE skal litið svo á að með áreiðanlegu og sannreynanlegu mati sé átt við mat, unnið af verðbréfasjóðnum, sem samsvarar gangvirði, sem um getur í 3. mgr. þessarar greinar, sem byggist ekki einungis á markaðsskráningu mótaðila og uppfyllir eftirtaldar viðmiðanir:
a)    grundvöllur matsins er annaðhvort áreiðanlegt, uppfært markaðsvirði gerningsins eða, ef slíkt virði er ekki fyrir hendi, verðlagningarlíkan þar sem beitt er fullnægjandi og viðurkenndum aðferðum,
b)    sannprófunin á matinu er framkvæmd af einum af eftirfarandi aðilum:
    i)    viðeigandi þriðja aðila, sem er óháður mótaðila afleiðu utan skipulegs verðbréfamarkaðar, með hæfilegu millibili og á þann hátt að verðbréfasjóðurinn geti haft eftirlit með því,
    ii)    einingu innan verðbréfasjóðsins sem er óháð deildinni sem hefur umsjón með stýringu eignanna og er nægilega vel í stakk búin til að annast það.
5.     Litið skal svo á að lausafjáreignir, sem um getur í 2. mgr. 1. gr. og í g-lið 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, taki ekki til afleiddra vöruskuldaskjala.

9. gr.
Ákvæði g-liðar 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Fjármálavísitölur

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er til fjármálavísitalna, sem um getur í g-lið 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE sé átt við vísitölur sem uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
a)    í þeim er fullnægjandi dreifing að því leyti að eftirtaldar viðmiðanir séu uppfylltar:
    i.    vísitalan er þannig samsett að breytingar á verðlagi eða viðskiptum að því er varðar einn þátt hafa ekki óhófleg áhrif á vísitöluna í heild,
    ii.    ef vísitalan er sett saman úr eignum sem um getur í 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE er samsetning hennar a.m.k. fjölbreytileg í samræmi við 22. gr. a í þeirri tilskipun,
    iii.    ef vísitalan er sett saman úr öðrum eignum en þeim sem um getur í 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE er dreifing hennar þannig að jafngildir því sem kveðið er á um í 22. gr. a í þeirri tilskipun,
b)    í þeim endurspeglast viðkomandi markaður með fullnægjandi hætti að því leyti að eftirtaldar viðmiðanir séu uppfylltar:
    i)    vísitalan mælir á viðeigandi hátt sem skiptir máli árangur dæmigerðra undirliggjandi eigna,
    ii)    vísitalan er endurskoðuð eða þættir í henni endurvegnir reglulega til að tryggja að hún endurspegli áfram markaðina sem hún endurspeglar með því að fara eftir viðmiðunum sem eru opinberar og aðgengilegar,
    iii)    undirliggjandi eignir eru nægjanlega seljanlegar sem gerir notendum kleift að endurskapa vísitöluna sé það nauðsynlegt,
c)    þær eru birtar opinberlega og með viðeigandi hætti þannig að eftirtaldar viðmiðanir eru uppfylltar:
    i.    útgáfuferli þeirra byggir á traustum aðferðum við samantekt á verði og til útreikninga og síðan birtingar vísitölunnar, þ.m.t. aðferðir við verðlagningu fyrir þætti ef markaðsverð liggur ekki fyrir,
    ii.    mikilvægar upplýsingar, s.s. um útreikning vísitölu, aðferðir við að endurvega þætti vísitalna, breytingar á vísitölu eða hvers konar vandkvæði við framkvæmd á veitingu tímanlegra eða nákvæmra upplýsinga eru veittar á breiðum og tímanlegum grundvelli.
2.     Ef samsetning eigna, sem liggja til grundvallar afleiðusamningum í samræmi við 1. mgr. 19. gr. í tilskipun 85/611/EBE, uppfyllir ekki viðmiðanirnar, sem settar eru fram í 1. mgr. þessarar greinar, skal, ef þessir afleiðusamningar uppfylla viðmiðanirnar sem settar eru fram í 1. mgr. 8. gr. í þessari tilskipun, litið á þá sem afleiðusamninga sem eru settir saman úr eignunum er um getur í i-, ii- og iii-lið a-liðar 1. mgr. 8. gr.

10. gr.
Ákvæði fjórðu undirgreinar 3. mgr. 21. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Framseljanleg verðbréf og peningamarkaðsgerningar innbyggðra afleiðna

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er til framseljanlegra verðbréfa með innbyggðri afleiðu í fjórðu undirgrein 3. mgr. 21. gr. í tilskipun 85/611/EBE sé átt við fjármálagerninga sem uppfylla viðmiðanirnar sem settar eru fram í 1. mgr. 2. gr. í þessari tilskipun og fela í sér þátt sem uppfyllir eftirtaldar viðmiðanir:
a)    samkvæmt þeim þætti er hægt að breyta að hluta til eða öllu leyti því sjóðstreymi, sem annars væri gerð krafa um í framseljanlega verðbréfinu sem hefur hlutverk hýsilsamnings, í samræmi við tilgreinda vexti, verð fjármálagernings, gengi erlendra gjaldmiðla, vísitölu neysluverðs eða vaxta, lánshæfismat eða lánskjaravísitölu eða aðrar breytur og breytist þar af leiðandi á svipaðan hátt og sjálfstæðar afleiður,
b)    efnahagsleg einkenni og áhætta eru ekki nátengd efnahagslegum einkennum og áhættu vegna hýsilsamningsins,
c)    hann hefur umtalsverð áhrif á áhættulýsingu og verðlagningu framseljanlegra verðbréfa.
2.     Litið skal á peningamarkaðsgerninga, sem uppfylla eitt af viðmiðunum, sem settar eru fram í 2. mgr. 3. gr. og allar viðmiðanirnar sem settar eru fram í 1. og 2. mgr. 4. gr. og fela í sér þátt sem uppfyllir viðmiðanirnar sem settar eru fram í 1 mgr. þessarar greinar, sem peningamarkaðsgerninga með innbyggðri afleiðu.
3.     Ekki skal litið svo á að framseljanlegt verðbréf eða peningamarkaðsgerningur sé með innbyggða afleiðu ef það felur í sér þátt sem samkvæmt samningi er framseljanlegur óháð framseljanlegu verðbréfinu eða peningamarkaðsgerningnum. Slíkur þáttur skal teljast sérstakur fjármálagerningur.

11. gr.
Ákvæði 2. mgr. 21. gr. í tilskipun 85/611/EBE
Aðferðir og gerningar til að auka skilvirkni í stýringu eignasafns

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er til aðferða og gerninga er varða framseljanleg verðbréf, og notuð eru í þeim tilgangi að auka skilvirkni í stýringu eignasafns í 2. mgr. 21. gr. í tilskipun 85/611/EBE, sé átt við aðferðir og gerninga sem uppfylla eftirtaldar viðmiðanir:
a)    þau eiga við fjárhagslega að því leyti að þau eru innleysanleg á arðsaman hátt,
b)    þau eru gerð vegna eins eða fleiri eftirtalinna sérmarkmiða:
    i.    að draga úr áhættu,
    ii.    að lækka kostnað,
    iii.    að mynda viðbótarfjármagn eða -tekjur fyrir verðbréfasjóðinn með áhættustigi sem er í samræmi við áhættulýsingu verðbréfasjóðsins og reglur um áhættudreifingu sem mælt er fyrir um í 22. gr. í tilskipun 85/611/EBE,
c)    með áhættustjórnunarferli verðbréfasjóðsins er áhættu vegna þeirra stjórnað á viðeigandi hátt.
2.     Litið skal svo á að með aðferðum og gerningum, sem samrýmast viðmiðununum, sem settar eru fram í 1. mgr. og tengjast peningamarkaðsgerningum, sé átt við aðferðir og gerninga sem tengjast peningamarkaðsgerningum til að auka skilvirkni í stýringu eignasafns sem um getur í 2. mgr. 21. gr. í tilskipun 85/611/EBE.

12. gr.
Ákvæði 1. mgr. 22. gr. a í tilskipun 85/611/EBE
Verðbréfasjóðir endurskapaðrar vísitölu

1.     Litið skal svo á að þegar vísað er til endursköpunar á samsetningu tiltekinna hlutabréfa- eða skuldabréfavísitölu, sem um getur í 1. mgr. 22. gr. a í tilskipun 85/611/EBE, sé átt við endursköpun á samsetningu eigna sem liggja til grundvallar vísitölunni, þ.m.t. notkun afleiddra gerninga og annarra aðferða og gerninga sem um getur í 2. mgr. 21. gr. í tilskipun 85/611/EBE og í 11. gr. þessarar tilskipunar.
2.     Litið skal svo á að þegar vísað er til vísitölu sem hefur fullnægjandi dreifingu í fyrstu undirgrein 1. mgr. 22. gr. a í tilskipun 85/611/EBE, sé átt við vísitölu sem uppfyllir reglur um áhættudreifingu í 22. gr. a í þeirri tilskipun.
3.     Litið skal svo á að þegar vísað er til vísitölu sem felur í sér fullnægjandi viðmiðun, sem um getur í annarri undirgrein 1. mgr. 22. gr. a í tilskipun 85/611/EBE, sé átt við vísitölu sem er fengin með viðurkenndri aðferðafræði sem felur almennt ekki í sér útilokun stórtæks útgefanda á markaðnum sem hún á við um.
4.     Litið skal svo á að þegar vísað er til vísitölu, sem er birt opinberlega með viðeigandi hætti, sem um getur í þriðju undirgrein 1. mgr. 22. gr. a í tilskipun 85/611/EBE, sé átt við vísitölu sem uppfyllir eftirtaldar viðmiðanir:
a)    almenningur hefur aðgang að henni,
b)    vísitölumiðlarinn er óháður verðbréfasjóði endurskapaðrar vísitölu.
Ákvæði b-liðar koma ekki í veg fyrir að vísitölumiðlarar og verðbréfasjóðurinn séu innan sömu samstæðu, að því tilskildu að skilvirkt fyrirkomulag á stjórnun hagsmunaárekstra sé fyrir hendi.

13. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja og birta, í síðasta lagi 23. mars 2008, nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu þegar í stað senda framkvæmdastjórninni þessi ákvæði og samsvörunartöflu yfir viðkomandi ákvæði og þessa tilskipun.
Þau skulu beita þessum ákvæðum frá 23. júlí 2008.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau eru birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

14. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þriðja degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

15. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Brussel 19. mars 2007.

Fyrir hönd framkvæmdastjórnarinnar,
Charlie McCreevy
framkvæmdastjóri.


Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 328, 13.12.2007, bls. 32, og EES-viðbætir nr. 60, 13.12.2007, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 79, 20.3.2007, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/1/EB (Stjtíð. ESB L 79, 24.3.2005, bls. 9).