Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 171. máls.

Þskj. 190  —  171. mál.Frumvarp til laga

um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna
vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun) .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Skilgreining á norrænni handtökuskipun.

    Norræn handtökuskipun er ákvörðun sem tekin er í norrænu ríki um að biðja annað norrænt ríki um að handtaka og afhenda eftirlýstan mann vegna meðferðar á sakamáli sem getur varðað fangelsisrefsingu eða annars konar frjálsræðissviptingu í ríkinu sem hefur gefið handtökuskipunina út eða til fullnustu á fangelsisrefsingu eða annarri ákvörðun um frjálsræðissviptingu.

2. gr.
Form og innihald norrænnar handtökuskipunar.

    Handtökuskipun skal vera rituð á íslensku, dönsku, norsku, sænsku eða ensku og hafa að geyma eftirfarandi upplýsingar sem fram koma á eyðublaði fyrir norræna handtökuskipun:
     a.      persónuauðkenni og ríkisfang eftirlýsts manns,
     b.      nafn, heimilisfang, símanúmer, faxnúmer og netfang þess sem hefur gefið handtökuskipunina út,
     c.      hvort fyrir liggi endanlegur dómur, handtökuskipun eða önnur ákvörðun sem hefur sömu réttaráhrif,
     d.      tegund afbrots ásamt upplýsingum um hvar og hvenær það var framið og hver var þáttur eftirlýsts manns í því,
     e.      um dæmda refsingu eða refsiramma sem gildir um afbrotið í því ríki sem gaf handtökuskipunina út,
     f.      aðrar afleiðingar afbrotsins eftir því sem unnt er.
    Evrópsk handtökuskipun sem gefin er út af norrænu ríki í samræmi við rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um evrópska handtökuskipun og málsmeðferð um afhendingu milli aðildarríkjanna telst einnig norræn handtökuskipun.
    Nú er eftirlýstur maður skráður í Schengen-upplýsingakerfið og skal slík skráning teljast norræn handtökuskipun ef skráningin hefur að geyma þær upplýsingar sem fram koma í 1. mgr.

3. gr.
Tengsl við lög um meðferð sakamála.

    Þegar annað er ekki tekið fram í þessum lögum gilda ákvæði laga um meðferð sakamála eftir því sem við á.

II. KAFLI
Skilyrði afhendingar samkvæmt norrænni handtökuskipun.
4. gr.
Skylda til að afhenda eftirlýstan mann.

    Skylt er að afhenda mann sem eftirlýstur er í norrænni handtökuskipun nema fyrir hendi séu synjunarástæður skv. 5. eða 6. gr.
    Nú er handtökuskipunin gefin út vegna fleiri refsiverðra verknaða en eins og skal þá afhenda eftirlýstan mann þótt skilyrði fyrir afhendingu séu einungis varðandi einn af verknuðunum. Ef skyldubundin synjunarástæða skv. 5. gr. er fyrir hendi varðandi einn eða fleiri af verknuðunum skal setja það skilyrði fyrir afhendingu að eftirlýstur maður sæti ekki málsmeðferð vegna viðkomandi verknaða. Ef valkvæð synjunarástæða skv. 6. gr. er fyrir hendi er heimilt að setja slíkt skilyrði.

5. gr.
Skyldubundnar synjunarástæður.

    Eftirlýstur maður verður ekki afhentur þegar:
     a.      veitt hefur verið sakaruppgjöf hér á landi vegna sama verknaðar,
     b.      hann getur ekki sökum aldurs borið refsiábyrgð hér á landi vegna verknaðarins,
     c.      hann hefur verið dæmdur fyrir sama verknað hér á landi með endanlegum dómi og refsingin hefur þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki lengur unnt að fullnusta hana,
     d.      hér á landi liggur fyrir endanlegur dómur þar sem beitt hefur verið öryggisráðstöfunum gagnvart honum vegna sama verknaðar og þeim hefur þegar verið aflétt, verið er að framkvæma þær eða ekki lengur unnt að framkvæma þær,
     e.      hér á landi liggur fyrir endanleg viðurlagaákvörðun vegna sama verknaðar sem þegar hefur verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki lengur unnt að fullnusta hana,
     f.      mál gegn honum vegna sama verknaðar hefur verið afgreitt með ákærufrestun hér á landi nema forsendur séu til að taka mál upp að nýju, eða
     g.      ríkissaksóknari hefur upplýsingar um að honum hafi verið refsað fyrir sama verknað með endanlegum dómi í ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu eða önnur endanleg ákvörðun í slíku ríki kemur í veg fyrir frekari málsmeðferð vegna sama verknaðar og slík ákvörðun hefur verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða ekki lengur unnt að fullnusta hana.

6. gr.
Valkvæðar synjunarástæður.

    Heimilt er að synja beiðni um afhendingu á eftirlýstum manni þegar:
     a.      rannsókn vegna sama verknaðar er í gangi hér á landi og hún beinist að hinum eftirlýsta,
     b.      verknaðurinn er framinn að hluta eða að öllu leyti á íslensku yfirráðasvæði eða í íslenskri refsilögsögu og er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum,
     c.      ríkissaksóknari hefur vitneskju um að í ríki sem ekki er þátttakandi í Schengen-samstarfinu hafi honum verið refsað fyrir sama verknað með endanlegum dómi, refsingin hefur þegar verið fullnustuð, verið er að fullnusta hana eða hún er fallin niður samkvæmt lögum viðkomandi ríkis, eða
     d.      handtökuskipunin varðar fullnustu refsivistar samkvæmt dómi og sá sem er eftirlýstur er búsettur eða dvelst á Íslandi eða er íslenskur ríkisborgari og íslensk stjórnvöld skuldbinda sig til að fullnusta refsingu dómsins eða ákvörðun um frjálsræðissviptingu samkvæmt honum.

7. gr.
Skilyrt afhending.

    Þegar handtökuskipun varðar afhendingu eftirlýsts manns vegna málsmeðferðar og hann er búsettur hér á landi eða íslenskur ríkisborgari er heimilt að setja það skilyrði fyrir afhendingu að viðkomandi verði sendur aftur hingað til lands til að afplána hugsanlega refsingu.

8. gr.
Skilyrði fyrir afhendingu. Sérreglan.

    Setja skal það sem skilyrði fyrir afhendingu eftirlýsts manns að hann verði ekki framseldur eða afhentur til ríkis utan Norðurlanda vegna verknaðar sem framinn er fyrir afhendinguna nema:
     a.      hann samþykki það sjálfur,
     b.      hann hafi ekki yfirgefið landið sem hann var afhentur, enda hafi hann átt þess kost í 45 daga,
     c.      hann hafi sjálfviljugur farið aftur til landsins sem hann var afhentur eftir að hafa yfirgefið það, eða
     d.      dómsmálaráðuneytið samþykki framsalið eða afhendinguna.
    Heimilt er að hefja málsmeðferð gegn manni sem afhentur er frá Íslandi eða fullnusta refsingu gagnvart honum vegna verknaðar sem framinn er fyrir afhendingu nema:
     a.      fyrir hendi séu skyldubundnar synjunarástæður skv. 5. gr., eða
     b.      verknaðurinn sé framinn að hluta eða að öllu leyti á íslensku yfirráðasvæði eða í íslenskri refsilögsögu, hann sé ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum og ríkissaksóknari ekki veitt samþykki fyrir málsmeðferð eða fullnustunni.

III. KAFLI
Málsmeðferð vegna norrænar handtökuskipunar.
9. gr.
Framsending til ríkissaksóknara.

    Handtökuskipun frá öðru norrænu ríki skal send til ríkissaksóknara. Nú berst handtökuskipun til annars stjórnvalds hér á landi og skal það þá strax framsenda hana til ríkissaksóknara og tilkynna þeim sem gaf handtökuskipunina út um framsendinguna.

10. gr.
Handtaka, gæsluvarðhald og beiting annarra þvingunarráðstafana.

    Ríkissaksóknari skal þegar gera ráðstafanir til að eftirlýstur maður verði handtekinn, nema ljóst sé að synja beri um afhendingu skv. 5. gr. eða að hennar verði synjað skv. 6. gr. Við handtöku skal eftirlýstur maður upplýstur um handtökuskipunina, um hugsanlega málsmeðferð vegna annarra verknaða, um þýðingu samþykkis fyrir afhendingu og hann spurður hvort hann samþykki afhendingu. Jafnframt skal honum skipaður verjandi.
    Nú er eftirlýstur maður ekki afhentur í beinu framhaldi af handtöku og skal þá gera kröfu um að hann sæti gæsluvarðhaldi. Við mat á beiðni um gæsluvarðhald skal dómur leggja til grundvallar upplýsingar í handtökuskipuninni nema þær séu augljóslega rangar. Þegar fallist er á beiðni um gæsluvarðhald skal því ekki markaður lengri tími en tvær vikur, sem heimilt er að framlengja um sama tíma í hvert sinn. Þessi tímamörk gilda ekki þegar fyrir liggja fleiri ósamrýmanlegar handtökuskipanir eða framsalsbeiðnir eða viðkomandi hefur verið framseldur hingað til lands frá ríki utan Norðurlanda. Beita má vægari þvingunarráðstöfunum þegar þær teljast fullnægjandi til að koma í veg fyrir að eftirlýstur maður strjúki. Frestur til að kæra úrskurð um gæsluvarðhald eða beitingu annarra þvingunarráðstafana til Hæstaréttar er einn sólarhringur.

11. gr.
Forréttindi og friðhelgi.

    Nú nýtur eftirlýstur maður forréttinda eða friðhelgi varðandi málsmeðferð eða fullnustu refsingar hér á landi og skal ríkissaksóknari þá strax senda viðkomandi stjórnvöldum beiðni um að afnema forréttindin eða friðhelgina.

12. gr.
Afhending á eftirlýstum manni sem áður hefur verið afhentur eða framseldur til Íslands.

    Nú hefur eftirlýstur maður verið afhentur hingað til lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar og er þá heimilt að afhenda hann áfram til annars norræns ríkis á grundvelli norrænnar handtökuskipunar vegna refsiverðs verknaðar sem framinn var fyrir afhendingu hingað.
    Nú hefur eftirlýstur maður verið framseldur hingað til lands frá ríki utan Norðurlanda og skal viðkomandi þá ekki afhentur ef það gengur gegn skilyrðum framsals hingað. Í slíkum tilvikum skal senda beiðni til viðkomandi ríkis og óska eftir samþykki til afhendingar.

13. gr.
Ákvörðun um afhendingu.

    Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu á eftirlýstum manni.
    Nú samþykkir eftirlýstur maður afhendingu og skal ríkissaksóknari þá strax og í síðasta lagi innan þriggja sólarhringa frá því að samþykki var gefið taka ákvörðun um hvort skilyrði séu fyrir afhendingu. Eftirlýstur maður getur einnig samþykkt málsmeðferð vegna annarra refsiverðra verknaða sem framdir voru fyrir afhendingu. Samþykki skal vera skriflegt og gefið eftir að viðkomandi hefur verið upplýstur um þýðingu samþykkis. Unnt er að afturkalla samþykki. Samþykki um málsmeðferð vegna annarra refsiverðra verknaða verður einungis afturkallað að samþykki um afhendingu sé afturkallað.
    Nú vill ríkissaksóknari afhenda eftirlýstan mann í samræmi við beiðni í handtökuskipun en hann samþykkir ekki afhendingu eða dregur samþykki til baka fyrir afhendingu og skal málið þá lagt fyrir héraðsdóm. Með úrskurði ákveður héraðsdómur hvort skilyrði séu til afhendingar. Ef unnt er skal fjallað um það atriði í sama þinghaldi og þegar fjallað er um beiðni um gæsluvarðhald. Þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun skulu lagðar til grundvallar nema þær séu augljóslega rangar. Heimilt er að kæra úrskurð til Hæstaréttar samkvæmt almennum reglum um meðferð sakamála að öðru leyti en því að kærufrestur er einn sólarhringur. Kæra frestar afhendingu. Ef dómur úrskurðar að skilyrði séu til afhendingar ákveður ríkissaksóknari innan þriggja sólarhringa hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu. Ef unnt er skal ákvörðun um afhendingu á eftirlýstum manni í þessum tilvikum tekin innan 30 daga frá handtöku.
    Frestir skv. 2. og 3. mgr. byrja ekki að líða fyrr en ríkissaksóknari hefur móttekið fullnægjandi upplýsingar til að taka ákvörðun. Nú nýtur eftirlýstur maður forréttinda eða friðhelgi hér á landi vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipuninni og byrjar frestur í slíkum tilvikum ekki að líða fyrr en forréttindin eða friðhelgin hafa verið afnumin. Nú eiga ákvæði 2. mgr. 12. gr. við og byrja frestir þá ekki að líða fyrr en viðkomandi ríki hefur veitt samþykki sitt.
    Ef ekki reynist í sérstökum tilvikum unnt að taka ákvörðun í máli innan tilgreindra fresta skal ríkissaksóknari strax skýra þeim sem gaf handtökuskipun út frá því.
    Ákvörðun ríkissaksóknara um afhendingu á eftirlýstum manni er endanleg.
    Nú liggur ákvörðun um afhendingu fyrir og skal ríkissaksóknari þá þegar tilkynna það til þess aðila sem gaf handtökuskipunina út.
    Ráðherra getur sett reglur um upplýsingagjöf til eftirlýsts manns og samþykki.

14. gr.
Ákvörðun um afhendingu þegar beiðnum lýstur saman.

    Nú liggja fleiri en ein norræn handtökuskipun fyrir varðandi sama einstakling og ákveður ríkissaksóknari þá við hvaða beiðni verður orðið.
    Þegar framsalsbeiðni frá ríki utan Norðurlanda liggur fyrir til viðbótar við eina eða fleiri norrænar handtökuskipanir ákveður dómsmála- og mannréttindaráðuneytið við hvaða beiðni verður orðið.
    Við mat á því við hvaða handtökuskipun eða framsalsbeiðni skuli orðið skal taka tillit til grófleika afbrots, hvar það var framið, hvenær handtökuskipanirnar voru gefnar út og hvort þær eru gefnar út vegna málsmeðferðar eða til fullnustu refsingar.

15. gr.
Frestur til afhendingar.

    Þegar endanleg ákvörðun um afhendingu liggur fyrir skal afhenda eftirlýstan mann eins fljótt og unnt er og í síðasta lagi fimm sólarhringum eftir að ákvörðunin um afhendingu var tekin. Nú er ekki unnt vegna sérstakra aðstæðna að afhenda eftirlýstan mann innan framangreindra tímamarka og skal ríkissaksóknari þá strax semja um nýjan frest við þann sem gaf handtökuskipunina út.
    Heimilt er að fresta afhendingu vegna mjög mikilvægra mannúðarástæðna.

16. gr.
Frestur og tímabundin afhending.

    Heimilt er að fresta afhendingu eftirlýsts manns vegna máls hér á landi gegn honum vegna annars refsiverðs verknaðar eða vegna fullnustu refsingar vegna annars afbrots.
    Í stað þess að fresta afhendingu er heimilt að afhenda eftirlýstan mann tímabundið samkvæmt skilyrðum sem samið er um í skriflegu samkomulagi milli ríkissaksóknara og þess sem gaf handtökuskipunina út.

IV. KAFLI
Afhending til Íslands.
17. gr.
Útgáfa norrænnar handtökuskipunar.

    Ríkissaksóknari getur gefið út handtökuskipun sem send er til annars norræns ríkis vegna meðferðar máls gegn eftirlýstum manni þegar grunur leikur á að hann hafi framið refsiverðan verknað sem getur varðað fangelsisrefsingu. Sama gildir um fullnustu refsingar þegar fyrir liggur endanlegur dómur sem felur í sér fangelsisrefsingu eða aðra frjálsræðissviptingu.
    Efni og form handtökuskipunar skal vera í samræmi við 2. gr. og skal hún send til þess stjórnvalds sem samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkis er bært til að taka á móti handtökuskipun.

18. gr.
Frádráttur gæsluvarðhalds við fullnustu refsingar.

    Nú er eftirlýstur maður sendur hingað til lands vegna fullnustu á refsingu hér á landi og skal þá draga frá refsingunni þann tíma sem hann var sviptur frjálsræði vegna meðferðar beiðninnar um afhendingu í því ríki sem tók á móti handtökuskipuninni. Sama gildir þegar eftirlýstur maður er afhentur vegna málsmeðferðar verði hann dæmdur í fangelsisrefsingu hér á landi vegna þess verknaðar sem tilgreindur er í handtökuskipuninni.

19. gr.
Málsmeðferð vegna annars refsiverðs verknaðar.

    Sækja má þann til saka sem fluttur er hingað til lands fyrir önnur afbrot en þau sem hann er afhentur vegna, framin fyrir afhendinguna, nema:
     a.      í því ríki sem afhenti viðkomandi eigi við þau atriði er greinir í a–f-lið 5. gr. eða fyrir liggi upplýsingar um atriði er greinir í g-lið 5. gr., eða
     b.      verknaðurinn sé að hluta eða í heild framinn á landsvæði þess ríkis sem afhenti viðkomandi eða á stað sem jafna má til þess og verknaðurinn sé ekki refsiverður samkvæmt löggjöf þess ríkis nema það ríki samþykki málsmeðferðina.
    Þrátt fyrir að ákvæði í b-lið 1. mgr. séu ekki uppfyllt er heimilt að sækja þann til saka sem afhentur er hingað til lands vegna afbrota sem framin eru fyrir afhendinguna þegar:
     a.      hann hefur ekki yfirgefið landið, enda hafi hann getað gert það í 45 daga, eða
     b.      hann hefur komið sjálfviljugur til baka til landsins eftir að hafa yfirgefið það, eða
     c.      hann hefur fyrir eða eftir afhendinguna samþykkt málsmeðferð vegna annarra verknaða.

20. gr.
Framsal einstaklings sem afhentur er hingað til lands frá öðru norrænu ríki.

    Einungis er heimilt að framselja mann, sem afhentur hefur verið hingað til lands, til þriðja ríkis að:
     a.      sá sem er eftirlýstur samþykki það,
     b.      sá sem er eftirlýstur hafi ekki yfirgefið landið, enda hafi hann getað gert það í 45 daga,
     c.      sá sem er eftirlýstur hafi komið sjálfviljugur til baka til landsins eftir að hafa yfirgefið það, eða
     d.      ríkið sem afhenti eftirlýstan mann hingað til lands samþykki frekara framsal.
    Dómsmála- og mannréttindaráðuneytið tekur ákvörðun um frekara framsal til ríkis utan Norðurlanda samkvæmt ákvæðum í almennum lögum um framsal sakamanna.

V. KAFLI
Önnur ákvæði í sambandi við afhendingu.
21. gr.
Haldlagning og afhending muna.

    Ríkissaksóknari skal láta leggja hald á mun og afhenda hann þegar munurinn telst hafa þýðingu sem sönnunargagn í málinu sem tilgreint er í handtökuskipuninni eða er ágóði af refsiverða verknaðinum. Sama gildir þegar eftirlýstur maður er látinn eða horfinn.
    Ríkissaksóknari getur látið halda muninum, sbr. 1. mgr., eða afhent hann tímabundið þegar það telst hafa þýðingu vegna sönnunar í tengslum við mál sem rekið er hér á landi.
    Afhending hefur ekki áhrif á gildandi réttindi varðandi muninn. Heimilt er að setja skilyrði fyrir afhendingu ef það er nauðsynlegt til að verja slík réttindi.

22. gr.
Gegnumflutningur.

    Heimilt er að flytja mann sem Danmörk, Finnland, Noregur eða Svíþjóð afhendir til eins af þessum ríkjum um íslenskt yfirráðasvæði án sérstaks samþykkis.

VI. KAFLI
Lokaákvæði.
23. gr.
Gildistaka.

    Ráðherra ákveður hvenær lög þessi öðlast gildi gagnvart hverju ríki sem um getur í 1. gr. Við gildistöku laga þessara falla brott lög um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.

24. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      6. gr. laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69/1963, orðast svo:
                  Nú er maður fluttur samkvæmt ákvæðum 5. gr. til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar til að afplána fangelsisrefsingu og skal þá, eftir því sem við á, farið eftir ákvæðum 8. gr. laga um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).
     2.      Eftirfarandi breytingar verða á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13/1984, með síðari breytingum:
              a.      3. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
                     Samþykki til að viðkomandi maður verði framseldur áfram til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar er þó heimilt að veita ef fyrir hendi eru skilyrði laga um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).
              b.      2. mgr. 21. gr. laganna fellur brott.
              c.      3. málsl. 4. mgr. 22. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 15/2000, orðast svo: Varðandi beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð gildir ekki heldur fyrra skilyrði 1. málsl.
              d.      4. málsl. 3. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Fyrsti málsliður gildir ekki varðandi beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Nú er beiðni um framsal sakamanns til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar móttekin fyrir gildistöku laga þessara og fer þá um meðferð hennar samkvæmt lögum um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Almennt.
    Frumvarp þetta er samið á vegum dómsmálaráðuneytisins.
    Í frumvarpi þessu eru ný ákvæði um framsal (afhendingu) sakamanna vegna málsmeðferðar og til fullnustu refsingar á milli norrænu ríkjanna og er þeim ætlað að leysa af hólmi lög um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962. Í frumvarpinu er lagt til einfaldara og skilvirkara fyrirkomulag um afhendingu sakamanna á milli norrænu ríkjanna en samkvæmt gildandi lögum. Ákvæði frumvarpsins byggjast á samningi um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun) sem undirritaður var 15. desember 2005 (hér eftir nefndur samningurinn).
    Gildandi fyrirkomulag um framsal sakamanna á milli Norðurlandanna byggist á samræmdri löggjöf. Nú dvelst maður hér á landi sem í öðru norrænu ríki er grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað og getur þá það ríki sent framsalsbeiðni til dómsmálaráðuneytisins sem tekur ákvörðun um framsal. Beiðnin getur bæði verið vegna meðferðar máls eða fullnustu refsingar. Í reynd er unnt að synja um framsal án þess að gefa upp sérstakar ástæður fyrir því.
    Samningurinn byggist á því að núverandi valkvæða framsalskerfið milli Norðurlandanna verði aflagt og tekið verði upp fyrirkomulag um afhendingu manna sem byggt er á gagnkvæmri viðurkenningu á ákvörðunum dómsmálayfirvalda viðkomandi ríkja. Hugtakinu „framsal“ er skipt út fyrir „afhendingu“ til að leggja áherslu á kerfisbreytinguna. Sambærileg breyting var gerð með rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um evrópska handtökuskipun og málsmeðferð um afhendingu milli aðildarríkjanna (2002/584/RIA). Rammaákvörðunin notar enska orðið „surrender“ í staðinn fyrir „extradition“. Norræni samningurinn byggist á rammaákvörðuninni. Nánar verður gerð grein fyrir rammaákvörðuninni í II. kafla þessara athugasemda.
    Afhendingarfyrirkomulagið er í fjórum grundvallaratriðum frábrugðið framsalsfyrirkomulaginu. Í fyrsta lagi kemur norræn handtökuskipun í stað venjubundinnar framsalsbeiðni. Í öðru lagi ber ríki sem tekur á móti norrænni handtökuskipun að handtaka og afhenda eftirlýstan mann því ríki sem gaf beiðnina út nema til staðar séu nánar tilgreindar synjunarástæður. Í þriðja lagi er dómsmálaráðuneytunum ekki blandað í málsmeðferðina. Í samningnum er miðað við að ákæruvaldið eða önnur stjórnvöld sem tilnefnd eru skuli gefa handtökuskipun út, taka á móti og fjalla um hana og taka ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu eða ekki. Mál vegna afhendingar manns á grundvelli handtökuskipunar skal því aðeins lagt fyrir dómstól að eftirlýstur maður samþykki ekki afhendingu. Í fjórða lagi gilda stuttir frestir fyrir málsmeðferð og afhendingu á manni sem er eftirlýstur í norrænni handtökuskipun.
    Sú málsmeðferð sem frumvarpið byggist á felur í sér verulega einföldun frá því fyrirkomulagi sem nú gildir varðandi framsal sakamanna milli Norðurlandanna. Afhendingarfyrirkomulagið á að vera árangursríkara tæki í baráttu gegn afbrotum.
    Þörfin fyrir nýtt fyrirkomulag um framsal byggist m.a. á því að í auknum mæli eiga afbrot sér ekki landamæri og eru skipulögð. Árangursrík barátta gegn afbrotum á svæði þar sem frjáls för ríkir gerir þá kröfu að eitt ríki setji ekki upp hindranir vegna rannsóknar eða málsmeðferðar í sakamálum.
    Í 4. kafla samningsins eru ákvæði um sérstakar reglur um afhendingu til og frá Íslandi. Þar eru ákvæði um að þrengja megi gildissvið samningsins eins og það er skýrt í 2. gr. hans þegar um er að ræða afhendingu milli Íslands annars vegar og Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar hins vegar að því leyti að synja megi um afhendingu nema eftirlýstur maður hafi síðastliðin tvö ár fyrir framningu refsiverðs verknaðar verið búsettur í landinu sem gaf handtökuskipunina út eða verknaðurinn eða sambærilegur verknaður varði þyngri refsingu en 4 ára fangelsi. Þá megi synja um afhendingu á íslenskum ríkisborgurum vegna stjórnmálabrota og ríkisborgurum annarra ríkja vegna stjórnmálaafbrota nema verknaðurinn eða sambærilegur verknaður sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann. Ákvæði frumvarpsins gera ekki ráð fyrir að heimilt verði að synja um afhendingu á eftirlýstum manni þó að þessar aðstæður séu til staðar og er gert ráð fyrir að við fullgildingu samningsins verði því lýst yfir að íslensk stjórnvöld muni ekki beita takmörkunum á afhendingu á eftirlýstum mönnum samkvæmt þessum ákvæðum samningsins.

II. Um bakgrunn samningsins.
    Eins og áður er fram komið byggist samningurinn á rammaákvörðun ráðs Evrópusambandsins frá 13. júní 2002 um evrópska handtökuskipun og málsmeðferð um afhendingu milli aðildarríkjanna (2002/584/RIA). Rammaákvörðunin hefur frá 1. janúar 2004 komið í stað eldri samninga um framsal sakamanna milli aðildarríkjanna. Samningur Evrópuráðsins um framsal sakamanna frá 13. desember 1957 ásamt bókunum er grundvallarsamningur á þessu sviði. Schengen-samningurinn frá 19. júní 1990 bætir og einfaldar beitingu samningsins. Í rammaákvörðuninni er kynnt til sögunnar kerfisbreyting varðandi afhendingu sakamanna milli ríkja sem kemur í stað hefðbundins framsalsfyrirkomulags. Rammaákvörðunin byggist á gagnkvæmri viðurkenningu og trausti ríkja á réttarkerfum hvers annars. Með ákvörðuninni er sett á laggirnar einfaldara og árangursríkara fyrirkomulag varðandi afhendingu á sakamönnum á milli landa en hefðbundið framsalsfyrirkomulag. Að hluta eða öllu leyti er fallið frá hefðbundnum ástæðum fyrir að synja framsals, s.s. banni við framsali eigin ríkisborgara og kröfu um að verknaður skuli einnig vera refsiverður í ríki sem beðið er um framsal. Til að gera kerfið árangursríkara byggist rammaákvörðunin á annarri málsmeðferð en í venjubundnum framsalsmálum. Þetta nýja kerfi virðist t.d. sækja fyrirmyndir í gildandi fyrirkomulag á Norðurlöndum í framsalsmálum varðandi bein samskipti milli dómstóla ríkjanna og ákæruvaldshafa. Dómsmálaráðuneyti ríkjanna taka ekki lengur ákvarðanir um afhendingu sakamanna og eru ákvarðanir því ekki teknar af pólitísku stjórnvaldi. Meginreglan er að aðildarríkin skuldbinda sig til að framfylgja handtökuskipun. Rammaákvörðunin hefur leitt til þess að afhendingum manna milli ríkja Evrópusambandsins vegna refsiverðra verknaða hefur fjölgað og ganga greiðar en áður.
    Danmörk, Finnland og Svíþjóð hafa verið aðilar að evrópsku handtökuskipuninni frá árinu 2002. Af þeirri ástæðu ákváðu dómsmálaráðherrar Norðurlanda á fundi sínum á Svalbarða 25. júní 2002 að endurskoða gildandi framsalsfyrirkomulag á milli Norðurlanda. Markmiðið með endurskoðuninni var að norræna framsalsfyrirkomulagið yrði eftir endurskoðun á öllum sviðum að minnsta kosti jafnvíðtækt og árangursríkt og evrópska handtökuskipunin. Samningurinn var síðan samþykktur á fundi dómsmálaráðherra Norðurlandanna í Skagen 21. júní 2005 og undirritaður í Kaupmannahöfn 15. desember 2005. Á nokkrum sviðum leggur samningurinn víðtækari skyldur á samningsaðila en evrópska handtökuskipunin í þeim tilgangi að gera málsmeðferð vegna afhendingar árangursríkari. Má þar til nefna að krafan um tvöfalt refsinæmi er aflögð, sem þýðir að ríki sem tekur á móti norrænni handtökuskipun getur ekki neitað afhendingu á þeirri forsendu að verknaðurinn sem tilgreindur er í beiðninni sé ekki refsiverður í viðkomandi ríki, ekki er lengur gerð krafa um að verknaður varði tilgreindri lágmarksrefsingu, ekki er gerður greinarmunur á eigin ríkisborgurum og erlendum, valfrjálsar synjunarástæður eru færri, styttri frestir til ákvörðunar og afhendingar og í ríkari mæli er hægt að sækja þann sem er afhentur til saka fyrir önnur afbrot framin fyrir afhendingu.

III. Um innihald samningsins.
    Samningurinn er í fimm köflum. Í fyrsta kafla er fjallað um almennar meginreglur, í öðrum kafla um málsmeðferð við afhendingu, í þriðja kafla um réttaráhrif afhendingar, í fjórða kafla um sérreglur um afhendingu til og frá Íslandi og í fimmta kafla eru almenn ákvæði og lokaákvæði.
    Í formála samningsins segir að það sé sameiginlegt markmið Norðurlanda að taka upp þjálli löggjöf á þessu sviði og innleiða fyrirkomulag byggt á norrænni handtökuskipun í stað núverandi framsalsfyrirkomulags. Samningurinn byggist á meginreglum um frelsi, lýðræði og virðingu fyrir mannréttindum og hvílir á því mikla trausti sem ríkir á milli Norðurlanda.
    Í fyrstu grein er skilgreining á norrænni handtökuskipun og þar kemur fram skyldan til að afhenda eftirlýstan mann. Norræn handtökuskipun er ákvörðun stjórnvalds í réttarkerfinu sem tekin er í norrænu ríki í þeim tilgangi að annað ríki handtaki og afhendi ríkinu sem gaf handtökuskipunina út eftirlýstan mann vegna málsmeðferðar eða til fullnustu fangelsisrefsingar.
    Í annarri grein er fjallað um gildissvið samningsins. Unnt er að gefa norræna handtökuskipun út vegna afbrota sem geta varðað frjálsræðissviptingu eða til að fullnusta slíka refsingu.
    Í þriðju grein er fjallað um dómsmálayfirvöld, miðlægt stjórnvald og skilgreiningu á þriðja ríki.
    Í fjórðu grein eru tilgreindar þrjár skyldubundnar ástæður sem leiða til þess að synja beri um framkvæmd norrænnar handtökuskipunar. Þessar ástæður eru að veitt hafi verið sakaruppgjöf vegna verknaðarins í ríkinu sem á að framkvæma handtökuskipunina, að eftirlýstur maður hafi þegar verið dæmdur fyrir sama verknað í ríkinu sem á að framkvæma handtökuskipunina eða hann geti ekki sætt refsiábyrgð vegna ungs aldurs.
    Í fimmtu grein eru tilgreindar fimm valkvæðar synjunarástæður. Þær eru í fyrsta lagi að málsmeðferð sé þegar í gangi vegna þess verknaðar sem handtökuskipunin fjallar um í ríkinu sem beðið er um afhendingu, í öðru lagi að verknaðurinn sé að hluta eða í heild framinn á landsvæði þess ríkis sem beðið er um afhendingu og að hann teljist ekki afbrot samkvæmt löggjöf þess ríkis, í þriðja lagi að eftirlýstur maður hafi þegar verið dæmdur fyrir verknaðinn í þriðja ríki og refsingin hafi þegar verið fullnustuð, verið sé að fullnusta hana eða hún sé ekki lengur fullnustuhæf, í fjórða lagi að viðkomandi stjórnvöld hafi ákveðið að hefja ekki saksókn vegna verknaðarins eða hætt við saksókn sem hafin var eða viðkomandi einstaklingur hafi hlotið endanlegan dóm í öðru norrænu ríki vegna sömu háttsemi og í fimmta lagi að þegar beðið er um afhendingu vegna fullnustu refsingar og sá eftirlýsti er ríkisborgari eða búsettur á landinu sé unnt að synja um afhendingu gegn því að fullnusta refsinguna.
    Í sjöttu grein eru ákvæði um að þegar beðið er um afhendingu vegna málsmeðferðar og sá eftirlýsti er ríkisborgari þess ríkis sem beðið er um afhendingu megi setja það skilyrði fyrir afhendingu að viðkomandi verði fluttur til baka að lokinni málsmeðferð til fullnustu refsingarinnar í því ríki sem afhenti viðkomandi.
    Í sjöundu grein eru ákvæði um form og innihald norrænnar handtökuskipunar. Í fylgiskjali með samningnum er formið með þeim upplýsingum sem þar eiga að koma fram.
    Í áttundu grein eru ákvæði um sendingu á norrænni handtökuskipun og eftirlýsingu þegar dvalarstaður viðkomandi er ekki þekktur.
    Í níundu grein eru ákvæði um réttindi þess sem er eftirlýstur. Þegar hann er handtekinn skal honum kynnt norræna handtökuskipunin, innihald hennar og möguleikinn á því að samþykkja afhendingu. Viðkomandi á einnig kröfu á aðstoð verjanda og túlks í samræmi við löggjöf viðkomandi lands.
     Í tíundu grein er fjallað um gæsluvarðhaldsvist meðan beðið er ákvörðunar um afhendingu þess eftirlýsta. Gæsluvarðhaldi og öðrum þvingunarúrræðum er unnt að beita í samræmi við löggjöf þess lands sem beðið er um afhendingu.
    Í elleftu grein er fjallað um samþykki fyrir afhendingu og samþykki til málsmeðferðar fyrir aðra refsiverða verknaði sem framdir voru fyrir afhendingu (sérreglan).
    Í tólftu grein eru ákvæði um að eftirlýstur maður eigi rétt á því að tjá sig um norrænu handtökuskipunina samþykki hann ekki afhendingu.
    Í þrettándu grein eru ákvæði um að ríkið sem fær handtökuskipun geti fengið viðbótarupplýsingar frá ríkinu sem gaf hana út án tafar en virða beri tímafresti samningsins til ákvörðunartöku um afhendingu.
    Í fjórtándu grein eru ákvæði um fresti og málsmeðferð í tengslum við ákvörðun um afhendingu á eftirlýstum manni samkvæmt norrænni handtökuskipun.
    Í fimmtándu grein eru leiðbeiningar um hvernig taka eigi ákvörðun þegar fleiri ríki en eitt óska eftir að eftirlýstur maður verði afhentur eða framseldur.
    Í sextándu grein eru sérreglur um það þegar eftirlýstur maður nýtur forréttinda eða friðhelgi í ríkinu sem beðið er um afhendingu.
    Í sautjándu grein eru ákvæði um það að þegar eftirlýstur maður er afhentur eða framseldur til ríkis sem gaf handtökuskipunina út frá aðildarríki Evrópusambandsins eða þriðja ríki verði að virða skilyrði um bann við að hann verða afhentur eða framseldur áfram, en ríkinu beri að leita eftir samþykki til afhendingar.
    Í átjándu grein eru ákvæði um að stjórnvald sem beðið er um afhendingu tilkynni því stjórnvaldi sem gaf handtökuskipunina út hvort henni verði framfylgt.
    Í nítjándu grein eru ákvæði um fresti til að afhenda eftirlýstan mann eftir að endanleg ákvörðun um afhendingu hefur verið tekin.
    Í tuttugustu grein eru ákvæði um frestun afhendingar eða tímabundna afhendingu á eftirlýstum manni þegar viðkomandi sætir málsmeðferð í ríkinu sem beðið er um afhendingu eða afplánar þar refsingu.
    Í tuttugustu og fyrstu grein er ákvæði um að ekki sé nauðsynlegt að sækja um leyfi fyrir gegnumflutningi vegna afhendingar á eftirlýstum manni milli annarra Norðurlanda.
    Í tuttugustu og annarri grein eru reglur um frádrátt gæsluvarðhaldsvistar sem eftirlýstur maður sætti vegna beiðni um afhendingu.
    Í tuttugustu og þriðju grein eru reglur um málsmeðferð vegna annarra afbrota en þess sem er grundvöllur afhendingar og sem framin voru fyrir afhendingu (sérreglan).
    Í tuttugustu og fjórðu grein er ákvæði um afhendingu eða framsal áfram til þriðja ríkis.
    Í tuttugustu og fimmtu grein eru ákvæði um afhendingu muna sem lagt hefur verið hald á hjá eftirlýstum manni.
    Í tuttugustu og sjöttu grein eru frekari takmarkanir en greinir í 2. gr. samningsins á afhendingu eigin ríkisborgara til og frá Íslandi. Synja má um afhendingu nema eftirlýstur maður hafi síðastliðin tvö ár fyrir framningu refsiverðs verknaðar verið búsettur í landinu sem gaf handtökuskipunina út eða verknaðurinn eða sambærilegur verknaður varði þyngri refsingu en 4 ára fangelsi.
    Í tuttugustu og sjöundu grein eru frekari takmarkanir en greinir í 2. gr. samningsins á afhendingu til og frá Íslandi vegna stjórnmálaafbrota. Synja má um afhendingu á íslenskum ríkisborgara vegna stjórnmálaafbrota og á erlendum ríkisborgara vegna sömu brota nema verknaðurinn sé refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða 1., 2. eða 3. gr. Evrópusamnings um varnir gegn hryðjuverkum nái yfir hann.
    Í tuttugustu og áttundu grein er fjallað um tengsl samningsins við aðra löggerninga.
    Í tuttugustu og níundu grein eru ákvæði um undirritun og gildistöku. Ríki getur gerst aðili að samningnum með undirritun með eða án fyrirvara um fullgildingu eða staðfestingu. Samningurinn öðlast gildi þremur mánuðum eftir að öll Norðurlöndin hafa samþykkt að vera bundin af samningnum. Hann öðlast þó fyrst gildi varðandi Grænland og Færeyjar þremur mánuðum eftir að danska dómsmálaráðuneytið hefur tilkynnt danska utanríkisráðuneytinu og dómsmálaráðuneytum hinna ríkjanna að samningurinn skuli gilda að því er varðar Grænland og/eða Færeyjar. Einstök ríki geta ákveðið að vera bundin af samningnum áður en öll ríkin hafa ákveðið að vera bundin af honum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins er skilgreining á norrænni handtökuskipun og svarar hún til 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 2. gr. samningsins. Norræn handtökuskipun er ákvörðun sem tekin er í norrænu ríki í þeim tilgangi að annað norrænt ríki handtaki eftirlýstan mann vegna málsmeðferðar eða fullnustu fangelsisrefsingar og afhendi hann til annars norræns ríkis sem um það hefur beðið.
    Heimilt er að gefa handtökuskipun út varði verknaður fangelsisrefsingu eða til fullnustu á slíkri refsingu. Það að verknaður varði fangelsisrefsingu þýðir að brot á viðeigandi refsiákvæði geti varðað fangelsisrefsingu en það hefur ekkert með mat á því að gera hvort líkur séu á því að verknaðurinn leiði til skilorðsbundinnar eða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar verði viðkomandi sakfelldur. Ef hingað berst handtökuskipun þar sem verknaður varðar eingöngu sektarrefsingu í ríkinu sem gaf hana út verður henni hafnað. Ef handtökuskipun er gefin út vegna fleiri refsiverðra verknaða en eins er nægilegt að einungis einn verknaður uppfylli skilyrðið um að varða fangelsisrefsingu, sbr. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins og 2. mgr. 2. gr. samningsins.
    Það er málefni hvers einstaks ríkis að ákveða hvaða stjórnvöld séu bær til að gefa út handtökuskipun. Við fullgildingu samningsins skulu ríkin skýra frá því hvaða stjórnvöld þetta eru. Í frumvarpinu er lagt til að það verði ríkissaksóknari sem hafi það hlutverk að gefa út norræna handtökuskipun hér á landi.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. greinarinnar eru tilgreind þau atriði sem skulu koma fram í norrænni handtökuskipun og svara til ákvæða 7. gr. samningsins og 2. mgr. 9. gr. laga um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.
    Í upphafi 1. mgr. kemur fram á hvaða tungumálum beiðnin skuli vera. Auk þess skal hún innihalda þær upplýsingar er greinir í a–f-lið og sem fram koma í formi fyrir norræna handtökuskipun en formið er fylgiskjal með samningnum. Þetta form á það stjórnvald sem bært er til að gefa handtökuskipunina út að fylla út. Þótt allar upplýsingar séu ekki tilgreindar leiðir það ekki til þess að synja beri um framkvæmd skipunarinnar. Ef handtökuskipunin inniheldur ekki allar tilgreindar upplýsingar ber ríkinu sem fær handtökuskipunina að hafa samband við ríkið sem gaf hana út og biðja um þær upplýsingar sem á skortir. Þeir tímafrestir sem eru í samningnum byrja fyrst að líða þegar móttökuríkið hefur fengið viðbótarupplýsingarnar.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að evrópsk handtökuskipun sem norrænt ríki hefur gefið út teljist einnig norræn handtökuskipun. Það hefur þá þýðingu að ekki er bæði nauðsynlegt að gefa út norræna og evrópska handtökuskipun þegar dvalarstaður eftirlýsts manns er ekki þekktur.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um að skráning í Schengen-upplýsingakerfi teljist norræn handtökuskipun þegar skráningin inniheldur þær upplýsingar sem fram koma í 1. mgr. Slík skráning kemur helst til greina þegar dvalarstaður eftirlýsts manns er ekki þekktur.

Um 3. gr.


    Í greininni eru ákvæði um að þegar ekki sé annað tekið fram gildi ákvæði laga um meðferð sakamála eftir því sem við á og er í samræmi við 3. mgr. 10. gr. laga um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962. Í frumvarpinu eru einstök frávik frá lögum um meðferð sakamála. Þau mikilvægustu eru að lagt er til að kærufrestur vegna úrskurðar um gæsluvarðhald í tengslum við meðferð beiðni um afhendingu, sbr. 10. gr. frumvarpsins, og úrskurðar um hvort skilyrði laganna um afhendingu séu til staðar, sbr. 13. gr. frumvarpsins, verði einn sólarhringur.

Um 4. gr.


    Í 1. mgr. kemur fram að skylt sé að afhenda mann sem eftirlýstur er í norrænni handtökuskipun og að einungis sé heimilt að synja um afhendingu á honum ef skyldubundnar eða valkvæðar synjunarástæður séu til staðar samkvæmt ákvæðum 5. og 6. gr. frumvarpsins og er þetta ákvæði í samræmi við 3. mgr. 1. gr. samningsins.
    Ákvæði greinarinnar byggist á meginreglunni um gagnkvæma viðurkenningu og felur bæði í sér skyldu til að handtaka eftirlýstan mann og afhenda hann til annars norræns ríkis. Í gildandi löggjöf um framsal á milli Norðurlandanna er meginreglan gagnstæð, það er háð mati íslenskra stjórnvalda að ákveða hvort orðið verði við beiðni um framsal eða ekki, sbr. 1. gr. laganna um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.
    Í 2. mgr. eru ákvæði sem taka á því þegar handtökuskipunin tekur til fleiri refsiverðra verknaða en eins. Í slíkum tilvikum skal orðið við beiðninni ef skilyrði laganna eru til staðar varðandi einn verknað. Þetta ákvæði er í samræmi við 2. mgr. 2. gr. samningsins, sbr. og 3. mgr. 3. gr. laganna um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962. Þegar til staðar er skyldubundin synjunarástæða fyrir einn eða fleiri af verknuðunum segir í ákvæðinu að afhending skuli bundin því skilyrði að eftirlýstur maður skuli ekki sæta málsmeðferð vegna viðkomandi verknaðar og að heimilt sé að setja slíkt skilyrði ef valkvæð synjunarástæða er til staðar.

Um 5. gr.


    Í greininni eru ákvæði um það hvenær synja beri um afhendingu á manni sem er eftirlýstur í norrænni handtökuskipun. Þegar aðstæður eru þær er greinir í a–g-lið er ekki heimilt að afhenda eftirlýstan mann. Ákvæði greinarinnar byggjast á ákvæðum 4. gr. og að hluta til á 3. og 4. mgr. 5. gr. samningsins.
    Í a-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu ef sakaruppgjöf hefur verið veitt vegna sama verknaðar hér á landi. Forsenda ákvæðisins er að íslensk stjórnvöld hafi verið bær til að ákveða að málið sætti meðferð hér á landi í samræmi við íslensk lög. Í umfjöllun um c–g- liði hér síðar er skýrt út hvað átt er við þegar talað er um „sama verknað“.
    Í b-lið kemur fram að synja beri um framkvæmd handtökuskipunar ef eftirlýstur maður getur ekki vegna aldurs borið refsiábyrgð vegna verknaðarins hér á landi. Ákvæðið er í samræmi við 3. mgr. 4. gr. samningsins. Alls staðar á Norðurlöndum er sakhæfisaldur 15 ár og hefur ákvæðið því litla raunhæfa þýðingu.
    Í c–g-lið eru ákvæði um að synja beri um framkvæmd handtökuskipunar í þeim tilvikum að málsmeðferð væri í andstöðu við bann við endurtekna málsmeðferð – ne bis in idem – eins og það ákvæði er sett fram og túlkað í 54. gr. Schengen-samningsins.
    Þegar meta á hvort synja beri um afhendingu á eftirlýstum manni á þeirri forsendu að um endurtekna málsmeðferð sé að ræða þarf að vera til staðar beiðni um afhendingu til málsmeðferðar eða fullnustu refsingar vegna „sama verknaðar“. Með þessu er ekki átt við að refsiákvæðin í báðum löndunum þurfi að vera með sambærilegu orðalagi. Það er hinn raunverulegi verknaður sem skiptir höfuðmáli þegar skilgreint er hvort um sama verknað er að ræða en ekki lögfræðileg skilgreining hans.
    Í 4. gr. 7. viðauka við samning Evrópuráðsins um verndun mannréttinda og mannfrelsis og 7. tölul. 14. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi eru ákvæði um bann við endurtekinni málsmeðferð. Þessi ákvæði gilda einungis innan eins og sama ríkis og verður því ekki beitt í málum þar sem höfðað er nýtt sakamál í öðru ríki en þar sem dómur var kveðinn upp.
    Í c-lið er fjallað um skyldu til að synja um afhendingu þegar dæmt hefur verið um sama verknað hér á landi með endanlegum dómi. Bæði dómar um sakfellingu og sýknu hindra afhendingu. Þegar um sakfellingu er að ræða og refsing dæmd er þess þó krafist að refsingin hafi verið fullnustuð, verið sé að fullnusta hana eða ekki sé lengur unnt að fullnusta hana. Þegar talað er um að verið sé að fullnusta refsingu er bæði átt við að verið sé að undirbúa fullnustu með nauðsynlegri undirbúningsvinnu, svo sem boðun dómþola í afplánun og að afplánun sé hafin. Hafi dómþoli ekki hafið afplánun vegna þess að hann sé að koma sér undan henni, t.d. með því að vera í felum eða á flótta, verður afhendingu ekki hafnað á grundvelli þessa ákvæðis.
    Í d-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu á eftirlýstum manni þegar hér á landi liggur fyrir endanlegur dómur þar sem beitt hefur verið öryggisráðstöfunum vegna verknaðarins og þeim hefur þegar verið aflétt, verið sé að framkvæma þær eða ekki sé lengur unnt að framkvæma þær.
    Í e-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu ef endanleg viðurlagaákvörðun vegna verknaðarins hefur þegar verið fullnustuð, verið sé að fullnusta hana eða ekki sé lengur unnt að fullnusta hana. Ef eftirlýstur maður kemur sér undan því að greiða sekt samkvæmt viðurlagaákvörðuninni verður afhendingar ekki synjað á grundvelli þessa ákvæðis. Sé gjalddagi sektar ekki kominn ber að synja um afhendingu.
    Í f-lið er ákvæði um að synja beri um afhendingu ef máli hefur lokið með ákærufrestun. Almennt kemur ákærufrestun í veg fyrir frekari málsmeðferð vegna sama verknaðar og eftirlýstur maður skal því ekki heldur í þessu tilviki afhentur til annars norræns ríkis. Liggi fyrir atvik sem leiða til þess að unnt sé að taka málsmeðferð upp hér á landi á ný ber einnig að afhenda hann til annars norræns ríkis. Samsvarandi ákvæði er í 5. gr. laga um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs eða Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.
    Það að máli hafi lokið með ákærufrestun er ekki skyldubundin synjunarástæða í samningnum. Þar er ákærufrestun valkvæð synjunarástæða, sbr. 4. mgr. 5. gr. Ástæða þess að lagt er til að ákærufrestun verði skyldubundin synjunarástæða hér á landi er að hér er um afgreiðslu sakamáls að ræða sem staðfestir sekt viðkomandi og um er að ræða refsiréttarlega afgreiðslu máls sem er endanleg standist viðkomandi skilorð.
    Í g-lið er fjallað um þá stöðu þegar eftirlýstum manni hefur verið refsað með endanlegum dómi eða annarri endanlegri ákvörðun sem kemur í veg fyrir frekari málsmeðferð í öðru ríki sem tekur þátt í Schengen-samstarfinu. Í slíkum tilvikum kemur 54. gr. Schengen-samningsins í veg fyrir frekari málsmeðferð vegna verknaðarins hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum og því er ekki heimilt að afhenda viðkomandi einstakling. Eins og varðandi íslenska dóma er það skilyrði að refsingunni hafi verið fullnægt, verið væri að fullnusta hana eða það væri ekki lengur heimilt.
    Sú staða getur verið uppi að ríkissaksóknari hafi ekki upplýsingar um að fyrir liggi dómur eða önnur ákvörðun sem komi í veg fyrir frekari málsmeðferð í öðru ríki. Í ákvæðinu segir því að einungis beri að hafna beiðni um afhendingu þegar ríkissaksóknari hafi slíkar upplýsingar. Það hvílir engin rannsóknarskylda á ríkissaksóknara í þessum tilvikum. Aftur á móti ber að kanna málið þegar upplýsingar benda til að svo sé, svo sem þegar eftirlýstur maður veitir upplýsingar um málið. Í slíkum tilvikum bera að fresta afhendingu þar til málið hefur verið kannað og hugsanlega staðfest að eftirlýstum manni hafi verið refsað fyrir viðkomandi verknað með endanlegum hætti.
    Þegar það er augljóst að synja beri um afhendingu manns samkvæmt norrænni handtökuskipun er ekki gert ráð fyrir að eftirlýstur maður verði handtekinn.

Um 6. gr.


    Í þessari grein er fjallað um það í hvaða tilvikum er heimilt að synja um afhendingu á eftirlýstum manni. Þegar aðstæður eru þær er greinir í a–d-lið er heimilt að hafna afhendingu. Það hvílir engin skylda á stjórnvöldum að synja um afhendingu á þessum forsendum, heldur metur ríkissaksóknari það í hverju einstöku tilviki þegar þessi atvik eru til staðar hvort hafna beri afhendingu samkvæmt eftirlýsingu í handtökubeiðni.
    Í a-lið er fjallað um það tilvik þegar rannsókn er hafin hér á landi, sem beinist að eftirlýsta manninum vegna sama verknaðar og greinir í handtökuskipuninni. Vísað er til athugasemda við 5. gr. um hvað átt er við með sama verknaði. Í samningnum eru engar leiðbeiningar um það hvað miða eigi við þegar sagt er að verknaður sæti rannsókn. Miðað er við að það teljist nægilegt að rannsókn sé hafin og hún á einn eða annan hátt beinist að eftirlýsta manninum. Með orðalaginu að rannsókn beinist að eftirlýstum manni felst ekki að það sé skilyrði að sá eftirlýsti sé grunaður eða kærður í málinu þótt það væri oftast raunin. Það er nægjanlegt að rannsókn í orði eða verki eða á annan hátt beinist að hinum eftirlýsta. Það getur oft verið álitamál hvort málsmeðferð eigi að fara fram hér á landi eða öðru norrænu ríki þegar málið tengist fleiri ríkjum. Hvort synja beri um afhendingu á eftirlýstum manni af þessum ástæðum byggist á ýmsum atvikum, svo sem hversu langt rannsóknin er komin, hvar meginhluta sönnunargagna er að finna, hvar vitni eru stödd o.s.frv. Ef rannsókn vegna verknaðarins sem tilgreind er í handtökuskipuninni er langt komin væri það út frá fjárhagssjónarmiðum og með hliðsjón af hraðri málsmeðferð óheppilegt ef skylt væri að afhenda eftirlýstan mann. Þetta á enn frekar við ef sá eftirlýsti er einn af fleirum sem er meðal grunaðra vegna verknaðarins sem tilgreindur er í handtökuskipuninni eða ef verknaðurinn er hluti af stærra máli. Í slíkum tilvikum væri líklegt að íslensk stjórnvöld væru betur í stakk búin til að fylgja málinu eftir en ríkið sem biður um afhendingu. Ríkissaksóknari verður m.a. að skoða og meta þessi atriði þegar hann ákveður hvort orðið verði við handtökubeiðni eða ekki.
    Í b-lið er fjallað um það tilvik þegar verknaðurinn er að hluta eða öllu leyti framinn á íslensku yfirráðasvæði eða í íslenskri refsilögsögu. Í slíkum tilvikum er heimilt að hafna afhendingu ef verknaðurinn er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum. Ákvæðið er í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samningsins.
    Í c-lið er fjallað um það tilvik þegar til staðar er endanlegur dómur vegna sama verknaðar í ríki sem ekki tekur þátt í Schengen-samstarfinu, en um slík tilvik er fjallað í 3. mgr. 5. gr. samningsins. Hvorki Schengen-samningurinn né mannréttindasáttmálar taka á því hvort heimilt sé að endurtaka málsmeðferð í slíkum tilvikum. Hvort taka eigi málsmeðferð upp í slíkum tilvikum er háð ýmsum atvikum, m.a. alvarleika og eðli afbrotsins, hvort málsmeðferðin hafi verið fullnægjandi og hversu þung refsing hafi verið dæmd þegar um sakfellingu var að ræða. Í slíkum tilvikum verður að telja eðlilegt að stjórnvöld í því ríki sem gaf handtökuskipunina út meti þessi atriði. Það getur þó komið til þess að íslensk stjórnvöld hafni beiðni um afhendingu í þessum tilvikum, t.d. vegna þess að viðkomandi hafi verið hér á landi um lengri tíma og ljóst virðist að viðkomandi hafi áður afplánað viðeigandi refsingu vegna verknaðarins.
    Í d-lið er fjallað um það þegar handtökuskipun varðar fullnustu refsingar samkvæmt dómi og eftirlýstur maður er búsettur eða dvelst hér á landi eða er íslenskur ríkisborgari. Í slíkum tilvikum er lagt til að heimilt verði að hafna afhendingu gegn því að fullnusta refsinguna hér á landi. Ákvæðið er í samræmi við 5. mgr. 5. gr. samningsins. Þegar afhendingu er hafnað á þessum forsendum skal með framhald málsins fara eftir lögum um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69 12. desember 1963.
    

Um 7. gr.


    Í greininni er lagt til að heimilt verði að setja það skilyrði fyrir afhendingu vegna málsmeðferðar, þegar eftirlýstur maður er búsettur hér á landi eða íslenskur ríkisborgari, að hann verði sendur aftur hingað til lands til að afplána hugsanlega refsingu. Ákvæði greinarinnar eru í samræmi við 6. gr. samningsins og byggjast á sömu sjónarmiðum og í d-lið 6. gr. frumvarpsins.

Um 8. gr.


    Í greininni er fjallað um það hvaða heimildir ríkið sem fær mann afhentan frá Íslandi hefur til málsmeðferðar eða fullnustu refsingar gegn honum eða til afhendingar eða framsals á honum til ríkis utan Norðurlanda vegna verknaðar sem framinn var fyrir afhendinguna frá Íslandi.
    Það leiðir af 1. mgr. að viðkomandi einstaklingur verður ekki framseldur áfram eða afhentur til ríkis utan Norðurlanda nema eitt af skilyrðunum sem tilgreind eru í a–d-lið 1. gr. séu til staðar.
    Í 2. mgr. er fjallað um hvaða heimildir það norræna ríki sem eftirlýstur maður er fluttur til hefur til að hefja málsmeðferð vegna verknaðar sem framinn var fyrir afhendinguna. Meginreglan er að slík málsmeðferð er heimil. Þegar skyldubundin synjunarástæða er til staðar skal málsmeðferð þó ekki eiga sér stað, sbr. a-lið 2. mgr. Skv. b-lið gildir það sama ef verknaðurinn var að hluta eða heild framinn hér á landi og hann er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum. Í slíkum tilvikum er málsmeðferð þó heimil ef ríkissaksóknari heimilar hana.
    Um heimildir Íslands til að framselja þann sem hefur verið afhentur hingað til lands áfram til þriðja ríkis og til málsmeðferðar hér á landi vegna verknaðar sem framinn var fyrir afhendinguna er fjallað í 19. og 20. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.


    Í greininni er lagt til að ríkissaksóknari verði það stjórnvald hér á landi sem er bært til að taka á móti norrænni handtökuskipun og ef slík beiðni berst til annars stjórnvalds skuli það strax framsenda beiðnina til ríkissaksóknara og tilkynna þeim sem gaf handtökuskipunina út um framsendinguna. Skv. 8. gr. samningsins skal senda handtökuskipun beint til þar til bærs stjórnvalds í ríkinu þar sem eftirlýstur maður dvelst og ákveður hvert aðildarríki hvaða stjórnvald þetta er.

Um 10. gr.


    Í greininni eru sérákvæði um beitingu þvingunarráðstafana í afhendingarmálum.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er fjallað um skyldu til að handtaka eftirlýstan mann og skyldu til að fjalla strax um málið, sbr. 9. og 1. mgr. 14. gr. samningsins. Í fyrirvaranum um að ljóst sé að synja beri um afhendingu skv. 5. gr. eða hennar verði synjað skv. 6. gr. felst að ekki ber að handtaka eftirlýstan mann þegar á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram koma í handtökuskipun ef ljóst er að til staðar sé skyldubundin synjunarástæða eða þegar ríkissaksóknari telur líklegt að henni verði hafnað á grundvelli valkvæðrar synjunarástæðu skv. 6. gr. frumvarpsins. Sem dæmi má nefna að viðkomandi hafi þegar verið dæmdur fyrir verknaðinn og er að afplána refsingu vegna hans, hann var ekki sakhæfur vegna aldurs þegar verknaðurinn var framinn eða að í gangi sé hér á landi meðferð máls gegn viðkomandi manni vegna verknaðarins og ríkissaksóknari meti það svo að réttast sé að málið fái áframhaldandi meðferð hér á landi.
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. skal við handtöku upplýsa þann sem er eftirlýstur um handtökuskipunina, sbr. 1. mgr. 9. gr. samningsins. Þetta er jafnframt árétting á ákvæðum 1. mgr. 93. gr. laga um meðferð sakamála. Þá skal gera honum grein fyrir hugsanlegri málsmeðferð vegna annarra afbrota, um þýðingu þess að samþykkja málsmeðferð og hann spurður hvort hann samþykki afhendingu, sbr. 11. gr. samningsins.
    Samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. skal skipa eftirlýstum manni verjanda. Um slíka skipun fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
    Í 2. mgr. er fjallað um gæsluvarðhald. Þegar eftirlýstur maður er ekki afhentur í beinu framhaldi af handtöku er gert ráð fyrir að hann verði að jafnaði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Í samræmi við meginregluna um gagnkvæma viðurkenningu skal dómur í sinni ákvörðun um gæsluvarðhald leggja þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun til grundvallar nema þær séu augljóslega rangar. Sama gildir nú skv. 1. mgr. 12. gr. laga um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962. Þetta þýðir að ekki er gert ráð fyrir að dómstólar staðreyni raunverulegar eða lagalegar forsendur sem handtökuskipunin byggist á. Til að flýta málsmeðferð er lagt til að kærufrestur á úrskurði um gæsluvarðhald til Hæstaréttar verði einn sólarhringur í stað þriggja samkvæmt lögum um meðferð sakamála. Í þessari málsgrein er lagt til að gæsluvarðhaldi verði ekki markaður lengri tími en tvær vikur, sem þó verði heimilt að framlengja um tvær vikur í hvert sinn teljist það nauðsynlegt. Þegar til staðar eru ósamrýmanlegar framsalsbeiðnir er ekki hægt að segja til um það hvort unnt sé að afgreiða málið innan þeirra tímamarka er greinir í 13. gr. frumvarpsins. Sama gildir þegar viðkomandi hefur verið framseldur hingað til lands frá þriðja ríki og leita þarf samþykkis frá því ríki fyrir afhendingu. Í slíkum tilvikum eru ekki forsendur til að hafa ákveðna stutta hámarkslengd á tímamörkum gæsluvarðhalds, heldur gilda þá um það almennar reglur laga um meðferð sakamála eða laga um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Um 11. gr.


    Þegar eftirlýstur maður nýtur forréttinda eða friðhelgi fyrir málsmeðferð vegna viðkomandi verknaðar er ekki unnt að afhenda hann nema forréttindin eða friðhelgin séu upphafin. Þegar íslensk stjórnvöld eru til þess bær að upphefja friðhelgina ber ríkissaksóknara þegar að senda viðkomandi stjórnvöldum beiðni um að upphefja friðhelgina. Verði forréttindin eða friðhelgin upphafin sætir handtökuskipunin í framhaldi af því meðferð samkvæmt almennum reglum frumvarpsins.
    Þegar erlend stjórnvöld eru bær til að upphefja forréttindin eða friðhelgina er það hlutverk þess stjórnvalds sem gaf handtökuskipunina út að fara þess á leit að þau verið upphafin. Í slíkum tilvikum ber ríkissaksóknara að upplýsa það stjórnvald sem gaf handtökuskipunina út um að ekki sé unnt að verða við henni fyrr en forréttindum eða friðhelginni hafi verið aflétt.
    Frestir til að taka ákvörðun um afhendingu byrja ekki að líða í þessum tilvikum fyrr en forréttindunum eða friðhelginni hefur verið aflétt, sbr. 4. mgr. 13. gr. frumvarpsins. Ákvæði greinarinnar byggist á 16. gr. samningsins.

Um 12. gr.


    Í þessari grein er fjallað um þá stöðu þegar eftirlýstur maður hefur verið afhentur eða framseldur til Íslands frá öðru ríki. Í slíkum tilvikum geta verið takmarkanir á heimildum til að afhenda viðkomandi einstakling vegna refsiverðra verknaða sem framdir voru fyrir afhendinguna.
    Samkvæmt 1. mgr. er heimilt að afhenda eftirlýstan mann sem afhentur hefur verið hingað til lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar áfram til annars norræns ríkis vegna refsiverðs verknaðar sem framinn var fyrir afhendinguna.
    Í 2. mgr. er fjallað um þau tilvik þegar maður hefur verið framseldur hingað til lands frá ríki utan Norðurlanda. Í slíkum tilvikum kunna að vera takmarkanir á heimildum til að afhenda viðkomandi einstakling til annars norræns ríkis. Í 17. gr. samningsins er á því byggt að slíkar takmarkanir beri að virða og því sé ekki heimilt að afhenda viðkomandi nema að fengnu samþykki viðkomandi stjórnvalds í ríkinu sem framseldi eftirlýstan mann hingað til lands. Í síðari málslið 2. mgr. segir að í slíkum tilvikum skuli senda beiðni til viðkomandi ríkis til að óska eftir samþykki til afhendingar. Það fer eftir almennum reglum um samskipti við viðkomandi ríki hvaða stjórnvald hér á landi er bært til að senda beiðni um heimild til afhendingar á eftirlýstum manni.
    Frestir í 13. gr. frumvarpsins byrja fyrst að líða þegar samþykki liggur fyrir.
    Um heimildir íslenskra stjórnvalda til að framselja mann, sem afhentur hefur verið hingað til lands á grundvelli norrænnar handtökuskipunar, áfram til ríkis utan Norðurlanda er fjallað í 20. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.


    Í 1. mgr. þessarar greinar er lagt til það verði ríkissaksóknari sem taki ákvörðun hér á landi um afhendingu samkvæmt norrænni handtökuskipun. Í slíkri ákvörðun felst m.a. að ákveða hvort setja þurfi einhver skilyrði fyrir afhendingu eða hvort fresta eigi afhendingu skv. 16. gr. frumvarpsins vegna málsmeðferðar eða fullnustu refsingar hér á landi.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um það að þegar eftirlýstur maður samþykkir afhendingu skuli ríkissaksóknari þá þegar og í síðasta lagi innan þriggja sólarhringa taka ákvörðun um hvort skilyrði fyrir afhendingu séu til staðar. Í samræmi við ákvæði 10. gr. frumvarpsins skal eftirlýstur maður við handtöku upplýstur um möguleika á því að samþykkja afhendingu. Til að slíkt samþykki sé gilt eru hér ákvæði um að það skuli vera skriflegt og að viðkomandi hafi verið upplýstur um þýðingu samþykkis. Unnt er að afturkalla samþykki og er heimilt að gera það hvenær sem er áður en afhending á sér stað. Það er ekki skilyrði að afturköllun sé formbundin. Þá eru í málsgreininni ákvæði um að eftirlýstur maður geti samþykkt málsmeðferð vegna annarra refsiverðra verknaða sem framdir voru fyrir afhendingu. Þetta samþykki þarf einnig að vera skriflegt og gefið eftir að viðkomandi hefur verið upplýstur um gildi samþykkisins. Unnt er að afturkalla slíkt samþykki en þó einungis þegar samþykki fyrir afhendingu er afturkallað. Þegar eftirlýstur maður samþykkir afhendingu en ekki málsmeðferð vegna annarra verknaða sem framdir voru fyrir afhendingu tekur ríkissaksóknari ákvörðun um hvort hann skuli afhentur. Í slíkum tilvikum þarf ekki að leggja málið fyrir dómstól til ákvörðunar um hvort skilyrði afhendingar séu til staðar.
    Í 3. mgr. eru ákvæði um það þegar ríkissaksóknari telur að afhenda eigi eftirlýstan mann í samræmi við beiðni í handtökuskipun en hann samþykkir ekki afhendingu eða dregur samþykki til baka. Í slíkum tilvikum ber að leggja mál fyrir dóm sem kveður upp úrskurð um hvort skilyrði til afhendingar séu til staðar. Í greininni segir að ef unnt er skuli það gert í sama þinghaldi og fjallar um beiðni um gæsluvarðhald. Ástæðulaust á að vera að halda tvö þinghöld þar sem upplýsingar í handtökuskipuninni er forsenda fyrir ákvörðun í báðum tilvikum. Dómstól ber að leggja þær upplýsingar sem fram koma í handtökuskipun til grundvallar nema þær séu augljóslega rangar. Úrskurð er heimilt að kæra til Hæstaréttar í samræmi við almennar reglur um kæru í sakamálum að öðru leyti en því að lagt er til að kærufrestur verði einn sólarhringur. Kæra frestar afhendingu. Telji dómstóll að skilyrði til afhendingar séu til staðar tekur ríkissaksóknari ákvörðun um afhendingu innan þriggja sólarhringa frá því að endanleg niðurstaða dómstóls lá fyrir. Í slíkum tilvikum verður afhendingar því einungis synjað að til staðar sé valkvæð synjunarástæða eða ósamræmanleg handtökuskipun frá öðru norrænu ríki. Til viðbótar er einnig það tilvik að til staðar sé framsalsbeiðni frá ríki utan Norðurlanda, en í slíkum tilvikum tekur dómsmálaráðuneytið ákvörðun um afhendingu eða framsal. Í lok málsgreinarinnar er ákvæði um að ef unnt er skuli ákvörðun um afhendingu tekin innan 30 daga frá handtöku í þeim tilvikum þegar leggja þarf málið fyrir dóm og er það í samræmi við 3. mgr. 14. gr. samningsins.
    Í 4. mgr. eru ákvæði um upphafstíma þeirra fresta sem um ræðir í 2. og 3. mgr. og þar kemur fram að þeir byrja ekki að líða fyrr en ríkissaksóknari hefur fengið fullnægjandi upplýsingar til að taka ákvörðun. Þetta ákvæði þýðir m.a. að þegar héraðsdómur telur skilyrði til afhendingar vera til staðar og eftirlýstur maður kærir ekki þá ákvörðun byrjar frestur ekki að líða fyrr en kærufrestur til Hæstaréttar er liðinn.
    Í 5. mgr. eru ákvæði um að þegar ekki er í sérstöku tilvikum hægt að taka ákvörðun um afhendingu innan tilgreindra fresta skuli ríkissaksóknari strax skýra þeim sem gaf handtökuskipun út frá því. Þetta á helst við þegar aflétta þarf forréttindum eða friðhelgi eða leita samþykkis frá þriðja ríki fyrir afhendingu, sbr. 2. mgr. 12. gr. frumvarpsins.
    Í 6. mgr. eru ákvæði um að ákvörðun ríkissaksóknara um afhendingu á eftirlýstum manni sé endanleg. Það þýðir að hún verður ekki kærð til annars stjórnvalds.
    Í 7. mgr. eru ákvæði um að þegar ákvörðun um afhendingu liggur fyrir skuli ríkissaksóknari þegar tilkynna það til þess aðila sem gaf handtökuskipunina út.
    Í 8. mgr. eru ákvæði um að dómsmálaráðherra geti sett reglur um upplýsingagjöf til eftirlýsts manns og samþykki. Setning slíkra reglna á að tryggja betri málsmeðferð og réttaröryggi eftirlýstra manna.

Um 14. gr.


    Í greininni eru ákvæði um málsmeðferð þegar beiðnum um afhendingu eða framsal lýstur saman og svara þau til ákvæða 15. gr. samningsins.
    Í 1. mgr. er fjallað um það tilvik þegar fleiri en ein norræn handtökuskipun liggur fyrir. Í slíkum tilvikum skal ríkissaksóknari taka ákvörðun um við hvaða beiðni verði orðið.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um það þegar framsalsbeiðni frá ríki utan Norðurlanda liggur fyrir til viðbótar við eina eða fleiri norrænar handtökuskipanir. Í slíkum tilvikum tekur dómsmála- og mannréttindaráðuneytið ákvörðun um við hvaða beiðni skuli orðið. Í slíkum tilvikum ber ríkissaksóknara, áður en málið er sent ráðuneytinu til ákvörðunar, að kanna hvort skilyrði til afhendingar séu til staðar, m.a. kanna hvort eftirlýstur maður samþykki afhendingu og ef ekki að leggja fyrir dómstól að meta hvort skilyrði afhendingar séu til staðar. Jafnframt ber ríkissaksóknara að meta hvort hann telji að beita eigi valkvæðum synjunarástæðum. Meðferð framsalsbeiðninnar er í þessum tilvikum í samræmi við almennar reglur samkvæmt lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984.
    Í 3. mgr. eru síðan ákvæði um það á hvaða atriði skuli leggja áherslu þegar metið er við hvaða beiðni skuli orðið og eru ákvæðin í samræmi við 1. mgr. 15. gr. samningsins. Þau atriði sem talin eru upp í málsgreininni eru ekki tæmandi. Samningurinn hefur engin áhrif á skyldur Íslands samkvæmt samþykktum um Alþjóðlega sakamáladómstólinn, sbr. lög nr. 43 19. maí 2001. Þegar ósamrýmanlegar beiðnir liggja fyrir frá norrænu ríki eða Alþjóðlega sakamáladómstólnum ber að verða við beiðninni frá Alþjóðlega sakamáladómstólnum.

Um 15. gr.


    Í 1. mgr. eru ákvæði um að afhenda skuli eftirlýstan mann eins fljótt og unnt er eftir að ákvörðun um afhendingu liggur fyrir og í síðasta lagi innan fimm sólarhringa frá ákvörðun og ef það er ekki hægt skuli semja við þann sem gaf handtökuskipunina út um nýjan frest.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um heimild til að fresta afhendingu vegna mjög mikilvægra mannúðarástæðna. Miðað er við að hér sé um þrönga undantekningarreglu að ræða sem fyrst og fremst tekur til þess að afhending geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir líf eða heilsu eftirlýsts manns. Aðrar persónulegar aðstæður geta einnig komið til álita, svo sem aldur, fjölskyldustaða o.fl., sem þó geta einungis frestað afhendingu í mjög sérstökum tilvikum. Tillit til eftirlýsts manns ber að meta á móti hagsmunum þess ríkis sem gaf handtökuskipunina út að fá eftirlýstan mann. Í slíkum tilvikum getur komið til álita hversu langt sé um liðið frá verknaði sem handtökuskipun fjallar um. Sama gildir um tegund og alvarleika afbrots. Þegar afhendingu er frestað á þessum grundvelli ber að framkvæma hana um leið og aðstæður til frestunar eru ekki lengur til staðar.
    Ákvæði greinarinnar byggjast á 19. gr. samningsins.

Um 16. gr.


    Í greininni eru ákvæði um frestun á afhendingu eftirlýsts manns eða um tímabundna afhendingu hans í þeim tilvikum að hann sæti málsmeðferð eða afpláni refsingu hér á landi. Þessi atriði koma fyrst til athugunar þegar ákveðið hefur verið að afhenda eftirlýstan mann. Ákvæði greinarinnar eru í samræmi við 20. gr. samningsins og fjalla um sömu atriði og nú greinir í 6. gr. laganna um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962, en eru breytt frá því ákvæði að því leyti að nú er ekki lengur bannað að afhenda eftirlýstan mann í þessum tilvikum. Eins og um önnur atriði er varða framkvæmd afhendingar samkvæmt frumvarpi þessu er það ríkissaksóknari sem ákveður hvort afhendingu skuli frestað eða hvort eftirlýstur maður skuli afhentur tímabundið.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um að heimilt sé að fresta afhendingu eftirlýsts manns vegna máls hér á landi gegn honum vegna annars refsiverðs verknaðar eða fullnustu refsingar vegna annars afbrots. Í þessum tilvikum er ekki heimilt að synja um afhendingu af þessum ástæðum heldur einungis að fresta henni. Þegar málsmeðferð eða afplánun er lokið ber að afhenda eftirlýsta manninn.
    Í 2. mgr. eru ákvæði um að í stað þess að fresta afhendingu sé heimilt við framangreindar aðstæður að afhenda eftirlýstan mann tímabundið. Um skilyrðin fyrir slíkri afhendingu, þar á meðal um hvenær viðkomandi skuli fluttur til baka, skal samið skriflega á milli ríkissaksóknara og þess stjórnvalds sem gaf handtökuskipunina út.

Um 17. gr.


    Í þessari grein er lagt til að það verði ríkissaksóknari sem gefi út norræna handtökuskipun fyrir hönd íslenskra stjórnvalda sem send verði til viðkomandi stjórnvalda annars staðar á Norðurlöndum og skal slík beiðni að efni og formi vera í samræmi við ákvæði 2. gr. frumvarpsins.

Um 18. gr.


    Í þessari grein er fjallað um það að þegar maður sætir gæsluvarðhaldi í öðru norrænu ríki vegna norrænnar handtökuskipunar sem gefin er út hér á landi skuli það koma til frádráttar afplánun þegar viðkomandi er sendur hingað til lands vegna fullnustu refsingar. Sama gildir þegar viðkomandi er afhentur vegna málsmeðferðar og hann er dæmdur í fangelsisrefsingu hér á landi vegna verknaðarins sem tilgreindur er í handtökuskipuninni. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði 22. gr. samningsins.

Um 19. gr.


    Í þessari grein er fjallað um það í hvaða tilvikum er heimilt að sækja þann, sem afhentur er hingað til lands, til saka hér á landi fyrir önnur afbrot en þau sem hann er afhentur vegna og framin voru fyrir afhendinguna. Ákvæði greinarinnar svara til ákvæða 23. gr. samningsins.
    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla að slík málsmeðferð er heimil. Undantekningarnar eru í fyrsta lagi að í því ríki sem afhenti viðkomandi séu skyldubundnar synjunarástæður til staðar vegna viðkomandi verknaðar, sbr. ákvæði 5. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi að þegar verknaðurinn sem um ræðir var að hluta eða heild framinn á landsvæði þess ríkis sem afhenti viðkomandi og hann er ekki refsiverður samkvæmt lögum viðkomandi ríkis er krafist samþykkis frá því ríki fyrir málsmeðferð hér á landi, nema þegar ákvæði a–c-liðar 2. mgr. eigi við.

Um 20. gr.


    Í 1. mgr. er fjallað um það hvenær heimilt er að framselja mann, sem afhentur hefur verið hingað til lands, til þriðja ríkis. Meginreglan er að annaðhvort þurfi viðkomandi sjálfur eða það ríki sem afhenti hann að samþykkja framsalið. Í a–d-lið 1. mgr. eru nánari ákvæði um það í hvaða tilvikum framsal til þriðja ríkis er heimilt og eru ákvæðin í samræmi við ákvæði 24. gr. samningsins.
    Í 2. mgr. segir að það sé dómsmálaráðuneytið sem taki ákvörðun um framsal á manni til þriðja ríkis, sem afhentur hafi verið hingað til lands frá öðru norrænu ríki, samkvæmt ákvæðum í almennum lögum um framsal sakamanna. Ákvörðun um afhendingu til annars norræns ríkis á manni sem afhentur hefur verið hingað frá norrænu ríki er tekin af ríkissaksóknara í samræmi við ákvæði 12. og 13. gr. frumvarpsins.

Um 21. gr.


    Í greininni eru ákvæði um haldlagningu og afhendingu á mun í tengslum við norræna handtökuskipun sem talinn er hafa þýðingu sem sönnunargagn í málinu eða er ávinningur af þeim refsiverða verknaði sem greinir í handtökuskipuninni. Ákvæði greinarinnar byggjast á 25. gr. samningsins.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um að ríkissaksóknari skuli láta leggja hald á mun sem telst hafa þýðingu sem sönnunargagn í málinu sem tilgreint er í handtökuskipuninni eða er ágóði af þeim refsiverða verknaði. Þessi skylda tekur einungis til þess munar sem ríkissaksóknara er kunnugt um vegna meðferðar málsins. Í ákvæðinu felst engin frumkvæðis- eða rannsóknarskylda vegna afhendingarmála. Skylda um afhendingu er einnig til staðar þótt eftirlýstur maður sé horfinn eða látinn.
    Í 2. mgr. er ákvæði um að í stað þess að afhenda mun sé unnt að afhenda hann tímabundið þegar hann telst hafa þýðingu sem sönnunargagn í sakamáli hér á landi og í 3. mgr. eru ákvæði um að afhending hafi ekki áhrif gagnvart réttindum þriðja manns varðandi muninn og að unnt sé að setja skilyrði fyrir afhendingu til að verja slík réttindi.
    Ákvæði þessarar greina gilda einungis þegar lagt er hald á mun í tengslum við útgefna handtökuskipun sem unnt er að verða við samkvæmt ákvæðum í frumvarpi þessu.

Um 22. gr.


    Í greininni er fjallað um það að þegar verið er að afhenda eftirlýstan mann milli annarra Norðurlanda samkvæmt norrænni handtökuskipun sé heimilt án sérstaks samþykkis að flytja hann um íslenskt yfirráðasvæði.

Um 23. gr.


    Í þessari grein er lagt til að dómsmála- og mannréttindaráðherra ákveði hvenær lögin öðlist gildi gagnvart hverju aðildarríki samningsins um sig. Að því er stefnt að það fyrirkomulag um afhendingu á eftirlýstum mönnum milli Norðurlanda sem frumvarp þetta fjallar um öðlist gildi á sama tíma í öllum löndunum. Af þeirri ástæðu er lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að ákveða hvenær ákvæði frumvarpsins öðlast gildi. Sams konar gildistökuákvæði var í lögum um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.

Um 24. gr.


    Í 1. tölul. er lögð til breyting á 6. gr. laga um fullnustu refsidóma, sem kveðnir hafa verið upp í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð, o.fl., nr. 69 12. desember 1963, sem felur í sér að í stað tilvísunar í lög um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962, verði vísað til ákvæða í 8. gr. þessa frumvarps þegar maður er fluttur til framangreindra ríkja til áframhaldandi afplánunar varðandi skilyrði þess að hann verði framseldur til þriðja ríkis utan Norðurlanda.
    Í 2. tölul. eru lagðar til fjórar breytingar á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum, nr. 13 17. apríl 1984. Í a-lið er einungis verið að breyta tilvísun sem nú er til ákvæða laga um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962, til ákvæða í frumvarpi þessu. Í b-lið er lagt til að 2. mgr. 21. gr. laganna falli brott. Um það efnisatriði er þar greinir er fjallað í 22. gr. þessa frumvarps. Í c-lið er lögð til sú breyting á 4. mgr. 22. gr. laganna að bann við réttaraðstoð vegna stjórnmálaafbrota sem ekki eru refsiverð samkvæmt íslenskum lögum verði fellt brott. Í 23. gr. laganna er fjallað um meðferð á beiðni um að maður sem hér á landi er fangelsaður eða sviptur frelsi samkvæmt dómi vegna refsiverðs verknaðar skuli sendur til annars ríkis til yfirheyrslu sem vitni eða til samprófunar. Í 3. mgr. greinarinnar er ákvæði um að ekki sé heimilt að verða við beiðni ef verknaðurinn sem hún fjallar um eða sambærilegur verknaður er ekki refsiverður samkvæmt íslenskum lögum eða getur ekki orðið grundvöllur framsals skv. 5.–7. gr. laganna. Í d-lið er lagt til að þetta skilyrði gildi ekki um beiðnir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er lagt til að berist beiðni um framsal fyrir gildistöku laganna fari um meðferð þeirrar beiðni samkvæmt lögum um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, nr. 7 14. mars 1962.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipun).

    Í frumvarpi þessu eru settar fram nýjar reglur um framsal sakamanna vegna málsmeðferðar og til fullnustu refsingar á milli norrænu ríkjanna sem ætlað er að leysa af hólmi lög um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar. Lagt er til einfaldara og skilvirkara fyrirkomulag um afhendingu sakamanna á milli norrænu ríkjanna en samkvæmt gildandi lögum. Fyrirkomulagið byggist á gagnkvæmri viðurkenningu á ákvörðunum dómsmálayfirvalda viðkomandi ríkja.
    Afhendingarfyrirkomulagið er í fjórum grundvallaratriðum frábrugðið núverandi framsalsfyrirkomulagi. Í fyrsta lagi kemur norræn handtökuskipun í stað venjubundinnar framsalsbeiðni. Í öðru lagi ber ríki sem tekur á móti norrænni handtökuskipun að handtaka og afhenda eftirlýstan mann til þess ríkis sem gaf beiðnina út nema til staðar séu nánar tilgreindar synjunarástæður. Í þriðja lagi er dómsmálaráðuneytunum ekki blandað í málsmeðferðina. Ákæruvald eða önnur stjórnvöld sem tilnefnd eru skulu gefa út handtökuskipun, taka á móti henni og fjalla um hana sem og að taka ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um afhendingu. Mál verður aðeins lagt fyrir dómstól samþykki hinn eftirlýsti ekki afhendingu. Í fjórða lagi eru allir málsmeðferðarfrestir styttir. Frumvarpið byggist á samningi um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.