Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 271. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 312  —  271. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aðgerðir til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að kanna hvort hægt sé að nýta Lánasjóð íslenskra námsmanna til að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði með kerfi þar sem fólk væri hvatt til að stunda nám í greinum þar sem kynjahlutfall viðkomandi er lágt.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra kanni hvernig hægt sé að nýta útlánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna til að jafna stöðu kynjanna á íslenskum vinnumarkaði, til að mynda með því að hvetja nemendur til náms á sviðum sem ekki teljast hefðbundin fyrir viðkomandi kyn. Lánasjóður íslenskra námsmanna gegnir veigamiklu hlutverki í því að jafna aðstöðu fólks til náms. Aftur á móti er erfitt að stýra inntöku nemenda í skólum og eiga við skiptingu kynja eftir námsgreinum. Með þessari tillögu er leitast við að nýta sjóðinn til að hvetja nemendur að mennta sig og starfa utan hefðbundinna greina miðað við kyn, til dæmis fá karlmenn til að stunda nám í hjúkrunarfræði og félagsráðgjöf og konur í til dæmis rafmagns- og tölvuverkfræði en samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Háskóla Íslands voru 20. október 2009 einungis 3,3% nemenda í hjúkrunarfræðideild karlar og 16,9% nemenda í rafmagns- og tölvuverkfræðideild konur. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Háskólans í Reykjavík voru árið 2008 71% nemenda í kennslufræði- og lýðheilsudeildar konur og í tölvunarfræðideild eru 69% nemenda karlar. Þetta hvatningarkerfi gæti til dæmis falist í einhvers konar ívilnun varðandi lánakjör hjá sjóðnum. Sem dæmi má nefna að árlegt endurgreiðsluhlutfall væri lægra eða vextir lægri. Nauðsynlegt væri þó að hafa fyrir fram ákvarðað hlutfall kynjaskiptingar sem ívilnunin tæki til. Ef til að mynda 70% af skráðum nemendum í viðkomandi námsgrein eru karlkyns mundi kona njóta ívilnunar og væri þannig hvött til að stunda nám í viðkomandi námsgrein.
    Á undanförnum árum hefur Alþingi lagt mikið upp úr því að jafna hlut kynjanna á vinnumarkaði. Má þar helst nefna svokallaða jákvæða mismunun, heimild starfsmanns til að tjá sig um laun kjósi hann það o.fl. Aftur á móti hefur erfiðlega gengið að jafna launamun kynjanna á íslenskum vinnumarkaði og enn virðist nokkuð langt í land. Eitt af markmiðum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, er að vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði. Enn fremur er í markmiðsgrein laganna talað um að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla. Í lögunum er jafnframt opnað á heimild fyrir sértækar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu annars kynsins eða auka möguleika kvenna eða karla í því skyni að koma á jafnri stöðu kynjanna á sviði þar sem hallar á annað þeirra. Til að ná slíku fram gæti þurft að veita öðru kyninu forgang. Með þessari tillögu er mælst til þess að ráðherra skoði þann möguleika að veita því kyni sem á hallar ívilnun á einstökum sviðum á vinnumarkaði í gegnum útlánakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna og má því segja að aðgerðin sé sértæk. Eðli tillögunnar samkvæmt er um tímabundna aðgerð að ræða þar sem hin ívilnandi úrræði mundu einungis gilda þar til ákveðnu jafnvægi eða hlutfalli milli kynja á mismunandi sviðum væri náð.
    Niðurstöður rannsókna benda til að lítið hafi þokast í að uppræta kynbundinn launamun síðustu árin og virðist vera ákveðin stöðnun að þessu leyti, sbr. skýrslu félags- og tryggingamálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála í janúar 2009. Í skýrslunni kemur einnig fram að konur eru almennt með 16,3% lægri heildarlaun en karlar þegar tekið hefur verið tillit til atvinnugreinar, starfs, menntunar, ábyrgðar í starfi og aldurs. Enn fremur má sjá mun eftir því hvort horft er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar en munurinn er meiri á landsbyggðinni. Jafnframt má sjá mun á hinum almenna markaði, þar sem konur eru með 18,3% lægri heildarlaun og 18,9% lægri grunnlaun en karlar, og hinu opinbera, þar sem konur eru með 22,1% lægri laun en karlar. Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands í júní 2007 kemur fram að föst mánaðarlaun kvenna voru að meðaltali 18% lægri en karla árið 2006. Þar af verða 8% skýrð með mun á menntun kynjanna, starfi, aldri eða starfsaldri en eftir stendur að föst mánaðarlaun eru að öðru leyti um 10% lægri hjá konum en körlum. Í skýrslunni kemur þó fram að gögn um fjölskylduaðstæður, ábyrgð og frammistöðu einstaklinga voru ekki tiltæk og því ekki hægt að fullyrða að þessi launamunur stafi eingöngu af kyni. Af tölunum má sjá að þótt eitthvað hafi þokast í rétta átt er þörf á að gera betur. Oft hefur verið talað um að konur komist ekki upp fyrir ákveðið „glerþak“ í launum sem á þó sér í lagi við þegar um er að ræða hefðbundin kvennastörf. Líklegt er að það skýrist af því að karlmenn dragi að jafnaði upp laun en lág laun innan hefðbundinna kvennastétta eru jafnframt ein ástæða þess að karlmenn sækjast ekki eftir því að starfa í þeim greinum. Nái efni þessarar tillögu fram að ganga gæti orðið til mikilvægt baráttutæki til aukins jafnréttis kynjanna á sem flestum sviðum og til að breyta hefðbundnum og oft neikvæðum kynbundnum staðalímyndum í samfélaginu.