Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 461. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 796  —  461. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2009.

1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í starfsemi þingmannanefnda EFTA og EES árið 2009 voru tvö mál einkum í brennidepli framan af ári. Annars vegar var ítrekað fjallað um alþjóðlegu fjármálakreppuna og hins vegar um áframhaldandi gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Frá sjónarhóli Íslands var umfjöllun um alþjóðlegu fjármálakreppuna einkar mikilvæg. Umfjöllun um hana var hvort tveggja í senn, almenn og sértæk þar sem athygli beindist að íslenska bankahruninu og yfirstandandi efnahagsþrengingum hérlendis. Þingmenn Íslandsdeildar gerðu erlendum starfssystkinum ítrekað grein fyrir stöðu endurreisnaráætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Icesave-málinu og umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Sérstök skýrsla um alþjóðlegu fjármálakreppuna og Ísland var gerð í þingmannanefnd EES. Í kjölfar skýrslunnar samþykkti nefndin ályktun þar sem m.a. sagði að tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi væri óljós varðandi lagalega ábyrgð ríkja til þess að styðja innstæðutryggingarsjóði við kerfishrun, auk þess sem harmað var að Ísland virðist hafa verið beitt óeðlilegum þrýstingi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. Með svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafa samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 20 talsins. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar í þingmannanefndum EFTA og EES árið 2009 má nefna Lissabonsáttmála ESB, Doha-samningalotu WTO, vinnumarkaðsmál innan EES og óskir Færeyinga um aukið samstarf við EFTA.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefnar EFTA myndar sendinefnd Alþingis í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES- samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Í byrjun árs skipuðu Íslandsdeildina þau Katrín Júlíusdóttir, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Bjarni Benediktsson, varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Arnbjörg Sveinsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Ármann Kr. Ólafsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ólöf Nordal, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Breytingar urðu á skipan Íslandsdeildar eftir kosningar til Alþingis 25. apríl og kosningu Alþingis í alþjóðanefndir 15. maí. Aðalmenn voru kosnir Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Framsóknarflokks, Valgerður Bjarnadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn eru Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar, og Vigdís Hauksdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Á fundi Íslandsdeildar 18. maí var Árni Þór Sigurðsson kosinn formaður og Valgerður Bjarnadóttir varaformaður deildarinnar. Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

4. Starfsemi Íslandsdeildar.
    Íslandsdeildin var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Íslandsdeildin hélt fimm fundi á árinu. Þar var starfsemi Íslandsdeildar skipulögð og þátttaka í fundum þingmannanefnda EES og EFTA undirbúin.
    Alþjóðlega fjármálakreppan og bankahrunið á Íslandi komu ítrekað til umfjöllunar á fundum þingmannanefnda EFTA og EES. Katrín Júlíusdóttir var ásamt Evrópuþingmanninum Diönu Wallis skýrsluhöfundur sérstakrar vinnuskýrslu um Ísland, EES og fjármálakreppuna. Í vinnuskýrslunni er rakið hvernig fjármálakreppan í Evrópu og sér í lagi bankahrunið á Íslandi hafi sýnt fram á galla í löggjöf ESB um fjármálamarkaði sem jafnframt gildir innan EES. Var sérstaklega fjallað um tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi og bent á galla á tilskipuninni þar sem ekki segði fyrir um viðbrögð við kerfishruni. Vinnuskýrslan var lögð fram á fyrri fundi þingmannanefnar EES í mars. Í fjarveru Katrínar fylgdi Árni Þór Sigurðsson vinnuskýrslunni úr hlaði ásamt Diönu Wallis.
    Árni Þór Sigurðsson og Evrópuþingmaðurinn Paul Rübig unnu vinnuskýrsluna áfram og lögðu fram skýrslu um EES og alþjóðlega fjármálakreppuna á síðari fundi þingmannanefndar EES í október. Efnistök skýrslunnar voru víkkuð út frá því sem áður var og í henni var að finna almennari umræðu um galla í fjármálaregluverki ESB og þörfina á víðtækum úrbótum þrátt fyrir að grunnur skýrslunnar væri enn byggður á reynslu Íslands af hruninu. Skýrsluhöfundarnir lögðu jafnframt fram drög að ályktun sem þingmannanefnd EES samþykkti samhljóða. Í ályktuninni sagði m.a. að tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi væri óljós varðandi lagalega ábyrgð ríkja til þess að styðja innstæðutryggingarsjóði við kreppu í bankakerfi eða algjört kerfishrun. Gallar á tilskipuninni hafi komið í ljós við bankahrunið á Íslandi og nauðsynlegt væri að endurskoða hana og innstæðutryggingakerfi Evrópu. Þá er í ályktuninni harmað að Ísland virðist hafa verið beitt óeðlilegum þrýstingi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að fallast á þá lagatúlkun tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi sem hin ESB og EES ríkin sameinuðust um.
    Að endingu ber að nefna að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu kom ítrekað til umræðu á fundum þingmannanefnda EFTA og EES og var málið sérstakur dagskrárliður á fundi þingmannanefndar EES í október. Íslandsdeildin kynnti þar aðildarumsóknina og fulltrúar einstakra flokka gerðu grein fyrir sinni stefnu varðandi mögulega ESB-aðild.

5. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2009.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2009. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar fjórum sinnum, þar af þrisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherraráði EFTA. Enn fremur áttu fulltrúar þingmannanefndar EFTA fundi með efnahagsnefnd rússneska þingsins í samræmi við stefnu sína um að styðja við gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Þrjár skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu í tímaröð.

32. fundur þingmannanefndar EES í Evrópuþinginu í Strassborg 25.–26. mars 2009.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sótti Árni Þór Sigurðsson fundinn ásamt Stíg Stefánssyni ritara. Helstu dagskrármál fundarins voru orkumál og öryggi orkuframboðs í fjármálakreppunni; ársskýrsla um framkvæmd EES-samstarfsins; vinnuskýrsla um Ísland, EES og fjármálakreppuna; vinnumarkaðsmál innan EES; og selveiðar Norðmanna.
    Fyrsti hluti fundar þingmannanefndarinnar var skipulagður sem sérstök málstofa um orkumál, orkuframboð og fjármálakreppuna. Helstu frummælendur voru tveir fulltrúar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, þau Benita Ferrero-Waldner, framkvæmdastjóri utanríkissamskipta, og Andris Piebalgs, framkvæmdastjóri orkumála. Ferrero-Waldner sagði í framsögu sinni allar líkur á að ESB yrði á næstu árum enn háðara orkuinnflutningi en áður og allt að 70% af orkuþörf álfunnar kynni að verða mætt með innflutningi árið 2030. Ekki væri hægt að ganga að stöðugu orkuframboði vísu og því hlyti ESB að reyna að fjölga birgjum og hefði í því skyni gert samkomulag um orkusamvinnu við nokkur Mið-Asíuríki. Dæmin frá nýliðnum vetri og árinu 2006 sýndu að gasframboð frá Rússlandi gæti verið óstöðugt og lyti ekki endilega markaðsaðstæðum heldur kynni að vera notað sem milliríkjapólitískt vopn. Þó væri mikilvægt að hafa hugfast að þótt Evrópa væri háð gasinnflutningi frá Rússlandi væru Rússar ekki síður háðir gjaldeyristekjum af gassölunni. Innflutningurinn nemur 25% af orkuþörf álfunnar en um leið 70% af tekjum Rússa af orkuútflutningi. Piebalgs ræddi í framsögu sinni um möguleika á að minnka vægi innfluttrar orku með aukinni fjárfestingu í orkuframleiðslu innan ESB og skilvirkari orkunotkun. Hvað varðar innflutning væri mikilvægt að nefna að aldrei hefðu komið upp nein vandamál varðandi gassölu Norðmanna og að ESB vildi auka orkukaup frá Noregi og auka um leið samstarf við Norðmenn um baráttu gegn loftslagsbreytingum. Um Ísland sagði Piebalgs að kunnátta Íslendinga á sviði jarðvarma gæti nýst ESB og að í framtíðinni gæti Ísland orðið fyrirmynd í vetnisvæðingu en forsendur til vetnisvæðingar hagkerfisins væru óvíða betri vegna ódýrrar raforku. Raforkuútflutningur frá Íslandi um sæstreng væri ekki tæknilega mögulegur en slíkt kynni að breytast í framtíðinni.
    Í umræðum um ársskýrslu þingmannanefndar EES um framkvæmd EES-samningsins kom m.a. fram að rekstur samningsins gengi vel og að EES/EFTA-ríkin innleiddu þær ESB-gerðir sem teknar eru upp í EES-samninginn yfirleitt hratt og vel. Ísland hefði þó dregist aftur úr og væri nú það ríki EES ásamt Lúxemborg sem ætti eftir að innleiða flestar gerðir. Skýrsluhöfundurinn, norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen, spurði sérstaklega hvað liði innleiðingu matvælalöggjafar ESB á Íslandi. Árni Þór Sigurðsson svaraði því til að Alþingi hefði verið mjög upptekið við að takast á við fjármálakreppuna og hina pólitísku kreppu sem fylgdi í kjölfarið, og að matvælalöggjöfin mundi bíða nýs þings eftir kosningarnar 25. apríl.
    Sérstök vinnuskýrsla Katrínar Júlíusdóttur og Evrópuþingmannsins Diönu Wallis um Ísland, EES og fjármálakreppuna var lögð fram á fundinum. Í skýrslunni er rakið hvernig fjármálakreppan í Evrópu og sér í lagi bankahrunið á Íslandi hafi sýnt fram á galla í löggjöf ESB um fjármálamarkaði sem jafnframt gildir innan EES. Er sérstaklega fjallað um tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi sem gerir ráð fyrir að fjármálastofnanir leggi ákveðið hlutfall innlána (yfirleitt 0,5–1,5%) í tryggingarsjóð til að geta greitt út lágmarkstryggingu innlána að upphæð 21.000 evrur við gjaldþrot einstakra banka. Í tilskipuninni er ekkert sagt fyrir um viðbrögð við hruni heils bankakerfis þegar tryggingarsjóðurinn mun eðli málsins samkvæmt ekki hafa bolmagn til að greiða lágmarkstrygginguna. Íslensk stjórnvöld tókust á við önnur EES-ríki um hvort ríkissjóðir einstakra ríkja ættu að taka á sig greiðslur lágmarkstrygginga þegar tryggingarsjóður viðkomandi ríkis tæmist og varð niðurstaðan sú að íslensk stjórnvöld gengust undir þá skuldbindingu. Í vinnuskýrslunni er bent á galla á tilskipuninni og hvatt til umbóta á regluverki ESB á sviði fjármálamarkaða. Jafnframt er bent á hvernig fjármálakreppan hefur grafið undan innri markaði Evrópu þar sem Ísland hefur t.d. neyðst til að setja strangar hömlur á fjármagnsflutninga og undirstrikað að náin tengsl séu á milli virks innri markaðar og myntsamstarfs. Að lokum eru stofnanir Evrópusambandsins hvattar til að tryggja að ef svo færi að Ísland sækti um aðild að sambandinu verði stutt við fjármálastöðugleika með því að veita Íslendingum hraðan aðgang að evrópska myntsamstarfinu ERM sem yrði fyrsta skrefið í þá átt að taka upp evru.
    Í fjarveru Katrínar Júlíusdóttur hélt Árni Þór Sigurðsson framsögu um vinnuskýrsluna ásamt Diönu Wallis. Árni Þór sagði Ísland hafa verið fyrsta vestræna ríkið til að sækja um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) í 30 ár en síðan hefðu tvö ESB-ríki, Ungverjaland og Lettland, sótt um og fengið slíka aðstoð. Aðstæður þessara ríkja væru þó mjög ólíkar. Rætur vandans á Íslandi lægju að mati AGS í alltof stóru bankakerfi sem Seðlabankinn gat ekki varið og veitt lán til þrautavara þegar að kreppti. Árni Þór bætti við að vandinn á Íslandi væri jafnframt skipbrot efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda síðustu ár sem einkennst hefði af nýfrjálshyggju, óvarlegri einkavæðingu banka og stóriðjuframkvæmdum sem hefðu valdið ofþenslu sem mætt hefði verið með of háu vaxtastigi. Þá lýsti Árni Þór því hvernig íslensk stjórnvöld hefðu neyðst tímabundið til að setja strangar hömlur á gjaldeyrisviðskipti sem í raun fæli í sér að frelsi til fjármagnsflutninga samkvæmt EES-samningnum væri tímabundið numið úr gildi. Því næst greindi Árni Þór frá deilum um túlkun á tilskipun ESB um innstæðutryggingar þar sem óljóst var um skyldu íslenska ríkisins til þess að greiða lágmarkstryggingu fyrir erlendar innstæður í íslensku bönkunum eftir bankahrunið þegar ljóst var að tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta réð ekki við þær greiðslur. Deilunum lauk með því að íslensk stjórnvöld gerðu samkomulag við nokkur aðildarríki ESB um viðmið sem væru grundvöllur samningaviðræðna við Breta og Hollendinga. Að lokum sagði Árni Þór efnahagshrunið á Íslandi og vandann í ýmsum Austur-Evrópuríkjum ESB sýna vanda þess að viðhalda smáum sjálfstæðum gjaldmiðlum á innri markaði ESB/EES. Þetta hefði leitt til þess að ýmis þessara ríkja hefðu kallað eftir því að geta tekið evruna upp með skjótum hætti. Þó að evran væri samkvæmt stefnu ESB einungis fyrir aðildarríki sambandsins væri vert að rifja upp að ýmsir gagnrýnendur hefðu bent á þá mótsögn sem fælist í því að evrunni væri ætlað að vera mynt innri markaðarins en stæði ekki EES/EFTA-ríkjunum til boða þrátt fyrir að þau innleiddu allt regluverk markaðarins og tækju í honum fullan þátt.
    Diana Wallis ítrekaði í sinni framsöguræðu að framkoma breskra stjórnvalda og ESB við Ísland fyrst eftir bankahrunið hefði verið til vansa og ekki til hjálpar. Evrópuþingmaðurinn Bilyana Raeva, formaður þingmannanefndar EES, áréttaði að evran væri einungis fyrir aðildarríki ESB og að Svartfjallaland og Kósóvó væru af sögulegum ástæðum einu undantekningarnar. Norsku þingmennirnir Svein Roald Hansen og Marianne Aasen spurðust fyrir um hvort Íslendingar mundu taka upp evru stæði hún til boða og hver staðan væri í Evrópuumræðunni á Íslandi. Árni Þór svaraði því til að framtíðarfyrirkomulag í gjaldmiðilsmálum yrði kyrfilega rætt næstu mánuði og að ýmsir möguleikar hefðu verið nefndir í umræðunni, t.d. einhliða upptaka evru eða einhvers konar myntsamstarf við Norðmenn. Líklegt væri að spurningin um hvort Ísland sæki um aðild að ESB yrði útkljáð í þjóðaratkvæðagreiðslu en stjórnmálaflokkarnir væru að mestu sammála um að setja málið í þann farveg.
    Auk framangreindra dagskrárliða var rætt um skýrslu um vinnumarkaðsmál innan EES en ályktun á grundvelli skýrslunnar var frestað til næsta fundar. Þá var að frumkvæði Norðmanna rætt um selveiðar en tillaga lá fyrir Evrópuþinginu um bann við viðskiptum með selaafurðir innan Evrópusambandsins á þeirri forsendu að veiðiaðferðir væru ómannúðlegar. Norsku þingmennirnir mótmæltu tillögunni harðlega. Þeir sögðu selveiðar Norðmanna mannúðlegar og sjálfbærar auk þess sem þær héldu stofnstærð sela niðri og stuðluðu þannig að auknum fiskveiðikvótum, m.a. í flökkustofnum sem Norðmenn og ESB nýta sameiginlega.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk tengdra funda í Hamar 22. júní 2009.
    Auk sameiginlegs fundar þingmanna og ráðherra EFTA fóru eftirfarandi fundir fram í Hamar: Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA, fundur þingmannanefndar EFTA og sameiginlegur fundur þingmannanefndar og ráðgjafarnefndar EFTA. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina þau Árni Þór Sigurðsson formaður, Valgerður Bjarnadóttir varaformaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir auk Örnu Gerðar Bang starfandi ritara Íslandsdeildar.
    Fundur þingmannanefndar EFTA hófst á því að ný Íslandsdeild kynnti sig fyrir nefndarmönnum og Árni Þór Sigurðsson tók við varaformennsku í nefndinni. Breytingar á starfsreglum nefndarinnar voru samþykktar einróma. Þá kynnti Sveinung Roen, sérfræðingur frá viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Noregs, framkvæmd og stöðu vinnuhópa EFTA annars vegar um fríverslun og umhverfisvernd og hins vegar fríverslun og félagsleg réttindi á vinnumarkaðnum. Vinnuhóparnir voru settir á laggirnar árið 2008 með það fyrir augum að móta heildstæða stefnu sem brúaði það bil sem ríkir milli stefnumiða EFTA-ríkjanna í umhverfismálum og hvað varðar félagsleg réttindi, þ.e. að hvaða marki eigi að nota fríverslunarsamninga EFTA til að knýja á um aukin félagsleg réttindi og umhverfisvernd. Í umræðum nefndarmanna að kynningu lokinni var m.a. lögð áhersla á mikilvægi viðræðna við lausn deilna í stað þess að beita viðskiptahindrunum. Þá var rætt um hugsanleg málefni og spurningar fyrir fund þingmannanefndarinnar með EFTA-ráðherrum síðar um daginn og ræddi formaður helstu áherslur nefndarinnar.
    Næsti dagskrárliður fjallaði um stjórnmálaþróun innan einstakra EFTA-ríkja. Árni Þór Sigurðsson kynnti þróun mála á Íslandi. Hann sagði m.a. frá kosningunum á Íslandi í lok apríl og að ný vinstri stjórn hefði verið mynduð auk þess sem hlutur kvenna hefði aukist á Alþingi og væru þær nú 43% þingmanna. Þá fjallaði hann um stöðu mála varðandi aðildarumsókn að Evrópusambandinu (ESB), þingsályktunartillögur ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðu um aðildarumsókn að sambandinu og störf utanríkismálanefndar sem vann að málunum. Í framhaldinu sköpuðust líflegar umræður um stöðu og framgang mála á Íslandi. Spurt var um ástæður þess að þjóðin hefði skipt um skoðun og væri líklegri til að styðja aðild að ESB en áður. Valgerður Bjarnadóttir sagði Samfylkinguna hafa viljað sækja um aðild að ESB í mörg ár og því ekki um viðsnúning að ræða hjá þeim. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði að þó meiri hluti þjóðarinnar vildi sækja um aðild þýddi það ekki endilega að meiri hlutinn vilji ganga í sambandið. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði meiri hluta Sjálfstæðismanna efast um ávinning þess fyrir þjóðina að sækja um aðild að sambandinu og að flokkurinn legði til tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, annars vegar að kosið yrði um hvort sækja ætti um aðild og hins vegar yrði kosið um inngöngu í ESB. Þá sagði Árni Þór Sigurðsson fjármálakreppuna hafi haft áhrif á viðhorf þjóðarinnar til aðildar að ESB.
    Formaður þingmannanefndar EFTA, Brigitta M. Gadient, kynnti nefndarmönnum helstu niðurstöður framkvæmdastjórnarfundar þingmannanefndarinnar sem haldinn var fyrr um morguninn. Árni Þór Sigurðsson og Sigurður Davíð Gunnlaugsson voru fulltrúar Íslandsdeildar á fundinum. Formaður ræddi um fundarsköp þingmannanefndarinnar og starfið framundan. Þá ræddi hún um fyrirhugaða heimsókn nefndarinnar til Moskvu í október 2009. Markmið heimsóknarinnar yrði að eiga viðræður um fríverslunar- og fjárfestingarsamninga ríkjanna, ræða ávinning slíks samnings við rússneska þingmenn og kynna sér viðskiptastefnu Rússlands.
    Í janúar 2009 sendi formaður þingmannanefndar EFTA bréf til formanns utanríkismálanefndar færeyska þingsins þar sem beiðni um áheyrnaraðild að nefndinni var svarað. EFTA- ráðið lagði til að fulltrúum færeyska Lögþingsins yrði boðið að sækja fundi nefndarinnar öðru hverju sem og ráðstefnur og aðra atburði sem nefndin stendur að. Ekkert svar hafði borist við bréfi formanns og mælti Árni Þór Sigurðsson með því að Færeyingum yrði boðið til næsta fundar nefndarinnar sem fyrirhugaður var í desember. Búið væri að ræða málið í langan tíma og ekki skynsamlegt að bíða lengur með að bjóða Færeyingum til fundar. Tillaga Árna Þórs var samþykkt á fundinum.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðgjafarnefndar EFTA var helsta dagskrármálið höfundarréttur og fríverslun og hvernig sá málaflokkur horfir við EFTA- ríkjunum, sérstaklega í ljósi þess að um ólíkar áherslur er að ræða þeirra á meðal. Lars Erik Nordgaard, skrifstofustjóri á skrifstofu EFTA og fyrrverandi aðalsamningamaður í viðskipta- og iðnaðarráðuneyti Noregs, fræddi fundarmenn um málið. Í máli sínu varpaði hann m.a. ljósi á það hvernig WTO tekur á höfundarréttarmálum og hvernig þau eru samþætt inn í fríverslunarsamninga. Gert er ráð fyrir að næsti fundur nefndarinnar verði haldinn á Íslandi að vori 2010, í tengslum við ráðherrafund þingmannanefndarinar.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðherra EFTA var annars vegar fjallað um þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga og hins vegar um þróun EES, en þetta eru fastir dagskrárliðir á fundum þingmanna og ráðherra EFTA. Sylvia Brustad, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, flutti framsögu um fríverslunarsamningagerð EFTA. Helstu tíðindi af því sviði voru að fríverslunarsamningur EFTA-ríkjanna við Samstarfsráð Persaflóaríkja var undirritaður þá um morguninn. Þá sagði hún fagnaðarefni að fríverslunarsamningur við Kanada hefði verið fullgiltur og að nýlega hefði verið undirrituð sameiginleg yfirlýsing um samstarf við Máritíus. Enn fremur lofaði upphaf viðræðna við Úkraínumenn, Serba og Albana góðu. Búist væri við að samningar næðust við Indland á árinu 2010. Þá hefðu skref verið stigin til undirbúnings viðræðum milli EFTA og Rússlands. Einnig hefði verið ákveðið að hefja fríverslunarviðræður við Hong Kong og láta kanna hvort fýsilegt væri að hefja viðræður við Víetnam.
    Í umræðum ráðherra og þingmanna um þróun EES-samningsins hélt Harry Quaderer, formaður þingmannanefndar EFTA, framsögu og fór m.a. nokkrum orðum um stór mál sem að undanförnu hafa verið innleidd í EES-samninginn, svo sem matvælalöggjöfina. Þá ræddi hann um hugsanlega stækkun EES með aðild San Marino og Andorra og spurði út í þróun mála á Íslandi þar sem miklar umræður hefðu átt sér stað um framtíð samningsins í ljósi stöðu mála og hugsanlegrar aðildarumsóknar Íslands að ESB. Í framhaldinu greindi Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra frá þróun mála á Íslandi og ferli hugsanlegrar aðildarumsóknar að ESB. Þá sagði hann mikilvægt að lærdómur væri dreginn af bankahruninu á Íslandi sem sýndi fram á annmarka á EES-samningnum. Aðildarríki EES tækju að fullu þátt í innri markaði ESB en nytu ekki þess öryggisnets sem aðildarríki ESB búa við. Utanríkisráðherra sagði enn fremur ólíklegt að aðildarríkjum EES yrði fjölgað á næstunni þar sem umræður um það væru á frumstigi. Árni Þór Sigurðsson spurði um stöðu mála varðandi umræðuvettvang fyrir sveitarstjórnarstigið hjá EFTA-ríkjunum. Framkvæmdastjóri EFTA, Kare Bryn, svaraði því til að málið hefði verið rætt meðal EFTA-ráðherranna og fengið jákvæða afgreiðslu og nánari útfærsla yrði kynnt síðar.
    Enn fremur hélt Íslandsdeildin óformlegan fund með Svein Roald Hansen, formanni norsku landsdeildar þingmannanefndar EFTA, þar sem hann fræddi nefndarmenn um umsóknarferlið og umræður í norska þinginu í tengslum við umsókn Norðmanna um aðild að ESB 1993.

Fundir sendinefndar þingmannanefndar EFTA í Moskvu 25.–27. október 2009.
    Markmið sendinefndarinnar var að eiga viðræður um ávinning hugsanlegs fríverslunarsamnings EFTA og Rússlands við rússneska þingmenn og stofnanir og kynna sér jafnframt stöðu mála varðandi væntanlega aðild Rússlands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, WTO. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA voru í sendinefndinni Árni Þór Sigurðsson formaður og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum. Með svartsýni á að árangur náist í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafa fleiri samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA við ríki utan Evrópusambandsins nú 20 talsins. Engin ríkjasamtök hafa náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að Evrópusambandinu undanskildu. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og hefur beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Forsaga heimsóknar sendinefndarinnar til Moskvu er sú að á árinu 2008 gerði sérstakur vinnuhópur EFTA-ríkjanna og Rússlands hagkvæmnisathugun á mögulegum fríverslunarsamningi milli landanna. Niðurstaða athugunarinnar leiddi í ljós að slíkur samningur yrði til hagsældar fyrir báða aðila og hafa EFTA og Rússland unnið að því að undirbúa sig fyrir samningaviðræður. Yfirlýsing Rússlands um að ganga í tollabandalag með Hvítarússlandi og Kasakstan hefur þó tafið fyrir ákvörðun um samningaviðræður enda er með því ný staða komin upp.
    Á fundi með efnahagsnefnd rússneska þingsins lagði formaður nefndarinnar, Evgenij Fjodorov, áherslu á þá stefnu Rússa að byggja upp fjölbreyttara hagkerfi í stað þess að treysta um of á gas- og olíuvinnslu enda væru þær auðlindir takmarkaðar. Líta ber á vilja Rússa til þess að gerast aðilar að WTO og til þess að gera fríverslunarsamning við EFTA í þessu ljósi. Um hið nýja tollabandalag við Hvítarússland og Kasakstan sagði Fjodorov ríkin stefna á að ganga saman í WTO. Ekki kom fram í máli hans hvaða áhrif tollabandalagið hefði á mögulegar fríverslunarviðræður við EFTA. Á fundinum lögðu EFTA-þingmenn áherslu á jákvæða niðurstöðu hagkvæmnisathugunar á fríverslun EFTA og Rússlands og að samningur þar um mundi auka hagsæld í ríkjunum. Árni Þór Sigurðsson spurðist fyrir um áhrif fjármálakreppunnar á vilja Rússa til fríverslunar, fyrstu viðbrögð við kreppu væru oft að taka upp verndarstefnu í efnahagsmálum en frekar mætti líta á fríverslun við EFTA sem eina aðgerð af mörgum til þess að vinna sig út úr kreppunni. Fjodorov tók undir það og sagði að fjármálakreppan hefði komið illa við Rússa og því væri álitið brýnna en áður að koma á viðskiptasamningum sem gætu haft jákvæð áhrif á þróun hagkerfisins. Í fundarlok bauð Birgitta Gadient, formaður þingmannanefndar EFTA, efnahagsnefnd rússneska þingsins að senda sendinefnd til höfuðstöðva EFTA í Genf á næsta ári.
    Auk fundarins með efnahagsnefndinni í rússneska þinginu hitti sendinefndin Morozov, fyrsta varaforseta þingsins, að máli. Á þeim fundi var Morozov mjög jákvæður í garð EFTA og aukinna viðskiptatengsla.
    Í efnahagsráðuneyti Rússlands átti sendinefndin fund með Andrei A. Slepnev, aðstoðarráðherra. Slepnev sagði horfur fyrir samningagerð EFTA og Rússlands góðar og að Rússland legði aukna áherslu á bætt viðskiptatengsl sem svar við fjármálakreppunni. Rússar væru að leggja lokahönd á undirbúning fyrir samningaviðræður en tollabandalag við Hvítarússland og Kasakstan mundi þar væntanlega hafa áhrif. Sérfræðingar ráðuneytisins væru að kanna hvaða áhrif tollabandalagið hefði á samskiptin við EFTA en þótt niðurstaða þeirrar könnunar lægi ekki fyrir taldi Slepnev farsælt fyrir EFTA að gera samning við ríkin þrjú í einu lagi. Aðspurður sagði aðstoðarráðherrann ekki útilokað að Rússland og EFTA gerðu tvíhliða samning en taldi æskilegt að hin ríkin tvö gætu átt möguleika á aðild að samningnum á síðari stigum.
    Meðan á heimsókn sendinefndarinnar stóð átti hún einnig fundi með samtökum lítilla og meðalstórra fyrirtækja og samtökum evrópskra fyrirtækja í Rússlandi.

33. fundur þingmannanefndar EES í Þrándheimi 28.–29. október 2009.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundinn þau Árni Þór Sigurðsson formaður, Valgerður Bjarnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir ásamt Sigrúnu Brynju Einarsdóttur, starfandi ritara Íslandsdeildar. Helstu dagskrármál fundarins voru þróun EES-samningsins, samskipti Íslands og Evrópusambandsins í ljósi umsóknar Íslands um aðild að ESB, skýrsla um alþjóðlegu fjármálakreppuna og EES, skýrsla um vinnumarkaðsmál á EES-svæðinu og vinnuskjal um svæðisbundið samstarf sveitar- og héraðsstjórna innan EES.
    Að vanda var embættismönnum boðið á fund nefndarinnar til að ræða þróun og framkvæmd EES-samningsins og eftirfylgni ályktana sem samþykktar voru á síðasta fundi. Framsögu höfðu Helge Skaara frá fastanefnd Noregs gagnvart ESB, Michael Sahlin, sendiherra Svíþjóðar sem kom fram sem fulltrúi formennskuríkis ESB í EES-ráðinu, Lars Olof Hollner frá framkvæmdastjórn ESB og Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA. Í tengslum við þær umræður var spurt hvenær Ísland mundi innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins og upplýsti Árni Þór Sigurðsson að málið væri til meðferðar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og hann væri vongóður um að meðferð þingsins lyki innan skamms. Fram kom í máli Per Sanderud að nokkur mál tengd ríkisstyrkjum á Íslandi væru til meðferðar hjá ESA. Þau hefðu komið upp í tengslum við endurfjármögnun bankanna og mikilvægt væri að meðhöndla þau hratt og vel.
    Árni Þór Sigurðsson hafði framsögu um samskipti Íslands og Evrópusambandsins og gerði m.a. grein fyrir þeirri hröðu þróun mála sem hefði orðið frá síðasta fundi sameiginlegu nefndarinnar í mars. Hann sagði að Ísland væri eins vel undirbúið fyrir aðild að ESB og nokkurt ríki gæti verið, hafandi innleitt meira en 2/ 3 hluta af löggjöf sambandsins, auk þess sem Ísland hefði tekið fullan þátt í Schengen-samstarfinu frá 1996. Hann kvað efnahagskreppuna hafa verið pólitískan hvata að aðildarumsókninni en ekki aðalástæðuna og að stuðningsmenn aðildar teldu aðildina tryggja efnahagslegan stöðugleika til langs tíma. Benti Árni Þór á að mörg önnur ríki hefðu sótt um aðild að ESB á erfiðum tímum og það væri því ekkert nýtt í tilfelli Íslands. Aðildarumsóknin væri hins vegar umdeild á Íslandi og gerði Árni Þór grein fyrir stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í málinu. Hann lagði áherslu á þekkingu og reynslu Íslendinga af endurnýtanlegum orkugjöfum, stjórn sjálfbærra fiskveiða, jafnrétti kynjanna, umhverfismálum og málefnum Norðurskautsins sem svið þar sem Íslendingar gætu lagt ýmislegt af mörkum til ESB ef til aðildar kæmi. Varðandi samningaviðræðurnar sjálfar sagði hann vonir Íslendinga standa til þess að ljúka þeim á 12–24 mánuðum og lagði áherslu á að Íslendingar vildu eingöngu njóta sanngirni í þeim en sæktust ekki eftir sérmeðferð. Erfiðustu samningsmálin yrðu væntanlega sjávarútvegur og landbúnaður.
    Töluverðar umræður sköpuðust í kjölfar framsögu Árna Þórs. Aðspurður um tengslin milli ESB-umsóknarinnar og Icesave-samninganna lagði Árni Þór áherslu á að þau tengsl væru Íslendingum ekki að skapi, Icesave-deilan væri tvíhliða deila og ætti að leysast sem slík. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gagnrýndi Bretland og Hollland harðlega fyrir að hafa notað styrk sinn á alþjóðavettvangi og m.a. beitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum fyrir sig til að neyða Ísland til samninga sem væru fjarri því sem hægt væri að ná þegar ríki gengu jöfn að samningaborði. Hann kvaðst telja þær aðstæður sem nú væru uppi verstu hugsanlegu aðstæður til að sækja um ESB-aðild og skoðanakannanir væru til marks um það. Valgerður Bjarnadóttir sagði að frá hennar bæjardyrum séð tengdist aðildarumsóknin ekki efnahagskreppunni þar sem Samfylkingin hefði talað fyrir aðild í áratug, en almenningsálitið væri hins vegar á annan veg um þessar mundir sem gerði málið erfiðara.
    Emil Steffensen, aðstoðarforstjóri norska fjármálaeftirlitsins (Kredittilsynet), ræddi við nefndina um alþjóðlegu fjármálakreppuna og fjármálaeftirlit í ESB út frá skýrslu de Larosière hópsins. Hann lagði áherslu á þær aðgerðir sem hefðu átt sér stað til að stemma stigu við kreppunni og sagði m.a. að á vettvangi G20-ríkjanna færi nú fram vinna við að styrkja alþjóðlegt fjármálaumhverfi, regluverk þess sem og eftirlit með því. Hann sagði að þrátt fyrir að fjármálalífið sýndi greinileg merki um að vera að rétta úr kútnum væri enn töluverð hætta á ferðum og traust almennings á fjármálamörkuðum hefði borið alvarlegan hnekki.
    Skýrsla Árna Þórs Sigurðssonar og Evrópuþingmannsins Pauls Rübig um EES og alþjóðlegu fjármálakreppuna var lögð fram á fundinum til samþykktar. Í framsögum Árna Þórs og Pauls Rübig kom fram að efnistök skýrslunnar hefðu verið víkkuð út frá fyrri vinnuskýrslu og að nú væri í henni að finna almennari umræðu um galla á fjármálaregluverki ESB og þörfina á víðtækum úrbótum þrátt fyrir að grunnur skýrslunnar væri enn byggður á reynslu Íslands af hruninu. Árni Þór ræddi þann vanda sem myndaðist í ljósi þess að tilskipun ESB um innstæðutryggingar gerði ekki ráð fyrir þeim möguleika að heilt bankakerfi gæti hrunið né heldur kom skýrt fram í henni nokkur lagaleg skylda stjórnvalda til að ábyrgjast lágmarksinnstæðutryggingar. Hann gagnrýndi hin EES-ríkin harðlega fyrir að koma í veg fyrir að málið væri lagt í gerðardóm eða fyrir annan dómstól í því skyni að koma í veg fyrir að evrópska bankakerfinu væri teflt í tvísýnu og sagði Íslendinga eiga erfitt með að sætta sig við að þurfa að bera allan kostnað af því að verja það. Þá gagnrýndi Árni Þór Bretland sérstaklega fyrir beitingu hryðjuverkalaga gagnvart Íslandi og sagði slíka framkomu fordæmalausa meðal vinaþjóða. Hann nefndi einnig þá löngu töf sem orðið hefði á endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands, kvað hana ganga gegn starfsreglum sjóðsins og lýsti efasemdum um að sjóðurinn hefði komið fram með sama hætti gegn stærri og sterkari þjóðum en Íslandi. Í umræðum eftir framsögurnar kom fram skýr vilji til að styrkja alþjóðlega samvinnu á sviði fjármálaeftirlits og regluverks. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kvað Íslendinga vera mjög vonsvikna með bankana og bankamenn, en minnti á að jafnframt þyrfti að hafa í huga hvar kerfið sjálft hefði brugðist. Þrátt fyrir allt hefði starfsemin hér á landi verið í samræmi við evrópskar reglur og væri enn, en engu að síður væri verið að velta við hverjum steini á Íslandi til að rannsaka hvað hefði brugðist.
    Að umræðum loknum var ályktun á grundvelli skýrslunnar samþykkt samhljóða. Í ályktuninni sagði m.a. að tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi væri óljós varðandi lagalega ábyrgð ríkja til þess að styðja innstæðutryggingarsjóði við kreppu í bankakerfi eða algjört kerfishrun. Þá er í ályktuninni harmað að Ísland virðist hafa verið beitt óeðlilegum þrýstingi innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að fallast á þá lagatúlkun tilskipunarinnar um innstæðutryggingar sem hin ESB- og EES-ríkin sameinuðust um.
    Einnig var lögð fram á fundinum vinnuskýrsla um vinnumarkaðsmál og -löggjöf innan EES sem Steinar Gullvåg og Catherine Stihler höfðu framsögu um. Í máli þeirra kom m.a. fram mikilvægi þess að sanngjörn samkeppni á vinnumarkaði færi fram samkvæmt sömu skilmálum alls staðar á EES-svæðinu og að gagnsæi væri í vinnumarkaðsmálum. Að loknum umræðum var ályktun á grundvelli skýrslunnar samþykkt samhljóða.
    Þá ræddu nefndarmenn vinnuskjal um héraða- og svæðasamvinnu innan EES-svæðisins, en fram kom að Svisslendingar hefðu hafnað því að standa að slíku samstarfi þar sem kantónurnar og bæjarfélögin þar væru frjáls og hefðu afmarkaðar valdheimildir. Því væri ekki hægt að binda þau í alþjóðlegt samstarf. Svein Roald Hansen sagði nauðsynlegt að virða þessa afstöðu Svisslendinga en sagði að í Noregi væru menn mjög áhugasamir um að taka þátt í samstarfi á sveitarstjórnarstigi. Árni Þór Sigurðsson sagði sveitarstjórnarstigið vera afar mikilvægt í velflestum ríkjum Evrópu og að 2/ 3 hlutar Evrópulöggjafar kæmu til kasta sveitarfélaga eða hefðu áhrif á þau á einhvern hátt. Þá kom fram í umræðum að alþjóðlegt samstarf gæti verið þung byrði fyrir lítil sveitarfélög þótt þau stærri hefðu burði til að takast á við það.

Fundur framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA og fundur þingmannanefndar og utanríkisráðherra EES/EFTA í Brussel 16. nóvember 2009.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina þau Árni Þór Sigurðsson formaður, Valgerður Bjarnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Helsta málið á fundi framkvæmdastjórnar þingmannanefndar EFTA var að fara yfir fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, fyrir árið 2010. Per Sanderud, forseti ESA, kynnti fjárhagsáætlunina og í máli hans kom fram að hún væri óbreytt að nafnvirði frá fyrra ári og því væri um raunlækkun að ræða ef tekið væri tillit til verðlagsbreytinga og ýmissa kostnaðarhækkana. Eftirlitsstofnunin fengi sífellt fleiri mál til umfjöllunar og nefndi Sanderud kvartanir sem tengjast bankahruninu á Íslandi sem dæmi um viðamikil mál sem ESA fæst við. Þá var fjallað um drög að áliti um fjárhagsáætlunina og þau samþykkt. Fyrir hönd Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA eiga Árni Þór Sigurðsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sæti í framkvæmdastjórn þingmannanefndarinnar og sátu þeir fundinn.
    Löng hefð er fyrir fundum þingmannanefndar og ráðherra EFTA í tengslum við reglulega ráðherrafundi EFTA í júní og desember sem helgaðir eru fríverslunarmálum. Þingmannanefndin fór fram á það í byrjun árs að eiga fund með utanríkisráðherrum EES/EFTA-ríkjanna í tengslum við reglulegan haustfund þeirra um stöðu og rekstur EES-samningsins og urðu ráðherrarnir við því. Norðmenn fóru með formennsku í EFTA og í upphafi fundar flutti Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, framsögu. Støre lagði í máli sínu áherslu á að þótt EES-samningurinn hafi ekki verið ætlaður til langframa á sínum tíma hefði hann haft nægan sveigjanleika til að aðlagast þeim miklu breytingum sem orðið hefðu á Evrópusambandinu síðustu 15 árin. Svo yrði áfram við gildistöku Lissabonsáttmálans en breytingar sem honum fylgja eins og aukin völd og vægi Evrópuþingsins hafa ekki mikil áhrif á EES. Þá gerði Støre grein fyrir helstu málum sem rædd voru á fundi ráðherraráðs EES fyrr um daginn en þau voru fjármálakreppan og umbætur á regluverki um fjármálamarkaði; loftslagsbreytingar og undirbúningur fyrir loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn; og samningaviðræður um framlög í þróunarsjóð EFTA fyrir fátækari ríki ESB á árunum 2009–2013.
    Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ræddi m.a. um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu, galla á regluverki ESB um innstæðutryggingar og þær miklu byrðar sem legðust á Íslendinga vegna bankahrunsins. Utanríkisráðherra sagði erfitt að viðhalda örgjaldmiðli í heimi hnattrænna fjármálaviðskipta, Ísland yrði að taka upp nýjan gjaldmiðil og sá yrði vonandi evra.
    Árni Þór Sigurðsson spurði ráðherrana nánar út í áhrif Lissabonsáttmálans á rekstur EES- samningsins og jafnframt út í samningaviðræður um þróunarsjóð EFTA og áætluð lok þeirra. Støre svaraði því til að vissulega mundu þær umbætur á stjórnkerfi Evrópusambandsins sem felast í Lissabonsáttmálanum gera ákvarðanatöku snarpari á vettvangi sambandsins og því yrðu EES/EFTA-ríkin að leggja sig betur fram um að fylgja ákvörðunum stofnana ESB eftir. Það ætti hins vegar ekki að reynast EES/EFTA-ríkjunum vandamál. Hvað varðar þróunarsjóð EFTA fyrir árin 2009–2013 kvaðst Støre vonast til að niðurstaða fengist í samningaviðræðunum áður en formennsku Svía í Evrópusambandinu lyki um áramót.
    Á fundinum var að auki fjallað um endurskoðun sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins og áhrif hennar á umsókn Íslands um aðild að sambandinu; ákvörðun ráðherra EFTA um að koma á fót sérstakri nefnd fulltrúa sveitar- og svæðisstjórna EES/EFTA-ríkjanna sem ætlað er að eiga samstarf við sambærilega nefnd Evrópusambandsins um málefni sveitar- og svæðisstjórna innan EES; og nýja skýrslu um gæði löggjafar innan EES.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk tengdra funda í Genf og Bern 17.–18. desember 2009.
    Í Genf fór fram sameiginlegur fundur þingmanna og ráðherra EFTA og einnig fundur þingmannanefndar EFTA. Þá heimsótti þingmannanefndin svissneska þingið í Bern. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson formaður, Valgerður Bjarnadóttir varaformaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á sameiginlegum fundi þingmanna og ráðherra EFTA var einkum fjallað um þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum. Vegna lítils árangurs í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hafa ýmis samtök ríkja og einstök lönd lagt áherslu á gerð tvíhliða eða svæðisbundinna fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og hafa engin ríkjasamtök náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að Evrópusambandinu undanskildu. Á fundinum flutti Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein, framsögu um stöðu og horfur fríverslunarsamninga EFTA. Í máli Frick kom m.a. fram að fríverslunarsamningar EFTA við Serbíu og Albaníu hefðu verið undirritaðir sama dag og þar með væru 20 fríverslunarsamningar EFTA í gildi. Þá væri búist við að samningur við Perú yrði undirritaður í nánustu framtíð. Fleiri fríverslunarsamningar eru í bígerð og nefndi Frick sérstaklega að vonast væri til að formlegar samningaviðræður hæfust við Rússa á árinu 2010. Þá væri stefnt að því að ljúka gerð fríverslunarsamnings við Úkraínu á árinu auk þess sem viðræðum yrði haldið áfram við Indland. Þá yrði gerð hagkvæmnisathugun á mögulegum fríverslunarsamningi EFTA við Víetnam en slíkar athuganir eru algengur fyrirboði formlegra samningaviðræðna.
    Birgitta Gadient, formaður þingmannanefndar EFTA, lagði áherslu á að þingmenn EFTA hefðu á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna. Þingmannanefnd EFTA hefði í því skyni beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga. Gadient gerði m.a. grein fyrir heimsókn sendinefndar þingmanna EFTA til Moskvu í október sl. en markmið heimsóknarinnar var að afla stuðnings á meðal rússneskra þingmanna og yfirvalda við fyrirhugaðar fríverslunarviðræður. Þingmenn EFTA áttu fundi með efnahagsnefnd rússneska þingsins og aðstoðarráðherra efnahagsmála þar í landi þar sem m.a. var rætt um áhrif fjármálakreppunnar á rússneskt efnahagslíf, væntanlega aðild Rússlands að WTO og nýgert tollabandalag Rússlands við Kasakstan og Hvíta-Rússland. Spurði Gadient ráðherrana sérstaklega út í áhrif tollabandalagsins á komandi viðræður.
    Árni Þór Sigurðsson sagði ljóst eftir heimsókn þingmannanna til Moskvu að Rússar legðu mikla áherslu á nýsköpun og uppbyggingu nýrra atvinnuvega, einkum upplýsingatækni, til þess að vega upp á móti minnkandi olíutekjum og yfirstandandi fjármálakreppu. Rússar litu á fríverslunarsamning við EFTA sem einn lið í þeirri viðleitni. Árni Þór spurði ráðherrana hvort EFTA hefði greint viðhorfsbreytingu og aukinn samningsvilja hjá Rússum eftir að fjármálakreppan hófst. Þá spurði Árni Þór út í forgangsröðun í starfi EFTA. Ljóst væri að skrifstofa EFTA hefði takmarkaðan mannafla og bjargir og því væri brýnt að leggja megináherslu á fríverslunarviðræður við stór og mikilvæg samstarfsríki eins og Rússland og Indland. Að lokum spurði Árni Þór hvort til stæði að taka upp nánara samstarf við Færeyjar en Færeyingar hafa lýst yfir áhuga á aðild að EFTA.
    Frick svaraði því til að nýgert tollabandalag Rússlands við Kasakstan og Hvíta-Rússland hefði tafið fyrir fríverslunarviðræðum við Rússa enda var óljóst hvort Rússar óskuðu eftir því að ríkin tvö yrðu aðilar að fríverslunarsamningnum. Nú væri ljóst að slík krafa væri ekki uppi og búast mætti við upphafi formlegra samningaviðræðna von bráðar. Ekki hefði orðið vart sérstakra viðhorfsbreytinga Rússa í kjölfar fjármálakreppunnar en ljóst væri að samningaviðræður við Rússa yrðu settar í forgang í starfi EFTA líkt og samningar við Indland enda eftir miklu að slægjast í fríverslun við þessi stóru og mikilvægu hagkerfi.
    Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, tók til máls og sagði Íslendinga ætíð hafa stutt mögulega aðild Færeyja að EFTA. Doris Leuthard, efnahagsráðherra Sviss, sagði hugmyndir um aðild Færeyja að EFTA á skjön við stofnsamning og lagaramma samtakanna og því illmögulegar. Árni Þór sagði málið snúast um pólitískan vilja, ef hann væri skýr væri hægt að finna lausn á mögulegum stofnanalegum eða lagatæknilegum hindrunum.
    Gylfi Magnússon fór nokkrum orðum um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og að því loknu kynnti Frick þá ákvörðun ráðherranna að skipa sérstakan vinnuhóp til að meta hvaða áhrif hugsanleg Evrópusambandsaðild Íslands kunni að hafa á EFTA.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var m.a. fjallað um utanríkissamskipti Færeyja og var John Johannessen, formaður utanríkismálanefndar færeyska þingsins, gestur fundarins. Í máli hans kom fram að þverpólitísk samstaða væri í Færeyjum um aðildarumsókn til EFTA. Færeyingar sjá aðild að EFTA fyrst og fremst sem tæki til þess að liðka fyrir uppbyggingu nýrra atvinnugreina í Færeyjum. Johannessen sagði eyjarnar of háðar sjávarútvegi og fjölbreyttara atvinnulíf væri Færeyingum nauðsynlegt. Hann lagði jafnframt áherslu á að EFTA-aðild væri ekki hugsuð til þess að bæta markaðsaðgang fyrir sjávarútveginn og að við endurskoðun eða gerð nýrra fríverslunarsamninga EFTA mundu Færeyingar ekki gera kröfur á sviði sjávarútvegs sem gengju lengra en þær sem Íslendingar eða Norðmenn settu fram. Þá sagðist Johannessen gera sér grein fyrir lagatæknilegum hindrunum en undirstrikaði að samkvæmt fyrirkomulagi sjálfstjórnar Færeyinga innan ríkissambandsins við Dani væri þeim heimilt að gerast aðilar að alþjóðastofnunum sem Danmörk væri ekki aðili að og þeir hefðu fullan stuðning danskra stjórnvalda til þess.
    Valgerður Bjarnadóttir ítrekaði stuðning Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA við mögulega aðild Færeyja að EFTA og nánara samstarf þingmannanefndarinnar við færeyska þingið. Gerði hún að tillögu sinni að nefndin léti gera úttekt á þeim lagatæknilegu hindrunum sem sagðar væru standa í vegi fyrir aðild Færeyinga að EFTA. Í umræðu síðar á fundinum um pólitíska þróun í EFTA-ríkjunum gerði Valgerður grein fyrir stöðu Icesave-málsins, umsóknarferli Íslands um aðild að Evrópusambandinu og fyrirhugaðri innleiðingu matvælalöggjafar sambandsins á Íslandi.
    Á fundinum var þingmannanefnd EFTA valin forusta fyrir starfsárið 2010. Var Árni Þór Sigurðsson kosinn formaður og norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen varaformaður.
    Auk þess sem að framan er nefnt var á fundi þingmannanefndarinnar rætt um alþjóðlegu fjármálakreppuna og möguleika til umbóta á regluverki alþjóðlegra viðskipta; alþjóðleg viðskipti og félagslega ábyrgð; og hlutverk og möguleika þjóðþinga Evrópusambandsins eftir að Lissabonsáttmálinn tók gildi.
    Í heimsókn þingmannanefndarinnar í svissneska þingið fékk nefndin ítarlega kynningu á tvíhliða samstarfi Sviss og Evrópusambandsins.


6. Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2009.
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2008, samþykkt í Strassborg 25. mars 2009.
          Ályktun um EES og alþjóðlegu fjármálakreppuna, samþykkt í Þrándheimi 28. október 2009.
          Ályktun um vinnumarkaðsmál innan EES, útsenda starfsmenn og frelsi til að veita þjónustu, samþykkt í Þrándheimi 28. október 2009.

Alþingi, 10. mars 2010.



Árni Þór Sigurðsson,


form.


Valgerður Bjarnadóttir,


varaform.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.