Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 520. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 909  —  520. mál.
Flutningsmenn.
Tillaga til þingsályktunarum eflingu græna hagkerfisins.

Flm.: Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Illugi Gunnarsson,


Gunnar Bragi Sveinsson, Margrét Tryggvadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Árni Þór Sigurðsson, Björgvin G. Sigurðsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir,
Helgi Hjörvar, Guðmundur Steingrímsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Eygló Harðardóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Ólína Þorvarðardóttir,
Oddný G. Harðardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þór Saari, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að hefja skuli undirbúning eflingar græna hagkerfisins á Íslandi með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Alþingi samþykkir að kjósa níu manna nefnd með fulltrúum þingflokka sem hafi það verkefni að kortleggja sóknarfæri íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar. Nefndin skal m.a. gera tillögur um stjórnvaldsaðgerðir og úrbætur á stoðkerfi atvinnulífsins sem ýtt geti undir vöxt græna hagkerfisins auk þess að leita leiða til að samþætta hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar almennri ákvarðanatöku í efnahags- og atvinnumálum. Sérstök áhersla verði lögð á að greina hvernig bæta megi alþjóðlega samkeppnishæfni Íslands á sviði vistvænnar atvinnustarfsemi. Nefndin skal gera tillögur um lagabreytingar er þjóni framangreindum markmiðum og setja mælanleg markmið um fjölgun grænna starfa í íslensku atvinnulífi. Þess verði gætt að samþætta tillögur nefndarinnar við ýmsar áætlanir stjórnvalda sem tengjast atvinnu- og umhverfismálum, svo sem Velferð til framtíðar, Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, 20/20 Sóknaráætlun og Byggðaáætlun.
    Nefndin skal skipuð fulltrúum þingflokka og skal hún skila niðurstöðum fyrir 1. desember 2010. Þingflokkar sem ekki eiga kjörinn mann í nefndinni hafa heimild til áheyrnaraðildar. Nefndin getur ráðið sér starfsmann og skal fjárheimilda í því skyni aflað í fjáraukalögum ársins 2010.

Greinargerð.


Grænt hagkerfi.
    Græna hagkerfið hefur verið skilgreint sem það hagkerfi sem kemst á með grænni hagstjórn er felur í sér skipulega aðferðafræði við stefnumótun þar sem sjónarmið umhverfis- og náttúruverndar og sjálfbærrar auðlindastjórnunar eru samofin allri ákvarðanatöku í opinberri stjórnsýslu. Í grænu hagkerfi eru mannvit og mannauður virkjuð til nýsköpunar og framþróunar og hefðbundnar framleiðslugreinar endurnýja sig með sjálfbærni að leiðarljósi. Grænt hagkerfi byggist á virðingu fyrir náttúrunni og gæðum hennar sem eru sameign þjóðarinnar í nútíð og framtíð og ber að umgangast sem slík af hófsemi með hliðsjón af hagsmunum afkomenda okkar. Grænt hagkerfi svarar því kröfunni um jafnræði og jafnvægi milli náttúruverndar og nýtingar, milli einstakra atvinnugreina og kynslóða

Græn störf.
    Í nýlegri skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) eru græn störf skilgreind sem þau störf í landbúnaði, iðnaði, þjónustugreinum og stjórnsýslu sem stuðla að varðveislu eða endurheimt umhverfisgæða. Græn störf draga úr ágengni atvinnulífsins gagnvart náttúru og umhverfi og eru til þess fallin að auka sjálfbærni hagkerfisins. Græn störf finnast í fjölmörgum geirum atvinnulífsins og eiga það sammerkt að stuðla að samdrætti í orkunotkun, hráefnanotkun og vatnsnotkun með hagkvæmum aðferðum, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, sóun og mengun en styðja við endurreisn vistkerfa og líffræðilega fjölbreytni. Græn störf eiga þannig þátt í að rjúfa þau bönd sem verið hafa milli hagvaxtar annars vegar og neikvæðra umhverfisáhrifa hins vegar. Markmið grænnar hagstjórnar er að græn störf séu jafnframt mannsæmandi.


Hvers vegna er nauðsynlegt að efla græna hagkerfið?
    Á rúmri öld hefur jarðarbúum fjölgað úr tæplega 2 milljörðum í tæplega 7 milljarða manna. Sumar mannfjöldaspár gera ráð fyrir að jarðarbúar verði 9 milljarðar árið 2050. Þessi gríðarlegi mannfjöldi þarf að lifa af gæðum jarðar þannig að allir fái þrifist. Um 20% mannkyns taka til sín 80% af orku og auðæfum heims og losa langmest af gróðurhúsalofttegundum. Ef allir jarðarbúar leyfðu sér orkueyðslu Vesturlandabúa, að óbreyttu tæknistigi, væri framtíð mannkyns stefnt í voða. Eina haldbæra leið þjóða til að koma í veg fyrir loftslagsvá og orkuskort er að þróa hagkerfi sem byggjast á sjálfbærri orkunotkun og lágmarka sem kostur er nýtingu jarðefnaeldsneytis. Það er stærsta og líklega mikilvægasta verkefni mannkyns á þessari öld. Brýnt er að gera sér grein fyrir því að græna hagkerfið stillir sér ekki upp sem andstæðu við hefðbundinn atvinnurekstur eða hafnar hagvexti. Öðrum þræði byggist það á fjölbreyttu atvinnulífi sem er stutt breiðri þekkingu og fjölbreyttri menntun. Slíkur atvinnurekstur reynir ávallt að skilja eftir sig sem minnst neikvæð áhrif á umhverfisgæði og leggur sig fram um að gera eigin úrgang eða annarra að hráefni til verðmætasköpunar. Líkur eru á að staðfest yfirlýsing stjórnvalda um að atvinnuuppbygging skuli samræmast græna hagkerfinu muni auka áhuga erlendra aðila á fjárfestingum á Íslandi. Það leggur vitaskuld þær skyldur á stjórnvöld að athafnir fylgi orðum.

Sérstaða Íslands.
    Á Íslandi eru 82% allrar orku sem notuð er í landinu endurnýjanleg orka sem á upptök sín í virkjun vatnsafls eða jarðvarma. Það var af mikilli framsýni sem ráðist var í fjárfestingar í hitaveitu víða um land á áttunda áratug síðustu aldar. Í dag sparar það milljarða króna á ári hverju fyrir heimili og fyrirtæki. En þrátt fyrir einstaka stöðu á þessu sviði er losun gróðurhúsalofttegunda frá hverju mannsbarni á Íslandi með því mesta í heiminum, um 17 tonn á ári. Þetta má að stærstum hluta rekja til umfangs áliðnaðarins hér á landi auk losunar frá vegasamgöngum og skipaflota. Á Íslandi eru samt mikil tækifæri til þess að þróa vistvæna orkugjafa sem smám saman gætu tekið við sem aðalorkugjafar ökutækja og skipa. Líta ber á útskiptingu innfluttra orkugjafa fyrir innlenda sem tækifæri til atvinnuuppbyggingar frekar en einblína á neikvæð áhrif af hækkandi verði jarðefnaeldsneytis. Um leið og olíuverð hækkar verður flutningur um langar leiðir óhagkvæmari og hagur innlends iðnaðar og orkuframleiðslu vænkast.

Grænt hagkerfi á Íslandi.
    Græn atvinnustarfsemi á Íslandi nær yfir vítt svið atvinnulífsins. Þar er m.a. um ræða grænan iðnað sem er háður orkunýtingu, ýmiss konar hátækniiðnað, ferðaþjónustu, landbúnað, sjávarútveg og skapandi greinar svo eitthvað sé nefnt. Áhugi erlendra aðila á að taka þátt í uppbyggingu verkefna á þessum sviðum fer vaxandi og skýrist m.a. af góðu aðgengi að endurnýjanlegri orku á samkeppnishæfu verði og háu almennu menntunarstigi. Vísbendingar um græna vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi er víða að finna.

Innlend framleiðsla á vistvænu eldsneyti.
    Spara mætti gjaldeyri fyrir á annan tug milljarða króna á hverju ári yrði Ísland sjálfbært hvað orkuöflun varðar. Á Íslandi eru mörg tækifæri til að skapa störf sem tengjast framleiðslu á vistvænu eldsneyti. Þar má nefna framleiðslu þar sem notast er við rafmagn, lífmassa, vetni, metan og metanól svo eitthvað sé nefnt. Kanna þarf hvernig efla megi framleiðslu og notkun hreinorkubíla á Íslandi, t.d. með því að opinberir aðilar kaupi og noti slík farartæki fremur en hefðbundin. Lagfæra þarf agnúa á starfsumhverfi fyrirtækja sem smíða og þjónusta hreinorkubíla.

Grænn orkuháður iðnaður.
    Áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi sem ákjósanlegum vettvangi fyrir græna atvinnustarfsemi hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Aukinn áhuga má m.a. rekja til hærra eldsneytisverðs á alþjóðamörkuðum sem horfur eru á að muni halda áfram að hækka. Jafnframt hefur það áhrif að fyrirhuguð álagning kolefnisgjalda mun í fyrsta lagi hækka orkuverðið enn frekar og í öðru lagi auka þrýsting á orkufyrirtæki að færa sig úr kolefnaeldsneyti yfir í græna orku. Hvort tveggja eykur samkeppnishæfni grænnar orku frá Íslandi til notkunar í kolefnislausum iðnaði. Fjölmörg verkefni hafa verið til skoðunar sem tengjast fjárfestingu erlendra aðila í grænum orkuháðum iðnaði og eru hér nefnd nokkur dæmi um slík verkefni.

Framleiðsla á sólarkísil.
    Mörg fyrirtæki í kísilframleiðslu fyrir sólarorkuiðnað hafa litið til Íslands sem mögulegs vettvangs fyrir starfsemi sína. Fyrirtækin mundu nota mismunandi framleiðslutækni til kísilhreinsunar og er orkuþörf mismikil eftir tækninni og því hve stór hluti framleiðsluferlisins mun eiga sér stað á Íslandi. Bent er á að lokaafurðin eru sólarsellur sem framleiða 10–20 sinnum þá orku sem þurfti til að framleiða þær.

Gagnaver.

    Alþjóðleg samanburðarrannsókn gefur til kynna að Ísland sé eitt fjögurra landa í heiminum sem hentar best fyrir starfsemi gagnavera og í nýlegri greiningu McKinsey ráðgjafafyrirtækisins fékk Ísland hæstu einkunn allra landa. Fyrirtækið Verne Global hyggst hefja starfsemi umhverfisvæns gagnavers í Reykjanesbæ á öðrum ársfjórðungi 2010 og standa vonir til þess að fleiri aðilar muni fylgja í kjölfarið. Staðfestur er áhugi margra gagnaversfyrirtækja á því að setja upp gagnaver á Íslandi. Áhugi á því að reisa gagnaver á Íslandi byggist ekki síst á því að hér þarf mun minni kælingu auk þess sem þessi iðnaður vill tengjast endurnýjanlegri orku.

Gróðurhús í iðnaðarstærð.
    Íslenskir og erlendir aðilar hafa hug á að setja upp allt að 100.000 m 2 hús til ræktunar á grænmeti til útflutnings. Samkeppnishæfni Íslands á þessu sviði hefur aukist m.a. vegna hagstæðs orkuverðs í samanburði við önnur lönd, lágs gengis krónunnar og síðast en ekki síst möguleika á að tengja gróðurhúsarekstur með beinum tengingum við jarðvarmaveitur.

Annar iðnaður.
    Unnið er að greiningu á samkeppnishæfni grænna iðngarða sem nýta orkustrauma frá jarðvarmaveitu. Athugað verður hvaða iðnferlar uppfylla þau skilyrði að vera umhverfisvænir, innbyrðis háðir og nýta orkustrauma jarðvarmaveitu. Slíkir garðar gætu orðið upphafið að myndun sérstaks klasa þar sem beitt yrði aðferðum iðnaðarvistfræðinnar. Líkur eru á að grænir iðngarðar á Íslandi sé ein af forsendum þess að laða megi nýja vistvæna atvinnustarfsemi til landsins.
    Í undirbúningi er framleiðsla á umhverfisvænu metanóli með því að nýta koltvísýring úr borholum og rafgreint vetni sem framleitt er á staðnum. Metanólið er síðan blandað venjulegu bensíni, sem minnkar notkun innflutts eldsneytis. Þessi starfsemi gæti t.d. hentað vel í samhengi við grænan iðngarðaklasa þar sem vetni kæmi út úr framleiðsluferlinu sem aukaafurð.

Græn ferðaþjónusta.
    Ferðaþjónusta er ein mikilvægasta tekjulind þjóðarinnar og jafnframt þýðingarmikil fyrir hinar dreifðu byggðir landsins því hún skapar störf um land allt. Framtíð ferðaþjónustunnar hvílir ekki síst á því að borin verði virðing fyrir menningu og náttúru landsins. Sérstaða ferðaþjónustunnar felst ekki síst í því að vera bæði sérstakur vaxtarvettvangur og stoð fyrir aðrar greinar, t.d. skapandi greinar, grænan landbúnað, matvælaframleiðslu o.fl. Ferðaþjónustu á Íslandi er hagur af áherslum á gæði umfram magn og þannig fer náttúruvernd og arðsemi vel saman. Ferðamenn gera sífellt auknar kröfur til að ferðaþjónusta sé umhverfisvæn. Í þeirri þróun liggur sóknarfæri fyrir íslenska ferðaþjónustu að því tilskildu að henni verði sett stefna og unnið eftir henni. Til dæmis má gera raunhæfa áætlun um útskiptingu jarðefnaeldsneytis fyrir innlenda orku og fylgja henni eftir, m.a. með vottunum og hagrænum hvötum.
    Nota má umhverfisvænar áherslur mun meira í kynningu Íslands sem ferðamannalands. Staðsetning landsins miðja vegu milli Evrópu og Norður-Ameríku þýðir minni notkun eldsneytis við ferðir til og frá landinu en til ýmissa annarra staða sem laða til sín fjölda ferðamanna. Nefndin skal leggja mat á það hvort Ísland eigi að sækjast eftir umhverfisvottun m.a. í þeim tilgangi að styrkja græna ímynd landsins. Jafnframt hvort raunhæft sé að markaðssetja Ísland sem grænt ráðstefnuland.

Grænn landbúnaður.
    Grænn landbúnaður er umhverfisvænn og að mestu lífrænn. Sóknarfæri liggja m.a. í trausti og vaxandi kröfum neytenda um hollar og góðar landbúnaðarafurðir sem framleiddar eru á sjálfbæran hátt. Aukin spurn er jafnframt eftir sölu og dreifingu beint frá býli. Meta þarf kosti og galla þess að rýmka heimildir um heimaslátrun undir ströngu gæðaeftirliti, bæði í þeim tilgangi að draga úr kostnaði og mengun sem fylgir flutningum um langan veg frá býlum í sláturhús og til að nýta vaxandi eftirspurn eftir staðbundinni framleiðslu. Markaðssetning á Íslandi sem heimalands slíks landbúnaðar getur skapað mörg tækifæri til sóknar á næstu árum. Nefndin mun m.a. skoða leiðir til að efla stuðning við lífrænan búskap, til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar; auka fullvinnslu afurða og tryggja upprunamerkingu allra landbúnaðarafurða með sameiginlega hagsmuni bænda og neytenda í huga. Efla þarf rannsóknir, framleiðslu og nýtingu á sjálfbærum orkugjöfum til notkunar í landbúnaði. Leitað verði leiða til að efla rannsóknir og framleiðslu á vistvænum áburði, m.a. með því að nýta hráefni úr sjávarútvegi. Skoðaðir verði sérstaklega snertifletir milli landbúnaðar og umhverfismála með áherslu á bændur sem vörslumenn landgæða. Þar má nefna verkefni sem tengjast endurheimt votlendis, bætta ræktunarmenningu, bindingu kolefnis, aðgerðir til að draga úr jarðvegseyðingu, menningarlandslag o.fl.

Grænn sjávarútvegur.
    Grænn sjávarútvegur miðar að sjálfbærri nýtingu fiskstofna, sjávarmassa og sjávarbotns kringum landið í þeirri merkingu að stofnar séu nógu sterkir til að skila hámarksafla til ókominna kynslóða en jafnframt að nota sem minnst af jarðefnaeldsneyti til að knýja fiskveiðiflotann. Styrkist stofnarnir leiðir það til aukins afraksturs, þ.e. aukins afla á orku- og sóknareiningu. Veiðistjórnun þarf að taka mið af veiðiþoli fiskstofna og ástandi sjávar og sjávarbotns á hverjum tíma, en auk þess af stærð klakstofns og stærð klakfiska.
    Íslenski fiskiskipaflotinn losaði um 17% þeirra gróðurhúsalofttegunda sem losaðar voru hérlendis á árinu 2007. Brýnt er að draga úr þessari losun til þess að sjávarútvegur Íslendinga geti talist grænn. Nefndin skal leggja mat á mismunandi leiðir til að ná þessu markmiði, svo sem hvernig beita megi hagrænum hvötum til að örva vistvænar veiðar, alþjóðlega vottun veiða og vinnslu, samsetningu fiskiskipaflotans með tilliti til eldsneytisnotkunar og losunar gróðurhúsalofttegunda, nýtingu nýrra og hagkvæmari veiðarfæra með tilliti til orkunotkunar og þróunar vistvænni orkugjafa.

Skapandi greinar.
    Efnahagsleg velgengni ólíkra svæða í heiminum ræðst nú ekki síst af frjórri hugsun, frumkvöðlastarfi og nýsköpun. Afl sköpunar og nýrra hugmynda hefur fengið stóraukna þýðingu í heimi alþjóðavæðingar. Skapandi atvinnugreinar eru að verða einn helsti drifkraftur efnahagslífsins. Listir eru aflvaki skapandi greina og óaðskiljanleg þungamiðja þeirra. Íslensk tónlist, kvikmyndagerð, hönnun, sviðslistir, myndlist, bókmenntir og tölvuleikjagerð eru allt skapandi greinar í mikilli sókn, auðlind sem getur orðið ein mikilvægasta aflstöð íslensks atvinnulífs á 21. öldinni.
    Í nýlegri skýrslu frá Nýsköpunarmiðstöð Norðurlanda kemur fram það mat að hagvöxtur á næstu árum verði mestur í skapandi greinum. Mikilvægt er að efla að mun gagnasöfnun og hagskýrslugerð um hlutdeild skapandi greina í verðmætasköpun á Íslandi en margar vísbendingar eru um verulegan vöxt í þessum geira. Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir er hægt að meta hvaða greinar hafa þegar skilað árangri og hverjar eru líklegastar til að skila enn meiru með tilliti til efnahags og menningarlegra verðmæta.
    Listamenn úr öllum listgreinum hasla sér völl erlendis í ríkari mæli jafnframt því að leggja æ meira til verðmætasköpunar í víðum skilningi innan lands. Sá hópur vex hröðum skrefum sem lítur á heiminn sem markaðssvæði sitt, sbr. velgengni íslenskra tónlistarmanna, rithöfunda, sviðslistafólks og kvikmyndagerðarmanna á erlendum vettvangi. Fyrirtæki spretta upp sem byggja á listrænu hugviti og skynja menninguna sem fjárhagsleg verðmæti og má þar nefna tölvuleikjaiðnaðinn sem dæmi. Útflutningur íslenskra lista og afleiddra vara hefur aldrei verið meiri og tekjur af þeim útflutningi eru orðnar veigamikill þáttur í sértekjum sumra stofnana og undirstaðan í starfi einstakra listamanna, listhópa og menningarfyrirtækja.
    Mikilvægt er að skilgreina hvað tilheyrir skapandi greinum á Íslandi. Styrkja þarf aðgengi skapandi greina að rannsóknasjóðum og hrinda í framkvæmd áformum um uppbyggingu meistaranáms í listum og skapandi greinum. Leitað verði leiða til að efla færni og þekkingu starfsfólks menningarstofnana ríkis og sveitarfélaga til að byggja upp alþjóðleg verkefni þvert á landamæri þjóða og laða með því nýtt fjármagn og ný viðmið til landsins.
    Kanna þarf skilvirkni hins opinbera stoðkerfis lista og skapandi greina, sérstaklega hvað varðar alþjóðlega markaðssetningu greinanna, og kosti þess að sameina starf kynningarmiðstöðva listgreina undir einn hatt.
    Marka þarf stefnu um hlutverk og möguleika skapandi greina í uppbyggingu annarra greina í landinu, svo sem ferðaþjónustu, sem og möguleika þeirra til að vera meginstoð í byggðaþróun.

Stoðkerfi atvinnulífsins og lagaumhverfi.
    Nefndin skal leggja mat á hið opinbera stoðkerfi atvinnulífsins og hvernig megi bæta það til að ýta undir uppbyggingu græna hagkerfisins. Sérstaklega verði hugað að breytingum á lagaumhverfi fyrirtækja, skattaumhverfi „grænna fyrirtækja“, hvötum til grænnar atvinnusköpunar o.s.frv. Tekin verði til sérstakrar skoðunar aðlögun skattkerfisins að grænum áherslum. Hugað verði sérstaklega að klasagreiningu og uppbyggingu klasa á þeim sviðum þar sem ætla má að sóknarfæri séu hvað mest. Hafin er umfangsmikil vinna við kortlagningu hins íslenska jarðvarmaklasa undir verkefnastjórn dr. Michaels Porters, prófessors við Harvard háskóla. Vinnan er framkvæmd í samstarfi við alla þá hagsmunaaðila sem tilheyra jarðvarmaklasanum hérlendis, þar á meðal orkuframleiðendur, stóra orkunotendur, þjónustuaðila, rannsóknastofnanir, menntastofnanir, félagasamtök, ráðgjafa, fjárfestingaraðila, ráðuneyti og aðra sérfræðinga á sviði jarðvarma. Markmið vinnunnar er að greina styrkleika og veikleika klasans, samkeppnishæfni hans og möguleika til alþjóðavæðingar, auk þess sem skoðað verður hvernig unnt er að efla klasann innan lands þannig að undirstöður fyrir grænan orkuháðan iðnað, græna ferðaþjónustu o.fl. styrkist enn frekar. Nefndin taki mið af framgangi og niðurstöðum þessarar vinnu sem áætlað er að ljúki í byrjun nóvember 2010.

Orkunýtingarstefna.
    Mikilvæg forsenda græns hagkerfis á Íslandi er sjálfbær orkunýtingarstefna sem hefur að markmiði fjölbreytni í atvinnulífinu og efnahagslega áhættudreifingu. Slík stefna byggist á því að næg orka sé til staðar til að nýta í þágu grænnar atvinnustarfsemi. Leggja þarf mat á það hvaða skilyrði þurfi að uppfylla svo Íslendingar verði í fremstu röð tækniþróunar varðandi endurnýjanlega orku m.a. með það fyrir augum að auka útflutning þekkingar og tæknibúnaðar á því sviði.
    Nefndin skal leggja mat á þá orkukosti sem þurfa að vera til staðar svo að græna hagkerfið geti orðið burðug stoð í íslensku atvinnulífi. Sérstaklega verði metið hvort forgangsraða þurfi orkukostum í þágu grænnar atvinnustarfsemi og hvernig nota megi nýja tækni til að bæta orkunýtingu í landinu. Hugað verði sérstaklega að leiðum til að fjölga orkukostum, svo sem með auknum rannsóknum og mati á virkjun sjávarorku. Tekið verði mið af rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða og orkustefnu sem nú er í mótun á vettvangi stjórnvalda.

Menntun.
    Fjallað verði um hlut umhverfismála og sjálfbærrar þróunar í námskrá grunnskóla og framhaldsskóla og metið hvernig megi ýta undir nám í nýsköpunar- og frumkvöðlafræðum. Sérstaklega verði kortlagt hvaða greinar á háskólastigi tengjast græna hagkerfinu og hvernig megi efla þær til að stuðla að endurnýjun á vinnumarkaði og eflingu nýrra atvinnugreina.
    Hugað verði jafnframt að menntunarleiðum á þessum sviðum, þ.e. menntun til sjálfbærrar þróunar, bæði innan skólakerfisins og í fullorðinsfræðslu og símenntun. Leitað verði leiða til að efla listnám, skapandi hugsun, siðræna hugsun og umhverfis- og lýðræðisvitund nemenda strax á unga aldri.

Stefnumótun og löggjöf annarra þjóða.
    Nefndin skal safna upplýsingum um lagasetningu og stefnumótun stjórnvalda á Norðurlöndum, í Evrópu og Bandaríkjunum hvað varðar eflingu græna hagkerfisins og taka mið af þeim gögnum í stefnumótun sinni.

Skipan og verksvið nefndar.
    Nefndin skal skipuð níu fulltrúum þingflokka og skal hún kalla sérfræðinga til ráðuneytis eftir þörfum. Þingflokkar sem ekki eiga kjörinn fulltrúa í nefndinni hafa heimild til áheyrnaraðildar. Hugað verði að samþættingu við opinberar áætlanir stjórnvalda á sviði atvinnumála, einkum Velferð til framtíðar, Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða, 20/20 Sóknaráætlun og Byggðaáætlun. Nefndin getur ráðið sér starfsmann og skal fjárheimilda aflað í fjáraukalögum ársins 2010.