Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1142, 138. löggjafarþing 494. mál: sanngirnisbætur (heildarlög).
Lög nr. 47 28. maí 2010.

Lög um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007.


1. gr.

Gildissvið og yfirstjórn.
     Lög þessi mæla fyrir um greiðslu sanngirnisbóta úr ríkissjóði til þeirra sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, nr. 26/2007.
     Dómsmála- og mannréttindaráðherra fer með yfirstjórn og framkvæmd laga þessara.

2. gr.

Skilyrði þess að krafa sé tekin til meðferðar.
     Sá sem vistaður var á stofnun eða heimili sem lög þessi taka til getur krafist sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum, enda liggi fyrir skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 og innköllun sýslumanns. Sýslumaður tekur afstöðu til krafna en sá sem krefst bóta getur leitað til úrskurðarnefndar skv. 7. gr. uni hann ekki niðurstöðu sýslumanns.

3. gr.

Skilyrði sanngirnisbóta.
     Greiða skal sanngirnisbætur úr ríkissjóði á grundvelli laga þessara hafi vistmaður orðið fyrir illri meðferð eða ofbeldi meðan á vistun hans stóð, sem olli honum varanlegum skaða.
     Með illri meðferð eða ofbeldi er átt við:
  1. hvers kyns refsiverða líkamlega valdbeitingu gagnvart barni og aðra líkamlega valdbeitingu þar sem valdið er óþarfa sársauka,
  2. ógnandi, vanvirðandi eða niðurlægjandi athafnir gagnvart barni,
  3. athafnir til þess fallnar að misbjóða barni eða vanrækja á annan hátt uppeldi þess svo mjög að líkamlegri eða andlegri heilsu þess eða þroska sé mikil hætta búin.

     Með varanlegum skaða er átt við varanlegar neikvæðar líkamlegar, sálrænar eða félagslegar afleiðingar.

4. gr.

Fjárhæð sanngirnisbóta.
     Við ákvörðun fjárhæðar sanngirnisbóta skal litið til:
  1. alvarleika ofbeldis eða illrar meðferðar, þ.m.t. með tilliti til tímalengdar vistunar og annarra aðstæðna sem kunna að hafa gert reynsluna sérlega þungbæra,
  2. alvarleika afleiðinga ofbeldis eða illrar meðferðar, bæði afleiðinga sem unnt er að leggja læknisfræðilegt mat á og annarra erfiðleika og missis tækifæra sem rekja má til hinna bótaskyldu atvika.

     Við ákvörðun fjárhæðar sanngirnisbóta skal einnig, eftir því sem unnt er, tekið mið af dómaframkvæmd á sambærilegum sviðum. Bætur til einstaklings skulu aldrei vera hærri en 6 millj. kr. Hámark þetta breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.
     Nú hefur vistmaður verið vistaður á fleiri en einni stofnun eða heimili sem falla undir lög þessi og er þá heimilt að ákveða bætur til bráðabirgða og taka þá ákvörðun til endurskoðunar jafnóðum og fleiri skýrslur nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 og innkallanir vegna þeirra liggja fyrir. Við endanlegt mat skal líta til fyrrgreindra þátta með heildstæðum hætti, þó þannig að heildarbætur rúmist innan marka þess sem getur í 2. mgr.
     Bætur allt að 2 millj. kr. skal greiða út í einu lagi. Bætur umfram það og allt að 4 millj. kr. skal greiða út 18 mánuðum eftir fyrstu greiðslu. Bætur umfram 4 millj. kr. og allt að 6 millj. kr. skal greiða út 36 mánuðum eftir fyrstu greiðslu. Bótafjárhæð skal bundin vísitölu neysluverðs frá því að hún er ákveðin í sáttaboði skv. 6. gr. eða úrskurði skv. 9. gr.

5. gr.

Innköllun.
     Þegar nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur lokið skýrslu um könnun sína á starfsemi heimilis eða stofnunar skal ráðherra fela tilteknum sýslumanni að gefa út innköllun. Innköllun skal birt tvívegis í Lögbirtingablaði, svo og tvívegis í útbreiddu dagblaði. Þar skal skorað á þá sem dvalið hafa á tiltekinni stofnun eða heimili á tilgreindu tímabili er skýrslan tók til og telja sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum þessum að lýsa kröfum sínum innan þriggja mánaða frá síðari birtingu innköllunar í Lögbirtingablaði.
     Sýslumaður ákveður form innköllunar og gefur út eyðublað fyrir þá sem hyggjast lýsa kröfum sínum. Á eyðublaðinu skal sá er lýsir kröfu tilgreina svo sem kostur er dvalartíma á stofnun eða heimili og helstu ástæður þess að hann telur sig eiga rétt til bóta samkvæmt lögum þessum. Þar skal einnig gefinn kostur á að veita sýslumanni heimild til aðgangs að gögnum um viðkomandi, í vörslum nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, þ.m.t. hljóðupptökum og endurritum vitnaskýrslu, eða hjá öðrum stjórnvöldum.
     Nú er kröfu ekki lýst innan þess frests sem greinir í 1. mgr. og fellur hún þá niður. Víkja má frá þessu í allt að tvö ár frá því að kröfulýsingarfresti lýkur ef sýnt þykir að þeim sem lýsir kröfu var það ekki unnt fyrr eða önnur veigamikil rök mæla með því.

6. gr.

Sáttaboð.
     Að loknum kröfulýsingarfresti skal sýslumaður fara yfir þær kröfur sem lýst hefur verið og önnur tiltæk gögn. Hann skal afla staðfestingar nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007 á því að viðkomandi hafi verið vistaður á því heimili eða stofnun sem um ræðir. Telji sýslumaður að líkur standi til að bótaskilyrði laga þessara séu uppfyllt skal hann að höfðu samráði við ráðherra gera viðkomandi einstaklingi skriflegt og bindandi sáttaboð. Að öðrum kosti skal hann synja kröfu með rökstuddu bréfi. Málsmeðferð af hálfu sýslumanns skal vera einföld og henni skal hraðað eins og kostur er. Honum er óskylt að taka munnlegar skýrslur af þeim sem gera kröfur. Skal hann eftir því sem kostur er fjalla samtímis um allar kröfur er lúta að einu og sama heimilinu eða stofnuninni.
     Hafni sá sem kröfu hefur lýst sáttaboði eða hafi kröfu hans verið synjað getur hann innan þriggja mánaða frá dagsetningu bréfs sýslumanns leitað til úrskurðarnefndar skv. 7. gr.
     Fallist sá sem kröfu hefur lýst á sátt samkvæmt þessari grein með skriflegum hætti felur það í sér afsal allra frekari krafna á hendur ríki og eftir atvikum sveitarfélögum, sbr. 13. gr., vegna vistunar á viðkomandi stofnun eða heimili. Gjalddagi er fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að sýslumanni berst skriflegt samþykki viðtakanda bótanna.

7. gr.

Úrskurðarnefnd um sanngirnisbætur.
     Ráðherra skipar, án tilnefningar, nefnd þriggja manna og þriggja til vara til þess að taka afstöðu til krafna um sanngirnisbætur samkvæmt lögum þessum ljúki málum ekki á grundvelli 6. gr. Nefndarmenn og varamenn þeirra skulu skipaðir til allt að þriggja ára í senn. Einn nefndarmaður skal fullnægja skilyrðum til að vera hæstaréttardómari, en hann skal jafnframt vera formaður nefndarinnar. Einn skal vera læknir og einn sálfræðingur. Um sérstök hæfisskilyrði gilda reglur stjórnsýslulaga. Varamenn skulu fullnægja sömu hæfisskilyrðum og aðalmenn.
     Kostnaður við störf úrskurðarnefndarinnar greiðist úr ríkissjóði, sbr. þó 13. gr. Nefndinni er heimilt að ráða sér starfslið í samráði við ráðherra.

8. gr.

Meðferð bótakrafna af hálfu úrskurðarnefndar.
     Í erindi til úrskurðarnefndar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. skal greina helstu rök fyrir því að viðkomandi eigi ríkari rétt en niðurstaða sýslumanns ber vott um. Úrskurðarnefndin getur kvatt þann sem leitað hefur til nefndarinnar til viðtals þar sem aflað verður nánari upplýsinga um grundvöll kröfunnar. Þá getur hún sömuleiðis leitað eftir afstöðu sýslumanns til kröfunnar eða kvatt aðra einstaklinga til viðtals, t.d. fyrrverandi starfsfólk á stofnun eða heimili.
     Úrskurðarnefndinni er heimilt að óska eftir umboði þess sem kröfu gerir til að afla læknisfræðilegra gagna um heilsufar hans, ef slík gögn skipta sérstöku máli að áliti nefndarinnar. Slík gagnaöflun skal vera á kostnað nefndarinnar.
     Úrskurðarnefndin skal hafa aðgang að hljóðupptökum og endurritum viðtala sem nefnd samkvæmt lögum nr. 26/2007 hefur tekið sem lið í rannsókn sinni á stofnun eða heimili, sem og að öðrum skjallegum gögnum sem síðarnefnda nefndin býr yfir.
     Nú telur sá sem kröfu gerir að skýrsla sem hann kann að hafa gefið skv. 3. mgr. sé ófullnægjandi við mat á rétti hans til sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum, eða hann óskar af öðrum ástæðum eftir því að tjá sig nánar um atriði sem skýrslan tekur til, og skal þá úrskurðarnefndin heimila honum að gefa skýrslu á ný, eða leggja fram skriflega greinargerð. Úrskurðarnefndin skal meta framkomna framburði heildstætt.
     Úrskurðarnefndin skal ljúka meðferð hverrar kröfu eins fljótt og auðið er.

9. gr.

Ákvörðun um bætur.
     Úrskurðarnefndin skal kveða upp skriflegan úrskurð þar sem tekin er afstaða til kröfu þess sem leitar til nefndarinnar um bætur. Tilgreina skal helstu röksemdir sem niðurstaðan er reist á.
     Við mat á því hvort nægilega sé í ljós leitt að bótaskilyrði 3. gr. séu uppfyllt, og við mat á þeim atriðum sem greinir í 4. gr., skal úrskurðarnefndin líta til fyrirliggjandi gagna og þess hvernig frásögn viðkomandi samræmist því sem vitað er um aðstæður á viðkomandi stofnun eða heimili, einkum á grundvelli skýrslu nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007.
     Nú hefur sá er kröfu gerir notið aðstoðar lögmanns við gerð kröfu og aðra ráðgjöf og skal þá úrskurðarnefndin jafnframt hugsanlegum sanngirnisbótum úrskurða hæfilegan kostnað samkvæmt réttmætri, sundurliðaðri og tímasettri skýrslu lögmannsins. Að jafnaði skal ekki úrskurða hærri þóknun en svarar til 10 klst. vinnu.
     Úrskurður nefndarinnar er endanlegur á stjórnsýslustigi. Ekki er hægt að bera niðurstöðu um bótarétt skv. 3. og 4. gr. undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur liggur fyrir. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að úrskurðurinn var kynntur aðila máls og málsókninni skal beint að úrskurðarnefndinni.
     Gjalddagi bóta er 1. dagur næsta mánaðar eftir að úrskurður er kveðinn upp.

10. gr.

Tengiliður vegna vistheimila.
     Ráðherra skipar sérstakan tengilið sem koma skal með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga bótarétt samkvæmt lögunum. Hann skal m.a. leiðbeina þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá skal hann aðstoða fyrrverandi vistmenn sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Eftir 1. janúar 2013 getur ráðherra lagt niður starf tengiliðs að fenginni tillögu úrskurðarnefndar.

11. gr.

Framsal krafna og aðilaskipti fyrir erfðir.
     Ekki er heimilt að framselja kröfu samkvæmt lögum þessum, nema hún sé viðurkennd og fjárhæð hennar ákvörðuð af úrskurðarnefnd. Bætur eru undanþegnar aðför skv. 46. gr. laga um aðför, nr. 90/1989.
     Krafa um bætur samkvæmt lögum þessum erfist í samræmi við erfðalög, nr. 8/1962, hafi tjónþoli lýst kröfu skv. 5. gr. Hafi tjónþoli fallið frá áður en honum var unnt að lýsa slíkri kröfu erfist krafan til eftirlifandi barna sem geta hvert um sig eða sameiginlega fylgt henni eftir. Um aðgang að gögnum í vörslu vistheimilisnefndar og annarra stjórnvalda varðandi kröfu á þessum grundvelli fer samkvæmt ákvæðum 5. og 8. gr.

12. gr.

Ýmis ákvæði.
     Um sanngirnisbætur samkvæmt lögum þessum fer skv. 2. tölul. 28. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003. Óheimilt er að skuldajafna kröfum ríkisins, sveitarfélaga eða stofnana þeirra á móti greiðslum samkvæmt lögum þessum.
     Aðrar greiðslur sem einstaklingur kann að njóta, t.d. á grundvelli laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, eða úr lífeyrissjóðum, hafa ekki áhrif á ákvörðun sanngirnisbóta samkvæmt lögum þessum. Greiddar sanngirnisbætur mynda ekki heldur stofn til frádráttar vegna slíkra annarra greiðslna, né hafa áhrif á réttindi einstaklinga í almannatryggingakerfinu að öðru leyti.
      Upplýsingalög, nr. 50/1996, gilda ekki um gögn úrskurðarnefndar um sanngirnisbætur. Gögnin skulu gerð almenningi aðgengileg að þeim tíma liðnum sem getur í upplýsingalögum, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 50/1996.
     Ráðherra er heimilt að gefa út og birta í B-deild Stjórnartíðinda, að fenginni tillögu sýslumanns eða úrskurðarnefndar, nánari reglur um viðmið við ákvörðun fjárhæða, meðferð bótakrafna, aðgang sýslumanns eða úrskurðarnefndar að gögnum hjá sveitarfélögum, stofnunum þeirra og ríkisstofnunum, fyrirkomulag greiðslu bóta, viðmiðunarfjárhæð vegna lögmannskostnaðar og önnur atriði sem varða framkvæmd laga þessara.

13. gr.

Ábyrgðarskipting.
     Hafi sveitarfélag rekið heimili eða stofnun skal ráðherra efna til viðræðna við viðkomandi um skiptingu kostnaðar af bótagreiðslum og starfi sýslumanns og úrskurðarnefndar.

14. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 2010.