Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1500, 138. löggjafarþing 703. mál: stjórnlagaþing (gerð kjörseðils, uppgjör kosningar o.fl.).
Lög nr. 120 21. september 2010.

Lög um breytingu á lögum nr. 90/2010, um stjórnlagaþing.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Framboði skal skilað á sérstöku eyðublaði, sem landskjörstjórn útbýr í samráði við dómsmálaráðuneytið, undirrituðu af frambjóðanda. Eyðublaðinu skal skilað á því formi sem landskjörstjórn ákveður. Með framboði skal fylgja listi með nöfnum minnst 30 og mest 50 meðmælenda, sem skulu fullnægja skilyrðum kosningarréttar til Alþingis, og skrifleg yfirlýsing frá hverjum meðmælanda sem staðfest hefur verið af tveimur vottum. Í framboði sínu skal frambjóðandi m.a. tiltaka lögheimili sitt og í samandregnu máli gera grein fyrir framboði sínu til notkunar í kynningarefni skv. 9. gr. Í sama tilgangi skal framboði fylgja ljósmynd af frambjóðanda í því formi sem landskjörstjórn fer fram á.
  3. Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Landskjörstjórn raðar frambjóðendum í stafrófsröð, en fyrsta nafn skal valið af handahófi. Samtímis úthlutar landskjörstjórn frambjóðendum auðkennistölu sem valin er af handahófi.
  5. Á eftir orðinu „frambjóðenda“ í 6. mgr. kemur: og auðkennistölu, svo og.


2. gr.

     2. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
     Efst á kjörseðli skulu prentaðar leiðbeiningar um hvernig atkvæðagreiðsla fer fram, sbr. reglur 11. gr. Á kjörseðli skulu vera tuttugu og fimm vallínur. Í fyrstu vallínu standi auðkennistala þess frambjóðanda sem er 1. val kjósanda, í annarri vallínu standi auðkennistala þess frambjóðanda sem er 2. val kjósanda, í þriðju vallínu standi auðkennistala frambjóðanda sem er 3. val kjósanda o.s.frv. Fremst í hverri vallínu skulu vera ferningar fyrir stafi í auðkennistölu frambjóðanda, jafnmargir og nauðsynlegt er, sbr. 6. mgr. 8. gr. Á bakhlið kjörseðils komi auðkennistákn seðilsins.

3. gr.

     2. mgr. 11. gr. laganna orðast svo:
     Kjósandi sem greiðir atkvæði á kjörfundi setur auðkennistölu frambjóðanda í ferning, einn eða fleiri, fyrir framan 1. val sitt, þar á eftir auðkennistölu þess frambjóðanda sem hann velur í 2. vali, á eftir því vali auðkennistölu þess frambjóðanda sem hann vill að næstur komi til álita o.s.frv. Í kjörklefa skal liggja listi yfir frambjóðendur og auðkennistölur þeirra.

4. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
  1. Í stað 1.–3. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
  2.      Úthlutun sæta ræðst af eftirfarandi aðgerðum:
    1. Meinbugir á útfyllingu kjörseðils:
      1. Sé efsta vallína auð telst kjörseðillinn ógildur.
      2. Sé vallína auð eða hún ekki rétt útfyllt telst seðillinn ekki ógildur af þeim sökum en aðeins skal taka tillit til útfyllingar í vallínum fram að auðu línunni en ekki til þeirra sem á eftir kunna að koma.
      3. Tvítekin auðkennistala gerir seðil ekki ógildan en aðeins skal taka tillit til vallína fram að fyrstu endurtekningu tölunnar en ekki annarra lína.
      4. Ef ekkert val verður lesið af kjörseðli vegna atvika sem að framan greinir telst kjörseðillinn ógildur.
    2. Sætishlutur: Ákvarða skal sætishlut með þeim hætti að deila fyrst heildartölu gildra kjörseðla með 26. Tekið skal heiltölugildið af útkomunni, þ.e. leif skal felld brott. Að því búnu skal bæta einum við og nefnist sú útkoma sætishlutur.
    3. Flokkun kjörseðla: Kjörseðlar skulu flokkaðir í bunka eftir nöfnum þeirra frambjóðenda sem tilgreindir eru að 1. vali á seðlunum.
    4. Gildistölur: Ákvarða skal atkvæðisgildi kjörseðla í hverjum bunka. Í upphafi er atkvæðisgildi allra seðla jafnt einum en síðar fer að ákvæðum 6. tölul. um hugsanlegar breytingar á atkvæðisgildum. Með atkvæðatölu frambjóðanda er átt við samtölu atkvæðisgilda allra kjörseðla í bunka hans á hverju stigi úthlutunarinnar.
    5. Úthlutun sæta: Jafnóðum og í ljós kemur að atkvæðatala frambjóðanda er jöfn eða hærri en nemur sætishlutnum skal frambjóðandanum úthlutað sæti. Á þetta við hvort sem er í upphafi eða síðar þegar beitt er ákvæðum 6. og 7. tölul.
    6. Færsla umframatkvæða: Hafi frambjóðandi hlotið atkvæðatölu umfram sætishlut skal færa hvern einstakan kjörseðil hans í bunka þess frambjóðenda sem næstur er nefndur í forgangsröð á seðlinum og er meðal þeirra sem enn koma til álita að hljóta sæti. Sé engan frambjóðanda að næsta vali að finna skal leggja slíkan seðil til hliðar. Að öðru leyti fer um færslu seðlanna sem hér segir:
      1. Ákvarða skal umframhlutfall hjá frambjóðanda sem seðlar eru færðir frá. Fæst það með því að deila þeim hluta af atkvæðatölu frambjóðandans sem er umfram sætishlut með óskertri atkvæðatölu hans. Endurmeta skal atkvæðisgildi viðkomandi seðla með því að margfalda fyrra atkvæðisgildi hvers þeirra með umframhlutfallinu.
      2. Hafi fleiri en einn frambjóðandi atkvæðatölu umfram sætishlut skal fyrst færa seðla frá þeim sem hæsta hefur atkvæðatöluna og síðan koll af kolli. Að lokinni færslu skal aðgæta hvort þá hafi bæst í hóp þeirra frambjóðenda sem náð hafa sætishlut. Skal þá ganga úr skugga um hver umræddra frambjóðenda er nú með hæstu atkvæðatöluna áður en aftur er valinn sá þeirra sem næst skal færa seðla frá.
    7. Útilokun: Komi að því að enginn frambjóðandi sem til álita kemur að hljóta sæti uppfyllir ákvæði 5. tölul. skal finna þann frambjóðanda sem þá hefur lægstu atkvæðatölu. Sá frambjóðandi kemur ekki lengur til álita við úthlutun sæta, sbr. þó 2. mgr. Kjörseðlar í bunka hans skulu allir færðir í bunka þeirra frambjóðenda sem enn koma til álita og næstir eru nefndir í forgangsröð á umræddum seðlum, sbr. ákvæði 6. tölul. Sé engan slíkan að finna skal leggja þann seðil til hliðar.
    8. Lok úthlutunar: Beita skal ákvæðum 6. og 7. tölul. svo lengi sem við á en þó þannig að ákvæði 6. tölul. hafi ávallt forgang. Þegar tala þeirra frambjóðenda sem enn koma til álita að hljóta sæti er orðin jöfn tölu þeirra 25 sæta sem eftir er að ráðstafa skal sætunum úthlutað til þessara frambjóðenda án frekari útreikninga.
    9. Nákvæmni í reikningi: Útreikningar á atkvæðisgildum, atkvæðatölum og umframhlutföllum skulu gerðir með fimm tugabrotsstöfum. Ekki skal taka tillit til tugabrotsstafa umfram fimm í útkomutölum.
    10. Hlutkesti: Reynist einhverjar atkvæðatölur sem hafa áhrif á framvindu röðunarinnar jafnstórar skal hluta um þær.

         Hafi frambjóðendur af öðru kyninu fengið úthlutað færri en tíu sætum eða sem nemur tveimur fimmtu allra þingsæta skal úthluta sætum til þeirra frambjóðenda sem næstir eru í röðinni af því kyni, sé þá að finna, þangað til hlutfall þeirra nemur að minnsta kosti tveimur fimmtu allra fulltrúa. Heildartala þingfulltrúa skal þó aldrei vera hærri en 31. Þetta skal gert með því að horfa til atkvæðatalna frambjóðenda þess kynsins sem hallar á eins og þær voru næst á undan því að útilokunarákvæði 7. tölul. 1. mgr. var beitt hvað þá snertir. Sætum skal úthlutað til þeirra sem höfðu þessar atkvæðatölur hæstar.
  3. Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Úthlutun sæta, útgáfa kjörbréfa og úrskurðir í ágreiningsmálum.


5. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein, 15. gr. a, er orðast svo ásamt fyrirsögn:
Heimild til þess að víkja frá fyrirmælum um rafræna kjörskrá.
     Ef ekki reynist unnt að beita ákvæðum laga þessara um rafræna kjörskrá er dómsmála- og mannréttindaráðherra heimilt að víkja frá ákvæðum þeirra þar að lútandi. Um gerð kjörskrár vegna atkvæðagreiðslu á kjörfundi fer skv. 2. mgr. 5. gr. laga þessara og ákvæðum VI. kafla laga um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
     Kosningu utan kjörfundar skal hefja sautján dögum fyrir kjördag og henni skal lokið í síðasta lagi kl. 12 daginn fyrir kjördag. Að öðru leyti fer um kosningu utan kjörfundar eftir ákvæðum XII. kafla laga um kosningar til Alþingis eftir því sem við á.
     Mörk kjördæma, kjörstaðir og kjördeildir skulu þó vera hin sömu og í síðastliðnum alþingiskosningum.

6. gr.

     Við 2. mgr. 19. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir sem taka sæti á stjórnlagaþingi og bera skyldur samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum eiga rétt á leyfi frá störfum sínum þann tíma sem þeir gegna þingstörfum.

7. gr.

     Við ákvæði til bráðabirgða bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd geta óskað ákvörðunar forseta Alþingis um einstök álitamál vegna undirbúnings þjóðfundar og stjórnlagaþings.
     Kostnaður við boðun og störf þjóðfundar og vegna undirbúnings stjórnlagaþings og starfa stjórnlaganefndar skal greiddur úr ríkissjóði.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 9. september 2010.