Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1397, 138. löggjafarþing 152. mál: stjórnlagaþing (heildarlög).
Lög nr. 90 25. júní 2010.

Lög um stjórnlagaþing.


I. KAFLI
Hlutverk og skipan.

1. gr.

Hlutverk.
     Forseti Alþingis skal í samráði við stjórnlaganefnd boða til ráðgefandi stjórnlagaþings til að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944.

2. gr.

Skipan og starfstími.
     Stjórnlagaþing skal skipað minnst 25 og mest 31 þjóðkjörnum fulltrúa. Þeir skulu kosnir persónukosningu.
     Þingið skal koma saman eigi síðar en 15. febrúar 2011 og ljúka störfum 15. apríl 2011 en getur ákveðið sjálft að ljúka störfum fyrr.
     Stjórnlagaþingi er heimilt að óska eftir því við Alþingi að starfstími þingsins verði framlengdur með þingsályktun um allt að tvo mánuði.

3. gr.

Viðfangsefni.
     Stjórnlagaþing skal sérstaklega taka til umfjöllunar eftirfarandi þætti:
 1. Undirstöður íslenskrar stjórnskipunar og helstu grunnhugtök hennar.
 2. Skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og valdmörk þeirra.
 3. Hlutverk og stöðu forseta lýðveldisins.
 4. Sjálfstæði dómstóla og eftirlit þeirra með öðrum handhöfum ríkisvalds.
 5. Ákvæði um kosningar og kjördæmaskipan.
 6. Lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
 7. Framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana og meðferð utanríkismála.
 8. Umhverfismál, þar á meðal um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda.

     Stjórnlagaþing getur ákveðið að taka til umfjöllunar fleiri þætti en getið er í 1. mgr.

II. KAFLI
Kosning til stjórnlagaþings.

4. gr.

Kjördagur.
     Forseti Alþingis ákveður kjördag í samráði við stjórnlaganefnd og dómsmála- og mannréttindaráðherra. Kosning til stjórnlagaþings skal fara fram eigi síðar en 30. nóvember 2010. Skal kosningin vera leynileg.

5. gr.

Kosningarréttur og kjörskrár.
     Kosningarrétt til stjórnlagaþings eiga þeir sem uppfylla skilyrði 1. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þegar boðað hefur verið til kosninga til stjórnlagaþings skal Þjóðskrá Íslands semja kjörskrá og setja á rafrænt form til að nota við atkvæðagreiðsluna.
     Á kjörskrá skal taka þá sem uppfylla skilyrði 1. mgr. 1. gr. laga um kosningar til Alþingis og skráðir voru með lögheimili í tilteknu sveitarfélagi samkvæmt íbúaskrá Þjóðskrár Íslands þremur vikum fyrir kjördag. Enn fremur skal taka á kjörskrá þá sem uppfylla skilyrði 2. mgr. 1. gr. þeirra laga og síðast áttu skráð lögheimili hér á landi í tilteknu sveitarfélagi.
     Sautján dögum fyrir kjördag skal Þjóðskrá Íslands birta hina rafrænu kjörskrá almenningi til sýnis á heimasíðum dómsmálaráðuneytisins og Þjóðskrár Íslands. Þjóðskrá Íslands skal þegar taka til meðferðar athugasemdir er henni berast við kjörskrá og gera viðeigandi leiðréttingar á henni ef við á. Slíka leiðréttingu má gera fram að kjördegi. Ákvörðun Þjóðskrár Íslands er endanleg.
     Þremur vikum fyrir kjördag skal dómsmálaráðuneytið birta auglýsingu í Ríkisútvarpi og dagblöðum þar sem vakin er athygli almennings á því hvar nálgast megi hina rafrænu kjörskrá og hvernig megi gera athugasemdir við hana.

6. gr.

Kjörgengi.
     Kjörgengir til stjórnlagaþings eru þeir sem eru kjörgengir við kosningar til Alþingis. Forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra, ráðherrar og nefndarmenn í stjórnlaganefnd og undirbúningsnefnd eru þó ekki kjörgengir.

7. gr.

Auglýsing um kosninguna.
     Landskjörstjórn skal auglýsa kosningu til stjórnlagaþings í Ríkisútvarpi, dagblöðum og Lögbirtingablaði eigi síðar en átta vikum fyrir kjördag.

8. gr.

Framboð.
     Framboðum til kosningar til stjórnlagaþings skal skila í hendur landskjörstjórnar ekki síðar en kl. 12 á hádegi fjörutíu dögum fyrir kjördag.
     Með framboði skal fylgja samþykki frambjóðanda og nöfn minnst 30 og mest 50 meðmælenda sem skulu fullnægja skilyrðum kosningarréttar til Alþingis. Þá skal vera meðfylgjandi skrifleg yfirlýsing frá hverjum meðmælanda sem staðfest hefur verið af tveimur vottum. Landskjörstjórn í samráði við dómsmálaráðuneytið útbýr sérstakt eyðublað í þessu skyni sem skal skilað á því formi sem landskjörstjórn fer fram á.
     Hverjum kosningarbærum manni er einungis heimilt að mæla með einum frambjóðanda.
     Landskjörstjórn skal innan þriggja daga frá því að framboðsfrestur rennur út tilkynna frambjóðanda hvort ágallar séu á framboðinu eða lista yfir meðmælendur. Skal frambjóðanda veittur tveggja daga frestur til að bæta úr ágöllum.
     Náist ekki tilskilinn lágmarksfjöldi frambjóðenda, sbr. 1. mgr. 2. gr., þegar framboðsfrestur rennur út skal landskjörstjórn framlengja frestinn um tvær vikur. Nái fjöldi frambjóðenda þá ekki tilskildu lágmarki koma lögin ekki til framkvæmda.
     Landskjörstjórn auglýsir á vefsíðu sinni og vefsíðu á vegum dómsmálaráðuneytisins 24 dögum fyrir kjördag nöfn frambjóðenda, starfsheiti þeirra og sveitarfélög þar sem þeir eru búsettir.
     Ákvæði laga um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra gilda um framlög eða styrki til frambjóðenda eftir því sem við á.
     Kostnaður hvers frambjóðanda vegna kosningabaráttu má að hámarki nema 2 millj. kr.

9. gr.

Kynning á frambjóðendum og kosningu.
     Dómsmálaráðuneytið skal útbúa kynningarefni um frambjóðendur. Skal kynningarefni dreift á öll heimili hér á landi. Einnig skal kynningarefni birt á vefsíðu á vegum ráðuneytisins.
     Dreifa skal til allra kjósenda í landinu afriti af kjörseðli, auðkenndum sem kynningarseðill, ásamt skýringum á því hvernig atkvæðagreiðslan fer fram. Kynningarseðillinn skal jafnframt birtur á vefsíðu á vegum ráðuneytisins ásamt skýringum. Kynningarseðilinn má kjósandi hafa með sér í kjörklefa.

10. gr.

Gerð og prentun kjörseðla.
     Dómsmálaráðuneytið sér um gerð og prentun kjörseðla og sendir þá ásamt öðrum kjörgögnum til þeirra sem annast framkvæmd atkvæðagreiðslunnar á kjörfundi og utan kjörfundar. Haga skal sendingunum í samræmi við lög um kosningar til Alþingis.
     Á kjörseðla skal prenta skýru letri nafn, stöðu og sveitarfélag frambjóðenda til stjórnlagaþings í stafrófsröð en fyrsta nafn á kjörseðli skal valið af handahófi. Skal ferningur vera fyrir framan nafn hvers frambjóðanda. Efst á kjörseðli skulu koma fram leiðbeiningar um hvernig atkvæðagreiðsla fer fram, sbr. reglur 11. gr. laga þessara.

11. gr.

Atkvæðagreiðsla á kjörfundi.
     Kjósandi getur greitt atkvæði á kjörfundi hvar sem er á landinu enda verði sýnilegt í rafrænu kjörskránni á öllum kjörstöðum að hann hafi neytt atkvæðisréttar síns. Um kjördeildir, kjörstaði og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti samkvæmt lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á. Sveitarstjórnir leggja til tölvubúnað í hverri kjördeild til að tryggja aðgang að rafrænu kjörskránni.
     Kjósandi sem greiðir atkvæði á kjörfundi setur tölustafinn 1 í ferning fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill helst að nái kjöri, töluna 2 í ferninginn fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill að komi næstur til álita, töluna 3 í ferninginn fyrir framan nafn þess frambjóðanda sem hann vill að komi næstur til álita o.s.frv.
     Setji kjósandi önnur merki við nöfn frambjóðenda en 2. mgr. kveður á um, t.d. strikar yfir eitt eða fleiri nöfn, er atkvæðið gilt, enda séu ekki aðrir annmarkar á því, en horft skal fram hjá slíkum merkingum við talningu atkvæða, sbr. 14. gr.
     Að atkvæðagreiðslu lokinni gengur undirkjörstjórn frá kjörgögnum í samræmi við 95. gr. laga um kosningar til Alþingis og sendir landskjörstjórn á öruggan hátt. Landskjörstjórn eða aðili sem hún tilnefnir gefur viðurkenningu fyrir móttöku þegar gögnin berast.

12. gr.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar.
     Kosningu utan kjörfundar skal hefja sautján dögum fyrir kjördag. Þar sem atkvæðagreiðsla fer fram skal kjörstjóri hafa aðgang að sérstakri skrá, utankjörfundarskrá, sem skal vera á rafrænu formi og sækir gögn í rafrænu kjörskrána. Í rafrænu kjörskránni verður sýnilegt að greitt hafi verið atkvæði utan kjörfundar, hvar það var gert og hvenær. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer fram hjá sömu kjörstjórum og við alþingiskosningar. Henni skal lokið í síðasta lagi kl. 12 daginn fyrir kjördag. Kjósanda, sem greitt hefur atkvæði utan kjörfundar, er óheimilt að greiða atkvæði á kjörfundi.
     Eftir að kjósandi hefur gert grein fyrir sér á viðhlítandi hátt fyrir kjörstjóra fær hann afhent kjörgögn sem eru kjörseðill skv. 10. gr., kjörseðilsumslag og sendiumslag. Því næst greiðir hann atkvæði í einrúmi eins og lýst er í 2. mgr. 11. gr., leggur kjörseðilinn í kjörseðilsumslagið og lokar því. Því næst skal kjörseðilsumslagið sett í sendiumslagið og því lokað. Kjörstjóri skal gæta þess að nafn og kennitala kjósandans sé skráð á sendiumslagið og að það sé áritað til landskjörstjórnar. Merking í utankjörfundarskrá kemur í stað fylgibréfs, vottunar og skrár skv. 63. og 66. gr. laga um kosningar til Alþingis en um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar fer að öðru leyti eftir þeim lögum nema annað leiði af lögum þessum. Hafi kjörstjóri ekki aðgang að utankjörfundarskrá fer um framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eftir lögum um kosningar til Alþingis.

13. gr.

Talning atkvæða.
     Landskjörstjórn eða aðili sem hún tilnefnir gengur úr skugga um að kjósendur, sem greitt hafa atkvæði utan kjörfundar, standi á kjörskrá og að þeir eigi rétt á að greiða atkvæði og metur að öðru leyti hvort atkvæðið skuli tekið til greina, sbr. 91. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þessa athugun má hefja á kjördegi. Atkvæði sem greidd hafa verið utan kjörfundar verða að hafa borist landskjörstjórn fyrir kl. 22 á kjördag.
     Talning atkvæða fer fram fyrir opnum dyrum hjá landskjörstjórn. Hún skal auglýsa með nægum fyrirvara hvenær hún komi saman til að opna atkvæðakassa og hefja talningu atkvæða. Landskjörstjórn getur kvatt yfirkjörstjórnir í kjördæmunum í Reykjavík sér til aðstoðar. Um meðferð atkvæða, gildi þeirra og framkvæmd talningar fer eftir lögum um kosningar til Alþingis eftir því sem við á að teknu tilliti til 14. gr. Heimilt er að beita rafrænum aðferðum við talningu og útreikning á því hver hafi náð kjöri. Landskjörstjórn úrskurðar um gildi atkvæða sem eru haldin einhverjum annmörkum og skal afl atkvæða ráða úrslitum.

14. gr.

Úrslit, útgáfa kjörbréfa og úrskurðir í ágreiningsmálum.
     Úrslit kosninganna ráðast af eftirfarandi aðgerðum:
 1. Talnaröð rofin: Aðgætt skal hvort talnaröð kjósanda á frambjóðendum sé samfella tölustafanna 1, 2, 3 o.s.frv. Eftirfarandi gildir ef talnaröðin er rofin eða aðrir gallar reynast á henni:
  1. Horft skal fram hjá merkingu með krossi svo og merkingu með tölustöfum utan talnarununnar frá 1 til og með 25. Hafi þó einungis verið merkt við nafn eins frambjóðanda með krossi eða öðrum hætti í ferninginn fyrir framan nafn hans skal líta svo á að kjósandinn hafi raðað honum númer 1.
  2. Sé eyða í talnaröðun frambjóðenda skal líta svo á að röðin nái aðeins að eyðunni.
  3. Sé tölustafur tvítekinn er röðin aðeins gild fram að tvítekna tölustafnum.
  4. Ef engin talnaröðun verður lesin af kjörseðli vegna atvika sem greinir í a–c-lið, svo sem ef enginn frambjóðandi telst tölusettur að 1. vali, telst atkvæðið ekki lengur gilt.
 2. Sætishlutur: Ákvarða skal sætishlut frambjóðanda með þeim hætti að deila tölu gildra atkvæða með 26.
 3. Flokkun kjörseðla: Atkvæði skulu flokkuð í bunka eftir nöfnum þeirra frambjóðenda sem tilgreindir eru númer 1 í talnaröð á viðkomandi kjörseðlum. Hafi frambjóðandi ekki verið tilgreindur númer 1 á neinum kjörseðli skal hann fá í upphafi ígildi bunka þótt tómur sé.
 4.      Ákvarða skal gildi atkvæða í hverjum bunka. Í upphafi er gildi hvers atkvæðis jafnt einum en síðar fer að ákvæðum 4. tölul. Með atkvæðagildi frambjóðanda er átt við samtölu gilda allra atkvæða í bunka hans.
 5. Röðun í efstu sæti: Frambjóðendum skal raðað í sæti með eftirgreindum hætti að því marki sem unnt er:
  1. Sé hæsta atkvæðagildi frambjóðanda jafnt eða hærra en nemur sætishlut skal frambjóðandanum raðað í efsta lausa sæti, í byrjun í fyrsta sæti.
  2. Sé atkvæðagildi annarra frambjóðenda einnig jafnt eða hærra en nemur sætishlut skal þeim raðað í efstu lausu sæti í réttri röð miðað við atkvæðagildi.
  3. Ákvarða skal færsluhlutfall atkvæða hvers þeirra frambjóðenda sem raðað hefur verið í sæti skv. a- og b-lið og fæst það með því að deila þeim hluta atkvæðagildis frambjóðandans sem er umfram sætishlut með fullu atkvæðagildi hans.
  4. Endurmeta skal atkvæðagildi hvers frambjóðanda á viðkomandi seðlum með því að margfalda fyrra atkvæðagildi með færsluhlutfallinu.
  5. Atkvæðin skulu síðan færð til þeirra frambjóðenda sem raðað hefur verið númer 2 á umræddum kjörseðlum sé það að finna, að teknu tilliti til 1. og 7. tölul.
 6. Röðun í neðstu sæti: Komi að því að enginn frambjóðandi finnst með atkvæðagildi sem er jafnt eða hærra en sætishluturinn, sbr. 4. tölul., skal finna þann frambjóðanda sem hefur lægsta atkvæðagildið jafnt þótt það sé núll að gildi, sbr. 3. tölul. Þessum frambjóðanda skal raðað í neðsta lausa sæti, í upphafi í sæti með raðtölu sem er jöfn fjölda frambjóðenda til stjórnlagaþings. Atkvæði þessa frambjóðanda skulu síðan færð til þeirra frambjóðenda sem raðað hefur verið númer 2 á umræddum kjörseðlum að því marki að kjósendur hafi tilgreint slíka röðunartölu og þau nöfn hafi ekki verið afmáð vegna uppfærslu skv. 7. tölul.
 7. Lok röðunar: Beita skal ákvæðum 4. og 5. tölul. samkvæmt röðunartölum á kjörseðlum allt þar til öllum frambjóðendum til stjórnlagaþings hefur verið raðað. Ákvæði 4. tölul. hefur ávallt forgang.
 8. Uppfærsla nafna og valtalna: Í hvert sinn sem frambjóðanda hefur verið skipað í sæti samkvæmt ákvæðum 4. eða 5. tölul. skal samstundis afmá nafn hans af öllum kjörseðlum. Skapist af þeim sökum eyða í talnaröð á kjörseðli skal hækka röðunartölur þeirra frambjóðenda sem koma á eftir þeim frambjóðanda sem um ræðir. Þetta hvort tveggja skal gera áður en kjörseðlar eru færðir í bunka annarra frambjóðenda. Tæmist talnaröð kjósanda á kjörseðli við beitingu 4. eða 5. tölul. kemur atkvæðið ekki lengur til álita og skal lagt til hliðar.
 9. Hlutkesti: Nú eru einhverjar stærðir sem hafa áhrif á framvindu röðunarinnar jafnstórar og skal þá hluta um þær.

     Nú skal þeim úthlutað sætum á stjórnlagaþingi sem eru í efstu 25 sætum miðað við framangreinda röðun.
     Hafi frambjóðendur af öðru kyninu fengið úthlutað færri en 10 sætum eða sem nemur tveimur fimmtu allra þingsæta skal úthluta sætum til þeirra frambjóðenda af því kyni sem næstir eru í röðinni, sé þá að finna, þangað til hlutfall þeirra nemur að minnsta kosti tveimur fimmtu allra fulltrúa, þó aldrei þannig að heildarfjöldi þingfulltrúa fari yfir 31.
     Að lokinni talningu og úthlutun sæta birtir landskjörstjórn greinargerð um úrslitin opinberlega og boðar frambjóðendur til stjórnlagaþings til fundar. Þar lýsir hún úrslitum kosninganna og gefur út kjörbréf handa þjóðkjörnum fulltrúum á stjórnlagaþingi. Eftir að kjörbréf hafa verið afhent tilkynnir landskjörstjórn forseta Alþingis um niðurstöðu kosninganna og sendir nöfn hinna kjörnu fulltrúa til birtingar í Stjórnartíðindum.
     Nú er ágreiningur um kjörgengi frambjóðanda til stjórnlagaþings sem náð hefur kjöri og sker landskjörstjórn þá úr.

15. gr.

Kærur og fleira.
     Ef kjósandi telur fulltrúa á stjórnlagaþingi skorta kjörgengisskilyrði, framboð hans hafi ekki uppfyllt skilyrði laga eða kjör hans sé af öðrum ástæðum ólögmætt, getur hann kært kosningu hans til Hæstaréttar sem sker úr um gildi hennar. Kæra skal afhent Hæstarétti innan tveggja vikna frá því að nöfn hinna kjörnu fulltrúa voru birt í Stjórnartíðindum. Hæstiréttur aflar greinargerðar og gagna frá landskjörstjórn og gefur viðkomandi fulltrúa færi á að tjá sig um kæruna áður en skorið er úr um gildi kosningarinnar.
     Ákvæði 114. gr., XIX., XX., XXIV. og XXV. kafla laga um kosningar til Alþingis gilda um kosningar samkvæmt þessum lögum að svo miklu leyti sem við getur átt.

III. KAFLI
Skipulag og starfshættir stjórnlagaþings.

16. gr.

Forseti og forsætisnefnd.
     Forseti Alþingis setur stjórnlagaþing og stýrir kjöri forseta þingsins úr hópi þingfulltrúa í sérstöku kjöri og víkur forseti Alþingis svo af stjórnlagaþingi.
     Forseti stjórnlagaþings stýrir kjöri varaforseta og þriggja formanna starfsnefnda úr hópi þingfulltrúa á fyrsta fundi stjórnlagaþings.
     Forseti, varaforseti og formenn starfsnefnda skipa forsætisnefnd stjórnlagaþings.
     Forseti stjórnlagaþings er formaður forsætisnefndar. Hann ber ábyrgð á rekstri stjórnlagaþings og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess.
     Forsætisnefnd hefur yfirumsjón með skipulagi þingsins og gerir starfsáætlun um samkomutíma þess, svo og um skipulag á störfum starfsnefnda, sbr. 17. gr.

17. gr.

Starfsnefndir.
     Auk forsætisnefndar skulu þrjár starfsnefndir starfa á vegum þingsins:
 1. Nefnd um undirstöður íslenskrar stjórnskipunar, dómstóla og réttarríkið.
 2. Nefnd um skipan löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og hlutverk forseta lýðveldisins.
 3. Nefnd um kosningamál og þjóðaratkvæðagreiðslur.

     Nefndirnar skal kjósa á öðrum fundi stjórnlagaþings eftir að það kemur saman. Skal þingið kjósa tvo þingfulltrúa til setu í hverri nefnd auk formanns nefndarinnar.
     Sama þingfulltrúa má ekki kjósa til setu í fleiri en einni nefnd.
     Allir þingfulltrúar eiga seturétt á fundum nefnda með málfrelsi og tillögurétti.
     Nefndir geta ákveðið að halda fundi sína í heyranda hljóði og opna öllum eftir því sem húsrúm leyfir.

18. gr.

Þingfundir og fundarsköp.
     Stjórnlagaþing starfar í einni málstofu.
     Þingfundir skulu haldnir í heyranda hljóði og eru öllum opnir eftir því sem húsrúm leyfir.
     Forseti þingsins stýrir þingfundum. Um fundarsköp skulu settar nánari reglur í starfsreglum þingsins.

19. gr.

Réttindi og skyldur fulltrúa þingsins.
     Stjórnlagaþingsfulltrúar eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og ekki við nein fyrirmæli frá kjósendum sínum eða öðrum.
     Fulltrúar á stjórnlagaþingi skulu á samkomutímabili þingsins njóta launa sem samsvara þingfararkaupi alþingismanna og skulu laun þeirra greidd úr ríkissjóði. Forseti stjórnlagaþings nýtur samsvarandi launa og forseti Alþingis.
     Nefndarformenn njóta samsvarandi launa og formenn fastanefnda Alþingis.
     Stjórnlagaþing skal njóta sömu verndar og Alþingi skv. 36. gr. stjórnarskrárinnar og XI. kafla almennra hegningarlaga.

20. gr.

Kynning og þátttaka almennings.
     Á vegum stjórnlagaþings skal setja upp vefsíðu þar sem birt verði kynningarefni um stjórnarskrána og störf þingsins, erindi sem þinginu berast, útsending þingfunda, þingskjöl sem varða meðferð tillagna og frumvarp til stjórnarskipunarlaga o.fl.
     Stjórnlagaþing skal auglýsa með víðtækum hætti eftir tillögum frá almenningi, hagsmunasamtökum eða öðrum sem kunna að vilja koma tillögum sínum og öðrum erindum á framfæri við þingið.
     Tillögur og erindi sem þinginu berast skulu send viðeigandi starfsnefnd til meðferðar.

21. gr.

Skrifstofa og sérfræðiaðstoð.
     Forsætisnefnd stjórnlagaþings skal hafa eftirlit með því að kostnaður við þingið rúmist innan ramma fjárlaga. Ákvarðanir nefndarinnar um útgjöld við þingið sjálft, svo sem vegna aðstöðu, starfsfólks eða sérfræðiráðgjafar, skulu teknar í samráði við forsætisnefnd Alþingis.
     Forsætisnefnd skal ráða starfsmenn þingsins, þar á meðal skrifstofustjóra, og fer um verksvið og ráðningarkjör þeirra eftir nánari ákvörðun hennar. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gilda um réttindi og skyldur starfsmanna þingsins og greiðast laun þeirra úr ríkissjóði.
     Forsætisnefnd skal ráða sérfræðinga til þess að starfa með nefndum þingsins.
     Forsætisnefnd staðfestir kostnaðarreikninga frá nefndum vegna sérfræðiaðstoðar og annars sem hún telur nauðsynlegt. Kostnaður við stjórnlagaþing skal greiddur úr ríkissjóði.

22. gr.

Starfsaðstaða.
     Forsætisnefnd Alþingis skal sjá stjórnlagaþingi fyrir starfsaðstöðu.

IV. KAFLI
Undirbúningur og meðferð frumvarps til stjórnarskipunarlaga.

23. gr.

Ákvörðun um viðfangsefni nefnda þingsins.
     Í upphafi stjórnlagaþings skal þingið ákveða viðfangsefni og verkaskiptingu nefnda, með sérstöku tilliti til 3. gr.

24. gr.

Málsmeðferð í nefndum þingsins.
     Niðurstöður og tillögur nefnda þingsins skulu kynntar af nefndarformönnum og ræddar í samræmi við starfsreglur stjórnlagaþings.

25. gr.

Umræður um niðurstöður nefnda þingsins.
     Í starfsreglum þingsins skal kveðið á um meðferð og umræður um tillögur nefnda þingsins.
     Við lok tímabilsins skal forsætisnefnd falið að undirbúa frumvarp til stjórnarskipunarlaga.

26. gr.

Undirbúningur og meðferð frumvarps.
     Frumvarp til stjórnarskipunarlaga skal undirbúið af forsætisnefnd þingsins og sérfræðingum sem unnið hafa með nefndum þess.
     Forseti þingsins leggur fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga.
     Frágangur frumvarpsins skal fylgja þeim reglum sem gilda um lagafrumvörp í ákvæðum laga um þingsköp Alþingis.
     Frumvarpið skal rætt við tvær umræður. Við fyrri umræðu skal ræða frumvarpið í heild sinni. Þegar þeirri umræðu er lokið gengur það til síðari umræðu og forsætisnefndar.
     Starfsnefndir þingsins skulu senda umsögn sína til forsætisnefndar eftir fyrri umræðu um frumvarpið.
     Síðari umræða fer eigi fram fyrr en eftir útbýtingu álits forsætisnefndar. Skal þá ræða greinar frumvarpsins og breytingartillögur við þær en auk forsætisnefndar hefur sérhver þingfulltrúi rétt til að leggja fram breytingartillögur við frumvarpið. Þegar umræðu er lokið skal greiða atkvæði um hverja grein frumvarpsins og breytingartillögur við þær og loks frumvarpið í heild sinni með áorðnum breytingum ef einhverjar eru. Séu engar breytingartillögur má þó bera frumvarpið upp í heild.
     Um meðferð frumvarpsins fer að öðru leyti eftir starfsreglum þingsins.

27. gr.

Frumvarp sent Alþingi.
     Þegar stjórnlagaþing hefur samþykkt frumvarp til stjórnarskipunarlaga skal það sent Alþingi til meðferðar.

28. gr.

Starfsreglur.
     Forsætisnefnd Alþingis setur stjórnlagaþingi starfsreglur.
     Stjórnlagaþing getur ákveðið að leggja til breytingar á starfsreglunum og skulu þær staðfestar af forsætisnefnd Alþingis.

29. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku þessara laga skal forsætisnefnd Alþingis skipa þriggja manna undirbúningsnefnd stjórnlagaþings til að undirbúa stofnun og starfsemi þingsins ásamt undirbúningi þjóðfundar og skal nefndin ráða framkvæmdastjóra. Skal einn nefndarmanna tilnefndur af forsætisráðherra.
     Nefndin skal undirbúa kynningu á starfsemi þingsins og setja upp vefsíðu þess, útvega húsnæði og undirbúa ráðningu starfsmanna þingsins. Þá skal hún hefja gagnaöflun til undirbúnings fyrir tillögugerð stjórnlagaþings.
     Við samþykkt laga þessara skal Alþingi kjósa sjö manna stjórnlaganefnd sem verði sjálfstæð í störfum sínum. Nefndin fái það hlutverk að undirbúa og standa að þjóðfundi um stjórnarskrármálefni. Þjóðfundinn skal halda tímanlega áður en kosið verður til stjórnlagaþings samkvæmt lögunum. Miða skal við að þátttakendur á þjóðfundi verði um eitt þúsund talsins og skulu þeir valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá þannig að gætt sé að eðlilegri skiptingu þátttakenda af landinu öllu og að kynjaskipting sé sem jöfnust. Úrtakið skal bundið við þá sem eiga kosningarrétt til stjórnlagaþings og lögheimili á Íslandi. Á þjóðfundinum skal leitast við að kalla eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings varðandi stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni og skal nefndin vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman.
     Nefndin skal jafnframt annast söfnun og úrvinnslu fyrirliggjandi gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi og enn fremur leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá þegar það kemur saman.

Samþykkt á Alþingi 16. júní 2010.