Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 705. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 1518  —  705. mál.
Nefndarálitum skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Frá þingmannanefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.    Með þingsályktunartillögu sem fylgir skýrslu þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er m.a. lagt til að Alþingi álykti að starfshættir Alþingis verði endurskoðaðir og að lærdómur verði dreginn af gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu, að ályktað verði að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, að stjórnendur og eigendur fjármálafyrirtækja beri mesta ábyrgð á bankahruninu og að eftirlitsstofnanir hafi brugðist. Jafnframt leggur nefndin til að Alþingi álykti að endurskoða þurfi ýmsa nánar tilgreinda löggjöf, að ýmsar rannsóknir og úttektir fari fram og að nefnd á vegum Alþingis verði falið að hafa eftirlit með úrbótum á löggjöf til samræmis við skýrslu nefndarinnar.
    Ein umræða fer fram um skýrslu þingmannanefndarinnar á Alþingi. Umræðan hófst mánudaginn 13. september sl. og var henni fram haldið þriðjudaginn 14. og miðvikudaginn 15. september. Að loknum þingfundi á miðvikudeginum var umræðum frestað. Þá tók þingmannanefndin skýrsluna og tillögu til þingsályktunar sem henni fylgdi til umfjöllunar að nýju, einkum í ljósi framkominna og boðaðra tillagna til breytinga við ályktunina. Nefndin hefur haldið fimm fundi um málið eftir frestun umræðu. Gaf þingmannanefndin flutningsmönnum breytingartillagnanna kost á að koma fyrir nefndina þar sem þeir gerðu grein fyrir tillögum sínum. Eftirfarandi þingmenn mættu á fund nefndarinnar: Þór Saari, Sigurður Kári Kristjánsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Höskuldur Þórhallsson, Pétur H. Blöndal, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þórunn Sveinbjarnardóttir. Nefndin hefur síðan fjallað um allar átta tillögurnar og tekið afstöðu til þeirra. Einnig kom Ólína Þorvarðardóttir á fund nefndarinnar og ræddi tillögu um ályktanir varðandi störf ráðherra og embættismanna á árunum fyrir hrun.
    Siv Friðleifsdóttir, Höskuldur Þórhallsson og fleiri lögðu fram þá breytingartillögu, á þingskjali 1513, að skilið yrði betur á milli löggjafar- og framkvæmdarvalds, m.a. með því að ráðherrar gegni ekki þingmennsku samhliða ráðherradómi. Þingmannanefndin taldi tillöguna um margt óútfærða, m.a. hvað varðaði stöðu ráðherra gagnvart þinginu, áhrif á stöðu og styrk stjórnarandstöðu og hvort tillagan ætti að leiða til fækkunar þingmanna, svo og um kostnað. Þingmannanefndin tekur fram að forseti Alþingis hefur lagt fram til kynningar frumvarp til breytinga á lögum um þingsköp Alþingis, 686. mál, og boðað að það verði lagt fram að nýju á komandi löggjafarþingi. Telur nefndin eðlilegt að téð breytingartillaga komi til umræðu og afgreiðslu við þá endurskoðun þingskapa.
    Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri flytja breytingartillögu, á þingskjal 1511, sem lýtur að sjálfstæðri og óháðri rannsókn sérstakrar rannsóknarnefndar varðandi innstæður í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Evrópska efnahagssvæðinu og embættisfærslur og ákvarðanir íslenskra stjórnvalda og samskipti við hollensk og bresk stjórnvöld vegna þeirra. Meginþungi þessarar tillögu liggur í því að rannsökuð verði atvik sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur hvorki skoðað né tekið afstöðu til í skýrslu sinni. Hlutverk þingmannanefndarinnar er að taka afstöðu til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og draga lærdóma af henni. Umrædd breytingartillaga fellur því að mestu leyti utan verksviðs þingmannanefndarinnar og er því óviðkomandi þingsályktunartillögu nefndarinnar. Innan nefndarinnar var ekki andstaða við að slík rannsókn færi fram en meiri hluti nefndarmanna taldi að hún væri ekki tímabær fyrr en samningar við bresk og hollensk stjórnvöld um innlánsreikninga hefðu verið leiddir til lykta. Þá kom fram af hálfu ýmissa nefndarmanna að eðlilegt væri að slík tillaga yrði flutt á komandi löggjafarþingi. Bendir nefndin á að forsætisnefnd Alþingis hafa verið kynnt drög að frumvarpi um opinberar rannsóknarnefndir. Verði slíkt frumvarp að lögum er nauðsynlegur farvegur orðinn til fyrir slíkar rannsóknir.
    Pétur H. Blöndal og Sigmundur Ernir Rúnarsson eru flutningsmenn breytingartillögu í fimm liðum, a–e-lið, auk undirliða, á þingskjali 1510. Í a-lið tillögunnar er m.a. lögð til orðalagsbreyting á ályktunargreininni og er nefndin ekki samþykk henni enda ljóst af inngangsorðum skýrslu þingmannanefndarinnar um hvað málið snýst. Í b- og c-lið er lagt til að þingnefndir semji þau frumvörp sem lögð verða fram á Alþingi eða ritstýri þeim, Alþingi semji eigin fjárlög og þingmenn verði á launaskrá hjá Alþingi. Afstaða nefndarinnar til þessara tillagna er hin sama og til framangreindar breytingartillögu Sivjar Friðleifsdóttur og fleiri. Í d-lið er lagt til að ályktað verði um ábyrgð erlendra matsfyrirtækja og lánveitinga bankanna auk stjórnenda og helstu eigenda fjármálafyrirtækja á Íslandi. Þingmannanefndin tekur fram að hún fellst á að erlend matsfyrirtæki og lánveitendur beri mikla ábyrgð og þörf sé á rannsókn á aðkomu þessara aðila og ábyrgð. Telur nefndin rétt að flutningsmenn breytingartillögunnar leggi fram slíka tillögu á komandi löggjafarþingi og vísar einnig til umfjöllunar hér að framan um drög að frumvarpi um opinberar rannsóknarnefndir. Um e-lið, sem er þrískiptur, hefur nefndin einnig fjallað. Um 1. tölul. vísar nefndin aðallega til umfjöllunar um b-lið tillögunnar. Hvað 2. tölul. varðar hefur nefndin tekið skýra afstöðu til þess, á bls. 31 í skýrslu sinni, að lög um hlutafélög og einkahlutafélög og fleiri félög verði endurskoðuð. Í 3. tölul. er lagt til að gerð verði sjálfstæð rannsókn á falli sparisjóða og vátryggingarfélaga frá árinu 2000. Þingmannanefndin hefur í þingsályktunartillögu með skýrslu sinni gert tillögu um rannsókn á málefnum sparisjóðanna. Koma viðeigandi atriði í tillögu Péturs H. Blöndal eðlilega til skoðunar í þeirri rannsókn. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ekki fjallað um vátryggingafélögin og fellur sá þáttur því utan verksviðs þingmannanefndarinnar.
    Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og fleiri gera breytingartillögu um sjálfstæða og óháða rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs, sbr. þingskjal 1509. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram vilji til þess að slík rannsókn yrði gerð en jafnframt talið að hún þyrfti að ná til fleiri efnisþátta hvað sjóðinn varðar og enn fremur til lánveitinga viðskiptabankanna þegar þeir hófu á árinu 2004 að veita lán til íbúðakaupa. Telur nefndin nauðsynlegt að skoða málefni Íbúðalánasjóðs í samhengi við lán viðskiptabankanna til íbúðarkaupa. Til að fá heildarmynd af húsnæðismarkaðnum þyrfti einnig að skoða lánveitingar lífeyrissjóðanna til húsnæðiskaupa, en Íbúðalánasjóður, viðskiptabankarnir og lífeyrissjóðirnir hafa verið helstu fjármögnunaraðilar við kaup á íbúðarhúsnæði. Enn fremur þurfi að móta heildstæða stefnu í húsnæðismálum. Nefndin telur rétt að tillaga sem taki til allra þessa atriða verði lögð fram á komandi löggjafarþingi og vísar einnig til umfjöllunar hér að framan um drög að frumvarpi til laga um opinberar rannsóknarnefndir. Þingmannanefndin vekur þó sérstaka athygli á umfjöllun í skýrslu sinni um Íbúðalánasjóð og bókanir þar að lútandi. Mælir nefndin með því að endurbætt tillaga verði lögð fram á komandi löggjafarþingi.
    Í breytingartillögu Birgittu Jónsdóttur og Þórs Saari, á þingskjali 1508, er í a-lið lagt til að mennta- og menningarmálaráðherra verði falið að breyta aðalnámskrá grunnskóla þannig að heimspeki verði skyldufag og kennd að meðaltali einn áfanga á hverju skólaári. Nefndin bendir á að í meginniðurstöðum skýrslu sinnar, í kafla um siðferði og samfélag, sé m.a. lögð rík áhersla á nauðsyn þess að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna og að siðfræði og heimspeki ættu að vera sjálfsagður hluti náms á öllum skólastigum. Jafnframt bendir nefndin á að námskrá grunn- og framhaldsskóla er í endurskoðun. Með vísan til framangreinds mælir nefndin að svo stöddu ekki með umræddri breytingu. Í b-lið breytingartillögunnar er lagt til að stjórnsýsluúttekt fari fram á forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðuneyti og starfsháttum þeirra frá ársbyrjun 2007 til loka september 2010. Skiptar skoðanir voru meðal nefndarmanna um tillöguna, einkum í ljósi þess að í skýrslu þingmannanefndarinnar er felldur áfellisdómur yfir stjórnsýslunni á árunum fyrir hrunið í október 2008 og færður ítarlegur rökstuðningur fyrir þeirri niðurstöðu. Jafnframt er í meginniðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis bent á fjölmarga ágalla og gerðar ítarlegar tillögur um úrbætur. Þá er lagt til í skýrslu þingmannanefndarinnar að nefnd á vegum Alþingis hafi eftirlit með að úrbótum á löggjöf sem þingmannanefndin leggur til í skýrslu sinni verði hrint í framkvæmd og að úrbótum verði lokið fyrir 1. október 2012. Ýmis rökstuðningur kom fram fyrir því að slík stjórnsýsluúttekt færi fram en nefndin telur eðlilegt, m.a. með hliðsjón af þeim skamma tíma sem hún hefur haft til umfjöllunar um þessa tillögu, að flutningsmenn flytji tillögu þessa efnis á komandi löggjafarþingi.
    Sigmundur Davíð Gunnlaugsson lagði fyrir nefndina drög að breytingartillögu í fjórum liðum þar sem 1. tölul. er tvískiptur. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Fram kom í umfjöllun nefndarinnar að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað með ítarlegum hætti um þessa einkavæðingu. Þá hefur þingmannanefndin tekið í skýrslu sinni afstöðu til þeirrar umfjöllunar. Enn fremur kom fram að Ríkisendurskoðun hafi á sínum tíma kannað ýmsa þætti einkavæðingarinnar og skilað skýrslu um hana. Nokkur umræða varð um rannsókn af þessu tagi á þingfundum við umfjöllun um skýrsluna og kom þar fram að samstaða kynni að vera á milli þingflokka um að slík rannsókn yrði gerð en að þá þyrfti að tilgreina og afmarka nákvæmlega þá þætti sem hún tæki til. Nefndin telur rétt að leitað verði eftir slíkri samstöðu þingflokka og rannsóknarefni afmörkuð nákvæmlega. Unnt verði að flytja slíka tillögu um málið á komandi löggjafarþingi og vísar nefndin einnig til umfjöllunar hér að framan um drög að frumvarpi til laga um opinberar rannsóknarnefndir. Nefndin tekur fram að þetta mál hefur verið rætt afar ítarlega á fjölmörgum fundum hennar, sbr. umfjöllun í skýrslu þingmannanefndarinnar og bókanir um málefnið. Í sama tölulið draga Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að breytingartillögu er lagt til að samhliða rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands verði gert opinbert, sundurliðað, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum yfir í nýju bankana. Enn fremur er í 2. tölul. tillögunnar mælt fyrir um rannsókn á sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda Landsbanka Íslands og Kaupþings banka hf. og fleira. Um þessar tvær tillögur er það að segja að um þessi málefni er ekki fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis enda eru þau tilkomin eftir hrun íslensku bankanna. Það er því ekki á verksviði þingmannanefndarinnar að taka þessar tillögur til umfjöllunar. Enn fremur er í drögum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lagt til að ályktað verði um stofnfjáraukningu sparisjóða frá gildistöku laga nr. 4/2004, sem og að rannsókn fari fram á styrkveitingum sparisjóða til stjórnmálamanna og fleira. Nefndin vekur athygli á því að hún gerir sem fyrr segir í þingsályktunartillögu sinni tillögu um að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóða á Íslandi. Verði sú tillaga samþykkt þarf óhjákvæmilega að binda hana í lög og setja fram nánari forsendur slíkrar rannsóknar. Framangreindar tillögur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hljóta að koma þar til skoðunar. Telur nefndin eðlilegt að tillögur hans verði þar teknar til skoðunar.
    Drög að breytingartillögum frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni eru í þremur liðum. Þar er í fyrsta lagi lagt til að ályktað verði að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á verklagi og ákvarðanatöku íslenskra fjármálafyrirtækja frá gildistöku laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til loka ársins 2009. Um þetta málefni er ekki fjallað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og fellur það utan verksviðs þingmannanefndarinnar eins og það er skilgreint í lögum og er óviðkomandi þingsályktunartillögu hennar. Í öðru lagi er í drögum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar lagt til að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á ákvarðanatöku stjórnenda og stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Nefndin vekur athygli á því að í þingsályktunartillögu nefndarinnar er gerð tillaga um stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Telur nefndin að þessi hluti tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar falli undir þessa úttekt og telur því ekki þörf á að hún sé lögð fyrir Alþingi til samþykktar. Í þriðja lagi gerir Guðlaugur Þór Þórðarson tillögu um sjálfstæða og óháða úttekt á stjórnkerfi landsins, framkvæmda af viðurkenndum erlendum aðilum. Rannsóknin taki til starfsemi og skipulags ráðuneyta og stofnana. Um afstöðu nefndarinnar til þessarar tillögu er vísað til umfjöllunar hér að framan um tillögu þingmannanna Birgittu Jónsdóttur og Þórs Saari um stjórnsýsluúttekt á fjármála-, forsætis- og viðskiptaráðuneyti.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir kynnti nefndinni drög sín að breytingartillögu þar sem lagt er til að ályktað verði að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands og tengdum málefnum. Hér er um að ræða tillögu sem er hliðstæð breytingartillögu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og vísast til umfjöllunar um hana.
    Ólína Þorvarðardóttir ræddi við nefndina um ábyrgð ráðherra og embættismanna og hagstjórnarleg mistök sem gerð voru, sem og sölu og einkavæðingu bankanna. Af því tilefni vill nefndin taka fram að m.a. á bls. 24 og 30 í skýrslu nefndarinnar er tekin skýr afstaða til þeirra atriða sem þingmaðurinn gerði að umtalsefni. Auk þess leggur þingmannanefndin til að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.
    Þingmannanefndin áréttar að fram hafi verið settar breytingartillögur við þingsályktunartillöguna, sem fylgir skýrslu hennar, um málefni sem rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki haft til umfjöllunar og falla því utan verksviðs þingmannanefndarinnar eins og það er skilgreint í lögum nr. 142/2008 og lögskýringargögnum með þeim. Nefndin tekur fram að full samstaða náðist innan nefndarinnar um skýrslu hennar og þingsályktunartillögu sem henni fylgdi. Ljóst er að ekki er samstaða innan nefndarinnar um ýmsar af framangreindum breytingartillögum. Nefndin væntir þess að framhald umræðu um skýrsluna taki mið af þeirri málefnasamstöðu sem náðist innan þingmannanefndarinnar með áherslu á þessa mikilsverðu samstöðu.
    Þingmannanefndin áréttar að lokum mikilvægi þess að um skýrsluna verði fjallað á málefnalegan hátt og hún ásamt þingsályktunartillögu sem henni fylgdi leidd til lykta með atkvæðagreiðslu á Alþingi.
         Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.

Alþingi, 25. sept. 2010.Atli Gíslason,


form., frsm.


Unnur Brá Konráðsdóttir.


Magnús Orri Schram.Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Oddný G. Harðardóttir.


Eygló Harðardóttir.Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Birgitta Jónsdóttir.