Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 705. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 1523  —  705. mál.
Flutningsmenn.




Breytingartillaga



við till. til þál. um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis 2010 [í skýrslu á þskj. 1501].

Frá Þórunni Sveinbjarnardóttur, Skúla Helgasyni,     Jónínu Rós Guðmundsdóttur,


Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, Ólínu Þorvarðardóttur, Magnúsi Orra Schram,
Oddnýju G. Harðardóttur, Sigmundi Erni Rúnarssyni, Önnu Margréti Guðjónsdóttur,
Róberti Marshall, Kristjáni L. Möller, Merði Árnasyni,
Valgerði Bjarnadóttur og Helga Hjörvar.


    Eftirfarandi breyting verði á tillögugreininni:
    Við II. lið 8. mgr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Sjálfstæð og óháð rannsókn á einkavæðingu og sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands og tengdum málefnum. Til verksins verði fengnir sjálfstæðir aðilar sem hafi sömu heimildir til skýrslutöku og gagnaöflunar og rannsóknarnefnd Alþingis hafði. Ef nauðsyn krefur setur Alþingi lög til að tryggja aðgengi rannsóknarnefndar að nauðsynlegum gögnum og upplýsingum. Forseti Alþingis skipar þriggja manna nefnd til að vinna rannsóknina og skila um hana skýrslu til Alþingis innan sex mánaða frá skipun nefndarinnar. Í rannsókninni verði m.a. skoðuð ítarlega eftirfarandi atriði og leitast við að svara eftirfarandi spurningum, auk annarra atriða sem þarfnast úttektar:
     a.      Hvers vegna var ákveðið að selja báða ríkisbankana í einu (á sama árinu)? Hverjir tóku þá ákvörðun og hvernig var hún rökstudd?
     b.      Hvers vegna var dreifð eignaraðild ekki höfð að leiðarljósi við sölu ríkisins á hlutabréfum í ríkisbönkunum árið 2002?
     c.      Hvaða hlutverki gegndi ráðherranefnd um einkavæðingu í ferlinu? Hver var lagaleg staða hennar og ábyrgð vegna sölu hlutabréfa í bönkunum?
     d.      Hver var ábyrgð hvers ráðherra fyrir sig sem kom að ákvörðunum um sölu hlutabréfa bankanna? Farið verði vandlega í að skilgreina ábyrgð og aðkomu hvers ráðherra fyrir sig.
     e.      Hvers vegna var verklagsreglum framkvæmdanefndar um einkavæðingu við sölu bankanna ekki fylgt? Hver tók þá ákvörðun og hver bar á henni ábyrgð?
     f.      Hver var aðferðafræði framkvæmdanefndar um einkavæðingu við að meta hvert væri fullnægjandi söluverð hlutanna?
     g.      Hvers vegna var gengið að tilboði Samson-hópsins í Landsbankann þegar hagstæðara tilboð lá fyrir?
     h.      Hvert var hlutverk breska HSBC-bankans sem ráðgjafa framkvæmdanefndar um einkavæðingu?
     i.      Hvernig var svokallað matslíkan vegna sölu Landsbankans unnið fyrir framkvæmdanefnd um einkavæðingu?
     j.      Hvaða hlutverki gegndi þýski bankinn Hauck & Aufhäuser fyrir S-hópinn við kaup á Búnaðarbankanum?
     k.      Var gert samkomulag um víxl-fjármögnun kaupenda á kaupum á hlutabréfum í ríkisbönkunum?
     l.      Gerð verði nákvæm málsatvikalýsing á því sem gerðist mánuðina áður en gengið var frá sölu bankanna, m.a. verði skoðuð atvik og ástæður fyrir því að eignir og félög í eigu bankanna voru seld skömmu fyrir einkavæðingu.
     m.      Rannsakað verði hvort óeðlileg tengsl, sem hefðu m.a. getað leitt til vanhæfis, voru milli kaupenda bankans og seljenda og einstakra ráðherra sem báru ábyrgð á sölu hlutabréfanna í bönkunum tveimur. Einnig verði skoðað hvernig fjárhagslegur styrkur væntanlegra kaupenda beggja bankanna var greindur og metinn sem og hagsmunatengsl þeirra í íslensku samfélagi.
     n.      Farið verði vandlega yfir það hvort og þá hvaða afslætti ríkið veitti frá upphaflegum tilboðum í kaup á hlutabréfum ríkisins í bönkunum, hverjir tóku þá ákvörðun að veita afslátt frá upphaflegum tilboðum og á grundvelli hvaða lagaheimilda slíkur afsláttur var veittur. Einnig hvort og þá hvaða eignir bankanna, kröfur á hendur þeim eða mögulegar ábyrgðir voru taldar réttlæta afslátt frá upphaflegum tilboðum, Heads Of Agreements og endanlegum kaupsamningum. M.a. verði áreiðanleikakannanir skoðaðar gefist tilefni til þess.
     o.      Gefið verði nákvæmt yfirlit yfir það hvernig kaupverðið var greitt, þ.e. nákvæmar dagsetningar um það hvenær greiðslur áttu sér stað, hvaða fjárhæðir voru greiddar hverju sinni, í hvaða mynt kaupverðið var greitt og hvaða fjárhæð var greidd í íslenskum krónum fyrir hlutabréfin í hvorum banka fyrir sig.

Greinargerð.


    Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (1. bindi, 6. kafla á bls. 227) er sérstakur kafli helgaður einkavæðingu og eignarhaldi bankanna. Þar er þó tekið fram að ekki sé um að ræða heildarúttekt á einkavæðingu bankanna og tengdum málefnum. Er breytingartillögu þessari ætlað að tryggja að sjálfstæð og óháð rannsókn fari fram um þessi mál. Í bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra til þingmannanefndarinnar, dagsettu 7. júní sl., segir:
    „Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vinnuhóps um siðferði er sett fram beitt gagnrýni á einkavæðingu bankanna. Helstu gagnrýnisefni sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndarinnar á einkavæðingu bankanna eru eftirfarandi:
     *      Stjórnvöld létu pólitísk markmið um að ljúka einkavæðingu bankanna hafa forgang gagnvart þeim faglegu markmiðum sem áður höfðu verið sett fram og gengið hafði verið út frá.
     *      Þrátt fyrir að lagt hafi verið upp úr því við sölu Landsbankans að erlent fé kæmi þannig í ríkissjóð fór svo í reynd að 70% kaupverðs voru greidd með lánum frá Kaupþingi.
     *      Eftir að Samson lýsir áhuga á kaupum á banka hér á landi er öllum verklagsreglum vikið til hliðar til þess að svo megi verða. a) ákveðið er að selja báða bankana um svipað leyti þvert ofan í það sem áður hafði verið lagt upp með, b) matslíkani er stillt af þannig að Samson komi vel út, c) Samson fékk viðkvæmar upplýsingar úr Landsbankanum áður en gengið var til samninga, d) horfið var frá stefnumörkun um dreift eignarhald.
     *      Framkvæmdanefnd um einkavæðingu sætti sig við að S-hópurinn virti ekki afdráttarlausan tímafrest til að veita ásættanlegar upplýsingar um hver hin erlenda fjármálastofnun væri sem ætti aðild að hópnum.“
    Það er skoðun flutningsmanna að eðlilegt sé að rannsókn á einkavæðingu bankanna beinist m.a. að því að upplýsa framangreind atriði nánar. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að sjálfstæð og óháð rannsókn á sölu ríkisbankanna árið 2002 svari m.a. þeim spurningum sem varpað er fram í tillögunni, ásamt öðrum þeim sem rannsóknarnefndin kýs að spyrja, og að rannsóknin beinist að þeim atriðum sem þar eru talin upp. Flutningsmenn árétta þó að jafnframt sé mikilvægt að skoða önnur atriði sem málið varða og upp kunna að koma við rannsókn þess.
    Markmið rannsóknar af þessu tagi er að varpa ljósi á rás atburða við sölu Landsbankans og Búnaðarbankans árið 2002 svo að ljóst sé hvar í stjórnkerfinu, hvenær og hvers vegna hver einasta veigamikil ákvörðun í því ferli var tekin. Aðeins þannig má draga réttan lærdóm af þessu umdeilda söluferli og byggja á þeim lærdómi við setningu laga og reglna um einkavæðingu ríkisfyrirtækja.