Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 155. máls.

Þskj. 171  —  155. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009, frá 3. júlí 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1.     Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009, frá 3. júlí 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu (grunnvatnstilskipunin).
    Tilskipun 2006/118/ EB kveður á um sértækar aðgerðir til þess að koma í veg fyrir og hafa eftirlit með grunnvatnsmengun. Innleiðing hennar kallar á lagabreytingar hér á landi og var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara.
    Í tillögu þessari er gerð grein fyrir efni gerðarinnar sem hér um ræðir, en hún felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2.     Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild skv. 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum.
    Að því er Ísland varðar hefur stjórnskipulegur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að afla ber samþykkis Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt samhliða viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun.
    Áðurnefnd 21. gr. stjórnarskrárinnar tekur til gerðar þjóðréttarsamninga en hún á augljóslega einnig við um þau tilvik þegar breytingar eru gerðar á slíkum samningum. Samkvæmt ákvæðinu er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar felur í sér breytingu á EES-samningnum en þar sem hún kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Í samræmi við það sem að framan segir er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst.

3.     Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu.
    Tilskipun 2006/118/EB, grunnvatnstilskipunin, kveður á um sértækar aðgerðir, sem vísað er til í 17. gr. vatnatilskipunarinnar 2000/60/EB, til að koma í veg fyrir og hafa eftirlit með grunnvatnsmengun. Þessar ráðstafanir fela m.a. í sér að setja viðmiðanir til að meta gæði grunnvatns með tilliti til efnainnihalds og viðmiðanir til að auðkenna og snúa við meiri háttar og varanlegum breytingum til hnignunar á gæðum grunnvatns og setja mörk fyrir upphafspunkt þeirrar hnignunar.
    Grunnvatnstilskipunin tekur einnig til ákvæða um að koma í veg fyrir eða takmarka losun efna í grunnvatn, ásamt ákvæðum vatnatilskipunarinnar, með það að markmiði að koma í veg fyrir hnignun alls grunnvatns. Í viðaukum eru gæðastaðlar fyrir grunnvatn, viðmið fyrir þröskuldsgildi fyrir grunnvatn, mat á gæðum þess og viðmiðanir til að auðkenna og snúa við meiri háttar og varanlegum breytingum í hnignun á gæðum grunnvatns.

4.     Lagabreytingar og hugsanleg áhrif hér á landi.
    Setja þarf nýja löggjöf um stjórn vatnamála til að innleiða vatnatilskipunina, og þær tilskipanir sem henni fylgja, m.a. grunnvatnstilskipunina. Í framhaldinu þarf að setja nýja reglugerð um varnir gegn mengun grunnvatns í stað eldri reglugerðar, nr. 797/1999.
    Frumvarp til laga um stjórn vatnamála hefur verið kostnaðarmetið. Fjármálaráðuneytið telur að fyrst um sinn megi að einhverju leyti mæta kostnaði með því að breyta forgangsröð verkefna og samhæfa og endurskipuleggja vinnu þeirra sem að framkvæmdinni koma í samræmi við hlutverk viðkomandi stofnana. Að öðru leyti megi gera ráð fyrir að innleiðing tilskipunarinnar auki útgjöld ríkissjóðs um 70 millj. kr. á árunum 2011 og 2012, samtals 140 millj. kr., en að frá og með árinu 2013 verði kostnaðurinn að mestu fjármagnaður með sérstakri gjaldtöku á atvinnurekstur sem nýtir vatnsauðlindina. Hún mundi miðast við afnot í samræmi við mengunarbótaregluna og nytjagreiðsluregluna. Undir starfsemi sem nýtir sér vatnsauðlindina með einum eða öðrum hætti hér á landi falla m.a. vatnsaflsvirkjanir, vatnsveitur, tiltekin landbúnaðarstarfsemi, fráveitur, mengandi atvinnurekstur og matvælaframleiðsla.
    Kostnaður fellur aðallega á ríkið í tengslum við innleiðingu grunnvatnstilskipunarinnar hér á landi sem og vegna úttekta, eftirlits/vöktunar og skýrslugerða þegar hún verður að fullu komin til framkvæmda. Kostnaður getur einnig fallið á sveitarfélög og heilbrigðisnefndir vegna framkvæmdar vatnsverndar. Kostnaður vegna aðgerða til úrbóta, ef til kemur, mun væntanlega falla á þá aðila sem grípa þurfa til aðgerða til úrbóta.
Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 87/2009

frá 3. júlí 2009

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með vísan til samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist „samningurinn“ í því sem hér fer á eftir, einkum ákvæða 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)         XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 72/2009 frá 29. maí 2009 ( 1 ).

2)         Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB frá 12. desember 2006 um varnir gegn mengun og spillingu grunnvatns ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 13ca (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB) í XX. viðauka við samninginn:

„13caa.          32006 L 0118: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/118/EB frá 12. desember 2006 um varnir gegn mengun og spillingu grunnvatns (Stjtíð. ESB L 372, 27.12.2006, bls. 19).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2006/118/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi 4. júlí 2009 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.
Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2006/118/EB
frá 12. desember 2006
um verndun grunnvatns gegn mengun og spillingu


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 175. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 2 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 3 ), á grundvelli sameiginlegs texta sem sáttanefndin samþykkti 28. nóvember 2006,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Grunnvatn er verðmæt náttúruauðlind sem ber að vernda gegn spillingu og efnamengun. Þetta er einkum mikilvægt fyrir vistkerfi sem eru háð grunnvatni og þar sem grunnvatn er notað til að afla neysluvatns.
2)          Grunnvatn er viðkvæmasta og stærsta ferskvatnshlotið í Evrópusambandinu en mikilvægast af öllu er þó að það er einnig helsta uppspretta drykkjarvatns fyrir almenning á mörgum svæðum.
3)          Grunnvatn í vatnshlotum, þar sem neysluvatn er tekið eða þar sem slík notkun er fyrirhuguð í framtíðinni, skal vernda á þann hátt að komist sé hjá því að slíkum vatnshlotum sé spillt til að draga úr þeirri hreinsun sem þörf er á við framleiðslu drykkjarvatns, í samræmi við 2. og 3. mgr. 7. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB frá 23. október 2000 um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnsmálum ( 4 ).
4)          Ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1600/2002/EB frá 22. júlí 2002 um sjöttu aðgerðaáætlun Bandalagsins á sviði umhverfismála ( 5 ) felur í sér það markmið að ná fram vatnsgæðum sem valda hvorki umtalsverðum áhrifum á heilbrigði manna eða umhverfið né áhættu fyrir það.
5)          Til að vernda umhverfið í heild og ekki síst heilbrigði manna ber að varast, koma í veg fyrir eða draga úr skaðlegum styrk hættulegra mengunarvalda í grunnvatni.
6)          Í tilskipun 2000/60/EB eru sett fram almenn ákvæði um verndun og varðveislu grunnvatns. Eins og kveðið er á um í 17. gr. þeirrar tilskipunar skal samþykkja ráðstafanir til að koma í veg fyrir og hafa eftirlit með mengun grunnvatns, þ.m.t. viðmiðanir til að meta gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns og viðmiðanir til að greina umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni og til að skilgreina upphafspunkta til að snúa slíkri leitni við.
7)          Með hliðsjón af þörfinni fyrir að ná samræmdri verndun grunnvatns skal fastsetja gæðakröfur og viðmiðunargildi og þróa aðferðir, sem byggjast á sameiginlegri stefnu, til að kveða á um viðmiðanir til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatnshlota.
8)          Gæðakröfur fyrir nítröt, plöntuvarnarefni og sæfiefni skal setja sem viðmiðanir Bandalagsins til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatnshlota og tryggja skal samræmi við tilskipun ráðsins 91/676/EBE frá 12. desember 1991 um verndun vatns gegn mengun af völdum nítrata úr landbúnaði ( 1 ), tilskipun ráðsins 91/414/EBE frá 15. júlí 1991 um markaðssetningu plöntuvarnarefna ( 2 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/8/EB frá 16. febrúar 1998 um markaðssetningu sæfiefna ( 3 ), eftir því sem við á.
9)          Á sumum svæðum kann verndun grunnvatns að leiða til breytinga á starfsvenjum í landbúnaði eða skógrækt, sem gætu haft í för með sér tekjutap. Í sameiginlegu landbúnaðarstefnunni er kveðið á um fjármögnunaraðferðir til að hrinda í framkvæmd ráðstöfunum til að uppfylla staðla Bandalagsins, nánar tiltekið með reglugerð ráðsins (EB) nr. 1698/2005 frá 20. september 2005 um stuðning Byggðaþróunarsjóðs evrópsks landbúnaðar (EAFRD) við byggðaþróun í dreifbýli ( 4 ). Að því er varðar ráðstafanir til að vernda grunnvatn verður það á ábyrgð aðildarríkjanna að velja forgangsverkefni sín og verkefni.
10)          Ákvæði um efnafræðilegt ástand grunnvatns gilda ekki um mikinn, náttúrulegan styrk efna eða jóna þeirra eða vísa, sem eru annaðhvort í grunnvatnshlotum eða tengdum yfirborðsvatnshlotum, vegna sérstaks, vatnajarðfræðilegs ástands sem fellur ekki undir skilgreininguna á mengun. Þá gilda þau ekki heldur um tímabundnar breytingar á straumstefnu á takmörkuðu svæði og efnasamsetningu, sem teljast ekki til innstreymis.
11)          Fastsetja skal viðmiðanir til að greina umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalda og til að skilgreina upphafspunkt til að snúa slíkri leitni við með hliðsjón af líkum á skaðlegum áhrifum á tengd vatnavistkerfi eða landvistkerfi sem eru háð þeim.
12)          Aðildarríkin skulu, ef unnt er, nota tölfræðilegar aðferðir, að því tilskildu að þær uppfylli alþjóðlega staðla og stuðli að samanburðarhæfi niðurstaðna úr vöktun milli aðildarríkjanna í lengri tíma.
13)          Í samræmi við þriðja undirlið 2. mgr. 22. gr. tilskipunar 2000/60/EB skal tilskipun ráðsins 80/68/EBE frá 17. desember 1979 um verndun grunnvatns gegn mengun af völdum tiltekinna hættulegra efna ( 5 ) felld úr gildi frá og með 22 desember 2013. Nauðsynlegt er að tryggja að verndin, sem kveðið er á um í tilskipun 80/68/EBE, rofni ekki að því er varðar ráðstafanir sem miða að því að koma í veg fyrir eða takmarka bæði beina og óbeina íkomu mengunarvalda í grunnvatn.
14)          Nauðsynlegt er að greina á milli íkomu hættulegra efna, sem komið skal í veg fyrir, og íkomu annarra mengunarvalda, sem skal takmarka. Nota skal VIII. viðauka við tilskipun 2000/60/EB, þar sem tilgreindir eru helstu mengunarvaldar sem skipta máli fyrir vatnsumhverfið, til að tilgreina hættuleg efni og efni, sem eru ekki hættuleg, sem hafa í för með sér áhættu eða hugsanlega áhættu á mengun.
15)          Ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða takmarka íkomu mengunarvalda í grunnvatnshlot þar sem neysluvatn er tekið eða þar sem slík notkun er fyrirhuguð í framtíðinni, eins og um getur í 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2000/60/EB, skulu, í samræmi við 2. mgr. 7. gr. þeirrar tilskipunar, ná yfir ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til að tryggja að samkvæmt gildandi fyrirkomulagi um vatnshreinsun og í samræmi við löggjöf Bandalagsins uppfylli vatnið, sem verður til, kröfur tilskipunar ráðsins 98/83/EB frá 3. nóvember 1998 um gæði neysluvatns ( 6 ). Þessar ráðstafanir geta einnig, í samræmi við 3. mgr. 7. gr. tilskipunar 2000/60/EB, falið í sér að aðildarríkin komi á fót verndarsvæðum af þeirri stærð sem þar til bærir aðilar í hverju landi fyrir sig telja nauðsynlega til að vernda drykkjarvatnsforðann. Slík verndarsvæði geta náð yfir allt yfirráðasvæði aðildarríkis.
16)          Til þess að tryggja samræmda verndun grunnvatns skulu aðildarríki, sem deila grunnvatnshlotum, samræma aðgerðir sínar að því er varðar vöktun, ákvörðun viðmiðunargilda og sanngreiningu hættulegra efna sem skipta máli.
17)          Áreiðanlegar og samanburðarhæfar aðferðir til vöktunar á grunnvatni eru mikilvæg tæki til að meta gæði grunnvatns og einnig til að velja þær ráðstafanir sem henta best. Í 3. mgr. 8. gr. og í 20. gr. tilskipunar 2000/60/EB er kveðið á um að innleiða staðlaðar aðferðir til greiningar og vöktunar á ástandi vatns og, ef nauðsyn krefur, viðmiðunarreglur um beitingu, þ.m.t. vöktun.
18)          Við tilteknar aðstæður skulu aðildarríkin hafa heimild til að veita undanþágur frá ráðstöfunum til að koma í veg fyrir eða takmarka íkomu mengunarvalda í grunnvatn. Allar undanþágur skulu veittar á grundvelli augljósra viðmiðana og tilgreindar í stjórnunaráætlununum fyrir vatnasviðaumdæmi.
19)          Greina skal áhrif af mismunandi viðmiðunargildum fyrir grunnvatn, sem aðildarríkin skulu skilgreina, á umhverfisvernd og starfsemi innri markaðarins.
20)          Gera skal rannsóknir í því skyni að ákvarða betri viðmiðanir til að tryggja gæði og verndun grunnvatnsvistkerfis. Við framkvæmd þessarar tilskipunar eða við breytingar á henni skal taka, ef nauðsyn krefur, tillit til niðurstaðnanna sem fengust. Hvetja þarf til slíkra rannsókna og þær þarf að fjármagna og hið sama gildir um miðlun þekkingar, reynslu og niðurstaðna rannsókna.
21)          Nauðsynlegt er að kveða á um bráðabirgðaráðstafanir sem gilda á tímabilinu frá þeim degi sem þessi tilskipun kemur til framkvæmda og til þess dags sem tilskipun 80/68/EBE er felld úr gildi.
22)          Í tilskipun 2000/60/EB eru settar fram kröfur um kvaðir, þ.m.t. krafa um að leyfi fyrir endurnýjun eða stækkun grunnvatnshlota af mannavöldum sé fengið fyrir fram, að því tilskildu að notkun uppsprettunnar stefni ekki í hættu umhverfismarkmiðunum sem sett voru fyrir hana eða endurnýjaða eða stækkaða grunnvatnshlotið.
23)          Í áætlun um ráðstafanir í 2. mgr. 11. gr. og B- hluta VI. viðauka við tilskipun 2000/60/EB er að finna skrá, sem ekki er tæmandi, yfir viðbótarráðstafanir sem aðildarríkin geta valið að hrinda í framkvæmd og yrðu þá liður í áætluninni um ráðstafanir, m.a.:
    —     lagagerninga,
    —     stjórnsýslugerninga og
    —     gerða samninga um verndun umhverfisins.
24)          Samþykkja skal nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 1 ).
25)          Einkum er nauðsynlegt að fylgja málsmeðferð í stjórnsýslunni með athugun að því er varðar ráðstafanir almenns eðlis, sem er ætlað að breyta veigalitlum þáttum í þessari tilskipun, m.a. með því að fella niður nokkra af þessum þáttum eða með því að bætt er við þessa tilskipun nýjum, veigalitlum þáttum.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Markmið

1.     Í þessari tilskipun eru fastsettar sérstakar ráðstafanir sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 17. gr. tilskipunar 2000/60/EB til að koma í veg fyrir mengun grunnvatns og hafa eftirlit með henni. Þessar ráðstafanir fela einkum í sér:
a)    viðmiðanir til að meta gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns og
b)    viðmiðanir til að greina umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni og til að skilgreina upphafspunkta til að snúa slíkri leitni við.
2.     Þessi tilskipun kemur einnig til viðbótar ákvæðum um að koma í veg fyrir eða takmarka íkomu mengunarvalda í grunnvatn, sem þegar er að finna í tilskipun 2000/60/EB, og miðar að því að koma í veg fyrir að ástand nokkurs grunnvatnshlots spillist.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir, auk þeirra sem mælt er fyrir um í 2. gr. tilskipunar 2000/60/EB:
1)    „gæðakrafa fyrir grunnvatn“: umhverfisgæðakrafa, gefin upp sem styrkur tiltekins mengunarvalds, hóps mengunarvalda eða mengunarvísa í vatni, sem ekki má fara yfir til að vernda heilbrigði manna og umhverfið,
2)    „viðmiðunargildi“: gæðastaðall fyrir grunnvatn sem aðildarríkin mæla fyrir um í samræmi við 3. gr.,
3)    „umtalsverð og viðvarandi, stígandi leitni“: öll marktæk aukning á styrk mengunarvalds, hóps mengunarvalda eða mengunarvísa í grunnvatni sem hefur tölfræðilega þýðingu eða þýðingu fyrir umhverfið og vegna hennar er talið nauðsynlegt að snúa slíkri leitni við í samræmi við 5. gr.,
4)    „íkoma mengunarvalda í grunnvatn“: bein eða óbein viðbót mengunarvalda í grunnvatn af mannavöldum,
5)    „bakgrunnsgildi“: styrkur efnis eða gildi fyrir vísi í grunnvatnshloti sem samsvarar annaðhvort engum eða aðeins mjög smávægilegum breytingum af mannavöldum á óröskuðum skilyrðum.
6)    „grunnlínugildi“: meðalgildi sem mældist a.m.k. á viðmiðunarárunum 2007 og 2008 á grundvelli vöktunaráætlana, sem fylgt er skv. 8. gr. tilskipunar 2000/60/EB, eða, ef um er að ræða efni sem greindust eftir viðmiðunarárin, á fyrsta tímabilinu þar sem fyrir liggur dæmigert tímabil með vöktunargögnum.

3. gr.
Viðmiðanir til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatns

1.     Til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots eða hóps grunnvatnshlota samkvæmt lið 2.3 í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB skulu aðildarríkin nota eftirfarandi viðmiðanir:
a)    gæðakröfur fyrir grunnvatn sem um getur í I. viðauka,
b)    viðmiðunargildi sem aðildarríkin eiga að fastsetja í samræmi við málsmeðferðina sem sett er fram í A-hluta II. viðauka fyrir mengunarvalda, hópa mengunarvalda og mengunarvísa innan yfirráðasvæðis aðildarríkis sem staðfest hefur verið að stuðli að því að grunnvatnshlot eða hópar grunnvatnshlota séu talin í áhættu, þar sem a.m.k. er tekið tillit til skrárinnar í B-hluta II. viðauka.
Viðmiðunargildin fyrir gott, efnafræðilegt ástand skulu byggjast á verndun grunnvatnshlotsins í samræmi við 1., 2. og 3. lið í A-hluta II. viðauka og sérstakt tillit skal tekið til áhrifa á og innbyrðis tengsla við yfirborðsvatn sem tengist því og landvistkerfi og votlendi sem eru beint háð því og skal m.a. taka tillit til þekkingar varðandi eiturefnafræði manna (e. human toxicology) og visteiturefnafræði.
2.     Unnt er að fastsetja viðmiðunargildi á landsvísu fyrir vatnasviðaumdæmi eða fyrir hluta af alþjóðlegu vatnasviðaumdæmi sem fellur innan yfirráðsvæðis aðildarríkis eða fyrir grunnvatnshlot eða hópa grunnvatnshlota.
3.     Að því er varðar grunnvatnshlot sem tvö eða fleiri aðildarríki deila og hópa grunnvatnshlota þar sem grunnvatn streymir yfir landamæri aðildarríkis skulu viðkomandi aðildarríki sjá til þess að viðmiðunargildin séu samræmd í samræmi við 4. mgr. 3. gr. tilskipunar 2000/60/EB.
4.     Ef grunnvatnshlot eða hópur grunnvatnshlota nær út fyrir yfirráðasvæði Bandalagsins skal aðildarríkið eða -ríkin, sem í hlut eiga, kappkosta að fastsetja viðmiðunargildi í samkomulagi við viðkomandi ríki (eitt eða fleiri) utan Bandalagsins í samræmi við 5. mgr. 3. gr. tilskipunar 2000/60/EB.
5.     Aðildarríkin skulu fastsetja viðmiðunargildi samkvæmt b-lið 1. mgr., í fyrsta sinn eigi síðar en 22. desember 2008. Birta skal öll fastsett viðmiðunargildi í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi, sem leggja skal fram í samræmi við 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB, þ.m.t. samantekt með upplýsingunum sem koma fram í C-hluta II. viðauka við þessa tilskipun.
6.     Aðildarríkin skulu breyta skránni yfir viðmiðunargildi þegar nýjar upplýsingar um mengunarvalda, hópa mengunarvalda eða mengunarvísa benda til þess að setja skuli viðmiðunargildi fyrir fleiri efni, að breyta skuli fyrirliggjandi viðmiðunargildi fyrir efni eða að setja skuli aftur inn viðmiðunargildi fyrir efni sem var áður í skránni, til þess að vernda heilbrigði manna og umhverfið.
Unnt er að fjarlægja viðmiðunargildi úr skránni þegar viðkomandi mengunarvaldar, hópur mengunarvalda eða mengunarvísar skapa ekki lengur áhættu fyrir grunnvatnshlotið sem um er að ræða.
Allar slíkar breytingar á skránni yfir viðmiðunargildi skal tilkynna í tengslum við reglubundna endurskoðun á stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi.
7.     Framkvæmdastjórnin skal eigi síðar en 22. desember 2009 birta skýrslu á grundvelli upplýsinga sem aðildarríkin veita í samræmi við 5. mgr.

4. gr.
Verklag við mat á efnafræðilegu ástandi grunnvatns

1.     Aðildarríkin skulu nota verklagið sem lýst er í 2. mgr. til að meta efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots. Ef við á er aðildarríkjunum heimilt að hópa grunnvatnshlot, í samræmi við V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB, þegar þetta verklag er viðhaft.
2.     Grunnvatnshlot eða hópur grunnvatnshlota skal teljast í góðu, efnafræðilegu ástandi ef:
a)    viðeigandi vöktun leiðir í ljós að skilyrðin sem sett eru fram í töflu 2.3.2 í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB eru uppfyllt eða
b)    ekki er farið yfir gildi gæðakrafnanna fyrir grunnvatn, sem eru tilgreindar í I. viðauka, og viðeigandi viðmiðunargildi, sem eru fastsett í samræmi við 3. gr. og II. viðauka, á neinum vöktunarstað í grunnvatnshlotinu eða hópi grunnvatnshlota eða
c)    farið er yfir gildi gæðakrafna fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi á einum eða fleiri vöktunarstöðum en viðeigandi rannsókn, í samræmi við III. viðauka, staðfestir að:
    i.    á grundvelli matsins, sem um getur í 3. mgr. III. viðauka, er ekki talið að styrkur mengunarvalda, sem fer yfir gildi í gæðakröfum fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi, skapi verulega áhættu fyrir umhverfið, að teknu tilliti til umfangs grunnvatnshlotsins sem hefur orðið fyrir áhrifum eftir því sem við á,
    ii.    önnur skilyrði varðandi gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns, sem sett eru fram í töflu 2.3.2 í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB, hafa verið uppfyllt í samræmi við 4. mgr. III. viðauka við þessa tilskipun,
    iii.    kröfurnar í 3. mgr. 7. gr. þeirrar tilskipunar hafa verið uppfylltar í samræmi við 4. mgr. III. viðauka við þessa tilskipun að því er varðar grunnvatnshlot sem eru tilgreind í samræmi við 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2000/ 60/EB,
    iv.    grunnvatnshlotið, eða eitthvert þeirra grunnvatnshlota sem eru í hópi grunnvatnshlotanna, er ekki svo mengað að nýtingargeta í þágu manna hafi rýrnað umtalsvert.
3.     Val á vöktunarstöðunum fyrir grunnvatn verður að vera í samræmi við kröfurnar í lið 2.4 í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB um að tilhögun þeirra sé þannig að þeir gefi samfellda heildarsýn yfir efnafræðilegt ástand grunnvatnsins og að vöktunargögn frá þeim séu lýsandi.
4.     Aðildarríkin skulu birta samantekt á mati á efnafræðilegu ástandi grunnvatns í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi í samræmi við 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB.
Í þessari samantekt, sem er unnin fyrir vatnasviðaumdæmi eða þann hluta alþjóðlegs vatnasviðaumdæmis sem fellur innan yfirráðasvæðis aðildarríkis, skulu einnig koma fram skýringar á því hvernig tilvik, þar sem farið er yfir gildin að því er varðar gæðakröfur fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi á einstaka vöktunarstöðum, hafa verið tekin til greina í lokamatinu.
5.     Ef grunnvatnshlot er flokkað þannig að það sé í góðu, efnafræðilegu ástandi í samræmi við c-lið 2. mgr. skulu aðildarríkin, í samræmi við 11. gr. tilskipunar 2000/60/EB, grípa til þeirra ráðstafana sem kunna að reynast nauðsynlegar til að vernda vatnavistkerfi, landvistkerfi og notkun manna á grunnvatni, sem er háð þeim hluta grunnvatnshlotsins þar sem vöktunarstaðurinn eða -staðirnir eru, þar sem farið hefur verið yfir gildi í gæðakröfu fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi.

5. gr.
Greining á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni og skilgreining á upphafspunktum til að snúa slíkri leitni við

1.     Aðildarríkin skulu tilgreina alla umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalda, hópa mengunarvalda eða mengunarvísa sem finnast í grunnvatnshlotum eða hópum grunnvatnshlota, sem talin eru í áhættu, og skilgreina upphafspunkt til að snúa þeirri leitni við, í samræmi við IV. viðauka.
2.     Aðildarríkin skulu, í samræmi við B-hluta IV. viðauka, snúa við leitni, sem skapar umtalsverða áhættu á að skaða gæði vatnavistkerfa, landvistkerfa, heilbrigði manna eða raunverulega eða hugsanlega réttmæta notkun á vatnsumhverfinu, með áætlun um ráðstafanir sem um getur í 11. gr. tilskipunar 2000/ 60/EB til þess að draga jafnt og þétt úr mengun og koma í veg fyrir að grunnvatn spillist.
3.     Aðildarríkin skulu skilgreina upphafspunkt til að snúa við leitni sem nemur tilteknum hundraðshluta af gildum í gæðakröfum fyrir grunnvatn, sem settar eru fram í I. viðauka, og af viðmiðunargildum, sem eru fastsett skv. 3. gr., á grundvelli greindrar leitni og umhverfisáhættunnar sem tengist henni í samræmi við 1. lið B-hluta í VI. viðauka.
4.     Í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi, sem leggja skal fram í samræmi við 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB, skulu aðildarríkin gera samantekt:
a)    á því hvernig mat á leitni frá einstökum vöktunarstöðum innan grunnvatnshlots eða hóps grunnvatnshlota hefur átt þátt í því að greina, í samræmi við lið 2.5 í V. viðauka við þá reglugerð, að í þessum hlotum sé umtalsverð og viðvarandi, stígandi leitni í styrk einhvers mengunarvalds eða viðsnúningur á þeirri leitni og
b)    á ástæðunum sem liggja að baki upphafspunktunum sem eru skilgreindir skv. 3. mgr.
5.     Ef þörf er á að meta áhrif mengunarslóða sem fyrir eru (e. plumes of pollution) í grunnvatnshlotum, sem kunna að stefna uppfyllingu markmiðanna í 4. gr. tilskipunar 2000/60/EB í hættu, og einkum mengunarslóða frá punktupptökum og menguðu landi skulu aðildarríkin vinna frekara mat á leitni, að því er varðar mengunarvalda sem greinst hafa, til þess að staðfesta að slóðar frá menguðum stöðum breiðist ekki út, spilli ekki efnafræðilegu ástandi grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota og skapi hvorki áhættu fyrir heilbrigði manna né umhverfið. Aðildarríkin skulu taka saman niðurstöður þessa mats í stjórnunaráætlununum fyrir vatnasviðaumdæmi sem skal leggja fram í samræmi við 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB.

6. gr.
Ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða takmarka íkomu mengunarvalda í grunnvatn

1.     Til að ná því markmiði að koma í veg fyrir eða takmarka íkomu mengunarvalda í grunnvatn, sem fastsett var í samræmi við i-lið b-liðar í 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2000/60/EB, skulu aðildarríkin sjá til þess að áætlunin um ráðstafanir, sem var fastsett í samræmi við 11. gr. þeirrar tilskipunar, taki til:
a)    allra ráðstafana sem eru nauðsynlegar til að koma í veg fyrir íkomu hvers kyns hættulegra efna í grunnvatn, með fyrirvara um 2. og 3. mgr. Við greiningu á slíkum efnum skulu aðildarríkin einkum taka tillit til hættulegra efna sem tilheyra flokkum eða hópum mengunarvalda sem um getur í 1. 6. lið VIII. viðauka við tilskipun 2000/ 60/EB og efna sem tilheyra flokkum eða hópum mengunarvalda sem um getur í 7. 9. lið viðaukans, ef þau eru talin hættuleg,
b)    að því er varðar mengunarvalda, sem eru tilgreindir í VIII. viðauka við tilskipun 2000/60/EB og ekki teljast hættulegir, og alla aðra hættulausa mengunarvalda, sem ekki eru tilgreindir í þeim viðauka, sem aðildarríkin telja að skapi mengunaráhættu eða hugsanlega mengunaráhættu: allra nauðsynlegra ráðstafana til að takmarka íkomu í grunnvatn til þess að tryggja að slík íkoma spilli því ekki eða valdi umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalda í grunnvatni. Slíkar ráðstafanir skulu a.m.k. taka mið af bestu starfsvenjum sem settar hafa verið, þ.m.t. bestu starfsvenjur í umhverfismálum og besta, fáanlega tækni, sem eru tilgreind í viðeigandi löggjöf Bandalagsins.
Til þess að fastsetja ráðstafanirnar, sem um getur í a- eða b-lið, mega aðildarríkin, sem fyrsta skref, greina þær aðstæður þar sem mengunarvaldarnir, sem eru tilgreindir í VIII. viðauka við tilskipun 2000/60/EB, einkum mikilvægir málmar og sambönd þeirra sem um getur í 7. lið þess viðauka, skulu teljast hættulegir eða hættulausir.
2.     Taka skal tillit til íkomu mengunarvalda frá dreifðum upptökum mengunar, sem hafa áhrif á efnafræðilegt ástand grunnvatns, þegar slíkt er tæknilega mögulegt.
3.     Með fyrirvara um strangari kröfur í annarri löggjöf Bandalagsins er aðildarríkjunum heimilt að veita undanþágu frá ráðstöfununum, sem krafist er skv. 1. mgr., þegar um er að ræða íkomu mengunarvalda sem:
a)    eru afleiðing beinnar sleppingar sem er leyfð í samræmi við j-lið 3. mgr. 11. gr. tilskipunar 2000/60/EB,
b)    lögbær yfirvöld telja að séu í svo litlu magni og styrkur þeirra svo lítill að hvorki nú né í framtíðinni sé hætta á að gæði viðtökugrunnvatnsins rýrni,
c)    stafa af óhöppum eða sérstökum aðstæðum af náttúrulegum orsökum sem ekki var hægt að sjá fyrir með góðu móti, komast hjá eða draga úr,
d)    eru afleiðing af endurnýjun eða stækkun grunnvatnshlota af mannavöldum sem er leyfð í samræmi við f-lið 3. mgr. 11. gr. tilskipunar 2000/ 60/EB,
e)    ómögulegt er af tæknilegum ástæðum, að áliti lögbærra yfirvalda, að koma í veg fyrir eða takmarka án þess að beita
    i.    ráðstöfunum sem auka áhættu fyrir heilbrigði manna eða gæði umhverfisins í heild eða
    ii.    óhóflega kostnaðarsömum ráðstöfunum til að fjarlægja magn mengunarvalda úr menguðum jarðvegi eða jarðvegsgrunni, eða stjórna vætli (e. percolation) þeirra á annan hátt, eða
f)    stafa af inngripi í yfirborðsvatn, m.a. í þeim tilgangi að milda áhrif af völdum flóða og þurrka og vegna stjórnunar vatna og vatnaleiða, þ.m.t. á alþjóðavettvangi. Slík starfsemi, þ.m.t. skurður, dýpkun, flutningur og útfelling sets í yfirborðsvatni, skal fara fram í samræmi við almennar, bindandi reglur og, eftir því sem við á, í samræmi við heimildir og leyfi sem gefin eru út á grundvelli slíkra reglna sem aðildarríkin hafa þróað í þeim tilgangi, að því tilskildu að slík losun stefni ekki í hættu umhverfismarkmiðunum sem sett voru fyrir viðkomandi vatnshlot í samræmi við b- lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar 2000/60/EB.
Einungis má beita undanþágunum, sem kveðið er á um í a- til f-lið, ef lögbær yfirvöld aðildarríkjanna hafa ákvarðað að skilvirk vöktun í samræmi við lið 2.4.2 í VI. viðauka við tilskipun 2000/60/EB, eða önnur viðeigandi vöktun sé höfð með viðkomandi grunnvatnshlotum.
4.     Lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skulu halda skrá yfir undanþágurnar, sem um getur í 3. mgr., til að tilkynna framkvæmdastjórninni um þær, sé þess óskað.

7. gr.
Bráðabirgðafyrirkomulag

Á tímabilinu frá 16. janúar 2009 til 22. desember 2013 skal taka tillit til krafnanna sem settar eru fram í 3., 4. og 5. gr. þessarar tilskipunar við alla nýja málsmeðferð við veitingu leyfa skv. 4. og 5. gr. tilskipunar 80/68/EBE,

8. gr.
Tæknileg aðlögun

1.     Heimilt er að breyta A- og C-hluta II. viðauka og III. og IV. viðauka í ljósi framfara á sviði vísinda og tækni, í samræmi við málsmeðferð í stjórnsýslunni með athugun sem um getur í 2. mgr. 9. gr., þar sem tillit er tekið til frestsins sem er veittur til að endurskoða og uppfæra stjórnunaráætlanir fyrir vatnasviðaumdæmi eins og um getur í 7. mgr. 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB.
2.     Heimilt er að breyta B-hluta II. viðauka við þessa tilskipun í samræmi við málsmeðferð í stjórnsýslunni með athugun, sem um getur í 2. mgr. 9. gr., í því skyni að bæta við nýjum mengunarvöldum eða vísum.

9. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 1. til 4. mgr. 5. gr. a og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar.

10. gr.
Endurskoðun

Með fyrirvara um 8. gr. skal framkvæmdastjórnin endurskoða I. og II. viðauka við þessa tilskipun eigi síðar en 16. janúar 2013 og á sex ára fresti eftir það. Á grundvelli endurskoðunarinnar skal framkvæmdastjórnin, ef við á, leggja fram tillögur að nýrri löggjöf í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans, til að breyta I. og/eða II. viðauka. Í endurskoðun sinni og við samningu allra tillagna skal framkvæmdastjórnin taka tillit til allra viðeigandi upplýsinga sem gætu falið í sér niðurstöður úr vöktunaráætlunum, sem fylgt er skv. 8. gr. tilskipunar 2000/60/EB, rannsóknaráætlunum Bandalagsins og/eða taka tillit til tilmæla frá vísindanefndinni um heilbrigðis- og umhverfisáhættu, aðildarríkjunum, Evrópuþinginu, Umhverfisstofnun Evrópu, evrópskum viðskiptastofnunum og evrópskum umhverfissamtökum.

11. gr.
Mat

Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar, sem kveðið er á um í 1. mgr. 18. gr. tilskipunar 2000/60/EB, skulu, að því er varðar grunnvatn, enn fremur vera upplýsingar um mat á virkni þessarar tilskipunar í tengslum við aðra viðkomandi umhverfislöggjöf, þ.m.t. samræmi þeirra á milli.

12. gr.
Framkvæmd

Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari fyrir 16. janúar 2009. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

13. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

14. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 12. desember 2006.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES M. PEKKARINEN
forseti. forseti.


I. VIÐAUKI
GÆÐAKRÖFUR FYRIR GRUNNVATN

1.    Til þess að meta efnafræðilegt ástand grunnvatns í samræmi við 4. gr. verða eftirfarandi gæðakröfur fyrir grunnvatn þær gæðakröfur sem um getur í töflu 2.3.2 í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB og eru fastsettar í samræmi við 17. gr. þeirrar tilskipunar.
Mengunarvaldur Gæðakröfur
Nítröt 50 mg/l
Virk efni í varnarefnum, þ.m.t. viðeigandi umbrots-, niðurbrots- og myndefni þeirra (1) 0,1 µg/l
0,5 µg/l (samtals) (2)
(1)    „Varnarefni“: plöntuvarnarefni og sæfiefni eins og þau eru skilgreind í 2. gr. tilskipunar 91/414/EBE annars vegar og í 2. gr. tilskipunar 98/8/EB hins vegar.
(2)    „Samtals“: summa allra einstakra varnarefna sem finnast og eru magngreind í vöktunarferlinu, þ.m.t. umbrots-, niðurbrots- og myndefni þeirra sem skipta máli.

2.    Niðurstöðurnar, sem fást með beitingu gæðakrafna fyrir varnarefni á þann hátt sem tilgreindur er, að því er varðar þessa tilskipun, skulu ekki hafa áhrif á niðurstöður málsmeðferðar við áhættumat sem krafist er skv. tilskipun 91/414/EBE eða tilskipun 98/8/EB.
3.    Ef talið er, að því er varðar tiltekið grunnvatnshlot, að gæðakröfurnar fyrir grunnvatn gætu leitt til þess að ekki reynist unnt að ná umhverfismarkmiðunum, sem tilgreind eru í 4. gr. tilskipunar 2000/60/EB, að því er varðar tengd grunnvatnshlot, eða til þess að vistfræðilegum eða efnafræðilegum gæðum slíkra vatnshlota hrakaði umtalsvert eða til að umtalsvert tjón yrði á landvistkerfum sem eru háð grunnvatnshlotinu beint, skal fastsetja strangari viðmiðunargildi í samræmi við 3. gr. þessarar tilskipunar og II. viðauka við hana. Áætlanir og ráðstafanir, sem krafist er í tengslum við slík viðmiðunargildi, skulu einnig gilda um starfsemi sem fellur undir gildissvið tilskipunar 91/676/EBE.

II. VIÐAUKI
VIÐMIÐUNARGILDI FYRIR MENGUNARVALDA Í GRUNNVATNI OG MENGUNARVÍSA
A-Hluti
Viðmiðunarreglur fyrir aðildarríkin til að fastsetja viðmiðunargildi í samræmi við 3. gr.

Aðildarríkin skulu fastsetja viðmiðunargildi fyrir alla mengunarvalda og mengunarvísa sem, samkvæmt greiningunni á eiginleikum sem tekin er saman í samræmi við 5. gr. tilskipunar 2000/60/EB, lýsa eiginleikum grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota þar sem hætta er talin á að gott, efnafræðilegt ástand grunnvatnsins náist ekki.
Viðmiðunargildi skal fastsetja þannig að ef niðurstöður úr vöktun á dæmigerðum vöktunarstað fara yfir gildin bendi það til þess að hætta sé á að eitt eða fleiri skilyrði til að ná góðu, efnafræðilegu ástandi grunnvatns, sem um getur í ii-, iii- og iv-lið c-liðar í 2. mgr. 4. gr., hafi ekki verið uppfyllt. Þegar aðildarríkin fastsetja viðmiðunargildi skulu þau hafa eftirfarandi viðmiðunarreglur í huga:
1)    Ákvörðun um viðmiðunargildi skal byggjast á:
    a)    umfangi víxlverkana milli grunnvatns og tengdra vatnavistkerfa og landvistkerfa sem eru háð því,
    b)    truflun á raunverulegri eða hugsanlegri, réttmætri notkun eða starfsemi grunnvatnsins,
    c)    öllum mengunarvöldum, sem eru lýsandi fyrir eiginleika grunnvatnshlota þannig að þau teljast í áhættu, að teknu tilliti til lágmarksskrárinnar sem sett er fram í B-hluta,
    d)    vatnajarðfræðilegum eiginleikum, þ.m.t. upplýsingar um bakgrunnsgildi og vatnsjöfnuð.
2)    Við ákvörðun um viðmiðunargildi skal einnig taka tillit til uppruna mengunarvaldanna, hvort þeir finnast e.t.v. í náttúrunni, eiturefnafræði þeirra og leitni til dreifingar, þrávirkni þeirra og hugsanlegrar uppsöfnunar í lífverum.
3)    Ef bakgrunnsgildi efna eða jóna eða vísa þeirra hækka vegna náttúrulegra, vatnajarðfræðilegra ástæðna skal taka tillit til þessara bakgrunnsgilda í viðkomandi grunnvatnshloti þegar viðmiðunargildi eru fastsett.
4)    Ákvörðun á bakgrunnsgildum skal studd eftirlitskerfi fyrir gögnin sem aflað er, sem grundvallast á mati á gæðum gagna, greiningarforsendum og bakgrunnsgildum, bæði fyrir efni sem kunna að koma fyrir í náttúrunni og af mannavöldum.

B-hluti
Lágmarksskrá yfir mengunarvalda og vísa þeirra sem aðildarríkin skulu íhuga að fastsetja viðmiðunargildi fyrir í samræmi við 3. gr.

1.    Efni eða jónar eða vísar sem kunna að koma fyrir í náttúrunni og/eða af mannavöldum.
    Arsen
    Kadmíum
    Blý
    Kvikasilfur
    Ammóníum
    Klóríð
    Súlfat
2.    Manngerð, tilbúin efni
    Tríklóretýlen
    Tetraklóretýlen
3.    Mæliþættir sem benda til innstreymis salts vatns eða annars ( 1 )
    Leiðni

C-hluti
Upplýsingar sem aðildarríkin eiga að veita með tilliti til mengunarvalda og vísa þeirra sem viðmiðunargildi hafa verið fastsett fyrir

Í stjórnunaráætlunum fyrir vatnasviðaumdæmi, sem leggja skal fram í samræmi við 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB, skulu aðildarríkin gera samantekt um það hvernig málsmeðferðinni, sem sett er fram í A-hluta þessa viðauka, hefur verið fylgt.
Aðildarríkin skulu einkum, ef því verður við komið, leggja fram:
a)    upplýsingar um fjölda grunnvatnshlota eða hópa grunnvatnshlota sem eru talin vera í áhættu og um mengunarvalda og mengunarvísa sem stuðla að þessari flokkun, þ.m.t. mældur styrkur/mæld gildi,
b)    upplýsingar um hvert grunnvatnshlot sem er talið vera í áhættu, einkum um stærð hlotanna, tengsl milli grunnvatnshlota og yfirborðsvatns sem tengist þeim og landvistkerfi sem eru beint háð þeim og, ef um er að ræða efni sem koma fyrir í náttúrunni, náttúruleg bakgrunnsgildi í grunnvatnshlotunum,
c)    þröskuldsgildin, hvort sem þau gilda á landsvísu, fyrir vatnasviðaumdæmi eða fyrir hluta af alþjóðlegu vatnasviðaumdæmi, sem fellur innan yfirráðsvæðis aðildarríkis, eða fyrir grunnvatnshlot eða hópa grunnvatnshlota,
d)    tengslin milli viðmiðunargildanna og:
    i.    mældu bakgrunnsgildanna, ef um er að ræða efni sem koma fyrir í náttúrunni,
    ii.    umhverfisgæðamarkmiða og annarra staðla fyrir vatnsvernd sem til eru á landsvísu, á vettvangi Bandalagsins eða á alþjóðavísu og
    iii.    allra viðeigandi upplýsinga sem varða eiturefnafræði, visteiturefnafræði, þrávirkni, hugsanlega uppsöfnun í lífverum og tilhneigingu mengunarvaldanna til að dreifast.

III. VIÐAUKI
MAT Á EFNAFRÆÐILEGU ÁSTANDI GRUNNVATNS

1.    Aðferðin við mat til að ákvarða efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota skal notuð í tengslum við öll grunnvatnshlot eða hópa grunnvatnshlota sem eru metin þannig að þau séu í áhættu og í tengslum við sérhvern mengunarvald sem stuðlar að því að grunnvatnshlotið eða hópur grunnvatnshlota séu metin þannig að þau séu í áhættu.
2.    Þegar aðildarríkin annast athuganirnar, sem um getur í c-lið 2. mgr. 4. gr., skulu þau taka tillit til:
    a)    upplýsinganna sem safnað er sem hluta af greiningunni á eiginleikum sem á að fara fram í samræmi við 5. gr. tilskipunar 2000/60/EB og liði 2.1, 2.2 og 2.3 í II. viðauka við tilskipunina,
    b)    niðurstaðnanna frá vöktunarnetinu fyrir grunnvatn sem fást í samræmi við lið 2.4. í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB og
    c)    allra annarra viðeigandi upplýsinga, þ.m.t. samanburður á árlegum, reiknuðum meðalstyrk fyrir viðkomandi mengunarvalda á vöktunarstað við gæðakröfurnar fyrir grunnvatn, sem settar eru fram í I. viðauka, og viðmiðunargildin sem aðildarríkin ákvarða í samræmi við 3. gr. og II. viðauka.
3.    Í því skyni að rannsaka hvort skilyrðin um gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns, sem um getur í i-lið c- liðar í 2. mgr. 4. gr., hafi verið uppfyllt skulu aðildarríkin, ef við á og ef nauðsyn krefur og á grundvelli viðeigandi samantektar á niðurstöðum úr vöktun, sem studdar eru, ef nauðsyn krefur, með mati á styrk, sem byggist á heildstæðu líkani af grunnvatnshloti eða hópi grunnvatnshlota, meta umfangið í grunnvatnshlotinu þar sem árlegur, reiknaður meðalstyrkur mengunarvalds er hærri en gæðakrafa fyrir grunnvatn eða viðmiðunargildi.
4.    Í því skyni að rannsaka hvort skilyrðin um gott, efnafræðilegt ástand grunnvatns, sem um getur í ii- og iii-lið c-liðar í 2. mgr. 4. gr., hafi verið uppfyllt skulu aðildarríkin, ef við á og ef nauðsyn krefur og á grundvelli viðeigandi samantektar úr vöktun og viðeigandi heildstæðs líkans af grunnvatnshlotinu, meta:
    a)    áhrif mengunarvaldanna í grunnvatnshlotinu,
    b)    magn og styrk mengunarvaldanna sem flytjast eða líklegt er að berist frá grunnvatnshlotinu til yfirborðsvatns sem tengist þeim eða landvistkerfa sem eru beint háð þeim,
    c)    líkleg áhrif af magni og styrk mengunarvaldanna sem berast til tengdra yfirborðsvatna og landvistkerfa sem eru beint háð þeim,
    d)    umfang innstreymis salts vatns eða annars inn í grunnvatnshlotið og
    e)    áhættuna af völdum mengunarvalda í grunnvatnshloti fyrir gæði vatns sem tekið er eða ætlunin er að taka til neyslu úr grunnvatnshlotinu.
5.    Aðildarríkin skulu sýna á kortum efnafræðilegt ástand grunnvatnshlots eða hópa grunnvatnshlota í samræmi við liði 2.4.5 og 2.5. í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB. Aðildarríkin skulu einnig, þar sem við á og við verður komið, sýna á kortunum alla vöktunarstaði þar sem farið er yfir gæðakröfur fyrir grunnvatn og/eða viðmiðunargildi.

IV. VIÐAUKI
GREINING OG VIÐSNÚNINGUR Á UMTALSVERÐRI OG VIÐVARANDI, STÍGANDI LEITNI
A-Hluti
Greining á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni

Aðildarríkin skulu greina umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni í öllum grunnvatnshlotum eða hópum grunnvatnshlota, sem eru metin þannig að þau séu í áhættu, í samræmi við II. viðauka við tilskipun 2000/ 60/EB, að teknu tilliti til eftirfarandi krafna:
1)    Vöktunaráætlunin skal þannig gerð, í samræmi við lið 2.4. í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB, að unnt sé að greina umtalsverða og viðvarandi, stígandi leitni í styrk mengunarvalda sem greinst hafa, skv. 3. gr. þessarar tilskipunar.
2)    Við greiningu á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni skal aðferðin byggjast á eftirfarandi þáttum:
    a)    tíðni vöktunar skal ákveðin og vöktunarstaðir valdir þannig að það nægi til:
        i.    að veita nauðsynlegar upplýsingar til að tryggja að unnt sé að greina milli slíkrar stígandi leitni og náttúrulegra sveiflna af fullnægjandi öryggi og nákvæmni,
        ii.    að gera kleift að greina slíka stígandi leitni nógu tímanlega til að unnt sé að grípa til ráðstafana til að koma í veg fyrir eða a.m.k. að draga eins og unnt er úr skaðlegum breytingum á gæðum grunnvatns sem hafa verulega þýðingu fyrir umhverfið. Þessi greining skal fara fram í fyrsta sinn árið 2009, ef unnt er, og þar skal taka tillit til fyrirliggjandi gagna í tengslum við skýrslu um greiningu á leitni í fyrstu stjórnunaráætlununum fyrir vatnasviðaumdæmi, sem um getur í 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB, og a.m.k. á sex ára fresti eftir það,
        iii.    að taka tillit til tímabundinna, eðlisfræðilegra og efnafræðilegra einkenna grunnvatnshlotsins, þ.m.t. flæðiskilyrði grunnvatns og endurnýjunarhraði og vætlunartími gegnum jarðveg eða jarðvegsgrunn,
    b)    aðferðirnar sem eru notaðar við vöktun og greiningu skulu vera í samræmi við alþjóðlegar meginreglur um gæðastjórnun, þ.m.t., ef við á, staðalaðferðir Staðlasamtaka Evrópu eða staðalaðferðir á landsvísu, til að tryggja að gögnin sem fást séu jafngild að því er varðar vísindaleg gæði og samanburðarhæfi,
    c)    matið skal byggjast á tölfræðiaðferð, t.d. aðhvarfsgreiningu, til leitnigreiningar í tímaröð frá einstökum vöktunarstöðum,
    d)    til að komast hjá skekkjum í leitnigreiningu skulu allar mælingar, sem eru undir magngreiningarmörkum, fastsettar við helmingsgildi hæstu magngreiningarmarka sem koma fyrir í tímaröð, þó ekki fyrir samanlögð varnarefni.
3)    Við greiningu á umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni í styrk efna, sem bæði koma fyrir í náttúrunni og af mannavöldum, skal taka til greina grunnlínugildi og gögn, sem safnað er áður en vöktunaráætlun er tekin í notkun, ef slík gögn liggja fyrir, í því skyni að gefa skýrslu um leitnigreiningu í fyrstu stjórnunaráætlun fyrir vatnasviðaumdæmi sem um getur í 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB.

B-hluti
Upphafspunktar til að snúa leitni við

Aðildarríkin skulu snúa við umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni, í samræmi við 5. gr., að teknu tilliti til eftirfarandi krafna:
1)    Upphafspunkturinn fyrir framkvæmd ráðstafana til að snúa við umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni er þegar styrkur mengunarvaldsins nær 75% af viðmiðunarmæliþáttunum fyrir gæðakröfur grunnvatns, sem settar eru fram í I. viðauka, og viðmiðunargildanna, sem eru fastsett skv. 3. gr., nema:
    a)    gerð sé krafa um fyrri upphafspunkt til að unnt sé að gera ráðstafanir til að snúa leitni við á sem kostnaðarhagkvæmastan hátt eða a.m.k. að draga eins og unnt er úr skaðlegum breytingum á gæðum grunnvatns sem hafa marktæka þýðingu fyrir umhverfið,
    b)    rök séu færð fyrir því að annar upphafspunktur sé notaður ef ekki er unnt, á grundvelli greiningarmarkanna, að ákvarða að leitni sé fyrir hendi sem svarar til 75% af mæliþáttunum eða
    c)    stigaukning leitninnar og möguleiki á að snúa henni við séu þannig að seinni upphafspunktur fyrir ráðstafanir til að snúa leitni við geri það samt kleift með slíkum ráðstöfunum að koma, á sem kostnaðarhagkvæmastan hátt, í veg fyrir allar skaðlegar breytingar á gæðum grunnvatns sem hafa marktæka þýðingu fyrir umhverfið eða a.m.k. að draga úr þeim eins og kostur er. Seinni upphafspunktur af þessum toga skal ekki leiða af sér neinar tafir við að ná umhverfismarkmiðunum á tilskildum tíma.
    Að því er varðar starfsemi, sem fellur undir gildissvið tilskipunar 91/676/EBE, skal fastsetja upphafspunktinn til að lögleiða ráðstafanir til að snúa við umtalsverðri og viðvarandi, stígandi leitni í samræmi við þá tilskipun og tilskipun 2000/60/EB og einkum halda fast við umhverfismarkmið varðandi vatnsverndun eins og þau eru sett fram í 4. gr. tilskipunar 2000/60/EB.
2)    Þegar upphafspunktur hefur verið fastsettur fyrir grunnvatnshlot, sem er metið þannig að það sé í áhættu í samræmi við lið 2.4.4 í V. viðauka við tilskipun 2000/60/EB og skv. 1. lið hér að framan, verður honum ekki breytt á sex ára gildistímabili stjórnunaráætlunar fyrir vatnasviðaumdæmi, sem krafist er í samræmi við 13. gr. tilskipunar 2000/60/EB.
3)    Sýna skal fram á viðsnúning leitni með tilliti til viðkomandi ákvæða um vöktun sem er að finna í 2. lið A-hluta.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 232, 3.9.2009, bls. 29, og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 47, 3.9.2009, bls. 32.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 372, 27.12.2006, bls. 19.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 112, 30.4.2004, bls. 40.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Stjtíð. ESB C 109, 30.4.2004, bls. 29.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Álit Evrópuþingsins frá 28. apríl 2005 (Stjtíð. ESB C 45 E, 23.2.2006, bls. 15), sameiginleg afstaða ráðsins frá 23. janúar 2006 (Stjtíð. ESB C 126 E, 30.5.2006, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 13. júní 2006 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB). Lagaleg ályktun Evrópuþingsins frá 12. desember 2006 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 11. desember 2006.
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. EB L 327, 22.12.2000, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með ákvörðun nr. 2455/2001/EB (Stjtíð. EB L 331, 15.12.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. EB L 242, 10.9.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(1)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1991, bls. 1. Tilskipuninni var breytt með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1882/2003 (Stjtíð. ESB L 284, 31.10.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 10
(2)    Stjtíð. EB L 230, 19.8.1991, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/85/EB (Stjtíð. ESB L 293, 24.10.2006, bls. 3).
Neðanmálsgrein: 11
(3)    Stjtíð. EB L 123, 24.4.1998, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2006/50/EB (Stjtíð. ESB L 142, 30.5.2006, bls. 6).
Neðanmálsgrein: 12
(4)    Stjtíð. ESB L 277, 21.10.2005, bls. 1. Reglugerðinni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1463/2006 (Stjtíð. ESB L 277, 9.10.2006, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 13
(5)    Stjtíð. EB L 20, 26.1.1980, bls. 43. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 91/692/EBE (Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48).
Neðanmálsgrein: 14
(6)    Stjtíð. EB L 330, 5.12.1998, bls. 32. Tilskipuninni var breytt með reglugerð (EB) nr. 1882/2003.
Neðanmálsgrein: 15
(1)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 2006/512/EB (Stjtíð. ESB L 200, 22.7.2006, bls. 11).
Neðanmálsgrein: 16
(1)    Að því er varðar saltstyrk sem verður til af mannavöldum geta aðildarríkin ákveðið að fastsetja viðmiðunargildi, annaðhvort fyrir súlfat og klóríð eða fyrir leiðni.