Ferill 451. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.



Þingskjal 671  —  451. mál.


Skýrsla

forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd ályktana Alþingis 2014
auk yfirlits yfir framkvæmd ályktana frá árunum 2011–2013.

(Lögð fyrir Alþingi á 145. löggjafarþingi 2015–2016.)




    Samkvæmt 8. mgr. 45. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, skal forsætisráðherra í október ár hvert leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar, nema lög kveði á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Í skýrslunni skal enn fremur fjalla um meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar.
    Skýrsla sú sem nú er lögð fram nær til ályktana Alþingis á árinu 2014. Forsætisráðuneytið óskaði eftir því að viðkomandi ráðuneyti tækju saman greinargerðir um meðferð og framkvæmd þeirra þingsályktana og málefna sem þeim hefði verið falin meðferð á og fara svör ráðuneytanna hér á eftir.
    Þá fylgir skýrslunni einnig yfirlit yfir framkvæmd ályktana þingsins þrjú ár aftur í tímann í samræmi við fyrrnefnt ákvæði laga um þingsköp Alþingis. Er yfirlitið unnið á grundvelli upplýsinga frá viðkomandi ráðuneytum.

FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 46/143 um samningu stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna, 16. maí 2014 – þskj. 1250.
    Á fundi forsætisnefndar Alþingis 13. apríl 2015 var samþykkt tillaga forseta Alþingis um hverjir skipuðu nefnd um samningu stefnumarkandi frumvarpa og þingsályktunartillagna. Vegna alvarlegra veikinda og síðar fráfalls eins nefndarmanns var ákveðið að bíða með að kalla nefndina saman. Vænta má þess að nefndin geti hafið störf fljótlega.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 34/143 um landsnet ferðaleiða, 16. maí 2014 – þskj. 1226 (sameiginleg með innanríkisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti).
    Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Frumvarpið er samið í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Markmið frumvarpsins er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Það skal gert með stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára skv. 3. gr. og þriggja ára verkefnaáætlun skv. 4. gr. sem er hluti af og innan ramma tólf ára áætlunarinnar. Í frumvarpinu eru sérstaklega skilgreindar ferðamannaleiðir en þær geta verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir og skal landsáætlunin einnig taka til slíkra leiða.

Þingsályktun 21/143 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2014–2017, 12. maí 2014 – þskj. 1083.
    Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/1999, um Byggðastofnun, skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi Byggðastofnunar og framvindu byggðaáætlunar, sbr. lög nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

Þingsályktun 43/143 um rannsóknir á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku, 16. maí 2014 – þskj. 1245.
    Þann 16. maí 2014 ályktaði Alþingi að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra að hefja vinnu við mat á umfangi og nýtingarmöguleikum sjávarorku við strendur Íslands með það að markmiði að greina hagkvæmustu nýtingarkosti til framtíðar. Á grundvelli þessa var skipuð sex manna sérfræðinganefnd sem m.a. mat fyrirliggjandi upplýsingar um mælingar og útreikninga á fræðilegri orku og gerði tillögur um öflun viðbótarupplýsinga svo að til yrði grundvallarþekking á vegum stjórnvalda á orkuvinnslugetu hagkvæmustu framtíðarnýtingarkosta. Greinargerð sérfræðingahópsins er frá apríl 2015 og var hún lögð fram á Alþingi um leið og hún var frágengin.

Þingsályktun 47/143 um fiskveg í Efra-Sog, 16. maí 2014 – þskj. 1281.
    Unnið er að rannsókn á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar með þátttöku Háskóla Íslands og Veiðimálastofnunar auk Landsvirkjunar.

Þingsályktun 10/143 um átak stjórnvalda og sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu til atvinnuuppbyggingar, 15. janúar 2014 – þskj. 510.
    Í maí 2015 lauk starfshópur við gerð mats og greinargerðar um atvinnumál í Austur-Húnavatnssýslu með tillögum um aðgerðir. Starfshópurinn var skipaður á grundvelli þingsályktunar 10/143. Tillögur starfshópsins hafa verið til umfjöllunar hjá heimamönnum og er líklegt að þeir óski eftir að ráðist verði í afmörkuð verkefni á grundvelli þeirra tillagna. Að svo komnu máli hafa verkefnin ekki verið skilgreind af heimamönnum.

Þingsályktun 1/144 um kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og um réttindavernd netnotenda, 19. nóvember 2014 – þskj. 567.
    Í byrjun maí 2015 var skipaður starfshópur en viðfangsefni hans er að móta stefnu um kjöraðstæður fyrir hagnýtingu internetsins og annarrar upplýsingatækni og um réttindavernd netnotenda. Hópurinn hefur unnið að skilgreiningu og afmörkun viðfangsefnisins. Meðal viðfangsefna sem eru til skoðunar eru laga- og viðskiptaumhverfi, innviðir, fjármögnun og mannauður. Starfshópurinn mun skila stefnu til ráðherra eigi síðar en 1. júní 2016 ásamt aðgerðaáætlun þar sem fram koma tillögur starfshópsins til framkvæmdar stefnunnar.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umræddu tímabili.

INNANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 24/143 um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum, 12. maí 2014 – þskj. 1089.
    Þann 12. maí 2014 var samþykkt þingsályktunartillaga þar sem Alþingi ályktaði að fela innanríkisráðherra í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðherra að skipa fimm manna starfshóp sem kannaði með hvaða leiðum mætti jafna stöðu foreldra sem fara sameiginlega með forsjá barna sinna með tilliti til réttinda, skyldna og skráningar sem fylgir lögheimili barns. Í þingsályktunartillögunni kemur fram að markmið starfshópsins sé að útfæra leiðir til að eyða þeim aðstöðumun sem er þegar foreldrar sem búa ekki saman ákveða að ala börn sín upp á tveimur heimilum. Í því skyni skyldi hópurinn m.a. taka afstöðu til þess hvort taka skuli upp kerfi sem heimilar börnum að hafa tvöfalt lögheimili eða hvort annað fyrirkomulag jafnrar búsetu henti betur. Skýrsla ráðherra um jafnt búsetuform barna sem búa á tveimur heimilum var lögð fram á Alþingi 24. september 2015 og er málinu því lokið. Unnið verður með niðurstöður skýrslunnar í ráðuneytinu.

Þingsályktun 33/143 um skrásetningu kjörsóknar eftir fæðingarári í kosningum á Íslandi frá vori 2014, 16. maí 2014 – þskj. 1225.
    Alþingi samþykkti 16. maí 2014 þingsályktun um að fela forsætisráðherra að hlutast til um að Hagstofa Íslands kallaði eftir upplýsingum frá kjörstjórnum um kjörsókn eftir fæðingarári. Jafnframt fólst í tillögunni að hefja skyldi gagnasöfnun við sveitarstjórnarkosningar vorið 2014. Að fengnum tilmælum forsætisráðuneytis ákvað Hagstofan að standa að úrtaksrannsókn á kjörsókn einstaklinga til viðbótar hefðbundinni gagnasöfnun vegna kosningaskýrslna Hagstofunnar. Var úrtaksrannsókn fyrir valinu til að létta svarbyrði kjörstjórna. Hagstofan dró rúmlega 25 þúsund manna úrtak úr rafrænum stofni til kjörskrár sem Þjóðskrá Íslands lét í té. Var úrtakið lagskipt eftir stærð sveitarfélaga þannig að 100% tilheyrðu sveitarfélögum með 500 eða færri einstaklinga á kjörskrá, 20% hjá sveitarfélögum með 501–3.000, 10% hjá 3.001–5.000 og 5% hjá 5.001 og stærri. Sjá má niðurstöður á vefsíðu Hagstofu Íslands. Framkvæmd er lokið.

Þingsályktun 34/143 um landsnet ferðaleiða, 16. maí 2014 – þskj. 1226 (sameiginleg með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti).
    Með þingsályktuninni var innanríkisráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra falið að vinna í sameiningu að skipulagningu og kortlagningu leiða- og þjónustukerfis fyrir ferðamenn sem ferðast um landið fótgangandi, á reiðhjólum eða á hestum þannig að til verði eitt samtengt landsnet ferðaleiða. Skoða skyldi jafnframt hvort fella ætti ferðaleiðir fólks á sjókajökum eða gönguskíðum inn í landsnetið. Framkvæmd er ekki hafin en samkvæmt ályktuninni skal ljúka vinnunni eigi síðar en 1. janúar 2017.

Þingsályktun 35/143 um hert viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri, 16. maí 2014 – þskj. 1227.
    Alþingi ályktaði að innanríkisráðherra skyldi láta yfirfara viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri með það að markmiði að fækka slíkum tilvikum. Sérstaklega átti að skoða eftirfarandi leiðir: 1) Lækkun refsimarka ölvunaraksturs úr 0,5 prómillum í 0,2 prómill og samsvarandi mæling öndunarsýnis. 2) Námskeið um alvarleika ölvunar- og vímuefnaaksturs. 3) Hækkun sektargreiðslna vegna ölvunar- og vímuefnaaksturs og að hluti þeirra renni í forvarnasjóð. 4) Ný úrræði í viðurlögum við ölvunar- og vímuefnaakstri. Framkvæmd er ekki hafin.

Þingsályktun 25/143 um skráningu upplýsinga um umgengnisforeldra, 12. maí 2014 – þskj. 1090.
    Með ályktuninni felur Alþingi ríkisstjórninni að sjá til þess að í almannaskráningu á Íslandi verði skráðar nauðsynlegar upplýsingar um umgengnisforeldra til jafns við aðra foreldra svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 1. janúar 2016. Markmið tillögunnar er samkvæmt greinargerð að bæta almannaskráningu hér á landi þannig að í þeim opinberu skrám sem haldnar eru verði skráðar allar nauðsynlegar upplýsingar um fjölskyldumynstur landsmanna. Frumskoðun hefur leitt í ljós ákveðinn kostnaðarauka vegna breyttrar skráningar og er málið í nánari athugun. Rétt er að nefna í þessu sambandi að í skýrslu ráðherra um jafnt búsetuform barna, sem var lögð fram á Alþingi 24. september 2015, er fjallað um bætta almannaskráningu.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 36/143 um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi, 16. maí 2014 – þskj. 1228.
    Fyrir liggur tillaga um stofnun starfshóps sem ráði til sín verkefnisstjóra til að sinna því erindi sem felst í þingsályktuninni. Með tilmælum þar að lútandi óskaði ráðuneytisstjóri eftir áætlun um kostnað við ráðningu slíks verkefnisstjóra, og beiðni um slíka áætlun send upplýsinga- og fjármálasviði ráðuneytisins. Svar hefur ekki borist frá upplýsinga og fjármálasviði vegna erindisins.

Þingsályktun 40/143 um ráðstafanir gegn málverkafölsunum, 16. maí 2014 – þskj. 1242.
    Bréf send til tilnefningaraðila 9. september 2014. Síðustu tilnefningar bárust 10. desember 2014. Starfshópur skipaður 20. febrúar 2015. Fyrsti fundur starfshóps var haldinn 24. september 2015.

Þingsályktun 18/143 um aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni, 12. maí 2014 – þskj. 1076.
    Árið 2014 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra nefnd sérfræðinga í málvísindum og upplýsingatækni til að skila skýrslu og aðgerðaáætlun um notkun íslensku í stafrænni upplýsingatækni. Nefndin skilaði skýrslu í árslok 2014 þar sem lögð var fram aðgerðaáætlun og lagt til að stofnaður yrði samkeppnissjóður sem veitti styrki til máltækniverkefna. Árið 2015 setti ráðuneytið á laggirnar Máltæknisjóð, skipuð var stjórn, skrifaðar úthlutunarreglur og Rannís falið að annast umsjón með sjóðnum. Úthlutað var 15 millj. kr. árið 2015 til máltækniverkefna og samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 verða 30 millj. kr. til úthlutunar úr Máltæknisjóði á því næsta.

Þingsályktun 15/143 um samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði menntunar heilbrigðisstarfsmanna, starfsmannaskipti og veitingu heilbrigðisþjónustu á milli landanna, 11. febrúar 2014 – þskj. 593.
    Beðið er sameiginlegs fundar með velferðarráðuneyti sem staðið hefur til að halda en hefur verið frestað oft.

Þingsályktun 13/143 um samstarf við Færeyjar og Grænland um námskeið fyrir starfandi og upprennandi rithöfunda í löndunum þremur, 15. janúar 2014 – þskj. 513.
    Þingsályktunin hefur ekki verið tekin til formlegrar meðferðar enn sem komið er hjá menningarmálaráðherrum Færeyja, Grænlands og Íslands. Við undirbúning að endurnýjuðum samstarfssamningi landanna verður kannað hvort verkefnið geti orðið hluti af honum. Skylt þessu má nefna málþing sem fram fór á síðastliðnu ári og Kvikmyndamiðstöð Íslands stóð að með Færeyjum, Grænlandi og Danmörku um aukið samstarf á þessu sviði, ekki síst á sviði handritagerðar. Geta má jafnframt um boð ráðuneytisins til ungra listamanna, m.a. á sviði ritlistar, þriggja frá hverju landi, til þátttöku í formennskuráðstefnunni Art & Audiences sem fram fór 20.–22. október 2014 og í ráðstefnunni „Óbeisluð orka“ sem fjallaði um menningarsamstarf jaðarsvæða.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 22/143 um endurskoðun laga og reglna með tilliti til myglusveppa og tjóns af völdum þeirra, 12. maí 2014 – þskj. 1087.
    Í kjölfar samþykktar þessarar þingsályktunar skipaði þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra þann 10. júní 2014 starfshóp til að endurskoða lög og reglur á sviði byggingarmála með tilliti til myglusvepps og þess tjóns sem hann getur valdið. Ráðuneytið stýrði þeirra vinnu og í starfshópnum sátu einnig fulltrúar frá Mannvirkjastofnun, Umhverfisstofnun, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Félagi byggingarfulltrúa og Alþingi. Lögfræðingur var ráðinn til að vinna greinargerð um réttarstöðu þeirra sem verða fyrir tjóni af völdum myglusvepps í húsnæði og til að greina frá sambærilegri löggjöf hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra um niðurstöður hópsins og tillögur í mars sl. og var skýrslan í kjölfarið birt opinberlega á vef ráðuneytisins. Greinargerð um réttarstöðu þeirra sem verða fyrir tjóni vegna myglusvepps er fylgiskjal með skýrslu starfshópsins. Tillögur starfshópsins koma fram í sérstökum samantektarkafla skýrslunnar og eru þær í 18 liðum. Í ráðuneytinu er nú unnið að því að fylgja eftir þessum tillögum starfshópsins.

Þingsályktun 34/143 um landsnet ferðaleiða, 16. maí 2014 – þskj. 1226 (sameiginleg með innanríkisráðuneyti og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti).
    Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Frumvarpið er samið í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Markmið frumvarpsins er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Það skal gert með stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára skv. 3. gr. og þriggja ára verkefnaáætlun skv. 4. gr. sem er hluti af og innan ramma tólf ára áætlunarinnar. Í frumvarpinu eru sérstaklega skilgreindar ferðamannaleiðir en þær geta verið gönguleiðir, reiðleiðir og reiðhjólaleiðir og skal landsáætlunin einnig taka til slíkra leiða.

Þingsályktun 39/143 um eflingu skógræktar sem atvinnuvegar og sameiningu stjórnsýslueininga á sviði skógræktar og landgræðslu, 16. maí 2014 – þskj. 1241.
    Eftirfylgni þessarar ályktunar er hafin í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Staða málsins nú er svohljóðandi:
     a.      Stórefla hagnýtar rannsóknir og þróunarstarf í skógrækt með áherslu á framleiðslu viðarafurða, framleiðni og arðsama skógrækt.
             Samhliða tillögum um auknar fjárveitingar til skógræktar, sbr. d-lið, er gert ráð fyrir að ákveðinn hluti renni til skógræktarrannsókna.
     b.      Færa Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landshlutaverkefni í skógrækt í eina stjórnsýslueiningu.
             Undanfarna mánuði hefur verið unnið í ráðuneytinu að greiningu á verkefnum ríkisins á sviði skógræktar með það að markmiði að skoða ávinninginn af því að sameina starf ríkisins á sviði skógræktar; að sameina landshlutaverkefni í skógrækt og Skógrækt ríkisins. Líta má á slíka sameiningu sem skref í þá átt sem ályktun þingsins leggur til.
             Oft hefur verið rætt um sameiningu landgræðslu og skógræktar áður en slíkt ekki gengið eftir vegna ýmissa sjónarmiða. Hér á hins vegar að vera um áfanga að ræða sem góð sátt á að nást um.
     c.      Semja frumvarp að nýjum samræmdum lögum um skógrækt og landgræðslu.
             Undanfarið ár hefur verið unnið að gerð nýrra laga um skógrækt og um landgræðslu í ráðuneytinu.
     d.      Móta starfsumhverfi með rammaáætlun til þriggja ára til eflingar skógrækt með þátttöku bænda, annarra landeigenda og sérstakra skógræktarsjóða.
             Fjárlög fyrir árið 2015 fólu í sér fjárveitingu til eflingar skógræktar og landgræðslu, alls 20 millj. kr. Markmið með þeirri fjárveitingu er að auka framkvæmdir á þessum sviðum með gróðursetningu og uppgræðslu. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2016 gerir ráð fyrir meira fé í þessa veru, eða alls 50 millj. kr., sem sömuleiðis á að renna til aukinna aðgerða.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 12/143 um að styrkja samstarf við Færeyjar og Grænland um málefni norðurslóða, 15. janúar 2014 – þskj. 512.
    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar er vikið að mikilvægi vestnorræns samstarfs, enda byggist tengslin við okkar næstu nágranna í Færeyjum og á Grænlandi á langri sögu. Unnið hefur verið að því að styrkja þessi tengsl enn frekar og hafa íslensk stjórnvöld meðal annars lagt áherslu á tækifæri sem felast í auknum viðskiptum milli landanna, sem og samvinnu í málefnum norðurslóða. Í september 2014 áttu utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands fund í Reykjavík með Vestnorræna ráðinu. Þar var fjallað um stefnu og áherslur í norðurslóðamálum vestnorrænu ríkjanna og hvar sameiginlegir hagsmunir liggja. Forsætisráðherrar landanna þriggja hittust í Færeyjum í ágúst 2015 á 30 ára afmæli Vestnorræna ráðsins og fjölluðu sömuleiðis um aukna samstarfsmöguleika á norðurslóðum. Samhliða hafa aðalræðisskrifstofur Íslands á Grænlandi og í Færeyjum unnið ötullega að því að efla tengsl við landsstjórnir og viðskiptalíf landanna, sem og samvinnu á sviði norðurslóða. Auk þess hafa embættismenn landanna átt reglulega fundi um samstarf landanna, m.a. á grundvelli viljayfirlýsingar Íslands og Grænlands frá 2013 um aukið samstarf.

Þingsályktun 14/143 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkisstjórnar Íslands og ríkisstjórnar Alþýðulýðveldisins Kína, 29. janúar 2014 – þskj. 568.
    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 11. febrúar 2014 og öðlaðist gildi 1. júlí 2014.

Þingsályktun 9/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2013 um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn, 15. janúar 2014 – þskj. 509.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 3. febrúar 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 1. ágúst 2014.

Þingsályktun 23/143 um stuðning við sjálfsákvörðunarrétt íbúa Vestur-Sahara, 12. maí 2014 – þskj. 1088.
    Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum fylgist náið með málefnum Vestur-Sahara í gegnum 4. nefnd allsherjarþingsins, öryggisráðið og með reglulegum upplýsingafundum með fulltrúum Pólisaríó og í samvinnu við önnur Norðurlönd. Jafnframt hefur fastanefndin gripið hvert tækifæri til að brýna fyrir viðkomandi aðilum, m.a. á fundum með fastafulltrúa Bandaríkjanna, mikilvægi þess að koma á hreyfingu í málinu í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Þá vakti utanríkisráðherra athygli á málinu í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Þingsályktun 48/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 113/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 16. maí 2014 – þskj. 1282.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 27. maí 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 28. maí 2014.

Þingsályktun 32/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 164/2013 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun), 16. maí 2014 – þskj. 1219.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 27. maí 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2014.

Þingsályktun 27/143 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Kólumbíu, 14. maí 2104 – þskj. 1128.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 7. júlí 2014 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. október 2014.

Þingsályktun 28/143 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kostaríka og Lýðveldisins Panama, 14. maí 2014 – þskj. 1129.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 7. júlí 2014 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 5. september 2014.

Þingsályktun 29/143 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Bosníu og Hersegóvínu, 14. maí 2014 – þskj. 1130.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 7. júlí 2014 og öðluðust gildi 1. janúar 2015.

Þingsályktun 42/143 um mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda, 16. maí 2014 – þskj. 1244.
    Sendiráð Íslands í Kampala/umdæmisskrifstofa Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í Úganda kom ítrekað á framfæri við stjórnvöld í Úganda hörðum mótmælum íslenskra stjórnvalda vegna þeirra mannréttindabrota sem staðfest lög um samkynhneigð heimiluðu. Hið sama gerði utanríkisráðherra á fundi með fjármálaráðherra Úganda í tengslum við vorfund Alþjóðabankans árið 2014. Afstaða Íslands var enn fremur kynnt í samstarfshópi þeirra ríkja sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda, þar á meðal Norðurlandanna. Þá tók sendiráðið virkan þátt í sérstökum vinnuhópi ríkja sem eiga í þróunarsamvinnu við Úganda þar sem umrætt mál var vaktað sérstaklega.

Þingsályktun 38/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 226/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 16. maí 2014 – þskj. 1240.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 27. maí 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 1. júlí 2014.

Þingsályktun 31/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2013 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglurgerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 16. maí 2014 – þskj. 1218.
    Ísland tilkynnti um uppfyllingu stjórnskipulegra skilyrða, sbr. 103. gr. EES-samningsins, 27. maí 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 28. maí 2014.

Þingsályktun 30/143 um gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum, 16. maí 2014 – þskj. 1217.
    Frá því að þingsályktunin var samþykkt hefur ráðuneytið unnið að öflun upplýsinga um það með hvaða hætti unnt sé að koma á gerð sáttmála um verndun friðhelgi einkalífs í stafrænum miðlum. Er hér um að ræða afar víðfeðmt málefnasvið er snertir fjölmarga fleti alþjóðasamstarfs og tvíhliða samstarfs Íslands, sem og alþjóðasáttmála sem Ísland á aðild að.
    Utanríkisþjónustan hefur m.a. stutt við það starf sem Þýskaland og Brasilía hafa leitt á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York og mannréttindaráðsins í Genf um þetta málefni. Í allsherjarþinginu hafa tvær ályktanir verið samþykktar sem Ísland var meðflytjandi að, þar sem rétturinn til friðhelgi einkalífs er áréttaður og áhyggjum lýst yfir neikvæðum áhrifum eftirlits á mannréttindi, m.a. á stafrænum miðlum. Ályktanir allsherjarþingsins nr. 68/167 og nr. 69/166 árétta t.d. sérstaklega að núverandi mannréttindasáttmálar tryggi þennan rétt, m.a. samningurinn um borgaraleg og pólitísk réttindi. Þessi réttur er einnig studdur í öðrum textum Sameinuðu þjóðanna, m.a. í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna.
    Í kjölfar þess starfs sem átt hefur sér stað í allsherjarþinginu samþykkti mannréttindaráðið hinn 26. mars 2015 með ályktun Þýskalands og Brasilíu, sem Ísland var meðflytjandi að, að setja á fót embætti sérstaks fulltrúa ráðsins fyrir næstu þrjú árin sem muni leggja mat á stöðu mála á þessu málefnasviði. Fulltrúanum er einnig ætlað að vekja athygli á mikilvægi þessa réttar og skoða sérstaklega hvernig hægt sé að tryggja hann á stafrænum miðlum.
    Í samræmi við þingsályktunina munu utanríkisráðuneytið og fastanefndir Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York og Genf halda áfram að styðja við þetta starf bæði í allsherjarþinginu og mannréttindaráðinu. Utanríkisráðuneytið mun leggja mat á hvort markmiðum þingsályktunarinnar hefur verið náð með gerð sértæks sáttmála eða með því að renna styrkari stoðum undir starf Sameinuðu þjóðanna og þá alþjóðasamninga sem þegar gilda á því sviði sem þingsályktunin tekur til, eftir að hinn sérstaki fulltrúi mannréttindaráðsins hefur tekið til starfa og reynsla hefur skapast af starfi hans, og einnig með skýrslugjöfum hans á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Þingsályktun 19/143 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2014, 12. maí 2014 – þskj. 1081.
    Samningnum, sem einungis var til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 9. apríl 2014.

Þingsályktun 17/143 um heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 29. apríl 2014 – þskj. 1010.
    Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um heimild til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar 29. apríl 2014 og ákvörðunin gekk í gildi 30. apríl 2014.

Þingsályktun 20/143 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2014, 12. maí 2014 – þskj. 1082.
    Samningunum, sem einungis voru til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá 28. mars 2014.

VELFERÐARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 7/143 um skipun nefndar um málefni hinsegin fólks, 15. janúar 2014 – þskj. 507.
    Samstarfsnefnd um málefni hinsegin fólks er virk og hittist á tveggja vikna fresti en hún er skipuð hagsmunaaðilum, sérfræðingum og fulltrúum stjórnmálaflokka. Vinna að aðgerðaáætlun um bætta stöðu hinsegin fólks í samfélaginu er ekki hafin en unnið er markvisst að því að leggja drög að aðgerðum sem þar er ætlað að koma fram.

Þingsályktun 8/143 um mótun geðheilbrigðisstefnu og aðgerðaáætlunar, 15. janúar 2014 – þskj. 508.
    Unnið hefur verið að undirbúningi málsins og var þingsályktunartillaga lögð fram á Alþingi haustið 2015.

Þingsályktun 44/143 um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu og hliðarverkunum, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild, 16. maí 2014 – þskj. 1246.
    Hinn 11. júlí 2014 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp sem falið var að undirbúa skýrslu um gerð stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Starfshópurinn hefur leitað aðstoðar og leiðsagnar hagsmunaaðila og hjálparsamtaka, sem og innlendra og erlendra sérfræðinga, við störf sín. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili heilbrigðisráðherra skýrslu.

Þingsályktun 45/143 um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala, 16. maí 2014 – þskj. 1249.
    Málið er í vinnslu. Hinn 2. september 2015 skrifaði heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, undir samning við Corpus-hópinn um fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna vegna byggingar nýs Landspítala við Hringbraut. Hönnunin mun byggjast á forhönnun verksins sem þegar er lokið.

Þingsályktun 26/143 um forvarnastarf vegna krabbameins í blöðruhálskirtli, 12. maí 2014 – þskj. 1091.
    Ráðgjafahópur vegna vinnu við gerð krabbameinsáætlunar er að ljúka störfum og mun senda heilbrigðisráðherra tillögur á næstu vikum. Hópnum var falið að skoða þingsályktunina í tengslum við þá vinnu. Áætlunin tekur m.a. til forvarnastarfs og miðar að því að koma á víðtækri samvinnu allra sem vinna að málefnum krabbameinssjúkra. Í ljósi þess sem þekkt er um tilurð og áhættuþætti blöðruhálskirtilskrabbameins er ekki hægt að gefa út almennar ráðleggingar að svo stöddu eða hefja almenna hópleit vegna þeirra. Þess er vænst að frekari rannsóknir í framtíðinni muni geta varpað skýrara ljósi á það róf sjúkdóma sem krabbamein í blöðruhálskirtli er. Hópurinn leggur áherslu á að mikilvægt sé að Íslendingar verði reiðubúnir svo að þeir geti verið í fararbroddi þegar kemur að því að taka upp skimun fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli.

Þingsályktun 41/143 um aðgerðir í þágu lækningar við mænuskaða, 16. maí 2014 – þskj. 1243.
    Velferðarráðuneytið lagði áherslu á málefni mænuskaða á formennskuári Íslands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014. Haldinn var fundur norrænna og alþjóðlegra sérfræðinga í málefnum mænuskaða á Íslandi 2014. Helstu tillögur fundarins voru að setja á stofn norrænt meðferðar- og rannsóknarsetur fyrir mænuskaða og flýta uppbyggingu norræna gagnagrunnsins um mænuskaða, „The Nordic Spinal Cord Injury Registry“. Heilbrigðisráðherra lagði tillögur sem byggðust á niðurstöðum sérfræðingafundarins fyrir norræna heilbrigðis- og félagsmálaráðherra á fundi þeirra 9. september 2015. Ráðherrafundurinn samþykkti að mikilvægt væri að halda áfram vinnu við málefni mænuskaða og að norrænum starfshópi um mjög sérhæfða meðferð yrði falið að fjalla um tillögurnar. Þá hefur utanríkisþjónustan leitað leiða til að vinna samkvæmt tillögum fundarins, bæði óformlega og á formlegum samningafundum um sjálfbær þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Texti um taugaskaða er í pólitískri yfirlýsingu sem fylgir úr hlaði sjálfbæru þróunarmarkmiðunum.

Þingsályktun 11/143 um samstarf við Færeyjar og Grænland um samantekt um fækkun kvenna á Vestur-Norðurlöndum, 15. janúar 2014 – þskj. 511.
    Á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar undir formennsku Dana var gefin út skýrslan „Sted, (u)lighed og kön – en kortlægning af udfordringer og best practices i relation til kön, uddannelse og befolkningsströmme i Nordens yderområder“ (PUB:2015:557). Skýrslan sem svarar kalli þingsályktunarinnar var kynnt og rædd á ráðstefnu um viðfangsefnið þann 17. júní í Nuuk á Grænlandi.

Þingsályktun 16/143 um aukið samstarf við Færeyjar og Grænland á sviði heilbrigðisþjónustu, 11. febrúar 2014 – þskj. 594.
    Hinn 10. júní 2014 undirrituðu heilbrigðisráðherrar Færeyja, Grænlands og Íslands samstarfssamning (Avtale om samarbejde mellem sundhedsministrene i Vestnorden). Undirritunin fór fram í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Með samningnum formgerðist samstarf ráðherranna, sem hafði átt sér nokkra sögu, er þeir hófu að hittast til skiptis í löndunum. Fundirnir eru haldnir einu sinni á ári. Farið er yfir helstu mál sem ráðherrarnir eru að vinna að og mögulega samstarfsfleti auk þess sem menn miðla af reynslu sinni. Mikilvægur þáttur hefur verið að koma á tengslum stofnana landanna eftir því sem tilefni hefur gefist. Sem dæmi má nefna forvarnamál á sviði fíkniefna, notkun þvingana í geðlæknisþjónustu, samstarf á sviði sjúkraflugs, skurðlækningaþjónustu, mönnunarmál, menntun heilbrigðisstétta o.fl.

Nefndarálit velferðarnefndar, 2. apríl 2014, um frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991 (ætlað samþykki) – þskj. 917 á 143. löggjafarþingi.
    Á 143. löggjafarþingi 2013–2014 var lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um brottnám líffæra, nr. 16/1991, þar sem lagt var til að lögunum yrði breytt þannig að gert yrði ráð fyrir ætluðu samþykki einstaklinga fyrir líffæragjöf. Í nefndaráliti velferðarnefndar um frumvarpið kemur fram að nefndin telji ekki tímabært að leggja til þá grundvallarbreytingu á löggjöfinni. Vísaði nefndin til þess að reynsla annarra þjóða hefði sýnt að lagabreyting ein og sér hefði ekki tilætluð áhrif og gæti vegið að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga. Velferðarnefnd lagði til að frumvarpinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og að áfram yrði unnið að málinu og ákveðin atriði tekin til sérstakrar skoðunar. Í október 2014 skipaði heilbrigðisráðherra starfshóp til að vinna frekar að málinu og skilaði hópurinn tillögum til ráðherra í mars 2015. Á 144. löggjafarþingi 2014–2015 lagði heilbrigðisráðherra fyrir Alþingi skýrslu um hvernig fjölga megi líffæragjöfum frá látnum einstaklingum á Íslandi þar sem þau atriði sem tilgreind voru í nefndaráliti velferðarnefndar voru tekin til sérstakrar skoðunar. Staða: Lokið.


Yfirlit yfir framkvæmd ályktana Alþingis frá árunum 2011–2013.

Staðan á framkvæmd ályktana frá árinu 2013.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 18/141 um hvernig minnast skuli 100 ára afmælis kosningarréttar íslenskra kvenna 19. júní 2015, 11. mars 2013, þskj. 1223.
– Framkvæmd hafin.
    Framkvæmd hófst 14. september 2013 með fundi forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar, og kosningu nefndar. Starfsmaður var ráðinn í mars 2014. Settar voru upp sýningar í öllum höfuðsöfnum landsins, Landsbókasafni, Listasafni Íslands og Þjóðminjasafni, á árinu 2015, fjöldi fyrirlestra, málþinga og tónleika voru haldnir, leikverk sett á svið, útvarps- og sjónvarpsþættir gerðir og aðrir fjölbreyttir viðburðir haldnir allt árið, svo sem sýningar í söfnunum utan höfuðborgarinnar. Ritverk voru tekin saman, skjölum um kvennabaráttuna og úr fórum kvenna safnað og myndasöfn kvenna flokkuð. Myndasamkeppnir fyrir ungmenni voru haldnar. Skólavefur var gerður til fræðslu um 100 ára kosningarréttinn og stendur hann öllum skólum til boða án endurgjalds. Margir kvennaviðburðir voru haldnir í samstafi við kvenfélögin og kvennahreyfingar í landinu.
    Þann 19. júní var víða gefið frí frá vinnu eftir hádegi og fjölmenn hátíðahöld haldin á Austurvelli í beinni útsendingu Sjónvarpsins. Hátíðir voru einnig haldnar á Akureyri og í bæjum og sveitarfélögum um allt land þann dag. Í október var haldin stór tveggja daga alþjóðleg kvennaráðstefna í Hörpu, opin öllum án endurgjalds. Nánari upplýsingar um viðburði, verkefni og dagskrár má finna á vef afmælisársins: www.kosningarettur100ara.is
    Nefndin lýkur störfum í lok desember 2015. Nokkur verkefni verða þó enn í gangi allt til ársins 2020. Það ár kemur út rannsóknarrit helgað 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna.

Þingsályktun 1/142 um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi, 28. júní 2013, þskj. 55. – Framkvæmd lokið.
    Lokið er þeim tíu aðgerðum sem kveðið er á um í ályktuninni. Þær leiddu til setningar fimm laga frá Alþingi sem varða stöðu heimila.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins á umræddu tímabili.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umræddu tímabili.

INNANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 19/141 um endurbætur björgunarskipa, 11. mars 2013, þskj. 1224. – Framkvæmd lokið.
    Samningur var gerður milli innanríkisráðuneytisins og Slysavarnafélagsins Landsbjargar, staðfestur af fjármála- og efnahagsráðuneytinu 21. apríl 2013, um greiðslur úr ríkissjóði á árunum 2014–2021 til viðhalds og endurbóta á björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 14/141 um málefni barna og ungmenna með tal- og málþroskaröskun, 24. janúar 2013, þskj. 931.
– Framkvæmd hafin.
    Starfshópur með fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, velferðarráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur unnið tillögu að nýju og breyttu fyrirkomulagi í þjónustu við börn og ungmenni með tal- og málþroskaröskun. Tillagan var kynnt þjónustuveitendum og hagsmunaaðilum. Aðgerðaáætlun og kostnaðaráætlun verða unnar þegar sátt verður komin á um nýtt fyrirkomulag í þjónustu. Stefnt er að því að ljúka því starfi fyrir lok mars 2016.

Þingsályktun 16/141 um menningarstefnu, 6. mars 2013, þskj. 1149. – Framkvæmd hafin og lokið að hluta.
    Þann 6. mars 2013 ályktaði Alþingi að fela mennta- og menningarmálaráðherra að starfa samkvæmt stefnu um listir og menningararfsstefnu. Hér er í fyrsta sinn lögð fram heildstæð menningarstefna sem myndar ramma um framtíðarsýn og áherslur ríkisins í menningarmálum. Menningarstefnan byggist m.a. á niðurstöðum menningarþings, Menningarlandið 2010 – mótun menningarstefnu, sem haldin var í apríl það ár.
    Í stefnunni eru fjórir meginþættir lagðir til grundvallar: sköpun og þátttaka í menningarlífinu, gott aðgengi að listum og menningararfi, samvinna stjórnvalda við þá fjölmörgu aðila sem starfa á sviði menningar og þátttaka barna og ungmenna í menningarlífinu.
    Árið 2013 var skipaður starfshópur til að vinna að aðgerðaáætlun í anda markmiða samþykktrar menningarstefnu um að efla menningu barna og ungmenna. Starfshópurinn um menningu barna og ungmenna skilaði af sér tillögum sínum í lok október 2014. Niðurstöðurnar eru þríþættar; listir og menning í skólastarfi, menningarstofnanir og þeirra hlutverk í menningu barna og ungmenna, aðrar aðgerðir samkvæmt kaflaskiptingu menningarstefnu, þ.e. menningarþátttaka, lifandi menningarstofnanir, samvinna í menningarmálum, Ísland í alþjóðasamhengi, starfsumhverfi í menningarmálum og stafræn menning.
    Gert er ráð fyrir 18 m.kr. framlagi af fjárlögum 2016 til að koma á laggirnar aðgerðaáætlun um menningu barna og ungmenna í grunnskólum landsins. Gert er ráð fyrir 30 m.kr. framlagi til Máltæknisjóðs í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 sem er liður í aðgengi að listum og menningararfi.
    Gert er ráð fyrir 20 m.kr. framlagi í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 til Ríkisútvarpsins fyrir Gullkistu þess. Það verkefni felst í því að varðveita og færa í stafrænt form efni úr söfnum útvarpsins sem er liður í varðveislu menningararfs og miðlun hans.

Þingsályktun 5/143 um leikskóla að loknu fæðingarorlofi, 19. desember 2013, þskj. 435. – Framkvæmd lokið.
    Starfshópur skilaði skýrslu til ráðherra og skýrslan var send til Alþingis í sumar.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 13/141 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, 14. janúar 2013, þskj. 892.
– Framkvæmd hafin.
    Verndar- og orkunýtingaráætlun var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013. Í áætluninni eru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk, allt eftir því hvort þar er að finna virkjunarkosti sem nýta má til orkuvinnslu eða hvort ástæða sé til að friðlýsa þá eða kanna frekar. Verkefnisstjórn áætlunarinnar vinnur nú að gerð tillagna um þriðja áfanga áætlunarinnar.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 15/141 um aukin áhrif Íslands á ákvarðanir á vettvangi Evrópusamstarfs, 26. febrúar 2013, þskj. 1081.
– Framkvæmd hafin.
    Þingsályktunin var samþykkt á Alþingi 26. febrúar 2013. Í mars 2014 kynnti ríkisstjórnin Evrópustefnu sína. Í henni er áhersla lögð á að skilgreina hagsmuni í EES-samstarfinu í samvinnu við atvinnulífið, m.a. með samráðshópi með fulltrúum atvinnulífsins sem stofnaður yrði, og greina hagsmunamál á mótunarstigi löggjafarinnar innan ESB. Í sérstakri aðgerðaáætlun um EES-samninginn kemur fram að gert verði átak í snemmgreiningu löggjafar á vettvangi EES til að greina á fyrstu stigum stór hagsmunamál sem kalla á sérstök viðbrögð. Unnið hefur verið á grundvelli Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar við framkvæmd EES-samningsins frá því að hún var samþykkt og verður svo áfram. Flestar þær aðgerðir sem skilgreindar eru í aðgerðaáætluninni hafa þegar komið til framkvæmda.

Þingsályktun 22/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 115/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 26. mars 2013, þskj. 1351. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 10. apríl 2013.

Þingsályktun 23/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 200/2012 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 26. mars 2013, þskj. 1352. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 21. maí 2013.

Þingsályktun 24/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 26. mars 2013, þskj. 1353.
– Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 3. júní 2013.

Þingsályktun 27/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 217/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 27. mars 2013, þskj. 1392. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 10. apríl 2013.

Þingsályktun 25/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 26. mars 2013, þskj. 1354. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 3. júní 2013.

Þingsályktun 21/141 um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016, 21. mars 2013, þskj. 1311. – Framkvæmd hafin.
    Þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016 hefur verið framfylgt frá því að hún var samþykkt. Ályktunin markar stefnu íslenskra stjórnvalda í málaflokknum yfir fjögurra ára tímabil og var sett fram á Alþingi í samræmi við 3. gr. laga nr. 121/2008, um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Utanríkisráðherra mun leggja fram tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2017–2021, á 145. löggjafarþingi 2015–2016. Á sama þingi mun ráðherra gefa skýrslu um framkvæmd áætlunarinnar í samræmi við 9. gr. laga nr. 121/2008. Mun skýrslan fjalla um framkvæmdina árin 2013–2014.

Þingsályktun 20/141 um staðfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar, 15. mars 2013, þskj. 1274. – Framkvæmd lokið.
    Íslensk stjórnvöld tilkynntu dönskum stjórnvöldum um staðfestingu samningsins með orðsendingu hinn 25. nóvember 2013. Samningurinn öðlaðist gildi milli allra samningsríkjanna fimm hinn 1. maí 2014. Sjá einnig lög um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar, nr. 119/2013.

Þingsályktun 1/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 181/2012 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 4. desember 2013, þskj. 302. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 13. desember 2013.

Þingsályktun 2/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2013 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 4. desember 2013, þskj. 303. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 13. desember 2013.

Þingsályktun 3/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2013 um breytingu á XVII. viðauka (Hugverkaréttindi) við EES-samninginn, 4. desember 2013, þskj. 304. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 13. desember 2013.

Þingsályktun 4/143 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 129/2013 um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn, 4. desember 2013, þskj. 305. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 13. desember 2013.

VELFERÐARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 17/141 um framkvæmdaáætlun í barnavernd fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2014, 11. mars 2013, þskj. 1222.
– Framkvæmd lokið.
    Flestum verkefnum framkvæmdaáætlunarinnar er lokið. Þá eru önnur verkefni í vinnslu eða í undirbúningi og önnur verkefni eru viðvarandi. Nú er hafin vinna við gerð næstu framkvæmdaáætlunar í barnavernd og þá verður staða verkefna fyrri áætlunar tekin sérstaklega til skoðunar.

Staðan á framkvæmd ályktana frá árinu 2012.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 1/141 um aðgerðir til að efla og auðvelda póstverslun, 11. október 2012, þskj. 241.
– Framkvæmd lokið.
    Forsætisráðherra skipaði starfshóp í byrjun apríl 2013. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum sínum 3. desember 2013. Hinn 13. desember 2013 samþykkti ríkisstjórnin að fela fjármála- og efnahagsráðherra að kanna frekar grundvöll tillagna starfshópsins og hrinda þeim í framkvæmd.

Þingsályktun 16/140 um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi, 20. mars 2012, þskj. 1020. – Framkvæmd lokið.
    Hinn 30. janúar 2013 skilaði verkefnastjórn um eflingu græna hagkerfisins á Íslandi aðgerðaáætlun til forsætisráðuneytisins á grundvelli þingsályktunarinnar. Þá skilaði verkefnastjórnin skýrslu til ráðuneytisins 13. mars 2014 um ráðstöfun fjármuna sem tengjast græna hagkerfinu á fjárlögum fyrir árið 2013.

Þingsályktun 19/140 um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, 11. maí 2012, þskj. 1297. – Framkvæmd lokið.
    Framkvæmd er lokið með forsetaúrskurði um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, nr. 99/2012.

Þingsályktun 17/140 um úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði, 21. mars 2012, þskj. 1032. – Framkvæmd lokið.
    Nefnd sem skipuð var af forsætisráðherra skilaði skýrslu og tillögum um bætta neytendavernd á fjármálamarkaði í apríl 2013.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 6/140 um norræna hollustumerkið Skráargatið, 16. febrúar 2012, þskj. 817.
– Framkvæmd lokið.
    Reglugerð nr. 999/2013 um notkun Skráargatsins við markaðssetningu matvæla var birt 12. nóvember 2013.

Þingsályktun 44/140 um stefnu um beina erlenda fjárfestingu, 11. júní 2012, þskj. 1497. – Framkvæmd lokið.
    Skýrsla Fjárfestingavaktarinnar var lögð fram í maí 2013 með vísan til þingsályktunarinnar.

Þingsályktun 4/140 um lagningu raflína í jörð, 1. febrúar 2012, þskj. 748. – Framkvæmd lokið.
    Þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína var samþykkt á Alþingi 28. maí 2015 (nr. 11/144). Byggðist hún á skýrslu nefndar um mótun stefnu um lagningu raflína í jörð sem lögð var fram í október 2013 með vísan til þingsályktunar 4/140.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umræddu tímabili.

INNANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 3/141 um fjögurra ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2014, 29. nóvember 2012, þskj. 592. – Framkvæmd lokið.
    Sjá skýrslu til Alþingis um framkvæmd fjarskiptaáætlunar.

Þingsályktun 4/141 um tólf ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2011–2022, 29. nóvember 2012, þskj. 593. – Framkvæmd lokið.
    Sjá skýrslu til Alþingis um framkvæmd fjarskiptaáætlunar.

Þingsályktun 48/140 um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022, 19. júní 2012, þskj. 1630. – Framkvæmd lokið.
    Sjá skýrslu til Alþingis um framkvæmd samgönguáætlunar.

Þingsályktun 49/140 um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland, 19. júní 2012, þskj. 1648. – Framkvæmd hafin.
    Unnið hefur verið að þessu verkefni um nokkurt skeið. Niðurstaða vinnunnar verður lögð til grundvallar löggæsluáætlun.

Þingsályktun 45/140 um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi, 11. júní 2012, þskj. 1511. – Framkvæmd hafin.
    Stýrihópur á vegum ríkislögreglustjóra er að störfum.

Þingsályktun 37/140 um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd, 24. maí 2012, þskj. 1407. – Framkvæmd lokið.
    Þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram 20. október 2012 í samræmi við þingsályktunina. Verkefninu lauk með birtingu landskjörstjórnar á niðurstöðum atkvæðagreiðslunnar.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 12/140 um vestnorrænt samstarf um listamannagistingu, 23. febrúar 2012, þskj. 871.
– Framkvæmd hafin og lokið að hluta.
    Ályktunin hefur verið rædd á fundi samstarfsráðherra og Vestnorræna ráðsins.
Árið 2007 var sett á fót nýtt norrænt stuðningskerfi fyrir þá listamenn sem vilja dvelja tímabundið annars staðar á Norðurlöndunum eða í Eystrasaltsríkjunum, svokallað norrænt ferða- og dvalarstyrkjakerfi. Allir þeir sem lögheimili eiga á Norðurlöndum eða Eystrasaltsríkjum geta sótt um stuðning í þennan sjóð. Norræna menningargáttin (KKN – Kulturkontakt Nord) annast umsjón þessa ferða- og dvalarstyrkjakerfis.
    Hér á landi reka ýmis listamannasamtök og önnur samtök gestaíbúðir fyrir lista- og fræðimenn, svo sem Samband íslenskra myndlistarmanna, Rithöfundasamband Íslands og Gunnarsstofnun.
    Í samstarfssamningi Vestnorrænu landanna sem gildir til ársloka 2014 er Íslandi falin ábyrgð á að koma á fót tengslanetum og dvalarstöðum í samstarfi landanna. Lista- og fræðimenn frá Færeyjum, Grænlandi og Íslandi hafa greiðan aðgang að norræna styrkjakerfinu og telst það ákvæði samningsins því hafa komist til fullnustu.

Þingsályktun 13/140 um ráðstefnu um tónlistarhefðir vestnorrænnu landanna og möguleika til tónlistarmenntunar til hagsbóta fyrir vestnorrænu löndin, 23. febrúar 2012, þskj. 872. – Framkvæmd lokið.
    Í tengslum við formennsku Íslands í norrænu samstarfi 2014 var efni þessarar ályktunar framkvæmt með norrænni ráðstefnu um menningarerfðir ásamt tónlistarhátíð henni tengdri sem fram fór á Akureyri 20.–23. ágúst. Meginefni ráðstefnunnar var þjóðtónlist og menntun listamanna í að viðhalda henni. Lista- og fræðimenn frá Vestnorrænu löndunum tóku virkan þátt í ráðstefnunni.
    Vestnorræna ráðið afskrifaði á fundi sínum í september ályktun nr. 6/2011, sem fjallar um sama efni, þar sem ályktunin þótti uppfyllt.

Þingsályktun 14/140 um vestnorrænt samstarf á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar, 23. febrúar 2012, þskj. 873. – Framkvæmd lokið.
    Í formennskuáætlun Íslands í norrænu samstarfi 2014 er veittur styrkur til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til að efna til málþings milli landanna í þeim tilgangi að auka tengsl milli landanna á sviði kvikmyndagerðar. Málþingið var haldið í október 2014.
    Vestnorræna ráðið afskrifaði á fundi sínum í september ályktun nr. 2/2011, sem fjallar um sama efni, þar sem ályktunin þótti uppfyllt.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 11/140 um vestnorrænt samstarf um meðferð á endurvinnanlegu brotajárni, 23. febrúar 2012, þskj. 870.
– Framkvæmd lokið.
    Í þingsályktun nr. 11/140 um vestnorrænt samstarf um meðferð á endurvinnanlegu brotajárni er skorað á ríkisstjórnina að láta, í samvinnu við Færeyjar og Grænland, skilgreina sameiginlega hagsmuni landanna með tilliti til meðferðar á endurvinnanlegu brotajárni og gefa Vestnorræna ráðinu skýrslu um hvernig meðferð þess er háttað í löndunum þremur.
    Ráðuneytið hefur með bréfum, dags. 3. september 2012 og 7. júní 2013, farið þess á leit við utanríkisráðuneytið að það láti Norðurlandaskrifstofu í té greinargerð ráðuneytisins um viðbrögð við ályktun Vestnorræna ráðsins 4/2011 um vestnorrænt samstarf um meðferð á endurvinnanlegu brotajárni. Í greinargerð ráðuneytisins er gerð grein fyrir hvernig meðferð brotajárns er háttað hérlendis. Ráðuneytið lýsir sig jafnframt tilbúið að kanna möguleika á samvinnu um meðferð brotajárns í löndunum þremur, komi fram ósk um það frá Færeyjum og Grænlandi.
    Ráðuneytið hefur samkvæmt framansögðu gert grein fyrir hvernig meðhöndlun á endurvinnanlegu brotajárni er háttað hér á landi. Ráðuneytinu hefur ekki borist ósk frá Færeyjum eða Grænlandi um að kannaðir verði möguleikar á samvinnu um meðferð brotajárns í löndunum þremur. Ráðuneytið telur að framkvæmd þessar þingsályktunartillögu sé af þeim sökum lokið.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 6/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 101/2012 um breytingu á bókun 31 (Um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins) við EES-samninginn, 22. desember 2012, þskj. 879.
– Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 4. mars 2013.

Þingsályktun 7/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2012 um breytingu á XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn, 22. desember 2012, þskj. 880. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 4. mars 2013.

Þingsályktun 8/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2012 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum) við EES-samninginn, 22. desember 2012, þskj. 881. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 4. mars 2013.

Þingsályktun 9/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 158/2012 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir, vottun) við EES-samninginn, 22. desember 2012, þskj. 882. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 4. mars 2013.

Þingsályktun 10/141 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2012 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 22. desember 2012, þskj. 883. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 4. mars 2013.

Þingsályktun 12/141 um fullgildingu viðbótarbókunar við samning á sviði refsiréttar um spillingu, 22. desember 2012, þskj. 885. – Framkvæmd lokið.
    Viðbótarbókunin var fullgilt af Íslands hálfu 15. febrúar 2013 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. júlí 2013.

Þingsályktun 10/140 um skilgreiningu á sameiginlegum hagsmunum Vestur-Norðurlanda í ljósi breyttrar stöðu norðurslóða í alþjóðakerfinu af völdum loftslagsbreytinga, 23. febrúar 2012, þskj. 869. – Framkvæmd lokið.
    Haldinn var samráðsfundur Vestnorræna ráðsins með utanríkisráðherra Íslands, lögmanni Færeyja og formanni landsstjórnar Grænlands í Reykjavík um málið sumarið 2014 í aðdraganda ársfundar Vestnorræna ráðsins. Í kjölfar ályktana ráðsins nr. 1/2011 og 2/2012 um málið er reglulegt samráð haft milli embættismanna á Íslandi, í Færeyjum og Grænlandi um málið, m.a. í aðdraganda funda í Norðurskautsráðinu. Þá hefur Alþingi samþykkt aðra þingsályktun sama efnis, nr. 12/143 (samþykkt 15. janúar 2014).

Þingsályktun 15/140 um fullgildingu Evrópuráðssamnings um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun, 15. mars 2012, þskj. 999. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 4. september 2012 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. janúar 2013.

Þingsályktun 8/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 97/2011 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn, 23. febrúar 2012, þskj. 867. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 21. mars 2012.

Þingsályktun 21/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 83/2011 um breytingu á XVI. viðauka (Opinber innkaup) við EES-samninginn, 11. maí 2012, þskj. 1303. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 6. september 2012.

Þingsályktun 9/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 54/2010 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn, 23. febrúar 2012, þskj. 868. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 5. september 2012.

Þingsályktun 32/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 67/2011 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) og IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn, 16. maí 2012, þskj. 1368. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 6. september 2012.

Þingsályktun 46/140 um samþykkt rammasamnings milli ríkisstjórnar Íslands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um reglur um samstarf er varðar fjárhagsaðstoð ESB við Ísland innan ramma stuðningsaðgerða sjóðs er fjármagnar aðstoð við umsóknarríki ESB (IPA), 18. júní 2012, þskj. 1614. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn var samþykktur af Íslands hálfu 20. júní 2012 og öðlaðist gildi 21. júní 2012.

Þingsályktun 22/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 119/2010 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 11. maí 2012, þskj. 1304. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 5. september 2012.

Þingsályktun 23/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2009 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 11. maí 2012, þskj. 1305. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 5. september 2012.

Þingsályktun 24/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2011 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 11. maí 2012, þskj. 1306. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 6. september 2012.

Þingsályktun 33/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2011 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 16. maí 2012, þskj. 1369. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 6. september 2012.

Þingsályktun 25/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 161/2011 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, 11. maí 2012, þskj. 1307. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 4. júlí 2012.

Þingsályktun 29/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 147/2009 um breytingu á XVIII. viðauka (Öryggi og hollustuhættir á vinnustöðum, vinnuréttur og jafnrétti kynjanna) við EES-samninginn, 16. maí 2012, þskj. 1365. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 5. september 2012.

Þingsályktun 26/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2011 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 11. maí 2012, þskj. 1308. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 6. september 2012.

Þingsályktun 31/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 120/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 16. maí 2012, þskj. 1367. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 5. september 2012.

Þingsályktun 18/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 76/2011 um breytingu á VI. viðauka (Félagslegt öryggi) við EES-samninginn, 25. apríl 2012, þskj. 1234. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 31. maí 2012.

Þingsályktun 30/140 um staðfestingu samnings um afhendingu vegna refsiverðrar háttsemi milli Norðurlandanna (norræn handtökuskipun), 16. maí 2012, þskj. 1366. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn var staðfestur af Íslands hálfu 6. mars 2012 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 16. október 2012.

Þingsályktun 20/140 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2012, 11. maí 2012, þskj. 1302. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir, sem einungis voru til eins árs, voru staðfestir af Íslands hálfu 1. mars 2012. Þeim var beitt til bráðabirgða frá 1. janúar 2012.

Þingsályktun 36/140 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Hong Kong, Kína, samnings um vinnumál milli sömu aðila og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Hong Kong, Kína, 16. maí 2012, þskj. 1372. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 22. júní 2012 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. október 2012.

Þingsályktun 34/140 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa og landbúnaðarsamnings milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa, 16. maí 2012, þskj. 1370. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 22. júní 2012 og öðluðust gildi 1. júlí 2014.

Þingsályktun 35/140 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Svartfjallalands og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Svartfjallalands, 16. maí 2012, þskj. 1371. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 22. júní 2012 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. október 2012.

Þingsályktun 28/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 19/2012 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 16. maí 2012, þskj. 1364. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 6. september 2012.

Þingsályktun 39/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 20/2012 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 1. júní 2012, þskj. 1445. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 6. september 2012.

Þingsályktun 40/140 um heimild til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 1. júní 2012, þskj. 1446. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var samþykkt sem ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 152/2012 hinn 26. júlí 2012. Ákvörðunin öðlaðist gildi 27. júlí 2012.

Þingsályktun 41/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2012 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, 1. júní 2012, þskj. 1447. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 4. júlí 2012.

Þingsályktun 42/140 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 78/2011 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 1. júní 2012, þskj. 1448. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin öðlaðist gildi 6. september 2012.

Þingsályktun 38/140 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2012, 24. maí 2012, þskj. 1408. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn, sem einungis var til eins árs, var staðfestur af Íslands hálfu 29. mars 2012. Honum var beitt til bráðabirgða frá 23. mars 2012.

VELFERÐARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 3/140 um staðgöngumæðrun, 18. janúar 2012, þskj. 702.
– Framkvæmd lokið.
    Starfshópur sem skipaður var í september 2012, í samræmi við þingsályktunina, skilaði frumvarpi til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni til heilbrigðisráðherra í febrúar 2015. Við undirbúning frumvarpsins leitaðist starfshópurinn við að raungera markmið Alþingis eins og þau birtast í þingsályktuninni. Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi 2014–2015 en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið var lagt fram að nýju á haustþingi 2015.

Þingsályktun 5/140 um reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara í forvarnaskyni, 16. febrúar 2012, þskj. 816. – Framkvæmd hafin.
    Þetta verkefni var hluti af þingsályktunartillögu um velferðarstefnu – heilbrigðisáætlun sem ekki fékk afgreiðslu í þinginu þegar hún var lögð fram 2012. Ráðherra stefnir að því að efla heilsugæsluna og heimahjúkrun um land allt. Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvort reglubundnar árlegar heimsóknir til eldri borgara verði hluti af almennri eflingu heilsugæslunnar og heimahjúkrunar.

Þingsályktun 43/140 um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014, 11. júní 2012, þskj. 1496. – Framkvæmd hafin.
    Unnið er að framkvæmdaáætluninni á ýmsum sviðum samfélagsins. Samráðshópur skipaður fulltrúum velferðarráðuneytis hefur fylgt áætluninni eftir og verkefnisstjóri um áætlunina hefur leitast við að samræma verkefni og hafa heildarsýn. Fjármögnun verkefna hefur ekki verið eins og ráð var fyrir gert en samráðshópur hefur forgangsraðað þeim fjármunum sem til staðar eru. Félags- og húsnæðismálaráðherra tók ákvörðun um að framlengja gildistíma áætlunarinnar um tvö ár. Hafin er vinna við gerð nýrrar stefnu.

Þingsályktun 27/140 um bætta heilbrigðisþjónustu og heilbrigði ungs fólks, 15. maí 2012, þskj. 1338. – Framkvæmd hafin.
    Þetta verkefni var hluti af þingsályktunartillögu um velferðarstefnu – heilbrigðisáætlun sem ekki fékk afgreiðslu í þinginu þegar hún var lögð fram 2012. Ekki liggur fyrir ákvörðun um hvernig þessi þingsályktun verður framkvæmd meðan ný heilbrigðisáætlun hefur ekki verið samþykkt.

Staðan á framkvæmd ályktana frá árinu 2011.


FORSÆTISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 19/139 um skipun stjórnlagaráðs, 24. mars 2011, þskj. 1120.
– Framkvæmd lokið.
    Stjórnlagaráð lauk störfum 29. júlí 2011 með því að forseta Alþingis var afhent frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Ráðið var síðan kvatt saman að nýju 8.–11. mars 2012 til að fjalla um spurningar og ábendingar stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Þingsályktun 33/139 um menntun og atvinnusköpun ungs fólks, 7. júní 2011, þskj. 1654. – Framkvæmd lokið.
    Starfshópur um samþættingu mennta- og atvinnumála skilaði í nóvember 2012 skýrslu með tillögum sínum til forsætisráðherra.

Þingsályktun 44/139 um prófessorsstöðu tengda nafni Jóns Sigurðssonar forseta, 15. júní 2011, þskj. 1812. – Framkvæmd lokið.
    Háskóla Íslands var veitt fjárveiting fyrir stöðunni og var skipað í hana frá og með 1. apríl 2012.

Þingsályktun 1/140 um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi Palestínu, 29. nóvember 2011, þskj. 407. – Framkvæmd lokið.
    Nýr sendiherra Íslands gagnvart Palestínu afhenti trúnaðarbréf sitt 11. mars 2012.

ATVINNUVEGA- OG NÝSKÖPUNARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 23/139 um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010–2013, 15. apríl 2011, þskj. 1328.
– Framkvæmd lokið.
    Byggðastofnun skilaði drögum að skýrslu til ráðuneytisins í nóvember 2014 um mat ábyrgðaraðila einstakra tillagna. Skýrslan hefur ekki verið kynnt á Alþingi.

Þingsályktun 24/139 um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi, 2. maí 2011, þskj. 1350. – Framkvæmd lokið.
    Unnið hefur verið að kjarnsýnatöku í samræmi við þingsályktunina. Verkefni lokið.

Þingsályktun 34/139 um ferðamálaáætlun 2011–2020, 7. júní 2011, þskj. 1657. – Framkvæmd lokið.
    Ferðamálastofa hefur unnið samantekt um stöðu aðgerða sem kveðið er á um í Ferðamálaáætlun 2011–2020. Ný ferðamálastefna til ársins 2030 var kynnt í október 2015.

Þingsályktun 35/139 um orkuskipti í samgöngum, 7. júní 2011, þskj. 1658. – Framkvæmd lokið.
    Iðnaðarráðherra lagði fram skýrslu verkefnastjórnar um orkuskipti í samgöngum (þskj. 453) á 140. löggjafarþingi 2011–2012. Hún fól í sér aðgerðaáætlun sem unnið hefur verið eftir síðan. Skýrsla samin af Grænu orkunni, samstarfsvettvangi um orkuskipti, var lögð fram af iðnaðar- og viðskiptaráðherra á 144. löggjafarþingi 2014–2015 (þskj. 1476) og felur í sér stöðumat á orkuskiptum á Íslandi ásamt nýjum tillögum.

Frumvarpi til laga um sölu sjávarafla o.fl. vísað til ríkisstjórnarinnar, sbr. nefndarálit frá 31. mars 2011, þskj. 1265. – Framkvæmd lokið.
    Endurskoðun fiskveiðistjórnarlaga náði ekki fram að ganga á síðasta þingi.

Þingsályktun 55/139 um samvinnu milli vestnorrænu ríkjanna um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum, 16. september 2011, þskj. 1967. – Framkvæmd lokið.
    Samvinna þessara ríkja á sér þegar stað innan Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar (NEAFC) auk samvinnu á tví- og þríhliða grundvelli.

FJÁRMÁLA- OG EFNAHAGSRÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið fjármála- og efnahagsráðuneytisins á umræddu tímabili.

INNANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 14/139 um flug til Grænlands um Ísafjarðarflugvöll, 16. mars 2011, þskj. 1063. – Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var ráðherra falið að gera úttekt á kostnaði og mögulegum leiðum til þess að tryggja að á Ísafjarðarflugvelli verði nægjanlegur búnaður og aðstaða til að unnt verði að sinna þaðan flugi til Grænlands. Úttektina og niðurstöður hennar skyldi kynna samgöngunefnd Alþingis. Þingsályktunin var send ISAVIA og Flugmálastjórn til skoðunar. Niðurstöður úr könnun málsins liggja nú fyrir.

Þingsályktun 15/139 um úttekt á gerð göngubrúar yfir Ölfusá við Selfoss, 16. mars 2011, þskj. 1064. – Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var ráðherra falið að láta meta kosti þess að gera göngubrú yfir Ölfusá við Selfoss og meta kostnað við slíka framkvæmd. Ráðherra fól Vegagerðinni að gera umrædda úttekt og lá hún fyrir í febrúar sl. Í henni kemur fram að líklegir staðir fyrir göngubrú séu rétt fyrir neðan og rétt fyrir ofan brúna yfir Ölfusá. Þetta mun hafa þau áhrif að umferðaröryggi mun aukast á brúnni sem er þó gott fyrir. Rýmra verður um alla umferð þegar hægt verður að taka þann hluta sem nú er notaður fyrir gangandi og hjólandi fólk undir bílaumferð. Þá mun brúin falla að skipulagi sveitarfélagsins en misvel eftir kostum. Ekki var metinn kostnaður við stíga og lagnir sem þó þarf að leggja heldur eingöngu kostnaður við brúna sjálfa. Sá kostnaður er metinn um 380 m.kr.

Þingsályktun 16/139 um kynningarefni um Icesave-samningana fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, 17. mars 2011, þskj. 1072. – Framkvæmd lokið.
    Samið var við Lagastofnun Háskóla Íslands um útgáfu á kynningarefni sem dreift var á öll heimili á landinu auk þess sem opnuð var vefsíða með kynningarefni.

Þingsályktun 21/139 um úttekt á öryggisbúnaði Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs, 31. mars 2011, þskj. 1204. – Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var ráðherra falið að gera könnun á nauðsyn þess að endurnýja björgunarbúnað Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs og kynna samgöngunefnd Alþingis niðurstöður könnunarinnar.
    Könnun á öryggisbúnaði Herjólfs fór fram á árinu 2011. Var niðurstaðan sú að sá öryggisbúnaður sem nú er í Herjólfi uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til slíks búnaðar og sé nægilegur á þeim siglingaleiðum sem Herjólfur hefur heimildir til að sigla á. Var Alþingi tilkynnt um þá niðurstöðu með bréfi dags. 12. maí 2011.

Þingsályktun 29/139 um göngubrú yfir Markarfljót, 17. maí 2011, þskj. 1437. – Framkvæmd lokið.
    Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að hefja undirbúning að smíði göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal. Vegagerðin hefur áætlað kostnað við framkvæmdirnar í heild um 200 m.kr. Væntanlega væri hægt að framkvæma verkefnið í einhverjum áföngum, þótt brúin sjálf, ásamt varnargörðum, þyrfti að byggjast í einum áfanga.
    Á fjárlögum fyrir árið 2013 var 45 m.kr. fjárveiting til verkefnisins. Hún var síðan felld niður sem hluti af niðurskurði sem Vegagerðin varð fyrir. Ekki var fjárveiting til verkefnisins árið 2014.

Þingsályktun 54/139 um eflingu samgangna milli Vestur-Norðurlanda, 16. september 2011, þskj. 1966. – Framkvæmd ekki hafin.
    Með þingsályktuninni var ríkisstjórninni falið að stofna vinnuhóp, í samvinnu við Færeyjar og Grænland og með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar til að vinna tillögur til eflingar innviða flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlandanna í þágu aukins samstarfs á sviði ýmiss konar viðskipta og þjónustu, auk vöru- og farþegaflutninga á milli landanna. Verkefnið hefur ekki náð fram að ganga vegna fjárskorts.

MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI
Þingsályktun 22/139 um eflingu skapandi greina, 7. apríl 2011, þskj. 1279.
– Framkvæmd hafin.
    Tvær skýrslur hafa verið gefnar út um skapandi greinar, annars vegar „Kortlagning á hagrænum áhrifum skapandi greina“ frá 2011 og hins vegar „Skapandi greinar – sýn til framtíðar“. Á grundvelli síðari skýrslunnar var skipaður samstarfshópur um uppbyggingu skapandi greina. Hlutverk hópsins er að vinna að samræmdri uppbyggingu skapandi greina og gera tillögur til stjórnvalda um nauðsynlegar aðgerðir og fylgja þeim eftir. Skipunartími er til 31. janúar 2016. Tillögur liggja ekki fyrir enn sem komið er en meðal þess sem lögð er áhersla á er að tölfræði verði aðgengileg, efld verði menntun á sviði skapandi greina á öllum skólastigum sem og að stjórnir sjóða á vegum ráðuneyta hafi einnig á að skipa einstaklingum sem hafa þekkingu á þessu sviði. Beðið er eftir niðurstöðum nefndar.

Þingsályktun 56/139 um samvinnu milli ríkissjónvarpsstöðva vestnorrænu ríkjanna, 16. september 2011, þskj. 1968. – Framkvæmd lokið.
    Vísað er til svars fyrr í þessari skýrslu varðandi þingsályktun 14/140 um vestnorrænt samstarf á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar, 23. febrúar 2012, þskj. 873.

UMHVERFIS- OG AUÐLINDARÁÐUNEYTI
    Engar ályktanir Alþingis féllu undir verkefnasvið umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á umræddu tímabili.

UTANRÍKISRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 4/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1053.
– Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011. Hún öðlaðist gildi 1. júlí 2013.

Þingsályktun 5/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1054. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 16. júní 2011 og öðlaðist gildi 1. ágúst 2011.

Þingsályktun 6/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 16/2009 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1055. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.

Þingsályktun 7/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1056. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.

Þingsályktun 8/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1057. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.

Þingsályktun 9/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 32/2010 um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1058. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011. Hún öðlaðist gildi 1. maí 2013.

Þingsályktun 10/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1059. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.

Þingsályktun 11/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1060. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 1. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.

Þingsályktun 12/139 um heimild til staðfestingar tveggja ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 16. mars 2011, þskj. 1061. – Framkvæmd lokið.
    Ákvarðanirnar voru teknar af sameiginlegu EES-nefndinni 1. apríl 2011 og öðluðust gildi 2. apríl 2011.

Þingsályktun 13/139 um gerð samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga, 16. mars 2011, þskj. 1062. – Framkvæmd lokið.
    Í 7. kafla skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, sem lögð var fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi, er gerð grein fyrir stefnumörkun utanríkisráðherra varðandi gerð fjárfestingasamninga við önnur ríki (sjá 593. mál, þskj. 1007, bls. 109).

Þingsályktun 17/139 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 87/2009 og nr. 126/2010 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 22. mars 2011, þskj. 1090. – Framkvæmd lokið.
    Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 24. maí 2011 og öðluðust gildi 1. júlí 2011.

Þingsályktun 18/139 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 55/2010 og nr. 124/2010 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 22. mars 2011, þskj. 1091. – Framkvæmd lokið.
    Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 13. maí 2011 og öðluðust gildi 1. júlí 2011.

Þingsályktun 20/139 um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, 28. mars 2011, þskj. 1148. – Framkvæmd lokið.
    Í 2. kafla skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, sem lögð var fyrir Alþingi á 141. löggjafarþingi, er fjallað um framkvæmd norðurslóðastefnunnar (sjá 593. mál, þskj. 1007, bls. 13–17).

Þingsályktun 25/139 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Albaníu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Albaníu, 17. maí 2011, þskj. 1433. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðluðust þeir gildi að því er Ísland varðar 1. október sama ár.

Þingsályktun 26/139 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Perús og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Perús, 17. maí 2011, þskj. 1434. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. október sama ár.

Þingsályktun 27/139 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Serbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Serbíu, 17. maí 2011, þskj. 1435. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. október sama ár.

Þingsályktun 28/139 um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Úkraínu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Úkraínu, 17. maí 2011, þskj. 1436. – Framkvæmd lokið.
    Samningarnir voru fullgiltir af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðluðust gildi 1. júní 2012.

Þingsályktun 31/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 102/2010 um breytingu á X. viðauka (Almenn þjónusta) við EES-samninginn, 27. maí 2011, þskj. 1568. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 16. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.

Þingsályktun 32/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 86/2009 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 27. maí 2011, þskj. 1569. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 16. september 2011 og öðlaðist gildi 1. nóvember 2011.

Þingsályktun 36/139 um staðfestingu samnings milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur, 10. júní 2011, þskj. 1722. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn var staðfestur af Íslands hálfu 29. júní 2011 og öðlaðist gildi 3. október 2011.

Þingsályktun 37/139 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2011, 10. júní 2011, þskj. 1723. – Framkvæmd lokið.
    Samningunum, sem einungis voru til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá og með 1. janúar 2011. Þeim var ekki veitt formlegt gildi.

Þingsályktun 38/139 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2011, 10. júní 2011, þskj. 1724. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn, sem einungis var til eins árs, öðlaðist gildi til bráðabirgða 22. febrúar 2011. Honum var ekki veitt formlegt gildi.

Þingsályktun 39/139 um heimild til staðfestingar ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XIII. viðauka (Flutningastarfsemi) við EES-samninginn, 10. júní 2011, þskj. 1725. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var tekin af sameignlegu EES-nefndinni 19. desember 2011 og öðlaðist gildi 1. mars 2013.

Þingsályktun 40/139 um fullgildingu Singapúr-samnings um vörumerkjarétt, 10. júní 2011, þskj. 1731. – Framkvæmd lokið.
    Ísland fullgilti samninginn 5. september 2012 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 14. desember sama ár.

Þingsályktun 41/139 um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011–2014, 10. júní 2011, þskj. 1732. – Framkvæmd lokið.
    Í mars 2013 samþykkti Alþingi þingsályktun 21/141 um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013–2016 sem tók við af þingsályktun 41/139. Gefin var út skýrsla um framkvæmd þingsályktunar 41/139 fyrir tímabilið 2011–2012.

Þingsályktun 45/139 um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, 16. september 2011, þskj. 1945. – Framkvæmd hafin.
    Þingmannanefnd um mótun þjóðaröryggistefnu fyrir Ísland skilaði tillögum til utanríkisráðherra í febrúar 2014. Þingsályktunartillaga um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem byggist á tillögum þingmannanefndarinnar, var lögð fram á 144. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Þingsályktunartillagan hefur verið lögð fram á ný á yfirstandandi 145. löggjafarþingi 2015–2016.

Þingsályktun 46/139 um fullgildingu Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum, 16. september 2011, þskj. 1951. – Framkvæmd lokið.
    Samningurinn var fullgiltur af Íslands hálfu 7. október 2011 og öðlaðist gildi hvað Ísland varðar 18. janúar 2012.

Þingsályktun 47/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2008 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfisvernd) við EES-samninginn, 16. september 2011, þskj. 1959. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.

Þingsályktun 48/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) og XII. viðauka (Frjálsir fjármagnsflutningar) við EES-samninginn, 16. september 2011, þskj. 1960. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.

Þingsályktun 49/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn, 16. september 2011, þskj. 1961. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.

Þingsályktun 50/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 35/2010 um breytingu á XIX. viðauka (Neytendavernd) við EES-samninginn, 16. september 2011, þskj. 1962. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.

Þingsályktun 51/139 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 85/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, 16. september 2011, þskj. 1963. – Framkvæmd lokið.
    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 10. nóvember 2011 og öðlaðist gildi 1. janúar 2012.

Þingsályktun 52/139 um athugun á fyrirkomulagi fraktflutninga við austurströnd Grænlands, 16. september 2011, þskj. 1964. – Framkvæmd hafin.
    Í tengslum við heimsókn Kuupik Kleist, formanns grænlensku landstjórnarinnar, í september 2011, óskaði utanríkisráðuneytið eftir að ræða fyrirkomulag fraktflutninga við austurströnd Grænlands. Í aðdraganda þess fundar töldu grænlensk stjórnvöld ekki tímabært að taka það til umræðu þar sem málið væri til skoðunar hjá samgöngunefnd grænlenska þingsins. Í sama mánuði kom út ítarleg úttekt á vegum innviða- og samgönguráðuneytis Grænlands (d. Undersøgelse af mulighederne for alternativ godsforsyning af Østgrønland). Í úttektinni er í meginatriðum lagst gegn því að miklar breytingar verði gerðar á fyrirkomulagi fraktflutninga við austanvert Grænland. Vegna fyrirkomulags á siglingum og þjónustu milli Danmerkur og Grænlands hefur málið lítið hreyfst.

Frumvarpi til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og bann við umferð kjarnorkuknúinna farartækja vísað til ríkisstjórnarinnar, sbr. nefndarálit frá 29. ágúst 2011, þskj. 1826. – Framkvæmd lokið.
    Nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu fjallaði um málið. Nefndin skilaði tillögum sínum til utanríkisráðherra í febrúar 2014.

VELFERÐARRÁÐUNEYTI
Þingsályktun 30/139 um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára, 19. maí 2011, þskj. 1480.
– Framkvæmd lokið.
    Skýrsla félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála 2011–2013 ásamt greinargerð um framkvæmd áætlunar í jafnréttismálum var lögð fram 1. nóvember 2013 á jafnréttisþingi. Þar kemur fram staðan á verkefnum áætlunarinnar. Flestum verkefnunum er lokið. Önnur verkefni eru viðvarandi. Vinnu við gerð nýrrar þingsályktunartillögu um framkvæmd jafnréttismála til næstu fjögurra ára, 2015–2018, er lokið og verður hún lögð fram á yfirstandandi löggjafarþingi.

Þingsályktun 53/139 um vestnorrænt samstarf til að bæta aðstæður einstæðra foreldra á Vestur-Norðurlöndum, 16. september 2011, þskj. 1965. – Framkvæmd lokið.
    Efni þingsályktunarinnar var tekið upp að hluta á ráðstefnu NORA í Reykjavík í nóvember 2012. Það var einnig rætt með öðru á fundi vestnorrænna ráðherra heilbrigðismála sem haldinn var á Ísafirði 14. janúar 2013. Það var einnig rætt í tengslum við fund Vestnorræna ráðsins sem haldinn var á Ísafirði 14.–17. janúar 2013.