Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 108. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 507  —  108. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum (fyrningarfrestur).

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Annar minni hluti styður eindregið þau meginmarkmið sem frumvarpinu er ætlað að ná. Þau markmið lúta að því að stytta fyrningarfrest á kröfum, eða þeim hluta þeirra sem ekki fást greiddar úr vösum einstaklinga sem lenda í svo alvarlegum fjárhagsvanda að hann leiðir til gjaldþrots. Með því að lögfesta slíka styttingu fyrningarfrests er ætlunin sú að auðvelda þeim einstaklingum sem teknir hafa verið til gjaldþrotaskipta, en bera áfram ábyrgð á skuldum sem ekki hafa fengist greiddar við gjaldþrotaskiptin, að koma fjármálum sínum á réttan kjöl, rísa aftur á lappirnar í stað þess að vera eltir af skuldheimtumönnum sínum út yfir gröf og dauða vegna óuppgerðra skulda eins og núverandi fyrirkomulag gerir kleift.
    Núverandi löggjöf um gjaldþrotaskipti er ósanngjörn og ómannúðleg fyrir þá einstaklinga sem verða gjaldþrota, ekki síst vegna þess að löggjöfin heimilar kröfuhöfum að viðhalda ógreiddum kröfum sínum á hendur þeim við út í hið óendanlega. Það fyrirkomulag hefur leitt til þess að þeir einstaklingar sem verða gjaldþrota eiga sér vart fjárhagslegrar viðreisnar von eftir gjaldþrot. Það fyrirkomulag hefur haft í för með sér félagsleg vandamál fyrir þá sem í slíkum aðstæðum lenda og leiðir oftar en ekki til þess að þeir einstaklingar sjá hagsmunum sínum best borgið með því að stunda svarta atvinnustarfsemi til þess að sjá sér farborða. Við blasir að núverandi löggjöf verður að breyta.
    Með framlagningu málsins hefur verið ýtt undir miklar væntingar hjá þeim einstaklingum sem lent hafa í alvarlegum fjárhagserfiðleikum um að frumvarpið leysi vanda þeirra þannig að innan skamms tíma geti þeir losnað undan óbærilegum skuldum sínum og í raun byrjað að honum liðnum nýtt líf með hreint borð.
    Því miður telur 2. minni hluti að frumvarp dómsmála- og mannréttindaráðherra standi ekki undir þessum væntingum og nái því ekki þeim markmiðum sem að er stefnt þar sem það úrræði sem lagt er til að lögfest verði nýtist ekki þeim sem frumvarpinu er ætlað að hjálpa, þ.e. venjulegu fólki sem lent hefur í alvarlegum fjárhagsvanda.
    Í því sambandi er mikilvægt að geta þess að við meðferð málsins í nefndinni kom fram gjaldþrot einstaklinga eru fá og raunar mun færri en ætla má af opinberri umræðu. Samkvæmt upplýsingum sem fram koma í umsögn frá Creditinfo hefur gjaldþrotum einstaklinga fækkað verulega frá árinu 2003. Það ár voru 388 einstaklingar úrskurðaðir gjaldþrota. Árið 2004 voru þeir 279, 190 árið 2005 og 107 árið 2006. Árið 2007 voru bú 148 einstaklinga tekin til gjaldþrotaskipta á móti 198 árið 2008. Árið 2009 voru hins vegar 113 einstaklingar úrskurðaðir gjaldþrota og það sem af er árinu 2010 eru þeir einnig 113.
    Á sama tímabili er árangurslaust fjárnám gert að jafnaði hjá um 5.000 einstaklingum á ári, en slík fullnustugerð veitir öllum lánveitendum eða kröfuhöfum rétt til þess að krefjast gjaldþrotaskipta hjá þeim skuldara sem gert er árangurslaust fjárnám hjá. Af framangreindum tölum um fjölda gjaldþrotaskipta einstaklinga á ári má sjá að einungis í undantekningartilvikum leiðir árangurslaust fjárnám til þess að krafist er gjaldþrotaskipta hjá einstaklingum. Ekki hafa verið lögð fram gögn í nefndinni um það hvers eðlis þær kröfur eru sem leiða til þess að þess er krafist að bú einstaklings verði tekið til gjaldþrotaskipta. Engu síður hefur verið fullyrt að í langflestum framangreindum tilvikum, sem getið er um í gögnum frá Creditinfo, séu kröfur um gjaldþrotaskipti á búum einstaklinga tilkomnar vegna skattskulda, einkum vanskila á virðisaukaskatti. 2. minni hluti bendir á að slík vanskil eru refsiverð og hafa af þeim ástæðum alvarlegri afleiðingar í för með sér fyrir þann einstakling sem ekki stendur skil á virðisaukaskatti en úrskurður um gjaldþrotaskipti.
    Samkvæmt því sem fram hefur komið hjá umsagnaraðilum sem allsherjarnefnd leitaði til eru ástæður þess að árangurslaus fjárnám leiða ekki til þess að lagðar eru fram kröfur um að bú einstaklinga verði tekin til gjaldþrotaskipta einkum þríþættar.
    Í fyrsta lagi er krafa um gjaldþrotaskipti kostnaðarsöm fyrir þann kröfuhafa sem það gerir. Með hverri beiðni um gjaldþrotaskipti á búi einstaklings þarf viðkomandi kröfuhafi að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði sem nemur 250.000 kr. með Því má ljóst vera að kröfuhafar þyrftu að leggja út gríðarlegar fjárhæðir til tryggingar fyrir skiptakostnaði allra þeirra einstaklinga sem gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá. Tölur um fjölda þeirra einstaklinga sem krafist hefur verið úrskurðar um gjaldþrotaskipti hjá benda líka til þess að kröfuhafar sjái sér ekki fjárhagslegan hag í því að leggja út í slíkan kostnað, að líkindum af þeim ástæðum að í flestum tilvikum eru ekki eignir í búum viðkomandi einstaklinga sem standa undir því að sá kostnaður fáist endurgreiddur við skipti.
    Í öðru lagi hefur verið bent á að í flestum tilvikum þyki ólíklegt að úrskurður um gjaldþrotaskipti skili kröfuhöfum árangri við innheimtu kröfu sinnar. Í flestum tilvikum séu bú þeirra sem gert hefur verið árangurslaust fjárnám hjá eignalaus eða mjög eignalítil og því svari það ekki kostnaði að ganga lengra við fullnustu krafnanna.
    Í þriðja lagi hefur verið á það bent að árangurslaust fjárnám veitir kröfuhöfum heimild til að afskrifa kröfur sínar án athugasemda frá skattyfirvöldum.
    Af þessum ástæðum sýni reynslan að kröfuhafar láti í langflestum tilvikum við það sitja að krefjast árangurslauss fjárnáms hjá þeim einstaklingum sem ekki eru í færum til að greiða kröfur sínar, en að í fæstum tilvikum leiði slík fullnustugerð til gjaldþrotaskipta. Einungis í undantekningartilvikum sjái kröfuhafar sér hins vegar hag í því að krefjast gjaldþrotaskipta á búi einstaklinga í kjölfar þess að gert er árangurslaust fjárnám í eignum þeirra. Eins og áður segir virðist slík krafa í langflestum tilvikum koma fram þegar einstaklingur hefur vangreitt virðisaukaskatt, en þó eru dæmi um að krafist hafi verið gjaldþrotaskipta á búum einstaklinga og þá væntanlega í tilvikum þar sem kröfuhafar telja að slíkt skili frekari árangri við innheimtu krafna. Hefur þar einkum verið vísað til gjaldþrotaskipta sem óskað hefur verið eftir í búum forsvarsmanna umsvifamikilla fyrirtækja í íslensku atvinnulífi sem stóðu í útrás en voru úrskurðuð gjaldþrota í kjölfar efnahagshrunsins. Verði frumvarpið að lögum er ljóst að hin nýja regla um fyrningu skulda að tveimur árum liðnum mun nýtast þeim einstaklingum afar vel þar sem þeir gætu með lögfestingu frumvarpsins gengið frá skuldum sínum einungis tveimur árum frá lokum skipta.
    Þá er þess að geta að ákvæði frumvarpsins kunna að nýtast einstaklingum sem óska sjálfir eftir gjaldþrotaskiptum á eigin búi sjái kröfuhafar þeirra sér ekki hag í því að leggja fram slíka eða önnur atvik leiða til þess að einstaklingur telur hag sínum best borgið með því að gera það sjálfur. Í því sambandi ber að hafa í huga að einstaklingur sem krefst gjaldþrotaskipta á sínu eigin búi þarf eftir sem áður að leggja fram tryggingu að fjárhæð 250.000 kr. fyrir skiptakostnaði. Þess finnast vissulega dæmi að einstaklingur sem var umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi hafi sjálfur lagt fram beiðni um að bú hans yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Ákvæði frumvarpsins munu koma slíkum aðilum til góða, tveimur árum frá lokum skipta þrotabúsins, verði frumvarpið að lögum. 2. minni hluti bendir hins vegar á að venjulegt fólk sem lent hefur í svo alvarlegum fjárhagsvanda að það sér þá einu þrautalendingu í sínum fjárhagsmálum að óska sjálft eftir því að verða tekið til gjaldþrotaskipta hlýtur í ljósi þeirrar stöðu að vera svo illa statt fjárhagslega að það sé ekki í fjárhagslegum færum til þess að leggja fram 250.000 kr. tryggingu fyrir skiptakostnaði að sú leið verður ekki fær. Frumvarp þetta kemur ekki í veg fyrir að þessi hópur skuldara þurfi að komast yfir þá hindrun sem 250.000 kr. trygging fyrir skiptakostnaði hlýtur að vera fyrir þann hóp skuldara. Þeir einstaklingar sem þannig er ástatt um, sem er væntanlega þorri þess fólks sem frumvarpinu er ætlað að aðstoða, munu því fyrirsjáanlega ekki geta óskað formlega eftir gjaldþrotaskiptum á eigin búi, og þar með njóta þeirra úrræða sem frumvarpið mælir fyrir um, heldur munu þeir eftir sem áður sitja uppi með árangurslaust fjárnám í eignum sínum og óbreyttar aðstæður gagnvart kröfuhöfum.
    Í ljósi alls þess sem að framan greinir telur 2. minni hluti allt benda til þess að það úrræði sem frumvarpið mælir fyrir um muni nýtast mun færri einstaklingum en stefnt er að og allra síst venjulegu skuldugu fólki sem því er ætlað að hjálpa.
    Annar minni hluti bendir jafnframt á að þeim sjónarmiðum hefur verið hreyft í nefndinni við vinnslu málsins að með því að lögfesta það úrræði sem frumvarpið mælir fyrir um kunni það að leiða til þess að færri einstaklingar leiti sér greiðsluaðlögunar hjá embætti umboðsmanns skuldara og að gjaldþrot kunni að verða fýsilegra úrræði fyrir skuldara en greiðsluaðlögun einstaklinga. Slík þróun yrði að mati 2. minni hluta ekki til heilla þar sem gjaldþrot hljóti á endanum alltaf að vera þrautalending sem forðast beri í lengstu lög og ekki eigi að beita fyrr en öll önnur úrræði hafa verið reynd. Frumvarp þetta kann hins vegar að leiða til þess að gjaldþrot kunni að verða fýsilegri kostur fyrir einhvern hóp einstaklinga en sá að leita sér greiðsluaðlögunar.
    Annar minni hluti styður breytingartillögu meiri hlutans á gildistökuákvæði frumvarpsins sem varðar lagaskil og telur hana til bóta. Við meðferð málsins í nefndinni komu fram sjónarmið um að rétt væri að reglan næði einnig til fyrningar á þeim kröfum sem gjaldþrotaskiptum hefði verið lokið í þar sem ella næði reglan ekki markmiðum sínum og gæti verið ósanngjörn gagnvart einstaklingum sem þegar hafa farið í þrot. Af þeirri ástæðu telur 2. minni hluti skynsamlegt að við gildistökuákvæði frumvarpsins bætist að lögin taki einnig til krafna við gjaldþrotaskipti sem ólokið er við gildistöku laganna og að hinn nýi fyrningarfrestur taki einnig til krafna sem ekki fengust greiddar við gjaldþrotaskipti fyrir gildistöku laganna og ekki eru fyrndar þannig að um þær gildi fyrningartími, þ.e. tvö ár, nema skemmri tími standi eftir af fyrningarfresti. Fyrningu þeirra krafna verði því aðeins slitið eftir reglum þessa frumvarps.
    Enn fremur styður 2. minni hluti breytingartillögu meiri hlutans sem mælir fyrir um það að verði frumvarpið að lögum skuli reynslan af þeim metin og að fram fari endurskoðun á ákvæðinu innan fjögurra ára. Með frumvarpinu eru lagðar til grundvallarbreytingar á lögum um gjaldþrotaskipti og fyrningu krafna sem óvíst er, eins og að framan greinir, að nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Því sé nauðsynlegt að reynslan af lagabreytingunni verði metin og lögin endurskoðuð eftir atvikum þyki tilefni til.

Alþingi, 14. des. 2010.



Sigurður Kári Kristjánsson,


frsm.


Birgir Ármannsson.