Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 594  —  313. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld.

Frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Í frumvarpinu er að finna tillögur að breytingum á mörgum lögum af margvíslegu tilefni. Tekur frumvarpið til þrettán meginbreytinga á ýmsum lögum. Þá eru nokkrar tæknilegar breytingar til leiðréttingar en samtals er frumvarpið 58 greinar.

Skattur á tekjur af innlánsreikningum í erlendri mynt.
    Þær breytingar sem gerðar voru á skattlagningu á þessum reikningum fyrir ári reyndust óframkvæmanlegar eins og undirritaðir bentu reyndar á. Nú er tekin upp sú skynsamlega leið að skattleggja tekjur af slíkum reikningum þegar fé er tekið út. Reikna verður með að þar sé átt við hækkun (eða lækkun) á gengi frá ársbyrjun 2009 ef innstæða var þá til staðar en annars frá því að elsta innlögn átti sér stað sem notuð er til úttektarinnar. Ef sú fjárhæð dugir ekki til er á sama hátt miðað við næstu innlögn o.s.frv. Litið skal á inngreiðslu vaxta sem venjulega innlögn. Eftir sem áður getur orðið hagnaður af einum gjaldeyrisreikningi og tap á öðrum gjaldeyrisreikningi í eigu sama manns sem eðlilegt væri að kæmu til frádráttar við uppgjör fjármagnstekjuskatta í árslok ásamt með hugsanlegu tapi af verðtryggðum reikningum og afskrifuðum fjármagnseignum.

Söluhagnaður við sölu íbúðar látins manns.
    Hér er leiðrétting á galla sem komið hefur upp þegar dánarbú fær íbúð hins látna til ráðstöfunar sem er mjög algengt. Ef dánarbúið verður að selja íbúðina kemur söluhagnaðurinn til skattlagningar á sama hátt og ef um fyrirtæki væri að ræða. Ber að fagna þessu með hliðsjón af því að þessi hagnaður (eða það sem eftir er af honum) er svo skattlagður aftur sem arfur. 1. minni hluti telur að dánarbú ættu að vera algerlega skattfrjáls þar sem einungis er um flutning á eignum á milli kynslóða að ræða sem skattlögð eru sem slík með erfðafjárskatti. Gerir 1. minni hluti tillögu að lagabreytingu í þessu skyni.

Réttur einstaklinga sem búsettir eru erlendis, og fá 75% tekna sinna frá Íslandi, til að njóta skattskyldu hér á landi.
    Lagt er til að þeir einstaklingar sem búsettir eru erlendis, og fá sem nemur eigi minna en 75% heildartekna sinna á tekjuárinu frá Íslandi, geti átt rétt á því að verða skattlagðir með sama hætti og einstaklingar búsettir hér á landi, stafi meiri hluti tekna þeirra frá Íslandi. 1. minni hluti fagnar þessari breytingu enda er hún í samræmi við túlkun Evrópudómstólsins á reglum ESB-réttar um frjálsa för launþega, sem eiga sér hliðstæðu í EES-samningnum, að ríki beri að veita einstaklingum í slíkri stöðu sama skattalega hagræði og veitt er aðilum með ótakmarkaða skattskyldu í ríkinu.

Skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda hjá lögaðilum og aðilum í sjálfstæðum atvinnurekstri.
    Í 13. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar sem eru hluti af aðgerðum sem rekja má til samstarfs stjórnvalda, fjármálafyrirtækja og hagsmunasamtaka um úrlausn á skuldavanda fyrirtækja. Breytingarnar eru tímabundnar en 1. minni hluti bendir á það skilyrði sem sett er fram í ákvæðunum að fyrirtæki megi ekki vera samsköttuð á því tímabili þegar eftirgjöf skulda er tekjufærð. Staðan er hins vegar sú að fjölmörg fyrirtæki hérlendis eru samsköttuð. Það að slíta samsköttun getur haft í för með sér verulegt fjárhagslegt óhagræði og gerir 1. minni hluti athugasemdir við þetta skilyrði. Enn fremur gerir 1. minni hluti alvarlegar athugasemdir við bann við útgreiðslu arðs til 2015 í þeim fyrirtækjum sem fá felldar niður skuldir og telur 1. minni hluti að of langt sé gengið. Viðkomandi bann geti komið í veg fyrir að nýir aðilar eignist hlut í viðkomandi fyrirtækjum, en það gæti einmitt styrkt eiginfjárstöðu þeirra og aukið líkur á áframhaldandi starfsemi.
    Í 31. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimild til niðurfellingar á tekjuskatti lögaðila sem gjaldfallið hefur fyrir 1. janúar 2010. Heimildin er tímabundin og er ætlað að koma til móts við þann vanda sem rekstraraðilar standa frammi fyrir. 1. minni hluti telur hins vegar að ákvæðið sé ófullkomið og ekki til þess fallið að leysa þann vanda sem er uppi. Í ákvæðinu er eingöngu kveðið á um heimild til niðurfellingar á tekjuskatti lögaðila en tekjuskattur er aðeins hluti af þeim gjöldum og sköttum sem fyrirtækjum ber að skila. Enn fremur bendir 1. minni hluti á að tekjuskattur er í mörgum tilfellum ekki sá hluti sem er til mestra vandræða þegar um vanskil er að ræða. 1. minni hluti gagnrýnir að ákvæðið nái ekki til annarra skatta og gjalda, til að mynda vörsluskatta, og telur að ákvæðið muni ekki hafa jafn víðtæk áhrif eins og gert er ráð fyrir í athugasemdum við frumvarpið. Telur 1. minni hluti að til lítils sé að fella niður tekjuskatt ef það eru önnur vanskil sem valda því að fyrirtæki stefni í þrot.

Greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri.
    Lagt er til að heimild til að fresta greiðslu virðisaukaskatts, staðgreiðslu opinberra gjalda, greiðslu tryggingagjalds og þing- og sveitarsjóðsgjalda án dráttarvaxta nái einnig til þeirra sem hafa verið í atvinnurekstri en hætt rekstri. 1. minni hluti tekur undir þessar ráðstafanir í ljósi þess að mjög margir hafa þurft að hætta rekstri eftir hrunið en skulda enn þessa skatta.
    Þá er lagt til að einstaklingar sem sótt hafa um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara geti einnig sótt um greiðsluuppgjör vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Þessi breyting er jákvæð að mati 1. minni hluta því að annars gætu þessir einstaklingar ekki nýtt sér úrræði umboðsmanns skuldara, þar sem umræddir skattar kæmu annars í bakið á þeim eftir að búið er að greiða úr öðrum skuldum þeirra.

Flutningur á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.
    1. minni hluti fagnar flutningi á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og fellst á lækkun tekjuskatts um 1,2% og samsvarandi hækkun á útsvari sem lið í þeirri aðgerð.

Tímabundin hækkun á vikmörkum á milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða.
    1. minni hluti varar við áframhaldandi keyrslu lífeyrissjóðanna á eignum sem ekki standa undir skuldbindingum sjóðanna og eru jafnvel allt niður í 85% af skuldbindingum. Eðlilegt er að beðið sé eftir því að eignir lífeyrissjóðanna jafni sig eftir hrunið en eftir því sem tíminn líður verður nauðsynleg skerðing meiri. Þannig er í reynd verið að gera upp á milli sjóðfélaga meðan á því stendur vegna þess að núverandi lífeyrisþegar fá of háan lífeyri miðað við þá aðila sem seinna fara á lífeyri og þurfa að sæta meiri skerðingu.
    Það gerir þessa umræðu erfiða að opinber hluti lífeyriskerfisins, LSR og lífeyrissjóðir sveitarfélaga, er með réttindi sem tryggð eru með lögum og því hækkar iðgjald launagreiðanda eða einfaldlega kröfur á ríkissjóð (B-deild LSR) þegar eignir duga ekki fyrir skuldbindingum en almennu lífeyrissjóðirnir þurfa að skerða lífeyri og réttindi eða hækka iðgjald sem lendir á launagreiðendum sem geta þá ekki greitt eins há laun. Á sama tíma verður að hækka skatta til þess að standa undir hækkun iðgjalds og skuldbindingu ríkisins og sveitarfélaganna sem sjóðfélagar almennu lífeyrissjóðanna greiða um leið og réttindi þeirra eru hugsanlega skert. Þeir greiða því áfallið sem lífeyrissjóðirnir urðu fyrir á tvennan hátt. Segja má að það skipti í reynd ekki máli fyrir sjóðfélaga opinberu lífeyrissjóðanna hvaða ávöxtun stjórn sjóðsins nær á fé lífeyrissjóðsins.
    Mikilvægt er að sátt náist um samræmingu á lífeyrisréttindum landsmanna sem fyrst þannig að lífeyrisréttindi og önnur réttindi verði metin sem hluti af launum.
    Talið er að hækka þurfi iðgjald til A-deildar LSR úr 15,5% í 19,5%. Ógreidd skuldbinding B-deildar er talin vera um 400 milljarðar kr. eða rúmar 3 millj. kr. á hvert heimili í landinu. Að þeim sökum telur 1. minni hluti að stöðva þurfi inngreiðslur um sex þúsund virkra sjóðfélaga til B-deildar þannig að stöðvuð verði enn frekari vöxtur þessara gífurlegu skuldbindinga eins og hægt er. Vegna eignarréttar og uppsagnarákvæða leggur 1. minni hluti fram breytingartillögu um að ekki verði heimilt að greiða iðgjald til B-deildar LSR eftir 1. janúar 2012.
    Hvað varðar faglegar kröfur til stjórnenda lífeyrissjóða tekur 1. minni hluti undir þá stefnu frumvarpsins að nauðsynlegt sé að auka þær.

Stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki.
    Fyrir ári voru samþykkt lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki til þess að örva almenning til kaupa á hlutabréfum í slíkum fyrirtækjum þannig að þau gætu ráðist í fjárfestingar sem nauðsynlegar eru til þess að skapa atvinnu. Nú hefur komið í ljós að ein af þessum ráðstöfunum, að fólk geti dregið kaupverð hlutabréfa í slíkum félögum frá skattskyldum tekjum, rekst á reglur ESA um ríkisábyrgð. 1. minni hluti telur að í stað þess að fella þennan afslátt niður ætti að huga að því að veita einstaklingum almennan afslátt vegna hlutafjárkaupa eins og var í gildi fyrir mörgum árum. Þegar öll fyrirtæki á hlutafjárformi njóta slíks afsláttar er ekki um sértækan stuðning að ræða. Þannig yrði stuðlað að aukinni fjárfestingu í landinu sem er mjög mikilvægt því þannig gæti atvinna aukist í landinu ásamt öðrum atriðum sem mikilvæg eru en atvinnumissir og tekjulækkun eru einmitt einn af meginforsendubrestum fyrir stöðu heimilanna.
    Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki sé brostin forsenda fyrir öllum þeim aðgerðum sem fyrirtæki hafa farið út í til þess t.d. að fá viðurkenningu sem nýsköpunarfyrirtæki og hljóta að kosta mikið og hefur eflaust skaðað þessi fyrirtæki.
    Í þessu sambandi telur 1. minni hluti að mikilvægt sé að endurvekja traust á hlutabréfum eftir að yfir 50 þúsund venjuleg heimili hafa tapað minnst 80 milljörðum kr. við fall bankanna og fjöldi fyrirtækja hefur orðið gjaldþrota. 1. minni hluti veltir fyrir sér hvaða breytingar hafa verið gerðar á hlutabréfaforminu eftir hrun sem koma í veg fyrir þær æfingar stærstu hluthafa fyrirtækja sem fréttir berast af vikulega og keyrðu fyrirtækin í þrot og ollu þessu tjóni. Erfitt er að sjá fyrir sér áhuga á hlutafjárkaupum eftir þessa almennu reynslu. 1. minni hluti gerir tillögu um að fólk geti dregið kaupverð hlutabréfa í hlutafélögum, sem skattstjóri metur hæf til þess, frá skattskyldum tekjum en ráðherra setji reglugerð um þetta efni.
    1. minni hluti tekur undir aðrar þær aðgerðir sem koma fram í frumvarpinu og auka stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Hins vegar vakna margar spurningar hvað nýsköpun sé í raun og veru. Mörg tækifæri í nýsköpun hafa komið fram án þess að um eiginlegar rannsóknir og þróun sé að ræða. Má í því sambandi benda á dúkkulísuforrit og sleðahundaferðir. Margar gamlar hugmyndir eru þróaðar áfram og rannsakaðar án þess að um beina nýsköpun sé að ræða. 1. minni hluti veltir því upp hvort skilgreining á nýsköpun sé ekki allt of þröng.

Heimild til að leigja og flytja inn bílaleigubíla frá bílaleigum á EES-svæðinu.
    ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur gert athugasemd við núverandi bann við tímabundnum tollfrjálsum innflutningi innlendra aðila á ökutækjum um skamman tíma. Eins og staðan er nú er aðilum sem ekki eru búsettir á Íslandi heimilt að flytja inn ökutæki tímabundið tollfrjálst og var það talið skekkja samkeppni. Lagt er til að aðilar sem búsettir eru á Íslandi megi leigja og flytja inn bílaleigubíla frá bílaleigum á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjum og nota hér á landi tímabundið. Undanþágan er takmörkuð við það að hver einstök bifreið má ekki vera á landinu lengur en 42 daga í hvert sinn og hún má ekki vera á landinu lengur en 183 daga á hverju ári. Hver einstaklingur getur einungis nýtt sér þessa heimild í 42 daga á ári hverju. 1. minni hluti fagnar þessari breytingu, sem eykur möguleika og frelsi fólks á þessu sviði.

Niðurfelling stimpilgjalds af skilmálabreytingum.
    Í 50. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að framlengja niðurfellingu stimpilgjalds í eitt ár í viðbót, eða til áramóta 31. desember 2011. Þær skilmálabreytingar sem um ræðir eru oft skuldbreytingar fólks sem er í mjög miklum vandræðum og neyðist til að lengja lánstíma lána eða breyta þeim á annan hátt. Oft er þetta skattlagning á neyð og fjárhagsleg vandræði. 1. minni hluti telur þessar skilmálabreytingar mjög vafasaman skattstofn og gerir tillögu um að þessi heimild verði gerð varanleg enda hlýtur þróunin að stefna í þá átt að þessi undarlegi skattur verði að öllu leyti aflagður.

Alþingi, 16. des. 2010.



Pétur H. Blöndal,


frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson.