Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 663, 139. löggjafarþing 301. mál: kjarasamningar opinberra starfsmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (sérregla um félagsaðild).
Lög nr. 154 27. desember 2010.

Lög um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.


I. KAFLI
Breyting á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, með síðari breytingum.

1. gr.

     Við 6. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Þeir starfsmenn sem eru félagar í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og gerast starfsmenn sveitarfélaga 1. janúar 2011 á grundvelli breytinga á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, skulu eiga þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð fyrir þeirra hönd við viðkomandi sveitarfélög.
     Starfsmenn sem falla undir lög þessi og koma til starfa eftir 1. janúar 2011 skulu verða félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða í öðru því félagi sem hefur samkvæmt lögum þessum ótakmarkað samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn.
     SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu skal hafa tilkynnt viðkomandi sveitarfélagi fyrir 15. janúar 2011 fyrir hvaða starfsmenn það fer með samningsumboð gagnvart viðkomandi sveitarfélagi á grundvelli þessara laga.
     SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu skal því aðeins hafa samningsumboð gagnvart viðkomandi sveitarfélagi fyrir starfsmenn skv. 9. mgr. að tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt skv. 11. mgr.

2. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Tilhögun skv. 6. gr. skal endurskoða samhliða endurmati á fjárhagslegum forsendum samkvæmt samkomulagi milli félags- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Þeir starfsmenn ríkisins sem starfa í þjónustueiningum í málaflokki fatlaðs fólks og eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og eru í störfum sem flytjast til sveitarfélaga og halda þeim áfram skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með óslitinni réttindaávinnslu meðan þeir gegna þar störfum.
     Sveitarfélög taka á sig skuldbindingar launagreiðenda frá aðilaskiptum en ríkissjóður fram að þeim tíma. Til viðbótar iðgjaldi launagreiðenda skv. 23. gr. laganna munu launagreiðendur greiða sérstakt iðgjald til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til að standa undir mismun á áföllnum skuldbindingum hvers árs og greiddum iðgjöldum.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 2010.