Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 315. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 720  —  315. mál.
Svarsjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannssonar um ákvæði laga og reglugerða um hollustuhætti sem varða matvæli.

     1.      Hver er skilgreining ráðherra á hugtökunum „heimasvæði“, „lítið magn“ og „eigin not“, en í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 143/2009 (þskj. 17 á 138. löggjafarþingi) segir að samkvæmt reglugerð (EB) nr. 852/2004, um hollustuhætti sem varða matvæli, skuli ríki setja sér eigin reglur á tilteknum sviðum sem varða þetta?

a. Hugtökin „heimasvæði“ og „lítið magn“.
    Fyrirspyrjandi er hér væntanlega að vísa til 1. gr. reglugerðar (EB) nr. 852/2004 en í c- lið 2. mgr. segir að reglugerðin gildi ekki um: „beina afhendingu framleiðanda á litlu magni frumframleiðsluvara til neytanda eða smásölufyrirtækis á staðnum sem afhendir vöru beint til neytenda“. Gert er ráð fyrir að ríki skuli setja reglur um þessa starfsemi og að slíkar landsbundnar reglur þurfa jafnframt að tryggja að markmiðum reglugerðarinnar verði náð.
    Ákvæði reglugerðarinnar taka gildi fyrir landbúnaðarvörur 1. nóvember 2011 en hafa þegar tekið gildi vegna sjávarafurða.
    Frumframleiðsluvörur eru vörur sem fást í frumframleiðslu, þ.m.t. afurðir akuryrkju, búfjár og afurðir sem fást með veiði og fiskveiði. Ákvæðið gildir um afhendingu bónda á grænmeti, ávöxtum, eggjum (hrámjólk – þar sem slík markaðsetning er leyfð), óunnu kjöti o.s.frv. beint til neytandans á býlinu, á útimarkaði (bændamarkaði) eða til smásöluverslunar á heimasvæði sem selur beint til neytandans. Rökin fyrir sérreglu 1. gr. reglugerðar (EB) nr. 852/2004 eru þau að náin tengsl eru á milli framleiðandans og neytanda vörunnar. Hafa verður í huga að vinnsla frumframleiðsluvara á býlinu fellur almennt ekki undir fyrrgreint ákvæði 1. gr. reglugerðar (EB) nr. 852/2004. Þannig mun vinnsla afurða, svo sem kjöts og osta úr mjólk, ekki falla undir ákvæðið. Um slíka vinnslu munu því gilda ákvæði reglugerðar (EB) nr. 852/2004 og eftir atvikum ákvæði reglugerðar (EB) nr. 853/2004.
    Þannig gildir reglugerð (EB) nr. 852/2004 ekki um þá starfsemi sem tilgreind er í c-lið 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar. Ísland hefur hins vegar uppfyllt kröfu um sérstakar landsreglur varðandi þessa starfsemi, enda liggur fyrir að lög nr. 93/1995, um matvæli, taka til framleiðslu og dreifingar á öllum stigum, sbr. 2. gr. þeirra, og taka lögin þar með til beinnar afhendingar framleiðanda á litlu magni frumframleiðsluvara til neytenda eða smásölufyrirtækja og þarf slík framleiðsla og dreifing að vera í samræmi við ákvæði laganna.
    Ráðuneytið hefur ekki skilgreint hugtökin „heimasvæði – á staðnum“, „lítið magn“.

Hugtakið „lítið magn“.
    Það er í höndum viðkomandi lands að ákveða hvað telst „lítið magn“ en taka verður tillit til gildissviðs ákvæðisins hér að ofan þegar hugtakið er skilgreint. Hugtakið þarf þannig að vera skilgreint það vítt að bændur geti selt framleiðslu sína til neytenda á býlinu sjálfu og/eða á markaði (t.d. bændamarkaði) eða til smásöluverslunar á heimasvæðinu.

Hugtakið „heimasvæði“.
    Ekki liggja fyrir skýr viðmið hvað telja beri heimasvæði í skilningi 1. gr. reglugerðar (EB) nr. 852/2004.

b. Hugtakið „eigin not“.
    Reglugerð (EB) nr. 852/2004 gildir ekki um „frumframleiðslu til heimilisnota“ og „tilreiðslu, meðhöndlun eða geymslu matvæla til heimilisneyslu“. Í 2. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, er kveðið á um takmarkanir á gildissviði þeirra en þar segir: „Lög þessi taka til framleiðslu og dreifingar matvæla á öllum stigum. Þau taka ekki til frumframleiðslu til einkanota eða til vinnslu, meðferðar eða geymslu á matvælum til einkaneyslu.“
    Hugtakið „eigin not“ skv. 2. gr. matvælalaganna er skilgreint af ráðuneytinu sem einkaneysla eða heimilisnotkun og tekur ekki til afhendingar utan heimilisnota.
    
     2.      Hvernig samfellu og skipulag þurfa fyrirtæki að búa við til að reglur Evrópusambandsins gildi um þau, sbr. 9. tölul. aðfaraorða reglugerðarinnar? Er ekki líklegt að einstakir viðburðir, svo sem kökubasarar og bændamarkaðir, þar sem matvæli eru framreidd og seld án nokkurrar samfellu eða skipulags séu undanskildir reglunum?

    Starfsemi bændamarkaða eða kökubasara falla undir ákvæði laga nr. 93/1995, um matvæli. Reglugerð (EB) nr. 852/2004 gildir ekki um einstaklinga sem framleiða mat, til dæmis vegna kökubasara sem eru einstakir viðburðir. Gert er ráð fyrir að ríki skuli setja reglur um þessa starfsemi en um slíka framleiðslu gilda ákvæði laga nr. 93/1995 og eftir atvikum aðrar reglugerðir settar samkvæmt þeim lögum.
    Samkvæmt þessu ber að fylgja reglum matvælalaganna þegar matvæli eru framleidd til sölu á mörkuðum svo dæmi sé tekið. Þannig er t.d. óheimilt að markaðssetja matvæli sem ekki eru örugg, þ.e. heilsuspillandi eða óhæf til neyslu, sbr. 8. gr. a laganna.
    Lög nr. 93/1995, um matvæli, verður einnig að skýra þannig að framleiðendur matvæla sem markaðssetja þau á reglulegum mörkuðum eða tilfallandi þurfi starfsleyfi eftirlitsaðila. Í frumvarpi á þskj.17 á 138. löggjafarþingi var í I. kafla þess lagðar til breytingar á lögum um matvæli. Þar var lögð til heimild til handa ráðherra um að undanskilja aðila, sem ekki stunduðu starfsemi í ágóðaskyni frá starfsleyfis- eða tilkynningarskyldu. Í meðförum Alþingis var ákvæðið þrengt þannig að það nær einungis til aðila sem halda búfé. Framleiðendur matvæla á mörkuðum eru því eftirlitsskyldir samkvæmt lögum nr. 93/1995, um matvæli, og þurfa starfsleyfi.

     3.      Hvernig reglur hyggst ráðherra setja varðandi:
                  a.      frumframleiðslu til eigin nota, svo sem um fisk, villibráð, heimaslátrun, berjatínslu og grænmeti,
                  b.      unnar afurðir úr framframleiðslu til eigin nota,
                  c.      sölu framleiðenda á litlu magni af eigin framleiðslu beint til neytenda eða í litlar verslanir á heimasvæði sem selja beint til neytenda?


a. Frumframleiðsluvörur – heimaslátrun.

    Ráðherra hyggst ekki setja reglur um frumframleiðsluvörur til eigin nota, þ.e. heimilisnota. Þetta gildir um villibráð, ber eða grænmeti til eigin nota. Lög nr. 93/1995, um matvæli, gilda ekki þar um, sbr. 2. gr.

Heimaslátrun:
    Hvað heimaslátrun varðar er unnið eftir núgildandi reglum um heimildir til heimaslátrunar á lögbýlum. Um heimaslátrun almennt gilda lög nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, en í 4. mgr. 5. gr. þeirra segir: „Eigendum lögbýla er heimilt að slátra búfé sínu á sjálfu býlinu til eigin neyslu. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra getur sett reglur um töku og sendingu sýna til rannsókna úr þessum sláturdýrum og afurðum samkvæmt tillögum Matvælastofnunar.“
    Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segir m.a.:
    „Svigrúm bænda til heimaframleiðslu, vöruþróunar og heimasölu með upprunamerkingum verði aukið og nýtt til sóknar í ferðaþjónustu.“
    Samtökin Beint frá býli fengu á fjárlögum 2010 styrk til þriggja sérverkefna sem miðuðu að því að skoða möguleika á rýmkun laga um heimavinnslu og slátrun, könnun á núverandi verðlagningu á heimteknum sauðfjáráfurðum og bera saman lög og reglur ESB við íslenskar reglur um heimavinnslu og sölu matvæla. Vinnsla þessa sérverkefna er á lokastigum og verðum lokaskýrslum væntanlega skilað til ráðuneytisins innan skamms.

b. Unnar afurðir úr frumframleiðslu til eigin nota.
    Lög nr. 93/1995, um matvæli, gilda ekki um vinnslu afurða til einkaneyslu, sbr. 2. gr. þeirra.

c. Sala framleiðenda á litlu magni af eigin framleiðslu beint til neytenda eða í litlar verslanir á heimasvæði sem selja beint til neytenda.
    Lög nr. 93/1995, um matvæli, munu gilda. Um vinnslu slíkra afurða mun reglugerð (EB) nr. 852/2004 gilda og eftir atvikum reglugerð (EB) nr. 853/2004. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um breytingu á núgildandi reglum.

     4.      Hvað líður gerð reglugerðar og gjaldskrár skv. 25. gr. laga um matvæli, nr. 93/1995, með tilliti til hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu og/eða hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu?

    25. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, tekur bæði til gjaldskrár Matvælastofnunar og einnig gjaldskrár tíu heilbrigðisnefnda sveitarfélaganna. Ráðuneytið hefur ekki afskipti af gjaldskrá heilbrigðisnefndanna en sveitarfélög bera ábyrgð á þeim gjaldskrám.
    Ráðuneytið hefur staðfest almenna gjaldskrá Matvælastofnunar með reglugerð nr. 234/ 2010 um eftirlit og aðra gjaldskylda starfsemi Matvælastofnunar. Skv. 2. gr. gjaldskrárinnar er gjaldinu skipt í tólf flokka eftir umfangi starfseminnar. Gjaldið er frá 7.084 kr. upp í 159.390 kr. Með þessum hætti er tekið tillit til fyrirtækja með litla framleiðslu.
    Hefðbundnar aðferðir við framleiðslu, vinnslu og dreifingu hafa ekki verið skilgreindar í gjaldskránni þannig að hún tekur ekki tillit til slíkrar flokkunar.
    Rétt er að nefna að þau matvælafyrirtæki sem líða fyrir landfræðilegar takmarkanir skv. d-lið 4. mgr. 25. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, greiða hið sama og aðrir fyrir akstur.

     5.      Hvað líður setningu reglugerðar um framkvæmd framsals á eftirliti, sbr. 22. gr. laga um matvæli?

    Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að fela hver öðrum að annast tiltekin verkefni sem eru á verksviði þessara aðila samkvæmt matvælalögunum. Þetta þýðir að hvert og eitt af tíu heilbrigðiseftirlitssvæðum landsins annars vegar og Matvælastofnun hins vegar, geta framselt tiltekin verkefni sín á milli. Viðræður hafa staðið yfir milli eftirlitsaðila. Gengið hefur verið frá fjórum samningum milli aðila og fimm aðrir eru í ferli. Gera má ráð fyrir að niðurstaða eða afstaða allra eftirlitsaðila liggi fyrir á næstu vikum. Ekki hefur náðst samkomulag milli Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og Matvælastofnunar um framsal eftirlitsverkefna. Ráðuneytið hefur tekið þá afstöðu frá byrjun að hafa ekki efnisleg afskipti af viðræðum um framsal eftirlits á meðan þær viðræður standa yfir. Eftirlitsaðilum er heimilt, en ekki skylt, að framselja verkefni sín á milli og eðlilegt að vilji eftirlitsaðila ráði ferð við slíka samningsgerð. Ráðuneytið hélt fund með fulltrúum heilbrigðiseftirlitssvæðanna og Matvælastofnunar eftir að lög nr. 143/2009 höfðu verið samþykkt og hvatti til framsals verkefna milli eftirlitsaðila og lagði áherslu á að matvælafyrirtæki mættu ekki líða fyrir óvissu um framkvæmd eftirlits. Jafnframt var vakin athygli á vilja Alþingis en í nefndaráliti í meðferð málsins áréttaði nefndin að meginmarkmið með slíku framsali ætti að vera hagkvæmni þess og skilvirkni þannig að hagkvæmasti kosturinn sé valinn hverju sinni. Þess vegna er nauðsynlegt að meta hvort framsal er fjárhagslega hagkvæmt fyrir hlutaðeigandi aðila, eftirlitsþola, ríki og sveitarfélög.
    Ráðuneytið hefur hug á að meta þörf fyrir reglugerðarsetningu skv. 22. gr. matvælalaganna þegar fyrir liggur niðurstaða í framangreindum viðræðum eftirlitsaðila. Slík reglugerð yrði þá sett í samráði við Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitssvæði sveitarfélaga um framsal eftirlits.

     6.      Hefur slíkt framsal átt sér stað og ef svo er, hver er þá fjöldi þeirra fyrirtækja sem hafa verið framseld og hvernig fyrirtæki eru það?


    Í þeim fjórum samningum sem búið er að ganga frá hafa 46 fyrirtæki verið framseld frá Matvælastofnun til Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga.
     a.      Fiskvinnslam, 24 fyrirtæki.
     b.      Kjötvinnsla, 13 fyrirtæki.
     c.      Mjólkurvinnsla, 7 fyrirtæki.
     d.      Matvælavinnsla kjöt/fiskur, 2 fyrirtæki.