Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 830. máls.

Þskj. 1487  —  830. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.
1. gr.

    Á eftir orðinu „Fangelsismálastofnun“ í 4. mgr. 9. gr. laganna kemur: tollyfirvöld, eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög nr. 42/2010, um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, Vegagerðin, Lánasjóður íslenskra námsmanna.

2. gr.

    Á eftir 2. mgr. 29. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sá tími sem Vinnumálastofnun veitir styrk skv. 1. mgr. 62. gr. vegna þátttöku hins tryggða í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði telst ekki hluti tímabilsins skv. 1. mgr. í tilvikum er hinn tryggði nýtur launa frá vinnuveitanda sem eru hærri en grunnatvinnuleysisbætur hans meðan á þátttöku hans í vinnumarkaðsúrræði stendur og fær ekki greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 4. mgr. 33. gr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra er enn fremur heimilt að ákveða í reglugerð, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að greiddar séu sérstakar desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur í lok hvers árs að uppfylltum nánar tilteknum skilyrðum.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                      Þegar Vinnumálastofnun veitir styrk skv. 1. mgr. 62. gr. vegna þátttöku hins tryggða í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði og hinn tryggði nýtur launa frá vinnuveitanda sem eru hærri en grunnatvinnuleysisbætur hans meðan á þátttöku hans í vinnumarkaðsúrræði stendur á hinn tryggði hvorki rétt á tekjutengdum atvinnuleysisbótum né grunnatvinnuleysisbótum á sama tíma.

4. gr.

    Í stað orðanna „veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur“ í 60. gr. laganna kemur: lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar.

5. gr.

    Í stað orðanna „30. júní 2011“ í 6. mgr. ákvæðis til bráðabirgða V í lögunum kemur: 31. desember 2011.

6. gr.

    Í stað orðanna „30. júní 2011“ í 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögunum kemur: 31. desember 2011.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.
7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þegar um er að ræða aðilaskipti að fyrirtæki sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta skal framsalshafi virða áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir fyrri vinnuveitanda á þeim degi er úrskurður var kveðinn upp um að fyrirtækið skuli tekið til gjaldþrotaskipta þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða annar samningur kemur í hans stað. Vanefndir þess vinnuveitanda á skyldum hans gagnvart starfsmönnum fyrir þann dag færast ekki yfir til framsalshafa. Hið sama gildir komi innan þriggja mánaða frá framsali hins gjaldþrota fyrirtækis til endurráðningar fyrrum starfsmanna þess sem voru í starfi á úrskurðardegi.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                      1. og 2. mgr. eiga ekki við um aðilaskipti að fyrirtækjum sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta.

III. KAFLI
Gildistaka.
8. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands í tengslum við gerð kjarasamninga aðila á almennum vinnumarkaði frá 5. maí 2011. Í aðdraganda kjarasamningsins áttu stjórnvöld og aðilar á almennum vinnumarkaði víðtækt samráð um ýmsa þætti sem lúta að efnahags- og kjaramálum. Með efni yfirlýsingarinnar leggja stjórnvöld sitt af mörkum til að kjarasamningar verði gerðir til þriggja ára á íslenskum vinnumarkaði. Enn fremur hafa stjórnvöld haft samráð við aðila á opinberum vinnumarkaði vegna efnis yfirlýsingarinnar. Haft hefur verið samráð við samtök aðila vinnumarkaðarins við gerð frumvarps þessa.
    Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar gerir meðal annars ráð fyrir að stjórnvöld muni, í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, standa fyrir átaki á sviði vinnumarkaðsaðgerða og til að efla menntun í samræmi við tillögur samráðshóps um vinnumarkaðsmál. Er þar á meðal lögð áhersla á þátttöku atvinnuleitenda í virkum starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum, svo sem reynsluráðningu, starfsþjálfun, frumkvöðlastarfi innan fyrirtækja eða átaksverkefnum, sbr. lög nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum, sem og einnig reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Er gert ráð fyrir að slíkum úrræðum verði fjölgað um allt að 1.500 árið 2011 þannig að heildarfjöldi þeirra einstaklinga sem njóta slíkra úrræða tvöfaldast. Jafnframt er mikilvægt að sá tími er atvinnuleitandi tekur þátt í starfstengdu virku vinnumarkaðsúrræði teljist ekki til þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 1. mgr. 29. gr. laganna. Með frumvarpi þessu eru því lagðar til breytingar á 29. og 33. gr. laganna, sbr. 2. og 3. gr. frumvarps þessa.
    Í frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að gildistími ákvæða til bráðabirgða V og VI verði framlengdur um sex mánuði eða til 31. desember 2011. Ákvæði þessi komu fyrst inn í lögin í nóvember 2008 vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Markmiðið með þessum ákvæðum var að koma til móts við breyttar aðstæður á vinnumarkaði, meðal annars með því að stuðla að því að atvinnurekendur skoði þann kost að lækka starfshlutfall hjá hluta starfsmanna sinna á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V fremur en að grípa til uppsagna. Þessi ákvæði hafa reynst mjög góð úrræði þar sem þau leiða til þess að færri einstaklingar missa störf sín að fullu en ella hefði verið sökum tímabundinna erfiðleika á vinnumarkaði. Þannig fengu 1.198 einstaklingar greiddar atvinnuleysisbætur í apríl 2011 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V. Ákvæðin hafa verið í gildi frá hausti 2008 en frá upphafi lá fyrir að þau væru eingöngu viðbrögð við mjög breyttum aðstæðum í rekstrarumhverfi fyrirtækja á innlendum vinnumarkaði. Enda þótt atvinnuleysi sé enn nokkuð eða 8,6% í mars 2011, sem þykir réttlæta að gildistími ákvæðanna verði framlengdur um sex mánuði, þykir engu síður vera kominn tími til að úrræði þessi verði endurmetin í samstarfi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Markmið slíkrar endurskoðunar væri að meta hvort ástæða sé til að breyta efni þeirra í desember 2011 í ljósi þess að þær aðstæður sem vísað var til við setningu þeirra hafa þá varað í rúmlega þrjú ár eða þá jafnvel að aðstæður á vinnumarkaði séu með þeim hætti að eðlilegt sé að þau verði ekki framlengd frekar. Þá eru lagðar til breytingar á 9. og 60. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar í því skyni að koma enn frekar í veg fyrir að unnt sé að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli rangra eða villandi upplýsinga og þar með styrkja stoðir eftirlits Vinnumálastofnunar.
    Þá var mikilvægi þess að bæta réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum eftir að þau hafa verið úrskurðuð gjaldþrota undirstrikað í viðræðum aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Var meðal annars vísað til þess að ákvæði laga nr. 72/2001, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum, er varða launakjör og starfsskilyrði sem og vernd gegn uppsögnum eiga ekki við í slíkum tilvikum. Samþykkti ríkisstjórnin því að leggja til við Alþingi að réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að þrotabúum yrði bætt á yfirstandandi þingi. Eru því í frumvarpi þessu lagðar til breytingar á 3. gr. laganna í því skyni að framsalshafi virði áfram kjarasamningsbundin launakjör og starfsskilyrði starfsmanna fyrirtækja sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta og aðilaskipti orðið þegar þrotabúið hefur verið selt.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að kveðið verði með skýrum hætti á um að eftirlitsfulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins, sbr. lög nr. 42/2010, um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, sé skylt að láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Er það jafnframt í samræmi við það sem fram kemur í 3. mgr. 4. gr. laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum þar sem kveðið er á um að eftirlitsfulltrúar samtaka aðila vinnumarkaðarins skuli senda meðal annars Vinnumálastofnun upplýsingar þær sem fram koma á vinnustaðaskírteini.
    Þeir sem stunda hefðbundið nám á framhaldsskólastigi eða í háskóla teljast samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar ekki vera í fullri atvinnuleit þann tíma sem þeir stunda nám sitt, enda námið ekki vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna. Það hefur því ekki verið talið hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að tryggja framfærslu einstaklinga sem stunda nám, sbr. c-lið 3. gr. laganna, á sama tímabili og þeir stunda nám sitt enda er Lánasjóði íslenskra námsmanna ætlað það hlutverk. Í ákvæði þessu er því enn fremur lagt til að Lánasjóði íslenskra námsmanna verði gert skylt að láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna.
    Enn fremur hefur Vinnumálastofnun átt ágætt samstarf við skatt- og tollyfirvöld. Þykir ástæða til að veita Vinnumálastofnun sömu heimildir til gagnaöflunar gagnvart tollyfirvöldum og þegar gilda gagnvart skattyfirvöldum. Samstarf Vinnumálastofnunar og tollyfirvalda lýtur að ýmiss konar eftirliti með greiðslum atvinnuleysistrygginga til atvinnuleitenda.
    Þá er gert ráð fyrir að Vegagerðinni verði einnig gert skylt að veita Vinnumálastofnun þær upplýsingar sem stofnunin telur nauðsynlegar við eftirlit með framkvæmd laganna. Er slíkt talið mikilvægt þar sem Vegagerðin hefur í umboði innanríkisráðuneytisins umsjón með ýmiss konar leyfisveitingum, svo sem útgáfu almennra rekstrarleyfa til fólks- og farmflutninga á landi sem og útgáfu atvinnuleyfa til leiguaksturs og eðalvagnaþjónustu.

Um 2. gr.

    Í ákvæði þessu er lögð til sú breyting að sá tími er atvinnuleitandi tekur þátt í virku starfstengdu vinnumarkaðsúrræði, hvort heldur um er að ræða reynsluráðningu, starfsþjálfun, frumkvöðlastarf innan fyrirtækis eða átaksverkefni, teljist ekki til þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 29. gr. laganna um atvinnuleysistryggingar enda fái viðkomandi greidd laun á tímabilinu sem eru hærri en grunnatvinnuleysisbætur hans. Samhliða er lagt til að Vinnumálastofnun veiti styrki til fyrrnefndra verkefna á grundvelli 1. mgr. 62. gr. laganna og er ekki gert ráð fyrir að hlutaðeigandi fái greiddar atvinnuleysisbætur á sama tíma og hann tekur þátt í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði, sbr. 3. gr. frumvarps þessa. Þykir þetta mikilvægt í ljósi þess að atvinnuleitendur eru ráðnir til starfa hjá vinnuveitendum og fá greidd laun samkvæmt gildandi kjarasamningi í viðkomandi starfsgrein enda þótt vinnuveitandi fái greitt ígildi atvinnuleysisbóta hlutaðeigandi vegna ráðningarinnar. Hefur það þótt ósanngjarnt að það tímabil teljist til þess tímabils er atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 29. gr. laganna. Engu síður er um að ræða virk vinnumarkaðsúrræði og er því áfram gert ráð fyrir að starfið teljist ekki hluti ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laganna, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr.

Um 3. gr.

    Í 1. mgr. ákvæðis þessa er lagt til að ráðherra verði heimilt að ákveða í reglugerð að greiddar séu sérstakar desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur í lok hvers árs. Er þá jafnframt gert ráð fyrir að ráðherra verði heimilt að setja fram nánari skilyrði í reglugerð en við það er miðað að litið verði til þeirra reglna sem gilda almennt um desemberuppbætur samkvæmt gildandi kjarasamningum hverju sinni eftir því sem við getur átt. Markmiðið er meðal annars að tryggja að einstaklingar geti ekki fengið greiddar fullar desemberuppbætur bæði úr Atvinnuleysistryggingasjóði og frá vinnuveitanda. Hins vegar kann að vera að atvinnuleitandi fái greiddar hlutfallslegar desemberuppbætur bæði úr Atvinnuleysistryggingasjóði og frá vinnuveitenda í samræmi við þau tímabil sem hlutaðeigandi var í starfi og í atvinnuleit á sama ári. Þykir jafnframt mikilvægt að sambærilegt skilyrði um samþykki ríkisstjórnarinnar gildi um setningu slíkrar reglugerðar og gildir í 3. mgr. 33. gr. um tillögur ráðherra um hækkanir á fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta og á hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, hafi verulegar breytingar orðið á launaþróun og þjóðhagsforsendum frá afgreiðslu fjárlaga.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við 2. gr. frumvarps þessa er lagt til að í stað þess að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur atvinnuleitanda til vinnuveitanda vegna þátttöku atvinnuleitandans í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum, hvort sem um er að ræða reynsluráðningu, starfsþjálfun, frumkvöðlastarf innan fyrirtækis eða átaksverkefni, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, sem og einnig reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki, sé litið á greiðslur Vinnumálastofnunar til vinnuveitanda sem styrk á grundvelli 1. mgr. 62. gr. laganna. Ekki eru lagðar til breytingar á þessum úrræðum að öðru leyti þannig að áfram verður gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun muni greiða vinnuveitanda fjárhæð sem jafngildir þeim grunnatvinnuleysisbótum sem viðkomandi atvinnuleitandi ætti ella rétt á ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð. Vinnuveitandi greiðir hins vegar viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt gildandi kjarasamningi í hlutaðeigandi starfsgrein enda séu launin hærri en grunnatvinnuleysisbætur viðkomandi atvinnuleitanda. Samhliða því að lagt er til að sá tími sem atvinnuleitandi tekur þátt í framangreindum virkum vinnumarkaðsúrræðum verði ekki hluti þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 29. gr. laganna, sbr. 2. gr. frumvarps þessa, er lagt til að atvinnuleitandi eigi hvorki rétt á grunnatvinnuleysisbótum né tekjutengdum atvinnuleysisbótum á sama tíma og hann tekur þátt í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði enda fái hann greidd laun frá vinnuveitanda á þessum tíma sem eru hærri en grunnatvinnuleysisbætur hans.

Um 4. gr.

    Lagt er til að orðin „í umsókn um atvinnuleysisbætur“ verði felld brott enda á það ekki að skipta máli hvar eða með hvaða hætti hinn tryggði veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum. Enn fremur er lagt til að litið sé á það að hinn tryggði láti vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum sem atvinnuleysisbóta sé aflað með sviksamlegum hætti. Er því lagt til að því verði bætt við 60. gr. laganna og hafi þá sömu afleiðingar og það að gefa Vinnumálastofnun rangar upplýsingar.

Um 5. og 6. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða V og VI hafa reynst vel í framkvæmd þar sem þau hafa leitt til þess að færri einstaklingar missa störf sín að fullu en ella hefði verið sökum tímabundinna erfiðleika á vinnumarkaði. Þannig fengu 1.198 einstaklingar greiddar atvinnuleysisbætur í apríl 2011 á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V en flestir þeirra voru í 50–60% starfshlutfalli eða 829 einstaklingar. Fleiri konur en karlar hafa nýtt sér þetta úrræði en 791 kona fékk greiddar atvinnuleysisbætur í apríl 2011 á grundvelli þessa ákvæðis. Þar af voru 514 konur í 50–60% starfshlutfalli. Er því lagt til að ákvæðin gildi áfram til loka árs 2011. Að öðru leyti vísast til almennra athugasemda við frumvarp þetta.

Um 7. gr.

    Með ákvæði þessu eru lagðar til breytingar á 3. gr. laga um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum í því skyni að bæta réttarstöðu starfsmanna fyrirtækja sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta komi síðar til framsals á þrotabúi þeirra, en ákvæði laganna er varða launakjör og starfsskilyrði sem og vernd gegn uppsögnum eiga ekki við í þeim tilvikum, sbr. 4. mgr. 3. gr. og 3. mgr. 4. gr. laganna. Er átt við þau tilvik er þrotabú fyrirtækja sem hafa verið tekin til gjaldþrotaskipta eru seld og er þá þrotabúið framseljandi en ekki fyrirtækið sem slíkt. Lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með síðari breytingum, gilda áfram að öllu leyti þegar fyrirtæki eru úrskurðuð gjaldþrota og skiptastjórar skipaðir. Oftar en ekki tilkynnir skiptastjóri í upphafi skiptameðferðar starfsmönnum fyrirtækis sem hefur verið úrskurðað gjaldþrota að þrotabúið taki ekki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum þeirra, sbr. 98. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Er því lagt til að framsalshafi virði áfram launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi með sömu skilyrðum og giltu fyrir fyrri vinnuveitanda á þeim degi er úrskurður var kveðinn upp um að fyrirtækið væri gjaldþrota en ekki á þeim degi er aðilaskiptin áttu sér stað. Er það sá dagur er fyrrverandi vinnuveitandi missir forræðið yfir fyrirtækinu og skiptastjóra er falið að fara með skiptin. Gildir slíkt þar til kjarasamningi er sagt upp eða hann rennur út eða annar samningur kemur í stað hans. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir að framsalshafi ábyrgist vanefndir þess vinnuveitanda á skyldum hans gagnvart starfsmönnum eins og almennt gildir við aðilaskipti að fyrirtækjum í rekstri, sbr. 3. gr. laganna, sbr. einnig lög nr. 81/2010. Er því áfram gert ráð fyrir að launafólk fari með kröfur sínar um vangreidd vinnulaun eða orlofslaun sem fallið hafa í gjalddaga á síðustu 18 mánuðum fyrir úrskurðardag til Ábyrgðasjóðs launa á grundvelli laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum.
    Áfram er gert ráð fyrir að framsalshafi hafi svigrúm við að endurskipuleggja rekstur fyrirtækis sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta með uppsögnum á starfsfólki og eru því ekki lagðar til breytingar á 4. gr. laganna. Hins vegar þykir mikilvægt að veita starfsfólki ákveðna vernd svo framsalshafi misnoti ekki þá heimild sína. Er því lagt til að komi innan þriggja mánaða frá aðilaskiptunum til endurráðningar starfsfólks er starfaði hjá fyrirtækinu þegar það var úrskurðað gjaldþrota skuli framsalshafi virða launakjör og starfsskilyrði starfsfólksins sem það hafði á þeim degi er fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota. Á það við hvort sem framsalshafi ákveður að endurráða starfsfólkið í tilvikum er skiptastjóri þrotabúsins ákvað fyrir aðilaskiptin að þrotabúið tæki ekki við réttindum og skyldum samkvæmt ráðningarsamningum þeirra eða framsalshafi hafi sagt starfsfólki upp vegna aðilaskiptanna en síðan endurráðið það innan þriggja mánaða.

Um 8. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.

    Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er tilgangur þess að fylgja eftir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga frá 5. maí síðastliðnum. Í yfirlýsingunni kemur meðal annars fram að stjórnvöld muni í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins beita sér fyrir aðgerðum er varða ýmis vinnumarkaðsúrræði og leggja fram lagafrumvörp til að tryggja framgang samninganna. Breytingartillögur frumvarpsins varða annars vegar lög um atvinnuleysistryggingar og hins vegar lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum.
    Á lögum um atvinnuleysistryggingar eru helstu breytingarnar þær að í fyrsta lagi er lagt til að fleiri aðilum verði nú skylt að veita Vinnumálastofnun upplýsingar sem teljast vera nauðsynlegar til hægt sé að framfylgja lögunum. Um er að ræða tollayfirvöld, eftirlitsfulltrúa samtaka aðila vinnumarkaðarins, Vegagerðina og Lánasjóð íslenskra námsmanna. Með breytingunni er aðgangur Vinnumálastofnunar að gögnum aukinn til muna og stofnuninni betur gert kleift að hafa eftirlit með réttmæti umsókna um bætur. Nú þegar er slíkra gagna aflað af hálfu Vinnumálastofnunar og er ekki gert ráð fyrir að þessi ráðstöfun hafi kostnaðarauka í för með sér.
    Í öðru lagi er lagt til að skilgreiningu þess tímabils þegar einstaklingur á rétt á bótum verði breytt, annars vegar með því að biðtími eftir atvinnuleysisbótum vegna viðurlaga telst með heildartímabilinu og hins vegar með því að þegar atvinnuleitandi tekur þátt í vinnumarkaðsúrræði sem getur með ákveðnum hætti talist starfstengt teljist tímabilið ekki til þess tíma þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar. Breytingar á skilgreiningu tímabilsins virka bæði til hækkunar og lækkunar útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs. Erfitt getur verið að leggja mat á þann þátt sem er til lækkunar þar sem engar forsendur liggja fyrir. Hins vegar sýnir reynslan af fyrri vinnumarkaðsúrræðum að um 40% fá áfram greiddar atvinnuleysisbætur eftir að starfstengdum úrræðum lýkur. Útgjaldaaukningin vegna þeirra sem verða áfram á atvinnuleysisbótum eftir að þriggja ára tímabilinu lýkur samkvæmt gildandi lögum og geta því þegið bætur í allt að sex mánuði til viðbótar er metin á um 100 m.kr.
    Í þriðja lagi er lagt til að Vinnumálastofnun veiti styrki til vinnuveitanda sem greiði tryggðum einstaklingi í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði laun samkvæmt gildandi kjarasamningi og því ekki gert ráð fyrir að hinn tryggði fái greiddar bætur á sama tíma. Breytingin hefur ekki áhrif á útgjaldahlið ríkissjóðs.
    Í fjórða lagi er lagt til að inn í lög um atvinnuleysistryggingar verði sett ákvæði um að ráðherra verði heimilt með samþykki ríkisstjórnarinnar að greiða sérstakar desemberuppbætur á grunnatvinnuleysisbætur. Gert er ráð fyrir að miðað verði við reglur sem gilda almennt um desemberuppbætur. Almennt hefur ekki tíðkast að greiða slíkar sérstakar eingreiðslur eða uppbætur til viðbótar við atvinnuleysisbætur og mun það einungis hafa verið gert í tvisvar sinnum í seinni tíð. Ekki verður annað ráðið af ákvæðinu en að gert sé ráð fyrir að desemberuppbót verði greidd árlega til atvinnulausra framvegis eins og þær eru í almennum kjarasamningum á hverjum tíma. Í kostnaðarmati frá velferðarráðuneytinu er gengið út frá því að í ár verði greidd desemberuppbót að fjárhæð um 48 þús. kr. ásamt 15 þús. kr. uppbót sem kveðið er á um í kjarasamningi SA og ASÍ umfram það sem núverandi lagaákvæði gera ráð fyrir. Það svarar til 3,5% af árlegum greiðslum til atvinnulauss einstaklings sem hefur óskertar grunnbætur. Áætlað er að kostnaðurinn við slíkar greiðslur gæti orðið um 700–800 m.kr. á yfirstandandi ári. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga kemur fram að lífeyrisþegar og atvinnulausir muni njóta hliðstæðra kjarabóta og verði í samningunum. Ekki verður séð að leggja eigi þann skilning í þetta að breyta eigi bótakerfum eða greiða uppbætur sem ekki er gert ráð fyrir í gildandi lögum heldur að bæturnar eigi að hækka til samræmis við hækkanir í kjarasamningum. Þetta ákvæði frumvarpsins virðist því fela í sér annað eða meira en yfirlýsing ríkisstjórnarinnar bar með sér.
    Í fimmta lagi lagt til að gildisákvæði tveggja bráðabirgðaákvæða varðandi heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta á móti minnkuðu hlutastarfi sem nemi a.m.k. 30% til launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga verði framlengd til áramóta. Að óbreyttu ætti heimildin að falla úr gildi í lok júní næstkomandi eins og gert er ráð fyrir í forsendum gildandi fjárlaga. Tæplega 1.200 einstaklingar fengnu greiddar atvinnuleysisbætur í apríl 2011 á grundvelli ákvæðanna, flestir í um 50–60% starfshlutfalli eða 829 einstaklingar. Áætlað er að framlenging ákvæðanna um sex mánuði muni auka útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs um 450 m.kr. frá því sem annars yrði . Þessi bótaréttur var tekinn upp tímabundið í nóvember 2008 og er hann talinn hafa gefið góða raun en flestir hagfræðingar telja þó að þetta skammtímaúrræði muni til lengri tíma litið hafa óheppileg áhrif á vinnumarkaðinn, raski samkeppnisforsendum fyrirtækja og skapi freistnivanda vegna niðurgreiðslna á launakostnaði fyrirtækja. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er hvergi vikið að því að þessi breyting verði gerð á lögum.
    Lögð er til breyting á gildandi lögum um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum í þá veru að bæta stöðu starfsmanna fyrirtækja sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta og eru síðan framseld úr þrotabúi. Gert er ráð fyrir að framsalshafi beri að virða áfram þau launakjör og starfsskilyrði sem í gildi voru á þeim degi er fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota. Í núgildandi lögum er miðað við þann dag er aðilaskipti áttu sér stað. Skulu fyrri kjör gilda þar til breytingar verða með einhverjum hætti á gildi kjarasamninga launþega. Hins vegar á framsalshafi ekki að ábyrgjast vanefndir fyrri vinnuveitenda á skyldum gagnvart launþegum líkt og tíðkast almennt með aðilaskipti á fyrirtækjum í rekstri. Ekki verður séð að þessi breyting hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.
    Að öllu framansögðu má því gera ráð fyrir að frumvarpið kunni leiða til 1.250 m.kr. útgjaldaaukningar fyrir ríkissjóð á yfirstandandi ári en því til viðbótar mun 100 m.kr. kostnaður vegna breytinga á heildartíma bótaréttar í tengslum við vinnumarkaðsúrræði dreifast á næstu 2–3 ár. Þá virðist mega gera ráð fyrir að kostnaður við árlegar atvinnuleysistryggingar muni aukast varanlega sem nemi desemberuppbót, en þar gæti verið um að ræða í kringum 500–700 m.kr. miðað við spár um atvinnuleysi í nánustu framtíð. Þessar greiðslur væru til viðbótar við almennar hækkanir á bótunum sem áformað er að gera samkvæmt fyrrnefndri yfirlýsingu. Á móti þessari útgjaldaaukningu ættu breytingar sem snúa að gagnaöflun og upplýsingagjöf frá bótaþegum að geta leitt til skilvirkari bótagreiðslna og minni misnotkunar á atvinnuleysistryggingum en ekki er unnt að áætla fjárhæðir í því sambandi. Ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í gildandi fjárlögum þar sem settur er bindandi útgjaldarammi á nafnvirði fyrir ríkið í heild næstu tvö árin