Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 830. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1605  —  830. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttir frá velferðarráðuneyti, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Þórð Hjaltested frá Kennarafélagi Íslands og Hrafnhildi Stefánsdóttur frá Samtökum atvinnulífsins.
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga aðila á almennum vinnumarkaði frá 5. maí sl. Haft var samráð við samtök aðila á vinnumarkaði við gerð frumvarpsins. Í því eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Þær helstu eru þær að lagt er til að fleiri aðilum verði skylt að veita Vinnumálastofnun upplýsingar sem teljast vera nauðsynlegar til að hægt sé að framfylgja lögunum. Þá er lagt til að sá tími sem atvinnuleitandi tekur þátt í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði teljist ekki til þess tíma þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar. Þessu tengt er jafnframt lögð til sú breyting að Vinnumálastofnun veiti styrki til vinnuveitenda sem greiði tryggðum einstaklingi í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði laun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Ekki er þá gert ráð fyrir að hinn tryggði fái bætur greiddar á sama tíma. Lögð er til breyting þess efnis að láti hinn tryggði hjá líða að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um breytingu á högum sínum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiðir til þess að hann sé ranglega tryggður fyrirgerir hann tímabundið rétti sínum til greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 60. gr. laganna. Jafnframt er kveðið á um að ráðherra verði heimilt með samþykki ríkisstjórnarinnar að greiða sérstaka desemberuppbót á grunnatvinnuleysisbætur. Þá er lagt til að gildistími bráðabirgðaákvæða er kveða á um bætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði verði framlengdur til áramóta. Auk breytinga á lögum um atvinnuleysistryggingar er lögð til breyting á lögum nr. 72/2002, um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum. Er henni ætlað að bæta stöðu starfsmanna fyrirtækja sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta og eru síðan framseld úr þrotabúi. Felst breytingin í því að ef framsalshafi heldur starfsmönnum fyrirtækis ber honum að virða áfram launakjör og starfsskilyrði sem voru í gildi á þeim degi er fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota.
    Nefndin hefur fjallað um málið sem samstaða ríkir um hjá aðilum á vinnumarkaði. Fagnar nefndin því að lögfest sé heimild um greiðslu desemberuppbótar til handa einstaklingum sem fá greiddar atvinnuleysisbætur. Slík uppbót var greidd í desember 2010 en rétt er að skýr heimild til greiðslu hennar sé lögfest. Þá telur nefndin eðlilegt að taki tryggður einstaklingur þátt í virku starfstengdu vinnumarkaðsúrræði sé ekki litið svo á að þann tíma sé hann á atvinnuleysisbótum. Nefndin ræddi sérstaklega breytingar er varða gildistöku bráðabirgðaákvæða um hlutabætur. Ákvæðin voru sett skömmu eftir hrun til að bregðast við sérstökum tímabundnum aðstæðum á vinnumarkaði. Ákvæði til bráðabirgða V var ætlað að stuðla að því að fyrirtæki sem hagræða þyrftu í rekstri vegna efnahagshrunsins gripu fremur til þess ráðs að minnka starfshlutfall starfsfólks en að segja því upp. Sambærilegt ákvæði til bráðabirgða, VI, var lögfest varðandi sjálfstætt starfandi einstaklinga en síðar var því breytt á þann máta að sjálfstætt starfandi einstaklingur gæti einungis fengið hlutabætur í þrjá mánuði. Líkt og kemur fram í athugasemdum við frumvarpið hafa þessi úrræði verið mikið notuð og reynst vel. Lagt er til að ákvæðið framlengist til áramóta en tíminn fram að því verði nýttur til að endurskoða það í samráði við aðila vinnumarkaðarins. Nefndin áréttar mikilvægi þess að sú endurskoðun verði unnin heildstætt. Nefndin telur til að mynda rétt að endurskoðunin nái jafnframt til annarra ákvæða laganna um bætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli, þ.e. 17. og 22. gr. laganna, auk þess sem horft verði til allra þátta og hugsanlegra áhrifa af breytingu á þessu fyrirkomulagi. Vekur nefndin sérstaka athygli á því að um 2/3 þeirra sem þiggja hlutabætur í samræmi við ákvæði til bráðabirgða V eru konur og því sé mikilvægt að hafa kynjasjónarmið í huga við endurskoðunina.
    Nefndin telur mikilvægt að starfsmönnum gjaldþrota fyrirtækja sé veitt ríkari vernd vegna áunninna réttinda sinna, haldi starfsemi áfram eftir gjaldþrot. Ákvæðið um óbreytt launakjör og starfsskilyrði á við ákveði nýr rekstraraðili að halda sama starfsfólki eða endurráði hann það innan þriggja mánaða. Nefndin bendir á að ákvæðið kemur ekki í veg fyrir nauðsynlega hagræðingu í rekstri því að 4. gr. laganna um vernd við uppsögnum á ekki við þegar um gjaldþrot fyrirtækis er að ræða. Þá vekur nefndin athygli á því að í ákvæðinu er kveðið á um að virða skuli launakjör og starfsskilyrði samkvæmt kjarasamningi þar til kjarasamningi verður sagt upp eða hann rennur út eða annar samningur kemur í hans stað.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 1. júní 2011.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Pétur H. Blöndal.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Guðmundur Steingrímsson.


Ásmundur Einar Daðason.



Íris Róbertsdóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.