Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 648. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
2. uppprentun.

Þskj. 1829  —  648. mál.
Leiðrétting.
Nefndarálit


um frv. til l. um Þjóðminjasafn Íslands.

Frá meiri hluta menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Eirík Þorláksson og Jón Vilberg Guðjónsson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð, Sindra Ellertsson Csillag frá Fornleifafræðingafélagi Íslands, Halldóru Huld Sigurðardóttur, Þórdísi A. Baldursdóttur og Karen Þóru Sigurkarlsdóttur, sjálfstæða forverði, og Kristínu Huld Sigurðardóttur og Þór Hjaltalín frá Fornleifavernd ríkisins. Þá bárust umsagnir frá Brynju Björk Birgisdóttur, Fornleifafræðingafélagi Íslands, Fornleifavernd ríkisins, Halldóru Ásgeirsdóttur forngripaverði, Karen Þóru Sigurkarlsdóttur gripaforverði og Þórdísi Önnu Baldursdóttur textílforverði og frá Þjóðminjasafni Íslands, Náttúruminjasafni Íslands, Listasafni Íslands, safnaráði FÍSOS og Íslandsdeild ICOM.
    Með frumvarpinu er ætlunin að skýra nánar lagalega stöðu Þjóðminjasafns Íslands. Frumvarpið kveður á um að Þjóðminjasafn Íslands skuli taka við og varðveita muni, sýni og önnur rannsóknargögn úr fornleifarannsóknum og bera ábyrgð á gripum í kirkjum landsins. Þjóðminjasafninu er einnig veitt heimild til að fela viðurkenndu safni varðveislu gripa til langframa, sem og til að lána safngripi tímabundið vegna sýninga eða rannsókna. Þá er lögð til gjaldtökuheimild til handa Þjóðminjasafninu fyrir aðgengi að safninu og ýmsa sértæka þjónustu.
    Fram kemur í 3. gr. frumvarpsins að hlutverk Þjóðminjasafns Íslands sé að stuðla sem best að varðveislu íslenskra menningarminja og miðla sögu þjóðarinnar. Fram kom hjá umsagnaraðilum nokkur gagnrýni á að safnið skuli eiga að taka við og varðveita fornmuni, sýni og önnur rannsóknargögn úr fornleifarannsóknum þar sem slíkt mundi veita Þjóðminjasafninu einkaleyfi á forvörslu gripa úr fornleifarannsóknum og þar af leiðandi skerða atvinnufrelsi sjálfstætt starfandi forvarða. Meiri hlutinn vill benda á að samkvæmt lögum ber Þjóðminjasafn Íslands ábyrgð á varðveislu forngripa. Í því felst umsjón forngripa, bein forvarsla sem og fyrirbyggjandi forvarsla gripa sem berast safninu. Hins vegar hafa ekki verið skýr ákvæði í lögum um skil gripa til safnsins. Skil á forngripum hafa í mörgum tilvikum dregist í áraraðir þar sem skýr ákvæði um skilaskyldu gripa hefur skort. Ætla má að eigi færri en 100 þúsund gripir séu í vörslu einkaaðila við mismunandi skilyrði. Dæmi eru um að gripir hafi orðið fyrir skemmdum í vörslu rannsóknaraðila vegna ófullnægjandi forvörslu á rannsóknarstað eða vegna þess að skilyrðum um forvörslu hefur ekki verið fullnægt. Meiri hlutinn telur því eðlilegt að Þjóðminjasafn Íslands hafi yfirumsjón með og annist forvörslu íslenskra menningarminja þar sem gripir sem finnast við fornleifarannsóknir eru frumheimildir um menningarsögu Íslands og almannahagsmunir krefjast þess að varðveisla þeirra og frágangur sé með tilskildum hætti. Ábyrgð Þjóðminjasafns Íslands verður því að vera ótvíræð en meiri hlutanum þykir þó rétt að benda á að safnið getur nýtt sér þjónustu sjálfstætt starfandi forvarða þar sem safnið telur slíkt henta.
    Fram kom hjá umsagnaraðilum að mikilvægt væri að undirstrika rannsóknarhlutverk Þjóðminjasafns Íslands. Meiri hlutinn vill benda á að skv. 3. gr. frumvarpsins er kveðið á um að Þjóðminjasafn Íslands eigi að rækja hlutverk sitt m.a. með því að rannsaka og annast kynningu á menningarminjum með sýningum, útgáfu á fræðilegum ritum og annarri fræðslustarfsemi. Meiri hlutinn vill einnig árétta að skv. 1. gr. frumvarpsins er safnið höfuðsafn á sviði menningarminja. Í 2. mgr. 3. gr. frumvarps til nýrra safnalaga sem liggur fyrir þinginu (þskj. 1152, 650. mál) segir m.a.: „Með söfnun, skráningu, varðveislu, rannsóknum, sýningum og annarri miðlun er það hlutverk safna að tryggja menningar- og náttúruarf Íslands.“
    Nefndin ræddi hugmyndir um embættisheiti forstöðumanns Þjóðminjasafns Íslands sem verið hefur „þjóðminjavörður“ um árabil. Í máli nokkurra umsagnaraðila kom fram það sjónarmið að nafngiftin væri villandi því að hugtakið „þjóðminjar“ tæki til ýmissa þátta sem ekki eru lengur á verksviði Þjóðminjasafns Íslands, svo sem fornleifa, mannvirkja og húsa. Meiri hlutinn vill í þessu sambandi árétta að Þjóðminjasafn Íslands er skv. 1. gr. höfuðsafn á sviði menningarminja og gegnir sem slíkt lykilhlutverki í þjóðminjavörslu í landinu. Nafngiftin getur því ekki talist villandi þó að umsýsla og ábyrgð tiltekins hluta þjóðminja sé á forræði annarra aðila. Meiri hlutinn telur eðlilegt að gætt sé samræmis milli heitis Þjóðminjasafns Íslands og embættisheitis forstöðumanns þess og telur ekki tilefni til þess að gera á þeim breytingar að svo stöddu.
    Meiri hlutinn leggur til þá breytingu á 8. gr. frumvarpsins, er lýtur að aflögðum kirkjugripum, að ákvæðið nái eingöngu til aflagðra, friðaðra kirkjugripa, enda þykir ljóst að annað gæti skapað vanda.
    Meiri hlutinn tekur undir sjónarmið umsagnaraðila um að eðlilegt sé að veita rýmri aðlögun að breyttu umhverfi hvað varðar m.a. skilaskyldu forngripa og leggur til að gildistöku laganna verði frestað til 1. janúar 2013.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 2. gr.
                  a.      Fyrri málsliður 2. mgr. orðist svo: Forstöðumaður Þjóðminjasafns Íslands, þjóðminjavörður, stjórnar starfsemi og rekstri safnsins.
                  b.      Fyrirsögn greinarinnar verði: Skipulag og yfirstjórn.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Á eftir orðinu „aflagða“ í 1. mgr., orðinu „aflagðra“ í 2. mgr. og orðinu „Aflagðir“ í fyrirsögn 8. gr. komi: friðaða; friðaðra; og friðaðir.
     3.      Í stað ártalsins „2012“ í 11. gr. og ákvæði til bráðabirgða komi: 2013.

Alþingi, 31. ágúst 2011.


Skúli Helgason,

form., frsm.

Þuríður Backman.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir,

með fyrirvara.

Unnur Brá Konráðsdóttir.

Margrét Tryggvadóttir.


Oddný G. Harðardóttir.

Auður Lilja Erlingsdóttir.