Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1999, 139. löggjafarþing 673. mál: greiðsluþjónusta (heildarlög, EES-reglur).
Lög nr. 120 27. september 2011.

Lög um greiðsluþjónustu.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.

1. gr.

Gildissvið.
     Lög þessi gilda um greiðsluþjónustu sem veitt er hér á landi.
     Ákvæði III.–V. kafla, að undanskilinni 67. gr., skulu þó einungis gilda ef bæði greiðsluþjónustuveitandi greiðanda og greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu eru staðsettir í aðildarríki eða ef einungis einn greiðsluþjónustuveitandi kemur að framkvæmd greiðslunnar og hann er staðsettur í aðildarríki.
     Ákvæði III.–V. kafla gilda um greiðsluþjónustu sem veitt er í evrum eða gjaldmiðli annars aðildarríkis. Þó skulu ákvæði 64.–67. gr. aðeins gilda um eftirfarandi greiðslur:
  1. greiðslur í evrum,
  2. greiðslur í íslenskum krónum innan Íslands,
  3. greiðslur sem fela aðeins í sér einn gjaldmiðilsumreikning milli evru og íslenskrar krónu að því tilskildu að gjaldmiðilsumreikningurinn fari fram á Íslandi og, þegar um er að ræða greiðslur yfir landamæri, að þær fari fram í evrum,
  4. aðrar greiðslur innan aðildarríkjanna, nema um annað hafi verið samið; þetta á þó ekki við um 67. gr. sem er ófrávíkjanleg.


2. gr.

     Lög þessi gilda ekki um:
  1. Greiðslur sem fara einvörðungu fram í reiðufé beint frá greiðanda til viðtakanda greiðslu milliliðalaust.
  2. Greiðslur frá greiðanda til viðtakanda greiðslu fyrir milligöngu umboðsmanns sem hefur leyfi til að semja um og ganga frá sölu eða kaupum á vörum eða þjónustu fyrir hönd greiðanda eða viðtakanda greiðslu.
  3. Flutning í atvinnuskyni á seðlum og mynt, þ.m.t. söfnun, flutningur, umsýsla og afhending.
  4. Greiðslur sem felast í söfnun á reiðufé og afhendingu, sem er ekki í atvinnuskyni, innan ramma starfsemi sem er rekin í góðgerðarskyni eða ekki í hagnaðarskyni.
  5. Þjónustu þar sem viðtakandi greiðslu afhendir greiðanda reiðufé sem hluta af greiðslu í kjölfar skýrrar beiðni notanda greiðsluþjónustu við framkvæmd greiðslu til kaupa á vöru eða þjónustu.
  6. Peningaskiptastarfsemi, þ.e. rekstur sem byggist á staðgreiðslu í reiðufé og fjármunir eru ekki fyrir hendi á greiðslureikningi.
  7. Greiðslur á fjármunum sem byggjast á tékkum, ferðatékkum, víxlum, úttektarseðlum eða póstávísunum á pappír.
  8. Greiðslur sem fara fram í greiðslu- eða verðbréfauppgjörskerfi milli uppgjörsaðila, milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöðva og/eða seðlabanka og annarra aðila að kerfinu og greiðsluþjónustuveitenda, sbr. þó 7. gr.
  9. Greiðslur sem tengjast umsýslu verðbréfa, þ.m.t. arðgreiðslur og aðrar tekjur, svo sem vegna innlausnar eða sölu, sem aðilar þeir er um getur í 8. tölul. eða fjármálafyrirtæki með leyfi til að stunda viðskipti og þjónustu með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti eða verðbréfa- og fjárfestingarsjóðir annast.
  10. Stoðþjónustu tækniþjónustufyrirtækja við greiðsluþjónustu sem felur ekki í sér að þau hafi nokkurn tíma eignarhald á þeim fjármunum sem millifæra skal, þ.m.t. úrvinnsla og geymsla gagna, þjónusta við verndun trúnaðarupplýsinga og friðhelgi einkalífs, sannvottun gagna og eininga, þjónustuveita upplýsingatækni- og samskiptanets og útvegun og viðhald skjástöðva og búnaðar fyrir greiðsluþjónustu.
  11. Þjónustu sem byggist á miðlum sem aðeins er unnt að nota til kaupa á vörum og þjónustu á athafnasvæði útgefanda eða samkvæmt viðskiptasamningi við útgefanda, annaðhvort innan afmarkaðs þjónustukerfis þjónustuveitenda eða fyrir takmarkað svið vara og þjónustu.
  12. Greiðslur sem framkvæmdar eru með tilstyrk hvers kyns fjarskiptabúnaðar, stafræns búnaðar eða upplýsingatæknibúnaðar þegar keyptar vörur eða þjónusta er afhent til og skal notuð í slíkum búnaði, að því tilskildu að rekstraraðili búnaðarins starfi ekki einvörðungu sem milliliður milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila vara og þjónustu.
  13. Greiðslur sem fara milli greiðsluþjónustuveitenda, umboðsaðila þeirra eða útibúa fyrir þeirra eigin reikning.
  14. Greiðslur milli móður- og dótturfélags eða milli dótturfélaga sama móðurfélags sem framkvæmdar eru fyrir milligöngu greiðsluþjónustuveitanda eða greiðsluþjónustuveitenda sem tilheyra sömu samstæðu.
  15. Þjónustu í tengslum við úttekt reiðufjár í hraðbanka fyrir hönd eins eða fleiri kortaútgefenda og þjónustuveitandinn er ekki aðili að rammasamningi við viðskiptavininn sem tekur út peninga af greiðslureikningi. Þetta á þó ekki við ef þjónustuveitandinn veitir aðra þjónustu sem telst greiðsluþjónusta í skilningi 4. gr.


3. gr.

Ófrávíkjanleiki.
     Óheimilt er að víkja með samningi frá ákvæðum laga þessara notendum greiðsluþjónustu í óhag, nema að því leyti sem lögin heimila sérstaklega.

4. gr.

Greiðsluþjónusta.
     Með greiðsluþjónustu er í lögum þessum átt við:
  1. Þjónustu sem gerir kleift að leggja reiðufé inn á greiðslureikning ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru til rekstrar greiðslureiknings.
  2. Þjónustu sem gerir kleift að taka reiðufé út af greiðslureikningi ásamt öllum aðgerðum sem nauðsynlegar eru vegna rekstrar greiðslureiknings.
  3. Framkvæmd greiðslna, þ.m.t. millifærslur fjármuna á og af greiðslureikningi hjá greiðsluþjónustuveitanda notanda eða hjá öðrum greiðsluþjónustuveitanda:
    1. framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna,
    2. framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði,
    3. framkvæmd eignfærslna, þ.m.t. boðgreiðslna.
  4. Framkvæmd greiðslna ef fjármunir eru tryggðir með lánalínu fyrir notanda greiðsluþjónustu:
    1. framkvæmd beingreiðslna, þ.m.t. einstakra beingreiðslna,
    2. framkvæmd greiðslna með greiðslukorti eða sambærilegum búnaði,
    3. framkvæmd eignfærslna, þ.m.t. boðgreiðslna.
  5. Útgáfu greiðslumiðla og/eða færsluhirðingu.
  6. Peningasendingu.
  7. Framkvæmd greiðslna þegar samþykki greiðanda fyrir framkvæmd greiðslu er veitt fyrir tilstilli hvers kyns fjarskipta, stafrænna tækja eða upplýsingatæknitækja og viðtakandi greiðslu er rekstraraðili fjarskiptafyrirtækisins, upplýsingatæknikerfisins eða netkerfisins sem er aðeins í hlutverki milliliðar milli notanda greiðsluþjónustu og afhendingaraðila á vörum og þjónustu.


5. gr.

Greiðsluþjónustuveitendur.
     Greiðsluþjónustuveitendum er einum heimilt að veita greiðsluþjónustu hér á landi, enda hafi þeir tilskilin leyfi stjórnvalda hér á landi eða í öðru aðildarríki.

6. gr.

Skrá yfir greiðsluþjónustuveitendur.
     Fjármálaeftirlitið heldur skrá yfir greiðsluþjónustuveitendur samkvæmt lögum þessum. Í skránni skal tilgreina helstu upplýsingar um greiðsluþjónustuveitendur, svo sem um starfsheimildir og, ef við á, um umboðsaðila og útibú.
     Almenningur skal hafa aðgang að skrá Fjármálaeftirlitsins yfir greiðsluþjónustuveitendur.

7. gr.

Þátttaka í greiðslukerfum.
     Greiðsluþjónustuveitendum skal vera heimilt að gerast þátttakendur í greiðslukerfi í samræmi við 2. og 3. mgr., sbr. þó 4. mgr.
     Reglur um þátttöku í greiðslukerfum skulu vera hlutlægar, án mismununar og hóflegar. Þær mega ekki hamla aðgangi meira en nauðsynlegt er til að verjast tiltekinni áhættu, svo sem uppgjörsáhættu, rekstraráhættu eða viðskiptaáhættu, og vernda fjárhags- og rekstrarlegan stöðugleika greiðslukerfisins.
     Greiðslukerfi skulu ekki fela í sér kröfur til greiðsluþjónustuveitenda, notenda greiðsluþjónustu eða annarra greiðslukerfa sem:
  1. takmarka virka þátttöku þeirra í öðrum greiðslukerfum,
  2. mismuna greiðsluþjónustuveitendum að því er varðar rétt, skyldu eða heimildir þátttakenda, eða
  3. setja takmarkanir á grundvelli félagaréttarlegrar stöðu.

     Ákvæði 1.–3. mgr. gilda ekki um:
  1. greiðslukerfi sem viðurkennd hafa verið og hafa verið tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA í samræmi við lög nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum,
  2. greiðslukerfi þar sem þátttaka einskorðast við greiðsluþjónustuveitendur sem tilheyra tiltekinni samstæðu, eða
  3. greiðslukerfi þar sem greiðsluþjónustuveitandi, hvort sem hann er einn aðili eða samstæða, sbr. b-lið:
    1. kemur fram eða getur komið fram sem greiðsluþjónustuveitandi bæði fyrir greiðanda og viðtakanda greiðslu og ber einn ábyrgð á starfrækslu kerfisins, og
    2. heimilar öðrum greiðsluþjónustuveitendum þátttöku í kerfinu þar sem þátttökugjaldið vegna aðildar er ekki umsemjanlegt, en þátttakendur mega ákvarða eigin verðlagningu gagnvart greiðanda og viðtakanda greiðslu.

     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessa ákvæðis, þ.m.t. að því er varðar eftirlit.

8. gr.

Orðskýringar.
     Í lögum þessum merkir:
  1. Aðildarríki: Ríki sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, aðili að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
  2. Beingreiðsla: Greiðsluþjónusta við skuldfærslu á greiðslureikningi greiðanda þegar viðtakandi greiðslu á frumkvæði að greiðslu á grundvelli samþykkis greiðanda gagnvart viðtakanda, greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda eða eigin greiðsluþjónustuveitanda.
  3. Fjarsamskiptamiðill: Miðill sem nota má til að koma á greiðsluþjónustusamningi milli greiðsluþjónustuveitanda og notanda greiðsluþjónustu án þess að aðilar séu viðstaddir samtímis í eigin persónu.
  4. Fjármunir: Peningaseðlar og mynt, inneign á greiðslureikningum og rafeyrir samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki.
  5. Gildisdagur: Viðmiðunartími sem greiðsluþjónustuveitendur nota til að reikna vexti af fjármunum sem eru skuldfærðir eða eignfærðir á greiðslureikning.
  6. Greiðandi: Einstaklingur eða lögaðili sem á greiðslureikning og heimilar greiðslufyrirmæli tengd greiðslureikningnum eða, þegar engum greiðslureikningi er fyrir að fara, einstaklingur eða lögaðili sem gefur greiðslufyrirmæli.
  7. Greiðsla: Aðgerð sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu á frumkvæði að með því að leggja inn, millifæra eða taka út fjármuni, án tillits til þess hvort skuldbindingar liggi til grundvallar aðgerðinni milli greiðanda og viðtakanda greiðslu.
  8. Greiðslufyrirmæli: Hvers kyns fyrirmæli greiðanda eða viðtakanda greiðslu til greiðsluþjónustuveitanda síns um framkvæmd greiðslu.
  9. Greiðslukerfi: Kerfi til að yfirfæra fjármuni með formlegu og stöðluðu fyrirkomulagi og sameiginlegum reglum um meðferð, greiðslujöfnun og/eða uppgjör greiðslna.
  10. Greiðslumiðill: Hvers kyns persónubundinn búnaður og/eða verklag sem greiðsluþjónustuveitandi og notandi greiðsluþjónustu koma sér saman um og notandinn notar til að gefa greiðslufyrirmæli.
  11. Greiðslureikningur: Reikningur á nafni eins eða fleiri notenda greiðsluþjónustu sem notaður er við framkvæmd greiðslu.
  12. Greiðslustofnun: Lögaðili sem fengið hefur leyfi til starfrækslu greiðsluþjónustu skv. II. kafla hér á landi eða í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
  13. Greiðsluþjónusta: Þjónusta skv. 4. gr.
  14. Greiðsluþjónustuveitandi:
    1. Fjármálafyrirtæki með starfsleyfi til móttöku innlána eða annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi og veitingar útlána fyrir eigin reikning.
    2. Rafeyrisfyrirtæki.
    3. Póstrekandi með rekstrarleyfi samkvæmt lögum um póstþjónustu.
    4. Seðlabanki Evrópu (ECB) og seðlabankar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir eru ekki í hlutverki stjórnvalds peningamála.
    5. Stjórnvöld ef greiðsluþjónusta tengist ekki hlutverki þeirra sem slíkra.
    6. Peninga- og verðmætasendingarþjónusta samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem uppfyllir skilyrði II. kafla.
    7. Greiðslustofnun skv. II. kafla.
  15. Notandi greiðsluþjónustu: Einstaklingur eða lögaðili sem nýtir sér greiðsluþjónustu annaðhvort sem greiðandi eða viðtakandi greiðslu, eða hvort tveggja.
  16. Neytandi: Einstaklingur sem í samningum um greiðsluþjónustu kemur fram í öðrum tilgangi en vegna starfs síns eða atvinnurekstrar.
  17. Peningasending: Greiðsluþjónusta þar sem tekið er við fjármunum frá greiðanda, án þess að stofnaðir hafi verið greiðslureikningar í nafni greiðanda eða viðtakanda greiðslu, í þeim eina tilgangi að senda samsvarandi fjárhæð til viðtakanda greiðslu eða til annars greiðsluþjónustuveitanda fyrir hönd viðtakanda greiðslu og/eða þegar tekið er við fjármunum fyrir hönd viðtakanda greiðslu og þeir afhentir honum til ráðstöfunar.
  18. Rammasamningur: Samningur um greiðsluþjónustu þar sem kveðið er á um framkvæmd einstakra greiðslna og röð greiðslna í framtíðinni og sem kann að fela í sér skyldu til stofnunar greiðslureiknings og skilmála þar um.
  19. Samstæða: Samstæða í skilningi laga um ársreikninga.
  20. Sannvottun: Aðferð sem gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að sannreyna notkun tiltekins greiðslumiðils, þ.m.t. persónubundnar öryggisráðstafanir.
  21. Sérstakt kennimerki: Samsetning bókstafa, tölustafa eða tákna sem greiðsluþjónustuveitandi úthlutar notanda greiðsluþjónustu og tilgreina skal vegna framkvæmdar greiðslu til að unnt sé að bera ótvíræð kennsl á notandann og/eða greiðslureikning hans.
  22. Smágreiðslumiðill: Greiðslumiðill sem rammasamningur kveður á um að einstakar greiðslur með fari ekki yfir jafnvirði 30 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni eða hefur annaðhvort útgjaldaþak sem nemur jafnvirði 150 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni eða geymir fjármuni sem fara aldrei yfir jafnvirði 150 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
  23. Stofnfé:
    1. Innborgað fé sem talið er til eigin fjár samkvæmt þeim lögum sem gilda um rekstrarform greiðslustofnunar, að viðbættum yfirverðsreikningi en að undanskilinni heildarfjárhæð forgangshlutar, og
    2. lögbundinn varasjóður og óráðstafað eigið fé.
  24. Útibú: Starfsstöð önnur en aðalskrifstofa sem er hluti af greiðslustofnun og telst ekki sjálfstæður lögaðili og framkvæmir beint nokkrar eða allar greiðslur sem fylgja rekstri greiðslustofnunar. Allar starfsstöðvar greiðslustofnunar í einu og sama ríkinu á Evrópska efnahagssvæðinu skulu teljast eitt útibú ef aðalskrifstofa greiðslustofnunarinnar er í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu.
  25. Varanlegur miðill: Sérhvert tæki sem gerir notanda greiðsluþjónustu kleift að geyma upplýsingar, sem beint er til hans persónulega, á þann hátt að þær séu aðgengilegar til samanburðar síðar og eins lengi og nægir miðað við tilgang upplýsinganna, og gerir kleift að afrita upplýsingarnar óbreyttar.
  26. Viðmiðunargengi: Gengið sem er notað til grundvallar útreikningi við gjaldeyrisviðskipti og er aðgengilegt hjá greiðsluþjónustuveitanda eða opinberlega.
  27. Viðmiðunarvextir: Vaxtastig sem notað er til grundvallar útreikningi á vöxtum og aðgengilegt er opinberlega og báðir aðilar að greiðsluþjónustusamningi geta sannreynt.
  28. Viðtakandi greiðslu: Einstaklingur eða lögaðili sem er fyrirhugaður viðtakandi fjármuna sem hafa verið viðfang greiðslu.
  29. Viðskiptadagur: Dagur þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda eða viðtakanda, sem er aðili að framkvæmd greiðslu, er opinn og starfar eftir því sem þörf fyrir framkvæmd greiðslu krefur.


II. KAFLI
Greiðslustofnanir. Peninga- og verðmætasendingarþjónusta.
A. Stofnun og fjárhagsgrundvöllur.

9. gr.

Rekstrarform og höfuðstöðvar.
     Greiðslustofnun skal starfa sem lögaðili.
     Greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi skv. 15. gr. skal hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi.

10. gr.

Stofnfé.
     Stofnfé greiðslustofnunar skal á hverjum tíma taka mið af þeirri greiðsluþjónustu skv. 4. gr. sem greiðslustofnun veitir.
     Stofnfé greiðslustofnunar skal á hverjum tíma nema að lágmarki:
  1. jafnvirði 20.000 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni ef greiðslustofnun veitir einungis greiðsluþjónustu skv. 6. tölul. 4. gr.,
  2. jafnvirði 50.000 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni ef greiðslustofnun veitir greiðsluþjónustu skv. 7. tölul. 4. gr.,
  3. jafnvirði 125.000 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni ef greiðslustofnun veitir greiðsluþjónustu skv. 1.–5. tölul. 4. gr.


11. gr.

Eiginfjárgrunnur.
     Eiginfjárgrunnur greiðslustofnunar samkvæmt skilgreiningu laga um fjármálafyrirtæki má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 10. eða 12. gr., hvor fjárhæðin sem er hærri.
     Greiðslustofnun sem tilheyrir samstæðu þar sem í er önnur greiðslustofnun, fjármálafyrirtæki eða vátryggingafélag er einungis heimilt að telja eiginfjárliði einu sinni til eiginfjárgrunns. Það sama á við ef greiðslustofnun stundar aðra starfsemi en veitingu greiðsluþjónustu skv. 4. gr.

12. gr.

Útreikningur eigin fjár greiðslustofnana.
     Eigið fé greiðslustofnunar skal reiknað í samræmi við eina af aðferðunum þremur sem greinir í 2.–5. mgr. samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
     Aðferð A: Eigið fé greiðslustofnunar skal nema að minnsta kosti 10% af föstum rekstrarkostnaði síðastliðinna tólf mánaða. Fjármálaeftirlitið getur breytt þessari ákvörðun verði umtalsverðar breytingar á rekstri greiðslustofnunar. Hafi greiðslustofnun starfað skemur en eitt rekstrarár þegar útreikningur eigin fjár fer fram skal eigið fé hennar nema að minnsta kosti 10% af samsvarandi föstum rekstrarkostnaði sem gert er ráð fyrir í rekstraráætlun, nema Fjármálaeftirlitið krefjist þess að þeirri áætlun sé breytt.
     Aðferð B: Eigið fé greiðslustofnunar skal nema að minnsta kosti samanlagðri fjárhæð eftirfarandi liða margfaldaðri með kvarðastuðlinum k, sem skilgreindur er í 5. mgr., þar sem greiðslufjöldi (PV) samanstendur af einum tólfta af heildarfjárhæð greiðslna síðustu tólf mánuðina:
  1. 4,0% af PV sem nemur allt að jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni;
  2. 2,5% af PV sem nemur jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) og allt að jafnvirði 10 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni;
  3. 1% af PV sem nemur jafnvirði 10 milljóna evra (EUR) og allt að jafnvirði 100 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni;
  4. 0,5% af PV sem nemur jafnvirði 100 milljóna evra (EUR) og allt að jafnvirði 250 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni og
  5. 0,25% af PV umfram jafnvirði 250 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.

     Aðferð C: Fjárhæð eigin fjár greiðslustofnunar skal vera að minnsta kosti viðeigandi vísir sem skilgreindur er í a-lið, margfaldaður með margfeldisstuðlinum sem skilgreindur er í b-lið og með kvarðastuðlinum k sem skilgreindur er í 5. mgr.:
  1. Viðeigandi vísir er samtala eftirfarandi liða:
    1. vaxtatekna,
    2. vaxtakostnaðar,
    3. fenginna umboðslauna og þóknana, og
    4. annarra rekstrartekna.
  2. Hver liður skal tekinn með í samtöluna með plús- eða mínusmerki. Ekki má nota óreglulega tekjuliði í útreikningi á viðeigandi vísum. Útgjöld vegna útvistunar á þjónustu hjá þriðja aðila geta minnkað viðeigandi vísi ef félagið sem stofnar til útgjaldanna er eftirlitsskyldur aðili samkvæmt lögum þessum. Viðeigandi vísir er reiknaður á grundvelli síðasta reikningsárs. Viðeigandi vísir skal reiknaður yfir síðasta reikningsár. Eigi að síður skal eigið fé, sem reiknað er í samræmi við aðferð C, ekki vera undir 80% af meðaltali þriggja undanfarinna reikningsára fyrir viðeigandi vísi. Ef endurskoðaðar tölur liggja ekki fyrir má nota eigið mat greiðslustofnunarinnar.
  3. Margföldunarstuðullinn skal vera:
    1. 10% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur allt að jafnvirði 2,5 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni;
    2. 8% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 2,5 milljóna evra (EUR) og allt að jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni;
    3. 6% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) og allt að jafnvirði 25 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni;
    4. 3% af þeim hluta viðeigandi vísis sem nemur jafnvirði 25 milljóna evra (EUR) og allt að jafnvirði 50 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni;
    5. 1,5% af þeim hluta viðeigandi vísis umfram jafnvirði 50 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.

     Kvarðastuðullinn k, sem nota skal í aðferðum B og C, sbr. 3. og 4. mgr., skal vera:
  1. 0,5 ef greiðslustofnunin stundar aðeins greiðsluþjónustu skv. 6. tölul. 4. gr.;
  2. 0,8 ef greiðslustofnun stundar aðeins greiðsluþjónustu skv. 7. tölul. 4. gr.;
  3. 1 ef greiðslustofnun stundar greiðsluþjónustu skv. 1.–5. tölul. 4. gr.

     Fjármálaeftirlitið getur á grundvelli mats á áhættustýringarferlum, gagnagrunni yfir tapsáhættu og innra eftirlitskerfi greiðslustofnunar gert kröfu um að eigið fé greiðslustofnunar sé allt að 20% hærra en fjárhæðin sem stafar af beitingu aðferðarinnar sem valin er í samræmi við 1. mgr. Á sama grundvelli getur Fjármálaeftirlitið heimilað að fjárhæð eigin fjár greiðslustofnunar sé allt að 20% lægri en fjárhæðin sem leiðir af beitingu þeirrar aðferðar sem valin er í samræmi við 1. mgr.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur samkvæmt þessu ákvæði.

B. Starfsleyfi.

13. gr.

Starfsleyfi.
     Aðilar, aðrir en þeir sem taldir eru upp í a–f-liðum 14. tölul. 8. gr., er hyggjast veita greiðsluþjónustu skulu afla sér starfsleyfis sem greiðslustofnun. Starfsleyfi skal ná til einnar eða fleiri tegunda greiðsluþjónustu í skilningi laga þessara.
     Fjármálaeftirlitið veitir greiðslustofnun starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Greiðslustofnun er heimilt að stunda greiðsluþjónustu að fengnu starfsleyfi.

14. gr.

Umsókn um starfsleyfi og viðvarandi upplýsingaskylda.
     Umsókn um starfsleyfi skal berast Fjármálaeftirlitinu. Hún skal vera skrifleg og ítarleg. Í umsókninni skal gera grein fyrir þeirri starfsemi sem fyrirhugað er að sinna og hvernig henni verður sinnt. Umsækjandi skal, með framvísun nauðsynlegra gagna, sýna fram á hæfi lögaðilans sem æskir starfsleyfis til starfrækslu greiðslustofnunar í samræmi við ákvæði laga þessara.
     Fjármálaeftirlitið skal setja reglur um þær upplýsingar sem greina þarf í umsókn, svo og nauðsynleg fylgigögn, til þess að umsóknin teljist fullnægjandi.
     Greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi skv. 15. gr. skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu án tafar um allar breytingar á áður veittum upplýsingum skv. 1. mgr. í tengslum við umsókn og veitingu starfsleyfis.

15. gr.

Starfsleyfisskilyrði. Tilkynning um veitingu eða synjun starfsleyfis.
     Starfsleyfi skal veitt ef umsækjandi sýnir að mati Fjármálaeftirlitsins fram á að skipulag í fyrirhuguðum rekstri greiðsluþjónustu sé skýrt, fullnægjandi verklagsreglur séu til staðar er þjóni markmiðum um traustan og varfærinn rekstur og að starfsemin hafi á að skipa fullnægjandi innra eftirlitskerfi að því er varðar aðferðir við stjórnun, fyrirkomulag áhættustýringar og reikningsskil samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.
     Þær kröfur sem gerðar eru til umsækjanda skv. 1. mgr. skulu vera í samræmi við eðli og umfang þeirrar greiðsluþjónustu sem fyrirhugað er að veita.
     Við mat á umsókn um starfsleyfi er Fjármálaeftirlitinu heimilt að leita ráðgjafar Seðlabanka Íslands eða annarra viðeigandi opinberra yfirvalda.
     Fjármálaeftirlitið getur gert kröfu um stofnun sérstakrar einingar fyrir rekstur greiðsluþjónustu skv. 4. gr. ef greiðslustofnun sinnir annarri starfsemi samhliða veitingu greiðsluþjónustu og sá hluti rekstrarins hefur áhrif á fjárhagslegan styrk greiðslustofnunar eða torveldar eftirlit með henni.
     Fjármálaeftirlitið skal synja um veitingu starfsleyfis ef það telur hluthafa eða eigendur virkra eignarhluta ekki hæfa með tilliti til traustrar og varfærinnar stjórnunar greiðslustofnunar.
     Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl greiðslustofnunar við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit með starfseminni af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Hið sama á við ef lög eða reglur, sem gilda um slíka tengda aðila, hindra eftirlit. Með nánum tengslum er í lögum þessum átt við náin tengsl í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.
     Starfsleyfi skal gilda í öllum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu. Hyggist greiðslustofnun veita þjónustu samkvæmt lögum þessum í öðru aðildarríki skal þó tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin. Innan mánaðar frá viðtöku slíkrar tilkynningar skal Fjármálaeftirlitið veita lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi ríki upplýsingar um heiti og heimilisfang greiðslustofnunar, nöfn þeirra sem eru ábyrgir fyrir stjórn starfseminnar, skipulag hennar og hvers konar greiðsluþjónustu hún hyggst veita.
     Fullnægi umsókn um starfsleyfi skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins veitir Fjármálaeftirlitið starfsleyfi. Að öðrum kosti skal Fjármálaeftirlitið synja um starfsleyfi með rökstuddum hætti.
     Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu eða synjun starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst.

16. gr.

Afturköllun starfsleyfis.
     Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi greiðslustofnunar í heild eða að hluta ef:
  1. greiðslustofnun nýtir ekki starfsleyfið innan 12 mánaða frá því að það var veitt, afsalar sér ótvírætt leyfinu eða hættir starfsemi í meira en sex mánuði samfellt;
  2. starfsleyfis hefur verið aflað á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt;
  3. greiðslustofnun uppfyllir ekki lengur skilyrði fyrir leyfisveitingu;
  4. áframhaldandi rekstur greiðsluþjónustu af hálfu greiðslustofnunar ógnar stöðugleika greiðslukerfis;
  5. starfsemi greiðslustofnunar fellur undir annað ákvæði í landslögum sem kveður á um afturköllun leyfis; eða
  6. greiðslustofnun brýtur að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim.

     Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal greiðslustofnun veittur hæfilegur frestur til úrbóta ef unnt er að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins. Þetta á þó ekki við um a-lið 1. mgr.
     Afturköllun á starfsleyfi greiðslustofnunar skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Tilkynning skal enn fremur send lögbærum eftirlitsaðilum í þeim ríkjum þar sem hlutaðeigandi greiðslustofnun starfrækir útibú eða veitir greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila.

17. gr.

Góðir viðskiptahættir og þagnarskylda.
     Greiðslustofnun skal viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur.
     Um þagnarskyldu stjórnarmanna greiðslustofnunar, framkvæmdastjóra, endurskoðenda, starfsmanna og hverra þeirra sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins fer samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

C. Starfsheimildir.

18. gr.

Varðveisla fjármuna.
     Fjármunum sem mótteknir hafa verið frá notendum greiðsluþjónustu eða frá öðrum greiðsluþjónustuveitendum vegna framkvæmdar greiðslu skal haldið skýrt aðgreindum frá eigin fé greiðsluþjónustuveitanda, þ.m.t. greiðslustofnunar, og fjármunum í eigu annarra en notenda greiðsluþjónustu.
     Fjármunir skv. 1. mgr. skulu teljast forgangskröfur í þrotabú greiðsluþjónustuveitanda komi til gjaldþrots. Um rétthæð þeirra fer skv. 109. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., enda sýni eigandi fjármuna fram á eignarrétt sinn að þeim.
     Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um hvernig varðveislu fjármuna skv. 1. mgr. skuli háttað.

19. gr.

Önnur starfsemi.
     Greiðslustofnun er heimilt að stunda aðra starfsemi auk greiðsluþjónustu ef hún er nátengd starfsemi eða rekstri greiðsluþjónustu, svo sem þjónustu við framkvæmd greiðslna, gjaldeyrisviðskiptum, ráðstöfunum til verndunar eigna og geymslu og vinnslu gagna. Greiðslustofnun er jafnframt heimilt að starfrækja greiðslukerfi.
     Greiðslustofnun er heimilt að halda greiðslureikninga sem skal einungis nota við framkvæmd greiðslna.
     Fjármunir sem greiðslustofnun móttekur frá notendum greiðsluþjónustu, vegna veitingar greiðsluþjónustu, teljast ekki innlán, endurgreiðanlegir fjármunir frá almenningi eða rafeyrir.
     Greiðslustofnun er óheimilt að stunda innlánsstarfsemi eða taka við endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi í skilningi laga um fjármálafyrirtæki.
     Í tengslum við veitingu greiðsluþjónustu skv. 4., 5. og 7. tölul. 4. gr. er greiðslustofnun heimilt að veita lán, enda uppfylli eiginfjárgrunnur stofnunarinnar kröfur laga þessara og er að mati Fjármálaeftirlitsins fullnægjandi með tilliti til heildarlánveitinga. Lánveiting skal einungis veitt í tengslum við framkvæmd greiðslu. Lánveitingu má ekki fjármagna með fjármunum sem mótteknir eru eða varðveittir vegna framkvæmdar greiðslu. Endurgreiðslutími lánveitingar yfir landamæri skal ekki vera lengri en 12 mánuðir. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um lánveitingar greiðslustofnunar.
     Fjármálaeftirlitið getur bannað greiðslustofnun að hluta til eða öllu leyti að stunda starfsemi samkvæmt þessari grein. Um slíkt bann gilda ákvæði 1. og 2. mgr. 16. gr.

D. Stjórn. Reikningsskil og endurskoðun.

20. gr.

Hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.
     Um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda samkvæmt skipulagi greiðslustofnunar gilda hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki eftir því sem við á.
     Greiðslustofnun skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu um skipan og síðari breytingar á stjórn fyrirtækis og framkvæmdastjórn og skulu tilkynningunni fylgja fullnægjandi upplýsingar til að hægt sé að meta hvort skilyrðum 1. mgr. sé fullnægt.

21. gr.

Reikningsskil og lögboðin endurskoðun.
     Reikningsár greiðslustofnunar er almanaksárið. Ákvæði laga um fjármálafyrirtæki gilda að öðru leyti um bókhald, endurskoðun og tilkynningarskyldu endurskoðenda greiðslustofnana til Fjármálaeftirlitsins.

E. Eftirlit.

22. gr.

     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi greiðslustofnana, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistunaraðilum, sem falla undir ákvæði þessa kafla, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið skal hafa samstarf við lögbær yfirvöld í aðildarríkjum um framkvæmd eftirlits með starfsemi umboðsaðila, útibúa og útvistunaraðila á vegum greiðslustofnana sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum í þeim ríkjum.
     Fjármálaeftirlitið skal tilkynna lögbærum yfirvöldum um það fyrir fram hyggist það framkvæma skoðun erlendis á starfsstöð greiðslustofnunar sem fengið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Slík skoðun skal framkvæmd í samstarfi við lögbær yfirvöld í hlutaðeigandi ríki. Óski Fjármálaeftirlitið á hinn bóginn eftir því er því heimilt að fela lögbærum yfirvöldum í hlutaðeigandi ríki framkvæmd slíkrar skoðunar.
     Fjármálaeftirlitið skal að ósk lögbærra yfirvalda í aðildarríkjum veita viðeigandi upplýsingar um greiðslustofnanir sem fengið hafa starfsleyfi samkvæmt lögum þessum, einkum þegar brot eða grunur um brot umboðsaðila, útibús eða einingar sem starfsemi er útvistuð til er annars vegar. Mikilvægar upplýsingar skulu enn fremur sendar að frumkvæði Fjármálaeftirlitsins til lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki þar sem greiðslustofnun sem fengið hefur starfsleyfi samkvæmt lögum þessum hefur starfsemi eða útvistar verkefni til.

F. Umboðsaðilar, útibú og útvistun.

23. gr.

Umboðsaðilar og útibú.
     Greiðslustofnun sem hyggst veita greiðsluþjónustu fyrir milligöngu umboðsaðila skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Tilkynningunni skulu fylgja upplýsingar um nafn og heimilisfang umboðsaðilans og lýsing á innra eftirlitskerfi sem m.a. skal uppfylla kröfur laga um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, svo og nauðsynlegar upplýsingar og gögn til að sýna fram á að stjórnendur uppfylli hæfiskröfur að mati Fjármálaeftirlitsins.
     Fjármálaeftirlitið skráir umboðsaðila í skrá skv. 6. gr., að fengnum upplýsingum skv. 1. mgr. Telji Fjármálaeftirlitið vafa leika á að upplýsingarnar séu réttar skal það grípa til aðgerða til að sannreyna þær. Fjármálaeftirlitið synjar um skráningu á umboðsaðila í skrá yfir greiðslustofnanir ef það er mat þess að ósannað teljist að upplýsingar skv. 1. mgr. séu réttar.
     Greiðslustofnun sem óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í öðru aðildarríki, fyrir milligöngu umboðsaðila, skal fylgja málsmeðferðarreglum þeim sem greinir í 1. mgr. og 15. gr. Áður en Fjármálaeftirlitið skráir upplýsingar um umboðsaðila í skrá skv. 6. gr. skal Fjármálaeftirlitið senda tilkynningu til lögbærra yfirvalda í hlutaðeigandi ríki. Ef gerðar eru athugasemdir við fyrirhugaða skráningu skal Fjármálaeftirlitið taka tillit til þeirra.
     Berist Fjármálaeftirlitinu tilkynning frá lögbærum yfirvöldum í öðru aðildarríki, sem greiðslustofnun óskar eftir að veita greiðsluþjónustu í fyrir milligöngu umboðsaðila eða með stofnun útibús, sem hafa gilda ástæðu til að ætla að peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka eigi sér stað, hafi átt sér stað eða sé í undirbúningi eða að tilnefning umboðsaðila eða stofnun útibúsins gæti aukið hættu á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka getur Fjármálaeftirlitið hafnað því að færa upplýsingar um umboðsaðilann eða útibúið í skrá skv. 6. gr. eða afturkallað skráningu ef hún hefur þegar farið fram.
     Greiðslustofnun skal sjá til þess að umboðsaðili eða útibú sem veitir þjónustu fyrir hennar hönd upplýsi notendur greiðsluþjónustu um þá staðreynd.

24. gr.

Útvistun.
     Greiðslustofnun sem hyggst útvista rekstrarþætti greiðsluþjónustu skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu fyrir fram um það.
     Útvistun mikilvægra rekstrarþátta sem dregur umtalsvert úr gæðum innra eftirlits greiðslustofnunar og torveldar eftirlit með framkvæmd laga þessara er óheimil. Rekstrarþáttur telst mikilvægur ef ágalli eða brestur í framkvæmd hans hefur umtalsverð neikvæð áhrif á getu greiðslustofnunar til að uppfylla þær kröfur sem liggja til grundvallar starfsleyfi hennar eða skyldur samkvæmt lögunum, fjárhagslega afkomu greiðslustofnunar eða styrkleika eða samfelldni greiðsluþjónustunnar sem um ræðir.
     Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um hvernig greiðslustofnun er heimilt að standa að útvistun mikilvægra rekstrarþátta.

G. Annað.

25. gr.

Bótaábyrgð.
     Greiðslustofnun ber skaðabótaábyrgð vegna tjóns sem rakið verður til athafna starfsmanna hennar, umboðsaðila, útibúa og þeirra aðila sem rekstrarþáttum greiðsluþjónustu hefur verið útvistað til.
     Greiðslustofnun sem reiðir sig á þriðja aðila til að annast tiltekna rekstrarþætti skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum.

26. gr.

Varðveisla gagna.
     Greiðslustofnun ber að varðveita öll viðeigandi gögn er varða þennan kafla að lágmarki í fimm ár.

H. Peninga- og verðmætasendingarþjónusta.

27. gr.

     Peninga- og verðmætasendingarþjónustu samkvæmt lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka er heimilt að veita greiðsluþjónustu skv. 6. tölul. 4. gr., að fullnægðum skilyrðum 2.–4. mgr.
     Heildarfjárhæð greiðslna sem peninga- og verðmætasendingarþjónusta framkvæmir á grundvelli laga þessara á einum mánuði má að hámarki nema jafnvirði 3 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að kveða á um lægri viðmiðunarfjárhæð en greinir í 1. málsl.
     Ákvæði þessa kafla gilda um peninga- og verðmætasendingarþjónustu skv. 1. mgr., að undanskildum ákvæðum 10.–12. gr., 7. mgr. 15. gr., 5. mgr. 19. gr., 2.–4. mgr. 22. gr., 3.–4. mgr. 23. gr. og 24. gr.
     Fjármálaeftirlitið getur sett nánari reglur um skilyrði fyrir veitingu greiðsluþjónustu af hálfu peninga- og verðmætasendingarþjónustu.

III. KAFLI
Upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu.
A. Almenn ákvæði.

28. gr.

Gildissvið kaflans.
     Ákvæði þessa kafla gilda um stakar greiðslur, rammasamninga og greiðslur sem falla undir þá.
     Víkja má frá ákvæðum þessa kafla með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
     Ákvæði 35.–38. gr. gilda aðeins um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu þegar um ræðir stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga.
     Ákvæði 39.–46. gr. gilda aðeins um upplýsingagjöf og gagnsæi við veitingu greiðsluþjónustu þegar um ræðir greiðslur sem falla undir rammasamninga.
     Ef lög nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu, eiga einnig við víkja eftirtalin ákvæði II. kafla þeirra laga, um upplýsingaskyldu gagnvart neytanda áður en hann er bundinn af fjarsölusamningi eða tilboði, fyrir ákvæðum 35., 36., 39. og 40. gr. laga þessara: 5. gr., 1. og 3. tölul. 6. gr., 3.–4. og 6.–7. tölul. 7. gr. og 1. tölul. 8. gr.

29. gr.

Undanþágur frá kröfum um upplýsingagjöf vegna smágreiðslumiðla.
     Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um undanþágur frá kröfum þessa kafla um upplýsingagjöf þegar smágreiðslumiðill er annars vegar.

30. gr.

Sönnunarbyrði greiðsluþjónustuveitanda.
     Greiðsluþjónustuveitandi ber sönnunarbyrði fyrir því að hann hafi uppfyllt kröfur um upplýsingagjöf sem fram koma í þessum kafla.

31. gr.

Gjaldtaka vegna upplýsingagjafar.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal ekki krefja notanda greiðsluþjónustu um gjald fyrir upplýsingar sem veittar eru samkvæmt kafla þessum.
     Semja má um gjaldtöku fyrir veitingu viðbótarupplýsinga, tíðari upplýsingagjöf eða veitingu upplýsinga með öðrum hætti en tilgreindur er í rammasamningi, að því tilskildu að það sé að beiðni notanda greiðsluþjónustunnar og að gjaldtakan sé viðeigandi og í samræmi við raunkostnað.

32. gr.

Gjaldmiðill og umreikningur gjaldmiðils.
     Greiðslur skulu vera í þeim gjaldmiðli sem aðilar hafa komið sér saman um.
     Ef boðinn er gjaldmiðilsumreikningur áður en greiðsla á sér stað og ef sú þjónusta er boðin á sölustað eða af hálfu viðtakanda greiðslu skal sá aðili sem býður greiðanda þjónustuna veita honum allar upplýsingar um gjöld og það gengi sem nota á við umreikning greiðslunnar. Greiðandi skal samþykkja þjónustu við umreikning gjaldmiðils á þeim grundvelli.

33. gr.

Notkun tiltekins greiðslumiðils.
     Ef viðtakandi greiðslu býður lækkun vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils, umfram aðra, skal hann tilkynna greiðanda um það áður en greiðslan er framkvæmd.
     Ef greiðsluþjónustuveitandi krefst gjalds vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils skal hann tilkynna notanda greiðsluþjónustu um það áður en greiðslan er framkvæmd.

34. gr.

Sérákvæði um greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu sem send eru með greiðslumiðli sem fellur undir rammasamning.
     Þegar greiðslufyrirmæli vegna stakrar greiðslu eru send með greiðslumiðli sem fellur undir rammasamning er greiðsluþjónustuveitandi ekki skuldbundinn til að veita eða koma á framfæri upplýsingum sem notandi greiðsluþjónustu hefur þegar fengið á grundvelli rammasamnings við annan greiðsluþjónustuveitanda eða sem honum verða veittar í samræmi við slíkan rammasamning.

B. Stakar greiðslur sem ekki falla undir rammasamninga.

35. gr.

     Almenn upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
     Áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu skal greiðsluþjónustuveitandi koma upplýsingum og skilmálum skv. 36. gr. á framfæri við notandann á aðgengilegan hátt.
     Upplýsingar og skilmálar skulu lagðir fram á pappír eða öðrum varanlegum miðli ef notandi greiðsluþjónustu æskir þess.
     Framsetning upplýsinga og skilmála skal vera með skýrum og auðskiljanlegum hætti, á íslensku eða hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um.
     Ef þjónustusamningur hefur verið gerður um stakar greiðslur að beiðni notanda greiðsluþjónustu með tilstyrk fjarsamskiptamiðils sem ekki gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að fara að 1.–3. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandinn uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim ákvæðum þegar í stað eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd.
     Skyldu til upplýsingagjafar skv. 1.–3. mgr. má einnig uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að þjónustusamningi um staka greiðslu eða drögum að greiðslufyrirmælum sem geyma þær upplýsingar og skilmála sem komið skal á framfæri við notandann samkvæmt lögum þessum.

36. gr.

Upplýsingar og skilmálar um þjónustu í tengslum við stakar greiðslur.
     Eftirfarandi upplýsingar og skilmálar skulu afhentir eða hafðir aðgengilegir fyrir notendur greiðsluþjónustu:
  1. lýsing á upplýsingunum eða því sérstaka kennimerki sem notandi greiðsluþjónustu þarf að gefa upp til að greiðslufyrirmæli verði framkvæmd á réttan hátt,
  2. hámarkstími sem framkvæmd greiðsluþjónustunnar má taka,
  3. öll gjöld sem notanda greiðsluþjónustu ber að greiða greiðsluþjónustuveitanda og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda,
  4. ef við á, raunverulegt gengi eða viðmiðunargengi sem gilda skal um greiðslu,
  5. ef við á, viðeigandi upplýsingar og skilmálar sem tilgreindir eru í 40. gr.


37. gr.

Upplýsingagjöf gagnvart greiðanda eftir viðtöku greiðslufyrirmæla um staka greiðslu.
     Eftirfarandi upplýsingar skal greiðsluþjónustuveitandi afhenda eða gera greiðanda aðgengilegar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. 35. gr. þegar í stað eftir viðtöku greiðslufyrirmæla:
  1. tilvísun sem gerir greiðanda kleift að bera kennsl á greiðslu og, ef við á, upplýsingar sem varða viðtakanda greiðslu,
  2. fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem kveðið er á um í greiðslufyrirmælunum,
  3. fjárhæð gjalda sem greiðanda ber að greiða vegna framkvæmdar greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda,
  4. ef við á, gengið sem greiðsluþjónustuveitandi notar í greiðslunni eða tilvísun til þess ef um ræðir annað gengi en það sem kveðið er á um í samræmi við d-lið 36. gr., svo og fjárhæð greiðslu eftir gjaldmiðilsumreikning og
  5. dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmælanna.


38. gr.

Upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda greiðslu eftir framkvæmd stakrar greiðslu.
     Eftirfarandi upplýsingar skal greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu afhenda eða gera viðtakandanum aðgengilegar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1.–3. mgr. 35. gr., þegar í stað eftir að greiðsla hefur verið framkvæmd:
  1. tilvísun sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að bera kennsl á greiðsluna og, ef við á, greiðanda, svo og þær upplýsingar sem kunna að hafa verið sendar með greiðslunni,
  2. fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem fjármunirnir sem viðtakandi greiðslu fær til ráðstöfunar eru í,
  3. fjárhæð gjalda sem viðtakanda hennar ber að greiða vegna framkvæmdar greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda,
  4. ef við á, gengið sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda notar í greiðslunni og fjárhæð greiðslu áður en gjaldmiðilsumreikningur fór fram og
  5. gildisdag eignfærslu.


C. Greiðslur sem falla undir rammasamninga.

39. gr.

Almenn upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna greiðslna sem falla undir rammasamninga verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
     Áður en rammasamningur eða tilboð um greiðsluþjónustu verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu skal greiðsluþjónustuveitandi afhenda notanda upplýsingar og skilmála skv. 40. gr. á pappír eða öðrum varanlegum miðli.
     Framsetning upplýsinga og skilmála skal vera með skýrum og auðskiljanlegum hætti, á íslensku eða á hverju því tungumáli öðru sem aðilar koma sér saman um.
     Ef rammasamningur hefur verið gerður að beiðni notanda greiðsluþjónustu með tilstyrk fjarsamskiptamiðils sem ekki gerir greiðsluþjónustuveitanda kleift að fara að 1. og 2. mgr. skal greiðsluþjónustuveitandinn uppfylla skyldur sínar samkvæmt þeim ákvæðum þegar í stað að lokinni gerð rammasamnings.
     Skyldu til upplýsingagjafar skv. 1. og 2. mgr. má einnig uppfylla með því að leggja fram afrit af drögum að rammasamningi sem geyma upplýsingar og skilmála skv. 40. gr.

40. gr.

Upplýsingar og skilmálar um þjónustu í tengslum við greiðslur sem falla undir rammasamninga.
     Eftirfarandi upplýsingar og skilmálar skulu afhentir notendum greiðsluþjónustu:
  1. Að því er varðar greiðsluþjónustuveitandann:
    1. heiti, heimilisfang höfuðstöðva og viðeigandi póstföng, svo og sambærilegar upplýsingar um umboðsaðila og útibú ef við á, og
    2. hvaða lögbær eftirlitsaðili fer með eftirlit með starfsemi hans og, eftir því sem við kann að eiga, upplýsingar um viðeigandi opinbera skrá um starfsleyfi greiðsluþjónustuveitanda og skráningarnúmer eða jafngilda aðferð til auðkenningar í þeirri skrá.
  2. Að því er varðar notkun greiðsluþjónustunnar:
    1. lýsing á þjónustunni sem um ræðir,
    2. lýsing á upplýsingunum eða því sérstaka kennimerki sem notandi greiðsluþjónustu skal leggja fram til að greiðslufyrirmæli verði framkvæmd á réttan hátt,
    3. hvernig og á hvaða formi samþykki skal veitt fyrir framkvæmd greiðslu og afturköllun slíks samþykkis í samræmi við 49. og 61. gr.,
    4. við hvaða tímamark viðtaka greiðslufyrirmæla miðast, sbr. 59. gr., svo og um skilgreindan lokunartíma greiðsluþjónustuveitanda, ef við á,
    5. hámarksframkvæmdatími greiðsluþjónustu, og
    6. hvort mögulegt sé að ákvarða útgjaldaþak vegna greiðslna sem framkvæmdar eru með greiðslumiðli í samræmi við 1. mgr. 50. gr.
  3. Að því er varðar gjaldtöku, vexti og gengi:
    1. öll gjöld sem notanda greiðsluþjónustu ber að greiða greiðsluþjónustuveitanda, með sundurliðuðum fjárhæðum ef við á,
    2. vextir og gengi, ef við á; ef notast skal við viðmiðunarvexti og viðmiðunargengi skulu notanda afhentar upplýsingar um hlutaðeigandi aðferðir við vaxtaútreikning og viðeigandi dagsetningar og vísitölu eða grunn til að ákvarða viðmiðunarvexti eða viðmiðunargengi; og
    3. reglur um breytingar á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi, þ.m.t. gildistíma slíkra breytinga, skv. 2. mgr. 42. gr., ef við á.
  4. Að því er varðar boðleiðir og samskipti:
    1. umsamdar samskiptaaðferðir vegna sendingar upplýsinga eða tilkynninga samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. að því er varðar tæknilegar kröfur til búnaðar notanda greiðsluþjónustu,
    2. háttur og tíðni miðlunar upplýsinga samkvæmt lögum þessum,
    3. tungumál rammasamnings og boðskipta meðan á samningssambandi stendur, og
    4. réttur notanda greiðsluþjónustu til að fá afhenta skilmála rammasamnings og upplýsingar og skilmála í samræmi við 41. gr.
  5. Að því er varðar varúðarráðstafanir og ábyrgð:
    1. lýsing á þeim ráðstöfunum sem notanda greiðsluþjónustu ber að grípa til í því skyni að tryggja örugga varðveislu greiðslumiðils, ef við á, svo og hvernig staðið skuli að tilkynningu til greiðsluþjónustuveitanda skv. 3. mgr. 51. gr.,
    2. skilyrði áskilnaðar greiðsluþjónustuveitanda til stöðvunar á notkun greiðslumiðils í samræmi við 50. gr., ef um það er samið,
    3. ábyrgð greiðanda skv. 56. gr., þ.m.t. upplýsingar um fjárhæðarmörk,
    4. hvernig og innan hvaða tímamarka notanda greiðsluþjónustu ber að tilkynna greiðsluþjónustuveitanda um óheimilaða eða rangt framkvæmda greiðslu skv. 53. gr., auk upplýsinga um ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda skv. 55. gr.,
    5. ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda á framkvæmd greiðslu skv. 69. gr., og
    6. skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 57. og 58. gr.
  6. Að því er varðar breytingar og uppsögn rammasamnings:
    1. ef um það er samið, að notandi greiðsluþjónustu teljist hafa samþykkt breytingar á skilmálum rammasamnings skv. 42. gr. nema tilkynning berist um annað til greiðsluþjónustuveitanda áður en breytingarnar öðlast gildi,
    2. gildistími samningsins, og
    3. réttur notanda greiðsluþjónustu til uppsagnar rammasamnings í samræmi við ákvæði laga þessara.
  7. Að því er varðar úrlausn ágreiningsmála:
    1. hvaða lög gilda um rammasamninginn, og
    2. hvaða kosti notandi greiðsluþjónustu á skv. V. kafla laga þessara um úrlausn ágreiningsmála utan dómstóla og meðferð bótamála.


41. gr.

Upplýsingar og skilmálar rammasamnings skulu ávallt aðgengilegir notanda greiðsluþjónustu.
     Hvenær sem er, meðan á samningssambandi stendur, getur notandi greiðsluþjónustu óskað eftir og skal þá fá afhenta skilmála rammasamnings ásamt þeim upplýsingum og skilmálum sem tilgreind eru í 40. gr. á pappír eða öðrum varanlegum miðli.

42. gr.

Breytingar á skilmálum rammasamnings.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal leggja tillögur að breytingum á rammasamningi, sem og á upplýsingum og skilmálum skv. 40. gr., fyrir notanda greiðsluþjónustu með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 39. gr. eigi síðar en tveimur mánuðum fyrir fyrirhugaðan gildistökudag breytinganna. Ef um það hefur verið samið, sbr. a-lið 6. tölul. 40. gr., skal greiðsluþjónustuveitandi tilkynna notanda greiðsluþjónustu að hann teljist hafa samþykkt slíkar breytingar tilkynni hann ekki um annað fyrir fyrirhugaðan gildistökudag. Ef notanda greiðsluþjónustu er heimilt að segja rammasamningi upp þegar í stað án sérstakrar gjaldtöku áður en fyrirhugaðar breytingar öðlast gildi skal greiðsluþjónustuveitandi jafnframt upplýsa notandann um það.
     Breytingar á vöxtum eða gengi taka gildi þegar í stað og án viðvörunar ef samið hefur verið um slíkt í rammasamningi og breytingarnar byggjast á viðmiðunarvöxtum eða viðmiðunargengi sem samið hefur verið um í samræmi við b- og c-lið 3. tölul. 40. gr. Tilkynna skal notanda greiðsluþjónustu um allar breytingar á vöxtum eins fljótt og kostur er með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 39. gr., nema aðilar hafi komið sér saman um að slíkar upplýsingar skuli veittar eða gerðar aðgengilegar með tilteknum tíðleika eða á tiltekinn hátt. Þó má breyta vöxtum eða gengi án tilkynningar ef slíkar breytingar eru notanda greiðsluþjónustu í hag.
     Breytingar á vöxtum eða gengi sem notað er í greiðslum skulu framkvæmdar og reiknaðar á hlutlausan hátt þannig að notendum greiðsluþjónustu sé ekki mismunað.

43. gr.

Uppsögn rammasamnings.
     Notanda greiðsluþjónustu er heimilt að segja rammasamningi upp hvenær sem er, nema samið hafi verið um uppsagnarfrest. Slíkur uppsagnarfrestur skal ekki vera lengri en einn mánuður.
     Uppsögn rammasamnings með föstum samningstíma eða með ótilteknum samningstíma skal vera notanda greiðsluþjónustu að kostnaðarlausu.
     Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að segja rammasamningi með ótilteknum samningstíma upp með að minnsta kosti tveggja mánaða uppsagnarfresti ef samið hefur verið um það. Notanda greiðsluþjónustu skal tilkynnt um uppsögnina með þeim hætti sem greinir í 1. og 2. mgr. 39. gr.
     Ef samið hefur verið um reglubundnar greiðslur á samningstímanum, fyrir greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi, skal hlutfallslega tekið tillit til gildistíma uppsagnar við innheimtu greiðslna eftir uppsögn samnings. Ef gjöld vegna greiðsluþjónustu samkvæmt rammasamningi eru greidd fyrir fram skulu þau endurgreidd notanda hlutfallslega, með tilliti til gildistíma uppsagnar.

44. gr.

Upplýsingagjöf áður en kemur til framkvæmdar einstakra greiðslna sem falla undir rammasamning.
     Við beiðni greiðanda um framkvæmd tiltekinnar greiðslu sem fellur undir rammasamning skal greiðsluþjónustuveitandi veita skýrar upplýsingar um hámarkstíma sem framkvæmd greiðslu má taka og þau gjöld sem greiðanda ber að greiða vegna hennar. Ef við á skal sundurliða fjárhæðir gjalda.

45. gr.

     Upplýsingagjöf gagnvart greiðanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal tafarlaust veita greiðanda eftirfarandi upplýsingar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 39. gr. eftir að fjárhæð einstakrar greiðslu sem fellur undir rammasamning er skuldfærð af reikningi greiðanda eða, ef greiðandi notar ekki greiðslureikning, eftir viðtöku greiðslufyrirmæla:
  1. tilvísun sem gerir greiðanda kleift að bera kennsl á hverja greiðslu og, ef við á, upplýsingar sem varða viðtakanda greiðslu,
  2. fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem skuldfærður er á greiðslureikning greiðanda eða í þeim gjaldmiðli sem er notaður í greiðslufyrirmælunum,
  3. fjárhæð gjalda vegna greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda, svo og upplýsingar um vexti sem greiðanda ber að greiða,
  4. það gengi sem greiðsluþjónustuveitandi greiðanda notar við framkvæmd greiðslu og fjárhæð greiðslu eftir gjaldmiðilsumreikning, ef við á, og
  5. um gildisdag skuldfærslu eða dagsetningu viðtöku greiðslufyrirmælanna.

     Heimilt er að kveða á um það í rammasamningi að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega, að minnsta kosti einu sinni í mánuði, með hætti sem gerir greiðanda kleift að geyma eða kalla upplýsingarnar fram óbreyttar.

46. gr.

Upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal tafarlaust veita viðtakanda greiðslu eftirfarandi upplýsingar með þeim hætti sem kveðið er á um í 1. og 2. mgr. 39. gr. eftir framkvæmd einstakrar greiðslu sem fellur undir rammasamning:
  1. tilvísun sem gerir viðtakandanum kleift að bera kennsl á greiðslu og, ef við á, greiðanda, svo og aðrar upplýsingar sem kunna að hafa verið sendar með greiðslunni,
  2. fjárhæð greiðslu í þeim gjaldmiðli sem eignfærður er á greiðslureikning viðtakanda,
  3. fjárhæð gjalda vegna greiðslu og, ef við á, sundurliðun fjárhæða slíkra gjalda, svo og upplýsingar um vexti sem viðtakanda ber að greiða,
  4. það gengi sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda notar við framkvæmd greiðslu og fjárhæð greiðslu áður en gjaldmiðilsumreikningur fór fram, ef við á, og
  5. um gildisdag eignfærslu.

     Heimilt er að kveða á um það í rammasamningi að upplýsingar skv. 1. mgr. skuli veittar eða gerðar aðgengilegar reglulega, að minnsta kosti einu sinni í mánuði, með hætti sem gerir viðtakanda greiðslu kleift að geyma eða kalla upplýsingarnar fram óbreyttar.

IV. KAFLI
Réttindi og skyldur í tengslum við veitingu og notkun greiðsluþjónustu.
A. Almenn ákvæði.

47. gr.

Gjaldtaka.
     Greiðsluþjónustuveitanda er óheimilt að innheimta gjald af notanda greiðsluþjónustu vegna upplýsinga sem skylt er að veita samkvæmt lögum þessum, eða vegna leiðréttingarráðstafana eða fyrirbyggjandi ráðstafana samkvæmt kafla þessum, nema lög þessi kveði á um annað. Gjöld sem heimilt er að innheimta skv. 1. málsl. skulu vera viðeigandi og í samræmi við raunkostnað greiðsluþjónustuveitandans vegna umræddra ráðstafana. Víkja má frá ákvæði þessu með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
     Ef í greiðslu felst enginn gjaldmiðilsumreikningur skal viðtakandi greiðslu greiða gjöldin sem greiðsluþjónustuveitandi hans leggur á vegna framkvæmdar greiðslu og greiðandi greiða gjöldin sem greiðsluþjónustuveitandi hans leggur á vegna framkvæmdar greiðslu.
     Viðtakanda greiðslu er óheimilt að krefjast gjalds af greiðanda vegna notkunar tiltekins greiðslumiðils umfram aðra.

48. gr.

Undanþágur og frávik vegna smágreiðslumiðla.
     Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um undanþágur og frávik frá ákvæðum þessa kafla þegar smágreiðslumiðill er annars vegar.

B. Framkvæmd greiðslu.

49. gr.

Samþykki fyrir greiðslu og afturköllun samþykkis.
     Greiðsla telst því aðeins heimiluð að greiðandi hafi veitt samþykki fyrir framkvæmd hennar. Greiðandi getur heimilað greiðslu fyrir eða, ef greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans hafa samið um það, eftir framkvæmd greiðslunnar.
     Samþykki fyrir framkvæmd greiðslu eða röð greiðslna skal veitt með þeim hætti sem greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans koma sér saman um. Ef samþykki er ekki fyrir hendi telst greiðsla ekki hafa verið heimiluð.
     Greiðandi getur afturkallað samþykki hvenær sem er, en þó ekki eftir að greiðslufyrirmæli teljast óafturkallanleg í skilningi 61. gr. Samþykki fyrir framkvæmd á röð greiðslna má einnig afturkalla og hefur það þau áhrif að greiðslur sem framkvæmdar eru eftir það tímamark teljast óheimilaðar. Víkja má frá þessari málsgrein með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.

50. gr.

Takmarkanir á notkun greiðslumiðils.
     Ef nota skal tiltekinn greiðslumiðil til að veita samþykki fyrir framkvæmd greiðslna geta greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi samið um útgjaldaþak vegna þeirra greiðslna sem framkvæmdar eru með honum.
     Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðsluþjónustuveitandinn áskilið sér rétt til að stöðva notkun greiðslumiðils af ástæðum sem rökstuddar eru á hlutlægan hátt með hliðsjón af öryggi greiðslumiðilsins, grun um óheimila eða sviksamlega notkun greiðslumiðilsins eða, þegar um er að ræða greiðslumiðil sem lánsheimildir fylgja, verulega aukinni hættu á því að greiðandi kunni að vera ófær um að uppfylla greiðsluskyldu sína.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal tilkynna greiðanda um stöðvun notkunar greiðslumiðils og ástæður fyrir henni svo fljótt sem auðið er, nema lög kveði á um annað. Ef mögulegt er skal uppfylla þessa tilkynningarskyldu áður en notkun greiðslumiðils er stöðvuð, en hún skal í síðasta lagi uppfyllt tafarlaust í kjölfar stöðvunar.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal opna fyrir notkun greiðslumiðils eða afhenda nýjan greiðslumiðil í hans stað þegar ástæður fyrir stöðvun notkunar eru ekki lengur fyrir hendi.

51. gr.

Skyldur notanda greiðsluþjónustu í tengslum við greiðslumiðil.
     Notandi greiðsluþjónustu, sem á rétt á að nota greiðslumiðil, skal nota greiðslumiðilinn í samræmi við skilmála um útgáfu og notkun hans.
     Við viðtöku greiðslumiðils ber notandanum að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir til að tryggja persónubundna öryggisþætti greiðslumiðilsins.
     Notandi greiðsluþjónustu, sem á rétt á að nota greiðslumiðil, skal án óþarfa tafar tilkynna greiðsluþjónustuveitanda, eða öðrum sem hann tilnefnir, um það verði hann var við tap, þjófnað eða misnotkun á greiðslumiðli eða óheimila notkun hans.

52. gr.

Skyldur greiðsluþjónustuveitanda í tengslum við greiðslumiðil.
     Greiðsluþjónustuveitandi sem gefur út greiðslumiðil skal tryggja að persónubundnir öryggisþættir greiðslumiðils séu ekki aðgengilegir öðrum en þeim notanda greiðsluþjónustu sem á rétt á að nota greiðslumiðilinn.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal ekki óumbeðinn senda notanda greiðsluþjónustu greiðslumiðil, nema nýr greiðslumiðill eigi að koma í stað annars sem notandinn hefur þegar fengið.
     Greiðsluþjónustuveitandi ber alla áhættu af sendingu greiðslumiðils og hvers kyns persónubundinna öryggisþátta greiðslumiðils til greiðanda.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal tryggja að notanda greiðsluþjónustu sé kleift að koma tilkynningu skv. 3. mgr. 51. gr. á framfæri, hvenær sem er sólarhringsins, og að óska eftir opnun fyrir notkun greiðslumiðils í samræmi við 4. mgr. 50. gr. Greiðsluþjónustuveitanda ber jafnframt að sjá til þess að í 18 mánuði frá því að notandi kemur tilkynningu skv. 3. mgr. 51. gr. á framfæri hafi notandinn úrræði til að sanna að hann hafi gefið út slíka tilkynningu.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal koma í veg fyrir alla notkun greiðslumiðils þegar tilkynningu skv. 3. mgr. 51. gr. hefur verið komið á framfæri.

53. gr.

Tilkynning um óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu.
     Notandi greiðsluþjónustu skal tilkynna greiðsluþjónustuveitanda um það án óþarfa tafar verði hann var við óheimilaða eða ranglega framkvæmda greiðslu sem gefur tilefni til kröfu um leiðréttingu samkvæmt ákvæðum laga þessara, þ.m.t. skv. 69. gr., og eigi síðar en 13 mánuðum eftir dagsetningu skuldfærslu. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi veitti notanda greiðsluþjónustunnar ekki, eða hafði aðgengilegar fyrir hann, upplýsingar um greiðsluna í samræmi við III. kafla.
     Heimilt er að semja um annan tímafrest en greinir í 1. mgr. þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.

54. gr.

Sannvottun vegna framkvæmdar greiðslu.
     Ef notandi greiðsluþjónustu neitar að hafa heimilað framkvæmd greiðslu eða heldur því fram að greiðsla hafi ekki verið réttilega framkvæmd skal greiðsluþjónustuveitandi hans sanna að sannvottun vegna framkvæmdar greiðslu hafi átt sér stað, að framkvæmd greiðslu hafi verið nákvæmlega skráð og færð í reikningshald og að tæknileg bilun hafi ekki haft áhrif á hana eða á henni sé einhver annar ágalli.
     Ef notandi greiðsluþjónustu neitar að hafa heimilað framkvæmd greiðslu fer það eftir atvikum hvort notkun greiðslumiðils, sem greiðsluþjónustuveitandi skráir, dugi ein og sér til sönnunar því að greiðandi hafi annaðhvort heimilað greiðsluna eða hann hafi með sviksamlegum hætti, að yfirlögðu ráði eða af stórfelldu gáleysi látið ógert að uppfylla eina eða fleiri af skyldum sínum skv. 51. gr.
     Víkja má frá 1. og 2. mgr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.

55. gr.

Ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda þegar um ræðir óheimilaða greiðslu.
     Þegar um óheimilaða greiðslu er að ræða í skilningi laga þessara skal greiðsluþjónustuveitandi, að uppfylltum skilyrðum 53. gr. og að teknu tilliti til annarra ákvæða þessa kafla, þegar í stað endurgreiða greiðanda fjárhæð óheimiluðu greiðslunnar og, ef við á, bakfæra eignfærslu á greiðslureikninginn til sömu stöðu og hann hefði verið í ef óheimilaða greiðslan hefði ekki átt sér stað.
     Ákvæði þetta gildir um rafeyri í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, nema greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikning eða loka greiðslumiðli.

56. gr.

Ábyrgð greiðanda þegar um ræðir óheimilaða greiðslu.
     Þrátt fyrir 55. gr. skal greiðandi bera tjón vegna óheimilaðra greiðslna sem nemur allt að jafnvirði 150 evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni sem rekja má til notkunar á týndum eða stolnum greiðslumiðli eða stafar af óréttmætri nýtingu greiðslumiðils sem leiðir af því að greiðandi hefur ekki uppfyllt skyldu sína samkvæmt lögum þessum til að tryggja persónubundna öryggisþætti greiðslumiðilsins.
     Greiðandi skal bera allt tjón sem rekja má til óheimilaðra greiðslna ef hann hefur stofnað til þeirra með sviksamlegum hætti eða látið ógert að uppfylla eina eða fleiri af skyldum sínum skv. 51. gr. af ásetningi eða af stórfelldu gáleysi. Þegar þetta á við gildir ekki hámarksfjárhæðin sem um getur í 1. mgr.
     Þegar háttsemi greiðanda hefur hvorki verið með sviksamlegum hætti né hann af ásetningi látið ógert að uppfylla skyldur sínar skv. 51. gr. skal tekið tillit til eðlis persónubundinna öryggisþátta greiðslumiðils og málsatvika þegar hann týndist, honum var stolið eða hann nýttur með óréttmætum hætti við ákvörðun fjárhæðar þeirrar sem greiðanda verður gert að bera sjálfur skv. 1. og 2. mgr.
     Greiðandi skal ekki bera tjón sem hlýst af notkun á greiðslumiðli sem týnist, er stolið eða nýttur með óréttmætum hætti eftir tímamark tilkynningar skv. 3. mgr. 51. gr. Þetta á þó ekki við ef greiðandi hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
     Greiðandi skal ekki bera tjón sem hlýst af notkun greiðslumiðils ef greiðsluþjónustuveitandi hefur ekki gert viðeigandi ráðstafanir samkvæmt lögum þessum vegna tilkynningarskyldu um greiðslumiðil sem hefur týnst, verið stolið eða notaður með óréttmætum hætti, eins og krafist er skv. 4. mgr. 52. gr. Þetta á þó ekki við ef greiðandi hefur sýnt af sér sviksamlega háttsemi.
     Víkja má frá 1.–5. mgr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.
     Ákvæði þetta gildir um rafeyri í skilningi laga um fjármálafyrirtæki, nema greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hafi ekki getu til að frysta greiðslureikning eða loka greiðslumiðli.

57. gr.

Endurgreiðslur á greiðslum sem viðtakandi á frumkvæði að eða hefur milligöngu um.
     Greiðandi á rétt á endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda sínum vegna heimilaðrar greiðslu, sem viðtakandi greiðslu hefur átt frumkvæði að eða haft milligöngu um og greiðslan hefur þegar verið framkvæmd, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
  1. fjárhæð greiðslunnar var ekki nákvæmlega tilgreind í heimildinni þegar hún var veitt og
  2. fjárhæð greiðslunnar var hærri en svo að greiðandi gæti með sanngjörnum hætti gert ráð fyrir þeirri fjárhæð miðað við útgjaldamynstur hans til þessa, skilmála í rammasamningi og málsatvik að öðru leyti.

     Að beiðni greiðsluþjónustuveitanda skal greiðandi leggja fram gögn um að skilyrði a- og b-liðar 1. mgr. teljist uppfyllt.
     Að því er varðar beingreiðslur er heimilt að semja um það í rammasamningi um greiðsluþjónustu að greiðandi eigi rétt á endurgreiðslu frá greiðsluþjónustuveitanda, jafnvel þótt skilyrði fyrir endurgreiðslu skv. 1. mgr. séu ekki uppfyllt.
     Að því er varðar b-lið 1. mgr. getur greiðandi þó ekki byggt kröfu um endurgreiðslu á gengisástæðum ef beitt var viðmiðunargengi sem hann samdi um við greiðsluþjónustuveitanda í samræmi við d-lið 36. gr. og b-lið 3. tölul. 40. gr.
     Heimilt er að semja um það í rammasamningi um greiðsluþjónustu að greiðandi eigi ekki rétt á endurgreiðslu ef hann hefur veitt samþykki sitt fyrir framkvæmd greiðslu beint til greiðsluþjónustuveitanda og, ef við á, greiðsluþjónustuveitandi eða viðtakandi greiðslu veitti upplýsingar um greiðslur í framtíðinni eða kom þeim á framfæri við greiðanda á umsaminn hátt að minnsta kosti fjórum vikum fyrir gjalddaga.
     Víkja má frá 1.–4. mgr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.

58. gr.

Meðferð beiðna um endurgreiðslu vegna greiðslna sem viðtakandi á frumkvæði að eða hefur milligöngu um.
     Greiðandi skal óska eftir endurgreiðslu í samræmi við 57. gr. innan átta vikna frá þeim degi þegar fjármunir voru skuldfærðir.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal innan tíu viðskiptadaga frá móttöku skv. 1. mgr. annaðhvort endurgreiða að fullu fjárhæð greiðslunnar eða rökstyðja synjun um endurgreiðslu og tilgreina þá aðila sem greiðandi getur vísað málinu til í samræmi við V. kafla ef hann sættir sig ekki við rökstuðning fyrir synjuninni.
     Réttur greiðsluþjónustuveitanda skv. 2. mgr. til að synja um endurgreiðslu gildir ekki í því tilviki sem sett er fram í 3. mgr. 57. gr.
     Víkja má frá 1.–3. mgr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.

59. gr.

Viðtaka greiðslufyrirmæla.
     Viðtökutími greiðslufyrirmæla er sá tími þegar greiðslufyrirmæli berast greiðsluþjónustuveitanda greiðanda í kjölfar þess að greiðandi gefur þau beint eða óbeint með milligöngu viðtakanda greiðslu. Greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að fastsetja lokunartíma nálægt lokum viðskiptadags og skulu þá greiðslufyrirmæli, sem hann tekur við eftir það, teljast til næsta viðskiptadags á eftir.
     Ef notandi greiðsluþjónustu sem gefur greiðslufyrirmæli og greiðsluþjónustuveitandi hans semja um að framkvæmd greiðslufyrirmæla skuli hefjast á tilgreindum degi, við lok tiltekins tímabils eða þann dag þegar greiðandi hefur lagt inn fjármuni til ráðstöfunar greiðsluþjónustuveitanda hans telst viðtökutími, sbr. 64. gr., vera dagurinn sem samið var um.
     Ef viðtökutími skv. 1. mgr. eða dagurinn sem samið var um skv. 2. mgr. er ekki á viðskiptadegi að því er varðar greiðsluþjónustuveitanda greiðanda skal litið svo á að tekið hafi verið við greiðslufyrirmælunum næsta viðskiptadag á eftir.

60. gr.

Synjun um framkvæmd greiðslufyrirmæla.
     Ef öll skilyrði rammasamnings greiðanda við greiðsluþjónustuveitanda eru uppfyllt er greiðsluþjónustuveitanda greiðanda óheimilt að neita að framkvæma heimiluð greiðslufyrirmæli, hvort sem greiðandi á frumkvæði að þeim eða viðtakandi greiðslu gefur eða hefur milligöngu um þau. Þetta á þó ekki við ef lög kveða á um annað.
     Í þeim tilvikum sem greiðsluþjónustuveitanda er heimilt að synja um framkvæmd greiðslufyrirmæla skal tilkynna notanda greiðsluþjónustunnar um neitunina og, ef unnt er, ástæður fyrir henni og málsmeðferð við mögulega leiðréttingu á þeim atvikum sem valda neituninni. Þetta á þó ekki við ef lög kveða á um annað.
     Greiðsluþjónustuveitandi skal koma tilkynningu skv. 2. mgr. á framfæri á umsaminn hátt við fyrsta tækifæri og í síðasta lagi innan þess frests sem greinir í 64. gr. Í rammasamningi um greiðsluþjónustu má kveða á um að greiðsluþjónustuveitanda sé heimilt að taka gjald fyrir þess háttar tilkynningu, enda sé synjun um framkvæmd greiðslufyrirmæla í samræmi við lög og rökstudd á hlutlægan hátt.
     Að því er varðar 64. og 69. gr. skal líta á greiðslufyrirmæli, sem synjað hefur verið um framkvæmd á, eins og ekki hafi verið tekið við þeim.

61. gr.

Afturköllun greiðslufyrirmæla.
     Notandi greiðsluþjónustu getur ekki afturkallað greiðslufyrirmæli þegar greiðsluþjónustuveitandi greiðanda hefur tekið við þeim, nema 2.–6. mgr. eigi við.
     Ef viðtakandi greiðslu á frumkvæði að eða hefur milligöngu um greiðslu getur greiðandi ekki afturkallað greiðslufyrirmæli eftir að hann hefur sent greiðslufyrirmælin eða veitt samþykki sitt fyrir því að greiðslan til viðtakanda greiðslu verði framkvæmd.
     Þrátt fyrir 2. mgr. getur greiðandi afturkallað greiðslufyrirmæli þegar um beingreiðslu er að ræða í síðasta lagi í lok síðasta viðskiptadags fyrir umsaminn gjaldfærsludag fjármuna.
     Ef notandi greiðsluþjónustu sem gefur greiðslufyrirmæli og greiðsluþjónustuveitandi hans semja um að framkvæmd greiðslufyrirmæla skuli hefjast á tilgreindum degi, við lok tiltekins tímabils eða þann dag þegar greiðandi hefur lagt inn fjármuni til ráðstöfunar greiðsluþjónustuveitanda hans, sbr. 2. mgr. 59. gr., getur notandi greiðsluþjónustu afturkallað greiðslufyrirmæli í síðasta lagi við lok síðasta viðskiptadags fyrir umsaminn dag.
     Eftir tímamörkin sem tilgreind eru í 1.–4. mgr. er aðeins unnt að afturkalla greiðslufyrirmælin ef notandi greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitandi hafa samið um það. Í því tilviki sem um getur í 2. og 3. mgr. skal samþykki viðtakanda greiðslu jafnframt liggja fyrir. Ef um það er samið í rammasamningi getur greiðsluþjónustuveitandi krafist gjalds vegna afturköllunar greiðslufyrirmæla samkvæmt þessari málsgrein.
     Víkja má frá 1.–5. mgr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.

62. gr.

Fjárhæð greiðslu.
     Greiðsluþjónustuveitendur og milliliðir þeirra skulu millifæra alla fjárhæð greiðslu óskerta. Gjöld skulu ekki dregin frá millifærðri fjárhæð.
     Viðtakandi greiðslu og greiðsluþjónustuveitandi hans geta þó samið um að gjöld greiðsluþjónustuveitandans vegna greiðsluþjónustu verði dregin frá millifærðri fjárhæð áður en hún er eignfærð á viðtakanda greiðslu. Þegar þetta á við er öll fjárhæð greiðslunnar aðskilin frá gjöldunum í þeim upplýsingum sem viðtakanda greiðslu eru veittar.
     Ef einhver önnur gjöld en þau sem um getur í 2. mgr. eru dregin frá millifærðri fjárhæð skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda sjá til þess að viðtakandi greiðslu fái alla fjárhæð greiðslunnar sem greiðandi á frumkvæði að. Í tilvikum þar sem viðtakandi greiðslu á frumkvæði að eða hefur milligöngu um greiðslu skal greiðsluþjónustuveitandi hans tryggja að viðtakandinn fái óskerta fjárhæð greiðslunnar.

C. Framkvæmdatími greiðslu og gildisdagur.

63. gr.

Gildissvið C-hluta.
     Um gildissvið 64.–67. gr. fer samkvæmt síðari málslið 3. mgr. 1. gr.

64. gr.

Greiðsla á greiðslureikning.
     Frá viðtökutíma skv. 59. gr. skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda tryggja að fjárhæð greiðslu sé eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda greiðslu og í síðasta lagi í lok næsta viðskiptadags. Þetta freststímabil má þó framlengja um einn viðskiptadag fyrir greiðslur sem eru á pappírsgrundvelli.
     Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda skal eftir viðtöku fjármuna setja gildisdag á greiðsluna og tryggja að fjárhæð hennar sé viðtakanda greiðslu til ráðstöfunar á greiðslureikningi hans í samræmi við 67. gr. nema samningsaðilar tiltaki annan tímafrest.
     Að því er varðar greiðslur sem viðtakandi greiðslu á frumkvæði að eða hefur milligöngu um skal greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda senda greiðslufyrirmæli til greiðsluþjónustuveitanda greiðanda innan þess uppgjörsfrests sem viðtakandinn og greiðsluþjónustuveitandi hans hafa komið sér saman um. Þegar um ræðir beingreiðslur skulu greiðslufyrirmælin send á umsömdum gjalddaga.

65. gr.

Aðstæður þegar viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda.
     Ef viðtakandi greiðslu er ekki með greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda skal greiðsluþjónustuveitandinn sem tekur við fjármununum fyrir viðtakandann hafa þá aðgengilega til ráðstöfunar fyrir viðtakandann innan þess frests sem tilgreindur er í 64. gr.

66. gr.

Reiðufé lagt inn á greiðslureikning.
     Ef notandi greiðsluþjónustu leggur reiðufé inn á greiðslureikning hjá greiðsluþjónustuveitanda í gjaldmiðli greiðslureikningsins skal greiðsluþjónustuveitandinn tryggja að fjárhæðin sé til ráðstöfunar og gildisdagsett tafarlaust eftir viðtöku fjármunanna.

67. gr.

Gildisdagur og fjármunir til ráðstöfunar.
     Gildisdagur eignfærslu á greiðslureikning viðtakanda greiðslu telst vera eigi síðar en þann viðskiptadag þegar fjárhæð greiðslunnar er eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda. Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda skal tryggja að fjárhæð greiðslunnar sé viðtakanda greiðslu til ráðstöfunar þegar í stað eftir að fjárhæðin er eignfærð á reikning greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda.
     Gildisdagur skuldfærslu á greiðslureikning greiðanda telst vera eigi fyrr en sá tímapunktur þegar fjárhæð greiðslunnar er skuldfærð á greiðslureikning greiðanda hjá greiðsluþjónustuveitanda.

D. Röng eða gölluð framkvæmd greiðslu, meðferð persónuupplýsinga o.fl.

68. gr.

Sérstakt kennimerki.
     Ef greiðslufyrirmæli eru framkvæmd í samræmi við sérstakt kennimerki skulu þau teljast rétt framkvæmd að því er varðar þann viðtakanda greiðslu sem er tilgreindur með því sérstaka kennimerki.
     Ef notandi greiðsluþjónustu leggur fram rangt sérstakt kennimerki er greiðsluþjónustuveitandi ekki ábyrgur skv. 69. gr. hafi framkvæmd greiðslu ekki átt sér stað eða er gölluð. Greiðsluþjónustuveitandi greiðanda skal þó gera ráðstafanir til að endurheimta fjármunina sem greiðsla fól í sér, ef mögulegt er. Semja má um gjaldtöku vegna slíkra ráðstafana í rammasamningi.
     Ef notandi greiðsluþjónustu hefur veitt upplýsingar til viðbótar þeim sem hann þarf að gefa upp til að greiðslufyrirmæli verði framkvæmd á réttan hátt og tilgreindar eru í a-lið 36. gr. eða b-lið 2. tölul. 40. gr. er greiðsluþjónustuveitandi aðeins ábyrgur vegna framkvæmdar greiðslunnar í samræmi við sérstaka kennimerkið sem notandi greiðsluþjónustunnar leggur fram.

69. gr.

Framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða er gölluð.
     Ef greiðandi gefur greiðslufyrirmæli skal greiðsluþjónustuveitandi hans, með fyrirvara um 53. gr., 2.–3. mgr. 68. gr. og 72. gr., bera ábyrgð á því gagnvart honum að greiðsla verði framkvæmd réttilega. Þetta á þó ekki við ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda getur sannað fyrir greiðandanum, og greiðsluþjónustuveitanda viðtakanda ef við á, að greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda hafi tekið við greiðslu í samræmi við 1. mgr. 64. gr., en í því tilviki verður greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu ábyrgur gagnvart viðtakandanum um rétta framkvæmd greiðslunnar.
     Ef greiðsluþjónustuveitandi greiðanda er ábyrgur skv. 1. mgr. skal hann án óþarfa tafar endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, ef við á, færa skuldfærðan greiðslureikning í þá stöðu sem hann hefði verið ef gallaða greiðslan hefði ekki átt sér stað.
     Ef greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu er ábyrgur skv. 1. mgr. skal hann tafarlaust setja fjárhæð greiðslunnar til ráðstöfunar viðtakanda greiðslu og, ef við á, eignfæra samsvarandi fjárhæð á greiðslureikning viðtakandans.
     Hafi greiðandi gefið greiðslufyrirmæli, en framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða er gölluð, skal greiðsluþjónustuveitandi hans tafarlaust gera ráðstafanir til að rekja greiðsluna og tilkynna greiðanda um niðurstöðuna ef þess er óskað. Þetta á við án tillits til þess hver er ábyrgur fyrir réttri framkvæmd greiðslu skv. 1.–3. mgr.
     Ef viðtakandi greiðslu gefur greiðslufyrirmæli eða hefur milligöngu um það skal greiðsluþjónustuveitandi hans bera ábyrgð á því gagnvart honum að greiðslufyrirmæli verði réttilega send greiðsluþjónustuveitanda greiðanda í samræmi við 3. mgr. 64. gr. Skulu greiðslufyrirmælin send greiðsluþjónustuveitanda greiðanda tafarlaust eða, eftir atvikum, endursend tafarlaust. Greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu er jafnframt ábyrgur gagnvart viðtakanda greiðslu samkvæmt þessari málsgrein um meðferð greiðslunnar í samræmi við skyldur hans skv. 67. gr. Skal hann tryggja að fjárhæð greiðslunnar sé viðtakanda greiðslu til ráðstöfunar tafarlaust eftir að fjárhæðin er eignfærð á greiðslureikning viðtakanda greiðslunnar. Þessi málsgrein gildir með fyrirvara um 53. gr., 2. og 3. mgr. 68. gr. og 72. gr.
     Ef um er að ræða óframkvæmda greiðslu eða gallaða framkvæmd greiðslu, sem greiðsluþjónustuveitandi viðtakanda greiðslu ber ekki ábyrgð á skv. 5. mgr., skal greiðsluþjónustuveitandi greiðanda vera ábyrgur gagnvart greiðanda. Skal hann án óþarfa tafar endurgreiða greiðanda fjárhæð óframkvæmdrar eða gallaðrar greiðslu og, ef við á, færa skuldfærðan greiðslureikning í þá stöðu sem hann hefði verið ef gallaða greiðslan hefði ekki átt sér stað.
     Hafi viðtakandi greiðslu gefið greiðslufyrirmæli, en framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða er gölluð, skal greiðsluþjónustuveitandi hans tafarlaust gera ráðstafanir til að rekja greiðsluna og tilkynna viðtakanda um niðurstöðuna ef þess er óskað. Þetta á við án tillits til þess hver er ábyrgur fyrir réttri framkvæmd greiðslu skv. 5. og 6. mgr.
     Greiðsluþjónustuveitandi er ábyrgur gagnvart notanda greiðsluþjónustu að því er varðar gjöld og vexti sem kunna að falla á notandann sem afleiðing af óframkvæmdri eða gallaðri greiðslu, sbr. 1.–7. mgr.
     Víkja má frá 1.–8. mgr. með samningi, í heild eða að hluta, þegar notandi greiðsluþjónustu er ekki neytandi.

70. gr.

Frekari fébætur.
     Ákvarða má frekari fébætur, til viðbótar við það sem kveðið er á um í 68.–72. gr., í samræmi við lög og samning notanda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitanda hans.

71. gr.

Endurkröfuréttur.
     Ef ábyrgð greiðsluþjónustuveitanda skv. 69. gr. má rekja til annars greiðsluþjónustuveitanda eða milliliðar skal sá greiðsluþjónustuveitandi eða milliliður bæta fyrrgreindum greiðsluþjónustuveitanda allt tjón, sem hann hefur orðið fyrir, eða fjárhæðir sem hann hefur þurft að greiða á grundvelli 69. gr.
     Ákvarða má frekari fébætur í samræmi við lög og samninga milli greiðsluþjónustuveitenda og/eða milliliða.

72. gr.

Óviðráðanleg ytri atvik.
     Bótaábyrgð skv. 49.–72. gr. nær ekki til tjóns vegna óviðráðanlegra ytri atvika (force majeure) eða tjóns sem aðrar lagaskyldur sem greiðsluþjónustuveitandi er undirorpinn kunna að valda.

73. gr.

Meðferð persónuupplýsinga.
     Vinnsla og meðferð persónuupplýsinga er heimil af hálfu greiðslukerfa og greiðsluþjónustuveitenda þegar það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir, rannsaka og greina greiðslusvik. Um meðferð persónuupplýsinga fer samkvæmt lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

V. KAFLI
Eftirlit, réttarúrræði og viðurlög.

74. gr.

Fjármálaeftirlitið.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar eftirlitsskylda aðila samkvæmt lögum nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi greiðslustofnana og peninga- og verðmætasendingarþjónustu, þ.m.t. umboðsaðilum, útibúum og útvistunaraðilum, sem falla undir ákvæði II. kafla, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
     Um eftirlit Fjármálaeftirlitsins fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Póst- og fjarskiptastofnun hefur eftirlit með framkvæmd laga þessara að því er varðar póstrekendur með rekstrarleyfi samkvæmt lögum um póstþjónustu.

75. gr.

Aðgengi að greiðslukerfum.
     Um aðgengi greiðsluþjónustuveitenda að greiðslukerfum skv. 7. gr. fer samkvæmt samkeppnislögum, nr. 44/2005.

76. gr.

Úrskurðar- og réttarúrræði.
     Greiðsluþjónustuveitendur skulu hafa aðgengilegar upplýsingar um úrskurðar- og réttarúrræði ef ágreiningur rís milli notanda greiðsluþjónustu og greiðsluþjónustuveitanda, m.a. um málskot til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki skv. 2. mgr.
     Notendur greiðsluþjónustu geta skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni til úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki, sbr. 19. gr. a í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Greiðslustofnunum og peninga- og verðmætasendingarþjónustu er skylt að eiga aðild að úrskurðarnefndinni um viðskipti við fjármálafyrirtæki.

77. gr.

Stjórnvaldssektir.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á hvern þann sem brýtur gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
  1. 5. gr. um einkarétt greiðsluþjónustuveitenda til veitingar greiðsluþjónustu hérlendis.
  2. 10. gr. um stofnfé.
  3. 11. og 12. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eigin fjár.
  4. 13. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis.
  5. 17. gr. um góða viðskiptahætti og þagnarskyldu.
  6. 18. gr. um varðveislu fjármuna.
  7. 4. og 5. mgr. 19. gr. um aðra starfsemi.
  8. 20. gr. um hæfi stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og annarra stjórnenda.
  9. 21. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.
  10. 1., 3. og 5. mgr. 23. gr. um umboðsaðila og útibú.
  11. 1. og 2. mgr. 24. gr. um útvistun.
  12. 2. mgr. 25. gr. um skyldu til að tryggja að þriðji aðili, sem falið hefur verið að annast tiltekna rekstrarþætti, geri viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að farið sé að lögum þessum.
  13. 26. gr. um varðveislu gagna.
  14. 27. gr. um peninga- og verðmætasendingarþjónustu.
  15. 32. gr. um gjaldmiðil og gjaldmiðilsumreikning.
  16. 33. gr. um notkun tiltekins greiðslumiðils.
  17. 35. og 36. gr. um upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna stakra greiðslna verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
  18. 37. gr. um upplýsingagjöf gagnvart greiðanda eftir viðtöku greiðslufyrirmæla um staka greiðslu.
  19. 38. gr. um upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda greiðslu eftir framkvæmd stakrar greiðslu.
  20. 39. og 40. gr. um upplýsingagjöf áður en samningur eða tilboð vegna greiðslna sem falla undir rammasamning verður bindandi fyrir notanda greiðsluþjónustu.
  21. 41. gr. um aðgengilegar upplýsingar og skilmála rammasamnings.
  22. 42. gr. um breytingar á skilmálum rammasamnings.
  23. 43. gr. um uppsögn rammasamnings.
  24. 44. gr. um upplýsingagjöf áður en kemur til framkvæmdar einstakra greiðslna sem falla undir rammasamning.
  25. 45. gr. um upplýsingagjöf gagnvart greiðanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
  26. 46. gr. um upplýsingagjöf gagnvart viðtakanda um einstakar greiðslur sem falla undir rammasamning.
  27. 47. gr. um gjaldtöku.
  28. 2.–4. mgr. 50. gr. um takmarkanir á notkun greiðslumiðils.
  29. 60. gr. um synjun um framkvæmd greiðslufyrirmæla.
  30. 61. gr. um afturköllun greiðslufyrirmæla.
  31. 62. gr. um fjárhæð greiðslu.
  32. 64.–67. gr. um framkvæmdatíma greiðslu og gildisdag.
  33. 69. gr. um þær aðstæður þegar framkvæmd greiðslu á sér ekki stað eða er gölluð.

     Sektir sem lagðar eru á einstaklinga geta numið frá 10 þús. kr. til 20 millj. kr. Sektir sem lagðar eru á lögaðila geta numið frá 50 þús. kr. til 50 millj. kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. tekið tillit til alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Ákvarðanir um stjórnvaldssektir skulu teknar af stjórn Fjármálaeftirlitsins og eru þær aðfararhæfar. Sektir renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna. Séu stjórnvaldssektir ekki greiddar innan mánaðar frá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
     Stjórnvaldssektum verður beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Hafi aðili gerst brotlegur við ákvæði laga þessara, reglur settar á grundvelli þeirra eða ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins á grundvelli þeirra er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ljúka málinu með sátt með samþykki málsaðila, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot sem refsiviðurlög liggja við. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðisins.
     Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssekta eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Fjármálaeftirlitið skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.
     Heimild Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir samkvæmt lögum þessum fellur niður þegar fimm ár eru liðin frá því að háttsemi lauk.
     Frestur skv. 5. mgr. rofnar þegar Fjármálaeftirlitið tilkynnir aðila um upphaf rannsóknar á meintu broti. Rof frests hefur réttaráhrif gagnvart öllum sem staðið hafa að broti.

78. gr.

Sektir eða fangelsi.
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn eftirtöldum ákvæðum laga þessara og, eftir atvikum, reglum settum á grundvelli þeirra:
  1. 5. gr. um einkarétt greiðsluþjónustuveitenda til að veita greiðsluþjónustu hérlendis.
  2. 11. og 12. gr. um eiginfjárgrunn og útreikning eigin fjár.
  3. 13. gr. um að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis.
  4. 2. mgr. 17. gr. um þagnarskyldu.
  5. 21. gr. um reikningsskil og lögboðna endurskoðun.

     Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi greiðsluþjónustuveitanda eða annað er hann varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða notenda greiðsluþjónustu.
     Brot gegn lögum þessum er varða sektum eða fangelsi varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
     Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
     Brot gegn lögum þessum sæta aðeins rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Fjármálaeftirlitsins.
     Varði meint brot á lögum þessum bæði stjórnvaldssektum og refsingu metur Fjármálaeftirlitið hvort mál skuli kært til lögreglu eða því lokið með stjórnvaldsákvörðun hjá stofnuninni. Ef brot eru meiri háttar ber Fjármálaeftirlitinu að vísa þeim til lögreglu. Brot telst meiri háttar ef það lýtur að verulegum fjárhæðum og ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brotsins. Jafnframt getur Fjármálaeftirlitið á hvaða stigi rannsóknar sem er vísað máli vegna brota á lögum þessum til rannsóknar lögreglu. Gæta skal samræmis við úrlausn sambærilegra mála.
     Með kæru Fjármálaeftirlitsins skulu fylgja afrit þeirra gagna sem grunur um brot er studdur við. Ákvæði IV.–VII. kafla stjórnsýslulaga gilda ekki um ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um að kæra mál til lögreglu.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta lögreglu og ákæruvaldi í té upplýsingar og gögn sem stofnunin hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að taka þátt í aðgerðum lögreglu sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
     Lögreglu og ákæruvaldi er heimilt að láta Fjármálaeftirlitinu í té upplýsingar og gögn sem hún hefur aflað og tengjast þeim brotum sem tilgreind eru í 7. mgr. Lögreglu er heimilt að taka þátt í aðgerðum Fjármálaeftirlitsins sem varða rannsókn þeirra brota sem tilgreind eru í 7. mgr.
     Telji ákærandi að ekki séu efni til málshöfðunar vegna ætlaðrar refsiverðrar háttsemi sem jafnframt varðar stjórnsýsluviðurlögum getur hann sent eða endursent málið til Fjármálaeftirlitsins til meðferðar og ákvörðunar.

VI. KAFLI
Gildistaka o.fl.

79. gr.

Innleiðing.
     Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/64/EB um greiðsluþjónustu á innri markaðnum er breytir tilskipunum 97/7/EB, 2002/65/EB, 2005/60/EB og 2006/48/EB og nemur úr gildi tilskipun 97/5/EB. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 114/2008 7. nóvember 2008, sem birt var í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 79/2008 18. desember 2008.

80. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. desember 2011.

81. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
  1. Lög nr. 46/2000, um húsgöngu- og fjarsölusamninga, með síðari breytingum: 12. gr. laganna fellur brott.
  2. Lög nr. 33/2005, um fjarsölu á fjármálaþjónustu: 16. gr. laganna fellur brott.
  3. Lög nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum:
    1. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
    2. 4. og 5. tölul. 1. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
      1. Greiðsluþjónustu samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
      2. Útgáfu og umsýslu greiðsluskjala, svo sem ferðatékka og víxla.
    3. Eftirfarandi breytingar verða á 85. gr. laganna:
      1. Í stað orðanna „í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði“ í 1. mgr. kemur: í öðrum fjármálafyrirtækjum, fyrirtækjum tengdum fjármálasviði eða greiðslustofnunum.
      2. Í stað orðanna „í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði“ í 3. mgr. kemur: í öðrum fjármálafyrirtækjum, fyrirtækjum tengdum fjármálasviði eða greiðslustofnunum.
  4. Lög nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, með síðari breytingum:
    1. Við 1. mgr. 2. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.
    2. Í stað orðanna „og sérstök lög gilda ekki um“ í 8. tölul. 3. gr. laganna kemur: og sérstök lög gilda ekki um, önnur en lög um greiðsluþjónustu.
  5. Lög nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum: Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Greiðslustofnanir samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu skulu greiða 0,0244% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 1.000.000 kr.
  6. Lög nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum: 10.–13. gr. laganna falla brott.
  7. Lög nr. 19/2002, um póstþjónustu, með síðari breytingum: 42. gr. laganna orðast svo:
  8.      Um fjármunasendingar fer samkvæmt lögum um greiðsluþjónustu.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Þrátt fyrir ákvæði laga þessara gilda um greiðsluþjónustuveitendur og notendur greiðsluþjónustu takmarkanir sem kunna að felast í ákvæðum laga nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, og reglum sem settar eru með stoð í þeim, á hverjum tíma.

II.
     Fram til 1. janúar 2012 geta greiðandi og greiðsluþjónustuveitandi hans samið um lengri frest en um getur í 1. mgr. 64. gr. Þó má slíkur frestur ekki vera lengri en þrír viðskiptadagar. Þessi freststímabil má þó framlengja um einn viðskiptadag fyrir greiðslur sem eru á pappírsgrundvelli.

Samþykkt á Alþingi 17. september 2011.