Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 743, 128. löggjafarþing 215. mál: fjármálafyrirtæki (heildarlög).
Lög nr. 161 20. desember 2002.

Lög um fjármálafyrirtæki.


I. KAFLI
Gildissvið.

1. gr.

     Lög þessi gilda um innlend fjármálafyrirtæki og um starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi. Með fjármálafyrirtæki er í lögum þessum átt við fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr.

II. KAFLI
Starfsleyfi.
A. Veiting starfsleyfis.

2. gr.

Starfsleyfisveitandi.
     Fjármálaeftirlitið veitir starfsleyfi samkvæmt lögum þessum. Fjármálafyrirtæki er heimilt að hefja starfsemi þegar það hefur fengið starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins.

3. gr.

Leyfisskyld starfsemi.
     Eftirtalin starfsemi er starfsleyfisskyld samkvæmt lögum þessum:
 1. Móttaka endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi:
  1. Innlán.
  2. Skuldaviðurkenningar.
 2. Veiting útlána sem fjármögnuð eru með endurgreiðanlegum fjármunum frá almenningi.
 3. Eignaleiga þegar fyrirtæki hefur slíka starfsemi að meginstarfsemi sinni. Með eignaleigu er átt við leigustarfsemi með lausafé eða fasteignir þar sem leigusali selur leigutaka hið leigða gegn umsömdu leigugjaldi í tiltekinn lágmarksleigutíma.
 4. Útgáfa og umsýsla greiðslukorta.
 5. Útgáfa og umsýsla rafeyris.
 6. Viðskipti og þjónusta með fjármálagerninga samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti:
  1. Móttaka og miðlun fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga og framkvæmd slíkra fyrirmæla fyrir reikning þriðja aðila.
  2. Eignastýring, sbr. lög um verðbréfaviðskipti.
  3. Sölutrygging í tengslum við útgáfu eins eða fleiri fjármálagerninga eða markaðssetning slíkrar útgáfu.
  4. Umsjón með útboði verðbréfa.
 7. Rekstur verðbréfasjóða.

     Um aðrar starfsheimildir fjármálafyrirtækja fer skv. IV. kafla.
     Þrátt fyrir 1. mgr. geta eftirtaldir aðilar sinnt starfsemi skv. a-lið 6. tölul. 1. mgr. án starfsleyfis:
 1. Seðlabankar ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðrar opinberar stofnanir sem annast eða hafa afskipti af lánamálum ríkja.
 2. Vátryggingafélög.
 3. Lögaðilar sem veita þjónustu fyrir móðurfélög sín, dótturfélög sín eða fyrir önnur dótturfélög móðurfélags síns.
 4. Héraðsdóms- og hæstaréttarlögmenn og löggiltir endurskoðendur, enda sé þjónustan veitt sem eðlilegur þáttur í víðtækara viðfangsefni á starfssviði þeirra.
 5. Lögaðilar sem veita aðeins þjónustu í tengslum við stjórnun á fjárfestingarsjóðum starfsmanna.
 6. Lögaðilar sem mega ekki stunda önnur verðbréfaviðskipti en tilgreind eru í a-lið 6. tölul. 1. mgr. og er eingöngu heimilt að miðla fyrirmælum til fjármálafyrirtækja og útibúa þeirra á Evrópska efnahagssvæðinu.
 7. Aðilar sem hafa aðallega þá starfsemi með höndum að versla með hrávöru sín á milli eða við framleiðendur eða aðila sem nota þessar vörur í atvinnuskyni og veita eingöngu slíkum framleiðendum eða aðilum þjónustu í tengslum við verðbréfaviðskipti og aðeins í þeim mæli sem nauðsynlegt er vegna meginstarfsemi þeirra.


4. gr.

Tegundir starfsleyfa.
     Fjármálafyrirtæki getur fengið starfsleyfi sem:
 1. Viðskiptabanki skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Viðskiptabanki skal þó ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr.
 2. Sparisjóður skv. 1.–6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Sparisjóður skal þó ætíð hafa starfsleyfi og veita þjónustu skv. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr.
 3. Lánafyrirtæki skv. b-lið 1. tölul. og 2.–6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Lánafyrirtæki skal ætíð hafa starfsleyfi skv. b-lið 1. tölul. og 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. Lánafyrirtæki hefur heimild til að kalla sig fjárfestingarbanka.
 4. Rafeyrisfyrirtæki skv. 5. tölul. 1. mgr. 3. gr.
 5. Verðbréfafyrirtæki skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr.
 6. Verðbréfamiðlun skv. a-lið 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. Verðbréfamiðlun getur fengið heimild til viðskipta fyrir eigin reikning skv. 26. gr., sbr. 14. gr.
 7. Rekstrarfélag verðbréfasjóða skv. 7. tölul. og b-lið 6. tölul. 1. mgr. 3. gr.

     Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 1.–4. tölul. 1. mgr. telst vera lánastofnun í skilningi laga þessara.

5. gr.

Umsókn.
     Umsókn um starfsleyfi skal vera skrifleg og henni skulu fylgja:
 1. Upplýsingar um tegund starfsleyfis sem sótt er um, sbr. 4. gr., leyfisskylda starfsemi, sbr. 1. mgr. 3. gr., og aðra starfsemi sem fyrirhuguð er, sbr. IV. kafla.
 2. Samþykktir félags.
 3. Upplýsingar um starfsskipulag þar sem m.a. komi fram upplýsingar um hvernig fyrirhugaðri starfsemi verði sinnt.
 4. Upplýsingar um innra skipulag fyrirtækisins, þ.m.t. eftirlits- og starfsreglur.
 5. Viðskipta- og rekstraráætlun þar sem m.a. komi fram fyrirhugaður vöxtur og uppbygging eigin fjár.
 6. Upplýsingar um stofnendur, hluthafa eða stofnfjáreigendur, sbr. VI. kafla.
 7. Upplýsingar um stjórnarmenn, framkvæmdastjóra og aðra stjórnendur.
 8. Staðfesting endurskoðanda á innborgun hlutafjár eða stofnfjár.
 9. Upplýsingar um náin tengsl fyrirtækisins við einstaklinga eða lögaðila, sbr. 18. gr.
 10. Aðrar viðeigandi upplýsingar sem Fjármálaeftirlitið ákveður.


6. gr.

Veiting starfsleyfis.
     Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um veitingu starfsleyfis skal tilkynnt umsækjanda skriflega svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að fullbúin umsókn barst. Fjármálaeftirlitið skal tilkynna umsækjanda um það þegar umsókn telst fullnægjandi.
     Í starfsleyfi skal koma fram til hvaða tegundar leyfið tekur, sbr. 4. gr., hvaða starfsleyfisskylda starfsemi heimilt er að stunda á grundvelli þess og hvaða aðra starfsemi fyrirhugað er að stunda skv. IV. kafla.
     Fjármálafyrirtæki er óheimilt að hefja starfsemi fyrr en hlutafé eða stofnfé hefur verið greitt að fullu í reiðufé.
     Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynningar um starfsleyfi fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði.

7. gr.

Synjun starfsleyfis.
     Fullnægi umsókn ekki skilyrðum laga þessara að mati Fjármálaeftirlitsins skal það synja um starfsleyfi.
     Synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn skal rökstudd og tilkynnt umsækjanda innan þriggja mánaða frá móttöku fullbúinnar umsóknar. Synjun skal þó alltaf hafa borist umsækjanda tólf mánuðum frá móttöku umsóknar.

8. gr.

Skrá yfir fjármálafyrirtæki.
     Fjármálaeftirlitið skal halda skrá yfir fjármálafyrirtæki og útibú þeirra þar sem fram koma allar helstu upplýsingar um hlutaðeigandi fyrirtæki. Breytingar á áður skráðum upplýsingum, þar á meðal um fjölgun eða fækkun útibúa, skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu fyrir fram.

B. Afturköllun starfsleyfis.

9. gr.

Ástæður afturköllunar.
     Fjármálaeftirlitið getur afturkallað starfsleyfi fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta:
 1. hafi fyrirtækið fengið starfsleyfið á grundvelli rangra upplýsinga eða á annan óeðlilegan hátt,
 2. fullnægi fyrirtækið ekki ákvæðum laga þessara um stofnfé, hlutafé, eigið fé eða fjölda stofnfjáreigenda,
 3. nýti fyrirtækið ekki starfsleyfið innan tólf mánaða frá því að það var veitt, afsali sér ótvírætt leyfinu eða hætti starfsemi í meira en sex mánuði samfellt,
 4. fullnægi hluthafar, stjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækis ekki þeim hæfisskilyrðum sem fram koma í 42. og 52. gr.,
 5. sé um að ræða náin tengsl fjármálafyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila með þeim hætti sem um getur í 18. gr.,
 6. hafi verið kveðinn upp úrskurður um slit fyrirtækisins skv. XII. kafla,
 7. brjóti fyrirtækið að öðru leyti alvarlega eða ítrekað gegn lögum þessum, reglum, samþykktum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim.

     Áður en til afturköllunar kemur skv. 1. mgr. skal fyrirtækinu veittur hæfilegur frestur til úrbóta sé unnt að koma úrbótum við að mati Fjármálaeftirlitsins.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna fjármálafyrirtæki að stunda tiltekna starfsemi sem því er heimil skv. IV. kafla. Um slíkt bann gilda ákvæði 1. og 2. mgr.

10. gr.

Tilkynning um afturköllun og slit fjármálafyrirtækis.
     Afturköllun á starfsleyfi fjármálafyrirtækis skal tilkynnt stjórn þess og rökstudd skriflega. Fjármálaeftirlitið skal birta tilkynninguna í Lögbirtingablaði og auglýsa í fjölmiðlum. Starfræki fyrirtækið útibú eða þjónustustarfsemi í öðru ríki skal tilkynningin send lögbærum eftirlitsaðilum í því ríki.
     Ef starfsleyfi fjármálafyrirtækis er afturkallað skal fyrirtækinu slitið og fer um slitin samkvæmt ákvæðum XII. kafla.

III. KAFLI
Stofnun og starfsemi.

11. gr.

Búsetuskilyrði stofnenda.
     Einungis einstaklingar og lögaðilar búsettir hér á landi geta verið stofnendur fjármálafyrirtækja.
     Ríkisborgarar og lögaðilar annarra ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eru undanþegnir búsetuskilyrði 1. mgr. Viðskiptaráðherra er heimilt að veita ríkisborgurum annarra ríkja sömu undanþágu.

12. gr.

Heiti.
     Fjármálafyrirtækjum er einum heimilt að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni orðin „banki“, „viðskiptabanki“, „fjárfestingarbanki“, „sparisjóður“, „rafeyrisfyrirtæki“, „verðbréfafyrirtæki“, „verðbréfamiðlun“ og „rekstrarfélag verðbréfasjóðs“, ein sér eða samtengd öðrum orðum, í samræmi við starfsleyfi sitt.
     Sé hætta á að villst verði á nöfnum erlends og innlends fjármálafyrirtækis sem starfa hér á landi getur Fjármálaeftirlitið krafist þess að annað fyrirtækjanna verði auðkennt sérstaklega.
     Fjármálafyrirtæki má ekki auðkenna starfsemi sína á þann hátt að unnt sé að líta svo á að um Seðlabanka Íslands geti verið að ræða.

13. gr.

Rekstrarform.
     Fjármálafyrirtæki skal starfa sem hlutafélag. Um rekstrarform sparisjóða gilda ákvæði VIII. kafla.

14. gr.

Hlutafé og stofnfé.
     Hlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækis og stofnfé sparisjóðs, sbr. þó 77. gr., skal að lágmarki nema 450 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 5 milljóna evra (EUR) í íslenskum krónum miðað við opinbert viðmiðunargengi (kaupgengi) eins og það er skráð hverju sinni.
     Hlutafé rafeyrisfyrirtækis skal að lágmarki nema 90 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 1 milljónar evra í íslenskum krónum.
     Hlutafé verðbréfafyrirtækis skal að lágmarki nema 65 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 730 þúsunda evra í íslenskum krónum.
     Hlutafé verðbréfamiðlunar með heimild til viðskipta fyrir eigin reikning skal að lágmarki nema 11 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 125 þúsunda evra í íslenskum krónum.
     Hlutafé verðbréfamiðlunar sem ekki hefur heimild til viðskipta fyrir eigin reikning skal að lágmarki nema 4,5 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 50 þúsunda evra í íslenskum krónum.
     Hlutafé rekstrarfélags verðbréfasjóða skal að lágmarki nema 11 milljónum króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 125 þúsunda evra í íslenskum krónum. Hlutafé skal hækka um sem nemur 0,02% af eignum verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu sem rekstrarfélagið rekur og eru umfram 25 milljarða króna en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur jafnvirði 250 milljóna evra í íslenskum krónum. Hlutafé skv. 1. og 2. málsl. þarf þó aldrei að nema hærri fjárhæð en 1 milljarði króna eða sem nemur jafnvirði 10 milljóna evra í íslenskum krónum. Með eignum rekstrarfélags samkvæmt þessari málsgrein skal telja eignir verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
     Óski fjármálafyrirtæki eftir nýju starfsleyfi skal bókfært eigið fé í stað hlutafjár eða stofnfjár ekki nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 1.–6. mgr.
     Bókfært eigið fé fjármálafyrirtækis má á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en kveðið er á um í 1.–6. mgr.

15. gr.

Höfuðstöðvar.
     Fjármálafyrirtæki, sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., skal hafa höfuðstöðvar sínar hér á landi.

16. gr.

Endurskoðunardeild.
     Við fjármálafyrirtæki skal starfa endurskoðunardeild sem annast innri endurskoðun. Ákvæði þetta nær ekki til verðbréfamiðlana og rafeyrisfyrirtækja. Stjórn fjármálafyrirtækis skal ráða forstöðumann endurskoðunardeildar fyrirtækisins sem fer með innri endurskoðun í umboði hennar. Innri endurskoðun er hluti af skipulagi fjármálafyrirtækja og er þáttur í eftirlitskerfi þeirra. Fjármálaeftirlitið getur, með hliðsjón af eðli og umfangi rekstrarins, veitt undanþágu frá starfrækslu slíkrar endurskoðunardeildar og sett þeim fyrirtækjum skilyrði sem slíka undanþágu fá.

17. gr.

Eftirlitskerfi með áhættu.
     Fjármálafyrirtæki skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um eftirlitskerfi vegna áhættuþátta í starfsemi fjármálafyrirtækis.

18. gr.

Náin tengsl.
     Starfsleyfi skal ekki veitt ef náin tengsl fjármálafyrirtækis við einstaklinga eða lögaðila hindra eftirlit með fyrirtækinu af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Hið sama á við ef lög eða reglur, sem gilda um slíka tengda aðila, hindra eftirlit.
     Með nánum tengslum er átt við þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast gegnum:
 1. viðskiptahagsmuni, þ.e. beint eða óbeint eignarhald á minnst 20% hlutafjár eða yfirráð yfir 20% af atkvæðisrétti fyrirtækis; eða
 2. yfirráð, þ.e. tengsl á milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis eða sambærileg tengsl milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis; einnig skal litið á dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis sem dótturfyrirtæki móðurfyrirtækisins sem er í forsvari fyrir þessi fyrirtæki.

     Þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eru varanlega tengdir sömu persónunni með yfirráðatengslum skal einnig litið á það sem náin tengsl milli aðila.

19. gr.

Góðir viðskiptahættir og venjur.
     Fjármálafyrirtæki skal starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði.

IV. KAFLI
Starfsheimildir.
A. Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki.

20. gr.

Starfsheimildir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja.
     Starfsemi viðskiptabanka og sparisjóða getur tekið til eftirfarandi þátta:
 1. Móttöku innlána og annarra endurgreiðanlegra fjármuna frá almenningi.
 2. Útlánastarfsemi, m.a.:
  1. neytendalána,
  2. langtímaveðlána,
  3. kröfukaupa og kaupa skuldaskjala og
  4. viðskiptalána.
 3. Fjármögnunarleigu.
 4. Greiðslumiðlunar.
 5. Útgáfu og umsýslu greiðslumiðla (t.d. greiðslukorta, rafeyris, ferðatékka og víxla).
 6. Að veita ábyrgðir og tryggingar.
 7. Viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með:
  1. greiðsluskjöl á peningamarkaði (ávísanir, víxla, önnur sambærileg greiðsluskjöl o.s.frv.),
  2. erlendan gjaldeyri,
  3. framvirka samninga og skiptirétt (vilnanir),
  4. gengisbundin bréf og vaxtabréf og
  5. verðbréf.
 8. Þátttöku í útboðum verðbréfa og þjónustuviðskipta sem tengjast slíkum útboðum.
 9. Ráðgjafar til fyrirtækja um uppbyggingu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjafar og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
 10. Peningamiðlunar.
 11. Stjórnunar og ráðgjafar varðandi samval verðbréfa.
 12. Vörslu og ávöxtunar verðbréfa.
 13. Upplýsinga um lánstraust (lánshæfi).
 14. Útleigu geymsluhólfa.

     Starfsemi lánafyrirtækja getur tekið til 1.–14. tölul. 1. mgr. að því undanskildu að lánafyrirtækjum er óheimilt að taka á móti innlánum.
     Viðskiptabankar, sparisjóðir og lánafyrirtæki hafa heimildir til viðskipta með verðbréf skv. 25. gr.

21. gr.

Önnur þjónustustarfsemi og hliðarstarfsemi.
     Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að sinna annarri þjónustustarfsemi sem er í eðlilegum tengslum við heimildir þeirra skv. 20. gr.
     Auk þjónustu skv. 20. gr. er viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum heimilt að stunda hliðarstarfsemi, enda sé hún í eðlilegu framhaldi af fjármálaþjónustu fyrirtækisins. Ákvæði 1. málsl. þessarar málsgreinar tekur einnig til þess þegar fjármálafyrirtæki á eignarhlut í eða er þátttakandi í annarri atvinnustarfsemi. Senda skal tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins ef fyrirhugað er að stunda starfsemi samkvæmt þessari málsgrein. Með slíkri tilkynningu skulu fylgja upplýsingar um hina fyrirhuguðu starfsemi sem Fjármálaeftirlitið metur fullnægjandi. Hafi Fjármálaeftirlitið ekki gert athugasemd við hina fyrirhuguðu starfsemi innan eins mánaðar frá því að fullnægjandi tilkynning berst skal litið svo á að heimilt sé að hefja starfsemina. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að starfsemin sé stunduð í sérstöku félagi, en skal þá tilkynna viðkomandi aðila um þá ákvörðun sína innan fyrrgreinds frests. Sé vanrækt að senda tilkynningu samkvæmt þessari málsgrein getur Fjármálaeftirlitið bannað starfsemina eða krafist þess að hún sé stunduð í sérstöku félagi.
     Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt samkvæmt sérstökum samningi að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins að taka að sér að veita póstþjónustu fyrir hönd aðila sem leyfi hefur til að veita slíka þjónustu.

22. gr.

Tímabundin starfsemi og yfirtaka eigna.
     Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er því aðeins heimilt að stunda aðra starfsemi en þá sem um getur í þessum kafla að það sé tímabundið og í þeim tilgangi að ljúka viðskiptum eða til að endurskipuleggja starfsemi viðskiptaaðila. Tilkynning hér að lútandi skal send Fjármálaeftirlitinu.
     Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að yfirtaka eignir til að tryggja fullnustu kröfu. Eignirnar skulu seldar jafnskjótt og hagkvæmt er.

23. gr.

Heimildir til vátryggingastarfsemi.
     Viðskiptabönkum, sparisjóðum og lánafyrirtækjum er heimilt að reka vátryggingafélag í sérstöku félagi.

B. Önnur fjármálafyrirtæki.

24. gr.

Starfsheimildir rafeyrisfyrirtækis.
     Starfsemi rafeyrisfyrirtækis tekur til útgáfu og umsýslu rafeyris. Önnur starfsemi rafeyrisfyrirtækis en útgáfa rafeyris er takmörkuð við:
 1. náskylda fjármálaþjónustu eða aðra þjónustu, svo sem umsýslu rafeyris með því að annast rekstrarþætti og aðra stoðþætti sem tengjast útgáfu hans og útgáfu og umsýslu annarra greiðslumiðla, að undanskilinni hvers konar lánveitingu, og
 2. geymslu gagna frá fyrirtækjum eða hinu opinbera á hinum rafræna miðli sem rafeyrir er geymdur á.

     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. og V. kafla er erlendu rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu hér á landi einungis heimilt að gefa út rafeyri. Sama gildir um innlent rafeyrisfyrirtæki sem veitir þjónustu erlendis.

25. gr.

Starfsheimildir verðbréfafyrirtækis.
     Starfsemi verðbréfafyrirtækis getur tekið til eftirfarandi þátta í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga:
 1. Þjónustu:
  1. Móttöku og miðlunar fyrirmæla frá viðskiptavinum um einn eða fleiri fjármálagerninga og framkvæmdar slíkra fyrirmæla fyrir reikning þriðja aðila.
  2. Viðskipta með fjármálagerninga fyrir eigin reikning.
  3. Eignastýringar, sbr. lög um verðbréfaviðskipti.
  4. Sölutryggingar í tengslum við útgáfu eins eða fleiri fjármálagerninga eða markaðssetningar slíkrar útgáfu.
  5. Umsjónar með útboði verðbréfa.
 2. Viðbótarþjónustu:
  1. Vörslu og stjórnunar í tengslum við einn eða fleiri fjármálagerninga.
  2. Öryggisvörslu fjár.
  3. Veitingar lánsheimilda, ábyrgða eða lána til fjárfestis þannig að hann geti átt viðskipti með einn eða fleiri fjármálagerninga ef verðbréfafyrirtæki sem veitir lánsheimildina eða lánið annast viðskiptin.
  4. Ráðgjafar til fyrirtækja um uppbyggingu eigin fjár, stefnumótun og skyld mál og ráðgjafar og þjónustu varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
  5. Þjónustu í tengslum við sölutryggingu.
  6. Fjárfestingarráðgjafar varðandi einn eða fleiri fjármálagerning.
  7. Gjaldeyrisþjónustu ef umrædd viðskipti eru liður í fjárfestingarþjónustu.
  8. Fræðslu um og kynningar á verðbréfaviðskiptum.


26. gr.

Starfsheimildir verðbréfamiðlunar.
     Starfsemi verðbréfamiðlunar tekur til milligöngu um kaup eða sölu fjármálagerninga og sérfræðiráðgjöf um verðbréfaviðskipti þar sem endurgjald kemur fyrir. Verðbréfamiðlun er einungis heimilt að taka við fjármunum eða verðbréfum viðskiptavina í starfsemi sinni um skamman tíma, enda sé slíkt nauðsynlegt til að ljúka viðskiptum sem fyrirtækið hefur annast milligöngu um.
     Heildarverðmæti þeirra fjármálagerninga sem verðbréfamiðlun skv. 4. mgr. 14. gr. er heimilt að varðveita fyrir eigin reikning skal ekki fara yfir 15% af hlutafé skv. 14. gr. Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um það innan hvaða tímamarka slík viðskipti eru heimil, svo og um annað sem varðar starfsheimildir verðbréfamiðlunar samkvæmt þessari grein.
     Verðbréfamiðlanir skulu setja tryggingu fyrir tjóni sem þær kunna að baka viðskiptavinum sínum í starfsemi sinni. Nánari ákvæði um fjárhæð tryggingar og lágmarksskilmála að öðru leyti skal setja í reglugerð.

27. gr.

Starfsheimildir rekstrarfélags.
     Starfsheimildir rekstrarfélags taka ávallt til reksturs verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu. Rekstrarfélagi er einnig heimilt að stunda eftirfarandi starfsemi:
 1. Eignastýringu.
 2. Fjárfestingarráðgjöf.
 3. Vörslu og stjórnun fjármálagerninga í sameiginlegri fjárfestingu.

     Rekstrarfélag með heimildir til eignastýringar skal leita samþykkis viðskiptavinar áður en fjárfest er í verðbréfasjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu.
     Rekstrarfélagi er óheimilt að eignast verðbréf með atkvæðisrétti sem gerir því kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun útgefanda verðbréfa.

C. Eignarhlutir í fyrirtækjum og stórar áhættur.

28. gr.

Hámark virkra eignarhluta.
     Fjármálafyrirtæki mega ekki eiga virka eignarhluti í einstökum fyrirtækjum, sem ekki eru fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki tengd fjármálasviði, sem nema hærri fjárhæð en 15% af eigin fé hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis áður en tekið hefur verið tillit til frádráttar skv. 5. mgr. 85. gr. Með fyrirtæki tengdu fjármálasviði er átt við fyrirtæki sem ekki er lánastofnun og starfar einkum að öflun eignarhluta eða stundar einhverja þá starfsemi sem um getur í 2.–12. tölul. 1. mgr. 20. gr.
     Samtala virkra eignarhluta skv. 1. mgr. má ekki nema hærri fjárhæð en 60% af eigin fé fjármálafyrirtækis áður en tekið hefur verið tillit til frádráttar skv. 5. mgr. 85. gr. Bókfært virði samanlagðra eignarhluta sem fjármálafyrirtæki hefur eignast má ekki nema hærri fjárhæð en 100% af eigin fé þess. Eignarhlutir sem dregnir skulu frá við útreikning á eigin fé og eignarhlutir í fyrirtækjum, sem mynda samstæðu, skulu ekki teknir með við útreikning hlutfalla skv. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar. Tímabundinn eignarhlutur fjármálafyrirtækis í fyrirtæki skv. 22. gr. og eignarhlutir í veltubók skulu ekki teknir með við útreikning skv. 1. mgr. og 1. og 2. málsl. þessarar málsgreinar.
     Heimilt er að eignarhlutir fjármálafyrirtækja fari fram yfir hlutföll skv. 1. mgr. eða 1. málsl. 2. mgr., enda sé sú fjárhæð sem umfram er dregin frá við útreikning eigin fjár hlutaðeigandi fyrirtækis. Fari eignarhlutir samtímis fram yfir hlutföll skv. 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. skal hærri fjárhæðin af þeim sem umfram eru dregin frá við útreikning eigin fjár hlutaðeigandi fyrirtækis.
     Fjármálafyrirtæki skulu gefa Fjármálaeftirlitinu sundurliðað yfirlit yfir eignarhluti í öðrum fjármálafyrirtækjum sem þau hafa eignast eða tekið að veði, sbr. þó 64. gr.
     Við útreikning á hlutföllum skv. 1.–2. mgr. og 29. gr. skal taka tillit til framvirkra kaup- og sölusamninga og annarra afleiðusamninga sem fjármálafyrirtæki hefur gert um eigin hlutabréf. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um þetta atriði.
     Til veltubókar teljast fjármálagerningar og hrávara sem fjármálafyrirtæki hefur eignast eða heldur eftir með endursölu í huga og/eða í því skyni að hagnast á skammtímabreytingum á markaðsvirði þessara skjala eða öðrum verð- eða vaxtabreytingum. Jafnframt teljast til veltubókar stöður í fjármálagerningum og hrávörum sem verða til við samtímis skipti á höfuðstólsfjárhæðum, svo og fjármálagerningar sem fjármálafyrirtæki er aðili að í því skyni að baktryggja aðra þætti veltubókar. Til veltubókar teljast enn fremur áhættuþættir tengdir óuppgerðum og ófrágengnum viðskiptum og afleiðusamningum sem verslað er með utan verðbréfamarkaðar, svo og áhættuþættir er tengjast skuldbindingum stofnunar sem myndast vegna viðskipta með fjármálagerninga og hrávörur í veltubók.

29. gr.

Eigin hlutir.
     Fjármálafyrirtæki má ekki án samþykkis Fjármálaeftirlitsins eiga eða taka að veði eigin hlutabréf sem nemur hærri fjárhæð að nafnverði en 10% af nafnverði innborgaðs hlutafjár fyrirtækisins. Eignist fyrirtækið meira af hlutafénu, svo sem með kaupum eða fyrir annað framsal, skal það hafa selt hlutabréf þannig að lögmæltu marki sé náð innan þriggja mánaða. Um heimildir fjármálafyrirtækis til að eignast eigin hluti gilda að öðru leyti ákvæði VIII. kafla hlutafélagalaga.
     Veiti fjármálafyrirtæki í tengslum við hlutafjárútboð lán til kaupa á eigin hlutabréfum eða stofnfjárhlutum fyrir hærri fjárhæð en 5% af nafnverði heildarhlutafjár eða stofnfjár hlutaðeigandi fyrirtækis skulu settar traustar tryggingar fyrir lánum sem eru umfram framangreint hlutfall.

30. gr.

Takmarkanir á stórum áhættum.
     Áhætta vegna eins eða fleiri innbyrðis tengdra viðskiptamanna má ekki fara fram úr 25% af eigin fé fjármálafyrirtækis. Samtala fyrir stórar áhættur má ekki fara yfir 800% af eigin fé en með stórri áhættu er átt við þá áhættu sem nemur 10% eða meira af eigin fé. Með eigin fé er átt við eigið fé skv. 84. gr.
     Með áhættu skv. 1. mgr. er átt við lánveitingar, verðbréfaeign, eignarhluta og veittar ábyrgðir fjármálafyrirtækis vegna einstakra viðskiptamanna eða fjárhagslega tengdra aðila, svo og annarra skuldbindinga sömu aðila gagnvart fjármálafyrirtækinu.
     Fari áhættuskuldbindingar fjármálafyrirtækis yfir þau mörk sem kveðið er á um í 1. mgr. skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar. Fjármálaeftirlitið getur veitt fyrirtækinu frest til að koma skuldbindingum sínum í lögmætt horf.
     Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um stórar áhættur fjármálafyrirtækja.

V. KAFLI
Starfsemi fjármálafyrirtækja á milli landa.
A. Starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi.

31. gr.

Útibú fjármálafyrirtækja innan EES.
     Erlent fjármálafyrirtæki, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, getur stofnsett útibú hér á landi tveimur mánuðum eftir að Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu um fyrirhugaða starfsemi frá lögbæru yfirvaldi í heimaríki fyrirtækisins. Útibúinu er heimilt að stunda hverja þá starfsemi sem lög þessi taka til, enda sé hún fyrirtækinu heimil í heimaríki þess. Svissnesk fjármálafyrirtæki geta stofnað útibú með þeim hætti sem segir í þessari málsgrein, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra yfirvalda.
     Með útibúi er átt við starfsstöð sem að lögum er hluti af fjármálafyrirtæki og annast beint, að öllu leyti eða að hluta þá starfsemi sem fram fer hjá fjármálafyrirtækjum.
     Fjármálaeftirlitið gengur úr skugga um eftirlit með hinu erlenda fyrirtæki í heimaríkinu, starfsheimildir þess og starfsemi.
     Ákvæði hlutafélagalaga varðandi útibú erlendra hlutafélaga eiga ekki við um útibú skv. 1. mgr.

32. gr.

Þjónusta fjármálafyrirtækis innan EES án stofnunar útibús.
     Erlendu fjármálafyrirtæki, sem hefur staðfestu og starfsleyfi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, er heimilt að veita þjónustu samkvæmt lögum þessum hér á landi án stofnunar útibús. Ekki er heimilt að hefja slíka þjónustu fyrr en Fjármálaeftirlitið hefur fengið tilkynningu þar að lútandi frá lögbærum yfirvöldum í heimaríki fyrirtækisins. Heimildir til að veita þjónustu hér á landi erlendis frá samkvæmt þessari grein verða þó aldrei víðtækari en starfsheimildir fyrirtækisins í heimaríki þess. Svissnesk fjármálafyrirtæki geta veitt þjónustu samkvæmt þessari grein, enda séu sömu kröfur gerðar til þeirra og til fjármálafyrirtækja með staðfestu í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins og gerður hafi verið samstarfssamningur á milli Fjármálaeftirlitsins og lögbærra svissneskra yfirvalda.

33. gr.

Þjónusta eða stofnun útibús hjá fjármálafyrirtæki utan EES.
     Fjármálaeftirlitið getur heimilað fjármálafyrirtæki með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins að opna útibú hér á landi eða veita þjónustu hér á landi án stofnunar útibús. Skilyrði fyrir veitingu slíks leyfis er að fyrirtækið hafi leyfi til að stunda starfsemi í heimaríki sínu hliðstæða þeirri sem það hyggst stunda hér á landi og að sú starfsemi sé háð sambærilegu eftirliti í heimaríkinu.

34. gr.

Heimildir til að banna starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að banna erlendu fjármálafyrirtæki að stunda starfsemi hér á landi hafi hlutaðeigandi fyrirtæki brotið gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga þessara eða samþykktum og reglum settum samkvæmt þeim eða gegn ákvæðum annarra laga um fjármálafyrirtæki, enda hafi ekki tekist að binda enda á framangreind brot með úrræðum samkvæmt lögum þessum.
     Áður en ákvörðun er tekin um bann skv. 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að grípa til bráðabirgðaaðgerða ef brýna nauðsyn ber til í því skyni að vernda hagsmuni innlánseigenda, fjárfesta og viðskiptamanna fjármálafyrirtækis.
     Málsmeðferð skv. 1. og 2. mgr. fer eftir ákvæðum samnings um Evrópska efnahagssvæðið eftir því sem við á.

35. gr.

Reglugerð.
     Ráðherra skal setja reglugerð um heimildir erlendra fjármálafyrirtækja til starfsemi hér á landi og innlendra fjármálafyrirtækja erlendis. Í reglugerðinni skal m.a. kveðið á um eftirlit með og nánari kröfur til útibúa og umboðsskrifstofa erlendra fjármálafyrirtækja, um heimildir fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði og dótturfélaga fjármálafyrirtækja til að stunda fjármálastarfsemi hér á landi og um heimildir innlendra fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði til að stunda fjármálastarfsemi erlendis.

B. Starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis.

36. gr.

Tilkynning um stofnun útibús.
     Innlend fjármálafyrirtæki, sem hyggjast starfrækja útibú í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, skulu tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram.
     Tilkynningu skv. 1. mgr. skulu fylgja upplýsingar um í hvaða ríki fyrirhugað sé að stofna útibú, lýsing á starfsemi útibúsins, skipulagi þess og fyrirhugaðri starfsemi og upplýsingar um heimilisfang útibúsins og nöfn stjórnenda þess.
     Eigi síðar en þremur mánuðum frá því að Fjármálaeftirlitinu bárust upplýsingar skv. 2. mgr. skal það senda staðfestingu til lögbærra yfirvalda gistiríkis á að fyrirhuguð starfsemi sé í samræmi við starfsleyfi fyrirtækisins. Jafnframt skal Fjármálaeftirlitið senda lögbærum yfirvöldum gistiríkis upplýsingar um eigið fé fyrirtækisins, gjaldfærni, tryggingar innlána og bótakerfi sem verndar viðskiptavini útibúsins. Hlutaðeigandi fyrirtæki skal samtímis tilkynnt að framangreindar upplýsingar hafi verið sendar.
     Fjármálaeftirlitið getur bannað stofnun útibús skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum frá móttöku fullnægjandi upplýsinga skv. 2. mgr.
     Fjármálafyrirtæki skal tilkynna Fjármálaeftirlitinu og lögbærum yfirvöldum þess ríkis þar sem það starfrækir útibú um hverjar þær breytingar sem kunna að verða á áður veittum upplýsingum skv. 2. mgr. eigi síðar en einum mánuði áður en fyrirhugaðar breytingar koma til framkvæmda.

37. gr.

Tilkynning um þjónustu án stofnunar útibús.
     Hyggist fjármálafyrirtæki veita þjónustu samkvæmt þessum lögum í öðru ríki á Evrópska efnahagssvæðinu eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, án stofnunar útibús, skal tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Í tilkynningu skal koma fram hvaða ríki á í hlut og í hverju fyrirhuguð starfsemi sé fólgin.
     Eigi síðar en einum mánuði frá móttöku tilkynningar skv. 1. mgr. framsendir Fjármálaeftirlitið tilkynninguna til lögbærra eftirlitsaðila í viðkomandi ríki ásamt staðfestingu á því að starfsleyfi fjármálafyrirtækisins heimili fyrirhugaða starfsemi.
     Fjármálaeftirlitið getur lagt bann við starfsemi samkvæmt þessari grein ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er.
     Breytingar á áður tilkynntum atriðum samkvæmt þessari grein skulu tilkynntar Fjármálaeftirlitinu og lögbærum yfirvöldum viðkomandi ríkis eigi síðar en einum mánuði áður en þær koma til framkvæmda.

38. gr.

Starfsemi utan EES.
     Hyggist fjármálafyrirtæki hefja starfsemi í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrir fram ásamt lýsingu á fyrirhugaðri starfsemi og öðrum upplýsingum sem Fjármálaeftirlitið telur nauðsynlegar þar að lútandi.
     Fjármálaeftirlitið getur bannað starfsemi skv. 1. mgr. ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að stjórnun og fjárhagsstaða hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis sé ekki nægilega traust. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er.

39. gr.

Kaup á hlutum í erlendu fjármálafyrirtæki.
     Hyggist fjármálafyrirtæki kaupa eða fara með virkan eignarhlut í erlendu fjármálafyrirtæki skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Fjármálaeftirlitið getur lagt bann við slíku ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að upplýsingagjöf með starfseminni eða samstæðunni verði ekki nægilega traust og eftirlit með henni torveldað. Fyrirtækinu skal tilkynnt afstaða Fjármálaeftirlitsins svo fljótt sem auðið er og skal hún rökstudd.

VI. KAFLI
Eignarhlutir og meðferð þeirra.

40. gr.

Samþykki Fjármálaeftirlitsins.
     Aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki skulu leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Samþykkis Fjármálaeftirlitsins skal enn fremur aflað þegar einstaklingur eða lögaðili eykur svo við eignarhlut sinn að bein eða óbein hlutdeild hans í eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti fer yfir 20, 33 eða 50% eða nemur svo stórum hluta að fjármálafyrirtæki verði talið dótturfyrirtæki hans.
     Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki sem nemur 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti, eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi fyrirtækis.
     Ákvæði þessa kafla gilda um sparisjóði eftir því sem við getur átt.

41. gr.

Umsókn til Fjármálaeftirlitsins.
     Þeir sem hyggjast eignast svo stóran eignarhlut í fjármálafyrirtæki sem um ræðir í 40. gr. skulu beina skriflegri umsókn til Fjármálaeftirlitsins. Umsókn skulu fylgja upplýsingar um eftirfarandi:
 1. Nafn og heimili umsækjanda.
 2. Nafn þess fjármálafyrirtækis sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
 3. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
 4. Áform um breytingar á verkefnum fjármálafyrirtækis.
 5. Fjármögnun fjárfestingarinnar.
 6. Fjárhagsstöðu umsækjanda.
 7. Fyrirhuguð viðskiptatengsl umsækjanda við fjármálafyrirtæki.
 8. Reynslu umsækjanda af fjármálastarfsemi.
 9. Eignarhald, stjórnarsetu eða aðra þátttöku umsækjanda í starfsemi lögaðila.
 10. Refsingar sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti opinberri rannsókn.
 11. Náin tengsl umsækjanda við aðra lögaðila.
 12. Annað sem Fjármálaeftirlitið fer fram á að vita og máli skiptir við mat á hæfi eigenda virkra eignarhluta.

     Sé umsækjandi lögaðili skal upptalning skv. 1. mgr. eiga við um lögaðilann sjálfan, stjórnarmenn hans, framkvæmdastjóra og þá einstaklinga og lögaðila sem eiga virkan eignarhlut í lögaðilanum. Skal þá enn fremur upplýst um endurskoðanda lögaðilans. Skulu upplýsingarnar studdar gögnum eftir því sem það á við.

42. gr.

Mat á hæfi umsækjanda.
     Fjármálaeftirlitið leggur mat á hvort umsækjandi sé hæfur til að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis. Við mat á hæfi umsækjenda skal m.a. höfð hliðsjón af eftirfarandi:
 1. Fjárhagsstöðu umsækjanda og aðila sem hann er í nánum tengslum við.
 2. Þekkingu og reynslu umsækjanda.
 3. Hvort eignarhald umsækjanda skapar hættu á hagsmunaárekstrum á fjármálamarkaði.
 4. Stærð þess hlutar eða atkvæðisréttar sem umsækjandi hyggst fjárfesta í.
 5. Hvort ætla megi að eignarhald umsækjanda muni torvelda eftirlit með hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki. Við mat á því skal m.a. horft til fyrri samskipta umsækjanda við Fjármálaeftirlitið eða önnur stjórnvöld, til þess hvort náin tengsl umsækjanda við einstaklinga eða lögaðila geta að mati Fjármálaeftirlitsins hindrað það í eðlilegum eftirlitsaðgerðum og hvort lög og reglur, sem gilda um umsækjanda, hindra eðlilegt eftirlit.
 6. Hvort umsækjandi hefur gefið Fjármálaeftirlitinu umbeðnar upplýsingar ásamt fylgigögnum og þær upplýsingar hafa reynst réttar.
 7. Refsingum sem umsækjandi hefur verið dæmdur til að sæta og hvort hann sæti opinberri rannsókn.
 8. Ef um virkan eignarhlut í sparisjóði er að ræða skal Fjármálaeftirlitið að auki leggja mat á hvort eignarhaldið samrýmist skilyrðum 2. mgr. 70. gr.


43. gr.

Afgreiðsla umsóknar.
     Telji Fjármálaeftirlitið umsækjanda ekki hæfan til þess að eiga eignarhlutinn með tilliti til heilbrigðs og trausts reksturs fjármálafyrirtækis skal það synja umsækjanda um leyfi til þess. Fjármálaeftirlitinu er þó heimilt að fallast á umsókn, þrátt fyrir að umsækjandi teljist ekki hæfur til að eiga eignarhlutinn, gegn því að umsækjandinn grípi til ráðstafana í því skyni að takmarka skaðleg áhrif af eignarhaldi hans, t.d. að fela eignarhaldið sérstöku eignarhaldsfélagi sem hafi ekki aðra starfsemi með höndum eða tilnefna einstaklinga sem Fjármálaeftirlitið metur hæfa sem fulltrúa sína í félagsstjórn.
     Ákvörðun Fjármálaeftirlitsins skv. 1. mgr. skal vera skrifleg og hafa borist umsækjanda innan eins mánaðar frá þeim degi er því bárust fullnægjandi upplýsingar ásamt fylgigögnum. Berist ákvörðun Fjármálaeftirlitsins umsækjanda ekki innan þess tíma telst það hafa samþykkt umsóknina. Rökstuðningur skal fylgja synjun Fjármálaeftirlitsins á umsókn.

44. gr.

Nýting heimildar.
     Heimild til að eignast eða auka við virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki gildir í sex mánuði eftir að samþykki Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir. Nýti umsækjandi ekki heimildina á þeim tíma ber honum að afla samþykkis Fjármálaeftirlitsins á nýjan leik, sbr. 40. og 41. gr.

45. gr.

Úrræði ef ekki er sótt um leyfi.
     Sæki aðili ekki um leyfi Fjármálaeftirlitsins í tilefni af kaupum eða aukningu á virkum eignarhlut, þrátt fyrir að honum sé það skylt skv. 40. gr., fellur niður atkvæðisréttur sem fylgir þeim hlutum sem eru umfram leyfileg mörk. Skulu þeir þá ekki taldir með við útreikning á því hve miklum hluta hlutafjár farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi fjármálafyrirtæki um brottfall atkvæðisréttarins. Skal Fjármálaeftirlitið gera hlutaðeigandi aðila að leggja fram umsókn ásamt fylgigögnum skv. 41. gr. Berist umbeðin gögn innan tilskilins frests tekur Fjármálaeftirlitið ákvörðun um afgreiðslu umsóknar skv. 43. gr. Berist gögn ekki innan fjögurra vikna frá því að um þau er beðið eða Fjármálaeftirlitið synjar viðkomandi aðila um leyfi til að eiga eða auka við virkan eignarhlut er honum skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram leyfileg mörk. Skal Fjármálaeftirlitið setja tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Heimili Fjármálaeftirlitið viðkomandi aðila að eignast eða auka við virkan eignarhlut fá hlutirnir atkvæðisrétt að nýju.

46. gr.

Úrræði ef umsókn ef hafnað.
     Eignist aðili eða auki við virkan eignarhlut þrátt fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi hafnað umsókn hans um það fellur niður atkvæðisréttur sem fylgir þeim hlutum sem eru umfram leyfileg mörk. Skulu þeir þá ekki taldir með við útreikning á því hve miklum hluta hlutafjár farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Fjármálaeftirlitið tilkynnir viðkomandi fjármálafyrirtæki um brottfall atkvæðisréttarins. Er viðkomandi aðila að því búnu skylt að selja þann hluta eignarhlutarins sem er umfram leyfileg mörk. Skal Fjármálaeftirlitið setja tímamörk í því skyni og skal fresturinn ekki vera skemmri en tveir mánuðir. Sé hlutur ekki seldur á tilskildum tíma er Fjármálaeftirlitinu heimilt að beita aðila dagsektum samkvæmt lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

47. gr.

Tilkynning eiganda um sölu á virkum eignarhlut.
     Hyggist eigandi virks eignarhlutar draga svo úr hlutafjáreign sinni að hann eigi ekki virkan eignarhlut eftir það skal hann tilkynna það Fjármálaeftirlitinu fyrir fram og einnig hver eignarhlutur hans muni verða. Fari eignarhluturinn niður fyrir þau mörk sem tilgreind eru í 40. gr. eða svo mikið að fjármálafyrirtæki hættir að vera dótturfyrirtæki hlutaðeigandi móðurfyrirtækis skal það einnig tilkynnt.

48. gr.

Tilkynning fjármálafyrirtækja um aðilaskipti.
     Þegar tilkynning hefur borist um aðilaskipti að hlutabréfum í fjármálafyrirtæki sem valda því að hlutafjáreign fer yfir eða undir þau mörk sem tilgreind eru í 40. gr. skal stjórn fjármálafyrirtækis tilkynna Fjármálaeftirlitinu um það án ástæðulauss dráttar.
     Eigi sjaldnar en einu sinni á ári skal fjármálafyrirtæki tilkynna Fjármálaeftirlitinu um þá hluthafa sem eiga virkan eignarhlut í því og um hlutafjáreign hvers þeirra.

49. gr.

Úrræði ef eigandi er ekki hæfur til að fara með virkan eignarhlut.
     Sé aðila, sem á virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki, svo farið eða fari hann þannig með hlut sinn að skaði heilbrigðan og traustan rekstur þess getur Fjármálaeftirlitið gripið til eftirfarandi ráðstafana:
 1. Ákveðið að þeim hlutum fylgi ekki atkvæðisréttur.
 2. Lagt fyrir hlutaðeigandi fyrirtæki að grípa til ráðstafana sem draga úr skaðlegum áhrifum hluthafans.
 3. Lagt fyrir stjórn hlutaðeigandi fyrirtækis að boða til hluthafafundar þar sem háttsemi hluthafans skal tekin fyrir. Skal fulltrúa Fjármálaeftirlitsins heimilt að sækja fundinn og taka þar til máls.

     Við mat á því hvort gripið skuli til ráðstafana skv. 1. mgr. skal m.a. höfð hliðsjón af þeim atriðum sem greinir í 42. gr. Að auki skal höfð sérstök hliðsjón af því hvort staða eða háttsemi viðkomandi aðila væri til þess fallin að rýra traust almennings á hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki væri hún opinber.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að grípa í senn til fleiri en einnar af þeim ráðstöfunum sem tilgreindar eru í 1. mgr. þyki það nauðsynlegt.

VII. KAFLI
Stjórn og starfsmenn.

50. gr.

Almennt ákvæði.
     Um stjórn fjármálafyrirtækis gilda ákvæði laga um hlutafélög, enda sé ekki á annan veg mælt í lögum þessum.

51. gr.

Fjöldi stjórnarmanna.
     Stjórn fjármálafyrirtækis skal skipuð eigi færri en þremur mönnum. Þó skulu stjórnir viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja skipaðar eigi færri en fimm mönnum.
     Skipa skal jafnmarga varamenn og aðalmenn í stjórn fjármálafyrirtækis.

52. gr.

Hæfisskilyrði stjórnar og framkvæmdastjóra.
     Stjórnarmenn og framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækis skulu vera lögráða. Þeir mega ekki á síðustu fimm árum hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota eða í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, þessum lögum, eða löggjöf um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrot eða opinber gjöld eða þeim sérlögum sem gilda um aðila sem lúta opinberu eftirliti með fjármálastarfsemi.
     Til viðbótar framangreindum skilyrðum skulu stjórnarmenn og framkvæmdastjóri búa yfir nægilegri þekkingu og starfsreynslu til að geta gegnt stöðu sinni á tilhlýðilegan hátt. Þeir mega ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefur tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði fyrirtækið.

53. gr.

Hæfisskilyrði starfsmanna í verðbréfaviðskiptum.
     Starfsmenn fjármálafyrirtækis, sem hafa umsjón með daglegri starfsemi í tengslum við viðskipti með fjármálagerninga skv. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr., skulu hafa staðist próf í verðbréfaviðskiptum. Í tengslum við veitingu starfsleyfis og jafnskjótt og breytingar verða ber fjármálafyrirtæki að tilkynna Fjármálaeftirlitinu um starfsmenn samkvæmt þessari málsgrein. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
     Prófnefnd verðbréfaviðskipta hefur umsjón með prófi í verðbréfaviðskiptum sem að jafnaði skal haldið einu sinni á ári. Viðskiptaráðherra skipar prófnefnd til fjögurra ára í senn. Til að standa straum af kostnaði við framkvæmd prófa skulu próftakar greiða gjald sem ráðherra ákveður. Ákvarðanir prófnefndar eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
     Prófnefnd verðbréfaviðskipta er heimilt að fela óháðum aðilum að gefa einkunn fyrir prófúrlausn. Þá getur prófnefnd verðbréfaviðskipta skipað prófdómara til að endurskoða úrlausn próftaka. Í reglugerð skal kveða nánar á um framkvæmd prófs í verðbréfaviðskiptum, þar á meðal prófkröfur, og heimildir til að veita undanþágur frá einstökum hlutum slíks prófs eða prófi í heild.

54. gr.

Verkaskipting stjórnar og framkvæmdastjóra. Framkvæmd starfa stjórnar.
     Í samþykktum fjármálafyrirtækis skal kveðið á um verkaskiptingu stjórnar og framkvæmdastjóra sem skal taka mið af ákvæðum hlutafélagalaga.
     Stjórn skal setja sér starfsreglur þar sem nánar skal kveðið á um framkvæmd starfa stjórnarinnar. Í reglum þessum skal fjallað sérstaklega um heimildir stjórnar til að taka ákvarðanir um einstök viðskipti, framkvæmd reglna um sérstakt hæfi stjórnarmanna, meðferð stjórnar á upplýsingum um einstaka viðskiptamenn, setu stjórnarmanna í stjórnum dótturfyrirtækja og hlutdeildarfélaga, og framkvæmd reglna um meðferð viðskiptaerinda stjórnarmanna. Reglur þessar skal senda til Fjármálaeftirlitsins.

55. gr.

Þátttaka stjórnarmanna í meðferð mála.
     Stjórn fjármálafyrirtækis skal ekki taka þátt í ákvörðunum um einstök viðskipti, nema umfang þeirra sé verulegt miðað við stærð fyrirtækisins. Einstakir stjórnarmenn skulu ekki hafa afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti.
     Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis skulu ekki taka þátt í meðferð máls ef mál varðar:
 1. viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í; eða
 2. viðskipti samkeppnisaðila þeirra aðila sem ræðir um í 1. tölul.
Hið sama skal gilda um viðskipti aðila sem eru tengdir stjórnarmönnum persónulega eða fjárhagslega.
     Viðskiptaerindi stjórnarmanna, sem og fyrirtækja sem þeir eru í fyrirsvari fyrir, skulu lögð fyrir stjórn fjármálafyrirtækis, eða stjórnarformann félags, til samþykktar eða synjunar. Stjórn fjármálafyrirtækis er þó heimilt að setja almennar reglur um afgreiðslu slíkra mála þar sem fyrir fram er ákveðið hvaða viðskiptaerindi þurfi, og þurfi ekki, sérstaka umfjöllun stjórnar áður en til afgreiðslu þeirra kemur, sbr. 54. gr.

56. gr.

Þátttaka starfsmanna í atvinnurekstri.
     Framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis er óheimilt að sitja í stjórn atvinnufyrirtækis og taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti. Stjórn fyrirtækis getur veitt heimild til slíks á grundvelli reglna sem hún setur og Fjármálaeftirlitið staðfestir. Eignarhlutur í fyrirtæki telst þátttaka í atvinnurekstri, nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórnun þess. Um stjórnarsetu framkvæmdastjóra í dótturfyrirtæki eða hlutdeildarfélagi fjármálafyrirtækisins, og um heimildir annarra starfsmanna til þátttöku í atvinnurekstri, fer samkvæmt reglum settum samkvæmt ákvæðum 54. gr.

57. gr.

Viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtæki.
     Samningur fjármálafyrirtækis um lán, ábyrgðir, kauprétt eða sambærileg viðskipti við framkvæmdastjóra er háður samþykki stjórnar fyrirtækisins. Ákvörðun um slíkt skal bókuð. Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um maka framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækis.
     Um viðskipti fjármálafyrirtækis og starfsmanna þess fer að öðru leyti eftir reglum sem stjórn fyrirtækisins skal setja.

58. gr.

Þagnarskylda.
     Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
     Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.

59. gr.

Undanþága frá þagnarskyldu vegna áhættustýringar og eftirlits á samstæðugrunni.
     Þrátt fyrir ákvæði 58. gr. er heimilt að miðla upplýsingum til móðurfélags fjármálafyrirtækis ef móðurfélagið er einnig fjármálafyrirtæki í skilningi laga þessara eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði, sbr. 4. mgr. 97. gr. Slík upplýsingamiðlun má þó aðeins eiga sér stað að því marki sem nauðsynlegt er vegna áhættustýringar og má ekki ná til einkamálefna einstakra viðskiptamanna. Sama gildir um miðlun upplýsinga vegna eftirlits á samstæðugrunni.
     Fjármálaeftirlitið setur nánari reglur um heimila upplýsingamiðlun skv. 1. mgr.

60. gr.

Samþykki viðskiptamanns til miðlunar trúnaðarupplýsinga.
     Heimilt er að miðla til utanaðkomandi aðila þeim upplýsingum um viðskiptamenn sem um getur í 58. gr. að fengnu skriflegu samþykki þess er í hlut á. Í samþykki skal koma fram til hvaða upplýsinga það tekur, til hvaða aðila er heimilt að miðla upplýsingum á grundvelli þess og í hvaða tilgangi upplýsingunum er miðlað.

VIII. KAFLI
Sparisjóðir.

61. gr.

Stofnun.
     Stofnfjáreigendur í sparisjóði skulu ekki vera færri en 30.
     Á stofnfundi sparisjóðs fer hver stofnandi með eitt atkvæði. Stofnfundur setur sparisjóði samþykktir. Í þeim skulu vera ákvæði sem varða sérstaklega hlutaðeigandi sparisjóð, svo sem:
 1. heiti sparisjóðs,
 2. heimili sparisjóðs og varnarþing,
 3. heildarupphæð stofnfjár, skipting í stofnfjárhluti og atkvæðisréttur,
 4. reglur um eigendaskipti að stofnfjárhlutum og aukningu stofnfjár,
 5. kosning sparisjóðsstjórnar og störf hennar,
 6. breytingar á samþykktum og
 7. slit á sparisjóði og ráðstöfun eigin fjár í því sambandi.

     Þegar starfsemi sparisjóðs er bundin við ákveðið svæði skulu stofnfjáreigendur vera búsettir eða reka atvinnu eða aðra starfsemi á því svæði, sbr. þó 11. gr.

62. gr.

Stofnfjárbréf.
     Gefin skulu út stofnfjárbréf fyrir skráðum stofnfjárhlutum og skulu þau undirrituð af sparisjóðsstjórn. Þau má ekki afhenda fyrr en hlutur er að fullu greiddur. Stofnfjárbréf skulu hljóða á nafn og verða þau ekki framseld til handhafa þannig að gildi hafi gagnvart sparisjóðnum. Í stofnfjárbréfi skal greina:
 1. heiti sparisjóðs og heimilisfang,
 2. númer og fjárhæð hlutar,
 3. nafn, heimilisfang og kennitölu stofnfjáreiganda,
 4. útgáfudag stofnfjárbréfs,
 5. efni 64. og 65. gr. og
 6. sérstök atriði er varða réttindi og skyldur stofnfjáreigenda.

     Færð skal skrá yfir stofnfjáreigendur og skulu þeir allir eiga aðgang að henni.

63. gr.

Réttindi stofnfjáreigenda.
     Stofnfjáreigendur bera ekki persónulega ábyrgð á skuldbindingum sparisjóðs umfram stofnfé sitt.
     Stofnfjáreigendur hafa ekki rétt til ágóðahlutar af rekstrarafgangi sparisjóðs umfram það sem mælt er fyrir um í lögum þessum.
     Stofnfjáreigendur skulu einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu.
     Stofnfé verður ekki endurgreitt til stofnfjáreigenda nema samkvæmt ákvæðum 65. og 100. gr.

64. gr.

Sala og veðsetning stofnfjárhluta.
     Sala eða annað framsal stofnfjárhlutar í sparisjóði er óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Telji sparisjóðsstjórn að væntanlegur kaupandi stofnfjár falist eftir virkum eignarhlut í sparisjóði skal stjórnin vísa málinu til Fjármálaeftirlitsins, sbr. VI. kafla. Veðsetning stofnfjárhlutar í sparisjóði er óheimil nema samþykktir sparisjóðsins heimili veðsetningu að fengnu samþykki stjórnar.
     Nú verða eigendaskipti að stofnfjárhlut við fullnustu veðréttar, sem heimilt var að stofna til samkvæmt lokamálslið 1. mgr., og skal þá nýr eigandi óska eftir samþykki sparisjóðsstjórnar á eigendaskiptunum innan tveggja vikna frá því að þau áttu sér stað. Um afgreiðslu sparisjóðsstjórnar á slíkri beiðni fer samkvæmt ákvæðum 1. mgr. þessarar greinar og ákvæðum 70. gr. eftir því sem við getur átt.
     Synji sparisjóðsstjórn um samþykki eða nýr eigandi óskar ekki eftir samþykki innan tilskilins frests skal sparisjóðsstjórn innleysa stofnfjárhlutinn eftir ákvæðum 65. gr.

65. gr.

Innlausn stofnfjárhluta.
     Stjórn sparisjóðs er heimilt að innleysa stofnfjárhlut í sparisjóði að beiðni stofnfjáreiganda.
     Stjórn sparisjóðs er skylt að innleysa stofnfjárhlut í eftirgreindum tilvikum:
 1. þegar lögaðila, sem er eigandi að stofnfjárhlut, er slitið eða hann lagður niður,
 2. við gjaldþrotaskipti á búi stofnfjáreiganda,
 3. við fjárnám í stofnfjárhlut stofnfjáreiganda og
 4. þegar hún samþykkir ekki eigendaskipti við fullnustu veðréttar í stofnfjárhlut.

     Nú synjar sparisjóður um heimild til sölu stofnfjárhlutar, sbr. 64. gr., eða neytir ekki heimildar til innlausnar skv. 1. mgr. og skal hann þá, ef óskað er, hafa milligöngu um sölu hlutarins eða innleysa hann innan árs frá því er skrifleg beiðni kom fram um sölu eða innlausn.
     Fari innlausn stofnfjárhlutar fram skal hlutur innleystur á nafnverði að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 67. gr.

66. gr.

Aukning stofnfjár.
     Fundur stofnfjáreigenda getur ákveðið að auka stofnfé í starfandi sparisjóði og sett reglur um áskrift nýrra stofnfjárhluta í samræmi við ákvæði í samþykktum.
     Það verð, sem nýr stofnfjáreigandi skal greiða fyrir hlut, skal vera nafnverð hans að viðbættri ónýttri heimild til endurmats stofnfjár skv. 67. gr.

67. gr.

Endurmat stofnfjár.
     Sparisjóðum er heimilt að endurmeta stofnfé sjóðsins og greiða inn á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda. Við endurmat þetta skal hafa hliðsjón af verðlagsbreytingum miðað við vísitölu neysluverðs.
     Nýtt stofnfé nýtur hlutfallslega endurmats miðað við inngreiðslu þess innan ársins.

68. gr.

Ráðstöfun hagnaðar.
     Hagnaði sparisjóðs skal ráðstafað sem hér segir:
 1. Aðalfundur getur ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að greiða stofnfjáreigendum arð af stofnfé. Öryggissjóður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sem allir sparisjóðir stofna í þessu skyni, ákveður árlega hámarkshlutfall arðgreiðslu. Heimilt er að greiða arð þótt tap sé á rekstri sparisjóðs.
 2. Til viðbótar arðgreiðslu skv. 1. tölul. getur aðalfundur ákveðið, að fengnum tillögum sparisjóðsstjórnar, að ráðstafa allt að 10% af hagnaði hvers árs til hækkunar á stofnfé sjóðsins, þó þannig að hækkun stofnfjár samkvæmt þessum tölulið verði aldrei meiri en 5% á ári. Heimild til endurmats samkvæmt þessum tölulið flyst ekki á milli ára. Endurmat samkvæmt þessum tölulið má ekki leiða til þess að bókfært eigið fé að frádregnu stofnfé verði lægra en það var í árslok 2000. Nýtt stofnfé nýtur hlutfallslega endurmats samkvæmt þessum tölulið miðað við inngreiðslu þess innan ársins. Arðurinn skal reiknaður af endurmetnu stofnfé eins og það er í lok reikningsárs.
 3. Hagnað, sem ekki er ráðstafað skv. 1. og 2. tölul., skal leggja í varasjóð.


69. gr.

Leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld.
     Sparisjóðum er heimilt að fela sameiginlegum aðila á þeirra vegum að leggja fyrir þá leiðbeinandi tillögur um vexti og þjónustugjöld, enda brjóti slíkt ekki í bága við ákvæði samkeppnislaga, sbr. IV. kafla þeirra laga.

70. gr.

Skipting eignarhluta og atkvæða.
     Stofnfjáreigendur skulu eiga jafnan hlut nema samþykktir heimili annað.
     Nú leiðir framsal stofnfjárhlutar, eða aukning stofnfjár, til þess að einstakur stofnfjáraðili, eða stofnfjáreigandi og aðili sem hann er í nánum tengslum við í skilningi 2. mgr. 18. gr., eignist eða fari með virkan eignarhluta í sparisjóðnum í skilningi laga þessara, og skal þá sparisjóðsstjórn ekki samþykkja framsalið nema að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins og að fullnægðu öðru hvoru eftirgreindra skilyrða:
 1. að um sé að ræða lið í nauðsynlegri fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi sparisjóðs og sýnt þyki að slíkri fjárhagslegri endurskipulagningu verði ekki komið við nema með því að stofnfjáreigandi eignist virkan eignarhlut,
 2. að sýnt sé fram á að öflun stofnfjárhlutarins sé liður í eflingu samvinnu milli sparisjóða í landinu.

     Stofnfjáreigendur skulu eiga jafnan atkvæðisrétt nema öðruvísi sé ákveðið í samþykktum sparisjóðs. Þó er einstökum stofnfjáreigendum aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggjast á beinni eða óbeinni hlutdeild í stofnfé sparisjóðs. Um atkvæðisrétt ef sveitarfélag er eini stofnfjáreigandinn fer samkvæmt ákvæðum 71. gr. Óheimilt er að fara með atkvæðisrétt samkvæmt þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóður á sjálfur.
     Stofnfjáreiganda er óheimilt að fela öðrum umboð sitt á fundum stofnfjáreigenda nema slíkt sé leyft í samþykktum sparisjóðs.
     Þar sem talað er um heildaratkvæðamagn í sparisjóði í lögum þessum er átt við heildaratkvæðamagn að frádregnum atkvæðum samkvæmt þeim stofnfjárbréfum sem sparisjóður á sjálfur.

71. gr.

Sveitarfélagssparisjóðir.
     Ákvæði 1. mgr. 61. gr. um fjölda stofnfjáreigenda og 3. mgr. 70. gr. um tilhögun atkvæðisréttar í sparisjóði taka hvorki til þeirra sparisjóða þar sem sveitarfélög og héraðsnefndir eru einir stofnfjáreigenda við gildistöku laga þessara né til samruna þeirra, sbr. 101. gr. Sé héraðsnefnd einn stofnfjáreigenda takmarkast atkvæðisréttur hvers aðila við 1/ 5 hluta af atkvæðamagni í sparisjóði.

72. gr.

Stjórn.
     Í stjórn sparisjóðs skulu sitja fimm menn. Stofnfjáreigendur kjósa þrjá stjórnarmenn en hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna tvo stjórnarmenn samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins. Í samþykktum er heimilt að kveða á um að stofnfjáreigendur kjósi alla stjórnarmenn sparisjóðs. Stjórnin kýs sér formann úr sínum hópi. Heimilt er að kjósa varamenn, jafnmarga aðalmönnum, eftir sömu reglum og gilda um kosningu aðalmanna. Kosning stjórnar skal vera hlutbundin ef óskað er.

73. gr.

Breyting sparisjóðs í hlutafélag.
     Að tillögu sparisjóðsstjórnar í sparisjóði sem starfandi var 31. desember 2000 getur fundur stofnfjáreigenda ákveðið með 2/ 3 hlutum greiddra atkvæða, svo og samþykki stofnfjáreigenda sem ráða yfir minnst 2/ 3 hlutum þess stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundinum, að breyta sparisjóðnum í hlutafélag að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Skal breyting sparisjóðs í hlutafélag þá framkvæmd þannig að sparisjóðurinn sameinist hlutafélagi sem sparisjóðurinn hefur áður stofnað í því skyni að taka við rekstri sparisjóðsins og öllum eignum hans og skuldum, réttindum og skuldbindingum.
     Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, gilda ekki um fjölda stofnenda í hlutafélagi skv. 1. mgr. Ákvæði 1. mgr. 20. gr. sömu laga um lágmarksfjölda hluthafa gilda ekki um hlutafélag skv. 1. mgr. fram að því að breyting sparisjóðs í hlutafélag skv. 1. mgr. á sér stað.
     Við breytingu sparisjóðs í hlutafélag samkvæmt þessari grein heldur starfsleyfi sparisjóðsins gildi sínu.
     Sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, er auk orðsins „sparisjóður“ skylt að hafa orðið hlutafélag í heiti sínu eða skammstöfunina hf.
     Sparisjóði, sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, er ekki skylt að gefa út innköllun til lánardrottna. Breyting á eignaskráningu í veðmálabókum sem leiðir af breytingu sparisjóðs í hlutafélag er undanþegin stimpilgjöldum.
     Nú fer um eigið fé sparisjóðs sem breytt er í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 77. gr. og skulu nefnd ákvæði þá gilda áfram um sparisjóðinn eftir breytingu hans í hlutafélag.
     Sé sparisjóði breytt í hlutafélag skulu í stað ákvæða 61.–68. gr. og 70.–72. gr. gilda um hann ákvæði VII. kafla laga þessara og laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt, enda sé ekki öðruvísi fyrir mælt í undanfarandi ákvæðum þessarar greinar.

74. gr.

Skipting hlutafjár í sparisjóði.
     Við breytingu á sparisjóði í hlutafélag skv. 73. gr. skulu stofnfjáreigendur eingöngu fá hlutafé í hlutafélaginu sem gagngjald fyrir stofnfjárhluti sína. Skal samanlagt hlutafé sem stofnfjáreigendur fá í sparisjóðnum nema sama hlutfalli af hlutafé hans eftir breytinguna og stofnfé, endurmetið skv. 67. gr., nemur samtals af áætluðu markaðsvirði sparisjóðsins. Markaðsvirði sparisjóðsins sem og gagngjald fyrir stofnfjárhluti skal metið af óháðum aðila og miðast við sama tímamark og breytingin á rekstrarformi sparisjóðsins. Við mat á hlut stofnfjár skal hafa til hliðsjónar arðsvon stofnfjárhluta skv. 68. gr. annars vegar og arðsvon og áhættu hlutabréfa í sparisjóði hins vegar. Sá hluti hlutafjár sparisjóðsins eftir breytingu hans í hlutafélag sem ekki gengur til stofnfjáreigenda samkvæmt framansögðu skal verða eign sjálfseignarstofnunar sem sett er á stofn skv. 76. gr.
     Ákvæði 120.–128. gr. og ákvæði 131. gr. laga nr. 2/1995, um hlutafélög, skulu að öðru leyti og eftir því sem við getur átt gilda um breytingu sparisjóðs í hlutafélag samkvæmt undanfarandi ákvæðum þessarar greinar.

75. gr.

Atkvæðaréttur í sparisjóði sem breytt hefur verið í hlutafélag.
     Í samþykktum sparisjóðs sem breytt hefur verið í hlutafélag skv. 73. gr. skal kveðið á um atkvæðisrétt sem fylgir hlutum í sparisjóðnum og um meðferð hans. Einstökum hluthöfum er aldrei heimilt, fyrir sjálfs sín hönd eða annarra, að fara með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði, hvort sem yfirráð yfir atkvæðisrétti byggjast á beinni eða óbeinni eignarhlutdeild.
     Í samþykktum er þó heimilt að kveða á um að sjálfseignarstofnun skv. 76. gr. geti farið með meira en 5% af heildaratkvæðamagni í sparisjóði. Á stofnfundi skal sjálfseignarstofnunin fara með atkvæði í samræmi við hlutafjáreign sína.

76. gr.

Sjálfseignarstofnun sem hluthafi í sparisjóði.
     Sé ákveðið að breyta sparisjóði í hlutafélag samkvæmt ákvæðum 73. gr. skal sparisjóðurinn gangast fyrir stofnun sjálfseignarstofnunar sem við breytinguna verður eigandi þess hluta hlutafjár í sparisjóðnum sem kveðið er á um í 74. gr. Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar skal vera að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins. Fjármálaeftirlitið skal staðfesta samþykktir stofnunarinnar.
     Í stjórn sjálfseignarstofnunar skv. 1. mgr. skulu minnst eiga sæti fimm menn úr fulltrúaráði stofnunarinnar.
     Fulltrúaráð sjálfseignarstofnunar, sem í skulu eiga sæti allir stofnfjáreigendur í viðkomandi sparisjóði er honum var breytt í hlutafélag, skal kjósa stjórnarmenn sjálfseignarstofnunarinnar. Fulltrúaráðið getur valið fleiri til setu í ráðinu. Nú verða fulltrúaráðsmenn færri en þrjátíu og er þá skylt að fjölga í ráðinu á næsta fundi þess þannig að meðlimir verði eigi færri en þrjátíu.
     Einungis skal heimilt að úthluta af fjármunum sjálfseignarstofnunar skv. 1. mgr. eða ráðstafa eignum, sem eftir verða við slit hennar, til menningar- og líknarmála á starfssvæði viðkomandi sparisjóðs við breytingu hans í hlutafélag. Ákvæði laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur skulu að öðru leyti gilda um sjálfseignarstofnun skv. 1. mgr. Sjálfseignarstofnun sem stofnuð er samkvæmt þessari grein er undanþegin tekjuskatti og eignarskatti, enda sé farið eftir skilyrðum 1. málsl. um úthlutun til menningar- og líknarmála.

77. gr.

Lágmark stofnfjár.
     Sparisjóðum, sem starfandi eru við gildistöku laga þessara með eigið fé lægra en það stofnfé sem mælt er fyrir um í 14. gr., er heimilt að halda áfram starfsemi sinni, enda fari eigið fé þeirra ekki niður fyrir þá fjárhæð sem það nam við gildistöku laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og sparisjóði. Fari eigið fé niður fyrir framangreind mörk er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita hlutaðeigandi sparisjóði hæfilegan frest til úrbóta. Uppfylli sparisjóðurinn ekki skilyrðin um eigið fé að liðnum veittum fresti skal starfsleyfi hans afturkallað samkvæmt ákvæðum II. kafla.
     Yfirtaki nýir aðilar starfsemi sparisjóðs sem starfar skv. 1. mgr. skal eigið fé sparisjóðsins hafa náð því lágmarki sem kveðið er á um í 14. gr. innan þriggja mánaða frá yfirtökunni.

IX. KAFLI
Rafeyrisfyrirtæki.

78. gr.

Rafeyrir.
     Með rafeyri er átt við peningaleg verðmæti, í formi kröfu á útgefanda sem er geymd í rafrænum miðli, gefin út í skiptum fyrir fjárhæð sem er ekki lægri en þau peningalegu verðmæti sem eru gefin út og samþykkt sem greiðslumiðill af öðrum fyrirtækjum en útgefanda.

79. gr.

Endurgreiðanleiki rafeyris.
     Viðtaka fjár í skiptum fyrir rafeyri telst ekki innlán eða annað endurgreiðanlegt fé ef fénu, sem tekið er við, er strax skipt í rafeyri.
     Handhafi rafeyris getur, á þeim tíma sem rafeyririnn er í gildi, beðið útgefanda um að innleysa hann á nafnverði í mynt eða peningaseðlum eða með því að færa hann á reikning án annars endurgjalds en þess sem er nauðsynlegt til að framkvæma þá aðgerð.
     Í samningi á milli rafeyrisfyrirtækis og handhafa rafeyris skal tilgreina skilyrði fyrir innlausn með skýrum hætti.
     Í samningum skv. 3. mgr. er heimilt að setja lágmark fjárhæðar fyrir innlausn. Lágmark fjárhæðar má ekki vera hærra en sem samsvarar 500 krónum.

80. gr.

Eiginfjárkröfur.
     Eigið fé rafeyrisfyrirtækis skal, þrátt fyrir ákvæði 84. gr., ávallt vera að lágmarki 2% af þeirri fjárhæð sem hærri er:
 1. fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris, eða
 2. meðalfjárskuldbindingum næstliðinna sex mánaða vegna útistandandi rafeyris.

     Hafi rafeyrisfyrirtæki ekki starfað í sex mánuði skal eigið fé þess vera að minnsta kosti 2% af því sem hærra er:
 1. fjárskuldbindingum hverju sinni vegna útistandandi rafeyris, eða
 2. heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar hennar vegna útistandandi rafeyris. Heildarfjárhæð sex mánaða áætlunar um fjárskuldbindingar viðkomandi fyrirtækis vegna útistandandi rafeyris skal koma fram í viðskiptaáætlun fyrirtækisins með fyrirvara um breytingar á áætluninni sem Fjármálaeftirlitið kann að hafa óskað eftir.

     Rafeyrisfyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu tvisvar á ári útreikninga sem sýna að ákvæðum greinar þessarar hafi verið fylgt, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.

81. gr.

Takmörkun fjárfestinga.
     Fjárfestingar rafeyrisfyrirtækis skulu að minnsta kosti samsvara fjárskuldbindingum þess vegna útistandandi rafeyris. Rafeyrisfyrirtæki er aðeins heimilt að fjárfesta í auðseljanlegum eignum eða kröfum samkvæmt reglum sem Fjármálaeftirlitið setur um takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja. Í reglunum skal m.a. koma fram hvaða eignum og kröfum rafeyrisfyrirtæki getur fjárfest í, mat á verðmæti eigna, takmarkanir á markaðsáhættu og hámark fjárfestinga.
     Ef verðgildi eigna eða krafna skv. 1. mgr. fer niður fyrir fjárhæð skuldbindinga rafeyrisfyrirtækis vegna útistandandi rafeyris skal viðkomandi rafeyrisfyrirtæki ráða bót á því ástandi án tafar og gera Fjármálaeftirlitinu grein fyrir ráðstöfunum sínum í því skyni.
     Rafeyrisfyrirtæki skal senda Fjármálaeftirlitinu tvisvar á ári útreikninga sem sýna að ákvæðum greinar þessarar hafi verið fylgt, ásamt nauðsynlegum fylgigögnum samkvæmt nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur.
     Rafeyrisfyrirtæki má ekki eiga hlut í öðrum fyrirtækjum nema þau annist rekstrarþætti sem tengjast rafeyri sem viðkomandi rafeyrisfyrirtæki gefur út eða dreifir.

82. gr.

Takmarkanir á gildissviði.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að undanþiggja rafeyrisfyrirtæki frá einstökum eða öllum ákvæðum laga þessara ef að hámarki er unnt að geyma 6.000 krónur á hinum rafræna miðli og einu af eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
 1. rafeyrir, sem fyrirtækið gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá dótturfyrirtækjum fyrirtækisins, hjá móðurfyrirtæki fyrirtækisins eða hjá öðrum dótturfyrirtækjum móðurfyrirtækisins eða
 2. rafeyrir, sem rafeyrisfyrirtækið gefur út, er aðeins viðurkenndur sem greiðslumiðill hjá takmörkuðum fjölda fyrirtækja sem augljóslega má afmarka þar sem þau eru staðsett á sama athafnasvæði eða öðru afmörkuðu svæði á athafnasvæði rafeyrisfyrirtækis eða þau eru í nánum fjárhagslegum eða viðskiptalegum tengslum.

     Rafeyrisfyrirtæki sem fellur undir 1. mgr. skal árlega skila skýrslu um starfsemi sína til Fjármálaeftirlitsins eftir nánari reglum sem Fjármálaeftirlitið setur þar sem fram skulu m.a. koma upplýsingar um heildarfjárhæð skuldbindinga vegna óinnleysts rafeyris. Skýrslan skal hafa borist fyrir 1. apríl ár hvert.

X. KAFLI
Laust fé og eigið fé.

83. gr.

Laust fé.
     Fjármálafyrirtæki skulu kappkosta að hafa ætíð yfir að ráða nægilegu lausu fé til að geta innt af hendi úttektir á innlánsfé og aðrar greiðslur sem starfsemi hlutaðeigandi fyrirtækis fylgja.

84. gr.

Skilgreining eigin fjár.
     Eigið fé fjármálafyrirtækja eins og það er skilgreint skv. 4. mgr. skal á hverjum tíma eigi nema lægri fjárhæð en sem svarar til 8% af áhættugrunni.
     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er Fjármálaeftirlitinu heimilt að ákvarða hærra eiginfjárhlutfall en 8% fyrir þau fjármálafyrirtæki sem talin eru hafa ófullnægjandi fjárhagsstöðu með hliðsjón af áhættustigi, enda séu aðrar eftirlitsaðgerðir ekki líklegar til að bæta upp misvægi í eiginfjárstöðu og áhættustigi innan hæfilegs frests. Mat Fjármálaeftirlitsins á áhættustigi og ákvörðun um hærra eiginfjárhlutfall skal byggt á nánari reglum sem það setur.
     Áhættugrunnur fyrirtækis skal metinn með tilliti til heildareigna, liða utan efnahagsreiknings, gengisáhættu og áhættu annarra liða með markaðsáhættu samkvæmt nánari reglum um mat á áhættugrunni til útreiknings á eiginfjárhlutfalli fjármálafyrirtækja sem Fjármálaeftirlitið setur. Eiginfjárkrafan skv. 1. mgr. skal einnig gilda um samstæðureikning.
     Við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 1. mgr. skal eigið fé samsett af þremur þáttum, eiginfjárþætti A, eiginfjárþætti B og eiginfjárþætti C, og frádráttarliðum skv. 85. gr. Séu eiginfjárliðir byggðir á árshlutauppgjöri skal það vera áritað sem endurskoðað eða kannað af endurskoðanda. Eftirfarandi takmarkanir gilda um einstaka eiginfjárþætti:
 1. Eiginfjárþáttur A skal nema að lágmarki helmingi eigin fjár fyrir frádrátt skv. 85. gr.
 2. Eiginfjárþáttur B má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A.
 3. Eiginfjárþáttur C má hæst nema 50% af eiginfjárþætti A. Jafnframt má eiginfjárþáttur C hæst nema 4,8% af reiknuðum áhættugrunni vegna markaðsáhættu liða í veltubók skv. 28. gr. og gengisáhættu.

     Eiginfjárþáttur A telst vera innborgað hlutafé, varasjóðir, yfirverðsreikningur hlutafjár, endurmatsreikningur samkvæmt verðbólgureikningsskilum og óráðstafað eigið fé en að frádregnu bókfærðu virði eigin hlutabréfa/stofnfjárbréfa, viðskiptavild og öðrum óefnislegum eignum, svo og tapi og samþykktri arðsúthlutun. Enn fremur skal taka tillit til hlutdeildar minni hluta í eign dótturfélaga samkvæmt samstæðureikningsskilum.
     Eiginfjárþáttur B telst vera samtala 1. og 2. tölul.:
 1. Víkjandi lán sem fjármálafyrirtæki taka gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en fimm ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fjármálafyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár. Þegar fimm ár eru eftir af lánstímanum skal lánið reiknast niður um 20% fyrir hvert ár eða hlutfallslega fyrir hluta úr ári sem líður af þessum fimm árum. Sé um að ræða lán sem greiðist niður með afborgunum á lánstímanum skal reikna eftirstöðvar hvers árs niður á sambærilegan hátt. Eingöngu er heimilt að telja með innborgaðar fjárhæðir.
 2. Endurmatsreikningur samkvæmt kostnaðarverðsreikningsskilum.

     Eiginfjárþáttur C telst vera víkjandi lán til skamms tíma sem fjármálafyrirtæki tekur gegn útgáfu sérstakrar skuldaviðurkenningar þar sem skýrt er kveðið á um að endurgreiðslutími lánsins sé eigi skemmri en tvö ár og að við gjaldþrot hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis eða slit þess fáist það endurgreitt á eftir öllum öðrum kröfum á hendur fjármálafyrirtækinu en endurgreiðslu hlutafjár eða stofnfjár. Jafnframt skal kveðið á um að óheimilt sé að greiða af láninu eða greiða af því vexti ef eiginfjárhlutfall hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis er lægra en 8% eða ef endurgreiðsla höfuðstóls eða greiðsla vaxta veldur því að eiginfjárhlutfallið fer niður fyrir 8%. Tilkynna skal Fjármálaeftirlitinu ef slík greiðsla veldur því að eiginfjárhlutfallið fer niður fyrir 10%. Fjármálaeftirlitið getur heimilað einstökum fjármálafyrirtækjum að til eiginfjárþáttar C teljist hagnaður af veltubókarviðskiptum á tímabilinu að frádreginni fyrirsjáanlegri gjaldfærslu og að frádregnu nettótapi af annarri starfsemi, enda sé engin þessara fjárhæða meðtalin í eiginfjárþætti A.
     Heimilt er að flýta endurgreiðslu víkjandi lána æski lántaki þess, enda liggi fyrir samþykki Fjármálaeftirlitsins og slík endurgreiðsla hafi ekki óviðunandi áhrif á eiginfjárstöðu að mati þess.
     Þrátt fyrir ákvæði 1.–7. mgr. skal eigið fé verðbréfafyrirtækis, verðbréfamiðlunar og rekstrarfélags verðbréfasjóðs aldrei nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði síðasta reikningsárs. Fjármálaeftirlitið getur heimilað undanþágu frá þessari kröfu ef grundvallarbreyting hefur orðið á starfsemi félagsins milli ára. Á fyrsta starfsári verðbréfafyrirtækis, verðbréfamiðlunar og rekstrarfélags verðbréfasjóðs skal eigið fé þess ekki nema lægri fjárhæð en sem svarar til 25% af föstum rekstrarkostnaði samkvæmt rekstraráætlun starfsársins. Fjármálaeftirlitið getur krafist þess að gerð sé breyting á rekstraráætluninni ef það telur að hún gefi ekki rétta mynd af þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er.
     Fjármálaeftirlitinu er heimilt að ákveða í reglum að aðrir liðir en greindir eru í 5.–7. mgr. teljist með eigin fé fjármálafyrirtækis.

85. gr.

Frádráttur frá eigin fé.
     Frá eigin fé skv. 4. mgr. 84. gr. skal draga bókfært virði á eignarhlutum og víkjandi kröfum í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði. Þegar um er að ræða eignarhluti sem nema allt að 10% af hlutafé í hverju einstöku fjármálafyrirtæki takmarkast frádrátturinn þó við þá heildarfjárhæð eignarhluta og víkjandi krafna sem er umfram 10% af eigin fé eins og það er reiknað skv. 4. mgr. 84. gr. fyrir frádrátt samkvæmt þessari grein. Eignarhlutir sparisjóða í Sparisjóðabanka Íslands hf. sem nema meira en 10% af hlutafé bankans skulu þó reiknast með sama hætti og eignarhlutir sem nema allt að 10%.
     Þegar fjárfesting í hlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum á fjármálasviði er bráðabirgðaráðstöfun og ætluð sem fjárhagsaðstoð við endurskipulagningu eða til bjargar hlutaðeigandi fyrirtæki er Fjármálaeftirlitinu heimilt að veita undanþágu frá ákvæði 1. málsl.1. mgr.
     Eignarhlutir og víkjandi kröfur í öðrum fjármálafyrirtækjum eða fyrirtækjum tengdum fjármálasviði, sbr. 1. mgr., sem reiknast með í samstæðureikningi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis, dragast ekki frá eigin fé hlutaðeigandi fyrirtækis.
     Eignarhlutir og víkjandi kröfur í félögum, sem reka vátryggingastarfsemi skv. 23. gr. dragast frá eigin fé við útreikning á eiginfjárhlutfalli skv. 4. mgr. 84. gr. Frádrátturinn takmarkast þó við þá fjárhæð sem samsvarar hlutdeild í lágmarksgjaldþoli viðkomandi vátryggingafélags.
     Frá eigin fé dragast enn fremur eignarhlutir í félögum sem eru umfram þau mörk sem greinir í 1. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 28. gr.

86. gr.

Upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár.
     Hafi stjórn eða framkvæmdastjórar fjármálafyrirtækis ástæðu til að ætla að eigið fé þess sé undir lögbundnu lágmarki ber þeim þegar í stað að tilkynna það Fjármálaeftirlitinu. Sambærileg skylda hvílir á endurskoðanda hlutaðeigandi fyrirtækis hafi hann ástæðu til að ætla að stjórnendur þess hafi ekki rækt skyldu sína skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar.
     Er Fjármálaeftirlitinu berst tilkynning skv. 1. mgr. eða telur af öðru tilefni ástæðu til að ætla að eigið fé fjármálafyrirtækis sé undir því lágmarki sem kveðið er á um í 84. gr. skal það krefja stjórn fyrirtækisins þegar í stað um reikningsuppgjör sem henni ber að afhenda innan hæfilegs frests. Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að slíkt reikningsuppgjör sé áritað af endurskoðanda.
     Komi fram í reikningsuppgjöri að hætti 2. mgr. að eigið fé fjármálafyrirtækis fullnægi ekki ákvæðum 84. gr. skal stjórn þess án tafar boða til fundar hluthafa eða stofnfjáreigenda til ákvörðunar og afhenda síðan Fjármálaeftirlitinu greinargerð þar sem fram kemur til hverra ráðstafana hún hyggst grípa af þessu tilefni. Greinargerð þessi skal afhent innan frests sem Fjármálaeftirlitið tiltekur.
     Þegar Fjármálaeftirlitinu hafa borist gögn skv. 3. mgr. er því heimilt að veita hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki frest í allt að sex mánuði til þess að auka eigið fé að lágmarki skv. 84. gr. Séu til þess ríkar ástæður er Fjármálaeftirlitinu heimilt að framlengja þennan frest í allt að sex mánuði til viðbótar. Berist greinargerð skv. 3. mgr. ekki innan tilskilins frests, séu úrræði samkvæmt greinargerðinni ekki fullnægjandi að mati Fjármálaeftirlitsins eða líði frestur samkvæmt þessari málsgrein skal afturkalla starfsleyfi, sbr. 9. gr.

XI. KAFLI
Ársreikningur, endurskoðun og samstæðureikningsskil.

87. gr.

Samning ársreiknings og undirritun.
     Stjórn og framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis skulu semja ársreikning fyrir hvert reikningsár. Ársreikningur skal hafa að geyma rekstrarreikning, efnahagsreikning, fjárstreymisyfirlit og skýringar. Enn fremur skal semja skýrslu stjórnar sem ásamt ársreikningi mynda eina heild. Reikningsár fjármálafyrirtækja er almanaksárið.
     Ársreikningur skal undirritaður af stjórn og framkvæmdastjórum fjármálafyrirtækja. Hafi stjórnarmaður eða framkvæmdastjóri fjármálafyrirtækis mótbárur fram að færa gegn ársreikningi skal hann gera grein fyrir því í áritun sinni.

88. gr.

Góð reikningsskilavenja.
     Ársreikningur skal gefa glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fjármálafyrirtækis. Hann skal gerður í samræmi við lög, reglur og góða reikningsskilavenju og innihalda m.a. rekstrarreikning, efnahagsreikning og skýringar og upplýsingar um liði utan efnahagsreiknings.
     Fjármálaeftirlitið setur reglur að höfðu samráði við reikningsskilaráð um uppsetningu ársreiknings, innihald einstakra liða rekstrar- og efnahagsreiknings og liða utan efnahagsreiknings og skýringar og mat á einstökum liðum.
     Fjármálaeftirlitið skal sjá til þess í samráði við reikningsskilaráð að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri reikningsskilavenju við gerð ársreiknings og árshlutareiknings fjármálafyrirtækis.

89. gr.

Skýrsla stjórnar.
     Í skýrslu stjórnar skal koma fram yfirlit yfir starfsemi hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis á árinu, svo og upplýsingar um atriði sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu hlutaðeigandi fyrirtækis og afkomu þess á reikningsárinu er ekki koma fram í ársreikningnum.
     Í skýrslu stjórnar skal enn fremur upplýst um eftirfarandi:
 1. atburði eftir uppgjörsdag sem hafa verulega þýðingu,
 2. væntanlega þróun fyrirtækisins og
 3. aðgerðir sem hafa þýðingu fyrir framtíðarþróun þess.

     Skýrsla stjórnar skal veita upplýsingar um fjölda starfsmanna að meðaltali á reikningsárinu og heildarfjárhæð launa, þóknana eða annarra greiðslna til starfsmanna, framkvæmdastjóra, stjórnar og annarra í þjónustu hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis. Sé um ágóðahlut að ræða til stjórnar eða framkvæmdastjóra skal hann sérgreindur. Í skýrslu stjórnar skal upplýst um fjölda hluthafa eða stofnfjáreigenda í lok reikningsárs. Að öðru leyti gilda ákvæði hlutafélagalaga eftir því sem við á.
     Stjórnir skulu í skýrslu sinni gera tillögu um ráðstöfun á hagnaði hlutaðeigandi fyrirtækis eða jöfnun taps.

90. gr.

Endurskoðun.
     Ársreikningur fjármálafyrirtækis skal endurskoðaður af endurskoðanda eða endurskoðunarfélagi.
     Endurskoðandi skv. 1. mgr. skal kjörinn á aðalfundi fjármálafyrirtækis til eins árs í senn.
     Kjósa skal sama aðila sem endurskoðanda í móður-, systur- og dótturfélagi ef þess er nokkur kostur. Í móðurfélagi skal endurskoðandi jafnframt endurskoða samstæðureikninginn.

91. gr.

Hæfi endurskoðanda.
     Endurskoðandi má ekki eiga sæti í stjórn, vera starfsmaður fyrirtækisins eða starfa í þágu þess að öðru en endurskoðun.
     Endurskoðandi má ekki vera skuldugur því fyrirtæki sem hann annast endurskoðun hjá, hvorki sem aðalskuldari né ábyrgðarmaður. Hið sama gildir um maka hans.

92. gr.

Upplýsingaskylda endurskoðanda.
     Verði endurskoðandi var við verulega ágalla í rekstri eða atriði er varða innra eftirlit, greiðslutryggingar útlána, önnur atriði sem veikt geta fjárhagsstöðu hlutaðeigandi fyrirtækis eða atriði sem leiða til þess að hann mundi synja um áritun eða gera fyrirvara, svo og ef endurskoðandi hefur ástæðu til að ætla að lög, reglugerðir eða reglur sem gilda um fyrirtækið hafi verið brotnar, skal endurskoðandi gera stjórn þess og Fjármálaeftirlitinu viðvart. Þetta á einnig við um sambærileg atriði sem endurskoðandi fær vitneskju um og varða fyrirtæki í nánum tengslum við hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki, sbr. 2. mgr. 18. gr. Slík tilkynning brýtur ekki í bága við þagnarskyldu endurskoðanda skv. 58. gr. laga þessara eða ákvæði annarra laga.

93. gr.

Góð endurskoðunarvenja.
     Fjármálaeftirlitið skal sjá til þess í samráði við Félag löggiltra endurskoðenda og aðra hlutaðeigandi aðila að á hverjum tíma liggi fyrir skilgreining á góðri endurskoðunarvenju við endurskoðun hjá fjármálafyrirtækjum. Fjármálaeftirlitið setur reglur um endurskoðun fjármálafyrirtækja.
     Að öðru leyti en fram kemur í lögum þessum gilda um endurskoðun fjármálafyrirtækja ákvæði VII. kafla laga nr. 144/1994, um ársreikninga, með áorðnum breytingum.
     Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis, svo og eignarhaldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag skv. 97. gr. og dótturfyrirtæki slíkra félaga.

94. gr.

Sérstök endurskoðun.
     Fjármálaeftirlitið getur látið fara fram sérstaka endurskoðun hjá fjármálafyrirtæki telji eftirlitið ástæðu til að ætla að endurskoðað reikningsuppgjör gefi ekki glögga mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarafkomu fyrirtækisins. Fjármálaeftirlitinu er heimilt að láta hlutaðeigandi fyrirtæki bera kostnaðinn af slíkri endurskoðun.
     Ákvæði 1. mgr. eiga einnig við um dótturfyrirtæki fjármálafyrirtækis, svo og eignarhaldsfélag á fjármálasviði eða blandað eignarhaldsfélag skv. 97. gr. og dótturfyrirtæki slíkra félaga.

95. gr.

Skil og birting ársreiknings.
     Endurskoðaður og undirritaður ársreikningur fjármálafyrirtækis ásamt skýrslu stjórnar skal sendur Fjármálaeftirlitinu innan tíu daga frá undirritun en í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok reikningsárs.
     Hafi á aðalfundi verið samþykktar breytingar á undirrituðum ársreikningi skal breyttur ársreikningur sendur Fjármálaeftirlitinu innan tíu daga frá aðalfundi og gerð grein fyrir þeim breytingum sem gerðar hafa verið.
     Ársreikningur fjármálafyrirtækis ásamt skýrslu stjórnar skal liggja frammi á afgreiðslustað hlutaðeigandi fyrirtækis og afhentur hverjum viðskiptaaðila sem þess óskar innan tveggja vikna frá samþykkt aðalfundar.

96. gr.

Árshlutauppgjör.
     Fjármálafyrirtæki skulu semja og birta árshlutauppgjör í samræmi við reglur sem Fjármálaeftirlitið setur.
     Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæðum um gerð árshlutauppgjörs.

97. gr.

Samstæðureikningsskil.
     Fyrirtæki telst vera móðurfyrirtæki þegar það:
 1. ræður yfir meiri hluta atkvæða í öðru fyrirtæki,
 2. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að tilnefna eða víkja frá meiri hluta stjórnarmanna eða stjórnenda,
 3. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur rétt til að hafa ráðandi áhrif á starfsemi þess á grundvelli samþykkta fyrirtækisins eða samnings við það,
 4. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og ræður, á grundvelli samnings við aðra hluthafa eða eignaraðila, meiri hluta atkvæða í fyrirtækinu eða
 5. á eignarhluti í öðru fyrirtæki og hefur ráðandi stöðu í því.

     Fyrirtæki, sem hafa þau tengsl við fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði sem lýst er í 1. mgr., teljast vera dótturfyrirtæki. Fyrirtæki sem er dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis, telst einnig vera dótturfyrirtæki móðurfélags.
     Móðurfyrirtæki og dótturfyrirtæki þess mynda samstæðu.
     Með eignarhaldsfélagi á fjármálasviði er átt við fyrirtæki tengt fjármálasviði þar sem dótturfyrirtækin eru annaðhvort eingöngu eða aðallega lánastofnanir eða fyrirtæki tengd fjármálasviði og að minnsta kosti eitt dótturfyrirtækjanna er lánastofnun.
     Með blönduðu eignarhaldsfélagi er átt við móðurfyrirtæki sem ekki er eignarhaldsfélag á fjármálasviði þar sem að minnsta kosti eitt dótturfyrirtækjanna er lánastofnun.
     Við mat á atkvæðisrétti og réttindum til að tilnefna eða víkja frá stjórnarmönnum eða stjórnendum skal leggja saman réttindi sem bæði móður- og dótturfyrirtæki ráða yfir.
     Við mat á atkvæðisrétti í dótturfyrirtæki skal ekki talinn með atkvæðisréttur sem fylgir eigin hlutum dótturfyrirtækisins eða dótturfyrirtækja þess.
     Ákvæði 87.–92. gr. og 95.–96. gr. gilda eftir því sem við á bæði fyrir samstæðu, þar sem móðurfyrirtæki er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði, og fyrir einstök fyrirtæki samstæðunnar.
     Fjármálaeftirlitið setur að höfðu samráði við reikningsskilaráð nánari reglur um gerð samstæðureikningsskila fyrir samstæðu fyrirtækja þar sem móðurfyrirtækið er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
     Fjármálaeftirlitið getur sett reglur um samstæðuuppgjör fyrir samstæðu fyrirtækja þar sem móðurfyrirtækið er blandað eignarhaldsfélag.

XII. KAFLI
Slit og samruni fjármálafyrirtækja.
A. Slit.

98. gr.

Ákvörðun um slit.
     Bú fjármálafyrirtækis verður ekki tekið til gjaldþrotaskipta eftir almennum reglum.
     Slíta ber fjármálafyrirtæki í eftirtöldum tilvikum:
 1. ef Fjármálaeftirlitið afturkallar starfsleyfi fjármálafyrirtækis, sbr. 9. gr., synjar fyrirtækinu um frest að hætti 4. mgr. 86. gr. eða frestur samkvæmt því ákvæði er á enda án þess að fyrirtækið hafi aukið eigið fé fram yfir það lágmark sem kveðið er á um í 84. gr.,
 2. ef skylt er að slíta fjármálafyrirtæki samkvæmt samþykktum hlutaðeigandi fyrirtækis,
 3. ef hluthafafundur eða fundur stofnfjáreigenda ákveður að slíta fjármálafyrirtæki.

     Í þeim tilvikum, sem getið er í 2. eða 3. tölul. 2. mgr., skal Fjármálaeftirlitið afla reikningsuppgjörs stjórnar hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis á sama hátt og skv. 2. mgr. 86. gr.
     Ákvörðun skv. 3. tölul. 2. mgr. er því aðeins gild að hún hljóti samþykki minnst 2/ 3 hluta greiddra atkvæða, svo og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda sem ráða yfir minnst 2/ 3 hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á fundi stofnfjáreigenda.

99. gr.

Úrskurður héraðsdóms um slit.
     Þegar skylt er að slíta fjármálafyrirtæki skv. 1. tölul. 2. mgr. 98. gr. eða þegar Fjármálaeftirlitið telur, í tilvikum sem eiga undir 2. eða 3. tölul. sama ákvæðis, að óvíst sé að eignir fyrirtækisins hrökkvi til greiðslu skulda þess skal Fjármálaeftirlitið senda héraðsdómara á varnarþingi hlutaðeigandi fyrirtækis kröfu um að bú þess verði tekið til gjaldþrotaskipta.
     Þegar skylt er að slíta fjármálafyrirtæki skv. 2. eða 3. tölul. 2. mgr. 98. gr. og Fjármálaeftirlitið telur sýnt að eignir þess hrökkvi fyrir skuldum skal það senda héraðsdómara á varnarþingi fyrirtækisins kröfu um að bú þess verði tekið til skipta til slita á fjármálafyrirtækinu.
     Þegar héraðsdómari hefur kannað hvort fullnægt sé skilyrðum 98. gr. fyrir kröfunni skal hann kveða upp úrskurð um hvort orðið skuli við henni.
     Í innköllun í bú fjármálafyrirtækis skal tekið fram hvort það hafi verið tekið til skipta að hætti 1. eða 2. mgr.

100. gr.

Framkvæmd skipta á búi fjármálafyrirtækis.
     Leiði ekki annað af ákvæðum þessara laga skulu um skipti á búi fjármálafyrirtækis gilda almennar reglur laga um gjaldþrotaskipti o.fl. eftir því sem átt getur við að því undanteknu að ákvæði þeirra um riftun ráðstafana gilda ekki um skipti sem komin eru til skv. 2. mgr. 99. gr.
     Þegar ákvæði laga um gjaldþrotaskipti o.fl. miða réttaráhrif við frestdag skal jafngilda þeim degi við skipti á búi fjármálafyrirtækis sá dagur sem Fjármálaeftirlitið hefur veitt frest að hætti 4. mgr. 86. gr. en sé slíkur frestur ekki undanfari skipta skal miðað við þann dag sem héraðsdómara berst krafa Fjármálaeftirlitsins skv. 1. eða 2. mgr. 99. gr.
     Þegar allar skuldir sparisjóðs hafa verið greiddar skal greiða stofnfjáreigendum eignarhlut þeirra af eftirstöðvum eigna sjóðsins. Þeim eignum, sem þá kunna að vera eftir, skal ráðstafað í samræmi við ákvæði samþykkta sparisjóðsins. Þó er ekki heimilt að ráðstafa eftirstöðvum eigna til stofnfjáreigenda, sbr. 4. mgr. 63. gr.

B. Samruni.

101. gr.

     Samruni fjármálafyrirtækis við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess er aðeins heimill að ákvörðun þar að lútandi hafi hlotið samþykki hluthafafundar eða fundar stofnfjáreigenda í yfirtekna fyrirtækinu með minnst 2/ 3 hluta greiddra atkvæða og samþykki hluthafa eða stofnfjáreigenda í yfirtekna fyrirtækinu sem ráða yfir minnst 2/ 3 hlutum þess hlutafjár eða stofnfjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum eða fundum stofnfjáreigenda, svo og að fengnu samþykki Fjármálaeftirlitsins. Ef hið yfirtekna fyrirtæki er alfarið í eigu yfirtökufélags þarf ekki að koma til atkvæðagreiðslu skv. 1. málsl. þessarar málsgreinar í yfirtekna félaginu.
     Samruni sparisjóðs við annað fyrirtæki eða einstaka rekstrarhluta þess er því aðeins heimill að sparisjóðnum hafi áður verið breytt í hlutafélag samkvæmt ákvæðum VIII. kafla, nema þegar um er að ræða samruna tveggja eða fleiri sparisjóða.
     Um samruna fjármálafyrirtækja gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög eftir því sem við getur átt og samningar hlutaðeigandi aðila.
     Fjármálafyrirtæki, sem er slitið vegna samruna, er ekki skylt að gefa út innköllun til lánardrottna eða halda eignum sínum aðgreindum. Breyting á eignaskráningu í veðmálabókum vegna samruna fjármálafyrirtækja er undanþegin stimpilgjöldum.
     Fjármálaeftirlitið skal auglýsa samruna fjármálafyrirtækja í Lögbirtingablaði. Í auglýsingu skal tilgreina hvenær samruni tekur gildi, nöfn hlutaðeigandi fyrirtækja, frest til að gera athugasemdir við yfirfærslu innlánsreikninga, hugsanlegar breytingar á greiðslustöðum skuldaskjala og annað sem kunngera þarf viðskiptamönnum sérstaklega.
     Við samruna tveggja eða fleiri fjármálafyrirtækja skal eigið fé, sem verður til við samruna, ekki vera lægra en samanlagt eigið fé hlutaðeigandi fyrirtækja á þeim tíma sem samruni átti sér stað, enda hafi lágmarki skv. 14. gr. ekki verið náð.

XIII. KAFLI
Eftirlit.
A. Almennar eftirlitsheimildir.

102. gr.

Fjármálaeftirlitið.
     Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi fjármálafyrirtækja og fyrirtækja sem tengjast fjármálasviði sem fellur undir ákvæði laga þessara, svo og starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis, nema annað leiði af lögum eða alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að. Jafnframt fer Fjármálaeftirlitið með eftirlit með dótturfyrirtækjum, hlutdeildarfyrirtækjum og sjóðum sem stunda starfsemi þá sem talin er upp í IV. kafla að því marki sem nauðsynlegt er vegna eftirlitsskyldrar starfsemi. Um eftirlitið fer samkvæmt ákvæðum laga þessara og laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá einstaklingum eða lögaðilum sem eiga eða hyggjast eignast eða fara með eignarhlut í fjármálafyrirtækjum í því skyni að meta hvort þeir falli undir tilkynningarskyldu skv. VI. kafla og hvort þeir teljist hæfir til að fara með virkan eignarhlut.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá dótturfyrirtækjum eða hlutdeildarfyrirtækjum eða öðrum aðilum sem teljast í nánum tengslum við fjármálafyrirtæki, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með viðkomandi fjármálafyrirtæki.
     Fjármálaeftirlitið getur krafist hvers konar gagna og upplýsinga frá eignarhaldsfélögum á fjármálasviði og blönduðum eignarhaldsfélögum, enda telji Fjármálaeftirlitið upplýsingarnar nauðsynlegar í eftirliti sínu með fjármálafyrirtækjum sem eru dótturfélög þessara eignarhaldsfélaga.
     Telji Fjármálaeftirlitið að starfsemi samkvæmt lögum þessum sé stunduð án tilskilinna leyfa getur það krafist gagna og upplýsinga hjá viðkomandi aðilum eða hjá eftirlitsskyldum aðilum sem nauðsynleg eru til að ganga úr skugga um hvort svo sé. Getur það krafist þess að slíkri starfsemi sé hætt þegar í stað. Jafnframt er því heimilt að birta opinberlega nöfn aðila sem taldir eru bjóða þjónustu án tilskilinna leyfa.
     Heimilt er að beita ákvæðum laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi um dagsektir og leit og hald á gögnum við upplýsingaöflun og eftirlit samkvæmt þessari grein.

103. gr.

Aðstoð við yfirvöld annarra EES-ríkja.
     Eftirlitsaðilum í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins er heimilt að framkvæma athugun í útibúum þarlendra fyrirtækja hér á landi að undangenginni tilkynningu þess efnis til Fjármálaeftirlitsins.
     Gerist fjármálafyrirtæki, sem hlotið hefur starfsleyfi hér á landi og stundar starfsemi í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, brotlegt við lög þess ríkis, og lögbær yfirvöld þess ríkis grípa til ráðstafana sambærilegra þeim sem greinir í 34. gr., skal Fjármálaeftirlitið aðstoða þarlend lögbær yfirvöld við samskipti þeirra við stjórnendur hlutaðeigandi fjármálafyrirtækis.

B. Eftirlit á samstæðugrundvelli.

104. gr.

     Ákvæði IV. kafla C og X. kafla skulu gilda um samstæðu þar sem móðurfyrirtækið er fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði. Móðurfyrirtækið ber ábyrgð á framkvæmd þessa ákvæðis. Ákvæði 84. og 85. gr. um eigið fé gilda einnig um eignarhaldsfélag á fjármálasviði.
     Eigi fjármálafyrirtæki eða eignarhaldsfélag á fjármálasviði, eitt og sér eða ásamt með öðrum fyrirtækjum í samstæðunni, hlutdeild í hlutdeildarfélagi sem er fjármálafyrirtæki eða fyrirtæki á fjármálasviði og það fyrirtæki er starfrækt í samstarfi við önnur fyrirtæki sem ekki eru hluti af samstæðunni skal við beitingu ákvæða 1. mgr. um eigin fé nota hlutfallslega samstæðuaðferð með hliðsjón af hlutdeild í viðkomandi fyrirtæki. Sé ábyrgð fjármálafyrirtækisins eða eignarhaldsfélagsins á viðkomandi hlutdeildarfélagi ekki takmörkuð við eignarhlutdeildina eða atkvæðisréttinn eiga ákvæði hefðbundinna samstæðureikningsskila við. Með hlutdeildarfélagi samkvæmt þessari málsgrein er átt við félag, þó ekki dótturfélag, sem annað félag og dótturfélög þess eiga eignarhluta í og hafa veruleg áhrif á eða beinn og óbeinn eignarhlutur nemur 20% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti.
     Fjármálaeftirlitið getur ákveðið að ákvæði 1. mgr. þessarar greinar og 8. og 9. mgr. 97. gr. gildi einnig fyrir önnur tilvik þegar um er að ræða fjármálafyrirtæki sem eitt og sér eða í samstarfi við annan aðila er í þannig eignatengslum við fyrirtæki að nauðsynlegt teljist að beita þessum ákvæðum.
     Ákvæði 1. mgr. þessarar greinar og 8. og 9. mgr. 97. gr. gilda ekki um fyrirtæki sem fjármálafyrirtæki hefur eignast tímabundið hlut í, annaðhvort til að tryggja fullnustu kröfu eða vegna endurskipulagningar þess fyrirtækis, né heldur um fyrirtæki sem starfrækja vátryggingastarfsemi. Fjármálaeftirlitið getur þó ákveðið að umrædd ákvæði skuli gilda.
     Fjármálaeftirlitið getur veitt undanþágu frá ákvæðum 1. og 2. mgr. þessarar greinar og 8. og 9. mgr. 97. gr.

XIV. KAFLI
Viðurlög.

105. gr.

Sektir.
     Það varðar sektum liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn ákvæðum laga þessara um:
 1. einkarétt fjármálafyrirtækja til að nota í firma sínu eða til nánari skýringar á starfsemi sinni heiti þeirrar tegundar fjármálafyrirtækja sem fyrirtækið hefur starfsleyfi fyrir (12. gr.),
 2. starfsheimildir (IV. kafli A og B),
 3. skyldu til að setja traustar tryggingar fyrir lánum umfram tiltekið hlutfall heildarfjárhæðar hlutafjár (2. mgr. 29. gr.),
 4. starfsemi innlendra fjármálafyrirtækja erlendis (1. og 5. mgr. 36. gr., 1. og 4. mgr. 37. gr., 1. mgr. 38. gr. og 39. gr.),
 5. virka eignarhluti (1. mgr. 40. gr., 47. gr. og 1. mgr. 48. gr.),
 6. þátttöku stjórnarmanna í meðferð mála (2. og 3. mgr. 55. gr.),
 7. þátttöku starfsmanna í atvinnurekstri (56. gr.),
 8. viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtækið (1. mgr. 57. gr.),
 9. skyldu sparisjóðs sem breytt hefur verið í hlutafélag til að nota orðið hlutafélag í heiti sínu (4. mgr. 73. gr.) og
 10. ársreikninga og endurskoðun (87. gr., 1. mgr. 88. gr. og 1. og 2. mgr. 95. gr.).


106. gr.

Sektir eða fangelsi.
     Það varðar sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum að brjóta gegn ákvæðum laga þessara um:
 1. að starfsleyfisskyld starfsemi skuli ekki stunduð án starfsleyfis (3. gr.),
 2. hámark lána til einstaks viðskiptavinar (30. gr.),
 3. starfsemi erlendra fjármálafyrirtækja hér á landi (1. mgr. 31. gr., 32. gr. og 33. gr.),
 4. þagnarskyldu (58. gr.),
 5. takmörkun fjárfestinga rafeyrisfyrirtækja (1., 2. og 4. mgr. 81. gr.),
 6. upphafsaðgerðir vegna ónógs eigin fjár (1. og 3. mgr. 86. gr.) og
 7. hæfi endurskoðanda og skyldu hans til að tilkynna um ágalla í rekstri (91. og 92. gr.).

     Hver sá sem vísvitandi gefur rangar eða villandi upplýsingar um hagi fjármálafyrirtækis eða annað er það varðar opinberlega eða til Fjármálaeftirlits, annarra opinberra aðila eða viðskiptamanna sinna skal sæta sektum eða fangelsi allt að einu ári liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum.

107. gr.

Refsiábyrgð lögaðila. Tilraun og hlutdeild. Fyrning sakar.
     Nú er brot framið í starfsemi fjármálafyrirtækis eða annars lögaðila og er þá heimilt að gera lögaðilanum fésekt. Um refsiábyrgðina fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga.
     Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.
     Brot á lögum þessum varða refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
     Sök samkvæmt ákvæðum þessa kafla fyrnist á fimm árum.

XV. KAFLI
Ýmis ákvæði.

108. gr.

Nafnskráning reikninga.
     Innlánsreikningar, fjárvörslureikningar og geymsluhólf skulu skráð á nafn viðskiptamanns ásamt heimilisfangi hans og kennitölu.

109. gr.

Glatað skilríki.
     Glatist innlánsskilríki eða viðtökuskírteini er fjármálafyrirtæki hafa gefið út fyrir handveði eða geymslufé getur stjórn fjármálafyrirtækis stefnt til sín handhafa nefndra skjala með þriggja mánaða fyrirvara frá síðustu birtingu áskorunar sem birt skal þrisvar sinnum í Lögbirtingablaði.
     Gefi enginn sig fram áður en fyrirvarinn er liðinn falla niður öll réttindi á hendur fjármálafyrirtækinu samkvæmt innlánsskilríkinu eða viðtökuskírteininu. Skal fjármálafyrirtæki þá, að ósk þess sem fengið hafði hið fyrra innlánsskilríki eða viðtökuskírteini afhent úr hlutaðeigandi fyrirtæki, gefa út nýtt honum til handa eða þeim sem sannar að hann leiði rétt sinn löglega frá þessum aðila og skal hið nýja skjal vera með sömu skilmálum og hið fyrra.

110. gr.

Undanþága frá stimpilgjaldi.
     Innlánsskilríki, ávísanir og hvers konar skuldbindingar sem gefnar eru út í nafni fjármálafyrirtækja, skuldbindingar sem veita þeim handveðsrétt, arðmiðar af skuldabréfum þeirra og framsöl skulu undanþegin stimpilgjaldi.

111. gr.

Undanþegnir sjóðir og undanþága frá rekstrarformi.
     Þrátt fyrir starfsheimildir Hafnabótasjóðs samkvæmt lögum nr. 23/1994, hafnalögum, Íbúðalánasjóðs samkvæmt lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, og Ferðamálasjóðs samkvæmt lögum nr. 117/1994, um skipulag ferðamála, teljast þessir sjóðir ekki til fjármálafyrirtækja samkvæmt lögum þessum.
     Opinberir fjárfestingarlánasjóðir sem starfandi eru við gildistöku laga þessara eru undanþegnir skilyrði 13. gr. um að starfa sem hlutafélög.

XVI. KAFLI
Gildistaka o.fl.

112. gr.

Innleiðing.
     Með lögum þessum eru tekin upp ákvæði tilskipana Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2000/12/EB um stofnun og rekstur lánastofnana, 93/6/EBE um eigið fé fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana, 93/22/EBE um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta, 86/635/EBE um ársreikninga og samstæðureikninga banka og annarra fjármálastofnana, 107/2001/EB um breytingu á tilskipun 85/611/EBE um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum, 95/26/EB um breytingar á ýmsum tilskipunum á sviði fjármálaþjónustu með það í huga að efla eftirlit, 2000/28 um breytingu á tilskipun 2000/12/EB er varðar skilgreiningu á lánastofnun og 2000/46 um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja.

113. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2003. Þá falla úr gildi lög nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, og lög nr. 37/2002, um rafeyrisfyrirtæki. Með fjármálagerningum í lögum þessum er átt við verðbréf samkvæmt skilgreiningu laga nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.

114. gr.

Breyting á lögum nr. 10/1993, um verðbréfasjóði.
     Í stað 12. og 13. gr. laganna kemur ný grein, svohljóðandi:
     Rekstur verðbréfasjóðs skal falinn sérstöku rekstrarfélagi sem hlotið hefur starfsleyfi Fjármálaeftirlitsins samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.

115. gr.

Breytingar á lögum nr. 13/1996, um verðbréfaviðskipti.
 1. 1. gr. laganna orðast svo:
 2.      Lög þessi taka til verðbréfaviðskipta eins og þau eru skilgreind í 2. gr.
 3. Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
  1. 1. tölul. orðast svo: Verðbréfaviðskipti: Starfsemi skv. 25. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
  2. 2. tölul. orðast svo: Fjármálafyrirtæki: Fyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 6. gr., sbr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
  3. Í stað orðanna „fyrirtæki í verðbréfaþjónustu“ í 11. tölul. og sömu orða hvarvetna annars staðar í lögunum kemur (í viðeigandi beygingarfalli): fjármálafyrirtæki.
  4. 17. tölul. orðast svo: Verðbréfafyrirtæki: Fjármálafyrirtæki sem fengið hefur starfsleyfi skv. 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
  5. 18. tölul. fellur brott.
 4. 3.–14. gr., 21.–24. gr., 42.–62. gr. og 65.–67. gr. laganna falla brott.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.
     Starfandi viðskiptabankar, sparisjóðir, lánastofnanir aðrar en viðskiptabankar og sparisjóðir, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki og verðbréfamiðlanir skulu halda starfsleyfi sínu við gildistöku laga þessara. Þau skulu innan sex mánaða tilkynna Fjármálaeftirlitinu hvaða starfsemi skv. 3. gr. og IV. kafla þau stunda við gildistöku laganna. Tilkynningin skal vera á því formi sem Fjármálaeftirlitið óskar eftir.
     Lánastofnanir, sem hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði, skulu hafa starfsleyfi sem lánafyrirtæki samkvæmt lögum þessum.
     Starfandi fjármálafyrirtæki skv. 1. mgr. er óheimilt að hefja síðar nýja starfsemi nema það tilkynni Fjármálaeftirlitinu um slíkt fyrir fram.
     Rekstrarfélög verðbréfasjóða skulu sækja um starfsleyfi samkvæmt lögum þessum innan sex mánaða frá gildistöku þeirra.

II.
     Fjármálafyrirtæki skulu senda Fjármálaeftirlitinu reglur skv. VII. kafla innan tólf mánaða frá gildistöku laga þessara.

III.
     Verðbréfamiðlanir sem starfa sem einkahlutafélög skulu hafa komið rekstri sínum í hlutafélagsform innan tólf mánaða frá gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 13. desember 2002.