Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.Þingskjal 211  —  206. mál.
Prentað upp.
Skýrsla

forsætisráðherra um meðferð og framkvæmd
ályktana Alþingis 2010.

(Lögð fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
    Samkvæmt 8. mgr. 45. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis skal forsætisráðherra í október ár hvert leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd þeirra ályktana sem þingið samþykkti á næstliðnu ári og kalla á viðbrögð ráðherra eða ríkisstjórnar, nema lög kveði á um að haga skuli skýrslugjöf til þingsins á annan hátt. Í skýrslunni skal ennfremur fjalla um meðferð málefna sem þingið hefur vísað til ríkisstjórnar eða einstaks ráðherra. Þegar skýrslan hefur verið lögð fram skal hún ganga til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar.
    Skýrsla sú, sem nú er lögð fram, nær til ályktana Alþingis á árinu 2010. Forsætisráðuneytið óskaði eftir því að viðkomandi ráðuneyti tækju saman greinargerðir um meðferð og framkvæmd þeirra þingsályktana og málefna sem þeim hefði verið falin meðferð á og fara svör ráðuneytanna hér á eftir.


EFNAHAGS- OG VIÐSKIPTARÁÐUNEYTI

Þál. 24/138 um skipun nefndar sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi
frá 16. júní 2010 – þskj. 1413.

    Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að skipa nefnd sem kanni forsendur verðtryggingar á Íslandi, meti kosti og galla þess að dregið verði úr vægi verðtryggingar í íslensku fjármálakerfi og hvaða leiðir eru hagfelldastar í því skyni. Nefndin skoði á heildstæðan hátt áhrif verðtryggingar á lántaka og lánveitendur sem og áhrif hennar á virkni hagstjórnar og efnahagslegan stöðugleika almennt. Nefndin leggi fram tillögur til að draga úr umfangi verðtryggingar án þess að fjármálastöðugleika sé ógnað.
    Í nefndinni eigi sæti fulltrúar allra flokka á þingi auk eins fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytis og eins fulltrúa fjármálaráðuneytis. Efnahags- og viðskiptaráðherra skipi formann nefndarinnar og nefndin skili honum áliti sínu og tillögum fyrir lok árs 2010.

    Nefnd um verðtryggingu skilaði skýrslu sinni til efnahags- og viðskiptaráðherra 12. maí 2011. Í nefndinni sátu fulltrúar allra þingflokka, efnahags- og viðskiptaráðuneytis og fjármálaráðuneytis, auk áheyrnarfulltrúa frá Seðlabanka Íslands. Eygló Harðardóttir var formaður.
    Verðtryggingarnefnd leggur áherslu á að forsenda þess að ná tökum á verðbólgu sé ábyrg stjórnun efnahagsmála. Bæta þarf hagstjórn og auka virkni peningastefnunnar með upptöku þjóðhagsvarúðartækja. Nefndin telur að tryggja verði fjölbreyttara framboð á óverðtryggðum
lánum og skuldabréfum. Hluti af því er útgáfa ríkissjóðs og Íbúðalánasjóðs á óverðtryggðum skuldabréfum og að Íbúðalánasjóður bjóði upp á óverðtryggð húsnæðislán. Hvatt verði til sparnaðar vegna kaupa á fasteign og búseturétti. Síðast en ekki síst er mikilvægt að efla fjármálalæsi almennings, upplýsingamiðlun við sparnað og lántöku og neytendavernd til að sporna gegn ofskuldsetningu og áhættu tengdri ólíkum lánaformum.
    Hlutverk verðtryggingarnefndarinnar var að leggja fram tillögur um að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku samfélagi, en ekki leiðrétta höfuðstól verðtryggðra lána. Mögulegar leiðir endurspegla þetta hlutverk, en ekki afstöðu einstakra nefndarmanna. Afstaða einstakra nefndarmanna kemur fram í sérálitum þeirra.
    Þrjú sérálit eru lögð fram í skýrslunni.
     *      Arinbjörn Sigurgeirsson, Eygló Harðardóttir, Hrólfur Ölvisson og Lilja Mósesdóttir standa að áliti þar sem lagt er til afnám verðtryggingar með nokkrum aðgerðum.Vegna núverandi lána verði sett þak á hækkun verðtryggingar á ársgrundvelli (hámark 4%) og unnið að lækkun raunvaxta. Jafnframt verði innleitt óverðtryggt húsnæðislánakerfi og fjölgað búsetuformum.
     *      Vilhjálmur Þorsteinsson telur að stefna eigi að upptöku evru eftir inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Til lengri tíma litið muni vextir og verðbólga færast nær því sem gerist á evrusvæðinu og verðtrygging hverfa úr sögunni. Upptaka evru leiðir ekki sjálfkrafa til afnáms verðtryggingar á skuldabréfum en efna mætti til skiptaútboða verðtryggðra skuldabréfa yfir í óverðtryggð.
     *      Pétur H. Blöndal leggur áherslu á að fráleitt sé að hafa tvær myntir í ekki stærra efnahagslífi, verðtryggða og óverðtryggða krónu. Óstöðugleiki og erfið hagstjórn, ótti sparifjáreigenda við verðbólguskot og lokaðir erlendir markaðir gera það að verkum að byggja verður upp peningalegar eignir með sparnaði til að tryggja innlent lánsfé. Því er ekki hægt að styðja afnám verðtryggingar á þessari stundu.
     Skýrsla nefndarinnar: www.efnahagsraduneyti.is/media/Acrobat/Skyrsla-nefndar-umverdtryggingu.pdf
    Síða nefndarinnar á vef
EVR: www.efnahagsraduneyti.is/verkefni/nefndir/Allar_nefndir/nr/3169
    Síðan vinnu verðtryggingarnefndar lauk hafa þrír stærstu bankarnir hafið að bjóða upp á óverðtryggð lán og Íbúðalánasjóður hefur fengið heimild með lögum nr. 134/2011 til að veita óverðtryggð lán. Innan Íbúðalánasjóðs er nú undirbúin útgáfa óverðtryggðra skuldabréfaflokka til að mæta fjármögnunarþörf vegna slíkra útlána.
    Þá hafa efnahags- og viðskiptaráðuneytið og Seðlabanki Íslands tekið til skoðunar upptöku þjóðhagsvarúðartækja. Byggir sú vinna m.a. á skýrslu Seðlabankans „Peningastefnan eftir höft“ sem út kom í lok síðasta árs. Samstillt hagstjórn og efling fjármálalæsis eru og hafa verið viðvarandi verkefni efnahags- og viðskiptaráðuneytins frá stofnun þess, sem og annarra aðila sem að þeim koma.


FJÁRMÁLARÁÐUNEYTI

Þál. 21/138 um aðgang fjárlaganefndar að upplýsingakerfum ríkisins
frá 11. júní 2010 – þskj. 1310.


     Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að sjá til þess að fjárlaganefnd verði veittur beinn skoðunaraðgangur að þeim bókhalds- og upplýsingakerfum ríkisins sem vistuð eru hjá Fjársýslu ríkisins.

    Fulltrúar Fjársýslu ríkisins og fjárlaganefndar hafa fundað nokkrum sinnum um málið og m.a. náð samkomulagi um sérstakan aðgang fjárlaganefndar að fjárhags- og mannauðskerfum ríkisins. Nokkur tæknileg vandamál komu upp sem verið er að ráða bót á. Áætlað er að þeirri vinnu ljúki fljótlega.


IÐNAÐARRÁÐUNEYTI

Þál. 28/138 um áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands
frá 6. september 2010 – þskj. 1474.

    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að hafa forgöngu um að gerð verði áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að ganga of nærri því.

    Ferðamálastofu var falin umsjón verkefnisins. Áætlunin er enn í vinnslu en einhverjum þáttum verkefnisins hefur verið lokið. Fyrirliggjandi gögnum hefur verið komið í landfræðilegan gagnagrunn en enn er unnið að virðismati ferðasvæða á miðhálendi Íslands, mati á þolmörkum umhverfis og ýmsum öðrum þáttum. Áætluð verklok eru 1. september 2012 en þá verður skilað lokaskýrslu um landnýtingu ferðamennsku.


INNANRÍKISRÁÐUNEYTI

Þál. 22/138 um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012
frá 15. júní 2010 – þskj. 1381.


     Alþingi ályktar, sbr. lög um samgönguáætlun, nr. 33/2008, að á árunum 2009–2012 skuli
unnið að samgöngumálum í samræmi við eftirfarandi áætlun:
www.althingi.is/altext/138/s/pdf/1381.pdf

    Á ári hverju leggur innanríkisráðherra fram skýrslur um framkvæmd samgönguáætlunar í samræmi við 5. gr. laga um samgönguáætlun, nr. 33/2008 en þar segir: ,,Ráðherra skal árlega leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd samgönguáætlunar næstliðið ár á undan“. Slík skýrsla mun lögð fyrir Alþingi haustið 2011.Þál. 30/138 um málshöfðun gegn ráðherra
frá 28. september 2010 – þskj. 1538.

    Alþingi ályktar skv. 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33 17. júní 1944, sbr. 13. gr. laga um landsdóm, nr. 3/1963, að höfða beri sakamál fyrir landsdómi gegn eftirtöldum ráðherra í öðru ráðuneyti Geirs H. Haarde vegna refsiverðrar háttsemi hans í embættisfærslu sinni á árinu 2008:
    Fyrrverandi forsætisráðherra og oddvita Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn, Geir Hilmari
Haarde, kt. 080451–4749, til heimilis að Granaskjóli 20, Reykjavík.

Kæruatriði.
    Málið er höfðað á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir brot framin á tímabilinu frá febrúar 2008 og fram í októberbyrjun sama ár, af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, aðallega fyrir brot gegn lögum um ráðherraábyrgð, nr. 4/1963, en til vara fyrir brot gegn 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

I.
    Fyrir að hafa sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf, útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins.
    Fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.
     Fyrir að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.
    Fyrir að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.
    Fyrir að hafa vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri.
    Framangreind háttsemi þykir varða við b-lið 10. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.


II.
    Fyrir að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum. Var þó sérstök ástæða til þess, einkum eftir fund hans, Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, Árna M. Mathiesen og formanns stjórnar Seðlabankans 7. febrúar 2008, eftir fund hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur með bankastjórn Seðlabankans 1. apríl 2008 og í kjölfar yfirlýsingar til sænsku, dönsku og norsku seðlabankanna sem undirrituð var 15. maí 2008. Forsætisráðherra átti ekki frumkvæði að formlegum ráðherrafundi um ástandið né heldur gaf hann ríkisstjórninni sérstaka skýrslu um vanda bankanna eða hugsanleg áhrif hans á íslenska ríkið.
    Þykir þetta varða við c-lið 8. gr., sbr. 11. gr., laga nr. 4/1963, en til vara við 141. gr. almennra hegningarlaga.

    Alþingi gerir þær kröfur að fyrrnefndur ráðherra verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar að mati landsdóms, sbr. 46. gr. laga nr. 3/1963.
    Tillögu til þingsályktunar þessarar fylgdi greinargerð og er vísað til hennar og 7. bindis skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um nánari skýringar og rök fyrir þingsályktun þessari.

    Innanríkisráðherra var ekki falið sérstakt verkefni með þessari þingsályktun.


MENNTA- OG MENNINGARMÁLARÁÐUNEYTI

Þál. 7/138 um árlegan vestnorrænan dag
frá 10. maí 2010 – þskj. 1063.


     Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um stofnun vestnorræns dags sem haldinn verði hátíðlegur árlega til skiptis í einu vestnorrænu landanna.

    Mennta- og menningarmálaráðherrar Vestur-Norðurlanda hafa tvisvar rætt ályktun Vestnorræna ráðsins með fulltrúum þess á samráðsfundum þeirra sem fram fara í tengslum við Norðurlandaráðsþing. Þar hafa ráðherrarnir komið á framfæri því sjónarmiði sínu að verði ákveðið að halda vestnorrænan dag, sem haldinn yrði hátíðlegur árlega til skiptis í einu vestnorrænu landanna, væri eðlilegt að Norrænu húsunum í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi yrði falið f.h. stjórnvalda að standa að slíkum degi, í samráði við þá aðila sem nefndir eru í greinargerð með þingsályktuninni. Kostnaður við slíkan dag gæti þó ekki einungis rúmast innan fjárheimilda Norrænu húsanna, heldur yrði einnig að gera ráð fyrir sérstakri fjárveitingu af fjárlögum landanna á fjárlagalið mennta- og menningarmálaráðuneytis, „norræn samvinna“. Ráðuneytið er þess reiðubúið að vinna að frekari framkvæmd ályktunarinnar, fáist til þess fjármunir.


Þál. 9/138 um vestnorrænt tilraunaverkefni á sviði fjarkennslu á háskólastigi
frá 10. maí 2010 – þskj. 1065.

    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna grundvöll þess að styðja við tilraunaverkefni vestnorrænna háskóla á sviði fjarkennslu. Markmiðið með verkefninu verði að leggja grunn að formlegu framtíðarstarfi vestur-Norðurlanda á sviði fjarkennslu á háskólastigi.

    
Ráðuneytið hefur málið enn til umfjöllunar. Einnig var það tekið upp á fundi ráðgjafanefndar Norrænu ráðherranefndarinnar um málefni háskóla (HÖGUT) í tengslum við vinnu á vegum nefndarinnar við að kanna grundvöll skipulagningar samnorræns kennaranáms, enda var uppruna þingsályktunarinnar að finna í ályktun Vestnorræna ráðsins um tilraunir með fjarkennslu í kennaramenntun. Skipuð var nefnd lögfræðinga til að kanna hvaða lagalegar hindranir séu á því að koma á sameiginlegu tilraunarverkefni undir merkjum Nordic Masters verkefnis Norrænu ráðherranefndarinnar, á sviði kennaramenntunar. Niðurstaða nefndarinnar verður kynnt á næsta HÖGUT-fundi í nóvember 2011. Þá verður metið hvort verkefni þingsályktunarinnar falli að verkefni Norrænu ráðherranefndarinnar. Ráðuneytið hefur enn fremur séð til þess að endurbætur verði gerðar á tæknibúnaði opinberra háskóla hér á landi sem gerir það mögulegt að bjóða upp á fjarkennslu til annarra landa.


Þál. 23/138 um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi
vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis frá 16. júní 2010 – þskj. 1392.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leita leiða til að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi auk þess sem vernd heimildarmanna og afhjúpenda verði tryggð.
    Í þessu skyni verði:
     a.      gerð úttekt á lagaumhverfinu svo að hægt sé að afmarka viðfangsefnið og undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar eða nýja löggjöf,
     b.      litið til löggjafar annarra ríkja með það að markmiði að sameina það besta til að skapa Íslandi sérstöðu á sviði tjáningar- og upplýsingafrelsis,
     c.      kannaðir möguleikar þess að koma á fót fyrstu alþjóðaverðlaununum sem kennd yrðu við Ísland, Íslensku tjáningarfrelsisverðlaununum,
     d.      gerð úttekt á viðbúnaði ríkisins, einkum á sviði öryggismála, vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera hér á landi,
     e.      haldin alþjóðleg ráðstefna á Íslandi um breytingar á lagasetningu og netnotendaumhverfi með tilkomu gagnavera og hvaða réttarreglur gilda um netið.
    Við starfið verði leitað aðstoðar sérfróðra erlendra aðila.
    Markmiðið verði lýðræðisumbætur þar sem traustum stoðum verði komið undir útgáfustarfsemi og ásýnd landsins í alþjóðasamfélaginu efld.
    Mennta- og menningarmálaráðherra upplýsi Alþingi um framfylgd verkefna innan Stjórnarráðsins skv. 1.–4. mgr. á þriggja mánaða fresti frá samþykkt ályktunarinnar.


    Í byrjun ágúst 2010 var hafist handa við að fara ítarlega í gegnum þingsályktunina og hvað hún fæli í sér. Þá var jafnframt skoðuð löggjöf í nágrannaríkjum okkar og farið yfir þau álitaefni sem tillagan tekur til. Í kjölfarið voru haldnir fundir með ráðuneytum og stofnunum sem málið varðar. Þingsályktunin var kynnt iðnaðarráðuneytinu og bent á að d-liður fæli í sér úttekt á viðbúnaði ríkisins vegna starfrækslu alþjóðlegra gagnavera. Sambærilegir fundir voru haldnir með dóms- og mannréttindaráðuneyti, utanríkisráðuneyti, Ríkislögreglustjóra, Póst- og fjarskiptastofnun og samgönguráðuneyti. Tekið var fram að Ísland hefði skuldbundið sig í ýmsum alþjóðasamningum sem gæti haft áhrif á framgang málsins. Póst- og fjarskiptastofnun og samgönguráðuneyti bentu á að netöryggismálum væri verulega ábótavant hér á landi, það skorti fjárveitingar og því væri ekki hægt að tryggja innviði fjarskipta á Íslandi að óbreyttu komi þingsályktunin til framkvæmda. Ríkislögreglustjóri benti enn fremur á að tryggja þyrfti að vernd gagna samkvæmt ályktuninni myndi ekki leiða til þess að ólöglegt efni yrði markvisst vistað innan íslenskrar lögsögu. Sérfræðingar mennta- og menningarmálaráðuneytis bentu einnig á að þingsályktunin tæki aðeins til réttinda fjölmiðla og gagnabanka en ekki til þeirra skyldna sem réttindunum fylgir. Þannig væri ekki gert ráð fyrir ábyrgðarreglum þar sem ábyrgðarmenn væru ábyrgir fyrir því efni sem birt er og sem væri hægt að stefna fyrir dóm, væri um að ræða brot á íslenskum lögum. Því er talið óvíst hvort allar tillögur sem þingsályktunin tekur til geti komið til framkvæmda.
    Ráðuneytið hefur jafnframt á grundvelli a- og b-liðar þingsályktunarinnar óskað eftir kostnaðarmati frá Lagastofnun Háskóla Íslands á nauðsynlegri greiningarvinnu sem þarf að fara fram á lagaumhverfinu. Úttekt á íslensku lagaumhverfi og eftir atvikum löggjöf annarra ríkja mun kosta um 8 milljónir kr. Við það bætist frumvarpsvinna ásamt kynningu og samráði, m.a. við erlend stjórnvöld. Mennta- og menningarmálaráðherra lagði fram snemma á þessu ári minnisblað á ríkisstjórnarfundi þar sem óskað var eftir fjárveitingum til að fylgja verkefninu eftir, en enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um slíka fjárveitingu í ríkisstjórn.
    Ráðuneytið sendi fulltrúum samninganefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu bréf til að benda á að nauðsynlegt væri að fá undanþágu á tiltekinni reglugerð um fullnustu dóma til að koma í veg fyrir að Íslendingar yrðu ekki enn verr settir vegna meiðyrðamálaflakks en nú er. Í kjölfarið voru nokkrir fundir haldnir með fulltrúa samninganefndarinnar, fulltrúum mennta og menningarmálaráðuneytisins og fulltrúum innanríkisráðuneytis. Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur nú fengið staðfest hjá innanríkisráðuneyti að fyrrgreind undanþága verði hluti af kröfum samninganefndar Íslands í viðræðum við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um upptöku reglna um aðfararhæfi dóma hér á landi sem kveðnir eru upp í aðildarlöndum Evrópusambandsins.


SJÁVARÚTVEGS- OG LANDBÚNAÐARRÁÐUNEYTI

Þál. 8/138 um skýrslu sjávarútvegsráðherra Vestur-Norðurlanda um formlega
samvinnu landanna á sviði sjávarútvegs, 10. maí 2010 – þskj. 1064.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um sameiginlega skýrslu sjávarútvegsráðherra landanna þar sem fram komi nákvæmt yfirlit yfir þá formlegu samvinnu sem er á milli Vestur-Norðurlanda bæði hvað varðar rannsóknir á lifandi auðlindum sjávar og fiskveiðistjórnina, ekki síst á sameiginlegum fiskstofnum.

    Ekki hefur náðst samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um sameiginlega
skýrslu sjávarútvegsráðherra landanna.
    Fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins mun taka málið formlega upp við fulltrúa Færeyja og Grænlands í tengslum við næsta fund EK-Fisk, embættismannanefndar Norræna ráðherraráðsins, sem haldinn verður í lok nóvember í Finnlandi.
    Milli Íslands, Færeyja og Grænlands er mikil samvinna í sjávarútvegsmálum. Öll eiga löndin aðild að svæðisbundnum fiskveiðistjórnunarstofnunum í N-Atlantshafi, þ.e. NEAFC og NAFO auk svæðisbundinni stjórnunarstofnun um sjávarspendýr, NAMMCO.
    Innan NEAFC og NAFO eru síðan samningar um einstaka fiskistofna. Þeir stofnar þar sem löndin eiga aðild að samningum eru sem hér segir:

    Strandríkjasamningur um norsk-íslenska síld – Ísland og Færeyjar

    Strandríkjasamningur um kolmunna – Ísland og Færeyjar

    NEAFC samningur um úthafskarfa – Ísland, Grænland og Færeyjar

    Að auki hafa Íslendingar lengi haldið fram rétti sínum sem strandríkis í makríl.

Samningar milli Íslands og Færeyja
    Frá 1976 hafa Færeyingar haft leyfi til að veiða botnfisk í íslenskri lögsögu. Frá árinu 1983 hafa íslensk stjórnvöld ákveðið aflamagn færeyskra skipa að loknum viðræðum landanna og ráðleggingar vísindamanna um hámarksafla. Einnig var þá ákveðið að takmarka veiðiheimildirnar við notkun línu. Síðustu 10 ár hafa aflaheimildir færeyskra skipa verið nær óbreyttar, um 5.200 tonn á ári.
    Árlega frá 1996 hafa íslensk og færeysk stjórnvöld samið um gagnkvæmt leyfi skipa að lögsögu landanna og tekur samkomulagið einkum til uppsjávarveiða samkvæmt ofansögðu um strandríkjasamninga. Samkvæmt því hafa færeysk skip fullt leyfi til loðnuveiða í íslenskri lögsögu. Einnig er í samkomulaginu gagnkvæmt leyfi til veiða á norsk-íslenskri síld og kolmunna í lögsögum landanna, sem og ákveðinn aðgangur íslenskra skipa að færeyskri lögsögu til veiða á makríl og síld. Í samkomulaginu er einnig tiltekinn fjöldi skipa, veiðisvæði sem og aðrar almennar reglur um veiðarnar.

Samningar milli Íslands og Grænlands:
    Milli Íslands og Grænlands, með aðild Noregs er samningur um skiptingu loðnustofnsins og er núgildandi samningur frá 1999. Samkvæmt þeim samningi koma 81% loðnustofnsins í hlut Íslands, 11% í hlut Grænlands og 8% í hlut Noregs. Jafnhliða þessum samningi voru gerðir tvíhliðasamningar milli Íslands og Grænlands þar sem lagðar eru þær reglur sem gilda um gagnkvæmar veiðar innan lögsagna landanna og jafnframt ákvæði um gagnkvæmar heimildir til veiða á úthafskarfa.

Önnur alþjóðleg samvinna:

Norræna ráherraráðið:

    Öll eiga löndin aðild að Norræna ráðherraráðinu, en í fiskihóp þess árið 2009 og 2010 verður sérstök áhersla lögð á aukna samvinnu V-Norðurlanda og litið til formlegri samvinnu við nágranna við N-Atlantshaf. Innan vébanda fiskihópsins hittast embættismenn landanna
tvisvar á ári, en þar er einnig samvinna fræðimanna í fiskirannsóknum sem og rannsóknum á sviði nýsköpunar og fullnýtingar sjávarafla m.m.
    Öflug samvinna er einnig milli Hafrannsóknastofnana landanna, bæði innan vébanda ICES sem og bein önnur samvinna, vísast þar til svars Jóhanns Sigurjónssonar til Alþingis við þessari fyrirspurn.

Árlegur fundur sjávarútvegsráðherra N-Atlantshafsins:
    Sjávarútvegsráðherrar við N-Atlantshaf hittast árlega og funda, ráðherrar landanna eiga allir sæti á þeim fundi.


UMHVERFISRÁÐUNEYTI

Þál. nr. 3/138 um náttúruverndaráætlun 2009–2013
frá 2. febrúar 2010 – þskj. 654.

    Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu ellefu svæða til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Tilgangurinn er að koma upp neti verndarsvæða, byggðu á faglegum forsendum, til þess að tryggja verndun landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni, þess sem sérstætt er í náttúru landsins, fágætt eða í hættu og að friða náttúruleg landsvæði til náttúruverndar, vísindarannsókna, vöktunar og útivistar.
    Náttúrustofur komi að undirbúningi og framkvæmd náttúruverndaráætlana í samræmi við margháttað hlutverk þeirra samkvæmt lögum.
    Eftirtalin svæði og tegundir lífvera verði á náttúruverndaráætlun 2009–2013:

I. Plöntusvæði.
     a.      Snæfjallaströnd – Kaldalón.
     b.      Eyjólfsstaðaskógur.
     c.      Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar.
     d.      Gerpissvæðið.
     e.      Steinadalur í Suðursveit (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

II. Dýrasvæði.
     a.      Undirhlíðar í Nesjum.
     b.      Tjarnir á Innri-Hálsum í Berufirði.

III. Vistgerðir á hálendinu.
    Tvær vistgerðir á hálendinu verði friðaðar, rústamýravist og breiskjuhraunavist. Verndun þeirra verði m.a. tryggð með því að friðlýsa eftirtalin svæði:
     a.      Orravatnsrústir,
     b.      stærra friðland í Þjórsárverum,
     c.      svæði í Skaftártungum og á Síðuafrétti (sem verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

IV. Jarðfræðisvæði.
         Langisjór og nágrenni (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

V. Tegundir plantna og dýra.
    Friðlýstar verði:
     a.      24 tegundir háplantna,
     b.      45 tegundir mosa,
     c.      90 tegundir fléttna,
     d.      þrjár tegundir hryggleysingja: tröllasmiður, tjarnarklukka og brekkubobbi.

Svæði sem eru á fyrstu náttúruverndaráætlun og unnið verður með áfram.
    Áfram verði unnið að friðlýsingu svæða sem eru á fyrri náttúruverndaráætlun. Staða í undirbúningi friðlýsingar þessara svæða er mjög misjöfn, en reynt verður að friðlýsa sem flest á tímabilinu
.

    Náttúruverndaráætlun 2009–2013 felur í sér friðlýsingu 11 svæða, auk tveggja vistgerða
og tegunda háplantna, mosa, fléttna og hryggleysingja. Auk þess kemur fram að áfram verði
unnið að framkvæmd náttúruverndaráætlunar 2004–2008, sem fól í sér tillögu að friðlýsingu
14 nýrra svæða á landinu auk stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Umhverfisstofnun hefur unnið
að framkvæmd náttúruverndaráætlunar í samvinnu við umhverfisráðuneytið frá því um mitt ár 2004.

I.    Yfirlit yfir friðlýsingar í samræmi við náttúruverndaráætlun sem hafa verið gerða frá samþykkt ályktunarinnar 2. febrúar 2010.
     *      Búsvæði tjarnaklukku (Agabus uliginosus) á Hálsum í Djúpavogshreppi (Tjarnir á Innri-Hálsum í Berufirði) var friðlýst, sbr. auglýsingu nr. 266/2011.
     *      Svæði í Skaftártungum og á Síðuafrétti með breiskjuhraunavist (sem verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði), voru friðlýst með breytingum á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs, sbr. reglugerð nr. 764/2011.
     *      Langisjór og nágrenni (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði) var friðlýst með breytingu á mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs, sbr. reglugerð 764/2011.

II. Listi yfir önnur svæði á náttúruverndaráætlun sem hafa verið friðlýst
     *      Vatnajökulsþjóðgarður var formlega stofnaður með reglugerð nr. 608/2008 þann 7. júní 2008.
     *      Guðlaugstungur – Ásgeirstungur (Álfgeirstungur), auglýsing nr, 1050/2005.
     *      Vatnshornsskógur í Skorradal, auglýsing nr. 164/2009.
     *      Álftanes – Skerjafjörður (innan marka Garðabæjar), svæðinu var skipt upp í friðland í Gálgahrauni og búsvæðavernd í Skerjafirði, auglýsing nr. 877/2009 og 878/2009.
     *      Áður en náttúruverndaráætlun 2009–2013 var samþykkt á Alþingi náðist samkomulag um stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs þ.e. að skóglendi við Hoffell sem var meðal svæða í tillögu til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun og er nú hluti Vatnajökulsþjóðgarðs sbr. reglugerð nr. 755/2009.

III. Verkefni í forgangi á árinu 2011
    Áfram er unnið að friðlýsingum samkvæmt náttúruverndaráætlun 2009–2013, auk svæða á fyrri áætlun sem eru hluti núverandi áætlunar. Verkefni sem eru í forgangi í vinnu Umhverfisstofnunar og umhverfisráðuneytisins á þessu ári eru:
     *      Vinna friðlýsingu háplantna, mosa og fléttna er langt komin.
     *      Líklegt er talið að samkomulag náist um friðlýsingu á Skerjafirði, a.m.k. innan marka Kópavogs, og mögulega einnig Álftaness og Seltjarnarness á næstu mánuðum.
     *      Þá er unnið að stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs í samræmi við tillögur svæðisráða.
     *      Vinna að friðlýsingu á Látrabjargs-Rauðasandssvæðinu er í fullum gangi og hefur Umhverfisstofnun þegar ráðið heilsárssérfræðing þar til að vinna að verkefninu og sinna landvörslu og fræðslu.
     *      Tillaga að stækkun Þjórsárvera er á leið í almenna kynningu þar sem óskað er eftir athugasemdum almennings.

IV. Um Náttúruverndaráætlun og aðrar friðlýsingar á árinu 2011
    Almennt má segja að framkvæmd tveggja náttúruverndaráætlana hafi gengið mun hægar fyrir sig en vonir stóðu til þegar fyrsta náttúruverndaráætlun var gerð og samþykkt á Alþingi. Margar ástæður eru fyrir því, en almennt gildir um friðlýsingar að þær eru í eðli sínu samvinnuverkefni sem byggja á áhuga og samþykki sveitarfélaga og landeigenda jafnt sem ríkisvaldsins. Forsenda þess að friðlýsingaferli gangi vel er að helstu hagsmunaaðilar séu áhugasamir um verkefnið og að gott samstarf takist við þá. Gengið hefur verið frá ýmsum friðlýsingum að undanförnu, sem hafa verið utan náttúruverndaráætlunar, oft að frumkvæði
sveitarfélaga og landeigenda. Nú er unnið t.d. að friðlýsingu a.m.k. þriggja mikilvægra svæða í Skútustaðahreppi í náinni samvinnu við landeigendur og sveitarstjórn, sem eru utan náttúruverndaráætlunar, en sem eru meðal þeirra svæða sem lagt var til að yrðu friðlýst eftir að lögum um vernd Mývatns og Laxár var breytt árið 2004. Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun munu áfram sinna slíkum friðlýsingum utan náttúruverndaráætlunar, en miklu skiptir að vinna áfram að friðlýsingum á grundvelli náttúruverndaráætlunar, því með henni er ætlunin að koma á neti verndarsvæða fyrir lífverur og náttúruminjar sem annars vegar fellur að alþjóðlegum skuldbindingum Íslands á sviði náttúruverndar og hins vegar tryggir vernd þess sem talið er sérstætt og jafnvel einstætt á heimsvísu. Ráðuneytið og Umhverfisstofnun munu leggja sig fram við að tryggja að friðlýsingar samkvæmt áætluninni gangi betur og hraðar í framtíðinni en hingað til, með því m.a. að efla samstarf við heimamenn og helstu hagsmunaaðila. Ráðuneytið finnur fyrir miklum áhuga á framkvæmdum í tengslum við friðlýsingar, s.s. við landvörslu, stígagerð og upplýsingagjöf til þeirra sem stunda útivist og náttúruskoðun á friðlýstum svæðum. Eðlilegt er að huga að slíkum aðgerðum í tengslum við friðlýsingar, en ljóst er að slík uppbygging á væntanlegum og þegar friðlýstum svæðum kallar á mun meira fjármagn en nú er varið til framkvæmdar náttúruverndaráætlunar. Vonir hafa staðið til að nýjar sérgreindar tekjur af ferðaþjónustu gætu í auknum mæli staðið straum af þeim kostnaði sem nauðsynlegur er til framkvæmda á nýjum friðlýstum svæðum, en hagsmunaaðilar gera nú orðið kröfu til slíks í ríkari mæli en áður og er það oft forsenda þess að fallist er á friðlýsingu að þeirra hálfu.


Þál. 28/138 um áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands frá
6. september 2010 –þskj. 1474.

    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að hafa forgöngu um að gerð verði áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að ganga of nærri því.

(Sjá umfjöllun undir iðnaðarráðuneyti.)UTANRÍKISRÁÐUNEYTI

Þál. 4/138 um heillaóskir til litháísku þjóðarinnar í tilefni 20 ára afmælis
sjálfstæðisyfirlýsingar hennar, 8. mars 2010 – þskj. 777.

    Alþingi ályktar að senda heillaóskir til litháísku þjóðarinnar í tilefni af því að 20 ár eru liðin frá því að sjálfstæðisyfirlýsing Litháens var samþykkt af þjóðþingi landsins 11. mars 1990. Sjálfstæðisyfirlýsingin bar vott um hugrekki litháísku þjóðarinnar og markaði tímamót í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna.
    Alþingi fagnar þeirri vináttu sem ríkir milli Íslands og Litháens og góðu samstarfi þjóðanna á umliðnum árum og vísar til fyrri ályktana sinna, þ.e. frá 12. mars 1990 um heillaóskir til litháísku þjóðarinnar í tilefni sjálfstæðisyfirlýsingar hennar, frá 19. desember 1990 um stuðning við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna, frá 14. janúar 1991 um fordæmingu á ofbeldisaðgerðum sovésks herliðs í Litháen og frá 11. febrúar 1991 um málefni Litháens, þar sem kveðið var á um að Ísland tæki upp stjórnmálasamband við Litháen.
     Alþingi ítrekar heillaóskir til litháísku þjóðarinnar og væntir þess að vinabönd þjóðanna eflist hér eftir sem hingað til.


    Forseti Alþingis flutti ávarp í litháíska þinginu í sömu viku og ályktunin var samþykkt og
færði litháísku þjóðinni heillaóskir Alþingis. Auk þess var litháíska þingforsetanum færð þýðing á ályktuninni.


Þál. 5/138 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Þjónustutilskipun), og um breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við samninginn, 25. mars 2010 – þskj. 885.

    Alþingi ályktar með vísan í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um þjónustutilskipun Evrópusambandsins, sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi 26. maí 2009, að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 45/2009, frá 9. júní 2009, um að fella inn í EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/123/EB frá 12. desember 2006 um þjónustu á innri markaðnum (Þjónustutilskipun), og breytingu á X. viðauka (Hljóð- og myndmiðlun) og XI. viðauka (Fjarskiptaþjónusta) við samninginn.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 31. mars 2010 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. maí 2010.Þál. 6/138 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn,
25. mars 2010 – þskj. 886.


    
Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 79/2008, frá 4. júlí 2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/44/EB frá 5. september 2007 um breytingu á tilskipun ráðsins 92/49/EBE og tilskipunum 2002/83/EB, 2004/39/EB, 2005/68/EB og 2006/48/EB að því er varðar reglur um málsmeðferð og viðmiðanir vegna varfærnismats við yfirtökur og aukningu eignarhlutdeildar í fjármálageiranum.

    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 16. september 2010 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. nóvember 2010.


Þál. 10/138 um samkomulag milli Íslands og Grænlands um skipti á útsendum
sendifulltrúum, 10. maí 2010 – þskj. 1066.

     Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að kanna grundvöll þess að gera samkomulag við landsstjórn Grænlands um að löndin skiptist á útsendum sendifulltrúum þegar aðstæður leyfa. Færeyjar og Grænland eru jafnframt hvött til að skiptast á opinberum sendifulltrúum.

    Ekki er fyrirséð að unnt verði að skiptast á útsendum sendifulltrúum milli landanna á næstu misserum í ljósi sparnaðar í utanríkisþjónustunni. Utanríkisráðuneytið mun í samræmi við þingsályktun um norðurslóðastefnu stjórnvalda halda áfram að efla tengsl við grænlensk
stjórnvöld og kom Kuupik Kleist, formaður grænlensku landstjórnarinnar, í opinbera heimsókn til Íslands í septemberbyrjun.


Þál. 12/138 um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn,
18. maí 2010 – þskj. 1135.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 127/2007, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn eftirtaldar gerðir:
     1.      Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB frá 12. mars 2001 um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/EBE.
     2.      Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2002/623/EB frá 24. júlí 2002 um leiðbeiningar sem bætast við II. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/EBE.
     3.      Ákvörðun ráðsins 2002/811/EB frá 3. október 2002 um leiðbeiningar sem bætast við VII. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið og niðurfellingu á tilskipun ráðsins 90/220/EBE.
     4.      Ákvörðun ráðsins 2002/812/EB frá 3. október 2002 um eyðublað, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB, fyrir samantekt upplýsinga í tengslum við að setja erfðabreyttar lífverur á markað sem vörur eða hluta af vörum.
     5.      Ákvörðun ráðsins 2002/813/EB frá 3. október 2002 um eyðublað, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB, fyrir samantekt tilkynninga um sleppingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið í öðrum tilgangi en að setja þær á markað.
     6.      Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/701/EB frá 29. september 2003 um eyðublað, samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB, fyrir niðurstöður er varða sleppingu erfðabreyttra háplantna út í umhverfið í öðrum tilgangi en að setja þær á markað.
     7.      Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2004/204/EB frá 23. febrúar 2004 þar sem mælt er fyrir um nákvæma tilhögun við vinnslu skránna yfir upplýsingar um erfðabreytingar á erfðabreyttum lífverum sem kveðið er á um í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/18/EB.


    Ákvörðunin var staðfest af Íslands hálfu 8. september 2010 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 1. nóvember 2010.


Þál. 13/138 um staðfestingu samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á
árinu 2010, 18. maí 2010 – þskj. 1136.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd eftirtalda samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2010 sem gerðir voru í London 22. október 2009:
     1.      Sameiginlega bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2010.
     2.      Samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N, fiskveiðilögsögu Jan Mayen og efnahagslögsögu Íslands á árinu 2010.
     3.      Samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2010.

    Samningunum, sem einungis voru til eins árs, var beitt til bráðabirgða frá og með 1. janúar
2010. Þeim var ekki veitt formlegt gildi.


Þál. 14/138 um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan
íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2010, 18. maí 2010 – þskj. 1137.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samning milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu á árinu 2010 sem gengið var frá með bréfaskiptum í Þórshöfn og Reykjavík 9. og 22. mars 2010.

    Samningurinn, sem einungis var til eins árs, öðlaðist gildi til bráðabirgða 22. mars 2010. Honum var ekki veitt formlegt gildi.


Þál. 15/138 um fullgildingu mansalsbókunar við Palermó-samninginn,
19. maí 2010 – þskj. 1138.


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd bókun um að koma í veg fyrir, uppræta og refsa fyrir mansal, einkum kvenna og barna, sem er viðbót við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri, skipulagðri glæpastarfsemi og samþykkt var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. nóvember 2000.

    Bókunin var fullgilt af Íslands hálfu 22. júní 2010 og öðlaðist gildi að því er Ísland varðar 22. júlí sama ár.


Þál. 17/138 um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 og nr. 7/2010 um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, 10. júní 2010 – þskj. 1272.

     Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 141/2007 frá 26. október 2007 og nr. 7/2010 frá 29. janúar 2010, um breytingu á II. viðauka (Tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/66/EB frá 6. september 2006, um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma og um niðurfellingu tilskipunar 91/157/EBE, og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/103/EB frá 19. nóvember 2008, um breytingu á tilskipun 2006/66/EB um rafhlöður og rafgeyma og notaðar rafhlöður og rafgeyma að því er varðar setningu rafhlaðna og rafgeyma á markað.

    Ákvarðanirnar voru staðfestar af Íslands hálfu 8. september 2010 og öðluðust gildi að því er Ísland varðar 1. nóvember 2010.


Þál. 26/138 um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna,
6. september 2010 – þskj. 1471.

    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðuneyti og umhverfisráðuneyti að vinna ásamt Háskólanum á Akureyri að undirbúningi árlegrar ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. Jafnframt verði leitað alþjóðlegs samstarfs og stuðnings við verkefnið.

     Í greinargerð með þingsályktuninni er vísað til alþjóðlegrar ráðstefnu í heimskautarétti sem Háskólinn á Akureyri hefur staðið fyrir árlega síðan 2008 en verður í ár haldin í Nuuk á Grænlandi. Ráðuneytið mun styrkja ráðstefnuna með fjárframlagi. Utanríkisráðuneytið styður einnig aðrar ráðstefnur er tengjast Háskólanum á Akureyri, m.a. ráðstefnu Alþjóðlegra norðurslóðasamtaka félagsvísindamanna (IASSA) sem fór fram á Akureyri dagana 22. til 26. júní og sjötta alþjóðlega Rannsóknaþing Norðursins 3. til 6. september á þessu ári.Þál. 27/138 um aðild að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu,
6. september 2010 – þskj. 1472.

    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að Ísland gerist aðili að samningi Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu sem gerður var í New York 31. október 2003.

    Ísland gerðist aðili að samningnum 1. mars 2011 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 31. mars sama ár.


Þál. 1/139 um friðarverðlaunahafa Nóbels árið 2010, 21. október 2010 – þskj. 118.

    Alþingi fagnar því að Liu Xiaobo hafi verið veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum í Kína. Alþingi skorar á kínversk stjórnvöld að leysa Liu Xiaobo úr haldi nú þegar og sýna með því í verki virðingu sína fyrir mannréttindum.

    Utanríkisráðherra hvatti í yfirlýsingu kínversk stjórnvöld til að sleppa Liu Xiaobo, handhafa friðarverðlauna Nóbels 2010, úr haldi. Enginn ætti að sitja í fangelsi fyrir skoðanir sínar. Liu Xiaobo væri verðugur handhafi Nóbelsverðlauna og verðlaunin væru mikilvæg viðurkenning á framlagi hans og baráttu fyrir mannréttindum í Kína. Utanríkisráðherra lagði enn fremur áherslu á að íslensk stjórnvöld ættu hreinskiptin samskipti við Kína eins og önnur ríki.


VELFERÐARRÁÐUNEYTI

Þál. 11/138 um að auka samvinnu og gagnkvæma upplýsingamiðlun um málefni
aldraðra á Vestur-Norðurlöndum, 10. maí 2010 – þskj. 1067.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna grundvöll þess að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að auka samvinnu og gagnkvæma upplýsingamiðlun um málefni aldraðra á Vestur-Norðurlöndum.

    Tillaga að þessari þingsályktun var sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 2/2009. Í október 2009 komu fulltrúar frá Nærverkið í Þórshöfn, Færeyjum, í heimsókn í félags- og tryggingamálaráðuneytið. Þar var skipst á upplýsingum um öldrunarmál og öldrunarþjónustu og kynntar stefnur og áherslur beggja landanna varðandi þennan málaflokk.
    Í nóvember 2009 skipulagði félags- og tryggingamálaráðuneytið ráðstefnu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um áhrif atvinnuþátttöku eldra fólks á heilsu og lífstíl. Þar voru skoðuð áhrif atvinnuþátttöku eldri borgara út frá sjónarhorni einstaklinga, samfélags og atvinnulífs. Á þá ráðstefnu mættu fulltrúar frá mörgum löndum og voru þar þátttakendur bæði frá Færeyjum og Grænlandi.Þál. 16/138 um notendastýrða persónulega aðstoð við fólk með fötlun
frá 8. júní 2010 – þskj. 1241.

    Alþingi ályktar að fela félags- og tryggingamálaráðherra að koma á fót notendastýrðri persónulegri aðstoð við fatlað fólk á Íslandi með það að markmiði að fatlað fólk geti almennt notið sjálfstæðis í lífi sínu til jafns við ófatlað fólk. Ráðherra leggi fram tillögu að útfærslu á þjónustunni ásamt frumvarpi til nauðsynlegra lagabreytinga á haustþingi 2010.

    Með lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 með síðari breytingum er í ákvæðum til bráðabirgða IV. kafla gert ráð fyrir að sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks verði komið á um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Markmið verkefnisins er að þróa leiðir til að taka upp notendastýrða persónulega aðstoð við fatlað fólk með markvissum og árangursríkum hætti. Miða skal við að þjónustan verði skipulögð á forsendum notandans og undir verkstjórn hans um leið og hún verði sem heildstæðust milli ólíkra þjónustukerfa.
    Samstarfsverkefninu var hleypt af stokkunum í maí sl. með skipan sjö manna verkefnisstjórnar og hefur stjórnin fundað í níu skipti. Gert er ráð fyrir áfangaskýrslu um framvindu verkefnisins í sept/okt. næstkomandi. Til verkefnisins hafa verið eyrnamerktar 50 m.kr. 2011, 100 m.kr. 2012 og 150 m.kr. 2013. Þessir fjármunir eru vistaðir í innanríkisráðuneytinu.


Þál. 19/138 um bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum
frá 10. júní 2010 – þskj. 1277.

    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra ungbarna gegn pneumókokkasýkingum í ljósi þess að hún er hagkvæmust þeirra bólusetninga sem eftir er að taka upp.

    Þann 11. apríl 2011 hófst almenn bólusetning ungbarna gegn pneumókokkasýkingum hér á landi og verður öllum börnum framvegis boðin bólusetning á aldrinum 3, 5 og 12 mánaða. Þessar bólusetningar fara fram í heilsugæslunni. Sérstakar upplýsingar um bólusetningu gegn pneumókokkum eru kynntar foreldrum með almennum upplýsingum um ungbarnabólusetninguna: ( www.landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4714 ).


Þál. 20/138 um bólusetningu gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini
frá 10. júní 2010 – þskj. 1278.

    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að hefja undirbúning að bólusetningu allra 12 ára stúlkna gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

    Þann 15. september 2011 hefst almenn bólusetning á Íslandi gegn HPV (Human Papilloma Virus) og leghálskrabbameini. Veturinn 2011 til 2012 verður 12 og 13 ára stúlkum (fæddar 1998 og 1999) boðin bólusetning en í framhaldi af því verður framvegis 12 ára stúlkum boðin bólusetning árlega. Þessar bólusetningar fara fram í skólum landsins af starfsfólki heilsugæslunnar.
    Um þessar mundir er verið að senda öllum forráðamönnum 12 og 13 ára stúlkna upplýsingar um þessa bólusetningu:
(http://www.landlaeknir.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=4820).


Þál. 3/139 um rannsókn á Íbúðalánasjóði o.fl.
frá 17. desember 2010 – þskj. 611.


    Alþingi ályktar að á vegum þess fari fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Rannsökuð verði starfsemi sjóðsins frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004 og til ársloka 2010. Markmið rannsóknarinnar verði í fyrsta lagi að meta áhrifin af þessum breytingum, stefnu sjóðsins og einstökum ákvörðunum á þessum tíma á fjárhag sjóðsins og fasteignamarkaðinn í heild sinni, í öðru lagi að meta áhrifin af starfsemi Íbúðalánasjóðs á stjórn efnahagsmála og í þriðja lagi að leggja mat á hversu vel sjóðnum hefur tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu á þessu tímabili. Í kjölfar rannsóknarinnar fari fram heildarendurskoðun á stefnu og starfsemi Íbúðalánasjóðs og fjármögnun húsnæðislánakerfisins á Íslandi.
    Forsætisnefnd Alþingis verði falið að sjá um að rannsóknin fari fram í samræmi við ákvæði frumvarps til laga um rannsóknarnefndir sem hún hefur lagt fram. Forseti Alþingis skipi þriggja manna nefnd til að vinna rannsóknina og skila um hana skýrslu til Alþingis innan sex mánaða frá skipun nefndarinnar. Til rannsóknarinnar verði fengnir sjálfstæðir aðilar sem hafi sambærilegar heimildir til skýrslutöku og gagnaöflunar og rannsóknarnefnd Alþingis hafði. Ef nauðsyn krefur setji Alþingi lög til að tryggja aðgengi rannsóknarnefndar að nauðsynlegum gögnum og upplýsingum.

    Í rannsókninni verði m.a. skoðuð ítarlega eftirfarandi atriði auk annarra atriða sem þarfnast úttektar:
Í rannsókninni verði m.a. skoðuð ítarlega eftirfarandi atriði auk annarra atriða sem þarfnast úttektar:
     1.      Breytingarnar á sjóðnum 2004, m.a. undirbúningur þeirra og áhrif á fasteignamarkað og efnahagsmál.
     2.      Framganga banka á lánamarkaði til fasteignakaupa og viðbrögð Íbúðalánasjóðs við aukinni samkeppni banka um íbúðalán, m.a. vegna 100% lána bankanna og uppgreiðslna á lánum sjóðsins, t.d. hækkað lánshlutfall úr 80% í 90% og hækkuð hámarkslán.
     3.      Hvernig sjóðurinn sinnti verkefnum sínum, sérstaklega skv. 9. tölul. 9. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.
     4.      Viðbrögð sjóðsins við vaxandi þenslu á fasteignamarkaði.
     5.      Skuldabréfaskipti, úr húsbréfum í húsnæðisbréf, með því að binda uppgreiðslumöguleika sjóðsins.
     6.      Samskipti Íbúðalánasjóðs við Seðlabanka Íslands vegna lausafjár sjóðsins.
     7.      Kaup Íbúðalánasjóðs á greiðsluflæði lána frá bönkum og sparisjóðum með mun hærri hámarkslánsfjárhæð en reglugerð félagsmálaráðherra gerði ráð fyrir.
     8.      Tryggingar fyrir lánum sjóðsins þar sem lán til banka og sparisjóða voru ekki með veði.
     9.      Lánveitingar til byggingaverktaka, jafnvel án bankaábyrgða á ákveðnu tímabili.
     10.      Reglugerð félagsmálaráðherra nr. 896/2005 og hvernig hún samræmdist kröfum um áhættustýringu.
     11.      Viðskipti Íbúðalánasjóðs við verðbréfasjóði með verulegu tapi.
     12.      Helstu ástæður fyrir taprekstri sjóðsins frá 2008 og fyrirsjáanlegar afskriftir sjóðsins af ráðstöfunum sem taldar eru hér að framan.
     13.      Eftirlit Alþingis, ráðuneytis og stofnana á borð við Fjármálaeftirlitið og Seðlabanka Íslands með starfsemi sjóðsins. Var það fullnægjandi?
     14.      Annað sem rannsóknarnefnd kann að komast að við rannsókn sína og telur ástæðu til að upplýsa Alþingi um.

    Nefnd um rannsókn á Íbúðalánasjóði hefur nýlega tekið til starfa. Formaður nefndarinnar er Sigurður Hallur Stefánsson, fv. héraðsdómari. Með honum í nefndinni eru Kristín Flygenring hagfræðingur og Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans á Akureyri. Er nefndinni ætlað að rannsaka starfsemi sjóðsins frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum hans, sem hrundið var í framkvæmd á árinu 2004, og til ársloka 2010. Enn fremur á nefndin að meta áhrifin af þessum breytingum, stefnu sjóðsins og einstökum ákvörðunum á þessum tíma á fjárhag sjóðsins og fasteignamarkaðinn í heild sinni. Þá er nefndinni ætlað að meta áhrif starfsemi Íbúðalánasjóðs á stjórn efnahagsmála og loks að leggja mat á hversu vel sjóðnum hefur tekist að sinna lögbundnu hlutverki sínu á tímabilinu.
    Guðrún Aradóttir viðskiptafræðingur hefur verið ráðin til þess að liðsinna nefndinni í
daglegum störfum þeirra.
    Sjá einnig bráðabirgðaákvæði laga um rannsóknarnefndir Alþingis nr. 68/2011.