Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 219. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 375  —  219. mál.




Svar



velferðarráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur um kostnað
sjúklinga við heilbrigðisþjónustu og innheimtu.


    Við vinnslu svarsins leitaði ráðuneytið svara við 1.–6. tölul. fyrirspurnarinnar hjá fjórum stofnunum sem veita heilbrigðisþjónustu, Landspítala (LSH), Sjúkrahúsinu á Akureyri (FSA), Heilsugæslu Akureyrar (HA) og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH).

     1.      Með hvaða hætti er beinn kostnaður sjúklinga við heilbrigðisþjónustu innheimtur?
    Svar LSH: Á Landspítala eru sjúklingagjöld innheimt á um 20 stöðum. Staðgreiðsluhlutfall þessara gjalda er um 80%. Þeir sem ekki staðgreiða fá sendan greiðsluseðil sem birtist jafnframt í heimabanka viðkomandi. Ef greiðsluseðill er ekki greiddur innan 30 daga er sent áminningarbréf þar sem minnt er á ógreidda kröfu. Þrjátíu dögum síðar er sent ítrekunarbréf þar sem tilkynnt er að krafa verði send í löginnheimtu sé hún ekki greidd innan tiltekinna tímamarka sem eru 20 dagar.
    Svar FSA: Í aðalatriðum er um staðgreiðslu að ræða eða greiðslu með kreditkorti. Annars er viðkomandi sendur reikningur og gíróseðill. Ákveðið fyrirtæki hefur séð um framhald innheimtu ef krafan er ekki greidd innan tilskilins tíma og viðhaldið kröfum í svokallaðri kröfuvakt ef þær eru ekki greiddar.
    Svar HA: Komugjöld/þjónustugjöld eru innheimt samtímis þegar sjúklingar leita til heilsugæslunnar og erindið er gjaldskylt samkvæmt reglugerð velferðarráðherra um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.
    Svar HH: Þjónustugjöld samkvæmt reglugerð ráðherra um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu eru innheimt við komu á heilsugæslustöð. Geti sjúklingur ekki greitt við komu er sendur greiðsluseðill. Berist greiðsla ekki er send ítrekun einu sinni til tvisvar á ári. Kröfur eldri en tveggja ára eru afskrifaðar með samþykki Ríkisendurskoðunar.

     2.      Er í einhverjum tilfellum farið fram á fyrirframgreiðslu af hálfu sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu? Sé svo, hefur sjúklingum þá í einhverjum tilfellum verið neitað um heilbrigðisþjónustu ef ekki er greitt fyrir fram og ef svo er, í hvaða tilfellum?
    Svar LSH: Ekki um fyrirframgreiðslu að ræða. Sjúklingar greiða eftir á í samræmi við þá þjónustu sem veitt er.
    Svar FSA: Sjúklingar greiða almennt eftir á. Á skurðdeild hafa sjúklingar verið látnir greiða fyrir fram þar sem þeir eru oftast undir áhrifum svæfingar- eða deyfilyfja í nokkurn tíma eftir aðgerð. Engum sjúklingi hefur verið neitað um þjónustu.
    Svar HA: Ef fyrirframgreiðsla er túlkuð þannig að farið sé fram á greiðslu áður en sjúklingur fær viðtal eða rannsókn á heilsugæslu þá er það venjan að greiðsla fari fram áður en sjúklingur er afgreiddur með erindið.
    Svar HH: Í engum tilvikum er sjúklingur krafinn um fyrirframgreiðslu. Varðandi vottorð er þó lögð áhersla á að þau séu greidd við móttöku.
     3.      Er sjúklingum í einhverjum tilfellum neitað um heilbrigðisþjónustu vegna útistandandi skuldar við heilbrigðisþjónustuaðila?
    Svar allra stofnana: Nei.

     4.      Hversu margar kröfur vegna skuldar sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu voru sendar í lögfræðiinnheimtu af þjónustuaðila árin 2005–2010, sundurliðað eftir árum? Hver var heildarfjárhæð þeirra krafna, sundurliðað eftir árum?
    Svar LSH:
Ár Sent í lögfræðiinnheimtu Fjöldi krafna
2007 20.183.660 6.340
2008 17.110.408 6.222
2009 38.436.502 4.685
2010 32.544.550 4.429
108.275.120

    Vegna breyttra tölvukerfa er erfitt að finna tölur frá 2005 og 2006.
    Svar FSA, HA og HH: Engar slíkar kröfur hafa verið sendar í lögfræðiinnheimtu á þessum árum.

     5.      Í hversu mörgum tilfellum hefur a) verið gert fjárnám, b) verið krafist gjaldþrotaskipta vegna útistandandi skuldar sjúklings við heilbrigðisþjónustuaðila árin 2005–2010, sundurliðað eftir árum?
    Svar LSH: Í lok október 2011 hafði lögmannsstofan sem sér um innheimtu krafna Landspítalans hjá þeim sem búa á Íslandi stefnt 644 einstaklingum fyrir héraðsdóm vegna krafna frá 2007–2010. Lágmarksfjárhæð kröfu til að lögmannsstofan stefni viðkomandi er 50.000 kr.
    Sjúkrahúsið hefur aldrei gert árangurslaust fjárnám og hefur ekki haft frumkvæði að því að gera einstaklinga gjaldþrota. Örsjaldan hefur sjúkrahúsið sent inn gjaldþrotabeiðni, en aldrei fylgt því eftir og farið fram á gjaldþrot einstaklinga. Hins vegar hafa verið sendar inn kröfur í þrotabú þar sem aðrir gerðarbeiðendur fóru fram á gjaldþrot. Ávallt er reynt að fara samningaleiðina við innheimtu krafna. Oft er boðin greiðsludreifing til mjög langs tíma.
    Svar FSA, HA og HH: Í engu tilfelli.

     6.      Hvað eru skuldir langveikra og örorkulífeyrisþega við heilbrigðisstofnanir hátt hlutfall af útistandandi skuldum sjúklinga og skuldum sjúklinga í lögfræðiinnheimtu þjónustuaðila?
    Svar LSH: Slík sundurliðun er ekki fyrir hendi hjá Landspítalanum.
    Svar FSA: Því miður liggja ekki fyrir upplýsingar um hlutfall langveikra en hlutfall öryrkja er um 13% af skuldum einstaklinga. Sjá svar að framan.
    Svar HA og HH: Engar.

     7.      Hvaða reglur gilda um innheimtu skulda sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu hins opinbera annars vegar og einkageirans hins vegar?
    Engar reglur hafa verið settar um innheimtu skulda vegna heilbrigðisþjónustu hins opinbera. Um innheimtu skulda vegna heilbrigðisþjónustu, hvort sem hún er veitt á heilbrigðisstofnunum sem reknar eru af ríkinu eða einkaaðilum, gilda því sömu lög og reglugerðir og um innheimtu annarra skulda.

     8.      Hver er stefna stjórnvalda varðandi innheimtuaðgerðir og kostnað sjúklinga vegna skulda við heilbrigðisþjónustuaðila?
    Lýsa má afstöðu gamla heilbrigðisráðuneytisins, nú velferðarráðuneytisins, þannig að opinberar heilbrigðisstofnanir eigi ekki að neita sjúkratryggðum um heilbrigðisþjónustu, þótt þeir geti ekki greitt hana þegar hún er veitt, og að ekki eigi að ganga hart fram við innheimtu skulda vegna heilbrigðisþjónustu gagnvart þeim sem eru illa settir fjárhagslega.