Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 304. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 674  —  304. mál.

3. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að samþykkja hækkun
á kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og til að staðfesta
fyrir Íslands hönd breytingar á stofnskrá sjóðsins.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Í frumvarpinu er lagt til að heimild verði veitt til að hækka stofnfé eða kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) sem nemur 37,2 milljörðum kr., þar af mun ¼ verða greiddur í SDR en ¾ í íslenskri mynt. Viðmælendur nefndarinnar töldu litlar líkur á því að sjóðurinn mundi nýta hluta framlagsins sem væri í íslenskum krónum til starfsemi sinnar þar sem myntin teldist ekki hæf í viðskiptum sjóðsins. Það mundi hins vegar breytast ef íslensk stjórnvöld ákvæðu að taka upp evru sem gjaldmiðil landsins. Ætlunin er að nota lán íslenska ríkisins hjá sjóðnum sem liggja í skuldsettum gjaldeyrisvarasjóði til að fjármagna viðbótarframlagið í SDR. Þetta mun þýða að um 9,3 milljarðar kr. verða teknir úr afar stórum en skuldsettum gjaldeyrisvarasjóði til að leggja inn á innstæðureikning okkar hjá AGS. Stór hluti lánanna sem skilgreind eru sem gjaldeyrisvarasjóður var tekinn að láni hjá sjóðnum og hinum svokölluðu vinaþjóðum á um 5,5% vöxtum. Vextir á innstæðureikningi Íslands hjá AGS eru ekki nema um 0,14% og því þurfa skattgreiðendur að taka á sig rúmlega 5% vaxtamun eða 450 milljónir árlega. Innstæðureikningurinn hjá AGS mun áfram verða hluti af skuldsettum gjaldeyrisvarasjóði sem nemur núna um 1.030 milljörðum kr. og eru beinar vaxtagreiðslur ríkissjóðs vegna hans um 33 milljarðar kr. á ári en vaxtatekjur af honum aðeins um 6,6 milljarðar kr. Við erum með öðrum orðum að nota hávaxtalán frá AGS til þess m.a. að lána AGS á lágum vöxtum. Skuldastaða Íslands hjá sjóðnum mun hins vegar ekkert breytast.
    Ávinningur Íslands af því að taka þátt í þessari almennu kvótahækkun er einkum af tvennum toga. Í fyrsta lagi geta aðildarríkin tekið hagstæð lán úr ýmsum lánaflokkum sjóðsins og miðast lánsfjárhæðir við tiltekið margfeldi af kvóta viðkomandi ríkis sem er breytilegt frá einum lánaflokki til annars. Í öðru lagi ræðst atkvæðavægi einstakra ríkja í stjórn sjóðsins af kvóta þeirra. Atkvæðavægið er í samræmi við hlutdeild Íslands í kvótum AGS en það hækkar við þessa breytingu úr 0,055% í 0,067%. Lántaka Íslands hjá AGS í nóvember 2008 nam tíföldum kvóta okkar hjá sjóðnum og var langt umfram þörf okkar fyrir lánsfé. Lántökur sem hafa þann tilgang einan að mynda stóran skuldsettan gjaldeyrisvarasjóð til að blekkja fjárfesta og þjóðina eru óásættanlegar. Fjárfestar átta sig á því að gjaldeyrisvarasjóðurinn er fenginn að láni og er því engin trygging fyrir endurgreiðslu lána. Þjóðin hefur nú þegar áhyggjur af því að enda uppi með ósjálfbærar skuldir ef gjaldeyrisvarasjóðurinn verður notaður til að fjármagna útgöngu útblásinna eigna aflandskrónueigenda og kröfuhafa. Velferðarkerfið hefur verið skorið niður og skattar hækkaðir frá hruni til að fjármagna vaxtagreiðslur. Nú er svo komið að búið er að vega að grunnþjónustu velferðarkerfisins með niðurskurði og heimilin í landinu að sligast undan skattbyrðinni. Skuldsetning ríkissjóðs langt umfram þörf hefur lagt þungar vaxtabyrðar á þjóðina og enn sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Það er því löngu orðið tímabært að endurgreiða stóran hluta rándýrra lána AGS og „vinaþjóðanna“ og verja þannig velferðina í landinu. Minni hlutinn leggur því til að í stað þess að hækka kvóta Íslands hjá sjóðnum verði dregið úr skuldsetningu þjóðarinnar hjá AGS.
    Skilyrði fyrir lánveitingu íslenska ríkisins hjá AGS var að ríkissjóður næði jafnvægi í ríkisfjármálum á fimm ára tímabili en halli ríkissjóðs nam um 15% af vergri landsframleiðslu eftir hrun. Skilyrðið um hraðan niðurskurð hallans fylgir alltaf lánveitingum sjóðsins án tillits til þess hvort efnahagssamdráttinn megi rekja til breytinga í raunhagkerfinu eða minnkandi efnahagsreikninga. Efnahagsreikningar samanstanda af eignum og skuldum og í kjölfar bankahruns myndast ójafnvægi þar sem eignir lækka í verði og jafnvel hverfa á meðan skuldir hækka. Á Íslandi er rót efnahagsvandans að finna í efnahagsreikningum fyrirtækja og heimila. Samdráttur af völdum minnkandi efnahagsreikninga breytist mjög fljótt í langvarandi kreppu ef ekki er gripið strax og nógu lengi til mótvægisaðgerða af hálfu stjórnvalda.
    Á Íslandi var gripið til þess ráðs að heimila úttekt á séreignarsparnaði til að tryggja eftirspurn í hagkerfinu. Úttektin á séreignarsparnaði magnaði hins vegar upp ójafnvægi á efnahagsreikningum heimilanna, þar sem heimilin ganga á eignir sínar til að ná endum saman á sama tíma og skuldir hækka vegna verðtryggingarinnar. Þegar eignabóla springur, þá vilja skuldsett fyrirtæki og heimili gera allt til að losa sig við skuldir enda hafa eignirnar á bak við þær rýrnað verulega í verði. Fyrirtæki og almenningur nota því sparnað sinn til að greiða niður skuldir en það minnkar efnahagsreikninga bankanna og þar með umsvif þeirra. Við slíkar aðstæður eru fáir sem vilja taka lán og erfitt að breyta hegðun fólks og fyrirtækja með vaxtalækkun vegna yfirskuldsetningar og slæmrar reynslu af skuldsetningu. Einkageirinn mun ekki hætta að greiða niður lán í stað þess að fjárfesta fyrr en búið er að leiðrétta skuldir í samræmi við eignarrýrnunina og ljóst að fjárfestingar fela ekki í sér forsendubrest. Bankahrun dregur verulega úr áhættusækni fyrirtækja sem tíma tekur að koma í eðlilegt horf. Í hagkerfi eins og því íslenska, þar sem gjaldeyrishöft eru við lýði og lífeyrissjóðirnir eru með mikið fé á hverju ári sem þarf að (endur)fjárfesta myndast fljótt offramboð á lánsfjármagni. Offramboðið myndar þrýsting á stjórnvöld að selja fákeppnisfyrirtæki sem best er að halda í samfélagseigu. Við slíkar aðstæður verður að leiðrétta ójafnvægið milli virðis eigna og skulda ef koma á efnahagslífinu upp úr kreppuhjólförunum. Auk þess þarf ríkið að auka umsvif sín með m.a. fjárfestingum í innviðum samfélagsins og taka til þess lán til að tryggja að sparnaður almennings rýrni ekki og fari í verðmæta- og atvinnusköpun. Ef ríkið bregst við með því að draga úr umsvifum sínum og þar með lánsfjárþörf sinni eins og AGS gerir kröfu um, þá er ekkert sem getur komið í veg fyrir að hagkerfið fari inn í spíral sífellt neikvæðs hagvaxtar og minnkandi efnahagsreikninga.
    Á Íslandi er rót efnahagsvandans að finna í efnahagsreikningum fyrirtækja og heimila. Efnahagsstefna AGS sem er skilyrði fyrir lánveitingu sjóðsins magnar upp vandann í stað þess að taka á honum, sérstaklega þar sem um er að ræða vanda tengdan efnahagsreikningum. Samdráttur af völdum minnkandi efnahagsreikninga breytist mjög fljótt í langvarandi kreppu ef ekki er gripið strax og nógu lengi til mótvægisaðgerða af hálfu stjórnvalda. AGS gerir kröfu um að rangt sé brugðist við efnahagsreikningavanda og því er minni hlutinn mótfallinn því að sjóðnum sé lagt til aukið stofnfé. Grundvallarbreytingar þarf á efnahagsstefnu AGS áður en minni hlutinn getur samþykkt að kvóti Íslands sé aukinn hjá sjóðnum.

Alþingi, 16. janúar 2012.

Lilja Mósesdóttir.