Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 542. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 837  —  542. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2011.



1. Inngangur.
    Á vettvangi ÖSE-þingsins á árinu 2011 bar hæst málefni arabaheimsins, umbætur á starfsemi ÖSE til að gera stofnunina skilvirkari og auka lýðræðislegt eftirlit með henni, stjórnmálaástandið í Hvíta-Rússlandi og staða mála á Balkanskaga.
    Ársfundur þingsins fór fram í Belgrad og var að þessu sinni tileinkaður umbótum á starfsemi ÖSE. Taldi þingið brýnt að afnema samstöðuregluna svokölluðu, sem veitir sérhverju aðildarríki ÖSE í raun neitunarvald. Þetta gerir stofnuninni erfitt að beita sér nema í tilfellum þar sem öll aðildarríkin 56 eru sammála. Einnig lagði þingið til að embætti framkvæmdastjóra ÖSE fengi aukið pólitískt vægi og honum gert kleift að gefa út yfirlýsingar í nafni samtakanna sem og að fastaráð ÖSE héldi fundi sína í heyranda hljóði. Nauðsynlegt væri að auka lýðræðislegt aðhald með samtökunum, m.a. með því að stofnunin réði sjálfstæðan ytri endurskoðanda sem gæfi ÖSE-þinginu einnig skýrslu.
    Hvað varðar úrræði ÖSE gagnvart brotum aðildarríkja á skuldbindingum sínum á sviði lýðræðis og mannréttinda (hinni svokölluðu mannlegu vídd) lét þingið í ljós þá skoðun að beita ætti svokallaðri „consensus minus one“ reglu – þ.e. án samþykkis hlutaðeigandi ríkis – þegar um væri að ræða skýr og stórfelld brot á þeim skuldbindingum. Ljóst var að ályktunin átti að hluta til uppruna sinn í óánægju þingmanna með stöðu mála í Hvíta-Rússlandi í kjölfar forsetakosninganna þar í landi í desember 2010.
    Atburðirnir í arabaheiminum og hugsanleg viðbrögð ÖSE voru einnig fyrirferðarmikil á árinu. Þingið fordæmdi valdbeitingu stjórnvalda í Sýrlandi og Líbýu gegn mótmælendum. Talsverðar umræður urðu um það hvernig ÖSE gæti orðið að liði við að aðstoða ríki araba við að koma á lýðræði, réttarríki og virðingu fyrir mannréttindum í ljósi eigin reynslu af slíkum umbótum í austanverðri Evrópu. Hvatti þingið samstarfsríki ÖSE í Norður-Afríku til að óska eftir slíkri aðstoð.
    Á haustfundi þingsins í Dubrovnik beindi þingið sjónum sínum að svæðisbundnu samstarfi ríkjanna á Balkanskaga. Meginniðurstaða fundarins var sú að miklar framfarir hefðu orðið á svæðinu eftir styrjaldir 10. áratugar síðustu aldar. Marghliða samstarf á svæðinu væri nú mikið og mikill árangur hefði náðst í að koma aftur á eðlilegum tvíhliða samskiptum áður óvinveittra ríkja á svæðinu. Þó væri ljóst að enn væri langt í land þar til öll ríkin á svæðinu yrðu í stakk búin til að gerast aðilar að Evrópusambandinu.
    Á árinu leiddi ÖSE-þingið kosningaeftirlit í Kasakstan, Kirgistan, Makedóníu, Rússlandi, Tyrklandi og Túnis. Umdeildastar voru kosningar í Rússlandi, en þar komst ÖSE að þeirri niðurstöðu að kosningarnar hefðu einkennst af ójafnræði milli framboða, takmarkaðri samkeppni og skorti á sanngirni. Í fyrstu lýðræðislegu kosningunum í Túnis voru meira en 11 þúsund frambjóðendur í framboði á fjölmörgum framboðslistum og var niðurstaða ÖSE sú að kosningarnar hefðu verið frjálsar og sanngjarnar og hefðu lagt hornstein að uppbyggingu lýðræðislegra stofnana í landinu.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE (áður ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu, RÖSE, eða til ársins 1995) starfar á grundvelli Helsinkisáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn sem komi saman einu sinni á ári. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum liggur hins vegar enginn hefðbundinn stofnsáttmáli þeim til grundvallar.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að þinginu eiga 56 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 320 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE virkar þingið sem hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE þá ávarpar formaður ráðherranefndar ÖSE þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans.
    Þá tekur ÖSE-þingið þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið á samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODHIR) um kosningaeftirlit. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um verkaskiptingu milli stofnana þrátt fyrir samstarfssamning á milli þeirra frá árinu 1997. Einnig á ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni-, og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn einnig tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram á sama tíma.
    Fyrir utan fastanefndir þingsins, stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og þingið sérnefndir til að taka aðkallandi mál til skoðunar og vera ráðgefandi um þau. Sem dæmi var starfandi sérstakur fulltrúi vegna fangabúða Bandaríkjahers fyrir meinta hryðjuverkamenn í Guantanamo á Kúbu og sérnefnd vegna stjórnmálaástandsins í Hvíta-Rússlandi.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Í upphafi árs 2011 voru aðalmenn Íslandsdeildar Róbert Marshall, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Björn Valur Gíslason, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Pétur H. Blöndal, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Þór Saari, þingflokki Hreyfingarinnar, og Tryggvi Þór Herbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Frá 1. október voru varamenn Íslandsdeildar Lúðvík Geirsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Tryggvi Þór Herbertsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Þrjár málefnanefndir starfa á vegum ÖSE-þingsins og var skipan þeirra af hálfu Íslandsdeildar árið 2011 eftirfarandi:
1.    Nefnd um stjórnmál og öryggismál: Róbert Marshall
2.    Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál: Pétur H. Blöndal
3.    Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál: Björn Valur Gíslason

4. Starfsemi Íslandsdeildar 2011.
    Íslandsdeild hélt einn fund á árinu þar sem þátttaka í fundum ÖSE-þingsins var undirbúin. Hvað varðar trúnaðarstörf fyrir ÖSE-þingið gegndi Pétur H. Blöndal sem fyrr starfi sínu sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE. Hann gaf stjórnarnefnd þingsins skýrslu um störf sín á vetrarfundi þess í Vín og á ársfundinum í Belgrad og gerði grein fyrir fyrirhuguðum áherslum sínum á komandi ári. Hann gagnrýndi m.a. að fjárframlög til stofnunarinnar skyldu standa í stað jafnvel þótt starfsemi stofnunarinnar hefði aukist verulega. Einnig taldi hann að fjárveitingar utan fjárhagsáætlunar (e. extra-budgetary funds), sem einstök aðildarríki veita og merkja ákveðnum verkefnum, væri veikleiki hvað varðar meðferð fjármuna stofnunarinnar.
    Þá starfaði hann í gagnsæis- og ábyrgðarnefnd ÖSE-þingsins, sem hafði m.a. það hlutverk að koma með tillögur um það hvernig auka mætti lýðræðislegt aðhald með ÖSE-stofnuninni. Meðal áhersluatriða hans á þeim vettvangi voru að ÖSE-þingið réði óháðan endurskoðanda til að endurskoða reikninga ÖSE-stofnunarinnar. Þá fundaði hann með ríkisendurskoðanda Úkraínu í maí til að ræða endurskoðun reikninga ÖSE, en ríkisendurskoðun Úkraínu gegndi á árinu því hlutverki.

5. Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra fundahalda þrisvar sinnum á ári. Yfirleitt er ársfundur haldinn að sumri, haustfundur í október og vetrarfundur í febrúar.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vínarborg 24.–25. febrúar 2011.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Róbert Marshall, formaður, og Pétur H. Blöndal, auk Kjartans Fjeldsted, ritara. Fundinn sóttu um 240 þingmenn frá 53 ríkjum en að venju funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins með embættismönnum ÖSE auk þess sem fram fór sameiginlegur fundur málefnanefnda. Meginefni fundarins var ástandið í ríkjum N-Afríku, yfirstandandi umbætur á starfsemi ÖSE og undirbúningur undir ársfund ÖSE-þingsins í Belgrad í júlí.
    Forseti Austurríkis, Heinz Fischer, flutti opnunarávarp og því næst tók forseti ÖSE- þingsins, Petros Efthymiou, til máls. Gerði hann yfirstandandi umbótaferli ÖSE að meginumtalsefni og sagði að það hefði ekki verið nógu markvisst og því væri stofnunin í ákveðinni tilvistarkreppu. Mikilvægt væri að stofnunin gengi í endurnýjun lífdaga, m.a. með því að valinn yrði öflugur stjórnmálamaður til að taka við af Marc Perrin de Brichambaut.
    Næst ávarpaði Audronius Azubalis, utanríkisráðherra Litháens, þingið sem formaður ráðherraráðs ÖSE. Í máli hans kom fram að í ljósi atburðanna í N-Afríku vildi Litháen beita sér fyrir því að athugað yrði hvernig reynsla ÖSE í að stuðla að öryggi, aukinni velferð og lýðræði gæti gagnast nýjum stjórnvöldum í Egyptalandi og Túnis, sem bæði eru samstarfsríki ÖSE. Þá lýsti Azubalis yfir áhyggjum sínum af gangi mála í Hvíta-Rússlandi, þar sem réttarhöld væru að hefjast yfir forsetaframbjóðendum og mótmælendum. Eins og áður hefur komið fram lokaði Hvíta-Rússland skrifstofu ÖSE í Minsk í kjölfar gagnrýni stofnunarinnar á framkvæmd kosninganna.
    Stefán Skjaldarson, sendiherra Íslands í Vín og fastafulltrúi gagnvart ÖSE, flutti erindi á fundi stjórnmálanefndar um formennsku Íslands í Öryggissamvinnuvettvangi ÖSE (e. Forum for Security Cooperation, FSC), en formennskutímabil Íslands stóð frá 1. janúar til 4. maí. Öryggissamvinnuvettvangurinn, sem kemur saman vikulega í Vín, er vettvangur ÖSE þar sem rædd eru og teknar ákvarðanir um málefni sem varða svokallaða fyrstu vídd ÖSE, þ.e. samvinnu á sviði öryggismála og aðgerða til að byggja upp traust á hermálasviðinu. Í máli sendiherrans kom m.a. fram að eitt meginverkefni formennsku Íslands yrði að uppfæra Vínarskjalið frá 1999, en í því skuldbinda aðildarríki ÖSE sig til að skiptast á upplýsingum um herafla sinn, viðbúnað og hernaðaráætlanir í þeim tilgangi að auka gegnsæi og traust sín á milli.
    Þá gerði Pétur H. Blöndal forsætisnefnd þingsins grein fyrir starfi sínu sem sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE á liðnu ári. Gagnrýndi hann að fjárframlög til stofnunarinnar fyrir árið 2011, um 151 milljón evra, stæðu í stað frá síðasta ári og væru þau lægstu frá árinu 2000 jafnvel þó að starfsemi stofnunarinnar hefði á sama tíma aukist verulega. Ef ætlunin væri að lækka framlög til stofnunarinnar væri heppilegra að um það yrði tekin meðvituð ákvörðun í stað þess að þau lækkuðu í raun sökum verðbólgu. Þá gerði hann fundinum grein fyrir fjarfundum sem hann átti í nóvember sl. með starfsfólki skrifstofu ÖSE í Albaníu til að fylgja eftir heimsókn sinni þangað árið 2007. Á fundunum kom m.a. fram að verkefni sem miðaði að því að búa til þjóðskrá fyrir Albaníu væri nú lokið og að skrá yfir íbúa og heimilisföng hefði verið tekin í notkun. Væri um að ræða mjög jákvæða þróun sem m.a. mundi nýtast í baráttunni gegn mansali.
    Fram fór umræða um yfirstandandi umbætur á starfsemi ÖSE en eins og fyrr segir lauk leiðtogafundi stofnunarinnar í Astana í desember án þess að samstaða næðist um aðgerðaáætlun til að stýra starfi stofnunarinnar til næstu ára. Sú vinna heldur þó áfram í fastaráði stofnunarinnar. Í umræðunni gagnrýndu þingmenn m.a. hversu mjög stofnunin þyrfti að reiða sig á fjárframlög sem einstaka ríki veita framhjá fjárhagsáætlun (e. extra-budgetary funds), sem vekur m.a. upp spurningar um gegnsæi. Þá lýstu þingmenn yfir óánægju sinni með hversu hægt gengi að styrkja stöðu ÖSE-þingsins gagnvart stofnuninni.
    Loks fór fram sérstök utandagskrárumræða um ástandið í N-Afríku í ljósi stjórnarbyltinganna í Túnis og Egyptalandi og átakanna í Líbýu. Þó að ekki sé venjan að þingið álykti á vetrarfundum sínum samþykkti það sérstaka ályktun að þessu sinni þar sem þungum áhyggjum er lýst af átökum og ofbeldi á svæðinu og óásættanlegri valdbeitingu Líbýustjórnar gegn mótmælendum þar í landi. Hvatti Alcee L. Hastings, fulltrúadeildarþingmaður frá Bandaríkjunum og sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í málefnum Miðjarðarhafsins, til þess að ÖSE byði ríkjum á svæðinu þegar í stað aðstoð sína við að innleiða lýðræðisumbætur.

Ársfundur ÖSE þingsins í Belgrad 6.–10. júlí 2011.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Róbert Marshall, formaður, Björn Valur Gíslason, varaformaður, og Pétur H. Blöndal, auk Kjartans Fjeldsted ritara. Fundinn sóttu um 230 þingmenn frá 53 ríkjum en yfirskrift fundarins var að þessu sinni „Aukinn árangur og skilvirkni í starfi ÖSE – nýtt upphaf eftir leiðtogafundinn í Astana“. Auk umbóta á starfsemi ÖSE var ástandið í ríkjum arabaheimsins, líffærasmygl í Kósóvó, staða mála í Hvíta-Rússlandi og málefni þjóðernisminnihluta meðal meginviðfangsefna fundarins.
    Í upphafsávarpi sínu sagði Petros Efthymiou, forseti ÖSE-þingsins, að ÖSE ætti í djúpri tilvistarkreppu og kallaði eftir umfangsmiklum umbótum á starfsemi ÖSE til að gera stofnunina færari um að mæta þeim pólitísku og efnahagslegu úrlausnarefnum sem aðildarríkin standa frammi fyrir. Óheppilegt væri að ekki hefði náðst samstaða um framtíðarsýn fyrir stofnunina á leiðtogafundinum í Astana heldur hefðu fyrri skuldbindingar aðeins verið ítrekaðar. Meðal þeirra tillagna sem hann setti fram til úrbóta var að ráðherraráðið hittist tvisvar á ári til að styrkja pólitíska stefnumótun innan stofnunarinnar og að samstöðureglunni svokölluðu, sem veitir hverju ríki í raun neitunarvald í fastaráði ÖSE, yrði breytt enda stæði hún í vegi fyrir því að stofnunin beitti sér í mikilvægum málum.
    Lamberto Zannier, nýskipaður framkvæmdastjóri ÖSE, ávarpaði einnig setningarfund þingsins. Í máli hans kom fram að hann teldi að þingmenn gætu leikið mikilvægt hlutverk í þróuninni í átt til aukins lýðræðis í arabaheiminum. Aukin skilvirkni ÖSE væri eitt af forgangsatriðum hans sem framkvæmdastjóra, en nauðsynlegt væri að skilgreina betur lagalega stöðu stofnunarinnar. Þess má geta að nokkur óánægja hefur ríkt af hálfu þingsins með það ógagnsæja ferli sem farið hefur verið eftir þegar valinn er nýr framkvæmdastjóri, en João Soares, fyrrverandi forseti ÖSE-þingsins, var meðal kandídata í stól framkvæmdastjóra. Þingið hafði áður kallað eftir því að stjórnmálamaður en ekki embættismaður yrði næst fyrir valinu til að auka sýnileika og pólitískt vægi stofnunarinnar en varð ekki að ósk sinni í þetta sinn.
    Meðal annarra tignargesta sem ávörpuðu þingið má nefna Slavicu Ðukic-Dejanovic, forseta serbneska þingsins, Mirko Cvetkovic, forsætisráðherra Serbíu, Audronius Azubalis, utanríkisráðherra Litháens og formann ráðherraráðs ÖSE, og Vuk Jeremic, utanríkisráðherra Serbíu.
    Nokkur átök urðu um þann hluta af ályktun ársfundar sem snýr að mannlegu víddinni, en hún snýr að skuldbindingum aðildarríkjanna á sviði mannréttinda, lýðræðis og réttarríkis. Þessum skuldbindingum var m.a. beitt af andófsmönnum gegn ríkjandi stjórn kommúnista á kaldastríðsárunum í ýmsum ríkjum Austur-Evrópu. Vilji hefur verið til þess innan þingsins að styrkja úrræði ÖSE gagnvart brotum aðildarríkja á skuldbindingum sínum á því sviði, ekki síst í ljósi þróunar mála í Hvíta-Rússlandi. Þó hefur samstöðureglan komið í veg fyrir að úrræðum ÖSE sé beitt í ríkari mæli en gert er og ljóst er að mörg ríki, ekki síst nokkur fyrrum lýðveldi Sovétríkjanna, eru ekki fylgjandi afnámi samstöðureglunnar og töluðu rússnesku fulltrúarnir á þinginu m.a. mjög gegn slíku.
    Pétur H. Blöndal, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE, gaf stjórnarnefnd þingsins skýrslu um starf sitt á liðnu ári. Sagði hann m.a. frá nýlegri heimsókn sinni til ríkisendurskoðunar Úkraínu, sem endurskoðar reikninga ÖSE. Í máli hans kom fram að fjárveitingar utan fjárhagsáætlunar (e. extra-budgetary funds) sem einstök aðildarríki veita til stofnunarinnar og merkja ákveðnum verkefnum væru veikleiki hvað varðar meðferð fjármuna stofnunarinnar. Þá lýsti hann þeirri skoðun sinni að rétt væri að ÖSE-þingið réði endurskoðanda ÖSE og fengi skýrslu hans í hendur, enda fælist ekki nóg aðhald í því að sami aðili og verið væri að endurskoða réði endurskoðandann og greiddi honum laun.
    Þá lagði gagnsæis- og ábyrgðarnefnd þingsins fram skýrslu sína en í henni á Pétur H. Blöndal sæti. Síðan nefndin hóf störf eftir ársfund ÖSE-þingsins í París árið 2001 hefur hún staðið fyrir ýmsum umbótum, m.a. opnun skrifstofu ÖSE-þingsins í Vín og árlegri skýrslu framkvæmdastjóra ÖSE um fjármál stofnunarinnar á haustfundi þingsins ár hvert. Nefndin fékk einnig það hlutverk í þetta sinn að útbúa innlegg þingsins í Korfú-ferlið, sérstaklega varðandi mögulegar leiðir til að styrkja lýðræðislegt eftirlit með stofnuninni. Sem fyrr er ágreiningur milli þeirra sem líta á stofnunina eingöngu sem samstarfsvettvang milli ríkisstjórna og hinna sem líta á hina þinglegu vídd sem mikilvægan hluta stofnunarinnar. Endurspeglast þessi ágreiningur í lokaályktun leiðtogafundarins í Astana en þar voru tilvísanir í gagnsæi annars vegar og stöðu þingsins sem fullgildrar stofnunar ÖSE hins vegar fjarlægðar á síðustu stundu.
    Í ályktun ársfundarins hvað varðar umbætur á starfi ÖSE er mælt með því að hlutverk framkvæmdastjóra ÖSE verði styrkt og það gert pólitískara. Framkvæmdastjóra yrði m.a. heimilað að gefa út yfirlýsingar fyrir hönd ÖSE þegar ríki gerðist sekt um brot á skuldbindingum sínum. Þá ályktaði ÖSE-þingið að ÖSE afnæmi samstöðuregluna, a.m.k. í fjárreiðum og starfsmannamálum, sem og að fjárhagsáætlun fyrir stofnunina yrði unnin til nokkurra ára í senn í stað núverandi ástands þar sem samningaviðræður um fjárhagsáætlun næsta árs standa fram á síðustu stundu með þeirri óvissu sem það hefur í för með sér fyrir starfsemi stofnunarinnar. Þá kallaði þingið eftir því að fastaráð ÖSE tæki ályktanir þess formlega á dagskrá til að bæta samskiptin milli þingsins og fastaráðsins sem og að athugað yrði að halda fundi fastaráðsins í heyranda hljóði.
    Varðandi mannlegu víddina ályktaði þingið að hinn árlegi fundur sem haldinn er í fastaráðinu til að fylgja eftir skuldbindingum aðildarríkjanna á sviði lýðræðis og mannréttinda þjóni hlutverki sínu ekki nægilega vel. Kallaði þingið eftir því að fastaráðið fjallaði um mannréttindamál á a.m.k. tveggja vikna fresti á opnum fundum. Þá skoraði þingið á aðildarríkin að beita þeim úrræðum sem ÖSE hefur yfir að ráða til að tryggja að ríki uppfylli skuldbindingar sínar á sviði lýðræðis og mannréttinda, þar með talið svokallaðri „consensus minus one“ reglu þegar um er að ræða ítrekuð og alvarleg brot á þeim skuldbindingum. Í ljósi atburðanna í arabaheiminum væri einnig nauðsynlegt að auka alþjóðlegt hlutverk ÖSE í að fyrirbyggja átök og auka samvinnu við aðrar stofnanir sem sinna öryggismálum í Evrópu, ekki síst NATO.
    Serbneska sendinefndin stóð fyrir sérstakri umfjöllun um smygl á líffærum úr mönnum í Kósóvó í tengslum við fundinn með þátttöku Vuk Jeremic, utanríkisráðherra Serbíu, en það var skýrsla Dicks Marty fyrir Evrópuráðsþingið í janúar sl. sem kom umræðu um málið aftur af stað. Hefur Serbía barist fyrir því á alþjóðavettvangi að fram fari óháð alþjóðleg rannsókn undir merkjum Sameinuðu þjóðanna á málinu. Í ályktun ársfundarins er kallað eftir rannsókn á ásökununum en þó ekki tilgreint að hún skuli fara fram undir merkjum Sameinuðu þjóðanna.
    Ályktun um að bjóða Palestínu og Líbanon áheyrnaraðild að ÖSE-þinginu var naumlega felld í lýðræðis- og mannréttindanefndinni. Í umræðum um ályktunina var því m.a. haldið fram að ekki væri ljóst hvort átt væri við stjórn PLO á Vesturbakkanum eða Hamas á Gaza- ströndinni. Ef Palestínumönnum yrði boðin áheyrnaraðild væri líklegt að a.m.k. þrjár sendinefndir birtust og vildu taka sæti Palestínu. Hvað Líbanon varðar var gagnrýnt að þingið ályktaði að bjóða Líbanon aðild áður en formleg beiðni um slíkt hefði borist frá líbanska þinginu.
    Loks fór fram kjör í helstu embætti ÖSE-þingsins. Var Petros Efthymiou endurkjörinn forseti þingsins til eins árs og Wolfgang Grossruck frá Austurríki endurkjörinn í embætti varaforseta. Einnig voru Walburga Habsburg Douglas frá Svíþjóð og Tonino Picula frá Króatíu kjörin varaforsetar en kjör þeirra gildir í þrjú ár. Þá var Karl-Georg Wellmann kjörinn formaður stjórnmálanefndar, Serhiy Shevtsjúk formaður efnahagsnefndar og Matteo Mecacci formaður lýðræðis- og mannréttindanefndar.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Dubrovnik 7.–10. október 2011.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Róbert Marshall, formaður, og Kjartan Fjeldsted ritari. Meginefni fundarins var svæðisbundin þróun í suðaustanverðri Evrópu en auk hefðbundins fundar stjórnarnefndar ÖSE-þingsins fóru einnig fram málþing um ástandið í Nagorno-Karabakh og stöðuna í nágrannaríkjum ÖSE í ljósi atburðanna í arabaheiminum.
    Í setningarávarpi sínu sagði Petros Efthymiou, forseti ÖSE-þingsins, að svæðisbundið samstarf á Balkanskaga hefði aukist mjög á undanförnum árum og mikill árangur hefði náðst í að koma aftur á eðlilegu pólitísku og diplómatísku sambandi ríkjanna á svæðinu eftir stríðin sem geisað hefðu á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar. Þúsundir flóttamanna hefðu snúið til síns heima og hundruð stríðsglæpamanna hefðu verið saksótt. Sem dæmi um þær framfarir sem orðið hefðu á svæðinu á undanförnum árum nefndi hann nýlega ákvörðun forseta Króatíu, Serbíu og Bosníu og Hersegóvínu um að hefja nánara samstarf milli ríkjanna í löggæslu, ákæruvaldi og framsali sakamanna til að auðvelda baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
    Setningarfundinn ávörpuðu einnig Ivo Josipovic, forseti króatíska lýðveldisins, Jadranka Kosor forsætisráðherra, og Luka Bebic, forseti króatíska þingsins. Josipovic biðlaði til alþjóðasamfélagsins að veita ríkjunum á svæðinu möguleika á inngöngu í ESB til að tryggja öryggi og stöðugleika á svæðinu. Sem 28. aðildarríki Evrópusambandsins mundi Króatía leggja sitt af mörkum til að því ferli miðaði áfram. ÖSE hefði leikið mikilvægt hlutverk í þeirri þróun í átt til lýðræðis og stöðugleika sem orðið hefði í landinu. Eftir sex ára samningaviðræður væri Króatía nú við það að skrifa undir aðildarsamning við ESB og mikilvægasta og erfiðasta tímabilið í þróun landsins sem sjálfstæðs ríkis væri þar með að baki. Bebic sagði þátttöku í evrópsku samstarfi einstakt tækifæri til að þróa frekar lýðræði, stöðugleika og öryggi í landinu.
    Walburga Habsburg Douglas, varaforseti ÖSE-þingins, stýrði umræðum um möguleika ríkjanna á Balkanskaga í átt að nánara samstarfi við Evrópu og Bandaríkin. Þátt tóku Paul Vandoren, sendiherra Evrópusambandsins í Króatíu, Wieslaw Tarka, sendiherra Póllands, sem nú fer með formennsku í Evrópusambandinu, og Hidajet Biscevic, framkvæmdastjóri Regional Co-Operation Council, sem er samstarfsvettvangur ríkjanna á svæðinu sem og nokkurra alþjóðastofnana. Fram kom m.a. að langt væri enn í land þar til ríkin á svæðinu væru komin á það stig sem til þyrfti til að ganga í ESB. Þó væru jákvæð teikn á lofti en svæðisbundið samstarf í Suðaustur-Evrópu væri nú til dæmis umfangsmeira en víðast hvar annars staðar.
    Einnig fór fram sérstök umræða um hlutverk ÖSE í lausn deilunnar um Nagorno-Karabakh með þátttöku sendiherra Bandaríkjanna, Frakklands og Rússlands, sem stýra svokölluðum Minsk-hópi ÖSE, sem hefur það hlutverk að miðla málum milli Armeníu og Aserbaídsjans. Þá sat fundinn Andrzej Kasprzyk, sérstakur fulltrúi formanns ráðherraráðs ÖSE um deiluna. Formenn sendinefnda Armeníu og Aserbaídsjans fluttu hvor um sig framsögu um deiluna frá sínu sjónarhorni. Sendiherrarnir kynntu m.a. áætlun sem þeir binda vonir við að orðið geti grundvöllur að lausn deilunnar.
    Á fundi stjórnarnefndar kynnti Lamberto Zannier, framkvæmdastjóri ÖSE, stjórnarnefndinni fjárhagsáætlun ÖSE, sem að þessu sinni gerði ráð fyrir 1,1% hækkun í 152 milljónir evra. Hann sagði að fylgt hefði verið stefnu um að fjárhagsáætlunin hækkaði ekki að nafnvirði milli ára en þeirri stefnu væri ekki hægt að fylgja lengur, m.a. vegna verðbólgu. Þróun í starfsemi stofnunarinnar hefði verið sú að samdráttur væri í Suðaustur-Evrópu og aukning í Mið-Asíu. Þá kynnti Riccardo Migliori, formaður ítölsku sendinefndarinnar, væntanlegt kosningaeftirlit í ÖSE í Túnis, en þar var áætlað að um 1.300 listar yrðu í framboði.

Alþingi, 20. febrúar 2012.



Róbert Marshall,


formaður.


Björn Valur Gíslason,


varaformaður.


Pétur H. Blöndal.





Fylgiskjal.


Ályktanir ÖSE-þingsins árið 2011.



    Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2011:
          Ályktun ársfundar og málefnanefndanna þriggja.
          Ályktun um skipan framkvæmdastjóra ÖSE.
          Ályktun um Hvíta-Rússland.
          Ályktun um stöðu kvenna innan ÖSE-þingsins.
          Ályktun um baráttu gegn alþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.
          Ályktun um framkvæmd aðgerðaáætlunar Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn mansali.
          Ályktun um baráttu gegn ofbeldisfullum öfgatilhneigingum og róttækni sem leiðir til hryðjuverka.
          Ályktun um pólitísk umskipti í ríkjum við Miðjarðarhafið.
          Ályktun um Moldóvu.
          Ályktun um þjóðernisminnihluta.
          Ályktun um nálgun ÖSE gagnvart netöryggi.
          Ályktun um samhæfingu fólksflutningastefnu innan ÖSE.
          Ályktun um notkun á ræktuðu landi til að vinna gegn vannæringu, hungri og eftirlitslausum flóttamannastraumi.
          Ályktun um baráttu gegn notkun á ólöglegu vinnuafli í aðfangakeðjum.
          Ályktun um frjálst flæði upplýsinga og þekkingar.
          Ályktun um kyn, fólksflutninga og efnahagslegt sjálfstæði.
          Ályktun um kjarnorkuöryggi og umhverfisvernd.
          Ályktun um að styrkja viðleitni til að berjast gegn kynþáttafordómum og útlendingahatri og til að stuðla að aðlögun og þátttöku.
          Ályktun um baráttu gegn smygli á líffærum úr mönnum.
          Ályktun um alþjóðleg barnsrán af hálfu foreldra.
          Ályktun um baráttu gegn umburðarleysi og mismunun gagnvart kristnum mönnum á ÖSE-svæðinu.
          Ályktun um að efla stefnumótun til hagsbóta fyrir sígauna.
          Ályktun um að efla stefnumótun á sviði jafnréttis kynjanna meðal sígauna.
          Ályktun um starfsemi nefndar fastaráðs ÖSE um mannlegu víddina.
          Ályktun um vitnavernd – áskorun gagnvart réttlæti og sættum.