Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 668. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 1074  —  668. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um orlof, nr. 30/1987, með síðari breytingum.

Flm.: Magnús M. Norðdahl, Björgvin G. Sigurðsson, Valgerður Bjarnadóttir,
Lúðvík Geirsson, Árni Páll Árnason, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,
Árni Þór Sigurðsson, Þór Saari.


1. gr.

    Við 3. mgr. 4. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ljúki því ekki fyrir lok orlofsársins skal sá hluti orlofs sem ekki hefur verið tekinn greiðast launþega með 25% álagi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Hvíld frá launuðum störfum er hluti af lög- og kjarasamningsbundnum lágmarksréttindum launafólks og er auk þess mikilvæg regla í vinnuvernd. Í of mörgum tilvikum vill það gerast að orlofstaka ferst fyrir og orlofsréttur færist milli orlofsára eða að orlof er greitt út innan orlofsársins án tengsla við orlofstöku. Hvort tveggja fer þvert gegn ákvæðum 13. gr. laganna þar sem segir að framsal orlofslauna og flutningur þeirra á milli orlofsára sé óheimill.
    Vinnuveitendur bera höfuðábyrgð á skipulagi vinnu og vinnuvernd starfsmanna sinna og skulu skv. 5. gr. laga um orlof ákveða í samráði við starfsmenn hvenær orlof skuli veitt. Breytingunni sem hér er lögð til er ætlað styrkja framkvæmd 13. gr. laganna og að hvetja vinnuveitendur til þess að skipuleggja orlofstöku starfsmanna sinna þannig að henni ljúki fyrir lok hvers orlofsárs, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Þeim hvata verður best komið fyrir með því að kveða með skýrum hætti á um að álag skuli greitt á það orlof sem greiða þarf út, farist orlofstakan fyrir.