Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 691. máls.

Þingskjal 1123  —  691. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 139/2005, um starfsmannaleigur,
með síðari breytingum (starfskjör starfsmanna).

(Lagt fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011–2012.)
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Í stað 1. málsl. 1. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Lög þessi gilda um starfsmannaleigur á innlendum vinnumarkaði og starfsmenn þeirra. Jafnframt gilda lög þessi um skyldur notendafyrirtækja í tengslum við samning þeirra við starfsmannaleigur.
     b.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Með notendafyrirtæki er átt við einstakling, fyrirtæki, opinberan aðila eða annan þann sem stundar atvinnurekstur og hefur starfsmenn starfsmannaleigu til að sinna tímabundnum störfum undir verkstjórn sinni.
                  Með starfsmanni starfsmannaleigu er átt við einstakling sem er ráðinn hjá starfsmannaleigu til að sinna tímabundnum störfum fyrir notendafyrirtæki undir verkstjórn þess.

2. gr.

    5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Á eftir 5. gr. laganna kemur ný grein, 5. gr. a, svohljóðandi:
    Starfsmaður starfsmannaleigu skal á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði notið hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi, sbr. einnig 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum.
    Á þeim tíma sem starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki skal fyrirtækið veita honum sama aðgang að hvers konar aðbúnaði og sameiginlegri aðstöðu, svo sem mötuneyti og samgöngum, og starfsmenn notendafyrirtækisins njóta, nema gild rök mæli með annarri meðferð vegna hlutlægra þátta.

4. gr.

    Við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Notendafyrirtæki skal veita starfsmanni starfsmannaleigu, á þeim tíma sem hann sinnir störfum fyrir fyrirtækið, tímanlega upplýsingar um störf sem losna innan fyrirtækisins, þ.m.t. hlutastörf, til að hann hafi sömu tækifæri til að vera ráðinn ótímabundið og aðrir starfsmenn. Heimilt er að veita slíkar upplýsingar með almennum tilkynningum á viðeigandi stað innan notendafyrirtækis.

5. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Starfsmannaleiga skal leitast við að greiða fyrir aðgangi starfsmanns síns að starfsmenntun og starfsþjálfun, meðal annars svo að hann geti aukið hæfni sína og til að stuðla að framgangi og hreyfanleika hans í starfi. Gildir það einnig á milli þess sem starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki. Á þeim tíma sem starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki skal starfsmannaleigan jafnframt leitast við að greiða fyrir aðgangi starfsmannsins að starfsmenntun og starfsþjálfun sem er ætluð starfsmönnum hlutaðeigandi notendafyrirtækis.

6. gr.

    Lög þessi, sem eru sett með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB, um starfsmannaleigur, öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Sérlög um starfsmannaleigur hafa gilt hér á landi frá árinu 2005, sbr. lög nr. 139/2005, um starfsmannaleigur, með síðari breytingum, en þá þótti nauðsynlegt að setja ákveðnar lágmarksreglur um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi í ljósi þess að á árunum á undan hafði færst í vöxt að íslensk fyrirtæki nýttu sér þjónustu starfsmannaleigna. Í lögunum er að finna almenn ákvæði um starfsemi starfsmannaleigna hér á landi. Þar á meðal er kveðið á um að starfsmannaleigum sé óheimilt að krefjast greiðslna frá starfsmönnum sínum fyrir að bjóða eða veita þeim vinnu, hvort sem er við upphaf ráðningarsambands eða síðar. Enn fremur er í lögunum takmörkun á því hvenær starfsmannaleiga getur leigt út starfsmann til fyrirtækis sem viðkomandi starfsmaður hefur áður starfað hjá. Jafnframt er starfsmannaleigu óheimilt að takmarka rétt starfsmanns sem leigður hefur verið til notendafyrirtækis til að stofna síðar til ráðningarsamnings við það fyrirtæki.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum um starfsmannaleigur með hliðsjón af tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/104/EB, frá 19. nóvember 2008 um starfsmannaleigur (e. Directive 2008/104/EC of the European Parliament and of the Council of 19 November 2008 on temporary agency work). Ákvæði laga um starfsmannaleigur eru að miklum hluta efnislega samhljóða ákvæðum fyrrnefndrar tilskipunar um starfsmannaleigur en í aðfaraorðum að tilskipuninni kemur meðal annars fram að henni sé ætlað að setja ramma um kjör og réttindi starfsmanna starfsmannaleigna um leið og tekið er tillit til þess að fyrirtæki þurfi ákveðinn sveigjanleika við ráðningu starfsfólks. Áhersla er lögð á að ótímabundnir ráðningarsamningar skuli vera ríkjandi ráðningarform og að ráðningarkjör starfsmanna starfsmannaleigna skuli ekki vera lakari en þeirra starfsmanna sem ráðnir hafa verið beint til hlutaðeigandi notendafyrirtækja. Þar sem um nýlega tilskipun er að ræða er ljóst að ekki hefur reynt mikið á ákvæði hennar í framkvæmd. Þykir því mikilvægt að við framkvæmd laganna, verði frumvarp þetta að lögum, verði fylgst vel með dómaframkvæmd Evrópudómstólsins sem og EFTA-dómstólsins á komandi missirum, ekki síst í tengslum við samspil gildissviðs umræddrar tilskipunar við gildissvið annarra tilskipana Evrópusambandsins og þá einkum tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB, um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu.
    Við gerð frumvarps þessa hafði velferðarráðuneytið samráð við Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasamband Íslands, starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.
    Meginreglan á íslenskum vinnumarkaði er sú að starfsmenn eru ráðnir ótímabundið beint til vinnuveitanda enda ríkir ákveðinn sveigjanleiki í ráðningum sem ætlað er að auðvelda fyrirtækjum að bregðast við sveiflum í starfsemi þeirra. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um starfsmannaleigur kemur meðal annars fram að lögunum sé ekki ætlað að breyta þeirri óskráðu reglu. Hið sama gildir um frumvarp þetta. Það er sem endranær sameiginlegur vilji velferðarráðherra, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, fjármálaráðherra, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins að ótímabundnir ráðningarsamningar starfsmanna beint við vinnuveitendur sína verði áfram ríkjandi ráðningarform hér á landi. Þessi vilji aðila var meðal annars áréttaður í bókun með kjarasamningi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins á almennum vinnumarkaði frá 5. maí 2011. Þar var meðal annars undirstrikað að samkvæmt lögum nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum, ákveða kjarasamningar lágmarkskjör á íslenskum vinnumarkaði. Enn fremur var undirstrikað í fyrrnefndri bókun að meginregla tilskipunarinnar um starfsmannaleigur um jafna meðhöndlun yrði lögfest hér á landi og að miðað yrði við að á þeim tíma sem starfsmenn starfsmannaleigu starfa hjá notendafyrirtæki skuli ráðningarkjör þeirra vera að minnsta kosti þau sem hefðu gilt ef þeir hefðu verið ráðnir beint til viðkomandi fyrirtækis til að sinna sama starfi. Þar yrði vísað til raunverulegra launakjara hjá notendafyrirtækinu hvernig sem þau væru ákvörðuð og hvernig sem þau væru greidd.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að nánar verði skilgreint hvað teljist vera notendafyrirtæki og hverjir teljist vera starfsmenn starfsmannaleigu. Enn fremur er lagt til að sérstaklega verði kveðið á um að starfsmaður starfsmannaleigu skuli að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði ella notið hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækis. Þetta ákvæði er í samræmi við 1. mgr. 5. gr. tilskipunarinnar um starfsmannaleigur. Jafnframt er í frumvarpinu áréttað að notendafyrirtæki skuli veita starfsmanni starfsmannaleigu á þeim tíma er hann starfar fyrir fyrirtækið sama aðgang að hvers konar aðbúnaði og sameiginlegri aðstöðu sem starfsmenn fyrirtækisins njóta nema gild rök mæli með annarri meðferð vegna hlutlægra þátta. Í samræmi við meginregluna um ótímabundna ráðningu er enn fremur lögð áhersla á mikilvægi þess að veita starfsmanni starfsmannaleigu tímanlega upplýsingar um störf sem losna innan notendafyrirtækisins til að hann hafi sömu tækifæri til að vera ráðinn ótímabundið og aðrir starfsmenn. Í sama tilgangi er jafnframt lagt til að starfsmannaleiga leitist við að greiða fyrir aðgangi starfsmanns síns að starfsmenntun og starfsþjálfun, sbr. einnig 5. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar um starfsmannaleigur. Þá gerir tilskipunin ráð fyrir að notendafyrirtæki tryggi starfsmönnum starfsmannaleigna öryggi, aðbúnað og hollustuhætti á þeim tíma er þeir sinna störfum fyrir þau með sama hætti og öðrum starfsmönnum þeirra. Í þessu sambandi þykir rétt að árétta að litið er svo á að lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gildi um starfsmenn starfsmannaleigna er þeir eru að störfum fyrir notendafyrirtæki og er ekki gert ráð fyrir breytingu að þessu leyti verði frumvarp þetta að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Lagt er til að tekið verði skýrar fram að lögum um starfsmannaleigur sé ekki eingöngu ætlað að gilda um starfsemi starfsmannaleigna heldur einnig um starfsmenn þeirra. Ítreka ber þó að ekki er um að ræða breytingu á gildissviði laganna að þessu leyti. Þykir jafnframt mikilvægt að skilgreina frekar hvað átt er við með starfsmönnum starfsmannaleigna í skilningi frumvarps þessa og þar með laganna um starfsmannaleigur. Er þá átt við einstaklinga sem ráðnir eru hjá starfsmannaleigu til að sinna tímabundnum störfum fyrir notendafyrirtæki undir verkstjórn þess síðarnefnda. Er sú skilgreining í samræmi við skilgreiningu umræddrar tilskipunar um starfsmannaleigur á starfsmanni starfsmannaleigu, sbr. c-lið 3. gr. tilskipunarinnar. Enn fremur er lagt til að tekið verði fram að gildissvið laga um starfsmannaleigur taki einnig til skyldna notendafyrirtækja sem leiða megi af samningum þeirra við starfsmannaleigur. Í þessu sambandi er skýrt nánar hvað átt er við með notendafyrirtæki í skilningi laganna. Er þar átt við einstakling, fyrirtæki, opinberan aðila eða annan þann sem stundar atvinnurekstur, sem hefur starfsmenn starfsmannaleigu til að sinna tímabundnum störfum undir verkstjórn sinni, sbr. einnig d-lið 3. gr. tilskipunarinnar um starfsmannaleigur.

Um 2. gr.


    EFTA-dómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu í máli Eftirlitsstofnunar EFTA gegn Íslandi, nr. E-12/10, frá 28. júní 2011, að efni 7. gr. laga nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, og vísað er til í 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna um starfsmannaleigur, brjóti í bága við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB, um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Er því lagt til að umræddur 5. tölul. 1. mgr. 4. gr. í lögum um starfsmannaleigur falli brott.

Um 3. gr.


    Umrædd tilskipun um starfsmannaleigur fjallar meðal annars um meginregluna um jafna meðferð að því er varðar ráðningar- og starfsskilyrði. Skv. 5. gr. tilskipunarinnar skulu starfsmenn starfsmannaleigna njóta að minnsta kosti sömu almennu ráðningar- og starfsskilyrða (e. basic working and employment conditions) og þeir hefðu notið hefðu þeir verið ráðnir beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi. Almenn ráðningar- og starfsskilyrði eru nánar skilgreind í f-lið 3. gr. tilskipunarinnar sem ráðningar- og starfsskilyrði eins og þau eru ákveðin með lögum, reglugerðum, stjórnsýslufyrirmælum eða kjarasamningum sem gilda í notendafyrirtækinu að því er varðar laun, lengd vinnutíma, yfirvinnu, hlé, hvíldartíma, næturvinnu, orlof og lögboðna frídaga. Er því í frumvarpi þessu lagt til að kveðið verði á um að starfsmenn starfsmannaleigna skuli á þeim tíma er þeir sinna störfum fyrir notendafyrirtæki njóta að lágmarki sömu launa og annarra starfskjara og þeir hefðu ella notið hefðu þeir verið ráðnir beint til notendafyrirtækisins til að gegna sama starfi. Í þessu sambandi er jafnframt vísað til 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með síðari breytingum, til að undirstrika að kjarasamningar aðila vinnumarkaðarins eru lágmarkskjör á innlendum vinnumarkaði fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til. Samningar einstakra launamanna og vinnuveitanda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir. Gildir það um starfsmenn starfsmannaleigna á sama hátt og um aðra starfsmenn á innlendum vinnumarkaði.
    Þá gerir tilskipunin um starfsmannaleigur ráð fyrir að á þeim tíma er starfsmaður starfsmannaleigu sinnir störfum fyrir notendafyrirtæki skuli notendafyrirtækið veita honum sama aðgang að hvers konar aðbúnaði og sameiginlegri aðstöðu sem starfsmenn þess njóta nema gild rök leiði til annarrar meðferðar vegna hlutlægra þátta. Í ákvæðinu sjálfu er mötuneyti og samgöngur nefnd sem dæmi en fleiri atriði kunna að koma þar til, svo sem íþróttaaðstaða sem starfsmenn notendafyrirtækisins hafa aðgang að. Með samgöngum er þá átt við er notendafyrirtæki greiðir fyrir ferðir starfsmanna til og frá vinnu að fullu eða að hluta eða hefur bifreiðar í þjónustu sinni til að koma starfsmönnum til og frá vinnu.

Um 4. gr.


    Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. tilskipunar þeirrar sem hér um ræðir skulu starfsmenn starfsmannaleigu vera upplýstir um lausar stöður innan notendafyrirtækis í því skyni að tryggja að þeir hafi sömu tækifæri til að fá ótímabundið starf og aðrir. Er því í frumvarpi þessu lagt til að sú skylda verði lögð á notendafyrirtæki að veita starfsmönnum starfsmannaleigu tímanlega upplýsingar um störf sem losna innan fyrirtækisins á þeim tíma sem starfsmennirnir starfa fyrir fyrirtækið. Í þessu sambandi skiptir ekki máli hvort um er að ræða fullt starf eða hlutastarf. Ákvæði þetta er jafnframt efnislega samhljóða 1. mgr. 6. gr. laga nr. 139/2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna. Tilgangur þessa er að tryggja að starfsmaður starfsmannaleigu fái upplýsingar um laus störf við sitt hæfi til að auka þannig tækifæri hans til að öðlast ótímabundna ráðningu enda eru ótímabundnar ráðningar meginreglan á innlendum vinnumarkaði. Þetta felur þó ekki í sér að starfsmaður starfsmannaleigu hafi ósjálfráðan forgang í starfið.
    Á sama hátt og gildir um 1. mgr. 6. gr. laga um tímabundna ráðningu er gert ráð fyrir að notendafyrirtækið ákveði með hvaða hætti það upplýsir starfsmenn starfsmannaleigu um lausar stöður. Í því sambandi gæti hann veitt upplýsingarnar með almennri auglýsingu á viðeigandi stað innan fyrirtækisins eða á starfsstöðinni. Ætla má að dæmi um slíka staði séu kaffistofur fyrirtækisins eða þar til gerðar töflur þar sem venja er að hengja upp tilkynningar til starfsmanna. Enn fremur væri unnt að auglýsa stöðuna á innra neti fyrirtækisins eða í fréttablaði þess sé slíkt fyrir hendi. Um auglýsingar á lausum störfum í þjónustu ríkisins gilda auk þess ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæði þetta breyti reglum að baki auglýsingaskyldunni um jafnræði þeirra sem sækja um störf hjá ríkinu.

Um 5. gr.


    Lagt er til að starfsmannaleigur leitist við að greiða fyrir aðgangi starfsmanna sinna að starfsmenntun og starfsþjálfun. Markmiðið er að viðkomandi starfsmenn eigi þess kost að auka hæfni sína í starfi og þar með stuðla að framgangi sínum og hreyfanleika í starfi. Er jafnframt tekið fram að þetta gildi einnig á milli þess sem starfsmaður starfar fyrir notendafyrirtæki. Þá er áhersla lögð á þeim tíma sem starfsmenn starfsmannaleigna sinna störfum fyrir notendafyrirtæki skuli viðkomandi starfsmannaleiga jafnframt leitast við að greiða fyrir aðgangi starfsmannsins að starfsmenntun og starfsþjálfun sem ætluð er starfsmönnum hlutaðeigandi notendafyrirtækis. Má ætla að starfsmenn starfsmannaleigu geti þannig aukið líkur á að vera ráðnir ótímabundinni ráðningu beint til vinnuveitanda sem er ríkjandi ráðningarform á íslenskum vinnumarkaði. Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 5. mgr. 6. gr. þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir en jafnframt á það sér fyrirmynd í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 139/ 2003, um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Um 6. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 139/2005,
um starfsmannaleigur, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er verið að bregðast við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 19. nóvember 2008 um starfsmannaleigur. Í því er settur rammi um kjör og réttindi starfsmanna starfsmannaleigna um leið og tekið er tillit til þess að fyrirtækin þurfi ákveðinn sveigjanleika við ráðningu starfsfólks.
    Í fyrsta lagi er lagt til að starfsmaður starfsmannaleigu skuli að lágmarki njóta sömu launa og annarra starfskjara og hann hefði ella notið hefði hann verið ráðinn beint til notendafyrirtækis. Í öðru lagi er lögð áhersla á mikilvægi þess að veita starfsmanni starfsmannaleigu tímanlega upplýsingar um störf sem losna innan notendafyrirtækisins til að hann hafi sömu tækifæri til að vera ráðinn ótímabundið og aðrir starfsmenn. Einnig er lagt til að starfsmannaleiga leitist við að greiða fyrir aðgangi starfsmanns síns að starfsmenntun og starfsþjálfun.
    Þar sem ákvæði frumvarpsins fjalla eingöngu um skyldur notendafyrirtækja og skyldur starfsmannaleigna gagnvart starfsmönnum starfsmannaleigna verður ekki séð að frumvarpið muni auka útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.