Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 762. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Prentað upp.

Þingskjal 1493  —  762. mál.
Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu



um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum (sparisjóðir).

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kjartan Gunnarsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, Ragnar Birgisson og Guðjón Guðmundsson frá Sambandi íslenskra sparisjóða, Jón Gunnar Jónsson frá Bankasýslu ríkisins, Yngva Örn Kristinsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ragnar Hafliðason, Björk Sigurgísladóttur og Hjálmar Brynjólfsson frá Fjármálaeftirlitinu, Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Sigríði Benediktsdóttur og Jónas Þórðarson frá Seðlabanka Íslands og Ragnar F. Ólafsson.
    Þá hélt nefndin símafundi með Elíasi Jónatanssyni og Baldri S. Einarssyni frá Bolungarvíkurkaupstað, Ingibjörgu Benediktsdóttur frá Strandabyggð, Birni Torfasyni frá Árneshreppi, Sigurði Val Ásbjarnarsyni og fleirum frá Fjallabyggð, Hjalta Þór Vignissyni frá Sveitarfélaginu Hornafirði, Ástu Björgu Pálmarsdóttur, Bjarna Jónssyni og Stefáni Vagni Stefánssyni frá Sveitarfélaginu Skagafirði, Eiríki Birni Björgvinssyni og Oddi Helga Halldórssyni frá Akureyrarbæ, Jóhanni Ingólfssyni frá Grýtubakkahreppi, Dagbjörtu Jónsdóttur frá Þingeyjarsveit, Dagbjörtu S. Bjarnadóttur og Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur frá Skútustaðahreppi, Bergi Elíasi Ágústssyni frá Norðurþingi, Helga Mar Árnasyni, Gunnólfi Lárussyni, Siggeiri Stefánssyni og Ævari Rafni Marínóssyni frá Langanesbyggð, Rut Haraldsdóttur og Sigurbergi Ármannssyni frá Vestmannaeyjabæ, Jóni Birni Hákonarsyni frá Fjarðabyggð og Ólafi Elíssyni frá Sparisjóði Vestmannaeyja.
    Loks hefur nefndin fengið umsagnir frá Akureyrarbæ, Grýtubakkahreppi, Sparisjóði Höfðhverfinga og KEA svf. sameiginlega, Fjármálaeftirlitinu, Langanesbyggð, Sambandi íslenskra sparisjóða, Samtökum fjármálafyrirtækja, Viðskiptaráði Íslands og Seðlabanka Íslands.
    Tillögur frumvarpsins eru samdar á grundvelli vinnu starfshóps sparisjóðanna með aðkomu Bankasýslu ríkisins og er þeim ætlað að gera sparisjóðunum kleift að breyta rekstrarformi sínu úr því að vera rekstrarfélag yfir í hlutafélag auk þess sem möguleikar þeirra til samruna og yfirtöku eru auknir og skýrðir.
    Markmið frumvarpsins er að styrkja rekstrargrundvöll sparisjóðakerfisins sem átt hefur undir högg að sækja á undanförnum árum. Fram kemur í athugasemdum frumvarpsins að allir stærstu sjóðir landsins hafi hætt starfsemi sinni og þeir sem eftir standi hafi flestir þurft að ganga í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Til að auðvelda sjóðunum að ráða bót á þörf sinni fyrir aukið eigið fé er lagt til að heimilt verði að reka sjóðina í formi hlutafélags. Hugtakið sparisjóður verður þar af leiðandi ekki lengur bundið við sérstaka tegund sjálfseignarstofnunar heldur verður það samheiti yfir tiltekna gerð fjármálafyrirtækja sem ýmist verði reknar í formi sjálfseignarstofnunar eða hlutafélags en beri um leið að takmarka starfsemi sína við inn- og útlánastarfsemi og verja a.m.k. 5% hagnaðar liðins árs til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu.
    Fram kemur í kostnaðarumsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins að með aðkomu nýrra fjárfesta að sparisjóðum kunni eiginfjárgrundvöllur þeirra að styrkjast og rekstrarhæfi að batna sem hefði jákvæð áhrif á virði eignarhluta ríkissjóðs.
    Loks er lagt til að bráðabirgðaákvæði VI í lögum um fjármálafyrirtæki verði framlengt til loka næsta árs. Ákvæðið var lögfest með setningu neyðarlaganna, nr. 125/2008, og varðar inngripsheimildir Fjármálaeftirlitsins við sérstakar aðstæður á fjármálamarkaði. Á meðan framtíðarskipan þessara mála hefur ekki verið ákveðin á vettvangi Evrópusambandsins telur efnahags- og viðskiptaráðuneytið þörf á að ákvæðið haldi gildi sínu enn um sinn.

Breyting á rekstrarformi sjálfseignarstofnunar í hlutafélag.
    Í nýlegri skýrslu efnahags- og viðskiptaráðherra um fjármálamarkaðinn er þess getið að samhliða efnahagsáætluninni sem unnin var í samstarfi íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi m.a. verið ráðist í heildarendurskoðun á lagaumhverfi sparisjóðanna, sbr. lög nr. 76/2009. Með þeim hafi verið lagt bann við því að sparisjóðir breyttu um rekstrarform.
    Í samræmi við það meginmarkmið frumvarpsins að auka möguleika starfandi sparisjóða til að sækja sér eigið fé á markaði er aftur á móti lagt til í 5. gr. h að þeim verði heimilt að breyta rekstrarformi sínu í hlutafélag ef tilskilinn meiri hluti stofnfjáreigenda samþykkir. Fram hafa komið sjónarmið um að breyting félagaformsins sé í sumum tilvikum nauðsynleg ef takast eigi að laða fjárfesta að sjóðunum. Ólíkt stofnfjáreigendum mundu hluthafar í hlutafélagasparisjóði sem dæmi eiga hlutdeild í óráðstöfuðu eigin fé hlutafélagsins.
    Ef samþykki tilskilins meiri hluta eigenda næst stofnar sparisjóðurinn hlutafélag sem yfirtekur sjálfseignarstofnunina með þeim hætti sem kveðið er á um í 5. gr. g.
    
Takmörkun starfsheimilda.
    Sparisjóðum ber skv. 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um fjármálafyrirtæki að hafa með höndum inn- og útlánastarfsemi en jafnframt geta þeir fengið starfsleyfi sem tekur til eignaleigu, útgáfu rafeyris og viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga en undir síðastnefnda flokkinn fellur m.a. eignastýring. Ekki er gerður greinarmunur á heimildum sparisjóða og viðskiptabanka og eru þær nánar útlistaðar í IV. kafla umræddra laga. Frumvarpið gerir aftur á móti ráð fyrir að sjóðirnir takmarki starfsemi sína við hefðbundna viðskiptabankastarfsemi til aðgreiningar frá fjárfestingarstarfsemi og má um það vísa til 1. gr. og b-liðar 2. gr. Starfsheimildir sjóðanna eiga samkvæmt því að taka til inn- og útlánastarfsemi og útgáfu rafeyris en ekki eignaleigu og viðskipta og þjónustu með fjármálagerninga auk þess sem sjóðunum verður heimilt að eiga með sér samstarf um tiltekin verkefni á almennum viðskiptalegum forsendum, sbr. 4. gr. e.
    Skiptar skoðanir komu fram um það hvort ákvæði frumvarpsins þrengdu óeðlilega að starfsheimildum sjóðanna með tilliti til samkeppnisstöðu og möguleika til tekjuöflunar. Flestir telja það jákvætt að heimildir þeirra verði takmarkaðar við að sinna hefðbundinni viðskiptabankaþjónustu. Í ljósi reynslu telja þeir að sérstaða sjóðanna í samkeppnislegu tilliti hafi byggst á skilningi sjóðanna á þörfum og innviðum þess samfélags sem þeir starfa í. Mikilvægi sjóðanna fyrir landsbyggðina sé þar af leiðandi ótvírætt enda þótt erfiðleikar í rekstri eigi að gefa þeim tilefni til hagræðingar, eftir atvikum með því að sameinast öðrum. Ríkið geti einnig lagt sitt á vogarskálarnar með því að lækka opinberar álögur sem sjóðirnir eigi verulega erfitt með að standa undir. Sem dæmi má nefna sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 155/2010, fjársýsluskatt, sbr. lög nr. 165/2011, og iðgjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, sbr. lög nr. 98/1999.
    Í sameiginlegri umsögn Akureyrarbæjar, Grýtubakkahrepps, KEA svf. og Sparisjóðs Höfðhverfinga er talið að frumvarpið muni að óbreyttu standa í vegi fyrir því að sjóðirnir geti haft eignastýringu með höndum og girði þannig fyrir að þeir geti boðið einstaklingum heildstæða þjónustu. Fyrir vikið séu þeir ekki jafn fýsilegur fjárfestingarkostur og ella væri. Gegn þessum sjónarmiðum var bent á að ekki væri kunnugt um neinn sparisjóð sem stundaði slíka starfsemi í dag auk þess sem lágmarkshlutafé/stofnfé sparisjóðs þyrfti þá að vera 5 milljónir evra, sbr. 2. mgr. 14. gr., 3. mgr. 20. gr. og 25. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt frumvarpinu þurfa sparisjóðir sem starfa á afmörkuðum, staðbundnum markaði einungis að vera með lágmarkshlutafé/stofnfé að fjárhæð 1 milljón evra og er þá miðað við að starfsheimildir þeirra takmarkist við hefðbundna viðskiptabankastarfsemi, sbr. 3. mgr. 14. gr. umræddra laga.
    Að höfðu samráði við efnahags- og viðskiptaráðuneyti leggur meiri hlutinn til þá breytingu á frumvarpinu að sparisjóðum verði heimilt að afla sér starfsheimilda verðbréfafyrirtækis kjósi þeir svo en þurfi þá að uppfylla sömu öryggiskröfur og önnur fjármálafyrirtæki sem veita sambærilega þjónustu, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Á sama tíma eigi tillagan að tryggja að sparisjóðir, sem vilja einbeita sér að inn- og útlánastarfsemi og annarri grunnþjónustu fyrir sitt nærsamfélag, geti gert það án þess að þurfa að vera með fullt viðskiptabankaleyfi.
    Í annan stað hefur athygli meiri hlutans verið vakin á því að sparisjóður með 1 milljón evra stofnfé/hlutafé/eiginfjárgrunn gæti átt dótturfélag sem stundar eignastýringu, að viðeigandi skilyrðum uppfylltum, m.a. þeim að félagið fengi starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki og sparisjóðurinn yrði metinn hæfur sem virkur eigandi í því fyrirtæki. Í þeim tilvikum yrði litið á eignarhlut sparisjóðsins sem hliðarstarfsemi hans skv. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 161/ 2002, um fjármálafyrirtæki.
    Í umsögn Fjármálaeftirlitsins er vakin athygli á því að verði frumvarpið samþykkt óbreytt geti sparisjóður ekki átt viðskipti fyrir eigin reikning og fyrir viðskiptavini með gjaldeyri og greiðsluskjöl á peningamarkaði, sbr. a- og b-lið 7. tölul. 1. mgr. 20. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins frá 24. maí sl. er á það bent að af 9. tölul. 4. gr. e frumvarpsins leiði að sjóðirnir hafi heimild til að eiga með sér samstarf, þ.m.t. um innlenda og erlenda greiðslumiðlun og þjónustu við erlend viðskipti, og geti á þeim grundvelli samið við aðila sem hafi slíkar heimildir í umboði þeirra.
    
Samfélagslegt hlutverk.
    Samkvæmt 4. gr. c frumvarpsins skal sparisjóður ráðstafa að lágmarki 5% af hagnaði liðins árs fyrir skatt til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu og er ráðherra veitt heimild til að afmarka nánar hvaða málefni þarna sé átt við. Í athugasemdum við greinina kemur fram að gert sé ráð fyrir að verkefnin geti verð fjölbreytileg og tengd menningu, íþróttum, líknarmálum og uppbyggingu þess samfélags þar sem sjóðurinn starfar, svo sem atvinnumálum og endurmenntun.
    Af hálfu þeirra fulltrúa sveitarstjórna sem nefndin ræddi við virtist vera einhugur um að greiða fyrir endurreisn sparisjóðakerfisins þar sem sjóðirnir hefðu stutt vel við uppbyggingu í sinni heimabyggð. Nefndin ræddi í því ljósi hvort viðmið um ráðstöfun 5% hagnaðar til samfélagslegra verkefna væri of lágt eins og sumir telja en fékk á móti þau svör að um væri að ræða lágmarkshlutfall sem sparisjóðunum væri heimilt að yfirstíga. Sérstaklega væri horft til aðila í heimabyggð til að leggja rekstrinum til fjármagn en þó þyrfti að gæta þess að hafa hlutfallið ekki of hátt til að fæla þá ekki frá.
    Í umsögn Seðlabanka Íslands er lagt til að heimild sparisjóðs til að ráðstafa að lágmarki 5% hagnaðar liðins árs eftir skatt til samfélagslegra verkefna á starfssvæði sínu verði bundin því skilyrði að eiginfjárstaða sjóðsins sé nægilega sterk.

Sjálfseignarstofnun sem er sparisjóður.
    Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins kemur fram að eigið fé sem myndast í rekstri sjálfseignarstofnunar, umfram stofnfé, sé eign hennar og er það nefnt óráðstafað eigið fé. Stofnfjáreigendur eru vörsluaðilar þess fjár en ekki eigendur og ber að ávaxta það jafnvel og sitt eigið stofnfé og eiga ekki rétt til annars endurgjalds af stofnfé sínu en arðs af rekstrinum. Þung áhersla er lögð á að ákvæðum hlutafélagalaga verði ekki beitt þannig að ekki fái samrýmst sérstöðu sparisjóðs sem sjálfseignarstofnunar, sbr. upphafsmálslið 5. gr. a. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. c er stofnfjáreigendum óheimilt að ganga að óráðstöfuðu eigin fé sjálfseignarstofnunar, við ákvörðun arðs, eða með öðrum hætti, svo sem með innlausn eða kaupum sjálfseignarstofnunarinnar á eigin stofnfjárhlutum á hærra verði en nafnverði. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir að stofnfjáreigendur sem fara með æðsta vald í málefnum félagsins nýti óráðstafað eigin fé til eigin ávinnings.
    Enn fremur kemur fram í athugasemdum við 2. mgr. 5. gr. e að þörf sé á að reisa skorður við að hagnaður sé færður af rekstri sparisjóðs yfir á stofnfé sem kemur í veg fyrir myndun eðlilegs varasjóðs í formi óráðstafaðs eigin fjár. Takmarkast heimild stofnfjáreigenda til að hækka stofnfé með endurmati af þeim sökum við breytingar á vísitölu neysluverðs.
    Í minnisblaði efnahags- og viðskiptaráðuneytis frá 24. maí sl. kemur fram að verði hagnaður af rekstri stofnfjársparisjóðs og heimild til greiðslu arðs ekki nýtt yfirfærist hagnaðurinn sem óráðstafað eigið fé til næsta árs og glata þá stofnfjáreigendur rétti sínum til arðgreiðslu. Til svars við athugasemdum sem fram koma í sameiginlegri umsögn Akureyrarbæjar, Grýtubakkahrepps, KEA svf. og Sparisjóðs Höfðhverfinga bendir ráðuneytið einnig á að mikilvægt sé að girða fyrir að öllum hagnaði, að frádregnum þeim sem varið er til samfélagslegra verkefna, sé ráðstafað til stofnfjáreigenda í gegnum hækkun stofnfjár.
    
Samruni, sbr. 5. gr. g.
    Fram kemur að þegar sparisjóður sem sjálfseignarstofnun rennur saman við annað fjármálafyrirtæki geti hlutur stofnfjáreigenda í endurgjaldi ekki orðið hlutfallslega hærri en sem nemur hlutfalli stofnfjár af eigin fé sparisjóðsins. Ef fjármálafyrirtækið er hlutafélag fer samruninn fram með þeim hætti að sjálfseignarstofnunin er yfirtekin og henni slitið. Endurgjald fyrir óráðstafað eigið fé rennur þá til sérstakrar sjálfseignarstofnunar sem stjórn hins yfirtekna sparisjóðs ber ábyrgð á að stofna og ætlað er að starfa eftir staðfestri skipulagsskrá, sbr. lög nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Fram kemur að sjálfseignarstofnun þessari sé ætlað að rækja og stuðla að framgangi þeirra samfélagslegu verkefna sem samþykktir yfirtekins sparisjóðs kveða á um. Einnig koma fram í 5. gr. g sérstök ákvæði um skipan stjórnar sjóðsins og er einn af þremur tilnefndur af sveitarfélagi á starfssvæði sjóðsins en hinir tveir eru ráðherraskipaðir.
    Endurgjaldið fyrir óráðstafað eigið fé má aðeins vera í formi peninga eða skuldabréfs og skal óháður aðili meta hvort það sé sanngjarnt og eðlilegt með tilliti til þess sem kemur í hlut stofnfjáreigenda. Matið sætir staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Þá er stjórn hins yfirtekna sparisjóðs heimilt í stað þess að stofna sjálfseignarstofnun um endurgjaldið að ráðstafa því beint til samfélagslegra verkefna að fenginni staðfestingu ráðherra sveitarstjórnar- og fræðslumála sem mundu þurfa að taka afstöðu til þess hvort ráðstöfunin samrýmdist samþykktum viðkomandi sjóðs.
    Við samruna tveggja sparisjóða sem reknir eru sem sjálfseignarstofnanir skal óráðstafað eigið fé beggja renna saman þó með þeim fyrirvara að sé óráðstafað eigið fé annars neikvætt verði að jafna það áður en til samrunans kemur. Fyrirvarinn styðst við þau rök að ekki sé verið að nota óráðstafað eigið fé eins sparisjóðs til að bæta stofnfjáreigendum annars sparisjóðs stofnfé sitt sem er tapað að hluta.
    Ef sparisjóður sem sjálfseignarstofnun yfirtekur fjármálafyrirtæki sem er hlutafélag, hvort sem það fjármálafyrirtæki er sparisjóður eða ekki, gilda ákvæði 106. gr. laga um fjármálafyrirtæki um samrunann að öllu leyti.
    Í skýrslu um starfsemi Bankasýslu ríkisins 2011 er vikið að framtíð sparisjóðakerfisins hér á landi og hvaða leiðir séu færar til að tryggja arðbæran rekstur sparisjóða til lengri tíma. Telur stofnunin að þeir sjóðir sem eftir standa hafi flestir hagrætt talsvert í rekstri sínum eftir bankahrunið en að ósennilegt sé að tækifæri séu til frekari hagræðingar haldi þeir áfram að starfa með óbreyttu sniði. Af því verður ekki annað ráðið en að full vinna standi yfir við að kanna kosti sameiningar þrátt fyrir að frá samkeppnissjónarmiði sé hagræðing almennt álitin eftirsóknarverðari kostur.
    Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að þeir sparisjóðir sem þegið hefðu eiginfjárframlag frá ríkinu á grundvelli neyðarlaganna hefðu þurft að sæta kröfu um hærra eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum en sparisjóðir sem ekki væru í eigu ríkissjóðs. Þessar mismunandi kröfur gerðu að verkum að staða sjóðanna væri ójöfn og gæti torveldað ferli sameiningar. Fjármálaeftirlitið benti á að hinar auknu kröfur væru tímabundnar og hefðu verið samdar við sérstakar aðstæður til að verja hagsmuni ríkisins sem eiganda.

Tillögur til breytinga.
    Gerð er grein fyrir breytingartillögu meiri hlutans í kaflanum um takmörkun starfsheimilda.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



     1.      Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                      2. og 3. mgr. 14. gr. laganna orðast svo:
                      Hlutafé viðskiptabanka og lánafyrirtækis og stofnfé eða hlutafé sparisjóðs skal að lágmarki nema 5 milljónum evra (EUR).
                      Stofnfé eða hlutafé sparisjóðs sem starfar á afmörkuðu, staðbundnu starfssvæði og hefur starfsleyfi skv. 1., 2. og 5. tölul. 1. mgr. 3. gr. og starfsheimildir skv. 1.–6., 10., 13. og 14. tölul. 1. mgr. 20. gr. skal að lágmarki nema 1 milljón evra. Fjármálaeftirlitið ákvarðar hvað telst afmarkað, staðbundið starfssvæði.
     2.      Við 2. gr. Greinin orðist svo:
                      Á eftir orðinu „sparisjóðir“ í 3. mgr. 20. gr. laganna kemur: sem uppfylla ákvæði 2. mgr. 14. gr.
     3.      Við 3. gr. Greinin orðist svo:
                      Á eftir orðinu „sparisjóðum“ í 23. gr. laganna kemur: sem uppfylla ákvæði 2. mgr. 14. gr.
     4.      Við 5. gr.
                  a.      Í stað „skv. 1. mgr.“ í 2. málsl. og tvívegis í 3. málsl. 3. mgr. h-liðar komi: skv. 2. mgr.
                  b.      Í stað „70. gr.“ í 5. mgr. h-liðar komi: 72. gr.
    Guðlaugur Þór Þórðarson, Tryggvi Þór Herbertsson og Birkir Jón Jónsson skrifa undir álitið með fyrirvara.
    Þráinn Bertelsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. júní 2012.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Skúli Helgason.



Guðlaugur Þór Þórðarson,      með fyrirvara.


Tryggvi Þór Herbertsson,      með fyrirvara.


Birkir Jón Jónsson,


með fyrirvara.



Magnús M. Norðdahl.