Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1610, 140. löggjafarþing 316. mál: menningarminjar (heildarlög).
Lög nr. 80 29. júní 2012.

Lög um menningarminjar.


1. ÞÁTTUR
Almenn ákvæði.
I. KAFLI
Tilgangur og skilgreiningar.

1. gr.

Tilgangur.
     Tilgangur laga þessara er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða.
     Menningarminjar teljast ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Lög þessi ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu.
     Lög þessi eiga að tryggja eftir föngum varðveislu menningarminja í eigin umhverfi, auðvelda aðgang og kynni þjóðarinnar af menningarminjum og greiða fyrir rannsóknum á þeim.

2. gr.

Þjóðminjar og þjóðarverðmæti.
     Þjóðminjar teljast jarðfastar minjar eða lausir gripir eða hlutir sem eru einstakir og hafa sérstaka merkingu og mikilvægi fyrir menningarsögu Íslands. Þjóðminjar skulu vera friðlýstar eða varðveittar í Þjóðminjasafni Íslands eða á vegum þess í viðurkenndum söfnum.
     Til þjóðarverðmæta teljast hvers konar munir, gripir, myndir, skjöl, handrit og bækur í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska þjóðmenningu.
     Ráðherra getur ákveðið að einstakir hlutir í eigu einkaaðila teljist þjóðarverðmæti í merkingu laga þessara.

3. gr.

Fornminjar.
     Fornminjar samkvæmt lögum þessum eru annars vegar forngripir og hins vegar fornleifar.
     Forngripir eru lausamunir 100 ára og eldri sem menn hafa notað eða mannaverk eru á og fundist hafa í eða á jörðu eða jökli, í vatni eða sjó. Skip og bátar frá því fyrir 1950 teljast til forngripa. Til forngripa teljast einnig leifar af líkömum manna og hræjum dýra sem finnast í fornleifum, svo sem fornum haugum, dysjum og leiðum.
     Fornleifar teljast hvers kyns mannvistarleifar, á landi, í jörðu, í jökli, sjó eða vatni, sem menn hafa gert eða mannaverk eru á og eru 100 ára og eldri, svo sem:
  1. búsetulandslag, skrúðgarðar og kirkjugarðar, byggðaleifar, bæjarstæði og bæjarleifar ásamt tilheyrandi leifum mannvirkja og öskuhauga, húsaleifar hvers kyns, svo sem leifar kirkna, bænhúsa, klaustra, þingstaða og búða, leifar af verbúðum, naustum og verslunarstöðum og byggðaleifar í hellum og skútum,
  2. vinnustaðir þar sem aflað var fanga, svo sem leifar af seljum, verstöðvum, bólum, mógröfum, kolagröfum og rauðablæstri,
  3. tún- og akurgerði, leifar rétta, áveitumannvirki og aðrar ræktunarminjar, svo og leifar eftir veiðar til sjávar og sveita,
  4. vegir og götur, leifar af stíflum, leifar af brúm og öðrum samgöngumannvirkjum, vöð, varir, leifar hafnarmannvirkja og bátalægi, slippir, ferjustaðir, kláfar, vörður og önnur vega- og siglingamerki ásamt kennileitum þeirra,
  5. virki og skansar og leifar af öðrum varnarmannvirkjum,
  6. þingstaðir, meintir hörgar, hof og vé, brunnar, uppsprettur, álagablettir og aðrir staðir og kennileiti sem tengjast siðum, venjum, þjóðtrú eða þjóðsagnahefð,
  7. áletranir, myndir eða önnur verksummerki af manna völdum í hellum eða skútum, á klettum, klöppum eða jarðföstum steinum og minningarmörk í kirkjugörðum,
  8. haugar, dysjar og aðrir greftrunarstaðir úr heiðnum eða kristnum sið,
  9. skipsflök eða hlutar þeirra.

     Fornminjar njóta friðunar nema annað sé ákveðið af Minjastofnun Íslands.

4. gr.

Byggingararfur.
     Til byggingararfs samkvæmt lögum þessum teljast hús og önnur mannvirki og einstakir hlutar þeirra sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, svo sem:
  1. stök hús eða hlutar þeirra og húsasamstæður, hvort sem er til íbúðar eða menningar- og atvinnustarfsemi í þéttbýli eða dreifbýli, húsaþyrpingar og götumyndir,
  2. kirkjur og bænhús, ásamt tilheyrandi mannvirkjum, svo sem klukkuturnum, garðhleðslum og sáluhliðum, klaustur, samkomuhús, skólahús og nánasta umhverfi þeirra, aðrar opinberar byggingar, íþróttamannvirki og sundlaugar,
  3. brýr og hvers konar samgöngumannvirki, virkjanir, stíflur, dælustöðvar og önnur orkumannvirki, hafnarmannvirki, vind- og vatnsmyllur, vitar, slippir, hjallar, manngerðir hellar og réttir.


5. gr.

Friðun og friðlýsing.
     Friðun felur í sér sjálfkrafa verndun fornminja, húsa og mannvirkja á grundvelli aldurs þeirra, samkvæmt nánari fyrirmælum laga þessara. Um friðun og verndun kirkjugripa fer samkvæmt lögum um Þjóðminjasafn Íslands.
     Friðlýsing fornleifa, húsa og mannvirkja getur falið í sér kvöð sem þinglýst er á fasteign og hefur þann tilgang að tryggja sem best varðveislu menningarminja.

6. gr.

Rannsóknir á fornleifum.
     Með fornleifarannsókn er átt við vísindalegt starf sem unnið er til að stuðla að aukinni þekkingu á fornleifum, sem þegar er vitað um eða líklegt er að finnast muni, eða til að ganga úr skugga um hvort um þess háttar fornleifar sé að ræða á tilgreindu rannsóknarsvæði. Fornleifarannsókn felst meðal annars í vettvangsskráningu fornleifa, rannsókn og könnun fornleifa án jarðrasks og hvers kyns jarðraski sem fram fer í þeim tilgangi að afla aukinnar þekkingar á fornleifum.

2. ÞÁTTUR
Skipulag.
II. KAFLI
Stjórnsýsla.

7. gr.

Yfirstjórn og framkvæmd.
     Ráðherra fer með yfirstjórn verndunar og vörslu menningarminja í landinu. Minjastofnun Íslands, sem er sérstök ríkisstofnun undir yfirstjórn ráðherra, annast framkvæmd hennar.
     Fornminjanefnd og húsafriðunarnefnd eru Minjastofnun Íslands til ráðgjafar.
     Minjastofnun Íslands gerir tillögu til ráðherra um heildarstefnu og langtímaáætlun um verndun og varðveislu menningarminja í samráði við höfuðsöfn sem skilgreind eru samkvæmt safnalögum, svo og önnur helstu söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja.

8. gr.

Fornminjanefnd.
     Ráðherra skipar fornminjanefnd til fjögurra ára í senn. Félög fornleifafræðinga tilnefna einn fulltrúa, Félag norrænna forvarða – Íslandsdeild einn fulltrúa, Rannís tilnefnir einn fulltrúa og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa. Ráðherra skipar einn fulltrúa án tilnefningar og skal hann vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann lengur en tvö samfelld starfstímabil.
     Fornminjanefnd hefur eftirfarandi hlutverk:
  1. að vinna að stefnumörkun um verndun fornleifa og fornleifarannsóknir ásamt Minjastofnun Íslands,
  2. að fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu fornleifa og afnám friðlýsingar samkvæmt ákvæðum laga þessara áður en þær eru sendar ráðherra,
  3. að setja fornminjasjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
  4. að veita umsögn um styrkumsóknir úr fornminjasjóði,
  5. að sinna öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin samkvæmt lögum.

     Forstöðumenn Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sitja fundi fornminjanefndar stöðu sinnar vegna.
     Kostnaður af starfsemi fornminjanefndar greiðist úr fornminjasjóði.

9. gr.

Húsafriðunarnefnd.
     Ráðherra skipar húsafriðunarnefnd til fjögurra ára í senn. Arkitektafélag Íslands tilnefnir einn fulltrúa, Íslandsdeild Alþjóðaráðs um minnisvarða og sögustaði (ICOMOS), Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) einn fulltrúa sameiginlega og Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir einn fulltrúa. Ráðherra skipar tvo fulltrúa án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður en varaformaður skal skipaður úr hópi nefndarmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Ekki er heimilt að skipa sama mann aðalmann lengur en tvö samfelld starfstímabil.
     Húsafriðunarnefnd hefur eftirfarandi hlutverk:
  1. að vinna að stefnumörkun um verndun byggingararfs ásamt Minjastofnun Íslands,
  2. að fjalla um tillögur stofnunarinnar um friðlýsingu húsa og mannvirkja, afnám friðlýsingar, breytingar á friðlýstum húsum og mannvirkjum eða förgun þeirra samkvæmt ákvæðum laga þessara áður en þær eru sendar ráðherra,
  3. að setja húsafriðunarsjóði úthlutunarreglur sem ráðherra staðfestir,
  4. að veita umsögn um styrkumsóknir úr húsafriðunarsjóði,
  5. að sinna öðrum verkefnum sem henni kunna að vera falin samkvæmt lögum.

     Forstöðumenn Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands sitja fundi húsafriðunarnefndar stöðu sinnar vegna.
     Kostnaður af starfsemi húsafriðunarnefndar greiðist úr húsafriðunarsjóði.

10. gr.

Minjasvæði og minjaráð.
     Landinu er skipt í minjasvæði eftir ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum Minjastofnunar Íslands.
     Á hverju minjasvæði starfar minjaráð. Minjaráð er samráðsvettvangur hvers minjasvæðis sem ætlað er að fjalla um menningarminjar, varðveislu þeirra og nýtingu í þágu samfélagsins í samráði við Minjastofnun Íslands og höfuðsöfn sem skilgreind eru samkvæmt safnalögum, svo og önnur helstu söfn og stofnanir sem vinna að varðveislu menningarminja.
     Minjavörður stjórnar fundum minjaráðs, en auk hans geta fulltrúar samtaka sveitarfélaga og skipulagsyfirvalda á minjasvæðinu og forstöðumenn viðurkenndra safna átt sæti í ráðinu. Heimilt er að bjóða fulltrúum annarra hagsmunaaðila á minjasvæðinu sæti í minjaráði.
     Í reglugerð má setja nánari fyrirmæli um störf og starfshætti minjaráða.

III. KAFLI
Minjastofnun Íslands.

11. gr.

Hlutverk.
     Minjastofnun Íslands er stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í samræmi við ákvæði þessara laga. Hlutverk stofnunarinnar er að:
  1. hafa eftirlit með fornleifum í landinu og friðuðum húsum og mannvirkjum,
  2. vinna að stefnumörkun um verndun fornleifa og byggingararfs ásamt fagnefndum,
  3. setja reglur um og hafa yfirumsjón með skráningu friðaðra og friðlýstra fornleifa, húsa og mannvirkja,
  4. halda heildarskrár um allar friðaðar og friðlýstar fornleifar, friðlýsta legsteina og minningarmörk og friðuð og friðlýst hús og mannvirki,
  5. gera tillögur til ráðherra um friðlýsingu og afnám hennar,
  6. ákveða skyndifriðun menningarminja ef þörf krefur,
  7. setja reglur og skilyrði um rannsóknir fornleifa sem hafa jarðrask í för með sér og hafa eftirlit með öllum fornleifarannsóknum í landinu,
  8. fjalla um og veita leyfi til stað- og tímabundinna fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér,
  9. framkvæma nauðsynlegar rannsóknir, svo sem neyðarrannsóknir, vettvangskannanir til að staðfesta umfang og eðli minja og aðrar skyndirannsóknir,
  10. hafa eftirlit með og annast leyfisveitingar vegna flutnings menningarminja til annarra landa,
  11. úthluta úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði að fengnum umsögnum fagnefnda og annast umsýslu þeirra,
  12. hafa eftirlit með framvindu verkefna sem fá styrk úr sjóðunum,
  13. ákveða aðra ráðstöfun fjár úr fornminjasjóði og húsafriðunarsjóði í samráði við húsafriðunarnefnd og fornminjanefnd,
  14. annast framkvæmd laga um skil á menningarverðmætum til annarra landa,
  15. setja á fót minjaráð á hverju minjasvæði og bera ábyrgð á starfsemi þeirra,
  16. annast önnur verkefni samkvæmt ákvörðun ráðherra.


12. gr.

Forstöðumaður.
     Ráðherra skipar forstöðumann Minjastofnunar Íslands til fimm ára í senn. Skipaður skal maður með háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfssviði stofnunarinnar. Forstöðumaður stjórnar starfsemi og rekstri hennar. Hann ræður starfsmenn stofnunarinnar og er í fyrirsvari fyrir hana.

13. gr.

Minjaverðir.
     Minjaverðir eru starfsmenn Minjastofnunar Íslands og sinna þeim verkefnum sem undir stofnunina heyra samkvæmt nánari fyrirmælum forstöðumanns. Minjaverðir skulu hafa háskólamenntun og sérþekkingu á einhverju þeirra fagsviða sem undir stofnunina falla.
     Í þjónustusamningi milli Minjastofnunar Íslands og Þjóðminjasafns Íslands má fela minjavörðum eftirlit með minjum sem heyra undir Þjóðminjasafn Íslands.

14. gr.

Gjaldtökuheimild.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að taka gjald fyrir leyfisveitingar og ýmsa ólögbundna þjónustu, þar á meðal fyrir ráðgjöf, veitta sérfræðiþjónustu, afritun gagna og námskeiðahald.
     Stofnunin birtir gjaldskrá um gjaldtöku samkvæmt þessari grein.

3. ÞÁTTUR
Verndun og varðveisla menningarminja.
IV. KAFLI
Skráning fornleifa, húsa og annarra mannvirkja.

15. gr.

Skráning og skil á gögnum.
     Minjastofnun Íslands hefur yfirumsjón með skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja.
     Stofnunin heldur heildarskrár yfir allar þekktar fornleifar og friðuð og friðlýst hús og mannvirki á landinu. Stofnunin birtir skrárnar og skulu þær vera aðgengilegar á miðlægum gagnagrunni.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að fela tilteknum einstaklingum eða stofnunum er búa yfir sérþekkingu og reynslu á sviði skráningar fornleifa, húsa og mannvirkja afmörkuð könnunar- og skráningarstörf fyrir stofnunina.
     Öll gögn sem varða skráningu fornleifa, friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja skulu afhent Minjastofnun Íslands. Skráningarskýrslur skulu afhentar stofnuninni á rafrænu formi. Eintök af skránum skulu afhent hlutaðeigandi skipulagsyfirvöldum á rafrænu formi.
     Fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningu á tilteknu svæði telst ekki lokið fyrr en skráin hefur hlotið staðfestingu Minjastofnunar Íslands. Stofnunin skal veita skipulagsyfirvöldum, byggingarfulltrúum og náttúruverndaryfirvöldum aðgang að skráningargögnum í vörslu stofnunarinnar.
     Minjastofnun Íslands setur reglur um skráningu fornleifa og friðaðra og friðlýstra húsa og mannvirkja og skil á gögnum þar að lútandi að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

16. gr.

Skráning vegna skipulags og undirbúnings framkvæmda.
     Skráning fornleifa, húsa og mannvirkja skal fara fram áður en gengið er frá aðalskipulagi eða deiliskipulagi. Áður en deiliskipulag er afgreitt eða leyfi til framkvæmda eða rannsókna er gefið út skal skráning ætíð fara fram á vettvangi. Minjastofnun Íslands setur reglur um lágmarkskröfur sem gera skal til skráningar fyrir hvert skipulagsstig og er heimilt að gera samkomulag við skipulagsyfirvöld um framvindu skráningarstarfsins enda sé tryggt að því verði lokið innan hæfilegs tíma.
     Sá sem ber ábyrgð á skipulagsgerð í samræmi við skipulagslög skal standa straum af kostnaði við skráninguna. Ríkissjóður skal þó bera kostnað af fornleifaskráningu sem fram fer innan þjóðlendu nema um annað hafi verið samið. Skulu skipulagsyfirvöld hafa samráð við Minjastofnun Íslands um tilhögun skráningar eða endurskoðun á fyrri fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskrám með hliðsjón af fyrirhuguðum breytingum á skipulagi. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda án undanfarandi fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningar. Þegar sérstaklega stendur á getur Minjastofnun Íslands veitt undanþágu fyrir framkvæmdum með tilteknum skilyrðum.
     Skipulagsyfirvöld skulu tilkynna Minjastofnun Íslands um gerð skipulagsáætlana og verulegar breytingar á þeim og um gerð skýrslna um mat á umhverfisáhrifum.
     Skylt er að heimila þá för um landareign sem nauðsynleg getur talist við framkvæmd skráningar sem gerð er fyrir opinbera aðila. Ber að sýna landeiganda tillitssemi og valda ekki raski eða ónæði að þarflausu.

17. gr.

Miðlun upplýsinga.
     Minjastofnun Íslands miðlar upplýsingum úr fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskrám og veitir aðgang að gögnum í vörslu stofnunarinnar. Ef gögnin eru unnin utan stofnunarinnar skal getið uppruna þeirra.
     Heimilt er að veita afnot af öllum upplýsingum á sviði fornleifa-, húsa- og mannvirkjaskráningar sem eru í vörslu Minjastofnunar Íslands að því tilskildu að uppruna sé getið og áreiðanleika upplýsinga sé ekki stefnt í tvísýnu.

V. KAFLI
Friðlýsing menningarminja.

18. gr.

Friðlýsing.
     Friðlýsa má fornleifar, skip og báta, svo og hús og mannvirki eða hluta þeirra, sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Friðlýsing getur náð til nánasta umhverfis hins friðlýsta minjastaðar, húss eða mannvirkis. Friðlýsa má samfelld svæði þar sem fleiri en einn minjastaður teljast hafa sérstakt menningarsögulegt gildi. Einnig má friðlýsa samstæður húsa sem hafa sama gildi og að framan greinir og gilda þá reglur friðlýsingar um hvert einstakt þeirra.
     Minjastofnun Íslands skal hafa samráð við skipulagsyfirvöld þess landsvæðis sem menningarminjar tilheyra þegar fjallað er um friðlýsingu þeirra.
     Ráðherra ákveður friðlýsingu eða afnám friðlýsingar að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.
     Friðlýsing húsa og mannvirkja og friðun kirkna sem ákveðin hefur verið á grundvelli eldri laga heldur gildi sínu.

19. gr.

Framkvæmd friðlýsingar.
     Minjastofnun Íslands skal með sannanlegum hætti tilkynna landeiganda, húseiganda, hlutaðeigandi lögreglustjóra og bæjar- eða sveitarstjórn ákvörðun um friðlýsingu. Stofnunin skal gera drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir landeigendur, húseigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.
     Minjastofnun Íslands skal láta þinglýsa friðlýsingu sem kvöð á eign þeirri sem í hlut á. Greina skal í tilkynningu til hvers friðlýsingin nær. Ráðuneyti auglýsir friðlýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Um undirbúning og ákvörðun um friðlýsingu fer að öðru leyti eftir ákvæðum stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
     Afnám friðlýsingar skal auglýst með sama hætti og friðlýsing.
     Hinn friðlýsti minjastaður og ytri mörk hans skulu tilgreind á rafrænum kortagrunni. Minjastofnun Íslands tryggir að friðlýstar menningarminjar verði færðar á skipulagskort. Þinglýsingarstjóri skal tilkynna Minjastofnun Íslands ef þinglesin eru eigendaskipti að friðlýstu húsi, mannvirki eða landareign sem á eru friðlýstar fornleifar.
     Heimilt er að lækka eða fella niður fasteignagjöld af friðlýstum fasteignum og landareignum sem á eru friðlýstar fornleifar.

20. gr.

Skyndifriðun.
     Minjastofnun Íslands getur ákveðið skyndifriðun menningarminja sem hafa sérstakt menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, en hafa þó ekki verið friðlýstar eða njóta lögbundinnar friðunar, sé hætta á að minjunum verði spillt, þær glatist eða gildi þeirra rýrt á einhvern hátt. Meðan á skyndifriðun stendur gilda reglur um friðlýsingu.
     Skyndifriðun tekur gildi þegar Minjastofnun Íslands hefur tilkynnt öllum hlutaðeigandi aðilum um ákvörðun sína með tryggilegum hætti. Ákvörðun er bindandi eftir að tilkynning um hana er komin til aðila og gildir í allt að sex vikur.
     Ráðherra ákveður hvort friðlýsa skuli viðkomandi menningarminjar áður en skyndifriðun lýkur að fenginni tillögu Minjastofnunar Íslands.

VI. KAFLI
Verndun og varðveisla fornminja.

21. gr.

Verndun fornleifa.
     Fornleifum, sbr. 3. mgr. 3. gr., jafnt þeim sem eru friðlýstar sem þjóðminjar og þeim sem njóta friðunar í krafti aldurs, má enginn, hvorki landeigandi, ábúandi, framkvæmdaraðili né nokkur annar, spilla, granda eða breyta, hylja, laga, aflaga eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
     Eigendur og ábúendur jarða skulu hlúa að fornleifum á landareignum sínum og viðhalda umhverfi þeirra eftir því sem sanngjarnt getur talist. Minjastofnun Íslands er skylt að veita ráðgjöf og leiðbeiningar í því sambandi.
     Minjastofnun Íslands gerir nauðsynlegar ráðstafanir til verndar fornleifum, viðhalds eða endurbóta, en áður skal gera landeiganda eða ábúanda viðvart um þær. Ef nauðsyn krefur lætur Minjastofnun Íslands rannsaka fornleifar með uppgreftri eða á annan hátt.
     Friðlýstum fornleifum skal viðhaldið á kostnað ríkisins. Minjastofnun Íslands ber ábyrgð á friðlýstum fornleifum og semur verk- og fjárhagsáætlun um viðhald þeirra.

22. gr.

Friðhelgun og merkingar.
     Fornleifum sem eru friðlýstar skal fylgja 100 metra friðhelgað svæði út frá ystu sýnilegu mörkum þeirra og umhverfis nema kveðið sé á um annað. Hvers konar röskun, byggingarframkvæmdir eða aðrar framkvæmdir á friðhelguðu svæði umhverfis friðlýstar fornleifar eru óheimilar án leyfis Minjastofnunar Íslands. Friðhelgað svæði umhverfis aðrar fornleifar, sem ekki eru friðlýstar en njóta friðunar, skal vera 15 metrar nema annað sé ákveðið.
     Minjastofnun Íslands skal sjá til þess að friðlýstar fornleifar eða minjastaðir séu auðkennd með sérstökum merkjum. Upplýsingaskilti eða aðrar merkingar við friðlýstar fornleifar skulu vera í samræmi við reglur sem stofnunin setur og skal staðsetning þeirra vera háð samþykki stofnunarinnar. Minjastofnun Íslands er heimilt að fjarlægja skilti eða aðrar merkingar sé gerð þeirra og staðsetning ekki í samræmi við reglur sem stofnunin setur og kynnir.

23. gr.

Fornleifar í hættu.
      Hver sá sem verður var við að fornleifar liggi undir skemmdum skal gera Minjastofnun Íslands viðvart án tafar.
     Ef fyrirsjáanlegt er að minjastaður spillist vegna breyttrar landnotkunar eða framkvæmda skal framkvæmdaraðili eða viðkomandi sveitarfélag gera Minjastofnun Íslands viðvart með sannanlegum hætti með minnst fjögurra vikna fyrirvara áður en áætlaðar framkvæmdir hefjast og lýsa þeim breytingum er af framkvæmd mun leiða.
     Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.
     Stofnunin skal hafa samráð við Umhverfisstofnun þegar fjallað er um blandaðar minjar, þ.e. menningarminjar sem einnig teljast til náttúruminja.

24. gr.

Áður ókunnar fornminjar.
     Finnist fornminjar sem áður voru ókunnar, t.d. undir yfirborði jarðar, sjávar, vatns eða í jökli, skal skýra Minjastofnun Íslands frá fundinum svo fljótt sem unnt er. Sama skylda hvílir á landeiganda og ábúanda er þeir fá vitneskju um fundinn.
     Ef fornminjar sem áður voru ókunnar finnast við framkvæmd verks skal sá sem fyrir því stendur stöðva framkvæmd án tafar. Skal Minjastofnun Íslands láta framkvæma vettvangskönnun umsvifalaust svo skera megi úr um eðli og umfang fundarins. Stofnuninni er skylt að ákveða svo fljótt sem auðið er hvort verki megi fram halda og með hvaða skilmálum. Óheimilt er að halda framkvæmdum áfram nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að stöðva framkvæmdir í allt að fimm virka daga meðan rannsókn fer fram hafi stofnunin rökstuddan grun um að fornminjar muni skaðast vegna framkvæmda. Verði ekki orðið við fyrirmælum stofnunarinnar um stöðvun framkvæmda er henni heimilt að leita atbeina lögreglu ef með þarf til að framfylgja þeim og beita dagsektum í því skyni, sbr. 55. gr.

25. gr.

Afnám friðunar.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun fornleifa sem byggist á aldursákvæðum þessara laga.

26. gr.

Fundur forngripa.
     Þegar forngripir finnast skal Minjastofnun Íslands tilkynnt um fundinn án tafar. Óheimilt er að hagga við fundinum eða fjarlægja lausa hluti úr honum nema brýna nauðsyn beri til. Stofnunin ákveður hvort frekari rannsókna er þörf á vettvangi.
     Allir gripir sem grein þessi fjallar um eru eign ríkisins. Skulu þeir afhentir Þjóðminjasafni Íslands eins fljótt og unnt er.

27. gr.

Greiðslur fyrir forngripafund.
     Finnist forngripur á annan hátt en við fornleifarannsókn á finnandi rétt á greiðslu úr ríkissjóði vegna útgjalda sem hann hefur haft vegna fundarins.
     Nú finnst forngripur úr eðalmálmum eða eðalsteinum, þar á meðal gull- eða silfurpeningar, og skal þá Þjóðminjasafn Íslands meta verðgildi gripsins. Skal annar helmingur fjárhæðarinnar greiddur finnanda en hinn landeiganda.
     Útgjöld samkvæmt grein þessari skulu greidd úr ríkissjóði.

28. gr.

Kostnaður við rannsóknir.
     Kostnaður Minjastofnunar Íslands vegna vettvangskönnunar á fornminjum sem gerð er í þeim tilgangi að staðfesta eðli og umfang þeirra skal greiddur af stofnuninni.
     Framkvæmdaraðili greiðir kostnað við þær rannsóknir á fornleifum sem Minjastofnun Íslands ákveður að séu nauðsynlegar vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Við allar umfangsmiklar framkvæmdir skal sá sem fyrir þeim stendur bera kostnað af nauðsynlegum rannsóknum og vettvangsskráningu fornleifa.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að leiðbeina framkvæmdaraðilum um fagleg atriði, sé þess óskað.

VII. KAFLI
Verndun og varðveisla húsa og mannvirkja.

29. gr.

Friðuð mannvirki.
     Öll hús og mannvirki sem eru 100 ára eða eldri eru friðuð.
     Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að afnema friðun sem byggist á aldursákvæðum þessarar greinar.

30. gr.

Verndun annarra húsa og mannvirkja.
     Eigendum húsa og mannvirkja sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr, svo og forráðamönnum kirkna sem reistar voru 1940 eða fyrr, er skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands með minnst sex vikna fyrirvara ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Minjastofnun Íslands skal innan fjögurra vikna frá því að erindi berst tilkynna viðkomandi aðilum um álit sitt. Stofnuninni er heimilt að leggja til skilyrði um slíkar framkvæmdir eða gera tillögu um friðlýsingu umrædds húss eða mannvirkis.
     Byggingarfulltrúum ber að fylgjast með því að eigendur húsa og mannvirkja, svo og forráðamenn kirkna, sem fjallað er um í þessari grein leiti eftir áliti Minjastofnunar Íslands áður en leyfi er veitt til framkvæmda.
     Álit Minjastofnunar Íslands skal liggja fyrir áður en byggingarleyfi er veitt til framkvæmda sem fjallað er um í þessari grein. Í byggingarleyfi skal taka tillit til skilyrða sem Minjastofnun leggur til í áliti sínu. Sama á við um útgáfu framkvæmdaleyfis samkvæmt skipulagslögum.

31. gr.

Friðlýst hús og mannvirki.
     Óheimilt er að gera nokkrar breytingar á friðlýstu húsi eða mannvirki án vitundar Minjastofnunar Íslands. Við endurbætur og viðhald friðlýstra húsa og mannvirkja skal leita álits og ef til þarf leyfis Minjastofnunar Íslands með minnst sex vikna fyrirvara.
     Vilji eigandi friðlýstrar eignar ráðast í framkvæmd sem leyfi þarf til skal hann í umsókn sinni til Minjastofnunar Íslands lýsa fyrirhuguðum framkvæmdum og láta uppdrátt fylgja. Stofnunin skal svo fljótt sem við verður komið og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst gera eiganda grein fyrir afstöðu sinni. Setji stofnunin það skilyrði fyrir samþykki sínu að verk sé framkvæmt á tiltekinn annan hátt en tilgreindur er í umsókn er eiganda skylt að hlíta því. Sæki eigandi um styrk úr húsafriðunarsjóði vegna aukakostnaðar sem hlýst af tilmælum stofnunarinnar skal hann njóta forgangs eftir því sem skyldur sjóðsins og fjárreiður leyfa.
     Kostnaður sem hlýst af skilyrðum sem Minjastofnun Íslands setur, sbr. 2. mgr., greiðist úr húsafriðunarsjóði.
     Leyfi stofnunarinnar þarf til að setja skilti eða aðrar áletranir á friðlýst hús eða mannvirki.
     Brot á ákvæðum greinarinnar sæta viðurlögum skv. 177. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.

32. gr.

Spjöll á friðlýstu húsi eða mannvirki.
     Verði friðlýst hús eða mannvirki fyrir spjöllum af eldi eða öðrum ástæðum skal eigandi eða sá er afnot hefur af mannvirkinu gera Minjastofnun Íslands viðvart um það þegar í stað. Lætur stofnunin þá fara fram skoðunargerð og mat á spjöllum. Ef ráðist verður í endurbyggingu eða endurgerð gilda ákvæði 31. gr.

33. gr.

Úrræði.
     Ef breytingar hafa verið gerðar á friðlýstu húsi eða mannvirki án leyfis Minjastofnunar Íslands getur stofnunin mælt svo fyrir að eigandi skuli færa það í fyrra horf innan hæfilegs frests.
     Ef viðhald friðlýsts húss eða mannvirkis er vanrækt getur Minjastofnun Íslands lagt fyrir eiganda að gera umbætur innan hæfilegs frests. Líði sá frestur án þess að úr sé bætt getur stofnunin látið framkvæma nauðsynlegt viðhald og umbætur á kostnað eiganda eða lagt á dagsektir, sbr. 55. gr.

34. gr.

Niðurrif eða flutningur á friðlýstu húsi eða mannvirki.
     Vilji eigandi friðlýsts húss eða mannvirkis rífa það eða flytja skal hann sækja um niðurfellingu friðlýsingar til Minjastofnunar Íslands áður en sótt er um byggingarleyfi hjá viðkomandi sveitarfélagi. Stofnunin skal svo fljótt sem við verður komið og í síðasta lagi innan fjögurra vikna frá því að umsókn berst senda ráðherra umsóknina með tillögum sínum um hvort umsókninni skuli hafnað, hún samþykkt eða að öðrum kosti hvort skilgreina skuli að nýju til hvaða þátta friðlýsing nær.

35. gr.

Eftirlit.
     Ef byggingarfulltrúi sveitarfélags verður var við að friðað eða friðlýst hús eða mannvirki hafi orðið fyrir spjöllum eða að því sé ekki vel við haldið skal hann gera Minjastofnun Íslands viðvart án tafar.
     Minjastofnun Íslands hefur rétt til að framkvæma eiganda að kostnaðarlausu hvers konar eftirlit með friðlýstu húsi og mannvirki og skoðanir sem gera þarf vegna ákvæða þessa kafla.

VIII. KAFLI
Rannsóknir.

36. gr.

Fornleifarannsókn.
     Tilkynna skal Minjastofnun Íslands um allar fornleifarannsóknir í landinu.
     Sækja skal um leyfi til Minjastofnunar Íslands til allra fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér. Stjórnandi slíkra rannsókna skal hafa tilskilda menntun í fornleifafræði og uppfylla skilyrði sem Minjastofnun Íslands setur fyrir veitingu leyfa til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér.
     Óheimilt er að flytja úr landi lífræn eða ólífræn sýni úr fornleifarannsóknum nema með skriflegu leyfi Minjastofnunar Íslands.
     Um tímabundinn flutning gripa úr yfirstandandi rannsóknum úr landi skal fara að ákvæðum XI. kafla.
     Minjastofnun Íslands setur reglur um fornleifarannsóknir sem hafa jarðrask í för með sér þar sem meðal annars er kveðið á um skilyrði fyrir veitingu leyfa til slíkra rannsókna, um lok þeirra, menntun þeirra sem starfa við þær og skil á gögnum, sýnum og gripum með þeim hætti sem stofnunin ákveður. Í slíkum reglum skal enn fremur kveðið á um frágang minjastaðar og birtingu skýrslna um rannsóknirnar.

37. gr.

Rannsóknarleyfi.
     Umsókn um rannsóknarleyfi, sbr. 2. mgr. 36. gr., skal hafa borist Minjastofnun Íslands minnst fjórum vikum áður en fyrirhuguð rannsókn hefst. Stofnunin skal taka afstöðu til umsóknar um rannsóknarleyfi svo fljótt sem við verður komið en eigi síðar en tveimur vikum eftir að umsókn hefur borist. Stofnunin getur krafist viðbótarupplýsinga áður en umsókn er afgreidd.
     Leyfi til fornleifarannsóknar er alla jafna veitt til eins árs. Minjastofnun Íslands er heimilt að veita rannsóknarleyfi til allt að þriggja ára ef rannsókn er umfangsmikil. Í slíkum tilfellum skal stjórnandi rannsóknar skila árlega áfangaskýrslu þar sem fram koma allar niðurstöður en einnig hugsanlegar breytingar á upphaflegri rannsóknaráætlun.
     Þeim sem fær leyfi til fornleifarannsóknar ber að hlíta þeim reglum og skilyrðum sem stofnunin setur, þ.m.t. um skil á gripum og sýnum skv. 1. mgr. 40. gr. Um leyfi til rannsókna á friðlýstum fornleifum og skilyrði leyfis fer samkvæmt ákvæðum 39. gr.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að veita takmarkað eða skilyrt leyfi til fornleifarannsókna sem hafa jarðrask í för með sér eða hafna umsókn og skal stofnunin þá rökstyðja ákvörðun sína.

38. gr.

Skyndirannsóknir.
     Komi áður óþekktar minjar í ljós við framkvæmdir eða með öðrum hætti skal Minjastofnun Íslands meta eðli þeirra og umfang og hvort frekari rannsókna sé þörf. Kostnaður af slíku mati greiðist af stofnuninni. Stofnunin getur falið öðrum framkvæmd skyndirannsókna af þessu tagi.

39. gr.

Rannsókn friðlýstra fornleifa.
     Rannsóknir á friðlýstum fornleifum, þjóðminjum, sem hafa röskun minjastaðar í för með sér skulu aðeins vera heimilar í undantekningartilvikum. Skulu rannsóknaraðilar hlíta sérstökum skilmálum sem Minjastofnun Íslands setur.

40. gr.

Lok fornleifarannsóknar.
     Öllum gripum sem finnast og sýnum sem tekin eru skal skilað til Þjóðminjasafns Íslands innan þeirra tímamarka sem Minjastofnun Íslands kveður á um í rannsóknarleyfi ásamt skrá yfir gripi og sýni í því formi sem safnið ákveður.
     Fornleifarannsókn telst lokið þegar gengið hefur verið frá minjastað í samræmi við reglur Minjastofnunar Íslands, gögnum skilað og birt skýrsla um niðurstöður rannsóknarinnar.
     Öll gögn og rannsóknarskýrslur skal afhenda Þjóðminjasafni Íslands til varðveislu innan árs frá áætluðum lokum verkefnis, sbr. 3. gr. laga um Þjóðminjasafn Íslands, í því formi sem Minjastofnun Íslands ákveður í samráði við Þjóðminjasafn Íslands. Afriti af rannsóknarskýrslum skal skilað til Minjastofnunar Íslands í því formi sem stofnunin ákveður.
     Standi rannsóknaraðili ekki skil á gripum, sýnum og rannsóknargögnum í samræmi við ákvæði 1. og 3. mgr. getur það haft áhrif á afgreiðslu frekari umsókna viðkomandi um ný rannsóknarleyfi.

IX. KAFLI
Minningarmörk.

41. gr.

Friðlýsing minningarmarka.
     Minjastofnun Íslands hefur umsjón og eftirlit með legsteinum og öðrum minningarmörkum í kirkjugörðum landsins ásamt minningarmörkum utan þeirra.
     Stofnunin gerir að höfðu samráði við kirkjugarðaráð, sem starfar samkvæmt lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, tillögu til ráðherra um friðlýsingu legsteina eða annarra minningarmarka í kirkjugörðum sem stofnunin telur rétt að vernda vegna sögulegs eða listræns gildis þeirra. Á þetta við um minningarmörk í aflögðum kirkjugörðum og einnig í görðum sem eru enn í notkun.
     Minjastofnun Íslands heldur skrár yfir friðaða og friðlýsta legsteina og önnur minningarmörk og skulu slíkar minjar í hverjum kirkjugarði skráðar sérstaklega. Skulu upplýsingar úr skránum látnar í té sóknarprestum, próföstum eða kirkjugarðastjórnum sem hlut eiga að máli, svo og Þjóðminjasafni Íslands.
     Ákvörðun um friðlýsingu legsteina og annarra minningarmarka skal þinglýst sem kvöð á viðkomandi landareign og skal þinglýsingin birt í B-deild Stjórnartíðinda.

X. KAFLI
Menningarminjasjóðir.

42. gr.

Fornminjasjóður.
     Fornminjasjóður hefur það hlutverk að stuðla að varðveislu og rannsóknum á fornminjum. Sjóðurinn veitir styrki til rannsókna á fornminjum, þar á meðal til fornleifaskráningar, miðlunar upplýsinga um þær og til varðveislu og viðhalds á fornminjum. Sjóðnum er einnig heimilt að veita styrki til viðhalds annarra menningarminja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi, t.d. minja sem njóta ekki friðunar á grundvelli aldurs en teljast hafa varðveislugildi, svo sem skipa, báta og annarra samgöngutækja.
     Styrkir úr fornminjasjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur, sbr. 2. mgr. 8. gr.
     Tekjur fornminjasjóðs eru:
  1. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
  2. önnur framlög.

     Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða lokaskýrslu ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.

43. gr.

Húsafriðunarsjóður.
     Húsafriðunarsjóður hefur það hlutverk að stuðla að varðveislu og viðhaldi friðlýstra og friðaðra húsa og mannvirkja. Sjóðurinn veitir styrki til viðhalds og endurbóta á friðlýstum og friðuðum húsum og mannvirkjum. Sjóðnum er einnig heimilt að veita styrki til viðhalds annarra mannvirkja sem hafa menningarsögulegt, vísindalegt eða listrænt gildi. Sjóðnum ber að stuðla að byggingarsögulegum rannsóknum, þar með talið skráningu húsa og mannvirkja, og miðlun upplýsinga um þær.
     Styrkir úr húsafriðunarsjóði eru ákveðnir í samræmi við úthlutunarreglur, sbr. 2. mgr. 9. gr.
     Tekjur húsafriðunarsjóðs eru:
  1. framlag ríkissjóðs eftir því sem ákveðið er í fjárlögum,
  2. framlag sveitarfélaga sem greiðist úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og skal miðað við að það nemi 150 kr. á hvern íbúa hlutaðeigandi sveitarfélags,
  3. önnur framlög.

     Styrkir til einstaklinga úr húsafriðunarsjóði mynda ekki stofn til tekjuskatts.
     Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða lokaskýrslu hefur ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis.

XI. KAFLI
Flutningur menningarminja úr landi.

44. gr.

Þjóðarverðmæti sem hafa sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu.
     Ekki má flytja úr landi menningarminjar sem teljast til þjóðarverðmæta, sbr. 2. mgr. 2. gr., nema með samþykki ráðherra.

45. gr.

Menningarminjar.
     Ekki er heimilt að flytja úr landi innlendar eða erlendar menningarminjar sem ekki teljast til þjóðarverðmæta skv. 44. gr. og hér eru taldar nema formlegt leyfi komi til, sbr. 47. gr.:
  1. Forngripi skv. 3. gr., hvort sem þeir eru í eigu opinberra stofnana, fyrirtækja, félagasamtaka eða einstaklinga, án tillits til verðgildis.
  2. Hluta úr listrænum, sögulegum eða trúarlegum minjum er losaðir hafa verið frá þeim og eldri eru en frá 1900, án tillits til verðgildis.

    1. Málverk og handgerðar myndir, aðrar en þær sem getið er í b- og c-lið þessa töluliðar og 4. tölul., úr hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
    2. Vatnslitamyndir, gvassmyndir, pastelmyndir og teikningar, gerðar í höndum að öllu leyti á hvaða efni sem er, ef þær eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
    3. Frumeintök af stungum, þrykki, silkiprenti og steinprenti, ásamt tilheyrandi plötum og frumgerð veggspjalda, séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  3. Mósaíkverk sem ekki falla undir 1. eða 2. tölul. og teikningar úr hvaða efni sem er séu myndverkin að öllu leyti handunnin, eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  4. Frumeintök höggmynda eða myndastyttna og eftirmyndir þeirra sem eru gerðar með sömu aðferð og frumeintökin séu verkin eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra, enda falli þau ekki undir 1. tölul.
  5. Ljósmyndir og kvikmyndir og filmur eða glerplötur af þeim, enda séu þær eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  6. Bækur, prentaðar á Íslandi fyrir 1800, svo og íslensk handrit, eldri en frá árinu 1800, stök eða sem safn, án tillits til verðgildis.
  7. Önnur handrit, þar með talin landabréf og raddskrár, stakar eða sem safn, sem eru eldri en 50 ára og ekki í eigu höfunda þeirra.
  8. Aðrar bækur, eldri en 100 ára, stakar eða sem safn.
  9. Prentuð landabréf, eldri en 200 ára.
  10. Skjalasöfn hvers konar og hluta þeirra, úr hvaða efni sem er, svo sem dagbækur, handrit, skýrslur, fundargerðabækur og skissubækur, eldri en 50 ára.
  11. Dýrafræðileg, grasafræðileg, jarðfræðileg eða líffræðileg söfn og safneintök og sömuleiðis söfn sem hafa gildi fyrir sagnfræði, steingervingafræði, mannfræði eða myntfræði.
  12. Samgöngutæki og sérstök/söguleg atvinnutæki, eldri en 75 ára.
  13. Aðrar íslenskar menningarminjar, sem ekki falla undir 1.–13. tölul., án tillits til verðgildis, þar á meðal húsgögn og innréttingar eða hluta úr þeim, frá 1900 eða eldri; hljóðfæri smíðuð á Íslandi, frá 1900 eða eldri; ílát, tæki og áhöld hvers konar úr tré, horni eða beini, með eða án útskurðar, frá 1900 eða eldri; búninga og fylgihluti þeirra, frá 1900 eða eldri; annan vefnað eða útsaum, frá 1900 eða eldri, og gripi úr silfri eða gulli, frá 1900 eða eldri.
  14. Aðrar erlendar menningarminjar, svo sem húsgögn, búshluti og skrautmuni, hljóðfæri, úr og klukkur, mælitæki, vopn og muni úr gulli, silfri eða fílabeini.

     Ráðherra kveður í reglugerð á um lágmarksverðgildi þeirra menningarminja sem getið er í 3.–6., 8.–13. og 15. tölul. 1. mgr. Við mat á verðgildi skal miðað við áætlað markaðsverð hlutaðeigandi menningarminja hér á landi á þeim degi er umsókn um útflutningsleyfi berst Minjastofnun Íslands.

46. gr.

Umsókn um leyfi til flutnings.
     Umsóknir um leyfi til flutnings menningarminja úr landi skulu sendar Minjastofnun Íslands.
     Við mat á listrænu, sögulegu eða vísindalegu gildi menningarminja er hér um ræðir og verðmæti þeirra, svo og um meiri háttar álitaefni, skal Minjastofnun Íslands meðal annars hafa samráð við forstöðumenn þeirra safna og stofnana hér á landi er einkum varðveita þess konar muni sem mál snýst um hverju sinni.
     Minjastofnun Íslands er heimilt að koma í veg fyrir flutning menningarminja úr landi, án tillits til aldurs þeirra og verðgildis, ef minjarnar teljast til þjóðarverðmæta, sbr. 2. gr., eða hafa að öðru leyti sérstakt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu. Stofnunin getur stöðvað flutning þeirra úr landi um stundarsakir meðan leitað er umsagna sérfróðra manna, sbr. 2. mgr.

47. gr.

Leyfisveiting.
     Minjastofnun Íslands skal veita leyfi til flutnings menningarminja úr landi skv. 45. gr. hafi þær ekki ótvírætt gildi fyrir íslenska þjóðmenningu.
     Skylt er að veita leyfi til flutnings menningarminja úr landi í eftirfarandi tilfellum, jafnvel þótt þær hafi umtalsverða þýðingu fyrir menningararf þjóðarinnar:
  1. flytji eigandi þeirra búferlum til annars lands,
  2. hafi viðkomandi munir með arfi, arfleiðslu eða búskiptum komist í eigu einstaklings sem er búsettur erlendis,
  3. séu munir úr safni í eigu ríkisins eða annarrar opinberrar stofnunar fluttir tímabundið til útlanda,
  4. séu munir úr öðru safni fluttir tímabundið úr landi með samþykki forstöðumanns viðkomandi höfuðsafns,
  5. séu munir fluttir úr landi af einstaklingi í þeim tilgangi að nota við opinbera menningarviðburði og verði alla jafna fluttir aftur til Íslands innan eins árs frá flutningi úr landi,
  6. hafi munir af íslenskum uppruna verið fluttir tímabundið til Íslands með lögmætum hætti,
  7. hafi menningarminjar verið fluttar til Íslands með ólögmætum hætti frá öðru ríki og krafa um skil borist íslenskum stjórnvöldum, sbr. lög um skil menningarverðmæta til annarra landa.

     Ákvæði 2. mgr. á ekki við um þjóðarverðmæti, sbr. 2. og 44. gr.
     Menningarminjar sem eru upprunnar í öðru landi er heimilt að flytja frá Íslandi án sérstaks leyfis hafi þær verið fluttar til Íslands með lögmætum hætti fyrir 50 árum eða síðar.

48. gr.

Framkvæmd.
     Minjastofnun Íslands annast framkvæmd ákvæða þessara laga um flutning menningarminja úr landi fyrir hönd íslenska ríkisins. Stofnunin veitir formleg leyfi til flutnings menningarminja úr landi skv. 45. og 47. gr. og þjóðarverðmæta skv. 44. gr. Um framkvæmd leyfisveitinga, meðal annars um form leyfisskjala, skal farið að nánari reglum sem Minjastofnun Íslands setur og ráðherra staðfestir.
     Við flutning menningarminja úr landi skal sá er flytja vill menningarverðmæti úr landi framvísa formlegu leyfisbréfi til tollyfirvalda sem staðfestir leyfi til flutningsins með áritun og stimpli.
     Tollyfirvöld skulu án tafar tilkynna Minjastofnun Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja úr landi án tilskilinna leyfa.

49. gr.

Ágreiningur.
     Ágreiningi um leyfisveitingu eða synjun um flutning á menningarminjum úr landi má skjóta til ráðherra. Verður þá ekki af flutningi fyrr en ráðherra hefur heimilað hann og lagt fyrir Minjastofnun Íslands að gefa út leyfisbréf þar að lútandi.

50. gr.

Kröfur til erlendra ríkja um skil menningarminja.
     Minjastofnun Íslands ber fram kröfur til hlutaðeigandi stjórnvalda erlendis um skil menningarminja hafi þær verið fluttar frá Íslandi með ólögmætum hætti, sbr. 44. og 45. gr. og tilskipun ráðsins 93/7/EBE, með síðari breytingum, ásamt lögum nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið, og veitir þeim viðtöku fyrir hönd réttra eigenda eða vörslumanna hérlendis.
     Minjastofnun Íslands skal krefjast skila á menningarminjum sem fluttar hafa verið ólöglega frá Íslandi til annars aðildarríkis Evrópska efnahagssvæðisins frá 1. janúar 1995.

4. ÞÁTTUR
Önnur ákvæði.
XII. KAFLI
Almenn ákvæði.

51. gr.

Málsmeðferð.
     Ákvarðanir Minjastofnunar Íslands skv. 20., 23., 24., 28., 42. og 43. gr. eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.

52. gr.

Skrár.
     Minjastofnun Íslands skal birta þær skrár sem stofnuninni ber að færa samkvæmt lögum þessum.

53. gr.

Skaðabætur.
     Kröfum um skaðabætur vegna framkvæmdar á ákvæðum V.–VIII. kafla í lögum þessum skal beint til Minjastofnunar Íslands. Ef samkomulag næst ekki um bætur skulu þær ákveðnar eftir reglum laga um framkvæmd eignarnáms.

54. gr.

Niðurfelling gjalda.
     Ekki ber að greiða stimpilgjöld eða þinglýsingargjöld af skjölum sem eru gefin út vegna framkvæmdar á lögum þessum.

55. gr.

Dagsektir.
     Minjastofnun Íslands getur lagt allt að 300.000 kr. dagsekt, fyrir hvern byrjaðan dag, á framkvæmdaraðila sem vanrækir að:
  1. skila öllum gögnum sem varða skráningu fornleifa, húsa og mannvirkja til stofnunarinnar skv. 4. mgr. 15. gr.,
  2. verða við áskorun stofnunarinnar um að stöðva framkvæmdir í allt að fimm virka daga vegna fundar áður ókunnra fornminja skv. 2. og 3. mgr. 24. gr.,
  3. viðhalda friðlýstu húsi eða mannvirki eins og stofnunin hefur lagt fyrir eiganda að gera innan hæfilegs frests skv. 33. gr.,
  4. skila gripum sem finnast við fornleifarannsóknir skv. 1. mgr. 40. gr.,
  5. skila öllum gögnum og birta skýrslu um niðurstöður fornleifarannsókna skv. 2. mgr. 40. gr.

     Ákvarðanir Minjastofnunar Íslands um dagsektir eru aðfararhæfar. Innheimtar dagsektir renna til ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við innheimtuna.
     Óinnheimtar dagsektir falla ekki niður þó að aðili sinni síðar þeim skyldum sem á honum hvíldu nema Minjastofnun Íslands ákveði það sérstaklega.

56. gr.

Viðurlög.
     Brot gegn ákvæðum 2. mgr. 16. gr., 1. og 2. mgr. 21. gr., 22. gr., 3. mgr. 23. gr., 1. mgr. 24. gr., 1. mgr. 26. gr., 2. mgr. 29. gr., 1. mgr. 30. gr., 1. og 2. mgr. 31. gr., 34. gr., 36. gr., 4. mgr. 41. gr., 44. gr. og 45. gr. varða sektum til ríkissjóðs nema þyngri refsing liggi við broti skv. 177. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
     Um meðferð mála samkvæmt þessari grein fer eftir lögum um meðferð sakamála.

57. gr.

Reglugerðarheimild.
     Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara í heild eða einstakra kafla þeirra.
     Við setningu reglugerða um fornleifaskráningu og húsafriðun ber að hafa samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga.

XIII. KAFLI
Gildistaka og lagaskil.

58. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2013. Frá þeim degi falla úr gildi lög um húsafriðun, nr. 104/2001, lög um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, nr. 105/2001, og þ jóðminjalög, nr. 107/2001.

59. gr.

Breytingar á öðrum lögum.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
  1. Á eftir 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, nr. 123/2010, kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
  2.      Áður en sveitarstjórn gefur út framkvæmdaleyfi skv. 15. gr. skal gætt, eftir því sem við á, ákvæða IV. og VI. kafla laga um menningarminjar.
  3. Við 13. gr. laga um mannvirki, nr. 160/2010, bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Óheimilt er að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirki sem fellur undir IV., VI. og VII. kafla laga um menningarminjar fyrr en álit Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.
  5. F-liður 10. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, orðast svo: Til greiðslu framlaga sveitarfélaga í húsafriðunarsjóð skv. 43. gr. laga um menningarminjar.


Ákvæði til bráðabirgða.
     Við gildistöku laga þessara tekur Minjastofnun Íslands yfir réttindi, eignir og skuldbindingar Húsafriðunarnefndar og Fornleifaverndar ríkisins. Í því felst meðal annars að starfsmenn framangreindra stofnana verða starfsmenn Minjastofnunar Íslands. Ákvarðanir sem þessir aðilar hafa tekið halda gildi sínu.
     Embætti forstöðumanna Fornleifaverndar ríkisins og Húsafriðunarnefndar eru lögð niður við gildistöku laga þessara.
     Fram til 1. janúar 2013 er ráðherra heimilt að undirbúa gildistöku laga þessara meðal annars með því að auglýsa stöðu forstöðumanns Minjastofnunar Íslands og stofna til nauðsynlegra samninga í því sambandi. Forstöðumanni er heimilt að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að undirbúa starfsemi stofnunarinnar, þar á meðal að ráða starfsmenn.
     Umboð fornleifanefndar, stjórnar fornleifasjóðs og húsafriðunarnefndar fellur niður við gildistöku laga þessara.

Samþykkt á Alþingi 18. júní 2012.